Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2013 Njálsgata

Árið 2014, föstudaginn 7. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 84/2013, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. júní 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits 1 vegna lóðarinnar nr. 33b við Njálsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2013, sem barst nefndinni 23. s.m., kærir E Grettisgötu 34, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. júní 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits 1 vegna lóðarinnar nr. 33b við Njálsgötu. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi, dagsettu og mótteknu sama dag og fyrrgreint bréf, kærir G, Grettisgötu 34, Reykjavík, nefnda skipulagsákvörðun með sömu kröfu og gerð er í fyrrgreindu kærumáli. Verður það kærumál, sem er nr. 85/2013, sameinað máli þessu.

Málsatvik og rök: Hinn 22. mars 2013 tók skipulagsfulltrúinn í Reykjavík fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits 1 sem ber númerið 1.190.0. Fól umsóknin í sér beiðni um stækkun byggingarreits og hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar Njálsgötu 33b. Var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir nágrönnum, þ. á m. kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir hjá skipulagsfulltrúa 14. júní 2013 og lágu þá fyrir athugasemdir sem borist höfðu við tillöguna á kynningartíma, þ. á m. frá íbúum að Grettisgötu 34. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 26. s.m. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 13. júní 2013. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 4. júlí s.á.

Kærendur vísa til þess að hvorki sé getið athugasemda þeirra við umdeilda skipulagsbreytingu né þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa sem vísað hafi verið til við afgreiðslu skipulagsbreytingarinnar. Þá hafi þeim ekki borist svör við athugasemdum sínum. Engin rök virðist búa að baki umdeildri skipulagsbreytingu svo sem fyrir því að færa byggingarreit á lóðinni Njálsgötu 33b nær lóðarmörkum Grettisgötu 34. Meðferð málsins hafi verið verulega ábótavant og með því hafi verið á rétt kærenda hallað.

Borgaryfirvöld hafa tilkynnt úrskurðarnefndinni að ekki þætti tilefni til að að veita umsögn í máli þessu þar sem fyrirhugað væri að taka málið til meðferðar að nýju.

Niðurstaða: Nú liggur fyrir að ákvörðun sú sem um er deilt í máli þessu hefur ekki öðlast gildi með lögboðinni auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Upplýst hefur verið að tillaga að breytingu umrædds deiliskipulags vegna lóðarinnar Njálsgötu 33b hafi verið grenndarkynnt að nýju og hún verið samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 8. janúar 2014. Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 24. s.m.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið liggur ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun fyrir í máli þessu sem borin verður undir úrskurðanefndina enda hefur það ekki verið til lykta leitt, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskuðarnefndarinnar.    

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________________________
Nanna Magnadóttir