Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2013 Búðavað

Árið 2014, mánudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2013, kæra á afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Búðavaði 4, Reykjavík, afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna gestabílastæða við Búðavað 4, 6 og 8 í Reykjavík.  Krefjast kærendur þess að afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá sveitarfélaginu 12. apríl 2013.

Málsatvik: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 26. október 2012 var tekin fyrir beiðni kærenda um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi fyrir Norðlingaholt um gestabílastæði við Búðavað. Var erindið afgreitt neikvætt með vísan til svohljóðandi umsagnar skipulagsstjóra: „Fyrirspurnin hefur breyst mikið frá upphaflegri fyrirspurn íbúa dags. 8. ágúst 2011. Upphaflega var óskað eftir heildstæðri breytingu með því að fella niður öll gestabílastæði norðanmegin götu en nú er óskað eftir að fella aðeins niður þrjú gestastæði sem liggja að lóðunum nr. 4, 6 og 8 við Búðavað. Á þessum lóðum hefur ekki verið framkvæmt í samræmi við samþykkt deiliskipulag hvað varðar lóðarfrágang og fjölda bílastæða inn á lóð.“ Var niðurstaða skipulagsstjóra eftirfarandi: „Í ljósi þess að lítið er eftir að upphaflegri heildarhugmynd og að einungis náðist samstaða um að fella niður tvö samliggjandi stæði og síðan eitt er ekki fallist á að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina.“

Með bréfi kærenda til skipulagsráðs, dags. 6. janúar 2013, var þess krafist að skipulagsstjóri léti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér að gestabílastæði við Búðavað 4, 6 og 8 yrðu felld út af deiliskipulagi. Þá var farið fram á að málið yrði lagt fyrir skipulagsráð til formlegrar afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 16. janúar 2013. Var fært til bókar að lagt væri fram málskot kærenda og að fyrri afgreiðsla skipulagsstjóra frá 26. október væri staðfest. Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að við Búðavað séu 22 íbúðir og við þær séu 44 bílastæði. Sunnan við götuna, framan við Búðavað 2-6, séu jafnframt 14 gestabílastæði og einnig sé gert ráð fyrir 8 gestabílastæðum inn á lóðum við norðanverða götuna. Að hafa svo mörg bílastæði í götunni gangi gegn þeirri áherslu sem fram komi í aðalskipulagi Reykjavíkur um að borgin eigi að vera vistvæn, leggja eigi áherslu á almenningssamgöngur og greiða fyrir hjólreiðum. Þá sé heimilt samkvæmt aðalskipulagi að víkja frá kröfum um fjölda bílastæða í deiliskipulagi. Yrði fallist á umbeðna breytingu yrðu 19 gestabílastæði við götuna og hlutfall bílastæða á íbúð 2,8. Hafi allir eigendur fasteigna við Búðavað samþykkt umrædda breytingu en sveitarfélagið hafi hvorki svarað því hvers vegna vilji íbúa hafi ekki verið virtur né vísað til laga eða reglugerða máli sínu til stuðnings. Hagsmunir íbúa við Búðavað 4, 6 og 8 af því að losna við gestabílastæðin af lóðum sínum séu mikil og beri borginni að vega og meta þá hagsmuni. Geri samþykktar teikningar af húsum við norðanverða götuna ráð fyrir mjög stórum forstofuglugga rétt fyrir framan gestabílastæðin. Muni það fela í sér veruleg óþægindi fyrir íbúa þessara húsa að fá gestabílastæði þremur metrum frá slíkum gluggum.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ætíð hafi verið litið á erindi kærenda sem fyrirspurn en ekki umsókn. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 26. október 2012 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafi Reykjavíkurborg óskað eftir frávísun málsins þar sem ekki hafi verið um kæranlega stjórnsýsluákvörðun að ræða. Í framhaldi af því hafi kærendur dregið kæru sína til baka. Hafi skipulagsyfirvöld fundað með kærendum og bent þeim á að hægt væri að skjóta málinu til umhverfis- og skipulagsráðs sem þeir hafi og gert. Enda þótt ráðið hafi staðfest fyrri afgreiðslu embættismanna liggi það eigi að síður fyrir að hér hafi einungis verið um neikvætt svar við fyrirspurn að ræða. Kærendum hafi verið bent á að þeir geti sótt formlega um umrædda breytingu en því hafi þeir hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á beiðni um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi Norðlingaholts um nánar greind gestabílastæði við Búðavað. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Hins vegar var fjallað um erindi kærenda, dags. 6. janúar 2013, í umhverfis- og skipulagsráði hinn 16. janúar 2013, undir D–lið ýmis mál, sem málskot, sbr. bókun ráðsins þess efnis að um málskot væri að ræða og að fyrri afgreiðsla ráðsins frá 26. október væri staðfest. Var fundargerð ráðsins lögð fram á fundi borgarráðs 17. s.m. þar sem bókað var að B-liður væri samþykktur en hvorki var fjallað um D-lið fundargerðarinnar né afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á erindi kærenda. Bera bókanir umhverfis- og skipulagsráðs það með sér að erindi kærenda var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn en ekki sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi.
 
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál. Erindi sem afgreitt er sem fyrirspurn getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir. Ljóst er, með hliðsjón af orðalagi erindis kærenda frá 6. janúar 2013, að gerð var krafa um að erindið hlyti formlega afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs. Erindi kærenda hefur ekki hlotið slíka afgreiðslu eins og áður er rakið. Þar sem málið hefur ekki verið til lykta leitt verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til framangreinds lagaákvæðis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir