Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2014 Ísfélag Vestmannaeyja

Með

Árið 2014, mánudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2014, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Þórshöfn áminningu og krefja það um úrbætur, en ákvörðunin var birt með bréfi, dags. 13. janúar 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2014, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Finnur Magnússon hdl., f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Þórshöfn, áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 13. janúar 2014, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 28. janúar 2014.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar verði felld úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur fiskimjölsverksmiðju á Þórshöfn. Kærandi notar olíublöndu sem er búin til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2013, að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang og að til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, auk þess að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun. Með bréfi, dags. 10. maí 2013, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að þar sem ekki hefði borist staðfesting á því að brennslu úrgangsolíu hefði verið hætt, eða áætlun um hvernig ákvæði reglugerðar nr. 739/2003 skyldu uppfyllt, áformaði stofnunin að áminna kæranda skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftir nokkur samskipti kæranda og stofnunarinnar veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 13. janúar 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 28. janúar 2014, sem fyrr segir.

Kærandi segir málið varða sig miklum fjárhagslegum hagsmunum. Endurunna olían sé u.þ.b. 20% ódýrari en svartolía og nemi sparnaður af því að kaupa hana allt að 29 milljónum króna á ári. Mikil olía sé notuð í stuttan tíma í senn og ráðgert hafi verið að nota olíuna á loðnuvertíð í febrúar og mars 2014. Fyrirmæli um að kærandi noti ekki endurunna olíu muni leiða til mikils tjóns á loðnuvertíðinni og vertíðum sem eftir fylgi. Kærandi telji kröfu Umhverfisstofnunar byggja á veikum lagalegum grunni. Séu lagabreytingar fyrirhugaðar vegna Evróputilskipana og líklegt sé að notkun endurunninnar olíu verði í náinni framtíð í samræmi við íslensk lög. Komist úrskurðarnefndin síðar að þeirri niðurstöðu að fella beri ákvörðun Umhverfisstofnunar úr gildi geti það haft í för með sér að stofnunin verði bótaskyld. Sé hvað þetta varði vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Umhverfisstofnun bendir á að kærandi verði að sýna fram á verulega hagsmuni af því að réttaráhrifum verði frestað og að 20% sparnaður nægi ekki til að telja að svo sé. Þá sé sú loðnuvertíð sem vísað sé til af hálfu kæranda að baki. Umhverfisstofnun hafi ekki gripið til annarra þvingunarúrræða en áminningar og hafi því ratað meðalhóf í málinu. Staðhæfing kæranda um að líkur séu á að notkun endurunninnar olíu verði í náinni framtíð í samræmi við ákvæði íslenskra laga bendi til þess að hann telji að svo sé ekki nú. Þá sé þessi fullyrðing, um áhrif þess að umrædd tilskipun ESB verði innleidd, órökstudd. Varhugavert sé að telja að hagsmunir kæranda af frestun réttaráhrifa séu meiri en hagsmunir af að krafan nái fram að ganga, en Umhverfisstofnun hafi stöðvað brennslu á olíuúrgangi hjá öllum öðrum rekstraraðilum fiskimjölsverksmiðja á landinu. Vísi stofnunin í þessu samhengi til hagsmuna almennings af heilnæmu umhverfi. Um staðhæfingu kæranda um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins telji stofnunin að unnt sé að láta reyna á slíkt í öðru máli en því sem hér sé til meðferðar. Stofnunin telji framkvæmd reglna á evrópska efnahagssvæðinu hins vegar ekki vera í samræmi við það sem kærandi haldi fram. Stofnunin geti þess einnig að verði réttaráhrifum frestað geti hún ekki beitt dagsektum gagnvart kæranda meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem áminning sé forsenda frekari þvingunarúrræða. Óásættanlegt sé að rekstraraðili geti viðhaldið ástandi sem stofnunin telji ólögmætt, enda sé sem fyrr segi ekki um verulega hagsmuni að ræða.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem fól í sér að veita kæranda áminningu og gefa honum tilhlýðilegan frest til úrbóta í samræmi við 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hafði ákvörðunin þann tvíþætta tilgang að veita formlega viðvörun og gefa færi á úrbótum. Áhrif ákvörðunarinnar eru einkum þau að minna þarf til að beita beinskeyttari þvingunarúrræðum í kjölfar hennar. Þannig er ákvörðunin nauðsynlegur undanfari þess að dagsektum verði beitt skv. 27. gr. laganna. Þá getur hún verið undanfari þess að starfsemi kæranda verði stöðvuð skv. 3. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 26. gr.

Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Beiting beinskeyttari þvingunarúrræða er þó ávallt háð því að ný stjórnvaldsákvörðun þess efnis sé tekin og væri slík ákvörðun þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þá gæti kærandi, ef til kæmi, krafist frestunar réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar. Er því hvorki hægt að telja að réttaráhrif ákvörðunarinnar séu yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 né að þau séu slík að hagsmunir kæranda knýi á um frestun þeirra. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Þórshöfn áminningu og krefja félagið um úrbætur, eins og tilkynnt var með bréfi, dags. 13. janúar 2014.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                             Þorsteinn Þorsteinsson

93/2012 Suðurlandsbraut

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 93/2012, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. janúar 2012 um að afturkalla leyfi til að halda fjóra hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík. Þá er kærð sú aðgerð lögreglu að fjarlægja þaðan sjö hunda 3. september 2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir J, fyrir hönd P og J, samkvæmt umboði þeirra, dags. 1. október 2012, allir til heimilis að Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. janúar 2012 um að afturkalla leyfi P til að halda fjóra hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík. Þá er kærð sú aðgerð lögreglu 3. september 2012 að fjarlægja sjö hunda J frá Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Gögn bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. nóvember 2012.

Málavextir: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun annar kærenda hafa fengið leyfi til að halda hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 17. október 2011, var honum tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfa til hundahalds vegna fjögurra tilgreindra hunda. Vísað var til þess að ítrekað hefði verið kvartað yfir lausagöngu hundanna, sbr. 13. gr. þágildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002. Við rannsókn málsins hefði einnig komið í ljós að kærandi væri ekki til heimilis að Suðurlandsbraut 27 þrátt fyrir að hafa þar skráð lögheimili og þótt hundarnir væru haldnir þar, sbr. 3. gr. og 9. gr. samþykktarinnar. Þá væri meint hundaræktun á staðnum, án þess að veitt hefði verið leyfi fyrir henni. Veittur var tveggja vikna frestur til að koma að andmælum. Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 12. janúar 2012 var ákvörðun heilbrigðiseftirlits um afturköllun hundaleyfis staðfest og var kæranda sent bréf þess efnis, dags. 16. janúar 2012. Kærandi sendi tölvupóst 27. s.m. til Reykjavíkurborgar þar sem hann bað um rökstuðning fyrir ákvörðuninni og óskaði eftir endurupptöku málsins.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, kærði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hundahald að Suðurlandsbraut 27 til lögreglu og fór fram á að fullrannsakað yrði hver héldi þar hunda og að heimild yrði fengin til að fjarlægja óleyfishunda og færa þá í hundageymslu. Með úrskurði héraðsdómara var lögreglu heimiluð húsleit að Suðurlandsbraut 27 með vísan til 1. mgr. 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Húsleit fór fram 3. september 2012 og í skýrslu um hana kemur fram að sjö hundar hafi verið fjarlægðir af staðnum. Fyrir liggur í málinu að einn hundanna hafi verið meðal þeirra fjögurra sem áðurnefnd afturköllun leyfis varðaði, en tveir í eigu hins kærandans.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að beðið hafi verið um rökstuðning fyrir ákvörðuninni um að svipta annan kærandann leyfi til hundahalds en rökstuðningur hafi ekki borist. Hafi þar af leiðandi ekki verið unnt að andmæla ákvörðuninni. Næst hafi lögregla komið með húsleitarúrskurð og fjarlægt sjö hunda af Suðurlandsbraut 27. Þeir hafi verið afhentir aftur 6. september 2012 gegn greiðslu um 350.000 króna. Telji kærendur þetta vera óeðlilega málsmeðferð.

Í þeim gögnum sem liggi til grundvallar sviptingu hundaleyfis séu ónákvæm, hlutdræg og beinlínis fölsuð gögn sem séu um 20 skýrslur hundaeftirlits um meinta lausagöngu hunda frá Suðurlandsbraut 27. Aldrei hafi náðst hundar þaðan á lausagöngu. Stundum sé um að ræða aðrar hundategundir. Í öllum tilfellum séu hundar sagðir vera frá Suðurlandsbraut 27 þótt engin staðfesting þar um liggi fyrir. Svipting hundaleyfis sé íþyngjandi og verði öll gögn sem liggja henni til grundvallar að vera skýr og óvefengjanleg. Skrá skuli alla kvartendur með nafni og kennitölu eins og fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4924/2007. Í fæstum tilvikum hafi verið svo í málinu. Í þeim fáu tilvikum sem nöfn hafi verið skráð hafi hlutaðeigandi starfsmenn Reykjavíkurborgar talið að hundar á lausagöngu væru frá Suðurlandsbraut 27 án þess að geta staðfest það.

Í bréfi framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 4. mars 2011, fullyrði framkvæmdastjórinn að fyrirsvarsmaður kærenda hafi hlotið dóm fyrir ólögmætt hundahald. Í málinu sem um ræði hafi umboðsmaður kærenda farið fram á skaðabætur fyrir ólögmæta eignaupptöku á 32 hundum, en dómari sem skilaði sératkvæði hafi viljað dæma fullar bætur.

Aðeins einn hundur sem fjarlægður hafi verið 3. september 2012, hafi áður verið í eigu þess kæranda sem sviptur var leyfi 12. janúar það ár. Hinn kærandinn hafi þá verið nýfluttur með hunda sína að Suðurlandsbraut 27 og þar af leiðandi ekki með ólöglegt hundahald.

Kærð sé málsmeðferðin í heild, svipting hundaleyfis 12. janúar 2012, vörslusvipting sjö hunda 3. september 2012 og rangar sakargiftir framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykja-víkur ásamt stjórnsýslubrotum, m.a. gegn 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem bið eftir rökstuðningi fresti aðgerðum. 

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Því er lýst að kærandinn sem sviptur hafi verið leyfi til að halda fjóra hunda, hafi fengið leyfi til hundahalds á öðrum stað i borginni 1. mars 2010. Eftir leyfisveitinguna hafi hann flutt lögheimili sitt að Suðurlandsbraut 27 og hafi skráningu hundanna þá verið breytt til samræmis við það. Allar götur síðan hafi borist fjölmargar kvartanir vegna hundahaldsins. Kvörtununum hafi verið fylgt eftir með eftirlitsferðum og hafi lausaganga hundanna verið staðfest í nokkrum þeirra. Hvorki heilbrigðiseftirlitið né lögregla hafi getað staðfest að kærandi byggi í húsinu og hafi ekki náðst samband við hann á staðnum þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir. Telja megi ljóst að umboðsmaðurinn í kærumáli þessu hafi haldið hundana auk þess að stunda þar hundaræktun. Þannig hafi mun fleiri hundar, eða hvolpar, verið í húsnæðinu en þeir fjórir sem kærandi hafi haft leyfi fyrir. Í einni eftirlitsferðanna hafi verið kölluð til lögregla þegar umboðsmaðurinn hafi hindrað störf eftirlitsins á vettvangi. Hafi heilbrigðiseftirlitið aldrei hitt kæranda fyrir á staðnum, aðeins umboðsmann hans.

Látið sé að því liggja að eitthvað sé ekki nægjanlega skýrt í málinu. Það eina sem sé óskýrt sé hins vegar það hvar kærandi hafi haldið sig á þessum tíma og hver það hafi verið sem komið hafi fram í hans nafni. Auglýsingar hafi birst ítrekað í fjölmiðlum um hvolpa til sölu, undir nafninu G. Heimildir stjórnvaldsins staðfesti að um auglýsingar frá umboðsmanninum sé að ræða. Matvælastofnunin hafi gert athugasemdir við aðbúnað hunda á staðnum auk þess sem aðbúnaðurinn sé gagnrýndur í lögregluskýrslu sem gerð hafi verið við töku hundanna sjö.

Vegna alls þess sem rakið hafi verið hafi öðrum kærandanum verið sent bréf að Suðurlandsbraut, dags. 17. október 2011, þar sem honum hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða afturköllun leyfis til að halda hundana. Hafist hafi atburðarás samskipta, sem heilbrigðiseftirlitið rekur í greinargerð sinni, og í kjölfar hennar verið ljóst að kærandi hafi ekki haldið hundana, þar sem hann hafi ekki verið á staðnum í neinu tilfelli samkvæmt rannsókn heilbrigðiseftirlitsins og lögreglu. Samskiptin hafi öll verið í nafni kæranda. Engar skriflegar yfirlýsingar eða andmæli hafi komið frá honum. Leyfi hans til hundahalds hafi því að lokum verið afturkölluð af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 12. janúar 2012, þar sem sýnt hafi verið að hann hafi ekki búið að Suðurlandsbraut 27, en hundarnir hafi verið haldnir þar. Ekki hafi þjónað tilgangi að reyna frekar að koma til hans bréfum eða að ná til hans með öðrum hætti. Hann hafi hvorki mótmælt í eigin nafni né óskað eftir að fá til sín hundana. Hinn 24. október 2011 hafi kærandi beðið um að fá send gögn málsins. Hafi honum af því tilefni verið boðið að koma á fund 29. nóvember s.á. Hafi hann beðið um að fá gögnin send til að fara yfir þau fyrir fundinn og ljósrit hafi verið sent. Lögmaður kæranda hafi haft samband og beðið um frest en svar hafi ekki borist þegar lögmaðurinn hafi verið inntur eftir því hversu langan frest hann þyrfti. Enginn hafi mætt af hálfu kæranda á fundinn. Hafi lögmaðurinn beðið um frekari gögn. Ekki hafi verið mætt á boðaðan fund hinn 5. desember s.á.

Í ljósi þessa hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kært ólögmætt hundahald að Suðurlandsbraut 27 til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og farið fram á að lögregla fullrannsakaði málið þar sem hundar hafi enn verið á staðnum. Hinn 3. september 2012 hafi lögreglan farið á vettvang með húsleitarheimild. Við húsleit hafi komið í ljós að sjö hundar voru á staðnum og þrír skráðir á kærendur.

Annar kærenda sé nú skráður fyrir sex hundum að Suðurlandsbraut 27 og séu ekki gerðar athugasemdir við hundahald hans í máli þessu. Vandséð sé því hvað hann sé yfirleitt að kæra. Kæran sé full órökstuddra fullyrðinga, ruglingsleg og vanreifuð, þannig að ekki sé auðvelt að henda reiður á hvert raunverulegt kæruefni sé. Bent skuli á að umræddir hundar hafi verið fjarlægðir í lögregluaðgerð sem fram hafi farið á grundvelli kæru um ólögmætt hundahald. Beri því fremur að beina kæru að lögregluyfirvöldum en heilbrigðiseftirliti.

Heilbrigðiseftirlitið krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir umboð umboðsmanns kærenda. Þá séu kærufrestir jafnframt löngu liðnir. Að auki sé bent á að hæpið sé að kæra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrir lögregluaðgerð í kjölfar kæru um ólögmætt hundahald.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Eins og fyrr segir barst kæra máls þessa hinn 1. október 2012 og liggur fyrir sérstakt umboð kærenda til umboðsmanns þeirra í málinu. Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um afturköllun leyfis til að halda hunda var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. janúar s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðunina. Þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn, en hann heldur áfram að líða að nýju sé endurupptöku hafnað og þá frá þeim tíma þegar ákvörðun um það er tilkynnt aðila, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupósti hinn 27. janúar 2012 var farið fram á endurupptöku máls um afturköllun leyfisins. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að endurupptökubeiðninni hafi verið svarað og verður því að telja, með vísan til framangreinds lagaákvæðis, að kæra til nefndarinnar hafi borist innan kærufrests.

Kærandinn P fékk útgefin leyfi til hundahalds 1. mars 2010. Í bréfi til hans, dags. 17. október 2011, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða sviptingu leyfis, kemur fram rökstuðningur fyrir leyfissviptingunni, þ.e. upplýsingar um þau atvik sem höfðu áhrif á ákvörðunina og tilvísun til réttarreglna. Á þessum tíma var í gildi samþykkt nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík, ásamt síðari breytingum, og er í rökstuðningi m.a. vísað til ítrekaðrar og langvarandi lausagöngu hunda kæranda, en skv. 13. gr. samþykktarinnar skyldu hundar ávallt vera í taumi utanhúss og í umsjá manns sem hafi fullt vald yfir þeim. Fram kemur að kæranda var veittur aðgangur að helstu gögnum málsins áður en heilbrigðisnefnd tók ákvörðun sína. Þá liggja frammi í málinu kvartanir um lausagöngu hunda sem heilbrigðiseftirlitið metur svo að séu vegna hunda að Suðurlandsbraut 27 og í einhverjum tilvikanna hefur það sjálft staðreynt lausagöngu hunda þaðan. Kvartanirnar eru dagsettar 22. febrúar, 29. mars, 8. júní, 14. júní, 20. júní, 22. júlí, 22. ágúst, 21. september, 23. september og 8. nóvember 2011. Þegar af þessari ástæðu var heimilt að afturkalla leyfi kæranda til hundahalds með vísan til 20. gr. samþykktarinnar sem kveður á um heimild til afturköllunar leyfa vegna brota á samþykktinni og þar sem ekkert liggur fyrir í málinu um neina þá annmarka á málsmeðferð við afturköllunina að ógildingu varði er kröfu þar um hafnað.
 
Einnig er kærð sú aðgerð lögreglu að fjarlægja hunda 3. september 2012. Um var að ræða húsleit á grundvelli úrskurðar dómara. Húsleitarheimildin var veitt með þeim rökum að grunur væri um refsiverð brot á samþykkt um hundahald í Reykjavík, þ.e.a.s. sem hluti af rannsókn sakamáls, skv. 1. mgr. 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Mál um lögmæti þvingunarráðstafana í þágu rannsóknar sakamáls heyrir eftir atvikum undir lögsögu dómstóla, svo sem skv. 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, en valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nær ekki til endurskoðunar á lögmæti þeirra. Verður þessum hluta kröfu kærenda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags.12. janúar 2012, um afturköllun leyfis kæranda P til að halda fjóra hunda að Suðurlandsbraut 27, er staðfest.
 
Kæru vegna þeirrar aðgerðar lögreglu að fjarlægja sjö hunda af sama stað 3. september 2012 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

18/2014 Suðurlandsbraut

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2014, er barst nefndinni 11. mars s.á., kærir J, Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 24. mars 2014 og réttaráhrifum ákvörðunarinnar var frestað með úrskurði nefndarinnar 27. s.m.

Málavextir: Kærandi fékk leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. desember 2013, var honum tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu á leyfi til að halda hundana. Vísað er til þess að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið staðfest að kærandi byggi ekki að Suðurlandsbraut 27, þótt lögheimili hans væri skráð þar. Staðfesting á þessu hafi m.a. fengist í samtali kæranda við hundaeftirlitsmann 8. ágúst 2013, þar sem komið hafi fram að kærandi hafi með skráningu hundanna á sig verið að aðstoða eiganda Suðurlandsbrautar 27, en sá sé ekki með lögheimili þar og fái ekki leyfi til hundahalds. Þá segir að í húsinu séu ennþá haldnir sex hundar sem kærandi sé skráður fyrir, auk hvolpa. Í húsnæði þar sem kærandi dvelji sé óheimilt að hafa hunda. Samkvæmt 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 sé leyfi persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljósi þessa sé fyrirhugað að svipta kæranda leyfi til að halda tilgreinda sex hunda. Veittur var tveggja vikna frestur til að gera athugasemdir.

Með bréfi, dags. 20. desember 2013, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu. Var sú beiðni ítrekuð með bréfum, dags. 30. s.m. og 2. janúar 2014, og jafnframt farið fram á rökstuðning fyrir fyrirhugaðri afturköllun leyfanna og frekari frest til andmæla. Í svarbréfi, dags. 6. janúar 2014, skírskotaði heilbrigðiseftirlitið til þess að ástæða fyrirhugaðrar afturköllunar leyfanna kæmi fram í bréfi stofnunarinnar frá 19. desember 2013. Það bréf, ásamt eftirlitsskýrslu frá 8. ágúst s.á., væru gögn málsins. Frestur kæranda til athugasemda var framlengdur til 13. janúar 2014. Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 11. febrúar s.á. var samþykkt sú tillaga heilbrigðiseftirlitsins að svipta kæranda leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 14. s.m. var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun og ítrekaði hann kröfu sína um rökstuðning og um afhendingu málsgagna í bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 27. s.m. Því bréfi svaraði heilbrigðiseftirlitið hinn 3. mars, þar sem vísað var til fyrri bréfa um rökstuðning og málsgögn.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi hvorki fengið í hendur málsgögn né umbeðinn rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hafi hann því ekki haft færi á að andmæla ákvörðuninni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi aðeins verið fjórir virkir dagar innan þess tveggja vikna frests sem upphaflega hafi verið veittur til að skila andmælum.

Engin rök standi til þess að svipta kæranda leyfi til hundahalds vegna tímabundinnar dvalar hans á vegum Reykjavíkurborgar og engin ákvæði séu um slíkt í hundasamþykkt. Hundarnir hafi verið í umsjá leyfishafa og haldnir á lögheimili hans. Þá verði að finna að þeim starfsháttum heilbrigðiseftirlitsins að boðsenda erindi til kæranda á vistunarstað hans í stað lögheimilis, en trúnaður eigi að ríkja um vistunarstaðinn gagnvart einstaklingum og stjórnvöldum.

Með málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar sé farið gegn meðalhófsreglu og í ýmsu brotið gegn réttindum kæranda á sviði persónu-, upplýsinga- og stjórnsýslulaga.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið veittur aðgangur að gögnum máls. Í þeim sé m.a. tilvitnun í 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, þar sem skýrt komi fram að leyfi séu bundin við heimili eiganda hunds og að þau séu persónubundin. Rétt sé að taka fram að hundahald á viðkomandi stað sé flóknara en það mál sem hér sé til meðferðar og til staðar séu gögn sem varði ekki kæranda heldur eiganda hússins að Suðurlandsbraut 27, sem haldi hunda skráða á kæranda. Bent sé á að með kærunni kjósi kærandi að senda einungis hluta gagna sem hann hafi undir höndum. Kærandi hafi fengið framlengdan frest til andmæla en hann hafi ekki nýtt hann.

Fyrir liggi að kærandi eigi ekki heimili þar sem umræddir hundar séu haldnir og ekki sé um tímabundið ástand að ræða. Hundar að Suðurlandsbraut 27 séu ekki í umsjá kæranda heldur húseiganda að Suðurlandsbraut 27, sem haldi hundana í skjóli leyfa kæranda. Í eftirlitsferð 8. ágúst 2013 hafi komið fram hjá kæranda að hann hafi aðstoðað húseiganda á sínum tíma til að hundarnir gætu verið að Suðurlandsbraut, auk þess sem kærandi segi að húseigandi passi upp á hundana fyrir hann. Hinn 19. desember 2013 hafi kærandi undrast að húseigandi fái ekki að stunda hundarækt í friði. Heilbrigðiseftirlitið vísi til þess að kærandi hafi aldrei verið á vettvangi í þeim fjölmörgu eftirlitsferðum sem farnar hafi verið að Suðurlandsbraut 27. Þá hafi húseigandi verið viðriðinn það þegar ekið hafi verið á hund sem sloppið hafi hinn 18. desember 2013. Heilbrigðiseftirlitið telji að með því að sinna rannsóknarskyldu sem á embættinu hvíli skv. 1. mgr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi það leitt í ljós að kærandi haldi ekki hundana persónulega heldur sé um málamyndaleyfi að ræða. 

Erindi og bréf vegna máls þessa hafi verið birt og afhent kæranda á dvalarstað hans. Heilbrigðiseftirlitið telji að lögjafna megi frá 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi birtingarstað. Ranglega sé staðhæft að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi gefið trúnaðarupplýsingar um kæranda, en upplýsingar um dvalarstað manns teljist ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga. Vísi heilbrigðiseftirlitið til 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1952 um tilkynningar aðsetursskipta. Nauðsynlegt hafi verið að fá þann grun staðfestan að kærandi byggi ekki að Suðurlandsbraut 27.

Kærandi hafi fengið framlengdan frest til andmæla en sá frestur hafi ekki verið nýttur.

Athugasemdir kæranda vegna greinargerðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Kærandi bendir á að hann eigi, samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum, rétt á að sjá öll gögn er varði hundahald hans, m.a. gögn um umferðarslys 18. desember 2013, sem vísað sé til í gögnum frá heilbrigðiseftirliti.

Það húsnæði sem kærandi dvelji í uppfylli ekki skilyrði til að teljast vera lögheimili samkvæmt lögum nr. 21/1990 um lögheimili, fremur en fangelsi, sjúkrahús, hótel eða frístundabyggð.

Kærandi hafi búið að Suðurlandsbraut 27 með hléum síðan á sjöunda áratugnum, m.a. hafi hann verið með lögheimili þar frá 25. júlí 1997 til 15. febrúar 2001 og frá 27. ágúst 2012. Hann hafi breitt bakland, margir aðstoði hann við hundahaldið.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var kærandi sviptur leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík, með þeim rökum að hann byggi ekki lengur á því heimilisfangi þar sem hann hefði fengið leyfi til að halda hunda. Fram hefði komið að með skráningu hundanna á kæranda hefði hann verið að aðstoða eiganda nefndrar fasteignar. Verður að skilja málatilbúnað heilbrigðiseftirlitsins svo að ástæður sviptingarinnar varði annars vegar heimili kæranda og hins vegar það að leyfið sé bundið við persónu hans.

Samkvæmt samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012, sem sett var með heimild í 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er hundahald heimilað að fengnu leyfi og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kemur fram í a-lið 2. gr. samþykktarinnar að leyfi sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Einnig segir í 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar að hundaeiganda beri að tilkynna heilbrigðiseftirlitinu um aðsetursskipti. Fram er komið að lögheimili kæranda er skráð að Suðurlandsbraut 27 en að hann dvelst og hefur búsmuni sína í húsum á vegum Reykjavíkurborgar. 

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar skipti heimili kæranda höfuðmáli. Að mati úrskurðarnefndarinnar er nærtækast að túlka skilyrði a-liðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, um að leyfi sé bundið við heimili, með hliðsjón af lögheimilislögum nr. 21/1990. Mun og hafa verið miðað við skilgreiningu þeirra laga á hugtakinu lögheimili við veitingu leyfa til hundahalds í Reykjavík samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað við meðferð málsins. Eins og áður er rakið er lögheimili kæranda skráð að Suðurlandsbraut 27 og verður að telja að opinberri skráningu á lögheimili hans fylgi ákveðnar löglíkur. Telji heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hins vegar að skráð lögheimili leyfishafa sé ekki raunverulegt heimili hans ber henni að rannsaka það sérstaklega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Fram kemur í 3. mgr. 1. gr. laganna að dvöl í húsnæði á skipulögðu athafna- og hafnarsvæði sé ekki ígildi fastrar búsetu, nema búseta sé heimil þar samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Sama á við um dvöl á sjúkrahúsi, athvarfi eða öðru húsnæði sem jafna má til þess. Smáhýsin eru á hafnar- og athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi því sem gilti þegar ákvörðunin var tekin og fengust þær upplýsingar hjá Þjóðskrá Íslands við meðferð málsins að smáhýsin standi á athafna- og iðnaðarlóð og hafi af þessari ástæðu aldrei verið skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Þjóðskrá. Beiðnum einstaklinga um skráningu lögheimilis í húsunum hafi ávallt verið hafnað. Af framangreindu er ljóst að kærandi telst ekki, í skilningi lögheimilislaga, hafa fasta búsetu og lögheimili að  og að honum er ekki unnt að fá heimili sitt skráð þar.

Það að kærandi dvelji í húsnæði þar sem hann telst ekki eiga fasta búsetu og lögheimili, og hann segir sjálfur að um sé að ræða tímabundið úrræði, nægir ekki til að því verði slegið föstu að hann eigi ekki heimili að Suðurlandsbraut 27, þar sem hann er með skráð lögheimili. Með því að um íþyngjandi ákvörðun var að ræða verður að gera til þess kröfu að það liggi fyrir með skýrum hætti að heimili kæranda hafi ekki verið að Suðurlandsbraut 27 og að skilyrðum fyrir leyfi til hundahalds hans þar því ekki lengur verið fullnægt. Það þurfti því að fara fram frekari rannsókn á því hvort hann gæti talist eiga þar heimili, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur ekki fyrir að stjórnvaldið hafi rannsakað hver tengsl kæranda eru við Suðurlandsbraut 27, hversu lengi hann hefur dvalið eða mun dvelja að, eða hvernig farið hefur verið með sambærileg mál, þ.e. mál þar sem skráður eigandi hunds dvelur annars staðar en á lögheimili, t.a.m. vegna sjúkrahúsdvalar eða refsivistar.

Heilbrigðiseftirlitið nefnir í greinargerð sinni til nefndarinnar að kærandi haldi hundana ekki persónulega heldur hafi hann sótt um leyfið og fengið það útgefið á sitt nafn í þágu annars manns. Vegna beiðni kæranda um rökstuðning vísaði eftirlitið í svarbréfi 3. mars 2014 til fyrri bréfa sinna til kæranda í aðdraganda málsins. Ástæður fyrir fyrirhugaðri sviptingu leyfisins er að finna í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 19. desember 2013. Þar er allt ákvæði a-liðar 2. gr. samþykktar um hundahald rakið og vísað til þess að kærandi hafi sagst hafa verið að aðstoða annan mann þegar hann skráði hundana á sitt nafn og að það m.a. staðfesti að kærandi byggi ekki lengur að Suðurlandsbraut 27. Hins vegar er í bréfinu ekki minnst á þær heimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið fór í á Suðurlandsbraut 27 og vísað er til í greinargerð eftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar. Það að stjórnvaldinu hafi þótt farið á svig við þau skilyrði ákvæðisins að leyfi sé persónulegt og óframseljanlegt kemur þannig ekki skýrlega fram sem forsenda hinnar kærðu ákvörðunar í rökstuðningi þess og uppfyllir ekki þau skilyrði sem gera verður til rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bað kærandi um aðgang að gögnum máls með bréfum í desember 2013 og byrjun janúar 2014 og var í kjölfarið tjáð með bréfi að ákvörðunin byggði á eftirlitsskýrslu um heimsókn til hans og að hún ásamt bréfi heilbrigðiseftirlits frá 19. desember 2013 væru gögn málsins. Var honum sent afrit af hvoru tveggja. Í greinargerð sinni til nefndarinnar vísar heilbrigðiseftirlitið hins vegar til þess að kærandi hafi aldrei verið á staðnum í fjölmörgum eftirlitsferðum sem farnar hafi verið að skráðu lögheimili hans. Þá hafi húseigandi en ekki kærandi verið viðriðinn það þegar ekið hafi verið á hund sem sloppið hafi hinn 18. desember 2013. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á málsaðili rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða, þar á meðal skýrslum sem kunna að hafa verið ritaðar um málsatvik. Er slíkur aðgangur nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og gera athugasemdir við framlögð gögn komi að fullu gagni. Í samræmi við þetta verður að telja að rétt hefði verið að veita kæranda aðgang að gögnum stjórnvaldsins er málið varðar, þ. á m. um þær eftirlitsheimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið fór að Suðurlandsbraut 27 og vísað er til í greinargerð eftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar, enda ljóst að gögnin höfðu þýðingu við úrlausn þess.

Með vísan til þess sem að framan greinir skorti á að gætt væri að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að virtur væri upplýsingaréttur skv. 15. gr. þeirra og að fullnægt væri áskilnaði 22. gr. laganna um efni rökstuðnings vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Er ákvörðun heilbrigðisnefndar því verulegum annmörkum háð og verður hún felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014, um að afturkalla leyfi kæranda til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík, er felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

96/2012 Skólavörðustígur

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2012 á umsókn um endurnýjun leyfis til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús á lóð nr. 40 við Skólavörðustíg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2012, er barst nefndinni 5. s.m., kæra B, Lokastíg 22, E, Skólavörðustíg 38 og D, Lokastíg 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2012 að samþykkja umsókn um endurnýjun á leyfi til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús á lóð nr. 40 við Skólavörðustíg. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Hinn 10. desember 2009 samþykkti borgarráð Reykjavíkur deiliskipulag Lokastígsreita 2, 3 og 4. Öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní 2010 og tekur m.a. til lóðarinnar að Skólavörðustíg 40. Sú skipulagsákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 14. ágúst 2012 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á erindi þar sem veitt var leyfi til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús, fjórar hæðir og kjallara, á lóðinni nr. 40 við Skólavörðustíg. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra. Tók hann málið fyrir á fundi 24. s.m. og færði til bókar að ekki væri hægt að afgreiða erindið þar sem beðið væri úrskurðar æðra stjórnvalds í kærumáli vegna deiliskipulags þess er tæki til umrædds skipulagsreits. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsstjóra hinn 31. s.m. og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Umsóknin samræmist gildandi deiliskipulagi en vakin er athygli á því að það deiliskipulag hefur verið kært til æðra stjórnvalds og er beðið úrskurðar þess.“ Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina á afgreiðslufundi hinn 18. september 2012 með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 20. s.m. Veitti byggingarfulltrúinn hinn 3. október s.á. umsóknaraðila takmarkað byggingarleyfi vegna niðurrifs húsa á umræddri lóð og graftrarleyfi fyrir fyrirhugaðri byggingu, með stoð í hinni kærðu ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ekki hafi verið veitt fullnægjandi svör við því hvers vegna umrætt byggingarleyfi hafi verið samþykkt en afgreiðslu á því hafi áður ítrekað verið frestað. Hafi kærendur með bréfi til byggingarfulltrúa, dagsettu 17. ágúst 2012, farið fram á að byggingarleyfið yrði ekki endurnýjað að svo stöddu. Jafnframt hafi verið bent á að nokkur óvissa væri um deiliskipulag umrædds svæðis sem sætt hefði kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Enn fremur hafi verið tilgreint að kærendur væru ósáttir við fyrirhugað byggingarmagn á lóðinni og óttuðust verulegt ónæði og óhagræði meðan á framkvæmdum stæði. Í svari byggingarfulltrúa hafi komið fram að afgreiðsla á umsókn væri í fresti, m.a. vegna þeirra atriða er kærendur hefðu tiltekið í bréfi sínu. Jafnframt hafi verið tekið fram að skoðuð yrðu öll atriði málsins áður en það yrði afgreitt.

Kærendur telji að brotið hafi verið gegn ákvæðum 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, en þar segi að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerti starfssvið þess. Verði deiliskipulag fyrir reitinn fellt úr gildi sé ekki lengur grundvöllur fyrir útgáfu byggingarleyfisins, sem standi og falli með deiliskipulaginu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Á það sé bent að í gildi sé deiliskipulag fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4. Sé þar gert ráð fyrir að heimilað byggingarmagn ofanjarðar á lóðinni að Skólavörðustíg 40 verði allt að 680 m² og nýtingarhlutfall 1,97. Megi nýbygging vera allt að þrjár hæðir, ris og kjallari. Bygging sú sem nú hafi verið þar leyfð sé innan marka gildandi deiliskipulags. Byggingarmagn ofanjarðar sé 660,7 m² og kjallarinn sé 203,1 m², eða samtals 863,7 m². Nýtingarhlutfall ofanjarðar sé 1,91 og heildarnýtingarhlutfall 2,5. Þá hafi Húsafriðunarnefnd ríkisins og Minjasafn Reykjavíkur ekki gert athugasemdir við niðurrif húss á lóðinni.

Kæra á deiliskipulagi Lokastígsreita til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum þess og hafi byggingarfulltrúa því bæði verið rétt og skylt að veita byggingarleyfi í samræmi við heimildir deiliskipulagsins. Ekki sé fullyrt um hvort íbúar í nágrenninu verði fyrir ónæði eða óþægindum á framkvæmdatíma umfram það sem gangi og gerist við framkvæmdir af þessu tagi, en íbúar í þéttbýli megi alltaf búast við að einhverjum slíkum hagsmunum verði raskað á framkvæmdatíma. Slíkt valdi þó ekki eitt og sér ógildingu byggingarleyfisins. 

—–

Byggingarleyfishafa var veitt færi á að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum að í málinu en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun:  Staðhættir á vettvangi voru kannaðir hinn 8. ágúst 2013. 
 
Niðurstaða: Hinn 10. apríl 2014 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 44/2010, þar sem tekist var á um lögmæti deiliskipulags Lokastígsreita, en það tekur m.a. til lóðarinnar að Skólavörðustíg 40. Var kröfu kæranda í því máli um ógildingu skipulagsins hafnað.

Ekki liggur annað fyrir en að málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis hafi verið lögum samkvæmt. Í málinu liggja m.a. fyrir samskipti kærenda við Reykjavíkurborg þar sem þeim er leiðbeint um feril málsins og lagagrundvöll. Með hliðsjón af því sem þar kemur fram verður að telja að leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að leyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Með vísan til framangreinds verður kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2012 um að samþykkja umsókn um endurnýjun á leyfi til að rífa tvö hús og reisa í þeirra stað steinsteypt íbúðar- og verslunarhús á lóð nr. 40 við Skólavörðustíg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

26/2014 Númerslaus bifreið

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 23. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 26/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir O, , Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 27. mars 2014 að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer,–   að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar verði henni fargað eða hún tekin í vörslu.

Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. 

Málsatvik og rök: Hinn 27. mars 2014 var límd tilkynning á númerslausa bifreið kæranda af gerðinni — með fastanúmerið –. Í tilkynningunni var kveðið á um skyldu til að fjarlægja bifreiðina með vísan til ákvæða 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti,  4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum. Kom fram í tilkynningunni að eiganda bifreiðarinnar væri veittur frestur til 7. apríl til að fjarlægja hana og tekið fram að honum loknum yrði henni fargað eða hún tekin í vörslu í 45 daga. Að þeim tíma loknum yrði henni fargað eða hún seld nauðungarsölu. Þá kom fram að kostnaður vegna þessara aðgerða greiðist af eiganda/forráðamanni. Andmæli komu fram af hálfu kæranda sem krafðist þess að hætt yrði við boðaðar aðgerðir eða að veittur yrði viðbótarfrestur til 30 daga. Honum var veittur viðbótarfrestur í tvo daga með tölvubréfi.

Kærandi telur lagaskilyrðum fyrir hinni kærðu ákvörðun ekki vera fullnægt og að verulegir annamarkar hafi verið á málsmeðferð við töku hennar. Sé kæranda nauðsynlegt að fá skorið úr ágreiningnum áður en hin kærða ákvörðun komi til framkvæmda.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því mótmælt að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og því mótmælt að réttaráhrifum hennar sé frestað enda séu engin rök til þess. Bifreiðin sé á stæði í eigu borgarinnar sem ekki sé ætlast til að nýtt sé sem geymslusvæði eða lausn á geymsluvanda einstakra borgara á lausafé í þeirra eigu. Bílastæðin séu hugsuð öllum borgurum til afnota undir bifreiðar sem hafi skráningarnúmer.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. 

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem heimilar förgun eða sviptingu á vörslum bifreiðar í eigu kæranda bregðist hann ekki við með tilteknum hætti. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Með tilliti til þess að heimild til stöðvunar réttaráhrifa er undantekning, að ekki yrði um óbætanlegt tjón að ræða enda þótt ákvörðun kynni síðar að verða felld úr gildi, og með því að kærandi hefur þann kost að varðveita bifreið sína með þeim hætti að hagsmunir hans verði ekki bornir fyrir borð, verður ekki litið svo á ákvörðunin raski áðurgreindum hagsmunum kæranda svo verulega að rétt sé að fallst á kröfu hans um frestun réttaráhrifa. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa því hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 27. mars 2014 að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer — að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar verði henni fargað eða hún tekin í vörslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

130/2012 Hafnargata Bolungarvík

Með

Árið 2014, mánudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2012, kæra á ákvörðun umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu í Bolungarvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2012, er barst nefndinni 18. s.m., kæra B, Hafnargötu 121, Bolungarvík, þá ákvörðun umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu í Bolungarvík. Staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun hinn 8. nóvember s.á. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Bolungarvíkurkaupstað 21. janúar 2013. Þá aflaði nefndin frekari gagna frá kaupstaðnum sem bárust 29. janúar og 7. apríl 2014.

Málavextir: Á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu stendur hús sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár var reist árið 1900. Árið 2010 var á fundi umhverfismálaráðs tekið jákvætt í erindi um breytingar á umræddu húsi og óskað eftir fullnægjandi teikningum. Jafnframt var byggingarfulltrúa falið að vinna lóðarblað fyrir umrædda lóð og aðliggjandi lóðir. Í framhaldi af fundinum mun hafa verið gefið leyfi bæjarins til að rífa skúr og hjall við norðurhlið hússins. Á fundi umhverfismálaráðs hinn 11. janúar 2011 var lagt til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu að lóðarblaði lóða nr. 120,122 og 124 við Hafnargötu og samþykkti bæjarstjórn fundargerð ráðsins 28. s.m.

Hinn 10. júlí 2012 var á fundi umhverfismálaráðs tekin fyrir umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið að Hafnargötu 122. Jafnframt var sótt um leyfi fyrir byggingu bátaskýlis við húsið „þar sem áður var minna sambærilegt skýli“. Var erindinu vísað til umsagnar húsafriðunarnefndar.

Á fundi umhverfismálaráðs hinn 31. júlí s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og endurbygging hússins samþykkt samkvæmt framlögðum teikningum. Þá var fært til bókar að taka skyldi mið af fram komnum ábendingum húsafriðunarnefndar og haft samráð við hana um útlit og frágang glugga. Stuttu síðar komu kærendur á framfæri skriflegum athugasemdum við umhverfismálaráð vegna fyrirhugaðra breytinga og bentu m.a. á að framkvæmdirnar hefðu ekki verið grenndarkynntar. Erindi kærenda var tekið fyrir á fundi ráðsins hinn 21. ágúst 2012 og eftirfarandi bókað: „Þó umhverfismálaráð hafi ekki talið ástæðu til að breytingar á Hafnargötu 122 þyrftu að fara í grenndarkynningu fellst ráðið á mótmæli bréfritara og samþykkir að afturkalla samþykkt sína frá 31. júlí sl. á meðan grenndarkynning fer fram. Samþykkt að senda húseigendum að Hafnargötu 117, 119, 120, 121, 123 og 124 gögn vegna grenndarkynningarinnar.“ Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfismálaráðs hinn 23. október 2012 og svohljóðandi fært til bókar: „Umhverfismálaráð hefur farið yfir athugasemdir [kærenda] sem var eina athugasemdin sem barst. Umhverfismálaráð tekur ekki undir rök bréfritara enda breytingin á húsinu Hafnargötu 122 óveruleg og staðfestir því fyrri samþykkt um byggingarleyfi vegna breytinga á Hafnargötu 122, samkvæmt teikningu sem lögð var fram á fundi ráðsins 31. júlí sl. Byggingarfulltrúa falið að senda rökstutt svar til bréfritara um afgreiðslu ráðsins.“ Staðfesti bæjarstjórn greinda bókun 8. nóvember s.á. Var kærendum tilkynnt um afgreiðslu málsins og athugasemdum þeirra svarað með bréfi, dagsettu 14. nóvember 2012.

Hafa kærendur kært framangreinda ákvörðun umhverfismálaráðs frá 23. október 2012 til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hæpið að hjallur og sambyggð geymsla hafi verið byggð árið 1900 en sé svo fari niðurrif hjallsins líklega í bága við húsafriðunarlög. Samþykktar breytingar skerði verulega útsýni kærenda yfir Ísafjarðardjúp. Ný staðsetning og hæð reykháfs muni eyðileggja útsýni kærenda og muni notkun hans valda mengun. Virðist kærendum sem „hér sé leikur að tölum og háfur sé færður nær hallandi þaki til að geta hækkað hann“. Þá sé bent á að umhverfismálaráð túlki orðið bátaskýli á sama hátt og orðin bílskýli og bílageymsla, en hvergi sé að finna skilgreiningu á því í reglugerðum hvað og til hvers bátaskýli sé. Eigi geymsla á bátum frekar að vera á skipulagssvæði iðnaðarlóðar eða geymsluhúsnæðis. Einnig sé bent á að framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt, svo sem borið hafi að gera, fyrr en kærendur hafi kvartað. Þá sé sett spurningarmerki við að sömu aðilar í umhverfismálaráði komi að málinu eftir að kvartað hafi verið yfir vinnubrögðum þeirra.

Málsrök Bolungarvíkurkaupstaðar: Sveitarfélagið telur að unnið hafi verið vel og faglega að afgreiðslu umræddrar byggingarleyfisumsóknar. Lögum og reglugerðum hafi verið fylgt. Talið hafi verið að breytingar á húsinu væru það litlar að ekki bæri að grenndarkynna umsóknina. Slíkt hafi þó verið sjálfsagt að gera þegar beiðni hafi borist um það og hafi ein athugasemd borist.

Fallast megi á að nokkur breyting verði á útsýni úr húsi kærenda eftir breytinguna. Sé miðað við það útsýni sem hafi verið áður en geymsla og hjallur hafi verið fjarlægð sé breytingin óveruleg. Bátaskýlið breikki um 52 cm og lengist um 224 cm miðað við þau mannvirki er fyrir hafi verið. Mænir bátaskýlisins verði í sömu hæð og mænir geymslunnar en nái að vísu lengra í átt til sjávar en áður hafi verið. Sjáist geymslan, hjallurinn og e.t.v. önnur mannvirki á ljósmyndum sem teknar hafi verið árið 1988, sem og á skipulagsuppdrætti fyrir lóðir við Hafnargötu 117, 119, 121 og 123 frá árinu 1992. Hafi nefnd mannvirki og húsið verið byggð árið 1900 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Þá verði reykháfur endurbyggður á öðrum stað en hann sé í dag en í samræmi við staðsetningu fyrri tíðar.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að við endurteikningu hússins og geymsluskúrs í formi „bátaskýlis“ hafi verið haft í huga að mænishæð yrði sú sama og á skúr þeim sem fyrir var. Því sé vart hægt að vísa til þess að skert útsýni verði af efri hæð húss kærenda. Hvað varði útsýni frá neðri hæð hússins, þ.e. úr eldhúsglugga, sé vísað til missis útsýnis sem ekki hafi verið til staðar. Húsið í núverandi ástandi hljóti að teljast sjónmengun fyrir alla og lýti á bænum. Fyrirhugaðar breytingar geti því aðeins verið til bóta og bætt útsýni. Sé enginn munur á því hvort geymsluskúr og hjallar breytist í bátaskýli eða geymsluskúrar verði endurreistir og skjólgirðing jafnvel sett meðfram lóðamörkum húsanna nr. 122 og 124. Við kaup á húsi leyfishafa hafi staðið til að endurbyggja skúrinn. Skúrinn hafi þegar til kom verið svo illa farinn að hann hafi verið rifinn í samráði við byggingarfulltrúa. Ætlunin sé að geyma bát í skýlinu en enginn atvinnustarfsemi muni fara þar fram. Sé leyfishafa ókunnugt um að óheimilt sé að notast við skilgreininguna bátaskýli eða að geyma báta inni á einkalóðum, í bílageymslum eða geymsluhúsnæði hvers konar. Í húsinu sé reykháfur sem ekki hafi verið nýttur af fyrri eiganda hússins og búið sé að loka fyrir. Með því að nýta hann sé húsið, að því marki sem hægt sé, best varðveitt. Þurfi reykháfurinn að ná 0,8 m yfir hæsta mæni. Sé það leyfishafa að meinalausu að lækka reykháfinn sé það heimilt og að breyta útliti þannig að sem minnst sjónmengun sé af. Búið sé að fjarlægja hinn reykháfinn. Þá séu engin hagsmunatengsl milli eigenda Hafnargötu 122 og aðila í umhverfismálaráði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 um að samþykkja endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis að Hafnargötu 122 í Bolungarvík. Mun bátaskýlið staðsett þar sem hjallur og skúr voru áður, við norðurhlið umrædds húss. Eins og rakið hefur verið voru skúr og hjallur rifinn árið 2010 og telja kærendur að niðurrif mannvirkjanna fari í bága við húsafriðunarlög. Með hliðsjón af þessu og þar sem kærufrestur er liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sætir lögmæti ákvörðunar um niðurrif ekki endurskoðun nefndarinnar í máli þessu. 

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir lóðina að Hafnargötu 122. Sé sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var endurbygging hússins samþykkt á fundi umhverfismálaráðs hinn 31. júlí 2012 án þess að framkvæmdirnar hefðu verið grenndarkynntar. Málið var tekið fyrir að nýju og samþykkt á fundi umhverfismálaráðs hinn 23. október s.á., að undangenginni grenndarkynningu, eftir að kærendur höfðu komið á framfæri athugasemdum við afgreiðslu málsins. Var áskilnaði skipulagslaga hvað form varðar þar með fullnægt. Þá er ekkert sem bendir til annars en að skilyrði um að hin leyfða framkvæmd væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar væru uppfyllt en eftir hina samþykktu breytingu, sem húsafriðunarnefnd veitti jákvæða umsögn um, verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,35. Verður ekki annað séð en að meðferð málsins hafi í samræmi við lög og að engar þær ástæður hafi verið til staðar sem valdið hafi vanhæfi þeirra aðila sem að afgreiðslu málsins komu.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ógilda beri hina kærðu ákvörðun sökum þess að með henni sé með íþyngjandi hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, m.a. með skerðingu á útsýni. Lóðin að Hafnargötu 122 liggur að sjó og stendur hús kærenda skáhallt handan götunnar. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimilað að reisa bátaskýli við húsið að Hafnargötu 122, þar sem áður stóðu skúr og hjallur. Er bátaskýlið um 0,5 m breiðara og nær 2,24 m lengra í átt til sjávar en mannvirki þau er fyrir voru. Mun mænishæð bátaskýlisins verða sú sama og var á skúrnum, en meiri en var á einhalla þaki því er var á hjallinum. Samkvæmt hæðarmælingum er byggingarfulltrúi framkvæmdi að ósk úrskurðarnefndarinnar er nokkur hæðarmunur á téðri lóð, sem liggur neðan götu að sjó, og lóð kærenda, sem liggur ofan götu. Af fyrirliggjandi gögnum má og ráða að sjónarhorn kærenda að húsinu að Hafnargötu 122 sé í suðausturstefnu frá húsi þeirra. Mun reykháfurinn á húsinu vera vel sýnilegur en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að hæð hans og gerð sé eðlileg, staðsetning hans í samræmi við fyrri tíma staðsetningu, og að hæð hans og staðsetning miðist við það að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru vegna brunavarna. Úrskurðarnefndin telur að fyrirhugaðar breytingar muni hafa nokkur grenndaráhrif, einkum sökum þess að bátaskýlið mun ná töluvert lengra í átt til sjávar en mannvirki þau er fyrir voru, en slíkt mun skerða útsýni kærenda til sjávar miðað við það sem áður var. Útsýnisskerðing verður þó ekki talin svo veruleg umfram það sem kærendur þurftu að þola þegar fyrri mannvirki voru til staðar að raskað skuli gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til alls framangreinds er hafnað kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilda ákvörðun umhverfismálaráðs Bolungarvíkur frá 23. október 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbyggingu húss og byggingu bátaskýlis á lóðinni nr. 122 við Hafnargötu í Bolungarvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

83/2012 Kópavogsbraut

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi leyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2012, er barst nefndinni 17. s.m., kæra M og S, Kópavogsbraut 96 í Kópavogi, samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi tvö gróðurhús á lóðinni að Kópavogsbraut 98 í Kópavogi. Hin kærða afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 26. s.m. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfi fyrir húsunum var hins vegar ekki samþykkt af byggingarfulltrúa fyrr en 16. október sama ár. Með hliðsjón af framangreindu, og eins og hér stendur á, þykir verða að líta svo á að kæra þessi lúti að framangreindu byggingarleyfi húsanna enda þótt hún hafi borist fyrir samþykkt þess.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að hluta, þ.e. leyfis fyrir stærra gróðurhúsinu. Jafnframt er gerð krafa um að Kópavogsbæ verði gert að fjarlægja nefnt gróðurhús. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Kópavogsbæ 31. október 2012.

Málavextir: Á fundi byggingarfulltrúa í nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni að Kópavogsbraut 98, öðru 28 m² klæddu plasti og hinu 8 m² klæddu gleri. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu. Í apríl 2012 barst skipulagsnefnd bréf frá lóðarhöfum Kópavogsbrautar 98, ásamt yfirlýsingu frá 22 íbúum 12 húsa við vestanverða Kópavogsbraut, m.a. Kópavogsbrautar 100, er mæltu með því að veitt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu. Hinn 26. apríl s.á. samþykkti skipulagsnefnd að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum að Kópavogsbraut 96 og 100. Með bréfi kærenda til skipulagsnefndar, dagsettu 5. júní 2012, lögðust þeir gegn því að samþykkt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu, en ekki fyrir því minna. Þá var bent á að húsin hefðu verið reist í óleyfi og að Kópavogsbæ bæri skylda til að fjarlægja stærra húsið.

Skipulagsnefnd tók erindið fyrir að nýju hinn 17. júlí 2012, ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsettri 27. júní s.á. Var erindið samþykkt og því vísað til bæjarráðs, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 26. júlí s.á. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með bréfi kærenda til Kópavogsbæjar, dagsettu 15. ágúst s.á., var greindri afgreiðslu mótmælt og farið fram á frekari rökstuðning. Ítarlegri rökstuðningur var lagður fram á fundi skipulagsnefndar hinn 18. september s.á. Var rökstuðningurinn samþykktur á þeim fundi, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tók umsókn um byggingarleyfi gróðurhúsanna fyrir á ný hinn 16. október 2012. Var umsóknin samþykkt og talin samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010. Bæjarráð samþykkti fundargerð byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. og bæjarstjórn hinn 23. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið umdeilda gróðurhús sé allt of stórt til að geta talist gróðurhús til tómstundanota á lóð í miðju íbúðarhverfi. Útlit þess og stærð geri það verkum að helst líti út fyrir að gróðurhúsið hýsi einhvers konar iðnaðar- eða landbúnaðarstarfsemi. Húsið sé lýti á götumynd Kópavogsbrautar, einkum á árstíma er tré séu lítt eða ekki laufguð. Blasi byggingin við úr stofuglugga húss kærenda og sé af henni mikil sjónmengun.

Umrædd bygging hafi verið reist í tíð laga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og hafi lóðarhafar við bygginguna farið gegn ákvæðum 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðarinnar. Séu tilvitnuð ákvæði að megininntaki samhljóða gr. 2.3.1. og gr. 2.3.2. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett hafi verið með stoð í mannvirkjalögum nr. 160/2010 og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2000, sem og 1. og 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Í ljósi ofangreindra lagaraka, og með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, sé það skylda Kópavogsbæjar að sjá til þess að byggingin verði fjarlægð sem fyrst.   

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Um formlega og efnislega rétta ákvörðun sé að ræða.

Skírskotað sé til þess að skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi og hafi svo verið gert hér. Skuli við mat á því hvort veita skuli byggingarleyfi einkum líta til fyrrnefndra þátta og verði þær framkvæmdir sem séu í meginatriðum í samræmi við þá þætti að teljast óverulegar. Í því sambandi þurfi að líta til þess hvort og að hvaða marki sé um að ræða skerðingu á hagsmunum kærenda.

Hagsmunir kærenda sé í engu skertir hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Eingöngu hafi verið bent á að út frá fagurfræðilegu sjónarmiði kunni hagsmunir kærenda að vera skertir, þ.e. að um sjónmengun sé að ræða. Hvort þannig hátti til sé matskennt og við slíkt mat verði m.a. að líta til sjónarmiða annarra lóðarhafa og þeirra sem eigi lögvarða hagsmuni og hafi látið málið til sín taka. Fjölmargir íbúar hafi lýst sig samþykka byggingarleyfi fyrir gróðurhúsinu. Þá standi það í töluverði fjarlægð frá lóðamörkum og á laufgunartíma trjágróðurs sé húsið ekki sýnilegt kærendum.

Almennt sé viðurkennt að grenndarsjónarmið vegi þungt við mat á því hvort breyta skuli deiliskipulagi eða samþykkja byggingarleyfi í hverfum sem ekki hafi verið deiliskipulögð. Það hafi verið mat skipulagsnefndar og byggingarfulltrúa að taka bæri undir sjónarmið nágranna um grenndaráhrif og að tilvist hússins hefði engin neikvæð heldur einungis mjög jákvæð grenndaráhrif. Komi fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar að umrætt gróðurhús sé í 28 m fjarlægð frá stofuglugga húss kærenda, það hafi ekki áhrif á götumynd, ekki sé um varanlega byggingu að ræða, það sé snyrtilegt og því sé vel við haldið. Þá hafi gróðurhúsið í afar litlum mæli áhrif á landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og um eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni sé að ræða.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafar vekja athygli á því að hið umdeilda gróðurhús hafi verið á lóðinni í rúmlega ár án þess að komið hafi verið á framfæri athugasemdum vegna þess.

Nauðsynlegt sé að setja stærðarhlutföll í samhengi. Lóð leyfishafa sé 950 m². Íbúðarhús og bílskúr séu um 170 m² og nýtingarhlutfall 0,17. Ef bætt sé við léttbyggingum á lóðinni, gróðurhúsum og geymsluskúr sem séu samtals 41 m², verði nýtingarhlutfall 0,22. Miðað við lóðir í nýrri byggingarhverfum Kópavogs sé það mjög lágt.

Álit kærenda á stærð, útliti og notagildi gróðurhúsanna sé huglægt mat og styðjist ekki við lög og reglugerðir. Vísað sé til yfirlýsingar annarra íbúa í næsta nágrenni. Segi þar m.a. að gróðurhúsið sé einstaklega snyrtilegt og vel staðsett á lóðinni. Húsið og garður leyfishafa sé til sóma fyrir hverfið og ræktunarstarf til fyrirmyndar. Margir þessara nágranna búi nær gróðurhúsinu og í mun beinni sjónlínu við það en kærendur. 

Ofmælt sé að tala um að gróðurhúsið blasi við út um stofuglugga á heimili kærenda og að af því sé sjónmengun. Húsið sjáist en það skyggi ekki á útsýni. Ekki verði séð að það valdi nokkru óhagræði fyrir kærendur, enda langt frá stofugluggum þeirra, og um 15 m séu frá mörkum lóðar þeirra að gróðurhúsinu. Þar að auki sé mikill og fallegur gróður í garði leyfishafa sem skýli húsinu að verulegu leyti. Krafa um niðurrif gróðurhússins virðist sett fram í þeim eina tilgangi að valda leyfishöfum fjárhagslegu tjóni og leiðindum. Spurt sé hvaða lögmætu hagsmunir geti legið að baki nefndri kröfu.
 
——-

Færð hafa verið fram frekari rök í málinu og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
 
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfis fyrir 28 m² gróðurhúsi á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut. Lóðin er í grónu hverfi í Kópavogi sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis og er unnt að veita byggingarleyfi, að undangenginni grenndarkynningu, í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það er þó gert að skilyrði að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 44. gr.

Í hinu kærða tilviki er um að ræða gróðurhús á íbúðarhúsalóð sem telja verður að samræmist landnotkun svæðisins. Umrætt gróðurhús er klætt plasti og er hæð þess 2,42 m þar sem það er hæst. Það er staðsett á vesturhluta lóðarinnar, um 15 m frá mörkum lóðar kærenda. Eru lóðir kærenda og leyfishafa nokkuð stórar og er þar töluverður gróður. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Kópavogsbraut 98 sé 0,19 en verði eftir samþykkta breytingu 0,23. Sé litið til upplýsinga úr fasteignaskrá Þjóðskrár er nýtingarhlutfall Kópavogsbrautar 98 sambærilegt því sem er á næstu lóðum. Þannig er nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,18, nýtingarhlutfall er 0,20 á lóðinni nr. 100 og 0,22 á lóðinni nr. 102 við Kópavogsbraut. Úrskurðarnefndin fellst á að hið umdeilda gróðurhús sé nokkuð stórt og geti af þeim sökum haft einhver grenndaráhrif en telur þó í ljósi fyrrgreindra staðhátta að það raski ekki með slíkum hætti grenndarhagsmunum kærenda að ógildingu varði. Þá skal tekið fram að þrátt fyrir stærð og staðsetningu gróðurhússins hefur Kópavogsbær metið það svo að það falli að byggðamynstri svæðisins og m.a. vísað til þess í rökstuðningi til kærenda að hefðbundin gróðurhús, klædd plastdúk eða gleri, séu algeng í eldri hverfum bæjarins, enda sé ræktun grænmetis og blóma gömul hefð á Kársnesi í anda sjálfbærni, sem mikils sé metin í bæjarfélaginu. Eins og hér stendur á eru ekki efni til endurskoðunar á því mati sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem aðrar ástæður liggja ekki fyrir í máli þessu er leitt geta til ógildingar, er kröfu kærenda hafnað.

Kærendur vísa máli sínu til stuðnings m.a. til ákvæða 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar er meðal annars kveðið á um að óheimilt sé að reisa hús nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Eins og að framan greinir hefur Kópavogsbær nú samþykkt byggingarleyfi fyrir téðum gróðurhúsum. Kemur því af þeim sökum ekki til álita að beita áðurnefndu lagaákvæði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis frá 16. október 2012 fyrir 28 m² gróðurhúsi klæddu plasti á lóðinni Kópavogsbraut 98 í Kópavogi.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

111/2013 Hundahald Neskaupstað

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 111/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 13. nóvember 2013 um aflífun hundsins Skjöldólfs. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2013, er barst nefndinni 22. s.m., kærir S,  Neskaupstað, ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 13. nóvember 2013 um aflífun hundsins Skjöldólfs, sem er í hennar eigu. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn bárust frá heilbrigðisnefnd Austurlands 17. desember 2013.

Málavextir: Fram kemur í lögregluskýrslu, dagsettri 1. júlí 2013, að fjórar tilkynningar hafi borist vegna hundsins Skjöldólfs. Hinn 28. september 2011 var tilkynnt að Skjöldólfur hefði bitið stúlku í fótinn. Farið var með stúlkuna til læknis og fram kemur að kærandi hafi boðist til að greiða útlagðan kostnað. Kæra var ekki lögð fram af þessu tilefni. Hinn 22. nóvember 2012 var tilkynnt að Skjöldólfur hefði bitið konu í kálfann, en hundurinn var bundinn utan við verslun þegar atvikið átti sér stað. Leitaði konan í kjölfarið þrisvar sinnum til læknis vegna áverkans. Í lögregluskýrslunni kemur fram að hún hafi talið nægja að málið væri bókað hjá lögreglu. Hundurinn beit hinn 11. apríl 2013 í buxnaskálm lögreglumanns, en ekkert tjón hlaust þá af. Loks beit hundurinn konu í kálfann 1. júlí 2013 þannig að sár hlaust af. Tilkynnti hún um bitið til lögreglu en lagði ekki fram kæru. Fékk hún stífkrampasprautu og sýklalyf hjá lækni. Voru þrjú síðastgreind tilvik tilkynnt dýraeftirlitsmanni Fjarðabyggðar.
  
Heilbrigðiseftirlit Austurlands sendi kæranda bréf 2. júlí 2013 þar sem hann var hvattur til að láta aflífa hundinn. Vísað var til ofangreindra atvika og til 11. gr. samþykktar nr. 704/2010 um hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi. Í bréfi, dagsettu 4. júlí 2013, bað kærandi um að fá að láta reyna á það að gelda hundinn og var hundurinn geltur 10. s.m. Hundaþjálfari framkvæmdi atferlismat á hundinum og barst skýrsla hennar heilbrigðiseftirlitinu 15. október 2013. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins heimsótti kæranda þann sama dag, ásamt dýraeftirlitsmanni Fjarðabyggðar og lögreglumanni, til að meta hundinn. Málið var næst tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Austurlands 24. október 2013. Samþykkt var að tilkynna kæranda að nefndin áformaði að krefjast aflífunar hundsins þar sem gögn gæfu ekki til kynna að ástand hans og aðstæður hefðu breyst. Með bréfi 25. s.m. var kæranda tilkynnt um niðurstöðu fundarins.

Málið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 13. nóvember 2013 og var þar samþykkt að framkvæmdastjóri skyldi framfylgja fyrri ákvörðun og gera kröfu um aflífun hundsins. Í samræmi við þetta var þess krafist, með bréfi 16. nóvember 2013, að hundurinn yrði aflífaður. Ekki væri vafi á að hann hefði bitið og varnareðli hans væri mikið þrátt fyrir geldingu. Vísað var til 11. gr. samþykktar nr. 704/2010, laga nr. 7/1998 og 56. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 18. nóvember 2013 var fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. s.m. lögð fram til kynningar. Fundargerð eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar var lögð fram og samþykkt í bæjarstjórn Fjarðabyggðar 22. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemdir varðandi þær réttarheimildir sem ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar byggist á, þ.e. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, samþykkt nr. 704/2010, um hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi, og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti.

Í lögum nr. 7/1998 séu engin ákvæði um gæludýr, utan reglna um hreinsun hunda og um heimild sveitafélaga til að setja sér samþykktir um takmörkun gæludýrahalds. Muni samþykkt nr. 704/2010 vera studd því ákvæði, en draga megi í efa að lagaheimild sé fyrir sumum ákvæðum samþykktarinnar. Þá virðist það ekki samrýmast lögunum að nokkur sveitarfélög setji sameiginlega eina samþykkt. Óljóst sé hvernig staðið hafi verið að afgreiðslu samþykktarinnar hjá sveitarfélögunum auk þess sem ráðið verði af gögnum að samþykktinni hafi verið breytt eftir að einhver sveitarfélaganna voru búin að samþykkja hana.

Verði talið unnt að leggja samþykkt nr. 704/2010 til grundvallar byggi kærandi á því að 1. mgr. 11. gr. hennar verði ekki beitt í tilviki kæranda. Í fyrsta lagi liggi ekki fyrir að hundur kæranda hafi bitið eða að hann sé hættulegur. Ekki verði greint á milli þess hvort um bit eða glefs sé að ræða nema fyrir liggi áverkavottorð. Verði heilbrigðisnefnd að bera hallann af skorti á sönnunargögnum enda hvíli á henni rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðru lagi skorti á að þar til bær aðili hafi sett fram kröfu um aflífun, jafnvel þótt nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hundur kæranda sé hættulegur. Hvorki tjónþoli né dýraeftirlitsmaður hafi lagt fram kröfu og því sé skilyrðum 11. gr. samþykktarinnar ekki fullnægt. Ákvæðið sé íþyngjandi og því verði að skýra heimildina þröngt. Heilbrigðisnefnd hafi með ákvörðun sinni farið út fyrir valdsvið sitt og sú valdþurrð skuli leiða til ógildingar.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. samþykktar nr. 704/2002 skuli leita álits sérfróðs aðila áður en ákvörðun um aflífun sé tekin, óski hundeigandi þess. Kærandi hafi nýtt heimildina og skýra verði ákvæðið svo að taka beri tillit til álits hins sérfróða aðila. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins sé ekki sérfróður og hafi ekki haft heimild til að leggja sitt eigið mat til grundvallar ákvörðun. Í niðurlagi skýrslu hundaþjálfarans segi að best sé að meta ástand hundsins á ný eftir sex mánuði. Þetta sé sú niðurstaða sem heilbrigðisnefnd hefði átt að komast að. Vísi kærandi því til stuðnings til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.            

Í bókun heilbrigðisnefndar um hina kærðu ákvörðun sé ekki að finna rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Í bréfi framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dagsettu 16. nóvember 2013 þar sem kæranda sé kynnt hin kærða ákvörðun, séu færð fram rök fyrir henni, en þau virðist stafa frá bréfritara. Þetta samræmist ekki 4. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Loks telji kærandi að fundir heilbrigðisnefndar 24. október og 13. nóvember 2013 hafi verið ólögmætir. Fundirnir hafi verið símafundir en skilja verði ákvæði 34. gr. stjórnsýslulaga svo að nefndarmenn skuli vera staddir á fundarstað. Kærandi telji að þetta geti haft áhrif á niðurstöður fjölskipaðs stjórnvalds og að lagaheimild þurfi fyrir afbrigði af þessum toga. Af 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 verði ráðið að löggjafinn telji að lagaheimild þurfi fyrir þessu fundarformi. Í samþykkt nr. 567/2013, um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar, hafi verið settar heimildir til fjarfunda, m.a. í fastanefndum og/eða nefndum til að fara með einstök mál eða málaflokka. Heilbrigðisnefnd Austurlands falli hins vegar ekki þar undir enda starfi hún sem svæðisbundin nefnd sem taki til fleiri sveitarfélaga, sbr. 11. og 14. gr. laga nr. 7/1998. Enga heimild til fjarfunda sé að finna í lögum nr. 7/1998 eða í stofnsamningi Byggðasamlags um rekstur Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

Málsrök heilbrigðisnefndar Austurlands: Á því er byggt að 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir feli í sér heimild til að banna hundahald. Málefnalegar takmarkanir á hundahaldi hafi því fulla stoð í lögum. Í Fjarðabyggð sé hundahald heimilað, séu öryggi og heilsa almennings tryggð. Kröfur séu gerðar til eiganda gæludýrs og til gæludýrsins sjálfs. Komi á daginn að dýr uppfylli þær ekki sé brugðist við í samræmi við gildandi reglur.

Í 56. gr. hollustuháttareglugerðar nr. 941/2002 segi að gæludýr skuli þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Augljóst sé að hundur sem bíti valdi bæði ónæði og óhollustu. Heimild til að beita þvingunarúrræðum sé að finna í XIX. kafla reglugerðarinnar, en eðlilegra sé að beita þvingunarúrræðum þeim sem getið sé um í samþykkt nr. 704/2010. Það rýri með engu móti ákvæði reglna um hundahald að þær séu sameiginlegar fyrir mörg sveitarfélög. Reglurnar séu samþykktar af hverju sveitarfélagi fyrir sig og mörg fordæmi séu fyrir því að nokkur sveitarfélög setji sér samhljóða samþykktir og birti þær sameiginlega. Afgreiðsla samþykktarinnar hafi verið í samræmi við lög. Orðalagsbreytingar hafi verið gerðar í samvinnu við ráðuneytið sem ekki hafi gert athugasemdir við birtingu samþykktarinnar.

Eftirlitið vísi til þess að glefs sé samkvæmt orðabók „laust bit“. Laust bit geti verið hættulegt og undanfari hættulegri hegðunar. Enginn eðlismunur sé á glefsi og biti. Vísað sé til lögregluskýrslu þar sem segi að um bit hafi verið að ræða og sár myndast. 

Um ábyrgð heilbrigðiseftirlitsins á málaflokknum vísist til 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 704/2010, þar sem segi að dýraeftirlitsmenn starfi undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðisnefndar. Hlutverk heilbrigðiseftirlits sé í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 en þar segi í 1. gr. að markmiðið með lögunum sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Í 13. gr. segi m.a. að heilbrigðisnefndum beri að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga og vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæði sínu. Berist tilkynningar um að hundur hafi bitið beri heilbrigðiseftirliti samkvæmt ofangreindum ákvæðum að bregðast við, hvort sem kært sé til lögreglu eða ekki eða krafist aflífunar eða ekki. Þegar dýraeftirlitsmaður geri kröfu um aflífun dýrs geri hann það á ábyrgð heilbrigðisnefndar. Ekkert banni að heilbrigðiseftirlit leggi sjálft fram umrædda kröfu, miklu frekar sé það skylda heilbrigðiseftirlits.

Með því að skoða hundinn og viðbrögð hans hafi heilbrigðiseftirlitið verið að sinna rannsóknarskyldu sinni. Framkvæmdastjóri eftirlitsins hafi óskað eftir viðveru dýraeftirlitsmanns Fjarðabyggðar og lögreglumanns, en þau hafi mikla reynslu og þekkingu á atferli hunda. Atferlismat hundaþjálfara sé aðeins eitt gagna málsins og sé metið í ljósi annarra gagna. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að úrræði sem gangi skemur nái ekki þeim markmiðum sem heilbrigðisnefnd sé gert að vinna að.

Varðandi rökstuðning ákvörðunarinnar bendi eftirlitið á það að heilbrigðisfulltrúar starfi í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998. Heilbrigðisnefnd hafi fjallað um málefni hundsins Skjöldólfs á fundum 2. september, 24. október  og 13. nóvember 2013. Á öllum fundunum hafi gögn máls verið lögð fram og rædd. Í þessu máli eins og öðrum sé framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins falið að undirbúa mál og leggja fram tillögu að afgreiðslu. Það sé ekkert sem styðji að rökstuðningurinn sé ónákvæmur eða rangur.

Í kærubréfi komi fram það sjónarmið kæranda að símafundir séu ólögmætir. Heilbrigðisnefndin telji að ákvæði um fundi sveitarstjórna annars vegar og nefnda sveitarfélaga hins vegar verði ekki lögð að jöfnu, sbr. ákvæði 2. mgr. 52. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Fundir sveitarstjórnar skuli t.a.m. vera opnir en fundir nefnda lokaðir og veki notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórnar því tæknileg og stjórnsýsluleg álitamál. Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Fjarðabyggðar séu þröng skilyrði fyrir notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórnar. Hins vegar segi í 43. gr. reglnanna að nefndir megi halda fundi með síma- eða fjarfundabúnaði. Í ljósi þess hve starfssvæði heilbrigðisnefndar sé víðfeðmt hafi ekki verið gerðar athugasemdir við fjarfundi.  
_______

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands um að aflífa skuli hundinn Skjöldólf, sem er í eigu kæranda.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir geta sveitarfélög sett sér samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur. Þar á meðal er heimilt að setja samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds, sbr. 1. tl. 1. mgr. 25. gr. Með vísan til tilvitnaðs lagaákvæðis hefur samþykkt nr. 704/2010, um hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðahreppi, verið sett. Samþykktin var staðfest af ráðherra og birtist í Stjórnartíðindum 15. september 2010.

Sveitarstjórn á að annast framkvæmd samþykktarinnar og getur ráðið sérstaka dýraeftirlitsmenn sem starfa undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðisnefndar, sbr. 1. mgr. 2. gr. samþykktarinnar. Í Fjarðabyggð hefur verið ráðinn dýraeftirlitsmaður. Skal hann halda skrá yfir hunda í sveitarfélaginu, þar sem m.a. komi fram hvaða afskipti eftirlitsaðilar hafi haft af hundum og eigendum þeirra, sbr. 1. mgr. 8. gr. Skal heilbrigðisnefnd, lögregla og eftir atvikum aðrir starfsmenn sveitarfélags tilkynna dýraeftirlitsmanni um kvartanir og afskipti af hundum í sveitarfélaginu, sbr. 2. mgr. 8. gr. Í samræmi við þetta voru tvö af þeim tilvikum þegar hundurinn Skjöldólfur beit eða glefsaði í fólk tilkynnt dýraeftirlitsmanni, sem og það þegar hann beit í buxnaskálm lögreglumanns. Dýraeftirlitsmaður getur samkvæmt 1. mgr. 11. gr. samþykktar nr. 704/2010 krafist þess að hundur sem hefur bitið verði aflífaður og getur tjónþoli einnig gert þá kröfu.

Fram kemur í 13. gr. laga nr. 7/1998 að heilbrigðisnefnd beri að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna, reglugerða settum samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 1. mgr. 13. gr. samþykktar nr. 704/2010, er m.a. mælt fyrir um heimild heilbrigðisnefndar til að beita tilteknum aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt samþykktum sveitarfélaga. Þannig hefur nefndin heimild til að veita áminningu, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laganna, og stöðva starfsemi eða notkun, sbr. 3. tl. Þá getur heilbrigðisnefnd beitt dagsektum, sinni aðili ekki fyrirmælum innan tiltekins frests, sbr. 27. gr. laganna. Mælt er fyrir um þvingunarúrræði og afturköllun leyfa í 13. gr. samþykktarinnar. Í 2. mgr. 13. gr. segir að eigendur hunda sem brjóti gegn ákvæðum samþykktarinnar skuli sæta áminningu heilbrigðisnefndar og þeim gefinn frestur til úrbóta. Vanræki umráðamaður hunds skyldur sínar eða brjóti ítrekað gegn ákvæðum samþykktarinnar eða öðrum reglum um hundahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn, sbr. 5. mgr. 13. gr.

Ákvörðun um aflífun er íþyngjandi og verður að skýra heimild til hennar þröngt. Hvorki 13. né 26. gr. laga nr. 7/1998 geymir sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra. Samkvæmt 9. gr. sömu laga fer ráðherra með yfirstjórn mála samkvæmt þeim. Í samþykkt nr. 704/2010, sem staðfest var af ráðherra, er mælt fyrir um hvernig tekin skuli ákvörðun um viðbrögð þegar hundur bítur eða samþykktin er brotin. Um bit og hættu er þannig tiltekið í 11. gr. samþykktarinnar að hafi hundur bitið geti dýraeftirlitsmaður, í samráði við heilbrigðiseftirlit, eða tjónþoli gert kröfu um aflífun. Þá er ljóst af 13. gr. samþykktarinnar, sem fjallar um þvingunarúrræði og afturköllun leyfa, að það er á hendi sveitarstjórnar að ákveða hvort fjarlægja skuli hund við alvarleg eða ítrekuð brot á samþykktinni en heilbrigðisnefnd getur áminnt eigendur hunda og gefið frest til úrbóta vegna brota á henni. Samkvæmt samþykktinni er því annars vegar um að ræða tafarlausa aflífun hunds, að kröfu tjónþola eða dýraeftirlitsmanns, þegar um bit eða hættu er að ræða skv. 11. gr., eða að hundur sé fjarlægður vegna alvarlegra eða ítrekaðra brota á samþykktinni og þá á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar. Í máli þessu liggur fyrir að málsmeðferð og ákvarðanataka fór fram hjá heilbrigðisnefnd. Liggur fyrir ákvörðun hennar um aflífun á grundvelli nefndrar 11. gr., en þar er dýraeftirlitsmanni, sem ráðinn er af sveitarstjórn, falið sérstakt hlutverk þegar krafa um aflífun hefur ekki verið sett fram af hálfu tjónþola. Í máli því sem hér er til meðferðar hefur dýraeftirlitsmaður ekki komið að slíkri kröfu, svo sem skýrt er skilyrt í nefndu ákvæði. Verður því að telja að nefndinni hafi ekki verið heimilt að taka ákvörðun um aflífun án kröfu samkvæmt áðurnefndri 11. gr. Þá verður ekki talið að nefndin í stað dýraeftirlitsmanns geti sett fram slíka kröfu í skjóli þess að hann starfi undir eftirliti og á ábyrgð nefndarinnar, enda honum einum ætlað það hlutverk samkvæmt afdráttarlausu orðalagi ákvæðisins. Með hliðsjón af framangreindu verður hin kærða ákvörðunin felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Austurlands frá 13. nóvember 2013 um að aflífa skuli hundinn Skjöldólf.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

116/2012 Fannardalur í Norðfirði

Með

Árið 2014, mánudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þóra Árnadóttir jarðeðlisfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2012, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 5. október 2012 um veitingu leyfis til nýtingar á grunnvatni í landi Tandrastaða í Fannardal í Norðfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. nóvember 2012, er barst nefndinni 5. s.m., kærir Ásgerður Ragnarsdóttir hdl., f.h. G, ákvörðun Orkustofnunar, dags. 5. október 2012, um veitingu leyfis til nýtingar á grunnvatni í landi Tandrastaða í Fannardal í Norðfirði. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Orkustofnun hinn 30. nóvember 2012.

Málavextir: Kærandi er eigandi jarðarinnar Fannardals í Fannardal í Norðfirði og liggur nágrannajörðin Tandrastaðir í Fannardal austan megin við hana. Sveitarfélagið Fjarðabyggð hóf nýtingu á grunnvatni í Fannardal fyrir vatnsveitu í Norðfirði upp úr áramótum 2002-2003, en vatnið er tekið upp um borholur í landi Tandrastaða. Fjarðabyggð greiðir eigendum Tandrastaða endurgjald fyrir vatnstökuna á grundvelli leigusamninga, dagsettum 3. júlí 2008 og 7. desember 2009, en gerðardómur um skyldu sveitarfélagsins til greiðslu endurgjalds til annars eigenda Tandrastaða gekk hinn 14. febrúar 2007. Kærandi hefur krafið Fjarðabyggð um endurgjald fyrir vatnstökuna en sveitarfélagið hefur ekki fallist á þá kröfu.   

Orkustofnun beindi því til Fjarðabyggðar í bréfi, dagsettu 7. febrúar 2012, að sækja án tafar um nýtingarleyfi til stofnunarinnar vegna vinnslu grunnvatns úr borholu(m) í landi Tandrastaða og styðja umsóknina viðeigandi gögnum, en kærandi hafði vakið athygli stofnunarinnar á því að nýtingarleyfi skorti. Því var einnig beint til sveitarfélagsins að skila upplýsingum um borholur sem boraðar voru í tengslum við rannsóknir og vinnslu á grunnvatni í Fannardal og var loks tekið fram að ekki yrði ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvort dæling á vatni hefði áhrif á grunnvatnsstöðu í landi Fannardals. Fjarðabyggð sótti um nýtingarleyfi til Orkustofnunar með bréfi, dagsettu 5. mars s.á. Í bréfi Orkustofnunar til kæranda, dagsettu 16. s.m., var vísað til tveggja greinargerða Jarðfræðistofunnar Stapa sem fylgdu umsókn Fjarðabyggðar, Vatnsveita Norðfjarðar. Borun vatnshola 2002 og 2004 nr. ÓBS/08-05 og Vatnsból við Tandrastaði. Endurskoðun á vatnsverndarsvæði nr. ÓBS/11-02.  Sagði að á grundvelli þeirra gagna sem fram kæmu í greinargerðunum væri það ályktun Orkustofnunar að hæfileg vatnstaka úr vatnsbóli Norðfirðinga í landi Tandrastaða hefði ekki áhrif á grunnvatnsstöðu í landi Fannardals og vatnstakan gæti með engu móti takmarkað eða gengið á möguleika jarðarinnar Fannardals til vatnstöku í eigin landi.  Því yrði ekki litið svo á að kærandi ætti hagsmuna að gæta við meðhöndlun á umsókn Fjarðabyggðar um áðurnefnt nýtingarleyfi. 

Kærandi gerði athugasemdir við málsmeðferð Orkustofnunar og færði rök fyrir aðild sinni að málinu í bréfi, dagsettu. 1. júní 2012. Í kjölfarið óskaði hann eftir greinargerð frá Hrefnu Kristmannsdóttur, jarðefnafræðingi og fyrrverandi prófessor, vegna ágreiningsins og var greinargerð hennar, Um grunnvatnskerfi nýtt af vatnsveitu Norðfjarðar, send Orkustofnun hinn 23. s.m.  Með hliðsjón af greinargerð Hrefnu taldi Orkustofnun að vafi gæti leikið á því hvort kærandi ætti einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og var umsókn Fjarðabyggðar um nýtingarleyfi send honum til umsagnar.  Barst Orkustofnun umsögn hans hinn 30. júlí s.á. og greinargerð Hrefnu Kristmannsdóttur, Greinargerð II um grunnvatnskerfi nýtt af vatnsveitu Norðfjarðar til Orkustofnunar, barst með bréfi, dagsettu 7. september s.á.

Orkustofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dagsettu 5. október 2012, að leyfi til nýtingar á köldu grunnvatni í landi Tandrastaða hefði verið gefið út þann dag. Bréfinu fylgdi afrit af nýtingarleyfinu og fylgibréf. Er sú leyfisveiting umdeild í máli þessu, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að lagaskilyrði hafi skort til þess að veita hið kærða nýtingarleyfi og sé ákvörðun Orkustofnunar þar að lútandi því ólögmæt. Grunnvatnsauðlindin sem nýtt sé til vatnsveitu af hálfu Fjarðabyggðar sé sameiginleg auðlind landeigenda á svæðinu. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu eignarlandi.  Grunnvatn teljist til slíkra auðlinda, sbr. nánar 6. mgr. 2. gr. laganna.  Auðlindina sé að finna í landi Fannardals og Tandrastaða. Sé hún því háð eignarrétti þeirra beggja og í óskiptri sameign þeirra. Engu breyti þótt upptaka vatnsins fari fram á Tandrastöðum, örskammt frá landamerkjum þeirrar jarðar og jarðar kæranda.  Bent sé á að auðlindalög taki tillit til þess að auðlindir geti verið í sameign tveggja eða fleiri aðila, sbr. og 27. gr. laganna. Ljóst sé að auðlindir eins og grunnvatn virði ekki landamerki og liggi landamerki Tandrastaða og Fannardals þannig að nýting grunnvatnsauðlindarinnar verði ekki aðskilin. Hafi þetta verið viðurkennt í réttarframkvæmd hvað varði jarðhita og telji kærandi að sömu sjónarmið eigi við um greiðslur vegna nýtingar á sameiginlegri grunnvatnsauðlind. 

Eignarrétturinn sé friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar en þar komi fram að engum sé skylt að láta af hendi eign sína án endurgjalds.  Af því leiði að eigandi auðlindar eigi rétt á því að eign hans sé ekki nýtt af þriðja manni án þess að greitt sé fyrir hagnýtinguna.  Endurspeglist þessi grunnregla og sjónarmið í 1. mgr. 7. gr. auðlindalaga en samkvæmt því ákvæði beri nýtingarleyfishafa að ná samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindina, eða afla heimildar til eignarnáms og óska eftir mati samkvæmt 29. gr. laganna, áður en hann hefji vinnslu og nýtingu auðlindarinnar. Með hliðsjón af 3. gr., sbr. 7. gr., auðlindalaga þurfi viðkomandi nýtingarleyfishafi þannig að hafa náð samkomulagi um endurgjald fyrir auðlindina við alla hlutaðeigandi landeigendur þegar um sameiginlega auðlind sé að ræða. Fjarðabyggð hafi hvorki aflað tilskilinna leyfa né náð samkomulagi við kæranda um endurgjald fyrir auðlindina áður en hún hóf nýtingu hennar.

Orkustofnun hafi sem eftirlitsaðila borið að synja umsókn sveitarfélagsins um nýtingarleyfi, með vísan til þess að umsækjandi hefði brotið gegn 7. gr. auðlindalaga og ekki gripið til ráðstafana til að bæta þar úr. Þeirri afstöðu Orkustofnunar, sem lesin verði út úr bréfi stofnunarinnar til kæranda, dagsettu 5. október 2012, að 7. gr. auðlindalaga áskilji eingöngu samkomulag við landeiganda um endurgjald ef nýtingarmöguleikar hans skerðist vegna vinnslunnar, sé mótmælt sem rangri. Um sé að ræða grundvallarmisskilning á eignarrétti og þeim réttindum sem 7. gr. auðlindalaga sé ætlað að tryggja. Nýting sveitarfélagsins á grunnvatnsauðlindinni feli í sér skerðingu á eignarrétti kæranda og myndist þá réttur til endurgjalds í samræmi við 7. gr. auðlindalaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar, en þýðingarlaust sé fyrir greiðsluskyldu sveitarfélagsins hvort sýnt sé fram á að nýtingarmöguleikar kæranda vegna vatnstökunnar skerðist.

Þar að auki sé umrædd forsenda, þ.e. að ekki þurfi að semja við kæranda um endurgjald þar sem möguleikar hans til að nýta auðlindina skerðist ekki, með öllu ósönnuð og geti Orkustofnun ekki byggt ákvörðun um leyfisveitingu á henni. Afstaða Orkustofnunar virðist byggjast á tveimur greinargerðum Jarðfræðistofunnar Stapa en kærandi hafi aflað tveggja greinargerða, dagsettra 23. júní og 27. ágúst 2012, frá Hrefnu Kristmannsdóttur, jarðefnafræðingi og fyrrverandi prófessor í jarðhitafræðum, vegna þessa. Þar séu gerðar margvíslegar athugasemdir við ályktanir í umræddum greinargerðum, bent á skort á nauðsynlegum rannsóknum og mælingum og rökstutt að ekki hafi verið sýnt fram á að nýtingarmöguleikar kæranda skerðist ekki vegna vatnstökunnar. Orkustofnun virðist líta með öllu framhjá þessu atriði og hafi ekki tekið það til nánari rannsóknar, en fullyrt sé í bréfum stofnunarinnar, dagsettum 5. október 2012, að ekki sé um nokkurs konar skerðingu að ræða, án minnsta rökstuðnings. Þetta sé í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess að vera alvarlegur annmarki á meðferð málsins.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun mótmælir sem röngum þeim skilningi kæranda að með virkjun vatnsbóls við Tandrastaði sé jafnframt verið að nýta grunnvatn frá jörð kæranda, sem sé sameiginleg auðlind jarðanna Tandrastaða og Fannardals. Þá er því mótmælt sem röngu, órökstuddu og ósönnuðu að hin kærða ákvörðun Orkustofnunar hafi einhver áhrif á landnotkun kæranda á grundvelli auðlindalaga, sem hin kærða ákvörðun byggi á, eða hafi í för með sér eignatjón fyrir hann af þeim ástæðum.  Því sé þannig mótmælt að Orkustofnun hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti kæranda er lúti að eignarrétti hans og atvinnufrelsi.

Orkustofnun bendi á að stofnunin hafi ekki heimild til að gera undanþágu frá 7. gr. auðlindalaga né heldur að setja frekari skilyrði en kveðið sé á um í lögum. Fyrir liggi leigusamningar sem Fjarðabyggð hafi gert við landeigendur að Tandrastöðum um endurgjald fyrir auðlindina. Möguleikar landeiganda til að nýta þá auðlind er fylgi landareign hans þurfi að skerðast til að hægt sé að krefjast endurgjalds fyrir þann hluta auðlindarinnar sem teljist  hluti af hans eignarréttindum. Þannig myndi það horfa við ef nýting landeiganda á grunnvatni í landi sínu yrði til þess að sú auðlind sem fylgdi landi nærliggjandi fasteignar myndi skerðast og þannig möguleikar landeigandans til nýtingar hennar. Orkustofnun telji einsýnt af skýrslum fagaðila að svo sé ekki í máli kæranda. Í þessu sambandi skipti ekki máli hvaðan vatnið sé upp runnið, þar sem leyfisveiting til nýtingar að Tandrastöðum hindri ekki nýtingu grunnvatns í landi Fannardals, sbr. VII. kafla auðlindalaga.

Auðlindalögin gildi samhliða vatnalögum nr. 15/1923, eftir því sem við eigi, sbr. 1. gr. vatnalaga.  Ótvírætt sé að grunnvatn falli undir ákvæði auðlindalaga, sbr. 1. gr. laganna, en hafa beri ákvæði vatnalaga nr. 15/1923 í huga þegar fjallað sé um sameiginleg vatnsréttindi og/eða skil vatnsréttinda milli landeigenda og hvernig þau skil séu metin með tilliti til ákvæða auðlindalaga, enda hafi ákvæði vatnalaga um grunnvatnstöku gilt áður en auðlindalög hafi tekið við að hluta árið 1998. Auðlindalög beri að skýra í ljósi meginreglu vatnalaga um vatnsréttindi, sbr. 1. mgr. 2. gr., þannig að landareign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni sé á þann hátt sem lögin heimili.  Í 12. gr. vatnalaga, um vatnstöku á eigin landareign, sé kveðið á um að gera megi brunna og vatnsból á landareign jarðeiganda, enda sé þess gætt að eigi sé minnkuð eða heft aðsókn vatns að brunnum annarra manna eða vatnsbólum, nema eigi sé annars kostur eða vatnsból yrði ella mun dýrara eða vatnsaðdrættir erfiðari.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á að slík skerðing hafi átt sér stað, hvorki með vísan til fyrrnefndrar 12. gr. né á annan hátt.

Athygli sé vakin á því að hin kærða ákvörðun hafi sótt stoð í ákvæði IV. kafla auðlindalaga, en nýting auðlinda í eignarlöndum sé háð leyfi Orkustofnunar með þeim undantekningum sem lögin greini, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt. 7. gr. auðlindalaga skuli nýtingarleyfishafi hafa náð samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindina eða fengið heimild til eignarnáms áður en hann hefur vinnslu í eignarlandi. Hafi stofnunin tekið afstöðu til þessa við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og hafi mat hennar verið það að nýtingarleyfishafi hefði náð samkomulagi við landeigendur, en kærandi sé ekki einn þeirra. Ekki verði fallist á að eignarréttur kæranda sé skertur í skilningi auðlindalaga með útgáfu nýtingarleyfis á grunnvatni í landi annarra eigenda en hans.

Þeim sjónarmiðum kæranda að lagaskilyrði hafi skort fyrir hinni kærðu ákvörðun sé mótmælt. Ákvörðunin hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum, sem samræmist vel þeim hagsmunum sem auðlindalögum sé ætlað að vernda. Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið stefnt að því lögmæta markmiði að tryggja nýtingu á grunnvatni fyrir vatnsveitu Fjarðabyggðar á stjórnsýslulegan og lögformlegan hátt án þess að skerða réttindi kæranda til notkunar á grunnvatni í landi sínu samkvæmt ákvæðum sömu laga.  Hin kærða ákvörðun hafi sótt stoð í IV. kafla auðlindalaga.

Að lokum sé bent á að Orkustofnun hafi gætt samræmis, jafnræðis og meðalhófs við meðferð málsins.

Athugasemdir nýtingarleyfishafa: Sveitarfélagið Fjarðabyggð bendir á að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um að útgáfa nýtingarleyfisins hafi verið ólögmæt.  Samkvæmt 7. gr. auðlindalaga, sem kærandi byggi mál sitt á, geti sveitarfélagið fengið nýtingarleyfi sem síðan kunni að falla niður takist ekki samningar við landeiganda innan 60 daga frá útgáfu leyfisins. Sjálf útgáfa nýtingarleyfisins sé þannig óháð samningum við landeigendur.  Miðað við málatilbúnað kæranda ætti ágreiningurinn því að snúast um hvort fella ætti leyfið niður en máli skipti í hvaða búningi mál sé lagt fyrir nefndina. Kunni að vera óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni.

Varðandi efnisþátt málsins telji sveitarfélagið að hafna eigi kröfu kæranda. Með breytingu á skipulagi vatnsverndar hafi kvaðabinding jarðar kæranda minnkað verulega og áhöld séu um hvort grannsvæði nái inn á jörð hans en það fari eftir því hvar landamerki jarðanna séu.  Jörðin sé hins vegar áfram á fjarsvæði. Gera verði greinarmun á aðila sem lendi undir kvaðabindingu vegna vatnsverndar og aðila sem eigi þá auðlind sem nýtt sé, en af gögnum málsins verði talið að ekki sé verið að nýta auðlind sem tilheyri jörð kæranda.  Sé vatnsvernd ríkari en nauðsyn krefji felist ekki í því nein viðurkenning á því að verið sé að nýta auðlind frá viðkomandi aðilum. 

Þegar rannsóknir vegna vatnsveitunnar hafi staðið yfir hafi verið borað í tilraunaskyni í landi kæranda en þær boranir hafi ekki borið árangur. Sveitarfélagið geti því ekki fallist á að um sameiginlega grunnvatnsauðlind sé að ræða. Þá hafi verið sýnt fram á að nýting vatnsveitunnar á grunnvatni úr landi Tandrastaða hindri hvorki kæranda né aðra landeigendur í nágrenninu í að nýta grunnvatn á jörðum þeirra. Kærandi hafi misskilið þessi sjónarmið Orkustofnunar en með þeim sé verið að slá því föstu að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi verið skyldaður til að láta af hendi eign sína í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar.    

Bent sé á að sveitarfélagið hafi enga hagsmuni haft af því að afmarka auðlindina eingöngu innan jarðar Tandrastaða þar sem endurgjald vegna nýtingarinnar hefði verið það sama ef hún hefði verið talin tilheyra fleiri jörðum. Fagaðili hafi unnið í langan tíma fyrir sveitarfélagið við rannsóknir, tillögugerð og vinnslu og lýsi skýrslur hans ekki öllum þeim athöfnum og rannsóknum sem gripið hafi verið til, heldur dragi þær fram aðalatriðin og ályktanir hans. Því sé þess vegna hafnað að skrif Hrefnu Kristmannsdóttur hreki þá vinnu og geri marklausa. Þá hafi sérfræðingar Orkustofnunar farið yfir málið og lagt mat sitt á það.

Athugasemdir kæranda vegna greinargerðar Orkustofnunar og athugasemda nýtingarleyfishafa: Kærandi bendir á að misskilnings hafi gætt af hálfu Orkustofnunar hvað varði eðli nýtingarleyfa til vatns, hugtök sem tengist vatnsvernd og staðhætti á svæðinu. Engar sjálfstæðar eða efnislegar röksemdir hafi verið færðar fyrir mótmælum Orkustofnunar við því að við virkjun vatnsbóls við Tandrastaði sé jafnframt verið að nýta grunnvatn frá jörð kæranda og að um sameiginlega auðlind sé að ræða.

Telji kærandi þá staðreynd að brunnsvæði og grannsvæði skuli vera á hans landareign styðja þá röksemd að um sameiginlega auðlind sé að ræða og að verið sé að nýta vatn úr hans landi.  Því sé alfarið hafnað að vatnalög nr. 15/1923 hafi sérstaka þýðingu fyrir úrlausn kærumáls þessa en þar sé ekki að finna ákvæði sem heimili sveitarfélagi að nýta auðlind á eignarlandi án þess að inna af hendi endurgjald til landeiganda.  Ákvæði 12. gr. laganna hafi jafnframt enga þýðingu enda gildi ákvæðið um heimildir til vatnstöku á eigin landareign en ekki um rétt þriðja aðila til að nýta vatn á eignarlandi. 

Kærandi geti ekki fallist á rökstuðning nýtingarleyfishafa um mögulega frávísun málsins vegna skorts á lögvörðum hagsmunum.  Kröfugerðin beinist að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun og verði fallist á hana yrðu réttaráhrifin þau að gilt nýtingarleyfi væri ekki lengur fyrir hendi. 

Málið snúist eingöngu um ákvörðun Orkustofnunar um að veita sveitarfélaginu hið kærða nýtingarleyfi. Sé ítrekað að þýðingarlaust sé fyrir greiðsluskyldu nýtingarleyfishafa hvort sýnt sé fram á að nýtingarmöguleikar kæranda vegna vatnstökunnar skerðist.

——–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
 
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.  Í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er kveðið á um að ákvarðanir Orkustofnunar, er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögunum, sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest og málsmeðferð fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Í málinu er deilt um útgáfu leyfis til nýtingar á grunnvatni í landi Tandrastaða í Fannardal í Norðfirði sem jörð kæranda, Fannardalur, liggur að. Heldur kærandi því fram að um auðlind sé að ræða sem sé í óskiptri sameign og háð eignarrétti sínum og eigenda Tandrastaða. Því til stuðnings hefur kærandi lagt fram greinargerðir sérfræðings. Þykir kærandi af þeim sökum geta haft slíkra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu að játa verður honum kæruaðild að umdeildri leyfisveitingu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 segir að nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi Orkustofnunar. Fer um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun skv. VIII. kafla greindra laga, sbr. 3. mgr. 6. gr. þeirra. Segir í 1. mgr. 17. gr. að við veitingu nýtingarleyfa skuli þess gætt að nýting auðlinda í jörðu sé með þeim hætti að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða, nýting auðlindanna sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og tekið sé tillit til nýtingar sem þegar sé hafin í næsta nágranni. Getur Orkustofnun synjað um leyfi eða sett sérstök skilyrði séu þessar kröfur ekki uppfylltar. Í athugasemdum við lagafrumvarpið er tekið fram að veiting nýtingarleyfa vegna auðlinda í eignarlandi taki mið af framangreindum sjónarmiðum sem gangi þá framar hagsmunum landeiganda. Þá eru í 18. gr. laganna talin þau atriði sem m.a. skal tilgreina í nýtingarleyfi og eru þau ekki tæmandi talin. Fjallar 17. gr. þannig um skilyrði fyrir veitingu leyfa samkvæmt lögunum og 18. gr. um efni þeirra. Önnur skilyrði er ekki að finna fyrir veitingu nýtingarleyfis. Áður en nýtingarleyfishafi hefur vinnslu í eignarlandi þarf hann hins vegar, í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laganna, að hafa náð samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindina eða fengið heimild til eignarnáms. Takist það ekki innan 60 daga frá útgáfu leyfis eða nýting hefst ekki innan þriggja ára frá útgáfu þess fellur það niður. Þá getur það eftir atvikum leitt til afturköllunar nýtingarleyfis á síðari stigum ef leyfishafi hlítir ekki samningum við landeiganda, sbr. 20. gr. laganna. Ákveðnar lögfylgjur eru því tengdar samkomulagi við landeigendur en texti tilvitnaðra lagagreina verður ekki skilinn svo að um sjálfstætt skilyrði við leyfisveitingu sé að ræða. Þó var eðlilegt og í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og vandaða stjórnsýsluhætti að Orkustofnun gæfi kæranda, sem eiganda nágrannajarðar, kost á að koma að athugasemdum sínum, sérstaklega þar sem fyrir lá að nýting var hafin og með hliðsjón af því skilyrði 1. mgr. 17. gr. að líta skuli til nýtingar sem þegar sé hafin í næsta nágrenni.

Í 3. gr. laga nr. 57/1998 segir að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu. Þá segir í 27. gr. laganna að komi upp ágreiningur milli rétthafa um nýtingu auðlindar, sem ekki fæst jafnaður, t.d. ef landamerki tveggja eða fleiri rétthafa liggja þannig að nýting auðlindar verður ekki aðskilin, skuli afla mats dómkvaddra matsmanna um hvernig hagkvæmast sé að hagnýta auðlindina og hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar. Eins og áður er lýst heldur kærandi því fram að auðlind sú sem um ræðir sé hluti af grunnvatnskerfi sem hann hafi eignarráð yfir, en hann er eigandi nágrannajarðarinnar Fannardals sem liggur að jörð Tandrastaða þar sem umrædd vatnstaka fer fram. Nýtingarleyfishafi, sveitarfélagið Fjarðabyggð, hefur tekið vatn úr landi Tandrastaða um árabil og hefur samningur um vatnstökuna verið gerður við eigendur þeirrar jarðar á grundvelli gerðardóms. Hafnar sveitarfélagið því að um sameiginlega grunnvatnsauðlind sé að ræða. Álitsgerðir sérfræðinga liggja fyrir frá kæranda og sveitarfélaginu. Að teknu tilliti til fram kominna upplýsinga var það mat Orkustofnunar að leyfisveiting hindraði ekki nýtingu grunnvatns í landi kæranda og að skilyrðum 17. gr. væri þar með fullnægt. Ljóst er að í skilningi 3. gr. fylgir eignarréttur að grunnvatni jörðinni Fannardal og sömuleiðis jörðinni Tandrastöðum. Þá er almennt ljóst að eignarréttur getur verið með þeim hætti að um sérstaka eða óskipta sameign sé að ræða og getur stofnast til hennar með ýmsu móti, þ. á m. vegna náttúrulegra aðstæðna. Um slíka sameign gilda síðan réttarreglur um hlutdeild sameigenda, t.d. áðurnefnd 27. gr., sem og um heimildir þeirra til notkunar og ráðstöfunar sameignarinnar, með eða án samþykkis annarra sameigenda. Um sameign, líkt og annan eignarrétt, gildir að sýna þarf fram á eignarrétt í samræmi við almennar sönnunarreglur og réttarheimildir. Það er hins vegar ekki hlutverk þess stjórnvalds sem ætlað er að gefa út leyfi til nýtingar auðlindar, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í 1. mgr. 17. gr., að jafna eignarréttarlegan ágreining, eða rannsaka frekar eignarhald auðlindar sem áhöld eru um, þegar það hefur fullvissað sig um að áskilnaði til útgáfu leyfis er fullnægt enda skal stjórnvald samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eingöngu sjá til þess að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir til að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun. Verður ekki annað séð en að form- og efnisskilyrðum hinnar umdeildu nýtingarleyfisveitingar hafi verið fullnægt og að stefnt hafi verið að lögmætum markmiðum með útgáfu leyfisins, enda hefur sveitarfélag skv. 15. gr. laganna forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna grunnvatns innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa vatnsveitu sem rekin er þar. Er tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga að þetta þyki nauðsynlegt með tilliti til samfélagslegra hagsmuna í sveitarfélaginu.

Í samræmi við allt ofangreint verður kröfu kæranda um ógildingu hins kærða leyfis hafnað.

Meðferð málsins hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun Orkustofnunar, dags. 5. október 2012, um veitingu leyfis til nýtingar á grunnvatni í landi Tandrastaða í Fannardal í Norðfirði, verði felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þóra Árnadóttir

18/2014 Álfabrekka

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til hundahalds á sex hundum að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2014, er barst nefndinni 11. mars s.á., kærir J, Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 að afturkalla leyfi til hundahalds á sex hundum að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld  úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til meðferðar hvað varðar kröfuna um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun kærandi hafa fengið leyfi til að halda hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dagsettu 19. desember 2013, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfa til hundahalds vegna sex hunda. Var sú ástæða tilgreind að hundarnir væru ekki haldnir á heimili kæranda eins og gert væri að skilyrði í umræddum leyfum. Með bréfi, dagsettu 20. desember 2013, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu. Var sú beiðni ítrekuð í bréfum kæranda, dagsettum 30. desember s.á og 2. janúar 2014, þar sem jafnframt var farið fram á rökstuðning fyrir fyrirhugaðri afturköllun leyfanna og frekari fresti til andmæla af hálfu kæranda. Heilbrigðiseftirlitið skírskotaði til þess í svarbréfi, dagsettu 6. janúar 2014, að ástæða fyrirhugaðrar afturköllunar leyfanna kæmi fram í bréfi stofnunarinnar frá 19. desember 2013. Það bréf, ásamt eftirlitsskýrslu frá 8. ágúst s.á. sem fylgdu bréfinu frá 6. janúar, væru gögn málsins. Frestur kæranda til athugasemda vegna málsins var framlengdur til 13. janúar 2014.   Með bréfi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 14. febrúar s.á. var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun og ítrekaði hann kröfu sína um rökstuðning og um afhendingu málsgagna í bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 27. s.m. Því bréfi svaraði heilbrigðiseftirlitið hinn 3. mars s.á. þar sem vísað var til fyrri bréfa um rökstuðning og málsgögn.

Kærandi vísar til þess að hann hafi hvorki fengið í hendur málsgögn né umbeðinn rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Engin rök standi til þess að svipta kæranda leyfi til hundahalds vegna tímabundinnar dvalar hans utan lögheimilis vegna meðferðarúrræðis á vegum Reykjavíkurborgar. Þá verði að finna að þeim starfsháttum heilbrigðiseftirlitsins að boðsenda erindi til kæranda á vistunarstað hans í stað lögheimilis en trúnaður eigi að ríkja um vistunarstaðinn gagnvart einstaklingum og stjórnvöldum. Með málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar sé farið gegn meðalhófsreglu og í ýmsu brotið gegn réttindum kæranda á sviði persónu-, upplýsinga- og stjórnsýslulaga.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið veittur aðgangur að gögnum máls og rök að baki ákvörðuninni séu ljós. Hún byggi á 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík þar sem skýrt komi fram að leyfi til hundahalds séu bundin við persónu hundaeiganda og heimili hans.  Fyrir liggi að kærandi eigi ekki heimili þar sem umræddir hundar séu haldnir og í því efni sé ekki um tímabundið ástand að ræða. Hundar kæranda séu því ekki í hans umsjá heldur annars aðila sem haldi hundana í skjóli leyfa kæranda. Erindi og bréf vegna máls þessa hafi verið birt og afhent kæranda á dvalarstað hans, sem sé í samræmi við efni 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 11. mars 2014 og var kallað eftir málsgögnum og athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hinn 12. s.m. Þá var sérstök athygli vakin á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar hinn 20. mars 2014 með ósk um að afhendingu gagna yrði flýtt af því tilefni. Gögn og athugasemdir vegna kröfunnar um frestun réttaráhrifa bárust úrskurðarnefndinni frá stjórnvaldinu 24. mars  2014. Í málinu er um það deilt hvort kærandi hafi brotið gegn skilyrði umræddra leyfa að halda títtnefnda hunda á heimili sínu eða ekki.

Fyrir liggur að hinn 24. mars 2014 voru fimm af þeim sex hundum sem hin kærða ákvörðun tekur til teknir í vörslur heilbrigðiseftirlitsins í skjóli ákvörðunarinnar og kæranda tilkynnt að hundunum yrði ráðstafað eftir sjö daga, að öllu óbreyttu, eða hinn 31. mars 2014.  Samkvæmt 18. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 verða hundar, sem færðir hafa verið í hundageymslu á grundvelli þess ákvæðis og ekki eru afhentir eiganda, aflífaðir að sjö dögum liðnum verði þeim ekki ráðstafað til nýs eiganda eða seldir.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011 þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar þar til endanlegur úrskurður gengur í kærumálinu.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til hundahalds á sex hundum að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson