Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2013 Fiskeldi í Fáskrúðsfirði starfsleyfi

Árið 2013, fimmtudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2013, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2013 um að breyta starfsleyfi fyrir fiskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði úr eldi þorsks í eldi á regnbogasilungi.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Eggert Páll Ólason hdl., f.h. Laxa fiskeldis ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. júlí 2013 að breyta starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir fiskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði úr eldi þorsks í eldi á regnbogasilungi.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða, sbr. 1. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:  Með bréfi til Umhverfisstofnunar, dags. 22. mars 2013, sótti handhafi starfsleyfis fyrir þorskeldi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði eftir breytingum á leyfinu, þannig að í stað þorskeldis yrði heimilað eldi á regnbogasilungi. Umhverfisstofnun féllst á umsóknina og gaf út breytt starfsleyfi 5. júlí 2013 og Fiskistofa breytti í kjölfarið rekstrarleyfi leyfishafa til samræmis við hið breytta starfsleyfi.

Fyrir liggur að kærandi sendi Skipulagsstofnun fyrst upplýsingar um að hann hygðist stofna til laxeldis í Fáskrúðsfirði í desember 2011. Með bréfi, dags. 26. október 2012, sendi hann Skipulagsstofnun tilkynningu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 og með bréfi, dags. 25. júlí 2013, óskaði hann eftir því að stofnunin liti svo á að fyrirhugað laxeldi hans skyldi háð mati á umhverfisáhrifum og féllst stofnunin á það.

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að hún fari gegn hagsmunum hans og gegn lögum. Kærandi hafi undirbúið laxeldi á Austfjarðasvæðinu um margra ára skeið og breytingin á eldisleyfi leyfishafa hafi afgerandi áhrif fyrir fyrirhugað fiskeldi kæranda í Fáskrúðsfirði.  Kærandi hafi beina, sérstaka, verulega og lögvarða hagsmuni af málinu og teljist því aðili máls skv. ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar. Hin kærða breyting á starfsleyfi muni raska forsendum tilkynnts fiskeldis kæranda, en þær hafi byggst á opinberum upplýsingum og leyfum sem hafi verið í gildi. Með ákvörðuninni sé hagsmunum kæranda raskað með óafturkræfum hætti og fyrirhugað laxeldi hans í Fáskrúðsfirði hafi verið sett í uppnám.  

Umhverfisstofnun telur kæranda ekki eiga aðild í málinu þar sem hann geti ekki sýnt fram á einstaklega og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Kærandi hafi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á þremur stöðum í Reyðarfirði en hafi ekki slík leyfi í Fáskrúðsfirði.

Andmæli leyfishafa um réttarstöðu kæranda í máli þessu eru á sömu lund og haldið er fram af hálfu Umhverfisstofnunar.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en tekið hefur verið mið af þeim málatilbúnaði við úrlausn málsins. 

Niðurstaða: Þeir einir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun geta borið hana undir úrskurðarnefndina, skv. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi er með leyfi fyrir sjókvíaeldi í Reyðarfirði. Hann er ekki með starfs- eða rekstrarleyfi fyrir slíkri starfsemi í Fáskrúðsfirði, en hefur sent Skipulagsstofnun tilkynningu á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs laxeldis þar. Ekkert liggur fyrir um að hið kærða starfsleyfi geti haft áhrif á laxeldi kæranda í Reyðarfirði. Þótt kærandi hafi sent tilkynningu til Skipulagsstofnunar um áform sín um laxeldi í Fáskrúðsfirði leiðir sú tilkynning ekki til þess að hann teljist eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun um breytt leyfi félags, sem þegar er með leyfi fyrir fiskkvíaeldi í firðinum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson