Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2013 Hafnarsvæði Vestmannaeyja

Árið 2013, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 20. desember 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hafnarsvæði H-1, vesturhluta, og á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 20. febrúar 2013 að heimila útgáfu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102 í Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. Vinnslustöðvarinnar hf., Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 20. desember 2012 að samþykkja deiliskipulag á hafnarsvæði H-1, vesturhluta, og þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 20. febrúar 2013 að heimila útgáfu byggingarleyfis til Ísfélags Vestmannaeyja hf. fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102, Vestmannaeyjum.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt gerði hann kröfu um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ hinn 24. apríl 2013 og frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. hinn 23. sama mánaðar.

Málavextir:  Mál þetta varðar deiliskipulag fyrir hluta hafnarsvæðisins í Vestmannaeyjum.  Þar er m.a. starfssvæði Ísfélagsins að Strandvegi 102, gámavog Vestmannaeyjahafnar, ísstöð og bílavog Vestmannaeyjahafnar.  Deiliskipulagið tekur til u.þ.b. tveggja ha svæðis.  Það er á þeim hluta hafnarinnar sem merktur er H-1 í aðalskipulagi, en H-1 er alls 14,7 ha.

Málið á sér nokkurn aðdraganda.  Í lok desember 2011 óskaði lóðarhafi eftir því að lóð hans yrði stækkuð og að honum yrði veitt leyfi til að byggja við frystihús sem á henni stendur.  Erindið var samþykkt og byggingarfulltrúi veitti leyfi til könnunar jarðvegs á staðnum.  Málið var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem féllst á kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða með úrskurði, uppkveðnum 24. febrúar 2012.  Ákvörðunin um að heimila stækkun lóðar og um veitt byggingarleyfi var svo felld úr gildi með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 13. apríl 2012, með þeim rökum að lagaskilyrði hefði skort fyrir því að grenndarkynna umsókn lóðarhafa og að rannsóknarreglu hefði ekki verið gætt við undirbúning málsins.

Hinn 30. maí 2012 var auglýst á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar að lýsing á skipulagsverkefninu sem deilt er um í máli þessu lægi frammi.  Í umsögn Skipulagsstofnunar um lýsinguna kemur fram að stofnunin geri ekki athugasemdir við hana en bendi á að æskilegt væri að deiliskipulagstillagan næði að mörkum deiliskipulags miðsvæðis hafnarinnar.  Þannig væri unnt að ljúka deiliskipulagsvinnu fyrir H-1 hluta hafnarsvæðisins.  Vísaði stofnunin til ákvæðis gr. 3.1.4 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998, um að jafnan skuli miða við að deiliskipulag nái til heildstæðra svæða.  Haldnir voru fundir 8. ágúst og 17. september 2012 með hagsmunaaðilum í nágrenni Strandvegar 102, þ.m.t. kæranda.

Deiliskipulagstillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 31. gr. skipulagslaga, á tímabilinu 26. október til 7. desember 2012 og sendi kærandi athugasemdir við tillöguna.  Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti hana á fundi 14. desember 2012 og í fundargerð er getið um athugasemdir kæranda og bókað að lagt hafi verið til að í kjölfar þeirra yrði ákvæði um nýtingarhlutfall á skipulagssvæðinu leiðrétt.  Ráðið fól skipulagsfulltrúa að gera breytingar á skipulagsgögnum og svara innsendum athugasemdum í samræmi við greinargerð hans.  Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs 20. desember 2012 og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2013.  Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við hús lóðarhafa að Strandvegi 102 var síðan tekin fyrir í umhverfis- og skipulagsráði 30. janúar 2013 og samþykkt á fundi ráðsins 20. febrúar sama ár skv. 2. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar nr. 991/2012, sbr. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu 28. febrúar 2013 og byggingarleyfi var gefið út 18. júní sama ár.

Eftir að kæra barst í máli þessu hefur verið unnið að deiliskipulagi tveggja annarra hluta hafnarsvæðisins H-1.  Hluti af lóð kæranda, u.þ.b. einn ha að stærð, var deiliskipulagður á árinu 2005, en samþykkt var í bæjarstjórn 20. september 2013 breyting á því skipulagi.  Þar er gert ráð fyrir stækkun uppfyllingar og uppbyggingu á lóðinni.  Einnig var samþykkt tillaga að aðalskipulagsbreytingu og tillaga að deiliskipulagi fyrir miðsvæði hafnarinnar, um 6,5 ha svæði, en deiliskipulagstillagan nær yfir hluta hafnarsvæðis og miðbæjarsvæðis.  Þá liggur fyrir að deiliskipulagstillögurnar voru til meðferðar hjá sveitarstjórn á árinu 2011, en þær munu ekki hafa tekið gildi.  

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að hraði og óvandvirkni Vestmannaeyjabæjar hafi einkennt meðferð hins umdeilda skipulags.  Málsmeðferðin hafi brotið í bága við skipulagslög nr. 123/2010 auk þess sem ekki hafi verið bætt úr þeim annmörkum sem urðu til þess að byggingarleyfið var ógilt með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/2012.

Í fyrsta lagi myndi hið skipulagða svæði ekki heildstæða einingu í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en þar sé kveðið á um að gera skuli deiliskipulag fyrir „afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags“.  Svæðið sem sé deiliskipulagt samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé 2 ha að stærð og nái ekki til lóðar kæranda.  Kærandi hafi ítrekað farið fram á það við skipulagsyfirvöld að unnið verði deiliskipulag sem myndi heildstæða einingu en yfirvöld hafi ekki orðið við þeirri ósk.

Í öðru lagi telji kærandi að tillaga að deiliskipulagi hafi ekki verið auglýst á þann hátt sem greini í 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 31. gr., skipulagslaga.  Tillagan hafi hvorki verið auglýst í dagblaði sem gefið sé út á landsvísu né í Lögbirtingablaði.

Í þriðja lagi hafi opinn kynningarfundur fyrir íbúa sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, aldrei verið haldinn.  Aðeins hafi verið haldnir tveir svokallaðir „samráðsfundir“ með hagsmunaaðilum.

Í fjórða lagi sé málsmeðferð bæjarstjórnar ábótavant.  Bæjarstjórn hafi afgreitt deiliskipulags-tillöguna án þess að efnisleg afstaða væri tekin til athugasemda kæranda.  Aðeins hafi verið tekin afstaða til athugasemdanna á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs.  Þetta sé í andstöðu við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Þá hafi bæjarstjórn ekki auglýst niðurstöðu um þær athugasemdir sem hafi borist, auk þess sem henni hafi borið að auglýsa leiðrétt ákvæði um nýtingarhlutfall sem komið hafi til eftir kynningu skipulagstillögunnar.

Í fimmta lagi sé nýtingarhlutfall yfir leyfilegu hámarki.  Samkvæmt aðalskipulagi megi nýtingarhlutfall á hafnarsvæðinu vera 0,5.  Reiknað nýtingarhlutfall á hinu umdeilda svæði sé 0,81, miðað við uppgefna stærð mannvirkja sem þegar séu þar og þeirra sem áformað sé að byggja.  Nú þegar hafi verið byggðir 6.470 m² og áætlað sé að byggja 9.650 m² til viðbótar.  Vegna hás nýtingahlutfalls á hinum afmarkaða reit sé búið að sprengja nýtingarhlutfallið á svæði H-1.

Í sjötta lagi hafi umferðarmál ekki verið skoðuð.  Í áðurgreindum úrskurði í máli nr. 10/2012 komi fram að á skorti að gerð hafi verið könnun á því hvaða áhrif breytingin muni hafa á umferð og bílastæðakröfu á svæðinu.  Þrátt fyrir þetta virðist skipulagsyfirvöld ekki hafa skoðað umferðarmál við undirbúning deiliskipulagsins.

Í áttunda lagi hafi ákvörðunin verið tekin af vanhæfum aðila.  Á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2012 hafi tillaga að deiliskipulagi verið samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.  Einn bæjarfulltrúinn sem tekið hafi þátt í lokaafgreiðslu málsins sé verksmiðjustjóri hjá lóðarhafa.  Ljóst sé að hann hafi verið vanhæfur við meðferð málsins, sbr. 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 og honum hafi því borið að yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Í níunda lagi sé að finna mörg dæmi um óvönduð vinnubrögð skipulagsyfirvalda.  Á uppdrætti deiliskipulags, sem samþykktur hafi verið á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2012, séu ýmsar staðreyndavillur.  Þannig komi þar fram að lýsing á skipulagsverkefninu hafi verið samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 15. maí 2012.  Það sé misritun því fundurinn hafi verið haldinn 23. maí 2012.  Einnig segi að lýsingin hafi verið auglýst á vefsíðu bæjarins frá 15. maí til 17. júní 2012, en hið rétta sé að auglýsingin hafi verið birt á vefsíðu bæjarins 30. maí 2012 og enginn tímafrestur tilgreindur. 

Hið kærða byggingarleyfi sé samkvæmt framansögðu gefið út á grundvelli ólögmæts deili-skipulags og beri því að fella það úr gildi.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Að mati bæjaryfirvalda sé ekki skylt að deiliskipuleggja H-1 hluta hafnarsvæðisins í einu lagi.  Afmarkaðir hlutar svæðisins, sem hver um sig myndi heild-stæða einingu, hafi verið skipulagðir í samræmi við þarfir þeirra sem eftir því hafi leitað og þar sem framkvæmdir hafi verið fyrirhugaðar. 

Því sé mótmælt að með hinu umdeilda deiliskipulagi sé búið að sprengja nýtingarhlutfallið á svæði H-1 m.t.t. gildandi aðalskipulags.  Nýtingarhlutfallið sé í samræmi við aðalskipulag og sé eftir samþykkt deiliskipulagsins 0,49 eins og fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 18. janúar 2013. 

Kynning deiliskipulagstillögunnar hafa verið í fullu samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga.  Tillagan hafi verið auglýst í Lögbirtingablaði 26. október 2012 og hafi birst á vefnum eyjafrettir.is og í Eyjafréttum.  Haldnir hafi verið tveir samráðsfundir með hagsmunaaðilum, en ekki sé lagaskylda að halda sérstakan almennan fund heldur þurfi kynningin að vera almenn og íbúum sveitarfélagsins aðgengileg.

Deiliskipulagstillagan hafi verið lögð fyrir bæjarstjórn til umræðu og staðfestingar á fundi 20. desember 2012.  Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 14. sama mánaðar. hafi legið fyrir fundinum.  Bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til málsins og samþykkt það í samræmi við ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs.  Í því felist að tekin sé afstaða til fram kominna athugasemda, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Þessi niðurstaða bæjarstjórnar hafi síðan verið auglýst, fundargerðin sett á vef Vestmannaeyjabæjar og niðurstaða fundarins auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2013. 

Rangt sé að umferðarmál hafi ekki verið skoðuð við skipulagsgerðina.  Gerð hafi verið umferðar-talning á hafnarsvæðinu í Friðarhöfn.  Í minnispunktum frá samráðsfundi um deiliskipu-lagstillöguna komi fram að fyrirhugaðar séu ýmsar aðgerðir vegna umferðar, þ.m.t. varðandi umferðarleiðir og bílastæði.

Fullyrðingar um vanhæfi bæjarfulltrúa við afgreiðslu málsins eigi ekki við rök að styðjast.  Bæjarfulltrúinn sé starfsmaður annarrar mjöl- og lýsisverksmiðju lóðarhafa en ekki framkvæmdastjóri og hafi ekki átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta við ákvarðanatökuna.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að um vanhæfi væri að ræða myndi það ekki raska gildi skipulagsins sem samþykkt hafi verið með sjö samhljóða atkvæðum.  Ekkert liggi fyrir um að fulltrúinn hafi haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og óumdeilt sé að hann hafi ekki komið að meðferð málsins á fyrri stigum.  Þá liggi fyrir staðfesting frá ritara bæjarstjórnarfundarins þar sem ákvörðunin var tekin þess efnis að umræddur bæjarfulltrúi hafi ekki tjáð sig um málið á fundinum.

Andmæli lóðarhafa Strandvegar 102:  Lóðarhafi krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá en að öðrum kosti verði þeim hafnað.

Því sé mótmælt að umrætt skipulagssvæði myndi ekki heildstæða einingu.  Nokkurt svigrúm sé til ákvörðunar um mörk skipulagssvæðis, sem hljóti m.a. að ráðast af þeim markmiðum sem stefnt sé að með gerð deiliskipulags.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé skipulagssvæðið ætlað fyrir fiskvinnslu og skyldan rekstur.  Skv. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar.  Lóðarhafi hafi uppi áform um að auka framleiðslugetu frystihúss og stækka geymslurými fyrir frystan fisk.  Engin breyting sé fyrirhuguð á starfsemi á svæðinu heldur sé stefnt að því að uppbygging verði í samræmi við meginmarkmið aðalskipulags.  Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við það byggðamynstur sem fyrir sé og gætt hafi verið meðalhófs m.t.t. grenndaráhrifa.

Kynningarfundir skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga hafi verið haldnir 8. ágúst og 17. september 2012 og deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst á tímabilinu 26. október til 7. desember s.á.  Hún hafi legið frammi í safnahúsi við Ráðhúströð, hjá umhverfis- og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar, á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar og verið auglýst í Lögbirtingablaðinu. 

Tillagan hafi verið tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2012, þar sem hún hafi verið samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, og skipulagsfulltrúa falið að gera breytingar á skipulagsgögnum, þannig að ákvæði um nýtingarhlutfall yrði leiðrétt og svara athugasemdum.  Hinn 20. desember 2012 hafi deiliskipulagstillagan verið samþykkt með breytingum í bæjarstjórn og bókað að athugasemdirnar hafi legið fyrir til umræðu og staðfestingar.
 
Lóðarhafi fallist ekki á að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um hæfi og bendi á að skv. 2. ml. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga gildi 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um hæfi sveitarstjórnarmanna.  Því sé ljóst að þau ákvæði stjórnsýslulaga sem tiltekin séu í kæru eigi ekki við í málinu og skv. 20. gr. sveitarstjórnarlaga sé umræddur bæjarfulltrúi ekki formlega vanhæfur.  Hann hafi ekki heldur tekið þátt í undirbúningi eða meðferð málsins á neinu stigi þess og hafi vikið af fundum við afgreiðslu.

Því sé hafnað að farið sé út fyrir leyfilegt nýtingarhlutfall á hafnarsvæðinu.  Samkvæmt aðal-skipulagi gildi reitanýting á svæðinu og nýtingarhlutfallið sé 0,5.  Byggingarmagn H-1 svæðisins verði u.þ.b. 63.500 m² og nýtingarhlutfallið 0,49, sem falli innan leyfilegs hlutfalls á svæðinu.  Tölurnar sem vísað sé til í kæru séu ekki í samræmi við það byggingarmagn sem fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar og virðist auk þess taka mið af nýtingarhlutfalli á skipulagssvæðinu fremur en hafnarsvæðinu.

———–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðar-nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum og tekur skipulagssvæðið til vesturhluta 14,7 ha reits, sem merktur er H-1 í gildandi aðalskipulagi, þar sem gert er ráð fyrir að reiturinn fullbyggður beri um 70.000 m² með nýtingarhlutfallið 0,5.  Megintilgangur skipulagsins mun vera að sýna og gera grein fyrir stækkun, uppbyggingu og nýtingu á athafnasvæði Ísfélags Vestmannaeyja í vesturhöfninni.  Skipulagssvæðið er um 2 ha að stærð og nær til lóðar og svæðis umhverfis frystihús lóðarhafa, hafnarmannvirkja norðan við það og næsta nágrennis.  Þar er gert er ráð fyrir að á svæðinu rísi m.a. frystigeymsla með móttöku og flokkunarstöð, viðbygging fyrir vinnslusal og skrifstofur, hreinsistöð og mótorhús, alls 9.650 m².  Á svæðinu er fyrir frystihús Ísfélags Vestmannaeyja ásamt fylgirýmum, samtals 6.470 m², auk ísstöðvar og bílavogar um 400 m², eða samtals um 6.870 m².  Með hinu kærða deiliskipulagi verða því byggingar og byggingarheimildir á deiliskipulagssvæðinu alls um 16.520 m² og nýtingarhlutfall um 0,82.   Í 10. tl. greinargerðar deiliskipulagsins kemur fram að fyrir séu á svæði merktu H-1 í aðalskipulagi byggingar samtals að flatarmáli u.þ.b. 63.500 m².

Við undirbúning deiliskipulagsgerðarinnar var tekin saman lýsing og fundir haldnir með hagsmunaaðilum.  Þótt aðeins takmarkaður hópur hafi átt kost á að sækja fundi um tillöguna voru hagsmunaaðilar boðaðir þangað og lýsing skipulagstillögunnar var jafnframt auglýst opinberlega 30. maí 2012.  Telja verður að kröfu 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga hafi, eins og hér stendur sérstaklega á, verið fullnægt í ljósi þess að um er að ræða afmarkað hafnarsvæði og  íbúum hafi gefist kostur á að kynna sér skipulagsverkefnið nægjanlega.  Tillagan var auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 31. gr. skipulagslaga, þ. á m. í Lögbirtingablaði 26. október 2012, með lögboðnum athugasemdafresti og kom kærandi að athugasemdum við tillöguna.  Skipulagstillagan var til umræðu og staðfest af bæjarstjórn að þeim frestum loknum, að undan-genginni umfjöllun umhverfis- og skipulagsráðs, en á fundi ráðsins voru jafnframt lagðar fram athugasemdir kæranda.  Fundargerð bæjarstjórnar var sett á vef Vestmannaeyjabæjar.    Kærandi byggir á því að einn bæjarstjórnarmanna, sem samþykktu hina kærðu deiliskipulagsákvörðun bæjarstjórnar, hafi verið vanhæfur.  Reglur stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi eiga ekki við á sveitarstjórnarstigi heldur gilda þar vægari hæfisreglur sveitarstjórnarlaga.  Umrædd ákvörðun var tekin af fjölskipuðu stjórnvaldi og samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.  Gat því meint vanhæfi eins bæjarfulltrúa ekki ráðið úrslitum þegar ákvörðunin var tekin.  Verður samkvæmt framansögðu ekki séð að þeir anmarkar séu á málsmeðferð hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar sem raskað geta gildi hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að deiliskipulag taki til svæða sem mynda heildstæða einingu.  Sveitarstjórn hefur samkvæmt orðalaginu „jafnan“ nokkurt svigrúm til að ákveða mörk svæðis sem deiliskipulag á að taka til, en orðlagið veitir sveitarstjórnum þó ekki frelsi til að ákvarða mörkin án málefnalegra sjónarmiða og skipulagsraka.  Með deiliskipulagi er markmiðið m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands.  Við skipulagsgerð skal og tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulagslaga.

Áður en hið umdeilda skipulag tók gildi hafði hluti starfssvæðis kæranda og svæði austar í höfninni verið deiliskipulagt en meirihluti svæðis H-1 var ódeiliskipulagður.  Fram er komið að einnig er stefnt að framkvæmdum annars staðar á svæði H-1, m.a. á svæði kæranda, og að unnið  sé að deiliskipulagningu tveggja svæða sem taki m.a. til umrædds reits.  Með breytingunum sem gert er ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi er nýtingarhlutfall reitsins H-1 svo til fullnýtt gagnvart öðrum lóðarhöfum.  Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að afmörkun umdeilds skipulagssvæðis sé í samræmi við 37. gr. skipulagslaga enda hafi verið brýnt eins og á stóð að deiliskipuleggja í einu lagi þann hluta reits H-1 sem ólokið var við að skipuleggja, og þá sérstaklega í ljósi þess að reitanýting gildir á reitnum, og hafa því byggingarheimildir á hluta svæðisins bein áhrif á nýtingarmöguleika á reitnum í heild.  Þykir þessi ágalli á hinni kærðu ákvörðun svo verulegur að leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildu deiliskipulagi og verður það því einnig fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 20. desember 2012 um að samþykkja deiliskipulag á starfssvæði Ísfélags Vestmannaeyja hf. á hafnarsvæði Vestmannaeyja og ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 20. febrúar 2013 um að heimila útgáfu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102, Vestmannaeyjum.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson