Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2014 Almannadalur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 9. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2014, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 17. janúar 2014 um skráningu lögheimilis í Almannadal, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. maí 2014, er barst nefndinni 22. s.m, kærir Félag hesthúsaeigenda í Almannadal, málsmeðferð og synjun Reykjavíkurborgar á umsókn um skráningu lögheimilis í Almannadal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 20. júní 2014 og í maí 2015.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur hinn 13. desember 2013 var tekin fyrir og vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs umsókn frá Félagi hesthúsaeigenda í Almannadal um leyfi til að skrá lögheimili á efri hæð hesthúsa í Almannadal með takmarkaðri þjónustu. Með umsókn fylgdi greinargerð, dags. 10. nóvember s.á. Skipulagsfulltrúi tók málið fyrir að nýju hinn 10. janúar 2014 og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Málið var enn á ný tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. s.m. Lá jafnframt fyrir á fundinum samþykki lóðarhafa fyrir umsókninni sem og umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 3. s.m. Var fært til bókar að umsögnin væri samþykkt en í henni kom m.a. fram að ekki væru forsendur fyrir því að leyfa umbeðna lögheimilisskráningu, en ekki væri gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu í deiliskipulagi fyrir Almannadal. Var kæranda tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 20. janúar 2014. Kom hann á framfæri ábendingum við nefnda umsögn með tölvubréfi 28. s.m.

Með tölvubréfi kæranda til sveitarfélagsins 13. febrúar s.á. var þess óskað að umsókn félagsins fengi málefnalega umfjöllun í umhverfis- og skipulagsráði og þess óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvenær vænta mætti niðurstöðu eða um framvindu umsóknar þeirra. Með tölvubréfi til skrifstofu sviðsstjóra 18. mars s.á. óskaði kærandi nánari upplýsinga. Var kæranda svarað með tölvubréfi 22. apríl s.á. þar sem m.a. var bent á kæruleið til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í janúar 2013 hafi verið óskað eftir lögheimilisskráningu á fundi með formanni umhverfis- og skipulagsráðs. Fyrir liggi álit frá þáverandi lögfræðingi Reykjavíkurborgar frá þeim tíma um að heimilt sé samkvæmt lögum að skrá lögheimili í Almannadal og að hvorki ákvæði í aðalskipulagi né deiliskipulagi fyrir svæðið kæmu í veg fyrir þá skráningu. Hús séu hönnuð samkvæmt skilmálum deiliskipulags umrædds svæðis. Þau séu tveggja hæða með hesthúsi á neðri hæð en íveruplássi á efri hæð. Sé öll hönnun og frágangur þeirra samkvæmt ýtrustu kröfum byggingarreglugerðar, svo sem um brunavarnir. Hafi þetta að sögn byggingaryfirvalda verið gert þar sem ljóst væri og gera mætti ráð fyrir að vegna stærðar efri hæðar yrði hún nýtt sem íbúðarhúsnæði í einhverjum tilfellum. Nú þegar séu nokkrar fjölskyldur búsettar í húsunum með fullri vitneskju og án athugasemda borgaryfirvalda. Veiti sveitarfélagið ákveðna þjónustu á svæðinu, svo sem gatnahreinsun. Ítrekað hafi verið sent erindi til Reykjavíkurborgar og óskað eftir því að tekin yrði afstaða til umsóknar félagsins á formlegum fundi skipulagsyfirvalda. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur megi taka í notkun 10% af nýjum íbúðum til 2024 austan Elliðaár. Þurfi ekki að breyta deiliskipulagi nema hugsanlega texta þess. Hafi dómur Hæstaréttar í máli gegn Bláskógabyggð frá árinu 2006 um skráningu lögheimilis ákveðið fordæmisgildi en samkvæmt nefndum dómi þurfi að taka fram í lögum hvar ekki megi skrá lögheimili til þess að stjórnvald geti hafnað skráningu. Umrætt svæði sé skilgreint sem opið svæði í skipulagi og falli því væntanlega ekki undir skilgreiningu um hvar ekki megi skrá lögheimili. Í deiliskipulagi séu engar takmarkanir á lögheimilisskráningu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að hin kærða synjun skipulagsfulltrúa verði staðfest. Málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsbreytingar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Almannadalur hafi verið skipulagður til að skapa aðstöðu til uppbyggingar hestamennsku í Reykjavík og til að mæta brýnni þörf á byggingarlóðum fyrir hesthús og athafnasvæði fyrir hestamenn. Byggi deiliskipulag fyrir svæðið á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en þar sé það skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og merkt sem hesthúsabyggð. Það séu svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert sé ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar sé stunduð svo sem hesthús og reiðvellir en ekki sé gert ráð fyrir fastri búsetu á slíkum svæðum. Til að unnt verði að heimila skráningu verði að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur á þann veg að Almannadalur verði íbúðarbyggð og síðan þurfi að breyta deiliskipulagi í samræmi við það.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé ekki gert ráð fyrir nýjum úthverfum í jaðri borgarinnar. Séu engar áætlanir hjá Reykjavíkurborg um að breyta umræddu svæði í íbúðarbyggð enda sé það á jaðri byggðar. Þá vísi sveitarfélagið til umfjöllunar í frumvarpi til laga nr. 21/1990 um lögheimili og telji að réttur til að ráða búsetu sinni og sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga sem varinn sé af 78. gr. stjórnarskrárinnar geti vel farið saman. Megi réttlæta takmarkanir á heimild til að skrá lögheimili með vísan til almannahagsmuna.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar: Kærandi tekur fram að umsókn hans byggi á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 en ekki nýju aðalskipulagi. Hafi húseigendum verið leiðbeint um hvernig og hvar sækja ætti um lögheimilisskráningu af starfsmönnum skipulagsstjóra. Hafi kærandi óskað eftir því að blönduð byggð yrði heimiluð í Almannadal en ekki að svæðinu yrði breytt í íbúðarbyggð. Muni aukin búseta í Almannadal leiða til þess að nýting á þjónustu borgarinnar í Norðlingaholti verði meiri án aukinna útgjalda fyrir borgina og ætti hún því að samrýmast almannahagsmunum. Umrædd hús séu ekki ekki á skipulögðum atvinnusvæðum og verði að telja það skerðingu á frelsi manna að koma í veg fyrir umbeðna lögheimilisskráningu.
—–
Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð „málsmeðferð og synjun“ Reykjavíkurborgar á umsókn um skráningu lögheimilis á efri hæðum hesthúsa í Almannadal. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kæran lúti að afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 17. janúar 2014 vegna umræddrar lögheimilisskráningar. Verður því litið á hana sem hina kærðu ákvörðun, enda ekki öðrum ákvörðunum til að dreifa samkvæmt gögnum málsins.

Í greinargerð er fylgdi umsókn kæranda kemur fram að óskað sé eftir því að „… skipulagsstjórinn í Reykjavík taki til efnislegrar meðferðar beiðni um heimild til lögheimilisskráningu á efri hæð hesthúsa í Almannadal með takmarkaðri þjónustu“. Um lögheimili gilda lög nr. 21/1990 og um breytingu á lögheimili gilda ákvæði laga nr. 73/1952 um tilkynningar aðsetursskipta, eftir því sem við á, sbr. 10. gr. lögheimilislaga. Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er ekki að finna í nefndum lögum og verður ágreiningur á grundvelli þeirra ekki borinn undir nefndina.

Ráðið verður af málsrökum Reykjavíkurborgar að litið hafi verið á umsókn kæranda sem beiðni um breytingu á skipulagi þrátt fyrir að hún beri það ekki með sér með óyggjandi hætti, en vikið er að því í fyrrnefndri greinargerð umsækjanda að „umrædd beiðni [snúi] ekki að því að breytinga sé þörf á skilgreiningu í skipulagi heldur eingöngu að nýta efri hæðir húsa sem uppfylla skilyrði Byggingarfulltrúa fyrir búsetu og standast lokaúttekt hans“. Þrátt fyrir að umsókn kæranda sé um margt óljós er ekki hægt að skilja hana með þeim hætti að óskað hafi verið breytinga á skipulagi heldur verður svo á að líta að með framangreindu orðalagi hafi verið sótt um breytt not á húsnæði þannig að búseta væri þar heimil. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa, sem samþykkir byggingaráform séu þau í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði, sbr. 11. gr. sömu laga, og gefur út leyfi samrýmist mannvirki og notkun þess skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 13. gr. laganna. Skipulagsyfirvöldum borgarinnar var því ekki rétt að fara með umsóknina eins og gert var heldur var þeim rétt að beina málinu í þann farveg sem að framan greinir og framsenda umsóknina byggingarfulltrúa til endanlegrar afgreiðslu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni hafði byggingarfulltrúi enga aðkomu að greindri ákvarðanatöku og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumálinu af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

45/2015 Ránargata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 um að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2015, sem barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Ránargötu 31, Ránargötu 32, Ránargötu 33, Stýrimannastíg 4 og, Stýrimannastíg 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. júní 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 14. október 2014 var samþykkt umsókn um leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli, breyta stiga milli kjallara og neðri hæðar, koma fyrir salernum og böðum í tveimur svefnherbergjum og tveimur vinnuherbergjum í kjallara, breyta inntaki og endurnýja heimtaugar og heimaæðar í húsinu á lóð nr. 29a við Ránargötu. Umsókninni fylgdi umsögn frá Minjastofnun Íslands, dags. 18. september s.á. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að framkvæmdir hafi hafist, m.a. með því að trjágróður væri fjarlægður og grafið væri fyrir dreni, hafi þeir leitað sér nánari upplýsinga um í hverju framkvæmdirnar fælust. Hafi þeir ekki fyrr en þá gert sér grein fyrir því að til stæði að gera áberandi breytingar utanhúss, svo sem verulega stækkun á kvisti vestan megin ásamt byggingu nýrra svala. Breytingarnar séu óæskilegar og ekki í samræmi við aðra kvisti rishæða sem snúi inn að görðum hverfisins. Þeir séu yfirleitt látlausir og lágreistir og samsvari húsunum vel. Muni kvistur og svalir gnæfa yfir nærliggjandi garða og skerða næði kærenda meira en áður hafi verið. Sé þess krafist að byggingarleyfið sé fellt úr gildi þar sem grenndarkynning hafi ekki farið fram í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er upplýst að við skoðun á málinu hafi komið í ljós að láðst hafi að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. Verði leyfið fellt úr gildi megi búast við því að umsóknin verði grenndarkynnt.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafi skírskotar til þess að hann hafi unnið að nýjum teikningum sem lagðar hafi verið fram hjá byggingarfulltrúa og samþykktar þar að loknum viðeigandi breytingum. Húsið sem um ræði sé dæmigert fyrir íslenskan sveitserstíl sem aðlagaður hafi verið aðstæðum hér á landi. Sambærileg hús sé að finna í vesturbænum, umhverfis Tjörnina og í Þingholtunum, en húsið sé sérstakt m.a. fyrir það að standa á baklóð milli gatna og snúa þvert á almenna stefnu húsanna sem standi við göturnar í kring. Breytingar utanhúss séu þær að í stað hallandi kvists á þakinu sé fyrirhugaður veggkvistur með mænisþaki og svölum og dyrum út á þær. Hann sé sömu gerðar og ættar og fjölmargir kvistir á timburhúsum frá þessum tíma og sómi húsinu vel, sbr. umsagnir Minjastofnunar Íslands og Borgarsögusafns. Með kvistinum og svölunum sé tryggð flóttaleið af efri hæð hússins sem ekki hafi verið fyrir. Einnig sé fyrirhuguð breyting á aðaltröppum hússins, þær verði smíðaðar úr timbri og gengið verði um pall sem auki notagildi þeirra. Allar breytingar séu í samræmi við samþykktar teikningar.

Byggingarleyfi hafi verið gefið út og samþykkt af byggingarfulltrúa 14. október 2014, framkvæmdir hafist 13. apríl 2015 og hafi verktakar unnið við fasteignina alla virka daga síðan. Framkvæmdir hafi þá þegar byrjað af fullum þunga utanhúss og verði því ekki betur séð en að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi hafi nú þegar eytt miklum fjármunum og tíma í að koma framkvæmdum í þann farveg sem þær séu í. Samningar hafi verið gerðir við verktaka og myndi ógilding byggingarleyfis hafa mikil og ófyrirsjáanleg fjárhagsleg áhrif á leyfishafa. Stefna hans sé að framkvæma allar breytingar á þeim fasteignum sem hann kunni að eignast í samræmi við aldur hverrar eignar og harmi hann að þessi staða sé komin upp. Leyfishafi eyði verulegum fjármunum í að halda í upphaflegt útlit hússins eins og kostur sé, en ekki sé sjálfgefið að eigendur fasteigna leggi slíka fjármuni og metnað í það að vernda sögulegt gildi og útlit gamalla fasteigna, eins og hér um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar innan og utan hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera það ljóst. Óumdeilt er að framkvæmdir hófust í apríl 2015. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar þær framkvæmdir hafi þá þegar verið hafnar sem bent gætu til breytinga á kvisti eða að svölum yrði þar bætt við, en að sögn kærenda voru framkvæmdir utan húss fólgnar í því að garður var grafinn upp, trjágróður fjarlægður og grafið fyrir dreni. Munu kærendur hafa aflað sér upplýsinga í byrjun júní s.á. um byggingarleyfi það sem kært var til úrskurðarnefndarinnar 11. s.m. Með hliðsjón af framangreindu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests, enda verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera efni byggingarleyfisins ljóst fyrr eða haft tilefni til að kanna það sérstaklega vegna aðstæðna. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið Ránargötu 29a er staðsett á ódeiliskipulögðu svæði. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 19. gr. laga nr. 59/2014, er skipulagsnefnd heimilað að ákveða að veita megi byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir, enda fari áður fram grenndarkynning. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndarkynning ekki farið fram. Þá voru ekki skilyrði fyrir því að falla frá grenndarkynningu á grundvelli undantekningarákvæðis 3. mgr. 44. gr. laganna, enda ekki útilokað að umþrætt framkvæmd geti haft áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjanda hins kærða leyfis.

Að framagreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. október 2014 um að veita leyfi til að stækka kvist og byggja svalir við hann, stækka aðaltröppur með palli og breyta innra skipulagi hússins á lóð nr. 29a við Ránargötu, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

51/2014 Gilsárstekkur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 9. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. mars 2014 um að veita leyfi til að breyta húsinu að Gilsárstekk 8 í skrifstofuhúsnæði, breyta innra fyrirkomulagi þess og breyta bílgeymslu í móttökuherbergi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júní 2014, sem barst nefndinni 19. s.m., kæra S, Gilsárstekk 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. mars s.á. að veita leyfi til að breyta húsinu að Gilsárstekk 8 í skrifstofuhúsnæði, breyta innra fyrirkomulagi þess og breyta bílgeymslu í móttökuherbergi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. október 2014, sem barst nefndinni 15. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 27. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar nr. 8 við Gilsárstekk. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að Reykjavíkurborg kaupi af kærendum hús þeirra og greiði þeim bætur fyrir það fjárhagstjón sem þau hafi orðið fyrir vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki kærunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 111/2014, sameinað máli þessu.

Þykir málið nú nægilega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. júlí og 12. og 27. nóvember 2014.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 17. desember 2013 var tekin fyrir umsókn, dags. 12. s.m., þar sem sótt var um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi, breyta bílgeymslu í móttökuherbergi og byggja ofan á svalir á húsinu nr. 8 við Gilsárstekk. Kemur fram á aðalteikningu þeirri sem fylgdi umsókninni að um Barnahús sé að ræða. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og í umsögn hans, dags. 10. janúar 2014, voru ekki gerðar athugasemdir við breytinguna. Var erindið samþykkt á fundi skipulagsfulltrúa 17. s.m. og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. mars s.á. Hefur sú ákvörðun byggingarfulltrúa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. júlí 2014 var samþykkt að grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum að Gilsárstekk 1, 2, 3, 4, 5, 6 og 7 tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júní 2014, um breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar nr. 8 við Gilsárstekk. Í breytingunni fólst breyting á notkun lóðarinnar úr einbýlishúsalóð í lóð undir starfsemi Barnahúss. Var erindið grenndarkynnt frá 7. júlí til 5. ágúst s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. ágúst s.á. Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 27. s.m. og var tillagan samþykkt. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. október s.á. og hefur hún einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að í skilmálum fyrir einbýlishús í Breiðholti frá 15. febrúar 1966 komi fram að á lóðunum skuli reisa einnar hæðar einbýlishús nema þar sem halli á landslagi gefi tilefni til neðri hæðar eða kjallara. Þá komi fram að bifreiðageymsla skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst við það nema annað sé sýnt á mæliblaði. Tvö bílastæði skuli vera á lóðinni og óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í húsinu. Í gildandi deiliskipulagi komi hvergi fram að í húsunum megi stunda atvinnurekstur af einhverjum toga. Slíkar heimildir hefðu þurft að koma fram í deiliskipulaginu með skýrum hætti og ekki dugi að vísa til heimilda í aðalskipulagi. Að auki sé gert ráð fyrir því í deiliskipulaginu að bifreiðageymsla sé í húsinu og sé þar hvergi fjallað um heimildir til að breyta hagnýtingu hennar í móttöku fyrir starfsemi eins og þá sem fyrirhuguð sé. Gögn málsins gefi einnig til kynna að á lóðinni verði mun fleiri bílastæði en þau tvö sem deiliskipulag geri ráð fyrir.

Í umsögn skipulagsfulltrúa sé ekki fjallað um landnotkunarflokk eða þá staðreynd að deiliskipulagið geri ekki ráð fyrir öðru en einbýli með íbúð á reitnum. Ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma, sem ekki séu í samræmi við heimildir í deiliskipulagi, leiði óhjákvæmilega til ógildingar. Komi fram í aðalskipulagi, sem gilt hafi þegar umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið unnin, að umrædd lóð sé á skilgreindu íbúðarsvæði, sbr. ákvæði 3.1.2. Á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Þá segi að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir eigi að meta áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni og áhrif byggingar á yfirbragð hverfis. Í nýju aðalskipulagi sé sú þjónusta sem búast megi við á íbúðarsvæði sérstaklega skilgreind og sé rauði þráðurinn alltaf sá að atvinnustarfsemin standi í beinu samhengi við landnotkun.

Hvort sem litið sé til ákvæða í eldri eða nýrri skipulagsreglugerð eða skilgreiningar landnotkunar í þágildandi eða núgildandi aðalskipulagi sé ljóst að heimildir til atvinnustarfsemi séu bundnar við að starfsemin tengist íbúðarbyggðinni með einhverjum hætti. Hin umdeilda starfsemi sé órafjarri þeirri nærþjónustu sem búast megi við á íbúðarsvæði. Um opinbera stofnun sé að ræða sem fari með rannsóknarhlutverk í sakamálum. Ljóst sé að starfsemin samræmist ekki starfsemi landnotkunarflokks svæðisins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að markmið með hinni umþrættu deiliskipulagsbreytingu hafi verið að koma að heimild fyrir starfsemi Barnahúss sem samræmist skilgreiningu á landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og nýta bílgeymslu sem hluta af þeirri starfsemi. Í skilmálum komi fram að heimild sé fyrir starfsemi Barnahúss í húsinu virka daga frá kl 8-17. Heimilt sé að nýta bílgeymslu í tengslum við þá starfsemi og sé um afturkræfar breytingar að ræða. Verði starfsemi Barnahúss aflögð á lóðinni skuli húsið nýtt sem einbýlishús að nýju. Starfsemin rúmist vel innan skilgreindrar landnotkunar íbúðarbyggðar og nærþjónustu sem henni tengist í aðalskipulagi. Innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að vera með fjölbreytta atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Falli opinber grunnþjónusta undir nærþjónustu. Á það sé bent að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi. Verði menn að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Verði ekki séð að deiliskipulagsbreytingin hafi nein þau grenndaráhrif að ógildingu varði.

Samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á umræddri deiliskipulagsbreytingu byggi á 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, settri af borgarstjórn 18. desember 2012. Á fundi sínum 3. júlí 2014 hafi borgarráð svo samþykkt viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Viðaukarnir hafi verið sendir innanríkisráðuneyti með bréfi, dags. 24. s.m., þar sem óskað hafi verið eftir birtingu þeirra í Stjórnartíðindum. Ráðuneytið hafi komist að því 24. október s.á. að viðaukar við samþykktina væru ekki háðir staðfestingu ráðherra og þar af leiðandi ekki háðir birtingu í Stjórnartíðindum. Í tölvubréfi frá ritstjóra Stjórnartíðinda sama dag komi fram að talið sé, með hliðsjón af áliti ráðuneytisins, að ekki sé nauðsynlegt að birta viðaukana í Stjórnartíðindum þó svo að þeir hafi áður verið birtir þar í nafni ráðuneytisins sem fylgiskjöl við samþykktir viðkomandi sveitarfélaga. Telji ritstjóri Stjórnartíðinda að ekki sé lagagrundvöllur til birtingar viðaukanna í Stjórnartíðindum í nafni sveitarfélagsins skv. 3. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Í ljósi framangreinds hafi umhverfis- og skipulagsráði verið heimilt að ljúka afgreiðslu deiliskipulagsbreytingarinnar samkvæmt viðaukunum, þótt þeir hafi ekki verið birtir í Stjórnartíðindum.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hvorki sé um útlitsbreytingu né stækkun að ræða. Þær framkvæmdir sem hafi átt sér stað séu m.a. niðurrif milliveggja, endurnýjun lagna og málningarvinna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík sem fela í sér breytta notkun hússins á lóðinni nr. 8 við Gilsárstekk. Er í fyrsta lagi um að ræða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. mars 2014 um að veita byggingarleyfi til að breyta húsinu í skrifstofuhúsnæði fyrir Barnahús. Í öðru lagi snýst deilan um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 27. ágúst s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðarinnar. Fólst í henni breyting á notkun greindrar lóðar úr einbýlishúsalóð í lóð undir starfsemi Barnahúss.

Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggði á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Þar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“.

Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Skuli slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá segir í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.

Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt nr. 715/2013 þess efnis var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina voru samþykktir á fundi borgarráðs 3. júlí 2014, m.a. viðauki 1.1. um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Viðaukarnir hafa hvorki verið staðfestir af ráðherra né birtir í Stjórnartíðindum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, þrátt fyrir umleitanir borgarinnar þar um.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Þessum kröfum um efni og form valdframsals var ekki fullnægt með því að samþykkja síðar viðauka við þá samþykkt sem staðfest var af ráðherra og birt var í B-deild Stjórnartíðinda. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 og í viðauka 1.1. við samþykkt nr. 715/2013 var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem sveitarstjórn hefur ekki komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður þessum hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kemur þá til skoðunar hvort að byggingaráform þau sem byggingarfulltrúi samþykkti, að deiliskipulagi Breiðholts I óbreyttu, eigi sér stoð í gildandi skipulagi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema með leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samþykkir byggingarfulltrúi byggingaráform séu þau í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði, sbr. 11. gr. sömu laga. Þá er það eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var deiliskipulagið Breiðholt I frá árinu 1967 í gildi. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skyldi einnar hæðar einbýlishús vera á lóðinni og bifreiðageymsla skyldi vera í húsinu sjálfu eða áföst við það, nema annað væri sýnt á mæliblaði. Með hinni kærðu ákvörðun var notkun hússins breytt í skrifstofuhúsnæði fyrir Barnahús.

Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga, og er þar lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags m.a. varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Umrætt deiliskipulagssvæði er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, nánar tiltekið ÍB 39 Stekkir. Er því lýst sem fastmótaðri íbúðarbyggð 1-2 hæða einbýlishúsa með heilsteyptu yfirbragði. Þá er íbúðarbyggð nánar skilgreind í kaflanum, Landnotkun – Skilgreiningar (Bindandi stefna). Þar segir að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins, sbr. gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Kemur fram að opinber grunnþjónusta falli undir nærþjónustu. Segir síðan að meðfram aðalgötum sé heimild fyrir fjölbreyttari landnotkun í íbúðarbyggð. Þar megi gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi og sé þar einkum um að ræða starfsemi sem falli undir flokkana verslun og þjónusta og samfélagsþjónusta. Slíkar rýmri landnotkunarheimildir gildi þó aðeins um hús sem standi við viðkomandi aðalgötu. Í sama kafla aðalskipulagsins er einnig að finna nánari skilgreiningu á landnotkunarflokknum samfélagsþjónustu. Eru skilgreind svæði samfélagsþjónustu ætluð fyrir stofnanir og fyrirtæki sem óháð eignaraðild veita almenna þjónustu við samfélagið, svo sem menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, menningarstofnanir, félagslegar stofnanir, trúarstofnanir og aðrar þjónustustofnanir ríkis, sveitarfélaga eða annarra aðila, sbr. gr. 6.2.d. í skipulagsreglugerð. Í kaflanum er síðan áréttað að samfélagsþjónusta sem teljist grunnþjónusta fyrir viðkomandi hverfi sé heimil í íbúðarbyggð og að samfélagsþjónusta sé almennt heimil við aðalgötur og í skilgreindum kjörnum innan íbúðarbyggðar.

Líkt og áður greinir var breyting á notkun íbúðarhúsnæðis að Gilsárstekk 8 gerð með rekstur Barnahúss í huga. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu, sjálfstæðri stofnun sem annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög nr. 80/2002 taka til, sbr. 1. mgr. 7. gr. þeirra laga. Taka barnaverndarlög til allra barna á yfirráðasvæði íslenska ríkisins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, og starfar Barnaverndarstofa á landsvísu, sbr. t.a.m. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er að finna nánari lýsingu á starfseminni en þar segir: „Starfsemi Barnahúss lýtur að börnum undir 18 ára aldri sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og að þau börn geti fengið alla þá þjónustu sem þörf er á undir sama þaki.“ Getur umrædd þjónusta vart talist grunnþjónusta við íbúa þess hverfis þar sem hún er staðsett og verður ekki annað séð en að hún falli undir almenna samfélagsþjónustu samkvæmt skilgreiningu í gildandi skipulagsreglugerð og sé því aðeins heimiluð við aðalgötu á íbúðarsvæði, sbr. þau ákvæði aðalskipulags sem áður er lýst. Samkvæmt skipulagsuppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 er gatan Gilsárstekkur ekki skilgreind sem aðalgata og uppfyllir því ekki skilyrði fyrir rýmri landnotkunarheimildir samkvæmt aðalskipulagi. Af framangreindu leiðir að hin kærða ákvörðun var ekki í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á svæðinu og verður því ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á þeirri ákvörðun  umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 27. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðar nr. 8 við Gilsárstekk.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að breyta húsinu að Gilsárstekk 8 í skrifstofuhúsnæði, breyta innra fyrirkomulagi þess og breyta bílgeymslu í móttökuherbergi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

26/2013 Indriðastaðir

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2013, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 17. desember 2012 um að leita ekki meðmæla Skipulagsstofnunar vegna umsóknar um byggingarleyfi til að setja upp öryggishlið við Stráksmýri, á ákvörðun sömu nefndar frá 22. janúar 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bleikulágaráss í landi Indriðastaða vegna öryggishliðs við Hrísás, sem og drátt á meðferð skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókn fyrir öryggishliði við Indriðastaðahlíð, en öll öryggishliðin eru fyrirhuguð í landi Indriðastaða, Skorradalshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2013, sem barst nefndinni sama dag, kærir K, f.h. stjórnar Félags sumarbústaðaeigenda í landi Indriðastaða, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 17. desember 2012 að leita ekki meðmæla Skipulagsstofnunar vegna umsóknar um byggingarleyfi til að setja upp öryggishlið við Stráksmýri og þá ákvörðun sömu nefndar frá 22. janúar 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bleikulágaráss í landi Indriðastaða vegna öryggishliðs við Hrísás. Að auki er kærður dráttur á meðferð skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókn fyrir öryggishliði við Indriðastaðahlíð. Öll eru hliðin fyrirhuguð í landi Indriðastaða, Skorradalshreppi. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að síðastgreinda byggingarleyfisumsóknin verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2013, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvarðanir hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 9. apríl 2013 um að hafna að veita byggingarleyfi fyrir öryggishliði við Indriðastaðahlíð og um að samþykkja að beina því til byggingarfulltrúa að fresta útgáfu byggingarleyfis fyrir öryggishliði við Hrísás. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að baki báðum kærunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 42/2013, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Skorradalshreppi 9. apríl og 20. september 2013 og í júní 2015.

Málavextir: Hinn 19. september 2012 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps tekin fyrir byggingarleyfisumsókn, dags. 23. ágúst s.á., þar sem óskað var eftir byggingarleyfi til að setja upp þrjú öryggishlið í landi Indriðastaða, þ.e. á aðkomuvegum að Stráksmýri, Hrísási og Indriðastaðahlíð. Samþykkti nefndin að veita byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu og benti á að ekki mætti loka tilgreindri reiðleið og að tryggja þyrfti að allir öryggisaðilar og embættismenn sveitarfélagsins hefðu aðgang um hliðin. Í kjölfarið urðu nokkur samskipti milli skipulagsfulltrúa og kæranda vegna gagnaöflunar. Að umbeðnum gögnum fengnum sendi skipulagsfulltrúi 30. október s.á eftirfarandi leiðbeiningar til kæranda: „Á uppdrættinum sem þú sendir mér er vísað í 1. mgr. 44. gr. Skipulagslaga. Þá grein er hægt að nota þegar ekki er í gildi deiliskipulag eins og í gamla hverfinu. Bæði í Hrísás og Indriðastaðahlíð eru í gildi deiliskipulög sem þarf að breyta til að hægt sé að grenndarkynna. Vísa þarf því í 2. mgr. 43. gr. og leggja fram breytingu á deiliskipulagi.“

Hinn 20. nóvember s.á. var umsókn kæranda tekin fyrir á ný á fundi skipulags- og byggingarnefndar. Var eftirfarandi bókað: „Komið hefur í ljós að öryggishlið sem reisa á fyrir Indriðastaði/Bleikulág að Stráksmýri er á svæði utan þéttbýlis og deiliskipulag liggur ekki fyrir. Skipulags- og byggingarnefnd þarf því að meta hvort að umsókn kalli á gerð deiliskipulags eða hvort að leita eigi meðmæla Skipulagsstofnunar sbr. 1. tl. bráðabirgðaákvæða Skipulagslaga 123/2010.“ Þá var bent á að hin tvö öryggishliðin væru fyrirhuguð á svæðum þar sem deiliskipulag væri í gildi. Lagði nefndin til við hreppsnefnd að leitað yrði meðmæla Skipulagsstofnunar vegna hliðsins við Stráksmýri. Hinn 17. desember s.á. var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar lögð fram til staðfestingar á fundi hreppsnefndar og var bókað: „Liður 5 féll á jöfnu.“ Í kjölfar fyrirspurnar kæranda um stöðu mála barst honum svohljóðandi svar skipulagsfulltrúa 29. janúar 2013: „Afgreiðsla hreppsnefndar féll að jöfnu við samþykkt fundargerðar Skipulags- og bygginganefndar á 49. fundi hreppsnefndar þar sem lagt er til við sveitarstjórn að leita eftir meðmælum hjá Skipulagsstofnun. Það verður því ekki leitað meðmæla og hliðið fær ekki byggingarleyfi samkvæmt þeirri afgreiðslu.“

Hinn 22. janúar 2013 var á fundi hreppsnefndar samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna uppsetningar öryggishliðs við Hrísás. Hafði tillagan verið grenndarkynnt frá 27. nóvember til 27. desember 2012 en engar athugasemdir borist á kynningartíma. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. febrúar 2013. Á fundi hreppsnefndar 9. apríl s.á. var samþykkt að beina því til byggingarfulltrúa að fresta útgáfu byggingarleyfis vegna öryggishliðs við Hrísás þar til hreppsnefnd hefði mótað stefnu um uppsetningu öryggishliða.

Kærandi leitaði 28. janúar 2013 eftir upplýsingum um stöðu mála og í svari skipulagsfulltrúa 29. s.m. kom m.a. fram að umsókn vegna hliðs við Indriðastaðahlíð hefði ekki enn verið afgreidd. Hinn 4. febrúar s.á. spurðist kærandi aftur fyrir um stöðu mála hvað varðaði öryggishlið við Indriðastaðahlíð og fékk eftirfarandi svör frá skipulagsfulltrúa 5. s.m: „Þið megið leggja fram breytingu deiliskipulags Indriðastaðahlíðar þar sem gerð er grein fyrir staðsetningu hliðs. Nefndin mun líklega afgreiða málið sbr. ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010“. Hinn 11. mars 2013 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu vegna öryggishliðs við Indriðastaðahlíð. Á fundinum var því hins vegar hafnað að veita byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu þar sem öryggishliðið myndi skerða aðgengi almennings að útivistarsvæði ofan byggðar. Á fundi hreppsnefndar 9. apríl s.á. var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar staðfest.

Hafa allar fyrrgreindar afgreiðslur sveitarfélagsins verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að öll afgreiðsla málsins sé hin einkennilegasta. Ekki verði annað ráðið af tilkynningu skipulags- og byggingarnefndar til kæranda eftir fund nefndarinnar 19. september 2012 en að byggingarleyfi verði veitt að undangenginni grenndarkynningu. Sé það í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með ólíkindum sé því að staðsetning allra þriggja öryggishliðanna hafi ekki verið grenndarkynnt heldur einungis deiliskipulagsbreyting vegna hliðs við Hrísás. Skorti mikið á leiðbeiningar stjórnvalda til umsækjanda og að skýrt sé hvaða ákvarðanir hafi verið teknar og á hvaða lagaforsendum. Þá dragi kærandi það í efa að uppsetning öryggishliða sé yfir höfuð háð byggingarleyfi.

Málsmeðferð stjórnvalda hafi tekið langan tíma og einkennst af breytingum sem erfitt sé að átta sig á. Kærandi hafi lagt út fyrir ýmsum kostnaði sem ekki sjáist fyrir endann á. Hafi öllum leiðbeiningum sveitarfélagsins verið fylgt og leitast hafi verið við að uppfylla kröfur sem gerðar hafi verið. Þá sé það ekki forsvaranlegt að hreppsnefnd detti í hug að fresta útgáfu byggingarleyfis tæplega þremur mánuðum eftir að ákvörðun um útgáfu hafi verið tekin og ætli sér að fara í stefnumótun um öryggishlið þegar umsókn um byggingarleyfi hafi verið til meðferðar síðan 30. júlí 2012.

Sé einnig bent á að fjölmörg öryggishlið hafi verið sett upp í landi sumarbústaðafélaga í Skorradalshreppi að undanförnu. Ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir þeim hliðum. Kæranda sé ekki kunnugt um að skipulagsyfirvöld í hreppnum hafi aðhafst nokkuð vegna þessara hliða. Skipulagsyfirvöld hafi sýnt algjört tómlæti í málinu en á sama tíma beitt sér af fullri hörku gegn kæranda.

Málsrök Skorradalshrepps: Sveitarfélagið hefur ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en því að láta úrskurðarnefndinni í té gögn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir vegna uppsetningar þriggja öryggishliða í landi Indriðastaða. Snýst deilan um hvort rétt hafi verið að krefjast deiliskipulagsbreytinga vegna hliðanna í Hrísási og Indriðastaðahlíð og hafna því að veita byggingarleyfi vegna þess síðarnefnda. Að auki er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar að leita ekki meðmæla Skipulagsstofnunar vegna hliðsins við Stráksmýri og beina því til byggingarfulltrúa að fresta útgáfu byggingarleyfis vegna hliðsins við Hrísás. Þá dregur kærandi í efa að öryggishlið líkt og hér um ræðir séu byggingarleyfisskyld.

Málsmeðferð og ákvarðanataka í málinu átti sér stað á haustmánuðum ársins 2012 og fram til aprílmánaðar 2013, en kærur bárust 1. mars og 29. apríl það ár. Kærandi var upplýstur um ákvörðun hreppsnefndar frá 17. desember 2012 með tölvubréfi 29. janúar 2013 og því ljóst að kæra á þeirri ákvörðun barst ekki innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæranda var hins vegar ekki leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar eða kærufresti og verður sá hluti kærunnar því tekinn til úrlausnar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki eru talin upp þau mannvirki sem heyra ekki undir lögin. Er þar tekið fram að lögin gildi ekki um vegi eða önnur samgöngumannvirki önnur en umferðar- og göngubrýr í þéttbýli. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir um nefnt ákvæði að þau mannvirki sem talin séu upp í greininni sem og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög, og séu því undanþegin ákvæðum laganna. Um vegi og önnur mannvirki sem þeim tengjast gilda vegalög nr. 80/2007. Í 2. gr. laganna segir að þau taki til vega sem ætlaðir séu til umferðar ökutækja og veghald þeirra. Í 53. gr. er að finna ákvæði um girðingar og hlið yfir vegi. Er í greindu ákvæði lagt bann við að setja hlið á vegi án leyfis veghaldara nema um einkaveg sé að ræða. Þá segir í 1. mgr. 55. gr. laganna að teljist vegur, stígur eða götutroðningur ekki til neins vegflokks samkvæmt lögunum og liggi yfir land manns, sé landeiganda heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði en þó sé óheimilt að læsa hliðinu eða hindra umferð með öðru móti, nema með leyfi sveitarstjórnar. Segir í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að vegalögum að greint ákvæði geti haft þýðingu varðandi heimild veghaldara einkavegar til að tálma umferð um veg. Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan að ákvörðun sveitarstjórnar samkvæmt 1. mgr. megi leggja undir úrskurð ráðherra. Loks er fjallað um hlið yfir vegi í 6. gr. reglugerðar nr. 930/2012 um girðingar meðfram vegum en sú reglugerð er sett með stoð í nefndum vegalögum.

Af framangreindum ákvæðum er ljóst að uppsetning öryggishliða, svo sem hér um ræðir, fellur ekki undir mannvirkjalög og er hún þar með ekki leyfisskyld samkvæmt þeim. Gilda vegalög þar um og sæta ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar heldur til innanríkisráðherra skv. áðurgreindri 2. mgr. 55. gr., sem og 57. gr. vegalaga, sbr. einnig forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa frá kröfu kæranda um ógildingu þeirra ákvarðana hreppsnefndar að leita ekki meðmæla Skipulagsstofnunar vegna öryggishliðs í Stráksmýri, að hafna að veita byggingarleyfi vegna hliðsins við Indriðastaðahlíð að undangenginni grenndarkynningu og að beina því til byggingarfulltrúa að fresta útgáfu byggingarleyfis vegna hliðsins við Hrísás. Að auki skal á það bent að endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum 9. og 11. gr. mannvirkjalaga, en ekki verður séð að byggingarfulltrúi hafi haft nokkra aðkomu að greindri ákvarðanatöku.

Í málinu liggur fyrir að kæranda var leiðbeint um að deiliskipulagsbreytingu þyrfti til að umsókn hans um byggingarleyfi fyrir hliðum við Hrísás og Indriðastaðahlíð yrði tekin til greina. Eins og áður hefur komið fram er ekki um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða og var því ekki tilefni til breytinga á deiliskipulagi af þeim sökum. Eigi að síður var ráðist í breytingu á deiliskipulagi Bleikulágaráss í landi Indriðastaða vegna öryggishliðs við Hrísás. Var sveitarstjórn það heimilt að teknu tilliti til gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segir í 4. mgr. b-liðar að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir stærð og umfangi annarra mannvirkja en bygginga, s.s. samgöngumannvirkja. Þá var málsmeðferð vegna skipulagsbreytingarinnar í samræmi við lög og verður ekki séð að hún sé haldin slíkum annmörkum að leitt geti til ógildingar.

Hvað varðar breytingu á deiliskipulagi Indriðastaðahlíðar á Indriðastöðum verður af gögnum málsins ráðið að tillaga að slíkri breytingu hafi verið lögð fyrir fund skipulags- og byggingarnefndar 11. mars 2013, eins og nánar greinir í málavöxtum. Á þeim fundi var hins vegar ekki tekin afstaða til tillögunnar heldur hafnað að veita byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu og var sú afgreiðsla staðfest af hreppsnefnd. Með því að ekki liggur fyrir ákvörðun um samþykkt eða synjun deiliskipulagsbreytingarinnar er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður þessum hluta málsins því einnig vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 22. janúar 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bleikulágaráss í landi Indriðastaða vegna öryggishliðs við Hrísás.

Öðrum kröfum kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

92/2014 Kattagjald

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2014, kæra á ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar um álagningu leyfisgjalds fyrir kött vegna ársins 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir S, ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 1. júní 2014 um álagningu leyfisgjalds fyrir kött kæranda vegna ársins 2014. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 19. september 2014 og 30. apríl og 18. júní 2015.

Málavextir:
Með greiðsluseðli frá Seyðisfjarðarkaupstað, dags. 1. júní 2014, var lagt kattaleyfisgjald að fjárhæð 9.975 krónur á kæranda vegna eins kattar. Með tölvupósti, dags. 2. s.m., kvartaði kærandi til innanríkisráðuneytis yfir álagningu leyfisgjaldsins og var pósturinn framsendur umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem svaraði kæranda í tölvupósti 20. s.m. Þar var útskýrt að um þjónustugjöld væri að ræða skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærandi kvartaði þá skriflega yfir gjöldunum til Seyðisfjarðarkaupstaðar með bréfi, dags. 9. júlí s.á., og var ákveðið á fundi bæjarráðs Seyðisfjarðar 16. s.m. að fela fjármálastjóra að taka saman sundurliðaðar upplýsingar um gjöld og kostnað og senda kæranda. Það var gert með bréfi, dags. 18. s.m.

Í tölvupósti til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 19. júlí 2014, kvaðst kærandi vilja kæra málið til úrskurðarnefndarinnar og eftir ítrekun hans í tölvupósti 14. ágúst s.á., var erindi hans framsent úrskurðarnefndinni. Barst það 18. s.m., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda:
Kærandi kveður afar takmarkaða þjónustu veitta af hálfu Seyðisfjarðarkaupstaðar á móti þeim gjöldum sem bærinn innheimti vegna kattahalds. Enginn eftirlitsmaður sé þar starfandi og hafi ekki verið síðan um haust 2013. Gjaldið þetta sé 9.975 krónur og það eina sem sé innifalið í því sé ein heimsókn til dýralæknis þar sem kötturinn sé ormahreinsaður. Kostnaðurinn við það sé innan við 2.000 krónur og því sé gjaldið allt of hátt miðað við þá þjónustu sem veitt sé.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar: Í greinargerð Seyðisfjarðarkaupstaðar kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir jafnvægi á milli kostnaðar og tekna vegna gæludýrahalds árin 2013 og 2014, en nokkur ár þar á undan hafi rekstrarútkoma vegna þessa málaflokks verið mun lakari. Lögð hafi verið áhersla á að draga úr kostnaði og ná ásættanlegri niðurstöðu í rekstri málaflokksins. Ákvarðanir um gjöld hafi verið teknar með það markmið að leiðarljósi. Hjá kaupstaðnum fari áhaldahús með mestan hluta þjónustu við gæludýraeigendur og annist starfsmenn þess eftirlit, handsömun lausra dýra, móttöku tilkynninga, skráningar, hýsingu dýranna í skemmri tíma og eftirlit með þeim á meðan á vörslu standi. Þjónustufulltrúi kaupstaðarins annist samskipti við eigendur dýra og skipuleggi og haldi utan um mál þeim viðkomandi. Bæjarskrifstofa annist útgáfu reikninga og bókhald. Samkvæmt tölulegum upplýsingum úr bókhaldi Seyðisfjarðarkaupstaðar hafi heildarkostnaður vegna kattahalds í kaupstaðnum á árinu 2014 verið 491.044 krónur. Sé um 40 dýr að ræða og því 12.276 krónur vegna hvers dýrs. Kostnaðurinn komi til vegna dýralæknis, umsýslu skrifstofu og áhaldahúss, trygginga, síma dýraeftirlitsmanns, þátttöku í sameiginlegum kostnaði, auglýsingakostnaðar og aukalegrar ormahreinsunar.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar er hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufresti á álagningarseðli og sneri kærandi sér fyrst til innanríkisráðuneytisins, sem framsendi erindið til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Erindið var svo framsent úrskurðarnefndinni, eins og nánar greinir í málavöxtum. Með vísan til þessa verður að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Mál þetta snýst um lögmæti þjónustugjalds fyrir kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað. Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum, eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Er m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 705/2010 um kattahald og gæludýrahald annarra dýra en hunda í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi,. Samkvæmt 1. gr. samþykktarinnar sætir kattahald í framangreindum sveitarfélögum þeim takmörkunum sem í samþykktinni greinir og í 4. gr. er kveðið á um skráningarskyldu allra katta í þéttbýli.

Samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Í 12. gr. framangreindrar samþykktar nr. 705/2010 um kattahald o.fl. er viðkomandi sveitarstjórnum veitt heimild til að innheimta skráningar- og eftirlitsgjöld í samræmi við gjaldskrá skv. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Í 3. mgr. segir að fram skuli koma í gjaldskránni hvað sé innifalið í skráningargjaldi vegna kattahalds og í 4. mgr. segir að gjaldið skuli greitt í fyrsta skipti við skráningu kattar og síðan árlega fyrirfram. Í 6. mgr. er loks áréttað að við ákvörðun gjalda skuli tekið mið af rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu og að gjöld megi aldrei vera hærri en sem honum nemi.

Seyðisfjarðarkaupstaður nýtti í fyrsta sinn heimild sína til innheimtu skráningargjalda katta með gjaldskrá nr. 375/2014, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 22. apríl 2014. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar skal innheimta árlegt leyfisgjald að fjárhæð 9.975 krónur á hvern kött. Er gjalddagi gjaldanna 15. apríl ár hvert en eindagi 30. sama mánaðar. Innifalið í leyfisgjaldi er ormahreinsun og trygging auk umsýslugjalds sveitarfélagsins. Svo sem áður er lýst hefur Seyðisfjarðarkaupstaður lagt fram sundurliðað kostnaðar- og tekjuyfirlit sveitarfélagsins vegna hunda- og kattahalds fyrir árið 2014. Er ljóst af þeim gögnum að álögð gjöld vegna kattahalds eru lægri en kostnaður af veittri þjónustu og umsýslu kaupstaðarins henni tengdri. Telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðu ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á álagningu leyfisgjalds fyrir kött hans vegna ársins 2014.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

75/2010 Þykkvibær

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 75/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. nóvember 2010 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. desember 2010, er barst nefndinni 9. s.m., kærir L, Fjarðarási 5, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 27. október 2010 að synja um endurauglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. nóvember 2010 um að synja nefndri deiliskipulagstillögu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stjórnvöld í Reykjavík að endurauglýsa umrædda tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss, en til vara að lagt verði fyrir stjórnvöld í Reykjavík að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg  29. nóvember 2011 og 21. maí 2015.

Málavextir: Forsögu máls þessa má rekja aftur til ársins 1958 þegar faðir kæranda keypti sumarhús að Árbæjarbletti 62, sem síðar varð Þykkvibær 21. Lóðin var þá í erfðafestu samkvæmt samningi frá 20. febrúar 1941. Húsið var síðar stækkað og því breytt í samræmi við teikningar sem samþykktar voru í maí 1963. Hinn 27. júlí s.á. gaf borgarstjórinn í Reykjavík út svohljóðandi yfirlýsingu samkvæmt ályktun borgarráðs frá 23. s.m.: „Í tilefni af fyrirhugaðri lántöku [föður kæranda], erfðafestuhafa Árbæjarbletts 62, en lánið verður tryggt með veði í húseign á nefndu erfðafestulandi, er hér með gefið fyrirheit um, að lánveitandi bíði ekki tjón vegna skipulagsaðgerða borgarinnar, á næstu 15 árum frá dagsetningu þessarar yfirlýsingar. Húseignin stendur á landssvæði, sem verið er að skipuleggja og tekið verður úr erfðafestu á næstunni. Þegar að því kemur, er gert ráð fyrir, að hæfileg leigulóð verði látin með húsinu.“

Með yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík, dags. 26. október 1963, var föður kæranda tilkynnt að Árbæjarblettur 62 væri tekinn úr erfðafestu og að endurgjald greiddist samkvæmt erfðafestusamningnum. Jafnframt sagði að borgarráð gerði ráð fyrir að hverjum erfðafestuhafa yrði gefinn kostur á einni byggingarlóð.

Faðir kæranda bjó í húsinu allt til ársins 2003 þegar kærandi eignaðist það við fyrirframgreiðslu arfs. Á árinu 2003 lét kærandi kanna stöðu Árbæjarbletts 62 í skipulagi Reykjavíkurborgar og óskaði eftir upplýsingum um hvort gengið hefði verið formlega frá úthlutun lóðarinnar til föður hans á sínum tíma. Í ljós kom að svo var ekki og var upplýst að ekki hefði verið gert ráð fyrir afmarkaðri lóð fyrir húsið í deiliskipulagi Árbæjar – Seláss frá 1966. Í kjölfarið var lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tillaga um að afmarka lóð undir hús kæranda en tillögunni var synjað á fundi nefndarinnar hinn 6. september 2004. Kærandi höfðaði þá dómsmál á hendur Reykjavíkurborg og krafðist þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar yrði felld úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2005 var fallist á að kærandi, sem tekið hefði við réttindum og skyldum fyrri eiganda við eigendaskiptin, hefði unnið afnotahefð af skikanum í kringum húsið. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar felld úr gildi með vísan til þess að hún hefði verið grundvölluð á þeirri ólögmætu forsendu að kærandi ætti ekki afnotarétt til umrædds skika umfram það sem leiddi af erfðafestusamningnum frá 1941. Í rökstuðningi dómsins kemur meðal annars fram að ekki sé fallist á að í yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík frá 26. október 1963 hafi falist skuldbindandi yfirlýsing um að stefnandi fengi úthlutað lóð umhverfis hús sitt.

Að dóminum gengnum fór lögmaður kæranda þess á leit við Reykjavíkurborg að afmörkuð yrði hæfileg lóð undir hús kæranda. Á fundi skipulagsráðs 25. janúar 2006 var tillaga þar að lútandi rædd og afgreidd með svohljóðandi bókun: „Tillaga skipulagsfulltrúa að afmörkun lóðar samþykkt með vísan í d. lið 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð. Málinu vísað til skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs til frágangs á lóðarleigusamningi. Ráðið felur skipulagsfulltrúa að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjarhverfis vegna lóðarinnar.“

Drög að tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ voru útbúin og lögð fyrir embættisafgreiðslufund skipulagsfulltrúa hinn 17. febrúar 2006. Málinu var frestað og hverfisarkitekt falið að kynna tillöguna fyrir eiganda hússins að Þykkvabæ 21. Á fundi hinn 24. mars s.á. samþykkti skipulagsfulltrúi að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Þykkvabæ 1-20 og Vorsabæ 20. Grenndarkynning fór fram frá 30. mars til 27. apríl 2006 og bárust skipulagsfulltrúa nokkur bréf með athugasemdum frá nágrönnum auk lista með undirskriftum 127 eigenda og íbúa í Árbæ sem mótmæltu deiliskipulagsbreytingunni.

Tillagan var tekin fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 28. apríl 2006 og afgreiðslu hennar frestað, en athugasemdum við grenndarkynningu vísað til umsagnar hverfisarkitekts ásamt lögfræði og stjórnsýslu. Þá var fyrirspurn um beitingu eignarnámsheimilda vísað til umsagnar lögfræðiskrifstofu Reykjavíkurborgar. Umsögn lögfræðiskrifstofunnar um beitingu eignarnámsheimilda, dags. 12. september 2006, var lögð fyrir skipulagsfulltrúa á embættisafgreiðslufundi hinn 22. s.m. og málinu vísað til skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 27. s.m. Með vísan til umsagnar lögfræðiskrifstofu Reykjavíkurborgar vísaði skipulagsráð málinu til borgarráðs til ákvörðunar um frekari samningsviðræður við lóðarhafa Árbæjarbletts 62 vegna mögulegra kaupa Reykjavíkurborgar á lóðinni. Borgarráð veitti samþykki sitt á fundi hinn 5. október 2006. 

Viðræður milli aðila um hugsanleg kaup Reykjavíkurborgar á fasteign kæranda báru ekki árangur. Með bréfi, dags. 5. desember 2007, áréttaði kærandi kröfu sína um að afmörkuð yrði lóð í kringum hús hans. Tillaga um breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss var tekin fyrir á nokkrum fundum hjá skipulagsfulltrúa og skipulagsráði frá 25. janúar 2008 til 6. október 2010 og var þá meðal annars aflað umsagnar framkvæmda- og eignaráðs Reykjavíkurborgar, auk nýrrar umsagnar lögfræði og stjórnsýslu, dags. 4. október 2010.

Málið var að endingu tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 27. október 2010. Voru þá lögð fram  ný drög að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ, dags. 16. febrúar 2006. Skipulagsráð afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Synjað með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.“ Borgarráð staðfesti synjunina hinn 4. nóvember 2010.

Málsrök kæranda: Kærandi telur lögmætar væntingar og rétt sinn standa til þess að Reykjavíkurborg gangi frá afmörkun lóðarinnar Þykkvabæjar 21 í samræmi við þá tillögu til breytingar á deiliskipulagi sem grenndarkynnt hafi verið á sínum tíma.

Þótt skipulagsvald sé að stofni til á hendi sveitarfélaga geti sveitarfélög ekki beitt því valdi eins og þeim sýnist óháð öllum aðstæðum, atvikum og þeim væntingum sem aðilar megi löglega gera til réttinda sinna í þeim efnum. Hús kæranda hafi verið byggt árið 1963 og hverfið hafi byggst upp í kringum það. Gatnakerfi, lagnir, göngustígar og allar framkvæmdir á þessum stað hafi tekið mið af húsinu. Þegar deiliskipulag hafi verið unnið fyrir hverfið á sínum tíma hafi lóð undir hús kæranda ekki verið mörkuð á skipulagsuppdrætti. Krafa kæranda hafi frá upphafi verið sú að gert yrði ráð fyrir lóð undir húsið í skipulaginu og það þannig fært að þeim skipulagslega veruleika sem ávallt hafi verið fyrir hendi. Engar aðrar breytingar þurfi að gera.

Í yfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík, dags. 27. júlí 1963, hafi falist bindandi loforð um að kærandi skyldi fá úthlutað hæfilegri leigulóð með húsi sínu þar sem það standi. Þetta loforð hafi verið efnt í verki í áratugi eftir þetta með því að húsið hafi staðið afgirt á sínum stað athugasemdalaust, á það hafi verið lagðir skattar og skyldur eins og um leigulóð væri að ræða og eignarinnar hafi verið getið í skattframtölum og öðrum opinberum gögnum alla tíð.

Eftir að dómur héraðsdóms gekk þann 13. desember 2005 hafi verið unnin tillaga að breyttu deiliskipulagi og hafi borgaryfirvöldum verið óheimilt að taka hana úr því lögbundna ferli sem hún hafi verið í með hinni kærðu ákvörðun. Samþykkt hafi verið á árinu 2006 að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi. Samkvæmt 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri, þegar frestur til athugasemda sé liðinn, að fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umsögn skipulagsnefndar. Þar skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Þetta hafi ekki verið gert. Athugasemdirnar sem borist hafi við grenndarkynninguna hafi ekki verið þess eðlis að þær kæmu í veg fyrir að tillagan yrði samþykkt. Þótt vera kunni að vegna seinagangs borgarinnar við meðferð málsins hefði verið rétt að grenndarkynna tillöguna aftur hafi Reykjavíkurborg ekki mátt binda enda á það lögbundna ferli sem málið hafi verið í og svipta kæranda þannig rétti sínum til löglegrar málsmeðferðar.

Þá hafi hin kærða ákvörðun brotið gegn jafnræðis- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttar, sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telji sig eiga að fá notið sambærilegra lögréttinda um eign sína og gildi um aðrar eignir í hverfinu. Engar forsendur standi til þess að synja kæranda um að hús hans og tilheyrandi lóð verið dregin inn á skipulagsuppdráttinn þar sem húsið hafi fengið sömu meðferð og hús í nágrenninu varðandi alla uppbyggingu hverfisins í áratugi. Þá brjóti hin kærða synjun gegn meðalhófsreglu þar sem enga nauðsyn hafi borið til að synja beiðni kæranda um afmörkun lóðar sem þegar hafi verið fyrir hendi um langt skeið.

Að lokum sé bent á að málsmeðferð Reykjavíkurborgar feli í sér brot á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga, rannsóknarreglu 10. gr. laganna og reglu 13. gr. þeirra um andmælarétt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vekur athygli á því að misskilnings gæti hjá kæranda varðandi afgreiðslu skipulagsráðs í málinu þar sem kærð hafi verið synjun skipulagsráðs um endurauglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar að Þykkvabæ 21. Hið rétta sé að skipulagsráð hafi synjað tillögunni sjálfri og hafi sú ákvörðun verið staðfest í borgarráði. Tillagan hafi aldrei verið auglýst heldur hafi hún verið grenndarkynnt. Textinn „að lokinni auglýsingu“ hafi hins vegar ratað inn í málaskrá borgarinnar en þar sé um hreina villu að ræða, þar hafi átt að standa „að lokinni grenndarkynningu“. Þó sé augljóst af gögnum málsins að skipulagsráð hafi synjað tillögunni sjálfri. Vegna þessa galla á málatilbúnaði kæranda beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Fallist nefndin ekki á frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar í málinu sé farið fram á að afgreiðsla skipulagsráðs verði staðfest. Byggt sé á því að synjun skipulagsráðs hafi verið lögleg og eðlileg í ljósi allra málavaxta. Rétt sé að málið hafi tekið langan tíma, en það hafi meðal annars verið vegna málaferla sem hafi lokið í desember 2005 og samningaumleitana milli kæranda og Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hafi ávallt reynt að finna einhverja meðalhófsleið til lausnar á málinu og reynt hafi verið að koma til móts við kæranda í kjölfar fyrrgreinds dóms. Hins vegar hafi borist margar athugasemdir úr hverfinu við grenndarkynningu á tillögu að deiliskipulagsbreytingu, sérstaklega varðandi það að útivistarsvæði yrði skert næði hún fram að ganga, og hafi skipulagsyfirvöld talið íbúana hafa talsvert til síns máls. Þá sé svæðið, sem húsið standi á, skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og þar sé aðallega gert ráð fyrir útivistariðkun og mannvirkjagerð í tengslum við hana. Einnig standi húsið nálægt Elliðaám, en öll hús sem staðsett hafi verið eins nálægt ánum og hús kæranda hafi verið látin víkja. Deiliskipulag svæðisins geri ekki ráð fyrir íbúðarbyggð þar sem húsið standi.

Í ljósi málavaxta hafi málinu verið frestað í því skyni að kanna hvort beita ætti eignarnámsheimildum skipulags- og byggingarlaga. Kærandi hafi jafnan verið upplýstur um ástæður tafa í málinu, þótt ekki hafi alltaf verið hægt að upplýsa um hvenær ákvörðunar væri að vænta.

Ljóst sé að um ómöguleika sé að ræða í málinu en skipulagstillagan hafi vart verið samþykkjanleg vegna þess langa tíma sem liðið hafi frá kynningu hennar í apríl 2006 og þar til hún hafi verið afgreidd í október 2010. Það hafi því verið mat Reykjavíkurborgar að ekki væri annað hægt en að ljúka málinu með synjun vegna þess hversu langur tími var liðinn frá upphafi málsins, ellegar hefja málsmeðferð að nýju. Í öllu falli sé þó ljóst að skipulagsyfirvöldum hefði verið heimilt að synja tillögunni með tilliti til þeirra athugasemda sem borist hafi, en ekki hafi verið talin nauðsyn á að taka formlega afstöðu til þeirra í ljósi þess langa tíma sem hefði liðið frá því að málið hafi verið tekið fyrir fyrst og þar til það hafi hlotið afgreiðslu. Ekki sé fallist á það með kæranda að reglur um andmælarétt hafi verið brotnar. Öll gögn málsins hafi legið fyrir og því hafi ekki verið skylt að kynna kæranda ákvörðun skipulagsráðs áður en hún hafi verið tekin. Að lokum sé á það bent að í undirbúningi sé að hefja nýja málsmeðferð að loknu kærumáli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. nóvember 2010 að synja um breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ.

Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, sbr. þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ákvarðanir, svo sem um að leggja fyrir stjórnvöld í Reykjavík að endurauglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss, eða að taka mál kæranda til meðferðar að nýju, falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til krafna kæranda þar að lútandi.

Eins og að framan er rakið var tillaga skipulagsfulltrúa að afmörkun lóðar að Þykkvabæ 21 samþykkt í skipulagsráði hinn 25. janúar 2006 með vísan í d-lið 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð, en þar var ráðinu veitt heimild til að afgreiða, án staðfestingar borgarráðs, skiptingu jarða, landa, lóða og breytingar á landamerkjum, sbr. 30. gr. skipulags- og byggingarlaga. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að ákvörðun þessi haldi enn gildi sínu. Í henni fólst bindandi yfirlýsing gagnvart kæranda sem ekki varð efnd öðruvísi en með breytingu á gildandi deiliskipulagi, sbr. m.a. 2. mgr. greinar 3.1.4 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Hin kærða ákvörðun um að synja um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Þykkvabæ 21 var rökstudd með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu, dags. 4. október 2010. Í umsögninni kom fram að of langur tími hefði liðið frá kynningu til að unnt væri að samþykkja tillöguna án þess að kynna hana á ný. Ef vilji skipulagsráðs stæði til þess að samþykkja hana væri mælt með að hún yrði kynnt á ný og að bréf yrðu send til þeirra aðila sem áður gerðu athugasemdir við tillöguna. Að öðrum kosti gæti skipulagsráð ákveðið að synja tillögunni og vísa þeirri afgreiðslu til staðfestingar borgarráðs. Í framhaldinu myndi skipulagsráð óska eftir því við borgarráð að málinu yrði vísað til skrifstofu borgarlögmanns til þess að unnt væri að hefja eignarnámsferli.

Með vísan til þessara forsendna verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi falið í sér ákvörðun um að hverfa frá áætlunum um að gera þær breytingar á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss sem nauðsynlegar voru til þess að marka lóð undir hús kæranda. Ákvörðunin fól því í raun í sér afturköllun á fyrri ákvörðun skipulagsráðs frá 25. janúar 2006 um stofnun lóðarinnar.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Verður ekki séð að skilyrði afturköllunar hafi verið fyrir hendi í þessu tilviki. Af þeim sökum ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. nóvember 2010 að synja um breytingu á deiliskipulagi Árbæjar – Seláss vegna lóðarinnar nr. 21 við Þykkvabæ.

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

Sérálit Ómars Stefánssonar varaformanns: Ég er ósammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.

Í greinargerð borgaryfirvalda er tekið fram að ný málsmeðferð sé fyrirhuguð að fenginni niðurstöðu í kærumáli þessu, en ekki liggur fyrir í hverju sú málsmeðferð muni felast. Hin kærða ákvörðun var rökstudd með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu, dags. 4. október 2010, þar sem kom fram að of langur tími hefði liðið frá kynningu til að unnt væri að samþykkja tillöguna án þess að kynna hana á ný. Að öðrum kosti gæti skipulagsráð ákveðið að synja tillögunni og vísa þeirri afgreiðslu til staðfestingar borgarráðs. Í framhaldinu myndi skipulagsráð óska eftir því við borgarráð að málinu yrði vísað til skrifstofu borgarlögmanns til þess að unnt væri að hefja eignarnámsferli.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki skotið til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Í ljósi þess rökstuðnings, sem bjó að baki synjun á umræddri tillögu til breytingar á deiliskipulagi, verður hún ekki talin fela í sér lokaákvörðun, í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis, um erindi kæranda um afmörkun lóðar undir hús hans, en fyrir liggur að tillaga þar að lútandi var samþykkt í skipulagsráði hinn 25. janúar 2006. Því er það mitt álit að máli þessu beri að vísa frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

59/2010 Hvammar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 59/2010, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 14. júlí 2010 um breytingu á deiliskipulagi Reykjanesbrautar, frá Fjarðarhrauni að Ásbraut, svæði ÓB 5 í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. september 2010, er barst nefndinni 21. s.m., kæra J og B, f.h. eigenda lögbýlisins og jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 14. júlí 2010 um breytingu á mörkum deiliskipulags Reykjanesbrautar, frá Fjarðarhrauni að Ásbraut, svæði ÓB 5 í Hafnarfirði. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. ágúst 2010.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. október 2010, er barst nefndinni sama dag, kæra fyrrgreindir kærendur, f.h. eigenda lögbýlisins og jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar um að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Bæjarstjórn samþykkti greinda deiliskipulagsbreytingu hinn 10. nóvember 2010 og var gildistaka hennar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2011.

Loks skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar, f.h. eigenda nefnds lögbýlis, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 20. apríl 2010 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Hvamma í Hafnarfirði, er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. október 2010.  

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu skipulagsákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi Reykjanesbrautar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan það mál sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hin kærða skipulagsákvörðun felur ekki í sér sjálfstæðar heimildir til að hefja framkvæmdir á svæðinu var ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar á grundvelli þágildandi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. nr. 73/1997. Málatilbúnaður kærenda í greindum kærumálum er á sömu lund og þykir því rétt að sameina kærumálin vegna breytingar á deiliskipulagi Sléttuhlíðar, sem er mál nr. 62/2010 og vegna breytingar á deiliskipulagi Hvamma, sem er mál nr. 63/2010, kærumáli þessu. 

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.
 
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 11. maí 2010 var lögð fram tillaga skipulags- og byggingarsviðs að breyttum mörkum deiliskipulags Reykjanesbrautar frá árinu 2008. Var fært til bókar að breytingin væri til „samræmingar“ við endurskoðað deiliskipulag Hvamma. Fólst breytingin í því að svæði, merkt ÓB 5, við Háahvamm og Stekkjarhvamm, sem tilheyrði deiliskipulagi Reykjanesbrautar, var fært undir deiliskipulag Hvamma. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi hinn 14. júlí 2010 og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. ágúst s.á.

Hinn 31. mars 2010 staðfesti umhverfisráðherra breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 er laut að frístundabyggð á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl s.á. Orðalagi í kafla 2.2.1 um frístundabyggð var breytt og m.a. gert ráð fyrir að byggðinni yrði viðhaldið og hún fest í sessi, þjónusta veitna aukin, öryggi akvega bætt og að akandi, gangandi og hjólandi umferð yrði aðskilin. Þá var kveðið á um að byggingar sem rísa myndu á svæðinu yrðu í anda þeirra sem fyrir væru. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis var síðan á dagskrá fundar skipulags- og byggingarráðs 24. ágúst s.á. Kom þar fram að um væri að ræða leiðréttingu á orðalagi til samræmis við fyrrnefnda aðalskipulagsbreytingu og var samþykkt að auglýsa hana til kynningar. Fól breytingin í sér að geymsla, vinnustofa eða gestahús mættu ekki vera tengd frístundahúsi með þaki eða vegg. Hámark mænishæðar frístundahúsa var ákveðið 5,5 m í stað 6,0 m miðað við gólfkóta og hámarksvegghæð langhliða 2,8 m. Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna hinn 10. nóvember s.á. og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2011.

Að lokinni forstigskynningu tók bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir á fundi sínum hinn 5. maí 2010 drög skipulags- og byggingarsviðs að endurgerðu deiliskipulagi fyrir Hvamma. Kom þar fram að tilefni skipulagstillögunnar væri það að ekki hefði verið byggt í samræmi við gildandi deiliskipulag frá árinu 1976 og yrði það skipulag fellt úr gildi með gildistöku nýs skipulags. Lagðar voru fram athugasemdir sem borist höfðu eftir forstigskynningarfund sem haldinn var hinn 12. apríl 2010 og breytt tillaga, dags. 20. s.m., þar sem brugðist var við athugasemdum. Skipulags- og byggingarráð samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að hin breytta tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvamma yrði auglýst til kynningar. Engar athugasemdir bárust vegna hinnar kynntu tillögu. Í kjölfar þess samþykkti skipulags- og bygggingarfulltrúi skipulagstillöguna hinn  23. júní 2010 og lauk afgreiðslu málsins skv. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. Endurskoðað deiliskipulag fyrir Hvamma tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. október 2010. Samkvæmt gildistökuauglýsingu skipulagsins sé það lagað að byggingum sem fyrir séu á svæðinu, auknar byggingarheimildir veittar á sumum lóðum og þrjú deiliskipulagssvæði sameinuð í eitt.

Af hálfu kærenda er á því byggt að svæði það sem hinar kærðu deiliskipulagsákvarðanir taki til fari að hluta til inn á þinglýsta beitarréttareign jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, sem sé í þeirra eigu. Með ákvörðununum sé stefnt að því að afhenda beitarréttarlóðina með byggingar- eða framkvæmdaleyfi til annarra aðila án samþykkis sameigenda á lóðinni. Sveitarfélagið sé þannig að útiloka eigendur jarðarinnar Selskarðs frá því að nýta eign sína og um leið að gera öðrum mögulegt að hafa ávinning af henni. Farið sé fram á að úrskurðarnefndin sjái til þess að sveitarfélagið fari að lögum við skipulag og sérstaklega framkvæmd þess hvað viðvíki ákvörðunum um byggingar og nýtingu á svæði því þar sem jörðinni Selskarði fylgi beitarréttur. Með hinum kærðu ákvörðunum sé í raun verið að breyta eignarrétti á umræddu svæði án nokkurrar samvinnu eða samráðs við löglega eigendur nýtingarréttar innan þess. Kærendur bendi á, í ljósi fyrri afgreiðslna úrskurðarnefndarinnar á málum er snerti umrædd réttindi þeirra, að þeir láti sér í léttu rúmi liggja „… hvað mikið er teiknað og skipulagt með pennastrikum á eigninni. Það er væntanleg framkvæmd á eigninni, samkvæmt skipulagi, sem skiptir máli og sem við erum að kæra og í sjálfu sér skiptir það því ekki máli hvenær pennastrikin voru sett á blað“.

     ———-

Hafnarfjarðarkaupstað var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna  kærumáls þessa en umsögn þar að lútandi hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.  

Niðurstaða: Hinar kærðu deiliskipulagsákvarðanir fólu í sér breytingar á mörkum skipulagssvæða, skilmálabreytingar um frístundahúsabyggð, sem fyrir er, og endurgerð skipulags á þegar byggðu íbúðarsvæði. Byggja kærendur málatilbúnað sinn á því að með umdeildum ákvörðunum sé gengið á beitarrétt sem nái til hluta skipulagssvæðanna og tilheyri jörð þeirra Selskarði í landi Garðabæjar.

Með deiliskipulagi er tekin ákvörðun um heimilaða tilhögun byggðar og annarra mannvirkja á skipulagssvæðinu í samræmi við landnotkun gildandi aðalskipulags, en það felur ekki í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Slík réttindi geta eftir atvikum hindrað framgang skipulagsins nema með samkomulagi við rétthafa eða að undangengnu eignarnámi, sbr. 33. og 34. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá verður ekki ráðist í einstakar        leyfisskyldar framkvæmdir á grundvelli deiliskipulags nema að fengnu framkvæmda- eða byggingarleyfi samkvæmt 27., 43. og 44. gr. laganna. Ákvörðun um slíka leyfisveitingu er stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina að lagaskilyrðum uppfylltum.    Verður því ekki tekin afstaða til framkvæmda sem kann að verða ráðist í á grundvelli hinna kærðu deiliskipulagsákvarðana.    

Í gildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 segir í kafla 2.2.13, landbúnaðarsvæði, að ekki séu afmörkuð nein svæði fyrir landbúnað í Hafnarfirði nema í Krýsuvík. Samkvæmt lögbýlaskrá Þjóðskrár Íslands er lögbýlið Selskarð í Garðabæ eyðibýli og í gildandi aðalskipulagi Garðabæjar er lögbýlið ekki á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Deiliskipulagssvæði þau sem hér eru til umfjöllunar höfðu þegar verið skipulögð við töku hinna kærðu ákvarðana og ekki er gerð breyting á landnotkun skipulagssvæðanna, sem ákveðin er í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Hefur lögmæti eldra deiliskipulags umræddra svæða ekki verið borið undir úrskurðarnefndina og getur það hér eftir ekki komið til endurskoðunar af hálfu nefndarinnar þar sem frestir til kæru eða endurupptöku eru löngu liðnir. 

Samkvæmt framansögðu geta hinar kærðu ákvarðanir engin áhrif haft á ætlaðan rétt kærenda, umfram það sem þegar er orðið og felst í fyrri ákvörðunum um skipulag á umræddu svæði.  Verða þeir af þeim sökum ekki taldir eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, svo sem áskilið var í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sem hér á við. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

75/2009 Hnúksnes

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2009, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar frá 27. október 2009 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni 9. nóvember 2009, kæra S þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar frá 27. október 2009 að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi. Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti þá afgreiðslu 19. nóvember s.á. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Dalabyggð 26. nóvember 2009.

Málavextir: Kærendur eru eigendur jarðarinnar Hnúks í Dalabyggð, en Hnúksnes ehf. er leigutaki hluta jarðarinnar, svokallaðs Hnúksness. Með leigusamningi, dags. 15. október 1967, var lóð leigð á erfðafestu undir verslunarhús, sláturhús, frystihús og fleira í landi jarðarinnar Hnúks. Samkvæmt samningnum markaðist lóðin af línu dreginni samsíða vesturgafli frystihúss í eins metra fjarlægð frá gaflinum og skyldi línan ná til sjávar. Lína þessi skyldi falla hornrétt á suðurmörk lóðarinnar í eins metra fjarlægð frá suðurhlið frystihússins. Lengd suðurhliðar lóðarinnar skyldi vera 50 m. Þaðan skyldi vera dregin hornrétt lína í norður til sjávar og skyldi sú hlið lóðarinnar vera 30 m. Þar með yrði öll lóðin 1.500 m². Með afsali, dags. 26. febrúar 1972, keypti Hnúksnes ehf., leyfishafi hins kærða leyfis, af þáverandi leigutaka, sláturhús með verslunarhúsnæði, frystihús með rafstöð og kælivélum, bryggju og vatnsveitu svo og lóðarréttindi í landi jarðarinnar Hnúks. Annar kærenda keypti svo helming jarðarinnar Hnúk af Fellsstrandarhreppi, nú Dalabyggð, með afsali, dags. 10. júlí 1989 en eignaðist hana að fullu með kaupsamningi og afsali 27. júní 1994. Í framangreindu afsali frá árinu 1989 er kveðið á um að Fellsstrandarhreppur skuli hafa ótakmörkuð afnot af landskika í Hnúksnesi umhverfis núverandi byggingar og önnur mannvirki við bryggjuna. Afmarkist skikinn annars vegar af sjó og hins vegar af vegi þeim er liggi að bryggjunni frá botni vogsins.

Á fundi byggingarráðs Dalabyggðar 4. júlí 2007 var leigutaka Hnúksness veitt framkvæmdaleyfi fyrir flotbryggju. Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 21. janúar 2009 var kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar hafnað. Í kjölfar úrskurðarins barst úrskurðanefndinni beiðni um endurupptöku frá kærendum þar sem vísað var til þess að málið hefði ekki verið nægilega upplýst en samkvæmt framkvæmdaleyfinu hafði umdeildri flotbryggju verið ætlaður staður við gamla bryggju sem staðsett væri í landi kærenda. Úrskurðarnefndin tók hins vegar ekki afstöðu til endurupptökubeiðninnar á þeirri forsendu að framkvæmdaleyfið hefði fallið úr gildi sumarið 2009 vegna þess að framkvæmdir hefðu ekki hafist innan lögmælts tveggja ára frests frá leyfisveitingu.

Stjórn Hnúksness ehf. lagði inn nýja umsókn um leyfi til að byggja flotbryggju við Hnúksnes ásamt uppdrætti af leigulóðinni, sem sýnir staðsetningu greindrar flotbryggju um 10 m austan við gömlu bryggjuna. Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar 15. september 2009. Var þar ákveðið að kynna framkvæmdina fyrir kærendum og sendu þeir í kjölfarið inn mótmæli vegna hennar. Umsóknin var síðan tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 27. október 2009 og kom fram í bókun þess fundar: „Frá því að úrskurður nefndarinnar gekk hefur í sjálfu sér ekkert breyst. Fallið hefur dómur í Hæstarétti um að umsækjandi er með lóð í Hnúksnesi á leigu og í afsali, dags. 10. júlí 1989 þegar Fellsstrandarhreppur seldi jarðirnar Hnúk I og II kemur fram að seljandi hafi „ótakmörkuð afnot af landskika í Hnúksnesi, umhverfis núverandi byggingar og önnur mannvirki við bryggjuna. Afmarkast skikinn annars vegar af sjó og hins vegar af vegi þeim er nú liggur að bryggjunni, frá botni vogsins.““ Ákveðið var að samþykkja umsóknina enda þætti ljóst að umsækjandi og Dalabyggð hefðu fullan afnotarétt af því landi þar sem flotbryggjan ætti að koma.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að uppdráttur, dags. 16. september 2009, sem hafi fylgt umsókn fyrir framkvæmdaleyfi sé gerður á grunni loftmyndar en uppdrátturinn sé rangur varðandi mörk leigulandsins. Ætlun framkvæmdaleyfishafa sé að byggja flotbryggjuna langt út fyrir umráðasvæði það sem hann hafi haft til afnota á grundvelli leigusamnings frá 15. október 1967, sem „nær aðeins til sjávar á þeirri hlið (vesturhlið), sem umræddri flotbryggju er ætlað að standa á“.

Umsóknin um framkvæmdaleyfið hafi verið mjög takmörkuð og henni hafi ekki fylgt nauðsynleg gögn er veitt gætu fullnægjandi upplýsingar um framkvæmdina, s.s. stærðarhlutföll, hæð mannvirkis eða úr hvaða efnum smíðin væri fyrirhuguð. Þá hafi ekki fylgt smíðateikningar, verkfræðiteikningar eða upplýsingar um styrkleika mannvirkisins, m.a. með sérstöku tilliti til aðstæðna, s.s. lagnaíss. Gögnin séu nauðsynleg til að gera sér grein fyrir framkvæmdinni og umfangi hennar.

Því hafi verið haldið fram að Dalabyggð hefði ótakmörkuð afnot af landskika í Hnúksnesi en ekki hafi verið vikið að því að afnotarétti sem heimilaður hafi verið með afsali frá árinu 1989 hefði verið sagt upp af hálfu landeigenda með símskeyti, dags. 1. september 2003, sem þinglýst hafi verið 9. s.m. Dalabyggð hafi hvorki á gildistíma afnotaréttarins né síðar haft nokkra heimild til að framselja meintan afnotarétt sinn á þann hátt sem hér hafi verið gert með því að heimila þriðja aðila notkun og mannvirkjagerð utan leigulóðar á landi kærenda. Eðli máls samkvæmt hafi slík heimild til framsals ekki verið innifalin í þeirri ,,ótakmörkuðu notkun“ til handa Fellsstrandarhreppi, nú Dalabyggð, sem leyfð hafi verið á sínum tíma og hafi gilt frá árinu 1989 til 2003. Því síður hafi hin „ótakmarkaða notkun“ náð til mannvirkjagerðar af þeim toga sem hér sé fyrirhuguð og sem raska muni landi kærenda og breyta ásýnd þess án þess að þeir fái nokkru um það ráðið. Hið sama telji kærendur gilda um fyrirhugaða framkvæmd á leigulandi umsækjanda, þ.e. að mannvirkjagerð og röskun landsins sé óheimil á grundvelli framkvæmdaleyfis skv. 4. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Bygging nefndrar flotbryggju sé byggingarleyfisskyld skv. 2. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga og ekki dugi að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir henni enda sé um að ræða nýframkvæmd sem fullnægja þurfi skilyrðum laganna. Því þurfi m.a. að liggja fyrir hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð í Hnúksnesi sé í samræmi við gildandi skipulag fyrir viðkomandi sveitarfélag. Umrædd framkvæmd sé einkaframkvæmd unnin á vegum einkahlutafélagsins Hnúksness og teljist því ekki opinber framkvæmd. Um það hvort framkvæmd sé byggingarleyfisskyld sé vísað til 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga um úrskurðarvald um það atriði.

—————————-

Dalabyggð og leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af kærumáli þessu en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af þeirra hálfu.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um leyfi fyrir flotbryggju og snýst ágreiningurinn einkum um hvort flotbryggjan sé staðsett innan eða utan lands í eigu og umráðum kærenda og þá hvort slík framkvæmd sé háð samþykki þeirra. Samkvæmt fyrirliggjandi loftmynd er um að ræða 12×3 m flotbryggju sem tengjast skal landi með 24 m langri landgöngubrú sem mun koma til með að standa um 10 m austan við bryggju þá sem fyrir er á staðnum, að hluta utan við lóð leyfishafa, svo sem hún er sýnd á loftmyndinni.

Aðalskipulag Dalabyggðar 2004-2016 var staðfest af ráðherra 24. ágúst 2009 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. september s.á. Í kafla 3.2.5. um hafnarsvæði í greinargerð aðalskipulagsins er kveðið á um að við Hnúksnes sé smábátaaðstaða sem hafi verið í umsjón hlutafélagsins Hnúksness ehf. og styrkt af ríkissjóði. Segir þar jafnframt að aðstaðan sé mikilvæg vegna siglinga við Hvammsfjörð og Breiðafjörð. Var umdeilt leyfi fyrir flotbryggjunni því í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins.

Í 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, var kveðið á um að afla skyldi framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem háðar voru byggingarleyfi skv. IV. kafla laganna voru þó undanþegnar framkvæmdaleyfi. Samkvæmt 36. gr. laganna og 11. gr., sbr. gr. 2.2 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, var meginreglan sú að hvers konar byggingar og önnur mannvirki væru byggingarleyfisskyld.

Í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er kveðið á um gögn sem fylgja skulu framkvæmdaleyfisumsókn. Er þar um að ræða yfirlitsuppdrátt í tilteknum mælikvarða þar sem koma skulu fram mörk svæðis, tenging þess við samgöngur, hæðarlínur og mannvirki sem fyrir eru á svæðinu auk upplýsinga um fyrirhugaðar framkvæmdir eftir því sem við getur átt. Þá þurfa að liggja fyrir gögn þar sem fram komi lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum. Þá er fjallað um fylgigögn með byggingarleyfisumsókn í 12. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem m.a. er áskilið að umsókn fylgi aðaluppdrættir ásamt lýsingu á fyrirhuguðum framkvæmdum og efnisvali auk mæliblaðs er sýni afstöðu mannvirkis og hæðarlegu.

Að frátalinni áðurgreindri loftmynd liggja ekki fyrir nein gögn um hönnun eða gerð flotbryggjunnar, burðarþol eða frágang hennar og tengingu við land og verður ekki séð að þau hafi legið fyrir við veitingu hins kærða leyfis. Þá skortir á að fyrir hendi séu viðhlítandi gögn svo unnt sé að taka afstöðu til þess hvort um sé að ræða framkvæmd sem háð sé leyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga eða hvort afla þurfti byggingarleyfis samkvæmt nefndum lögum. Þá er uppi vafi um hvernig eignarréttindum er háttað á svæðinu og þar á meðal um það hvort fyrirhuguð staðsetning flotbryggjunnar fari inn á umráðasvæði kærenda, en spilda sú sem Dalabyggð hefur til afnota á svæðinu samkvæmt ákvæði í afsali, dags. 10. júlí 1989, er ekki sýnd á umræddri loftmynd.

Þegar litið er til þess sem að framan greinir verður að telja að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið nægjanlega gætt við meðferð málsins. Þykja þessir annmarkar þess eðlis að ógilda beri hina kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar frá 27. október 2009 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

98/2013 Íragerði

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2013, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. september 2013 um að leggja fyrir lóðarhafa Íragerðis 12A, Árborg, að fjarlægja eða færa smáhýsi á umræddri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2013, er barst nefndinni 14. s.m., kæra E, Íragerði 12A, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 18. september 2013 að leggja fyrir kærendur að fjarlægja eða færa smáhýsi á lóðinni að Íragerði 12A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 11. nóvember 2013 og í maí 2015.

Málavextir: Með bréfi, dags. 2. apríl 2013, var lóðarhafa Íragerðis 12A tilkynnt að byggingarfulltrúi Sveitarfélagins Árborgar hefði til meðferðar mál vegna smáhýsis sem reist hefði verið á umræddri lóð og væri innan við þrjá metra frá lóðamörkum. Ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa nágrannalóðar fyrir staðsetningu þess, svo sem áskilið væri í byggingarreglugerð, og hefði byggingarfulltrúi því til skoðunar hvort þess yrði krafist að lóðarhafinn fjarlægði smáhýsið. Kærendur komu á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 15. s.m., og tóku m.a. fram að þeir væru tilbúnir að færa smáhýsið ef gróðurhús á lóðinni að Íragerði 12 yrði jafnframt fært.

Í bréfi sveitarfélagsins til lóðarhafa Íragerðis 12A, dags. 18. september 2013, var tiltekið að leitt hefði verið í ljós að lóðirnar Íragerði 12 og 12A hefðu áður verið ein lóð er hefði nýlega verið skipt upp í tvær. Ljóst væri að smáhýsi á lóðinni Íragerði 12A hefði verið sett niður eftir skiptingu lóðarinnar. Væri áskilnaði 6. tl. g-liðar gr. 2.3.5.  í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um samþykki lóðarhafa nágrannalóðar fyrir staðsetningu þess ekki fullnægt. Væri því lagt fyrir eigendur Íragerðis 12A að fjarlægja eða færa smáhýsið innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins. Yrði ekki orðið við þessum tilmælum gæti byggingarfulltrúi látið fjarlægja það á kostnað lóðarhafa Íragerðis 12A, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, án frekari viðvarana. Þá var tekið fram að byggingarfulltrúi teldi að hann hefði ekki heimildir til að aðhafast frekar vegna gróðurhúss á lóðinni Íragerði 12.

Málsrök kærenda:
Kærendur taka fram að þeir hafi óskað eftir því að rétt lóðamörk lóðanna Íragerðis 12 og 12A yrðu ákveðin en þrjú ár hefði tekið að samþykkja þau vegna andstöðu eigenda Íragerðis 12. Hafi kærendur ekki gert athugasemd við staðsetningu gróðurhússins þar sem þeir hafi talið að friður væri kominn á við eigendur Íragerðis 12. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af þeirra hálfu þegar festingar fyrir smáhýsið hafi verið undirbúnar, en þá hafi annar eigandi Íragerðis 12 komið að máli við kærendur. Ekki verði séð að smáhýsið skerði útsýni né aðkomu nágranna og falli það útlitslega mjög vel að húsunum Íragerði 12 og 12A. Feli mismunandi afgreiðsla málanna í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið telur að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi ekki við í máli þessu, enda sé ekki um sambærileg deilumál að ræða. Smáhýsið og gróðurhúsið hafi verið sett niður á ólíkum tímum. Þar af leiðandi gildi um þau ólíkar reglur og því séu málin ólík. Smáhýsið hafi verið sett niður seint á árinu 2012 en gróðurhúsið fyrir um 18 árum. Þá hafi mörk lóðanna verið óljós þar til fyrripart árs 2012, þegar samkomulag hafi náðst með aðilum um lóðamörk, án þess að athugasemdir kæmu frá eigendum Íragerðis 12A um staðsetningu gróðurhússins. Umrætt smáhýsi sé nær mörkum lóðanna en heimilt sé þegar ekki liggi fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. ákvæði byggingarreglugerðar. Því hafi verið gripið til þessara aðgerða.

Athugasemdir lóðarhafa Íragerðis 12:
Lóðarhafi bendir á að það eigi ekki við rök að styðjast að tekið hafi þrjú ár að samþykkja lóðamörk vegna andstöðu þeirra. Þegar gróðurhúsið hafi verið reist hafi verið langt í næstu lóðamörk og hafi húsið því verið löglegt samkvæmt þáverandi og núverandi reglum. Þegar lóðirnar hafi verið skildar að hafi lóðamörkin verið sett nær gróðurhúsinu en þrjá metra og hafi það verið eigendum Íragerðis 12A í hag því við það hafi lóð þeirra stækkað. Gróðurhúsið sé úr eldtraustu efni og valdi ekki meiri eldhættu en gróður. Í því sé gler sem ætti ekki að trufla útsýni eða annað. Smáhýsið hafi hins vegar verið sett upp í heimildarleysi á viðbótarlóð sem kærendur hafi fengið og hafi áður verið hluti af bílastæði Íragerðis 12. Samþykkis lóðarhafa hafi ekki verið leitað þegar smáhýsið hafi verið reist og ekki hafi legið fyrir meint samþykki. Smáhýsið sem sé úr eldfimu efni hafi síðar verið flutt í heilu lagi á lóðina. Það standi alveg upp við girðingu, og þar með á lóðamörkum og beint fram undan inngangi í hús lóðarhafa Íragerðis 12.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð er fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er hlutverki hans við eftirlit með byggðu umhverfi lýst. Skal hann, t.a.m. ef ekki er gengið frá umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, grípa til viðeigandi aðgerða og úrræða í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og X. kafla laga um mannvirki.

Í máli þessu er deilt um smáhýsi á lóðinni að Íragerði 12A, sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er í um tveggja metra fjarlægð frá lóðamörkum. Ekki liggur fyrir samþykkt byggingarfulltrúa um byggingu þess, en smáhýsi eru ekki byggingarleyfisskyld séu ákvæði gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð uppfyllt. Meðal skilyrða fyrrgreinds ákvæðis er að fyrir liggi skriflegt samþykki lóðarhafa nágrannalóðar sé smáhýsi nær lóðamörkum en þrjá metra, sbr. 6. tl. g-liðar greinarinnar. Eins og fram hefur komið lá slíkt samþykki ekki fyrir og var byggingarfulltrúa þegar af þeirri ástæðu rétt að gera þá kröfu að smáhýsið yrði fjarlægt eða fært þannig að framangreint skilyrði ákvæðisins um fjarlægð frá lóðamörkum yrði uppfyllt. Þá verður ekki séð að önnur og vægari úrræði hafi verið tæk, eins og atvikum máls þessa er háttað.

Óumdeilt er að lóðirnar Íragerði 12 og 12A voru áður ein og óskipt lóð og var gróðurhús reist á þeirri lóð óskiptri. Lóðinni var síðan skipt á árinu 2012 og var hinu umdeilda smáhýsi komið fyrir á lóðinni nr. 12A síðar sama ár, en þá hafði byggingarreglugerð nr. 112/2012 tekið gildi. Ljóst er að atvik eru því ekki með þeim hætti að þau teljist sambærileg. Fól ákvörðunin því ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. september 2013 um að leggja fyrir lóðarhafa Íragerðis 12A, Árborg, að fjarlægja eða færa smáhýsi á lóðinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

90/2014 Hraunbær

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2014, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um að klæða fjöleignarhúsið Hraunbæ 102 B, C, D og E með báruálklæðningu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ingimar Ingimarsson hrl., f.h. Húsfélagsins að Hraunbæ 102 B, C, D og E, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. júlí 2014 á umsókn um að klæða fjöleignarhúsið með báruálklæðningu. Er þess krafist að synjunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. september 2014.

Málavextir: Hinn 1. júlí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn, dags. 21. maí s.á., um leyfi til að klæða með báruálklæðningu suðurhlið og austurgafl, framlengja þak yfir svalir á efstu hæð og endurnýja handrið á svölum fjöleignarhússins Hraunbæjar 102 B, C, D og E. Var umsókninni synjað og eftirfarandi bókað: „Samræmist ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu sem eru með sléttri áferð útveggja.“ Umsækjanda var tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 16. júlí 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að synjun byggingarfulltrúa byggi á því að umsótt breyting samræmist ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu sem séu með sléttri áferð útveggja. Húsið Hraunbær 102 B, C, D og E skeri sig úr frá öðrum húsum í grenndinni. Það sé stakt og götur liggi á alla vegu kringum húsið. Að auki sé jarðhæðin byggð sem atvinnuhúsnæði. Handan götunnar séu hús með ýmis konar klæðningu, m.a. grófu báruáli. Sé suðurgafl fjölbýlishússins að Hraunbæ 102 A að hluta klæddur með grófu bárustáli og sjáist slík klæðning einnig á eldri íbúðarblokkum í hverfinu.

Klæðning með smáum bárum líti út sem slétt þótt staðið sé býsna nálægt, t.d. við næstu íbúðarblokk. Endalausar steypuviðgerðir á húsum í Hraunbænum séu áberandi. Erfitt sé að skilja að hægt sé að meina húseigendum að verja hús sín með þeim efnum sem best séu talin á hverjum tíma.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að lög og reglur geri beinlínis ráð fyrir því hlutverki skipulags- og byggingaryfirvalda að leggja mat á m.a. fagurfræði bygginga. Segi t.a.m. í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að þau henti vel til fyrirhugaðra nota. Við ákvörðun á útliti þeirra, efnisvali, litavali og gerð skuli gæði byggingarlistar höfð að leiðarljósi. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið för við samþykkt byggingarfulltrúa í málinu eða að framkvæmdin sé þess eðlis að hún brjóti svo verulega á hagsmunum kæranda að það leiði til ógildingar. Sé því einnig mótmælt að reglur um málsmeðferð hafi verið brotnar. Málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn kæranda um leyfi til að klæða umrætt fjöleignarhús með báruálklæðningu, með þeim rökum að hinar umsóttu breytingar samræmdust ekki yfirbragði fjölbýlishúsa í hverfinu. 

Ákvarðanir um útlit mannvirkja og form eru teknar við gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en sveitarstjórn, eða eftir atvikum skipulagsnefnd, ber ábyrgð á gerð þess skv. 1. mgr. 38. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að breyta notkun mannvirkis, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 5. mgr. sömu greinar segir að varði breyting á mannvirki útlit þess og form skuli leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi sé veitt nema breyting sé óveruleg. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir um greinda málsgrein að í tilvikum þar sem um sé að ræða breytingu á útliti húss verði að teljast rökrétt að leita eftir samþykki skipulagsnefndar í ljósi eðlis slíkra breytinga. Þá segir í gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að samþykki skipulagsnefndar þurfi vegna breytinga á útliti eða formi mannvirkja áður en byggingarleyfi sé veitt sé breytingin ekki óveruleg og ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimili hana. Til að breyting geti talist óveruleg má hún ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulagið Árbær-Selás frá árinu 1966. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna skilmála á skipulagsuppdrætti er varða útlit húsa á svæðinu. Fyrir liggur að hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn hafði aðkomu að málsmeðferð hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar áður en til synjunar byggingarfulltrúa kom. Þá verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé byggð á markmiðum mannvirkjalaga sem felast aðallega í að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. mannvirkjalaga. Með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu byggingar- og skipulagsyfirvalda sem lög og reglur gera ráð fyrir, sem og eðli þeirrar framkvæmdar sem synjað var um leyfi fyrir, verður að telja að byggingarfulltrúa hafi borið að leita til skipulagsnefndar, hvort sem er til samþykktar eða synjunar umbeðinnar útlitsbreytingar.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um leyfi til að klæða fjöleignarhúsið Hraunbæ 102 B, C, D og E með báruálklæðningu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson