Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2014 Löngubrekka

Árið 2015, fimmtudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2014, sem barst nefndinni 12. s.m., kæra eigendur fasteignar að Löngubrekku 1 þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2015, sem barst nefndinni 16. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. desember 2014 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 7/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 30. október 2014 og 23. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 18. mars 2014 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar tekin fyrir umsókn frá 13. s.m. um breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Í henni fólst bygging tveggja hæða fjölbýlishúss með kjallara. Gert var ráð fyrir fimm íbúðum í húsinu og 10 bílastæðum á lóðinni, tveimur með aðkomu frá Löngubrekku og átta frá Laufbrekku. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert 25. s.m. með athugasemdafresti til og með 2. maí s.á. Bárust athugasemdir frá hagsmunaðilum, þ.á m. frá kærendum. Var þeim svarað af skipulagsnefnd með bréfi, dags. 20. s.m. Sama dag var tillagan tekin fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar þar sem henni var hafnað og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hinn 22. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs og afgreiðslu þess frestað. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs hinn 5. júní s.á. og því vísað aftur til skipulagsnefndar til úrvinnslu. Hinn 21. júlí s.á. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og þá bókað að erindið væri lagt fram að nýju ásamt viðbótargögnum lóðarhafa, þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Var málinu frestað en það tekið fyrir að nýju hinn 28. júlí og þá bókað að heildarbyggingarmagn yrði 512 m², nýtingarhlutfall yrði 0,65 og bílastæði yrðu áfram tíu, líkt og í gildandi deiliskipulagi. Var framlögð tillaga samþykkt með áorðnum breytingum og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarráðs hinn 14. ágúst s.á. Var hagsmunaaðilum tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 18. ágúst 2014, og hún síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að forsögu málsins megi rekja til ársins 2006 þegar deiliskipulagsgerð fyrir Löngubrekku 2 hafi hafist. Henni hafi frá upphafi verið mótmælt af hálfu íbúa í nágrenninu. Sé ekki vilji fyrir því að hafa svona stóra byggingu í eins litlum botnlanga og Langabrekka sé, sem hafi aðeins að geyma fasteignir með nýtingarhlutfall í kringum 0,3, en nýtingarhlutfall hins umdeilda fjölbýlishúss sé 0,7. Eldra skipulag, sem samþykkt hafi verið árið 2007, hafi leyft byggingu þríbýlis á lóðinni. Með tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið sótt um sjö íbúðir. Þeim hafi síðan verið fækkað niður í fimm, en þær séu þó enn of margar. Ekki sé hægt að sættast á fleiri en þrjár íbúðir líkt og áður hafi verið gert ráð fyrir.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé tekið fram að fyrirhugaðar breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins skuli ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. sé gætt samræmis hvað varði götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlistar. Með hliðsjón af framangreindu sé það óskiljanlegt hvernig hægt sé að heimila fjölbýli í götu þar sem aðeins sé að finna einbýli- og tvíbýli.

Í svari skipulagsnefndar við þeim athugasemdum sem borist hafi vegna breytingartillögunnar sé viðurkennt að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa í för með sér aukinn bílastæðavanda. Einnig sé viðurkennt að fyrirhuguð nýbygging sé stærri og meiri en nærliggjandi hús, sem og að nokkrar lóðir á umræddum reit séu stærri að flatarmáli en lóðin við Löngubrekku 2. Geti umrædd bygging því verið fordæmisgefandi. Telji kærendur þetta ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Á árinu 2012, þegar kærendur hafi keypt húsið að Löngubrekku 1, hafi þau kannað hvort að framkvæmdir væru fyrirhugaðar á lóðinni Löngubrekku 2. Hafi þeim þá verið tjáð af starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs bæjarins að byggingarleyfi, sem hafi átt stoð í greindu deiliskipulagi frá 2007, væri fallið úr gildi og ef byggja ætti á lóðinni yrði aldrei gert ráð fyrir fleiri en þremur íbúðum, líkt og heimilað væri í deiliskipulaginu.

Að auki megi velta því fyrir sér hvort að um sé að ræða pólitíska ákvörðun þar sem breytingartillögunni hafi verið hafnað fyrir síðustu kosningar en hún hafi svo verið send aftur til úrvinnslu skipulagsnefndar strax að loknum kosningum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að fyrra deiliskipulag hafi heimilað byggingu á tveggja hæða húsi og kjallara með þremur íbúðum. Hið breytta skipulag sé innan þess byggingarreits sem samþykktur hafi verið árið 2007. Sé stærð hússins því í samræmi við skipulag. Að auki hafi umfang hússins verið minnkað frá því sem upphaflega hafi verið lagt til og sé nýtingarhlutfall nú 0,65.

Hafnað sé ályktunum um að um pólitíska ákvörðun hafi verið að ræða. Skipulagsnefnd hafi ekki fullnaðarvald í málum sem varði breytingar á skipulagi heldur sé endanlegt ákvörðunarvald í höndum bæjarstjórnar, eða eftir atvikum bæjarráðs. Sé því mögulegt að mál sé sent á ný til skipulagsnefndar til frekari skoðunar hafi bæjarráð ekki fallist á tillögu nefndarinnar. Við meðferð málsins hjá skipulagsnefnd, eftir að bæjarráð hafi vísað erindinu til baka, hafi verið lögð fram ný gögn með breytingum sem hafi falið í sér minna flatarmál hússins. Hafi greindar breytingar verið forsenda fyrir því að breytingartillagan hafi verið samþykkt. Sé því ekki að sjá að ómálefnaleg eða pólitísk sjónarmið hafi ráðið niðurstöðunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að við kaup hans á lóðinni Löngubrekku 2 haustið 2013 hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir lóðina sem heimilað hafi þriggja hæða 615 m2 byggingu, tvö bílastæði í Löngubrekku og átta bílastæði við Laufbrekku/Bröttubrekku. Hafi samþykkt nýtingarhlutfall verið 0,77 og byggingarreiturinn 276 m2. Deiliskipulagið hafi einnig gert ráð fyrir sléttu þaki, sem ekki hafi samræmst götumyndinni. Upphaflega hafi verið skilað inn breytingartillögu til Kópavogsbæjar sem hafi gert ráð fyrir sjö íbúðum, en endanleg tillaga hafi hljóðað upp á fimm íbúðir. Fyrirhuguð bygging samkvæmt hinni kærðu breytingartillögu sé rúmum 100 m2 minni en gert hafi verið ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. Að auki sé nýtingarhlutfallið nú 0,65 og gert sé ráð fyrir hallandi bárujárnsþaki, sem sé í samræmi við götumynd. Muni byggingin því verða minni en eldra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarráðs á breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2 sem gerir ráð fyrir fimm íbúða fjölbýli ásamt 10 bílastæðum á lóð. Er og deilt um gildi byggingarleyfis þess er styðst við hið breytta deiliskipulag.

Á árinu 2007 var samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina eina og sér þar sem heimiluð var bygging 615 m2 fjölbýlis, með þremur íbúðum og hámarksnýtingarhlutfalli 0,77, ásamt sex bílastæðum á lóð og fjórum stæðum í bílgeymslu. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er hins vegar veitt heimild fyrir 511,9 m2 fjölbýli með fimm íbúðum, hámarksnýtingarhlutfalli 0,65 og 10 bílastæðum á lóð. Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hennar því í samræmi við skipulagslög.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er merkt íbúðarsvæði, ÍB2, Digranes. Svæðinu er lýst sem fastmótaðri byggð með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli, og er gert ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á góða nýtingu lands og landgæða og að mótun byggðarinnar tryggi sjálfbærni og hagkvæma uppbyggingu, sem felist m.a. í þéttingu byggðar. Jafnframt er lögð áhersla á blandaða byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis, þjónustu og útivistar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum en svo sem áður er rakið er með hinni kærðu ákvörðun dregið úr byggingarmagni og hámarksnýtingarhlutfalli frá gildandi deiliskipulagi. Þá er gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða og áður og að þau verði öll ofanjarðar og innan lóðar. Er áfram gert ráð fyrir aðkomu að sama fjölda þeirra frá Löngubrekku. Verður ekki séð að fjölgun íbúða um tvær muni hafa í för með sér teljandi aukningu á umferð eða annað óhagræði fyrir nágranna fjölbýlisins.

Umrædd lóð er deiliskipulögð ein og sér og tekur deiliskipulagið því ekki til svæðis sem myndar heildstæða einingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Lögun þaks byggingarinnar var breytt við meðferð skipulagstillögunnar og þegar litið er til þess að við sömu götu er að finna annað fjölbýli, bæði þríbýli og fjórbýli, verður ekki á það fallist að umrædd bygging sé í ósamræmi við götumynd.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 18. desember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson