Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

82/2008 Aðalstræti

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. júlí 2008 um að synja umsókn um leyfi fyrir minni háttar breytingum á innra skipulagi kjallara, 1. og 2. hæðar vegna eignaskipta í atvinnu- og íbúðarhúsinu á lóðinni nr. 9 við Aðalstræti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra L, H og M, f.h. hagsmunafélags Aðalstrætis 9, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. júlí 2008 að synja umsókn um leyfi fyrir breytingum á innra skipulagi húsnæðis við Aðalstræti 9 í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 7. ágúst 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að synjun byggingarfulltrúans um veitingu byggingarleyfis verði hrundið og hún felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. júlí 2007 var lögð fram umsókn ,,… um samþykki fyrir minni háttar breytingum á innra skipulagi kjallara, 1. og 2. hæðar v/eignaskipta í atvinnu- og íbúðarhúsinu á lóðinni nr. 9 við Aðalstræti“.  Erindinu fylgdi fundargerð aðalfundar heildarhúsfélagsins, dags. 28. júní 2007.  Á fundinum var málinu frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði. 

Hinn 14. ágúst 2007 var umsóknin aftur tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og þá lögð fram yfirlýsing húsfélagsins, dags. 26. júlí 2007, og mótmæli eigenda nokkurra eignarhluta, dags. 28. júní og 9. ágúst s.á.  Afgreiðslu málsins var frestað með eftirfarandi bókun:  ,,Vantar samþykki nokkurra eigenda sbr. bréf, dags. 28. júní 2007 og 9. ágúst s.á.  Leysa skal úr ágreiningi eigenda áður en málið verður tekið fyrir að nýju og er þar m.a. vísað til ákv. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. júlí 2008 var málið tekið fyrir á ný og þá lagt fram álit kærunefndar fjöleignarhúsamála, mál nr. 1/2008, ásamt bréfi Jóns E. Jakobssonar lögmanns, dags. 6. júní 2008, og minnisblaði lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 21. júlí 2008. 

Í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu kemur fram að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að staðfesta umsóknina án samþykkis allra eigenda þar sem hún feli í sér breytingar á hlutfallstölu fasteignarinnar.  Niðurstaðan sé m.a. byggð á 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús, þar sem fram komi að eignaskiptayfirlýsing sem feli í sér yfirfærslu eignarréttinda skuli vera undirrituð af öllum eigendum, og ákvæði 1. mgr. 41. gr. sömu laga, sem segi að til ákvarðana um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölu, sbr. 18. gr. laganna, þurfi samþykki allra eigenda. 

Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni hinn 29. júlí 2008 með eftirfarandi bókun:  ,,Synjað.  Með vísan til rökstuðnings í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu frá 21. júlí 2008.“ 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsögn lögfræði- og stjórnsýslu sé byggð á misskilningi og að hún sé í meginatriðum röng.  Sú niðurstaða umsagnarinnar, að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að staðfesta umsóknina án samþykkis allra eigenda þar sem hún feli í sér breytingu á hlutfallstölu fasteignarinnar, sé ekki studd neinum lögfræðilegum rökum.  Álitsgjafinn vísi m.a. í reglugerð nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum varðandi niðurstöðuna en ekki til lagareglna, sem gangi framar ákvæðum 26., 27. og 28. gr. reglugerðar nr. 910/2000.  Ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús taki af öll tvímæli um að sérhver eigandi eigi rétt á því að hlutfallstölur sýni og endurspegli rétta eignaskiptingu í húsinu. 

Eignaskiptayfirlýsing hafi einvörðungu að geyma samantekt, skráningu og lýsingu á húsi og skiptingu þess í samræmi við þinglýstar heimildir.  Andmælendur hafi hvorki getað lagt fram óþinglýstar né þinglýstar eignarheimildir fyrir stærri eignarhlutum en fram komi í þinglýstum heimildum. 

Þá sé á það bent að raunteikningar og skráningartafla byggi á þinglýstum heimildum og raunverulegu rými og sé í samræmi við gildandi reglu, sem komi fram í 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús.  Teikningarnar og skráningartaflan hafi verið samþykkt af miklum meirihluta eigenda á aðalfundi húsfélagsins hinn 28. júní 2007, eða með tæplega 75% greiddra atkvæða.  Mótatkvæði hafi verið tæplega 16% en 10% eigenda hafi ekki mætt á aðalfundinn.  Nægilegt sé að eignaskiptayfirlýsing sé undirrituð af stjórn húsfélagsins þegar eignarhlutar séu sex eða fleiri en ella af meirihluta eigenda, sé miðað við fjölda og hlutfallstölur.  Kærandi hafi uppfyllt bæði þessi skilyrði lagaákvæðisins að öllu leyti, bæði hvað varði samþykki stjórnar og samþykki meirihluta eigenda. 

Eigendur sem ekki sætti sig við niðurstöðu meirihlutans hafi heimild samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús til að vefengja slíka eignaskiptayfirlýsingu, sem þá færi eftir fyrirmælum 18. gr. sömu laga.  Lögin séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laga um fjöleignarhús, nema annað sé tekið fram eða leiði af eðli máls.  Í ákvæði 2. mgr. 16. gr. laganna komi fram sú meginregla að eignaskiptayfirlýsing skuli undirrituð af öllum eigendum, en síðan komi undantekningin, sem falli undir ákvæði 2. gr. laganna ,,… nema annað sé tekið fram í þeim eða leiði af eðli máls“. 

Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu minnihluta eigenda í húsinu til að vefengja nýja eignaskiptayfirlýsingu skv. 18. gr. laga um fjöleignarhús og verði því ekki annað séð en að byggingarfulltrúa hafi borið að samþykkja nýjar raunteikningar og skráningartöflu, sem hann hafi kosið að kalla nýtt byggingarleyfi. 

Álit kærunefndar fjöleignarhúsamála nr. 1/2008 hafi stutt þá niðurstöðu að veita bæri byggingarleyfi vegna nýrra aðaluppdrátta og skráningartöflu.  Kærandi taki undir það álit nefndarinnar að niðurstaðan eigi sér stoð í 2. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús.  Meira að segja hafi nefndin kveðið svo sterkt að orði að hún hafi sagt að ,,… einfaldur eða aukinn meirihluti á húsfundi breytir því engu um þessa niðurstöðu sem leiðir af lögum og eðli máls“. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda og að synjun embættisafgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 29. júlí 2008 verði staðfest. 

Fram komi í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að allir eigendur skuli eiga þess kost að vera með í ráðum um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölu.  Samþykki allra eigenda sé áskilið ef breytingar hafi í för með sér yfirfærslu á eignarrétti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús. 

Í máli þessu sé um að ræða breytingu á hlutfallstölu sem ekki ríki sátt um meðal eigenda fasteignarinnar.  Í gr. 12.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segi að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja samþykki meðeigenda, sbr. lög um fjöleignarhús.  Skýrt komi fram í tilvitnaðri 2. mgr. 16. gr. laganna að meginreglan sé að eignaskiptayfirlýsing sem feli í sér yfirfærslu eignaréttinda skuli undirrituð af öllum eigendum.  Undantekning frá þeirri reglu sé í síðari hluta ákvæðisins, þar sem fram komi að undirritun húsfélags eða meirihluta eigenda nægi hafi eignaskiptayfirlýsing einvörðungu að geyma samantekt, skráningu og lýsingu á húsi og skiptingu þess í samræmi við gildandi reglur þar að lútandi.  Slíka undantekningu beri í samræmi við almennar lögskýringarreglur að skýra þröngri skýringu og miðað við forsendur í máli þessu eigi hún ekki við.  Í 1. tl. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús komi skýrt fram að til ákvarðana um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölum, sbr. 18. gr. laganna, þurfi samþykki allra eigenda. 

Reykjavíkurborg telji að synjun byggingarfulltrúa sé nægilega vel rökstudd.  Í 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum komi fram að byggingarfulltrúi viðkomandi umdæmis skuli staðfesta allar eignaskiptayfirlýsingar og sé áritun hans þar að lútandi skilyrði þess að þeim verði þinglýst.  Í 1. mgr. 27. gr. nefndrar reglugerðar komi fram að áritun byggingarfulltrúa feli í sér staðfestingu á viðtöku eignaskiptayfirlýsingarinnar og að hún hafi verið yfirfarin og sé í samræmi við reglugerðina, lög um fjöleignarhús og fyrirliggjandi gögn hjá embættinu.  Í 1. mgr. 28. gr. reglugerðarinnar komi fram að afhenda skuli eignaskiptayfirlýsingu og skráningartöflu til byggingarfulltrúa í þremur samhljóða eintökum sem hann skuli öll árita um staðfestingu, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar.  Byggingarfulltrúa hafi því ekki verið heimilt að staðfesta umsóknina, án samþykkis allra eigenda, þar sem hún hafi falið í sér breytingu á hlutfallstölu fasteignarinnar. 

Andmæli Aðaleignar ehf. vegna eignarhluta félagsins:  Aðaleign ehf. bendir á að fyrir liggi gildur eignaskiptasamningur og sé annar slíkur samningur því óþarfur.  Jafnframt feli ný umsókn til byggingarfulltrúa í sér ósamþykktar og óheimilar eignayfirfærslur sem séu verulegar en ekki minni háttar. 

Ekki hafi verið nauðsynlegt að gera nýja eignaskiptayfirlýsingu.  Virðist ástæðan fyrir gerð hennar helst hafa verið sú að sumir eigendur hefðu þannig getað náð til sín, sér að kostnaðarlausu, hluta úr sameign eða séreign annarra með því að reisa veggi inni á annarra eign.  Við gerð nýrra teikninga hafi verið fylgt núverandi veggjagerð.  Hafi eignarhlutföll verið færð á milli samkvæmt því og hvorki skeytt um þinglesnar eignarheimildir né gildandi eignaskiptayfirlýsingu.  Í uppdráttum hafi falist eignayfirfærsla, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 18. gr. sömu laga.  Samkvæmt uppdráttum séu eignayfirfærslur í sumum tilvikum verulegar en ekki minni háttar, eins og haldið sé fram í umsókn til byggingarfulltrúa.  Því uppfylli breytingarnar til dæmis ekki skilyrði ákvæðis 2. mgr. 19. gr. laga um fjöleignarhús hvað sameign snerti. 

Auk þess hafi ekki legið fyrir samningar um ráðstöfun slíkra eignarhluta, hvorki í sameign né séreign.  Sem dæmi megi nefna að sameinaðir hafi verið eignarhlutarnir 0103, 0104 og 0105 í einn eignarhluta og hafi hann verið merktur 0102.  Jafnframt hafi sá eignarhluti stækkað á kostnað sameignar um rúmlega 23%, eða úr 108,6 m² í 133,7 m².  Annað dæmi sé yfirfærsla á 20,7 m² inn í rými 0205, en það rými sé nú skráð um 50 m².  Því sé um verulegar eignayfirfærslur að ræða, sem kalli á samþykki allra húseigenda.  

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun synjaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík um samþykkt nýrra teikninga að fjöleignarhúsinu að Aðalstræti 9 sem sýna áttu einstaka séreignarhluta og sameign eigenda.  Var um svonefndar reyndarteikningar að ræða en byggingin var ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Uppdráttunum fylgdi eignaskiptayfirlýsing í samræmi við þá.

Samþykkt teikninga að mannvirki felur í sér byggingarleyfi, sbr. 3. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og samkvæmt 4. mgr. greinds ákvæðis er það skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis er snertir sameign að samþykki meðeigenda liggi fyrir.  Ef um fjöleignarhús er að ræða fer það eftir lögum um fjöleignarhús nr.  26/1994 hvað sé nægilegt samþykki í þessu sambandi.  Samkvæmt 18. gr. þeirra laga skulu allir eigendur eiga þess kost að vera með í ráðum um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölum og er samþykki allra eigenda, sem hagsmuna eiga að gæta, áskilið ef breytingarnar hafa í för með sér eignayfirfærslu eða kvaðir á eignarhluta.  Skulu þeir þá allir standa að slíkum breytingum og undirrita þau skjöl sem þarf.  Felist í breytingum aðeins leiðréttingar í samræmi við þinglýstar heimildir um húsið og einstaka eignarhluta og ákvörðun hlutfallstalna samkvæmt gildandi reglum er þó nægilegt að stjórn húsfélags láti gera slíkar breytingar og undirriti nauðsynleg skjöl í því skyni. 

Fyrir liggur að ágreiningur var með eigendum um afmörkun einstakra séreigarhluta gagnvart sameign og um túlkun eignarheimilda og að ekki gat því verið um leiðréttingar að ræða í samræmi við þinglýstar heimildir sem hefðu verið á forræði stjórnar húsfélagsins skv. 4. málslið 1. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús.  Fólu umræddir uppdrættir og eignaskiptayfirlýsing í sér breyttar hlutfallstölur og þurftu því allir sameigendur fjöleignarhússins að standa að umsókn til byggingarfulltrúa um samþykkt þeirra, sbr. 2. málslið 1. mgr. 18. gr. tilvitnaðra laga sbr. og 2. mgr. 16. gr. og 1. tl. A-liðar 41. gr. laganna.  Var byggingarfulltrúa því rétt að hafna umsókn kæranda enda lá ekki fyrir samþykki allra sameigendanna, svo sem skylt var.  Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. júlí 2008 að synja umsókn um leyfi fyrir breytingum á innra skipulagi kjallara, 1. og 2. hæðar vegna eignaskipta í atvinnu- og íbúðarhúsinu á lóðinni nr. 9 við Aðalstræti, Reykjavík. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

9/2010 Urðarstígsreitur

Með

Árið 2012, föstudaginn 20. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 9/2010, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um deiliskipulag fyrir Urðarstígsreiti. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2010, er barst nefndinni næsta dag, kæra B og R, Urðarstíg 16, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um að samþykkja deiliskipulag við Urðarstíg, nánar tiltekið staðgreinireita 1.186.0 og 1.186.4.

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2010.

Gera kærendur þá kröfu að ofangreind ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að í nóvember 2007 og á vordögum 2009 var hagsmunaaðilum annars vegar kynnt forsögn og hins vegar tillaga að deiliskipulagi við Urðarstíg fyrir staðgreinireit 1.186.0 sem afmarkast af Bergstaðastræti, Baldursgötu, Urðarstíg og Bragagötu og staðgreinireit 1.186.4 sem afmarkast af Bergstaðastræti, Bragagötu, Urðarstíg og Njarðargötu.  Komu fram athugasemdir við greindar tillögur, m.a. frá kærendum máls þessa.  Málið var eftir þetta til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum á nokkrum fundum og á fundi skipulagsráðs hinn 15. júlí 2009 var samþykkt að auglýsa breytta tillögu, dags. 13. júlí s.á., að deiliskipulagi umræddra reita.  Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi hinn 6. ágúst s.á.  Var tillagan auglýst til kynningar frá 14. ágúst til og með 25. september 2009 og komu fram athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 4. nóvember 2009 var tillagan lögð fram að nýju ásamt gögnum, þar á meðal umsögn skipulagsstjóra, dags. 2. nóvember 2009, þar sem lagt var til að tillagan yrði samþykkt með þeirri breytingu að bætt yrði inn á skipulagsuppdrátt byggingarreit fyrir sólstofu á lóðinni nr. 12 við Urðarstíg, en ósk þess efnis hafði komið fram á kynningartíma tillögunnar.  Kom fram í umsögninni að ósk lóðarhafa Urðarstígs 12 um „viðbyggingu að gafli Urðarstígs 14“ hefði einnig komið fram við kynningu gagnvart hagsmunaaðilum, en ákveðið hefði verið að auglýsa tillöguna óbreytta, þ.e. án viðbyggingar.  Þá var tekið fram að þar sem byggingarreiturinn lægi að lóðarmörkum við Urðarstíg 14, og hann hefði ekki verið á uppdrætti þeim er auglýstur hefði verið, væri gert ráð fyrir að samþykki lóðarhafa Urðarstígs 14 þyrfti að liggja fyrir áður en byggingarleyfi yrði afgreitt.  Afgreiddi skipulagsráð tillöguna með svofelldri bókun:  „Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra.  Vísað til borgarráðs þegar uppdrættir hafa verið lagfærðir.“  Tilkynnti skipulagsstjóri borgarráði niðurstöðu skipulagsráðs með bréfi, dags. 5. nóvember 2009, og fylgdi bréfinu fyrrgreind umsögn skipulagsstjóra og athugasemdir er borist höfðu á kynningartíma.  Ákvæði um að heimilt væri að reisa einnar hæðar byggingu með svölum á þaki innan byggingarreits við lóðarmörk Urðarstígs nr. 14 var síðan fært inn á uppdrátt deiliskipulagsins.  Á fundi borgarráðs hinn 12. nóvember 2009 var bréf skipulagsstjóra lagt fram og bókað að tillagan væri samþykkt. 

Í kjölfar þessa var skipulagið sent Skipulagsstofnun til meðferðar sem með bréfi, dags. 10. desember 2009, gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.  Var m.a. bent á að vegna þeirra breytinga á deiliskipulaginu er lutu að lóð Urðarstígs 12, og gerðar hefðu verið eftir að tillaga að deiliskipulagi hefði verið auglýst, þyrfti að auglýsa deiliskipulagið að nýju þar sem þessara breytinga yrði getið.  Að öðrum kosti taldi Skipulagsstofnun að geta þyrfti greindra breytinga og kærufrests í auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar auk þess sem æskilegt var talið að breytingarnar yrðu kynntar nágrönnum að Urðarstíg 14 með upplýsingum um kærufrest.  Með bréfi skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur til Skipulagsstofnunar, dags. 18. janúar 2010, var gerð grein fyrir afstöðu borgarinnar til fram kominna athugasemda stofnunarinnar.  Kom þar m.a. fram að breytinga á lóð Urðarstígs 12 og kærufrests yrði getið í auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar og að eigendum Urðarstígs 14 yrði einnig tilkynnt um kærufrest.  Þá var öðrum athugasemdum svarað og breytingar gerðar þar sem tilefni þótti til.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. febrúar 2010, voru framkomnar athugasemdir áréttaðar. 

Skutu kærendur áðurgreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að lóð þeirra hafi verið skert með hinu kærða deiliskipulagi. Hún hafi verið 154 m² en verði 118,5 m² samkvæmt skipulaginu.  Gangstétt sé færð úr lóð kærenda til borgar og þá sé lóð þeirra minnkuð til að koma til móts við kröfur lóðarhafa Urðarstígs 16A.  Sé um gróft brot á jafnræðisreglu að ræða.  Hafi Reykjavíkurborg innheimt leigu fyrir lóð kærenda á grundvelli lóðarleigusamnings frá 1920 og sé því harðlega mótmælt að sá samningur sé fallinn úr gildi líkt og haldið hafi verið fram í umsögn skipulagsstjóra.  Ákvæði um eignarnám séu því í fullu gildi og beri Reykjavíkurborg að bæta kærendum þá skerðingu á lóðinni sem ákveðin hafi verið með samþykkt hins nýja deiliskipulags. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að fullkomlega hafi verið heimilt að gera ráð fyrir breytingu á mörkum lóðar kærenda, svo sem gert hafi verið.  Verið sé að færa lóðarmörk í átt að raunverulegu ástandi, auk þess sem talið hafi verið ósanngjarnt að lóðarhafar væru að greiða fasteignagjöld af landi sem í eðli sínu væri borgarland.  Með umræddum breytingum sé ekki verið að koma til móts við kröfur annarra lóðarhafa heldur sé verið að lagfæra skekkjur.  Einnig þyki eðlilegt að gangstétt við götuna sé utan lóða og hafi allar lóðir við Urðarstíg verið minnkaðar sem nemi gangstéttinni.  Þá sé bent á að lóðarleigusamningur um lóð kærenda hafi verið útrunninn og því hafi þurft að ganga frá nýjum samningi.  Ekki þurfi því að framkvæma eignarnám, enda séu 14 ár frá því að samningurinn hafi runnið út.  Telji kærendur sig eiga bótarétt verði að sækja þær bætur á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá sé áréttað að í deiliskipulaginu felist aðeins tillaga að breyttum lóðamörkum og muni Reykjavíkurborg ekki framkvæma breytingar nema í samráði og sátt við alla lóðarhafa við gerð nýrra lóðarleigusamninga. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur um deiliskipulag við Urðarstíg, staðgreinireiti 1.186.0 og 1.186.4. 

Í 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er við eiga í máli þessu, er fjallað um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags.  Í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 1. mgr.

Tillaga að deiliskipulagi Urðarstígsreita, þar sem m.a. var heimilað að stækka hús og hækka ris á lóðinni nr. 12 við Urðarstíg, var auglýst til kynningar frá 14. ágúst til og með 25. september 2009.  Á fundi skipulagsráðs hinn 4. nóvember s.á. var tillagan samþykkt með þeirri breytingu að bætt yrði við byggingarreit fyrir sólstofu á lóðinni nr. 12 við Urðarstíg.  Var hið umþrætta deiliskipulag samþykkt á fundi borgarráðs hinn 12. nóvember 2009, en þá hafði verið fært inn á skipulagsuppdráttinn ákvæði um að heimilað væri að reisa einnar hæðar byggingu, með svölum á þaki, innan byggingarreits við lóðarmörk Urðarstígs nr. 14.  Gengur sú breyting lengra en samþykkt skipulagsráðs frá 4. nóvember 2009.

Eins og að framan er rakið voru tvívegis gerðar breytingar á kynntri tillögu eftir að frestur til að koma að athugasemdum var liðinn.  Hvorki er tilgreint í skipulagsskilmálum fyrir umrædda lóð hvert nýtingarhlutfall hennar sé né er tiltekið byggingarmagn á lóðinni, líkt og áskilið er í gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þó er ljóst að umrædd breyting víkur í grundvallaratriðum frá áformaðri nýtingu téðrar lóðar samkvæmt þeirri tillögu sem auglýst var til kynningar fyrir staðgreinireit 1.186.4 og er hún þess eðlis að vænta mátti að hún hefði töluverð grenndaráhrif.  Verður að telja að umrædd breyting hafi að efni og umfangi verið slík að skylt hafi verið að auglýsa tillöguna að nýju, sbr. 2. mgr. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga.  Breytir engu um þá niðurstöðu annars vegar sú ætlan skipulagsyfirvalda að geta breytingarinnar og veita upplýsingar um kærufrest í auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar og hins vegar áform um sérstaka tilkynningu til lóðarhafa Urðarstígs 14 um hana.

Hin kærða ákvörðun hefur samkvæmt framansögðu ekki hlotið lögmæta málsmeðferð og er þannig haldin annmörkum sem leiða eiga til ógildingar.  Annmarkar þessir varða þó aðeins annan af tveimur staðgreinireitum sem ákvörðunin tekur til og þykir rétt, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, að ógilda aðeins deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.4, en deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.0 skal standa óraskað.  Málsástæður kærenda, er varða breytta afmörkun lóðar, gildi lóðarleigusamninga, eignarnám og skaðabætur, eru einkaréttarlegs eðlis og koma ekki til álita við úrlausn málsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um deiliskipulag fyrir Urðarstígsreiti að því er varðar staðgreinireit 1.186.4 en deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.0 skal standa óraskað. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

10/2012 Strandvegur

Með

Árið 2012, föstudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 22. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102 í Vestmannaeyjum og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 17. s.m. um að veita leyfi til könnunar jarðvegs í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. V hf., Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita Í hf., Strandvegi 28, byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frystihús félagsins að Strandvegi 102.  Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hafði málið ekki komið til afgreiðslu bæjarstjórnar, en upplýst hefur verið að hin kærða ákvörðun var tekin fyrir til umræðu og staðfestingar á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2012 og samþykkt þar með fimm atkvæðum.  Þá hefur verið upplýst að framkvæmdir sem hófust á byggingarstað studdust við leyfi sem byggingarfulltrúi veitti með vísan til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hinn 17. s.m. til að kanna jarðveg í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Hefur kærandi áréttað að kæra hans taki einnig til þessa leyfis.  Er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að heimila stækkun lóðar og að veita leyfi fyrir viðbyggingunni. 

Af hálfu kæranda var þess einnig krafist að úrskurðarnefndin úrskurðaði að framkvæmdir að Strandvegi 102 yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.  Féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2012. 

Málsatvik:  Í lok desember 2011 óskaði lóðarhafi Strandvegar 102 eftir því að lóð hans yrði stækkuð til austurs og norðurs og að honum yrði veitt leyfi til að reisa þar viðbyggingu við fasteign þá er fyrir er á lóðinni.  Af málsgögnum verður ráðið að erindi þetta hafi átt sér talsverðan aðdraganda og var m.a. fjallað um hliðstætt erindi á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja 14. nóvember 2010.  Eftir skoðun á málinu var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. janúar 2012 að grenndarkynna erindið.  Gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd með bréfi, dags. 16. febrúar 2012.  Málið var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði 17. s.m. þar sem erindið var samþykkt.  Bókaði nefndin að athugasemdir hefði komið fram við grenndarkynningu málsins frá einum aðila og var þeim svarað í bókuninni.  Var þar m.a. tekið fram að þörf væri á rammáætlun fyrir hafnarsvæðið og upplýst að starfshópur Vestmannaeyjabæjar myndi móta nýtingu hafnarsvæðis, greina umferðarflæði og gera tillögu að landnýtingu innan hafnarsvæðis í samráði við umsagnar- og hagsmunaaðila.  Síðan var eftirfarandi bókað um afgreiðslu málsins:  „Ráðið samþykkir erindið þar sem uppdrættir eru í samræmi við mannvirkjalög nr. 160/2010.  Leyfið er samþykkt með því skilyrði að umsækjandi greiði allan kostnað við breytingar á lagnakerfum HS veitna, sbr. bréf dags. 16. feb. 2012 og allan kostnað varðandi framkvæmdir og breytingar við gangstéttar, götu og annað sem til fellur við framkvæmd þessa.  Lóðarhafi skal skila inn skriflegri framkvæmdaáætlun til samþykktar hjá umhverfis- og framkvæmdasviði áður en framkvæmdir hefjast.  Ráðið leggur til við starfshóp um umferðarmál, að norðurhluti Garðavegar og Hafnargata verði skilgreind sem athafnasvæði.  Byggingarleyfisgjald kr. 85.911 skv. gjaldskrá nr. 117/2010.  Afgreiðsla þessi er skv. Mannvirkjalögum nr. 160/2010 og Skipulagslögum nr. 123/2010.“  Sama dag veitti byggingarfulltrúi leyfi til könnunar jarðvegs á staðnum. 

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja 22. febrúar 2012 var tekin fyrir afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. í málinu og var eftirfarandi bókað um þann lið:  „Liður 2 liggur fyrir til umræðu og staðfestingar ….  Liður 2 var samþykktur með fimm atkvæðum. Páll Scheving Ingvarsson og Guðlaugur Friðþórsson véku af fundi.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur málsatvik öll bera með sér að mikill hraði og óvandvirkni hafi einkennt alla meðferð málsins af hálfu bæjarins og byggingaraðila.  Við blasi að leyfisveiting vegna umræddrar viðbyggingar hafi í reynd verið keyrð í gegn og hafi sveitarfélagið reynt eftir fremsta megni að stytta sér leið.  Þannig hafi bæjaryfirvöld kosið að grenndarkynna viðbygginguna í stað þess að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Þá hafi fljótaskrift verið á meðferð málsins að öðru leyti.  Beri að fella úr gildi þá ákvörðun bæjarins að heimila stækkun lóðar og veita umdeilt byggingarleyfi og sé krafa kæranda um ógildingu studd eftirgreindum rökum. 

Í fyrsta lagi hafi ekki verið heimilt að afgreiða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu einni saman, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Þess í stað hefði þurft að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið, að undangenginni þeirri málsmeðferð sem því fylgi, en ekkert deiliskipulag sé í gildi að svæðinu.  Það sé meginregla að byggingarleyfi megi aðeins gefa út að því tilskyldu að það eigi sér stoð í og samrýmist skipulagsáætlunum á viðkomandi svæði, þ.e. aðalskipulagi og deiliskipulagi, sbr. 1. tölul. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Frá þessu sé undantekning í 44. gr. skipulagslaga þar sem heimilað sé að gefa út byggingarleyfi, á svæði þar sem deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt, að undangenginni grenndarkynningu einni saman.  Þetta sé undantekningarákvæði sem skýra beri þrengjandi lögskýringu.  Í ákvæðinu segi að grenndarkynningu megi beita, að framangreindum skilyrðum fullnægðum, ef framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi. 

Kærandi telji að þessi skilyrði séu ekki uppfyllt í máli þessu. Með hinni kærðu ákvörðun sé verið, með afdrifaríkum hætti, að breyta hluta af götu í lóð.  Lóðarmörkum sé því breytt og til komi viðbygging sem þrengi verulega umrædda götu, en hún sé aðalaðkomuleið að lóð kæranda.  Í þessu felist auðvitað breytt landnotkun og enn fremur breytt byggðamynstur.  Jafnframt aukist þéttleiki byggðar við þessa breytingu.  

Þá beri að horfa til þess að um sé að ræða hafnarsvæði þar sem mikil atvinnuumsvif séu.  Við þessar aðstæður geti enn síður átt við að veita byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu.  Annað gildi í íbúðarhverfum þar sem játa verði byggingaryfirvöldum meira svigrúm til slíkrar málsmeðferðar.  Þá sé starfshópur að hefja störf við að móta stefnu um landnýtingu hafnarsvæðisins og sé vandséð að það samræmist áformum bæjaryfirvalda að veita hið umdeilda leyfi án þess að huga fyrst að skipulagsmálum svæðisins. 

Í öðru lagi sé á því byggt að sú þrenging á Garðavegi, um 6,5 metra, sem leiði af stækkun lóðar og tilkomu umdeildrar viðbyggingar, fari í bága við þéttbýlisuppdrátt Aðalskipulags Vestmannaeyjabæjar 2002-2014.  Sé rýnt í hann komi í ljós að þar sé gert ráð fyrir beinum og breiðum Garðavegi í norður út frá Strandgötu, en ekki að þar sé þrenging af neinu tagi.  Þá séu færð inn á uppdráttinn lóðamörk og útlínur bygginga, og geri þær heldur ekki ráð fyrir viðbyggingu á þessum stað eða mjókkuðum vegi.  Eins og áður segi leiði af ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga að mannvirki verði að vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir.  Þar sem hér sé brotið gegn gildandi aðalskipulagsuppdrætti sé nefnd stækkun lóðar ólögmæt, svo og byggingarleyfi fyrir viðbyggingu. 

Í þriðja lagi sé á því byggt að frestur til andmæla vegna grenndarkynningar hafi verið of stuttur.  Frestur til andmæla hafi verði fjórar vikur frá dagsetningu kynningarbréfs, en bréfið hafi ekki verið póstlagt fyrr en fjórum dögum eftir dagsetningu þess.  Kærandi hafi því ekki fengið það ráðrúm til að gera athugasemdir sem skipulagslög geri ráð fyrir. 

Í fjórða lagi sé á það bent að samþykki umhverfis- og skipulagsráðs fyrir útgáfu byggingarleyfis hafi verið ólögmætt þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2.-6. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. 

Í fimmta lagi sé á því byggt að ekki verði annað séð en að Vestmannaeyjabær viðhafi það fyrirkomulag, sem bænum sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga, að umsókn um byggingarleyfi skuli koma til meðferðar, úrlausnar og samþykkis hjá umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjórn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi.  Hins vegar liggi fyrir í málinu að útgáfa hins umdeilda byggingarleyfis hafi ekki komið inn á borð bæjarstjórnar áður en byggingarfulltrúi hafi gefið út byggingarleyfi og sé það því ólögmætt.  Ennfremur sé leyfið ólögmætt þar sem ekki hafi verið kallaðir til varamenn fyrir þá tvo nefndarmenn sem vikið hafi sæti við úrlausn málsins en þeir séu starfsmenn byggingarleyfishafa. 

Í sjötta lagi sé á því byggt af hálfu kæranda að stækkun umræddrar lóðar hafi verið ólögmæt nema til kæmi nýr lóðarleigusamningur eða viðbót við gildandi samning.  Þar sem samningnum hafi hvorki verið breytt né hann endurnýjaður sé stækkun lóðarinnar ólögmæt. 

Síðast en ekki síst sé á því byggt að reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að stækkun lóðarinnar að Strandvegi 102 og tilkoma margumræddrar viðbyggingar sé ólögmæt.  Réttarreglur þessar sem séu ólögfestar kveði á um að nágranni verði að sætta sig við tiltekin óþægindi af nábýli við annan aðila, en um leið og óþægindin fari yfir ákveðin mörk séu þau orðin ólögmæt.  Sé stækkun lóðar og heimiluð viðbygging afar íþyngjandi fyrir kæranda og skerði möguleika hans til nýtingar eigin eignar í svo ríkum mæli að ekki verði við unað.  Beri samkvæmt öllu framansögðu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum kæranda.  Því sé hafnað að málsmeðferð umhverfis- og skipulagsráðs vegna beiðni um stækkun lóðar við Strandveg 102 og útgáfu leyfis til viðbyggingar hafi verið áfátt að því er tekur til grenndarkynningar. 

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé landið allt skipulagsskylt og skuli framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þó sé heimilt að víkja frá deiliskipulagsskyldu vegna stakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag sé ekki fyrir hendi ef fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Í stað deiliskipulagsgerðar sé þá hægt að beita svokallaðri grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga. 

Mat á því hvort framkvæmdir séu í samræmi við aðalskipulag fari saman við túlkun á hugtakinu landnotkun.  Í 11. tölul. 2. gr. skipulagslaga komi fram sú skilgreining á hugtakinu landnotkun að þar sé um að ræða ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað.  Samkvæmt Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 sé svæði hafnarinnar þrískipt og lóðin að Strandvegi 102 skilgreind sem hafnarsvæði, eða nánar tiltekið á athafnasvæði hafnar (H-1).  Í greinargerð aðalskipulags, sbr. og gr. 4.8.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sé tekið fram að á hafnarsvæðum tengist landnotkun fyrst og fremst hafnsækinni starfsemi, s.s. útgerð, fiskvinnslu og starfsemi tengdri sjóflutningum og skipasmíði eða viðgerðum.  Enn fremur verði að túlka ákvæði aðalskipulags um landnotkun hafnarsvæða með hliðsjón af ákvæði 4.8.2 í skipulagsreglugerð, en þar komi fram að áhersla verði lögð á öfluga útgerð og fiskvinnslu og að aðstaða þessara greina í landi og í höfn verði eins og best geti orðið á hverjum tíma, auk þess sem lóðir fyrir þessa starfsemi verði tiltækar.  Í greinargerð með aðalskipulagi Vestmannaeyja sé tiltekið að stærð svæðis H-1 sé 14,7 ha, fullbyggt um 70.000 m2, og nýtingarhlutfallið sé 0,5.  Þá komi fram í grein 4.8.6 í greinargerð með aðalskipulaginu að svæði H-1 og H-2 séu að mestu byggð.  Ef litið sé til þess hvernig landnotkun fyrir umrætt svæði sé sett fram í aðalskipulagi verði ekki séð að hin kærða ákvörðun sé í ósamræmi við það sem þar komi fram, enda fyrirhugaðar framkvæmdir byggingarleyfishafa bæði í samræmi við staðfest aðalskipulag á svæðinu og falli að skilgreindri landnotkun þess. 

Í samræmi við 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 hafi umhverfis- og skipulagsráð, sem ígildi skipulags- og byggingarnefndar, fjallað um erindi byggingarleyfishafa á fundi 20. janúar 2012 og ákveðið að láta fara fram grenndarkynningu.  Grenndarkynningin hafi farið fram í samræmi við 44. gr. skipulagslaga og hafi erindið verið kynnt með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa 20. janúar 2012.  Að kynningu lokinni hafi erindið svo verið tekið til afgreiðslu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 17. febrúar s.á. þar sem athugasemdum hafi verið svarað með rökstuðningi, erindið samþykkt og sent bæjarstjórn til afgreiðslu.  Fari því fjarri að um sé að ræða nokkra þá annmarka á framangreindri málsmeðferð að ógildingu varði. 

Umþrætt viðbygging muni fráleitt hafa áhrif á byggðamynstur hafnarsvæðisins.  Núverandi bygging sé fiskverkunarhús með vinnslusölum, geymslum, frystigeymslum, mótorhúsi og starfsmannaaðstöðu, en með breytingunni sé gert ráð fyrir viðbyggingu fyrir mótorhús og frystitækjarými.  Núverandi brúttóflötur fyrstu hæðar hússins sé 3.289,3 m2, en húsið sé á þremur hæðum.  Viðbyggingin verði á tveimur hæðum, 306,1 m2, að brúttófleti á fyrstu hæð og 62,5 m2, á annarri hæð.  Ekki liggi fyrir útreikningar á nýtingarhlutfalli lóðarinnar þar sem svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt en viðbyggingin sé alls ekki veruleg og vandséð hvernig hún raski hagsmunum kæranda.  Horfa verði til þess að um sé að ræða atvinnulóð á hafnarsvæði en ekki sé um það að ræða að götumynd verði raskað, enda gert ráð fyrir að viðbyggingin verði hvorki hærri, stærri né umfangsmeiri en atvinnuhúsnæði í nágrenninu.  Þá falli fyrirhuguð viðbygging vel að núverandi byggingu, heildarmynd og yfirbragði svæðisins.  Myndi með útgáfu byggingarleyfis ekki á nokkurn hátt vera vikið frá byggðamynstri á svæðinu.  Skilyrðið um þéttleika byggðar geti ekki girt fyrir að heimiluð verði minni háttar viðbygging við fasteign byggingarleyfishafa þegar litið sé til þess að ekki sé í gildi formleg ákvörðun um nýtingarhlutfall á svæðinu og að umrædd fasteign sé ekki stærri en almennt gerist þar.  Byggingarleyfishafi telji að með hliðsjón af framansögðu og réttarframkvæmd í tíð eldri laga hafi skilyrði til grenndarkynningar verið uppfyllt.  Einungis sé um að ræða breytingu á einni atvinnulóð í tengslum við starfsemi sem þar fari fram.  Umfang fyrirhugaðrar viðbyggingar sé lítið enda nemi stærð hennar ekki nema rétt tæplega 10% af brúttófleti byggingarinnar og falli hún vel að byggðamynstri.  Ótvírætt sé að heimilt hefði verið að grenndarkynna erindið sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, hefði það verið fyrir hendi, og því hafi skilyrði grenndarkynningar verið uppfyllt. 

Því sé einnig mótmælt að brotið hafi verið gegn sjónarmiðum um jafnræði og réttmæti við afgreiðslu málsins, eða að það hafi verið afgreitt með óeðlilegum hraða, enda hafi verið sýnt fram á að svo hafi ekki verið.  Byggingarleyfishafi taki fram að hagsmunir nágrannaeigna séu ekki þeir einu sem líta beri til við skoðun á málinu heldur verði einnig að taka sanngjarnt tillit til réttmætra hagsmuna hans sem fasteignareiganda.  Verulegir hagsmunir séu fólgnir í því að hann geti hafist handa um framkvæmdir á lóð sinni án þess að þurfa að bíða eftir þeirri tímafreku og flóknu málsmeðferð sem fylgi því að gerð deiliskipulags ljúki.  Þeir hagsmunir njóti lögverndar. 

Þeirri athugasemd V hf. að viðbyggingin og þrenging götu fari í bága við aðalskipulagsuppdrátt sé alfarið hafnað.  Sérstaklega verði að líta til þess hvernig landnotkun sé sett fram í aðalskipulagi, en hin kærða ákvörðun sé í fullu samræmi við það sem þar komi fram.  Fyrirhuguð viðbygging, til stækkunar á frystihúsi félagsins, sé á skilgreindu hafnarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og ótvírætt sé að hún falli vel að skilgreindri landnotkun.  Auk þessa sé umfjöllun í kæru í meginatriðum röng að því er varði þrengingu götunnar, enda sé ekki um að ræða þrengingu á vegi heldur sé lagt upp með breikkun akreina í erindi byggingarleyfishafa. 

Ein af málsástæðum sé sú að andmælafrestur vegna grenndarkynningar hafi verið of stuttur en því sé alfarið mótmælt.  Kæranda hafi gefist nægur tími til andmæla enda hafi hann komið að athugasemdum sínum innan frestsins.  Jafnvel þótt talið væri að frestur til athugasemda hafi verið örfáum dögum of stuttur, með hliðsjón af póststimpli kynningarinnar eða viðlíka, þá geti slíkt ekki eitt og sér valdið ógildingu ákvörðunarinnar þar sem kæranda hafi sannanlega gefist kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og tjá sig um málið.  Athugasemdir hans hafi komið fram og fengið umfjöllun áður en erindið hafi verið afgreitt. 

Staðhæfingum kæranda um að ekki hafi verið skilyrði til útgáfu byggingarleyfis sé alfarið vísað á bug, enda sé þar byggt á röngum forsendum.  Einnig sé hafnað þeirri órökstuddu málsástæðu kæranda að ekki sé búið að breyta lóðarleigusamningi, enda geti kærandi ekki átt lögvarða hagsmuni af aðkomu að slíkum samningi milli byggingarleyfishafa og Vestmannaeyjarbæjar.  Ógilding byggingarleyfis geti aldrei byggst á þeirri ástæðu að lóðarleigusamningi hafi ekki verið breytt. 

Andmæli kæranda, sem lúti að grenndar- og nábýlisrétti, byggi annars vegar á því að um sé að ræða þrengingu á götu og hins vegar að breytingin hafi áhrif á kröfu um brunavarnir.  Hvað varði þrengingu götu hafi verið sýnt fram á að slíkar fullyrðingar séu rangar og þvert á móti sé um að ræða breikkun akreina á Garðavegi, sem áfram verði tvístefnugata.  Þá liggi fyrir að gætt hafi verið að öllum sjónarmiðum er varði eldvarnir og liggi fyrir jákvæð umsögn slökkviliðsstjórans í Vestmannaeyjum, auk jákvæðrar umsagnar yfirlögregluþjóns hvað varði þætti er snúi að umferðaröryggi. 

Loks telji byggingarleyfishafi að ekki hafi á neinn hátt verið sýnt fram á að fyrirhuguð viðbygging raski lögvörðum hagsmunum kæranda, hvorki á grundvelli eignarréttar né að hún valdi einhverju því tjóni eða óhagræði sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Byggingarleyfishafi vísar til þess að í bráðabirgðaúrskurði um stöðvun framkvæmda, uppkveðnum 24. febrúar 2012, komi fram að óljóst sé að mati úrskurðarnefndarinnar um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs, svo og hvort afgreiðsla bæjarstjórnar í kjölfar grenndarkynningar hafi verið fullnægjandi.  Af þessu tilefni sé því alfarið mótmælt að skort hafi á valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs til samþykktar á því erindi sem hér um ræði.  Heimildir séu í nýjum skipulagslögum og lögum um mannvirki til að ein og sama nefndin fari með byggingar- og skipulagsmál innan stjórnsýslu hvers sveitarfélags, líkt og verið hafi í hinum eldri. 

Í málinu liggi fyrir að sérstakar byggingar- og skipulagsnefndir hafa ekki verið settar á laggirnar í Vestmannaeyjum eftir gildistöku nýju laganna 1. janúar 2011, en með málefni er varði bæði skipulags- og byggingarmál bæjarins fari umhverfis- og skipulagsráð.  Sé þessi skipan í samræmi við Samþykkt um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 630/2004, með síðari breytingum, sem sett hafi verið skv. ákvæðum 10. og 25. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. nú 9. gr. laga nr. 138/2011.  Í samþykktinni sé fjallað um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs og komi fram í 64. gr. að ráðið fari með málefni skipulags- og byggingarmála, sbr. lög nr. 73/1997.  Jafnframt komi fram í 2. mgr. sömu greinar að ráðið geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar.  Samþykktin hafi verið staðfest af samgönguráðuneytinu þann 12. júlí 2004 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. s.m.  Sé því sú framkvæmd, að umhverfis- og skipulagsráð fari með málefni er varði bæði skipulags- og byggingarmál bæjarins, í samræmi við ákvæði eldri laga nr. 73/1997 um skipulags- og byggingarmál og nú 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, þar sem gert sé ráð fyrir að byggingar- og skipulagsmál falli undir eina og sömu nefndina eða ráðið.  Séu því uppfyllt skilyrði mannvirkja- og skipulagslaga um störf byggingar- og skipulagsnefnda, sem staðfestar skuli af ráðherra, og um birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og mannvirkjalaga, sbr. og eldri skipulags- og byggingar-lög, skuli sveitarstjórn afgreiða umsóknir um byggingarleyfi og sé heimilt skv. 7. gr. mannvirkjalaga og 6. gr. skipulagslaga að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skuli af ráðherra, sem fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála, sbr. 3. gr. skipulagslaga og 4. gr. mannvirkjalaga.  Fyrir liggi að staðfest og birt samþykkt nr. 630/2004 hafi verið og sé í gildi og séu því valdheimildir sveitastjórnar við afgreiðslu málsins ótvíræðar. 

Með gildistöku nýrra skipulagslaga nr. 123/2010 hafi orðið breytingar á meðferð grenndarkynningarmála.  Samkvæmt 44. gr. laganna komi það nú í hlut sveitarstjórnar að afgreiða mál að lokinni grenndarkynningu og í samræmi við það hafi bæjarstjórn samþykkt á fundi sínum 22. febrúar 2012 tillögu umhverfis- og skipulagsráðs um að samþykkja umsókn byggingarleyfishafa.  Hafi hin kærða afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs því verið byggð á ákvörðun sem tekin hafi verið með stoð í skipulagslögum nr. 123/2010. 

Um afgreiðslu bæjarstjórnar vísist enn fremur til 3. mgr. 64. gr. tilvitnaðrar samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er mótmælt staðhæfingum kæranda um óvandaða málsmeðferð.  Þvert á móti hafi framkvæmd málsins verið fyllilega í samræmi við lög og reglur og hafi í alla staðið verið staðið rétt að grenndarkynningu og öðrum undirbúningi málsins. 

Aðkoma umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið í samræmi við bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyja nr. 630/2004, með síðari breytingum, en í henni komi fram að ráðinu sé falin umfjöllun um málefni skipulags- og byggingarmála.  Þá komi þar fram að umhverfis- og skipulagsráð geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar.  Grundvöllur umhverfis- og skipulagsráðs byggi á skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 6. gr. laganna.  Þar komi m.a. fram að slík nefnd fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna.  Umhverfis- og skipulagsráð hafi grundvallað afgreiðslu sína á framangreindum reglum og lagaákvæðum.  Um efnislega afgreiðslu sé vísað til 44. gr. skipulagslaga.  Þar komi skýrt fram að heimild sé til að gefa út byggingar- eða framkvæmdaleyfi án þess að deiliskipulag liggi fyrir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Jafnframt komi þar fram að sveitarstjórn afgreiði slík mál og taki endanlega ákvörðun í slíku máli.  Í máli því sem hér sé til umfjöllunar hafi verið farið nákvæmlega eftir framangreindum reglum.  Umhverfis- og skipulagsráð hafi tekið málið til umfjöllunar og sent það síðan til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar, sem hafi samþykkt erindið formlega á fundi sínum 22. febrúar 2012 í samræmi við framangreind ákvæði skipulagslaga.  Það skuli þó tekið skýrt fram að formlegt byggingarleyfi hafi ekki enn verið gefið út, enda þurfi að liggja fyrir nauðsynleg gögn til þess, s.s. sérteikningar. 

Vestmannaeyjabær leggi áherslu á að afgreiðsla máls þessa geti vart talist íþyngjandi gagnvart kæranda.  Helsta röksemd hans sé að Garðavegurinn þrengist en í raun breikki umferðargatan.  Ekki verði séð að nein önnur efnisleg rök liggi að baki athugasemdum kæranda.  Málið hafi fengið eðlilega afgreiðslu í samræmi við lög og reglur. 

Af hálfu bæjaryfirvalda er málsástæðum kæranda að öðru leyti svarað lið fyrir lið.  Eru þau svör í aðalatriðum byggð á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og fram eru komin af hálfu byggingarleyfishafa og þykir ekki ástæða til að endurtaka þau hér. 

———————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Verður að skýra þessi ákvæði saman á þann veg að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segi hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.  Í 2. mgr. 44. gr. er því síðan lýst hvernig staðið skuli að grenndarkynningu og kemur þar fram að sveitarstjórn afgreiði, að kynningarfresti liðnum, mál sem sæti slíkri meðferð. 

Samkvæmt samþykkt um skipan bæjarmálefna í Vestmannaeyjum fer umhverfis- og skipulagsráð með mál er heyra undir skipulagsnefndir samkvæmt 6. gr. skipulagslaga.  Var ráðið því til þess bært að taka ákvörðun um að grenndarkynna erindi byggingarleyfishafa, svo sem gert var.  Var málinu, að kynningartíma liðnum, vísað til bæjarstjórnar sem tók það til umræðu og afgreiðslu og má fallast á að meðferð málsins hafi að formi til verið í samræmi við fyrirmæli 44. gr. skipulagslaga um meðferð grenndarkynningar.  Er þá litið fram hjá þeim ágöllum sem voru á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs hinn 17. febrúar 2012, þegar ráðið samþykkti leyfi með vísun í lög um mannvirki og ákvað byggingarleyfisgjald, en með því fór ráðið út fyrir valdmörk sín, enda hefur ekki verið sett samþykkt í Vestmannaeyjum um byggingarnefnd samkvæmt 7. gr. laga um mannvirki, er gilt gæti fyrir ráðið.

Fallast má á að kynningarfrestur vegna grenndarkynningar hafi verið skemmri en lög áskilja.  Hins vegar liggur fyrir að kærandi kom að athugasemdum innan þess frests sem veittur var og verður ekki séð að þessi ágalli á málsmeðferð hafi valdið réttarspjöllum.  Verður hann því ekki talinn eiga að leiða til ógildingar, einn og sér.

Í málinu er um það deilt hvort skilyrði hafi verið til að víkja frá meginreglu 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga um deiliskipulag og grenndarkynna þess í stað umsókn byggingarleyfishafa í málinu.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er það skilyrði sett fyrir því að farið sé með byggingarleyfisumsókn eftir ákvæðinu að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika þeirrar byggðar sem fyrir er á svæðinu.

Í erindi byggingarleyfishafa fólst ekki aðeins umsókn um byggingaleyfi heldur einnig um stækkun lóðar, en sú stækkun var forsenda byggingarleyfisins.  Tekur heimild 44. gr. skipulagslaga ekki til umsókna um úthlutun lóða eða ráðstöfunar lands til einkanota, enda en þar ekki um umsókn um byggingarleyfi að tefla.  Geta eigendur fasteigna í þegar byggðum hverfum ekki haft væntingar um að fá til ráðstöfunar land utan lóðarmarka nema að undangengnu deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, þar sem segir að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, o.s.frv.  Með hinni kærðu ákvörðun var þar að auki raskað götumynd og þar með byggðamynstri, en með breytingunni voru felld út bílastæði báðum megin götunnar og gangstéttir mjókkaðar.  Þótt áformað hafi verið að breikka akbrautina sjálfa lítillega var til frambúðar girt fyrir frekari breikkun hennar og þar með skertir möguleikar á að laga svæðið að hugsanlegum þörfum komandi tíma.

Úrskurðarnefndin telur enn fremur að skort hafi á að gætt væri rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning málsins.  Þannig verður ekki séð að gætt hafi verið að því hvort fyrirhuguð framkvæmd rúmaðist innan nýtingarhlutfalls svæðisins, en samkvæmt aðalskipulagi gildir reitanýting á svæðinu og er nýtingarhlutfallið 0,5.  Hins vegar liggja hvorki fyrir útreikningar nýtingarhlutfalls né nauðsynlegar forsendur þeirra, svo sem um hlutfall byggingarlóða og annars lands, gatna, bílastæða og opinna svæða innan viðkomandi reits.  Jafnframt skorti á að gerð væri könnun á áhrifum hinnar umdeildu breytingar á umferð og bílastæðakröfu á svæðinu áður en hin kærða ákvörðun var tekin, en þessir þættir snerta m.a. lögvarða hagmuni kæranda. 

Samkvæmt framansögðu skorti lagaskilyrði fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa um stækkun lóðar og um byggingarleyfi.  Jafnframt skorti á að gætt væri rannsóknarreglu við undirbúning málsins.  Leiða þessir ágallar til þess að ógilda ber hina kærðu ákvörðun.  Miðað við þá niðurstöðu hefur ekki þýðingu að fjalla um gildi ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2012 um að veita leyfi til könnunar jarðvegs vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 22. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102.

 
_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

18/2012 Langamýri

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2 til 12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá krefjast þeir þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi.  Andmæli komu fram af hálfu nágranna sem telja að með umræddum breytingum sé í raun verið að skipta eigninni að Löngumýri 14 upp í fleiri íbúðir.  Slíkt fái ekki staðist.  Þá hafi málsmeðferð verið áfátt þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning.

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Umræddar framkvæmdir séu ekki sýnilegar kærendum og geti því á engan hátt raskað hagmunum þeirra.  Auk þess muni þeim vera lokið og þjóni stöðvun þeirra því engum tilgangi.
 
Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá.  Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram.  Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi sem í engu snerti hagsmuni nágranna.  Krafist sé stöðvunar framkvæmda en ekki geti komið til álita að fallast á slíka kröfu þar sem framkvæmdum samkvæmt hinu umdeilda leyfi sé lokið. 

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. 

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi húss.  Ekki þykir útilokað að kærendur eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og verður því ekki fallist á frávísunarkröfu byggingarleyfishafa eins og málið liggur nú fyrir.  Ekki er hins vegar líklegt að framkvæmdir samkvæmt leyfinu raski hagsmunum kærenda svo verulega að rétt sé að fallst á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda, enda eru þær alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan ekki liggur fyrir endanlegur úrskurður í málinu.  Verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við breytingar á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14 í Garðabæ meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

93/2011 Oddeyrartangi

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 93/2011, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 við Oddeyrartanga á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. nóvember 2011, er barst úrskurðarnefndinni 14. s.m., kærir Íslenska gámafélagið ehf., Gufunesi, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 við Oddeyrartanga á Akureyri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 4. mars 2009 veitti Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra kæranda í máli þessu starfsleyfi til 12 ára fyrir starfsemi á sviði sorphirðu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 að Oddeyrartanga.  Það starfsleyfi var endurnýjað til 12 ára hinn 20. október 2010 og tók þá jafnframt til móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi.  Með bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 10. ágúst 2011, óskaði kærandi síðan eftir rýmkun á starfsleyfinu með því að heimiluð yrði móttaka og umhleðsla á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað.  Af sama tilefni hafði kærandi hinn 5. september s.á. samband með tölvupósti við skipulagsyfirvöld Akureyrarbæjar, þar sem gerð var grein fyrir starfsemi kæranda og fyrirliggjandi umsókn um rýmkun leyfisins.  Lýsti kærandi þar von sinni um að skipulagsyfirvöld sæju enga annmarka á starfsemi fyrirtækisins á svæðinu. 

Hinn 28. september 2011 var gerð svofelld bókun á fundi skipulagsnefndar: 

11.  Oddeyrartangi 149144 – umsókn um breytingu á notkun – 2011090064
Erindi dagsett 10. ágúst 2011 frá Birgi Kristjánssyni f.h. Íslenska Gámafélagsins ehf. þar sem óskað er eftir leyfi til móttöku og umhleðslu á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað í húsnæðinu að Oddeyrartanga, húsi nr. 6. 
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gaf út starfsleyfi fyrir m.a. móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi þ. 11. nóvember 2010. 
Fyrir liggur neikvæð umsögn stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands bs. dagsett 12. september 2011 fyrir starfseminni þar sem m.a. er bent á að starfsemin brjóti í bága við skilmála deiliskipulags hafnarsvæðisins.
Í gildandi deiliskipulagi er umrætt svæði skilgreint undir matvælaiðnað (M) þar sem m.a. er gert ráð fyrir sláturhúsi, kjötiðnaðarstöð og stórum fiskvinnslufyrirtækjum.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem starfsemin fellur ekki að gildandi deiliskipulagi svæðisins. Ennfremur er óskað eftir því við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi Íslenska Gámafélagsins ehf., dagsett 11. nóvember 2010 verði fellt úr gildi af sömu ástæðum. 

Var kæranda tilkynnt um bókunina í bréfi, dags. 29. september 2011.  

Með bréfi, dags. 10. október 2011, fór kærandi fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun skipulagsnefndar í fyrrgreindri bókun að óska eftir niðurfellingu starfsleyfis hans og var því erindi svarað með bréfi nefndarinnar, dags. 18. s.m.  Kom þar m.a. fram að umrædd starfsemi færi í bága við gildandi deiliskipulag og ekki hefði verið aflað tilskilins byggingarleyfis hennar vegna.  Hefði umrædd ósk um niðurfellingu starfsleyfis því verið sett fram en bæjaryfirvöldum hefði áður verið ókunnugt um umrædda starfsemi kæranda. 

Kærandi vísar til þess að hann hafi haft leyfi lögum samkvæmt fyrir starfsemi sinni á Oddeyrartanga allt frá árinu 2009 og hljóti bæjaryfirvöldum að hafa verið um hana kunnugt.  Í rökstuðningi skipulagsnefndar fyrir hinni kærðu afgreiðslu sé ekki að finna nein lagarök og með henni hafi nefndin farið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt og heimildir skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Umrædd ósk skipulagsnefndar til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra eigi sér enga stoð í lögum og fari því gegn lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar og meðalhófsreglu þar sem allt of langt sé gengið með íþyngjandi hætti gegn hagsmunum kæranda. 

Af hálfu skipulagsyfirvalda Akureyrar er á það bent að bæjaryfirvöldum hafi ekki verið kunnugt um starfsemi kæranda fyrr en við umsókn hans um útvíkkun leyfisins haustið 2011.  Við útgáfu upphaflegs starfsleyfis hafi þess ekki verið gætt af leyfisveitanda að starfsemin væri í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á fundi sínum hinn 28. september 2011 hafi skipulagsnefnd hafnað útvíkkun starfsleyfisins af þeim sökum, en umrætt húsnæði kæranda sé í deiliskipulagi á skilgreindu svæði undir matvælaiðnað.  Af framangreindum ástæðum hafi þeim tilmælum jafnframt verið beint til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi kæranda yrði fellt úr gildi.  Hverjum sem er sé heimilt að hafa uppi tilmæli til stjórnvalda um endurskoðun ákvarðana sem kunni að fara gegn lögum eða öðrum settum fyrirmælum.  Starfsleyfið brjóti gegn gildandi deiliskipulagi og hafi kærandi ekki sótt um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirrar fasteignar sem hýsi umdeilda starfsemi.

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 m.s.br. veita heilbrigðisnefndir, eða eftir atvikum Umhverfisstofnun, starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem lögin taka til.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum heyrir afgreiðsla á umsókn kæranda, sem mál þetta er sprottið af, undir Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.  Hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrar, sem fram kemur í bókun nefndarinnar frá 28. september 2011, getur því ekki falið í sér annað en afstöðu eða álit nefndarinnar varðandi umsókn kæranda um breytt starfsleyfi og tilmæli til leyfisveitanda að lögum um að fella úr gildi þegar útgefið starfsleyfi. 

Samkvæmt 1. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sætir stjórnvaldsákvörðun stjórnsýslu sveitarfélaga samkvæmt nefndum lögum kæru til úrskurðarnefndarinnar enda bindi hún enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í hinni kærðu bókun skipulagsnefndar Akureyrar er, eins og fyrr er rakið, ekki að finna slíka ákvörðun og ber því með vísan til greindra lagaákvæða að vísa máli þessu frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

55/2009 Nýbýlavegur

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 55/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 24. mars 2009 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á 3. hæð að Nýbýlavegi 30, Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2009, er barst nefndinni 28. s.m., kæra Á og Þ, Brúnási 21, Garðabæ, eigendur 2. hæðar hússins að Nýbýlavegi 30 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á 3. hæð hússins. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og virtur verði eignaskiptasamningur sá sem í gildi sé fyrir fasteignina að Nýbýlavegi 30 í Kópavogi. 

Málavextir:  Húsið að Nýbýlavegi 30 stendur á ódeiliskipulögðu svæði milli Nýbýlavegar og Dalbrekku.  Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 er á svæðinu blönduð landnotkun athafnasvæðis og verslunar- og þjónustusvæðis.  Í þinglýstum eignaskiptasamningi er húsið skilgreint sem atvinnuhúsnæði fyrir iðnað, verslun og þjónustu.  Hinn 24. mars 2009 veitti byggingarfulltrúinn í Kópavogi Gjótuhrauni 1 ehf., eiganda 3. hæðar að Nýbýlavegi 30, byggingarleyfi til að innrétta gistiheimili á hæðinni.  Leyfið var veitt með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.  Með bréfi til bæjarstjórnar Kópavogs hinn 27. apríl 2009 mótmæltu kærendur leyfi byggingarfulltrúa og óskuðu eftir að bæjarstjórn heimilaði ekki rekstur gistiheimilis í húsinu.  Í svarbréfi bæjaryfirvalda, dags. 29. júní 2009, kom fram að rekstur gistiheimilis rúmaðist innan þeirra skipulagsskilmála sem í gildi væru fyrir viðkomandi svæði og að ekki hefði verið þörf samþykkis meðeigenda samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 11. júní 2009 og var kærendum kynnt sú ákvörðun í fyrrnefndu bréfi, dags. 29. s.m.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að gengið hafi verið gegn rétti þeirra samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi fyrir húsið.  Í honum sé kveðið á um að eignin sé iðnaðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæði og sé þar átt við allar þrjár hæðir hússins.  Í fasteignaskrá komi fram að fasteignin sé skráð sem iðnaðarhúsnæði en það samræmist því sem fram komi í lóðarleigusamningi frá 1983, þ.e. að um úthlutun lóðar til atvinnustarfsemi sé að ræða en ekki til íbúðarnota.  Þá séu bílastæði ekki fullnægjandi með tilliti til reksturs gistiheimilis. 

Gríðarlegt ónæði og óþægindi hafi verið af rekstri gistiheimilis á 3. hæð Nýbýlavegar 30 síðastliðin níu ár. Hafi oft verið kvartað til heilbrigðiseftirlitsins en einnig hafi þurft að kalla til lögreglu.  Hvorki hafi verið leitað samþykkis kærenda áður en heimild hafi verið veitt til umræddrar breytingar né tilkynnt um leyfið og hafi kærendur frétt af því fyrir tilviljun.  Kærendur hafi síðan frétt fyrst af samþykkt bæjarráðs Kópavogs með bréfi hinn 29. júní 2009. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til umsagnar sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs og skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs til bæjarráðs, dags. 9. júní 2009.  Er á því byggt að ekki hafi þurft að afla samþykkis annarra eigenda hússins áður en umrætt byggingarleyfi var gefið út.  Í bréfi byggingarfulltrúa til umsækjanda, dags. 24. mars 2009, hafi komið fram að samþykki sé byggt á því að teikningar séu í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum.  Áður en tilkynnt hafi verið um samþykki byggingarfulltrúa hafi verið aflað umsagna heilbrigðiseftirlits og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Erindi kærenda, dags. 27. apríl 2009, þar sem mótmælt hafi verið leyfi byggingarfulltrúa, hafi verið tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 7. maí s.á.  Kærendur hafi óskað eftir því að bæjarstjórn Kópavogs heimilaði ekki rekstur gistiheimilis í húsinu.  Bæjarráð hafi vísað erindinu til umsagnar sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs og skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Erindið hafi verið tekið fyrir að nýju ásamt umsögn í bæjarráði hinn 11. júní 2009. 

Samþykki fyrri eigenda hafi ekki þýðingu í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 29. apríl 1999 í máli nr. 272/1998, enda hafi samþykki byggingarfulltrúa samkvæmt hljóðan sinni ekki verið byggt á slíku samþykki.  Þar sem um sé að ræða breytingu á notkun séreignar fari eftir 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 hvort afla þurfi samþykkis annarra eigenda.  Af greinargerð með frumvarpi til þeirra laga megi ráða að ákvæði 27. gr. laganna hafi einkum verið sett til að sporna gegn því að ýmiskonar atvinnustarfsemi færi fram í húsnæði sem ætlað væri til íbúðar. 

Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu frá 5. nóvember 1999 sé gert ráð fyrir iðnaðar-, verslunar- og þjónustustarfsemi í húsinu.  Ekki verði talið liggja fyrir að rekstur gistiheimilis hafi almennt í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið til staðar í húsinu og almennt tíðkist í sambærilegum húsum eða að lögmætum hagsmunum annarra eigenda í húsinu hafi verið raskað.  Verði því ekki talið að afla hafi þurft samþykkis annarra eigenda áður en umrætt byggingarleyfi hafi verið gefið út.  Þessu til stuðnings megi einnig benda á dóm Hæstaréttar frá 4. maí 2005, í máli nr. 505/2004, þar sem heimilt hafi verið talið að breyta verslunarhúsnæði í veitingastað án samþykkis annarra eigenda í viðkomandi húsi. 

Rekstur gistiheimilis rúmist innan þeirra skipulagsskilmála sem gildi fyrir viðkomandi svæði.  Með vísan til alls ofangreinds hafi bæjarráð staðfest útgáfu byggingarleyfis fyrir gistiheimili að Nýbýlavegi 30. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er farið fram á að byggingarleyfið haldi gildi sínu.  Hann hafi rekið gistiheimili að Nýbýlavegi 30 á grundvelli byggingarleyfisins í góðri trú.  Fullyrðingar kærenda um ónæði og óþægindi eigi ekki við nein rök að styðjast.  Byggingarleyfishafi tekur undir rök Kópavogsbæjar og gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun haldi gildi sínu. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 24. mars 2009 að veita byggingarleyfi til að innrétta gistiheimili á 3. hæð að Nýbýlavegi 30. 

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu á þeim tíma er hér um ræðir, var kveðið á um að óheimilt væri að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem féllu undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Í 2. mgr. sömu greinar var kveðið á um að framkvæmdir skv. 1. mgr. skyldu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. sömu laga bar að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir voru fyrirhugaðar en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis var kveðið á um að þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir í þegar byggðum hverfum gæti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna. 

Samkvæmt framangreindum ákvæðum var það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að fyrir hendi væri samþykkt deiliskipulag en frá því skilyrði mátti víkja í þegar byggðum hverfum með því láta fara fram grenndarkynningu með stoð í 3. mgr. 23. gr. laganna.  Grenndarkynning fór ekki fram við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og verður að telja það ágalla á henni.  Við mat á því hvort ágalli þessi sé þess eðlis og svo verulegur að leiða eigi til ógildingar verður til þess að líta að um er að ræða breytingu á innréttingu og notkun atvinnuhúsnæðis á svæði sem skilgreint er í aðalskipulagi sem athafnasvæði og verslunar- og þjónustusvæði.  Er hin breytta notkun í samræmi við gildandi skipulag og verður ekki séð að breytingin hefði getað raskað lögvörðum hagsmunum nágranna.  Er þá haft í huga að ekki hefði borið að grenndarkynna fyrirhugaða breytingu fyrir meðeigendum byggingarleyfishafa að Nýbýlavegi 30 enda ræðst réttarstaða þeirra af ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Verður, með vísan til framanritaðs, ekki talið að ógilda beri hina kærðu ákvörðun þrátt fyrir að ekki hafi farið fram grenndarkynning í samræmi við tilvitnuð ákvæði laga nr. 73/1997. 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 eru breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, háðar samþykki allra eigenda hússins.  Samkvæmt ákvæðinu er ekki þörf á samþykki sameigenda að fjöleignarhúsi fyrir breytingum á hagnýtingu séreignarhluta sé breytingin í samræmi við það sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.  Samkvæmt aðalskipulagi er húsið að Nýbýlavegi 30 á svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði og verslunar- og þjónustusvæði og samræmist starfsemi gistiheimilis þeirri landnotkun.  Þá segir í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu um húsið að á öllum hæðum þess sé gert ráð fyrir atvinnustarfsemi og um 3. hæð segir að eignarhlutinn sé iðnaðar- verslunar- og þjónustuhúsnæði.  Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að rekstur gistiheimilis falli undir starfsemi sem ráð var fyrir gert í upphafi og því hafi ekki verið skylt að afla samþykkis sameigenda í húsinu vegna umræddrar breytingar.  Var byggingarfulltrúa því rétt að veita hið umdeilda leyfi og verður kröfu kærenda um ógildingu þess þar af leiðandi hafnað. 

Umkvartanir kærenda um ónæði og óþrif vegna reksturs umrædds gistiheimilis lúta að eftirliti með starfseminni en varða ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar og koma þær því ekki til álita í málinu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 24. mars 2009, sem bæjarráð staðfesti hinn 29. júní. s.á., um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili á þriðju hæð að Nýbýlavegi 30 í Kópavogi. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

16/2012 Dalsbraut, Akureyri

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2012, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lengingu Dalsbrautar á Akureyri, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. fjögurra íbúa og eigenda fasteigna að Kolgerði 3, Hörpulundi 19 og Grenilundi 11, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lengingu Dalsbrautar frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut. 

Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða framkvæmdaleyfi verði fellt úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Hinn 6. desember 2011 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar nýtt deiliskipulag fyrir svæði við Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2012.  Fól skipulagið í sér að tengibrautin Dalsbraut var lengd um 800 metra frá aðkomuvegi Lundarskóla og tengd Miðhúsabraut um hringtorg við Kjarnagötu.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 9. febrúar 2012, og standa m.a. kærendur í máli þessu að því kærumáli.  Hinn 9. febrúar 2012 sótti framkvæmdadeild bæjarins um leyfi til framkvæmda vegna lengingar Dalsbrautar og samþykkti skipulagsnefnd þá umsókn 15. s.m. 

Vísa kærendur um málsatvik og málsástæður til kærumáls síns vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsákvörðunar þar sem höfð er uppi krafa um ógildingu skipulagsins.  Hið kærða framkvæmdaleyfi eigi að mati kærenda stoð í ógildanlegu deiliskipulagi og fari jafnframt gegn skýrum fyrirmælum Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 um skilyrði framkvæmda.  Í húfi séu miklir hagsmunir kærenda og brýnt sé að ekki verði hafnar framkvæmdir á meðan málið sé óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni.  Verði framkvæmdir hafnar óttist kærendur að ekki verði aftur snúið og að ógilding hinnar kærðu ákvörðunar yrði því haldlaus. 

Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að krafa kærenda í máli þessu sé samofin ógildingarkröfu þeirra í kærumáli vegna deiliskipulags umrædds svæðis.  Á þessu stigi sé því ekki unnt að taka afstöðu til ógildingar umdeilds framkvæmdaleyfis en bæjaryfirvöld hafi enn ekki komið að sjónarmiðum sínum vegna skipulagskærunnar.  Fram komi í 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en kærandi geti þó krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Fyrir hendi sé gilt leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og muni þær hefjast við fyrsta tækifæri.  Verði fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sé farið fram á, með hliðsjón af 2. mgr. 5. gr. laga um úrskurðarnefndina, að kærmál þetta sæti flýtimeðferð. 

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. 

Fyrir úrskurðarnefndinni liggur óafgreitt kærumál þar sem krafist er ógildingar deiliskipulagsákvörðunar sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðst við.  Gögn vegna þess máls hafa ekki borist úrskurðarnefndinni enda er frestur Akureyrarbæjar til að skila þeim ekki liðinn.  Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir verður þó ráðið að uppi séu álitaefni í málinu sem gætu ráðið úrslitum um gildi hins kærða deiliskipulags.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi en málið sætir flýtimeðferð í samræmi við kröfu Akureyrarbæjar þar um, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem heimilaðar voru með ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar 15. febrúar 2012 við lengingu á Dalsbraut á Akureyri, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut, skulu stöðvaðar á meðan kærumál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

9/2012 Sjókvíaeldi í Reyðarfirði

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 9/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 um að veita starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. S hf., fyrrum handhafa starfsleyfis fyrir kvíaeldi í Reyðarfirði, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 að veita L ehf. starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði. 

Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða starfsleyfi verði fellt úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna kvíaeldi fyrirtækisins fyrir lax í Reyðarfirði.  Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi gera mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins.  Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu í júlí 2002.  Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010.  Á gildistímanum var ekki hafin starfræksla laxeldis í sjókvíum samkvæmt starfsleyfinu.  Í aprílmánuði 2011 tilkynnti handhafi hins kærða leyfis Skipulagsstofnun um fyrirhugað 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði og taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs rekstrar.  Umhverfisstofnun veitti síðan starfsleyfi fyrir kvíaeldinu hinn 20. janúar 2012 að undangenginni kynningu á starfsleyfistillögu stofnunarinnar. 

Af hálfu kæranda er á það bent að hið kærða starfsleyfi fari gegn lögum og hagsmunum hans.  Kærandi fyrirhugi að reka sjókvíaeldi í Reyðarfirði og hafi í tengslum við það kostað mat á umhverfisáhrifum sem nemi tugum milljóna króna, en slíkt mat sé á kostnað og ábyrgð rekstaraðila, sbr. 1. mgr. 23. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Nýr leyfishafi laxeldis í Reyðarfirði hafi við undirbúning að umsókn sinni m.a. stuðst við matsskýrslu kæranda án heimildar, en ótvírætt sé samkvæmt 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að slíkt mat sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila.  Þessi notkun á matsskýrslu kæranda orki tvímælis en fram komi í 33. gr. rgl. nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt þeirri reglugerð.  Kærandi hafi sótt um endurnýjun fyrra starfsleyfis fyrir laxeldi í Reyðarfirði en Umhverfisstofnun hafi komið því á framfæri að umdeild notkun nýs leyfishafa á mati á umhverfisáhrifum á vegum kæranda hindri að hann geti notað matið við starfsleyfisumsókn sína.  Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að umrætt laxeldi í Reyðarfirði væri háð mati á umhverfisáhrifum og verði að gera þá kröfu til nýs leyfishafa að hann láti gera nýtt mat á sinn kostnað og ábyrgð í samræmi við lög.  Þótt stjórnsýslulög og upplýsingalög tryggi almenningi aðgang að gögnum feli það ekki í sér heimild til að nota þau gögn til hagsbóta öðrum en eiganda þeirra. 

Umhverfisstofnun vísar til þess að frestun réttaráhrifa við málskot sé undantekning frá meginreglu stjórnsýsluréttar, sem fram komi í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og beri samkvæmt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum að skýra slíka undantekningarreglu þröngt.  Það sé talið mæla gegn frestun réttaráhrifa þegar hagsmunir fleiri aðila stangist á.  Úrræðið eigi frekar við þegar kærð stjórnvaldsákvörðun kveði á um rétt eða skyldu eins aðila en sem tæki þriðja aðila til gæslu sinna hagsmuna á kostnað annars, eins og við eigi í máli þessu.  Þá skuli taka tillit til þess hvort aðstæður séu með þeim hætti að kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum ekki frestað og hvaða líkur séu á að ákvörðun verði breytt.  Frestun réttaráhrifa verði fyrst og fremst beitt þegar um sé að ræða neikvæða ákvörðun sem geti skaðað þann aðila sem hún beinist að.  Ljóst sé að sá rekstur sem mál þetta snúist um verði ekki hafinn með skömmum fyrirvara, enda þurfi önnur leyfi að koma til, og verði ekki séð að hagsmunir kæranda séu í hættu þótt beðið verði endanlegs úrskurðar í málinu.  Starfsleyfi séu gefin út af Umhverfisstofnun eftir mikinn undirbúning og strangt kynningar- og athugasemdaferli og bendi fátt til að forsendur séu til að fella hið kærða starfsleyfi úr gildi. 

Leyfishafi mótmælir kröfu um ógildingu hins kærða starfsleyfis og kröfu um frestun réttaráhrifa.  Í kæru séu engin rök færð fram fyrir kröfunni um frestun réttaráhrifa enda sé staðreyndin sú að framkvæmdir byggðar á starfsleyfinu séu hvorki hafnar né yfirvofandi.  Leyfishafi hyggi ekki á framkvæmdir vegna starfsleyfisins fyrr en á árinu 2013 og séu skilyrði fyrir frestun réttaráhrifa skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála því ekki uppfyllt.  Kærandi hafi af þessum sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að krafa hans um frestun réttaráhrifa verði tekin til greina.  Í 6. mgr. 4. gr. nefndra laga komi fram tímamörk sem úrskurðarnefndin hafi til að afgreiða mál og með hliðsjón af þeim tímamörkum megi vænta að endanleg úrlausn í málinu liggi fyrir löngu áður en leyfishafi hefji framkvæmdir við þá starfsemi sem starfsleyfið taki til. 

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa ákvörðunar til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 1. og 3. mgr. ákvæðisins. 

Fyrir liggur að framkvæmdir í tengslum við hið kærða starfsleyfi eru ekki hafnar eða fyrirhugaðar á næstunni en áður en til þeirra getur komið þarf að afla rekstrarleyfis samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi auk framkvæmda- og /eða byggingarleyfa samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mannvirki nr. 160/2010.  Af þessum sökum, og þegar litið er til mögulegra annarra réttaráhrifa hins kærða leyfis, verður ekki séð að hagsmunir kæranda knýi á um frestun þeirra og verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 um að veita starfsleyfi fyrir framleiðslu allt að 6.000 tonna af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

36/2010 Skútuvogur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 5. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. maí 2010 um að synja umsókn um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsinu nr. 12 við Skútuvog í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júní 2010, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Garðar Briem hrl., f.h. S ehf., Skútuvogi 12, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. maí 2010 að hafna umsókn kæranda um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 á annarri hæð í húsinu nr. 12 við Skútuvog.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 6. maí s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 28. júlí 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsinu nr. 12 við Skútuvog.  Erindinu var frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra er tók það fyrir á fundi hinn 30. júlí 2009.  Á þeim fundi var eftirfarandi bókað:  „Ekki er gerð athugasemd við samþykkt húsvarðaríbúðar enda er heimilt samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur að heimila íbúðir í tengslum við atvinnuhúsnæði á athafnasvæðum.“  Tók byggingarfulltrúi erindið fyrir að nýju á fundi hinn 11. ágúst s.á. en frestaði afgreiðslu þess með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 4. maí 2010 var erindið svo afgreitt með svofelldri bókun:  „Synjað. Umsótt húsvarðaríbúð er aðeins fyrir einn eignarhluta sem er rúmir 30% af heildareign og getur því ekki þjónað heildinni.“

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé byggð á forsendum sem ekki standist stjórnsýslulög.  Telji kærandi að húsvarsla sé nauðsynleg í nefndu húsi og að tilvist húsvarðaríbúðar myndi ekki aðeins gagnast kæranda heldur einnig öðrum eigendum hússins.  Þessa staðreynd hafi eigendur annarra eignarhluta haft í huga þegar þeir undirrituðu samþykki sitt fyrir breyttri notkun nefnds eignarhluta.  Vísi kærandi einnig til 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem geri einmitt ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum í undantekningartilvikum, svo sem fyrir húsverði.  Ennfremur sé bent á að veitt hafi verið fjölmörg byggingarleyfi er falið hafi í sér breytingu á nýtingu eigna í nágrenni Skútuvogar 12 og tiltekur kærandi nokkur dæmi í því sambandi.  Sé þar um að ræða húsnæði sem síður sé fallið til breytinga í íbúðarhúsnæði en Skútuvogur 12.  Verði að telja að á grundvelli jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði borið að fallast á umsókn kæranda.  Þá hafi ekkert komið fram er bendi til þess að gögnum með innsendri umsókn hafi verið áfátt eða að frekari gagna væri þörf. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að umrædd fasteign kæranda sé á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Í gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé tekið fram að á athafnasvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun, s.s. léttum iðnaði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og umboðs- og heildverslunum.  Almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum.  Þó sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum er tengist starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði.  Byggingarfulltrúi hafi synjað umsókn kæranda þar sem umrætt rými, sem íbúðinni sé ætlað að þjóna, sé um 30% af heildareigninni og geti því ekki talist húsvarðaríbúð fyrir allt húsið.  Við nánari skoðun hafi reyndar komið í ljós að í raun sé rýmið aðeins um 15% af heildareigninni og að umsótt íbúð sé u.þ.b. 12% af hluta kæranda í húsinu. 

Verði að túlka tilvitnað ákvæði skipulagsreglugerðar þröngt þar sem um undantekningu frá meginreglu sé að ræða og verði það ekki túlkað öðruvísi en svo að heimilt sé að leyfa eina húsvarðaríbúð á lóð.  Ekki sé um almenna heimild að ræða til að leyfa margar húsvarðaríbúðir í hverju húsi en augljóst sé að íbúðum myndi fjölga verulega ef það fordæmi væri gefið að heimilt væri að vera með eina húsvarðaríbúð fyrir hvern eignarhluta í húsum á svæðinu.  Hafi synjun byggingarfulltrúa því verið byggð á lagalegum og málefnalegum sjónarmiðum.  Þá sé bent á að ekki hafi verið samþykktar húsvarðaríbúðir í þeim tilvikum sem kærandi hafi tilgreint heldur hafi verið um að ræða íbúðir tengdar starfsemi á svæðinu, svo sem vinnustofum.  Sé því ekki fallist á sjónarmið kæranda um brot á jafnræðisreglu.

Andmæli kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar:  Kærandi telur að í greinargerð Reykjavíkurborgar gæti alvarlegs misskilnings.  Fyrir liggi samþykki eigenda allra eignarhluta í umræddu húsi um að leggjast ekki gegn því að byggingarleyfi verði veitt fyrir húsvarðaríbúð í rými kæranda.  Séu þeir með undirskrift sinni að veita umsókninni brautargengi, m.a. vegna eigin hagsmuna.  Um leið og þeir hafi undirritað skjalið hafi þeir mátt gera sér grein fyrir að sérhver umsókn um húsvarðaríbúð í húsinu myndi fá sína sérstöku meðferð og að í ferli slíkrar umsóknar yrði horft til ýmissa þátta, m.a. hvort til staðar væri samþykkt húsvarðaríbúð í húsinu.  Þeir hafi gert sér ljóst eða hafi mátt gera sér ljóst að leyfisveiting til handa kæranda myndi alls ekki skapa fordæmi á þann hátt sem lýst sé í greinargerð borgarinnar.  Þá bendi kærandi á að borgaryfirvöld virðist byggja á því í greinargerð sinni að fleiri í húsinu hafi áhuga á að innrétta húsvarðaríbúð en ekki verði séð á hverju sú tilgáta sé byggð, enda sé ekki algengt að menn vilji innrétta íbúðir í iðnaðarhverfum.
 
Niðurstaða:  Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er fasteignin að Skútuvogi 12 á skilgreindu athafnasvæði, nánar tiltekið svæði A1.  Í gr. 3.1.6 í greinargerð aðalskipulagsins segir almennt um athafnasvæði að þar sé fyrst og fremst gert ráð fyrir iðnaði sem hafi litla mengunarhættu í för með sér, verkstæðum, landfrekri umboðs- og heildverslun og vörugeymslum.  Almennt sé ekki gert ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum, nema íbúðum sem séu tengdar starfsemi á svæðinu.  Er þetta ákvæði í samræmi við gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Síðan er í greinargerð aðalskipulagsins fjallað nánar um landnotkun á tilgreindum afhafnasvæðum, A1 til A5, og er nokkur munur á framsetningu þessara ákvæða varðandi landnotkun einstakra svæða.  Segir um landnotkun á svæði A1, sem er við Súðarvog og á hér við, að þar sé fyrst og fremst gert ráð fyrir léttum iðnaði.  Skrifstofur og vinnustofur séu leyfðar að öllu jöfnu og íbúðarhúsnæði í tengslum við starfsemi á svæðinu.  Er þetta eina athafnasvæðið þar sem íbúðarhúsnæðis er sérstaklega getið.

Túlka verður ákvæði aðalskipulags um landnotkun athafnasvæða með hliðsjón af ákvæði 4.6.1 í skipulagsreglugerð þar sem segir að á athafnasvæðum skuli almennt ekki gert ráð fyrir íbúðum en þó sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum er tengist starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði.  Verður að telja að sveitarfélagið eigi að öðru jöfnu frjálst mat um það hvenær undantekingarheimild til að leyfa íbúðir í tengslum við starfsemi á svæðinu verður beitt, enda sé við þá ákvörðun gætt málefnalegra sjónarmiða.  Eins og hér stendur á verður hvað það varðar sérstaklega að líta til þess hvernig landnotkun fyrir umrætt svæði er sett fram í aðalskipulagi og verður ekki séð að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa samræmist því sem þar kemur fram.  Verður ekki heldur fallist á þau rök byggingarfulltrúa að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir húsvarðaríbúð á þeirri forsendu að íbúðin væri aðeins fyrir einn eignarhluta og gæti því ekki þjónað heildinni, en hvorki verður leitt af ákvæðum skipulagsreglugerðar né af skilmálum aðalskipulags að slíkt skilyrði fái staðist.  Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að hin kærða ákvörðun sé hvorki reist á málefnalegum grunni né studd haldbærum rökum og leiða þessir ágallar til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. maí 2010 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsinu nr. 12 við Skútuvog í Reykjavík.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

                                                  ____________________________                      _________________________                                                             Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

10/2012 Strandvegur

Með

Árið 2012, föstudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2012, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102 í Vestmannaeyjum og ákvörðun byggingarfulltrúa sama dag um að veita leyfi til könnunar jarðvegs í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. V hf., Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita Í hf., Strandvegi 28, byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frystihús félagsins að Strandvegi 102.  Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hafði málið ekki komið til afgreiðslu bæjarstjórnar, en upplýst hefur verið að hin kærða ákvörðun var tekin fyrir til umræðu og staðfestingar á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2012 og samþykkt þar með fimm atkvæðum.  Þá hefur verið upplýst að framkvæmdir sem hafnar eru á byggingarstað studdust við leyfi sem byggingarfulltrúi veitti með vísan til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hinn 17. s.m.  til að kanna jarðveg í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Hefur kærandi áréttað að kæra hans taki einnig til þessa leyfis.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurðarnefndin úrskurði að nýhafnar framkvæmdir að Strandvegi 102 verði stöðvaðar til bráðabirgða.  Þá er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að heimila stækkun lóðar og að veita leyfi fyrir viðbyggingunni.

Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik:  Málsatvikum verður hér aðeins lýst stuttlega í bráðbirgðaúrskurði þessum.  Fyrir liggur að lóðarhafi að Strandvegi 102 óskaði eftir því í lok desember 2011 að lóð hans yrði stækkuð til austurs og norðurs og að honum yrði veitt leyfi til að reisa þar viðbyggingu við fasteign þá er fyrir er á lóðinni.  Af málsgögnum verður ráðið að erindi þetta hafi átt sér talsverðan aðdraganda og var m.a. fjallað um hliðstætt erindi á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja 14. nóvember 2010.  Eftir skoðun á málinu var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. janúar 2012 að grenndarkynna erindið.  Gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd með bréfi, dags. 16. febrúar 2012.  Málið var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði 17. s.m. þar sem erindi lóðarhafa Strandvegar 102 var samþykkt og veitti byggingarfulltrúi þann sama dag leyfi til  könnunar jarðvegs á staðnum.  Mun leyfishafi hafa byrjað framkvæmdir daginn eftir, en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 20. febrúar 2012.

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína um stöðvun framkvæmda þeim rökum að svo mikil óvissa sé um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar að stöðva beri framkvæmdir þar til skorið hafi verið úr um það.  Grenndarkynningu hafi verið áfátt og hafi frestur til andmæla m.a. verið of skammur.  Þar að auki hafi ekki verið heimilt að afgreiða umrætt byggingarleyfi með grenndarkynningu heldur hefði deiliskipulag þurft að koma til.  Þá fari hin kærða ákvörðun í bága við Aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2002-2014, auk þess sem formgallar hafi verið á meðferð málsins.

Málsrök Í hf:  Af hálfu Í hf. er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði vísað frá en að öðrum kosti að henni verði hafnað.  Er málatilbúnaði kæranda mótmælt og því hafnað að mikill hraði og óvandvirkni hafi einkennt meðferð málsins hjá bæjaryfirvöldum. 

Samkvæmt gr. 2.9.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. og 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, séu tiltekin skilyrði sett fyrir stöðvun framkvæmda. Í engu sé vísað til þessara ákvæða í kæru og því hafi kærandi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu fyrir stöðvunarkröfunni.  Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neina lögvarða hagsmuni því tengda að fá umræddar framkvæmdir stöðvaðar, en hafa verði í huga að þær styðjist einungis við leyfi byggingarfulltrúa til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði.  Sú framkvæmd ein og sér geti ekki falið í sér slíka röskun á hagsmunum kæranda að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá henni afstýrt.  Loks sé upplýst að könnun á jarðvegi sé lokið og muni því ekki koma til neinna frekari framkvæmda nema að fengnu byggingarleyfi, verði slíkt leyfi veitt, en ákvörðun um slíkt leyfi sé á forræði og ábyrgð Vestmannaeyjabæjar.  Öðrum málsástæðum sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er sá skilningur lagður í kröfugerð kæranda að fyrri liður kærunnar lúti að útgáfu leyfis skipulags- og byggingarfulltrúa til Í hf., dags. 17. febrúar 2012, til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.  Útgáfa slíks leyfis styðjist við heimild í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 3. mgr. gr. 2.4.4.

Annar kröfuliður kæranda lúti hins vegar að útgáfu byggingarleyfis vegna framkvæmdanna.

Aðeins sé nú til umfjöllunar krafa kæranda um stöðvun framkvæmda.  Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi gefið út leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði.  Slíkt leyfi sé ekki háð útgáfu byggingarleyfis eins og getið sé í gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð, sem leyfið byggi á.  Leyfishafi hafi lokið framkvæmdum við könnun á jarðvegi á framkvæmdasvæði miðvikudaginn 22. febrúar 2012 í samræmi við útgefið leyfi.

Vestmannaeyjabær telji því að kröfur kæranda eigi ekki við rök að styðjast, enda hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út eins og kröfugerð kæranda virðist byggjast á.  Útgáfa leyfis til könnunar á jarðvegi hafi átt sér fullnægjandi lagastoð eins og gerð hafi verið grein fyrir.  Vestmannaeyjabær telji að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um að framkvæmdir vegna könnunar á jarðvegi verði stöðvaðar þar sem þeim framkvæmdum sé lokið, en ekki sé gerð krafa um að leyfið sem slíkt sé fellt úr gildi.  Með vísan til framangreindra raka telji bæjaryfirvöld að vísa beri kröfum kæranda frá úrskurðarnefndinni, en til vara að þeim verði hafnað.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við meðferð málsins.

Niðurstaða:  Með bréfi til Í hf., dags. 23. febrúar 2012, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi að á fundi bæjarstjórnar hinn 22. febrúar 2012 hefði verið samþykkt erindi félagsins er varðaði leyfi til að stækka fiskvinnsluhúsnæði að Strandvegi 102 og gefið yrði út skriflegt byggingarleyfi þegar leyfishafi hefði uppfyllt skilyrði gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Verður að skilja bréf þetta svo að bæjaryfirvöld telji sig hafa lokið meðferð grenndarkynningar og samþykkt byggingaráform umsækjanda, sbr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, og að á grundvelli þessarar samþykktar geti byggingarfulltrúi gefið út byggingarleyfi og heimilað framkvæmdir að uppfylltum skilyrðum, sbr. 13. gr. tilvitnaðra laga.  Má við því búast að byggingarleyfi verði veitt án fyrirvara og verði því að líta svo á að framkvæmdir á grundvelli fyrirliggjandi samþykktar séu yfirvofandi. 

Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við rekstur kærumáls og er sú heimild hvorki háð skilyrðum gr. 2.9.1 í byggingarreglugerð, né 55. gr. laga um mannvirki eða 53. gr. skipulagslaga.

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Þannig er óljóst um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs, svo og hvort afgreiðsla bæjarstjórnar í kjölfar grenndarkynningar hafi verið fullnægjandi.  Auk þess er til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið til, að undangenginni grenndarkynningu, að veita leyfi til stækkunar lóðar og til viðbyggingar í stað þess að ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið.  Umdeildar framkvæmdir ná út að götu og geta þær haft töluverða röskun í för með sér, m.a. fyrir kæranda, og þykir rétt, með tilliti til þeirrar óvissu sem ríkir um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar, að fallast á kröfu kæranda um að framkvæmdir við fyrirhugaða mannvirkjagerð að Strandvegi 102 skuli stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Skiptir ekki máli um þessa niðurstöðu þótt framkvæmdum samkvæmt leyfi byggingarfulltrúa til könnunar jarðvegs kunni að vera lokið, en byggingarfulltrúa ber að hlutast til um að fullnægjandi öryggis verði gætt á verkstað meðan stöðvun framkvæmda varir.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 22. febrúar 2012, um stækkun lóðar og viðbyggingu að Strandvegi 102, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson