Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2012 Svansmerkið

Árið 2013, föstudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Geir Gestsson hdl., f.h. Íslensk-Ameríska verslunarfélagsins hf., Tunguhálsi 2, Reykjavík, gjaldtöku Umhverfisstofnunar vegna umhverfismerkisins Svansins og samstarfsverkefni stofnunarinnar „Ágætis byrjun“ sem tengist nefndu umhverfismerki.

Gerir kærandi þær kröfur að innheimta veltutengds árgjalds fyrir Svansvottun skv. 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 525/2006 og niðurgreiðsla á markaðskostnaði einkaaðila tengd umhverfismerkinu verði úrskurðuð ólögmæt og að Umhverfisstofnun hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með samstarfsverkefninu „Ágætis byrjun“.

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin gögn er málið varða frá Umhverfisstofnun hinn 10. júlí 2012.

Málsatvik og rök:  Umhverfismerkið Svanurinn er norrænt umhverfismerki og sér Umhverfisstofnun um daglegan rekstur og alla umsýslu vegna merkisins samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 525/2006 um umhverfismerki.  Merkið má veita þeirri vörutegund eða þjónustu sem um er sótt og uppfylla settar viðmiðunarreglur, sbr. 8. og 12. gr. nefndrar reglugerðar.   

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfismála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði.  Þá sé kveðið á um það í 24. gr. reglugerðar nr. 525/2006 um umhverfismerki, sem eigi stoð í 5. gr. laga  nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðarinnar eða um ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt henni, sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. laganna.  Mál þetta lúti að 1. mgr. 23. gr. fyrrgreindrar reglugerðar um innheimtu veltutengds árgjalds fyrir Svansvottun og að valdheimildum Umhverfisstofnunar að lögum.

Að mati kæranda hafi Umhverfisstofnun farið út fyrir valdheimildir sínar með innheimtu veltutengds árgjalds  fyrir Svansvottun þar sem slík gjaldtaka samræmist ekki lagaskilyrðum um samhengi kostnaðar og gjaldtöku, sbr. 21. gr. laga nr. 7/1998.  Þá sé ráðstöfun árgjaldsins til niðurgreiðslu á einkarekstri í andstöðu við markmið greindra laga og reglugerðar og sama eigi við um samstarfsverkefni við hérlendar heilsugæslustofnanir, sem nefnt hafi verið „Ágætis byrjun“ og  miði að því að auka markaðshlutdeild vara einkaaðila á kostnað annarra.

Umhverfisstofnun bendir á að ekki liggi fyrir í máli þessu stjórnvaldsákvörðun stofnunarinnar gagnvart kæranda og ekki hafi verið tekin afstaða til álitaefnis um greiðsluskyldu hans á annan hátt.  Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.  Meginreglan um lögvarða hagsmuni hljóti einnig að eiga við um önnur úrlausnarefni sem úrskurðarnefndin kunni að taka til meðferðar.  Þá sé vakin athygli á að sá ágreiningur sem uppi sé í máli þessu varði útgáfu gjaldskrár og reglugerðar sem séu stjórnvaldsathafnir sem staðfestar hafi verið af ráðherra.  Hvað varði kröfur kæranda sem snúi að meintri niðurgreiðslu stofnunarinnar á markaðskostnaði einkaaðila og valdheimildum hennar sé á það bent að þær kröfur séu hafðar uppi í öðru máli kæranda sem sé til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu.  Umhverfisstofnun telji ófært að fjallað sé um sömu kröfur hjá tveimur úrskurðaraðilum samtímis.  Af framangreindum ástæðum beri að vísa kröfum kæranda frá úrskurðarnefndinni.

Gjaldtaka Umhverfisstofnunar vegna lögbundinnar þjónustu, eftirlits, kynningu fræðslu og reksturs Svanmerkisins ásamt þróun viðmiðunarreglna sé í samræmi við þann kostnað sem til falli en gjaldtakan byggi á áætlunum um umfang þeirrar þjónustu sem talið sé að fyrirtæki í hverjum flokki þurfi á að halda.  Ekki hafi myndast sértekjur hjá stofnuninni af þessum sökum og njóti starfsemin vegna umhverfismerkisins opinbers fjárstuðnings.  Verkefnið sem nefnt hafi verið „Ágætis byrjun“ sé í samræmi við hlutverk Umhverfisstofnunar sem umsjónaraðila Svansmerkisins hér á landi og það markmið löggjafans með innleiðingu reglna um umhverfismerki að bæta markaðsstöðu umhverfisvænna vara og auka vitund neytenda um áhrif slíks varnings á umhverfið.  Eigi málatilbúnaður kæranda að efni til því ekki við rök að styðjast.

Málsaðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum sem ekki verður rakið nánar hér í ljósi niðurstöðu málsins.

Niðurstaða:   Í máli þessu er deilt um lögmæti gjaldtöku Umhverfisstofnunar tengda umhverfismerkinu Svaninum og  ákvörðun stofnunarinnar um að ráðast í verkefni sem fól í sér kynningu á nefndu umhverfismerki. Í málinu er höfð uppi frávísunarkrafa með þeim rökum að ekki liggi fyrir í málinu kæranleg ákvörðun er beinst hafi að kæranda og skorti því á að hann hafi þá lögvörðu hagsmuni tengda ágreiningsefnum málsins sem veiti honum kæruaðild.

Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sem gengið hafa komist að þeirri niðurstöðu að  úrskurðarvald hennar næði ekki til ákvarðana sem sættu staðfestingu ráðherra að lögum.  Hefur sú niðurstaða stuðst við þau rök að ráðherra er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á sínu sviði að stjórnskipunarrétti og verði lögmæti nefndra ákvarðana því ekki endurskoðað af öðrum stjórnvöldum nema samkvæmt skýrri lagaheimild.  Reglugerð nr. 525/2006 um umhverfismerki og gjaldskrá nr. 480/2012, sem umdeild gjaldtaka byggist á, eru stjórnvaldsfyrirmæli gefin út af umhverfisráðherra með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Verður lögmæti þeirra fyrirmæla ekki borið undir úrskurðarnefndina af framangreindum ástæðum. 

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.    Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga.  Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.  Í 2. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo sem henni var breytt með lögum nr. 131/2011, er tekið fram að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina og verður að túlka kæruheimild 1. mgr. ákvæðisins til samræmis við það.   

Ekki liggur fyrir í máli þessu ákvörðun um álagningu gjalda á hendur kæranda á grundvelli umdeildrar reglugerðar og gjaldskrár vegna umhverfismerkisins Svansins og ákvörðun Umhverfisstofnunar um að ráðast í verkefnið „Ágætis byrjun“ verður ekki talin fela í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar.  Sú ákvörðun er ekki tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og kveður ekki á um réttindi og skyldur tiltekins aðila heldur er um að ræða ákvörðun stjórnvalds um hvernig  hlutverki þess að lögum er sinnt.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson