Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2015 Stafafellsfjöll

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 21. janúar, tók Nanna Magnadóttur, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 2/2015 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Eiríkur S. Svavarsson hrl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigendur sumarhúsa í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar að samþykkja nýtt deiliskipulag í frístundabyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. september 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar að fela starfsmanni sveitarfélagsins að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll. Á fundi sömu nefndar 16. október s.á., var samþykkt að fjalla um deiliskipulagstillöguna sem nýtt deiliskipulag. Var tillaga að nýju deiliskipulagi kynnt á fundi nefndarinnar 4. desember s.á. og samþykkt að vísa tillögunni til bæjarstjórnar. Var fundur til kynningar deiliskipulagstillöguna auglýstur í fjölmiðlum sama dag og 5. s.m., en þann dag var fundurinn haldinn. Hinn 12. s.m. samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar tillöguna sem og að hún færi í lögformlegt ferli. Bárust athugasemdir við tillöguna sem tekin var afstaða til á fundi bæjarstjórnar hinn 15. maí 2014. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórnin nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum og var það sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Stofnunin tók deiliskipulagið til nánari skoðunar með vísan til ákvæðis 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með bréfi, dags. 25. júní s.á., tilkynnti stofnunin sveitarfélaginu að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins þegar brugðist hefði við þeim atriðum sem nánar voru tilgreind í bréfinu og þegar umsögn Minjastofnunar lægi fyrir. Barst umsögn frá Minjastofnun Íslands til sveitarfélagsins með bréfi dags. 23. október s.á. Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember 2014.

Kærendur telja að öllum skilyrðum til að úrskurða um stöðvun framkvæmda sé fullnægt. Bendi allt til þess að landeigendur hafi þegar selt byggingarrétt á einhverjum lóðum samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. Með auglýsingu deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda sé hægt að hefja framkvæmdir. Yfirvofandi framkvæmdir verði að einhverju leyti óafturkræfar og munu valda tjóni á fallegu og sérstöku útivistarsvæði. Að auki sé bent á að röskun væntanlegra lóðarhafa á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða sé óveruleg þar sem lóðirnar séu ætlaðar fyrir frístundahús en ekki íbúðarhús. Sú staðreynd að endanlegur úrskurður í málinu muni sennilega ekki liggja fyrir innan hins lögmælta frest skv. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 mæli einnig með því að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar enda sé eðlilegt að tryggja réttmæta hagsmuni og koma í veg fyrir óþörf óendurkræf spjöll á náttúru og eignum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá landeigendum í Stafafellsfjöllum hafi engar nýjar lóðir verið seldar eða þeim úthlutað. Engin gögn eða skýringar fylgi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða og sé hún ómálefnaleg og ósanngjörn.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

32/2014 Starmýri

Með
Árið 2014, þriðjudaginn 30. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála,  með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 32/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014 um að synja um breytingu á útliti og innra fyrirkomulagi og breyta atvinnuhúsnæði, sem skráð er fjórar eignir, í tvær vinnustofur með íbúðaraðstöðu á fyrstu hæð hússins Starmýri 2C.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir R, f.h. TMI ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014, um að synja umsókn um breytingu á útliti og innra fyrirkomulagi og breyta atvinnuhúsnæði, sem skráð er fjórar eignir, í tvær vinnustofur með íbúðaraðstöðu á fyrstu hæð hússins Starmýri 2C.

Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að synjum byggingarfulltrúans í Reykjavík verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 16. maí 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 25. febrúar 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, tekin fyrir umsókn TMI ehf., dags. 18. s.m., um leyfi til þess að breyta útliti og innra fyrirkomulagi og jafnframt breyta atvinnuhúsnæði, sem skráð er fjórar eignir, í tvær vinnustofur með íbúðaraðstöðu á fyrstu hæð hússins við Starmýri 2C. Var samþykkt að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var umsögn skipulagsfulltrúa frá 17. mars s.á. neikvæð með vísan til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi skyldi vera þjónustustarfsemi á 1. hæð húsnæðisins. Var tekið neikvætt í að breyta deiliskipulagi í þá veru að íbúðir yrðu heimilaðar í þeim rýmum sem skilgreind væru sem þjónustusvæði í gildandi deiliskipulagi auk þess sem það væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 25. s.m. var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi skírskotar til þess byggingarfulltrúi hafi árið 2006 heimilað svipaða breytingu á húsnæði við hlið Starmýri 2C og sé það einnig skilgreint sem atvinnuhúsnæði. Að teknu tilliti til sanngirnissjónarmiða beri því að fella synjun byggingarfulltrúa úr gildi, enda ekki sanngjarnt að einn skuli fá en ekki hinn. Sé bent á að hugmyndir borgaryfirvalda um nærþjónustu, s.s. kaupmanninn á horninu, séu ekki raunhæfar á þessu svæði þar sem það sé við hlið stærri verslanakjarna, s.s. Kringlunnar.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess gildandi deiliskipulag geri ekki ráð fyrir notkun í samræmi við óskir kæranda. Að auki sé kjarninn Starmýri 2 skilgreindur sem nærþjónustusvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og sé kjarni fyrir verslun og þjónustu sem sinni daglegum þörfum íbúa. Sé erindi kæranda ekki í samræmi við landnotkun samkvæmt aðalskipulagi. Séu því ekki rök til þess að fallast á ósk kæranda um deiliskipulagsbreytingu á umræddu svæði. 

————–

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá kæranda um það hvort og þá hvaða lögvarða hagsmuni hann hefði  tengda hinni kærðu ákvörðun þar sem hann væri ekki lengur skráður eigandi að Starmýri 2C, sbr. upplýsingar úr opinberum gögnum. Var kæranda veittur frestur til 4. desember s.á. en engar athugasemdir eða frekari gögn hafa borist frá kæranda innan hans.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um breytingu á útliti, fyrirkomulagi og notkun á húsnæði við Starmýri 2C, Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands seldi kærandi greinda fasteign 11. september 2014 og er því ekki lengur eigandi að þeirri fasteign sem hin kærða ákvörðun tekur til. Hefur kærandi ekki komið frekari skýringum til úrskurðarnefndarinnar hvort og þá með hvaða hætti hann hafi enn hagsmuni af úrlausn málsins. Með vísan til þessa, og með hliðsjón af framangreindu lagaákvæði, verður ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

______________________________
Nanna Magnadóttir

 

48/2011 Fífuhvammur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2011, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. júní 2011 um að hafna umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við götuna Fífuhvamm í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. júní 2011, sem barst nefndinni 1. júlí s.á., kærir Sævar Geirsson, f.h. G, Fífuhvammi 25, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. maí 2011 að synja umsókn kæranda um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé afgreiðsla byggingarfulltrúa á téðri umsókn enda er á hans forræði lögum samkvæmt að afgreiða umsóknir um byggingarleyfi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til endanlegs úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Kópavogi 14. nóvember 2011.

Málavextir: Á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm er tveggja hæða hús og er hvor hæð 80 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Austan hússins og sambyggður því að hluta er 56,8 m² bílskúr, sem reistur var töluvert síðar en húsið, og tilheyrir hann íbúð kæranda. Umrædd lóð við Fífuhvamm er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.

Árið 2010 var tekin fyrir hjá sveitarfélaginu umsókn lóðarhafa um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á nefndan bílskúr. Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir hinn 18. janúar 2011, ásamt umsögn, dagsettri sama dag, um fram komnar athugasemdir. Var í umsögn talið að erindið samræmdist ekki götumynd og leiddi til íþyngjandi skuggamyndunar á lóð Fífuhvamms 27 og Víðihvamms 20. Samþykkti skipulagsnefnd umsögnina og vísaði erindinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem synjaði umsókn kæranda.

Kærandi lagði í kjölfar þessa fram breyttar teikningar og vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu. Ákvað skipulagsnefnd á fundi hinn 15. mars 2011 að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Í kynningarbréfi vegna grenndarkynningar kom fram að þær breytingar hefðu verið gerðar frá fyrri umsókn að viðbyggingin væri nú með slétt þak í stað einhalla þaks eins og fyrri umsókn hafði gert ráð fyrir. Væri heildarhæð byggingarinnar 1,74 m lægri en áður hafði verið ráðgert, en heildarvegghæð viðbyggingar væri 3 m frá þaki bílgeymslu. Á kynningartíma bárust athugasemdir frá lóðarhafa að Fífuhvammi 27 er gerði m.a. athugasemd við skuggavarp. Á fundi skipulagsnefndar hinn 17. maí 2011 var erindið tekið fyrir á ný. Jafnframt var greint frá fundi sem haldinn var með lóðarhöfum Fífuhvamms 27 og lagðar fram ljósmyndir er teknar voru af vettvangi. Hafnaði skipulagsnefnd erindinu með vísan til fram kominna athugasemda og niðurstöðu skipulagsnefndar frá 18. janúar 2011 og vísaði málinu til byggingarfulltrúa. Staðfesti bæjarráð afgreiðslu skipulagsnefndar 9. júní s.á. og bæjarstjórn 14. s.m. Synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda hinn 21. júní 2011 með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til athugasemda lóðarhafa Fífuhvamms 27 sem bárust við grenndarkynningu. Þar hafi verið talið að skuggamyndun á lóð Fífuhvamms 27 yrði óviðunandi, byggingin félli ekki að götumynd og myndi væntanlega rýra verðgildi fasteignarinnar. Þá hafi verið bent á að bílskúr á lóðinni virtist nýttur sem íbúðarhúsnæði, en að ekki hafi verið veitt samþykki fyrir íbúðarbyggingu á tveimur hæðum í lóðarmörkum. Telji kærandi að nefndar athugasemdir hafi ekki verið studdar haldbærum rökum og því beri að virða þær að vettugi. Bent sé á að mun meira skuggavarp stafi frá Fífuhvammi 27 en verði frá hinni umdeildu viðbyggingu. Þá hafi kærandi leitað til nokkurra arkitekta og hafi það verið samdóma álit þeirra að viðbyggingin myndi bæta ásýnd götunnar. Einnig hafi það verið samdóma álit nokkurra fasteignasala að fullyrðingar um verðrýrnun fasteignarinnar að Fífuhvammi 27 ættu ekki við rök að styðjast. Önnur rök sem sett hafi verið fram séu ómálefnaleg og hafi ekki þýðingu. Niðurstaða skipulagsnefndar frá 18. janúar 2011 sé vegna annars máls og varði annað hús. Eigi þau rök sem þar séu sett fram ekki við í máli þessu. Þá telji kærandi að gróflega hafi verið brotið gegn ákvæðum 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði þar sem fordæmi séu fyrir svipuðum viðbyggingum á svæðinu og um hafi verið sótt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær telur hina kærðu ákvörðun formlega og efnislega rétta og gerir þá kröfu að hún verði staðfest. Kærandi hafi sótt um að reisa tveggja hæða viðbyggingu austan megin við hús sitt árið 2006 en því hafi verið hafnað. Hafi þá verið lögð fram umsókn um byggingu bílskúrs og geymslu á einni hæð og hafi sú umsókn á endanum verið samþykkt, þrátt fyrir mótmæli nágranna. Þegar mat sé lagt á athugasemdir verði að líta til forsögu málsins. Lóðarhafi Fífuhvamms 27 hafi gert ítarlegar athugasemdir við fyrri grenndarkynningu og einnig hafi eigandi Víðihvamms 20 komið á framfæri athugasemdum. Ljóst sé að andstaða sé við framkvæmdina á meðal nágranna, en ekki sé hægt að ætlast til þess að þeir sendi inn ítarlegar greinargerðir í tilfelli sem þessu þegar um sé að ræða margendurteknar umsóknir um sömu bygginguna.

Telja verði að athugasemdir eiganda Fífuhvamms 27 séu málefnalegar og veigamiklar. Það sé til mikils ama og óþæginda að reist sé tveggja hæða bygging nánast á lóðamörkum. Slík bygging varpi skugga á aðliggjandi lóð og skerði útsýni auk þess, sem lítil prýði sé af því fyrir nágranna að hafa tveggja hæða húsvegg svo nálægt húsi sínu.

Þótt hugsanlega stafi meira skuggavarp af Fífuhvammi 27 en af Fífuhvammi 25 þá réttlæti það ekki að aukið sé við skuggavarp á lóðina nr. 27. Það sé engin regla að jafnvægi eigi að vera í skuggavarpi. Hins vegar sé það almenn regla að heimila ekki byggingarframkvæmdir sem skerði rétt nágranna nema eitthvað sérstakt komi til. Þá sé bent á að álit ónafngreindra aðila sem vitnað sé til án nokkurra gagna geti ekki haft vægi í málinu.

Tveggja hæða bygging við lóðamörk sé augljóslega á skjön við götumynd. Til séu bílskúrar í hverfinu sem liggi nálægt lóðamörkum en þeir séu ekki tveggja hæða. Þá sé ekki rökstutt hvernig skipulagsnefnd hafi brotið jafnræðisreglu með synjun sinni, en engar tveggja hæða byggingar hafi verði samþykktar svo nærri lóðamörkum.

Þrátt fyrir að þakformi byggingarinnar hafi verið breytt í síðustu umsókn kæranda sé hún þó hliðstæð fyrri tillögunni að öðru leyti. Því eigi sömu rök og sjónarmið að langmestu leyti við og fram hafi komið í umsögn skipulagsnefndar og því eðlilegt að hún hafi verið höfð til hliðsjónar eftir því sem við hafi átt. Bæjaryfirvöld hafi tvívegis hafnað tveggja hæða byggingu við lóðamörk kæranda og nágranna hans. Að baki þeim ákvörðunum hafi legið málefnalegar ástæður sem lýst sé í nefndri umsögn. Kærandi hafi því ekki getað haft réttmætar væntingar um að fá umsókn sína samþykkta. Þá sé loks tekið fram að með þeirri byggingu sem sótt sé um fari nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,36 en meðalnýtingarhlutfall lóða í hverfinu sé 0,29.

Andmæli kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar: Kærandi telur málsrök Kópavogsbæjar fela í sér rangfærslur, útúrsnúninga og órökstuddar fullyrðingar. Teikning af bílskúr við Fífuhvamm 25 hafi verið samþykkt án nokkurra mótmæla. Gengið hafi verið langt í því að koma til móts við óraunhæfar kröfur eigenda Fífuhvamms 27 um að draga úr byggingarmagni og miklu meira en eðlilegt geti talist með tilliti til jafnræðissjónarmiða. Áréttað sé að það samræmist ekki góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum að afgreiða mál á grundvelli algerlega óskyldra mála, en fyrrgreindar viðbyggingar séu með gjörólíku þakformi. Séu athugasemdir lóðarhafa Fífuhvamms 27, sem bæjaryfirvöld skírskoti til, órökstuddar. Þá sé bent á að þrjú hús í götunni séu á tveimur hæðum og á lóðamörkum. Þrír bílskúrar séu ígildi tveggja hæða húsa á lóðamörkum vegna hæðarsetningar, auk þess sem nokkur hús í götunni séu þrjár hæðir.

———

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í málinu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða synjun byggingarfulltrúa Kópavogs um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr að Fífuhvammi 25 var rökstudd með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 17. maí 2011, þar sem erindi kæranda var hafnað. Sú afgreiðsla var byggð á athugasemdum er bárust við grenndarkynningu erindisins, sem og á umsögn skipulagsnefndar, dags. 18. janúar s.á., er gerð var í tilefni af fyrri umsókn kæranda um leyfi til viðbyggingar ofan á téðan bílskúr. Var tiltekið í umsögninni að framlögð tillaga samræmdist ekki götumynd og hefði í för með sér íþyngjandi skuggamyndun á lóðirnar að Víðihvammi 20 og Fífuhvammi 27. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi óskaði með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, eftir því að skipulagsnefnd endurskoðaði samþykkt sína frá 18. janúar 2011. Bar kærandi meðal annars fyrir sig að gerðar hefðu verið breytingar á þakformi viðbyggingarinnar og kom jafnframt að athugasemdum um skuggavarp og götumynd. Var beiðni kæranda um endurskoðun hafnað en ný umsókn hans um viðbyggingu grenndarkynnt. Gerði sú umsókn ráð fyrir sléttu þaki á hinni umdeildu viðbyggingu í stað einhalla þaks. Við þá breytingu lækkaði heildarhæð viðbyggingar.

Umrædd viðbygging yrði ofan á bílskúr sem er að nokkru samsíða húsi kæranda. Er bílskúrinn í um 40 cm fjarlægð frá lóðarmörkum Fífuhvamms 27 og yrði viðbyggingin jafnstór bílskúrnum að flatarmáli, eða 56,8 m². Hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar við þetta úr 0,28 í 0,35. Meðalnýtingarhlutfall 18 lóða við Fífuhvamm og Víðihvamm er 0,29 samkvæmt fyrrgreindri umsögn skipulagsnefndar en finna má hærra nýtingarhlutfall lóða á svæðinu, svo sem að Fífuhvammi 23, sem hefur nýtingarhlutfallið 0,51. Ljóst er að grenndaráhrif verða vegna viðbyggingarinnar. Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun var vísað til umsagnar skipulagsnefndar frá 18. janúar 2011, sem átti við um aðra útfærslu umsóttrar viðbyggingar. Athugasemdir er bárust við grenndarkynningu, og þær athugasemdir kæranda sem fram komu er beiðni hans um endurskoðun á afgreiðslu fyrri umsóknar var til afgreiðslu, gáfu tilefni til að rannsaka málið frekar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var því ástæða til að kanna breytingar á skuggavarpi og hvort jafnræðis væri gætt hvað varðaði heimildir til nýtingar lóða á svæðinu, sem eins og fyrr segir hefur ekki verið deiliskipulagt. Að framangreindu virtu þykir undirbúningi og rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun svo áfátt að leiða eigi til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. júní 2011 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á bílskúr á lóðinni að Fífuhvammi 25 í Kópavogi.

___________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

81/2014 Þórunnartún

Með
Árið 2014, miðvikudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðar nr. 4 við Þórunnartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Anna Þórdís Rafnsdóttir hdl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigandi, húsfélag og leigjendur að Þórunnartúni 2, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. júlí 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.220.0 vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún, er fól í sér aukningu á byggingarmagni og breytingu á byggingarreit. Með bréfum til nefndarinnar sama dag kærir sami lögmaður sömu ákvörðun borgarráðs, annars vegar f.h. Höfðatorgs ehf. og hins vegar f.h. Höfðahótels ehf.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Hildur Leifsdóttir hdl., f.h. Höfðahótels ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2014 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á baklóð lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún, til að byggja þar ofan á inndregna 5. hæð og til að innrétta gististað með 93 herbergjum í flokki V, teg. a. Með tveimur bréfum til nefndarinnar, dags. 22. október 2014, kærir sami lögmaður annars vegar f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna, sem eru eigandi, húsfélag og leigjendur að Þórunnartúni 2, og hins vegar f.h. Höfðatorgs ehf., sömu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Gera allir kærendur þá kröfu að ákvörðun borgarráðs um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.220.0 vegna Þórunnartúns 4 og ákvörðun byggingarfulltrúans um veitingu byggingarleyfis á sömu lóð verði felldar úr gildi. Að auki eru gerðar kröfur um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Var hafnað kröfu kærenda frá 29. júlí 2014 um að yfirvofandi framkvæmdir yrði stöðvaðar með úrskurði uppkveðnum 18. september s.á. Gera kærendur nú þá kröfu að nýhafnar framkvæmdir við Þórunnartún 4 verði stöðvaðar til bráðabirgða.

Með úrskurðinum frá 18. september 2014 voru mál nr. 82/2014 og 83/2014 sameinuð máli þessu. Síðari kærumálin, sem eru nr. 113/2014, 114/2014 og 115/2014, verða nú einnig sameinuð máli þessu enda þykja hagsmunir aðila, sem allir eru þeir sömu, ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar í heild sinni. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til síðari stöðvunarkröfu kærenda, er varðar nýhafnar framkvæmdir við Þórunnartún 4.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 11. og 22. september, 5. og 19. nóvember og 2. desember 2014.

Málavextir: Hinn 5. mars 2014 var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar umsókn um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún. Var óskað eftir breytingu á byggingarreit og auknu nýtingarhlutfalli. Þá var þess óskað að skilmálum um bílastæði yrði breytt þannig að gert yrði ráð fyrir einu bílastæði á hverja 130 m2 nýbyggingar í stað eins bílastæðis á hverja 50 m2 nýbyggingar. Loks var þess óskað að leyfð yrði akstursleið á lóðinni við lóðamörk Þórunnartúns 2 og 4 vegna aðkomu takmarkaðrar umferðar inn á bílastæði á lóðinni. Akstursleiðin yrði sameiginleg með kvöð um gönguleið sem fyrir væri. Var skipulagsfulltrúa falið að hafa samband við hagsmunaaðila vegna nefndrar umferðarkvaðar. Hinn 12. s.m. var haldinn fundur á vegum skipulagsfulltrúa þar sem greind deiliskipulagsbreyting var kynnt ásamt þeim forsendum sem lágu að baki beiðni um breytingu á umferðarkvöð. Hinn 26 s.m. var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa breytingartillöguna samkvæmt lagfærðum uppdrætti. Var hún auglýst 9. apríl 2014, með athugasemdarfresti til 21. maí s.á. Bárust athugasemdir á þeim tíma, m.a. frá kærendum. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní s.á, var innsendum athugasemdum svarað og lagt til að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt óbreytt. Hinn 25. s.m. var tillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði og staðfest af borgarráði 3. júlí s.á. Var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 30. september 2014 að veita leyfi til að byggja viðbyggingu og innrétta 93 herbergi í húsi á lóðinni nr. 4 við Þórunnartún, í samræmi við breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Hafa kærendur kært framangreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að ákvörðun Reykjavíkurborgar gangi gegn áherslum og markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, sem og settum lögum og reglum. Feli breytingartillagan í sér að útbúin verði bílastæði ofanjarðar við Þórunnartún og þau verði aðgengileg með samnýtingu á gönguleið sem kvöð sé um og liggi milli Þórunnartúns 2 og 4. Ekki hafi verið lagt neitt rökstutt mat á það í ákvörðun Reykjavíkurborgar hvort umferð muni aukast við lóð Þórunnartúns 2 vegna greindrar samnýtingar, en kærendur telji ljóst að svo muni verða. Að auki fari breytingin þvert gegn 2. mgr. a-liðar í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem kveði á um öruggar, greiðar og aðlaðandi leiðir fyrir gangandi og hjólandi. Í aðalskipulagi Reykjavíkur komi fram að stefnt sé að vistvænni samgöngum með því að efla aðra ferðamáta en einkabílinn og draga úr aukningu bílaumferðar. Hafi kærendur áhyggjur af þeim áhrifum sem breytingin mun hafa í för með sér og búast megi við að töluvert ónæði muni hljótast af. Telji kærendur það óumflýjanlegt að aðgengi að Þórunnartúni 2 muni takmarkast með tilkomu nýs hótels.

Hafi Reykjavíkurborg ekki rökstutt hvar lóðarhafi hyggist gera pláss fyrir sorpgáma vegna reksturs hótelsins annars staðar en á fyrirhuguðum bílastæðum. Samkvæmt gr. 5.3.2.16. í skipulagsreglugerð sé skylt að gera grein fyrir afmörkun gámasvæða eða sorpgerða á lóðum utan hefðbundinna atvinnusvæða. Muni umþrættar breytingar leiða til fráhrindandi viðmóts gagnvart Þórunnartúni 2 og umhverfinu þar í kring, en að auki telji kærendur að ákvörðun Reykjavíkurborgar brjóti gegn ákvæði 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveði á um að í rökstuðningi ákvörðunar stjórnvalds skuli greina frá þeim réttarreglum og matssjónarmiðum sem ákvörðun byggist á. Virðist ákvörðun Reykjavíkurborgar byggjast á huglægum atriðum en ekki upplýsingum sem hafi verið aflað á faglegan hátt. Sé af þeim sökum um að ræða brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Sé einnig bent á að ekki sé um óverulega breytingu á samþykktu deiliskipulagi að ræða, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Telji kærendur að í hinni kærðu ákvörðun felist talsverð frávik frá notkun, útliti og formi viðkomandi svæðis og um verulega skerðingu á grenndarhagsmunum sé því að ræða. Hafi átt að fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og 2. mgr. gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð. Að auki hafi einn kærenda, Höfðahótel ehf., sótt um svipaðar breytingar á deiliskipulagi Höfðatorgs í september 2013, þar sem sótt hafi verið um 150 stæði á 75.000 m2 svæði eða aðeins eitt stæði á hverja 500 m². Hafi ekki verið fallist á þá umsókn með vísan til áherslna skipulagsyfirvalda í Reykjavík á umhverfis- og mannlífsvernd á svæðinu. Hafi forsendur ekki breyst svo mjög að lögmætt hafi verið að afgreiða hina kærðu breytingartillögu með öðrum hætti. Hafi því verið um að ræða brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Telji kærendur að af framangreindum ástæðum beri að fella úr gildi hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Af því leiði að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og beri því einnig að fella það úr gildi.
   
Málsrök sveitarfélagsins: Af hálfu Reykjavíkurborgar er því hafnað að deiliskipulagsbreytingin gangi gegn skilmálum deiliskipulagsins um umhverfisleg gæði. Umferð muni ekki aukast umfram það sem tekið hafi verið fram í deiliskipulagi fyrir breytingu. Sé umsókn Höfðatorgs ehf. um breytingu á deiliskipulagi Höfðatorgs, m.a. vegna fjölgunar bílastæða ofanjarðar um 150, ekki sambærileg við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Sé í deiliskipulagi Borgartúnsreits gert ráð fyrir bílastæðum á baklóðum allra bygginga, auk bílastæða við götu. Hins vegar segi í umsögn skipulagsfulltrúa um umsókn Höfðatorgs ehf. að í deiliskipulagi Höfðatorgs frá 2007 sé lögð áhersla að allt umhverfi ofanjarðar sé manneskjulegt og hafi af þeim sökum verið settir skilmálar varðandi bílastæði og ráðstöfun lóðar fyrir almenning. Þá sé í skilmálum deiliskipulags Höfðatorgs kveðið á um að bílastæði skuli vera að mestu neðanjarðar og sé á skipulagsuppdrætti sýndur takmarkaður fjöldi bílastæða ofanjarðar. Séu því gildandi deiliskipulagsforsendur ólíkar fyrir Borgartúnsreit 1.220.0 og fyrir reit Höfðatorgs. Að auki sé bent á að fyrirhuguð hótelbygging á lóð Þórunnartúns 4 sé 27% af stærð Höfðahótels og hafi hún ekki verið talin hafa í för með sér aukningu umferðar. Ekki sé fyrirhugað að nota bílastæði undir ruslagáma vegna reksturs hótelsins og af þeim sökum hafi ekki verið sett inn afmörkun fyrir slíka gáma í deiliskipulag fyrir lóðina.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé Þórunnartún 4 á reit blandaðrar miðborgarbyggðar, þar sem m.a. sé gert ráð fyrir gistiþjónustu. Heimili skipulagsleg staða Þórunnartúns 4 hótelrekstur og hafi svo verið frá því deiliskipulag fyrir svæðið hafi verið samþykkt árið 2004. Að auki sé bent á að deiliskipulagstillagan hafi ekki verið grenndarkynnt heldur auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi því ekki verið farið með breytingartillöguna eins og um óverulega breytingu væri að ræða, líkt og kærendur haldi fram.

Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulagsbreytinguna, sem hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst 2014.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að deiliskipulag frá árinu 2002 hafi heimilað hótelbyggingu og aukið nýtingarhlutfall á lóðinni áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi tekið gildi. Hafi fasteignin við Þórunnartún 4 verið keypt í þeim tilgangi að endurbyggja hana og breyta í hótel. Heimild til byggingar hótels á lóðinni hafi því legið fyrir áður en unnið hafi verið deiliskipulag Höfðatorgs og geti kærendur ekki með neinu móti komið í veg fyrir að hótel rísi á lóðinni. Snúi efni kæranna aðallega að bílastæðum og umferð.
   
Gerðar séu mismunandi kröfur um fjölda bílastæða eftir því hvort um gisti- eða ráðstefnuhótel sé að ræða. Hótelbyggingin að Þórunnartúni 4 muni verða gistihótel með 93 herbergjum og ekki sé þar gert ráð fyrir rekstri á opnum veitingastað. Muni bílaumferð vegna gesta því verða í lágmarki. Felist í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu fjölgun bílastæða um níu á lóðinni en um þrjú fyrir framan húsið. Hafi áður verið reknar skrifstofur í húsinu en slíkri starfsemi fylgi meiri bílastæðaþörf. Muni starfræksla hótels því létta á þörf fyrir bílastæði í næsta nágrenni, sem ætti að vera kærendum í hag. Að auki sé bent á að sameiginlega göngu- og aksturskvöð sé víða að finna í skipulagi og ljóst sé að umferðarhraði verði í algjöru lágmarki. Muni þessi aðkomuleið því ekki verða íþyngjandi fyrir kærendur. Séu áhyggjur kærenda af aukinni umferð ástæðulausar þar sem annar rekstur en gistihótel myndi hafa í för með sér mun meiri umferð um götuna. Einnig sé áréttað að með breytingum á Þórunnartúni 4 muni umhverfi og götumynd breytast til mikilla bóta, sem leiði til hækkunar á fasteignarverði.

Einnig sé bent á að ekki hafi verið gengið á rétt kærenda við afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar. Hafi hún verið kynnt fyrir kærendum og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar. Það hafi kærendur gert og hafi ítarlegar athugasemdir þeirra og sjónarmið legið fyrir við afgreiðslu deiliskipulagsins. Byggingarleyfið fari ekki í bága við samþykkt deiliskipulag. Að auki sé bent á að á sama tíma og kærendur séu að reyna að koma í veg fyrir framkvæmdaráform að Þórunnartúni 4, með því að bera fyrir sig aukna umferð og skort á bílastæðum, hafi Höfðatorg ehf., sem sé einn kærenda, sótt um aukið byggingarmagn fyrir veitingastað sem myndi draga að sér aukna umferð. Sé því ljóst að bakgrunnur kærunnar sé tilraun til að hefta samkeppni. Tilraunir til að hefta samkeppni eigi ekki að koma til skoðunar við afgreiðslu skipulagsmála.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar fyrir Borgartúnsreit vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún. Þá er deilt um byggingarleyfi það er styðst við hið breytta deiliskipulag. Er aðallega deilt um fjölgun bílastæða ofanjarðar og aukningu á umferð á tilgreindu svæði vegna umferðarkvaðar.

Sveitastjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Getur almenn stefnumótun í skipulagsáætlunum þar sem lögð er áhersla á gangandi umferð ekki takmarkað vald sveitarfélags til að ákveða nánara fyrirkomulag umferðar á skipulagssvæði, enda sé það í samræmi við lög og reglur. Í a-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segir að kvaðir skuli setja um umferðarrétt, þar sem það eigi við, og að áhersla skuli lögð á öruggar, greiðar og aðlaðandi leiðir fyrir gangandi og hjólandi. Áður en til hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingu kom var kvöð um gönguleið á lóð leyfishafa, við mörk lóðar hans og lóðar kærenda, en eftir breytinguna verður kvöðin sameiginleg um akstursleið vegna aðkomu að bílastæðum. Samkvæmt skilmálum eftir breytingu skal kvöðin útfærð þannig að gangandi umferð sé gert hátt undir höfði og þess gætt að ekki stafi hætta af bifreiðum við blindhorn. Verður ekki annað séð en að deiliskipulagsbreytingin uppfylli kröfur tilvitnaðs reglugerðarákvæðis.

Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst m.a. aukning byggingarmagns á umræddri lóð úr 2.373,2 m2 í 2.783,2 m2, eða um 410 m2. Þá er dregið úr kröfu um fjölda bílastæða þannig að í stað eins bílastæðis á hverja 50 m2 nýbyggingar verði eitt stæði á hverja 130 m2, auk þess mun bílastæðum fjölga ofanjarðar um níu. Fallast má á að umdeild skipulagsbreyting geti haft í för með sér einhver grenndaráhrif gagnvart kærendum, einkum vegna umferðar og fjölgunar bílastæða. Hins vegar er á það að líta að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Borgartúnsreiturinn á miðsvæði, en á slíkum svæðum er m.a. gert ráð fyrir þjónustu tengdri tiltekinni starfsemi, s.s. hótel- og veitingastarfsemi, og annarri sérhæfðri þjónustu. Var svo einnig samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem í gildi var þegar deiliskipulag Borgartúnsreits tók gildi 2004. Þá hefur heimild fyrir bílastæðum á lóðum svæðisins verið til staðar í deiliskipulagi Borgartúnsreits a.m.k. frá árinu 2004. Með hliðsjón af framangreindu verður hvorki talið að frekari rannsókna hafi verið þörf við töku hinnar kærðu ákvörðunar né að hagsmunum kærenda hafi verið raskað að því marki að ógildingu varði.

Kærendur hafa haldið því fram að samsvarandi umsókn um breytingu á deiliskipulagi Höfðatorgs, sem heimilað hefði bílastæði ofanjarðar, hafi verið synjað af borgaryfirvöldum á árinu 2013. Fyrir það svæði sem greind umsókn um deiliskipulagsbreytingu tók til gildir deiliskipulag Höfðatorgs. Eru skilmálar þess deiliskipulags ólíkir skilmálum deiliskipulags Borgartúnsreits 1.220.0. Þannig er í deiliskipulagi Höfðatorgs lögð áhersla á að bílastæði verði neðanjarðar og gert ráð fyrir að allt að 60% lóðarinnar verði opið svæði fyrir almenning en í deiliskipulagi Borgartúnsreits er hins vegar gert ráð fyrir bílastæðum ofanjarðar við byggingar á öllum lóðum reitsins. Þá felst í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu fjölgun bílastæða um níu en í umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi Höfðatorgs fólst beiðni um 150 stæði ofanjarðar. Verður því ekki séð að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með hinni kærðu ákvörðun, enda ekki um sambærileg tilvik að ræða.

Í hinu breytta deiliskipulagi er gert ráð fyrir bílastæðum á hinni umdeildu lóð en ekki gámasvæði. Hafa kærendur bent á að nefnd bílastæði kunni að verða notuð fyrir sorpgáma. Samkvæmt gr. 5.3.2.16. í skipulagsreglugerð skal afmarka gámasvæði og staðsetja þau á baklóðum eða í aflokuðum rýmum á lóðum utan hefðbundinna atvinnusvæða, þar sem þörf er á. Ekki liggur fyrir í málinu að nein þörf sé á eða áform séu uppi um meðferð eða geymslu sorpgáma á lóðinni, sbr. framangreint ákvæði, en ljóst er að geymsla þeirra á bílastæðum væri í andstöðu við deiliskipulagið.

Loks liggur fyrir að farið var með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga en ekki sem óverulega breytingu á deiliskipulagi og að hin umdeilda tillaga var sérstaklega kynnt hagsmunaðilum. Verður því ekki annað ráðið en farið hafi verið að lögum við meðferð málsins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað. Að framangreindri niðurstöðu fenginni, um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, er byggingarleyfið í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Borgartúnsreit 1.220.0. Verður kröfu um ógildingu þess því einnig hafnað.
   

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 3. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðar nr. 4 við Þórunnartún.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á baklóð, til að byggja inndregna 5. hæð þar ofan á og til að innrétta gististað með 93 herbergjum í flokki V, teg. a, á sömu lóð við Þórunnartún 4.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

94/2014 Ice Lagoon ehf

Með
Árið 2014, miðvikudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 15. ágúst 2014 um að krefjast þess að kærandi hætti starfsemi við austurbakka Jökulsárlóns og fjarlægi lausafjármuni sem þar standi í óleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

    úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. ágúst 2014, sem barst nefndinni 22. s.m., kærir Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl., f.h. Ice Lagoon ehf., þá ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 15. ágúst 2014 að krefjast þess af kæranda að hann hætti starfsemi við austurbakka Jökulsárlóns og fjarlægi lausafjármuni sem standi í óleyfi á svæðinu. Er þess krafist að að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2014, kærir sami aðili ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 26. s.m. um að beita kæranda dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur frá og með 2. september s.á. yrði hann ekki við þeirri kröfu sveitarfélagsins að fjarlægja hjólhýsi og húskerru af austurbakka Jökulsárlóns. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 96/2014, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Hornafirði 2. og 5. september og 10. nóvember 2014.

Málavextir: Hinn 10. janúar 2014 sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir hjólhýsi undir starfsmannaaðstöðu, húskerru fyrir flotgalla, bíl fyrir farþegaflutninga og færanlega salernisaðstöðu á austurbakka Jökulsárlóns, sem er í landi jarðarinnar Fells. Kærandi hafði gert leigusamning, dags. 20. apríl 2012, við sameigendafélag Fells um leigu á landspildu á greindu svæði undir atvinnurekstur. Var umsóknin tekin til umræðu á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar 21. janúar 2014 og bókað að nefndin væri jákvæð gagnvart erindinu. Óskaði nefndin eftir frekari gögnum en benti einnig á að samþykki landeigenda þyrfti að liggja fyrir. Hinn 11. júlí s.á. barst sveitarfélaginu bréf frá lögmanni eiganda minnihluta Fells þar sem gerðar voru athugasemdir við starfsemi kæranda en hún væri í óleyfi og óþökk eigandans. Hinn 22. s.m. sendi sveitarfélagið kæranda bréf þar sem skorað var á hann að hætta starfsemi við austurbakka Jökulsárlóns og fjarlægja lausafjármuni sem væru þar án leyfis. Bárust sveitarfélaginu andmæli frá kæranda með bréfi, dags. 1. ágúst. s.á., þar sem farið var fram á að sveitarfélagið rökstuddi ákvörðun sína en að auki bent á ýmsa annmarka við ákvörðunina. Hinn 13. s.m. var umsókn kæranda um stöðuleyfi á austurbakka Jökulsárlóns tekin aftur fyrir hjá umhverfis- og skipulagsnefnd. Taldi nefndin að húskerra og hjólhýsi væri stöðuleyfisskyldir lausafjármunir en synjaði umsókninni þar sem ekki lá fyrir samþykki allra eigenda jarðarinnar Fells. Með bréfi, dags. 15. s.m., svaraði sveitarfélagið framangreindri beiðni kæranda um rökstuðning fyrir ákvörðun sveitarfélagsins 22. júlí 2014. Var því lýst í bréfinu að litið væri svo á að í bréfi kæranda frá 1. ágúst fælist umsókn um stöðuleyfi. Var um það efni vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar frá 13. ágúst s.á. um að ekki væri hægt að veita kæranda stöðuleyfi vegna skorts á samþykki allra eigenda Fells. Jafnframt var kæranda veittur frestur til 21. s.m. til að verða við áskorun sveitarfélagsins en að öðrum kosti yrði gripið til viðeigandi úrræða. Var ákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir, og beindi kærandi beiðni um frestun réttaráhrifa til sveitarfélagsins á meðan kæra hans væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Hinn 26. s.m. barst svar frá sveitarfélaginu þar sem beiðni um frestun réttaráhrifa var hafnað en veittur var frestur til 1. september s.á. til að bregðast við áskorun sveitarfélagsins. Að öðrum kosti yrði dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur beitt frá og með 2. september 2014 í samræmi við ákvörðun bæjarráðs frá 25. ágúst 2014. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður er lýst.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hann hafi tilskilin leyfi sem ferðaskipuleggjandi samkvæmt lögum um skipan ferðamála, en að auki sé hann með starfsleyfi fyrir rekstri sínum, útgefið af Samgöngustofu. Sé ákvörðun sveitarfélagsins efnislega röng þar sem umræddir lausafjármunir séu ekki stöðuleyfisskyldir og hafi túlkun sveitarfélagsins sjálfs verið slík í bréfi til eigenda Fells, dags. 15. desember 2011, þ.e. að ekki þyrfti stöðuleyfi fyrir farartæki „á ferð“ hvort sem um væri að ræða bíla, báta, hjólhýsi, kerrur eða flugvélar. Verði ekki fallist á að sveitarfélagið sé bundið af túlkun sinni sé á því byggt að hjólhýsi falli undir a-lið gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar sé kveðið á um að skylda til stöðuleyfis hjólhýsa gildi frá 1. október til 1. maí ár hvert. Samkvæmt því sé því hafnað að hjólhýsi kæranda sé stöðuleyfisskylt allt árið um kring. Að auki sé því hafnað að þar sem hjólhýsið sé nýtt sem starfsmannaaðstaða og starfsstöð falli það undir b-lið greinarinnar. Að auki sé ekki fallist á að húskerra sé stöðuleyfisskyld. Séu þeir lausafjármunir sem séu stöðuleyfisskyldir tæmandi taldir í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerðinni og geti húskerra kæranda því ekki talist til stöðuleyfisskyldra muna. Hafi kærandi ekki viðurkennt í umsóknum sínum að lausamunir sínir séu stöðuleyfisskyldir. Að auki gangi sveitarfélagið ansi langt á rétt kæranda með því að nota skilning hans sem borgara gegn honum við beitingu opinbers valds. Geti slíkt ekki talist til góðra stjórnsýsluhátta.

Ekki sé kveðið á um það í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerðinni hvernig farið skuli með lóðir í sameign. Um slíkt hljóti að eiga að gilda almennar reglur eignaréttar. Samkvæmt meginreglum um sérstaka sameign þurfi aðeins samþykki meirihluta sameigenda til ráðstafana sem heyri til venjulegrar meðferðar og hagnýtingar eignar. Hljóti veiting stöðuleyfis að teljast til venjulegrar ráðstöfunar á sameign, enda sé það í eðli sínu óvaranleg og tímabundin ráðstöfun. Hafi kærandi gert leigusamning við sameigendafélag Fells, sem sé félag aukins meirihluta eigenda jarðarinnar Fells. Þar hafi honum verið veitt heimild til þess að hafa umþrætta lausafjármuni á umræddri landspildu. Fáist ekki staðist að samþykki allra sameigenda þurfi svo veita megi stöðuleyfi fyrir þessum hlutum, með þeim afleiðingum að minnihluti sameigenda geti komið í veg fyrir útgáfu slíks leyfis. Því hafi sveitarfélaginu borið að veita slíkt leyfi enda hafi öll skilyrði þess verið uppfyllt

Kærandi telji og að með bréfi, dags. 26. ágúst 2014, hafi sveitarfélagið tekið nýja ákvörðun í málinu og hafi af þeim sökum fallið frá því að krefja kæranda um að hætta starfsemi á austurbakka Jökulsárlóns. Hafi sú ákvörðun aðeins snúið að hjólhýsi og húskerru og hafi hún staðfest ákveðna annmarka á ákvörðun sveitarfélagsins frá 15. s.m. Að auki séu boðaðar dagsektir sveitarfélagsins fram úr öllu hófi og brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hjólhýsi, sem notað sé sem starfsmannaaðstaða, salerni og húskerra, fyrir flotgalla, þurfi stöðuleyfi. Í 9. tl. 60. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé kveðið á um að nánari útfærslu á stöðuleyfi sé að finna í reglugerð. Í greindum tölulið sé ekki tæmandi talning á þeim lausafjármunum sem gætu fallið undir ákvæðið, sbr. orðalagið „og þess háttar“. Sé hjólhýsi skilgreint sem færanleg aðstaða til gistingar innan afmarkaðs svæðis en venjuleg notkun hjólhýsa tengist ekki atvinnustarfsemi. Ljóst sé að kærandi noti hjólhýsi á austurbakka Jökulsárlóns í allt öðrum tilgangi en venja sé fyrir. Að mati sveitarfélagsins sé hjólhýsi sem ætlað sé fyrir slíka notkun stöðuleyfisskylt allt árið um kring. Að auki sé talið að samþykki allra landeigenda verði að liggja fyrir svo umsókn um stöðuleyfi uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar, enda segi í 2. málslið gr. 2.6.1. í reglugerðinni að umsókn um stöðuleyfi skuli vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðamanni viðkomandi hlutar og skuli fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar þar sem fyrirhugað sé að lausafjármunirnir muni standa.

Þegar jarðir séu í sérstakri sameign gildi sú regla að hver sameigandi hafi allar þær eignarheimildir sem fylgi jörðinni, með þeim takmörkunum sem gera verði vegna hagsmuna hinna sameigendanna. Þetta þýði að hver og einn sameigandi geti hagnýtt sameignina með þeim hætti, og án samþykkis sameigenda sinna, svo fremi sem það skerði í engu rétt annarra sameigenda. Sameigandi hafi þannig ekki heimild til að raska rétti annarra sameigenda með því t.d. að framkvæma breytingar á sameign, ráðstafa henni, stofna til samninga eða gera aðrar breytingar, nema með samþykki þeirra allra. Mat á því hvort ráðstöfun eða afnot þarfnist samþykkis meirihluta eða allra sameigenda ráðist af heildarmati á öllum aðstæðum. Sé litið svo á að ef ráðstöfun eða afnot sameignar séu meiriháttar eða ef ráðstöfun eða óvenjuleg þurfi samþykki allra eigenda óskiptrar sameignar.

Starfstöð kæranda sé staðsett á landspildu á austurbakka Jökulsárlóns, stutt frá starfsstöð Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Í nýju deiliskipulagi sé hvorki gert ráð fyrir starfsemi né mannvirkjum á því svæði sem kærandi hafi haft starfsstöð sína. Vegna náttúruverndargildis svæðisins og mikilvægis þess fyrir ferðaþjónustu hafi sveitarfélagið ákveðið að ekki yrði skipulagt nema eitt þjónustusvæði fyrir Jökulsárlón en að auki hafi verið ákveðið að verja önnur svæði við lónið eins og kostur sé. Ný og aukin atvinnustarfsemi utan skipulagsskilmála, líkt og eigi við um starfsemi kæranda, gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum nýja deiliskipulagsins.

Því sé hafnað að ný ákvörðun hafi verið tekin í málinu með erindi sveitarfélagsins, dags. 26. ágúst 2014. Hafi ákvörðun sveitarfélagsins frá 15. s.m., um að kæranda hafi borið að fjarlægja lausafjármuni á austurbakka Jökulsárlóns og láta af starfsemi, ekki breyst og standi því enn. Með erindi sínu frá 26. ágúst hafi sveitarfélagið ítrekað fyrri kröfur sínar um að kærandi skyldi fjarlægja greinda lausafjármuni sem hafi verið án stöðuleyfis. Sé að finna heimild í mannvirkjalögum til þess að innheimta allt að 500.000 krónur í dagsektir. Séu 250.000 krónur því vel innan marka. Við ákvörðun á fjárhæð sektarinnar hafi verið tekið tillit til áætlaðra daglegrar veltu kæranda af starfsemi sinni, sem og alvarleika brotsins. Hafi því meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar verið gætt við ákvörðun á upphæð dagsekta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvarðana bæjaryfirvalda Hornafjarðar að krefjast þess að tilgreindir lausafjármunir verði fjarlægðir að viðlögðum dagsektum. Að auki er deilt um þá kröfu sveitarfélagsins að kærandi hætti starfsemi sinni á austurbakka Jökulsárlóns. Af gögnum málsins verður ekki ráðið á hvaða forsendum síðastnefnda krafa sveitarfélagsins er reist en ekki er á valdsviði sveitarfélagsins að fjalla um þau leyfi kæranda sem gefin hafa verið út af Ferðamálastofu og Samgöngustofu. Verður af þeim sökum ekki fjallað frekar um nefnda kröfu sveitarfélagsins.

Samkvæmt 9. tl. 60. gr. laga nr. 60/2010 um mannvirki skulu í reglugerð vera ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir ákveðna lausafjármuni. Skal þar einnig kveðið á um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir séu ákvæði reglugerðarinnar ekki uppfyllt. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. nefndri reglugerð. Skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda skv. gr. 2.6.1. í reglugerðinni, og er leyfisveitanda veitt heimild í gr. 2.6.2. til að krefjast þess af eiganda að hann fjarlægi þá lausafjármuni sem getið er um í gr. 2.6.1. og staðsettir eru án stöðuleyfis. Loks er Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögunum eða reglugerðum.

Er ljóst samkvæmt skýru tilvitnuðu orðalagi byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga að byggingarfulltrúar, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, hafa forræði á framangreindu. Er það og í samræmi við það sem segir í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa. Auk þess sé lagt til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar, en slík samþykkt hefur ekki verið sett af sveitarstjórn Hornafjarðar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti.

Svo sem áður er lýst beindu bæjaryfirvöld áskorun til kæranda um að fjarlægja hina umdeildu lausafjármuni og hætta starfsemi, umhverfis- og skipulagsnefnd synjaði um stöðuleyfi og dagsektir voru síðan lagðar á kæranda samkvæmt ákvörðun bæjarráðs. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ekki ráðið að neinar sjálfstæðar ákvarðanir byggingarfulltrúa samkvæmt framangreindum ákvæðum hafi legið fyrir. Voru hinar kærðu ákvarðanir því ekki teknar í samræmi við málsmeðferð þá sem mannvirkjalög og byggingarreglugerð mæla fyrir um.
 
Verður máli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda liggur ekki fyrir nein sú ákvörðun í málinu sem bindur endi á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

 

82/2012 Syðra-Hvarf og Melar

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 um að synja um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna fasteignanna Syðra-Hvarfs og Mela 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2012, er barst nefndinni 16. s.m., kærir A, ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 um að synja um niðurfellingu álagningar sorphirðugjalda vegna fasteignanna Syðra-Hvarfs og Mela 2. Þá hefur kærandi gert þá kröfu fyrir úrskurðarnefndinni að hætt verði innheimtu þjónustugjalda fyrir þjónustu sem ekki er veitt og endurgreidd verði oftekin gjöld. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hann geri þá kröfu að ákvörðun um álagningu sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árunum 2011 og 2012 og fyrir Syðra-Hvarf á árunum 2007 og 2008 verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Dalvíkurbyggð 29. ágúst 2014, 3. og 24. september, sem og 14. október s.á.

Málavextir: Fasteignirnar Syðra-Hvarf og Melar 2 í Dalvíkurbyggð eru í eigu kæranda. Kærandi bjó að Melum 2 þar til hann flutti búferlum til Noregs og var lögheimili hans breytt á þann veg síðla árs 2010. Með bréfi til Dalvíkurbyggðar, dags. 29. apríl 2011, fór kærandi fram á endurskoðun á álagningu og innheimtu fasteignagjalda af greindum fasteignum. Var í erindi hans gerð athugasemd við álagningu og innheimtu þess liðar fasteignagjaldanna er varðar sorphirðu. Vísaði kærandi til þess að engin slík þjónusta hefði verið veitt um nokkurra ára skeið vegna greindra eigna. Hinn 11. maí s.á. var erindi kæranda tekið fyrir á fundi umhverfisráðs og það afgreitt með svohljóðandi bókun: „Umhverfisráð hafnar erindinu en bendir umsækjanda á að óska eftir endurmati húseignanna hjá Þjóðskrá séu húseignirnar ekki með rétt matsstig. Einnig er rétt að það komi fram að öll íbúðarhúsnæði í Dalvíkurbyggð bera sorphirðugjald því er ekki hægt að verða við erindinu.“ Fundargerð umhverfisráðs var lögð fyrir fund bæjarstjórnar hinn 17. s.m.

Kærandi mótmælti þessari afgreiðslu erindis síns með bréfi, dags. 28. júní 2011, og tók bæjarráð málið til nýrrar afgreiðslu á fundi sínum 29. júlí s.á. Samþykkti ráðið að fella niður sorphirðu- og fráveitugjald af fasteigninni Syðra-Hvarfi, afturvirkt frá 1. janúar 2009, og endurgreiða kæranda þau gjöld sem greidd höfðu verið. Bæjarráð hafnaði því hins vegar að fella niður sambærileg gjöld vegna Mela 2. Bent var á að kærandi hefði haft lögheimili að Melum 2 til ársins 2010 og að kærandi hefði sorpílát til umráða frá Dalvíkurbyggð. Færa mætti rök fyrir því að þrátt fyrir erlenda búsetu nyti kærandi þjónustu sveitarfélagsins við sorphirðu þegar hann kæmi til landsins til lengri eða skemmri dvalar. Var niðurstaða bæjarráðs tilkynnt kæranda 4. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 3. júní 2012, gerði kærandi athugasemdir við framangreinda ákvörðun bæjarráðs. Varðandi fasteignina Syðra-Hvarf fór kærandi fram á endurgreiðslu greiddra gjalda frá og með miðju ári 2007. Varðandi fasteignina Mela 2 benti kærandi á að hann hefði skilað sorpílátinu og gerði kröfu um endurgreiðslu gjalda frá ársbyrjun 2011. Bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar svaraði bréfi kæranda með tölvubréfi, dags. 25. júlí 2012. Þar sagði: „Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja hefur ekkert nýtt komið fram sem breytir niðurstöðu bæjarráðs […]“ og fylgdi bókun bæjarráðs frá árinu 2011 í tölvubréfinu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að enginn hafi búið á Syðra-Hvarfi síðan 2007 og að sorpílát fyrir Mela 2 hafi verið í geymslu frá því í desember 2009. Engin sorphirðuþjónusta hafi verið veitt síðan þá. Hins vegar hafi sorphirðugjöld einungis verið felld niður í tilfelli Syðra-Hvarfs og þá eingöngu afturvirkt frá 1. janúar 2009 en ekki 2007. Starfsmenn hjá tæknideild Dalvíkurbyggðar hafi bent kæranda á dæmi þess að sorphirðugjöld væru ekki lögð á íbúðarhús í sveitarfélaginu þar sem enginn væri með búsetu. Máli sínu til stuðnings bendi kærandi á að samkvæmt lögum sé sveitarfélögum heimilt að inniheimta gjald á hverja fasteignareiningu fyrir meðhöndlun úrgangs og að slíkt gjald skuli miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Gjald það sem sé innheimt skuli þó aldrei vera hærra en nemi þeim kostnaði sem falli til hjá sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi er samræmist markmiðum laganna. Gjaldskrá fyrir sorphirðu í Dalvíkurbyggð hafi verið staðfest af hálfu bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar með vísan til 8. gr. samþykktar um sorphirðu á Norðurlandi eystra nr. 541/2000. Í 8. gr. samþykktarinnar komi fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði við veitta þjónustu.

Málsrök Dalvíkurbyggðar: Af hálfu Dalvíkurbyggðar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 segi m.a. að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar heimilis- og rekstrarúrgangs í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn beri ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Bent sé á að í 8. gr. samþykktar um sorphirðu á Norðurlandi eystra nr. 541/2000 komi fram að kostnaður sveitarfélagsins sé ekki eingöngu bundinn við að útvega íbúum sveitarfélagsins sorpílát og annast losun þeirra. Einnig þurfi að safna úrganginum saman og ganga endanlega frá honum. Sveitafélagið hafi lagt til sorpílát fyrir Mela 2. Það sé á valdi kæranda hvort hann nýti sér þjónustuna. Ákvörðun kæranda um að nýta sér ekki þjónustu sveitarfélagsins leysi hann ekki frá þeirri skyldu sem hvíli á öllum fasteignaeigendum sveitarfélagsins að greiða sinn hlut í þeim kostnaði sem sé samfara sorphirðu. Varðandi Syðra-Hvarf vísi sveitarfélagið til mats byggingafulltrúa þess efnis að húsið hafi orðið óíbúðarhæft við lok árs 2008.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um niðurfellingu sorphirðugjalda vegna fasteigna kæranda, en ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 þar um var tilkynnt kæranda 4. nóvember s.á. Var þar tekið fram að afgreiðsla ráðsins væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar. Eins og áður er lýst gerði kærandi athugasemd við niðurstöðu bæjarráðs með bréfi, dags. 3. júní 2012, og var honum svarað með tölvupósti 25. júlí s.á. Athugasemdir kæranda báru glögglega með sér að hann væri ósáttur við afgreiðslu máls síns og ítrekar hann í erindi sínu þær kröfur sem hann hafði áður gert við meðferð málsins, þ.e. endurgreiðslu greiddra gjalda allt frá miðju ári 2007 vegna Syðra-Hvarfs og frá ársbyrjun 2011 vegna Mela 2. Með hliðsjón af forsögu þeirra samskipta sem þarna áttu sér stað var sveitarfélaginu rétt að líta á athugasemdir kæranda sem beiðni um endurupptöku málsins. Ber enda svar bæjarstjóra með sér það mat að ekki sé ástæða til athafna þar sem ekkert nýtt hefði komið fram sem breytti niðurstöðu málsins, en það er eitt skilyrða fyrir endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bæjarstjóri var hins vegar ekki bær til að afgreiða erindi kæranda með þessum hætti enda gilda almennar málsmeðferðarreglur um endurupptöku máls. Þannig skal stjórnvald það sem hefur ákvörðunarvaldið, sveitarstjórn í þessu tilviki, leysa úr slíkri beiðni í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Þar sem beiðni kæranda um endurupptöku hefur ekki hlotið lögformlega afgreiðslu verður þeim hluta kærumálsins vísað frá úrskurðarnefndinni.

Einnig er deilt um álagningu sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árunum 2011 og 2012 og fyrir Syðra-Hvarf á árunum 2007 og 2008. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að kæranda hafi í samskiptum sínum við sveitarfélagið verið gerð grein fyrir kæruheimild eða kærufresti vegna þeirrar álagningar. Þá er slíkar leiðbeiningar ekki að finna á álagningarseðlum þeim er finna má í gögnum málsins. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæra barst úrskurðarnefndinni 16. ágúst 2012 og var því kærufresturinn liðinn. Hins vegar verður, með vísan til þess að kæranda var ekki leiðbeint í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, að telja það afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna. Verður málið því tekið til efnismeðferðar að því er varðar lögmæti álagningar sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árinu 2012. Álagning fyrri ára kemur ekki til skoðunar með vísan til 2. mgr. 28. gr. laganna og verður þeim þætti kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr., nú 1. mgr. 8. gr., laganna er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Í þágildandi 11. gr., nú 23. gr., nefndra laga er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað sveitarfélagsins, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 11. gr. Í Dalvíkurbyggð gildir auk þess samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000, sbr. breytingasamþykkt nr. 483/2011. Í 8. gr. samþykktarinnar segir að sveitarstjórn sé heimilt að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu og megi gjöld aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði við veita þjónustu og að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu. Þá hefur sveitarfélagið á ári hverju sett sér gjaldskrá fyrir sorphirðu í Dalvíkurbyggð og um álagningu 2012 gilti gjaldskrá nr. 1053/2011, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. nóvember 2011. Kveður 2. gr. hennar á um að gjaldið sé lagt á hverja íbúð í lögsagnarumdæmi byggðarinnar.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og skýrt er tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Verður að telja að heimilt sé, með vísan til framangreinds, sem og til 2. gr. gjaldskrár þeirrar er Dalvíkurbyggð hefur sett sér um sorphirðu, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign og óháð búsetu. Loks er leitt í ljós að gjald vegna sorphirðu var lagt á kæranda vegna Mela 2 árið 2012 í samræmi við gjaldskrá nr. 1053/2011 og að heildarkostnaður sveitarfélagsins á árinu 2012 samkvæmt framlögðum gögnum var 32.175.739 krónur en álögð þjónustugjöld 19.098.071 króna. Var álagningin samkvæmt því í samræmi við það skilyrði laganna að álagning umræddra gjalda fari ekki fram úr kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu, sbr. 3. mgr. 11. gr. nefndra laga og fyrrgreindrar 8. gr. samþykktar nr. 541/2000. Með vísan til framangreinds verður hafnað kröfu kæranda um ógildingu álagningar sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árinu 2012.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni að því er varðar ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 um að synja um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna fasteignanna Syðra-Hvarfs og Mela 2 og einnig að því er varðar kærða álagningu áranna 2007, 2008 og 2011.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu álagningar sorphirðugjalds vegna Mela 2 á árinu 2012.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

118/2014 Seljadalur

Með
Árið 2014, föstudaginn 12. desember, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 118/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60 þús. m³.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. tilgreindra íbúa í nágrenni við Hafravatnsveg í Mosfellsbæ, þá ákvörðun  bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014, að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3. Er þess krafist að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi og að auki er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 28. nóvember 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 14. október 2014 var á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar tekin fyrir og samþykkt umsókn Malbikunarstöðvarinnar Höfða um framkvæmdarleyfi fyrir áframhaldandi  efnistöku í Seljadal í Mosfellsbæ frá október 2014 til 15. nóvember s.á. og frá apríl 2015 til 9. október s.á. Var óskað eftir framkvæmdarleyfi fyrir efnistöku að hámarki 60.0000 m3. Var afgreiðslan staðfest af bæjarstjórn hinn 22. s.m. Hinn 5. nóvember s.á óskaði Malbikunarstöðin Höfði eftir heimild til efnistöku og aksturs úr Seljadalsnámu fram að jólum 2014 og frá 16. mars til 9. október 2015, að undanskildu tímabilinu 1. júlí til 7. ágúst 2015. Hinn 11. nóvember 2014 var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og var samþykkt að vísa erindinu til bæjarráðs til afgreiðslu. Hinn 25. s.m. gaf skipulagsfulltrúi umsögn þar sem hann taldi að fallast ætti á ósk Malbikunarstöðvarinnar um breyttan vinnslutíma  og var hún samþykkt á fundi bæjarráðs 27. s.m.

Skírskota kærendur til þess framkvæmdaleyfið muni skerða einkaréttindi og friðhelgi heimila þeirra og frístundahúsa með svo stórkostlegum hætti að ekki sé hægt að við una. Einnig muni grjótnámið leiða til verulegrar verðrýrnunar á eignum kærenda. Hafi kærendur ríka hagsmuni af stöðvun framkvæmdanna þegar í stað. Umferð þungaflutningabifreiða eftir Hafravatnsvegi sé þegar hafin og gert sé ráð fyrir að námugreftri verði lokið innan árs, eða hinn 9. október 2015. Séu hagsmunir kærenda ríkari en hagsmunir framkvæmdaraðila af námugreftrinum enda hafi hann legið niðri um nokkurt skeið. Sé hætta á að framkvæmdunum verði lokið áður en úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð sinn ef ekki verði fallist á stöðvun framkvæmdanna þar sem almennt sé málsmeðferðartími fyrir nefndinni nokkuð langur.

Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuni að gæta við úrlausn málsins. Feli sú framkvæmd sem heimiluð hafi verið með hinu kærða leyfi í sér áframhaldandi heimild til efnistöku sem hafi átt sér stað um langt skeið og verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun hafi gengið gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kærenda þrátt fyrir að þeir búi í nálægð við framkvæmdarsvæðið. Verði ekki séð að knýjandi nauðsyn sé til þess að stöðva framkvæmdir. Beri að hafa í huga að stöðvun framkvæmda sé þrautaúrræði og feli ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011, sem kveði á um stöðvun framkvæmda, í sér að stöðvun megi aðeins beita ef yfirvofandi sé að framkvæmdir hefjist eða þær hafi nýverið byrjað. Hafi hinar umdeildu framkvæmdir hafist fyrir nærri 30 árum og því séu þær hvorki að hefjast né séu yfirvofandi. Beri af þeim sökum að hafna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Séu framkvæmdirnar heimilaðar til 23. desember 2014 og frá 16. mars 2015. Sé því fyrra framkvæmdartímabilinu að ljúka og framkvæmdir muni ekki hefjast að nýju fyrr en á vormánuðum 2015. Af þeim sökum sé ekki að sjá að knýjandi þörf sé á stöðvun framkvæmda þegar engar framkvæmdir standi yfir og muni ekki gera næstu mánuði.

Skírskotar leyfishafi til þess að fyrirvaralaus stöðvun framkvæmda muni leiða til verulegs fjárhagslegs tjóns. Liggi fyrir að ekkert fjárhagslegt tjón verði hjá kærendum þótt efnistakan fari fram á hinum stutta gildistíma leyfisins. Muni hið kærða leyfi renna út 9. október 2015 og ljóst að hverfandi líkur séu á því að það takist að ná því efni sem leyfi hafi verið veitt fyrir úr námunni ef fallist verði á stöðvun framkvæmda. Megi því gera ráð fyrir tvíþættu tjóni, annars vegar vegna röskunar á verktilhögun og skipulagningu vetrarstarfsins hjá fyrirtækinu en einnig vegna minni heildar efnisvinnslu sem sé fyrirtækinu afar mikilvægt. Séu hagsmunir leyfishafa miklir þar sem það hafi verið gert ráð fyrir efnistökunni í rekstraráætlunum fyrirtækisins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðun til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Bera framangreind lagaákvæði með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrif og stöðvun framkvæmda.

Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr Seljadalsnámu í Mosfellsbæ. Er heimild til efnistöku gefin til 9. október 2015 með hléum frá tímabilinu 23. desember 2014 til 16. mars 2015 og 1. júlí s.á. til 7. ágúst s.á. Er um tímabundnar framkvæmdir að ræða á svæði þar sem efnistaka hefur áður átt sér stað og mun framkvæmdahlé hefjast 23. desember n.k. Fyrir liggur að leyfishafi mun verða fyrir tilfinnanlegu tjóni ef af stöðvun framkvæmda verður. Að sama skapi liggur fyrir að ef verki yrði fram haldið yrði tímabundin röskun á hagsmunum kærenda, einkum vegna umferðar þungaflutningabifreiða sem og vegna hljóð- og rykmengunar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að hagsmunir kærenda knýi á um beitingu þeirrar undantekningarheimildar að stöðva framkvæmdir og verður kröfu þeirra þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir
 

 

80/2012 Þernunes

Með
Árið 2014, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. mars 2012 um að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að eigendum hússins að Þernunesi 6 í Garðabæ verði gert að lækka vegg á lóðinni í 1,80 m.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2012, er barst nefndinni næsta dag, kærir Sigurður G. Guðjónsson hrl., f.h. J, Þernunesi 6, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. mars 2012 að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að eigendur hússins að Þernunesi 6 lækki vegg á nefndri lóð. Var ákvörðun bæjarstjórnar kynnt kærendum með bréfi, dags. 10. júlí s.á. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, veittu nýir eigendur nefndum lögmanni umboð til að kæra til úrskurðarnefndarinnar fyrrgreinda ákvörðun og verður að líta svo á að með því hafi þeir orðið aðilar að rekstri málsins fyrir nefndinni.

Gera kærendur kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt er gerð krafa um að aðgerðir byggingarfulltrúa er miði að því að lækka greindan vegg verði bannaðar eða stöðvaðar komi til þeirra meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Garðabæ 7. mars og 22. október 2014.

Málsatvik: Mál þetta á sér langan aðdraganda en í allmörg ár hefur staðið styr um hæð veggjar á lóðinni að Þernunesi 6 í Garðabæ en árið 2004 var samþykkt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Árið 2007 tók skipulagsnefnd fyrir tillögu að breytingu á deiliskipulagi téðrar lóðar. Samþykkti nefndin stækkun byggingarreits en hafnaði 2,20 m háum vegg á lóðinni. Fór tillaga skipulagsnefndar fyrir bæjarstjórn og var hún þar samþykkt.

Með bréfi bæjarritara til þáverandi eigenda, dags. 28. nóvember 2011, var m.a. frá því greint að á fundi bæjarráðs hinn 25. október s.á. hefði verið tekið fyrir að nýju bréf, dags. 21. janúar 2008, varðandi steyptan vegg á umræddri lóð. Fram kom að á fundi bæjarráðs hefði bæjarstjóri greint frá viðræðum við eigendurna og bréfritara og sagt að fullreynt væri að ná sátt í málinu en að bréfritari hefði farið fram á að veggur umhverfis verönd fyrir framan húsið  yrði lækkaður. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna teldi bæjarráð að hæð veggjarins væri 38 cm umfram það sem heimilað væri samkvæmt samþykktum teikningum og útgefnu byggingarleyfi. Var eigendum hússins gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og tjá sig um málið fyrir 12. janúar 2012. Jafnframt var tekið fram að hefðu athugasemdir ekki borist fyrir þann tíma mætti búast við að bæjaryfirvöld gripu til aðgerða til að knýja fram úrbætur í samræmi við útgefið byggingarleyfi. 

Bréfi bæjarritara var svarað með bréfi, dags. 12. janúar 2012, þar sem fram kom að umræddur veggur væri málsettur 1,80 m miðað við plötuhæð hússins. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs 21. febrúar s.á. Samþykkti bæjarráð með vísan til 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að leggja til við bæjarstjórn „að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að húseigandi lækki hæð veggjarins um 38 cm eða í 180 cm eins og samþykktir uppdrættir sýna hæð hans miðað við hæðarkóda lóðar“. Samþykkti bæjarstjórn tillögu bæjarráðs hinn 1. mars s.á. og vísaði málinu til byggingarfulltrúa. Hafa kærendur kært þá afgreiðslu bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eigendur hússins að Þernunesi 8 hafi árið 2006 áritað samþykki sitt fyrir breytingum á teikningu af húsi kærenda. Sýni teikningin líkt og aðrir uppdrættir hinn umdeilda vegg. Hafi hönnunargögn hússins að Þernunesi 6 frá upphafi haft að geyma allar þær upplýsingar sem áskilið hafi verið í þágildandi 46. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. nákvæmar upplýsingar um vegginn. Byggingaryfirvöld hafi einnig fengið skýringarmynd af húsinu í þrívídd. Ofangreind gögn hafi byggingaryfirvöld lagt til grundvallar við útgáfu byggingarleyfis. Verði að ætla að byggingaryfirvöld hafi gætt að því hvort húsið samrýmdist sérstökum skipulags- og byggingarreglum bæjarins, ef einhverjar væru.

Í bréfi frá arkitektum hússins til byggingarfulltrúa í nóvember 2006 hafi verið tekið fram að téður veggur væri hluti af heildarhönnun hússins og rýmissköpun þess og væri því ekki girðing á lóðamörkum. Kalli breyting á honum á endurhönnun hússins. Byggi kótasetning í hönnunargögnum á upplýsingum frá Garðabæ. Veggurinn sé málsettur 1,80 m og liggi fyrir stimplaðar teikningar hjá byggingaryfirvöldum í Garðabæ með þeirri málsetningu. Þá hafi hvorki bæjar- né byggingaryfirvöld svarað fyrrnefndu bréfi, svo sem þeim beri þó að gera.

Byggingaryfirvöld séu bundin af útgefnu byggingarleyfi er byggi á 44. gr. laga nr. 73/1997. Um ívilnandi stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða, kærendum til handa. Hafi hún falið í sér leyfi til að reisa hús kærenda og samþykkt á hönnunargögnum, sem unnin hafi verið af þar til bærum aðilum, sbr. 46. og 47. gr. sömu laga. Þá hafi í ákvörðuninni falist heimild til að hefja framkvæmdir sem nú sé löngu lokið. Geti byggingaryfirvöld hvorki afturkallað né breytt ákvörðuninni að hluta þar sem skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ekki fullnægt, en samkvæmt 1. tl. 1. mgr. þess ákvæðis geti stjórnvald ekki afturkallað að eigin frumkvæði birta ákvörðun sé það til tjóns fyrir aðila máls.

Lækkun veggjarins myndi fela í sér verulegt fjárhagstjón fyrir kærendur og hreina eyðileggingu á hönnun hússins. Liggi ekkert fyrir um hvaða hagsmunir eigenda nærliggjandi fasteigna hafi skerts við útgáfu byggingarleyfisins. Samþykkt skipulagsnefndar frá nóvember 2006 um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar hafi aðeins lotið að breytingu á byggingarreit hennar. Engar breytingar á veggnum hafi verið kynntar en hann hafi verið á aðaluppdrætti allt frá 2004. Bendi ekkert til þess að byggingarleyfi hússins sé haldið þeim annmörkum að það sé ógildanlegt. Verði það ekki afturkallað að hluta eða því breytt til að koma í veg fyrir hugsanlegar bótakröfur annarra eigenda fasteigna við Þernunes. Um fordæmisgefandi úrskurði megi m.a. vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 35/2010.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagins er tekið fram að á uppdráttum samþykktum árið 2004 hafi verið sýndur 2,20 m hár veggur á lóð. Þegar gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi lóðarinnar hafi skipulagsnefnd samþykkt stækkun byggingarreits en hafnað því að veita leyfi fyrir 2,20 m háum vegg á lóð. Á grundvelli nýs deiliskipulags hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi í október 2007 en þar sé á uppdráttum sýndur 1,80 m hár veggur á lóðinni og sérstaklega tekið fram að girðing (veggur) sé lækkuð frá fyrri teikningum. Veggurinn hafi því verið sýndur á teikningu í samræmi við þágildandi 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar komi fram að ekki þurfi að leita samþykkis byggingarnefndar sé girðing/veggur á lóð ekki hærri en 1,80 m.

Við skoðun á teikningum hússins, þar sem sýnd sé sneiðing merkt A-A, sé gólfkóti (GK-kóti) við vegginn 8,70 en hæðarkóti við lóðarmörk, sem sýndur sé í sömu hæð, sé 8,26. Um sé að ræða mismun upp á 0,44 sem skýrist með engu öðru en að verið sé að beita blekkingum með því að falsa upplýsingar á teikningu. Á sömu sneiðingu sé sýndur 1,80 m veggur án þess að tilgreindur sé hæðarkóti jarðvegs við vegg. Því sé mótmælt að villandi framsetning á hæðarkótum á uppdrætti geti falið í sér heimild til að reisa 1,80 m vegg miðað við plötuhæð. Með sama hætti væri hægt að halda því fram að veggurinn eigi að vera 1,80 m, miðað við hæðarkóta á lóðarmörkum sem sé 8,26, eða 0,44 m lægri en hann sé í raun.

Við ákvörðun á hæð veggjarins beri að miða við jarðvegshæð lóðar þar sem veggurinn standi og leiði það beint af áðurnefndu ákv. 1. mgr. 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar. Í því komi skýrt fram að mæla eigi hæð girðingar/veggjar frá jarðvegshæð eða frá hæð lóðar við lóðarmörk sé hún meiri. Við mælingu á veggnum sé hann 2,18 m miðað við jarðvegshæð lóðar eða 38 cm of hár miðað við teikningar. Bygging veggjarins sé því ekki í samræmi við útgefið byggingarleyfi og sé það því lögmæt krafa af hálfu Garðabæjar, sbr. ákvæði 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 að krefjast þess að húseigandi lækki vegginn þannig að hann verði byggður á þann hátt sem leyfi standi til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. mars 2012 að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að veggur á lóðinni að Þernunesi 6 verði lækkaður.

Í 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa, og eftir atvikum Mannvirkjastofnun, veitt heimild til ýmissa þvingunaraðgerða, t.a.m. í þeim tilvikum þegar byggt er á annan hátt en leyfi stendur til. Þá kemur og fram í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, geti krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag. Segir í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Slík samþykkt var í gildi fyrir byggingarnefnd Garðabæjar og er áréttað þar að byggingarfulltrúi fari með verkefni sem mælt sé fyrir um í mannvirkjalögum. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði. Er ljóst samkvæmt skýru orðalagi laganna, sem nýtur frekari stuðnings í lögskýringargögnum, að byggingarfulltrúar, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, hafa einir forræði á að beita þeim heimildum sem um er rætt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var bæjarstjórn ekki til þess bær að taka hina kærðu ákvörðun heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa. Liggur ekki fyrir að slík ákvörðun hafi verið tekin og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

________________________________              _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

47/2013 Bugavirkjun

Með
Árið 2014, föstudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2013, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2013 um að veita leyfi til vatnsmiðlunar vegna fyrirhugaðrar virkjunar Bugalækjar í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir B hrl., f.h. Leirárskóga ehf., þá ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2013 að veita leyfi til vatnsmiðlunar vegna fyrirhugaðrar virkjunar Bugalækjar í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að öðrum kosti að sá hluti ákvörðunarinnar er lýtur að heimild til að veita vatni úr farvegi Bugalækjar verði felldur úr gildi.

Með bréfum, dags. 15. maí og 24. maí 2013, sem bárust úrskurðarnefndinni 15. og 24. s.m., kærir B hrl., f.h. kæranda máls þessa, jafnframt samþykki sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 14. maí 2013 fyrir veitingu framkvæmdaleyfis fyrir stíflugerð og ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 3. maí 2013 um að veita byggingarleyfi fyrir stöðvarhúsi vegna virkjunar Bugalækjar í landi Eystri-Leirárgarða. Gerir kærandi þá kröfu að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málin séu til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 48/2013 og 50/2013, sameinuð máli þessu enda málin samofin og lúta að sömu virkjunarframkvæmdum. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Orkustofnun vegna hins kærða leyfis til vatnsmiðlunar hinn 5. júní 2013 og umbeðin gögn frá Hvalfjarðarsveit vegna hins kærða framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis hinn 31. maí s.á.

Málavextir: Kærandi á land að eystri bakka Leirár, gegnt þeim stað þar sem Bugalækur rennur í ána. Leyfishafi hefur umráð lands sem nefndur lækur rennur um að bökkum Leirár.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda en hinn 24. september 2012 tók gildi breyting á deiliskipulagi Eystri-Leirárgarða er gerði m.a. ráð fyrir gerð vatnsaflsstíflu í Bugalæk, vegna virkjun lækjarins. Kærandi í máli þessu skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Jafnframt var ákvörðun Hvalfjarðarsveitar um byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda skotið til nefndarinnar og þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 16. nóvember 2012 var fallist á þá stöðvunarkröfu, með vísan til þess að ekki lægi fyrir leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar Bugavirkjunar og léki því vafi á því hvort fullnægt hefði verið lagaskilyrðum til að veita mætti leyfi til mannvirkjagerðar, sem m.a. fæli í sér gerð miðlunarlóns.
 
Virkjunaraðili sótti í framhaldi af því með bréfi, dags. 21. nóvember 2012, um leyfi Orkustofnunar fyrir gerð miðlunarlóns samkvæmt 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923 vegna fyrirhugaðrar virkjunar Bugalæks. Var með bréfi Orkustofnunar, dags. 22. nóvember s.á., veitt leyfi til vatnsmiðlunar við Bugavirkjun. Tók leyfið til gerðar miðlunar- og inntakslóns, allt að 15.000 m2 að flatarmáli, í landi Eystri-Leirárgarða. Kærandi máls þessa skaut þeirri ákvörðun einnig til úrskurðarnefndarinnar, með kröfu um ógildingu.

Með úrskurði í máli nr. 112/2012, uppkveðnum hinn 28. febrúar 2013, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um ógildingu fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar. Sama dag var kveðinn upp úrskurður í málum nr. 115 og 121/2012, þar sem ákvarðanir um veitingu framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis vegna virkjunar Bugalækjar voru felldar úr gildi þar sem á skorti að leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar Bugalækjar hefði legið fyrir við veitingu framkvæmda- og byggingarleyfisins. Þá var hið kærða leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar fellt úr gildi með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 128/2012, uppkveðnum 6. mars 2013.

Orkustofnun tók umsóknina um fyrrgreint leyfi til vatnsmiðlunar að nýju til meðferðar eftir uppkvaðningu úrskurðarins um ógildingu fyrra leyfis. Var kæranda þá gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða vatnsmiðlun Bugalækjar ásamt öðrum aðilum sem þóttu eiga hagsmuna að gæta vegna málsins. Þá leitaði stofnunin umsagnar Fiskistofu og kynntu fulltrúar Orkustofnunar sér staðhætti á vettvangi. Var hið kærða leyfi til vatnsmiðlunar síðan veitt hinn 19. apríl 2013. Í kjölfar þess samþykkti byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar umsókn um byggingarleyfi hinn 3. maí 2013 og sveitarstjórn samþykkti umsókn um framkvæmdaleyfi 14. s.m. vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda í landi Eystri-Leirárgarða. Voru framkvæmdaleyfið og byggingarleyfið gefin út hinn 17. maí 2013. Hin kærðu leyfi heimila gerð stíflu fyrir 40 kW virkjun með um 1,5 ha uppistöðulóni auk um 1.750 m niðurgrafinnar fallpípu að stöðvarhúsi við bakka Leirár og rafstreng að spennistöð RARIK.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að Orkustofnun hafi með ákvörðun sinni brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923.

Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að við úrlausn máls skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Orkustofnun hafi kannað aðstæður á vettvangi ásamt talsmanni virkjunaraðila og sé það gróft brot á jafnræðisreglunni að kæranda hafi ekki verið boðið að taka þátt og túlka sín sjónarmið. Þá hafi fulltrúar stofnunarinnar eingöngu farið að fyrirhuguðu miðlunarlóni og að mótum Bugalækjar og Leirár en hvorki virðist hafa verið farið að mótum Skarðsár og Leirár né kannað annað rennsli annarra lækja í ánni. Þessi framganga hafi orðið til þess að mjög sé hér hallað réttu máli.

Orkustofnun hafi ekki rannsakað sjálfstætt áhrif fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar á vötn og vatnsréttindi annarra, skerta nýtingarhagsmuni og almannahag, eins og henni hafi borið samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 6. mars 2013. Stofnunin hafi ekki kannað rennsli Leirár eða borið saman með réttum hætti rennsli hennar og Bugalækjar. Þá hafi ekki verið skoðuð þau svæði er máli skipti, svo sem rennsli annarra áa og lækja sem renni í Leirá fyrir ofan mælingarstað í ánni og allt upp að Bugalæk. Þá hafi ekki verið rannsakað hverjir aðrir eigi vatns-, land- eða eignaréttindi að Leirá og viðhorf þeirra könnuð. Sé þetta skýlaust brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Eina sjálfstæða rannsókn stofnunarinnar hafi verið að senda lögfræðing og byggingarverkfræðing til að skoða hluta vettvangs undir leiðsögn annars málsaðila. Að mati kæranda sé rannsóknarskyldu ekki fullnægt án aðkomu líffræðings að vettvangsrannsókninni, sem kanni áhrif mannvirkjagerðar á lífríki árinnar.

Þá hafi verið nauðsynlegt á grundvelli fyrrgreinds úrskurðar að afla nýrra umsagna frá Skipulagsstofnun og Veiðimálastofnun um áhrif umdeildrar virkjunar. Í skýrslu Veiðimálastofnunar, sem hafi fylgt deiliskipulagstillögu fyrir svæðið, komi fram að töluverður fjöldi fiskiseiða finnist í Bugalæk og að vatnsrennsli lækjarins nemi umtalsverðum hluta vatnsrennslis í Leirá, sérstaklega á þurrkatímum. Þurrviðri hafi aukist á undanförnum árum á Vesturlandi og skipti því vatnsrennslið frá Bugalæk vaxandi máli á næstu árum fyrir vatnsbúskap Leirár. Góðir veiðistaðir séu í ánni á því svæði sem verði af vatnsrennsli úr Bugalæk og framkvæmdir muni hafa veruleg áhrif á þá. Jafnframt komi fram í áðurgreindri skýrslu að farvegur Bugalækjar hafi gildi sem uppeldisstöð fyrir silunga- og laxaseiði. Þurft hefði að rannsaka gildi Bugalækjar sem hrygningarsvæðis, enda sé rennsli og hitastig þar trúlega stöðugra en í Leirá og gott skjólsvæði fyrir seiði, sérstaklega að vetri til.

Augljóst sé að mælingar á vatnsmagni sem fram komi í fyrirliggjandi umhverfisskýrslu séu langt frá því að vera vísindalegar og vart marktækar, a.m.k. ekki til samanburðar, þar sem tímabil séu ekki þau sömu. Líklegt sé að vatnsrennsli Bugalækjar skipti mestu fyrir lífríki Leirár á þurrkatímum og köldum vetrarmánuðum. Þegar lagt sé mat á rennsli verði að miða við lægstu þolmörk, því þau geti skilið milli lífs og dauða fyrir lífríki árinnar. Gera þurfi mælingar á rennsli og lífríki í allmörg ár til að meta náttúrulegar sveiflur, sem geti verið verulegar á milli ára. Þá hefði verið réttara að mæla vatnsrennsli í Leirá rétt neðan við ármót Bugalækjar og Leirár. Mælingar hafi farið fram á stað þar sem margir lækir og ár hafi sameinast Leirá en með því verði mælt hlutfall Bugalækjar í vatnsrennsli Leirár mun minna en ella væri.

Hvorki sé kunnugt um að lagaleyfi sé fyrir því að gerstífla Bugalæk, eða breyta vatnsmagni hans og Leirár, né hafi verið leitað heimildar eða samþykkis kæranda, eins og kveðið sé á um í 7. gr. vatnalaga. Auk þess sé ekki kunnugt um að leitað hafi verið samþykkis nema fárra eigenda að Leirá sem verði fyrir skerðingu á vatni. Vatnsréttindi í Leirá séu í sameign þeirra landeigenda sem eigi land að ánni. Þeirri skipan eða skerðingu á vatnsmagni árinnar verði ekki breytt nema með eignarnámi eða samkomulagi eigenda, þar sem vatnsréttindi njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í ákvörðun Orkustofnunar sé sett það skilyrði að veita skuli vatni Bugalækjar í fornan farveg Leirár þegar landareigninni sleppi. Fráleitt sé að fullnægt sé fyrrgreindu ákvæði vatnalaga um að vötn skuli renna sem að fornu hafi runnið með því að Bugalækur fari síðar í fornan farveg annarrar ár. Með orðunum „sérstök heimild“ í fyrrnefndri 7. gr. sé einkum átt við heimildir þeirra sem eigi þau réttindi sem raskað sé við gerstíflun eða með breyttu vatnsmagni til að gera samning þar um. Í orðunum felist ekki að almennt lagaákvæði heimili stjórnvaldi að taka stjórnarskrárvarin réttindi af eiganda þeirra og afhenda þau þriðja aðila.

Þótt stjórnvald hafi heimild til tiltekinna leyfisveitinga verði það ætíð að gæta að lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Ákvarðanir þurfi að samræmast öðrum ákvæðum laga og þá ekki síst þeirra sem ákvörðunin byggist öðrum þræði á, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. mars 2013. Væntanleg virkjun sé eingöngu í þágu þeirra aðila sem hana hyggist reisa en það sé grundvallarregla að ef skerða þurfi stjórnarskrárvarin eignaréttindi sé það bundið við að það sé í almannaþágu. Vatnalög eða önnur almenn lög geti ekki upphafið ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignaréttinda.

Áðurnefndur úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 6. mars 2013 hafi byggt á því að form- og efnislegur annmarki hafi verið á fyrri ákvörðun Orkustofnunar um heimild fyrir virkjuninni. Meginregla stjórnsýsluréttarins sé sú að ógilding stjórnvaldsákvörðunar vegna efnisannmarka sé endanleg í þeim skilningi að stjórnvald geti yfirleitt ekki tekið aðra ákvörðun með sama efnislega innihaldi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins virðist sem Orkustofnun hafi að þessu sinni tekið málið upp af sjálfsdáðum en heimild til endurupptöku sé bundin við að aðili máls fari fram á hana auk þess að fyrir hendi þurfi að vera forsendur sem tilgreindar séu í 24. gr. stjórnsýslulaga.

Ekki verði af úrskurði nefndarinnar ráðið að Orkustofnun hafi átt að taka afstöðu til breytinga á rennsli Bugalækjar eða vísa til lax- og silungsveiðilaga, eins og Orkustofnun hafi haldið fram við meðferð málsins. Orkustofnun rugli saman hugtökunum „sjálfstæð rannsókn“ og „sjálfstæð afstaða“. Stofnunin hafi átt að rannsaka tiltekna þætti sjálfstætt en ekki að beita fyrir sig rannsóknum annarra og taka afstöðu á grundvelli slíkra rannsókna. Það sé hluti af rannsóknarskyldu Orkustofnunar að rannsaka rennslið og geti hún hvorki vísað til þess að hún sé ekki fær um að draga í efa faglegar vatnamælingar né að kærandi hafi ekki bent á aðrar mælingar sem dragi í efa fyrirliggjandi gögn. Þá bendi kærandi á úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 28. febrúar 2013 varðandi deiliskipulagið þar sem sérstaklega sé fundið að því hvernig mælingum á rennsli Bugalækjar og Leirár hafi verið háttað þótt það hafi ekki valdið ógildingu deiliskipulagsins.

Heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi, sem hafi nánast í för með sér gerstíflun Bugalækjar, styðjist við hina kærðu ákvörðun  Orkustofnunar um leyfi til vatnsmiðlunar, sem sé haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði. Af þeim sökum beri að fella framkvæmdaleyfið og byggingarleyfið úr gildi.

Málsrök Orkustofnunar: Stofnunin vísar til þess að við undirbúning hinnar kærðu leyfisveitingar hafi hagsmunaaðilum, þ.á m. kæranda í máli þessu, verið tilkynnt um meðferð málsins og gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess hafi Fiskistofu verið veitt færi á að koma á framfæri umsögn vegna fyrirhugaðrar vatnsmiðlunar og stíflugerðar Bugalækjar með hliðsjón af V. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og 144. gr. vatnalaga. Þá hafi skoðun á aðstæðum farið fram á vettvangi af hálfu fulltrúa stofnunarinnar. Umræddum framkvæmdum hafi ekki verið mótmælt nema af hálfu kæranda. Stofnunin hafi lagt mat á það á sjálfstæðan hátt við undirbúning hinar kærðu ákvörðunar hvort fyrirhuguð vatnsmiðlun myndi hafa slík áhrif á hagsmuni annarra að rétt hefði verið að synja fyrirliggjandi umsókn. Niðurstaðan hafi orðið sú að veita umrætt leyfi að nýju með tilteknum skilyrðum enda hafi stofnuninni borið að taka umsókn leyfisveitanda fyrir að nýju að hans ósk, og bæta úr, þeim ágöllum sem taldir hefðu verið á fyrri ákvörðun. Orkustofnun sé ætlað að fara með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt vatnalögum, m.a. vegna leyfisskyldra framkvæmda, sbr. 2. mgr. 143. og 1. mgr. 144. gr. laganna. Í því felist m.a. að stofnunin geti sett skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi í vötnum sé þess talin þörf af tæknilegum ástæðum eða vegna varðveislu nýtingarmöguleika vatns. Því sé ljóst að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar sé á lögum reist og í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.
Ýmsar sérreglur gildi um heimild landeiganda til hagnýtingar á vatni sem á landi hans sé eða um það renni án þess að það tengist almannahagsmunum eða það þurfi að nýta í þágu þeirra hagsmuna. Um vatn það sem 9. og 10. gr. vatnalaga taki til gildi sú regla að landeigandi hafi hvers konar ráð og not slíks vatns nema á annan veg sé mælt í lögum. Þessi réttindi hafi því samstöðu með öðrum heimildum eignaréttar auk sérstakra heimilda annarra samkvæmt t.d. 17. gr. laganna, sem taki til nýtingar til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju, en orkuframleiðsla til nútíma búrekstrar megi eðli máls samkvæmt flokka undir slíka iðju. Styðjist sú ályktun einnig við ákvæði 5. tl. 10. gr. vatnalaga um aðgangsröðun að vatni á landareign vegna orkuþarfar, en lögin setji þó nýtingu landeiganda skorður með tilliti til hagsmuna annarra sem hafi not af sama vatni. Reynt sé að fara þann meðalveg að heimila landeiganda hin nauðsynlegustu vatnsnot án þess að öðrum sé gerður óhóflegur bagi.

Óumdeilt sé að áin Leirá sé í óskiptri sameign þeirra landeigenda sem land eigi að ánni. Samkvæmt grundvallarreglum eignaréttarins sé hverjum landeigenda heimilt að nýta eign sína og gera vissar ráðstafanir sem séu öðrum eigendum bagalausar. Í 49. gr. vatnalaga sé þessi regla orðuð svo hvað varði orkunýtingarrétt landeiganda: „Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla, né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, er nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo að til verulegra óþæginda horfi.“

Samkvæmt fyrirliggjandi rennslismælingum í Leirá, sem gerðar hafi verið um einum km ofan brúar á þjóðvegi, í mars 2008 til maí 2009, hafi meðalrennsli árinnar verið á bilinu 1.000 til 1.500 l/sek en minnsta rennsli 300 l/sek. Mælingar í Bugalæk á sama tíma sýni að hlutfall rennslis Bugalækjar hafi verið frá 3,7% til 12,2% af rennsli árinnar. Þá sýni niðurstöður rennslismælinga í Bugalæk frá júlí 2007 til ágúst 2010, sem vitnað sé til í umhverfisskýrslu deiliskipulags svæðisins, að meðalrennsli lækjarins hafi verið um 150 l/sek. Lægst hafi rennslið verið 50 l/sek en hæst 300 l/sek. Umrædd virkjun Bugalækjar sé talin hafa óveruleg áhrif á rennsli Leirár á um 1.800 m kafla og leiði að hámarki til um 15% minnkunar rennslis miðað við mælt lágrennsli í ágústmánuði. Í nefndri umhverfisskýrslu komi og fram að grípa þurfi til mótvægisaðgerða til að hindra að jarðrask samfara virkjunarframkvæmdum geti valdið gruggi í ánni og að eiturefni, svo sem olíur, berist í vatnið. Áhrif skipulagsins á rennsli Bugalækjar verði talsvert neikvæð en óveruleg á rennsli Leirár, veiði og fiskistofna. Í umsögn Fiskistofu, dags. 18. mars 2013, sé vísað til fyrri umsagnar stofnunarinnar um málið frá árinu 2011 um að eðlilegast væri að fallast á fyrirhugaða framkvæmd og þess getið að framkvæmdaaðilar hafi síðar leitað til Veiðimálastofnunar um nýja umsögn. Sú stofnun hafi framkvæmt nýjar seiðamælingar í júní 2012. Hafi niðurstaðan orðið sú að lítil áhrif yrðu af virkjuninni á stofna laxfiska og veiði í Leirá. Þá liggi fyrir að landeigendur og hagsmunaaðilar í Veiðifélagi Leirár, að kæranda undanskildum, hafi ekki lagst gegn umræddri framkvæmd. Enn fremur hafi leyfishafi samþykkt að hleypa úr miðlunarstíflu í farveg Bugalækjar fari rennsli Leirár niður fyrir 180 l/sek, þannig að rennsli árinnar verði að lágmarki 180 l/sek hjá Leirárlaug. Í ljósi alls þessa hafi það verið mat Orkustofnunar að heimiluð vatnsmiðlun raskaði ekki vatnsréttindum annarra svo færi í bága við vatnalög.

Með hinni kærðu ákvörðun Orkustofnunar hafi verið stefnt að því lögmæta markmiði að tryggja öryggi við stíflugerð í Bugalæk og virða eðlilegan nýtingarrétt landeigenda. Tekin hafi verið afstaða til annarra atriða vatnalaga, m.a. á grundvelli réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins, sem af nýtingu vatnsmiðlunar leiði og skert gæti vatnsréttindi annarra í Leirá þ.m.t. kæranda.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Hvalfjarðarsveit tekur fram að ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja hið umþrætta framkvæmdaleyfi hafi verið lögmæt enda samræmist hún gildandi deiliskipulagi. Ákvörðunin hafi komið til vegna umsóknar virkjunaraðila og hafi öll tilskilin leyfi verið fyrir hendi þ. á m. leyfisbréf Orkustofnunar ásamt öðrum lögboðnum gögnum og upplýsingum. Tilvitnað leyfi Orkustofnunar, sem hafi að mati Hvalfjarðarsveitar verið gefið út að undangenginni vandaðri málsmeðferð og með rökstuddum hætti, hafi legið fyrir þegar framkvæmdaleyfi hafi verið veitt og því hafi skilyrði reglugerðar nr. 772/2012 varðandi útgáfu framkvæmdarleyfis verið uppfyllt. Hafi því skipulags- og byggingarfulltrúa verið rétt að gefa út umrætt byggingarleyfi.

Andmæli handhafa hinna kærðu leyfa: Leyfishafi mótmælir kröfum kæranda um ógildingu umræddra leyfa. Öll lögmælt leyfi liggi fyrir sem heimili umdeildar virkjunarframkvæmdir og sé vísað til þeirra gagna sem þegar liggi fyrir vegna kærumála sem varði nefnda virkjun.

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst deilt um umhverfisáhrif miðlunar vatns úr Bugalæk vegna virkjunarframkvæmda í Leirá og þar með hagsmuni kæranda sem landeiganda að bakka árinnar gegnt þeim stað sem lækurinn rennur nú í ána.

Eins og rakið hefur verið telur kærandi ýmsa ágalla hafa verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar Orkustofnunar um að veita leyfi til vatnsmiðlunar vegna virkjunar Bugalækjar.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 6. mars 2013, um ógildingu fyrri afgreiðslu Orkustofnunar á umsókn leyfishafa um greinda vatnsmiðlun, tók stofnunin umsóknina að nýju til meðferðar. Hefur kærandi andmælt þeirri málsmeðferð. Þegar annmarkar á meðferð máls hjá stjórnvaldi leiða til ógildingar á afgreiðslu þess ber því að taka málið til meðferðar að nýju og bæta eftir atvikum úr þeim annmörkum sem taldir hafa verið á fyrri afgreiðslu þess. Verður því ekki fallist á að nauðsyn beri til að nýtt erindi eða umsókn þurfi að koma til svo mál verði til lykta leitt, enda liggur þá fyrir erindi sem ber að afgreiða með lögmætum hætti nema það hafi verið afturkallað af hálfu málshefjanda.

Við hina nýju málsmeðferð umsóknar leyfishafa var kæranda og öðrum hagsmunaaðilum vegna vatns- og veiðiréttinda í Leirá gefinn kostur á að tjá sig um fyrirliggjandi umsókn. Tók Orkustofnun afstöðu til fram kominna athugasemda kæranda í bréfi, dags. 19. apríl 2013, er fylgdi leyfisbréfi til leyfishafa, og fékk kærandi afrit þess bréfs. Jafnframt var að nýju leitað umsagnar Fiskistofu vegna málsins í bréfi, dags. 11. mars 2013, sem í svari sínu, dags. 18. s.m., vísaði til bréfs síns, dags. 19. janúar 2012, þar sem fallist var á fyrirhugaðar framkvæmdir við Bugavirkjun. Sú ábending var þó ítrekuð að vatni yrði veitt fram hjá virkjuninni á þurrasta tíma yfir sumarið til að tryggja göngu fisks í efsta hluta Leirár. Fulltrúar Orkustofnunar kynntu sér staðhætti á vettvangi og getur það ekki talist ógildingarannmarki á málsmeðferð þótt kærandi hafi ekki verið kvaddur til af því tilefni. Slík skoðun vettvangs er ekki til þess ætluð að málsaðilar reifi þar sjónarmið sín og málsástæður enda liggja þau að jafnaði fyrir í gögnum máls. Ítarlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar lá fyrir, m.a. í umhverfisskýrslu vegna breytingar á deiliskipulagi Eystri-Leirárgarða er tók gildi 24. september 2012, sem byggir á umsögnum opinberra aðila og verkfræðistofu á áhrifum umræddra virkjunarframkvæmda. Ekki verður sú krafa gerð að stjórnvald þurfi sjálft við meðferð máls að annast rannsóknir sem nauðsynlegar þykja heldur sé því rétt að leita umsagna og skýrslna annarra stofnana eða fagaðila á viðkomandi sérfræðisviði. Við töku ákvörðunar getur stjórnvald stuðst við slík sérfræðiálit, enda einatt um að ræða álit og umsagnir á sérsviðum sem viðkomandi stjórnvald hefur ekki sérþekkingu á.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður talið að gætt hafi verið rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar Orkustofnunar og andmælaréttur kæranda verið virtur.

Í fyrrgreindri umhverfisskýrslu eru rakin helstu umhverfisáhrif á Leirá sem talin eru fylgja umdeildri virkjun og er þar m.a. stuðst við rennslismælingar í Leirá og Bugalæk ásamt úttekt og umsögn Veiðimálastofnunar um áhrif virkjunarinnar á fiskistofna í Bugalæk og Leirá. Þar koma fram þær niðurstöður að virkjunin muni hafa óveruleg áhrif á rennsli, veiði og fiskistofna í Leirá. Álit Fiskistofu frá 19. janúar 2012, þar sem fallist er á fyrirhugaðar framkvæmdir við Bugavirkjun, er á sömu lund en þó með þeirri ábendingu að unnt væri að veita vatni fram hjá virkjuninni í þurrkatíð á sumrin eins og fyrr getur.  Í hinu kærða leyfi Orkustofnunar er sett það skilyrði í 3. gr. leyfisins að þess skuli gætt að hleypt verði úr miðlunarlóni virkjunarinnar svo að rennsli Leirár verði að lágmarki 180 l/sek hjá Leirárlaug enda anni Bugalækur því rennsli.

Tilgangurinn með umdeildri virkjun, er framleiðsla raforku til notkunar fyrir ábúendur að Eystri- og Vestri-Leirárgörðum. Verður ekki fallist á að hér sé farið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar þegar litið er til réttar landeiganda til að nýta með eðlilegum hætti þau réttindi sem við eign hans eru tengd. Vatnalög hafa að geyma heimildir til handa landeiganda eða handhafa vatnsréttinda til nýtingar vatns til orkuöflunar, að gættum rétti annarra, sbr. 1. mgr. 49. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Standa ákvæði 7. gr. laganna ekki í vegi fyrir þeirri nýtingu, enda sé gætt ákvæða laga um öflun tilskilinna leyfa, sbr. m.a. 2. mgr. 49. gr. sömu laga. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að vatns- eða veiðiréttindum kæranda verði raskað að marki, að kæranda séu bakaðir óhæfilegir örðugleikar um notkun vatns fyrir eigin landi eða að því verði spillt svo að til verulegra óþæginda horfi.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun Orkustofnunar ekki talin haldin slíkum form- eða efnisannmörkum að til ógildingar geti leitt að öllu leyti eða hluta.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að gilt leyfi Orkustofnunar var til staðar við veitingu hinna kærðu ákvarðanna um framkvæmda- og byggingarleyfis sem heimila framkvæmdir og gerð mannvirkja í tilefni af virkjun Bugalækjar. Eru þær virkjunarframkvæmdir í samræmi við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis, svo sem því var breytt með ákvörðun sem tók gildi hinn 24. september 2012. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð nefndra ákvarðana sem raskað geta gildi þeirra, verður kröfu um ógildingu þeirra hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar Orkustofnunar frá 19. apríl 2013, um að veita leyfi til vatnsmiðlunar vegna fyrirhugaðrar virkjunar Bugalækjar í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit, er hafnað.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 14. maí 2013, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð og ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 3. maí 2013, um að veita byggingarleyfi fyrir stöðvarhúsi vegna virkjunar Bugalækjar í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Kristín Svavarsdóttir

108/2014 Hleinar

Með
Árið 2014, þriðjudaginn 2. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 108/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 10. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyramölum vegna Herjólfsgötu 30-34.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2014, er barst nefndinni 10 s.m., kæra íbúar við Herjólfsgötu, Drangagötu og Klettagötu, Hafnarfirði þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum vegna Herjólfsgötu 30-34. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. september s.á. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á „stöðvun allra framkvæmda þ. á m. stöðvun útgáfu byggingaleyfis…“ til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 11. mars. 2014 og hjá skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 10. apríl s.á., var tekin fyrir umsókn um breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum vegna lóðanna Herjólfsgötu 30-34. Fólst breytingin í að lóðirnar Herjólfsgata 30, 32 og 34 yrðu sameinaðar í eina lóð þar sem gert væri ráð fyrir tveimur fjögurra hæða byggingum með 32 íbúðum og bílakjallara. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og var það gert 6. maí 2014 með athugasemdarfresti til 18. júní s.á. Var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar staðfest af bæjarstjórn 19. mars 2014. Bárust athugasemdir við tillöguna sem skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðarbæjar tók til skoðunar. Hinn 8. júlí s.á. var deiliskipulagsbreytingin samþykkt af skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar með eftirfarandi bókun „…samþykkir deiliskipulagið með þeim breytingum að bílastæðakvöð verði 1,8 stæði á íbúð, bílastæðum verði fækkað að því marki ofan jarðar, og gerður verði kantur út að götunni…“ Var afgreiðslan staðfest af bæjarráði, í umboði bæjarstjórnar, 10. s.m. Var endanleg deiliskipulagsbreyting síðan samþykkt af skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 28. s.m. og staðfest af bæjarráði Garðabæjar 29. s.m. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september s.á.

Kærendur telja hina kærðu breytingu, að nýta tvær lóðir sem eina lóð með auknum nýtingarrétti undir fjölbýlishús, falla undir verulega breytingu á deiliskipulagi með tilheyrandi kröfum um aðra málsmeðferð en þetta mál hafi hlotið hjá sveitarfélaginu. Sé grenndarréttur nágranna verulega skertur með þessum aðgerðum og geti Hafnarfjarðarbær ekki vikið sér undan 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að auki séu svör Hafnarfjarðarbæjar við athugasemdum við deiliskipulagið ekki fullnægjandi. Séu svörin byggt á huglægu mati og án nokkurs rökstuðnings eða rannsókna af þeirra hálfu. Ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúanna.

Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að farið hafi verið með breytinguna sem óverulega breytingu enda hafi  breytingin verið auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga. Eitt af markmiðum í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 hafi verið að þétta núverandi byggð m.a. með endurskipulagningu vannýttra svæða og að lögð yrði áhersla á svæði í göngufjarlægð frá miðbænum. Sé sama markmið að finna í nýsamþykktu aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Séu lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu vannýttar og því kjörið þéttingarsvæði í anda þágildandi og gildandi aðalskipulags.

Af hálfu leyfishafa er rík áhersla lögð á að með stöðvun framkvæmda felist alvarlegt inngrip í umráða- og hagnýtingarrétt hans. Hafi stöðvun framkvæmda í för með sér verulegt óhagræði og aukinn kostnað. Sé því mikilvægt að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar sveitarfélagsins um samþykkt hins breytta deiliskipulags. Séu engin efni sem standi til þess að hinni kærðu ákvörðun sé hnekkt enda sé deiliskipulagið í fullu samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar og í samræmi við lög. Að auki hafi ekki verið sýnt fram á að grenndarréttur kærenda sé skertur með ólögmætum eða ómálefnalegum hætti.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar sameinaðrar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Greindar ákvarðanir verða ekki stöðvaðar af úrskurðarnefndinni áður en til þeirra kemur, enda takmarkast vald nefndarinnar við eftirfarandi athugun á lögmæti þeirra. Komi hins vegar til kærumáls vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun réttaráhrifa sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir