Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2011 Hagi

Ár 2011, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. júní 2011, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Ó, f.h. eigenda jarðarinnar Kross, Vesturbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var byggingarfulltrúa þegar gert viðvart um framkomna kröfu um stöðvun framkvæmda en af hans hálfu var upplýst að hann hefði ekki veitt heimild til að hefja framkvæmdir við bygginguna.  Síðar, eða hinn 26. júlí 2011, bárust úrskurðarnefndinni upplýsingar um að umdeild bygging hefði verið reist en það mun hafa verið gert án vitundar eða samþykkis byggingarfulltrúa og án lögboðinna úttekta af hans hálfu.  Stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við bygginguna þegar honum varð um þetta kunnugt og eru af þessum sökum ekki efni til að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrlausnar.

Málavextir:  Upphaf málsins má rekja til ársins 2006, en á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar hinn 29. júní það ár var tekin fyrir umsókn frá Móru ehf. um 1,4 ha lóð á iðnaðarsvæði við ána Móru fyrir ferðaþjónustu á Barðaströnd.  Nefndin tók jákvætt í erindið en benti á að rétt væri að auglýsa umrædda lóð.  Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum hinn 8. febrúar 2008.  Bókaði nefndin að ekki hefði verið farið að tillögu hennar um að auglýsa lóðina en samþykkti að umsækjandi fengi lóð á umræddum stað fyrir starfsemi sína og nýtti sökkulveggi sem þar væru fyrir ef unnt væri.  

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. september 2010 var tekin fyrir umsókn Móru ehf. um byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi á áður steyptum grunni vestan Móru undir ferðaþjónustutengda starfsemi tengda íslenskum landbúnaði.  Samþykkti nefndin fyrir sitt leyti byggingu hússins með fyrirvara um fullnægjandi hönnunargögn, meðmæli Skipulagsstofnunar og grenndarkynningu.   Á fundi nefndarinnar 10. mars 2011 var lagt fram bréf umhverfisráðuneytis um undanþágu frá kröfu um fjarlægð frá vegi og svar Skipulagsstofnunar um að stofnunin gerði ekki athugasemdir við byggingu umrædds gripahúss á þessum stað.  Jafnframt var  bókað: „Þar sem ekki hefur tekist að fá áritun allra nágranna til samþykkis verður grenndarkynning að fara fram áður en afstaða verður tekin til byggingarleyfis.“ 

Hinn 17. mars 2011 ritaði byggingarfulltrúi bréf til þeirra er málið varðaði.  Sagði í bréfinu að grenndarkynning ætti ekki við en hagsmunaaðilum væri þó gefinn kostur á að koma að athugasemdum.  Meðfylgjandi þessu bréfi voru svör Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis.  Samkvæmt bréfi Skipulagsstofnunar hafði Vesturbyggð sótt um meðmæli stofnunarinnar 27. september 2009 og var lóðin þá sögð vera iðnaðarlóð.  Skipulagsstofnun ritaði sveitarfélaginu bréf 14. október s.á. og óskaði eftir rökstuðningi fyrir því hvernig framkvæmdin samræmdist landnotkun samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Í svari frá Vesturbyggð hinn 22. nóvember 2009 kom fram að villa væri í aðalskipulagi varðandi uppgefnar stærðir á tveimur iðnaðarlóðum, en þær væru í raun 0,3 ha en ekki 3 ha.  Væri svæðið þar sem fyrirhuguð bygging ætti að rísa því landbúnaðarsvæði.

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 23. mars 2011 var fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 10. mars s.á. tekin fyrir og eftirfarandi bókað vegna 6. töluliðar um umsókn Móru ehf:  „Forseti lagði fram tillögu um að töluliðnum verði vísað til fullnaðarafgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd. Samþykkt samhljóða. Fundargerðin staðfest samhljóða.“  Á fundi nefndarinnar hinn 13. maí 2011 var fjallað um framkomnar athugasemdir og bygging umrædds stálgrindarhúss fyrir ferðaþjónustutengda starfsemi samþykkt.  Var sú ákvörðun staðfest af bæjarstjórn Vesturbyggðar 18. s.m. og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Málsrök kærenda:  Kærendur eru eigendur jarðarinnar Kross á Barðaströnd en jörðin á land að ánni Móru.  Telja þeir að fyrirhuguð framkvæmd muni valda mengun og truflun við ána, m.a. vegna aukinnar umferðar og beitar.     

Vísað sé til þess að svæðið þar sem umdeild bygging eigi að rísa teljist ekki landbúnaðarsvæði samkvæmt skilgreiningu gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Búið sé að selja viðkomandi spildu frá lögbýli.  Teljist hún því ekki landbúnaðarsvæði og geti byggingin þar með ekki tengst búrekstri á jörðinni.  Skipulagsstofnun hafi því ekki haft fullnægjandi upplýsingar til að mæla með veitingu byggingarleyfisins. 

Með byggingarleyfinu sé verið að heimila byggingu fjölskyldugarðs samkvæmt skilgreiningu Vesturbyggðar frá 18. maí 2011 en ekki verslunar og þjónustubyggingu og því eigi gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð ekki við.  Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sé háð leyfi Fiskistofu, sbr. 33. gr. laga um lax- og silungaveiði nr. 61/2006.  Ekkert slíkt leyfi sé til staðar, en horn byggingarinnar sé samkvæmt Fasteignamati ríkisins um 87 m frá ánni Móru.  Samkvæmt afsali fyrrum eiganda spildunnar sé skilyrt að áin verði ekki fyrir neinni mengun.  Þá sé kaupanda óheimilt að leigja eða nota landið sem beitiland nema það sé örugglega girt.  Ekkert mat á mengunarhættu liggi fyrir, t.d. frá Náttúrustofu Vestfjarða, en síðasta ár hafi stafað mengun frá þeirri starfsemi sem nú þegar sé til staðar.  Ákveðin fjarlægð þurfi að vera á milli bygginga sem hýsi ólíka starfsemi eins og hér sé um að ræða og brotið hafi verið gegn 24. gr. hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 með því að leita ekki neinnar umsagnar þar um. 

Loks vísi kærendur til þess að grenndarkynning hafi ekki farið fram með réttum hætti í upphafi þar sem lóðarhafi hafi sjálfur leitað samþykkis hagsmunaaðila.  Ekki hafi verið nein kynning á niðurstöðu nefndarinnar um þær athugasemdir sem fram hafi komið.

Málsrök Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir framangreindu gripahúsi á þessum stað.  Umsækjandinn eigi búmark fyrir 50 fjár og hafi leigusamning um hluta úr landi Litluhlíðar til upprekstrar og slægju, með tveggja ára uppsagnarfresti.  Hámarksákvæði 3. gr. samþykktar Vesturbyggðar um búfjárhald eigi því ekki við í þessu tilfelli.  Skipulags- og byggingarnefnd taki afstöðu til þeirra umsókna sem lagðar séu fyrir en ekki til þess sem hugsanlega verði gert í framtíðinni.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að umfjöllunarefni í kæru fari langt út fyrir verksvið úrskurðarnefndarinnar þar sem þess sé krafist að við mat á því hvort skilyrði til útgáfu byggingarleyfis séu uppfyllt verði metnar líkur á því hvort byggingarleyfishafi kunni að brjóta önnur skilyrði og kvaðir sem á hann kunni að verða lögð, m.a. af heilbrigðisyfirvöldum, vegna fyrirhugaðs reksturs.

Þær athugasemdir sem fram hafi komið þegar framkvæmdin hafi verið kynnt hafi ekki snúið að húsbyggingunni sjálfri eða þeirri starfsemi sem byggingarleyfishafi ætli að reka þar.  Telji byggingarleyfishafi óumdeilt að byggingarleyfi honum til handa hafi verið gefið út í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og eigi það því að standa óhaggað.  Fráleitt sé að fullyrðingar kærenda, um að hann muni ekki fá umrædd leyfi eða brjóta gegn skyldum sem slík leyfi kunni að leggja á hann, eigi að hafa áhrif á mat á því hvort veita hafi mátt byggingarleyfið.

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 er merkt iðnaðarsvæði norðan Barðastrandarvegar, vestan árinnar Móru.  Í greinargerð skipulagsins segir að iðnaðarsvæði utan þéttbýlis séu Hvestuvirkjun og mannvirki tengd henni, sem og iðnaðarlóð á Krossholti.  Nánar segir í lýsingu þessara iðnaðarsvæða að á Krossholti séu tvær iðnaðarlóðir, eins og tveggja ha að stærð, og er gerð grein fyrir byggingum á þeim lóðum.  Ekki er á uppdrætti aðalskipulags gerð grein fyrir afmörkun þessa iðnaðarsvæðis heldur er svæðið tilgreint með hringlaga merki með lit er táknar iðnaðarsvæði og árituninni I2.  Verður því að leita annarra heimilda um afmörkun svæðisins.

Meðal málsgagna er skipulagsuppdráttur fyrir Krossholt, unninn af Teiknistofu Skipulags ríkisins, að stofni til frá september 1976, en á hann er ritað maí 1988.  Bendir það til að hann hafi komið í stað eldri uppdráttar frá árinu 1976.  Samkvæmt uppdrætti þessum er syðsti hluti spildu sveitafélagsins úr landi Haga, vestan Móru, merktur sem atvinnusvæði, milli austur- og vesturmarka spildunnar, og er sú lóð þar sem umdeild bygging var heimiluð innan þess svæðis.  Er það í samræmi við það sem fram kemur í bókunum skipulags- og byggingarnefndar í málinu á árinu 2006 og 2008 þar sem lóðin er sögð vera á iðnaðarsvæði við Móru.  Það styður og þá niðurstöðu að um iðnaðarsvæði sé að ræða að á umræddri lóð var fyrir sökkull og ber heimildum saman um að þar hafi átt að rísa hús fyrir fiskhausaþurrkun.

Eftir að fram hafði komið ábending frá Skipulagsstofnun um að rökstyðja þyrfti hvernig fyrirhuguð starfsemi samræmdist landnotkun á svæðinu samkvæmt gildandi aðalskipulagi komu fram þær skýringar af hálfu sveitarfélagsins að villa væri í aðalskipulagi varðandi stærðir iðnaðarlóða á svæðinu, sem væru 1000 og 2000 m² að flatarmáli, eða samtals 0,3 ha í stað 3,0 ha.  Lóðin væri því utan iðnaðarsvæðisins og teldist því á landbúnaðarsvæði, enda væri samkvæmt aðalskipulaginu allt land í dreifbýli landbúnaðarsvæði sem ekki væri skilgreint með öðrum hætti. 

Úrskurðarnefndin telur þessar skýringar ekki haldbærar.  Sé um villu að ræða í staðfestu aðalskipulagi kallar það á leiðréttingu og gildir texti aðalskipulagsgreinargerðar óbreyttur meðan ekki hefur verið gerð á honum breyting eða leiðrétting með formlegum hætti.  Þar við bætist að umrædd lóð er á landspildu í eigu Vesturbyggðar sem hvorki hefur lögbýlisrétt né tilheyrir bújörð eða lögbýli.  Getur hún því ekki talist landbúnaðarland, sbr. gr. 4.14.1 í skipulagreglugerð nr. 400/1998, þar sem segir að landbúnaðarsvæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar.

Að því virtu sem að framan er rakið verður að telja að umdeild bygging sé á skilgreindu iðnaðarsvæði.  Samkvæmt skilgreiningu í gr. 4.7.1 í tilvitnaðri skipulagsreglugerð, sem áréttuð er í greinargerð Aðalskipulags Vesturbyggðar 2006-2018, skal á iðnaðarsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér, s.s. verksmiðjum, virkjunum, tengivirkjum, veitustöðvum, skólpdælu- og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökustöðvum fyrir úrgang.  Telur úrskurðarnefndin að sú bygging fyrir ferðatengda starfsemi, tengda landbúnaði, sem um er deilt í málinu, falli ekki að skilgreindri landnotkun aðalskipulags.  Hafi því ekki verið fullnægt því skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis, sem sett er í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að mannvirkið og notkun þess skuli samræmast skipulagsáætlunum á svæðinu.  Verður hin kærða ákvörðun af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi  ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson