Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2012 Suðurhóp

Með

Árið 2013, föstudaginn 25. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 89/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er  kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2012, er barst nefndinni 14. sama mánaðar, kæra I og Ó, Suðurhópi 8 og 10, Grindavík, þá afgreiðslu Grindavíkurbæjar, sem tilkynnt var í bréfi dags. 10. september 2012, að fjarlægja ekki körfuboltavöll á skólalóð við Suðurhóp í Grindavík.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá sveitarfélaginu 26. október 2012.

Málsatvik og rök:  Í júlí 2008 var samþykkt byggingarleyfi fyrir grunnskóla á lóðinni nr. 2 við Suðurhóp í Grindavík.  Með bréfi íbúa og eigenda húsanna á lóðunum nr. 8 og 10 við Suðurhóp, dags. 3. febrúar 2010, var þess farið á leit við byggingarfulltrúa Grindavíkurbæjar að hann léti fjarlægja körfuboltavöll, sem staðsettur er norðan við nefndan skóla, vegna ónæðis sem frá honum stafaði.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 8. mars 2010 og fært til bókar að nefndin fæli forstöðumanni tæknideildar ásamt skólastjóra grunnskólans að leita lausna í málinu með  íbúum. 

Með bréfi frá sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs, dags. 10. september 2012, var erindi kærenda svarað.  Í bréfinu segir m.a. svo:  „Í framhaldi af bréfi dagsettu 8. febrúar 2010 og fundar þann 8. mars 2010 þar sem staðsetningu körfuboltavallar á skólalóð við Suðurhóp er mótmælt vill Grindavíkurbær leita leiða til sátta vegna vallarins. Grindarvíkurbær lítur svo á að staðsetning vallarins sé í samræmi við deiliskipulag enda sé hann hluti af leiksvæði barnaskólans. Hinsvegar er sjálfsagt að koma til móts við íbúa sem verða fyrir ónæði vegna vallarins.“  Þá voru kynntar leiðir er að mati sveitarfélagins voru til þess fallnar að takmarka ónæði frá vellinum.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að mikið ónæði stafi frá vellinum vegna óviðunandi hljóð- og ljósmengunar. Körfuboltavöllurinn sé ekki sýndur á deiliskipulagi en gert sé ráð fyrir bílastæði á umræddu svæði.  Þessi breyting sé veruleg og hafi átt að fara í lögbundið ferli sem skipulagsbreyting sbr. 26. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða í grenndarkynningu.  Kærendur telja að það hafi átt að veita hagsmunaaðilum kost á að tjá sig.  Sáttatillögur bæjarins séu ekki til þess fallnar að koma í veg fyrir ónæði af vellinum og verði að telja fyrirliggjandi svar bæjarfélagsins lokaákvörðun í málinu enda ljóst að staðsetningu vallarins verði ekki breytt.

Niðurstaða:  Tilefni kærumáls þessa er bréf  sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar frá 10. september 2012 sem ritað var í tilefni af erindi kærenda frá 3. febrúar 2010, þar sem þess var farið á leit að umdeildur körfuboltavöllur yrði fjarlægður.

Leyfi til byggingar skólans að Suðurhópi 2 mun hafa verið veitt árið 2008 og í kjölfar þess hafi skólinn verði reistur og körfuboltavöllurinn lagður á lóð hans.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi voru á þeim tíma, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal.  Lögmæti ákvörðunar um gerð og staðsetningu vallarins verður því ekki endurskoðað af hálfu úrskurðarnefndarinnar þar sem kærufrestur er löngu liðinn.

Í fyrrgreindu bréfi sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs eru sjónarmið bæjaryfirvalda reifuð í tilefni af kröfu kærenda um að títtnefndur völlur yrði fjarlægður.  Ekki verður af orðalagi bréfsins ráðið að tekin hafi verið lokaákvörðun í málinu en í  2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það áskilið svo ákvörðunin verði borin undir  úrskurðarnefndina.  Þá liggja ekki fyrir í málinu gögn eða bókanir þar til bærra stjórnvalda er bendi til að umrætt erindi kærenda hafi fengið formlega afgreiðslu með töku kæranlegrar stjórnvaldsákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

 

80/2010 Kópavogsbakki

Með

Árið 2013, mánudaginn 6. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2010, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 16. nóvember 2010 um að hafna umsókn kærenda um frágang á lóðamörkum og um stoðvegg á lóð Kópavogsbakka 4 í Kópavogi, svo og kæra á samþykkt byggingarnefndar frá 14. desember 2010 um frágang lóða.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2010, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. E og G, Kópavogsbakka 4, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 16. nóvember 2010 að hafna umsókn þeirra um frágang á lóðamörkum og um stoðvegg á lóð Kópavogsbakka 4.  Gera þau þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarnefnd að samþykkja umsókn kærenda.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2011, er barst úrskurðarnefndinni 11. sama mánaðar, kæra sömu aðilar samþykkt sem byggingarnefnd Kópavogs gerði á fundi 14. desember 2010 um lóðafrágang Kópavogsbakka 4 og 6.  Þau krefjast úrskurðar þess efnis að byggingarnefnd Kópavogs hafi borið að samþykkja framangreinda umsókn þeirra, sem tekin hafi verið fyrir 16. nóvember 2010. Verður síðara kærumálið, nr. 5/2011, sameinað hinu fyrra máli, sem er nr. 80/2010, þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi og málatilbúnaðurinn varðar sama álitaefni.

Með bréfum, dags. 29. desember 2010 og 17. janúar 2011, voru Kópavogsbæ send afrit kæranna en engin gögn hafa borist frá bænum.

Málsatvik og rök:  Deiliskipulag fyrir Kópavogstún var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs á árinu 2005. Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 og gatan Kópavogsbakki færð um tvo metra til suðurs. Lóðirnar neðan götu hliðruðust til suðvesturs, voru stækkaðar og breikkaðar. Landið hallar niður að sjónum. Kærendur sóttu um byggingarleyfi fyrir húsinu á Kópavogsbakka 4 í febrúar 2007. Húsið er byggt á háum sökkulveggjum eins og hús nr. 2, ólíkt húsum nr. 6, 8 og 10, sem eru byggð á jarðvegspúða.  Suðurhluti lóða nr. 2 og 4 er lægri en lóðar nr. 6 og er verulegur hæðarmunur milli lóða nr. 4 og 6.  Árið 2008 sóttu kærendur um leyfi til að nýta gluggalaust rými undir húsi sínu og var umsóknin samþykkt.

Ágreiningur varð á milli kærenda og lóðarhafa Kópavogsbakka 6 um frágang á lóðamörkum.  Niðurstaða byggingarnefndar Kópavogs 18. ágúst 2009 var að frágangur lóðamarka milli Kópavogsbakka 4 og 6 skyldi vera eins og fram kemur í skipulagsskilmálum fyrir lóðirnar og á teikningu af austurhlið Kópavogsbakka 4.
Umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir breytingu á lóð þeirra var síðar synjað. Loks var kærendum settur frestur til 1. febrúar 2010 til að ljúka jöfnun lóðarinnar. Lóðarhafar kærðu þessar þrjár ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og voru þær felldar úr gildi með úrskurði 1. mars 2010, í máli nr. 63/2009.

Fram kemur í fundargerð byggingarnefndar 16. mars 2010 að lóðarhafi Kópavogsbakka 4 sæki um leyfi til að breyta hæðarlegu lóðarinnar og að málinu sé frestað.  Í fundargerð nefndarinnar frá 29. júní 2010 kemur fram að hún samþykki að skipulags- og umhverfissvið hlutist til um að ráða landslagsarkitekta til að gera tillögu að frágangi lóðamarka Kópvogsbakka 4 og 6 og skuli taka mið af hagsmunum beggja aðila, með hliðsjón af ákvæðum skipulagsins.  Þá segir í fundargerð byggingarnefndar 19. október 2010 að haldinn hafi verið fundur með lögmönnum lóðarhafa Kópavogsbakka 4 og 6 og hugmynd að mögulegri sátt hafi komið fram.  Á fundi nefndarinnar 16. nóvember s. á. var málið enn tekið fyrir.  Bókað er um tvær fyrirtökur á málinu á þeim fundi.  Í fyrri bókuninni segir að umsókn um byggingarleyfi sé synjað þar sem leyfið samræmdist ekki deiliskipulagi.  Í minnisblaði sem vísað er til í þessari bókun segir að komið hafi til skoðunar að afturkalla byggingarleyfi fyrir kjallara þar sem óheimilt væri að hafa kjallara í húsinu.  Ef fallist yrði á umsókn um breytingu á lóð væri verið að samþykkja að húsið yrði tveggja hæða og því væri lagt til að umsókninni yrði synjað. Aftar í fundargerð byggingarnefndar 16. nóvember 2010 segir að málið sé tekið fyrir.  Rakið er það sem bókað hafði verið um efnið á fyrri fundum nefndarinnar.  Svo segir að byggingarnefnd fresti málinu og muni kynna sér framkvæmdir á vettvangi.  

Málið var næst tekið fyrir í byggingarnefnd 14. desember 2010. Í fundargerð þess fundar kemur fram að nefndin samþykki að frágangur lóða við Kópavogsbakka 4 og 6 skuli vera með tilteknum hætti sem lýst er í bókun nefndarinnar.  Í lokalið bókunarinnar segir að samþykktin gildi, nema lóðarhafar Kópavogsbakka 4 og 6 komist að samkomulagi um annan frágang lóða sinna. Verði samkomulag með lóðarhöfum um frágang á lóðamörkum fyrir 31. mars 2011 skuli það lagt fyrir bæjaryfirvöld til afgreiðslu.  Bæjarráð staðfesti afgreiðslu byggingarnefndar 16. desember 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu bæjarráðs 21. desember s.á.

Eigendur Kópavogsbakka 4 og Kópavogsbakka 6 gerðu með sér samkomulag um frágang á mörkum lóða sinna hinn 15. febrúar 2011.  Þar segir að hæðarmunur milli lóðanna skuli jafnaður með jöfnum fláa, og ganga skuli frá lóðamörkum í samræmi við uppdrætti sem festir séu við samkomulagið. Á uppdráttunum sést að lóðin Kópavogsbakki 6 er hærri en lóð nr. 4 og er brattur flái á milli lóðanna.  Getið er um þetta samkomulag lóðarhafanna í fundargerð skipulagsnefndar þennan sama dag þar sem fjallað var um breytt deiliskipulag varðandi lóðirnar nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka, þannig að húsin á lóðunum yrðu skilgreind sem ein hæð með kjallara.  Einnig er þessa samkomulags getið í bókun bæjarstjórnar Kópavogs 24. maí 2011 þar sem til afgreiðslu var umrædd tillaga að  breyttu deiliskipulagi.

Í málinu er krafist ógildingar á synjun Kópavogs frá 16. nóvember 2010, en kærendum virðist hafa verið tilkynnt um synjunina en ekki um frestun málsins síðar á fundinum. Jafnframt lítur kæran að samþykkt byggingarnefndar 14. desember 2010.  Kemur þar fram að kærendum sé ekki ljóst hvaða umsókn hafi verið til meðferðar þegar samþykktin hafi verið gerð.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið frestaði byggingarnefnd umfjöllun sinni um umsókn kærenda á fundi sínum hinn 16. nóvember 2010, þrátt fyrir að hafa fyrr á fundinum synjað umsókninni.  Liggur fyrir að efnisleg ákvörðun í málinu var tekin síðar.  Samkvæmt því verður ekki séð að hin kærða synjun hafi bundið endi á meðferð málsins.  Var synjunin því ekki kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og verður þessum kærulið því vísað frá nefndinni.  

Byggingarnefnd samþykkti á fundi sínum hinn 14. desember 2010 fyrirmæli um frágang á lóðamörkum Kópavogsbakka 4 og 6.  Í lokalið samþykktarinnar segir að hún gildi nema lóðarhafar komist að samkomulagi um annan frágang lóða sinna en samþykkt nefndarinnar mæli fyrir um. Takist samkomulag lóðarhafanna um frágang á lóðamörkum fyrir 31. mars 2011 skuli það lagt fyrir bæjaryfirvöld til afgreiðslu.

Fyrir liggur að samkomulag varð með lóðarhöfum hinn 15. febrúar 2011 og var það lagt fyrir bæjaryfirvöld.  Var með því fullnægt skilyrðum þeim sem fram komu í umræddri samþykkt byggingarnefndar og hefur samþykkt nefndarinnar ekki lengur neina þýðingu að lögum.  Breytir engu um þá niðurstöðu þótt svo virðist sem bæjaryfirvöld hafi ekki tekið umrætt samkomulag til formlegrar afgreiðslu, enda verður ráðið af bókun skipulagsnefndar 15. febrúar 2011 að samkomulagið hafi beinlínis verið lagt til grundvallar við ákvörðun nefndarinnar um að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Þá liggur og fyrir að samkomulag þetta var lagt fram á fundi bæjarstjórnar 24. maí 2011 án þess að nokkrar athugasemdir kæmu þá fram um efni þess.  Miðað við þessa niðurstöðu eiga kærendur ekki lengur þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem eru skilyrði kæruaðildar, sbr. þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og verður þessum kærulið því einnig vísað frá.

Samkvæmt framansögðu verður máli þessu vísað í heild sinni frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

84/2012 Grundarstígur

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 24. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 84/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2012 að veita leyfi til að byggja við kjallara hússins að Grundarstíg 10, Reykjavík, sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta notkun einbýlishúsalóðar í lóð fyrir blandaða atvinnustarfsemi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 var samþykkt umsókn um hið kærða byggingarleyfi en áður hafði verið fjallað um umsóknina á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. s.m.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 26. s.m. og byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 14. mars s.á. 

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar byggingarleyfisins á þeim forsendum að breytingarnar brjóti í bága við 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar og þróunaráætlun miðborgarinnar. Framkvæmdirnar styðjist við deiliskipulag sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í lok árs 2011 með kröfu um ógildingu skipulagsins. Sem eigandi helmingshluta í húseigninni nr. 9 við Grundarstíg eigi kærandi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.  Augljóst sé að breytingarnar sem heimilaðar séu í byggingarleyfinu séu gerðar til að skapa aðstöðu fyrir tónleikahald og veitingarekstur inni í miðju íbúðarhverfi. 

Kærandi tekur fram að kæran sé svo seint fram komin af þeim sökum að byggingarleyfi séu ekki auglýst og því sé torsótt að fylgjast með hvenær slík leyfi séu veitt.  Þá hafi úrskurðarnefndin í svari sínu, dags. 16. janúar 2012, við fyrirspurn um móttöku kæru vegna deiliskipulags frá 12. desember 2011, er taki til umræddrar lóðar, upplýst að úrlausnar væri að vænta eftir sex mánuði og vildi kærandi því ekki flækja málið óþarflega með því að kæra væntanlegt byggingarleyfi að nauðsynjalausu.  Auk þess hafi eftirgrennslan kæranda um kæru deiliskipulagsins með tölvupóstum, dags. 7. júlí, 13. ágúst og 15. ágúst 2012 ekki borið árangur.  Ekki hafi orðið ljóst fyrr en með símtali við starfsmann nefndarinnar 28. ágúst 2012 að ekki væri von á úrskurði vegna kæru deiliskipulagsins á næstunni.  Kærandi búi erlendis og hafi því ekki átt kost á því að fylgjast með framkvæmdum að Grundarstíg 10 undanfarið hálft ár. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé allt of seint fram komin.  Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út hinn 14. mars 2012 og framkvæmdir hafist fljótlega, en úttekt á botni fyrir sökkul hafi farið fram 30. apríl 2012.  Hafi fjölmargar úttektir verið gerðar á byggingunni síðan.  Telja verði því að kæranda hafi fyrir löngu mátt vera kunnugt um framkvæmdirnar.  Breyti engu í því sambandi þó kærandi sé búsettur erlendis, mönnum sé alla jafna í lófa lagið að fylgjast með framkvæmdum með einum eða öðrum hætti þrátt fyrir búsetu annars staðar.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 og byggingarleyfið var gefið út 14. mars s.á.  Í máli þessu liggur fyrir úrtak úr færslubók þar sem fram kemur að úttekt fór fram 30. apríl s.á. á botnplötu viðbyggingar.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákörðun frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni um fjórum mánuðum eftir greint tímamark eða 3. september 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við um persónulegar ástæður á borð við ferðir eða dvöl aðila fjarri eigin fasteign.  Ber því að vísa  máli þessu frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

67/2011 Baughóll

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 67/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 10. ágúst 2011 um að veita leyfi til að byggja garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól, Húsavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. september 2011, er barst nefndinni 14. s.m., kærir O, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 10. ágúst 2011 að veita leyfi til að byggja garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól.  Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings hinn 8. júní 2011 var tekið fyrir erindi lóðarhafa Baughóls 33 frá 20. maí s.á. þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 7,2 m2 garðhýsi á lóðinni.  Fyrir lá útlits-  grunn og afstöðumynd af garðhýsinu.  Enn fremur lá fyrir samþykki allra nágranna nema lóðarhafa Baughóls 31C.  Var niðurstaða fundarins sú að nefndin fól byggingarfulltrúa að grenndarkynna erindið íbúum að Baughóli 31C.  Með bréfi, dags. 14. júní 2011, var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugaða framkvæmd, sem þeir og gerðu með bréfi, dags. 12. júlí s.á., þar sem lagst var gegn leyfi fyrir garðhýsinu.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 10. ágúst 2011 þar sem fallist var á byggingu garðhýsisins, enda yrði það að lágmarki 3 m frá lóðarmörkum gagnvart Baughóli 31C og gólfhæð þess að hámarki 15 cm yfir núverandi meðalyfirborðshæð jarðvegs á grunnstæði garðhýsisins.  Bæjarráð Norðurþings staðfesti þá afgreiðslu í umboði bæjarstjórnar hinn 11. s.m. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að garðhýsi það sem leyfishafi hafi sett upp í garði sínum hindri útsýni frá húsi kæranda og skerði þannig lífsgæði hans, sem hann hafi notið frá því hús hans hafi verið reist.  Hafi leyfishafi rætt við kæranda um fyrirhugaða byggingu umdeilds garðhýsis í nokkur ár og hafi kærandi boðið leyfishafa að setja upp grind með útlínum garðhýsisins þannig að hægt væri að sjá stærð og hæð hússins frá sjónarhóli kæranda.  Kærandi hafi talið að staðsetning og hæð hússins myndi hindra verulega sýn úr eldhúsi hans og að lækka þyrfti húsið um einn metra.  Leyfishafi hafi ekki tekið undir þá tillögu.  Hafi kærandi því lagst gegn fyrirhugaðri byggingu garðhýsisins. 

Málsrök Norðurþings:  Af hálfu Norðurþings er vísað til þess að þær óformlegu vinnureglur hafi verið viðhafðar í Norðurþingi til fjölda ára að líta ekki á garðhýsi undir 9 m2 sem byggingarleyfisskyld mannvirki enda séu þau sett niður í sátt við nágranna.  Slík hús hafi heldur ekki verið skráð í fasteignaskrá og ekki hafi verið krafist faggiltra teikninga vegna þeirra.  Mikið hafi verið reist af slíkum mannvirkjum á Húsavík á undanförnum árum og fæst þeirra hafi komið til umfjöllunar hjá sveitarfélaginu.  Garðhýsið sem hér um ræði standi á ódeiliskipulögðu svæði og hafi leyfishafi nú þegar reist umdeilt garðhýsi.  Þar sem ljóst hafi verið að ekki yrði sátt um bygginguna af hálfu nágranna hafi erindi leyfishafa verið tekið til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hinn 8. júní 2011 og ákveðið að grenndarkynna umsóknina fyrir íbúum að Baughóli 31C. 

Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið að um væri að ræða 7,2 m2 lágreist garðhýsi en mesta hæð þess væri 2,7 m og að eðlilegt væri að lóðarhafi fengi leyfi til að byggja á sinni lóð ef það skerti ekki hagsmuni nágranna umtalsvert.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi skoðað aðstæður á byggingarstað og talið að húsið skerti aðeins óverulega útsýni af lóð kæranda enda húsið lágreist og lóðin að Baughóli 33 um einum metra lægri í landi en lóð kæranda auk þess sem gólfhæð húss kæranda væri um 40 cm yfir lóðarhæð.  Það útsýni sem kærendur missi sé fyrst og fremst útsýni yfir  gróður garða nágranna sinna. 

Andmæli leyfishafa:  Af hálfu leyfishafa er farið fram á að leyfið haldi gildi sínu.  Umrætt garðhýsi standi 3 m frá lóðamörkum.  Garðhýsið skerði ekkert útsýni yfir flóann né niður í bæ heldur einungis lítilsháttar á lóðir tveggja húsa handan götunnar.  Þá sé lóð leyfishafa u.þ.b. einum metra lægri en lóð kæranda auk þess sem gólfhæð húss kæranda sé um 40 cm yfir lóðarhæð. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfi fyrir 7,2 m2 garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól.  Garðhýsið er lítið og lágreist og er staðsett um þrjá metra frá mörkum lóða kæranda og leyfishafa.  Verður að telja að garðhýsið hafi það óveruleg grenndaráhrif gagnvart kæranda að ekki komi til álita að hnekkja hinni kærðu ákvörðun af þeim sökum en aðrar ástæður liggja ekki fyrir í máli þessu sem leitt geti til ógildingar hennar.  

Þykir hér rétt að geta þess að í g-lið gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem tók gildi 8. febrúar 2012, eru tiltekin smáhýsi á lóðum, að hámarki tíu fermetrar að stærð, undanþegin byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 10. ágúst 2011 um að leyfa garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól, Húsavík. 

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

41/2012 Hafnargata Keflavík

Með

Árið 2013, föstudaginn 11. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 41/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 9. maí 2012, kæra D og H fh., Dannhafs ehf., Mávabraut 12b, Reykjanesbæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 18. apríl 2012 að hafna veitingu starfsleyfis til handa kæranda til reksturs veitingarstaðar að Hafnargötu 28 í Keflavík.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 11. júní 2012. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 29. mars 2012, barst heilbrigðiseftirliti Suðurnesja erindi frá Sýslumanninum í Keflavík þar sem óskað var eftir umsögn vegna umsóknar kæranda um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald til að fá að reka veitingastað í flokki III að Hafnargötu 28, Keflavík.  Í þeim flokki eru umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á aukið eftirlit og/eða löggæslu, sbr. 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga.  Kærandi sendi síðan inn umsókn, dags. 18. apríl 2012, um starfsleyfi til að reka pöbb/sportbar með lágværri tónlist og á fundi heilbrigðisnefndar sama dag var umsókninni hafnað.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi bendir á að umdeild umsókn hans hafi ekki lotið að rekstri hefðbundins skemmtistaðar þar sem leikin sé hávær tónlist.  Einungis væri fyrirhugað að starfrækja í húsnæðinu kaffihús á daginn og krá á kvöldin þar sem sýndir yrðu íþróttaviðburðir.  Margar slíkar sýningar séu eftir miðnætti og sé það ástæða þess að sótt sé um veitingaleyfi í þriðja flokki.  Að Hafnargötu 28 hafi verið reknir um árabil skemmtistaðir þar sem hámarksfjöldi gesta hafi verið 150 manns ásamt því að leikin hafi verið hávær tónlist.  Rök heilbrigðiseftirlitsins og heilbrigðisnefndarinnar eigi ekki við þar sem ekki verði opnaður skemmtistaður í húsnæðinu og hámarksfjöldi gesta verði 50 manns.  Forsvarsmenn kæranda hafi gengið í hús við Klapparstíg og rætt við íbúa varðandi framtíðarrekstur staðarins og hafi þeim litist vel á.

Af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er þess krafist að kærunni verði vísað frá varðandi þá ákvörðun að hafna umsókn um veitingaleyfi í flokki III.  Leyfisveitingin sé í höndum sýslumanns sem beri að afla umsagna ýmissa stofnana þ.á m. heilbrigðisnefnda.  Ákvarðanir sýslumanns að þessu leyti verði bornar undir innanríkisráðuneytið, sbr. kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007 vegna ákvarðana sýslumanns en eigi ekki undir úrskurðarnefndina.  Hvað ákvörðunina um synjun starfsleyfis varði sé bent á að reynslan hafi sýnt að með rekstri skemmtistaðar á umræddum stað hafi hljóðstig við útvegg íbúðarhúss í nágrenninu farið yfir þau mörk sem sett séu í reglugerð nr. 724/2008.  Húsið að Hafnargötu 28 hafi verið byggt árið 1942 og sé efri hæð hússins skráð sem skrifstofuhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár.  Við byggingu og frágang hússins hafi ekki verið hugað sérstaklega að hljóðvist eða verið gerðar sérstakar endurbætur á húsnæðinu til að koma í veg fyrir hljóðmengun frá starfsemi þar sem slíkrar mengunar sé að vænta.  Fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða sem fylgt hafi skemmtanarekstri í húsinu um árabil og þá sérstaklega að næturlagi.

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin til endurskoðunar af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og kæranda tilkynnt í bréfi, dags. 7. júní 2012, um veitingu starfsleyfis til veitingarekstrar að Hafnargötu 28 í Keflavík með fyrirvara um samþykki heilbrigðisnefndar.  Jafnframt var upplýst í bréfinu að embættið hygðist senda sýslumanni jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis í flokki II fyrir umræddan stað í tilefni af breyttri umsókn kæranda þar um.  Ennfremur liggja nú fyrir upplýsingar um að kærandi sé hættur veitingarekstri að Hafnargötu 28.

Af framangreindum ástæðum á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

76/2012 Löður

Með

Árið 2012, mánudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2012, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 25. júní 2012 um að endurnýja starfsleyfi bílaþvottastöðvar að Reykjavíkurvegi 54, Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra húsfélagið að Flatahrauni 1, G, Flatahrauni 1, húsfélagið að Reykjavíkurvegi 52 a og b, Hafnarfirði, og Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 25. júní 2012 að endurnýja starfsleyfi til handa Bílaþvottastöðinni Löðri ehf. að Reykjavíkurvegi 54. 

Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða starfsleyfi verði fellt úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogsvæðis hinn 1. og 30. ágúst 2012. 

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að allt frá árinu 2004 hefur verið rekin bílaþvottastöð að Reykjavíkurvegi 54.  Hinn 11. nóvember 2004 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku deiliskipulags Reykjavíkurvegar 50-52 og Flatahrauns 1 þar sem gert var ráð fyrir tveimur íbúðarlóðum fyrir fjölbýlishús og jafnframt felld úr gildi breyting á deiliskipulagi ,,Iðnaðarhverfis austan Reykjavíkurvegar“.  Á grundvelli deiliskipulagsins reis svo á árunum 2006 og 2007 íbúðarhús á móts við bílaþvottastöðina.  Í kjölfar þess fóru að berast kvartanir frá íbúum þessara húsa vegna hávaða og mengunar.  Vegna þeirra kvartana ákváðu heilbrigðiseftirlit svæðisins og forsvarsmenn bílaþvottastöðvarinnar að ryksugur stöðvarinnar yrðu ekki aðgengilegar frá kl 23:00 til 07:00, og að leitað yrði leiða til að deyfa hljóð frá þrýstilofti í sjálfvirkri þvottastöð.   Hinn 26. mars 2011 rann starfsleyfi stöðvarinnar út. 

Á fundi heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hinn 26. september 2011 var lögð fram umsókn bílaþvottastöðvarinnar, dags. 24. ágúst 2011, um endurnýjun starfsleyfis og kom þar fram að af hálfu bílaþvottastöðvarinnar hefði verið gripið til aðgerða til að minnka hljóðstyrk eins og kostur væri frá sjálfvirku þvottastöðinni, og tímarofar settir á ryksugur þannig að slökkt væri á þeim frá kl. 23 til 7.  Einnig var tekið fram að til greina kæmi af hálfu stöðvarinnar að taka þátt í kostnaði með lóðareigendum og íbúum við að reisa girðingu í stað eldri girðingar sem hefði verið fjarlægð.  Á fundinum kom fram að fyrir lægju kvörtunarbréf frá nágrönnum og minnisblað ráðgefandi verkfræðistofu um málefni stöðvarinnar.  Með vísan til ákvæða mengunarvarnareglugerðar var afgreiðslu málsins frestað þar sem ekki lægju fyrir fullnægjandi upplýsingar fyrir auglýsingu starfsleyfisins. 

Með bréfi heilbrigðisfulltrúa, dags. 30. september 2011, var bílaþvottastöðinni veittur frestur til tveggja vikna, með vísan til 10. og 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, til að láta framkvæma hávaðamælingar á lóðarmörkum þegar full starfsemi færi fram í stöðinni, leggja fram samþykktar teikningar af húsnæði stöðvarinnar og staðfestingu húseiganda um að hann hefði verið upplýstur um að áframhaldandi rekstur bílaþvottastöðvar kynni að vera í uppnámi vegna álags sem reksturinn ylli í sínu nærumhverfi.  Bílaþvottastöðin óskaði eftir fresti til að skila inn umbeðnum gögnum og í kjölfar fundar heilbrigðisnefndarinnar 24. október 2011 var veittur frestur til 15. nóvember s.á. 

Í minnisblaði vegna hljóðmælinga, dags. 11. nóvember 2011, kemur fram að hljóðstig frá stöðinni utan við glugga íbúða að Flatahrauni 1 hafi reynst töluvert yfir þeim mörkum sem skilgreind séu í reglugerð um hávaða.  Mælingar utan við norðurhlið stöðvarinnar, þar sem hurð sé lokuð á meðan á þvotti standi, bendi til þess að mögulegt sé að uppfylla skilyrði reglugerðar á milli kl. 7-23 með uppsetningu sambærilegrar hurðar sunnanmegin.  Til að bílaþvottastöðin uppfylli næturgildi reglugerðarinnar frá kl. 23-7 þurfi að auki að gera a.m.k. annað af tvennu, loka stöðinni í sex klukkustundir yfir nóttina eða reisa skermandi vegg á lóðarmörkum við Flatahraun.  Mælt var með að hvort tveggja yrði gert. 

Starfsleyfisumsóknin ásamt framangreindu minnisblaði var tekin fyrir á ný á fundi heilbrigðisnefndarinnar hinn 21. nóvember 2011 og var málinu frestað þar sem ekki þóttu liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar. 

Á fundi heilbrigðisnefndar 27. febrúar 2012 var tekið fyrir erindi bílaþvottastöðvarinnar þar sem óskað var eftir frestun á afgreiðslu starfsleyfisumsóknarinnar frá 24. ágúst 2011, þar sem framkvæmdir við úrbætur stæðu yfir og gripið hefði verið til tímabundinna mótvægisaðgerða vegna kvartana nágranna.  Á fundinum kom fram að nefndin teldi að ekki hefði verið sýnt fram á að hávaði frá búnaði væri innan viðmiðunarmarka og yrði umsækjandi að bregðast við því og veita fullnægjandi upplýsingar vegna starfsleyfisumsóknarinnar fyrir 15. mars 2012. 

Hinn 3. apríl 2012 var á fundi heilbrigðisnefndar lögð fram ný umsókn um endurnýjun starfsleyfis bílaþvottastöðvarinnar, dags. 23. mars s.á., þar sem gert var ráð fyrir að opnunartími yrði á milli kl. 7 og 23.  Í greinargerð með umsókninni kemur fram að umsækjandi hafi þegar lokað sjálfvirku þvottastöðinni á nóttinni og ryksugur á lóðarmörkum séu aftengdar frá kl. 23 til 7.  Uppsetning hurðar fyrir sjálfvirku stöðina hafi tafist en gert sé ráð fyrir að því verki ljúki fyrir 15. apríl 2012.  Á fundinum var m.a. lagt fram nýtt minnisblað, dags. 9. mars 2012, um hljóðmælingar við samskonar stöð sem fyrirtækið reki í Mosfellsbæ, en þar sé lokað báðum megin með hurð.  Samþykkt var að auglýsa tillögu að starfsleyfi og á kynningartíma bárust athugsemdir frá kærendum þar sem mótmælt var útgáfu starfsleyfis. 

Í drögum að starfsleyfi var gert ráð fyrir rekstri sjálfvirkrar bílaþvottastöðvar ásamt þvottastöð til fjögurra ára og voru þar m.a. settar fram kröfur um að umsækjandi skyldi láta viðurkenndan aðila framkvæma hávaðamælingu í samráði við heilbrigðiseftirlitið.  Ef þá kæmi í ljós að kröfur reglugerðar nr. 724/2012 um hávaða væru ekki uppfylltar bæri að auka hljóðvarnir við lóðarmörk.  Auk þess voru settar sértækar kröfur um mengunarvarnir vegna nálægðar við íbúðarhúsnæði.  Rekstur yrði heimill frá kl. 7 að morgni til 23 að kvöldi á virkum dögum og frá kl. 8 til 23 um helgar og á lögskipuðum frídögum.  Gert var ráð fyrir að leyfið yrði ekki gefið út fyrr en búið væri að koma fyrir hurðum báðum megin á sjálfvirku stöðinni og óheimilt yrði að hafa kveikt á ryksugum eftir kl. 20 nema þær yrðu staðsettar norðan við stöðina eða skermaðar af frá nærliggjandi lóð og kröfum um hljóðvist við lóðarmörk yrði fullnægt. 

Heilbrigðisnefnd samþykkti starfsleyfi fyrir bílaþvottastöðina til fjögurra ára á fundi hinn 25. júní 2012, með vísan til þess að með kröfum í starfsleyfi ætti að vera tryggður réttur íbúa í nærliggjandi fjölbýlishúsi m.t.t. mengunarvarna.  Sá fyrirvari var settur að starfsleyfið skyldi endurskoðað að ári liðnu.  Athugasemdum sem borist höfðu á athugasemdafresti var svarað með bréfi, dags. 28. júní 2012. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á það bent að vegna eiturefnamengunar frá starfsemi bílaþvottastöðvarinnar sé lífi og heilsu íbúa fjölbýlishúsanna að Flatahrauni 1 og Reykjavíkurvegi 52 a og b stefnt í voða.  Efni sem innihaldi lífræn leysiefni geti borist í líkamann við síendurtekna eða langvarandi snertingu við húð og við innöndun eða inntöku.  Þá geti lífræn leysiefni valdið skaða á nýrum, lifur og miðtaugakerfi, en einkenni þess geti m.a. verið höfuðverkur, svimi, þreyta, vöðvaverkir og sljóleiki.  Sé um mjög mikið magn að ræða geti það leitt til meðvitundarleysis.  Öllum tilraunum yfirvalda til framlengingar á starfsleyfi umræddrar bílaþvottastöðvar að Reykjavíkurvegi 54 sé mótmælt vegna eitur- og hávaðamengunar. 

Málsrök Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis:  Af hálfu heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er þess krafist að hafnað verði kröfum kærenda. 

Heilbrigðisnefndin bendir á að í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sé gert ráð fyrir að starfsleyfi sé gefið út til ákveðins tíma.  Kvartanir vegna bílaþvottastöðvarinnar hafi verið skoðaðar og metnar vandlega og telji nefndin að með kröfum í starfsleyfi eigi að vera tryggður réttur íbúa í nærliggjandi fjölbýlishúsi m.t.t. mengunarvarna vegna starfseminnar. 

Bón- og bílaþvottastöðvar séu tilteknar í fylgiskjali með auglýsingu umhverfisráðuneytisins nr. 582/2000 yfir mengandi starfsemi þar sem ekki sé krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar.  Heilbrigðisnefndin hafi ákveðið, með vísun til ákvæða gr. 7.4 í reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, að auglýsa tillögu að starfsleyfi.  Að baki þeirri ákvörðun hafi legið þau sjónarmið að kvartanir hafi átt við rök að styðjast og að ítrekuðum kröfum um úrbætur hafi ekki verið sinnt sem skyldi.  Farið hafi verið að ákvæðum 24. og 25. gr. reglugerðar nr. 785/1999 við auglýsingu og útgáfu starfsleyfisins. 

Heilbrigðisnefndinni beri að vinna samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en í 3. gr. þeirra laga sé mengunarvarnaeftirlit og mengun skilgreind.  Í 5. gr. laganna sé kveðið á um að til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits setji ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft geti í för með sér mengun, þar á meðal ákvæði um staðsetningu, viðmiðunarmörk, mengunarvarnir í einstökum atvinnugreinum, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar.

Um starfsleyfi bílaþvottastöðvarinnar hafi verið fjallað með vísun til ákvæða reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Starfsemin sé starfsleyfisskyld skv. tl. 7.12 í fylgiskjali 2 með reglugerðinni.  Þar komi fram að bón- og bílaþvottastöðvar séu í eftirlitsflokki 4.  Samkvæmt ákvæðum 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit sé meðaltíðni eftirlits hjá slíkri starfsemi á tveggja ára fresti. 

Mat heilbrigðisnefndar fyrir auglýsingu starfsleyfis bílaþvottastöðvarinnar hafi verið að hávaði frá búnaði tengdum starfseminni væri að valda umtalsverðu ónæði í nærliggjandi íbúðarhúsnæði.  Samræmd starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga fyrir sjálfvirkar bón- og bílaþvottastöðvar liggi fyrir.  Starfsleyfisskilyrði séu útgefin af Umhverfisstofnun 27. ágúst 2003 og fjalli þau um starfsemi sem sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar og gildandi skipulag.  Þau skilyrði eigi við í máli þessu. 

Heilbrigðisnefndin telji aðstæður kalla á meiri kröfur um mengunarvarnir og mótvægisaðgerðir en almennt gerist þar sem nábýli íbúðarhúsnæðis og atvinnustarfsemi sé ekki eins mikið.  Nefndin hafi því nýtt heimildarákvæði 2. mgr. 2. gr. auglýsingar nr. 582/2000 til að setja sértæk skilyrði í starfsleyfið.  Af hálfu umsækjanda hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þau skilyrði.  Eftir yfirferð athugasemda nágranna sem fram hafi komið við auglýsingu hafi það verið mat heilbrigðisnefndarinnar að leyfishafi eigi að geta uppfyllt kröfur laga og reglugerða fyrir starfseminni en settur hafi verið fyrirvari í starfsleyfið um endurskoðun starfsreglna eftir eitt ár.  Heilbrigðisnefndin hafi rökstutt ákvörðun sína í erindi til kærenda, dags. 28. júní 2012, og hafi m.a. vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Með kröfum í starfsleyfi og fyrirvara um endurskoðun skilyrða eftir eitt ár sé brugðist við því ónæði sem fylgi hávaða frá vélbúnaði.  Uppfylli fyrirtækið ekki umræddar kröfur beri heilbrigðisnefndinni eftir atvikum að grípa til þvingunarúrræða laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ekki sé fallist á að starfsemi bílaþvottastöðvarinnar skapi almannahættu, en ljóst sé að nánd atvinnurekstrar og íbúðarhúsnæðis, eins og í máli þessu, geti valdið árekstrum.  Í samræmdum skilyrðum Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna, sem byggi á heimild í 2. gr. auglýsingar nr. 582/2000, séu ákvæði sem tryggja eigi fullnægjandi mengunarvarnir við bílaþvottastöðvar.  Heilbrigðisnefndin hafi talið aðstæður krefjast þess að nýtt væri heimild til að gera ítarlegri kröfur um mengunarvarnir.  Í starfsleyfinu sé gerð krafa um lokað rými þar sem þvottur með vélbúnaði fari fram.  Loftgæði hafi áhrif á heilsu fólks og loftgæði verði minni þar sem sé mikil umferð ökutækja sem noti jarðefnaeldsneyti.  Í kæru sé lögð áhersla á eituráhrif þvottaefna.  Öryggisblöð og öryggisleiðbeiningar sem fylgi vörum sem innihaldi hættuleg efni séu til upplýsingar og ætlað að vernda starfsfólk og notendur við nána snertingu eða innöndun.  Úði frá bílaþvottastöðinni sem borist geti yfir lóðamörk tengist fyrst og fremst þvotti á bílum sem þvegnir séu á vélrænan hátt og blásurum sem honum fylgi.  Krafa um lokað rými við þann þátt starfseminnar sé ætlað að koma í veg fyrir þá mengun. 

Málsrök leyfishafa:  Af hálfu leyfishafa er á það bent að frá árinu 2004 hafi hann rekið bílaþvottastöð að Reykjavíkurvegi 54 í Hafnarfirði samkvæmt leyfi frá hlutaðeigandi yfirvöldum.  Hús kærenda hafi hins vegar verið reist á árunum 2006 og 2007 eða nokkru síðar.  Kærendum hafi því verið kunnugt um starfsemi leyfishafa í nágrenninu þegar þeir hafi hafið þar búsetu. 

Líta verði til þess að heilbrigðisnefnd hafi talið að réttur kærenda yrði tryggður með kröfum í starfsleyfi um mengunarvarnir á lóð leyfishafa.  Sé gert ráð fyrir að starfsleyfið verði veitt til fjögurra ára með fyrirvara um endurskoðun starfsskilyrða eftir eitt ár.  Telji leyfishafi líkt og heilbrigðisnefndin að hagsmunir íbúa eigi þannig að verða tryggðir með fullnægjandi hætti. 

Þá megi geta þess að leyfishafi hafi boðist til að taka þátt í gerð veggjar sem skilji að starfsemi hans og nærliggjandi íbúðarhúsnæði, betur en áður. 

Niðurstaða:  Í 2. mgr. 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 kemur fram að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.  Í 13. gr. laganna er svo skýrt kveðið á um að heilbrigðisnefndir beri ábyrgð á því að ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir. 

Samkvæmt 1. gr. auglýsingar nr. 582/2000 um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar er heilbrigðisnefnd heimilt án ítarlegrar starfsleyfisgerðar að gefa út starfsleyfi fyrir rekstur sem falli undir starfsemi á meðfylgjandi lista.  Fylgiskjal með auglýsingunni er listi yfir fyrirtæki þar sem ekki er krafist ítalegrar starfsleyfisgerðar og þar eru m.a. í 7. tl. taldar upp bón- og þvottastöðvar undir starfsemi er snerti vélknúin farartæki.  Samkvæmt 3. gr. auglýsingar nr. 582/2000 skal beita tilteknum ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, eins og við eigi hverju sinni. 

Umdeildri bílaþvottastöð var veitt starfsleyfi í samræmi við 6. gr. laga nr. 7/1998, sbr. einnig 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999.  Í 3. gr. framangreindrar reglugerðar er hugtakið starfsleyfi skilgreint þannig að það sé ákvörðun viðkomandi heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins. 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 skal starfsleyfi gefið út til tiltekins tíma og skal endurskoða það að jafnaði á fjögurra ára fresti, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar  Sú skylda hvílir þá á útgefanda starfsleyfis að endurskoða leyfið ef mengun af völdum atvinnurekstrar sé meiri en búast hefði mátt við þegar leyfið var gefið út eða ef breytingar hafi orðið á bestu fáanlegu tækni sem geri það kleift að draga umtalsvert úr losun án óhóflegs kostnaðar, sbr. 21. gr. reglugerðarinnar. 

Umrædd starfsemi er á lóð sem er ætluð undir atvinnustarfsemi samkvæmt landnotkun gildandi aðalskipulags svæðisins og hafði bílaþvottastöðin verið starfrækt þar um nokkurt skeið áður en íbúðarhús kærenda voru tekin í notkun.  Hið kærða starfsleyfi er bundið ákveðnum skilyrðum sem miða að því að koma til móts við kvartanir nágranna um mengun og hávaða og í því er settur fyrirvari um endurskoðun skilyrða leyfisins að ári liðnu.  Verður að telja að þau skilyrði, séu til þess fallin að draga úr hávaða og mengun þannig að fullnægt verði ákvæðum reglugerðar um hávaða nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit. 

Með vísan til alls framangreinds þykja ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða starfsleyfis. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 25. júní 2012 um að endurnýja starfsleyfi bílaþvottastöðvar að Reykjavíkurvegi 54 í Hafnarfirði. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

115/2012 Bugavirkjun

Með

Árið 2012, föstudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 115/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2012, er barst nefndinni 31. sama mánaðar, kærir Björn Jónsson hrl., f.h. Leirárskóga ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit.  Með bréfi, dags. 15. nóvember 2012, kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar.  Mál það, sem er nr. 121 hjá úrskurðarnefndinni, sameinað máli þessu. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði á um að framkvæmdir sem hafnar séu við gerð Bugavirkjunar verði stöðvaðar til bráðabirgða.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik:  Málsatvikum verður aðeins lýst stuttlega í bráðbirgðaúrskurði þessum.  Málið á sér nokkurn aðdraganda en 15. júní 2011 sendu forsvarsmenn fyrirhugaðrar virkjunar í Bugalæk við Leirárgarða tilkynningu til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina.  Með ákvörðun, dags. 27. júlí 2011, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væri líklegt að virkjunin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Var sú ákvörðun ekki kærð.  Í kjölfarið var gerð breyting á deiliskipulagi fyrir jörðina Eystri-Leirárgarða þar sem gert er ráð fyrir virkjuninni.  Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. september 2012.  Skaut kærandi samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar hinn 22. október s.á. og er það mál til meðferðar  fyrir nefndinni. 

Á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar 23. október 2012 veitti sveitarstjórn framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Þá er einnig kært byggingarleyfi sem veitt var hinn 8. nóvember s.á. fyrir stíflu Bugavirkjunar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum á því að þær styðjist við deiliskipulag sem sé haldið ýmsum ógildingarannmörkum.  Vísar hann til kæru sinnar, dags. 22. október 2012, þar sem hann gerir kröfu um að deiliskipulagið verði fellt úr gildi vegna annmarka sem aðallega varði málsmeðferð við undirbúning þess.  Þannig hafi auglýsingum m.a. verið áfátt og brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda.  Þá hafi rannsóknarregla stjórnsýslulaga verið virt að vettugi og brotið hafi verið gegn lögmætisreglu og grunnreglu stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið.  Loks hafi verið brotið gegn ákvæðum vatnalaga og laga um mat á umhverfisáhrifum.  Framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum fari í bága við rétt kæranda og eigi sér stoð í skipulagi sem beri að ógilda.  Þar af leiði að stöðva beri framkvæmdir meðan kærumál vegna umrædds deiliskipulags og framkvæmda- og byggingarleyfis séu til meðferðar fyrir nefndinni. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Af hálfu Hvalfjarðarsveitar er því hafnað að stöðva beri framkvæmdir við Bugavirkjun að kröfu kæranda.  Ákvæði 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála mæli fyrir um viðsjárvert inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga, en það vald sé tíundað í skipulagslögum nr. 123/2010.  Um sé að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu sama ákvæðis að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sem kærð sé.  Túlka verði þessa heimild þröngt og megi ljóst vera að henni verði einvörðungu beitt af varfærni og við sérstakar aðstæður.  Áréttað skuli að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls og þaðan af síður að málsmeðferð sveitarstjórnar hafi verið slíkum annmörkum háð að samþykkt kærða sé ógildanleg.  Við beitingu þessa ákvæðis sé nærtækt að hafa til hliðsjónar skilyrði og sjónarmið er varði lögbann, sem sé eðlislíkt réttarúrræði og háð ströngum skilyrðum.

Svo sem fyrr greini séu hagsmunir kæranda af stöðvun framkvæmda ekki fyrir hendi öfugt við mikilsverða hagsmuni virkjunaraðila af framgangi verks.  Hafa skuli hugfast að röskun umhverfis vegna umræddra framkvæmda sé ekki metin óafturkræf.  Verði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda muni virkjunaraðili að öllum líkindum verða fyrir tjóni, m.a. vegna verktafa.  Áréttað skuli að hagsmunir kæranda séu tryggðir með skaðabótum, sé bótagrundvöllur fyrir hendi. 

Að öllu virtu sé ekkert fram komið sem leiði líkur að því að slíkir alvarlegir meinbugir hafi verið á málsmeðferð, hvorki almennri né gagnvart kæranda, sem geri það að verkum að samþykkt breyting á deiliskipulagi sé ógildanleg.

Málsrök Bugavirkjunar ehf:  Af hálfu Bugavirkjunar ehf. er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Telur félagið enga nauðsyn bera til að stöðva framkvæmdir á grundvelli útgefinna leyfa.  Ekkert óafturkræft rask hljótist af framkvæmdum við gerð stíflunnar.  Verði deiliskipulagið ógilt sé hægt að fjarlægja stífluna, veita vatni fram hjá henni eða einfaldlega í gegnum hana um botnloka þannig að Bugalækur haldi áfram að renna um farveg sinn eins og hann hafi hingað til gert.  Kjósi félagið að halda framkvæmdum áfram, þrátt fyrir kæru, sé það á þess ábyrgð og áhættu.  Í því sambandi sé minnt á að sjónræn áhrif vegna stíflunnar séu óveruleg samkvæmt niðurstöðu umhverfismatsskýrslu með deiliskipulagi, tilkynningu um framkvæmdina og niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Að auki sé bent á að afrennsli virkjunarinnar komi út í Leirá á ný stutt frá þeim stað sem lækurinn hafi áður runnið í hana. Í raun séu aðeins tveir veiðistaðir þar sem rennsli minnki vegna virkjunarinnar. 

Ákvörðun um stöðvun framkvæmda nú myndi hins vegar hafa mikil áhrif á framkvæmdina.  Ljóst sé að líkur á að það takist að ljúka gerð stíflunnar í vetur minnki sífellt eftir því sem lengra líði á.  Tíminn nú til framkvæmda við stífluna sé mjög mikilvægur fyrir félagið enda geti það ekki hafist handa á ný við gerð stíflunnar þegar komið sé fram á vor þar sem ekki verði hægt að vinna við stífluna eftir að fiskur taki að ganga í ána.  Hagsmunir kæranda af stöðvun framkvæmda séu hins vegar engir, a.m.k. hafi kærendur ekki gert grein fyrir í hverju þeir felist. 

—————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins. 

Niðurstaða:  Óumdeilt er að kærandi á land að Leirá og að umdeildar framkvæmdir munu hafa nokkur áhrif á rennsli árinnar fyrir landi hans.  Verður því fallist á að hann eigi lögvarða hagsmuni í málinu og geti því borið undir úrskurðarnefndina þær ákvarðanir sem liggja til grundvallar hinum umdeildu framkvæmdum.  Liggur m.a. fyrir að skera úr um álitaefni er varða breytt deiliskipulag Eystri-Leirárgarða og um lögmæti framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Meðal þeirra framkvæmda sem tengjast Bugavirkjun er gerð miðlunarlóns, sem verða mun um 1,5 ha að flatarmál.  Er gerð slíks lóns háð sérstöku leyfi Orkustofnunar skv. 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923, með síðari breytingum, en Bugavirkjun er ekki háð virkjunarleyfi skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003.  Ekki liggur fyrir leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar Bugavirkjunar samkvæmt tilvitnaðri 68. gr. vatnalaga og leikur því vafi á hvort fullnægt hafi verið lagaskilyrðum til að veita mætti leyfi til framkvæmda við mannvirkjagerð, sem m.a. felur í sér gerð umrædds miðlunarlóns.  Þykir af þessum sökum svo mikill vafi leika á um lögmæti þeirra ákvarðana sem kærðar eru í máli þessu að rétt sé að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Framkvæmdir við Bugavirkjun í Hvalfjarðarsveit skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

108/2008 Tjarnargata

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 4. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 108/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 við Tjarnargötu

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2008, er barst nefndinni 1. desember s.á., kærir Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl., f.h. H, Suðurgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2008 að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 að Tjarnargötu í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 23. s.m. 

Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krafðist kærandi þess að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar yrðu stöðvaðar.  Þegar úrskurðarnefndin fékk upplýsingar um framvindu framkvæmda eftir að þær hófust voru þær vel á veg komnar og í ljósi þess, og með hliðsjón af því að hluti heimilaðra viðbygginga eru glerbyggingar sem auðvelt væri að fjarlægja ef til þess kæmi, þótti að svo komnu ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.   Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. apríl 2008 var lögð fram umsókn framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi Tjarnarbíós að Tjarnargötu 12 og fyrir tveggja hæða steinsteyptri inngangsbyggingu, með glerþaki að hluta sem lægi að húsi nr. 10d við Tjarnargötu, glerskála í miðhluta ports, með kaffibar, ásamt breikkun hússins Suðurgötumegin til samræmis við Suðurgötu 15.  Þá var sótt um leyfi fyrir stækkun lóðar hússins.  Var afgreiðslu málsins frestað.  Að lokinni umfjöllun um málið á nokkrum fundum skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa var samþykkt að vísa málinu í grenndarkynningu.  Umsóknin var grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum að Tjarnargötu 10d og Suðurgötu 15 og bárust athugasemdir m.a. frá kæranda.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 15. ágúst 2008 var lögð fram umsögn um brunatæknilegar lausnir, dags. 14. ágúst 2008, og umsögn, dags. 2. júlí s.á., varðandi hönnun loftræsikerfis.  Breytingar voru gerðar á teikningunum þar sem m.a. voru felldar út svalir á þaki anddyrisbyggingar ásamt því að frambyggt stigahús við inngang var fellt út og stigi færður inn.  Þá var gert ráð fyrir aðgengi slökkviliðs að bakgarði fjölbýlishúsa inn í miðju skálans.  Hætt var við stækkun lóðar. 

Umsókn um téðar byggingarframkvæmdir var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. október 2008, en þar lágu m.a. fyrir niðurstöður forhönnunar brunavarna frá því í september s.á.  Var í ákvörðuninni tekið fram að frágangur á lóðamörkum yrði í samráði við rétthafa aðliggjandi lóða og að þinglýst yrði kvöð um bann við umferð annarra en slökkviliðs um dyr inn í portið að baki hússins.  Fól hin kærða samþykkt í sér stækkun 1. hæðar hússins um 140,3 m², 2. hæðar um 72,3 m² og 3. hæðar um 47,8 m², eða samtals 260,4 m². 

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar þeim rökum að umræddar breytingar feli í sér brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar og annarra reglna um brunavarnir.  Verði með óafturkræfum hætti lokað fyrir aðkomu að porti milli húsa við Tjarnargötu og Suðurgötu.  Verulegar athugasemdir hafi verið gerðar á sínum tíma af hálfu eldvarnareftirlits við að umræddum inngangi inn í portið yrði lokað með steinvegg og þess hafi verið krafist að þar yrði léttur opnanlegur tréveggur til að tryggja aðkomu slökkviliðs og körfubíla inn í portið.  Nú hafi hins vegar verið samþykkt að loka varanlega fyrir þennan inngang.  Samkvæmt skýrum ákvæðum b-liðar 1. mgr. gr. 137.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli öll húsaskipan og aðgengi fyrir björgunarmenn vera með þeim hætti að aðstaða til björgunar sé sem auðveldust.  Þá sé í gr. 158.2 í sömu reglugerð gert ráð fyrir að flóttaleiðir og aðgengi að þeim skuli vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar.  Með því að loka algerlega fyrir aðkomu slökkviliðs- og körfubíla inn í portið milli húss kæranda og húsanna Tjarnargötumegin verði flóttaleiðir úr húsunum skertar verulega og möguleikar takmarkaðir á björgun fólks af efri hæðum ef til eldsvoða komi.  Þá virðist ekki hafa farið fram nein sérstök úttekt á þessum þætti málsins eða athugasemdum kæranda í þessa veru.  Sé því ljóst að ekki hafi verið sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Því beri að fella ákvörðunina úr gildi samkvæmt grunnreglum stjórnsýslulaga. 

Hið kærða byggingarleyfi heimili að reistar verði viðbyggingar sem hvort tveggja séu sambyggðar og áfastar Tjarnargötu 10d og Suðurgötu 15 og sé slíkt óheimilt án samþykkis eigenda umræddra húsa.  Styðjist það m.a. við ákvæði 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og meginreglur um grenndarrétt.  Fyrir liggi að ekkert slíkt samþykki hafi verið veitt fyrir breytingunum og teljist þær því ólögmætar. 

Nefnd ákvörðun sé auk þess haldin þeim annmarka að skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar hafi verið vanhæft til að fjalla um umsókn byggingarleyfishafa.  Báðir aðilar séu hluti af stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og starfi á ábyrgð borgarstjórnar, sem hafi endanlegt ákvörðunarvald varðandi málefni beggja.  Við afgreiðslu málsins sé stjórnvald því að fjalla um eigin umsókn um byggingarleyfi.  Fari sú málsmeðferð í bága við 1., 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.  Jafnframt sé vísað til ólögfestra hæfisreglna stjórnsýsluréttar þessu til stuðnings og bent á að útilokað verði að telja að leyfisveitandi geti litið óhlutdrægt á eigin umsókn, sem varði verulega hagsmuni, og tekið hlutlausa afstöðu til mótmæla kæranda. 

Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda um stækkun lóðar Tjarnargötu 12 vegna fyrirhugaðra breytinga og kærandi hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir þeirri stækkun.  Hins vegar virðist byggt á því að samþykki hafi legið fyrir og því sé ákvörðunin ólögmæt. 

Með ákvörðuninni sé einnig brotið gegn lögvörðum grenndarrétti kæranda.  Gert sé ráð fyrir að inni í portinu verði byggt glerhýsi sem nýtt verði undir veitingarekstur með tilheyrandi hávaða og ónæði fyrir íbúa nærliggjandi húsa.  Augljóst sé að slíkur rekstur myndi hafa veruleg óþægindi í för með sér fyrir kæranda, þar sem hljóðeinangrun í slíku glerhýsi yrði lítil sem engin, auk þess sem hávaði myndi magnast upp inni í portinu vegna bergmáls.  Breytingunum fylgi verulegt rask fyrir kæranda og fyrirsjáanlega verðrýrnun á fasteign hennar.  Samkvæmt teikningum sé gert ráð fyrir vélbúnaði fyrir loftræstingu á annarri hæð byggingar við hlið Suðurgötu 15, með tilheyrandi hávaða og ónæði fyrir íbúa nærliggjandi íbúða.  Umræddur búnaður verði væntanlega í notkun á kvöldin og um helgar, eða á starfstíma Tjarnarbíós.  Það sé óásættanlegt fyrir kæranda og veruleg röskun á heimilisfriði og friðhelgi einkalífs.  Þá muni tveggja hæða bygging við mynni húsasunds milli Tjarnargötu 12 og Tjarnargötu 10d valda verulegu skuggavarpi inn í portið sem skerði notkunarmöguleika þess. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að gögn málsins beri með sér að hönnunargögn, og þar með talin brunatæknileg úttekt í tilefni af umdeildri leyfisveitingu, hafi verið samþykkt af forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins með áritun þar um.  Þá þurfi ekki samþykki  lóðarhafa aðliggjandi lóða  fyrir breytingunum en samkvæmt bókun byggingarfulltrúa beri að hafa samráð við þá um frágang á lóðamörkum. 

Reykjavíkurborg telji málsástæðu kæranda um vanhæfi fráleita og bendi á að engin ákvæði sé að finna í lögum um sérmeðferð skipulags- og byggingarmála vegna þeirra fasteigna og/eða lóða sem séu í eigu sveitarfélaga. 

Vísað sé til meðfylgjandi gagna og umsagna vegna brunatæknilegra atriða og hljóðvistar.  Bent sé á að frá fyrstu umsókn um breytingar á Tjarnargötu 12 hafi m.a. verið horfið frá því að byggja stigahús út fyrir núverandi lóðamarkalínu.  Aðkoma að baklóðum milli Tjarnargötu og Suðurgötu verði um port frá Vonarstræti og settar verði tvíbreiðar dyr á glerskála Tjarnarbíós sem aðkomuleið fyrir slökkvilið að baklóðum.  Samkvæmt brunahönnun verði dyrnar hvorki skilgreindar né notaðar sem flóttaleið frá Tjarnarbíói.  Núverandi bygging, sem sé tveggja hæða með timburþaki og liggi að Suðurgötu 15, verði rifin.  Þar verði í staðinn byggð tveggja hæða bygging með risþaki sem verði stærri að grunnfleti.  Nýjar byggingar muni liggja upp að húsunum Tjarnargötu 10d og Suðurgötu 15 en verði hvorki sambyggðar né áfastar eins og haldið sé fram í kærunni.  Vélbúnaður fyrir loftræsikerfi verði áfram sá sami og notaður hafi verið í húsinu um árabil. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 21. október 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 við Tjarnargötu í Reykjavík.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag. 

Í 2. mgr. 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var sú meginregla sett að gera skyldi deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir væru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins var þó heimilað að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag.  Kusu borgaryfirvöld að neyta þeirrar undanþáguheimildar laganna og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina skv. 7. mgr. 43. gr. þeirra.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem sagði að fara skyldi með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag væri að ræða nema breytingar væru óverulegar. 

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún er í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar eru á nærliggjandi eignir.  Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er lóðin nr. 12 við Tjarnargötu 1.042 m² að flatarmáli en húsið 1.572,3 m².  Samkvæmt samþykktum byggingarleyfisteikningum er heimiluð stækkun hússins hins vegar 260,4  m².  Verður húsið því samtals 1.832,7 m² að flatarmáli eftir stækkun og nýtingarhlutfall lóðarinnar því 1,76.  Nýtingarhlutfall nágrannalóðanna að Suðurgötu 15 og Tjarnargötu 10d er 2,0 og 2,3. 

Þegar litið er til þess að um er að ræða þétta byggð á miðborgarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi, að heimiluð stækkun umrædds húss felur ekki í sér hækkun þess eða að nýtingarhlutfall lóðar verði hærra en gerist og gengur á svæðinu og heimilaðri notkun er ekki breytt, verður hin umrædda breyting að teljast óveruleg.  Var skipulagsyfirvöldum því heimilt að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Af sömu ástæðum verða grenndaráhrif heimilaðra breytinga ekki slík að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Skipulags- og byggingaryfirvöldum sveitarfélaga er falið lögum samkvæmt að fara með skipulags- og byggingarmál og taka ákvarðanir á þeim sviðum, s.s. með því að taka afstöðu til byggingarleyfisumsókna.  Er það ekki á færi annarra stjórnvalda að taka slíkar ákvarðanir og gæta þeirra opinberu hagsmuna sem m.a. þarf að líta til við töku ákvarðana.  Vanhæfisreglur stjórnsýslunnar fjalla um sérstakt hæfi einstaklinga, í ljósi persónulegra hagsmuna eða tengsla, sem í krafti starfs síns eða embættis í opinberri stjórnsýslu koma að meðferð máls og töku ákvarðana.  Þær reglur lúta ekki að hæfi stjórnvalds til að sinna þeim skyldum sem þeim er ætlað lögum samkvæmt.  Kemur því ekki til álita að ógilda hina kærðu ákvörðun á grundvelli reglna um vanhæfi. 

Fyrir liggur í málinu umsögn um brunatæknilegar lausnir, dags. 14. ágúst 2008, vegna umdeildra framkvæmda og niðurstöður forhönnunar brunavarna frá september 2008, þar sem fram kemur að aðgangur að baklóðum verði áfram um port frá Vonarstræti og settar verði tvíbreiðar dyr á glerskála Tjarnarbíós sem aðkomuleið fyrir slökkvilið að baklóðum.  Í greindri umsögn kemur fram að fyrirhugaðar framkvæmdir við endurgerð og viðbyggingu komi ekki til með að hafa neikvæð áhrif á aðstöðu slökkviliðs til björgunar- og slökkvistarfa, enda verði áfram möguleikar á aðkomu slökkviliðs að baklóðunum úr tveimur áttum.  Brunatæknileg úttekt á erindinu var samþykkt af forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  Af þessu verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið ákvæða laga og reglugerða um brunavarnir við hönnun umdeildra breytinga og leitað til þar til bærra aðila í þeim efnum.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að byggingarefni umdeildra viðbygginga og hönnun hafi uppfyllt kröfur þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um hljóðvist.  Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka.    

Samkvæmt samþykktum teikningum liggja heimilaðar viðbyggingar við Tjarnargötu 12 að húsi kæranda á lóðamörkum.  Fasteignirnar standa hvor á sinni lóð og teljast því sjálfstæðar fasteignir í skilningi 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Af þeim sökum áskilja nefnd lög ekki samþykki kæranda þótt byggt sé að lóðarmörkum hans og ekki er að finna reglu á öðrum réttarsviðum sem áskilur samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar vegna mannvirkjagerðar að lóðarmörkum.  Samþykki kæranda var því ekki skilyrði þess að umdeilt byggingarleyfi var veitt. 

Varðandi athugasemdir kæranda um að ekkert samráð hafi verið haft vegna stækkunar lóðarinnar er rétt að benda á að fallið var frá þeim áformum. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 við Tjarnargötu. 

________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

42/2010 Sölvaslóð

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 22. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2010, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. maí 2010 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa í Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júní 2010, er barst nefndinni 23. s.m., kærir E, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 4. maí 2010 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 119,8 m² sumarhúsi að Sölvaslóð 1 á Arnarstapa.  Með bréfi er barst úrskurðarnefndinni hinn 30. júní 2010 vísar kærandi til nefndarinnar synjun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 4. maí 2010 á nýrri umsókn um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi á sömu lóð og verður að líta svo á að það sé sú ákvörðun sem sé til umfjöllunar í málinu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Forsaga þessa máls er að kærandi átti sumarhús á lóðinni Sölvaslóð 1 á  Arnastapa en það brann árið 2009.  Í kjölfar þess óskaði kærandi eftir að fá að byggja á ný sumarhús á lóðinni.  Frá þeim tíma hefur kærandi sótt nokkrum sinnum um byggingarleyfi fyrir nýju sumarhúsi.

Hinn 4. maí 2010 var erindi kæranda um byggingarleyfi fyrir 119,8 m² sumarhúsi á lóðinni tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar og því synjað með ítarlegri bókun.  Kærandi sótti að nýju um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi á lóðinni.  Á fundi  umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 25. maí 2010 var þeirri umsókn einnig synjað þar sem teikningar væru hvorki í samræmi við gildandi deiliskipulag né deiliskipulag sem væri í vinnslu, en jafnframt vísaði nefndin til fyrri bókunar frá 4. maí 2010.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að nefndarmenn hafi verið vanhæfir skv. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna starfa sinna og hagsmuna þar að lútandi.  Kærandi hafi ekki notið andmælaréttar skv. 13. gr. sömu laga auk þess sem meðalhófsregla 12. gr. hafi verið brotin þegar framkvæmdir hans á lóðinni hafi verið stöðvaðar hinn 11. desember 2009.  Þá hafi jafnræðisregla 11. gr. umræddra laga verið brotin við meðferð málsins, en á svæðinu séu 60-70 sumarhús og í 20-30 tilvikum hafi Snæfellsbær heimilað lóðarhöfum að stækka hús sín umfram reglur. 

Með bókun nefndarinnar frá 4. maí 2010 hafi nefndin farið að blanda saman gömlu og nýju deiliskipulagi, en þar komi einnig fram að nýtingarhlutfall hafi verið ákveðið 0,03 fyrir frístundalóðir á svæðinu í aðalskipulagi frá árinu 2002.  Einnig komi fram í bókuninni að þær framkvæmdir sem samþykktar hafi verið og gangi lengra en reglan kveði á um séu frá því fyrir þann tíma.  Kærandi byggi á því að þetta sé rangt enda hafi flestar stækkanir annarra sumarhúsa á svæðinu, sem ekki fylgi reglunni um nýtingarhlutfallið 0,03, verið gerðar eftir árið 2002 eins og fyrirliggjandi gögn sýni.  Unnið hafi verið að stækkun húsa sem gangi lengra en umsóknir kæranda og megi sjá þetta í fundargerðum nefndarinnar.  Af þessu leiði að lóðarhöfum á svæðinu hafi verið mismunað og jafnræðisregla brotin. 

Þá hafi umhverfis- og skipulagsnefnd ekki hafnað umdeildum teikningum á fundi sínum hinn 25. júní 2009 en nefndinni hafi borið að skýra hvað væri heimilt og hvað ekki á þeirri stundu, enda hafi þeir á þeim tíma haft fullbúnar teikningar að 120 m² húsi.

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar verði staðfest. 

Í deiliskipulagstillögu sem gerð hafi verið fyrir Sölvaslóð árið 1998 hafi verið settir fram skilmálar varðandi stærðir húsa.  Hafi þar komið fram að á hverri lóð mætti reisa sumarhús að brúttógólffleti allt að 80 m², þ.m.t. aðalhæð, rishæð og geymsla.  Heildarrúmmál mætti því vera allt að 300 m³.  Árið 2002 hafi verið unnin breyting á aðalskipulagi Snæfellsbæjar fyrir Arnarstapa og Hellnar og sé þar gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall verði allt að 0,03 á frístundasvæðum.  Í fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Sölvaslóð standi til að rýmka deiliskipulag svæðisins til samræmis við aðalskipulag, þannig að á stærri lóðum megi nýtingarhlutfall verða allt að 0,03.  Á þeim lóðum sem séu stærri en 2.650 m² verði þannig heimilt að reisa hús sem gefi nýtingarhlutfall á lóð allt að 0,03 en halda óbreyttum ákvæðum deiliskipulagstillögunnar á minni lóðum.  Á minnstu lóðum við Sölvaslóð megi því eftir sem áður aðeins reisa hús þar sem brúttógólfflötur verði allt að 80 m². 

Ekki hafi þýðingu í málinu hvort deiliskipulagið frá 1998 hafi tekið gildi eða hvort nýtt deiliskipulag hafi verið afgreitt eða ekki þar sem bygging húsa verði í öllum tilvikum að vera í samræmi við aðalskipulag, sem og deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá þurfi deiliskipulag að vera byggt á aðalskipulagi, sbr. 2. mgr. 23. gr. sömu laga.  Ótvírætt sé að stærð sumarhússins sé langt yfir þeim mörkum sem gert hafi verið ráð fyrir í aðalskipulagi og fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu.  Hafi því undir öllum kringumstæðum verið óheimilt að veita umrætt leyfi og því sé ákvörðunin í samræmi við lög. 

Áður hafi verið fallist á að byggt yrði á lóðinni hús sambærilegt því sem hafi brunnið, þ.e. 77,3 m² hús.  Jafnframt hafi kæranda ítrekað verið bent á að unnt yrði að samþykkja byggingu á töluvert stærra húsi, eða allt að 96 m², sem myndi rúmast innan aðalskipulags og hins nýja deiliskipulags sem þá hafi verið í vinnslu.  Samkvæmt framangreindu sé skipulagsyfirvöldum óheimilt að samþykkja byggingu á stærra húsi en 96 m². 

Því sé mótmælt að nefndarmenn umhverfis- og skipulagsnefndar séu vanhæfir.  Röksemdir kæranda um vanhæfi nefndarmanna, sem byggist á því að þeir tengist á einhvern hátt starfsemi á sviði byggingarmála, séu fráleitar, enda sé leitast við að skipa í nefndir einstaklinga sem þekkingu og reynslu hafi á tilteknu sviði.  Einn nefndarmanna geti mögulega verið vanhæfur í ljósi starfs síns sem rafverktaki að Sölvaslóð 1, en þeir hagsmunir teljist vart verulegir, líkt og áskilið sé í 5. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.  Hins vegar hafi afstaða hans ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins og hafi því mögulegt vanhæfi hans enga þýðingu um gildi ákvörðunar nefndarinnar, en hún hafi samþykkt synjunina einróma.

Kærandi geti ekki gengið út frá því að þrátt fyrir að tilteknum teikningum hafi ekki verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 25. júní 2009 hafi falist í því einhvers konar samþykki nefndarinnar á umræddu erindi.

Engar heimildir hafi verið veittar fyrir byggingu húsa yfir því hámarki sem fram komi í aðalskipulagi frá því að skipulagið hafi verið staðfest á árinu 2002.  Deiliskipulagstillögur fyrir Sölvaslóð og frístundahverfi við Lækjarbakka, Móa og Jaðar hafi verið gerðar áður en aðalskipulag hafi verið gert fyrir Arnarstapa og Hellnar.  Þess vegna hafi ekki í öllum tilvikum gilt hámarks nýtingarhlutfallið 0,03 á þessu svæði og því séu dæmi um hærra nýtingarhlutfall þar.  Deiliskipulag fyrri svæði úr landi Fells hafi tekið gildi eftir gerð aðalskipulags fyrir Arnarstapa og Hellnar og séu þar engin dæmi um hærra nýtingarhlutfall en 0,03.  Einnig hafi verið gert deiliskipulag fyrir Hellisvelli á Hellnum, en þar megi nýtingarhlutfall vera allt að 0,3 á íbúðar- og frístundalóðum og styðjist sú ákvörðun við aðalskipulagsbreytingu sem gerð hafi verið árið 2005, en þar sé um blandaða byggð að ræða.

Þó svo að sýnt hafi verið fram á að mistök hafi átt sér stað við veitingu byggingarleyfa á öðrum stöðum á svæðinu, þannig að veitt hafi verið byggingarleyfi sem ekki samræmdist skipulagi á viðkomandi svæði, myndu slík mistök aldrei réttlæta að fleiri ólögmæt byggingarleyfi yrðu veitt.

Kæranda hafi ítrekað verið bent á að heimilt yrði að byggja á lóð hans allt að 96 m² hús um leið og nýtt deiliskipulag hefði verið staðfest og hafi þannig verið komið til móts við kæranda, að því marki sem hægt hafi verið.  Umrætt deiliskipulag hafi verið unnið í samræmi við gildandi aðalskipulag og þágildandi skipulags- og byggingarlög. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 14. október 2010.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að vanhæfi nefndarmanna eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar enda verður ekki séð að tengsl þeirra við málsaðila eða hagsmuni hafi verið með þeim hætti að draga megi hæfi þeirra í efa.  Er þá einnig til þess að líta að hæfiskröfu sveitarstjórnarlaga eru nokkru vægari en hæfiskröfur stjórnsýslulaga, enda kann að reynast erfitt að skipa í ráð og nefndir í fámennum sveitafélögum þannig að ávallt sé fullnægt ýtrustu kröfum um hæfi.  Verður kröfu kæranda um að ógilda beri hina kærðu ákvörðun vegna vanhæfis nefndarmanna því hafnað. 

Með hinni kærðu ákvörðun synjaði umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi á lóðinni að Sölvaslóð 1 á Arnarstapa.  Vísaði nefndin m.a. til bókunar sinnar frá 4. maí 2010, þar sem fram kom að samkvæmt deiliskipulagstillögu sem gerð hefði verið, fyrir Sölvaslóð árið 1998 hefði á hverri lóð mátt reisa sumarhús allt að 80 m² að brúttógólffleti, þar með talin aðalhæð, rishæð og geymsla.  Árið 2002 hafi verið gerð breyting á aðalskipulagi Snæfellsbæjar fyrir Arnarstapa og Hellnar og þar gert ráð fyrir nýtingarhlutfalli allt að 0,03 á frístundasvæðum.  Þá liggi fyrir tillaga að deiliskipulagi fyrir Sölvaslóð þar sem gert sé ráð fyrir að auka byggingarheimildir á stærstu lóðum á svæðinu en á minnstu lóðum megi eftir sem áður aðeins reisa hús þar sem brúttógólfflötur verði allt að 80 m².  Synjaði nefndin umsókn kæranda með vísun til þessara heimilda.

Fyrir liggur að deiliskipulagstillaga sú frá árinu 1998 sem umhverfis- og skipulagsnefnd vísar til í bókun sinni öðlaðist ekki gildi þar sem lögboðin auglýsing um gildistöku hennar var aldrei birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Var því ekki unnt að leggja þá skilmála sem þar greinir til grundvallar við afgreiðslu umsóknar kæranda.  Þá var ekki heldur unnt að leggja til grundvallar tillögu að nýju deiliskipulagi umrædds svæðis, enda hafði hún þá ekki öðlast gildi.  Voru forsendur hinnar kærðu ákvörðunar að þessu leyti rangar.

Auk þess að vísa til þeirra deiliskipulagsákvarðana sem að framan greinir vísaði nefndin til þess að samkvæmt aðalskipulagi Arnarstapa og Hellnar væri nýtingarhlutfall allt að 0,03 á frístundasvæðum.  Af málsgögnum verður ráðið að ekki hafi í öllum tilvikum verið haldið fast við þessa viðmiðun, enda er eðlilegra að í aðalskipulagi séu aðeins sett fram leiðbeinandi ákvæði um þéttleika byggðar en nýtingarhlutfall einstakra lóða eða reita komi fram í deiliskipulagi.  Á þessi skilningur sér stoð í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Verður raunar ráðið af deiliskipulagi því sem nú hefur verið sett fyrir Sölvaslóð að víkja megi frá viðmiði aðalskipulags um nýtingarhlutfall, en þar er gert ráð fyrir að reisa megi hús allt að 80 m² að brúttógólffleti á lóðum sem eru minni en 2.650 m², en í því felst að nýtingarhlutfall þeirra lóða verður nokkru hærra en 0,03.  Þá er bæði í skilmálum þeim sem vísað er til frá 1998 um Sölvaslóð og í nýju skipulagi svæðisins miðað við óskilgreint hugtak, brúttógólfflöt.  Leiðir af því að skilmálarnir eru óljósir um hver sé í raun leyfileg hámarksstærð húsa á þeim lóðum sem minni eru en 2.650 m², auk þess sem þessi framsetning torveldar útreikning nýtingarhlutfalls, en við útreikning þess ber að miða við brúttóflatarmál bygginga eins og það reiknast samkvæmt íslenskum staðli, ÍST 50 um flatarmál og rúmmál bygginga.  Verður af sömu ástæðu ekki ráðið að hvaða marki deiliskipulag fyrir Sölvaslóð víkur frá ákvæði aðalskipulags um nýtingarhlutfall frístundalóða á umræddu svæði. 

Samkvæmt framansögðu var hin kærða ákvörðun ekki reist á réttum forsendum og var rökstuðningur fyrir henni haldinn verulegum ágöllum.  Leiðir af því að fella ber hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. maí 2010 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi að Sölvaslóð 1 á Arnarstapa í Snæfellsbæ.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

80/2011 Lambastaðarhverfi

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. júní 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. nóvember 2011, er barst nefndinni 3. sama mánaðar, kæra S og I, Skerjabraut 5, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. júní 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með fimm bréfum, dags. og mótt. 4., 8. og 10. nóvember 2011, kæra átta íbúar og eigendur fasteigna að Nesvegi 105, 107 og 115 og Skerjabraut 3a og 5a, Seltjarnarnesi, sömu deiliskipulagsákvörðun með kröfum um ógildingu hennar að öllu leyti eða að hluta.  Þótt kröfur kærenda séu ekki á sama veg þykir eftir atvikum mega sameina kærumálin, sem eru nr. 82, 85, 86, 87 og 88/2011, kærumáli þessu. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 25. september 2008 var kynnt forsögn að gerð deiliskipulags fyrir Lambastaðahverfi ásamt kynningarbréfi til hagsmunaaðila og í framhaldi af fundinum var bréfið ásamt forsögninni sent þeim hagsmunaaðilum.  Í kjölfar þess var vinnu við gerð deiliskipulagstillögu haldið áfram og var m.a. haldinn samráðsfundur með hagsmunaaðilum 11. desember 2008.  Var tillagan til umfjöllunar á fundum skipulags- og mannvirkjanefndar fram á árið 2009, en á fundi nefndarinnar 21. september 2009 var samþykkt að auglýsa skipulagstillöguna til kynningar og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 23. september s.á. 

Að kynningu lokinni var skipulagstillagan til meðferðar í skipulags- og mannvirkjanefnd sem samþykkti á fundi 30. mars 2010 umsögn um fram komnar athugasemdir og tillöguna með breytingum sem þar voru settar fram.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagið ásamt svörum við athugasemdum á fundi sínum hinn 28. apríl s.á.  Vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við yfirferð málsins var það tekið fyrir að nýju og breytingar gerðar á skipulagstillögunni og hún svo samþykkt í bæjarstjórn á fundi hinn 15. desember 2010.  Var þar jafnframt ákveðið að auglýsa tillöguna á ný.  Var hún auglýst til kynningar frá 20. janúar 2011 til 10. mars s.á. með athugasemdafresti til sama tíma. Tillagan var að lokinni auglýsingu tekin fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd hinn 21. júní 2011 og samþykkt ásamt svörum við athugasemdum sem fram höfðu komið á kynningartíma.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna ásamt svörum við fram komnum athugasemdum hinn 22. júní s.á. en þar sem láðst hafði að taka afstöðu til athugasemda íbúa að Skerjabraut 3a var málið tekið fyrir á ný og afgreitt í skipulags- og mannvirkjanefnd 28. júní 2011 og í bæjarstjórn  degi síðar  Svör við athugasemdum voru síðan send þeim er gert höfðu athugasemdir og deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun, sem tilkynnti með bréfi, dags. 21. júlí 2011, að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins væri birt.  Hins vegar gerði stofnunin athugasemd varðandi tæknilegar útfærslur vegna flóðahættu þar sem kjallarar væru undir sjávarmáli. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, sendi Seltjarnarnesbær Skipulagsstofnun lagfærða skipulagsgreinargerð í tilefni af nefndri athugasemd.  Í hinu kærða deiliskipulagi er tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða og byggingarreitir markaðir, en skipulagið tekur til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs og af sjó til suðvesturs.  Hverfið hefur byggst upp á löngum tíma án deiliskipulags, að undanskilinni lóðinni Skerjabraut 1-3.

Auglýsing um gildistöku skipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. október 2011 og hafa kærendur skotið skipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Íbúar að Skerjabraut 5 og 5a andmæla því að með hinu kærða deiliskipulagi sé heimilað að reisa fjögurra íbúða hús á tveimur hæðum að Skerjabraut 3a í stað tveggja hæða einbýlishúss sem nú standi á lóðinni.  Með því sé brotið á grenndarrétti kærenda og annarra nágranna, en húsið muni, vegna nálægðar við fasteignir kærenda, skerða útsýni.  Kærendur hafi á sínum tíma talið sig vera að fjárfesta í fasteign við einbýlishúsagötu sem nú sé verið að breyta í götu fjölbýlishúsa.  Telji kærendur að umdeildri breytingu hafi verið lofað í tilefni af andmælum lóðarhafa Skerjabrautar 3a þegar samþykkt hafi verið deiliskipulag árið 2007, þar sem leyfð hafi verið bygging fjöleignarhúss á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut.  Breytingin sé til þess fallin að rýra verðgildi húsa kærenda og rétt hefði verið að grenndarkynna breytinguna og hafa samráð um hana við nágranna. 

Kærandi að Nesvegi 115 mótmælir hinni kærðu ákvörðun á þeirri forsendu að byggingarheimildir á lóð hans hafi verið skertar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í fyrri kynningu umræddrar deiliskipulagstillögu.  Bendi kærandi á að þegar bæjaryfirvöld hafi heimilað uppbyggingu lóðarinnar að Nesvegi 107 á árinu 2007 hafi honum verið tjáð að sér yrðu veittar sambærilegar heimildir til byggingar húss á lóð sinni með tilliti til jafnræðissjónarmiðum.  Hafi deiliskipulagstillaga fyrir Lambastaðahverfi, sem auglýst hafi verið fyrra sinni og síðan samþykkt í bæjarstjórn, verið í samræmi við það.  Af óútskýrðum ástæðum hafi skipulagið verið tekið til endurskoðunar, m.a. hvað varðaði lóð kæranda þar sem byggingarheimildir hafi verið verulega skertar.  Lög og reglur um samráð hafi ekki verið virtar við meðferð málsins þar sem ekkert samráð hafi verið haft við hann við breytingu á tillögunni, milli fyrri og seinni auglýsingar hennar.  Breytingin hafi byggst á athugasemdum sem fram hafi komið að loknum athugasemdafresti, en sömu athugasemdir hafi borist við fyrri kynningu og þeim verið svarað af hálfu skipulagsyfirvalda án þess að talin hafi verið ástæða til breytinga.  Ekkert hafi breyst frá þeim tíma og eigi rök bæjaryfirvalda við fyrri afgreiðslu málsins því enn við.  Þá hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugsemdir við yfirferð málsins sem réttlæti umrædda breytingu.  Með nefndri ákvörðun sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og auk þess hafi einn nefndarmanna skipulags- og mannvirkjanefndar verið vanhæfur við meðferð málsins. 

Kærendur að Nesvegi 105 byggja málatilbúnað sinn á því að í hinu kærða deiliskipulagi sé ekki gerð grein fyrir kvöð um umferðarrétt þeirra frá Nesvegi um stíg að lóðunum nr. 103 og 105 við þá götu.  Vísi kærendur til þinglýstra skjala máli sínu til stuðnings og almennra reglna um hefð.  Í deiliskipulaginu sé eingöngu tilgreind umferð um stíginn að Nesvegi 107.  Rangt sé að stígurinn sé í eigu Seltjarnarnesbæjar eða eiganda Nesvegar 107.  Skýr réttur kærenda sé til staðar á grundvelli óbeins eignarréttar og tilgreina beri hann í deiliskipulaginu.  Þá sé gerð athugasemd vegna heimilda deiliskipulagsins um að byggja megi bátaskýli á sjávarlóðum.  Slík mannvirki séu í andstöðu við náttúruverndaráætlun 2004-2008, þar sem lagt sé til að friða svæði sem nái yfir fjöru og land neðan byggðar á skipulagssvæðinu.  Bátaskýlin muni skerða útsýni og hefta aðgengi að fjörunni og athugasemd sé gerð við að skýlin skuli staðsett 3 m frá mörkum nágrannalóða en ekki frá mörkum viðkomandi lóðar. 

Kærendur að Skerjabraut 3a vísa til þess að ójafnræðis gæti í heimiluðu nýtingarhlutfalli lóðar þeirra og Skerjabrautar 1 og 3.  Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,7 en nýtingarhlutfall sameinaðrar lóðar að Skerjabraut 1-3 verði 1,2.  Í raun sé verið að slá ryki í augu fólks í ljósi þess að verið sé að aðlaga skipulag að samþykktum teikningum að húsi að Skerjabraut 1 og 3 frá árinu 2007, þar sem gerst sé ráð fyrir nýtingarhlutfalli 1,18.  Réttmætt sé að kærendur sitji við sama borð og lóðarhafi Skerjabrautar 1-3 hvað nýtingarhlutfall lóðar varði. 

Kærandi vegna Nesvegar 107 hefur ekki fært fram ástæður að baki kæru sinni vegna þeirrar deiliskipulagsákvörðunar sem hér er til umfjöllunar. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags, í heild eða að hluta, verði hafnað. 

Bent sé á, vegna málatilbúnaðar kærenda að Skerjabraut 5 og 5a, að lóðin nr. 3a við Skerjabraut sé nokkuð stór og hafi komið fram óskir um frekari uppbyggingu á henni með hliðsjón af heimilaðri nýtingu lóðarinnar nr. 1-3 við Skerjabraut og Tjarnarbóls 17.  Upphafleg skipulagstillaga hafi því gert ráð fyrir að í stað eldra húss á lóðinni mætti reisa fjórbýlishús á tveimur hæðum með bílakjallara sem stæði fjær lóðarmörkum Skerjabrautar 5 en eldra hús.  Breytingin sé óveruleg og hafi lítil sem engin áhrif á skuggavarp og útsýni til norðurs.  Í öllu falli séu grenndaráhrifin ekki slík að haft geti áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Sýni kærendur fram á að ákvörðunin baki þeim fjártjón eigi þeir bótarétt að lögum.  Komið hafi verið til móts við fram komin andmæli með því að minnka umfang byggingarinnar um 2,5 m til vesturs og 1,0 m til suðurs og tekið fram að ekki verði heimilt að byggja svalir út fyrir byggingarreit til suðurs.  Deiliskipulagsákvörðunin hafi verið kynnt ítarlega fyrir hagsmunaaðilum og auglýst lögum samkvæmt og hafi því grenndarkynning ekki átt hér við. 

Í tilefni af kæru eiganda Nesvegar 115 er tekið fram að í gögnum málsins liggi fyrir að í upphaflegri tillögu að deiliskipulagi svæðisins, sem auglýst hafi verið hafi verið gert ráð fyrir að hús á lóðinni nr. 115 og 119a yrðu á einni hæð.  Við frekari meðferð tillögunnar hafi hún sætt breytingum og samþykkt hafi verið að auglýsa hana að nýju, m.a. með breytingum á hæð húsanna að Nesvegi 115 og 119a, m.t.t. útsýnis frá nærliggjandi húsum.  Tillagan hafi síðan hlotið samþykki og hafi hún verið í samræmi við þá tillögu sem upphaflega hafi verið lögð fram varðandi hæð húsanna að Nesvegi 115 og 119a.  Húsin hafi verið lækkuð til að koma til móts við athugasemdir hagsmunaaðila á svæðinu.  Hafi sú breyting einnig fallið að markmiðum forsagnar  skipulagsins og deiliskipulagstillögunnar um varðveislu útsýnis til sjávar, en 2/3 hluti húsa á sjávarlóðum á svæðinu séu á einni hæð.  Kærandi hafi komið að sjónarmiðum sínum við meðferð skipulagstillögunnar og notið lögmæts andmælaréttar.  Hafi þau sjónarmið hans legið fyrir við mótun skipulagstillögunnar.  Þótt í fyrri tillögu hafi verið gert ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni nr. 115 við Nesveg hafi hendur bæjaryfirvalda ekki verið bundnar um það atriði við frekari meðferð málsins.  Rétt sé hjá kæranda að leyft hafi verið að byggja tveggja hæða hús á lóðinni nr. 107 við Nesveg áður en vinna við hið kærða skipulag hafi byrjað, en það hafi ekki þótt til eftirbreytni á svæði þar sem flest húsin á sjávarlóðum séu á einni hæð.  Hafi því þótt rétt að festa það byggðamynstur í sessi í skipulagi svæðisins.  Kærandi hafi ekki mátt vænta þess að fá að byggja tveggja hæða hús á lóð sinni þótt í upphafi hafi verið gert ráð fyrir slíku í skipulagstillögu sem hafi, enda hafi hún getað tekið breytingum við meðferð og kynningu tillögunnar, en ekki fyrir hendi vilyrði fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni.  Umrætt deiliskipulag auki nýtingarmöguleika kæranda á lóð sinni með stækkun byggingarreits og möguleika á gerð kjallara undir húsi.  Ekki sé um að ræða hættusvæði vegna sjávarflóða sem hindrað geti nýtingarmöguleika á lóð kæranda á grundvelli ákvæða byggingar- eða skipulagsreglugerðar um þau svæði.  Enga þýðingu hafi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar að einn nefndarmanna í skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins eigi fasteign á umræddu skipulagssvæði.  Sá aðili hafi ekki komið að afgreiðslu skipulagstillögunnar að lokinni auglýsingu hennar, fasteign kæranda hafi engin grenndaráhrif gagnvart fasteign þessa aðila sökum fjarlægðar milli fasteigna þeirra og umrædd nefnd sé aðeins ráðgefandi við skipulagsákvörðun sem bæjarstjórn taki. 

Bæjaryfirvöld bendi á, í tilefni af athugasemdum kærenda að Nesvegi 105 um umferðarrétt að lóð þeirra frá Nesvegi, að deildar meiningar séu uppi um þann rétt.  Um sé að ræða stíg frá Nesvegi milli lóðanna að Nesvegi 107 og 109 að vestanverðu og lóðanna nr. 101 og 103-105 við sömu götu að austanverðu.  Við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi bæði kærendur og eigandi Nesvegar 107 talið sig eiga umferðarréttinn að nefndum stíg.  Í deiliskipulaginu sé áfram gert ráð fyrir umræddum stíg og hann merktur sem kvöð.  Geti stígurinn nýst sem aðkoma að lóð kærenda auk þess að vera aðkoma að lóðinni að Nesvegi 107.  Aðkoma að umræddum húsum á lóðinni nr. 103-105 hafi hins vegar verið og sé um Sörlaskjól.  Deiliskipulagið breyti engu um beinan eða óbeinan eignarrétt að nefndum stíg heldur eigi sá ágreiningur undir dómstóla.  Seltjarnarnesbær mótmæli staðhæfingu kærenda um að heimiluð bátaskýli á sjávarlóðum á svæðinu séu í andstöðu við náttúruverndaráætlun.  Grenndaráhrif skýlanna verði óveruleg, enda hámarkshæð þeirra 1,8 m miðað við meðal lóðarhæð og að lágmarksfjarlægð þeirra sé frá lóðarmörkum 3 m.  Hæð þeirra sé því ekki meiri en skjólveggja og girðinga sem heimilt sé að reisa innan lóðar án sérstaks leyfis og umrædd bátaskýli muni ekki breyta neinu um aðgengi að fjörunni. 

Vegna kæru íbúa að Skerjabraut 3a sé á það bent að framsetning deiliskipulagsuppdráttar og skilmálateikningar fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 sé skýr. Hámarks nýtingarhlutfall lóðarinnar í heild sé lækkað úr 1,27, samkvæmt eldra skipulagi lóðarinnar, í 1,2 en í því skipulagi hafi þegar verið gert ráð fyrir sameiningu lóðanna.  Þegar mismunandi nýtingarhlutfall lóðar kærenda og Skerjabrautar 1-3 sé virt verði að hafa í huga að þegar sé í gildi skipulag fyrir Skerjabraut 1-3 sem geri ráð fyrir hærra nýtingarhlutfalli en hið kærða skipulag.  Lóðin nr. 1-3 við Skerjabraut sé ætluð fyrir stórt fjölbýlishús samkvæmt deiliskipulaginu líkt og eigi við um lóðir nr. 4-14 við Tjarnarból.  Með umræddu deiliskipulagi hafi verið komið til móts við sjónarmið kærenda um aukna nýtingu lóðar þeirra, en gert sé ráð fyrir fjórbýlishúsi á þeirri lóð þrátt fyrir andmæli nágranna. 

Að lokum sé á það bent að skipulagsyfirvöld bæjarins telji hið kærða deiliskipulag hvorki haldið form- né efnisgöllum.  Hafi þau lagt sig fram um að koma til móts við sjónarmið og óskir einstakra hagsmunaaðila á svæðinu við skipulagsgerðina og leitast við að gæta þess að ganga ekki á einstaklingshagsmuni annarra eða almannahagsmuni.  Á þegar byggðu svæði, eins og því sem hér um ræði, sem byggst hafi upp á löngum tíma og með ýmsu móti, sé alltaf erfitt að sætta öll sjónarmið.  Endurspegli fyrirliggjandi kærur það og þau mál sem ekki hafi tekist að finna niðurstöðu í svo öllum hafi líkað. 

Niðurstaða:  Undirbúningur og málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hófst í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem féllu úr gildi hinn 1. janúar 2011, en þá tóku gildi ný skipulagslög nr. 123/2010.  Hinn 15. desember 2010 ákvað bæjarstjórn að auglýsa umrædda deiliskipulagstillögu til kynningar að nýju vegna breytinga sem á henni höfðu verið gerðar að lokinni fyrri auglýsingu.  Fór sú kynning ásamt frekari málsmeðferð og afgreiðslu skipulagstillögunnar fram eftir gildistöku hinna nýju skipulagslaga. 

Meginreglan um skil eldri laga og yngri er sú að yngri lögin eiga við um atvik, málsmeðferð eða lögskipti sem eiga sér stað eftir gildistökudag þeirra nema lögin kveði sérstaklega á um lagaskil með öðrum hætti.  Um gildistöku skipulagslaga er kveðið á um í 56. gr. laganna þar sem fram kemur að lögin öðlist gildi hinn 1. janúar 2011 og að frá sama tíma falli úr gildi skipulags- og byggingarlög með síðari breytingum.  Með 65. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, er fól í sér breytingar á ýmsum lögum, var bætt inn svohljóðandi 2. mgr. við nefnt gildistökuákvæði skipulagslaga:  „Ákvæði laga þessara taka ekki til þeirra skipulagsáætlana sem sendar hafa verið Skipulagsstofnun skv. 4. mgr. 13. gr. og 14. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða sendar stofnuninni til athugunar skv. 2. mgr. 17. gr. sömu laga fyrir gildistöku laga þessara.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum nr. 73/1997, með síðari breytingum.“  Var málsgreinin sett inn að frumkvæði umhverfisnefndar Alþingis í því skyni að tryggja lagaskil samkvæmt því sem fram kemur í nefndaráliti.  Þau ákvæði skipulags- og byggingalaga í 2. mgr. 56. gr. skipulagslaga sem eiga við um málsmeðferð svæðis- og aðalskipulags, en þar er ekki að finna sérreglu um málsmeðferð deiliskipulagstillagna sem ólokið var við gildistöku skipulagslaga.  Gilda því ákvæði skipulagslaga um málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar eftir gildistöku þeirra laga. 

Athugasemdir bárust við seinni kynningu umræddrar skipulagstillögu fyrir lok athugasemdafrest hinn 10. mars 2011. Varð bæjarstjórn því að taka hana til umfjöllunar að nýju og taka afstöðu til athugasemdanna og tillögu að svörum við þeim.  Það gerði bæjarstjórn á fundi sínum hinn 22. júní 2011 þar sem auglýst tillaga og svör við framkomnum athugasemdum var samþykkt, en þar sem láðst hafði að taka afstöðu til eins athugasemdabréfs var málið aftur tekið fyrir í bæjarstjórn hinn 29. sama mánaðar og endanlega afgreitt, en ekki er að sjá af fyrirliggjandi gögnum að málið hafi síðar komið til kasta bæjarstjórnar.  Hið samþykkta deiliskipulag var sent Skipulagsstofnun sama dag til umfjöllunar og gaf hún umsögn sína um málið í bréfi, dags. 21. júlí 2011, þar sem gerð var athugasemd varðandi flóðavarnir í kjöllurum húsa sem væru neðan sjávarmáls.  Seltjarnarnesbær tilkynnti stofnuninni um viðbrögð sín við athugsemdinni með bréfi, dags. 31. ágúst 2011.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2011. 

Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga eru fyrirmæli um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð,  ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan átta vikna frá því að frestur til athugasemda rann út og skv. 2. mgr. ákvæðisins skal auglýsing um gildistöku deiliskipulags birt í Stjórnartíðindum innan þriggja mánaða frá endanlegri afgreiðslu bæjarstjórnar á tillögunni.  Samkvæmt framangreindu voru þessir frestir ekki virtir við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.  Í lokamálslið 2. mgr. nefndrar 42. gr. er tekið fram að hafi gildistökuauglýsing ekki birst innan lögboðins frests teljist tillagan ógild og fari um hana í samræmi við 41. gr. laganna. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið var hin kærða ákvörðun ógild þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. október 2011 og öðlaðist því ekki gildi við birtinguna þrátt fyrir ákv. 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar og ber því að vísa málinu frá nefndinni.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson