Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2012 Bankastræti

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2012, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, Skólavörðustíg 4C, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að fjarlægja óleyfisbyggingarnar.  Til vara krefst kærandi þess að umsóknin verði tekin til afgreiðslu á nýjan leik.  Að auki krefst kærandi greiðslu málskostnaðar. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 14. ágúst 2012. 

Málavextir:  Í byrjun ágúst 2011 sendi kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurn þess efnis hvort veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir stórum viðarstrúktúrum, svölum, tröppum o.fl. sem byggðir hefðu verið í porti sunnan við veitingastaðinn Prikið að Bankastræti 12, og þá til hvaða starfsemi það leyfi næði, en eins og sæist af myndum neyttu gestir staðarins áfengis á svölunum og í portinu eftir klukkan 22 á kvöldin.  Svar byggingarfulltrúa barst hinn 9. s.m. þar sem fram kom að málið hefði verið skoðað og að greinilegt væri að byggt hefði verið út fyrir heimildir.  Aðspurður staðfesti kærandi við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdin ylli ónæði í nágrenninu. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð umrædds húss.  Var umsóknin tekin fyrir á ný á fundi hinn 22. s.m og er í fundargerð vísað til athugasemda eldvarnaeftirlits á umsóknarblaði.  Umsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. desember s.á. 

Kærandi ítrekaði erindi sitt til byggingarfulltrúa 30. nóvember 2011, sem og 3. janúar 2012.  Svar byggingarfulltrúa barst honum hinn 3. febrúar s.á. þar sem fram kom að leyfi fyrir framkvæmdinni hefði verið veitt hinn 6. desember 2011. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að þrátt fyrir að hann hafi gert alvarlegar athugasemdir við byggingar þær sem málið snúist um hafi byggingarfulltrúi ekki hirt um að upplýsa hann um gang málsins eða veita honum tækifæri til að tjá sig um framkvæmdirnar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Þá sé það kyndug stjórnsýsla að blessa, að því er virðist án athugasemda, slíkar óleyfisframkvæmdir með því að veita leyfi fyrir áður gerðum framkvæmdum. 

Byggðar hafi verið svalir og tröppur út í port sunnan við húsið án heimildar byggingarfulltrúa og hafi þetta port þjónað sem viðbót við skemmtistaðinn og aukið hávaða og ónæði frá staðnum.  Notkun svalanna að nóttu hafi falist í að þar megi reykja utandyra en auk þess sé þar leyfð neysla áfengra drykkja sem sé skýlaust brot á lögum, reglugerðum og samþykktum um áfengisveitingar.  Með tilkomu svalanna hafi hávaðinn og ónæðið aukist enn frekar enda átt greiðari leið að húsi kæranda. 

Framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt þótt hún hafi í för með sér mikla breytingu á hljóðvist og lífsgæðum nágranna og feli í sér breytingu á notkun, þ.e. breytingu á porti í útiveitingastað.  Íbúar hafi ítrekað kvartað vegna hávaða sem leiði af fyrrgreindri notkun svalanna.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki látið fara fram könnun eða mælingu á hljóðvist í nágrenni Bankastrætis 12 né látið skoða hvaða breytingar hafi orðið á henni.  Telja verði að samræmi eigi að vera í stjórnkerfinu hvað þetta varði en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, sem sé skylt að fjalla um mál tengd hljóðvist, hafi enga aðkomu átt að afgreiðslu málsins. 

Í deiliskipulagi svæðisins sé ekki að finna heimild fyrir viðbyggingu við Bankastræti 12 heldur einungis fyrir gerð stakrar byggingar fyrir aftan húsið.  Geti umræddar framkvæmdir ekki talist falla innan þeirrar heimildar.  Í deiliskipulaginu komi jafnframt fram að húsið sé byggt árið 1868 og að það sé háð þjóðminjalögum um allar breytingar á núverandi ástandi þess sökum aldurs.  Ekki hafi verið leitað álits Húsafriðunarnefndar á framkvæmdunum, hvorki áður en framkvæmdir hófust né áður en hið kærða leyfi var gefið út, og hafi því verið brotið gegn 6. gr. húsafriðunarlaga nr. 104/2001.  Þá segi í skipulaginu að lagt sé til í Húsverndarskrá Reykjavíkur að húsið njóti verndar vegna mikilvægis þess í götumynd Bankastrætis og Ingólfsstrætis.  Þeir viðarstrúktúrar sem reistir hafi verið stingi mjög í stúf við hið gamla hús og breyti götumynd, bæði frá Bankastræti og Ingólfsstræti. 

Þá bendi kærandi á þá miklu fjölgun skemmtistaða og bara í miðborginni sem orðið hafi á síðustu árum en sú þróun hafi óneitanlega skert lífsgæði íbúa svæðisins.  Með stefnu sinni í málefnum miðborgarinnar hafi borgaryfirvöld rýrt verðmæti fasteigna á svæðinu auk þess sem grenndarkynning hafi aðeins farið fram vegna örfárra fyrrnefndra staða og réttur íbúa til að tjá sig um nærumhverfi sitt því verið að engu hafður. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis enda séu umrædd mannvirki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Í deiliskipulagi fyrir Laugavegs- og Skólavörðustígsreiti, reitur 1.171.2, sem samþykkt hafi verið hinn 10. ágúst 2002, sé gert ráð fyrir 400 m2 nýbyggingu, sem sé fjórar hæðir og kjallari, á baklóð Bankastrætis 12.  Rúmist hinar kærðu framkvæmdir vel innan þeirra heimilda og hafi því ekki borið að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. 

Hvað varði þá málsástæðu að leita hefði þurft álits húsafriðunarnefndar skuli á það bent að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á húsinu, heldur hafi aðeins verið um að ræða viðbyggingu, þ.e. svalir, sorpgerði og geymslu, í portinu.  Loks sé á það bent að engin leyfi hafi verið veitt fyrir útiveitingum á staðnum og því sé neysla áfengra drykkja óheimil utandyra.  Allar kvartanir vegna slíks heyri undir lögreglustjóra en ekki byggingarfulltrúa. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum  sínum  í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 8. ágúst 2013. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 8. maí 2012, eða rúmum þremur mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um útgáfu byggingarleyfisins.  Verður því að líta svo á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.2, sem afmarkast af Bankastræti, Skólavörðustíg, Bergstaðastræti, Hallveigarstíg og Ingólfsstræti.  Samkvæmt deiliskipulaginu er heimilt að byggja fjögurra hæða hús með kjallara syðst á lóð nr. 12 við Bankastræti, á bak við núverandi hús.  Efsta hæð hússins skal vera inndregin frá Bankastræti.  Hið kærða byggingarleyfi veitir hins vegar leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og útisvölum úr timbri á baklóð hússins, með aðgengi út á svalirnar frá vínveitingastað í núverandi húsnæði á lóðinni.  Leyfi til byggingar svala, sem eru í beinum tengslum við og með aðgengi frá veitingastað, er til þess fallið að valda nágrönnum ónæði umfram það sem búast hefði mátt við samkvæmt gildandi deiliskipulagi, en ekki er að finna heimild fyrir slíkum mannvirkjum innan umrædds byggingarreits. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.  Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að hið kærða byggingarleyfi er í andstöðu við gildandi deiliskipulag og ber því að fella það úr gildi. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins að Bankastræti 12. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

82/2013 Lambhagavegur

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2013, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 á umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2013, er barst nefndinni 19. s.m., kærir D, f.h. Þrístiklu, Lambhagavegi 31, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 á umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Lambhagavegur 29 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir svonefndan Lambhagareit og tekur skipulagið til alls átta lóða sem skilgreindar eru sem ræktunarlóðir.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. mars 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr staðsteyptri steinsteypu á nefndri lóð.  Var afgreiðslu málsins frestað, með vísan til athugasemda á umsóknarblaði, og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem á fundi sínum hinn 15. s.m. vísaði málinu til umsagnar hjá verkefnisstjóra.  Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 22. s.m. og það afgreitt jákvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. 

Hinn 23. apríl 2013 var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og fylgdi erindinu útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 22. mars s.á. og umsögn hans, dagsett sama dag.  Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2013, gerði kærandi athugasemdir við fyrrgreinda afgreiðslu og fór fram á að tekið yrði tillit til þess að byggingarreitur íbúðarhúss Lambhagavegar 31 lægi samhliða samþykktri byggingu.  Í framhaldi af því munu byggingarfulltrúi og kærandi m.a. hafa fundað um málið, en lyktir urðu þær að kærandi skaut afgreiðslu byggingarfulltrúa frá 23. apríl 2013 til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi til þess að samþykktar teikningar brjóti í bága við gildandi deiliskipulag fyrir svæðið.  Samkvæmt skipulagi megi hæð gróður- og þjónustuhúsa ekki fara yfir 7,0 m, mælt frá gólfplötu og upp í mæni.  Þar sem hæðarmunur sé sérstaklega mikill sé kjallari leyfður undir slíkum húsum og megi hæð þá ekki fara yfir 9,0 m, mælt frá gólfplötu í kjallara.  Byggingin fari upp í 9,7 m, þar sem hún sé hæst, mælt frá kjallaraplötu, og í 11,3 m þar sem þak sé sýnt hæst.  Þá sé þakið klætt gróðri en þótt deiliskipulagið leyfi tæknibúnað og þakglugga yfir mænishæð sé ekki átt við að allt þakið megi þekja torfi og gróðri upp í 11,0 m hæð.  Því hafi verið haldið fram að þar sem húsið sé ekki með risi megi vegghæð fara í leyfða mænishæð og sé það jafngilt í deiliskipulagi.  Þessu sé kærandi ósammála og telji að hús sem sé 5,5 m að hæð með 1,5 m risi sé síður íþyngjandi en 7,0 m hús með flötu þaki gagnvart húsi í 5,0 m fjarlægð frá lóðamörkum og 13,0 m fjarlægð frá íbúðarbyggingarreit.

Umrædd bygging sé af slíkri stærðargráðu að hún rýri verulega gæði ræktunarlóðar garðyrkjubýlisins Þrístiklu.  Byggingarreitur íbúðarhúss að Þrístiklu sé í uppnámi og því hærri sem byggingin sé því meira íþyngjandi verði hún, einkum þar sem ekki sé um gróðurhús að ræða heldur steypt hús.  Ræktunarland fyrir ofan byggingarreit íbúðarhúsnæðis Þrístiklu verði fyrir verulegum áhrifum af byggingunni, svo og allt nærsvæði hennar, hvað varði vind og snjóþyngsli, og rýri þannig uppskeru og afkomu af landinu.  Hafi byggingaryfirvöldum borið að líta til meðalhófsreglu þegar hæð byggingarinnar hafi verið ákveðin þannig að hún yrði ekki hærri en nauðsyn bæri til.  Þá sé bent á að engin grenndarkynning hafi farið fram á fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Samkvæmt deiliskipulagi megi á svæðinu reisa gróðurhús og þjónustubyggingar til garðyrkjuframleiðslu.  Kærandi telji að hlutfall gróðurhúsa gagnvart þjónustubyggingum sé ekki í eðlilegu samhengi.  Jafnframt sé fyrirhuguð starfsemi í húsinu, þ.e. pökkun eða frekari vinnsla á landbúnaðarvörum, ekki garðyrkja heldur iðnaður og því í trássi við deiliskipulag. 

Þá sé gerð athugasemd við að skýringarmynd, er lögð hafi verið inn með umsókn um byggingarleyfi, sé í engu lík teikningu af ræktunar- og þjónustuhúsi.  Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að teikningar hafi verið samþykktar óbreyttar eftir að þeim hefði áður verið hafnað. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist af kröfu kæranda verði hafnað. 

Hæðir húshluta heimilaðrar byggingar séu í samræmi við gr. 2.5 í greinargerð og skilmála skipulagsins.  Hæð sé miðuð við núverandi landhæð í hverju tilviki og í samræmi við eftirfarandi atriði:  Bygging sem hærra standi í lóðinni (nyrst) hafi 7,0 m leyfilega mænishæð yfir núverandi landhæð.  Núverandi landhæð á aðkomuhlið þeirrar byggingar sé frá 62,12 m (NV-horn) og um 66,0 m (NA-horn).  Eðlileg gólfhæð aðkomuhæðar gæti verið meðaltal þess, eða um 64,0 m, og leyfileg mænishæð 71,0 m.  Gólfhæð byggingarinnar samkvæmt aðalteikningu sé í 63,20 m hæð, eða 0,8 m neðar.  Mesta hæð útveggja sé ráðgerð 4,5 m yfir gólfhæð, þ.e. í 67,7 m hæð, eða 3,3 m undir leyfilegri mænishæð. 

Sú bygging sem lægra standi í lóð (syðst) sé með heimilaða hámarkshæð, mælt frá botnplötu kjallara, allt að 9,0 m.  Núverandi landhæð á aðkomuhlið þeirrar byggingar sé frá um 57,0 m (SV-horn) og 59,5 m (SA-horn).  Eðlileg gólfhæð aðkomuhliðar gæti verið meðaltal þessa, eða 58,25 m, og leyfileg hámarkshæð, mælt frá botnplötu, í allt að 67,25 m hæð.  Gólfhæð samkvæmt aðalteikningu sé í 57,42 m hæð, eða 0,83 m lægri.  Mesta hæð útveggja sé ráðgerð 6,93 m yfir botnplötu kjallara.  Áætluð mænishæð gróðurhúss, sem ekki sé hér til umfjöllunar, sé ráðgerð 9,0 m yfir botnplötu, þ.e.a.s. í hæðinni 66,42 m, eða 0,83 m lægra en leyfileg hámarkshæð miðað við núverandi landhæð. 

Það að kjallarahluti atvinnuhúsnæðisins nái inn undir þá byggingu sem hærra standi í lóðinni hafi ekkert með mestu hæð hennar að gera og hafi sá hluti kjallarans engin áhrif á umhverfið þar.  Þess sé heldur ekki getið í deiliskipulagi lóðarinnar að kjallari megi ekki vera undir þeirri byggingu eða hver gólfhæð hans skuli þá vera. 

Ekki sé heldur fallist á að skýringamynd á skipulagsuppdrætti sé ekki lík uppdráttum. Skýringarmyndir séu ekki endanleg útfærsla á hönnun heldur sé með þeim verið að gefa hugmynd um form, hæðir og legu í landi. 

Sú fullyrðing að byggingarreitur íbúðarhúss kæranda sé í uppnámi fái ekki staðist.  Hin umdeilda bygging sé innan byggingarreits og vel það.  Sé sjónarmiðum um áhrif byggingarinnar á vind, snjóalög og ræktunarmöguleika á Þrístiklu mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum.  Þá vísi Reykjavíkurborg enn fremur til röksemda byggingarleyfishafa í málinu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Sjónarmið byggingarleyfishafa eru á svipaðan veg og hjá Reykjavíkurborg.  Jafnframt er vísað til þess að samanlagt byggingarmagn ræktunar- og þjónustuhúss sé 1.838,3 m², sem sé langt undir heimilaðri hámarksstærð samkvæmt deiliskipulagi.  Svo hátti einnig til um þakhæðir.  Þannig sé hámarkshæð ræktunarhúss með handriðum 6,93 m, og hámarkshæð þjónustuhúss, á hæsta punkti grasþaks, sé um 5,5 m og hámarksvegghæð 4,5 m.  Meðalhófsreglunnar hafi því verið gætt.  Hvergi séu gefnir upp fastir hæðarkótar á byggingum í deiliskipulagi, en þess farið á leit við hönnuði að þeir aðlagi legu húsa sem mest að landi.  Hæðarmunur á umræddri lóð sé þannig að ræktunarhús verði að langmestu leyti niðurgrafið.  Sé grenndarkynningar ekki þörf þegar unnið sé innan gildandi deiliskipulags. 

Enn fremur sé á það bent að aðeins hluti af þeirri hlið hússins sem snúi að Þrístiklu standi hærra en land Þrístiklu en hluti af þeirri sömu hlið sé einnig neðar en land þeirra, eða um 2,0 m.  Grasþök hafi verið hönnuð með það að leiðarljósi að húsin féllu betur inn í umhverfið en hvergi sé tekið fram í skipulagsskilmálum að ekki megi grasleggja þök.  Mikill trjágróður sé milli lóða og inni á landi Þrístiklu.  Byrgi hann nú þegar sýn milli lóða enda séu trén um 8-10 m há.  Muni fyrirhugað hús því ekki verða íþyngjandi á neinn hátt. 

Garðyrkja sé iðnaður í nútímasamfélagi.  Í skilmálum deiliskipulagsins sé sérstaklega tekið fram að í byggingunum geti m.a. verið pökkunarhús.  Telji leyfishafi það gott fordæmi að heimila byggingu ræktunarhúsa/þjónustuhúsa/geymslna sem séu í samræmi við deiliskipulag.  Þá sé skýringarmynd í samræmi við endanlegar teikningar.  Skýringarmynd segi ekkert til um stærðir heldur sé hugmynd um hvernig hentugt sé að byggja upp svæðið þar sem mikill landhalli sé.  Loks sé bent á að teikningar, sem kærandi vísi til að hafi verið hafnað, hafi átt við um annað erindi. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir staðsteyptu ræktunar- og gróðurhúsi að Lambhagavegi 29 í Reykjavík og lúta álitaefni málsins einkum að því hvort hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags. 

Kveðið er á um hámarkshæð bygginga í gr. 2.5 í gildandi deiliskipulagi svonefnds Lambhagareits, er tekur til umrædds svæðis.  Er þar tilgreint að mesta leyfilega mænishæð annarra húsa en íbúðarhúsa megi vera 7,0 m.  Á lóðum nr. 25, 27 og 29 sé heimilt að byggja kjallara undir atvinnuhúsnæði þar sem hæðarmunur í landi bjóði upp á slíkt og sé hámarkshæð, mæld frá botnplötu kjallara, heimiluð allt að 9,0 m. 

Fram kemur í byggingarlýsingu aðaluppdrátta hins kærða byggingarleyfis að byggingin sé „ein samhangandi bygging, kjallari og 1. hæð“.  Nánar tiltekið er norðurhluti byggingarinnar kjallari en suðurhlutinn er á einni hæð.  Eru byggingarhlutarnir samtengdir með stigagangi.  Samkvæmt samþykktum uppdrætti er vegghæð norðurhlutans yfir gólfplötu hvergi meiri en 4,5 m og mænishæð þar af leiðandi mest 5,5- 6,0 m.  Hæð frá gólfplötu suðurhluta byggingarinnar (kjallara) upp á þakplötu er 5,8 m og þar með innan þeirra marka sem deiliskipulagið áskilur.  Heildarhæð stigagangs milli byggingarhluta er hins vegar um eða yfir 11 m samkvæmt teikningum, mælt frá botnplötu að mæni.  Að auki er hæð frá tæknirými við stigagang undir suðurhluta byggingarinnar um eða yfir 11 m.  Víkur hin kærða ákvörðun að þessu leyti frá skilmálum skipulagsins hvað hámarkshæð húss varðar, en frávikið fellst að öllu leyti í rúmmálsaukningu neðanjarðar. 

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir, skv. 1.tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er þó heimilað að víkja frá gildandi skipulagi við útgáfu byggingarleyfis þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðast í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.  Form, staðsetning og hæð umræddrar byggingar ofan jarðar er í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verða grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti.  Þá verður ekki séð að byggingarleyfið fari gegn skilmálum skipulagsins um landnotkun og landnýtingu.      

Með hliðsjón af framangreindu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

5/2012 Fráveitugjald

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2012, kæra á gjaldskrá fyrir fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2010, 2011 og 2012. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. febrúar 2012, er barst nefndinni 3. s.m., kærir P, Skógarseli 25, Reykjavík, gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fráveitu árin 2010, 2011 og 2012.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á álagningu umdeilds gjalds gagnvart kæranda vegna fasteignar hans að Skógarseli 25. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Orkuveitu Reykjavíkur hinn 21. febrúar 2012 og umbeðnar viðbótarupplýsingar 16. júlí s.á. 

Málsatvik og rök:  Í máli þessu er kærð gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fráveitu vegna áranna 2010, 2011 og 2012.  Fyrir liggur að gjaldskrá vegna ársins 2012 var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. desember 2011 og tók hún gildi 1. janúar 2012.  Gjaldskráin tekur til veitusvæðis I í Reykjavík og þar á meðal fasteignar kæranda að Skógarseli 25 í Reykjavík. 

Bendir kærandi á að frá árinu 2010 til 2012 hafi álögð gjöld vegna fráveitu á fasteign hans hækkað um 56,5% á sama tíma og byggingarvísitala hafi hækkað um 13,2% og vísitala neysluverðs, sem sé grundvöllur verðtryggingar, um 7,9%.  Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 heimili aðeins gjaldtöku til uppbyggingar og reksturs fráveitu sveitarfélags á viðkomandi gjaldsvæði.  Ekki sé heimilt að nota fráveitugjald til annarra málaflokka.  Lögin heimili ekki sjálftöku gjalds heldur eigi þau að vernda notendur fyrir óeðlilegum hækkunum. 

Síðastliðin þrjú ár hafi verið mikill samdráttur í fráveituframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur og hafi fráveitugjaldið því átt að lækka en ekki hækka.  Árin þar á undan hafi framkvæmdir verið miklar í Reykjavík en þrátt fyrir það hafi ekki verið ástæða til að hækka fráveitugjaldið.  Kærandi fullyrði að á árunum 2006 til 2010 hafi tekjur fyllilega staðið undir gjöldum fráveitunnar í Reykjavík en ekki megi blanda saman lántökum Orkuveitu Reykjavíkur á liðnum árum við rekstur fráveitunnar.  Þær séu þeim óviðkomandi, a.m.k. á gjaldsvæði Reykjavíkur, og lögin heimili ekki að tekjurnar séu notaðar í annað.  Lántökur Orkuveitunnar hafi komið til vegna jarðvarmavirkjana, gagnaveitu sem sé nánast tekjulaus, risarækjueldis, hörvinnslu, útrásar o.s.frv.  Við athugun á fjárhæð fráveitugjaldsins á þeim tíma þegar miklar framkvæmdir hafi verið í gangi á árunum 2006 til 2008, og svo á samdráttarskeiðinu 2009 til 2012, verði ekki annað séð en að hluti fráveitugjalds Orkuveitu Reykjavíkur bæði fyrir árin 2011 og 2012 sé óréttmæt eignataka. 

Af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur er því mótmælt að um óréttmæta gjaldtöku sé að ræða af hálfu fyrirtækisins og því beri að hafna kröfum kæranda.  Þvert á móti sé fráveitan rekin með lágmarks arðsemi en stjórn fyrirtækisins hafi markað þá stefnu að arðsemi fráveitu skuli vera 5%.  Samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitu, skuli stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið sé nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. laganna.  Miða skuli við að fráveitugjald, ásamt öðrum tekjum fráveitu, standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. 

Í útreikningum á arðsemi fráveitunnar, fyrir tímabilið 2006-2046, hafi verið tekið tillit til yfirtökuverðs veitanna í ársbyrjun 2006 og þeirra lána sem þá hafi einnig verið tekin yfir.  Notast hafi verið við rauntölur úr bókhaldi Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2006 til og með 2011, en fyrir árin 2012 til 2016 sé stuðst við fimm ára áætlun, sem geri ráð fyrir að allar fjárfestingar séu í algjöru lágmarki til ársins 2015, þegar fyrirhugað sé að framkvæmdir við uppbyggingu á Vesturlandi hefjist að nýju.  Eftir árið 2017 sé gert ráð fyrir að kostnaður við uppbyggingu stofnkerfa og fóðrun eldri lagna nemi að jafnaði 500 milljónum króna á ári.  Nákvæmari áætlun liggi ekki fyrir en kostnaður fráveitu vegna fjárfestinga ráðist að verulegu leyti af framkvæmdum sveitarfélaganna við uppbyggingu nýrra íbúða- og/eða athafnasvæða.  Tekið skuli fram að fjárfestingakostnaður komi einungis inn í útreikninga á arðsemi sem áhrif á afskriftir.  Ljóst sé að gjaldskráin geti ekki fylgt þeim sveiflum nema að takmörkuðu leyti enda sé í framangreindri 15. gr. laga nr. 9/2009 gert ráð fyrir að tekjur veitunnar standi undir kostnaði við rekstur og uppbyggingu hennar til lengri tíma litið.  Samkvæmt útreikningum liggi arðsemi veitunnar lítið eitt undir markmiðum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, eða um 4,6%. 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Orkuveitu Reykjavíkur segir að ekkert komi fram í greinargerð Orkuveitunnar sem réttlæti hækkun gjaldskrár fráveitunnar á veitusvæði I umfram verðlagshækkanir.  Með vísan í verðskrá Orkuveitunnar sé fráveitunni skipt í þrjú gjaldskrársvæði skv. heimild í lögum nr. 9/2009 og reglugerð nr. 982/2010, um fráveitur sveitarfélaga.  Húseign kæranda sé á veitusvæði I og fari fráveitugjöld hans einungis til reksturs og uppbyggingar þess svæðis.  Árið 2006 hafi kærandi greitt kr. 32.830 í fráveitugjöld fyrir húseign sína en fyrir árið 2012 sé honum ætlað að greiða kr. 74.382 fyrir sömu þjónustu.  Þetta sé hækkun upp á 116% á sama tíma og byggingarvísitalan hafi hækkað um 78%.  Þessi hækkun sé í engu samræmi við fjárþörf fráveitunnar í Reykjavík, þ.e. veitusvæðis I, þar sem framkvæmdir hafi að mestu legið niðri, og svo verði áfram næstu fimm árin.  Gjaldskráin samræmist því hvorki lögum nr. 9/2009 né reglugerð nr. 982/2010. 

Með bréfi, dags. 22. júní 2012, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að Orkuveita Reykjavíkur gerði nánari grein fyrir hækkunum á umræddu gjaldi milli ára.  Í svarbréfi er vísað til þess að hinn 23. mars 2011 hafi stjórn Orkuveitunnar samþykkt að hækka gjaldskrá fráveitu um 45% frá 1. maí.  Þessi gjaldskrárbreyting hafi verið hluti af aðgerðaráætlun Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda hennar vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins, eins og nánar sé gerð grein fyrir í tillögu og greinargerð til stjórnar Orkuveitunnar, dags. 22. mars 2011. 

Ástæða þess að gjaldskrárbreytingin hafi verið nauðsynleg sé sú að afkoman af rekstri fráveitunnar hafi verið óviðunandi og hafi ekki nægt fyrir fjármagnskostnaði.  Svo hafi verið um árabil.  Þessi hækkun hafi leitt til tæplega 30% hækkunar á árinu 2011 þar sem hún hafi aðeins náð til hluta ársins.  Á árinu 2012 hafi gjaldskrárbreytingin komið að fullu til framkvæmda og hafi leitt til um 12% hækkunar á álagningu.  Því til viðbótar hafi byggingarvísitala hækkað um 10,7% milli ára, en gjaldskrá fráveitu taki breytingum miðað við byggingarvísitölu í desember ár hvert.  Með þessari hækkun hafi verið stefnt að því að ná arðsemi fráveitu í 4% árið 2011 og 5% árið 2012.  Arðsemi ársins 2011 hafi verið 3,9%. 

Þrátt fyrir að Orkuveita Reykjavíkur hafi veitt framangreindar upplýsingar telji fyrirtækið að úrskurðarnefndin hafi ekki úrskurðarvald um gjaldskrárhækkanir skv. 15. gr. laga nr. 9/2009, enda sé þar um að ræða svokölluð stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvörðun og þau  falli því ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar skv. 1. gr. laga nr. 130/2011.  Þess sé því krafist að kærunni verði vísað frá. 

Hinn 4. október 2012 barst umsögn frá kæranda um viðbótargögn Orkuveitu Reykjavíkur.  Að mati kæranda hafi engar upplýsingar komið fram um þörf á því að hækka fráveitugjöld á veitusvæði I.  Orkuveitan hafi ekki lagt fram nein bókhaldsgögn, hækkunum sínum til stuðnings.  Einu bókhaldsgögnin sem Orkuveitan hafi lagt fram séu ófullkomnar samtölur, sem sennilega nái til gjaldsvæðanna þriggja, þar sem því sé m.a. haldið fram að Orkuveitan hafi keypt fráveituna í Reykjavík á 20 milljarða króna.  Þetta sé rangt að mati kæranda.  Upplýsingar um háan fjármagnskostnað og arðsemismarkmið sem byggi á slíkum staðhæfingum séu lítils virði. 

Í bréfi Orkuveitu Reykjavíkur frá 11. júlí 2012 hafi komið fram að gjaldskrárhækkanir þessar séu liður í arðgerðaráætlun Orkuveitunnar vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins.  Þetta sé mergur málsins.  Fjárhagsvandi fyrirtæksins stafi ekki af rekstri einkaleyfisstarfseminnar í Reykjavík, þ.e. fráveitu, hitaveitu, vatnsveitu og dreifingu rafmagns.  Rekstur þessarar starfsemi hafi verið í góðu jafnvægi og ríflegur rekstrarafgangur hafi verið af starfseminni allt frá árinu 2009 þegar nánast allar framkvæmdir og viðhald hafi verið stöðvað.  Þessi starfsemi hafi ekki þurft neinar gjaldskrárhækkanir umfram verðlag heldur þvert á móti.  Á hinn bóginn hafi samkeppnisstarfsemi Orkuveitunnar verið í miklum fjárhagskröggum og í raun gjaldþrota.  Þá vísi kærandi því á bug að úrskurðarnefndin hafi ekki úrkurðarvald um gjaldskrárhækkanir skv. 15. gr. laga nr. 9/2009.  Hlutverk nefndarinnar sé skv. 1. gr. að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum. 
—————–
Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða: Gerð er krafa um frávísun málsins með þeim rökum að umdeild gjaldskrá fyrir fráveitu feli í sér stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvörðun og hafi úrskurðarnefndin því ekki úrskurðarvald um breytingar á þeirri gjaldskrá. 

Í 22. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu, og rekstur fráveitna, sem breytt var með 28. gr. laga nr. 131/2011, er tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt gildandi lögum um úrskurðarnefndina.  Í 1. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er nefndinni markað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði.  Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. nefndra laga.  Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum, sem þar eru greind. 

Ákvörðun um álagningu fráveitugjalds á eigendur fasteigna á stoð í fyrrgreindum lögum um fráveitur og eiga einstakir gjaldendur lögvarða hagsmuni tengda því að álögð gjöld séu í samræmi við lög.  Á kærumál þetta því undir úrskurðarnefndina samkvæmt áður nefndri 22. gr. laga nr. 9/2009 og uppfyllir kærandi skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina varðandi kæruaðild. 

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana.  Kærufrestur vegna álagðra fráveitugjalda á fasteign kæranda fyrir árin 2010 og 2011 var því löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 3. febrúar 2012.  Verður þeim þætti málsins vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kæra álagningar umrædds gjalds fyrir árið 2012 verður tekin til efnislegrar meðferðar. 

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er ekki ágreiningur um með hvaða hætti fráveitugjald er lagt á fasteign kæranda heldur um þær rekstrarlegu forsendur sem búa að baki upphæð gjaldsins. 

Í 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er að finna heimild fyrir innheimtu fráveitugjalda sem skulu ákveðin í gjaldskrá sem stjórn fráveitu skal semja í samræmi við ákvæði 15. gr. laganna.  Þar er tekið fram í 2. mgr. ákvæðisins að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu, standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.  Heimilt er að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði með sérstaka gjaldskrá skv. 3. mgr. 15. gr. laganna.  Hefur Orkuveitan nýtt sér þá heimild og sett sérstaka gjaldskrá fyrir veitusvæði I, sem tekur til Reykjavíkurborgar, og tók gjaldskráin vegna fráveitugjalda fyrir árið 2012 gildi hinn 30. desember 2011 eins og áður greinir.  Er það sú gjaldskrá sem hin kærða álagning fráveitugjalds á fasteign kæranda byggir á en hún nam kr. 74.382 samkvæmt því sem fram kemur í kæru. 

Samkvæmt fyrirliggjandi lykiltölum rekstrar fráveitu Orkuveitunnar á veitusvæði I voru innheimt fráveitugjöld og aðrar tekjur árin 2006-2012 kr. 17.643.176.772.  Á sama árabili voru rekstrargjöld kr. 9.764.521.121, afskriftir kr. 6.003.305.131, fjármagnskostnaður kr. 7.942.939.399 og fjárfestingar kr. 8.549.415.339, eða samtals kr. 32.260.180.990.  Gjöld umfram tekjur námu því kr. 14.617.004.218 og þar af árið 2012 kr. 3.894.543.420.  Samkvæmt því eru álögð fráveitugjöld innan marka þess sem heimilað er í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, enda heimilt að taka mið af öllum fyrrgreindum gjaldaliðum við ákvörðun gjaldskrár fráveitu.  Í 7. kafla sveitarstjórnarlaga nr.  138/2011 er að finna ákvæði um hvernig skuli haga bókhaldi, ársreikningum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og stofnana þeirra ásamt eftirliti með því að farið sé að lögum í þeim efnum.  Þar er í 61. gr. laganna kveðið á um sjálfstætt reikningshald fyrir stofnanir og fyrirtæki sveitarfélaga og að ársreikningar skuli gerðir samkvæmt lögum um ársreikninga og skulu þeir endurskoðaðir af óháðum löggiltum endurskoðanda skv. 72. gr. sveitarstjórnarlaga.  Þá er gert ráð fyrir sérstakri reikningskila- og upplýsinganefnd í 74. gr, laganna sem m.a. gerir tillögur til ráðherra um vinnslu, meðferð, form og efni ársreikninga og fjárhagsáætlana, sbr. 75. gr.  Fjárhagsáætlunum og ársreikningum ber einnig að skila til ráðuneytis skv. 76. gr. laganna og loks hefur ráðherraskipuð eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga eftirlit með því að reikningskil og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur, sbr. 78. og 79. gr. laganna.  Með hliðsjón af framangreindu verður það ekki talið í verkahring úrskurðarnefndarinnar að ráðast í rannsókn á færslu bókhalds og gerð rekstraráætlana í því skyni að fá úr því skorið hvort þar sé misfellur að finna eða hvort brotið sé gegn ákvæðum laga um bókhald og ársreikninga.  Í síðastgreindum lögum eru ákvæði um hvernig með skuli fara leiki grunur á brotum gegn þeim lögum.  Af þessum ástæðum verða fyrirliggjandi tölur úr rekstri fráveitu Orkuveitunnar ekki vefengdar í kærumáli þessu.

Í 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarfélögum heimilað að áskilja sér eðlilegan arð af eigin fé í stofnunum og fyrirtækjum í þeirra eigu.  Af greinargerð með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum má ráða að tilvitnuð 2. mgr. sé ekki sjálfstæð heimild til þess að taka megi tillit til arðsemiskröfu heldur verði slík heimild að eiga skýra stoð í sérlögum.  Í lögum nr. 9/2009 er ekki að finna heimild fyrir slíkri arðsemiskröfu við ákvörðun um álagningu fráveitugjalda og er því óheimilt að taka mið af tiltekinni kröfu um arð af eigin fé í fráveitu við ákvörðun gjaldskrár samkvæmt lögunum.  Því er ekki lagaheimild fyrir því að taka mið af 5% ávöxtunarkröfu umræddrar fráveitu, sem byggist á ákvörðun stjórnar fráveitunnar þar um, og tilgreind er í fyrirliggjandi yfirliti um rekstur hennar.  Allt að einu liggur fyrir, svo sem rakið hefur verið, að umdeild álögð gjöld vegna fráveitu fyrir árið 2012 fara ekki fram úr þeim kostnaði við rekstur og uppbyggingu veitunnar sem heimilt er að taka tillit til samkvæmt lögum nr. 9/2009.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu álagningar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu álagningar fráveitugjalds fyrir árið 2012 vegna fasteignarinnar að Skógarseli 25 í Reykjavík. 

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

19/2013 Hafnarsvæði Vestmannaeyja

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 20. desember 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hafnarsvæði H-1, vesturhluta, og á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 20. febrúar 2013 að heimila útgáfu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102 í Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. Vinnslustöðvarinnar hf., Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 20. desember 2012 að samþykkja deiliskipulag á hafnarsvæði H-1, vesturhluta, og þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 20. febrúar 2013 að heimila útgáfu byggingarleyfis til Ísfélags Vestmannaeyja hf. fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102, Vestmannaeyjum.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt gerði hann kröfu um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ hinn 24. apríl 2013 og frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. hinn 23. sama mánaðar.

Málavextir:  Mál þetta varðar deiliskipulag fyrir hluta hafnarsvæðisins í Vestmannaeyjum.  Þar er m.a. starfssvæði Ísfélagsins að Strandvegi 102, gámavog Vestmannaeyjahafnar, ísstöð og bílavog Vestmannaeyjahafnar.  Deiliskipulagið tekur til u.þ.b. tveggja ha svæðis.  Það er á þeim hluta hafnarinnar sem merktur er H-1 í aðalskipulagi, en H-1 er alls 14,7 ha.

Málið á sér nokkurn aðdraganda.  Í lok desember 2011 óskaði lóðarhafi eftir því að lóð hans yrði stækkuð og að honum yrði veitt leyfi til að byggja við frystihús sem á henni stendur.  Erindið var samþykkt og byggingarfulltrúi veitti leyfi til könnunar jarðvegs á staðnum.  Málið var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem féllst á kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða með úrskurði, uppkveðnum 24. febrúar 2012.  Ákvörðunin um að heimila stækkun lóðar og um veitt byggingarleyfi var svo felld úr gildi með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 13. apríl 2012, með þeim rökum að lagaskilyrði hefði skort fyrir því að grenndarkynna umsókn lóðarhafa og að rannsóknarreglu hefði ekki verið gætt við undirbúning málsins.

Hinn 30. maí 2012 var auglýst á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar að lýsing á skipulagsverkefninu sem deilt er um í máli þessu lægi frammi.  Í umsögn Skipulagsstofnunar um lýsinguna kemur fram að stofnunin geri ekki athugasemdir við hana en bendi á að æskilegt væri að deiliskipulagstillagan næði að mörkum deiliskipulags miðsvæðis hafnarinnar.  Þannig væri unnt að ljúka deiliskipulagsvinnu fyrir H-1 hluta hafnarsvæðisins.  Vísaði stofnunin til ákvæðis gr. 3.1.4 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998, um að jafnan skuli miða við að deiliskipulag nái til heildstæðra svæða.  Haldnir voru fundir 8. ágúst og 17. september 2012 með hagsmunaaðilum í nágrenni Strandvegar 102, þ.m.t. kæranda.

Deiliskipulagstillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 31. gr. skipulagslaga, á tímabilinu 26. október til 7. desember 2012 og sendi kærandi athugasemdir við tillöguna.  Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti hana á fundi 14. desember 2012 og í fundargerð er getið um athugasemdir kæranda og bókað að lagt hafi verið til að í kjölfar þeirra yrði ákvæði um nýtingarhlutfall á skipulagssvæðinu leiðrétt.  Ráðið fól skipulagsfulltrúa að gera breytingar á skipulagsgögnum og svara innsendum athugasemdum í samræmi við greinargerð hans.  Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs 20. desember 2012 og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2013.  Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við hús lóðarhafa að Strandvegi 102 var síðan tekin fyrir í umhverfis- og skipulagsráði 30. janúar 2013 og samþykkt á fundi ráðsins 20. febrúar sama ár skv. 2. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar nr. 991/2012, sbr. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu 28. febrúar 2013 og byggingarleyfi var gefið út 18. júní sama ár.

Eftir að kæra barst í máli þessu hefur verið unnið að deiliskipulagi tveggja annarra hluta hafnarsvæðisins H-1.  Hluti af lóð kæranda, u.þ.b. einn ha að stærð, var deiliskipulagður á árinu 2005, en samþykkt var í bæjarstjórn 20. september 2013 breyting á því skipulagi.  Þar er gert ráð fyrir stækkun uppfyllingar og uppbyggingu á lóðinni.  Einnig var samþykkt tillaga að aðalskipulagsbreytingu og tillaga að deiliskipulagi fyrir miðsvæði hafnarinnar, um 6,5 ha svæði, en deiliskipulagstillagan nær yfir hluta hafnarsvæðis og miðbæjarsvæðis.  Þá liggur fyrir að deiliskipulagstillögurnar voru til meðferðar hjá sveitarstjórn á árinu 2011, en þær munu ekki hafa tekið gildi.  

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að hraði og óvandvirkni Vestmannaeyjabæjar hafi einkennt meðferð hins umdeilda skipulags.  Málsmeðferðin hafi brotið í bága við skipulagslög nr. 123/2010 auk þess sem ekki hafi verið bætt úr þeim annmörkum sem urðu til þess að byggingarleyfið var ógilt með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 10/2012.

Í fyrsta lagi myndi hið skipulagða svæði ekki heildstæða einingu í samræmi við 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en þar sé kveðið á um að gera skuli deiliskipulag fyrir „afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags“.  Svæðið sem sé deiliskipulagt samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé 2 ha að stærð og nái ekki til lóðar kæranda.  Kærandi hafi ítrekað farið fram á það við skipulagsyfirvöld að unnið verði deiliskipulag sem myndi heildstæða einingu en yfirvöld hafi ekki orðið við þeirri ósk.

Í öðru lagi telji kærandi að tillaga að deiliskipulagi hafi ekki verið auglýst á þann hátt sem greini í 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 31. gr., skipulagslaga.  Tillagan hafi hvorki verið auglýst í dagblaði sem gefið sé út á landsvísu né í Lögbirtingablaði.

Í þriðja lagi hafi opinn kynningarfundur fyrir íbúa sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, aldrei verið haldinn.  Aðeins hafi verið haldnir tveir svokallaðir „samráðsfundir“ með hagsmunaaðilum.

Í fjórða lagi sé málsmeðferð bæjarstjórnar ábótavant.  Bæjarstjórn hafi afgreitt deiliskipulags-tillöguna án þess að efnisleg afstaða væri tekin til athugasemda kæranda.  Aðeins hafi verið tekin afstaða til athugasemdanna á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs.  Þetta sé í andstöðu við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Þá hafi bæjarstjórn ekki auglýst niðurstöðu um þær athugasemdir sem hafi borist, auk þess sem henni hafi borið að auglýsa leiðrétt ákvæði um nýtingarhlutfall sem komið hafi til eftir kynningu skipulagstillögunnar.

Í fimmta lagi sé nýtingarhlutfall yfir leyfilegu hámarki.  Samkvæmt aðalskipulagi megi nýtingarhlutfall á hafnarsvæðinu vera 0,5.  Reiknað nýtingarhlutfall á hinu umdeilda svæði sé 0,81, miðað við uppgefna stærð mannvirkja sem þegar séu þar og þeirra sem áformað sé að byggja.  Nú þegar hafi verið byggðir 6.470 m² og áætlað sé að byggja 9.650 m² til viðbótar.  Vegna hás nýtingahlutfalls á hinum afmarkaða reit sé búið að sprengja nýtingarhlutfallið á svæði H-1.

Í sjötta lagi hafi umferðarmál ekki verið skoðuð.  Í áðurgreindum úrskurði í máli nr. 10/2012 komi fram að á skorti að gerð hafi verið könnun á því hvaða áhrif breytingin muni hafa á umferð og bílastæðakröfu á svæðinu.  Þrátt fyrir þetta virðist skipulagsyfirvöld ekki hafa skoðað umferðarmál við undirbúning deiliskipulagsins.

Í áttunda lagi hafi ákvörðunin verið tekin af vanhæfum aðila.  Á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2012 hafi tillaga að deiliskipulagi verið samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.  Einn bæjarfulltrúinn sem tekið hafi þátt í lokaafgreiðslu málsins sé verksmiðjustjóri hjá lóðarhafa.  Ljóst sé að hann hafi verið vanhæfur við meðferð málsins, sbr. 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 og honum hafi því borið að yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Í níunda lagi sé að finna mörg dæmi um óvönduð vinnubrögð skipulagsyfirvalda.  Á uppdrætti deiliskipulags, sem samþykktur hafi verið á fundi bæjarstjórnar 20. desember 2012, séu ýmsar staðreyndavillur.  Þannig komi þar fram að lýsing á skipulagsverkefninu hafi verið samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 15. maí 2012.  Það sé misritun því fundurinn hafi verið haldinn 23. maí 2012.  Einnig segi að lýsingin hafi verið auglýst á vefsíðu bæjarins frá 15. maí til 17. júní 2012, en hið rétta sé að auglýsingin hafi verið birt á vefsíðu bæjarins 30. maí 2012 og enginn tímafrestur tilgreindur. 

Hið kærða byggingarleyfi sé samkvæmt framansögðu gefið út á grundvelli ólögmæts deili-skipulags og beri því að fella það úr gildi.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Að mati bæjaryfirvalda sé ekki skylt að deiliskipuleggja H-1 hluta hafnarsvæðisins í einu lagi.  Afmarkaðir hlutar svæðisins, sem hver um sig myndi heild-stæða einingu, hafi verið skipulagðir í samræmi við þarfir þeirra sem eftir því hafi leitað og þar sem framkvæmdir hafi verið fyrirhugaðar. 

Því sé mótmælt að með hinu umdeilda deiliskipulagi sé búið að sprengja nýtingarhlutfallið á svæði H-1 m.t.t. gildandi aðalskipulags.  Nýtingarhlutfallið sé í samræmi við aðalskipulag og sé eftir samþykkt deiliskipulagsins 0,49 eins og fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 18. janúar 2013. 

Kynning deiliskipulagstillögunnar hafa verið í fullu samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga.  Tillagan hafi verið auglýst í Lögbirtingablaði 26. október 2012 og hafi birst á vefnum eyjafrettir.is og í Eyjafréttum.  Haldnir hafi verið tveir samráðsfundir með hagsmunaaðilum, en ekki sé lagaskylda að halda sérstakan almennan fund heldur þurfi kynningin að vera almenn og íbúum sveitarfélagsins aðgengileg.

Deiliskipulagstillagan hafi verið lögð fyrir bæjarstjórn til umræðu og staðfestingar á fundi 20. desember 2012.  Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 14. sama mánaðar. hafi legið fyrir fundinum.  Bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til málsins og samþykkt það í samræmi við ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs.  Í því felist að tekin sé afstaða til fram kominna athugasemda, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.  Þessi niðurstaða bæjarstjórnar hafi síðan verið auglýst, fundargerðin sett á vef Vestmannaeyjabæjar og niðurstaða fundarins auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2013. 

Rangt sé að umferðarmál hafi ekki verið skoðuð við skipulagsgerðina.  Gerð hafi verið umferðar-talning á hafnarsvæðinu í Friðarhöfn.  Í minnispunktum frá samráðsfundi um deiliskipu-lagstillöguna komi fram að fyrirhugaðar séu ýmsar aðgerðir vegna umferðar, þ.m.t. varðandi umferðarleiðir og bílastæði.

Fullyrðingar um vanhæfi bæjarfulltrúa við afgreiðslu málsins eigi ekki við rök að styðjast.  Bæjarfulltrúinn sé starfsmaður annarrar mjöl- og lýsisverksmiðju lóðarhafa en ekki framkvæmdastjóri og hafi ekki átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta við ákvarðanatökuna.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að um vanhæfi væri að ræða myndi það ekki raska gildi skipulagsins sem samþykkt hafi verið með sjö samhljóða atkvæðum.  Ekkert liggi fyrir um að fulltrúinn hafi haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og óumdeilt sé að hann hafi ekki komið að meðferð málsins á fyrri stigum.  Þá liggi fyrir staðfesting frá ritara bæjarstjórnarfundarins þar sem ákvörðunin var tekin þess efnis að umræddur bæjarfulltrúi hafi ekki tjáð sig um málið á fundinum.

Andmæli lóðarhafa Strandvegar 102:  Lóðarhafi krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá en að öðrum kosti verði þeim hafnað.

Því sé mótmælt að umrætt skipulagssvæði myndi ekki heildstæða einingu.  Nokkurt svigrúm sé til ákvörðunar um mörk skipulagssvæðis, sem hljóti m.a. að ráðast af þeim markmiðum sem stefnt sé að með gerð deiliskipulags.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé skipulagssvæðið ætlað fyrir fiskvinnslu og skyldan rekstur.  Skv. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar.  Lóðarhafi hafi uppi áform um að auka framleiðslugetu frystihúss og stækka geymslurými fyrir frystan fisk.  Engin breyting sé fyrirhuguð á starfsemi á svæðinu heldur sé stefnt að því að uppbygging verði í samræmi við meginmarkmið aðalskipulags.  Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við það byggðamynstur sem fyrir sé og gætt hafi verið meðalhófs m.t.t. grenndaráhrifa.

Kynningarfundir skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga hafi verið haldnir 8. ágúst og 17. september 2012 og deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst á tímabilinu 26. október til 7. desember s.á.  Hún hafi legið frammi í safnahúsi við Ráðhúströð, hjá umhverfis- og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar, á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar og verið auglýst í Lögbirtingablaðinu. 

Tillagan hafi verið tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2012, þar sem hún hafi verið samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, og skipulagsfulltrúa falið að gera breytingar á skipulagsgögnum, þannig að ákvæði um nýtingarhlutfall yrði leiðrétt og svara athugasemdum.  Hinn 20. desember 2012 hafi deiliskipulagstillagan verið samþykkt með breytingum í bæjarstjórn og bókað að athugasemdirnar hafi legið fyrir til umræðu og staðfestingar.
 
Lóðarhafi fallist ekki á að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um hæfi og bendi á að skv. 2. ml. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga gildi 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um hæfi sveitarstjórnarmanna.  Því sé ljóst að þau ákvæði stjórnsýslulaga sem tiltekin séu í kæru eigi ekki við í málinu og skv. 20. gr. sveitarstjórnarlaga sé umræddur bæjarfulltrúi ekki formlega vanhæfur.  Hann hafi ekki heldur tekið þátt í undirbúningi eða meðferð málsins á neinu stigi þess og hafi vikið af fundum við afgreiðslu.

Því sé hafnað að farið sé út fyrir leyfilegt nýtingarhlutfall á hafnarsvæðinu.  Samkvæmt aðal-skipulagi gildi reitanýting á svæðinu og nýtingarhlutfallið sé 0,5.  Byggingarmagn H-1 svæðisins verði u.þ.b. 63.500 m² og nýtingarhlutfallið 0,49, sem falli innan leyfilegs hlutfalls á svæðinu.  Tölurnar sem vísað sé til í kæru séu ekki í samræmi við það byggingarmagn sem fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar og virðist auk þess taka mið af nýtingarhlutfalli á skipulagssvæðinu fremur en hafnarsvæðinu.

———–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðar-nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum og tekur skipulagssvæðið til vesturhluta 14,7 ha reits, sem merktur er H-1 í gildandi aðalskipulagi, þar sem gert er ráð fyrir að reiturinn fullbyggður beri um 70.000 m² með nýtingarhlutfallið 0,5.  Megintilgangur skipulagsins mun vera að sýna og gera grein fyrir stækkun, uppbyggingu og nýtingu á athafnasvæði Ísfélags Vestmannaeyja í vesturhöfninni.  Skipulagssvæðið er um 2 ha að stærð og nær til lóðar og svæðis umhverfis frystihús lóðarhafa, hafnarmannvirkja norðan við það og næsta nágrennis.  Þar er gert er ráð fyrir að á svæðinu rísi m.a. frystigeymsla með móttöku og flokkunarstöð, viðbygging fyrir vinnslusal og skrifstofur, hreinsistöð og mótorhús, alls 9.650 m².  Á svæðinu er fyrir frystihús Ísfélags Vestmannaeyja ásamt fylgirýmum, samtals 6.470 m², auk ísstöðvar og bílavogar um 400 m², eða samtals um 6.870 m².  Með hinu kærða deiliskipulagi verða því byggingar og byggingarheimildir á deiliskipulagssvæðinu alls um 16.520 m² og nýtingarhlutfall um 0,82.   Í 10. tl. greinargerðar deiliskipulagsins kemur fram að fyrir séu á svæði merktu H-1 í aðalskipulagi byggingar samtals að flatarmáli u.þ.b. 63.500 m².

Við undirbúning deiliskipulagsgerðarinnar var tekin saman lýsing og fundir haldnir með hagsmunaaðilum.  Þótt aðeins takmarkaður hópur hafi átt kost á að sækja fundi um tillöguna voru hagsmunaaðilar boðaðir þangað og lýsing skipulagstillögunnar var jafnframt auglýst opinberlega 30. maí 2012.  Telja verður að kröfu 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga hafi, eins og hér stendur sérstaklega á, verið fullnægt í ljósi þess að um er að ræða afmarkað hafnarsvæði og  íbúum hafi gefist kostur á að kynna sér skipulagsverkefnið nægjanlega.  Tillagan var auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 31. gr. skipulagslaga, þ. á m. í Lögbirtingablaði 26. október 2012, með lögboðnum athugasemdafresti og kom kærandi að athugasemdum við tillöguna.  Skipulagstillagan var til umræðu og staðfest af bæjarstjórn að þeim frestum loknum, að undan-genginni umfjöllun umhverfis- og skipulagsráðs, en á fundi ráðsins voru jafnframt lagðar fram athugasemdir kæranda.  Fundargerð bæjarstjórnar var sett á vef Vestmannaeyjabæjar.    Kærandi byggir á því að einn bæjarstjórnarmanna, sem samþykktu hina kærðu deiliskipulagsákvörðun bæjarstjórnar, hafi verið vanhæfur.  Reglur stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi eiga ekki við á sveitarstjórnarstigi heldur gilda þar vægari hæfisreglur sveitarstjórnarlaga.  Umrædd ákvörðun var tekin af fjölskipuðu stjórnvaldi og samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.  Gat því meint vanhæfi eins bæjarfulltrúa ekki ráðið úrslitum þegar ákvörðunin var tekin.  Verður samkvæmt framansögðu ekki séð að þeir anmarkar séu á málsmeðferð hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar sem raskað geta gildi hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að deiliskipulag taki til svæða sem mynda heildstæða einingu.  Sveitarstjórn hefur samkvæmt orðalaginu „jafnan“ nokkurt svigrúm til að ákveða mörk svæðis sem deiliskipulag á að taka til, en orðlagið veitir sveitarstjórnum þó ekki frelsi til að ákvarða mörkin án málefnalegra sjónarmiða og skipulagsraka.  Með deiliskipulagi er markmiðið m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands.  Við skipulagsgerð skal og tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulagslaga.

Áður en hið umdeilda skipulag tók gildi hafði hluti starfssvæðis kæranda og svæði austar í höfninni verið deiliskipulagt en meirihluti svæðis H-1 var ódeiliskipulagður.  Fram er komið að einnig er stefnt að framkvæmdum annars staðar á svæði H-1, m.a. á svæði kæranda, og að unnið  sé að deiliskipulagningu tveggja svæða sem taki m.a. til umrædds reits.  Með breytingunum sem gert er ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi er nýtingarhlutfall reitsins H-1 svo til fullnýtt gagnvart öðrum lóðarhöfum.  Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að afmörkun umdeilds skipulagssvæðis sé í samræmi við 37. gr. skipulagslaga enda hafi verið brýnt eins og á stóð að deiliskipuleggja í einu lagi þann hluta reits H-1 sem ólokið var við að skipuleggja, og þá sérstaklega í ljósi þess að reitanýting gildir á reitnum, og hafa því byggingarheimildir á hluta svæðisins bein áhrif á nýtingarmöguleika á reitnum í heild.  Þykir þessi ágalli á hinni kærðu ákvörðun svo verulegur að leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildu deiliskipulagi og verður það því einnig fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 20. desember 2012 um að samþykkja deiliskipulag á starfssvæði Ísfélags Vestmannaeyja hf. á hafnarsvæði Vestmannaeyja og ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 20. febrúar 2013 um að heimila útgáfu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102, Vestmannaeyjum.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

1/2012 Grundartangi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2011 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2012, er barst nefndinni 6. s.m., kæra S, Kiðafelli í Kjós og R, Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit, birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011, um breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykki sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2011 á breytingu deiliskipulags Grundartanga, vestursvæðis.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda, en þar sem hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi og felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir voru ekki skilyrði til að kveða upp úrskurð um stöðvunarkröfu kærenda. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Hvalfjarðarsveit hinn 19. júní 2013. 

Málavextir:  Í júlí 2010 tók gildi Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020, en áður var í gildi á umræddu svæði Aðalskipulag Skilmannahrepps 2002-2014.  Meginbreytingin við gildistöku hins nýja aðalskipulags gagnvart byggð á Grundartanga varðaði vestursvæðið, en þar var gert ráð fyrir athafnasvæði og blandaðri landnotkun athafnasvæðis og hafnarsvæðis í stað iðnaðarsvæðis og blandaðrar landnotkunar iðnaðar- og hafnarsvæðis. 

Hinn 31. mars 2011 var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 auglýst.  Tillagan fól í sér stækkun iðnaðarsvæðis Grundartanga um 6,9 ha til suðurs.  Samkvæmt greinargerð skipulagstillögunnar var markmið hennar að geta boðið fyrirtækjum með lítt mengandi iðnaðarstarfsemi aðgang að atvinnusvæðinu.  Aðalskipulagið, sem og tillaga til breytinga á því, þótti gefa tilefni til að breyta deiliskipulagsáætlun vestursvæðisins á Grundartanga og var því tillaga að breytingu á deiliskipulagi þess svæðis auglýst hinn 12. maí 2011, með athugasemdafresti til 30. júní s.á.  Samkvæmt greinargerð með tillögu að deiliskipulagsbreytingunni fól hún í sér að landnotkun samkvæmt gildandi deiliskipulagi á umræddu svæði yrði breytt úr iðnaðarsvæði og blandaðri landnotkun iðnaðar- og hafnarsvæðis í athafnasvæði og blandaða landnotkun athafna- og hafnarsvæðis.  Landnotkun á tæplega 7 ha svæði austast á skipulagssvæðinu yrði þó áfram skilgreint sem iðnaðarsvæði.  Jafnframt fól tillagan í sér fækkun lóða og breytingu á lóðastærðum og byggingarreitum á skipulagssvæðinu. 

Athugasemdir bárust, m.a. frá öðrum kæranda hinn 28. júní 2011.  Var þeim svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 11. júlí s.á. 

Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hinn 12. júlí 2011 og  auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. október s.á.  Skipulagsstofnun barst deiliskipulagsbreytingin ásamt fylgiskjölum 1. nóvember 2011.  Vegna athugasemda stofnunarinnar við málsmeðferð skipulagstillögunnar var fyrrgreind gildistökuauglýsing afturkölluð með auglýsingu, birtri í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember s.á.  Í kjölfarið var Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun send umhverfisskýrsla vegna deiliskipulagsbreytingarinnar til athugunar og umsagnar.  Að fengnum umsögnum var deiliskipulagsbreytingin tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar hinn 29. nóvember 2011 og afgreiðsla málsins frá 12. júlí staðfest.  Hinn 1. desember s.á. var Skipulagsstofnun send til yfirferðar deiliskipulagsbreytingin ásamt fylgigögnum. Tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 7. desember 2011 að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar.  Birtist sú auglýsing hinn 9. desember 2011 og öðlaðist breytingin þar með gildi. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að áhrifa mengunar gæti á jörðum þeirra og hafi það verið staðfest með rannsóknum vegna umhverfisvöktunar iðjuveranna á Grundartanga.  Flúorinnihald í beinösku sauðfjár kæranda að Kiðafelli hafi u.þ.b. þrefaldast samkvæmt niðurstöðum mælinga og sé komið yfir þau mörk að geta valdið vanhöldum.  Í beinösku hrossa kæranda að Kúludalsá hafi flúorinnihald mælst langt umfram áætlað landsmeðaltal.  Iðnaðaruppbyggingin hafi einnig veruleg neikvæð áhrif á ímynd og verðgildi jarða kærenda.  Með vísan til þessa sé ljóst að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og sé frekari stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga aðför að þeim hagsmunum. 

Kærendur vísa til þess að meðferð sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á umdeildri breytingu deiliskipulags hafi ekki verið í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Samkvæmt auglýsingu hafi athugasemdafrestur runnið út 30. júní 2011.  Samkvæmt  ákvæði 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga hafi sveitarstjórn borið að senda gögn málsins til Skipulagsstofnunar fyrir 26. ágúst 2011 en stofnuninni hafi hins vegar fyrst borist deiliskipulagsbreytingin hinn 1. nóvember s.á.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar, dags. 7. desember 2011, komi fram að sveitarstjórn hafi sent inn skýringar á því af hverju ekki hafi verið unnt að halda tímafresti um afgreiðslu deiliskipulagsins samkvæmt skipulagslögum.  Í því felist viðurkenning á því að málsmeðferðin hafi ekki verið samkvæmt lögum.  Þá komi jafnframt fram í bréfinu að þar sem ekki sé liðið ár frá því að athugasemdafrestur vegna tillögunnar hafi runnið út telji Skipulagsstofnun að ekki þurfi að auglýsa hana að nýju.  Kærendur krefjist skýringar á niðurstöðu Skipulagsstofnunar hvað þetta varði þannig að ljóst sé við hvaða lagabókstaf stofnunin styðjist og hvort sú túlkun sé réttmæt.  Ljóst sé að Skipulagsstofnun sé ekki heimilt að styðjast við 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar sem um sé að ræða samþykkt deiliskipulag frá 12. júlí 2011 en ekki tillögu að deiliskipulagi. 

Dregið sé í efa að sveitarstjórn sé heimilt að auglýsa deiliskipulagstillögu á kynningartíma tillögu að breytingu á aðalskipulagi eins og gert hafi verið.  Annað hvort þurfi að afgreiða breytingu á aðalskipulagi fyrir auglýsingu á breytingu á tengdu deiliskipulagi eða auglýsa báðar tillögurnar samhliða eða í það minnsta afgreiða þær samhliða.  Með því að auglýsa deiliskipulagstillöguna á kynningartíma aðalskipulagstillögu taki sveitarstjórnin afstöðu til þess að aðalskipulagstillagan nái fram að ganga hvað sem öllum athugasemdum líði.  Málsmeðferðin sé ekki í samræmi við skipulagslög eða þann rétt sem almenningi sé tryggður til að hafa áhrif á gerð skipulags. 

Hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn hafi samþykkt svör við athugasemdum við tillögu að breytingu á áðurnefndu deiliskipulagi með skýrum hætti.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hvalfjarðarsveitar hinn 11. júlí 2011 hafi meirihluti nefndarinnar lagt fram bókun sem hafi m.a. falið í sér svör við innsendum athugasemdum.  Ekki komi fram að nefndin samþykki svörin við lokaafgreiðslu heldur aðeins að meirihluti nefndarinnar leggi til við sveitarstjórn að breytingin verði samþykkt.  Í fundargerð sveitarstjórnar frá fundi 12. júlí s.á. komi einungis fram að tillaga meirihluta nefndarinnar um samþykki breytingarinnar sé samþykkt.  Bent sé á að tillögur skipulagsnefndar, m.a. að svörum við innsendum athugasemdum, öðlist eigi gildi fyrr en sveitarstjórn staðfesti þær. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefnd en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. 

Aðalkrafa um frávísun sé byggð á því að kærendur eigi ekki einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta, en þeir séu eigendur jarða í liðlega 4-5 km fjarlægð frá umþrættu deiliskipulagssvæði.  Kærendur hafi ekki sýnt fram á að gildistaka breytingarinnar muni hafa í för með sér skerta landnýtingu og verðfall jarða þeirra frá því sem verið hafi og umfram aðrar eignir í nágrenninu.  Sérstaklega hafi þó verið þörf á slíkri sönnunarfærslu vegna fjarlægðar jarða kærenda frá deiliskipulagssvæðinu og í ljósi þess að þegar sé rekin umfangsmikil stóriðja á Grundartanga. 

Með gagnályktun frá 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga geti misbrestur á því að fylgja átta vikna tímafresti 1. mgr. 42. gr. ekki verið ógildingarástæða ein og sér.  Um sé að ræða verklagsreglu um málshraða og brot gegn slíkri formreglu hafi að meginreglu ekki í för með sér ógildingu ákvörðunar í stjórnsýslurétti nema sérstaklega sé kveðið á um slíkt í lögum.  Þá þurfi formgallinn að teljast verulegur og hafa áhrif á efni ákvörðunar auk þess sem veigamikil rök mæli því ekki í mót að ákvörðun verði ógilt.  Ekkert af þessum skilyrðum sé fyrir hendi í fyrirliggjandi máli.  Sá dráttur sem hafi orðið á afgreiðslu deiliskipulagsins hafi auk þess átt rætur að rekja til þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar að staðfesta ekki breytingar á aðalskipulagi sem samþykktar hefðu verið í sveitarstjórn hinn 14. júní 2011, en afgreiðsla deiliskipulagstillögunnar hafi verið háð samsvarandi breytingum á aðalskipulagi.  Hinn 5. október 2011 hafi sveitarstjórn verið tilkynnt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að staðfesta aðalskipulag  Hvalfjarðarsveitar en þá hafi hinn átta vikna frestur verið liðinn.  Þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar hafi því verið réttlætanlegar.

Breyting á deiliskipulagi hafi verið samþykkt af sveitarstjórn hinn 29. nóvember 2011, eða rösklega fjórum mánuðum eftir að athugasemdafresti tillögunnar hafi lokið.  Þá hafi liðlega ein og hálf vika liðið frá samþykkt sveitarstjórnar uns auglýsing hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011.  Tímamarka hafi því verið gætt og verði deili-skipulagsbreytingin hvorki ógilt á grundvelli þágildandi né núgildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga.  Skipulagsstofnun taki öðrum þræði undir þessar röksemdir í bréfi sínu, dags. 7. desember 2011. 

Tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi verið auglýst á undan tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Hafi það verið í fullu samræmi við orðalag og efni 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga þar sem komi fram að þegar auglýsa skuli tillögu að deiliskipulagi, sem kalli á samsvarandi breytingu á aðalskipulagi, skuli aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða.  Þá liggi fyrir að umþrætt deiliskipulag hafi verið samþykkt eftir að samsvarandi breyting á aðalskipulagi var samþykkt hinn 5. október 2011. 

Sveitarstjórn hafi tekið tillögu að breytingu á umþrættu deiliskipulagi til umræðu á fundi 12. júlí 2011, að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar 11. júlí s.á., þar sem fyrir hafi legið fram komnar athugasemdir og bókuð svör nefndarinnar.  Á fundi sveitarstjórnar hafi verið tekin afstaða til athugasemda sem borist hefðu og hafi deiliskipulagsbreytingin verið samþykkt með breytingu á annarri málsgrein í kafla umhverfisskýrslu skipulagsins.  Með þeirri breytingu hafi birting deiliskipulagsbreytingar í B-deild Stjórnartíðinda verið samþykkt.  Hafi sveitarstjórn því samþykkt tillögu og bókanir meirihluta skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. júlí 2011, þ.m.t. svör við athugasemdum.  Með endanlegri afgreiðslu sveitarstjórnar hinn 29. nóvember 2011 hafi verið samþykkt að staðfesta fyrri afgreiðslu sveitarstjórnar frá 12. júlí s.á., varðandi breytingu á deiliskipulagi, athugasemdum og viðbótum við skilmála, og þeim er gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillöguna hafi verið svarað. 

Afgreiðsla sveitarstjórnar á málinu hafi því verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði.  Kærendur búa í námunda við deiliskipulagssvæðið, eða í um 4-5 kílómetra fjarlægð.  Telja verður að ákvörðun um landnotkun á skipulagssvæðinu geti haft áhrif á hagsmuni kærenda og verður kærumáli þessu því ekki vísað frá sökum skorts á kæruaðild. 

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan átta vikna frá því að frestur til athugasemda rann út.  Frestur til athugasemda við hina kærðu skipulagsákvörðun rann út hinn 30. júní 2011, samkvæmt auglýsingum skipulags- og byggingarfulltrúa sem birtust í Lögbirtingablaði og Morgunblaðinu 18. maí s.á.  Deiliskipulagsbreytingin ásamt fylgiskjölum barst Skipulagsstofnun eftir fyrrgreindan átta vikna frest, eða hinn 1. nóvember 2011.  Þessi annmarki, er lýtur að hraða og samfellu í meðferð máls, verður ekki talinn þess eðlis að hann hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar eða réttarstöðu kærenda og verður ekki talinn, eins og hér stendur á, geta ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar. 

Fyrri afgreiðsla sveitarstjórnar á umræddri deiliskipulagsbreytingu átti sér stað hinn 12. júlí 2011 og hin síðari 29. nóvember s.á., að undangenginni afturköllun á fyrri gildistökuauglýsingu skipulagsins.  Nefndar ákvarðanir voru því teknar innan árs frá því að athugasemdafresti vegna tillögunnar lauk, svo sem áskilið var í þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga.  Í nefndu ákvæði var gert ráð fyrir að eftir samþykkt sveitarstjórnar á skipulagstillögu gæti komið til þess að málið yrði tekið fyrir að nýju til afgreiðslu hjá sveitarstjórn vegna lagfæringa í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Var meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar eftir fyrri samþykkt hennar því í samræmi við nefnd fyrirmæli 42. gr. skipulagslaga. 

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar var auglýst hinn 31. mars 2011 og tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 12. maí s.á.  Sú tilhögun er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga þar sem segir að sé tillaga að deiliskipulagi ekki í samræmi við aðalskipulag skuli samsvarandi aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða.  Þá verður ekki fallist á að sveitarstjórn beri að afgreiða slíkar tillögur samhliða.  Sveitarstjórn er það heimilt en ekki skylt skv. áður nefndri 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga, en þar kemur fram að sveitarstjórn geti að loknum auglýsingartíma samþykkt breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi samhliða. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 12. júlí 2011 var farið yfir fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, dags. 11. sama mánaðar, og hún samþykkt.  Verður að skilja þá afgreiðslu svo að sveitarstjórn hafi gert afgreiðslu nefndarinnar að sinni, þ.á m. bókuð svör við fram komnum athugasemdum. 

Deiliskipulag skal vera í samræmi við aðalskipulag samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.  Eins og rakið hefur verið felur hin kærða skipulagsákvörðun í sér breytingar á landnotkun.  Þegar litið er til efnis aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar hvað varðar landnotkun á vestursvæði Grundartanga, og breytingar á aðalskipulaginu sem staðfest var af Skipulagsstofnun 5. október 2011, er ljóst að hin kærða ákvörðun hefur í för með sér að deiliskipulag svæðisins verður í samræmi við gildandi aðalskipulag. 

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar, hvorki að formi né efni, á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2011 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

33/2013 Afskráning byggingarstjóra

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2013, kæra á afgreiðslu starfsmanns embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. mars 2013 vegna afskráningar byggingarstjóra að framkvæmdum við Ármúla 6 og Laugaveg 178 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2013, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir S afgreiðslu starfsmanns embættis byggingarfulltrúa frá 25. mars 2013 á erindi kæranda, dags. sama dag, vegna afskráningar hans sem byggingarstjóra að framkvæmdum við Ármúla 6 og Laugaveg 178.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Í október 2012 fór kærandi fram það á við embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík að hann yrði afskráður sem byggingarstjóri að tilteknum framkvæmdum við Álagranda 2A, Höfðatún 2, Ármúla 6 og Laugaveg 178.  Í svarbréfi embættisins var á það bent að væri framkvæmdum lokið skyldi fara fram lokaúttekt á þeim samkvæmt byggingarreglugerð og viðeigandi yfirlýsingum skilað.  Þá kom fram í bréfinu að skoðun hefði leitt í ljós að verkin væru á misjöfnu byggingarstigi, svo sem nánar var tiltekið.  Urðu nokkur bréfaskifti milli kæranda og starfsmanna embættisins í framhaldi af þessu, en hinn 19. október 2012 staðfesti starfsmaður embættisins afskráningu kæranda vegna framkvæmda að Álagranda 2A og Höfðatúns 2. 

Hinn 13. mars 2013 óskaði kærandi á ný eftir staðfestingu á því að hann teldist ekki lengur byggingarstjóri vegna framkvæmda við Ármúla 6 og Laugaveg 178 og ítrekaði kærandi það erindi sitt 19. og 25. s.m.  Með svarbréfi frá starfsmanni embættis byggingarfulltrúa hinn 25. mars 2013 var tilgreint að eins og ítrekað hefði verið þá skyldi verkstaða vera skráð við byggingarstjóraskipti og stöðuúttekt gerð af byggingarfulltrúa.  Greiða skyldi sérstaklega fyrir slíka úttekt.  Tilkynnt hefði verið um afsögn á verkum við Ármúla 6 og Laugaveg 178 og tekið fram að þeim væri lokið.  Samkvæmt skráningarkerfi byggingarfulltrúa hefðu engar áfangaúttektir farið fram á framkvæmdum að Laugavegi 178 og ein áfangaúttekt að Ármúla 6. 

Kærandi vísar til gr. 4.7.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem fram komi að byggingarstjóri geti með tilkynningu til leyfisveitanda einhliða hætt sem skráður byggingarstjóri.  Eiganda beri að sjá til þess að framkvæmdir séu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri með gilt starfsleyfi hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu.  Skuli leyfisveitandi gera úttekt á stöðu framkvæmda þar sem fráfarandi byggingarstjóri, ef þess sé kostur, og hinn nýi byggingarstjóri undirrita úttektina.  Sé hvergi tiltekið í reglugerðinni að fráfarandi byggingarstjóri skuli hafa forgöngu um að gera úttekt á stöðu framkvæmda.  Þá sé ekki hægt að hafna því að byggingarstjóri fari einhliða frá verki með þeim rökum að t.d. áfangaúttektir hafi ekki verið gerðar eða að greiða þurfi fyrir úttekt. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá.  Að öðrum kosti verði kröfu kæranda hafnað.  Ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun skv. 1. gr. laga nr. 130/2011, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verði ekki fallist á frávísun málsins sé á því byggt að ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 eigi ekki við hér heldur byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem í gildi hafi verið þegar skráning byggingarstjóra á þeim verkum sem talin séu upp í kæru hafi farið fram.  Um afskráningu byggingarstjóra hafi verið fjallað í 36. gr. reglugerðarinnar og hafi ávallt verið litið svo á, í samræmi við ákvæðið, að úttekt vegna byggingarstjóraskipta, og þar með byggingarstjóraskipti, færu ekki fram nema stöðuúttektar vegna byggingarstjóraskipta væri óskað af hálfu byggingarstjóra, greitt væri fyrir úttektina og að úttektarbeiðandi væri þá jafnframt viðstaddur. 

Niðurstaða:   Tilefni kærumáls þessa er tölvupóstur starfsmanns embættis byggingarfulltrúa þar sem gerð er grein fyrir afstöðu embættisins til verklags við afskráningu byggingarstjóra í tilefni af tilkynningu kæranda um að hann hafi hætt sem byggingarstjóri að tilteknum framkvæmdum og óski staðfestingar embættisins á því. 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 úrskurðar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindaréttar, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessum sviði.  Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður þó ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með hliðsjón af framangreindu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumálinu af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________   _______________________
        Ásgeir Magnússon          Þorsteinn Þorsteinsson

53/2013 Gerðarbrunnur

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 8. október tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2013, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Kristján S, Gerðarbrunni 20-22, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. mars 2008 um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingaleyfi verði stöðvaðar.  Með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 24. júní 2013.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. janúar 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.  Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. febrúar s.á.  var málinu á ný frestað og m.a. fært til bókar að málinu væri vísað til umsagnar skipulagsstjóra þar sem farið væri út fyrir byggingarreit.  Skipulagsstjóri vísaði málinu til skipulagsráðs er tók það fyrir á fundi hinn 5. mars 2008 og afgreiddi með svohljóðandi hætti:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu hinn 6. s.m. 

Kærandi tekur fram að á árinu 2007 hafi hann keypt byggingarrétt á lóðinni nr. 20-22 við Gerðarbrunn og hafi þá legið fyrir samþykkt skipulag húsa í götunni þar sem byggingarreitir hafi verið nákvæmlega tilgreindir.  Steyptur hafi verið sökkull húss á næstu lóð, þ.e. við Gerðarbrunn 24-26, á árunum 2007-2008 en frekari byggingarframkvæmdir við húsið hafi hafist fyrir um það bil mánuði.  Af því tilefni hafi kærandi kynnt sér teikningar að húsinu þar sem fram hafi komið að það færi um 1,5 metra út fyrir byggingarreit lóðarinnar.  Nánari skoðun hafi leitt í ljós að byggingarfulltrúi hafi upplýst um þessa staðreynd á fundi 26. febrúar 2008 og að skipulagsráð hafi síðan samþykkt þessa breytingu án nokkurrar kynningar.  Hliðrunin muni hafa í för með sér verulega skerðingu á útsýni frá svölum húss kæranda og skerða sólarljós.  Brjóti þessar síðari tíma breytingar á húsinu gegn rétti kæranda til birtu og útsýnis sbr. gr. 2.3.4 og 6.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 en samsvarandi ákvæði hafi verið í eldri lögum.  Sé of seint fyrir kæranda að óska eftir breytingum á húsi sínu til að draga úr þeim óþægindum sem verði af þessum ólöglegu breytingum.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hafi kæranda mátt vera kunnugt um legu hússins að Gerðarbrunni 24-26 þegar framkvæmdir hafi byrjað á árunum 2007-2008.   Honum hafi þá verið í lófa lagið að kynna sér samþykkta uppdrætti.  Kærufrestur í máli þessu sé því liðinn og ekki séu færð rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá fyrrgreindu ákvæði um kærufrest.  Þá sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafar gera einnig kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Kærandi hafi haft fjölmörg tækifæri og tilefni til að kynna sér hina kærðu ákvörðun.  Ákvörðunin hafi verið tekin að fengnu samþykki kæranda og birt á vef Reykjavíkurborgar og hafi honum frá þeim tíma mátt vera ákvörðunin ljós auk þess sem um birtingu á opinberum vettvangi hafi verið að ræða.  Kærandi hafi auk þess fengið byggingarleyfi fyrir húsi sínu sem háð hafi verið samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Þá hafi hann sótt um leyfi til að gera breytingu á útitröppum sem liggi að húsi byggingarleyfishafa 13. desember 2011 og hafi kærandi þá þurft að kynna sér teikningar og fá leyfi aðliggjandi húseigenda við þær breytingar.  Framkvæmdum við umrædda byggingu hafi verið fram haldið í febrúar 2013 og hafi vinnuskúr verið settur upp í lok mars s.á.  Kærufrestur hafi því einnig verið liðinn í því tilviki.  Beri því að vísa kæru þessari frá skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun um að veita byggingarleyfi fyrir húsinu að Gerðarbrunni 24-26 var staðfest í borgarráði hinn 6. mars 2008 og var byggingarleyfi gefið út í kjölfarið og framkvæmdir hafnar.  Samkvæmt fyrirliggjandi byggingarsögu hússins var úttekt gerð á botnplötu þess hinn 16. október 2008.  Af þeim ástæðum verður að ætla að kæranda hafi mátt vera ljós lega umrædds húss þegar á árinu 2008 og var því kærufrestur löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 13. júní 2013.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða um kærufresti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

 

 

44/2013 Jórsalir

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 17. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. apríl 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Salahverfis í Fífuhvammslandi, reitum nr. 2 og 7, vegna lóðar nr. 2 við Jórsali. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra Ó og G, Jórsölum 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. apríl 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Jórsala 2, sem fól í sér heimild til að byggja yfir hluta bílastæða á lóðinni. 

Með bréfi, dags. 10. maí 2013, er nefndinni barst hinn 14. s.m., kæra jafnframt Þ og A, Jórsölum 12, Kópavogi, áðurgreinda skipulagsákvörðun.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 45/2013, sameinað kærumáli þessu. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar.  Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi en felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir og eru því ekki efni til þess að taka þá kröfu til meðferðar. 

Málavextir:  Hinn 15. apríl 2011 var óskað eftir breytingu á deiliskipulagi Salahverfis í Fífuhvammslandi, reitum nr. 2 og 7, vegna lóðarinnar að Jórsölum 2.  Sótt var um stækkun byggingarreits um 3,50×12,50 m til norðausturs þar sem reisa mætti  skyggni yfir hluta bílastæða.  Hæð að mæni skyggnisins yrði 3,75 m og 2,70 m upp að þakbrún þess.  Skipulagsnefnd ákvað á fundi hinn 19. apríl 2011 að grenndarkynna skipulagsbreytingu þessa efnis með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir og andmæli bárust frá kærendum á kynningartíma og voru haldnir samráðsfundir með kærendum í desember 2011.  Tillagan var til meðferðar á fundi skipulagsnefndar 19. júní 2012, þar sem m.a. var kynnt breytt útfærsla skyggnisins en í henni fólst að það yrði lækkað svo koma mætti til móts við innsendar athugasemdir.  Tillagan svo breytt var kynnt kærendum á fundi 12. júlí 2012 og síðan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 17. s. m. ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 14. desember 2011.  Bæjarráð Kópavogs samþykkti þá afgreiðslu skipulagsnefndar 26. júlí 2012.  Gildistaka skipulagsbreytingarinnar var ekki auglýst í B-deild Stjórnartíðinda innan lögbundins frests og var málið því tekið fyrir á ný hjá skipulagsnefnd 5. febrúar 2013 og ákveðið að kynna tillöguna að nýju fyrir eigendum allra húsa í Jórsölum.  Athugasemdir bárust frá kærendum líkt og við fyrri kynningu.  Á fundi skipulagsnefndar 16. apríl 2013 var breytingartillagan ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 16. apríl 2013, lögð fram og samþykkt og sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 23. s. m.  Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 30. apríl 2013 og skutu kærendur henni til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu allra kærenda er vísað til þess að breytingin hafi verið grenndarkynnt með röngum hætti enda sé um að ræða viðbyggingu í formi bílskýlis en ekki þakflöt eða þakkant eins og gefið hafi verið í skyn og með því verið reynt að leyna því hvað framkvæmdin fæli í raun í sér.  Fulltrúar sveitarfélagsins hafi gengið erinda húseigenda að Jórsölum 2 en það hafi kærendum orðið ljóst á fundi sem formaður skipulagsnefndar og skipulagsfulltrúi hafi boðað kærendur á.  Þeir hafi með fortölum og hótunum reynt að fá kærendur til þess að falla frá athugasemdum við breytingu á deiliskipulaginu og hafi af þessum sökum verið vanhæfir til að koma að meðferð málsins.  Kærendur að Jórsölum 12 vísa í þessu sambandi til þess að húseigandi að Jórsölum 2 hafi átt í umsvifamiklum viðskiptum við Kópavogsbæ og sé því í yfirburðastöðu til að koma hugðarefnum sínum í gegn þvert á almenna skynsemi og hagsmuni annarra íbúa götunnar. 

Allir kærendur benda jafnframt á að við framkvæmd málsins hafi hvorki verið fylgt ákvæðum skipulagslaga né stjórnsýslulaga.  Gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi og heimiluð umfangsmikil viðbygging og breytingin síðan kynnt með grenndarkynningu.  Dregið sé í efa að um óverulega breytingu sé að ræða og því skorti þessa breytingu lagaheimild.  Í raun hefði þurft að breyta deiliskipulaginu fyrir alla götuna og hverfið.  Auk þess sé ljóst að ekki hafi verið gætt jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. 

Samkvæmt fordæmum nefndarinnar um frávik frá deiliskipulagi í nýjum hverfum séu sveitarfélögin bundin af deiliskipulagi og verði borgarar að geta treyst því að skipulagi verði ekki breytt nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því.  Ljóst sé að eina ástæðan fyrir breytingunni í fyrirliggjandi máli sé að gengið sé erinda eins lóðarhafa og hagsmunum annarra þar með raskað.  Í samræmi við fyrri fordæmi nefndarinnar beri því að ógilda deiliskipulagið.

Þá vísa kærendur til þess að breytingin á áðurnefndu deiliskipulagi feli í sér umtalsverða stækkun á byggingarreit lóðarinnar Jórsala 2.  Með breytingunni sé vikið frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi allra húsa í götunni og næsta nágrennis.  Húsin við götuna séu öll skipulögð og byggð með sama hætti og því hafi breytingin mikil áhrif á alla götu- og húsamynd Jórsala til hins verra.  Ef allir eigendur í götunni gerðu samskonar breytingar á húsum sínum yrði götumyndin ljót og séu miklar líkur á að umrædd viðbygging muni rýra verðgildi fasteigna kærenda.  Við breytingu á deiliskipulagi í þegar byggðum hverfum skuli taka tillit til næsta nágrennis og í vissum tilvikum skuli framkvæma húsakönnun.  Það hafi hins vegar ekki verið gert. 

Kærendur að Jórsölum 18 vísa til þess að viðbyggingin snúi að húsi þeirra og hafi mjög neikvæð sjónræn grenndaráhrif á fasteignina.  Útsýni verði skert en skyggnið muni blasa við úr gluggum efri hæðar hússins.  Þá benda kærendur að Jórsölum 12 á að sú slysahætta sem sé fyrir hendi við blindhorn hornlóðarinnar Jórsala 2 muni aukast við byggingu umrædds skyggnis.  Einnig hafi áður verið byggð umdeild viðbygging á lóðinni og muni byggingarmagn á henni því verða of mikið við byggingu skyggnisins. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað og að staðfest verði sú breyting sem gerð var á deiliskipulagi varðandi Jórsali nr. 2.

Ekki verði fallist á að umrætt mannvirki muni hafa neikvæð sjónræn áhrif og verða lýti á umhverfinu.  Ekki sé hægt að veita nágrönnum óheft mat á því hvað miður fari í útliti bygginga hverju sinni og tillögu að breytingu á deiliskipulagi sé ekki unnt að hafna á þeim grundvelli einum að framkvæmdin sé ljót eða falli ekki að smekk viðkomandi nágranna eða bæjaryfirvalda.  Verði við mat á útlitshönnun að styðjast við almennan mælikvarða eins og kostur sé, eins og fram hafi komið í úrskurðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Því sé andmælt að umrætt skyggni muni hafa neikvæð áhrif á götu- og húsamynd hverfisins.  Útlitshönnun mannvirkisins sé í fullu samræmi við þakform húsa í götunni og hafi upphaflegri tillögu að breytingu deiliskipulags verið breytt með þeim hætti að form og hæð skyggnisins félli sem best að formi hússins, annarra húsa við götuna og götumyndinni.  Ekki verði talið að skyggnið muni valda rýrnun á verðmæti annarra eigna í götunni.  Í skipulagslögum hafi lengi verið gert ráð fyrir að framkvæmd skipulags geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum.  Röskun ein og sér, sérstaklega minni háttar eins og eigi við í málinu, geti ekki leitt til þess að ógilda eigi ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi. 

Slysahætta muni ekki aukast með byggingu skyggnisins.  Húsið að Jórsölum 2 sé byggt á hornlóð og há skjólgirðing sé meðfram henni sem geti að ákveðnu marki takmarkað útsýni akandi eða gangandi vegfarenda við gatnamótin.  Skyggnið eitt og sér hafi þar engin áhrif enda hæð þess að þakbrún 2,70 m.  Súlur skyggnisins muni ekki hafa áhrif á fyrrnefnt útsýni en þær muni standa innar frá lóðarmörkum en skjólgirðingin.  Nýtingarhlutfall Jórsala 2 sé vel undir meðaltali nýtingarhlutfalls lóða við götuna samkvæmt Landskrá fasteigna og muni fyrirhugað skyggni ekki hafa áhrif þar á. 

Ákvæðum skipulagslaga hafi verið fylgt að öllu leyti við framkvæmd grenndarkynningar á tillögu að breytingu á deiliskipulaginu.  Á uppdrætti sé með skýrum og glöggum hætti gerð grein fyrir í hverju tillagan sé fólgin og verði ekki um villst, sé litið til kynningarinnar, hvaða mannvirki verið sé að kynna. 

Því sé hafnað að fulltrúar Kópavogsbæjar hafi gengið erinda eigenda Jórsala 2.  Jafnframt sé því andmælt að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun.  Hvorki starfsmenn Kópavogsbæjar né formaður skipulagsnefndar, sem setið hafi umræddan fund með kærendum, hafi haft hagsmuna að gæta vegna málsins. 

Þegar metið sé hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg eða ekki hafi það verulega þýðingu hversu mikil áhrif breyting hafi.  Það sé vandséð að einhver grenndaráhrif verði af umræddri framkvæmd.  Breytingin á deiliskipulaginu sé því óveruleg og víki skipulagið nánast að engu marki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis.  Verði að telja það hluta af eðlilegri nýtingu einbýlishúsalóða að þar sé byggt yfir bílastæði.  Réttur lóðarhafans sé þannig ótvíræður og með þeim einum takmörkunum sem ráðist af skipulagslögum og almennum rétti nágranna samkvæmt grenndarrétti.  Hljóti því að falla að eðlilegum umráðarétti lóðarhafa að fá leyfi til að byggja skyggni yfir bílastæði. 

Athugasemdir lóðarhafa Jórsala 2:  Lóðarhafi bendir á að sú ástæða liggi að baki vilja til byggingar skyggnisins að mikill snjór safnist saman á veturna framan við húsið og á þaki þess.  Það hafi leitt til skemmda á bílum og stundum verið erfitt að komast út úr húsinu.  Skyggnið sé hærra en aðliggjandi skjólgirðingar en engar skjólgirðingar séu fyrir framan húsið, ólíkt öðrum húsum við götuna.  Skyggnið sé í þakkantshæð og verði því lítil breyting á ásýnd hússins.  Nágrönnum stafi engin sýnileg hætta af skyggninu heldur muni það einungis bæta öryggi íbúa. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er byggingareitur lóðarinnar Jórsala 2 stækkaður um 3,50×12,50 m til norðausturs og heimiluð bygging skyggnis yfir hluta bílastæða.  Umrædd deiliskipulagstillaga var grenndarkynnt fyrir öllum íbúum Jórsala með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar er heimilt að grenndarkynna óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi.  Í því ákvæði kemur jafnframt fram að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. 

Nýtingarhlutfall er skilgreint í 16. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga sem hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.  Hugtakið er nánar skilgreint í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga og byggingahluta í lokunarflokkum A og B, sbr. ÍST 50:1998, á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.  Umrætt skyggni telst C-rými skv. sama staðli og hefur því ekki áhrif á útreikning nýtingarhlutfalls lóðarinnar.  Samkvæmt fyrirliggjandi ljósmynd af umræddu húsi, þar sem umdeilt skyggni yfir bílastæðum hefur verið fært inn, gengur skyggnið frá þakkanti hússins og veldur því ekki auknu skuggavarpi eða útsýnisskerðingu umfram það sem af húsinu stafar.  Af þessum sökum verður að telja að breytingin hafi verið óveruleg og því heimilt að grenndarkynna tillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.  Með hliðsjón af framangreindu verður breytingin ekki talin skerða grenndarhagsmuni kærenda. Loks verður ekki á það fallist að kærendur hafi einstaklega lögvarða hagsmuni af útliti götumyndar.

Skipulagsnefnd tilkynnti öllum eigendum lóða við götuna um tillöguna og veittur var fjögurra vikna athugasemdafrestur.  Kærendum var tilkynnt niðurstaða bæjarstjórnar í málinu með bréfi í júlílok 2012.  Verður því ekki séð að framkvæmd grenndarkynningarinnar hafi verið ábótavant með hliðsjón af fyrirmælum 44. gr. skipulagslaga um grenndarkynningar.  Jafnframt báru kynningargögnin ótvírætt með sér í hverju breytingin var fólgin.  Ekki verður fallist á að fulltrúar Kópavogsbæjar við meðferð málsins teljist vanhæfir enda liggur ekkert fyrir um að þeir hafi haft þau tengsl eða hagsmuni af málinu sem 1. og 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 tekur til eða samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga um vanhæfi.  Þá breytir engu í þessu sambandi þótt umsækjandi að hinni kærðu breytingu kunni að hafa átt í einhverjum viðskiptum við bæjarfélagið. 

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 23. apríl 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Salahverfis í Fífuhvammslandi, reitum nr. 2 og 7, vegna lóðar nr. 2 við Jórsali. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

2/2013 Ástún Kópavogi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 24. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 2/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Jafnframt eru kærðar ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Loks eru kærðar samþykktir byggingarfulltrúa Kópavogs frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs og um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á nefndri lóð.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. janúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra J og Þ, Daltúni 14, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 varðandi lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Jafnframt kæra þau ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6. Með bréfi sömu aðila, dags. 25. febrúar 2013, og móttekið sama dag, eru kærðar ákvarðanir byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs hússins á lóð nr. 6 við Ástún og um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Kærendur kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðar-nefndinni.  Með hliðsjón af því að hús það sem fyrir var að Ástúni 6 hefur þegar verið rifið og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 13. nóvember 2007 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 vegna lóðar nr. 6 við Ástún í þá veru að á lóðinni yrði íbúðarsvæði í stað blandaðrar landnotkunar þjónustustofnana og opins svæðis til sérstakra nota.  Staðfesti ráðherra þá breytingu og öðlaðist hún gildi í janúar 2008.  Í kjölfar þessa var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. janúar s.á. samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð er gerði ráð fyrir að á lóðinni risi 12 íbúða fjölbýlishús á þremur hæðum með bílageymslu.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008.

Ný tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var lögð fyrir skipulagsnefnd Kópavogs hinn 21. mars 2012.  Lutu breytingar frá gildandi deiliskipulagi m.a. að lögun byggingarreits, hækkun byggingar um 0,8 m, formi þaks og fjölda íbúða.  Þá var fyrirhuguð bílageymsla felld út og gert ráð fyrir tveimur íbúðum og geymslum í kjallara.  Bílastæði á lóð yrðu 21.  Var samþykkt að auglýsa fram lagða tillögu og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 27. s.m.  Komu kærendur og íbúar að Daltúni 13 á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og héldu skipulagsyfirvöld fund með þeim aðilum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. nóvember 2012 var málið til umfjöllunar og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsett sama dag, um fyrirliggjandi athugasemdir.  Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna, ásamt  umsögn, með þeim breytingum að aðkomukóti og hámarkshæð fyrirhugaðs fjölbýlishúss voru lækkuð, bílastæðum fjölgað í 28 og þar af 14 stæði í bílskýli austan við fyrirhugað fjölbýlishús.  Var tillögunni vísað
til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 27. nóvember 2012.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2012, að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Hinn 28. desember 2012 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um niðurrif húss að Ástúni 6 með vísan til þess að það ætti að víkja samkvæmt skipulagi á lóðinni.  Jafnframt var tekið fyrir erindi um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð, sem og beiðni lóðarhafa um undanþágu frá 6. til 16. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012.  Var erindið samþykkt og talið samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslur byggingarfulltrúa án umræðu á fundi hinn 8. janúar 2013. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að húsið að Ástúni 6 sé eitt reisulegasta og jafnframt síðasta heillega bóndabýlið í Fossvogsdalnum.  Beri að varðveita það en ekki virðist hafa verið haft samráð við Húsafriðunarnefnd um niðurrif hússins.  Taki hús í hverfinu mið af gamla bænum þannig að hverfið hafi yfir sér sérstakan heildstæðan blæ með tilvísun til eldri tíðar.

Kynning á breytingu á deiliskipulagi á árinu 2007 hafi verið ábótavant.  Hafi kærendur farið skriflega fram á það við bæjaryfirvöld að grenndarkynning yrði endurtekin og þeim veittur kostur á að tjá sig um breytingarnar en því erindi hafi aldrei verið svarað.  Þá hafi engar nothæfar teikningar verið til svo unnt væri að átta sig á skuggavarpi vegna fyrirhugaðs fjölbýlishúss samkvæmt skipulagsbreytingunni.  Með breytingu á deiliskipulagi, sem hlotið hafi gildi árið 2012, sé verið að auka við skipulag sem ólöglega hafi verið staðið að frá upphafi og sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 138/2012 í því sambandi.

Með bréfi til bæjaryfirvalda, dags. 29. september 2012, hafi kærendur farið fram á fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar.  Hafi þeim á fundi nokkru síðar verið kynnt útfærsla að lítið eitt lægri nýbyggingu og þar gefið í skyn að ef ekki yrði fallist á þá útfærslu myndi eldri útfærslan gilda.  Ekki hafi fengist fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp hússins.  Það hafi fyrst verið með bréfi skipulagsyfirvalda, dags. 19. desember 2012, sem upplýst hafi verið hvaða teikning að húsinu yrði notuð ásamt upplýsingum til að reikna skuggavarp nýbyggingarinnar.  Einnig hafi verið sendar óljósar teikningar af skuggavarpi hússins miðað við 21. júní og 21. september, er sýni að á hádegi 21. september verði lóð kærenda að mestu í skugga.  Í erindi til bæjaryfirvalda, dags. 28. desember 2012, hafi kærendur sent upplýsingar um skuggavarp.  Komi þar fram að samkvæmt útreikningum sem þeir hafi látið gera muni ekki sjá til sólar í Daltúninu frá lokum september fram til aprílbyrjunar og yfir hásumarið muni sólar aðeins gæta til kl. 17.  Húsið að Daltúni 14 muni verða í skugga í nærfellt 95 daga hvern vetur.  Hafi kærendur farið fram á að ekkert yrði aðhafst í málinu er skert gæti rétt þeirra, en ekkert svar hafi borist við þeirri beiðni.
 
Á síðasta fundi skipulagsyfirvalda á árinu 2012 hafi verið fallist á umsókn um niðurrif eldra húss að Ástúni 6.  Jafnframt hafi leyfishafa verið veitt undanþága frá lögum sem tekið hafi gildi um áramót og fjalli m.a. um fjölda bílastæða við fjölbýlishús og framkvæmd öryggismála á byggingarsvæðum.

Telja verði að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 vegna grenndaráhrifa, s.s. skuggavarps og aukinnar umferðar.  Nú þegar skorti bílastæði við götuna, þrengsli séu mikil og umferð sé vandamál.  Auk þess sé um að ræða þéttingu byggðar í hverfi sem þegar sé þéttbyggt. 

Kærendur hafi komið sér upp notadrjúgum og skjólgóðum reit sunnan við hús sitt, þar sem sé heitur pottur og sólbaðsstétt ásamt blóma- og matjurtagarði.  Þetta hafi kostað talsvert fé og fyrirhöfn.  Verði lóðin í skugga hálft árið sé líklegt að ræktun matjurta verði ómöguleg og að sólar muni ekki gæta eftir almennan vinnutíma þannig að búast megi við að verð húseignarinnar muni skerðast án þess að nokkrar bætur komi fyrir.  Þá muni kostnaður vegna upphitunar hússins aukast.  Skipulagsyfirvöld hafi bent á að skuggavarp verði litlu meira en það sem íbúar ofar og neðar við götuna búi við, en bent sé á að nágrannar kærenda hafi kvartað undan skuggavarpi enda sé talað um það sem afleiðingu 40 ára gamals skipulagsslyss.  Þá bendi kærendur á að um nauðvörn þeirra sé að ræða þar sem þeir hafi ekki enn fengið fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar.  Þannig hafi aðeins t.d. verið svarað einni af þremur skriflegum fyrirspurnum þeirra.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er farið fram á að kröfu kærenda vegna ákvörðunar um niðurrifs hússins að Ástúni 6 verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Niðurrif mannvirkisins raski ekki með nokkrum hætti hagsmunum kærenda svo að þeir geti átt kæruaðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun.  Þá heyri friðun mannvirkja skv. lögum nr. 104/2001 um húsafriðun ekki undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt beri að vísa þeim þáttum kærunnar frá er lúti að ógildingu ákvörðunar um breytingu á aðalskipulagi fyrir lóðina Ástún 6 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 22. janúar 2008 um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, en samsvarandi ákvæði hafi verið í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Komi fram í kæru að kærendum hafi orðið kunnugt um umræddar breytingar í júní 2008.  Kærufrestur vegna þessara ákvarðana sé því löngu liðinn.

Ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 sé hvorki að formi né efni haldin annmörkum.  Hún sé í samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2002-2012, sem og markmið þess um þéttingu byggðar og nýtingu á stofnkerfi bæjarins.  Í þágildandi deiliskipulagi hafi byggingarreitur fyrirhugaðs húss á lóðinni verið því sem næst ferningur í stað þess að vera ílangur eins og eigi við um þegar byggð hús við Ástún.  Með tillögunni sé leitast við að útfæra mannvirkið að heildargötumyndinni og þeim fjölbýlishúsum sem fyrir séu við götuna þannig að um sambærilegan byggingarstíl sé að ræða.  Yfirbragð og ásýnd byggðarinnar verði talsvert betri við skipulagsbreytinguna. 

Fullyrðingar kærenda um skuggavarp eigi ekki við rök að styðjast en breytingin muni leiða til þess að skuggavarp minnki sé tekið mið af deiliskipulagi frá 2008.  Fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar að skugginn sé áþekkur en þó grennri sem helgist af því að grunnfleti hússins hafi verið breytt.  Hækkun á mænishæð með 15º þakhalla hafi ekki áhrif á skuggavarp.  Hafi fyllilega verið tekið tillit til hagsmuna kærenda í máli þessu og málefnaleg sjónarmið legið að baki umræddri ákvörðun.  Í kjölfar samráðsfundar sem haldinn hafi verið með þeim er mótmælt hafi skipulags-breytingunni hafi sú ákvörðun verið tekin að lækka vegghæð hússins úr 49,85 m í 48,35 m, eða um 1,5 m, vegna hækkunar á mænishæð úr 39,85 m í 50,65 m (svo).  Stafi þessi munur af því að þakformi hússins hafi verið breytt úr flötu þaki í valmaþak.  Einnig hafi aðkomuhæð hússins verið lækkuð til að koma til móts við sjónarmið andmælenda.  Málið hafi fengið umtalsverða umfjöllun og vandaða málsmeðferð og leitast hafi verið við að eiga fullt samráð við þá aðila sem gert hafi athugasemdir.

Þá telji Kópavogsbær ekki efni til að fjalla sérstaklega um gildi byggingarleyfis sem gefið hafi verið út fyrir byggingu fjölbýlishúss að Ástúni 6.  Leyfið hafi verið gefið út í kjölfar samþykktar og auglýsingar á breyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð og sé því gefið út á lögmætum forsendum.

– – – –

Lóðarhafa Ástúns 6 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kæru-máls þessa en engar athugasemdir af hans hálfu hafa borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Eins og fyrr greinir er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Í þágildandi 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því væri háð staðfestingu ráðherra, en skv. 5. mgr. 8. gr. þeirra laga var ekki unnt að skjóta slíkum ákvörðunum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. nú 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður kæru á nefndri breytingu á aðalskipulagi Kópavogs því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt áðurgreindri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga var kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kæru skal vísa frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt þyki að hún hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru skal þó ekki sinnt berist hún ári eftir að ákvörðun er tilkynnt aðila.  Kæra á ákvörðun um breytt deiliskipulag lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi árið 2008, barst úrskurðarnefndinni 18. janúar 2013, eða nokkrum árum eftir að hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda, og ber með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni. 

Hús það sem heimilað var niðurrif á hinn 28. desember 2012 og stóð á lóðinni að Ástúni 6 var rifið fyrri hluta árs 2013.  Af þeim sökum hefur ekki þýðingu að taka afstöðu til fyrirliggjandi kröfu kærenda um ógildingu þeirrar ákvörðunar og verður kröfu þess efnis þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag vegna lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi 21. desember 2012, og ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 28. desember s.á., um niðurrif hússins að Ástúni 6 og um heimild til að reisa nýtt hús á lóðinni, bárust úrskurðar-nefndinni innan kærufrests og verða þær ákvarðanir því teknar til efnismeðferðar enda verður að telja að þær ákvarðanir geti snert lögvarða hagsmuni kærenda með hliðsjón af nálægð fasteignar þeirra við umrædda lóð.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, fundur haldinn með þeim aðilum sem gerðu athugasemdir, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun.  Var tillagan í kjölfarið send Skipulagsstofnun og hún birt í Stjórnartíðindum innan lögbundins frests.  Með skipulagsbreytingunni var m.a. íbúðum að Ástúni 6 fjölgað um tvær, lögun byggingarreits breytt frá því að vera sem næst ferningur í ílangan rétthyrning og breytingar gerðar á hæð hússins.  Þá var gert ráð fyrir valmaþaki í stað slétts þaks.  Í máli þessu koma aðeins til skoðunar þessar breytingar en ekki byggingarheimildir þær á lóðinni sem fyrir voru í deiliskipulagi frá árinu 2008.

Lóð kærenda liggur norðan við lóðina Ástún 6 og liggur gata á milli þeirra.  Af málatilbúnaði kærenda má ráða að þeir hafi einkum áhyggjur af skuggavarpi gagnvart fasteign sinni vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 og hafa þeir lagt fram frekari gögn um skuggavarp vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við meðferð málsins voru gerðar breytingar frá auglýstri tillögu, þannig að aðkomukóti var lækkaður úr 37,15 í 36,20 og kóti hámarkshæðar úr 50,65 í 49,06 en í deiliskipulagi frá 2008 var gert ráð fyrir að kóti hámarkshæðar væri 49,85.  Samkvæmt þessu lækkar heimiluð hámarkshæð hússins við hina kærðu breytingu um 79 cm.  Þá veldur breyting á lögun og legu byggingarreitar einhverjum breytingum á skuggavarpi.  Fela þessar breytingar og fjölgun íbúða um tvær ekki í sér veruleg grenndaráhrif frá því sem verið hefði að óbreyttu skipulagi.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.

Rétt þykir að benda á að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var eða að hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði, eða eftir atvikum úr ríkissjóði, eða að sveitarsjóður leysi fasteignina til sín, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ákvarðanir um bótarétt og fjárhæð bóta eiga hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrirmælum nefnds ákvæðis um málsmeðferð.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um um nýbyggingu fjölbýlishúss á lóðinni Ástúni 6 stoð í gildu deiliskipulagi.  Þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar séu á málsmeðferð umræddrar ákvörðunar sem valdið geti ógildingu hennar verður kröfu þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum um ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007, um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 og um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Ástúns 6 frá 22. janúar 2008, auk kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012, um að heimila niðurrif húss á nefndri lóð, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún og á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um að veita leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni að Ástúni 6 í Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

18/2013 Vatnsstígur

Með

Árið 2013, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2013, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. janúar 2013 er varðar leyfi til hundahalds í íbúð að Vatnsstíg 13, Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. Húsfélagsins 101 Skuggahverfi, Lindargötu 31, Reykjavík, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. janúar 2013 er varðar hundahald að Vatnsstíg 13, Reykjavík.  Gerir kærandi kröfu um að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 19. mars 2013. 

Málsatvik og rök:  Fyrri hluta árs 2012 sendi umsækjandi umdeilds leyfis stjórnarformanni húsfélagsins að Vatnsstíg 13 undirritað samþykki allra íbúa hússins fyrir því að umsækjandi fengi að hafa hund í íbúð sinni.  Síðar kom í ljós að eigandi einnar íbúðarinnar hafði ekki skrifað undir heldur leigjandi á hans vegum og lagðist sá íbúðareigandi gegn því að hundahald yrði leyft í húsinu.  Hinn 24. maí 2012 veitti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leigjanda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Vatnsstíg 13 leyfi til að halda hund.  Umsókninni fylgdu undirritað samþykki fjögurra af fimm sameigendum hússins.  Húsfélagið leitaði í kjölfarið lögfræðiráðgjafar hjá lögmanni og taldi með hliðsjón af ráðgjöf hans að gilt samþykki íbúa fyrir hundahaldi í húsinu væri ekki til staðar.  Tölvubréf þess efnis var sent leyfishafa 22. ágúst 2012, sem mótmælti efni þess bréfs í tölvubréfum, dags. 4. og 6. nóvember s.á. 

Lögmaður kæranda leitaði hinn 18. desember 2012 skýringa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á því hvernig eftirlitið túlkaði ákvæði laga um fjöleignarhús varðandi hundahald og nauðsynlegt samþykki meðeigenda í því sambandi.  Með bréfi, dags. 23. janúar 2013, gerði heilbrigðiseftirlitið grein fyrir þeirri afstöðu sinni að ekki hafi þurft að afla samþykkis sameigenda fyrir hundahaldinu á húsfundi þar sem samþykki 2/3 hluta sameigenda nægði enda lægi ekki fyrir að húsfélagið hefði sett sér sérreglur um gæludýrahald.  Í lok bréfsins var vakin athygli viðtakanda á því að honum væri heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar ef hann vildi ekki una ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins.

Kærandi vísar til þess að samþykkis fyrir hundahaldi hafi ekki verið aflað á húsfundi.  Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang.  Meginregla fjöleignarhúsalaganna um afgreiðslu mála komi fram í 39. gr. en þar segi að allir hlutaðeigandi eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerti hana beint og óbeint.  Í 4. mgr. sömu greinar segi jafnframt að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda, þ.e. á húsfundi.  Í greinargerð með ákvæðinu sé þess sérstaklega getið að sá háttur, að gengið sé á milli eigenda með plagg eða yfirlýsingu um einhver sameiginleg málefni sem eigendum sé hverjum í sínu lagi ætlað að samþykkja með undirritun sinni eða synja, sé ekki í samræmi við fyrirmæli frumvarpsins sem síðar varð að lögum.  Ákvörðun sem sé tekin með þeim hætti sé ekki lögmæt og skuldbindandi nema fyrir þá sem undirritað hafi og þá samkvæmt almennum reglum um skuldbindingargildi loforða og samninga.  Frá reglunni um að samþykki skuli veitt á húsfundi sé sú eina undantekning að allir eigendur hafi samþykkt með undirskrift sinni en þá teljist kominn á samningur sem sé bindandi.  Það nægi því að einn eigandi skrifi ekki undir til að slíkur listi hafi enga þýðingu.  Af þessu leiði að eigendur 2/3 hluta, bæði miðað við fjölda og eignarhlut, þurfi að samþykkja hunda- eða kattahald á löglega boðuðum húsfundi ef veita eigi slíkt leyfi. 

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að ekki þurfi að afla samþykkis sameigenda í fjöleignarhúsi fyrir hunda- eða kattahaldi á húsfundi heldur dugi undirskrift 2/3 hluta sameigenda í húsinu.  Bent sé á að í frumvarpi til breytinga á fjöleignahúsalögum varðandi hunda- og kattahald frá árinu 2011 hafi verið gert ráð fyrir að allir sameigendur þyrftu að samþykkja hundahald í fjöleignahúsum.  Sú krafa hafi svo breyst í 2/3 hluta sameigenda í meðförum þingsins og hafi frumvarpið þannig verið samþykkt.  Heilbrigðiseftirlitið hafi haft þann fjölda að lágmarki til hliðsjónar við leyfisveitingar og hafi sá háttur verið á hafður hjá öðrum leyfisveitendum.  Í tilvitnuðum greinum kæranda um ákvörðunartöku á húsfundum sé hvergi minnst á gæludýrahald og sé það mat eftirlitsins að það hvort eigendur samþykki hundahald í húsinu sé ekki ákvörðun er varði sameignina. 

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að kæra í máli þessu snúist í raun um gildi leyfis þess til hundahalds sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitti hinn 24. maí 2012.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Fyrir liggur að tölvupóstsamskipti áttu sér stað í ágústmánuði 2012 milli kæranda og leyfishafa um gildi umdeilds leyfis til hundahalds og er staðfestingu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á að leyfið sé gilt að finna í tölvupósti stofnunarinnar til kæranda, dags. 6. nóvember 2012.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun í síðasta lagi frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni rúmum þremur mánuðum eftir greint tímamark, eða 22. febrúar 2013, og var kærufrestur þá liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við hér. 

Þá felur hin kærða afgreiðsla heilbrigðiseftirlitsins frá 23. janúar 2013 aðeins í sér túlkun eftirlitsins á lagaákvæðum um tilhögun samþykkis sameigenda fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsi, en ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson