Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2013 Ásgarður

Árið 2014, miðvikudaginn 12. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 69/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 16. janúar 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mótt. 15. júlí 2013, kærir H, eigandi lóðar nr. 11 við Vesturbrúnir í landi Ásgarðs, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að breyta deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs. Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn og greinargerð frá sveitarfélaginu 11. nóvember 2013.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. júní 2012 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs er fól í sér fjölgun lóða við Skógarholt og Vesturbrúnir. Samþykkt var að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti sveitarstjórn þá ákvörðun 4. júlí s.á. Var tillagan auglýst til kynningar, m.a. í Fréttablaðinu og Dagskránni 20. september 2012, og veittur frestur til athugasemda til 2. nóvember s.á. Barst ein athugasemd á kynningartíma. Hinn 7. nóvember 2012 var tillagan samþykkt óbreytt á fundi sveitarstjórnar og í kjölfar þess send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Taldi Skipulagsstofnun að framkominni athugasemd hefði ekki verið svarað efnislega og var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 20. desember 2012. Mælti nefndin með því að tekið yrði tillit til innkominnar athugasemdar og að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt að nýju með þeirri breytingu að ekki yrði lengur gert ráð fyrir nýrri lóð við Vesturbrúnir. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 16. janúar 2013 og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á.

Kærandi tekur fram að lóð hans sé við enda götu með útivistarsvæði á þrjá vegu en í þess stað muni lóðir liggja að lóð hans eftir samþykkta breytingu. Ekki hafi komið fram í afsali fyrir fasteigninni að til stæði að breyta deiliskipulagi svæðisins eða að opið svæði til útivistar ætti að vera til takmarkaðs tíma. Þurfi að gera slíkar breytingar í samráði við lóðareigendur. Hafi ekki verið farið að ákvæðum skipulagslaga þar sem málið hafi hvorki verið grenndarkynnt né kynnt kæranda formlega. Þá sé bent á að skipulagsnefnd hafi oft synjað þess að sameina lóðir á þeirri forsendu að ekki væri vilji til að breyta lóðarfjölda í áður skipulögðum hverfum.

Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin verið kynnt og auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi borist athugasemd frá kæranda um tillöguna.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun var auglýst til kynningar í tveimur dagblöðum og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var hún einnig auglýst í Lögbirtingablaði og á heimasíðu skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Tók breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2013. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála einn mánuður, nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 15. júlí 2013, eða tæpum tveimur mánuðum eftir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, og var þá kærufrestur til nefndarinnar liðinn samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir