Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2010 Hrauntunga

Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2010, kæra vegna afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi vegna stækkunar húss að Hrauntungu 59, sem fólst í nýtingu sökkulrýmis, og vegna skilgreiningar bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóðina Hrauntungu 51 að baklóð Hrauntungu 59.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2010, er barst nefndinni 17. s.m., kærir Sveinn Guðmundsson hrl., f.h. Ó, Hrauntungu 51, Kópavogi, afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda vegna stækkunar hússins að Hrauntungu 59, sem fólst í nýtingu sökkulrýmis, og vegna skilgreiningar bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóðina Hrauntungu 51 að baklóð Hrauntungu 59.

Gerir kærandi þá kröfu að réttur hans vegna lóðarinnar Hrauntungu 51 verði viðurkenndur og að umferðarréttur nágranna verði þannig takmarkaður í samræmi við skilgreiningu bæjaryfirvalda Kópavogs frá 7. ágúst 2007.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Raðhús kæranda nr. 51 við Hrauntungu er innst í botngötu sem liggur að húsunum nr. 43-51 (oddatölur) við þá götu og stendur gegnt raðhúsi nr. 59 við götuna. Greind raðhús eru með aðalinngang að austan og kjallarainngang úr bakgarði að vestan og liggur sitthvor botngatan að framhlið húsanna.

Forsaga málsins er sú að á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 7. ágúst 2007 var tekið fyrir erindi kæranda varðandi eignarrétt á bílastæðum við lóðina að Hrauntungu 51. Á fundinum samþykkti nefndin umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 7. ágúst 2007, þar sem fram er tekið: „Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi eru umrætt svæði sem afmarkað er af hálfu lóðarhafa, innan lóðar. Um er að ræða svæði innan lóðar sem telst vera hluti götunnar þe. bílastæði eða snúningshaus. Þar sem umrætt svæði er hluti af götu en innan lóðar eru afnot nágranna af umræddri lóð háð verulegum takmörkunum. Slík afnot byggja á umferðarrétti sem felst eingöngu í tímabundinni aðkomu að lóð t.d. til umhirðu og viðhalds. Sem dæmi má nefna er aðkoma lóðarhafa að Hrauntungu 51 að sinni lóð háð umferðarrétti í gegnum lóðirnar Hrauntungu 43-49. Umræddur lóðarhafi hefur samsvarandi rétt til aðgangs að bakgarði sínum í gegnum lóðirnar Hrauntungu 31-41.“

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 21. febrúar 2008 var á dagskrá erindi kæranda varðandi aukna umferð um lóðina að Hrauntungu 51 vegna framkvæmda við Hrauntungu 57 og 59. Var ákveðið að óska eftir umsögn byggingarfulltrúa og á fundi ráðsins 28. s.m. var byggingarfulltrúa falið að svara kæranda á grundvelli hennar. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 19. mars 2008, segir: „Teikningar húsa við Hrauntungu (Sigvaldahús) sýna kjallara með gluggum og útgönguhurð. Þrátt fyrir það þá er óheimilt að nýta næsta botnlanga fyrir vestan til aðkomu að húsunum Hrauntungu 57 og 59.“

Með bréfi, dags. 8. apríl 2009, fór kærandi fram á við skipulagsnefnd að skoðað yrði m.a. lögmæti stækkunar kjallara hússins að Hrauntungu 59, hvort hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar kallaði á grenndarkynningu og hvort eðlileg aðkoma að kjallaranum væri um aðalinngang hússins og íbúar þar hefðu aðgang að bílastæði inni á lóð Hrauntungu 59.

Skipulagsnefnd tók bréf kæranda fyrir hinn 15. desember 2009 þar sem fyrir lá umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 10. s.m. Í umsögninni kemur m.a. fram að við skoðun á vettvangi hafi komið í ljós að lítill gluggi sé á vesturhlið hússins að Hrauntungu 59 þar sem upphaflegar teikningar sýni óútgrafið rými. Gluggar séu á samsvarandi stað á fleiri húsum í götunni og því virðist sem þetta rými hafi verið grafið út í allmörgum tilfellum. Húsin séu byggð á árunum 1965-1969 og hafi þetta verið látið óátalið í mjög langan tíma. Eigandi Hrauntungu 59 segist ekki hafa stækkað húsið frá því að hann keypti það árið 2004 og því eðlilega ekki sótt um leyfi. Telji umsagnaraðili ekkert benda til þess að núverandi eigandi hafi gert umrædda breytingu og ekki sé ástæða til að krefjast breytinga eða beita viðurlögum vegna tilhögunar í kjallara hússins.

Í greindri umsögn kemur fram að við athugun hafi komið í ljós að í mörgum tilfellum liggi gangstéttir frá inngangi á vesturhlið út að lóðarmörkum og ekki sé girt fyrir þann aðgang að lóðarmörkunum. Þannig hátti m.a. til bæði í Hrauntungu 51 og 59 og líklegt sé að opið hafi verið fyrir aðkomu gangandi vegfarenda að bakhlið húsanna frá upphafi. Ekki sé hægt að banna slíka umferð sem hafi að öllum líkindum viðgengist í um 40 ár. Hins vegar hafi ekki verið gert ráð fyrir aðkomu bifreiða að bakhlið húsanna nema í þeim tilfellum sem um hafi verið getið í fyrri umsögn um málið. Snúningshaus liggi að gangstígnum bak við Hrauntungu 59 sem alls ekki sé bílastæði fyrir íbúa kjallara hússins. Eigandi Hrauntungu 59 hafi mótmælt því að hann beini allri umferð leigjenda kjallarans um lóðina að Hrauntungu 51. Aðeins sé um að ræða eðlilega og mjög takmarkaða umferð sem samræmist algerlega hefðum og venjum sem skapast hafi í hverfinu. Í umsögninni er komist að þeirri niðurstöðu að aðkoma gangandi vegfarenda sé heimil að bakhlið húsa við Hrauntungu og ekki sé rétt að gera ráðstafanir til að hindra aðkomu. Komi t.d. ekki til álita að krefjast þess að allar lóðir verði afgirtar baka til. Á meðan aðeins sé um gangandi umferð að ræða, auk tilfallandi aðkomu ökutækja vegna umhirðu og viðhalds, sé ekki ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða annarra en þeirra að upplýsa eigendur Hrauntungu 59 um skilning bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóð Hrauntungu 51. Hins vegar komi til greina að grípa til viðeigandi ráðstafana ef bifreiðaumferð verði meiri en ætlast sé til eða ef íbúar Hrauntungu 59 leggi bílum sínum á lóð Hrauntungu 51.

Skipulagsnefnd tók undir framangreinda umsögn og lagði til að eigendur húsanna að Hrauntungu 51 og 59 yrðu upplýstir um afstöðu bæjaryfirvalda og að ekki yrði gripið til neinna aðgerða af hálfu skipulagsnefndar að svo stöddu. Var niðurstaðan kynnt kæranda og eiganda Hrauntungu 59 með bréfi, dags. 18. desember 2009.

Kærandi ritaði skipulagsnefnd bréf, dags. 23. desember 2009, þar sem því m.a. er haldið fram að rannsóknarskylda stjórnsýslulaga hafi ekki verið uppfyllt við meðferð málsins. Til séu ljósmyndir sem sýni að gluggi á vesturhlið hússins nr. 59 við Hrauntungu hafi verið gerður snemma árs 2007. Árið 2006 hafi kærandi ítrekað lagt fram kvartanir og óskað eftir að leigjendur notuðu bílastæði austan við húsið. Hafi honum verið boðið inn og séð að lokað hafi verið fyrir aðkomu inn í íbúðina um aðalinnganginn með vegg og ekki hafi verið búið að opna inn í rými í sökklinum. Það sé skilningur kæranda að með óheimilli aðkomu að húsunum að Hrauntungu 57 og 59 sé í bréfi byggingarfulltrúa frá 19. mars 2008 átt við það þegar íbúum sé alfarið beint um kjallarainngang. Kærandi hafi óskað eftir því við eiganda Hrauntungu 57 að hann beindi umferð leigjenda í kjallara um aðalinngang hússins. Fullreynt sé að ná einhverri niðurstöðu við eigendur nefndra húsa í samræmi við samþykktir Kópavogsbæjar. Óski kærandi eftir því að rannsakað verði hvort brotið hafi verið gegn 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ef rétt reynist þá verði sökkulrýmið fært í upprunalegt horf eins og það birtist á upphaflegum teikningum.

Með bréfi til bæjarráðs, dags. 29. janúar 2010, fór lögmaður kæranda fram á að kannað yrði til hlítar hvort rökstuddur grunur kæranda um stækkun hússins að Hrauntungu 59 og um aðkomu að kjallara þess húss væri í samræmi við veruleikann og að tilkynnt yrði til eiganda hússins að umferðaréttur um lóð kæranda væri háður takmörkunum. Bréfið var lagt fram á fundi bæjarráðs 11. febrúar 2010 og gerð svofelld bókun: „Lagt er til að viðkomandi aðila verði tilkynnt að málinu hafi lokið með afgreiðslu byggingarnefndar (sic) 15/12 sl. og að honum verði leiðbeint um kæruleið. Bæjarráð samþykkir tillögu um afgreiðslu og felur skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs að svara bréfritara.“

Málið var loks til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar hinn 16. febrúar 2010 þar sem m.a. var bókað: ,,… er erindið lagt fram að nýju, ásamt bréfi eiganda Hrauntungu 51 dags. 23. desember 2009. Jafnframt er lögð fram fundargerð bæjarráðs frá 11. febrúar 2010. Sviðstjóri gerði grein fyrir bréfi hans og skrifstofustjóra dags. 11. febrúar 2010 til eiganda Hrauntungu 51“. Í bréfi til lögmanns kæranda, dags. 17. febrúar 2010, var vísað í fyrrgreindan fund skipulagsnefndar og tekið fram að málið væri afgreitt á þessu stjórnsýslustigi og ekki komnar fram ástæður til endurupptöku þess.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að frá árinu 2006 hafi hann barist fyrir þeim rétti sínum að takmarkaður verði umferðarréttur þriðja aðila um lóð hans að Hrauntungu 51. Til margra ára hafi eigendur íbúðarhúsa við Hrauntungu 57 og 59 leigt út hluta af jarðhæð húsanna og stefnt leigjendum sínum um inngang sem snúi í vestur og teljist ekki aðalinngangur þeirra húsa. Eigandi íbúðarhússins að Hrauntungu 59 hafi komið málum þannig fyrir að ekki sé lengur hægt að komast inn í þann hluta hússins um aðalinnganginn, sem hafi haft í för með sér ómæld óþægindi fyrir kæranda árum saman. Bifreiðum hafi verið lagt til lengri tíma á lóð kæranda án þess að athugasemdum hans þar að lútandi hafi verið sinnt af eiganda eða leigjendum að Hrauntungu 59. Öll aðkoma að leiguhluta jarðhæðar hússins sé um lóð kæranda. Vegna sannanlegs umráðaréttar kæranda yfir lóð sinni eigi afnot nágranna af henni að vera háð verulegum takmörkunum. Slík afnot hafi verið skilgreind sem tímabundin aðkoma að lóð, t.d. til umhirðu og viðhalds, sbr. umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 7. ágúst 2007. Þrátt fyrir þá skilgreiningu hafi bæjaryfirvöld kosið síðar að túlka aðkomu um lóð kæranda með mun rýmri hætti en fyrrgreind umsögn þeirra sjálfra hafi kveðið á um án þess að rökstyðja þá niðurstöðu með skírskotun til laga þar um.

Eigendur íbúðarhúsa að Hrauntungu 57 og 59 hafi verið að stækka fasteignir sínar, sem bæði megi sjá á vettvangi og með því að bera saman ytri ummerki á milli ára, eins og sjá megi á ljósmyndum. Þrátt fyrir ábendingar kæranda hafi yfirvöld ekki talið sér skylt að verða við áskorun hans um að gerðar yrðu athugasemdir og gripið yrði inn í ferlið. Við þetta allt vilji kærandi ekki una og óski eftir því að bæjaryfirvöld taki málið til formlegrar skoðunar og afgreiðslu í samræmi við lög og reglur.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað enda sé afgreiðsla bæjarins á erindum kæranda bæði formlega og efnislega rétt.

Í kæru sé ekki tilgreint með ótvíræðum hætti hvaða ákvörðun sé verið að kæra en þó megi álykta að kærandi óski eftir að nýjustu ákvarðanir varðandi málið komi til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni. Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. desember 2009 hafi erindi kæranda verið afgreitt og hafnað að grípa til aðgerða í málinu. Ákvörðunin hafi byggst á umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogs, dags. 10. desember 2009. Í þeirri umsögn sé að finna þau sjónarmið sem byggt sé á af hálfu skipulagsnefndar og vísist til hennar hvað varði málsástæður og lagarök. Í janúar 2010 hafi lögmaður kæranda síðan sent erindi þar sem óskað hafi verið skoðunar á sama máli. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2010, hafi endurupptöku málsins verið hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu eru uppi álitaefni er snerta nýtingu sökkulrýmis húss að Hrauntungu 59 í Kópavogi, umferðarrétt íbúa þess húss um lóð kæranda að Hrauntungu 51 og afgreiðslur bæjaryfirvalda á erindum kæranda af því tilefni.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru á umræddum tíma, var m.a. óheimilt að breyta húsi eða notkun þess nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar. Ef það var gert án tilskilins leyfis voru skipulags- og byggingaryfirvöldum tiltæk úrræði sem kveðið var á um í 56. gr. laganna. Í 5. mgr. ákvæðisins var tekið fram að byggingarnefnd gæti ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skyldi ólöglega byggingu eða byggingarhluta, jarðrask skyldi afmáð eða starfsemi hætt og ef ekki var orðið við fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan frests sem sveitarstjórn setti gat hún ákveðið dagsektir þar til úr yrði bætt eða byggingarnefnd látið vinna verk á kostnað eiganda fasteignar.

Hinn 15. desember 2009 afgreiddi skipulagsnefnd erindi kæranda frá 8. apríl s.á. en þar hafði kærandi m.a. farið fram á að skoðað yrði hvort húsinu að Hrauntungu 59 hefði verið breytt frá samþykktum teikningum án leyfis. Umsögn var unnin fyrir nefndina vegna erindisins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki þætti tilefni til þvingunaraðgerða í tilefni af notkun sökkulrýmis. Afgreiddi skipulagsnefnd þann þátt málsins með því að taka undir nefnda umsögn. Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða skipulagsnefndar en ekki var leiðbeint um kæruheimild í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af nefndum aðdraganda málsins og afgreiðslu verður ekki annað ráðið en að fyrrgreind afgreiðsla skipulagsnefndar hafi aðeins falið í sér skoðun nefndarinnar á álitaefninu en ekki lokaákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga enda á slík ákvörðun undir byggingarnefnd samkvæmt áðurnefndri 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í kjölfar tilkynningar til kæranda um niðurstöðuna setti hann hins vegar fram í bréfi, dags. 23. desember 2009, kröfu um að húsið að Hrauntungu 59 yrði fært til fyrra horfs en ekki liggur fyrir í gögnum málsins að sú krafa hafi verið tekin til formlegrar afgreiðslu af þar til bæru stjórnvaldi.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögum. Úrlausn á álitaefni um umferðarrétt um lóð kæranda að bakgarði Hrauntungu 59 ræðst ekki af ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nema í þeim tilfellum þegar skipulagskvöð er sett í deiliskipulagi um slíkan rétt. Um það er ekki að ræða í máli þessu. Það er því ekki á valdi sveitarstjórna eða úrskurðarnefnarinnar að skera úr um hvort um slíkan rétt sé að ræða eða um inntak þess réttar í máli þessu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson