Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2010 Stuðlaberg

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. desember 2009 um að hafast ekki frekar að vegna kröfu kærenda um að geymsluskúr á mörkum lóðanna nr. 62 og 64 við Stuðlaberg verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. janúar 2010, er barst nefndinni 11. s.m., kæra G og H, Stuðlabergi 62 í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. desember 2009 að hafast ekki frekar að vegna kröfu kærenda um að geymsluskúr á mörkum lóðanna nr. 62 og 64 við Stuðlaberg verði fjarlægður.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn hinn 22. desember 2009.

Málavextir:  Kærendur eru eigendur að fasteigninni nr. 62 við Stuðlaberg í Hafnarfirði.  Sumarið 2009 fóru þau fram á við bæjaryfirvöld að geymsluskúr á lóðamörkum Stuðlabergs 62 og 64 yrði fjarlægður, en skúrinn tilheyrir Stuðlabergi 64. 

Hinn 11. júní 2009 var mál kærenda tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar og óskaði hann eftir að eigandi Stuðlabergs 64 gerði grein fyrir heimildum fyrir hinum umdeilda skúr og framkvæmdum við hann á lóðamörkum.  Svar barst frá eiganda skúrsins 4. ágúst sama ár þar sem fram kemur að skúrinn hafi staðið á lóðinni um áraraðir og að engar athugasemdir hafi komið fram fyrr en á árinu 2009. 

Hinn 28. október 2009 gerði skipulags- og byggingarfulltrúi eiganda skúrsins skylt að fjarlægja hann innan fjögurra vikna, eða færa hann frá lóðarmörkum sem svaraði mænishæð hans, og sækja um byggingarleyfi.  Var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 10. nóvember s.á.  Eigandi skúrsins kom á framfæri frekari athugasemdum á fundi með skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 2. desember s.á.  Í kjölfar þess ákvað skipulags- og byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi hinn 9. desember 2009 að hafast ekki frekar að í málinu. 

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að fjarlægja skúrinn af lóðamörkum Stuðlabergs 62 og 64 skuli standa.  Skúrinn sé kærendum til ama og þurfi þau að hluta til að halda honum við.  Einnig safnist mikið af pöddum og köngulóm undir skyggninu á skúrnum, sem viti að lóð kærenda.  Þá hafi eigandi skúrsins meinað kærendum að hengja blómapotta utan á skúrinn, en málið hafi snúist um það frá upphafi. 

Engar samþykktir séu fyrir  skúrnum og hann sé því í algeru óleyfi.  Loks sé bent á að ekki sé farið rétt með staðreyndir varðandi skúrinn af hálfu eigenda Stuðlabergs 64.

Málsrök eigenda að Stuðlabergi 64:  Eigendur Stuðlabergs 64 benda á að hinn umdeildi skúr hafi verið tilgreindur í kaupsamningi þegar þau hafi keypt húsið árið 2002.  Skúrinn hafi verið byggður á árunum 1994-1996 samkvæmt upplýsingum frá fyrri eiganda hússins, en núverandi eigendur Stuðlabergs 62 hafi þá búið í húsinu og verið í fullum rétti til að mótmæla byggingu skúrsins.  Engin mótmæli hafi hins vegar borist fyrr en í byrjun júní 2009.

Sama dag og bréf hafi borist frá skipulags- og byggingarfulltrúa hafi eigendur Stuðlabergs 64 átt orð við annan eigenda Stuðlabergs 62 til að fá útskýringar á málinu og hafi þá komið í ljós að ástæða deilunnar væri aðallega sú að kærendur teldu að þeim hefði verið meinað að hengja blómapotta á gafl skúrsins.  Sú ástæða væri hins vegar á misskilningi byggð.  Rangt sé að kofinn sé 2,4 m á hæð heldur sé hann 2,2 m frá steyptum grunni.  Hægt sé að minnka þakkant og fjarlægja torfþak og setja bárujárn í staðinn og myndi skúrinn þá lækka um 10 cm. 

Loks sé bent á að kofinn sé ekki fyrir eigendum Stuðlabergs 62 að neinu leyti, hvorki varðandi sól né útsýni.  Fallist sé á að leyfa blómapotta við kofann og fjarlægja þakkant en ekki sé hægt að lækka skúrinn líkt og kærendur óski eftir að gert verði.

Málsrök Hafnarfjarðar:  Bæjaryfirvöldum var gefinn kostur á að tjá sig um málið en engar athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld byggi á því að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 9. desember 2009 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þar sem skúrinn hefði staðið á lóðamörkum í allmörg ár, án þess að athugasemd hefði verið gerð við hann, jafngilti það samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. grein 67.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Af þeim sökum hafi byggingarfulltrúi ákveðið að hafast ekki frekar að í málinu.

Niðurstaða:  Í kröfu kærenda felst að sveitarfélaginu verði gert að beita úrræði 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til að umræddur skúr verði fjarlægður.  Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hyggjast bæjaryfirvöld ekki verða við kröfum um að skúrinn verði fjarlægður með stoð í tilvitnaðri 56. gr.  Verður jafnframt að telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi tekið upp fyrri ákvörðun í málinu og breytt henni, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga var byggingarnefnd heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisbygginga.  Var ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis háð mati hverju sinni.  Hlýtur slíkt mat fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum en einstaklingum eru tryggð önnur réttarúrræði til að verja einkaréttarlega hagsmuni.

Hin umdeilda ákvörðun er einkum studd þeim rökum að fyrir liggi að skúrinn hafi staðið um árabil á lóðinni að Stuðlabergi 64, án athugasemda eigenda Stuðlabergs 62.   Verður að telja, með hliðsjón af greindum atvikum og lagasjónarmiðum, að málefnaleg rök hafa búið að baki þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda að beita ekki þvingunarúrræði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga til niðurrifs umdeilds skúrs. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson