Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

101/2014 Markavegur

Árið 2014, miðvikudaginn 12. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 101/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Markaveg nr. 2, 3 og 4, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Jónas Fr. Jónsson hdl., f.h. lóðarhafa að Markavegi 1, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Markaveg nr. 2, 3 og 4, Kópavogi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar.

Málsatvik og rök: Hinn 10. apríl 2014 óskaði lóðarhafi Markavegar nr. 2, 3 og 4 eftir að deiliskipulagi fyrir greindar lóðir yrði breytt með þeim hætti að lóð nr. 4 yrði stækkuð um 5 m, það yrði tekið af lóðum nr. 2-3, að hæðarkóti á lóð nr. 4 yrði hækkaður um 20 cm og breiddin lengd um 0,25 m. Hinn 15 s.m. var samþykkt af skipulagsnefnd Kópavogs að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan tilkynnt lóðarhöfum nærliggjandi lóða með bréfum, dags. 15. maí 2014, og þeim gefinn frestur til 19. júní s.á til þess að gera athugasemdir við tillöguna. Hinn 27. maí s.á samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu skipulagsnefndar. Hinn 28. s.m. voru bréf send á ný til lóðarhafa nærliggjandi lóða þar sem tekið var fram að fyrri grenndarkynning teldist ógild þar sem láðst hefði að vísa málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar, færi nú fram ný grenndarkynning og væri lóðarhöfum gefinn kostur til að senda inn athugasemdir til 1. júlí s.á. Bárust athugasemdir frá kærendum 30. júní s.á. þess efnis að deiliskipulagsbreytingartillagan bryti gegn lögvörðum hagsmunum þeirra er varðaði nýtingu á lóð þeirra, hætta væri á að verðmæti fasteignar þeirra myndi lækka og takmarkanir yrðu á nýtingarmöguleika. Hinn 28. júlí s.á var erindi lóðarhafa Markavegar nr. 2, 3 og 4 tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar. Samkvæmt fundargerð lá fyrir nefndinni tillaga skipulags- og byggingardeildar, dags. 25. s.m., ásamt greinargerð og var m.a. bókað að í tillögunni væri fallið frá kynntum breytingum að Markavegi 2 að öðru leyti en því að lóðin væri stækkuð til austurs þ.e. frá Markavegi 1. Var niðurstaða nefndarinnar bókuð svo: „Að fenginni umsögn frá lögfræðideild Kópavogs samþykkir skipulagsnefnd framlagða breytingartillögu dags. 25. júlí 2014 þar sem komið er til móts við athugasemdir er varða hæðarkóta og byggingarreit Markavegar 2 sem bárust á kynningartíma.“ Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Staðfesti bæjarráð afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 14. ágúst 2014. Var deiliskipulagsbreytingin auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Vísa kærendur til þess að málsmeðferð vegna hinna kærðu breytinga hafi ekki verið í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samræmis hafi ekki verið gætt við skipulagsbreytingarnar sem samþykktar voru af bæjarráði Kópavogs. Hafi skipulagsfulltrúi ekki heimildir til að breyta samþykktu deiliskipulagi án samþykkis bæjarstjórnar enda beri hún ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, hafi því samþykki skipulagsnefndar, bæjarráðs sem og deiliskipulagið í heild verið ólögmætt. Hafi bærinn ekki tekið nægt tillit til athugasemda kærenda. Hin kærða ákvörðun brjóti gegn lögvörðum hagsmunum kærenda um hagkvæma og hnökralausa nýtingu lóðar sinnar, hætta sé á að verðmæti fasteignar lækki og nýtingarmöguleikar muni takmarkast.

Af hálfu Kópavogsbæjar er skírskotað til þess að ekki fáist séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í ósamræmi við samþykkt bæjarráðs. Um sé að ræða hækkun sem nemi 20 cm og breikkun sem nemi 25 cm. Hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að framangreind stækkun væri það smávægileg að hún hefði í för með sér óveruleg grenndaráhrif. Sé það því mat bæjarins að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við lög nr. 123/2010.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar eru undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða eftir atvikum framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir