Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2014 Stafafellsfjöll

Árið 2014, þriðjudaginn 11. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 50/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 15. maí 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2014, er barst nefndinni 13 s.m., og með bréfi, dags. 31. október s.á., er barst nefndinni sama dag, kærir Eiríkur S. Svavarsson, hrl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigendur sumarhúsa í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar að samþykkja nýtt deiliskipulag í frístundarbyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Hornafirði 27. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 11. september 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar að fela starfsmanni sveitarfélagsins að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll. Á fundi sömu nefndar 16. október s.á. var samþykkt að fjalla um deiliskipulagstillöguna sem nýtt deiliskipulag. Var tillaga að nýju deiliskipulagi kynnt á fundi nefndarinnar 4. desember s.á. og samþykkt að vísa tillögunni til bæjarstjórnar. Var fundur til kynningar deiliskipulagstillögunnar auglýstur í fjölmiðlum sama dag og 5. s.m., en þann dag var fundurinn haldinn. Hinn 12. s.m. samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar tillöguna sem og að hún færi í lögformlegt ferli. Bárust athugasemdir við tillöguna sem tekin var afstaða til á fundi bæjarstjórnar hinn 15. maí 2014. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórnin nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum og var það sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Stofnunin tók deiliskipulagið til nánari skoðunar með vísan til ákvæðis 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með bréfi, dags. 25. júní s.á., tilkynnti stofnunin sveitarfélaginu að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins þegar brugðist hefði við þeim atriðum sem nánar voru tilgreind í bréfinu og þegar umsögn Minjastofnunar lægi fyrir. Barst umsögn frá Minjastofnun Íslands til sveitarfélagins með bréfi, dags. 23. október s.á.

Kærendur vísa til þess að með hinu nýja deiliskipulagi sé verið að auka byggingarmagn verulega. Að auki sé mikið ósamræmi á milli aðalskipulags og deiliskipulagstillögu um það hver hin eiginlegu mörk séu um heimilaðan fjölda lóða á skipulagssvæðinu. Sýni samanburður á aðalskipulagi og hinu nýja deiliskipulagi að ákvæði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga sé þverbrotið. Bendi kærendur einnig á að ekki hafi verið rétt staðið að kynningu deiliskipulagsins. Hafi kynningin verið auglýst með eins dags fyrirvara og hafi dreifibréfi ekki verið dreift til hagsmunaaðila líkt og haldið sé fram. Að auki sé bent á eftirfarandi atriði sem kærendur telji leiða til ógildingar, þ.e. að lýsing á skipulagsverkefni hafi hvorki verið gerð né birt, ákvæði um fjarlægð lóða frá ám og vötnum hafi verið brotið, að með deiliskipulaginu sé heimiluð uppbygging á svæði þar sem sé þekkt náttúruvá, skilgreind almenningsvæði séu fjarlægð af deiliskipulagi og að neysluvatni sé spillt með skipulagningu á nýjum lóðum á vatnsverndarsvæði. Þá geri kærendur athugasemdir við þær breytingar sem sveitarfélagið hafi gert á hinu kærða deiliskipulagi í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar. Bendi kærendur á að verulegar breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulaginu án þess að þær hafi verið kynntar hagsmunaaðilum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að brugðist hafi verið við erindi Skipulagsstofnunar, sbr. greinargerð með nýju deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum, og að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir. Varðandi annan rökstuðning kærenda sé bent á að ekki sé um verulega aukningu á byggingarmagni að ræða frá eldra deiliskipulagi. Fjölgun lóða og aukning á stærð húsa á lóðum sé hæfileg aukning á byggingarmagni og sé verið að skapa möguleika á þróun byggðar í samræmi við nýjar byggingarhefðir. Því sé hafnað að ósamræmi sé á milli aðalskipulags og deiliskipulags enda sé fjallað um tiltekinn fjölda frístundalóða í aðalskipulagi sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2013, og fjöldi lóða í nýja deiliskipulaginu rúmist innan þeirrar heimildar. Þá sé því hafnað að auglýsing á kynningarfundi hafi verið ófullnægjandi, enda hafi sveitarfélagið auglýst fundinn í Fréttablaðinu hinn 4. desember 2013 og 5. s.m. í Eystrahorni, staðarblaði Hornafjarðar, sem og með dreifibréfi. Loks sé því mótmælt að nýtt deiliskipulag sé tilraun til skerðingar á þeim gæðum sem landið í Stafafellsfjöllum bjóði almenningi upp á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagstillögu fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum sem samþykkt var af bæjarstjórn Hornafjarðar 15. maí 2014. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir