Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63/2013 Leyfisskylda mannvirkis Sandskeið

Árið 2013, fimmtudaginn 8. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 63/2013, beiðni  um að úrskurðað verði um hvort niðursetning og geymsla þriggja skúra á Sandskeiði sé háð byggingarleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, fór Svifflugfélag Íslands, hér eftir nefnt félagið, fram á, með vísan til 9. gr. laga nr. 160/2010, að úrskurðað yrði hvort niðursetning og geymsla þriggja skúra í eigu félagsins á svæði þess á Sandskeiði væri háð byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. jú1í 2013 tók byggingarfulltrúinn í Kópavogi fyrir umsókn frá 21. júní s.á. um stöðuleyfi til eins árs fyrir þremur lausum skúrum á starfssvæði Svifflugfélags Íslands, hér eftir nefnt félagið.  Var erindinu hafnað með þeim rökum að umræddir skúrar féllu ekki undir skilgreiningu gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. 

Félagið kveðst hafa keypt fimm lausa 60 m2 skúra úr timbri sem notaðir hafi verið sem kennslustofur.  Umræddir skúrar standi lausir við Rimaskóla og hafi ekki verið í notkun í tvö ár.  Þeir séu sérstaklega smíðaðir með áföstum flutningsbúnaði, sem séu tveir járnþverbitar undir gólfbitum er standi um 20 cm út fyrir húsin og séu sérstaklega ætlaðir til hífingar á flutningabíl.  Við kaupin hafi verið fyrirhugað að flytja þrjá skúra til geymslu á starfsstöð félagsins á Sandskeiði enda ekki annað vitað en að flutningur þeirra yrði án vandkvæða.  Stækkun á klúbbhúsi félagsins hafi um árabil verið til skoðunar ásamt byggingu flugskýlis og hafi ætlunin verið að nýta skúrana sem byggingarefni þegar fyrir lægi byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum.  Í kaupsamningi um skúrana hafi verið tekið fram að þeir væru seldir til brottflutnings og teldust því lausafé, enda án lóðarréttinda.  Vegagerðin hafi hins vegar hafnað umsókn um flutning skúranna á grundvelli 1. og 3. mgr. 75. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og gert kröfu um að fyrir lægi heimild byggingarfulltrúa til útgáfu flutningsleyfis.  Uppi sé ágreiningur milli félagsins og skipulagsyfirvalda bæjarins varðandi það hvort skúrarnir teljist vera fasteignir, mannvirki eða lausafé í skilningi mannvirkjalaga og sé félaginu nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort niðursetning og geymsla skúranna á Sandskeiði sé byggingarleyfisskyld.  Þá sé þess einnig óskað að úrskurðarnefndin taki af vafa um hvort framangreint falli undir ákvæði 9. liðar 60. gr. mannvirkjalaga um stöðuleyfi.  Ekki verði séð að tímabundin geymsla skúranna sé háð leyfi að lögum en nauðsynlegt sé að flytja þá í burtu sem allra fyrst þar sem þeir liggi nú undir skemmdum og til þess að hindra riftun kaupanna á skúrunum. 

Af hálfu byggingaryfirvalda í Kópavogi er á það bent að synjun stöðuleyfis sé stjórnvaldsákvörðun er falli undir kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, enda hafi verið vakin athygli á kærurétti í bréfi til félagsins þar sem málalok hafi verið kynnt.  Umsókn félagsins hafi ekki verið um byggingarleyfi og skorti því forsendu fyrir málaleitan þess til úrskurðarnefndarinnar.  Grein 2.6.1 í gildandi byggingarreglugerð fjalli um minni háttar atriði, þar með talið sumarhús í smíðum, ætluð til flutnings, en ekki heilu húsin.  Á þeirri forsendu hafi umsókn félagsins um stöðuleyfi verið hafnað.  Á svæðinu sé hvorki aðal- né deiliskipulag í gildi.  Í umboði bæjarstjórnar í sumarleyfi hafi bæjarráð Kópavogsbæjar staðfest afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 11. júlí 2013.  Þá sé það ekki á verksviði byggingarfulltrúa að meta hvort reglugerðir standist viðkomandi lög.  Að öllu framangreindu virtu fari byggingarfulltrúi því fram á að umræddri beiðni verði vísað frá. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að tilefni erindis félagsins til úrskurðarnefndarinnar var að ekki fékkst leyfi Vegagerðarinnar til flutnings umræddra húsa nema að fengnu leyfi Kópavogsbæjar.  Sótt var um stöðuleyfi fyrir húsunum en byggingarfulltrúi synjaði umsókninni með þeim rökum að þau gætu ekki fallið undir þau tilvik sem ákvæði gildandi byggingarreglugerðar um stöðuleyfi tækju til.  Sú afgreiðsla hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og ekki er fyrir hendi lagaheimild fyrir því að bera vafa um stöðuleyfisskyldu undir nefndina, eins og þegar um er að ræða vafa um byggingar- eða framkvæmdaleyfisskyldu, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Af þessum ástæðum sætir greind niðurstaða byggingarfulltrúa um stöðuleyfisskyldu umræddra húsa ekki endurskoðun í máli þessu og ekki verður tekin afstaða að öðru leyti til þess hvort staðsetning þeirra sé háð stöðuleyfi. 

Félagið hefur vísað til þess að skiptar skoðanir séu uppi um hvort flutningur og staða umræddra húsa á áfangastað sé háð leyfi samkvæmt mannvirkjalögum og standi það í vegi fyrir flutningi þeirra á umráðasvæði hans á Sandskeiði.  Í ljósi réttarstöðu félagsins í máli þessu og augljósra hagsmuna af því að fá úr því skorið hvort staðsetning húsanna til geymslu á nefndum stað sé byggingarleyfisskyld verður beiðni félagsins þess efnis tekin til efnislegrar úrlausnar. 

Í 9. gr. laga um mannvirki er fjallað um hvaða framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar.  Þar er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því eða burðarkerfi þess, lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa.  Einsök mannvirki geta verið undanþegin slíku leyfi samkvæmt laga- eða reglugerðarákvæðum en slíkar undantekningar eiga ekki við um þær færanlegu byggingar sem mál þetta snýst um. 

Samkvæmt 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 51. tl. gr. 1.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru mannvirki hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga.  Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.  Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögunum.  Skýra verður hugtakið mannvirki í fyrrgreindri 9. gr. nefndra laga í samræmi við 13. tl. 3. gr. þeirra og 51. tl. gr.1.2.1 í gildandi byggingarreglugerð. 

Af málatilbúnaði félagsins má ráða að byggingar þær sem hér um ræðir verði hvorki jarðfastar né ætlaðar til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, heldur hyggist félagið aðeins flytja þær til geymslu á umráðasvæði sitt á Sandskeiði.  Komi til notkunar þeirra, svo sem til viðbyggingar við starfsaðstöðu félagsins sem fyrir sé á staðnum, verði það ekki gert nema að fengnu byggingarleyfi. 

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið verður að telja að flutningur og geymsla framangreindra húsa á umráðasvæði félagsins á Sandskeiði sé ekki háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Úrskurðarorð: 

Flutningur og geymsla umræddra þriggja húsa á umráðasvæði Svifflugfélags Íslands á Sandskeiði er ekki háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson