Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2013 Gerðarbrunnur

Árið 2013, þriðjudaginn 8. október tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2013, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Kristján S, Gerðarbrunni 20-22, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. mars 2008 um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingaleyfi verði stöðvaðar.  Með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 24. júní 2013.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. janúar 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.  Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. febrúar s.á.  var málinu á ný frestað og m.a. fært til bókar að málinu væri vísað til umsagnar skipulagsstjóra þar sem farið væri út fyrir byggingarreit.  Skipulagsstjóri vísaði málinu til skipulagsráðs er tók það fyrir á fundi hinn 5. mars 2008 og afgreiddi með svohljóðandi hætti:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu hinn 6. s.m. 

Kærandi tekur fram að á árinu 2007 hafi hann keypt byggingarrétt á lóðinni nr. 20-22 við Gerðarbrunn og hafi þá legið fyrir samþykkt skipulag húsa í götunni þar sem byggingarreitir hafi verið nákvæmlega tilgreindir.  Steyptur hafi verið sökkull húss á næstu lóð, þ.e. við Gerðarbrunn 24-26, á árunum 2007-2008 en frekari byggingarframkvæmdir við húsið hafi hafist fyrir um það bil mánuði.  Af því tilefni hafi kærandi kynnt sér teikningar að húsinu þar sem fram hafi komið að það færi um 1,5 metra út fyrir byggingarreit lóðarinnar.  Nánari skoðun hafi leitt í ljós að byggingarfulltrúi hafi upplýst um þessa staðreynd á fundi 26. febrúar 2008 og að skipulagsráð hafi síðan samþykkt þessa breytingu án nokkurrar kynningar.  Hliðrunin muni hafa í för með sér verulega skerðingu á útsýni frá svölum húss kæranda og skerða sólarljós.  Brjóti þessar síðari tíma breytingar á húsinu gegn rétti kæranda til birtu og útsýnis sbr. gr. 2.3.4 og 6.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 en samsvarandi ákvæði hafi verið í eldri lögum.  Sé of seint fyrir kæranda að óska eftir breytingum á húsi sínu til að draga úr þeim óþægindum sem verði af þessum ólöglegu breytingum.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hafi kæranda mátt vera kunnugt um legu hússins að Gerðarbrunni 24-26 þegar framkvæmdir hafi byrjað á árunum 2007-2008.   Honum hafi þá verið í lófa lagið að kynna sér samþykkta uppdrætti.  Kærufrestur í máli þessu sé því liðinn og ekki séu færð rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá fyrrgreindu ákvæði um kærufrest.  Þá sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafar gera einnig kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Kærandi hafi haft fjölmörg tækifæri og tilefni til að kynna sér hina kærðu ákvörðun.  Ákvörðunin hafi verið tekin að fengnu samþykki kæranda og birt á vef Reykjavíkurborgar og hafi honum frá þeim tíma mátt vera ákvörðunin ljós auk þess sem um birtingu á opinberum vettvangi hafi verið að ræða.  Kærandi hafi auk þess fengið byggingarleyfi fyrir húsi sínu sem háð hafi verið samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Þá hafi hann sótt um leyfi til að gera breytingu á útitröppum sem liggi að húsi byggingarleyfishafa 13. desember 2011 og hafi kærandi þá þurft að kynna sér teikningar og fá leyfi aðliggjandi húseigenda við þær breytingar.  Framkvæmdum við umrædda byggingu hafi verið fram haldið í febrúar 2013 og hafi vinnuskúr verið settur upp í lok mars s.á.  Kærufrestur hafi því einnig verið liðinn í því tilviki.  Beri því að vísa kæru þessari frá skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun um að veita byggingarleyfi fyrir húsinu að Gerðarbrunni 24-26 var staðfest í borgarráði hinn 6. mars 2008 og var byggingarleyfi gefið út í kjölfarið og framkvæmdir hafnar.  Samkvæmt fyrirliggjandi byggingarsögu hússins var úttekt gerð á botnplötu þess hinn 16. október 2008.  Af þeim ástæðum verður að ætla að kæranda hafi mátt vera ljós lega umrædds húss þegar á árinu 2008 og var því kærufrestur löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 13. júní 2013.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða um kærufresti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson