Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2012 Suðurgata

Árið 2013, föstudaginn 27. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. október 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð húss nr. 18 við Suðurgötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra F, G, S og H, Suðurgötu 18, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 3. október 2012, er staðfest var í borgarráði 4. s.m., að synja gerð fjögurra bílastæða fyrir framan húsið nr. 18 við Suðurgötu.  Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að henni verði breytt á þann veg að veitt verði heimild til að gera þrjú bílastæði á framlóð hússins. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 10. febrúar 2012 var lögð fram fyrirspurn f.h. íbúa Suðurgötu 18 um möguleika á að koma fyrir bílastæðum á lóðinni í samræmi við framlagða tillögu.  Var erindið afgreitt neikvætt og talið að það samræmdist ekki deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 10. febrúar s.á.  Ný fyrirspurn um gerð bílastæða á umræddri lóð var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 23. maí 2012 en einnig var lagt fram minnisblað framkvæmda- og eignasviðs, dags. 20. mars s.á., og umsögn skipulagsstjóra, dags. 21. maí s.á.  Var umsögn skipulagsstjóra samþykkt og honum jafnframt falið að yfirfara bílastæðamál við Suðurgötu í samráði við samgöngustjóra.  Í umsögninni kom fram að fyrirspurninni fylgdu þrjár tillögur, ein er sýndi fjögur bílastæði fremst á lóð, ein er gerði ráð fyrir þremur bílastæðum efst í lóð, með innkeyrslu um stíg er liggur upp að Suðurgötu 20, og loks tillaga er sýndi þrjú bílastæði framan við hús með aðkomu um nefndan stíg.  Var lagt til að tekið yrði jákvætt í að vinna deiliskipulagsbreytingu á kostnað lóðarhafa þar sem heimiluð yrðu þrjú bílastæði á baklóð með aðkomu um stíg á lóðarmörkum Suðurgötu 18 og 22. 

Hinn 14. ágúst 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð hússins nr. 18 við Suðurgötu.  Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til skipulagsráðs er afgreiddi umsóknina á fundi hinn 3. október s.á. með svofelldri bókun:  „Synjað. Umsækjanda er bent á bókun skipulagsráðs frá 23. maí 2012.“  Borgarráð staðfesti greinda afgreiðslu hinn 4. s.m. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að deiliskipulag fyrir Suðurgötureit geri bæði ráð fyrir bílastæðum á baklóðum og eins fyrir framan hús.  Breyting á deiliskipulagi sé því óþörf.  Að auki sé um minni háttar breytingu frá núverandi ástandi að ræða og sé hún í samræmi við það sem Reykjavíkurborg hafi þegar samþykkt varðandi staðsetningu bílastæða við hús á svæðinu.  Að mati kærenda séu bílastæði á baklóð hússins lakasti kosturinn og hafi t.d. í för með sér aukið ónæði.  Þá hafi húseigendur við Suðurgötu 20 og 22 sett sig upp á móti þeirri leið.  Hugnist öllum hlutaðeigandi að bílastæði verði á framlóð hússins, sunnan megin, svo sem eigi við um flest hús við götuna, með aðgangi um stíg sem sé á milli húsa nr. 18 og 22. 

Kærendur byggi á því að gerð bílastæða á eignarlóð sé ekki mannvirkjagerð í skilningi 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og þurfi því ekki byggingarleyfi.  Reykjavíkurborg hafi leyft bílastæði fyrir framan flest hús götunnar.  Verði borgin við ákvarðanatöku að virða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Reykjavíkurborg hafi einnig veitt sérstakt leyfi fyrir bílastæðum framan við hús nr. 10 og 22 við götuna, en hús nr. 22 sé við hlið húss kærenda.  Jafnframt hafi Reykjavíkurborg liðið óleyfisframkvæmdir í áratugi við bílastæði fyrir framan hús við götuna og hafi auk þess lækkað gangstéttir við slíkar innkeyrslur og þannig í raun samþykkt þær. 

Vísað sé til þess að áhöld séu um eignarheimild og afnotarétt að þeim stíg sem skilji að hús kærenda og Suðurgötu 22 en ljóst sé að hús nr. 18 eigi ekki eitt aðgang að stígnum.  Engin bílastæði séu við hús kærenda og þurfi að leggja bifreiðum út á Suðurgötu við fermingu og affermingu þeirra.  Öryggi íbúa hússins og annarra vegfaranda sé þannig stefnt í hættu.  Þá séu engin almenn bílastæði við götuna og hafi kærendur m.a. lagt bílum sínum við Kirkjugarðsstíg, en þar hafi Reykjavíkurborg nú úthlutað sendiráði tveimur merktum bílastæðum, sem kærendur geti því ekki nýtt sér lengur.  Jafnframt sé á það bent að umsögn skipulagsstjóra taki ekki til þeirra krafna sem gerðar séu um aðgang og fram komi í gr. 6.2.1., 6.2.2., 6.2.5. og 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Einnig samrýmist hin kærða ákvörðun ekki gr. 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjölda bílastæða.  Þá sé óásættanlegt að binda fjölda bílastæða við þrjú, en þrjár íbúðir séu í húsinu, og vanti stæði fyrir gesti og hreyfihamlaða. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kærenda í máli þessu verði hafnað.  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umsókn kærenda sé verulega frábrugðin upphaflegum tillögum.  Ekki sé fallist á að deiliskipulagið heimili bílastæði á umræddri lóð.  Þá segi og í skipulaginu að sögulegt gildi byggðar á þessu svæði sé mikið og að mikilvægt sé að Reykjavíkurborg standi vörð um það.  Einnig segi þar að reiturinn sé fullbyggður og að í flestum tilvikum verði sem minnst hróflað við byggingum fyrir utan eðlilegt viðhald þeirra og lóða.  Ennfremur sé bent á að í umsögn skipulagsstjóra, sem vísað hafi verið til við afgreiðslu umsóknarinnar, komi fram að sú tillaga er sýni bílastæði á baklóð samræmist best markmiðum deiliskipulagsins.

Gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd.  Bílastæði teljist til mannvirkis í skilningi gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skv. gr. 4.3.1. skuli tilgreina fjölda bílastæða á aðaluppdrætti og gera sérstaklega grein fyrir hvernig hann samræmist kröfum í deiliskipulagi og byggingarreglugerð.  Einnig skuli skv. gr. 4.3.9. gera grein fyrir heildarfjölda bílastæða í byggingarlýsingu. 

Ekki sé fallist á að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin á kærendum en fallist hafi verið á gerð bílastæða bak við hús þeirra, eins og kærendur hafi á sínum tíma lagt til.  Aðstæður á lóðum geti verið mismunandi og ekki sjálfgefið að lóðarhafar í miðborginni fái samþykkt bílastæði þar sem þeir helst kjósi.  Vissulega séu samþykkt einhver bílastæði á flestum lóðunum samkvæmt deiliskipulaginu en aðeins á tveimur stöðum séu sýnd bílastæði á austurhluta lóða, en þau hafi þegar verið samþykkt þegar deiliskipulagið hafi tekið gildi.  Annars staðar séu bílastæði aftar í lóðum yfirleitt í tengslum við bílgeymslur og þau séu ekki sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.  Þetta þýði þó ekki endilega að slíku verði við komið á öllum lóðum við Suðurgötu.  Bílastæði sem sett hafi verið í óleyfi annars staðar skapi ekki rétt til handa kærendum í málinu.  Hafi lóðarhöfum sem byggt hafi bílastæði í óleyfi verið send bréf þar sem þeim sé gert að gera grein fyrir bílastæðunum.  Verði gatan í framhaldinu skoðuð í heild m.t.t. bílastæðamála. 

Þá verði ekki fallist á að eingöngu bílastæði framan við húsið geti uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar og skipulagsreglugerðar um bílastæði.  Jafnframt sé bent á að ekki séu gerðar neinar kröfur í lögum eða reglugerðum um gestastæði eða stæði fyrir hreyfihamlaða á þegar byggðum lóðum í grónum hverfum borgarinnar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðsetningu bílastæða á lóðinni nr. 18 við Suðurgötu.  Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag staðgreinireits 1.161, er staðfest var af umhverfismálaráðherra hinn 26. ágúst 1993.  Á gildandi deiliskipulagsuppdrætti eru sýndar merkingar fyrir bílastæði, t.d. framan við hús nr. 10 og 22 við Suðurgötu, en ekki liggur fyrir hvort merkingar þessar styðjist við samþykktir sveitarstjórnar.  Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 21. maí 2012, kemur fram að samkvæmt byggingarnefndarteikningum séu á flestum lóðum samþykkt einhver bílastæði og á sumum lóðum séu bílastæði framan við bílgeymslur.  Þá er tiltekið að aðeins Suðurgata 16, 18, 24 og 26 hafi ekkert samþykkt bílastæði, en að gerð hafi verið bílastæði á nokkrum lóðum án heimildar og séu einkum áberandi bílastæði á lóð Suðurgötu 24 og bílastæði í garði Suðurgötu 16. 

Í deiliskipulaginu segir að reiturinn sé í raun fullbyggður og að lagt sé til að í flestum tilvikum verði sem minnst hróflað við byggingum, fyrir utan eðlilegt viðhald bygginga og lóða, og haldið í margbreytilegt svipmót reits í ströngum ramma.  Gert sé m.a. ráð fyrir að leyfa megi minni háttar breytingar, svo sem kvista, svalir, garðstofur og smærri viðbyggingar, sem færi íbúðir nær nútíma hýbýlaháttum og bæti aðstöðu íbúa.  Fara skuli varlega í allar útlitsbreytingar og hugað að listrænu gildi húsa.  Tilgreint er að hugsa mætti sér einhverjar bakbyggingar á Suðurgötulóðum, e.t.v. yfirbyggð bílastæði.  Þá segir eftirfarandi:  „Bílastæði eru á einkalóðum og í götustæðum.  Suðurgata er þröng tvístefnugata, þar sem erfitt er að stöðva bíla.  Á nokkrum lóðum hefur verið gengið frá missnotrum bílastæðum á austurhluta lóðar, þar sem áður voru gróskumiklir garðar.  Æskilegt væri að leggja bílum á baklóðum í vestri, þar sem því verður komið við, að öðrum kosti þarf að vanda og samræma frágang bílastæða við Suðurgötu.“ 

Verður framangreint orðalag deiliskipulagsins um bílastæði ekki túlkað með þeim hætti að girt sé fyrir staðsetningu bílastæða framan við hús í götunni.  Þess eru og dæmi að skipulagsyfirvöld borgarinnar hafi ekki amast við gerð bílastæða á lóðum við götuna til þessa.  Þá kunna nokkrir annmarkar að vera á því að staðsetja bílastæði á baklóð Suðurgötu 18 í ljósi vafa sem uppi virðist vera um eignarhald að þeim stíg sem nota þyrfti til að komast að þeim stæðum. 

Með vísan til þess er að framan greinir verður að telja að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. október 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð húss nr. 18 við Suðurgötu í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson