Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2011 Móavík

Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2011 um að synja umsókn um að skipta út lóð úr landi Móavíkur á Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. september 2011, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur að landi Móavíkur á Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2011 að hafna umsókn kærenda um að skipta út lóð úr landi Móavíkur.

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að kærendur erfðu sameiginlega bátahús í landi Móa ásamt landspildu sem húsinu fylgdi. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 20. ágúst 2010 var tekin fyrir fyrirspurn varðandi stofnun nýrrar lóðar úr landi Móavíkur. Lögð var fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 12. ágúst 2010, þar sem fram kom að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 lægi umrædd spilda á mörkum landnotkunarflokkanna opins svæðis til sérstakra nota og landbúnaðarsvæðis. Fyrirhugaður stofnstígur um Kjalarnes myndi liggja um svæðið og fyrirhuguð Sundabraut myndi auk þess tengjast svæðinu nálægt landspildunni. Ekki væri til deiliskipulag af svæðinu en ef afmarka ætti lóðina yrði það að liggja fyrir. Við gerð þess deiliskipulags yrði allt svæðið skoðað heildstætt og í kjölfarið lagt mat á það hve margar lóðir gætu byggst upp á svæðinu. Gerð deiliskipulags fyrir svæðið væri ekki á starfsáætlun skipulags- og byggingarsviðs. Uppskipting landskika á landbúnaðarsvæðum á Kjalarnesi hafi ekki þótt vera í samræmi við markmið gildandi aðalskipulags og hafi mörgum slíkum erindum verið synjað. Niðurstaðan hafi verið sú að ekki væri mælt með að sérstök lóð yrði afmörkuð í landi Móavíkur. Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina neikvætt með vísan til umsagnarinnar.

Hinn 20. október 2010 var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur tekið fyrir málskot vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsstjóra frá 20. ágúst 2010. Var fyrri afgreiðsla skipulagsstjóra staðfest.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 27. janúar 2011 var lögð fram umsókn kærenda um skiptingu á landi Móavíkur. Skipulagsstjóri vísaði málinu til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu. Á fundi skipulagsráðs 17. ágúst 2011 var samþykkt umsögn lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 29. júní 2011, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að synja ætti erindinu. Synjunin var samþykkt í borgarráði 1. september 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fengið í arf sumarhús og 5.945 m² landspildu úr landi Móavíkur. Jafnframt eigi hver þeirra 4% af landi Móavíkur og hafi allir samerfingjarnir samþykkt eign þeirra að sumarhúsinu og landskikanum. Þrátt fyrir óumdeildan eignarétt kærenda á nánar afmörkuðum eignarhluta jarðarinnar hafi þeim ekki tekist að fá hann skráðan með sérgreindum hætti í fasteignaskrá eins og lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna mæli fyrir um.

Eins og fram hafi komið í umsögn skipulagsstjóra sé svæðið skilgreint sem landbúnaðarsvæði og opið svæði til sérstakra nota. Þá komi einnig fram að gera megi ráð fyrir mannvirkjum sem tengist notkun svæðanna til útivistar. Ætlun kærenda sé einmitt að nota land og sumarbústað til útivistar. Kærendur séu hvorki að fara fram á að umrætt svæði verði deiliskipulagt né að byggingarleyfi verði veitt, enda sé sumarbústaður fyrir á lóðinni. Einungis sé farið fram á stofnun lóðarinnar Móavíkur 1, sem kærendur eigi réttilega. Ekki verði séð að stofnun lóðarinnar snerti með nokkrum hætti áform um legu stofnstígs um landskikann enda standi sumarbústaðurinn og ræktað landið á sínum stað eftir sem áður og skipti þá ekki máli hvernig eignarhald sé. Stofnstígurinn myndi liggja um fjölda eignarlóða meðfram ströndinni og yrðu kærendur að lúta sama gjörningi og aðrir landeigendur. Sömu rök eigi við um fyrirhugaða Sundabraut. Arfláti hafi skömmu fyrir andlát sitt látið af hendi tvo landskika og hafi eigendur þeirra fengið að sameina þá lóðum sem þeir hafi átt fyrir. Afmarkanir lóða úr landi Móavíkur séu því ekki óþekktar. Kærendur telji sig hafa skilað inn gögnum er dugi til að fá hina erfðu eign skráða með sérgreindum hætti í fasteignaskrá og þinglýsingarbækur. Eignaskiptasamningur hugnist kærendum ekki enda sé það ekki það sama og að lóð ásamt sumarhúsi verði þinglýst sem séreign þeirra. Eign kærenda sé þegar afmörkuð lóð með skurði á þrjá vegu og fjöru á fjórðu hliðina og verði ekki séð að sérgreining hennar geti skapað óæskilegt fordæmi.

Eignarrétturinn sé friðhelgur skv. 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu og séu hér engar málefnalegar forsendur fyrir því að reisa honum skorður. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 skuli þinglýsa réttindum yfir fasteign til þess að þau haldi gildi gegn þeim er reisi rétt sinn á samningum um eignina og gegn skuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign. Fasteignaskrá sé grundvöllur þinglýsingarbókar fasteignar skv. 2. mgr. 1. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Í fasteignaskrá eigi að felast nýjustu upplýsingar sem á hverjum tíma séu tiltækar og fasteignina varði. Réttur kærenda gæti því farið forgörðum fáist ekki skráning í fasteignaskrá.

Þar sem umrædd ákvörðun sé íþyngjandi verði hún að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem gæta verði meðalhófs. Enn fremur telji kærendur að það kunni að baka borgarsjóði bótaskyldu komi til þess að arfur sem þeim hafi tæmst verði að engu vegna réttinda þriðja manns þar sem eignin hafi ekki fengist þinglýst.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Umrædd landspilda sé um 5.900 m² að stærð og ekki þyki æskilegt að setja fordæmi fyrir afmörkun lóðarinnar. Slík uppskipti lands hefðu í för með sér að erfitt yrði að leggjast gegn öðrum slíkum erindum og færu þau gegn þeirri stefnu Reykjavíkurborgar að afmarka ekki smærri lóðir á landbúnaðarsvæðinu á Kjalarnesi. Ekki sé fallist á það með kærendum að fordæmi hafi skapast fyrir uppskiptingu lóða með þeim hætti sem óskað hafi verið eftir en Reykjavíkurborg hafi á hinn bóginn í einhverjum tilfellum heimilað sameiningu lóða á svæðinu. Sé því ekki saman að jafna uppskiptingu og sameiningu lóða. Ekki sé heldur verið að hindra framgang ákvæða erfðaskrár enda geti erfingjar átt spilduna í óskiptri sameign og gert eignaskiptasamning sín á milli.

Því sé alfarið mótmælt að synjun skipulagsyfirvalda hafi falið í sér takmörkun eignarréttinda kærenda samkvæmt stjórnarskrá en sú fullyrðing sé með öllu órökstudd. Lögum samkvæmt liggi skipulagsvaldið hjá sveitarfélögunum og ekki sé sjálfgefið að menn geti ráðstafað eða haft þau not af eignum sínum sem þeir sjálfir kjósi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2011 um heimild til að skipta út lóð í eigu kærenda úr landi Móavíkur á Kjalarnesi. Ákvörðun borgarráðs var tekin á grundvelli 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Laut beiðni kærenda einungis að því að landskiki þeirra í sameign yrði skipt út úr landi sem er í sameign fleiri aðila. Ekki fólst í umsókn þeirra beiðni um breytingu á gildandi landnotkun umrædds svæðis.
Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er landið Móavík á skilgreindu landbúnaðarsvæði en með strandlengjunni er opið svæði til sérstakra nota þar sem gert er ráð fyrir stofnstíg.
Sveitastjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Eru ákvarðanir sveitarstjórna um skipulag bindandi fyrir borgarana og verða þeir að lúta þeim almennu takmörkunum sem af þeim leiðir. Verður að telja að sveitastjórnir eigi frjálst mat um það hvenær lóðum verður skipt út úr landi enda sé ákvörðun rökstudd og jafnræðis gætt við afgreiðslu sambærilegra mála. Borgaryfirvöld hafa fært þau rök fyrir hinni kærðu ákvörðun að varhugavert sé að skapa fordæmi fyrir uppskiptingu lands á svæðinu, sem ekki hefur verið deiliskipulagt, og verður að telja það málefnalegt sjónarmið. 

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því að kærendur eiga ekki lögvarinn rétt til breytinga á skipulagi umrædds svæðis verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 1. september 2011 um að synja umsókn um að skipta út lóð úr landi Móavíkur á Kjalarnesi.

________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________   _____________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson