Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2011 Aragata

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júlí 2011, er barst nefndinni 22. s.m., kærir I, Aragötu 15, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 21. júlí s.á. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. apríl 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu.  Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til þess að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vantaði svo hægt væri að grenndarkynna málið.  Málið var að nýju tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. maí s.á. og afgreiðslu þess frestað.  Jafnframt var ákveðið að kynna málið fyrir eigendum Aragötu 13. 

Hinn 8. júlí 2011 var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu þegar samþykki allra lóðarhafa aðlægra lóða lægi fyrir.  Hinn 19. s.m. var umsóknin loks tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og henni synjað með eftirfarandi bókun:  „Synjað. Sótt er um að byggja bílageymslu á lóðamörkum Aragötu 13/15.  Ekki er til deiliskipulag af svæðinu og þarfnast því málið grenndarkynningar, sbr. ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Skipulagsstjóri hefur sett skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða liggi fyrir.  Það hefur umsækjandi ekki getað gert vegna Aragötu 13.  Í því ljósi er málinu synjað.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst þess að synjun byggingarfulltrúa frá 19. júlí 2011 verði ógilt og að borgaryfirvöldum verði gert að taka málið til meðferðar að nýju og þá í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Af gögnum málsins sé ljóst að það hafi ekki hlotið efnislega umfjöllun byggingarfulltrúa þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning svo sem skylt sé skv. 44. gr. skipulagslaga.  Í ákvörðun byggingarfulltrúa komi fram að málið falli undir 44. gr.   Þar segi jafnframt að skipulagsstjóri hafi sett það skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða lægi fyrir.  Það hafi kærandi ekki getað fengið hjá eiganda Aragötu 13 og því hafi umsókninni verið synjað.  Af þessu megi ljóst vera að þau skilyrði sem skipulagsstjóri hafi sett fyrir því að grenndarkynning færi fram hafi komið í veg fyrir að málið fengi efnislega umfjöllun þeirra stjórnvalda sem að lögum sé falið að taka það til umfjöllunar. 

Með vísan til lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði að gera þá kröfu að stjórnvöld hafi skýra lagaheimild til að binda framkvæmd lögboðinnar skyldu skilyrðum sem komið geti í veg fyrir að mál fái efnislega meðferð í samræmi við lög.  Ekki sé að sjá að skipulagslög hafi að geyma slíka heimild.  Því hafi skipulagsstjóra verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu í málinu.  Sú aðferð skipulagsstjóra að setja skilyrði fyrir grenndarkynningu leiði til þess að mál fái ekki eðlilega afgreiðslu og brjóti því gegn rétti leyfisumsækjanda til lögmæltrar málsmeðferðar, enda séu áform hans metin með hliðsjón af áhrifum þeirra á hagsmuni nágranna.  Þegar stjórnvald kjósi að leggja mál í annan farveg en þann sem lögboðinn sé feli það í sér misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. 

Grein 67.1 í byggingarreglugerð sem Reykjavíkurborg vísi til, varði gerð girðinga á lóðamörkum og séu þær háðar samþykki beggja lóðarhafa.  Slík regla hljóti að teljast eðlileg enda varði girðing á lóðamörkum hagsmuni beggja lóðarhafa jafnt.  Það sé hins vegar hæpið að beita umræddu ákvæði fortakslaust með lögjöfnun um framkvæmdir sem feli í sér nýtingu annars lóðarhafa á eigin lóð og varði því í flestum tilvikum ríkari hagsmuni hans en lóðarhafa aðlægrar lóðar. 

Jafnframt sé bent á að bílskúrar þeir sem séu við Aragötu og Oddagötu séu með ýmsu móti.  Þeir hafi ýmist slétt þak eða hallandi og séu ýmist steyptir eða úr timbri.  Margir bílskúrar nái út í lóðarmörk og sumir séu áfastir eða tengdir húsunum.  Það sé því ekki hægt að segja að götumyndin sé einsleit að þessu leyti.  Rök íbúa að Aragötu 13 standist því ekki þegar hann segi að breytingar frá eldri skúr séu óréttlætanlegar, sem og breytt útlit bílskúrs miðað við ásýnd húsanna í hverfinu. 

Að lokum sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi á árinu 2009 verið afar jákvæð gagnvart áformum um að byggður yrði einnar hæðar bílskúr á lóðinni.  Auk þess sem aðrir nágrannar hafi samþykkt framkvæmdina fyrir sitt leyti. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda um ógildingu synjunar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað. 

Það sé rétt hjá kæranda að skipulagsyfirvöld hafi verið jákvæð gagnvart byggingaráformum hans varðandi byggingu bílskúrs á lóðinni en hins vegar verði ekki annað leitt af byggingarreglugerð en að bygging á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa, sbr. gr. 67.1.  Kæranda hafi ekki tekist að afla samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar við Aragötu og því hafi byggingarfulltrúa borið að synja umsókninni.  Bent sé á að hafi sjónarmið hagsmunaaðila komið fram áður, eða ekki hafi fengist lögáskilið samþykki fyrir framkvæmd, megi líta svo á að ekki beri að grenndarkynna framkvæmdina, enda hafi slíkt þá enga þýðingu.  Ekkert hafi komið fram í málinu sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa. 

Niðurstaða:  Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, og deiliskipulag liggi ekki fyrir, eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Skal sveitarstjórn að grenndarkynningu lokinni taka málið til afgreiðslu.

Í máli þessu setti skipulagsstjóri það skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki eigenda aðliggjandi lóða lægi fyrir.  Eftir að gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 var breytt í desember 2006 er þar kveðið á um að bil milli húsa skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út.  Er í reglugerðinni ekki lengur að finna bein fyrirmæli um lágmarksfjarlægð húss frá lóðamörkum og verður ekki fallist á þá túlkun Reykjavíkurborgar að slík regla verði leidd af ákv. gr. 67.1 varðandi girðingar.  Áðurnefnt skilyrði studdist því hvorki við ákvæði byggingarreglugerðar né aðrar settar réttarheimildir og samrýmdist ekki ákvæði 44. gr. skipulagslaga.  Umsókn kæranda hlaut af þessum sökum ekki lögboðna meðferð og verður hin kærða synjun byggingarfulltrúa því felld úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík.

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson