Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2010 Fjarðarvegur

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2010, kæra á ákvörðun umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. apríl 2010, er barst nefndinni 28. s.m., kæra A og J, Fjarðarvegi 15, Þórshöfn, þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010 að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.  Sveitarstjórn staðfesti þá ákvörðun hinn 22. mars 2010.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Húsið að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn stendur sjávarmegin við Fjarðarveg og samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Þórshafnarhrepps 2003-2023 stendur það á skilgreindu hafnarsvæði.  Var elsti hluti hússins reistur á fyrstu árum tuttugustu aldar og mun vera um að ræða elsta húsið á Þórshöfn.  Fasteign kærenda stendur handan götunnar andspænis umræddu húsi. 

Á fundi umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar 21. janúar 2010 var samþykkt umsókn um leyfi til að klæða húsið að Fjarðarvegi 14 með bárujárni og fjarlægja skúr áfastan því.  Var málið tekið fyrir í sveitarstjórn 28. janúar sama ár en afgreiðslu þess frestað.  Var sveitarstjóra falið að fá umsögn byggingarfulltrúa um ástand hússins og leita upplýsinga um fyrirhugaðar framkvæmdir og notkun þess með tilliti til þess að gert væri ráð fyrir því í gildandi aðalskipulag að húsið yrði rifið.  Urðu lyktir málsins þær að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir klæðningu hússins á fundi hinn 22. mars 2010.  Lá þá fyrir úttektarskýrsla skipulags- og byggingarfulltrúa um ástand hússins þar sem talið var vel mögulegt að lagfæra það. 

Málsrök kærenda:  Krafa kærenda í máli þessu er á því reist að húsið að Fjarðarvegi 14 eigi að rífa samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Húsið skyggi mjög á útsýni yfir hafnarsvæðið, sé mjög ljótt og því sé illa við haldið. 

Á árunum 1993-1994 hafi verið spurst fyrir um framtíð hússins þar sem kærendur hafi haft hug á að byggja við hús sitt að Fjarðarvegi 15.  Hafi þáverandi sveitarstjóri tjáð þeim að ákveðið hefði verið að rífa húsið að Fjarðargötu 14 þá um sumarið.  Í ljósi þeirra upplýsinga hafi verið ráðist í fyrrnefnda viðbyggingu.  Þrátt fyrir endurteknar ítrekanir við sveitarstjórn um niðurrif hússins, og orð fulltrúa eiganda Fjarðarvegar 14 í þá átt, hafi niðurrif þess ekki gengið eftir.  Telji kærendur að úttekt byggingarfulltrúa á ástandi hússins sé ófullnægjandi til að standa undir þeim ályktunum sem þar séu settar fram. 

Málsrök Langanesbyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar er vísað til þess að í Aðalskipulagi Þórshafnar 2003-2023 sé gert ráð fyrir að gömlu húsin þrjú á sjávarbakkanum við Fjarðarveg víki ef þörf krefji vegna uppfyllinga og nýrra bygginga á svæðinu.  Ákvæði um þetta efni í greinargerð skipulagsins sé opið og engin tímamörk sett um niðurrif.  Kæmi til uppfyllingar framan við nefnd hús sé gert ráð fyrir byggingu nýrra húsa á uppfyllingunni sem væntanlega yrðu mun stærri en hús þau sem fyrir séu.  Útsýni frá fasteign kærenda yrði því síst skárra ef greind áform kæmu að fullu til framkvæmda. 

Það sé vandséð að sveitarstjórn geti réttlætt það að synja húseiganda um leyfi til að lagfæra húsið að Fjarðarvegi 14, enda hafi sveitarfélagið ekki boðist til að kaupa húsið til niðurrifs og þörfin fyrir hugsanlega nýtingu svæðisins samkvæmt aðalskipulaginu liggi ekki fyrir.  Það sé hins vegar í þágu almannahagsmuna að umrætt hús verði í ásættanlegu horfi á meðan það standi. 

Í drögum að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 sé gerð sú tillaga að fallið verði frá uppfyllingu framan við húsin þrjú sem standi sjávarmegin við Fjarðarveg, húsin hverfisvernduð og fjaran varðveitt innan hafnarinnar.  Í þeim anda hafi þegar verið samþykkt byggingarleyfi fyrir lagfæringum og lítilli viðbyggingu við Fjarðarveg 12.  Ætla megi að útsýni frá fasteign kærenda að Fjarðarvegi 15 verði betur tryggt með hinu nýja aðalskipulagi en því sem nú sé í gildi. 

Í tilefni af staðhæfingu kærenda um loforð sveitarstjóra á sínum tíma um niðurrif hússins að Fjarðarvegi 14 vísi sveitarstjórn til þess að í aðalskipulagi séu ekki sett tímamörk varðandi niðurrif þess. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Eigandi fasteignarinnar að Fjarðarvegi 14 vísar því á bug að gefið hafi verið loforð um niðurrif umrædds húss og ekki hafi komið til formleg beiðni frá sveitarfélaginu í þá veru. 

Hafi ætlan sveitarstjórnar verið að húsin að Fjarðarvegi 10, 12 og 14 ættu að víkja, megi ætla að þau áform hafi breyst í ljósi samþykktar byggingarleyfis fyrir endurbótum að Fjarðarvegi 12 hinn 29. júlí 2009.  Hafi annar kærenda, sem sitji í sveitarstjórn, samþykkt það athugasemdalaust.  Þá liggi fyrir að við endurskoðun aðalskipulags, sem unnið sé að, eigi fyrrgreind hús að standa. 

Húsið að Fjarðarvegi 14 hafi verið reist árið 1902 og sem elsta húsið á Þórshöfn hafi það mikið varðveislugildi.  Húsið hafi verið tekið út af byggingarfulltrúa að beiðni sveitarstjórnar og niðurstaðan orðið sú að ekkert mælti gegn því að það stæði áfram.  Það séu orð að sönnu að húsið sé nú ljótt og þarfnist viðhalds, en það sé einmitt ætlun eiganda að bæta úr því svo það verði bænum til prýði.  Haft hafi verið samband við Húsafriðunarnefnd ríkisins og verði allar endurbætur á húsinu gerðar í samráði við nefndina. 

Niðurstaða:  Mál þetta snýst fyrst og fremst um það hvort farið hafi verið gegn gildandi skipulagi með því að veita byggingarleyfi til að klæða húsið að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn að utan með bárujárni. 

Í gildandi Aðalskipulagi Þórshafnarhrepps 2003-2023 eru ráðagerðir um að íbúðarhús og mannvirki á hafnarsvæði staðarins gæti þurft að víkja vegna uppbyggingar hafnsækinnar starfsemi í framtíðinni.  Í Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027, sem sveitarstjórn hefur samþykkt og nú er í staðfestingarferli, er hins vegar gert ráð fyrir hverfisverndun húsa þeirra sem standa sjávarmegin Fjarðarvegar, þar á meðal Fjarðarvegar 14.  Umdeilt byggingarleyfi veitir einungis heimild til viðhaldsframkvæmda sem felast í því að klæða húsið að utan.

Að framangreindu verður ekki ráðið að hin kærða ákvörðun fari gegn gildandi aðalskipulagi og ekki liggur fyrir í málinu að bindandi ákvörðun hafi verið tekin af sveitarstjórn um niðurrif umrædds húss innan tiltekins tíma.  Af þessum sökum, og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar sem raskað gætu gildi hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki fallist á ógildingu hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010, er sveitarstjórn staðfesti hinn 22. mars sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson