Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2010 Vættaborgir

Ár 2011, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 66/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2010 um að synja umsókn um að setja glugga og dyr á vesturhlið kjallara hússins að Vættaborgum 27 og innrétta þar fyrir innan kalda geymslu í óuppfylltu rými. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. október 2010, er barst nefndinni næsta dag, kærir S, f.h. E, Vættaborgum 27, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september s.á. að synja umsókn um að setja dyr og glugga á vesturhlið kjallara hússins að Vættaborgum 27 og innrétta þar fyrir innan kalda geymslu í óuppfylltu rými. 

Málavextir:  Fasteignin að Vættaborgum 27 er einbýlishús á tveimur hæðum og er lokað óuppfyllt rými í kjallara.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. september 2010 var tekin fyrir áðurnefnd umsókn kæranda.  Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á fundi hans hinn 24. s.m. var gerð svohljóðandi bókun:  „Neikvætt.  Erindið samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins.“  Umsóknin var næst tekin til skoðunar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. s.m. og afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað.  Með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Lóð er þegar fullbyggð.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að ekki sé verið að fara fram á aukningu á byggingarmagni hússins að Vættaborgum 27 og að stærð þess verði ekki breytt.  Bendi kærandi á að einungis eitt hús við Vættaborgir 27-35 uppfylli skilyrði skipulagsskilmála um stærð húsa á skipulagsreitnum en hin húsin séu öll stærri en kveðið sé á um í skilmálum.  Skuli hámarksstærð húsa á þessu svæði vera 220 m² með bílgeymslu en hús kæranda sé 248,7 m², hús nr. 29 sé 225,9 m², hús nr. 31 sé 256,9 m² og hús nr. 33 sé 262,9 m².  Verði á engan hátt séð að umsótt breyting skipti máli varðandi skipulag hverfisins því einungis sé verið að fara fram á að nýta óuppfyllt rými og hvergi sé farið út fyrir byggingarreit, eins og þó séu dæmi um í þessari húsaröð. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Gerð er krafa um að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað og synjun byggingarfulltrúa staðfest.  Er vísað til skipulagsskilmála fyrir Vættaborgir 27-35, er samþykktir hafi verið árið 1995.  Þar komi fram að aukaíbúðir séu ekki heimilar og að hámarksstærð húsa sé 220 m², með bílskúr.  Hús kæranda sé nú 248,7 m² með bílskúr og teljist fullbyggt.  Með hinni umsóttu breytingu stækki húsið sem hinu óuppfyllta rými nemi, eða um 7,7 m², og sé því breytingin ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag, Borgarholt II, Borgarhverfi, A-hluti, er samþykkt var í borgarráði árið 1995.  Samkvæmt sérákvæði í skipulagsskilmálum um einbýlishús við Vættaborgir 27-35 er hámarksstærð húsa 220 m² með bílskúr.  Þá er m.a. tekið fram að aukaíbúðir séu ekki heimilar.  Hús kæranda er 248,7 m² en verður eftir stækkun 256,4 m² eða um 36 m² stærra en heimilt er samkvæmt greindu skipulagi.  Felur hin umsótta breyting því í sér aukið frávik frá ákvæði fyrrgreinds skipulags um hámarksstærð húsa á skipulagsreitnum og væri samþykkt hennar í andstöðu við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda í máli þessu hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2010 á umsókn um að setja glugga og dyr á vesturhlið kjallara hússins að Vættaborgum 27 og innrétta þar fyrir innan kalda geymslu í óuppfylltu rými. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson