Árið 2015, fimmtudaginn 9. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 51/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. mars 2014 um að veita leyfi til að breyta húsinu að Gilsárstekk 8 í skrifstofuhúsnæði, breyta innra fyrirkomulagi þess og breyta bílgeymslu í móttökuherbergi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júní 2014, sem barst nefndinni 19. s.m., kæra S, Gilsárstekk 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. mars s.á. að veita leyfi til að breyta húsinu að Gilsárstekk 8 í skrifstofuhúsnæði, breyta innra fyrirkomulagi þess og breyta bílgeymslu í móttökuherbergi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. október 2014, sem barst nefndinni 15. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 27. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar nr. 8 við Gilsárstekk. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að Reykjavíkurborg kaupi af kærendum hús þeirra og greiði þeim bætur fyrir það fjárhagstjón sem þau hafi orðið fyrir vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki kærunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 111/2014, sameinað máli þessu.
Þykir málið nú nægilega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.
Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. júlí og 12. og 27. nóvember 2014.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 17. desember 2013 var tekin fyrir umsókn, dags. 12. s.m., þar sem sótt var um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi, breyta bílgeymslu í móttökuherbergi og byggja ofan á svalir á húsinu nr. 8 við Gilsárstekk. Kemur fram á aðalteikningu þeirri sem fylgdi umsókninni að um Barnahús sé að ræða. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og í umsögn hans, dags. 10. janúar 2014, voru ekki gerðar athugasemdir við breytinguna. Var erindið samþykkt á fundi skipulagsfulltrúa 17. s.m. og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. mars s.á. Hefur sú ákvörðun byggingarfulltrúa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. júlí 2014 var samþykkt að grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum að Gilsárstekk 1, 2, 3, 4, 5, 6 og 7 tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2014, um breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar nr. 8 við Gilsárstekk. Í breytingunni fólst breyting á notkun lóðarinnar úr einbýlishúsalóð í lóð undir starfsemi Barnahúss. Var erindið grenndarkynnt frá 7. júlí til 5. ágúst s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. ágúst s.á. Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 27. s.m. og var tillagan samþykkt. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. október s.á. og hefur hún einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að í skilmálum fyrir einbýlishús í Breiðholti frá 15. febrúar 1966 komi fram að á lóðunum skuli reisa einnar hæðar einbýlishús nema þar sem halli á landslagi gefi tilefni til neðri hæðar eða kjallara. Þá komi fram að bifreiðageymsla skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst við það nema annað sé sýnt á mæliblaði. Tvö bílastæði skuli vera á lóðinni og óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í húsinu. Í gildandi deiliskipulagi komi hvergi fram að í húsunum megi stunda atvinnurekstur af einhverjum toga. Slíkar heimildir hefðu þurft að koma fram í deiliskipulaginu með skýrum hætti og ekki dugi að vísa til heimilda í aðalskipulagi. Að auki sé gert ráð fyrir því í deiliskipulaginu að bifreiðageymsla sé í húsinu og sé þar hvergi fjallað um heimildir til að breyta hagnýtingu hennar í móttöku fyrir starfsemi eins og þá sem fyrirhuguð sé. Gögn málsins gefi einnig til kynna að á lóðinni verði mun fleiri bílastæði en þau tvö sem deiliskipulag geri ráð fyrir.
Í umsögn skipulagsfulltrúa sé ekki fjallað um landnotkunarflokk eða þá staðreynd að deiliskipulagið geri ekki ráð fyrir öðru en einbýli með íbúð á reitnum. Ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma, sem ekki séu í samræmi við heimildir í deiliskipulagi, leiði óhjákvæmilega til ógildingar. Komi fram í aðalskipulagi, sem gilt hafi þegar umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið unnin, að umrædd lóð sé á skilgreindu íbúðarsvæði, sbr. ákvæði 3.1.2. Á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Þá segi að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir eigi að meta áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni og áhrif byggingar á yfirbragð hverfis. Í nýju aðalskipulagi sé sú þjónusta sem búast megi við á íbúðarsvæði sérstaklega skilgreind og sé rauði þráðurinn alltaf sá að atvinnustarfsemin standi í beinu samhengi við landnotkun.
Hvort sem litið sé til ákvæða í eldri eða nýrri skipulagsreglugerð eða skilgreiningar landnotkunar í þágildandi eða núgildandi aðalskipulagi sé ljóst að heimildir til atvinnustarfsemi séu bundnar við að starfsemin tengist íbúðarbyggðinni með einhverjum hætti. Hin umdeilda starfsemi sé órafjarri þeirri nærþjónustu sem búast megi við á íbúðarsvæði. Um opinbera stofnun sé að ræða sem fari með rannsóknarhlutverk í sakamálum. Ljóst sé að starfsemin samræmist ekki starfsemi landnotkunarflokks svæðisins.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að markmið með hinni umþrættu deiliskipulagsbreytingu hafi verið að koma að heimild fyrir starfsemi Barnahúss sem samræmist skilgreiningu á landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og nýta bílgeymslu sem hluta af þeirri starfsemi. Í skilmálum komi fram að heimild sé fyrir starfsemi Barnahúss í húsinu virka daga frá kl 8-17. Heimilt sé að nýta bílgeymslu í tengslum við þá starfsemi og sé um afturkræfar breytingar að ræða. Verði starfsemi Barnahúss aflögð á lóðinni skuli húsið nýtt sem einbýlishús að nýju. Starfsemin rúmist vel innan skilgreindrar landnotkunar íbúðarbyggðar og nærþjónustu sem henni tengist í aðalskipulagi. Innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að vera með fjölbreytta atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Falli opinber grunnþjónusta undir nærþjónustu. Á það sé bent að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi. Verði menn að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Verði ekki séð að deiliskipulagsbreytingin hafi nein þau grenndaráhrif að ógildingu varði.
Samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á umræddri deiliskipulagsbreytingu byggi á 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, settri af borgarstjórn 18. desember 2012. Á fundi sínum 3. júlí 2014 hafi borgarráð svo samþykkt viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Viðaukarnir hafi verið sendir innanríkisráðuneyti með bréfi, dags. 24. s.m., þar sem óskað hafi verið eftir birtingu þeirra í Stjórnartíðindum. Ráðuneytið hafi komist að því 24. október s.á. að viðaukar við samþykktina væru ekki háðir staðfestingu ráðherra og þar af leiðandi ekki háðir birtingu í Stjórnartíðindum. Í tölvubréfi frá ritstjóra Stjórnartíðinda sama dag komi fram að talið sé, með hliðsjón af áliti ráðuneytisins, að ekki sé nauðsynlegt að birta viðaukana í Stjórnartíðindum þó svo að þeir hafi áður verið birtir þar í nafni ráðuneytisins sem fylgiskjöl við samþykktir viðkomandi sveitarfélaga. Telji ritstjóri Stjórnartíðinda að ekki sé lagagrundvöllur til birtingar viðaukanna í Stjórnartíðindum í nafni sveitarfélagsins skv. 3. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Í ljósi framangreinds hafi umhverfis- og skipulagsráði verið heimilt að ljúka afgreiðslu deiliskipulagsbreytingarinnar samkvæmt viðaukunum, þótt þeir hafi ekki verið birtir í Stjórnartíðindum.
Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hvorki sé um útlitsbreytingu né stækkun að ræða. Þær framkvæmdir sem hafi átt sér stað séu m.a. niðurrif milliveggja, endurnýjun lagna og málningarvinna.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík sem fela í sér breytta notkun hússins á lóðinni nr. 8 við Gilsárstekk. Er í fyrsta lagi um að ræða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. mars 2014 um að veita byggingarleyfi til að breyta húsinu í skrifstofuhúsnæði fyrir Barnahús. Í öðru lagi snýst deilan um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 27. ágúst s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar. Fólst í henni breyting á notkun greindrar lóðar úr einbýlishúsalóð í lóð undir starfsemi Barnahúss.
Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggði á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Þar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“.
Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Skuli slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá segir í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.
Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.
Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt nr. 715/2013 þess efnis var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina voru samþykktir á fundi borgarráðs 3. júlí 2014, m.a. viðauki 1.1. um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Viðaukarnir hafa hvorki verið staðfestir af ráðherra né birtir í Stjórnartíðindum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, þrátt fyrir umleitanir borgarinnar þar um.
Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Þessum kröfum um efni og form valdframsals var ekki fullnægt með því að samþykkja síðar viðauka við þá samþykkt sem staðfest var af ráðherra og birt var í B-deild Stjórnartíðinda. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 og í viðauka 1.1. við samþykkt nr. 715/2013 var því ekki í samræmi við lög.
Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem sveitarstjórn hefur ekki komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður þessum hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kemur þá til skoðunar hvort að byggingaráform þau sem byggingarfulltrúi samþykkti, að deiliskipulagi Breiðholts I óbreyttu, eigi sér stoð í gildandi skipulagi.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema með leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samþykkir byggingarfulltrúi byggingaráform séu þau í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði, sbr. 11. gr. sömu laga. Þá er það eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var deiliskipulagið Breiðholt I frá árinu 1967 í gildi. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skyldi einnar hæðar einbýlishús vera á lóðinni og bifreiðageymsla skyldi vera í húsinu sjálfu eða áföst við það, nema annað væri sýnt á mæliblaði. Með hinni kærðu ákvörðun var notkun hússins breytt í skrifstofuhúsnæði fyrir Barnahús.
Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga, og er þar lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags m.a. varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Umrætt deiliskipulagssvæði er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, nánar tiltekið ÍB 39 Stekkir. Er því lýst sem fastmótaðri íbúðarbyggð 1-2 hæða einbýlishúsa með heilsteyptu yfirbragði. Þá er íbúðarbyggð nánar skilgreind í kaflanum, Landnotkun – Skilgreiningar (Bindandi stefna). Þar segir að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins, sbr. gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Kemur fram að opinber grunnþjónusta falli undir nærþjónustu. Segir síðan að meðfram aðalgötum sé heimild fyrir fjölbreyttari landnotkun í íbúðarbyggð. Þar megi gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi og sé þar einkum um að ræða starfsemi sem falli undir flokkana verslun og þjónusta og samfélagsþjónusta. Slíkar rýmri landnotkunarheimildir gildi þó aðeins um hús sem standi við viðkomandi aðalgötu. Í sama kafla aðalskipulagsins er einnig að finna nánari skilgreiningu á landnotkunarflokknum samfélagsþjónustu. Eru skilgreind svæði samfélagsþjónustu ætluð fyrir stofnanir og fyrirtæki sem óháð eignaraðild veita almenna þjónustu við samfélagið, svo sem menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, menningarstofnanir, félagslegar stofnanir, trúarstofnanir og aðrar þjónustustofnanir ríkis, sveitarfélaga eða annarra aðila, sbr. gr. 6.2.d. í skipulagsreglugerð. Í kaflanum er síðan áréttað að samfélagsþjónusta sem teljist grunnþjónusta fyrir viðkomandi hverfi sé heimil í íbúðarbyggð og að samfélagsþjónusta sé almennt heimil við aðalgötur og í skilgreindum kjörnum innan íbúðarbyggðar.
Líkt og áður greinir var breyting á notkun íbúðarhúsnæðis að Gilsárstekk 8 gerð með rekstur Barnahúss í huga. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu, sjálfstæðri stofnun sem annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög nr. 80/2002 taka til, sbr. 1. mgr. 7. gr. þeirra laga. Taka barnaverndarlög til allra barna á yfirráðasvæði íslenska ríkisins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, og starfar Barnaverndarstofa á landsvísu, sbr. t.a.m. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er að finna nánari lýsingu á starfseminni en þar segir: „Starfsemi Barnahúss lýtur að börnum undir 18 ára aldri sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og að þau börn geti fengið alla þá þjónustu sem þörf er á undir sama þaki.“ Getur umrædd þjónusta vart talist grunnþjónusta við íbúa þess hverfis þar sem hún er staðsett og verður ekki annað séð en að hún falli undir almenna samfélagsþjónustu samkvæmt skilgreiningu í gildandi skipulagsreglugerð og sé því aðeins heimiluð við aðalgötu á íbúðarsvæði, sbr. þau ákvæði aðalskipulags sem áður er lýst. Samkvæmt skipulagsuppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 er gatan Gilsárstekkur ekki skilgreind sem aðalgata og uppfyllir því ekki skilyrði fyrir rýmri landnotkunarheimildir samkvæmt aðalskipulagi. Af framangreindu leiðir að hin kærða ákvörðun var ekki í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á svæðinu og verður því ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 27. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðar nr. 8 við Gilsárstekk.
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að breyta húsinu að Gilsárstekk 8 í skrifstofuhúsnæði, breyta innra fyrirkomulagi þess og breyta bílgeymslu í móttökuherbergi.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson