Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2015 Fiskeldi í Dýrafirði

Árið 2016, mánudaginn 21. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2015 um að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn í 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga, Bændahöllinni v/Hagatorg, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2015 að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn í 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að mat á umhverfisáhrifum fari fram.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. september 2015.

Málavextir: Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 19. desember 2012, tilkynnti Dýrfiskur hf. um þau áform sín að auka framleiðslu á regnbogasilungi eða laxi í Dýrafirði úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn á ári. Kom fram í tilkynningunni að fyrirtækið hygðist bæta við eldissvæðum þannig að þau yrðu þrjú, eldissvæði við Gemlufall og Mýrarfell kæmu til viðbótar eldissvæði við Haukadalsbót.

Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Siglingastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar kom fram það álit að upplýsingar skorti um nánar tilgreind atriði.  Í kjölfar frekari upplýsinga framkvæmdaraðila óskaði Skipulagsstofnun eftir frekari umsögn nefndra stofnana sem ítrekuðu fyrra álit sitt.  Í ljósi umsagna greindra stofnana tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun að hann teldi frekari rannsókna þörf, sérstaklega m.t.t. strauma og burðarþols. Stofnunin yrði upplýst um framgang mála. Skipulagsstofnun tilkynnti umsagnaraðilum um fyrirhugaða rannsókn og að ákvörðun stofnunarinnar yrði að vænta í framhaldi þess að uppfærð greinagerð framkvæmdaraðila bærist og viðeigandi aðilar hefðu gefið umsögn þar um.

Með bréfi, dags. 29. mars 2015, tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun að frekari gagnaöflun hefði farið fram og að viðbótargögn sýndu að burðarþol Dýrafjarðar væri mun meira en áður væri talið. Bréfinu fylgdi uppfærð greinargerð framkvæmdaraðila, dags. sama dag. Þar var enn gert ráð fyrir þremur eldissvæðum, þó með þeirri breytingu að gert væri ráð fyrir eldissvæði við Eyrarhlíð í stað þess við Mýrarfell sem áður hafði verið tilkynnt um. Í greinargerðinni var jafnframt greint frá niðurstöðum um burðarþolsmat Dýrafjarðar sem og rannsókn á botndýrum á  fyrirhuguðu eldissvæði við Eyrarhlíð. Niðurstöður líkanareikninga Hafrannsóknarstofnunar sýni fram á að Dýrafjörður sé ekki viðkvæmur fyrir lífrænu álagi m.t.t. súrefnisinnihalds sjávar og telji Hafrannsóknarstofnun að hægt sé að leyfa allt að 10.000 tonna eldi í firðinum. Gerð hafi verið rannsókn á botndýralífi á þremur stöðum á því svæði sem fyrirhugað sé sem nýtt eldissvæði við Eyrarhlíð.  Þar megi gera ráð fyrir því að fjölbreytni muni minnka á afmörkuðu svæði í nálægð við eldiskvíar, vegna uppsöfnunar næringarefna, en hvíld eldissvæða og tilfærsla kvíaþyrpinga innan eldissvæðisins muni draga úr neikvæðum áhrifum á botndýralífi á þessi svæði.
 
Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar með bréfum, dags. 11. júní 2015. Hvorki Ísfjarðarbær né Ferðamálastofa tóku afstöðu til þess hvort að mat á umhverfisáhrifum ætti að fara fram, en gerðu almennar athugasemdir er lutu að skipulagsvaldi sveitarfélaga og mikilvægi þess að taka tillit til hugsanlegrar framtíðaruppbyggingar í ferðaþjónustu á svæðinu. Fiskistofa taldi að ætluð framleiðsluaukning myndi ekki auka til muna hættuna vegna mögulegra slysasleppinga eða auka mikið hættu á sjúkdóms- eða sníkjudýratengdum vandamálum. Hafrannsóknastofnun taldi að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn frá núverandi leyfi skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun tók fram að ekki væri talin þörf á að fyrirhugað sjókvíaeldi færi í sérskylt umhverfismat, þ.e.a.s. um þá þætti sem snéru að sjúkdómum. Minjastofnun Íslands taldi að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, m.a. að teknu tilliti til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Í umsögn Samgöngustofu kom fram að framkvæmdin myndi ekki valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og skyldi því ekki háð umhverfismati. Umhverfisstofnun tók fram að ef heildarlífmassi yrði aldrei meiri en 10.000 tonn og með vöktun væri unnt að sannreyna mat á burðarþoli fjarðarins, væri umrædd framleiðsluaukning ekki talin líkleg til þess að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
   
Kærandi gerði athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 21. júní 2015. Var þess krafist að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, enda þyrfti að meta áhrif eldisins á þau verðmæti sem fælust í villtum laxa- og silungastofnum á Íslandi.
   
Hinn 8. júlí 2015 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framleiðsluaukning Dýrfisks hf. á regnbogasilungi eða laxi, úr 2.000 tonna ársframleiðslu í 4.000 tonna ársframleiðslu við Haukadalsbót, Gemlufall og Eyrarhlíð í Dýrafirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.  

Málsrök kæranda: Það er mat kæranda að niðurstaða Skipulagsstofnunar sé röng og ekki studd fullnægjandi rökum eða gögnum. Kærandi ítreki athugasemdir þær sem gerðar hafi verið við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun og bendi á að meta þurfi áhrif þess á villta stofna að leyfa eldi á frjóum norskum löxum í því magni sem um geti í umsókn framkvæmdaraðila. Við laxeldi á Íslandi sé notaður laxastofn af norskum uppruna sem fluttur hafi verið til landsins á 9. áratugnum. Erfðarannsóknir á genamengi laxa sem gerðar hafi verið hin síðari ár staðfesti að norskur lax sé mjög fjarskyldur íslenskum laxastofnum og geti blöndun slíkra laxastofna haft ófyrirséðar afleiðingar á þróun hinna íslensku laxastofna. Sem dæmi hafi veiðst yfir 200 laxar af tiltölulega lítilli slysasleppingu laxa hjá öðrum rekstraraðila. Þeir fiskar hafi verið að búa sig til hrygningar  sem styðji þær áhyggjur sem kærandi hafi af slíku eldi.

Möguleiki sé á eldi á norskum laxi. Því sé eðlilegt að metin séu sammögnunaráhrif þess og annars eldis á norskum laxi á Vestfjörðum. Sé miðað við þær upplýsingar frá Veiðimálastofnun, sem komi fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar, að meta beri það sem svo að einn lax sleppi við hvert framleitt tonn af laxi, megi líta svo á að fjögur þúsund laxar sleppi úr 4.000 tonna eldi á hverju ári. Fyrirhuguð sé uppbygging laxeldis á Íslandi í 80.000 tonna framleiðslu á ári og gætu þá allt að 80.000 laxar af norskum uppruna sloppið á ári hverju. Líti kærandi því svo á að fyrirhugað eldi á norskum laxi auki verulega áhættu á erfðablöndun við villta stofna sem margir telji fáa fiska og því sé umhverfismat skylt.

Ekki sé hægt að vera sammála rökstuðningi Skipulagsstofnunar þess efnis að áhrif vegna aukningar á hættu á sjúkdómum og laxalús hjá villtum laxfiskstofnum á svæðinu séu ólíkleg og muni ekki hafa umtalsverð áhrif. Sú afstaða stofnunarinnar sé m.a. rökstudd með vísun í rannsóknir í Finnmörk í Norður-Noregi. Þar komi fram að sjókvíaeldi auki afföll af sjóbirtingi og sjóbleikju vegna álags vegna laxalúsa, en þar sem álag af fiskeldi sé mest hafi afföll verið í meðallagi eða há, þ.e. 18-55%. Kærandi telji 18-55% afföll hjá sjóbirtingi og sjóbleikju í Finnmörk vegna fiskeldis ekki geta stutt þá niðurstöðu að áhrifin séu ekki líkleg til að verða umtalsverð. Til séu fjölmargar erlendar rannsóknir sem sýni áhrif lúsasmits á villta silungs- og laxastofna. Þær rannsóknir sýni einnig að áhrifasvæði lúsasmits nái tugi kílómetra frá eldisstað. Sú staðreynd sé hvergi dregin fram í greinargerð framkvæmdaraðila og sé enn ein ástæðan fyrir því að eðlilegt sé að umrædd framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum.

Þá sé vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 43/2012 þar sem nefndin hafi ógilt ákvörðun Skipulagsstofnunar. Mál þessi séu á margan hátt sambærileg. Miklir hagsmunir íslenskrar náttúru séu í húfi og því sé mikilvægt að allrar varúðar sé gætt. Annað væri í andstöðu við reglur alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og varúðarreglu sem úrskurðarnefndin hafi talið að líta bæri til skv. alþjóðasamningum sem Ísland eigi aðild að og í anda íslenskra laga. 

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er á það bent að sú krafa kæranda að framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum falli ekki undir hlutverk úrskurðarnefndarinnar og að nefndin hafi ekki valdheimildir til að kveða á um slíkt.

Að mati stofnunarinnar sé óumdeilt að eldislax sé fjarskyldur öðrum laxastofnun við Norður-Atlantshaf, þar með töldum þeim norska. Engin laxveiðiá sé í Dýrafirði, en þar sé silungur sem m.a. gangi í sjó. Næstu gjöfulu laxveiðiár séu í Ísafjarðardjúpi og Breiðafirði. Til þess að fiskeldi í Dýrafirði hafi umtalsverð áhrif á erfðaefni villtra laxastofna þurfi strokufiskur að synda langa leið og ganga í ár í umtalsverðum mæli og hrygna þar. Litlar líkur séu á að allt þetta gangi eftir. Mikilvægasta mótvægisaðgerðin felist í því að leyfisveitandi geri strangar kröfur um gæði eldisbúnaðar og strangt eftirlit sé haft með honum. Einnig að gerð sé krafa um vandaða viðbragðsáætlun sem fylgt yrði ef framkvæmdaraðili missi fisk í sjó.

Bent sé á að tilvísun í norskar rannsóknir hafi verið ætlað að draga fram vitneskju um að fiskeldi í sjó auki hættu á lúsarsmiti í villtum laxfiskum. Hér beri að horfa til þess að sjókvíaeldi í Noregi sé umfangsmikið og í þeim samanburði sé fyrirhugað eldi í Dýrafirði lítið. Laxeldi í Finnmörk hafi vaxið úr 45.000 tonnum árið 2009 í 70.000 tonn árið 2012. Árið 2010 hafi öll fiskeldissvæði verið í góðu ástandi hvað varði afföll sjóbirtings og sjóbleikju, en frá þeim tíma hafi ástandið versnað umtalsvert.

Eldi í Dýrafirði verði 4.000 tonn, ef af verði. Ólíklegt megi telja að eldi af þeirri stærðargráðu leiði til sambærilegra affalla og hlotist hafi af 42.000 til 70.000 tonna eldi. Séu því ekki líkur á að fyrirhugað eldi muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Einnig liggi fyrir mat Matvælastofnunar þess efnis að fyrirhugað eldi muni ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra fiskistofna í Dýrafirði og nágrenni hans.

Þá sé ekki hægt að fallast á það að kærumál þetta og kærumál nr. 43/2012 séu sambærileg, líkt og kærandi haldi fram. Hin almenna regla stjórnsýsluréttar um jafnræði, sem sé lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áskilji að atvik séu sambærileg. Ef atvik í tilteknu máli séu sambærileg atvikum í öðru máli beri að leysa úr málunum á sambærilegan hátt, en sé það ekki gert sé slíkt brot á jafnræðisreglunni. Með fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi verið felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að 7.000 tonna ársframleiðsla á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Um hafi verið að ræða blandað eldi þorsks og laxfisks eða eldi einnar tegundar. Hin kærða ákvörðun lúti hins vegar að eldi á regnbogasilungi sem mögulega breytist í laxeldi. Þrátt fyrir að í báðum tilvikum feli starfsemin í sér sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi þá séu þau í veigamiklum atriðum ósambærileg. Umfang eldisins í  máli nr. 43/2012 hafi verið mun meira, eða 7.000 tonn á ári, en eldisaukningin í Dýrafirði nemi 2.000 tonnum á ári. Eldið í máli nr. 43/2012 sé staðsett nálægt laxveiðiám í innanverðu Ísafjarðardjúpi og gæti mögulega haft sammögnunaráhrif með öðru fiskeldi í djúpinu. Ekkert af þessu eigi við um eldi í Dýrafirði. Þá sé ekki um að ræða mögulegt eldi á þorski í Dýrafirði. Sé ljóst að atvik í málunum séu ekki sambærileg og ólík niðurstaða Skipulagsstofnunar því ekki brot á jafnræðisreglunni.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að hann hafi stundað sjókvíaeldi í Dýrafirði síðan 2008 og það svæði sé skilgreint sem leyfilegt eldissvæði fyrir laxfiska með tilliti til fjarlægðar svæðisins frá laxveiðiám. Eldissvæðin í firðinum séu í tæplega 100 km fjarlægð frá næstu ám með villta laxastofna í Ísafjarðardjúpi. Fjarlægð milli eldissvæða og laxaáa skipti miklu máli um hvort strokulax leiti upp í árnar.  Því meiri sem fjarlægðin sé því minni líkur séu til þess að strokulax leiti í viðkomandi ár. Þetta sé ein lykilforsenda þess að laxeldi sé heimilt á Vestfjörðum og öðrum svæðum á Íslandi skv. auglýsingu landbúnaðarráðherra nr. 460/2004.  

Miklar framfarir hafi orðið í búnaði og vinnuaðferðum í sjókvíaeldi, sem hafi gert það að verkum að verulega hafi dregið úr því að eldisfiskur sleppi. Hér á landi sé unnið eftir norskum staðli sem skilgreini lágmarkskröfur á búnað miðað við þær aðstæður sem séu á sjókvíaeldisstað. Staðallinn tilgreini einnig verklag, viðhald og eftirlit. Opinber gögn frá Noregi sýni að á  sex árum, 2008-2013, sé fjöldi strokulaxa að meðaltali 0,21 stk. fyrir hvert framleitt tonn af eldislaxi. Það sé um fimmfalt minna en meðaltal sex ára þar á undan, 2002-2007. Unnið sé að því að bæta þennan árangur enn frekar og stefnt sé fullum fetum að „núllsleppingu“  laxfiska í sjókvíaeldi. Framkvæmdaraðili muni fylgja þessari þróun eftir og haga sínum fjárfestingum í búnaði og þróun eldisaðferða í samræmi við hana. Rannsóknir á atferli regnbogasilungs sem hafi verið sleppt úr sjókvíaeldi sýni allar að silungurinn haldi sig í grennd við sjókvíaeldið. Þetta hegðunarmynstur geri það að verkum að endurheimtur með netveiði séu háar, sem dragi enn frekar úr neikvæðum áhrifum eldissilungs.

Áhrif silungaeldis á náttúrulega stofna séu ekki mælanleg. Vísað sé til umsagnar Veiðimálastofnunar frá árinu 2009 varðandi áhyggjur kæranda um mögulega erfðablöndun milli regnbogasilungs og villtra fiskistofna. Þar komi fram að regnbogasilungur sé ekki náttúrulegur á Íslandi. Hann hafi verið í eldi hér sem og víða um lönd í áratugi en sé upprunninn frá vesturströnd N-Ameríku og hrygni að vori. Regnbogasilungur hafi ekki náð að fjölga sér á Íslandi. Regnbogasilungur valdi því ekki erfðablönduhættu eða hafi varanleg áhrif á íslenskar ár og vötn.

Þrátt fyrir margfalda aukningu í laxeldi hafi fjöldi strokulaxa í norskum ám minnkað markvisst undanfarin ár. Árlegt meðaltal eldislaxa í 110 ám í Noregi hafi verið á bilinu 5-15% frá árinu 2000. Fyrir aldamótin hafi hins vegar hlutfall eldislaxa í norskum ám oft greinst yfir 20%. Nýjar rannsóknir bendi til að þessar prósentutölur séu töluvert ofmat á fjölda strokulaxa í norskum ám. Fjöldi strokulaxa af heildarlaxagöngu í einstaka ám sé að jafnaði ekki yfir 5%.
   
Frá aldamótum hafi gífurlegum fjármunum í Noregi verið varið í rannsóknir til þess að finna og kortleggja breytingu á erfðamengi villtra laxa sem rekja megi til eldislaxa. Erfiðlega hafi gengið að finna þessi áhrif hjá norskum laxastofnum þrátt fyrir að um árabil hafi verið sett yfir 200 milljón laxaseiði í eldiskvíar. Laxastofnar á Vestfjörðum séu á ystu mörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar og umhverfið í ám sé mjög harðbýlt fyrir laxinn. Það sjáist best á miklum sveiflum í laxveiðiám milli ára. Það séu því ekki líkindi til þess að afkvæmi eldislaxa, sem hugsanlega nái að hrygna í Vestfirskum ám, nái að hafa áhrif á genamengi laxins hér fremur en í Noregi. Skýringin á litlum erfðaáhrifum frá eldislaxi á villta stofna sé sennilega afar slakur lífsþróttur afkvæma eldislaxa í náttúrunni sem hafi verið staðfest í rannsóknum á Írlandi og í Noregi. Það sé því langsótt að telja að íslenska laxastofninum sé ógnað.

Það sé þekkt að sjókvíaeldi laði að sér villtan fisk. Þrátt fyrir þessa nálægð villts fisks og eldisfisks séu engar beinar sannanir fyrir því að villtur fiskur beri smitsjúkdóma eldisfisks á milli og þrátt fyrir yfir 20 ára rannsóknir séu engar óyggjandi sannanir fyrir því að fiskeldi hafi neikvæð áhrif á villta fiskistofna. Náttúruleg skilyrði fyrir laxalús séu mun verri hérlendis en víða erlendis vegna lágs sjávarhita. Aðstæður í Dýrafirði og á núverandi eldissvæðum sé þannig að hitastig fari undir 2°C á vetrarmánuðum sem sé ekki lífvænlegt fyrir lúsina og stöðvi þroska hennar. Framkvæmdaraðili stundi umhverfisvænt eldi sem sé vottað af þriðja aðila. Í því felist að þéttleiki í eldiskvíunum sé lítill sem dragi verulega úr sjúkadómshættu. Auk þess séu ekki notuð lyf í eldinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, sæta ákvarðanir skv. 6. gr. laganna um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.   Í samræmi við þetta einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Tekur úrskurðarnefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrætt fyrirhugað fiskeldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um áform sín um aukið eldi á regnbogasilungi, sem mögulega breytist í laxeldi síðar, úr 2.000 tonnum í 4.000 tonna ársframleiðslu við Haukadalsbót, Gemlufall og Eyrarhlíð í Dýrafirði. Kemur fram í gögnum framkvæmdaraðila að áhersla hafi verið lögð á eldi á regnbogasilungi en ef farið yrði í eldi á laxi yrði notast við laxastofn sem mun vera af norskum uppruna. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en því er haldið fram af hálfu kæranda að ekki megi láta hjá líða að gera slíkt mat. Er í því sambandi einkum bent á að verði af laxeldi aukist áhætta af erfðablöndun við villta stofna auk þess sem fyrirhugað eldi auki hættu á sjúkdómum og lúsasmiti hjá villtum laxfiskstofnum.

Í 1. gr. nefndra laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Þau eiga m.a. að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 1. viðauka við lögin eru m.a. taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Falla þær framkvæmdir ýmist í flokk B eða flokk C. Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. laganna að Skipulagsstofnun taki ákvörðun skv. 6. gr. um hvort framkvæmd í flokki B skuli háð mati á umhverfisáhrifum, en þeim flokki tilheyrir þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1.11 í 1. viðauka, sem og allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. lið 13.02 í nefndum viðauka. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem falla í flokk B og C ber að fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Hvorki heildstæð nýtingaráætlun né skipting fiskeldissvæða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er til fyrir Dýrafjörð þar sem fyrirhuguðum eldiskvíum er ætlaður staður. Hins vegar bera niðurstöður líkanareikninga Hafrannsóknastofnunar með sér að burðarþol Dýrafjarðar sé varlega áætlað, m.t.t. varúðarnálgunar, allt að 10.000 tonn. Fyrirhuguð heildarnýting á ári er 4.000 tonn. Er í þessu sambandi rétt að árétta að Hafrannsóknastofnun er sérfróður aðili á þessu sviði og er stofnuninni ætlað það hlutverk í framangreindum lögum að framkvæma burðarþolsmat, ellegar skuli slíkt mat framkvæmt af aðila sem ráðuneyti samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 5. mgr. 10. gr. laganna.

Ljóst er að auknum lífmassa fylgja auknar líkur á sjúkdómum. Í niðurstöðu sinni tekur Skipulagsstofnun enda fram að hún telji að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar stækkunar á fiskeldi í Dýrafirði kunni að felast í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist í villta laxfiska. Sömuleiðis tekur stofnunin fram að ef eldisfiskur sleppi í einhverju mæli úr kvíum og rati upp í ár kunni það að hafa neikvæð áhrif. Skipulagsstofnun taldi framangreind áhrif hins vegar ekki umtalsverð og tekur m.a. fram að frá Dýrafirði sé langt í næstu gjöfulu laxveiðiár auk þess að vísa til staðla og viðbragðsáætlunar sem framkvæmdaraðili áformi að fylgja. Eins er bent á álit Matvælastofnunar og Fiskistofu. Í umsögn Fiskistofu er áréttað að ekki sé talið að umrædd aukning muni auka til muna hættuna á mögulegri slysasleppingu eða auka mikið hættu á sjúkdóms- eða sníkjudýratengdum vandamálum, umfram það sem nú þegar sé fyrir hendi vegna fiskeldis á svæðinu. Þá kemur fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé þörf á umhverfismati um þá þætti sem snúi að sjúkdómum. Vegi þyngst að mati Matvælastofnunar þau rök að eldi af umræddri stærðargráðu sé ekki talið hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang þeirra villtu fiskistofna sem fyrir séu í vistkerfi Dýrafjarðar og nágrennis.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu m.a. fyrir Skipulagsstofnun umsagnir sérfróðra aðila, eins og áður hefur verið lýst. Þá var meðferð málsins ekki fram haldið fyrr en fyrir lágu frekari gögn um burðarþol Dýrafjarðar. Loks ber meðferð málsins með sér að stofnunin aflaði gagna auk þess að leggja mat á gögn framkvæmdaraðila. Verður ekki annað séð af öllu framangreindu en að við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar hafi verið farið eftir viðmiðum í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Þá verður og ekki annað ráðið en að niðurstaða stofnunarinnar, þess efnis að fyrirhugað aukið fiskeldi sé ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð slíku mati, hafi verið réttmæt og studd nægilegum gögnum og rökum.

Loks skal á það bent að í kærumáli til úrskurðarnefndarinnar nr. 43/2012 var um að ræða eldi af annarri stærðargráðu sem tók til fleiri tegunda, eða á þorski, laxi og regnbogasilungi. Var eldið staðsett í Ísafjarðardjúpi þar sem fyrir voru önnur eldissvæði auk þess sem þar er að finna laxveiðiár. Atvik í málunum eru því ekki sambærileg. Þannig er framkvæmdaraðili einn með leyfi til fiskeldis í Dýrafirði auk þess sem fjörðurinn og fyrirhugað eldi er í miklum mun meiri fjarlægð frá laxveiðiám en áskilið er í gr. 4.2 í reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2015 um að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn í 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Geir Oddsson