Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2013 Vatnsstígur

Árið 2013, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2013, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. janúar 2013 er varðar leyfi til hundahalds í íbúð að Vatnsstíg 13, Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. Húsfélagsins 101 Skuggahverfi, Lindargötu 31, Reykjavík, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. janúar 2013 er varðar hundahald að Vatnsstíg 13, Reykjavík.  Gerir kærandi kröfu um að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 19. mars 2013. 

Málsatvik og rök:  Fyrri hluta árs 2012 sendi umsækjandi umdeilds leyfis stjórnarformanni húsfélagsins að Vatnsstíg 13 undirritað samþykki allra íbúa hússins fyrir því að umsækjandi fengi að hafa hund í íbúð sinni.  Síðar kom í ljós að eigandi einnar íbúðarinnar hafði ekki skrifað undir heldur leigjandi á hans vegum og lagðist sá íbúðareigandi gegn því að hundahald yrði leyft í húsinu.  Hinn 24. maí 2012 veitti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leigjanda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Vatnsstíg 13 leyfi til að halda hund.  Umsókninni fylgdu undirritað samþykki fjögurra af fimm sameigendum hússins.  Húsfélagið leitaði í kjölfarið lögfræðiráðgjafar hjá lögmanni og taldi með hliðsjón af ráðgjöf hans að gilt samþykki íbúa fyrir hundahaldi í húsinu væri ekki til staðar.  Tölvubréf þess efnis var sent leyfishafa 22. ágúst 2012, sem mótmælti efni þess bréfs í tölvubréfum, dags. 4. og 6. nóvember s.á. 

Lögmaður kæranda leitaði hinn 18. desember 2012 skýringa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á því hvernig eftirlitið túlkaði ákvæði laga um fjöleignarhús varðandi hundahald og nauðsynlegt samþykki meðeigenda í því sambandi.  Með bréfi, dags. 23. janúar 2013, gerði heilbrigðiseftirlitið grein fyrir þeirri afstöðu sinni að ekki hafi þurft að afla samþykkis sameigenda fyrir hundahaldinu á húsfundi þar sem samþykki 2/3 hluta sameigenda nægði enda lægi ekki fyrir að húsfélagið hefði sett sér sérreglur um gæludýrahald.  Í lok bréfsins var vakin athygli viðtakanda á því að honum væri heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar ef hann vildi ekki una ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins.

Kærandi vísar til þess að samþykkis fyrir hundahaldi hafi ekki verið aflað á húsfundi.  Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang.  Meginregla fjöleignarhúsalaganna um afgreiðslu mála komi fram í 39. gr. en þar segi að allir hlutaðeigandi eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerti hana beint og óbeint.  Í 4. mgr. sömu greinar segi jafnframt að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda, þ.e. á húsfundi.  Í greinargerð með ákvæðinu sé þess sérstaklega getið að sá háttur, að gengið sé á milli eigenda með plagg eða yfirlýsingu um einhver sameiginleg málefni sem eigendum sé hverjum í sínu lagi ætlað að samþykkja með undirritun sinni eða synja, sé ekki í samræmi við fyrirmæli frumvarpsins sem síðar varð að lögum.  Ákvörðun sem sé tekin með þeim hætti sé ekki lögmæt og skuldbindandi nema fyrir þá sem undirritað hafi og þá samkvæmt almennum reglum um skuldbindingargildi loforða og samninga.  Frá reglunni um að samþykki skuli veitt á húsfundi sé sú eina undantekning að allir eigendur hafi samþykkt með undirskrift sinni en þá teljist kominn á samningur sem sé bindandi.  Það nægi því að einn eigandi skrifi ekki undir til að slíkur listi hafi enga þýðingu.  Af þessu leiði að eigendur 2/3 hluta, bæði miðað við fjölda og eignarhlut, þurfi að samþykkja hunda- eða kattahald á löglega boðuðum húsfundi ef veita eigi slíkt leyfi. 

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að ekki þurfi að afla samþykkis sameigenda í fjöleignarhúsi fyrir hunda- eða kattahaldi á húsfundi heldur dugi undirskrift 2/3 hluta sameigenda í húsinu.  Bent sé á að í frumvarpi til breytinga á fjöleignahúsalögum varðandi hunda- og kattahald frá árinu 2011 hafi verið gert ráð fyrir að allir sameigendur þyrftu að samþykkja hundahald í fjöleignahúsum.  Sú krafa hafi svo breyst í 2/3 hluta sameigenda í meðförum þingsins og hafi frumvarpið þannig verið samþykkt.  Heilbrigðiseftirlitið hafi haft þann fjölda að lágmarki til hliðsjónar við leyfisveitingar og hafi sá háttur verið á hafður hjá öðrum leyfisveitendum.  Í tilvitnuðum greinum kæranda um ákvörðunartöku á húsfundum sé hvergi minnst á gæludýrahald og sé það mat eftirlitsins að það hvort eigendur samþykki hundahald í húsinu sé ekki ákvörðun er varði sameignina. 

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að kæra í máli þessu snúist í raun um gildi leyfis þess til hundahalds sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitti hinn 24. maí 2012.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Fyrir liggur að tölvupóstsamskipti áttu sér stað í ágústmánuði 2012 milli kæranda og leyfishafa um gildi umdeilds leyfis til hundahalds og er staðfestingu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á að leyfið sé gilt að finna í tölvupósti stofnunarinnar til kæranda, dags. 6. nóvember 2012.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun í síðasta lagi frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni rúmum þremur mánuðum eftir greint tímamark, eða 22. febrúar 2013, og var kærufrestur þá liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við hér. 

Þá felur hin kærða afgreiðsla heilbrigðiseftirlitsins frá 23. janúar 2013 aðeins í sér túlkun eftirlitsins á lagaákvæðum um tilhögun samþykkis sameigenda fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsi, en ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson