Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2012 Ákvörðun um hæfi

Með

Árið 2012, föstudaginn 25. maí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 32/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um hæfi bæjarstjórnarfulltrúa við afgreiðslu deiliskipulagstillögu fyrir Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis og nágrenni.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 17. apríl 2012 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem barst nefndinni 20. s.m., var framsend kæra Ó bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar til ráðuneytisins dags. 7. mars 2012, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um vanhæfi  kæranda við afgreiðslu deiliskipulagstillögu fyrir Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis og nágrenni.  Skilja verður málskot kæranda svo að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ólögmæt.  Tekur ráðuneytið fram að ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt deiliskipulagstillögu hafi verið tekin á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2012 en samkvæmt 1. mgr. 52. gr. þeirra laga sæti ákvarðanir sem reknar séu á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsatvik og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar hinn 6. desember 2011 var á dagskrá skipulagstillaga að deiliskipulagi Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis og nágrennis.  Í upphafi fundar gerði kærandi grein fyrir afstöðu sinni vegna framkominna athugasemda um hæfi hans til að taka þátt í afgreiðslu málsins.  Skar bæjarstjórn úr um hæfi hans með atkvæðagreiðsla sem fór á þann veg að átta af ellefu bæjarfulltrúum töldu kæranda vanhæfan við afgreiðslu málsins og vék hann af fundi í kjölfar þess.

Kærandi andmælir því að hann sé vanhæfur í umræddu máli og að meint vanhæfi hans sé á veikum grunni byggt.  Almennar athugasemdir eiginkonu hans á frumstigi máls hafi hvorki lotið að fjárhagslegum hagsmunum hennar sjálfrar né kæranda.  Ekki sé hægt að bera honum á brýn að afstaða hans til málefnisins litist af meintum breytingum á verðmati eignar þeirrar sem hann búi í og sé á umræddu skipulagssvæði.

Akureyrarbær krefst þess aðallega að kærumálinu verði vísað frá en til vara að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar um hæfi kæranda verði hafnað.  Kæra í máli þessu sé of seint fram komin og að auki sé ákvörðun skv. 1. og 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 ekki kæranleg.  Hvað varði efnishlið máls komi til skoðunar tvenns konar ástæður sem leitt geti til vanhæfis kæranda, annars vegar búseta hans og hins vegar að eiginkona hans hafi sent inn athugasemdir við umrædda deiliskipulagstillögu.  Vegna staðsetningar fasteingar kæranda hafi hann mikla grenndarhagsmuni í málinu en samkvæmt deiliskipulaginu muni Dalsbraut liggja í nágrenni fasteignarinnar þar sem áður hafi verið opið óbyggt grænt svæði.  Þá sé vísað til 1. mgr. 19. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga vegna athugasemda maka kæranda við kynningu skipulagstillögunnar.  Af greindum ástæðum hafi sveitarstjórn metið það svo að kærandi væri vanhæfur við afgreiðslu málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns við afgreiðslu  skipulagstillögu en slík ákvörðun við meðferð máls er ekki tekin í skjóli ákvæða skipulagslaga heldur er hún reist á reglum sveitarstjórnarlaga um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna.  Er slík ákvörðun liður í meðferð máls en bindur ekki á það endi  og sætir því ekki kæru til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hvorki verður ráðið af erindi kæranda til innanríkisráðuneytisins, sem framsent var til úrskurðarnefndarinnar, né af öðrum málsgögnum, að vakað hafi fyrir honum að skjóta ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um deiliskipulag Dalsbrautar og nágrennis til æðra stjórnvalds, enda var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar liðinn þegar hann vísaði málinu til ráðuneytisins.  Fól erindi hans því ekki í sér neina kæranlega ákvörðun sem bera mátti undir úrskurðarnefndina og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

   

41/2010 Njarðargata

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2010, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. maí 2010 um breytingu á deiliskipulagi Nönnugötureits vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júní 2010, er barst nefndinni sama dag, kæra G, og M, Urðarstíg 15 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. júní 2010 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Nönnugötureit vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu í Reykjavík.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 4. desember 2009 var lagt fram erindi, dags. 26. nóvember 2009, varðandi breytingu á deiliskipulagi Nönnugötureits vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu.  Í breytingunni fólst hækkun á nýtingarhlutfalli lóðarinnar.  Þá var gert ráð fyrir kvöð um aðgengi að Njarðargötu 25 um lóð kærenda að Urðarstíg 15.  Skipulagsstjóri samþykkti að grenndarkynna breytingartillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Urðarstíg 13 og 15, Nönnugötu 14 og 16 og Fjölnisvegi 2.  Athugasemdir bárust frá kærendum og íbúa að Nönnugötu 14.  Skipulagsráð tók málið fyrir á fundi 15. maí 2010 þar sem lágu fyrir upplýsingar um skuggavarp og umsögn skipulagsstjóra, dags. 10. maí 2010.  Var hin kynnta tillaga afgreidd með svofelldri bókun:  „Samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra.“ 

Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. maí 2010, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við auglýsingu um gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þegar stofnuninni hefðu borist lagfærð gögn.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar birt þar hinn 16. júní 2010. 

Málsrök kærenda:  Til stuðnings ógildingarkröfu sinni benda kærendur á að með auknu  nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Njarðargötu 25 og kvöð um umferðarrétt um lóð þeirra, sem kveðið sé á um í hinni kærðu ákvörðun, sé gengið gegn hagsmunum þeirra. 

Geri þeir athugasemd við að í skipulaginu sé ekki tekin afstaða til glugga á lóðamörkum og skorsteins sem breyta þurfi komi til hækkunar húsanna að Urðarstíg 15 eða Njarðargötu 25.  Andmælt sé staðfestingu deiliskipulagsbreytingarinnar á umferðarrétti fyrir Njarðargötu 25 um lóð Urðarstígs 15.  Fyrir liggi þinglýstur lóðarleigusamningur um Urðarstíg 15, frá 30. mars 1932, þar sem segi orðrétt:  „Sú kvöð hvílir á lóðinni, að umferðarréttur er yfir norðurhluta lóðarinnar að lóðinni nr. 25 við Njarðargötu.“  Þannig komi ekki fram í samningnum hvar nákvæmlega umræddur umferðarréttur eigi að vera á þeim hluta lóðarinnar og hvergi sé minnst á tveggja metra breiða gönguleið.  Vísað sé í mæliblað, sem samþykkt hafi verið á fundi byggingarnefndar 30. janúar 1932, en blaðið sé hvorki þinglýst né um það getið í lóðarleigusamningi kærenda.  Það geti því með engu móti takmarkað eignarrétt kærenda.  Vísað sé til þess að „norðurhluti lóðar“ sé ekki það sama og „nyrsti hluti lóðar“. 

Þá hafi engar hindranir verið settar upp af hálfu eigenda að Urðarstíg 15 fyrir gönguleið að Njarðargötu 25 líkt og komi fram í bréfi frá byggingarfulltrúa.  Íbúar Njarðargötu 25 hafi hins vegar sjálfir sett upp á lóð sinni hátt grindverk þvert fyrir inngönguleið sína, sem torveldi þeim og öðrum aðgang að húsi þeirra.  Grindverkið hafi þau svo látið festa, að því er virðist varanlega, 5. júní 2010.  Kærendur mótmæli því að þau þurfi að sæta því að settur verði í deiliskipulag íþyngjandi umferðarréttur annarra um lóð þeirra án þess að þeim hafi gefist kostur á að koma vörnum við. 

Bent sé á að hækkun nýtingarhlutfalls sé of mikil miðað við stærð lóðar og byggingarreits, auk þess sem margt sé óljóst og ónákvæmt í umræddri tillögu.  Götumyndin verði ekki falleg þar sem þökin á umræddum kafla verði í mismunandi hæð.  Því sé mótmælt að húseigendur Njarðargötu 25 ákveði einhliða staðsetningu og breidd göngustígs að húsi sínu með vísan til áðurgreinds umferðarréttar. 

Loks sé á það bent að við gerð umræddrar skipulagsbreytingar hafi þess hvorki verið freistað að afla samþykkis kærenda fyrir eftirgjöf tveggja metra svæðis nyrst úr lóð þeirra né hafi verið gripið til eignarnáms. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kærenda um ógildingu verði hafnað. 

Ljóst sé að meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Breytingin feli í sér hækkun nýtingarhlutfalls á lóð nr. 25 við Njarðargötu úr 1,5 í 2,4 en hafi þó engin áhrif á þau hæðarmörk sem húsinu séu sett í gildandi deiliskipulagi.  Nýtingarhlutfall sé hærra en meðaltal á umræddu svæði en það ráðist að mestu af því að lóðin sé lítil og húsið standi inni í röð sambyggðra húsa.  Til samanburðar sé bent á að nýtingarhlutfall að Nönnugötu 16 sé 3,90 en á Nönnugötu 14 sé það 1,84.  Ekki sé talið að  breytingin hafi áhrif á umferð og bílastæðaþörf hússins. 

Varðandi málsástæður er varði glugga á gafli og skorstein þá beri að fara eftir gildandi lögum og reglugerðum þar að lútandi.  Samkvæmt núgildandi byggingarreglugerð sé óheimilt að hafa glugga á lóðamörkum.  Ekki verði séð hvernig þetta atriði geti haft áhrif á gildi breytingar umrædds deiliskipulags.  Sama gildi um málsástæðu kærenda varðandi skorstein, en ekkert sé hægt að fullyrða um skorsteina sem hugsanlega kunni að verða byggðir í framtíðinni fyrr en byggingarnefndarteikningar liggi fyrir.  Þó sé bent á að þegar byggingarnefndarteikningar liggi fyrir þurfi að vinna allar breytingar á lóðamörkum í samráði við rétthafa aðliggjandi lóða. 

Hvað varði umdeildan umferðarrétt þá sé í gildi umferðarkvöð um tveggja metra breiðan stíg yfir norðurhluta lóðarinnar nr. 15 við Urðarstíg að lóðinni nr. 25 við Njarðargötu skv. lóðarblaði samþykktu á fundi byggingarnefndar hinn 30. janúar 1932 og þinglýstum lóðarleigusamningi um lóðina Urðarstíg 15, dags. 12. febrúar 1932.  Í kvöðinni felist að lóðarhafar Urðarstígs 15 verði að þola umferð um stíginn að lóð nr. 25 við Njarðargötu. 

Andmæli eigenda Njarðargötu 25:  Eigendur Njarðargötu 25 taka fram að við kaup þeirra á nefndri fasteign á árinu 2006 hafi fylgt afsali þinglýstur lóðarleigusamningur ásamt mæliblaði sem sýnt hafi kvöð um aðgengi um norðanverða lóð Urðarstígs 15, að Njarðargötu 25.  Um hafi verið að ræða tveggja metra breiðan stíg við lóðamörk Urðarstígs 13 og 15.  Umrædda kvöð sé einnig að finna í þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir Urðarstíg 15.  Þótt aðgengið hafi um einhvern tíma verið um stétt meðfram húsinu að Urðarstíg 15 breyti það ekki fyrrgreindum umferðarrétti.  Á árinu 2007 hafi lóðarhafi Njarðargötu 25 tekið að ganga að lóð sinni um stíg norðar á lóðinni Urðarstíg 15, í samræmi við hina þinglýstu kvöð, og hafi það í fyrstu verið í góðri sátt við eigendur þeirrar lóðar.  Á árinu 2010 hafi eigendur Urðarstígs 15 hins vegar farið að þrýsta á að aðkomu að Njarðargötu 25 yrði breytt og hafi þeir á endanum lokað aðkomuleiðinni með girðingu, steyptum blokkum og ýmsum lausamunum.  Fari það í bága við þinglýsta og staðfesta kvöð og beri því að hafna kröfum kærenda í málinu.  Önnur atriði sem kærendur tefli fram eigi ekki að leiða til ógildingar, enda sé þar um að ræða tæknileg atriði sem muni verða leyst komi til uppbyggingar samkvæmt skipulaginu. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 31. janúar 2012. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi, sem aðeins varðar lóðirnar nr. 15 við Urðarstíg og nr. 25 við Njarðargötu, var hækkað nýtingarhlutfall fyrir lóðina að Njarðargötu 25 og afmörkuð kvöð um aðgengi að þeirri lóð um lóðina að Urðarstíg 15. 

Nýtingarhlutfall fyrir Njarðargötu 25 er hækkað úr 1,5 samkvæmt gildandi skipulagi í 2,4 eða 2,5 eftir því hvort miðað er við greinargerð um breytinguna eða tilgreiningu nýtingarhlutfalls á uppdrætti að breytingunni.  Engin breyting er gerð á byggingarreit eða tilgreindum fjölda hæða hússins að Njarðargötu 25 og liggur ekki fyrir nein skýring á þeirri miklu hækkun nýtingarhlutfalls sem um ræðir.  Eru engin rök færð fram fyrir nauðsyn þess að hækka nýtingarhlutfall lóðarinnar um a.m.k. 60%, svo sem gert er með hinni kærðu breytingu.  Auk þess er misræmi er milli greinargerðar og uppdráttar um nýtingarhlutfall lóðarinnar og skortir á að hin kærða ákvörðun fullnægi kröfum sem gera verður um skýra framsetningu skipulagsákvarðana hvað slík atriði varðar.

Í hinni umdeildu skipulagsbreytingu er afmörkuð kvöð um aðgengi að lóð nr. 25 við Njarðargötu um lóðina nr. 15 við Urðarstíg eftir tveggja metra breiðri spildu meðfram norðurmörkum hennar.  Mun sú afmörkun styðjast við uppdrátt að skiptingu lóðar, sem samþykktur var á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur 30. janúar 1932, en á honum er tveggja metra breið spilda afmörkuð með brotinni línu samsíða norðurmörkum lóðar Urðarstígs 15 án nokkurra skýringa.  Þessum uppdrætti hefur hins vegar ekki verið þinglýst og er hans heldur ekki getið í þinglýstum lóðarleigusamningi um lóðina Urðarstíg 15, dags. 30. mars 1932.  Segir þar aðeins að sú kvöð hvíli á lóðinni að umferðarréttur sé yfir norðurhluta hennar, að lóðinni nr. 25 við Njarðargötu. 

Ekki verður af málsgögnum ráðið að umferð að Njarðargötu 25 hafi nokkurn tímann, á þeim 80 árum sem liðin eru frá stofnun kvaðarinnar, verið meðfram norðurmörkum lóðar Urðarstígs 15.  Þvert á móti virðist lengst af, eða allt fram til ársins 2007, hafa verið gengið að Njarðargötu 25 eftir stétt meðfram norðurhlið hússins að Urðarstíg 15 og virðist aðeins hafa verið um gangandi umferð að ræða.  Þótt eigendur Njarðargötu 25 kunni að hafa gengið að lóð sinni um hellulagt svæði norðar á lóðinni að Urðarstíg 15 um nokkurt skeið, eða á árabilinu 2007 til 2010, þykir það ekki hafa skapað nýja venju um hagnýtingu kvaðarinnar þannig að áhrif hafi á niðurstöðu málsins. 

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var gert ráð fyrir skipulagskvöðum, sbr. m.a. 1. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 23. gr. laganna, og eru ákvæði um slíkar kvaðir einnig í skipulags-lögum nr. 123/2010.  Slíkar kvaðir verða þó ekki felldar á eiganda eða rétthafa lands eða lóðar nema á grundvelli samnings eða að undangengnu eignarnámi, þar sem það á við.  Sú afmörkun umræddrar kvaðar sem sett var í skipulag með hinni kærðu ákvörðun studdist hvorki við þinglýsta heimild, samning né eignarnám og fór þar að auki í bága við þá venju um hagnýtingu kvaðarinnar sem virðist hafa verið fylgt um langt skeið.  Var borgaryfirvöldum ekki heimilt að afmarka umrædda kvöð með þeim hætti sem gert var á grundvelli þeirra heimilda sem fyrir lágu. 

Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. maí 2010 um breytingu á deiliskipulagi Nönnugötureits vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

12/2010 Lambhóll

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. febrúar 2010 um að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs við húsið Lambhól við Þormóðsstaðaveg í Reykjavík og innrétta sem tómstundaherbergi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar og bílskúrs að Lambhóli við Þormóðsstaðaveg (Starhaga) í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs og innrétta sem tómstundaherbergi. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja umbeðna breytingu.

Málavextir:  Bílskúr sá er um ræðir stendur á ódeiliskipulögðu svæði við Þormóðsstaðaveg.  Forsaga málsins er sú að árið 2008 sendi kærandi fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að breyta notkun bílskúrsins í íbúð.  Var fyrirspurnin afgreidd neikvætt hinn 28. október s.á. með vísan í umsögn skipulagsstjóra frá 24. s.m. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 2. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrsins og innrétta hann sem tómstundaherbergi.  Málinu var í kjölfarið vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Erindið, ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 12. s.m., var síðan lagt fram að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa þann sama dag og var niðurstaðan neikvæð með vísan til umsagnarinnar.  Kom fram í henni að ekki væri mælt með að heimila umbeðnar breytingar á notkun skúrsins í „tómstundaherbergi“.  Framlagðar teikningar hefðu á sér yfirbragð sjálfstæðs íverurýmis með snyrtiaðstöðu og afmörkuðu herbergi og mætti því fyrirvaralaust breyta notkun hans í sjálfstæða íbúð.  Hinn 16. s.m. var umsóknin á ný tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og henni synjað með vísan til framangreindrar umsagnar skipulagsstjóra.  Borgarráð staðfesti loks synjun byggingarfulltrúa á fundi sínum hinn 18. febrúar 2010. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að skv. 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé eiganda heimilt að nýta eign sína að vild nema lög eða aðrar réttarheimildir mæli fyrir á annan veg.  Umræddur bílskúr sé séreign kæranda og vandséð hvernig breyting á gluggum hans og innra skipulagi geti raskað lögvörðum hagsmunum annarra eigenda íbúðarhússins eða annarra íbúa í grenndinni.  Bílskúrinn standi allur inni á eignarlóð Lambhóls, sem ekki sé almennt útivistarsvæði. 

Tveir bílskúrar standi við húsið og sé sá sem nær standi eign kæranda.  Standi hann um 10 metra frá íbúðarhúsinu og liggi heimkeyrslan að því þar á milli.  Kærandi hafi fengið leyfi byggingarfulltrúa til að reisa umræddan skúr í stað annars sem þar hafi staðið og hafi hann verið byggður árið 1992.  Byggingarleyfi fyrir hinum skúrnum á lóðinni, og leyfi til niðurrifs eldri skúrs er þar hafi staðið, hafi verið veitt á árinu 1973.  Hafi sá skúr verið endurbyggður árið 2005, en ekki hafi þá verið farið eftir samþykktri teikningu frá árinu 1973.  Sá skúr sé nú ekki nýttur sem bílageymsla, enda hafi aðkeyrsludyr verið fjarlægðar.  Kærandi hafi einnig áhuga á að nýta bílskúr sinn á annan hátt en sem bílageymslu, þ.e. sem tómstunda- eða föndurherbergi og geymslu, enda vanti geymslu við íbúð hans í íbúðarhúsinu.  Vissulega standi bílskúrinn nálægt eða við útivistarsvæði eins og fjölmörg önnur hús í Reykjavík.  Kvöð um niðurrif beggja bílskúranna á lóð Lambhóls sé tilkomin vegna óljóss framtíðarskipulags á svæðinu, m.a. vegna þess að vangaveltur hafi verið uppi um að stækka Reykjavíkurflugvöll á seinni hluta síðustu aldar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé markmið þeirra að „stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða …“ og samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 hafi menn ákveðinn rétt til nýtingar á eignum.  Takmörkun á þeim rétti verði að byggja á málefnalegum rökum og beri að skýra heimildir til slíkra takmarkana þröngt.

Breyting á hagnýtingu húsnæðis sæti ekki sérstakri takmörkun samkvæmt 26. gr. fjöleignarhúsalaga enda sé hún ekki á skjön við lög, þinglýst gögn eða skipulag, eða hafi í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra en fyrir breytingu.  Megi í þessu sambandi vísa í úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 65/2009 um að ekki skuli synja um breytingu á séreign jafnvel þótt stoðveggur í sameign hafi orðið fyrir raski.

Fjölmörgum bílskúrum í Reykjavík, sem upphaflega hafi verið byggðir sem bílageymslur, hafi verið breytt þannig að notkun þeirra sé önnur en upphaflega hafi staðið til.  Megi í því samhengi benda á fjölmarga bílskúra við Hólaberg og Hraunberg í Reykjavík, sem breytt hafi verið í íbúðir með samþykki byggingarfulltrúa.  Séu þeir nú nýttir sem íbúðir, m.a. fyrir skjólstæðinga Reykjavíkurborgar.  Verði að hafa jafnræðisreglu til hliðsjónar við úrlausn máls þessa. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað og að staðfest verði hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 16. febrúar 2010. 

Vísað sé til þess að samkvæmt 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé ekki heimiluð búseta í bílskúrum, en óheimilt sé að nota bílageymslu til annars en geymslu á bílum og því sem þeim fylgi. 

Áður hafi verið hafnað að fella niður kvöð um niðurrif á skúrnum og fyrirspurn kæranda um að breyta honum í íbúð hafi verið afgreidd neikvætt af hálfu skipulagsyfirvalda hinn 28. október 2008.  Í umsögn skipulagsstjóra hafi komið fram að ekki væri mælt með því að festa bílskúrinn í sessi og samþykkja í honum íbúð.  Augljóst væri að framlagðar teikningar „tómstundaherbergis“ hefðu á sér yfirbragð sjálfstæðs íverurýmis, með snyrtiaðstöðu og afmörkuðu herbergi, og mætti því fyrirvaralaust breyta notkun hans í íbúð. 

Reykjavíkurborg fallist heldur ekki á að það séu stjórnarskrárvarin réttindi kæranda að fá að breyta bílskúr sínum eftir eigin höfði.  Engin rök séu færð fram til stuðnings staðhæfingu hans hvað þetta varði.  Menn verði þvert á móti að sætta sig við, eins og kærandi reyndar bendi á, að löggjafinn setji eignarréttindum manna tilteknar skorður með lagasetningu.  Fyrirmæli byggingarreglugerðar um notkun bílskúra sem bílageymslna eingöngu séu sett m.a. með tilliti til grenndarhagsmuna og öryggis- og verndarsjónarmiða.  Skuli auk þess bent á að skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögunum skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Verði ekki séð hvaða nauðsyn beri til að breyta umræddum bílskúr eins og óskað hafi verið eftir og hafi því synjun borgarinnar verið fullkomlega heimil.

Andsvör kæranda við sjónarmiðum Reykjavíkurborgar:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umræddur bílskúr sé 30 m2.  Í 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um bílageymslur stærri en 100 m2, en 113. gr. sömu reglugerðar fjalli um bílageymslur minni en 100 m2.  Í því ákvæði sé ekkert minnst á takmarkanir um hvernig nýta megi geymsluna.  Bílskúrinn hafi staðið þarna í 18 ár og þar á undan annar bílskúr í 30 ár.  Reykjavíkurborg geti ekki vísað í neinar réttarreglur til stuðnings ákvörðun sinni og reyni ekki að vísa í meginsjónarmið sem hafi verið ráðandi við matið, enda alþekkt að bílskúrar í Reykjavík séu mjög oft notaðir til annars en að geyma bíla.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. febrúar 2010 að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs og innrétta hann sem tómstundaherbergi.

Samkvæmt 114. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem fjallar um  bílageymslur stærri en 100 m2, má ekki nota bílageymslu til annars en geymslu á bílum og því sem þeim fylgir.  Ekki er samsvarandi ákvæði að finna í 113. gr. reglugerðarinnar, en hún fjallar um bílageymslur sem eru undir framangreindum stærðarmörkum. Verður ekki talið að byggingaryfirvöldum hafi verið unnt að byggja synjun sína á umsókn kæranda með vísan til framangreinds ákvæðis 114. gr. enda á það ekki við um bílaskúr þann sem um ræðir í málinu.

Sveitastjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fóru með skipulagsvald skv. 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 6. gr. áður gildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem við eiga í máli þessu.  Eru ákvarðanir sveitarstjórna um skipulag bindandi fyrir borgarana og verða þeir að lúta þeim almennu takmörkunum sem af þeim leiðir.

Á svæði því sem hér um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  Ræðst landnotkun því af ákvæðum aðalskipulags Reykjavíkur, en húsið að Lambhóli og tilheyrandi skúrar eru á svæði sem þar er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota.  Veitir sú landnotkun ekki mikið svigrúm til mannvirkjagerðar eða breytinga á mannvirkjum sem kunna að vera fyrir á slíkum svæðum. 

Umræddur skúr er samþykktur sem bílskúr og á kærandi, eins og hér stendur á, ekki lögvarinn rétt til breytinga á þeirri samþykkt.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.  Miðað við þá niðurstöðu kemur krafa kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að samþykkja umbeðna breytingu ekki til álita í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. febrúar 2010 um að synja umsókn um leyfi til að breyta gluggum og innra skipulagi bílskúrs við húsið Lambhól við Þormóðsstaðaveg og innrétta hann sem tómstundaherbergi.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

34/2012 Fannafold

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir garðhýsi á lóðinni nr. 31 við Fannafold í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra L og J, Fannafold 29, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2011 að veita byggingarleyfi fyrir garðhýsi á lóðinni nr. 31 við Fannafold. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að hinn 17. ágúst 2010 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekið jákvætt í fyrirspurn þess efnis hvort leyft yrði að byggja garðhýsi á suðausturhluta byggingarreits á lóð nr. 31 við Fannafold. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2011 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja garðhýsi úr timbri upp að suðvesturhlið hússins á lóð nr. 31 við Fannafold.  Samþykkt byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 11. ágúst s.á.  Með bréfi, dags. 13. september 2011, kærðu kærendur leyfi fyrir garðhýsi við suðvesturhlið hússins til byggingarfulltrúa.  Í bréfinu segir að kæran grundvallist annars vegar á því að garðhýsið muni ná út fyrir byggingarreit og hins vegar að skipulagsskilmálar heimili aðeins að á lóðinni verði reist íbúðarhús og bílskúr.  Í svarbréfi, dags. 18. október 2011, segir að umrætt garðhýsi upp að suðvesturhlið hússins sé innan byggingarreits og samræmist skipulagi.  Kærendur ítrekuðu kæruna til skipulags- og byggingarsviðs með bréfi, dags. 23. nóvember s.á., en því bréfi mun ekki hafa verið svarað. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 12. júlí 2011 sé bókað að leyfi sé veitt fyrir garðhýsi upp að suðvesturhlið hússins að Fannafold 31.  Þar sem suðvesturhliðin sé einmitt sú hlið sem snúi frá húsi kærenda hafi þau lengi verið í vafa um hvort þau ættu að gera athugasemd við leyfið.  En í ljósi fyrri samskipta við Reykjavíkurborg og byggingarleyfishafa vegna byggingarleyfis sem borgin hafi veitt fyrir bílskúr á umræddri lóð hafi kærendum þótt allt eins líklegt að þrátt fyrir bókunina yrði engu að síður byggt garðhýsi fyrir austan húsið, beint fyrir framan hús þeirra. 

Um miðjan apríl hafi kærendur tekið eftir því að byggingarleyfishafar hafi byrjað að fjarlægja klæðningu af suðausturhorni bílskúrs síns.  Nokkrum dögum síðar hafi þeir byrjað að taka grunn sunnan bílskúrsins.  Við það hafi kærendum orðið ljóst að byggingarframkvæmdir væru að hefjast.  Kærendur hafi farið á skrifstofur Reykjavíkurborgar til að kynna sér teikningar og þá komist að því að samkvæmt teikningum hafi borgin heimilað að reist yrði garðhýsi í suðausturhorni byggingarreits en ekki upp að suðvesturhlið hússins.  Samkvæmt teikningum verði garðhýsið áfast bílskúrnum í suðurátt út frá honum, samsíða vesturmörkum lóðar kærenda, og muni valda enn meiri innilokun, skerðingu á útsýni og skuggavarpi í garði þeirra.  Útsýni kærenda til vesturs verði þannig að innan við einum metra frá lóðamörkum blasi við 15 metra gluggalaus bílskúrsveggur og garðhýsi með háu hallandi þaki.  Að leyfa slíkar byggingar í grónu hverfi, án grenndarkynningar og án þess að slíkt sé skýrt heimilað í deiliskipulagi, sé með hreinum ólíkindum. 

Reykjavíkurborg hafi ekki getað framvísað deiliskipulagi sem með óyggjandi hætti gildi fyrir Fannafold 1 til 113.  Ef deiliskipulag sé ekki til staðar beri skilyrðislaust að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn. 

Hjá borginni finnist hins vegar skipulagsskilmálar fyrir hverfið sunnan Fjallkonuvegar (Funafold og Hverafold) og hverfið norðan við kærendur, frá og með Fannafold 115.  Reykjavíkurborg hafi í öðru máli talið að sömu skilmálar hljóti að gilda um hverfi kærenda og um hverfið þar fyrir norðan.  Samkvæmt þeim skilmálum megi byggja á lóðunum íbúðarhús og bílskúr.  Ekki sé í þeim heimild fyrir öðrum byggingum.  Umsókn um að reisa þar annars konar byggingar beri því að grenndarkynna og því einsýnt að brotið hafi verið á rétti kærenda. 
Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfum kærenda.  Einhvers misskilnings virðist gæta hjá kærendum varðandi staðsetningu garðhýsisins en ljóst hafi verið frá upphafi að samþykktin nái til byggingar á suðvesturhluta lóðarinnar.  Skipti því í raun engu máli hvort staðsetningin sé nefnd við suðvesturhlið hússins eða á suðvesturhluta lóðar.  Allan tímann hafi legið ljóst fyrir að byggingin ætti að vera fyrir innan bílskúrinn á suðvesturhluta lóðarinnar.  Misræmi í bókun á fyrirspurn frá 17. ágúst 2010 þar sem óvart hafi verið talað um suðausturhluta breyti engu í þessu sambandi. 
Garðhýsið sé innan byggingarreits og leyfilegs byggingarmagns, en húsið ásamt garðhýsinu verði um 180 m² að stærð, en leyfilegt sé að byggja allt að 270 til 300 m² á lóðinni eftir húsagerð (aðalhæð 200 m²).  Heimilt hafi verið að byggja húsagerð E-1, E-2 eða E-3 allt eftir því hvað best færi landfræðilega á lóðunum.  Hafi því verið heimilt að samþykkja umrædda byggingarleyfisumsókn enda ekkert í skipulaginu sem takmarki heimild til að byggja hýsi sem þetta.  Þótt ekki sé bein heimild í skipulagsskilmálum fyrir garðhýsi á lóðinni þá skuli á það bent að það sé almennt ekki venja að taka fram í skipulagi heimildir fyrir garðhýsum og þess háttar byggingum, t.d. heitum pottum.  Sé því byggingin í samræmi við heimildir í deiliskipulagi og hafi grenndarkynningar því ekki verið þörf. 
Garðhýsið fari ekki út fyrir línu aðalhúss.  Eina útsýnið sem kærendur missi sé útsýni inn um glugga byggingarleyfishafa en hús kærenda standi mun hærra í landi en lóðin nr. 31 við Fannafold.  Garðhýsið sé áfast bílskúrnum og fari ekki upp fyrir núverandi hæð hans og líti því út, séð frá lóð kærenda, eins og framlenging eða stækkun á bílskúr.  Séu því grenndarhagsmunir kærenda af byggingunni því hverfandi, ef nokkrir. 
Á afstöðumyndum af lóðum af svæðinu sjáist að hús kærenda sé byggt út í byggingarreitinn og að gafl þess sé mun lengri gagnvart lóð nr. 27 en gafl byggingarleyfishafa muni verða. 
—————————
Byggingarleyfishöfum var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá þeim. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar byggingu garðhýsis á lóð nr. 31 við Fannafold.  Í bókun um hina kærðu samþykkt segir að um sé að ræða garðhýsi úr timbri upp að suðvesturhlið hússins, en samkvæmt gögnum málsins er byggingin við suðausturhlið þess.  Má fallast á með kærendum að þeim hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en framkvæmdir hófust hvert hafi verið efni hinnar kærðu ákvörðunar og telst kæra þeirra því fram komin innan kærufrests.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag norðan Grafarvogs „Íbúðarbyggð norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“, sem samþykkt var í borgarráði 3. desember 1984.  Á forsíðu skipulagsskilmála fyrir svæðið er gerð grein fyrir skiptingu þess í áfanga og eru lóðir kæranda og byggingarleyfishafa á reit sem merktur er sem 3. áfangi.  Verður því að telja að fyrirliggjandi skilmálar taki til lóðanna, þrátt fyrir að misræmi sé milli uppdráttar og texta skilmálanna um afmörkun svæðisins.  Samkvæmt skipulaginu er lóðin nr. 31 við Fannafold á reit þar sem heimilt er að reisa einbýlishús af gerðinni E-1, E-2 eða E-3, en nánar ræðst gerð húss af aðstæðum á hverri lóð fyrir sig.  Á lóðinni var á sínum tíma reist hús á einni hæð af gerð E-1 og síðar bílskúr innan byggingarreits í samræmi við skilmála skipulags.

Á umræddu svæði er skipulagi þannig háttað að byggingarreitir eru aðeins í eins metra fjarlægð frá austurmörkum lóða, en þess í stað er meiri fjarlægð frá vesturhlið að vesturmörkum lóða, eða um 8 metrar.  Í skipulagsskilmálum segir að á umræddum lóðum megi byggja einbýlishús og bílskúr innan byggingarreits en líta verður á umrætt garðskýli sem eðlilegan hluta íbúðarhúss.  Er skýlið innan byggingarreits og samræmist skipulagi hvað stærð, staðsetningu og landnotkun varðar. 

Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir mannvirki sem er í samræmi við deiliskipulag er grenndarkynning ekki áskilin og verður því ekki fallist á að brotið hafi verið gegn rétti kærenda þótt slík kynning hafi ekki farið fram.  Verður ekki fallist að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun er ógildingu varði og verður kröfu kærenda því hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir garðhýsi á lóðinni nr. 31 við Fannafold í Reykjavík. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Hildigunnur Haraldsdóttir

10/2010 Stóra Knarrarnes

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2010, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2010, er barst nefndinni 3. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru P, Stóra Knarrarnesi, Vogum, dags. 10. febrúar 2010, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir bæjarstjórn að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 12. janúar 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Var umsókninni hafnað með þeim rökum að ekki lægi fyrir deiliskipulag að svæðinu og að gera þyrfti deiliskipulag í samræmi við aðalskipulag og lög nr. 73/1997 áður en hægt yrði að veita leyfið.  Með tölvupósti, dags. 16. janúar s.á., fór kærandi m.a. fram á að mál hans yrði tekið upp að nýju og á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 10. febrúar s.á. var fyrri afgreiðsla málsins ítrekuð.  Enn óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 8. mars 2009, að umsókn hans yrði á ný tekin fyrir og að fram færi grenndarkynning vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Umsókn hans var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 17. s.m, og fyrri afgreiðsla nefndarinnar ítrekuð.  Jafnframt var á það bent að ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um grenndarkynningu, ætti ekki við um umsókn kæranda þar sem ekki væri um að ræða þegar byggt hverfi.

Hinn 21. apríl 2009 var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar tekin fyrir tillaga kæranda að deiliskipulagi spildu úr landi Stóra Knarrarness II og því beint til landeigenda að óska formlega eftir samstarfi við sveitarfélagið um gerð tillögunnar.  Var og samþykkt að auglýsa tillöguna að teknu tilliti til ákveðinna atriða sem nánar voru tilgreind í bókun.  Í kjölfar þessa fór kærandi fram á með bréfi, dags. 28. apríl 2009, að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst og á fundi bæjarstjórnar hinn 30. s.m. var samþykkt að hefja samstarf við landeiganda um gerð og auglýsingu deiliskipulags að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.á m. að samþykkt yrði tillaga að nýju Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 og að deiliskipulagstillagan yrði auglýst samtímis á grundvelli hennar.  Nokkrum mánuðum síðar, eða hinn 15. október 2009, var málið tekið fyrir á fundi bæjarráðs, en þá lá þar fyrir bréf frá kæranda, dags. 1. s.m., þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu málsins.   Bæjarráð lagði síðan til á fundi sínum hinn 5. nóvember s.á. að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst.  Að lokinni auglýsingu samþykkti bæjarstjórn skipulagstillöguna hinn 23. mars 2010.

Kærandi bendir á að hægt hefði verið að gefa út byggingarleyfi á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 í ársbyrjun 2009.  Meðferð málsins hafi tekið 14 mánuði og sjái ekki þar fyrir endann á henni.  Telji kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. andmælarétti, upplýsingaskyldu, jafnræðisreglu, rannsóknarreglu, málshraða og leiðbeiningarskyldu.  Hafi seinagangur  við meðferð málsins einnig haft í för með sér verulega aukinn kostnað fyrir kæranda.  Þá sé sveitarfélagið ekki að vinna með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.   

Af hálfu Sveitarfélagsins Voga er vísað til þess að kærandi hafi sótt um leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæði sem skilgreint hafi verið sem frístundasvæði í þágildandi aðalskipulagi.  Í ljósi þess hafi verið nauðsynlegt að breyta landnotkun á viðkomandi reit í aðalskipulagi svo hægt væri að gera deiliskipulag að reitnum og veita byggingarleyfi í kjölfarið.  Hafi breyting þess efnis verið gerð í nýju Aðalskipulagi  Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, sem hafi verið í vinnslu hjá sveitarfélaginu þegar erindi kæranda hafi borist.  Hafi tillaga að nýju aðalskipulagi endanlega verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 26. nóvember 2009 og staðfest af umhverfisráðherra 23. febrúar 2010.  Í ljósi þessa sé því hafnað að afgreiðsla byggingarleyfis til handa kæranda hafi dregist úr hófi en alltaf hafi staðið til að veita umsótt leyfi í framhaldi af gildistöku auglýstra skipulagsáætlana.  Vandséð sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu eins og atvikum sé háttað og sé því farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Er í máli þessu kærður dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.  Þegar umsókn kæranda kom fyrst fram í desember 2008 var í gildi fyrir umrætt svæði Aðalskipulag Vatnsleysustrandarhrepps 1994-2014 og var þar ekki gert ráð fyrir að byggja mætti íbúðarhús á svæðinu, en það var skilgreint sem frístundasvæði.  Hefði af þessum sökum hvorki verið unnt að veita byggingarleyfi á umræddum stað fyrir íbúðarhúsi að undangenginni grenndarkynningu né með heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga, enda hefði það leyfi farið í bága við gildandi aðalskipulag.

Fyrir liggur að eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi nýtt Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, eftir staðfestingu ráðherra hinn 23. febrúar 2010.  Var þar m.a. breytt landnotkun fyrir umræddan reit þannig að þar væri unnt að reisa íbúðarhús og á grundvelli þess var samþykkt deiliskipulag íbúðarlóðar í landi Stóra Knarrarness II, sbr. auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2010.  Þá hefur verið upplýst að 16. júní 2010 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á umræddu landi.  Hefur það ekki lengur þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar kæranda um byggingarleyfi sem honum hefur þegar verið veitt og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. Þá var þess einnig vænst að mál þetta yrði afturkallað eftir að umrætt byggingarleyfi hafði verið veitt, en til þess hefur ekki komið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

26/2012 Láland

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2012, kæra vegna framkvæmda fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Lálandi 14, Reykjavík, framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.  Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. júní 2009 var samþykkt tillaga að nýju deiliskipulagi Fossvogsdals sem tók til legu á göngu- og hjólreiðastígum sem tengja saman Öskjuhlíð og Elliðaárdal.  Í skilmálum deiliskipu¬lagsins segir m.a. að meðfram göngustígnum sé gert ráð fyrir áningarstöðum annars vegar minni, þar sem verði bekkir og hins vegar stærri sem verði hannaðir m.t.t. aðstæðna á hverjum stað.  Staðsetning áningarstaðanna og afmörkun sé til skýringar og því ekki bindandi fyrir endanlega útfærslu.  Á skipulagsuppdrætti er sýndur áningarstaður af stærri gerð fyrir framan lóð kæranda að Lálandi 14.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.

Snemma á árinu 2012 virðist hafa verið ráðist í framkvæmdir við frágang áningarstaðar fyrir framan lóð kæranda.  Þar liggja tveir stígar, nokkurn veginn samsíða, og eru um það bil 5-6 metrar á milli þeirra þar sem umræddur áningarstaður er.  Hellulagt svæði er við stíg þann sem er nær lóð kæranda, en nokkur tæki eru á svæðinu milli stíganna, nokkru fjær lóðinni en hellulagða svæðið.

Kærandi vísar til þess að þegar hann hafi grennslast fyrir um umfang framkvæmda í Fossvogi hafi skýringarmynd að mannvirkjum sem staðsett hafi verið við enda fyrirhugaðs hjólreiðastígs ekki gefið til kynna að umfang þeirra yrði í raun það sem síðar hafi komið í ljós.  Á fundi með verkefnastjóra og deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg hafi fyrst komið fram skýring á því hversu umfangsmikil framkvæmdin yrði.  Þá hafi framkvæmdum verið harðlega mótmælt með ítarlegum rökstuðningi.  Í kjölfarið hafi verkefnastjóri óskað eftir því að mótmæli og rök yrðu send í tölvupósti til formlegrar meðhöndlunar.  Hinn 23. mars 2012 hafi komið svar frá verkefnastjóra þar sem niðurstaða fundar með skipulagsyfirvöldum hafi verið sú að framkvæmd við áningarstað og hönnun samræmdist deiliskipulagi að öllu leyti. 

Kærandi telji að með framkvæmdunum sé augljóslega verið að rýra verðmæti eignarinnar að Lálandi 14 og valda honum verulegu tjóni.  Því sé kærð uppbygging á líkamsræktaraðstöðu með margvíslegum líkamsræktartækjum fyrir framan lóðina að Lálandi 14 þar sem einungis hafi verið gert ráð fyrir áningarstöð í samþykktu deiliskipulagi.  Einnig sé kært hversu nálægt áningarstöðin sé lóð kæranda, um 3 metrar, og valdi þannig eignartjóni.  Hvergi séu fordæmi fyrir áningarstöð svo nálægt einkalóð í Fossvogi. 

Reykjavíkurborg bendir á að ákveðið hafi verið að koma upp nokkrum æfingatækjum á umræddum áningarstað eins og víðar sé að finna á hliðstæðum áningarstöðum.  Það sé hins vegar ofmælt að um líkamsræktaraðstöðu sé að ræða.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda verði kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem hann hyggist kæra.  Umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst í ágúst 2009 og sé kærufrestur því löngu liðinn nú tæpum þremur árum síðar.  Að auki megi geta þess að ekkert byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir líkamsræktartækjum á umræddri áningarstöð enda, séu þau ekki byggingarleyfisskyld.  Í raun liggi því engin kæranleg ákvörðun fyrir í málinu og sé þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið vísa borgaryfirvöld til deiliskipulags fyrir Fossvogsdal, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.  Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er frá birtingu umræddrar auglýsingar og er hann löngu liðinn.  Kemur umrætt skipulag því ekki til endurskoðunar í málinu.
  
Ekki verður annað séð en að umdeildar framkvæmdir séu í samræmi við tilvitnað deiliskipulag.  Það liggur hins vegar fyrir að ekki hefur verið veitt leyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 og halda borgaryfirvöld því fram að ekki sé um leyfisskyldar framkvæmdir að ræða.  Því liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Engin afstaða er hins vegar tekin í úrskurði þessum til þess hvort um leyfisskylda framkvæmd sé að ræða.  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                    Hildigunnur Haraldsdóttir

12/2009 Kirkjuteigur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2009, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008 um breytt deiliskipulag Teigahverfis vegna lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. febrúar 2009, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Leó E. Löve hrl., f.h. A, lóðarhafa að Hraunteigi 16, Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008 um breytt deiliskipulag Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.  Auglýsing um gildistöku breytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2009. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík hinn 20. júní 2008 var lögð fram umsókn um deiliskipulagsbreytingu vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.  Í breytingunni var m.a. gert ráð fyrir að verslunar- og þjónustuhúsnæði yrði breytt í íbúðarhúsnæði með fjórum íbúðum.  Heimilt yrði að breyta núverandi byggingu þannig að hún yrði að hluta til þrjár hæðir.  Byggja mætti tveggja hæða viðbyggingu meðfram Gullteigi, en samkvæmt gildandi skipulagi væri gert ráð fyrir viðbyggingu með kjallara og einni hæð.  Þak yrði lágreist og nýta mætti það sem svalir að hluta.  Myndi þakið, og einstakir aðrir byggingarhlutar, fara að hluta út fyrir byggingarreit.  Skipulagsfulltrúi samþykkti að grenndarkynna framlagða tillögu og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 8. október 2008.  Lögð voru fram drög að umsögn skipulagsstjóra, dags. 1. október s.á, þar sem mælt var með því að tillögunni yrði breytt þannig að byggingarreitur viðbyggingar yrði dreginn 40 cm til baka, að ráðgerð hámarkshæð núverandi húss yrði 9,5 m og að ráðgerð hámarkshæð viðbyggingar yrði minnkuð og færi ekki upp fyrir 6,7 m.  Skipulagsráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með eftirfarandi bókun:  ,,Samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð, með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra.“ 

Með bréfi, dags. 9. janúar 2009, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem stofnunin teldi breytinguna svo umfangsmikla að hún félli undir 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Með bréfi skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar til Skipulagstofnunar, dags. 16. janúar 2009, var því hafnað að breytingin teldist umfangsmikil þar sem umhverfisleg áhrif hennar næðu einungis til nánasta nágrennis lóðarinnar.  Væri hagsmuna næstu nágranna best gætt með málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 26. gr. nefndra laga. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hækkun og stækkun hússins að Kirkjuteigi 21 muni draga úr birtu að Hraunteigi 16.  Í umsögn skipulagsstjóra komi fram að athugaðir hafi verið skuggar fyrst og fremst við jafndægur og sólstöður og því hafi aðeins verið litið til bjartasta tíma ársins.  Sé þetta ófullnægjandi þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir muni skerða birtu við Hraunteig 16 allan ársins hring.  Á það skuli bent að birta sé mikilvægur þáttur í eðlilegu lífi og hafi áhrif á heilsu manna.  Skert birta sé því óæskileg á öllum árstímum og rýri gæði ásamt verðgildi húseignar kæranda.  Kassalaga ,,penthouse“ á Kirkjuteigi 21 muni auk þess skera sig úr og verða lýti á götumyndinni.  Viðbótarbygging niður með Gullteigi, sunnan Hraunteigs 16, muni stinga mjög í stúf við umhverfið og skapa ,,blokkarstíl“ á horni Gullteigs og Kirkjuteigs, sem sé algjörlega í ósamræmi við heildarmynd hverfisins.  Þá sé mótmælt þeirri aukningu á byggingarmagni að Kirkjuteigi 21 sem felist í tillögunni, en þar sé um að ræða aukningu um 16,5%  frá gildandi deiliskipulagi.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda og að ákvörðun skipulagsráðs verði staðfest. 

Deiliskipulagið sem hafi verið í gildi fyrir lóðina hafi almennt heimilað að nýtingarhlutfall fyrir lóðir sambýlishúsa með 2-5 íbúðum væri 0,5-0,8.  Á umræddri lóð hafi viðbyggingarreitur verið til staðar í deiliskipulaginu og hafi byggingarmagn innan hans, að viðbættu núverandi byggingarmagni, reiknast til nýtingarhlutfalls 0,85 og hafi það verið heimil nýting á lóðinni.  Götureiturinn sem húsið sé hluti af samanstandi af 15 húsum.  Við skoðun götureitsins hafi komið í ljós að íbúafjöldi hafi verið á bilinu 1-6 og að í flestum húsanna, eða 12 húsum, hafi verið 3-4 íbúðir.  Nýtingarhlutfall lóða á svæðinu hafi verið á bilinu 0,42-0,81.  Tillagan sem samþykkt hafi verið hafi gert ráð fyrir nýtingarhlutfallinu 0,99 fyrir lóðina Kirkjuteig 21.  Hafi hækkun á nýtingu um 0,14 þótt ásættanleg á hornlóð sem þessari, enda hafi gildandi deiliskipulag miðað að hærri nýtingu á henni en lóðunum umhverfis. 

Þegar horft sé á áhrif skuggavarps í þéttbýli sé fyrst og fremst skoðað hvernig skuggar falli á vor- og haustjafndægri, sem sé 20. mars og 22. september, og við sumarsólstöður, sem séu 20. júní.  Yfir vetrartímann, þegar fólk sé almennt ekki að njóta útivistar í görðum sínum, sé dagurinn það stuttur og sólin það lágt á lofti að áhrif skuggavarps séu ekki talin skipta jafn miklu máli varðandi umhverfisgæði.  Samkvæmt skýringarmyndum sem hafi verið unnar verði breyting á skuggavarpi á lóð Hraunteigs nr. 16 ekki merkjanleg við sumarsólstöður.  Þau séu hins vegar nokkur um miðjan daginn, á jafndægri að vori og hausti.  Sama gildi um Hraunteig 18 við sumarsólstöður en aukist þar nokkuð um eftirmiðdaginn.  Kirkjuteigur 23 verði ekki fyrir auknu skuggavarpi vegna breytingarinnar.  Skuggi sé í engu tilfelli að falla á húshliðar á þessum tímum.  Breyting hússins sé talin hafa óveruleg áhrif á skuggavarp á umræddum lóðum.  Engu að síður hafi tillögunni verið breytt til að draga úr þeim áhrifum sem til staðar hafi verið. 

Ekki sé fallist á að byggingin verði lýti á götumynd eða stingi í stúf við umhverfið.  Á húsunum við Kirkjuteig séu almennt rishæðir, sem gnæfi yfir Kirkjuteig 21, og við Gullteig standi frekar stór íbúðarhús.  Það sé mat Reykjavíkurborgar að eftir breytinguna muni Kirkjuteigur 21 falla mun betur inn í heildarmyndina en áður, jafnvel þótt viðbyggingin verði tveggja hæða. 

Það sé eðli borga að þær geti tekið breytingum og séu í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa þar að gera ráð fyrir að óbreytt útsýni og sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé aftur á móti hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja hagsmuni allrar heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun á eignum verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign. 

Bent skuli á ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 telji aðilar sig verða fyrir tjóni vegna tillögunnar. 

————————————

Lóðarhöfum Kirkjuteigs 21 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá þeim. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Teigahverfis, sem er frá árinu 2002, en umdeild breyting tekur einungis til lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig.  Borgaryfirvöld kusu að fara með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða og var hún því grenndarkynnt með vísan til undantekningarákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þau lög sem eiga við í málinu.  Við mat á því hvort um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi verður m.a. að líta til umfangs hennar, í þessu tilviki umfangs þeirrar byggingar sem breytingin lýtur að miðað við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði, hvernig sú bygging falli að byggðamynstri og hver grenndaráhrif hennar séu.

Í gildandi deiliskipulagi Teigahverfis segir að viðmiðunarnýtingarhlutfall í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 gildi í hverfinu og sé viðmið fyrir sambýlishús með 2-5 íbúðir 0,5-0,8.  Nýtingarhlutfall margra lóða sé yfir þessu viðmiði og eigi það sérstaklega við um lóðir sem séu minni en skipulagið geri ekki ráð fyrir breytingum á þeim til lækkunar.  Nýtingarhlutfall hverfisins sé að meðaltali um 0,5.  Samkvæmt fasteignaskrá er stærð lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig 857,2 m² og í gögnum málsins kemur fram að núverandi byggingarmagn sé samkvæmt uppmælingu 503,1 m².  Með breytingartillögunni er gert ráð fyrir að byggingarmagn í heild verði 850 m² og að húsið stækki því um 346,9 m².  Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður með breytingunni 0,99, sem er 20% aukning frá gildandi skipulagi sem fyrir var yfir hámarki samkvæmt almennu viðmiði þess.  Nauðsyn þess að breyta verslunarhúsnæði í fjórar íbúðir er sögð vera ástæða breytingarinnar. 

Deiliskipulag sem tekið hefur gildi er bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Í skipulagðri byggð verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til.  Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda getur það raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa.  Eiga þessi sjónarmið við þótt breyting á skipulagi hafi ekki veruleg grenndaráhrif. 

Þegar litið er til þess að með hinni umdeildu ákvörðun var notkun umræddrar lóðar breytt og hámarksnýtingarhlutfall aukið talsvert verður ekki fallist á að aðeins hafi verið um óverulega breytingu að ræða.  Er hvort tveggja, stærð húss og nýtingarhlutfall á lóðinni samkvæmt hinni kærðu tillögu, verulega meira en það sem almennt gerist í hverfinu.  Breytingin skerðir jafnframt grenndarhagsmuni kæranda þar sem einhver aukin skuggamyndun verður samfara stækkun hússins er stendur sunnan megin við lóð kæranda.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að fara með málið eftir ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Var undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar því ekki reistur á réttum lagagrundvelli og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Fell er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008, um breytt deiliskipulag Teigahverfis er varðar lóðina nr. 21 við Kirkjuteig.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

3/2012 Draupnisgata

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi kæranda varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2012, sem barst nefndinni sama dag, kærir Í ehf. afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi þess varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 27. október 2011, óskaði kærandi, sem rekur þjónustu við meðhöndlun og úrvinnslu úrgangs, eftir áliti skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.  Mun tilefni erindisins hafa verið umsókn kæranda til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um starfsleyfi fyrir rekstri hans í fyrrgreindu húsnæði.  Í húsnæðinu mun hafa verið fyrirhugað að umhlaða sorpi og endurvinnsluhráefnum í gáma til flutnings.  Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 9. nóvember 2011 og afgreiddi það með svofelldri bókun:  „Vísað er til 41. gr. 5. tl. A stafliðar með vísun í 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í greininni kemur fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi eru háðar samþykki allra eigenda hússins, ef þær hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum. Skipulagsnefnd telur að breytingar sem þessar á hagnýtingu séreignarinnar séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Skipulagsnefnd hafnar því erindinu þar sem einungis 8 eigendur séreignarhluta af 19 hafa samþykkt breytingu.“ 

Kærandi krafðist rökstuðnings fyrir bókun skipulagsnefndar í bréfi, dags. 24. nóvember 2011, og var því erindi svarað með bréfi bæjarlögmanns, dags. 14. desember s.á.  Skaut kærandi málinu síðan til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Kærandi vísar til þess að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt, en um matskennda og íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða.  Umrætt húsnæði hafi verið nýtt fyrir verktakastarfsemi og bifvélaverkstæði og veki því furðu að krafist sé samþykkis allra meðeigenda fyrir nýtingu séreignarhlutans undir sambærilega verktakastarfsemi.  Fyrir liggi að lyktarmengun verði í lágmarki og eigi staðhæfingar bæjarlögmanns í aðra átt ekki við rök að styðjast. 

Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Er á það bent að umdeild afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér álit en ekki ákvörðun og hafi snúist um túlkun laga um fjöleignarhús, en úrskurðarnefndin skeri ekki úr um ágreining er varði þau lög.  Hvað efnishlið málsins varði hafi skipulagsnefnd byggt álit sitt á túlkun fjöleignarhúsalaga og að fyrirhuguð hagnýting kæranda á húsnæðinu að Draupnisgötu 7n gæti haft í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur séreignarhluta í húsinu en áður og þyrfti því að liggja fyrir samþykki allra eigenda fjöleignarhússins fyrir hinni breyttu notkun svo bæjaryfirvöldum væri heimilt að samþykkja hana. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á erindi kæranda sem fól í sér beiðni um álit nefndarinnar á fyrirhugaðri breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem hér á við sættu kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Breytt notkun fasteignar er háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi tekur ákvörðun um, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Af framangreindum ástæðum felur hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á mál og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnur Haraldsdóttir 

31/2011 Kúrland

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2011, kæra á samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. mars 2011 fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar við Kúrland 27 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2011, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Þórhallur H. Þorvaldsson hdl., fyrir hönd E og K, Kúrlandi 25, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. mars 2011 fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar við Kúrland 27.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að í maímánuði 2010 hugðist byggingarleyfishafi koma fyrir setlaug á trépalli í bakgarði raðhússins að Kúrlandi 27.  Með bréfi, dags. 7. desember 2010, synjaði byggingarfulltrúi um leyfi fyrir setlauginni með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykki sameiganda lóðar fyrir byggingu laugarinnar.  Synjun byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi þar sem rök að baki ákvörðuninni þóttu ekki haldbær.  Í kjölfar þess leitaði byggingarleyfishafi í annað sinn eftir samþykki fyrir nefndum framkvæmdum og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. mars 2011.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að við meðferð umræddrar byggingarleyfisumsóknar um uppsetningu setlaugar hafi ekki verið gætt málsmeðferðarreglna III. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem ekki hafi verið látin fara fram grenndarkynning til að nágrönnum gæfist kostur á að koma á framfæri athugasemdum.  Eigi sá annmarki að leiða til þess að fella beri umrætt byggingarleyfi úr gildi og að byggingaryfirvöld hlutist til um að heimilað mannvirki verði fjarlægt í samræmi við 55. gr. mannvirkjalaga.  Ráðist hafi verið í hinar umdeildu framkvæmdir án þess að áður hafi verið gefið út gilt byggingarleyfi fyrir þeim í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og ákvæði skipulagslaga, en framkvæmdum hafi að mestu eða öllu leyti verið lokið áður en um þær hafi verið sótt.  Hafi byggingaryfirvöldum því borið að stöðva þá þegar framkvæmdir í samræmi við 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga.

Krafan um ógildingu byggingarleyfis sé byggð á sjónarmiðum nábýlisréttar.  Ljóst sé að umræddar framkvæmdir hafi í för með sér verulegt ónæði og jafnframt röskun og óþægindi fyrir kærendur.  Heimiluð setlaug sé staðsett nyrst á baklóð lóðarinnar við Kúrland 27 og sé því í beinni sjónlínu frá norðurgluggum fasteignar kærenda og í raun blasi hún við úr setustofu.  Staðsetning laugarinnar sé þannig óviðunandi enda verði með engu móti séð að fasteignareigendum verði gert að hafa slíkt mannvirki fyrir augum.  Staðsetningin hafi bæði sjón- og hljóðmengun í för með sér.  Þá sé staðsetning og notkun setlaugarinnar til þess fallin að særa blygðunarkennd kærenda og þeirra sem sæki þá heim og skerði í raun athafnafrelsi þeirra.  Kærendur eigi augljósra hagsmuna að gæta í þessu efni og við slíkt hagsmunamat verði m.a. að horfa til sjónarmiða um meðalhóf og þá sérstaklega að byggingarleyfishöfum hafi verið í lófa lagið að velja setlauginni annan stað á lóð sinni, t.d. undir húsvegg fasteignar þeirra. 

Hafa verði í huga að kærendur hafa búið í þrjá áratugi að Kúrlandi 25 og teljist því umræddar framkvæmdir veruleg breyting á nágrenni þeirra og útsýni.  Leggja beri þær kvaðir á fasteignareigendur að þeir hagi framkvæmdum með þeim hætti að þess sé gætt eftir fremsta megni að þær skerði ekki hagsmuni eða not þeirra fasteignareigenda sem fyrir séu.  Vísað sé til almennra sjónarmiða nábýlisréttar og til sjónarmiða 3. tl. 13. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en umrætt raðhús teljist vera fjöleignarhús í skilningi laganna.  Í lögunum séu lagðar þær skyldur á eiganda fasteignar í fjöleignarhúsi að hann taki eðlilegt og sanngjarnt tillit til hagsmuna annarra eigenda við hagnýtingu séreignar sinnar, en einkaréttur eiganda í fjöleignarhúsi sé m.a. háður reglum nábýlisréttar, sbr. 12. gr. laganna. 

Loks sé bent á að umræddar framkvæmdir séu líklegar til að draga úr verðgildi fasteignar kærenda með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar krefjast þess að kæru á veittu byggingarleyfi byggingarfulltrúa verði vísað frá nefndinni. 

Hafnað sé þeirri fullyrðingu kærenda að 44. gr. skipulagslaga eigi ekki við í málinu líkt og kærendur haldi fram enda sé í gildi deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir raðhúsahverfi í Fossvogi, nánar tiltekið á því svæði þar sem umræddar raðhúsalóðir séu staðsettar.  Þá muni bygging setlaugar á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa ekki hafa í för með sér verulegar breytingar á deiliskipulagi fyrir raðhúsahverfið í Fossvogi.  Skipulagsnefnd hafi því ekki verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu. 

Fyrir liggi útgefið leyfi byggingarfulltrúans frá 29. mars 2011 fyrir byggingu setlaugarinnar.  Því sé hafnað að hægt sé að beita ákvæði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, líkt og kærendur byggi kröfu sína á, með þeim hætti að það taki til tilvika þar sem leyfi hafi þegar verið gefið út fyrir framkvæmd.  Ef ákvæðinu væri beitt á þann hátt myndi það leiða til að stöðva yrði umræddar framkvæmdir og fjarlægja laugina eingöngu í þeim tilgangi að geta hafið framkvæmdir að nýju.  Þá sé ljóst af orðalagi ákvæðisins að því sé ætlað að taka til mannvirkja í skilningi umræddra laga.  Í 3. gr. sé hugtakið mannvirki skilgreint og þrátt fyrir að ákvæðið feli ekki í sér tæmandi talningu sé ljóst að setlaug verði ekki skilgreind sem mannvirki en í ákvæðinu séu í dæmaskyni nefnd mannvirki á borð við hús, byggingar og skýli. 

Því sé hafnað að setlaugin hafi í för með sér sjón- og hljóðmengun eða særi blygðunarsemi kærenda.  Setlaugin sé staðsett á lóðarhluta á baklóð byggingarleyfishafa.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins og lóðarleigusamningi ásamt lóðarblaði sé ljóst að raðhúsi nr. 27 fylgi garður sem sé sérstakur lóðarhluti.  Kærendur geti því ekki tekið sér það vald að ákveða hvar setlaugin sé staðsett, þrátt fyrir að hún kunni að sjást úr einum glugga raðhússins nr. 25. 

Þá liggi loks fyrir að umrætt mál hafi áður hlotið lögmæta afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem og úrskurðarnefndar, sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að byggingarleyfishafa væri ekki skylt að afla samþykkis annarra rétthafa þeirrar sameiginlegu lóðar sem hér um ræði til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta þar sem setlaugin sé staðsett. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg byggir málsrök sín á því að með úrskurði hinn 4. mars 2011 hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi fyrir nefndum potti.  Hafi Reykjavíkurborg ekki séð sér annað fært í kjölfarið en að samþykkja leyfi fyrir umræddum potti.  Reykjavíkurborg muni af þeim sökum ekki láta málið frekar til sín taka fyrir úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 21. nóvember 2011. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi synjun byggingarfulltrúa á umsókn um leyfi fyrir umdeildri setlaug þar sem rök byggingarfulltrúa fyrir synjuninni þóttu ekki haldbær.  Töldu borgaryfirvöld að í kjölfar þess úrskurðar væri þeim ekki annað fært en að veita leyfi fyrir setlauginni.  Gaf úrskurðurinn þó ekki tilefni til þeirrar ályktunar að byggingaryfirvöldum hefði verið skylt að veita leyfi fyrir setlauginni þótt hafnað hefði verið þeim rökum að veiting leyfisins væri háð samþykki eigenda húsanna nr. 23, 25 og 29 við Kúrland á grundvelli laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Þvert á móti bar borgaryfirvöldum að taka til athugunar réttarstöðu aðila miðað við þær forsendur að ekki væri um sameiginlega lóð að ræða. 

Byggingarleyfi þarf fyrir setlaugum, sbr. 69 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin og á við í þessu máli.  Við mat á því hvort veita ætti leyfi fyrir setlauginni bar að líta til staðsetningar hennar og þeirra áhrifa er hún kynni að hafa gagnvart lóð kærenda. 

Í 67. og 68 gr. tilvitnaðrar byggingarreglugerðar eru ákvæði um girðingar og gróður á lóðum og verður af þessum ákvæðum ráðið að lóðarhafar þurfi að vera sammála um girðingar og gróður á og við lóðamörk og að lóðarhafi eigi íhlutunarrétt um girðingar séu þær nær lóðamörkum en sem nemi hæð þeirra.  Setlaug sú sem um er deilt í málinu er á upphækkuðum palli sem nær að girðingu á lóðamörkum og er setlaugin staðsett alveg við girðinguna.  Þá verður að fallast á að setlaugin, á þeim stað sem henni var valinn, hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart eign kærenda.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búi að baki ákvæða 67. og 68. gr. tilvitnaðrar byggingarreglugerðar og þeirra grenndaráhrifa, sem setlaugin hefur, hafi ekki verið rétt að veita leyfi fyrir henni á umræddum stað án samþykkis kærenda.  Styðst þessi niðurstaða einnig og við ákv. 4. mgr. gr. 4. 2. 2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segir að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. 

Með hliðsjón af framansögðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Auk þess að krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar krefjast kærendur þess að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð í samræmi við fyrirmæli 55. gr. laga nr. 160/2010.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að kveða á um beitingu slíkra þvingunarúrræða enda liggur ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun þar sem tekin hefur verið afstaða til slíkrar kröfu.  Verður þessari kröfu því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavíkur frá 29. mars 2011, um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar nr. 27 við Kúrland.  Vísað er frá kröfu kærenda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

6/2012 Réttindi byggingarstjóra

Með

Árið 2012, föstudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2012, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. s.m., kærir H húsasmíðameistari, Reykjavík, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 að hafna umsókn hans um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og er farið fram á að lagt verði fyrir Mannvirkjastofnun að veita hið umbeðna starfsleyfi. 

Málavextir:  Með umsókn til Mannvirkjastofnunar, dags. 21. nóvember 2011, sótti kærandi um starfsleyfi sem byggingarstjóri framkvæmda sem falla undir 1.-3. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 28. s.m., var kæranda tilkynnt að honum væri veitt starfsleyfi sem byggingarstjóri við mannvirkjagerð samkvæmt 1. mgr. 28. gr. greindra laga, með vísan til 6. tl. ákvæðis til bráðabirgða, og tók leyfið til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir 1. og 3. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Hins vegar var tekið fram að nefnt bráðabirgðaákvæði 6. tl. tæki ekki til þeirra mannavirkja sem féllu undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna, sem tekur til framkvæmda m.a. við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir.  Var kæranda veittur frestur til að koma að athugasemdum og skila inn frekari gögnum, áður en ákvörðun um umsókn yrði tekin, sem hann og gerði með bréfi, dags. 19. desember s.á. 

Með bréfi, dags. 4. janúar 2012, synjaði Mannvirkjastofnun umsókn kæranda um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja, sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki, þar sem ekki væru uppfyllt þau menntunarskilyrði sem áskilin væru fyrir veitingu leyfisins skv. 4. mgr. 28. gr. sömu laga.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að starfi byggingarstjóra hafi á undanförnum árum í raun verið sinnt af aðalverktökum eða húsasmíðameisturum við mannvirkjagerð.  Hafi kærandi um áratuga skeið haft atvinnu af framkvæmdum sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem aðalverktaki eða húsasmíðameistari og m.a. sem skráður byggingarstjóri.  Sé hin kærða ákvörðun afar íþyngjandi fyrir kæranda og skerði verulega atvinnuréttindi hans. 

Málsrök Mannvirkjastofnunar:  Stofnunin kveðst styðja hina kærðu synjun þeim rökum að umsækjandi um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. mannvirkjalaga þurfi að uppfylla þau skilyrði sem fram komi í 28. gr. laganna.  Samkvæmt 4. mgr. greinds ákvæðis geti einungis verkfræðingar og tæknifræðingar, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með umræddum framkvæmdum.  Kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur 28. gr. téðra laga um menntun. 

Ákvæði 6. tl. ákvæðis til bráðabrigða sömu laga taki ekki til starfa byggingarstjóra við mannvirkjagerð sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Fái sú ályktun stuðning í athugasemdum í frumvarpi til fyrrgreindra laga við greindan 6. tl.  Þar komi fram að sanngjarnt sé að starfandi byggingarstjórar geti haldið áfram að vinna við sambærilega mannvirkjagerð og áður eftir gildistöku laganna, en að þau mannvirki sem talin séu upp í 2. tölul. 4. mgr. 27. gr. hafi almennt ekki verið háð byggingarleyfum.  Af þeim sökum hafi engir starfað sem byggingarstjórar við þá mannvirkjagerð í gildistíð eldri laga og þurfi hæfnisskilyrði 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins því að vera uppfyllt í umræddu tilfelli. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi eigi rétt til að starfa sem byggingarstjóri við mannvirkjagerð sem fellur undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Tekur það ákvæði til vatnsaflsvirkjana, jarðvarmavirkjana og annarra orkuvera, olíuhreinsistöðva og vatnsstíflna sem falla undir 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki geta einungis verkfræðingar og tæknifræðingar, að vissum skilyrðum uppfylltum, öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með framkvæmdum við framangreind mannvirki.  Kærandi uppfyllir ekki þau menntunarskilyrði og kemur því einungis til álita hvort hann geti, með stoð í 6. tl. bráðabirgðaákvæðis mannvirkjalaga, átt rétt til að hafa umsjón með slíkum framkvæmdum. 

Í fyrrgreindum 6. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna eru þeir, sem sannanlega hafa tekið að sér byggingarstjórn mannvirkja í gildistíð eldri laga, taldir uppfylla skilyrði 2. og 3. mgr. 28. gr. laga um mannvirki. Er þeim því heimilt að annast byggingarstjórn þeirra mannvirkja sem falla undir 1. og 3. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Í frumvarpi því sem varð að umræddum lögum um mannvirki kemur m.a. fram í athugasemdum við ákvæði 6. tl. ákvæðisins til bráðabirgða:  „Þau mannvirki sem talin eru upp í 2. tölul. 4. mgr. 27. gr. hafa almennt ekki verið háð byggingarleyfum og því hafa engir starfað sem byggingarstjórar við þá mannvirkjagerð í gildistíð eldri laga. Þess vegna nær [6. tl.] ákvæðis til bráðabirgða ekki til þeirra mannvirkja heldur þurfa allir sem taka að sér byggingarstjórn þeirra að uppfylla hæfnisskilyrði 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins.“

Samkvæmt þessu verður að telja að í tilvitnuðu ákvæði 6. tl. bráðabirgðaákvæðis laga um mannvirki felist ekki heimild til að veita kæranda leyfi til að hafa umsjón með slíkum framkvæmdum sem tilgreindar eru í 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Með vísan til þess sem að framan er rakið var Mannvirkjastofnun óheimilt að lögum að veita kæranda starfsleyfi til að starfa sem byggingarstjóri við þau mannvirki sem 2. tl. 4. mgr. 27. gr. mannvirkjalaga tekur til og stendur því hin kærða ákvörðun óhögguð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 að synja umsókn kæranda um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson