Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2010 Háholt

Ár 2011, föstudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2010, kæra á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2010, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Ragnheiður Þorkelsdóttir hdl., f.h. K, Háholti 24, Mosfellsbæ, synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 26. júní 1954 tók kærandi á leigu landsspildu í eigu Mosfellshrepps undir verslunarhús og söluskála.  Hann tók síðan á leigu viðbótarlóð, austan fyrrgreindrar landspildu, hinn 9. maí 1963, sem svarar nú til lóðanna nr. 16, 18, 20, 22 og 24 við Háholt í Mosfellsbæ.  Leigusamningar nefndra lóða voru endurnýjaðir hinn 19. febrúar 1998. 

Með kaupsamningi, dags. 7. apríl 1998, seldi kærandi einbýlishús að Háholti 20, ásamt lóðarréttindum.  Samkomulagi milli kaupenda og seljanda var þinglýst og fól það í sér að seljandi héldi eftir átta metra breiðri spildu á suðurmörkum lóðarinnar.  Í samkomulaginu kom einnig fram að seljandi stefndi að því að fá samþykki bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ til að sameina framangreindan syðsta hluta lóðarinnar að Háholti 20 lóðinni nr. 22 við Háholt.  Kaupendur seldu síðan eignina í nóvember 1999 til núverandi þinglýstra eigenda. 

Með bréfi, dags. 27. september 2007, var kæranda tilkynnt að til stæði að breyta deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og þyrfti bærinn af þeim sökum að nýta heimild sína í lóðarleigusamningum til að leysa til sín tilteknar lóðir kæranda við Háholt.  Var þessari fyrirætlan mótmælt af hálfu kæranda.  Í ágústmánuði 2008 fór kærandi fram á að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt á þann veg að fyrrgreind átta metra spilda úr lóðinni að Háholti 20 yrði lögð undir lóðina að Háholti 22.  Hinn 4. september s.á. samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar innlausn lóðanna nr. 16, 18 og 22 við Háholt með stoð í 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar en ákvað að bíða með ákvörðun um lóðamörk Háholts 20 og 22 þar til málalyktir lægju fyrir um innlausnina.  Sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar. 

Í kjölfar þessa var kæranda tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar og var Sýslumanninum í Reykjavík sent erindi þess efnis að umræddir lóðarleigusamningar yrðu afmáðir úr þinglýsingarbókum á grundvelli 39. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.  Með úrlausn þinglýsingarstjóra, dags. 4. febrúar 2009, var þeirri beiðni hafnað þar sem ekki væru forsendur til þess að aflýsa umræddum lóðarleigusamningnum á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lægju í málinu.  Héraðsdómur staðfesti þá niðurstöðu sýslumanns með úrskurði uppkveðnum 26. mars 2010 og Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð héraðsdóms með dómi uppkveðnum 30. apríl s.á. 

Kærandi fór ítrekað fram á að umsókn hans um áðurgreinda breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 fengi efnislega afgreiðslu og hinn 28. janúar 2010 synjaði bæjarráð umsókninni með sömu rökum og lágu að baki afgreiðslu ráðsins á erindinu hinn 4. september 2009.  Hafa kærendur skotið þeirri synjun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings ógildingarkröfu sinni vísar kærandi til þess að bæjaryfirvöldum sé ekki stætt á að synja erindi hans um breytt lóðamörk á grundvelli þess að til staðar sé ágreiningur milli aðila um beitingu 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar að Háholti 16, 18 og 22.  Bæjaryfirvöldum sé skylt að taka efnislega afstöðu til erindisins, óháð öðrum ágreiningi aðila, enda séu málin ótengd.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á kaupsamningi sem gerður hafi verið árið 1998 um einbýlishúsið Háholt 20 ásamt tilheyrandi lóðarleiguréttindum. 

Ómálefnanleg rök liggi að baki synjun bæjarráðs.  Synjunin byggi eingöngu á þeirri staðreynd að annar ágreiningur sé til staðar milli aðila og því sé ekki unnt að fallast á erindið.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á atvikum sem hafi átt sér stað löngu áður en ágreiningur aðila um 12. gr. lóðarleigusamninganna hafi komið upp.  Kærandi sé ennþá eigandi lóðarinnar að Háholti 22 og það varði hagsmuni hans miklu, sem og hagsmuni eiganda fasteignarinnar að Háholti 20, að bæjaryfirvöld taki erindi hans til málefnalegrar skoðunar.  Hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að ágreiningur um heimild Mosfellsbæjar til að leysa til sín lóðir að Háholti, sem m.a. hafi varðað lóðina Háholt 22, hafi verið kominn upp þegar kærandi hafi óskað þess að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt.  Á sínum tíma hafi ekki þótt rétt að taka afstöðu til þeirra breytinga á lóðamörkum sem falist hafi í umsókn kæranda og hafi honum verið tilkynnt um frestun á afgreiðslu málsins þar til ferli varðandi nýtingu á 12. gr. umræddra lóðarleigusamninga um innlausn lóða við Háholt væri lokið. 

Mosfellsbær vísar til þess að vegna ítrekana kæranda á að umrætt erindi yrði tekið til efnislegrar meðferðar hafi beiðnin um breytingu á lóðamörkum verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs hinn 28. janúar 2010 þar sem bæjarráð hafi samþykkt að synja erindi um breytingu á mörkum lóðanna Háholts 20 og 22.  Synjunin hafi verið rökstudd með vísan til beitingar Mosfellsbæjar á 12. gr. lóðarleigusamninga vegna lóða nr. 16, 18 og 22 við Háholt, svo og þess útburðarmáls sem þá hafi verið rekið fyrir dómstólum varðandi þær lóðir.  Þegar erindi kæranda hafi verið synjað hafi í raun verið óútkljáð hver færi með réttindi til lóðarinnar nr. 22 og hefði þar með hagsmuni af því hvernig lóðamörkum þar væri hagað. 

Fyrir liggi að beiðni kæranda um breytingu á lóðamörkum varði bæði Háholt 20 og 22.  Ljóst sé að kærandi sé ekki lóðarhafi að lóð nr. 20 svo sem fram komi í kæru.  Jafnframt telji Mosfellsbær að heimild 12. gr. gildandi lóðarleigusamnings til að leysa til sín lóðina að Háholti 22 hafi verið beitt með lögmætum hætti.  Samkvæmt þessu sé staðan sú að kærandi krefjist þess að mörkum á milli tveggja lóða, sem hann eigi ekki réttindi yfir, verði breytt.  Það sé eitt af grunnskilyrðum þess að Mosfellsbær geti orðið við beiðni um breytingu á lóðamörkum að beiðnin stafi frá lóðarhöfum viðkomandi lóða.  Á meðan ágreiningur um það sé óútkljáður hafi Mosfellsbær ekki getað tekið beiðni kæranda til efnislegrar skoðunar og því hafi bærinn orðið að synja erindi hans um breytingu á umræddum lóðamörkum.  Samkvæmt þessu sé því hafnað að um ótengd mál sé að ræða.  Í ljósi málsatvika hafi málefnaleg sjónarmið búið að baki synjunar bæjarins á beiðni kæranda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 um breytingu á lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Samkvæmt 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem voru í gildi við töku hinnar kærðu ákvörðunar, ákveður sveitarstjórn skiptingu landa, lóða og breytingar á lóðamörkum.  Stærðir og mörk nefndra lóða koma fram á mæliblaði árituðu af byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 1997 og um lóðirnar gilda lóðarleigusamningar, dags. 19. febrúar 1998, þar sem vísað er til nefnds mæliblaðs.

Fyrir liggur að ástæða Mosfellsbæjar fyrir höfnun á erindi kæranda um breytt lóðamörk var fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og innlausn á lóðunum samkvæmt heimild í gildandi lóðarleigusamningum af því tilefni.  Verður því að telja að hin til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi legið lögmæt og málefnaleg sjónarmið.  Þá fólst í raun í erindi kæranda beiðni um breytingu á tvíhliða samningum um leigu umræddra lóða og verður ekki séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að knýja fram breytingar á þeim í andstöðu við vilja viðsemjanda síns.  Var bæjaryfirvöldum einnig af þeirri ástæðu rétt að synja erindi kæranda.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á ógildingarkröfu kæranda í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson