Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2012 Laxeldi í Reyðarfirði

Árið 2013, miðvikudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2012, kæra vegna ákvörðunar Fiskistofu frá 15. mars 2012 um að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Hilmar Gunnlaugsson hrl., f.h. Fjarðarbyggðar, þá ákvörðun Fiskistofu frá 15. mars 2012 að gefa út rekstrarleyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði til framleiðslu allt að 6.000 tonna af laxi á ári án skilyrða um tilfærslu á eldisstöð verði áform um hafnsækna starfsemi á Reyðarfirði að veruleika. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest með þeirri breytingu að í leyfisbréfið verði sett ákvæði um að leyfishafi geri ráð fyrir þeim möguleika að til þess geti komið að færa þurfi eldisstöðvar sem skarist á við áform um hafnsækna starfsemi á Reyðarfirði sem skipulagsyfirvöld telji ósamrýmanlega við rekstur leyfishafa. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu hinn 24. maí 2012.

Málsatvik og rök:  Hinn 24. ágúst 2011 sótti leyfishafi um rekstrarleyfi til Fiskistofu fyrir laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði til framleiðslu allt að 6.000 tonna af laxi á ári að undangenginni veitingu starfsleyfis Umhverfisstofnunar fyrir laxeldinu.  Við meðferð umsóknarinnar leitaði Fiskistofa umsagnar Fjarðarbyggðar, sem fór fram á að tiltekin atriði yrðu sett í rekstrarleyfið, en á það var ekki fallist.  Rekstrarleyfið var gefið út hinn 15. mars 2012 og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærandi vísar til þess að fyrir liggi yfirlýsing leyfishafa um að hann muni freista þess að koma að í leyfunum tilteknum forsendum kæranda fyrir afstöðu hans til útgefinna leyfa fyrir laxeldinu.  Ástæða fyrir kröfu kæranda í máli þessu sé eingöngu sú að tryggja til framtíðar hagsmuni sveitarfélagsins komi síðar grandlausir aðilar að rekstri umrædds laxeldis.  Vegna sérstaks eðlis starfseminnar sé ekki hægt að fá yfirlýsingu þinglýsta eða tryggja með öðrum hætti hagsmuni kæranda gagnvart þriðja manni, nema með því að setja umrætt ákvæði í hið kærða leyfi.  Á því sé byggt að áætlanir leyfishafa styðjist við þær forsendur eða skilyrði sem felist í nefndu ákvæði og hafi Fiskistofa því átt að setja umrætt ákvæði, sem beinlínis sé tekið upp úr áætlunum leyfishafa, í hið kærða leyfi með hliðsjón af 15. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008, sem sýni glöggt mikilvægi einstakra forsendna fyrir útgáfu leyfis. 

Fiskistofa bendir á að ákvæði eins og hér um ræði eigi ekki erindi í rekstrarleyfi og skorti stofnunina lagaheimild til að setja slíkt skilyrði.  Í 10. gr. laga um fiskeldi sé fjallað um efni rekstrarleyfa og þar komi fram þau skilyrði sem setja megi í slík leyfi.  Þar sé ekki getið um skilyrði sem lúti að skipulagsáformum sveitarfélaga eins og hér eigi við og ekki sé um að ræða vistfræðilegt skilyrði svo sem haldið sé fram í kæru.  Það sé hvorki eðlilegt né í samræmi við lög að blanda óskyldum atriðum inn í rekstrarleyfi og verði ekki séð fyrir endann á því ef leyfishöfum og öðrum sem einhverra hagsmuna eigi að gæta verði gert kleift að koma inn í rekstrarleyfi ákvæðum sem tilheyri öðrum réttarsviðum.  Vakin sé athygli á því að í reglugerð um fiskeldi nr. 401/2012, sem nú hafi tekið gildi, sé tekið fram í 11. gr. að leita skuli umsagnar sveitarstjórnar áður en Fiskistofa taki ákvörðun um framsal rekstrarleyfis.  Sveitarstjórn hafi þannig tækifæri til að gæta hagsmuna sinna við slíkt framsal og geti tryggt að framsalshafi sé upplýstur um loforð framseljanda gagnvart sveitarstjórn. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest með þeirri breytingu að tiltekið ákvæði verði sett í hið kærða rekstrarleyfi. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er nefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin til endurskoðunar lögmæti kærðrar ákvörðunar, sem tekin hefur verið á lægra stjórnsýslustigi, en það fellur utan valdheimilda hennar að taka nýja ákvörðun með breyttu efni í stað kærðrar ákvörðunar.  Verður kærumáli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________             _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir