Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2015 Grettisgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2015, er barst nefndinni 25. s.m., kæra 23 eigendur og íbúar að Grettisgötu 26, 28b, 29, 35, 35b, 36, 37, 39, 39b, 42, 43a og 45, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er jafnframt gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 28. apríl 2015, sótti eigandi Grettisgötu 41 um leyfi til að hækka hús á lóðinni um 1,5 m, færa framhlið og gafl þess sem næst til upprunalegs horfs og reisa tveggja hæða staðsteypta viðbyggingu. Var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. maí s.á. en afgreiðslu frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Málið var enn á dagskrá fundar byggingarfulltrúa 26. s.m. en afgreiðslu þess var á ný frestað, með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og umsagnar Minjastofnunar Íslands, dags. 20. s.m. Erindið var síðan samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 9. júní 2015 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 11. s.m. Var byggingarleyfi síðan gefið út hinn 22. september 2015.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hönnun á útliti heimilaðrar viðbyggingar sé í hróplegu ósamræmi við bárujárnsklædda timburhúsið sem fyrir sé að Grettisgötu 41, en það sé friðað samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Það hús tilheyri timburhúsareit sem njóti hverfisverndar í deiliskipulagi, en um sé að ræða heilstæðustu og upprunalegustu timburhúsabyggð sem varðveitt sé í Reykjavík frá upphafi 20. aldar. Þótt mörg hús við Grettisgötu hafi tekið breytingum frá upphaflegri gerð hafi flestir íbúar á svæðinu lagt sig fram við að viðhalda upphaflegu svipmóti byggðarinnar jafnframt því að stuðla að fegrun umhverfisins og verndun menningararfsins. Það sé áhyggjuefni að svo róttæk útlitsbreyting sem hér um ræði fái brautargengi athugasemdalaust og skapi fordæmi fyrir endurgerð annarra eldri húsa á reitnum. Íbúum hafi ekki verið kynnt tillaga að stækkun umrædds húss, þar sem í gildi sé deiliskipulag fyrir svæðið, og áttu af þeim sökum ekki kost á að gera athugasemdir eða kæra tillöguna fyrr en raun beri vitni.

Þá fari hið kærða byggingarleyfi í bága við gildandi deiliskipulag. Ekki verði annað ráðið en að skipulag geri ráð fyrir dýpkun byggingarreits á umræddri lóð um 6 m, en samkvæmt samþykktum byggingarnefndarteikningum sé búið að samþykkja 6,34 m dýpkun. Þá sé farið upp fyrir hámarks nýtingarhlutfall, sem sé 0,65, en samþykktir hafi verið 214,9 m2 brúttó á lóðinni, sem gefi nýtingarhlutfallið 0,74. Samkvæmt deiliskipulagi megi reisa á lóðinni viðbyggingu með kjallara, hæð og ris, en samþykktar teikningar sýni hins vegar þrjár hæðir. Kjallarinn verði jarðhæð vegna landhalla og efsta hæðin geti engan veginn talist undir súð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld gera kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal. Kæra í máli þessu hafi borist hinn 25. september 2015, eða rúmlega þremur mánuðum eftir að kærufrestur hafi byrjað að líða. Kærendum hafi mátt vera ljós ákvörðun borgarráðs strax hinn 11. júní 2015 enda séu fundargerðir þess birtar opinberlega í samræmi við lög og venjur.

Andmæli byggingarleyfishafa: Farið er fram á að kærumáli þessu verði vísað frá, þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti, en ella að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa hafi hún verið birt opinberlega á heimasíðu borgarinnar og hafi þá öllum mátt vera ljóst hvað til stæði. Kæra í máli þessu hafi borist 11 vikum eftir samþykkt og birtingu ákvörðunarinnar, eða eftir að lögmæltur eins mánaðar kærufrestur eftir opinbera birtingu ákvörðunar var liðinn. Þá hafi einn kærenda átt í samskiptum við byggingarleyfishafa allt frá því að flutt hafi verið inn í umrætt hús í byrjun árs 2015. Hafi honum verið kunnugt um áform eigenda um endurbyggingu hússins og viðbyggingu. Megi ætla að aðrir kærendur hafi vitað um áætlaða viðbyggingu löngu áður en kærufrestur hafi runnið út.

Hvað varði efnishlið málsins sé tekið fram að í nágrenni Grettisgötu 41 sé fyrst og fremst blönduð byggð. Af 32 húsum, sem standi við Grettisgötu milli Vitastígs og Frakkastígs, séu 11 steinsteypt eða múrhúðuð, þ. á m. fimm í næsta nágrenni við hús byggingarleyfishafa, og búi fimm kærenda í þeim húsum. Heimiluð viðbygging falli því vel að byggðamynstri næsta nágrennis. Við hönnun umdeildrar viðbyggingar hafi verið haft náið samráð við Minjastofnun og m.a. tekið tillit þess sjónarmiðs að skýr skil yrðu á milli hins friðaða húss og fyrirhugaðrar viðbyggingar. Viðbyggingin verði því ekki í beinu framhaldi af vestur- og austurvegg hússins heldur inndregin. Þá hafi sú ákvörðun verið tekin við hönnun viðbyggingarinnar að hafa hana úr steinsteypu til þess að skerpa skil milli þess gamla og þess nýja. Götuhlið hússins að Grettisgötu 41 raski ekki götumynd svæðisins. Form gamla hússins haldi sér og gluggar séu endurgerðir með hliðsjón af upphaflegri gerð. Þá sé heimiluð viðbygging lítt sjáanleg frá götu vegna staðsetningar og hönnunar.

Í gildandi deiliskipulagi sé byggingarreitur undir núverandi hús teiknaður 6,13 m á lengd frá suðri til norðurs og þar sé heimiluð dýpkun byggingarreits um 6 m undir viðbyggingu. Heildarlengd byggingarreits lóðarinnar frá suðri til norðurs sé því 12,13 m. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði heildarlengd hússins að Grettisgötu 41 12,01 m eða 12 cm innan heimilda deiliskipulags. Hafi húsið verið ranglega mælt við gerð deiliskipulagsuppdráttar ætti sú skekkja ekki að raska rétti leyfishafa til að nýta merktan byggingarreit á lóðinni undir byggingar. Fyrir mistök hafi verið stuðst við birt flatarmál í stað brúttóflatarmáls við útreikning nýtingarhlutfalls lóðarinnar en verði það til að raska gildi umrædds byggingarleyfis muni þau mistök verða leiðrétt.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Ákvörðun um samþykki byggingarleyfisumsóknar er stjórnvaldsákvörðun sem tilkynna skal umsækjanda í samræmi við 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er kveðið á um það í lögum að slíkar ákvarðanir skuli sæta opinberri birtingu. Þegar af þeirri ástæðu getur kærufrestur í máli þessu ekki farið eftir 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið er á um að upphaf kærufrests, vegna ákvarðana sem lög mæla fyrir um að birta skuli með opinberum hætti, teljist frá birtingu. Verður hér að miða við það að upphaf kærufrestsins sé við það tímamark þegar kærendum mátti vera ljóst að hin kærða ákvörðun hafði verið tekin og hvert efni hennar var.

Kærendur hafa tekið fram að þeim hafi verið ljóst að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að reisa viðbyggingu til norðurs við húsið að Grettisgötu 41. Þeir hafi hins vegar ekki átt möguleika á að kæra fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en raun beri vitni þar sem byggingaráformin hefðu ekki verið kynnt fyrir þeim. Byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum var gefið út hinn 22. september 2015 og var þá heimilt að hefja framkvæmdir. Verður hér við það að miða að framkvæmdir við viðbygginguna hafi ekki byrjað fyrr en þá. Fyrr mátti kærendum ekki vera ljóst hvert byggingarefni viðbyggingarinnar yrði eða hönnun hennar að öðru leyti. Verður því að telja að kæran hafi borist innan kærufrests.

Það er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklega lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í máli þessu bera kærendur fyrir sig málsástæður er lúta að verndun byggðamynsturs og götumyndar, sem telja verður almenna hagsmuni sem skipulagsyfirvöld í hverju sveitarfélagi gæta í skjóli skipulagsvalds. Geta kærendur ekki byggt aðild sína í máli þessu á slíkum hagsmunum. Kemur þá til álita hvort umdeild viðbygging geti snert grenndarhagsmuni kærenda, svo sem vegna skuggavarps. Með hliðsjón af staðháttum og staðsetningu viðbyggingarinnar og umfangs verður ekki séð að hún geti snert hagsmuni annarra kærenda en eigenda og íbúa að Grettisgötu 39, 39b, og 43a. Verður kröfum annarra kærenda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis eru heimilaðar viðbyggingar við nokkur hús á skipulagsreitnum og eru byggingarreitir markaðir á skipulagsuppdrætti fyrir þær byggingar, m.a. á lóðinni Grettisgötu 41. Má ráða af merkingu á uppdrættinum að lengd heimilaðrar viðbyggingar til norðurs sé 6 m en breidd byggingarreitsins sé sú sama og breidd núverandi húss. Í deiliskipulaginu er heimilað nýtingarhlutfall nefndrar lóðar 0,65. Samkvæmt samþykktum byggingarteikningum verður brúttógólfflatarmál byggingar á lóðinni eftir heimilaða stækkun 230,4 m². Umrædd lóð er 292,3 m² og verður nýtingarhlutfall hennar því 0,78 ef byggt væri samkvæmt samþykktum teikningum. Er hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Ber af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda við Grettisgötu 26, 28b, 29, 35, 35b, 36, 37, 42 og 45 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________        ______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

58/2014 Reykjavíkurflugvöllur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2014, kæra á nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem auglýst var í B-deild Stjórnatíðinda 6. júní 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kærir eigandi skýlis 35F í Fluggörðum, Reykjavík, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og auglýst  í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní s.á. Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Með fimm bréfum, dags. 3. og 4. júlí 2014, er bárust nefndinni 4. og 7. s.m., kæra eigendur skýlis 21 í Fluggörðum, Reykjavík, skýlis 31B, skýlis 31D, skýlis 35A, skýlis 33C, og Guðjón Ármannsson hrl., f.h. áðurnefndra kærenda og eigenda skýla 21, 31B, 31D, 33C, 35A og 35F, auk eigenda og/eða umráðamanna skýla 22A, 22B, 24, 25, 26, 27C, 27E, 28A, 28C, 28D, 28E, 29C, 29D, 29E, 30B, 30E, 31A, 31C, 33A, 33D, 33E, 33F, 34C, 34E, 35B, 35C, 35D, 35E og 36, sem öll eru á sama stað, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærurnar lúta allar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða greind kærumál, sem eru nr. 59/2014, 60/2014, 63/2014, 64/2014 og 67/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. júlí 2014, og í nóvember og desember 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 18. desember 2013 var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Samþykkt var að auglýsa tillöguna samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 19. s.m. Tillagan var auglýst frá 23. s.m. til og með 3. febrúar 2014 og bárust athugasemdir við hina kynntu tillögu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2014 var lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um innsendar athugasemdir, dags. 10. s.m. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi borgarráðs 27. s.m. og samþykkt. Var málinu síðan vísað til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014 var lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. mars 2014 og var 17. liður hennar, tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, samþykktur.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2014, var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. s.m., kom fram að um væri að ræða endurskoðun á gildandi deiliskipulagi, með síðari breytingum, en upphaflegt deiliskipulag hefði verið samþykkt árið 1986. Með endurskoðuninni væri skipulagssvæði flugvallarins minnkað og nokkur svæði yrðu því utan hinnar nýju afmörkunar án þess að grein væri gerð fyrir skipulagslegri stöðu þeirra eftir breytinguna. Fram kæmi í auglýsingu á tillögunni að gildandi deiliskipulag flugvallarins, með síðari breytingum, m.a. frá 1999, félli úr gildi við gildistöku þessa deiliskipulags. Skipulagsstofnun teldi að ekki væri hægt að fella úr gildi deiliskipulag fyrir lóð eða svæði sem þegar væri byggt samkvæmt skipulaginu án þess að nýtt skipulag kæmi í staðinn. Stofnunin teldi því að upphaflegt deiliskipulag frá 1986, með síðari breytingum, gilti enn fyrir þau svæði sem yrðu utan marka hins nýja deiliskipulags. Reykjavíkurborg þyrfti að útskýra hvernig gerð yrði grein fyrir skipulagi þessara svæða áður en Skipulagsstofnun tæki afstöðu til deiliskipulagsins.

Með bréfi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, dags. 13. maí 2014, var deiliskipulagsuppdráttur sendur Skipulagsstofnun að nýju til yfirferðar. Í bréfinu var gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hefðu verið í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar. Var meðal annars tekinn út texti um að deiliskipulag fyrir flugvöllinn, sem samþykkt hefði verið 15. júní 1999, og breytingar og skilmálar vegna flugvallarsvæðisins féllu úr gildi við gildistöku þessa skipulags. Þá var ákveðið að deiliskipulagið frá 1986, með síðari breytingum, skyldi gilda áfram fyrir svæði í kringum lóð Loftleiðahótels og hluta af Litla Skerjafirði þar til annað deiliskipulag yrði unnið fyrir þessi svæði. Texta um afmörkun deiliskipulagssvæðisins var jafnframt breytt til samræmis við framangreint.

Með bréfi, dags. 26. maí 2014, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. s.m., bréf frá Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og leiðrétta umsögn um athugasemdir sem bárust við auglýsingu deiliskipulagsins. Ástæða þess að umsögnin var leiðrétt var sú að í áðurnefndu bréfi Isavia voru gerðar athugasemdir við efni hennar. Í áðurnefndu minnisblaði, dags. 20. maí 2014, var greint frá meginefni fyrrgreindra bréfa, auk þess sem upplýst var um breytingar á umsögninni.

Í nefndu bréfi Isavia frá 23. apríl 2014 var athygli vakin á staðreyndavillum í umsögninni, nánar tiltekið í svörum við liðum 1c og 1d á blaðsíðu 3, og þess óskað að þær yrðu leiðréttar. Því var lýst að í svari við lið 1c segði: „Samkvæmt niðurstöðu áhættumatsnefndar Isavia „nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli“ er stuðullinn fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík fyrir sjúkraflugvélar af tegundinni [Beechcraft] King Air 200 samanlagt 99,5% fyrir allt árið…“ Í svarinu hafi ranglega verið vísað til „áhættumatsnefndar Isavia“ með tilvísun í bréf forstjóra Isavia til innanríkisráðherra í desember 2013, sem hafi falið í sér ábendingu um nothæfisstuðul fyrir sjúkraflugvélar miðað við ákveðnar forsendur, m.a. tvær flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli og tvær á Keflavíkurflugvelli til vara. Áhættumat og nothæfisstuðull séu tveir óskyldir þættir sem þarna hafi verið blandað saman. Segja megi að nothæfisstuðull sé þjónustustig flugvallar en áhættumat sé mat á áhrifum breytinga og lúti fyrst og fremst að mati á öryggi. Áhættumat sé alveg óháð notkunarstuðli þótt stuðullinn geti skipt máli við áhættumat. Unnið sé að gerð áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar NA/SV-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, sem sent verði Samgöngustofu er taka muni afstöðu til niðurstöðunnar. Réttara væri að segja: „Samkvæmt ábendingu Isavia til innanríkisráðherra er nothæfisstuðull fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík…“ Þá var á það bent að í svari við lið 1d í umsögninni segði: „Stefna um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rímar einnig við áform um lokun NA-SV brautar sem hefur verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug á undanförnum áratugum.“ Hér væri ranglega fullyrt að umrædd flugbraut hefði verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug. Staðreyndin væri sú að notkun hennar í þessu skyni hefði ekki verið meiri en annarra flugbrauta á undanförnum áratugum og miklu minni eftir að notkun hennar hefði eingöngu verið miðuð við lendingar í hvössum vindi. Lagt væri til að umrædd setning yrði felld út úr málsgreininni.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. júní 2014, var tiltekið að Isavia hefði gert athugasemdir við tvö atriði í umsögnum Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hefðu við auglýsta deiliskipulagstillögu. Reykjavíkurborg hefði leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hefði farið yfir innsend gögn og teldi að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin gerði því ekki athugasemd við að Reykjavíkurborg auglýsti samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að við gerð hins kærða deiliskipulags hafi ekkert samráð verið haft við hagsmunaaðila á Fluggarðasvæðinu, eins og skylt væri samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, þrátt fyrir að skipulagið mæli öðrum þræði fyrir um að leggja skuli Fluggarða niður strax á árinu 2015. Einungis einum aðila Fluggarðasvæðisins hafi verið boðið á hagsmunaaðilakynningu 10. desember 2013. Forsvarsmaður ByggáBIRK, hagsmunafélags eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, hafi frétt af fundinum og þurft að beita sér sérstaklega til að fá að senda fulltrúa á hann. Byggingar á Fluggarðasvæðinu séu í eigu 63 einstaklinga og lögaðila. Með vísan til ákvæða skipulagsreglugerðar um samráðsskyldu og með tilliti til þess að um veruleg áhrif á hagsmuni fasteignareigenda á svæðinu sé að ræða, hafi Reykjavíkurborg borið að hafa virkt samráð við þá. Skylda borgarinnar til að hafa samráð við hagsmunaaðila sé enn ríkari en ella þar sem deiliskipulagstillagan miði að eignaupptöku og vegi að eignarréttindum sem varin séu af ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Deiliskipulagið mæli meðal annars fyrir um niðurrif flugskólabyggingar við Þorragötu 21. Reykjavíkurborg hafi ekki þinglýsta eignarheimild á umræddu svæði og geti því ekki talist eigandi þess. Borgin hafi því engan rétt til eignaupptöku á svæðinu.

Mótsagna gæti í hinu kærða deiliskipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti komi eftirfarandi fram: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á því svæði í þessu deiliskipulagi.“ Á skipulagsuppdrætti séu öll mannvirki í Fluggörðum merkt með brúnum lit, sem auðkenna eigi „núverandi byggingar samkvæmt landupplýsingakerfi Reykjavíkur“. Þótt ekki sé gert ráð fyrir breytingum á Fluggarðasvæðinu hafi verið settur inn texti á grunnmynd á uppdrættinum þar sem segi: „Fluggarðar notkun (FV) 2013-2015“. Þar sé vísað til stefnu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og jafnframt dregin rauð punktalína þétt utan um Fluggarðasvæðið með skýringum: „Framtíðar mörk öryggisgirðingar“ og „Öryggisgirðing eftir niðurlögn Fluggarða“. Samkvæmt framansögðu sé í öðru orðinu sagt að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á Fluggarðasvæðinu en í hinu orðinu sé mælt fyrir um að Fluggarða skuli leggja niður og að þeir skuli settir utan öryggisgirðingar. Þessi óskýrleiki deiliskipulagsins sé ótvírætt brot á ákvæði gr. 5.5.2. í skipulagsreglugerð en þar segi að skilmálar skuli vera skýrir og greinargóðir, sbr. einnig gr. 5.5.3. Þá segi í skilmálum skipulagsins að skipulagsreglur flugvallarins séu til fyllingar deiliskipulaginu og að skipulagsreglurnar, er lúti að flugöryggi, séu víðfeðmari en deiliskipulagið. Byggt sé á því að deiliskipulagið sé beinlínis í andstöðu við skipulagsreglurnar og framangreint orðalag í skilmálum deiliskipulagsins sé því villandi. Deiliskipulagið sé haldið þeim alvarlega ágalla að það geri á engan hátt grein fyrir samspili skipulagsreglna flugvallarins og skilmála deiliskipulagsins.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar enda liggi ekki fyrir áhættumat vegna áforma í deiliskipulaginu um niðurlagningu NA/SV-flugbrautar. Lokun hennar virðist að auki til þess fallin að Reykjavíkurflugvöllur uppfylli ekki ákvæði reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007. Við gerð deiliskipulags sé þó grundvallaratriði að gætt sé að kröfum annarra laga og reglugerða, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Í gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli segi að fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjóni. Samkvæmt hollenskri rannsókn frá árinu 2006 muni nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar falla langt undir viðmiðunarmörk verði NA/SV-flugbrautin lögð niður. Að þessu sé ekki vikið í deiliskipulagstillögunni, en Reykjavíkurborg hafi borið að kanna sérstaklega hvort flugvöllurinn án NA/SV-flugbrautar uppfyllti ákvæði reglugerðar nr. 464/2007. Niðurstaða athugunar á flugvallarkostum hafi ekki legið fyrir og samgönguyfirvöld hafi ekki markað stefnu um flutning allrar flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri.

Reykjavíkurflugvöllur sé miðstöð innanlandsflugs á Íslandi jafnframt því að bera uppi æfinga- og kennsluflug. Niðurlagning NA/SV-flugbrautar dragi úr öryggi fyrir flugfarþega, sjúkraflug og alla aðra sem noti flugvöllinn. Vísað sé til a-liðar gr. 1.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram komi það markmið reglugerðarinnar að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi sé haft að leiðarljósi.

Að lokum er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu hafi ekki verið í samræmi við lög, sbr. 41. og 42. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins með bréfi, dags. 28. apríl 2014. Athugasemdir stofnunarinnar hafi ekki komið til umræðu í sveitarstjórn heldur hafi skipulagsfulltrúi breytt skipulagsuppdrættinum og sent Skipulagsstofnun bréf, dags. 13. maí s.á., þar sem upplýst hafi verið um þær lagfæringar sem hafi verið gerðar, ásamt leiðréttum uppdrætti. Með bréfi, dags. 26. s.m., hafi umhverfis- og skipulagssvið svo sent Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá forstjóra Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytta umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars s.á. Hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, eins og hún hafi litið upphaflega út, en umsögnin hafi þá innihaldið staðreyndavillur og rangar fullyrðingar. Skipulagsfulltrúi hafi síðar gert breytingar á umsögninni til samræmis við ábendingar Isavia og sent breytta umsögn til Skipulagsstofnunar, en breytingarnar hafi ekki verið lagðar fram, ræddar og samþykktar í sveitarstjórn áður. Þá hafi áðurnefnd gögn, þ.e. minnisblað skipulagsstjóra, bréf forstjóra Isavia og bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, ekki heldur verið lögð fram, rædd eða samþykkt í sveitarstjórn.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er á það bent að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða endurskoðun á eldra deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll frá 1986. Með deiliskipulaginu sé skipulagssvæði flugvallarins minnkað. Deiliskipulagstillagan hafi verið unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 19. apríl og 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 41. gr. skipulagslaga. Allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því hafi Reykjavíkurborg ekki borið skylda til að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu eða halda kynningarfund, sbr. 40. gr. skipulagslaga. Engu að síður hafi verið ákveðið að halda kynningarfund með helstu hagsmunaaðilum á flugvellinum 10. desember 2013, þar sem breytingar á deiliskipulaginu hafi verið kynntar. Lengi hafi legið fyrir í aðalskipulagi að starfsemi tengd einkaflugi og flugkennslu væri víkjandi í Vatnsmýrinni og framfylgi hið nýja deiliskipulag einfaldlega þeirri stefnu. Því eigi það ekki að koma á óvart að Fluggarðar séu víkjandi starfsemi í nýju deiliskipulagi. Málsmeðferð deiliskipulagsins og samráð við hagsmunaaðila hafi verið samkvæmt skipulagslögum.

Kærendur hafi vísað til þess að deiliskipulagið sé óskýrt og þversagnakennt. Því til stuðnings virðist þeir vísa í tillögu að deiliskipulagi, en orðalagi hafi verið breytt í hinu samþykkta deiliskipulagi. Nú segi þar: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu.“ Engin uppbygging muni því eiga sér stað á Fluggörðunum á meðan þeir séu innan skipulagssvæðisins. Reykjavíkurborg telji deiliskipulagið uppfylla kröfur gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð og að ekki gæti mótsagna í skipulaginu.

Hvað varði heimild til niðurrifs flugskólabyggingar við Þorragötu 21 sé vísað til þess að í aðalskipulagi hafi lengi verið ráðgert að æfinga- og kennsluflug og öll starfsemi sem því tengdist viki af flugvellinum fyrr en síðar. Því ætti ekki að koma á óvart að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að rífa megi bygginguna við Þorragötu 21, þar sem sú starfsemi sem þar fari fram sé víkjandi, líkt og Fluggarðar. Stefnan um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rími einnig við áform um lokun NA/SV-flugbrautar, sem hafi verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug undanfarna áratugi. Tímasett markmið aðalskipulags beinist hins vegar fyrst og fremst að breyttri landnotkun á Fluggarðasvæðinu og sé deiliskipulagið í samræmi við það markmið. Samkvæmt sjálfsákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga geti deiliskipulag lagt á kvöð um niðurrif húsa. Deiliskipulag mæli fyrir um byggingarheimildir og byggðarþróun en taki ekki afstöðu til eignarréttinda. Valdi skipulagsákvörðun tjóni á gildum eignarheimildum reiknist bætur samkvæmt 51. gr. skipulagslaga að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Í reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli sé ekki fjallað um gerð áhættumats, hvaða þætti eigi að leggja mat á eða framkvæmd matsins. Ekki komi þar heldur fram hvort framkvæma eigi áhættumat fyrir eða eftir samþykkt deiliskipulags. Hins vegar sé vakin athygli á því að ef framkvæma eigi áhættumat fyrir samþykkt deiliskipulags geti neikvæð niðurstaða slíks mats sett deiliskipulag í uppnám. Með þeirri niðurstöðu væri í raun búið að flytja skipulagsvald yfir til rekstraraðila flugvalla, sem gætu hindrað samþykkt deiliskipulags. Það myndi ganga gegn sjálfsákvörðunarrétti og skipulagsvaldi sveitarfélaga, sem tryggt sé í stjórnarskrá og skipulagslögum. Í 25. gr. reglugerðarinnar sé ekki kveðið á um það hver eigi að eiga frumkvæði að gerð áhættumats, en með vísan til 7., 16. og 22. gr. hennar megi álykta að það sé handhafi rekstrar- og flugvallarskírteinis sem hlutast skuli til um það.

Innanríkisráðuneytið hafi fengið Isavia til að skoða afleiðingar lokunar NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Í bréfi Isavia til ráðuneytisins, dags. 13. desember 2013, hafi komið fram að samkvæmt athugun Veðurstofu Íslands væri nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli, ef miðað væri við tvær flugbrautir í Reykjavík ásamt óbreyttu flugbrautakerfi í Keflavík, umtalsvert hærri en ef miðað væri við Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd með þremur flugbrautum, eða 99,5%, vegið meðaltal yfir árið. Ef eingöngu væri miðað við lokun NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli yrði notkunarstuðull hans 97,5%, vegið meðaltal yfir árið, sem væri yfir lágmarki samkvæmt gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli. Samstarf hafi verið með ríki og borg í aðdraganda deiliskipulagsins sem endurspeglist í samkomulagi þeirra frá 19. apríl og 25. október 2013. Í samkomulaginu frá 19. apríl komi eftirfarandi fram: „Að NA/SV flugbrautin verði lögð af og það land sem við það losnar sunnan vallarins verði skipulagt undir blandaða byggð. Innanríkisráðuneytið auglýsi lokun flugbrautar samhliða auglýsingu deiliskipulags nýrrar flugstöðvar.“ Því sé vísað á bug að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eða ákvæðum reglugerðar um flugvelli.

Í viðbótargreinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að hið kærða deiliskipulag hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið gerðar athugasemdir heldur einungis óskað eftir leiðréttingum á texta í greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti, en gera þyrfti betur grein fyrir skipulagslegri stöðu svæða sem áður hefðu verið innan deiliskipulagsins en væru felld út með nýja deiliskipulaginu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir betri skýringum frá Reykjavíkurborg á framangreindum atriðum. Því hafi hvorki þurft né verið skylt að fara aftur með málið fyrir borgarráð til samþykktar, en tekið væri fram í nefndu bréfi að ekki yrði tekin afstaða til erindisins fyrr en skýringar lægju fyrir.

Í bréfi Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi aðeins verið gerðar athugasemdir við villur í umsögn um innsendar athugasemdir, dags. 10. mars 2014, sem send hafi verið þeim sem gerðu athugasemdir, en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við hina auglýstu deiliskipulagstillögu. Þar að auki hafi bréf Isavia borist 15. maí 2014, eða tveimur mánuðum eftir að lögbundinn athugasemdafrestur hafi runnið út.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, komi fram að skipulagsfulltrúi hefði ritað bréf til forstjóra Isavia sama dag, þar sem þakkað hefði verið fyrir ábendingarnar er vörðuðu villur í umsögn embættisins. Umsögn skipulagsfulltrúa hafi svo verið leiðrétt til samræmis við ábendingar Isavia og með bréfi, dags. 26. maí 2014, hafi hún verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga, ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréfi frá Isavia, dags. 23. apríl s.á, og bréfi skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí s.á. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2014, komi fram að Isavia hafi gert athugasemdir við tvö atriði í umsögn Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hafi við auglýsta tillögu og að Reykjavíkurborg hafi leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hafi farið yfir innsend gögn og talið að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin hafi ekki gert athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, og bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi verið lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs 5. júní 2014, ásamt deiliskipulagi Hlíðarenda, en deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hafi verið samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 og málinu því lokið af hálfu borgarinnar. Bréfin hafi af þeim sökum verið lögð fram til kynningar með deiliskipulagi Hlíðarenda, þar sem staða flugvallarins hafi m.a. verið mikið til umræðu. Ekki verði séð að lagðar hafi verið fram athugasemdir eða bókanir vegna þessa.

Að lokum er ítrekað að ábendingar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið á þá leið að nauðsynlegt hafi verið að leggja bréf stofnunarinnar fram til samþykktar, hvorki í umhverfis- og skipulagsráði né borgarráði, enda hafi ekki verið um að ræða athugasemdir sem vörðuðu form- eða efnisgalla, sbr. 42. gr. skipulagslaga, heldur einungis ósk um ítarlegri skýringar á skipulagslegri stöðu svæða sem féllu utan deiliskipulagsins en hefðu verið innan þess í eldra skipulagi flugvallarins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi nýs deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar og ber málatilbúnaður kærenda með sér að fyrst og fremst standi ágreiningur um þá ráðagerð borgaryfirvalda að aðstaða þeirra fyrir einkaflugsstarfsemi í svonefndum Fluggörðum á skipulagssvæðinu eigi að víkja.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur liggja fyrir allar meginforsendur hins kærða deiliskipulags, svo sem að einkaflugsstarfsemi á svæðinu skuli víkja. Var borgaryfirvöldum því heimilt að falla frá gerð lýsingar á skipulagsverkefninu samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og kynningu tillögunnar fyrir íbúum sveitarfélagsins og hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 40. gr. laganna. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og bárust athugasemdir við tillöguna. Að kynningu lokinni var málið til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagsráði. Samþykkti ráðið deiliskipulagstillöguna með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagssviðs frá 10. mars 2014, sem hafði að geyma svör við fram komnum athugasemdum. Var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 27. mars 2014 og staðfest í borgarstjórn hinn 1. apríl s.á. Þess skal getið í tilefni af málatilbúnaði kærenda að ákvörðun um deiliskipulag felur ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til greiðslu bóta í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Eins og rakið er í málavöxtum voru gerðar breytingar á texta í greinargerð á hinum samþykkta skipulagsuppdrætti og fyrrgreindri umsögn skipulagssviðs, sem umhverfis- og skipulagsráð skírskotaði til við afgreiðslu málsins. Greindar breytingar á skipulagsuppdrætti voru gerðar vegna fyrirspurnar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014. Þá var og breytt umsögn skipulagssviðs í tilefni af ábendingum Isavia, dags. 23. s.m. Voru þessar breytingar allar gerðar eftir lokaafgreiðslu borgarstjórnar á deiliskipulagstillögunni hinn 1. apríl 2014.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Eðli máls samkvæmt verður það stjórnvald sem tók upprunalega ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns sjálft að standa að breytingum á henni og er það einnig í samræmi við ákvæði VI. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um afturköllun ákvörðunar o.fl. Ekki liggur fyrir að borgarráð eða borgarstjórn hafi tekið málið til umfjöllunar eftir nefndar breytingar og tekið afstöðu til þeirra, en skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn að taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á skipulagstillögu. Í því sambandi skal áréttað að breytingar þær sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn umhverfis- og skipulagssviðs eftir afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar í borgarstjórn lutu að svörum við fram komnum athugasemdum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem títtnefndar breytingar gátu haft áhrif á afgreiðslu málsins, verður að telja að hið kærða deiliskipulag, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júní 2014, sé haldið slíkum annmörkum að fella beri það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hið kærða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, er tók gildi með auglýsingu nr. 539/2014 í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014, er fellt úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                           Ásgeir Magnússon

_____________________________             ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson

101/2013 Dalsbraut Akureyri

Með

Árið 2015, þriðjudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2013, kæra vegna framkvæmdar deiliskipulags við Dalsbraut á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 9. október 2013, er framsent var 17. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og móttekið þar 21. s.m., kærir E, Heiðarlundi 8a, Akureyri, þá ákvörðun framkvæmdaráðs Akureyrar að fylgja ekki auglýstu deiliskipulagi við gatnagerð og fresta framkvæmdum við uppsetningu umferðar- og gangbrautarljósa, sem og gangbrautar, við Dalsbraut norðan Skógarlundar. Er þess krafist að framkvæmdaráði Akureyrar verði gert að ljúka nefndum framkvæmdum í samræmi við gildandi deiliskipulag og að hagsmunaðilum verði gert að víkja sæti í framkvæmdaráði við meðferð mála er varði Dalsbraut.

Gögn málsins bárust frá Akureyrarbæ 13. desember 2013 og í desember 2015.

Málavextir: Dalsbraut norðan Skógarlundar er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir „Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut“, ásamt síðari breytingum sem gildi tóku 30. nóvember 2012. Svæðið sem deiliskipulagið nær til er götustæði Dalsbrautar, frá Þingvallastræti í norðri að Miðhúsabraut í suðri, ásamt nokkrum fullbyggðum íbúðarsvæðum sem liggja að götunni.

Í kafla 4.5.4 í greinargerð með deiliskipulaginu er m.a. fjallað um umferðaröryggi og segir m.a: „Útfærsla á Dalsbraut norðan Skógarlundar miðast við að takmarka hámarksumferðarhraða við 30 km/klst. Meðal aðgerða eru gangbrautarljós með miðeyju á tveimur stöðum sem verða þannig útfærð að rautt ljós verður að staðaldri bæði á akandi og gangandi umferð. Umferð akandi mun ekki fá grænt ljós nema skynjarar gefi til kynna að engin umferð gangandi sé í nánd við gangbraut. Ef akandi umferð er yfir leyfilegum hámarkshraða mun grænt ljós ekki birtast fyrr en umferð hefur stöðvast við gangbraut. Gangandi vegfarendur þurfa alltaf að ýta á hnapp við umferðarljós til að fá grænt ljós sem heimilar þeim að ganga yfir götuna.“

Framkvæmdaleyfi vegna framlengingar á Dalsbraut frá Þingvallastræti til Miðhúsabrautar var gefið út 17. febrúar 2012, en framkvæmdir munu hafa frestast. Síðan hafa verið gefin út tvö framkvæmdaleyfi. Annars vegar 14. júní s.á. fyrir fyrri hluta sömu framkvæmdar og hins vegar 14. desember s.á. vegna seinni hluta framkvæmdarinnar.

Kærandi, fyrir hönd hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis, beindi erindi til Akureyrarbæjar með tölvupósti 9. september 2013 til að athuga hvað liði frágangi á gangbraut yfir Dalsbraut til móts við Heiðarlund 8, sem og við hljóðmön á „Heiðarlundarsvæðinu“. Var kærandi upplýstur um gang mála með tölvupósti og í svari hans kom fram að hverfisnefndin hygðist ekki bíða um óákveðinn tíma eftir framkvæmdarlokum. Sendi hann í kjölfarið erindi fyrir hönd hverfisnefndarinnar til framkvæmdaráðs Akureyrar með bréfi, dags. 12. s.m. Var þar óskað svara um það hvers vegna framkvæmdum hefði verið frestað við gangbraut og upplýsinga um hvenær stæði til að hækka hljóðmanir við Heiðarlund. Erindið var tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs 24. s.m. og var bæjartæknifræðingi falið að svara erindinu auk þess sem ákveðið var að fara í umferðar- og hraðamælingar á umræddu svæði við Dalsbraut. Í kjölfar slíkra mælinga bauð bæjartæknifræðingur fulltrúum hverfisnefndarinnar á fund til að ræða niðurstöður þeirra. Í svari kæranda frá 22. október s.á. var fundarboði hafnað og kom fram sú afstaða að hverfisnefndin teldi sig ekki hafa umboð til að „… ákveða fyrir hönd hverfisbúa eitthvað annað en stendur í deiliskipulaginu, þ.e. ef hugmyndin er sú að gera eitthvað annað“. Jafnframt kom fram sú afstaða að samþykkt deiliskipulag hlyti að gilda.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að óeðlileg frestun hafi orðið á mikilvægum hluta framkvæmda við Dalsbraut norðan Skógarlundar, sem sé ný gata á Akureyri. Gangbraut sem sé á auglýstu skipulagi hafi ekki verið tekin í gagnið, en auk þess að vera gangbraut með ljósum þá eigi gangbrautarljósin einnig að vera hraðatakmarkandi, líkt og tekið sé fram í greinargerð með deiliskipulagi.

Skipulagsstjóri hafi tilkynnt kæranda að þessi framkvæmd ætti að fara fram áður en skólar hæfust haustið 2013 og hafi bent kæranda á að hafa samband við framkvæmdaráð Akureyrar. Framkvæmdaráðið hafi svarað fyrirspurn kæranda á þann veg að gagnsemi gangbrautarinnar væri til skoðunar auk þess sem aðrar útfærslur yrðu athugaðar, m.a. að teknu tilliti til hraðamælinga og aðstæðna. Síðan hafi liðið þrír mánuðir. Framkvæmdir hafi ekki verið hafnar við gangbrautina, en það sé skylda Akureyrarbæjar að framkvæma samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Við undirbúning deiliskipulagsins hafi íbúar á svæðinu ítrekað óskað eftir því að hraðahindranir yrðu á götunni. Slíkum beiðnum hafi verið hafnað og vísað til þess að yfir götuna yrðu tvær gangbrautir sem myndu gegna því hlutverki að hægja á umferðarhraða. Íbúar séu afar ósáttir við þessi vinnubrögð, enda sé hraði og hávaði óbærilegur. Umferðareyjan sem gangbrautin liggi yfir sé komin, sem og staurar fyrir ljósabúnaði, en engin ljós. Þetta skapi mikla slysahættu þar sem óljóst sé hvort þarna sé gangbraut eða ekki. Einnig sé hætta fyrir akandi umferð. Gatan standi aukinheldur við grunnskóla og íþróttasvæði og því sé þar mikil umferð barna og ungmenna um svæðið.

Hæfi einstakra nefndarmanna framkvæmdaráðsins sé dregið í efa. Sérstaklega þeirra sem þannig séu búsettir að þeir þurfi að fara um Dalsbraut. Þeir hafi hagsmuni af því að komast leiðar sinnar sem hraðast og þá á kostnað íbúa við vegstæðið.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að breyta út af framkvæmd gildandi deiliskipulags Dalsbrautar. Fjármagn á hverjum tíma og samþykkt framkvæmdaáætlun ráði framkvæmdum hvers tímabils.

Þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin þess efnis að breyta deiliskipulagi og hætta við þau umferðarstýrðu gangbrautarljós á Dalsbraut sem hér um ræði sé ekki fyrir hendi kæranleg ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hvert og eitt sveitarfélag verði að haga framkvæmdum sínum samkvæmt samþykktu deiliskipulagi í samræmi við framkvæmdaáætlun hverju sinni og það fjármagn sem sé fyrir hendi til framkvæmda. Því sé ekki ástæða til að taka afstöðu til hæfis nefndarmanna.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Stjórnvöldum er heimilt samkvæmt skipulagslögum að þróa byggð og landnotkun með bindandi skipulagsáætlunum. Kemur nánar fram í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hvaða leyti skuli fjallað um samgöngur í aðalskipulagi og hvernig skuli háttað umfjöllun í deiliskipulagi um samgöngukerfi og umferðarmannvirki. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum koma fram tiltekin útfærsla þar um í deiliskipulaginu Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, en tilefni kærumáls þessa er að framkvæmdum hefur ekki verið lokið í samræmi við hana. Hafa nokkur samskipti orðið milli kæranda og sveitarfélagsins vegna þessa og verður af þeim ráðið að kærandi vilji knýja fram lok framkvæmdanna. Hins vegar liggur ekki fyrir ákvörðun um að breyta þeim hluta deiliskipulagsins sem um ræðir eða að framkvæma á annan veg en þar er mælt um fyrir. Í 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reit þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Það má þó ljóst vera að framkvæmdaraðili verður ekki knúinn til framkvæmda samkvæmt deiliskipulagi, hvort sem leyfi hefur verið gefið út vegna þeirra eða ekki, enda geta framkvæmdir eðli málsins samkvæmt verið háðar ýmsum ytri aðstæðum, s.s. fjármagni. Þar sem ekki verður séð að fyrir liggi nein sú ákvörðun samkvæmt skipulagslögum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurnefnda 52. gr. þeirra laga, verður kærumáli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

96/2008 Krikahverfi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2008, kæra á ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna Krikaskóla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. D, Stórakrika 3, Þ, Stórakrika 5, S, Stórakrika 7, Þ, Stórakrika 9 og B, Stórakrika 11, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 17. júlí 2008 að breyta deiliskipulagi Krikahverfis vegna Krikaskóla. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins hafa ekki borist úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis hinn 17. júlí 2008 að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Fólst breytingin í því að aðkomu að lóð Krikaskóla við Sunnukrika og bílastæðum var breytt, lóðin stækkuð til norðausturs og breytingar gerðar á byggingarreit. Þá var heimiluð hækkun hluta húss í tvær hæðir í stað einnar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. ágúst s.á. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. september 2008.

Skírskota kærendur til þess að um hafi verið að ræða verulega breytingu á nýlegu deiliskipulagi sem hefði átt að sæta almennri meðferð skipulags- og byggingarlaga en ekki aðeins grenndarkynningu. Kærendur hafi mátt treysta því að ekki yrði hróflað við nýlegu skipulagi hverfisins, sem sé frá árinu 2005, en útsýni það sem það deiliskipulag tryggði hafi verið forsenda fyrir kaupum kærenda á lóðum á svæðinu. Með hækkun skólabyggingar úr einni hæð í tvær, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, sé útsýni kærenda frá fasteignum þeirra verulega skert.

Niðurstaða: Eftir að kæra barst í máli þessu leituðu kærendur eftir bótum frá bæjaryfirvöldum Mosfellsbæjar vegna gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Farið var fram á dómkvaðningu matsmanna til að meta áhrif skipulagsbreytingarinnar á verðmæti viðkomandi fasteigna. Lá sú matsgerð fyrir hinn 15. mars 2011. Í kjölfar þess voru greiddar bætur til kærenda að Stórakrika 3, 5, 7 og 9. Kærandi að Stórakrika 11 krafðist yfirmats og er sú matsgerð dagsett 19. júní 2012. Bæjaryfirvöld voru ekki tilbúin að greiða bætur í samræmi við matsgerðina og stefndi kærandi að Stórakrika 11 Mosfellsbæ fyrir dóm til greiðslu bóta vegna gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 15. apríl 2015 í máli nr. E-2550/2014 og greiddi Mosfellsbær kæranda bætur í kjölfar dómsins. Eru greind málsatvik rakin í nefndum dómi.

Í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um bætur til handa þeim sem sýnt gátu fram á að gildistaka deiliskipulags hefði í för með sér verðrýrnun á fasteign þeirra. Hafa kærendur nýtt sér þessa lagaheimild og hafa þegið bætur vegna gildistöku hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Af þeim sökum verða þeir taldir una gildistöku skipulagsins og geta ekki samhliða viðtöku bóta krafist ógildingar skipulagsákvörðunarinnar sem er grundvöllur bótanna. Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. nú 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og þar sem beðið var niðurstöðu dóms í máli um bætur vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

48/2015 Friðarstaðir

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 48/2015, kæra á áskorun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 27. maí 2015 um úrbætur á heimalóð og mannvirkjum að Friðarstöðum í Hveragerði.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir D, Friðarstöðum, Hveragerði, áskorun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 27. maí 2015 þar sem boðað sé „nýtt dagsektamál“.

Gögn málsins bárust frá Hveragerðisbæ 30. júní og 9. desember 2015.

Málavextir: Hinn 27. maí 2015 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja á jörðinni Friðarstöðum í viðunandi horf. Kom þar fram að ásigkomulagi og viðhaldi heimalóðar Friðarstaða, og nokkurra mannvirkja sem á henni stæðu, væri verulega ábótavant svo að hætta stafi af. Einkum væri ástand gróðurhúsa á lóðinni, skráðum í Þjóðskrá sem matshlutar 07, 18 og 19, afar slæmt. Umgengni á heimalóð væri einnig afar slæm og mætti sjá mikinn fjölda lausamuna og væri farið fram á að kærandi fjarlægði ónýta lausamuni og gengi snyrtilega frá nýtanlegum lausamunum. Var í bréfinu tekið fram að ábúanda væri veittur frestur til 31. júlí 2015 til að ljúka úrbótum á greindum gróðurhúsum. Yrði úrbótum ekki lokið innan frests yrði dagsektum beitt til að knýja á um aðgerðir á grundvelli 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar kom og fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grundvelli laga um mannvirki væru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hver frestur væri til að skjóta máli til nefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að efni bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa sé í meginatriðum sama mál og úrskurðarnefndin hafi fjallað um í úrskurði sínum frá 6. nóvember 2014 í máli nr. 113/2012. Leiðbeint hafi verið um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar en kærandi dragi í efa að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.

Varðandi matshluta 07 þá sé þar um að ræða gróðurhús sem sé sambyggt gömlu íbúðarhúsi. Um þann matshluta sé nú fjallað af hálfu úrskurðarnefndar um viðlagatryggingu. Málið sé enn í meðferð þeirrar nefndar, matsmenn hafi verið dómkvaddir og nýlega verið að störfum á jörðinni. Ekki sé hægt að taka ákvörðun varðandi umrætt gróðurhús fyrr en niðurstaða liggi fyrir í því máli. Varðandi matshluta 18 og 19 þá séu þau hús hluti af dómsmáli þar sem kærandi og sveitarfélagið séu aðilar. Dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli E 70/2014 hafi verið kveðinn upp 22. maí 2015, en bréf byggingarfulltrúa sé dagsett 27. s.m. Líkur séu á að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, en áfrýjunarfrestur sé ekki liðinn. Kærandi telji sig ekki geta átt við þessi hús þar til lyktir þess máls liggi fyrir. 

Að öðru leyti sé umgengni á lögbýlinu ekki verri en hjá öðrum aðilum í atvinnurekstri í bænum. Á lögbýlinu séu tveir bílar í eigu aðila sem misst hafi hús sitt í jarðskjálftanum í maí 2008 og flutt burt úr bænum. Hafi þeir lofað að taka bíla sína burtu og verið í samskiptum við sveitarfélagið þar að lútandi. Þá sé erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað við sé átt í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi véla- og tækjahluti.

Loks hafi skipulags- og byggingarfulltrúi, auk lögmanns bæjarins, komið fram fyrir hönd sveitarfélagsins í nefndu dómsmáli. Því sé ljóst að skipulags- og byggingarfulltrúi sé óhæfur til að koma framvegis að málum lögbýlisins Friðarstaða. Vísist um þetta til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skrifa fræðimanna.  

Málsrök Hveragerðisbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ekki sé formlega búið að leggja á dagsektir þó að kæranda hafi verið tilkynnt um að skipulags- og byggingarfulltrúi myndi beita þeim frá og með 1. ágúst 2015 yrði kærandi ekki við áskorun um úrbætur á þremur matshlutum á heimalóð jarðarinnar Friðarstaða. Umrædd gróðurhús hafi verið í niðurníðslu allt frá því að þau hafi verið úrelt árið 2007 með sérstöku samkomulagi milli ábúenda og landbúnaðarráðherra.

Niðurstaða: 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Tilefni máls þessa er bréf skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á jörð kæranda innan tiltekins frests. Segir þar jafnframt að verði kærandi ekki við áskoruninni innan frestsins megi hann búast við að gripið verði til aðgerða skv. 56. gr. mannvirkjalaga til þess að knýja fram úrbætur. Í bréfinu er bent á leiðbeiningarskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda og andmælarétt hans samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sem og kæruheimild vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli mannvirkjalaga. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum 56. gr. mannvirkjalaga verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu hafa dagsektir nú verið lagðar á kæranda. Sú stjórnvaldsákvörðun hefur ekki sætt kæru, en á það skal bent að hún er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

96/2015 Borholur á Kröflusvæði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 30. september 2015 um að veita framkvæmdaleyfi vegna tveggja borhola á Kröflusvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra landeigendur Reykjahlíðar ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 30. september 2015 að veita framkvæmdaleyfi vegna tveggja borhola á Kröflusvæði.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða leyfis. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir: Með bréfi, dags. 12. ágúst 2015, sótti Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi fyrir borun tveggja háhitaborhola K-41 og K-42 á Kröflusvæði. Kom fram í umsókninni að um væri að ræða 1700-2000 m holur og að tilgangur með borun þeirra væri að afla gufu fyrir Kröflustöð. Önnur holan yrði stefnuboruð undir vesturhlíðar Kröflu frá borteig ofan Vítis en þar væru fyrir borholur K-34, K-36, K-38 og K-40. Hin holan yrði stefnuboruð einnig undir vesturhlíðar Kröflu frá borteig hola K-15, K-32 og K-33. Ekki væri þörf á vegagerð en mögulega þyrfti að stækka borteiga lítillega. Umsókninni fylgdi loftmynd sem sýndi áætlaða staðsetningu nefndra hola. Var tekið fram í umsókn að báðar borholur væru á skilgreindu iðnaðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi sveitarfélagsins og innan núverandi vinnslusvæðis Kröflustöðvar.

Á fundi skipulagsnefndar Skútustaðahrepps 17. ágúst 2015 var lagt til við sveitarstjórn að hún samþykkti nefnda umsókn. Athugasemdir komu fram af hálfu kæranda í tölvupósti 24. s.m. og beindi framkvæmdaraðili erindi til sveitarstjórnar með bréfi, , dags. 25. s.m., þar sem afstaða hans til athugasemdanna voru skýrð. Á fundi sínum 26. s.m. frestaði sveitarstjórn afgreiðslu málsins og aflaði álits lögfræðings um málið. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 7. september s.á. og lagði til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi yrði veitt fyrir holu K-42, en frestaði því að fjalla um leyfi vegna holu K-41 vegna vafa um hvort sú hola hefði fengið umfjöllun í ferli mats á umhverfisáhrifum. Sveitarstjórn frestaði málinu að nýju á fundi 9. s.m. í ljósi ágreinings aðila, en sveitarstjórn vildi gefa þeim aukinn tíma til að koma málinu á hreint þannig að sveitarstjórn gæti tekið vel upplýsta ákvörðun varðandi veitingu framkvæmdaleyfis. Sama dag barst tölvupóstur Skipulagsstofnunar um að viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum hefði farið fram vegna fyrirhugaðra viðhaldshola K-41 og K-42 í mati á umhverfisáhrifum Kröflustöðvar árið 2001.

Sveitarstjórn tók málið fyrir að nýju 30. september 2015 og samþykkti að veita framkvæmdaleyfið, sem svo var gefið út 5. október s.á. Hefur framangreind afgreiðsla verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ganga bæði gegn lögum og gildandi skipulagi. Framkvæmdaleyfisumsókn hafi ekki uppfyllt ákvæði 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. ákvæði 5. kafla skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, um þau gögn sem fylgja skuli slíkri umsókn. Útilokað hafi verið fyrir sveitarstjórn að leggja mat á fyrirhugaðar framkvæmdir á grundvelli umsóknarinnar og hafi undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar verið augljóslega áfátt.

Framkvæmdaraðili sé ekki eigandi þess lands sem framkvæmdaleyfi taki til heldur telji hann aðeins til eignarréttar yfir jarðhitaréttindum á svæðinu og mannvirkjagerðar til nýtingar hans. Kærandi sé enn eigandi þess lands þar sem framkvæmdaraðili hafi fengið útgefið framkvæmdaleyfi. Um nokkuð viðamiklar framkvæmdir sé að ræða sem muni óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á eignarland kæranda og fela í sér röskun á hagsmunum hans. Samþykki kæranda eða gild ákvörðun um eignarnám hafi þurft að liggja fyrir. Ekkert liggi fyrir um með hvaða hætti réttur kæranda verði tryggður vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Sveitarstjórn hafi áður tekið til þess afstöðu að framkvæmdaleyfi yrði ekki veitt á umræddu svæði án þess að réttur framkvæmdaraðila til landsins væri áður tryggður, bókun þar um fylgi núgildandi deiliskipulagi og sé hluti af því. Sé hin kærða ákvörðun ólögmæt með vísan til þessa. Loks hafi málsmeðferð verið í ýmsu ábótavant.

Vegna stöðvunarkröfu sinnar bendir kærandi á að framkvæmdir séu yfirvofandi. Allar líkur séu á að fallist verði á kröfu hans um ógildingu og beri því að stöðva framkvæmdir.

Málsrök Skútustaðahrepps: Sveitarfélagið bendir á að veiting framkvæmdaleyfis hafi farið fram í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Þá samræmist leyfið gildandi skipulagsáætlunum, sbr. einkum deiliskipulag um stækkun Kröfluvirkjunar.

Athugasemdir kæranda lúti einkum að ágreiningi um eignarréttarlegar heimildir framkvæmdaraðila til framkvæmda á því svæði sem leyfið varði. Ljóst sé að útgáfa framkvæmdaleyfis varði einkum stöðu framkvæmdar út frá skipulagsáætlunum en veiting slíkra leyfa almennt þýði ekki að tekin sé afstaða til eignarréttarlegra heimilda framkvæmdaraðila. Bókun sveitarstjórnar við deiliskipulag Kröfluvirkjunar vísi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 560/2009. Sveitarstjórn hafi aflað lögfræðiálits við undirbúning framkvæmdaleyfisins sem m.a. hafi fjallað um þetta atriði. Í ljósi þess álits, og skoðunar á ákvæðum samnings aðila frá mars 1971 og heimilda framkvæmdaraðila samkvæmt honum til nýtingar jarðhitaréttinda, hafi við útgáfu hins kærða framkvæmdaleyfis verið byggt á að það varði mannvirki til nýtingar jarðhitaréttinda sem framkvæmdaraðili hafi yfir að ráða. Framkvæmdaleyfið varði einungis slíka mannvirkjagerð.

Vísað sé til reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdinni hafi verið lýst í umsókn og sé í raun einföld viðhaldsframkvæmd fyrir Kröfluvirkjun. Eðli máls samkvæmt taki umfang framkvæmdaleyfisumsóknar mið af eðli framkvæmdar, hvort deiliskipulag liggi fyrir og að leyfisveitandi geti þegar haft önnur þau gögn sem nauðsynleg séu vegna útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá hafi sveitarfélagið aflað álits Skipulagsstofnunar um stöðu framkvæmdar vegna mats á umhverfisáhrifum. Sé því mótmælt að stjórnsýsla sveitarfélagsins hafi verið óvönduð.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að öll lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi til útgáfu umrædds framkvæmdaleyfis skv. skipulagslögum nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Leyfið sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Í gildandi aðalskipulagi sé umrætt borsvæði skilgreint sem iðnaðarsvæði. Í deiliskipulagi sé fjallað um borholur og á uppdrætti sé fyrirhugað framkvæmdasvæði skilgreint sem iðnaðarsvæði. Borteigar séu afmarkaðir á uppdrættinum með sérstökum lit og verði fyrirhugaðar viðhaldsholur boraðar innan umræddra borteiga. Allar tengingar verði innan fyrirliggjandi teiga við lagnir sem fyrir séu. Rúmist framkvæmdin því alfarið innan marka deiliskipulagsins.

Umræddar holur séu viðhaldsholur ætlaðar til að viðhalda fullri vinnslu Kröflustöðvar sem byggð hafi verið á árunum 1975-1977. Árið 2001 hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum fyrir 40MW stækkun virkjunarinnar og hafi þar verið gert ráð fyrir að afla gufu á núverandi borsvæðum. Matið hafi því m.a. fjallað um fyrirhugaðar viðhaldsholur. Sveitarstjórn hafi leitað til Skipulagsstofnunar til að kanna hvort framkvæmdir við umræddar borholur væru í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. Hafi sá skilningur verið staðfestur af Skipulagsstofnun að svo sé.

Ríkissjóður hafi yfirtekið jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar með samningi frá árinu 1971 og á árinu 2006 hafi verið gert samkomulag milli íslenska ríkisins og framkvæmdaraðila um afnot af jarðhitaréttindum, m.a. samkvæmt samningnum frá 1971. Fjöldi fordæma séu fyrir því að framkvæmdaraðili hafi fengið útgefin leyfi fyrir framkvæmdum á svæðinu, án athugasemda. Hafi verið litið svo á að íslenska ríkið og framkvæmdaraðili hafi öðlast umráð til nýtingar lands vegna jarðhita samkvæmt samningi aðila frá 1971 og hafi sú túlkun verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2009.

Vegna stöðvunarkröfu sé tekið fram að henni beri að hafna, en um mikla fjárhagslega hagsmuni leyfishafa sé að ræða.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og er ákvörðun um slíka frestun undantekning frá þeirri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Ljóst er að verulegir hagsmunir bæði kæranda og framkvæmdaraðila geta verið bundnir við þá framkvæmd sem hin kærða ákvörðun heimilar og krafist hefur verið stöðvunar á. Framkvæmdin er yfirvofandi en framkvæmdaraðili hefur nýtt jarðhitaréttindi á svæði því sem um ræðir um langt skeið. Langvarandi deilur hafa spunnist um þau eignarréttindi sem þeirri nýtingu tengjast og í kærumáli þessu er meðal annars deilt um þýðingu dóms Hæstaréttar í máli nr. 560/2009 í því samhengi. Þá er deilt um hvort hið kærða leyfi samræmist ákvæðum í deiliskipulagi sem lúta að nefndum eignarréttindum, sem og um málsmeðferð vegna leyfisins. Hin umdeilda framkvæmd er fyrirhuguð á svæði sem þegar er nýtt af framkvæmdaraðila til virkjunar jarðvarma í verulegu mæli. Verður að telja hagsmuni hans af frekari nýtingu jarðvarma á svæðinu vega þyngra en hagsmuni kæranda af því að þola hana. Þegar litið er til alls framangreinds verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun framkvæmda, enda ber framkvæmdaraðili af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

19/2012 Borgarhlíð Stykkishólmi

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2012, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar frá 10. febrúar 2012 um útgáfu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7 og 9 í Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2012, er barst nefndinni hinn 7. s.m., kærir L, Borgarhlíð 1, Stykkishólmi, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar frá 10. febrúar 2012 um útgáfu vottorða vegna lokaúttektar Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7, og 9 í Stykkishólmi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Greinargerð barst frá Stykkishólmsbæ 10. apríl 2012 og gögn í málinu bárust á árinu 2015.

Málavextir: Á árinu 2005 var samþykkt byggingarleyfi vegna byggingar raðhúsanna nr. 1, 3, 5, 7 og 9 við Borgarhlíð. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands voru umrædd hús reist á árinu 2006. Kærandi festi kaup á fasteigninni að Borgarhlíð 1 hinn 11. desember 2007 og fékk hana afhenta í janúar 2008. Á árinu 2010 óskaði kærandi eftir því við verkfræðistofu að gerð yrði úttekt á húsinu þar sem orðið hefði vart við leka innanhúss frá þaki og veggjum. Með bréfi, dags. 2. ágúst 2011, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá Stykkishólmsbæ um lokaúttekt vegna fasteignarinnar. Kærandi var upplýstur með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar, dags. 10. s.m., um að ekki hefði verið gerð lokaúttekt á eignarhluta hans. Í kjölfar þess fór kærandi fram á að slík úttekt yrði framkvæmd.

Lokaúttekt fór fram á eignarhlutum Borgarhlíðar 3, 5, 7 og 9 hinn 18. janúar 2012 og á eignarhluta kæranda 25. s.m., að honum og fulltrúa hans viðstöddum. Við lokaúttektina gerði kærandi athugasemdir við frágang hússins og jafnframt kom byggingarstjóri hússins sjónarmiðum sínum á framfæri. Hinn 10. febrúar 2012 voru gefin út fimm lokaúttektarvottorð, eitt fyrir hvern eignarhluta.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi árangurslaust kvartað við byggingarstjóra hússins vegna leka í eignarhluta sínum. Það standist ekki kröfur laga og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að gefa út fimm vottorð með mismunandi athugasemdum vegna úttektar mannvirkisins. Um sé að ræða eitt mannvirki í skilningi mannvirkjalaga nr. 160/2010. Raðhúsið sé auk þess fjöleignarhús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og þar með sé allt ytra byrði þess í sameign. Byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir því í heild sinni, það verið reist í einu lagi og lokið hafi verið við byggingu þess á sama tíma. Það að hver eignarhluti sé sérstök fasteign, sbr. 15. gr. laga um mat og skráningu fasteigna nr. 6/2001, geti ekki breytt því að um eitt mannvirki sé að ræða. Húsnæði sé ófullgert þar til lokaúttekt hafi farið fram. Skuli hún gerð á húsinu öllu, sbr. orðalag gr. 53 í tilvitnaðri byggingarreglugerð. Athugasemdir sem varði sameign verði að koma fram á vottorði fyrir allt húsið. Þá hafi byggingarstjóri verið vanhæfur til að taka út húsið sem fulltrúi slökkviliðsins og sé í því sambandi vísað til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Byggingarfulltrúi verði að taka með skriflegum hætti afstöðu til athugasemda sem fram komi áður en lokaúttektarvottorð sé gefið út. Hafi allar athugasemdir kæranda lotið að sameign hússins. Þannig hafi verið bent á að vart hefði orðið við leka í húsinu, frágangur á þaki væri og ekki fullnægjandi og ástæða til að byggingarstjóri kannaði það nánar. Einnig væri þéttilisti á samsetningu veggeininga að austanverðu ekki í samræmi við teikningar og leiðbeiningar frá framleiðenda þeirra. Þá væri frágangur á timburþaki, sem sé með minna en 14° halla, ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar um vatnsþétt undirlag undir báraðri málmklæðningu. Loks hefði verið bent á að múr hefði losnað af sökkli þannig að múrnet væri þar sýnilegt að hluta og að á suðvesturhorni hússins væri eining með stórri sprungu.

Um alvarlegar athugasemdir sé að ræða sem farið geti í bága við ákvæði byggingarreglugerðar. Geti raki sem myndist vegna leka valdið heilsutjóni. Í gr. 54 í byggingarreglugerð segi m.a. að komi fram við lokaúttekt atriði sem þarfnist úrbóta skuli byggingarfulltrúi setja byggingarstjóra og byggjanda tímafrest til að ljúka endurbótum. Þá sé unnt sé að gefa út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga.

Umsögn byggingarverkfræðings, er liggi fyrir í málinu, lúti ekki að úttekt á frágangi þaks og þakvirkis eða frágangi steyptra eininga. Í henni komi aðeins fram að frágangur sá sem sýndur sé á aðsendri deiliteikningu sé algeng lausn á timburþaki hérlendis og að með þeim gæðum á undirlagspappa sem tilgreindur sé teljist kröfur byggingarreglugerðar uppfylltar. Fráleitt sé að unnt sé með þessum hætti að samþykkja þakfrágang sem ekki sé í samræmi við ákvæði í byggingarreglugerð. Umrætt þak sé með 8° halla og þurfi að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar með tilliti til þess, sbr. gr. 136 í reglugerðinni.

Byggingarfulltrúa hafi borið að kanna hvort frágangur stæðist kröfur byggingarreglugerðar, ellegar að leggja fyrir byggingarstjóra að bæta úr. Ekki komi fram hvort frágangur þaks hafi verið skoðaður og liggi því ekki fyrir hvort hann sé í samræmi við samþykktar teikningar. Jafnframt sé ljóst að hornafrágangur steyptra eininga sé ekki í samræmi við það sem fram komi í téðri umsögn. Þá verði að telja furðulegt að byggingarfulltrúi leggi til grundvallar, án nokkurra sannana, bókun byggingarstjóra um að framleiðandi hefði fullyrt að nota mætti slíka einingu á suðvesturhorni.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu Stykkishólmsbæjar er bent á að kærumálinu beri að vísa frá úrskurðarnefndinni með vísan til forsendna í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 16. mars 2010, í máli nr. 79/2009.

Í umræddri raðhúsalengju séu fimm eignarhlutar. Hver um sig sé sérstakur matshluti með sér númeri og gerður hafi verið lóðarleigusamningur fyrir hvern þeirra. Nefndir eignarhlutar hafi verið afhentir á mismunandi byggingarstigum, þeir séu misstórir og mismunandi hvað varði innra skipulag. Því hafi byggingarfulltrúi talið eðlilegt að gefa út vottorð fyrir hvern eignarhluta fyrir sig en hafa í öllum vottorðunum samhljóða ákvæði um þau atriði sem lúti að þeim sameiginlega. Sjálfsagt sé að gefa út eitt vottorð fyrir öll húsin sé þess óskað. Sú staðreynd að byggingarstjóri hafi jafnframt verið slökkviliðsstjóri skipti varla máli þar sem úttektin sé framkvæmd af byggingarfulltrúa.

Lokaúttektin hafi farið fram í samræmi við lög og reglur. Legið hafi fyrir yfirlýsing frá byggingarstjóra um að byggingarframkvæmdin hefði verið unnin í samræmi við samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir, sbr. 35. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þá sé þess getið í vottorðum að merki um leka frá þaki hefðu komið upp innanhúss og að byggingarstjóri hafi brugðist við því með því að endurnýja að hluta til neglingu þess. Ekki hafi borið á leka síðan. Þannig hafi ekki annað verið séð við lokaúttekt en að búið væri að laga umræddan leka. Engu að síður hafi hans verið getið í vottorði.

Við fokheldisúttektir hafi ekki verið gerðar athugasemdir við frágang á samskeytum veggeininga. Byggingarstjóri hafi lýst því yfir og lagt fram gögn um að frágangur hefði verið í samræmi við leiðbeiningarblöð frá framleiðslufyrirtæki eininganna. Sex ár séu liðin frá því að húsið hafi verið gert fokhelt og ekki sé óeðlilegt að komið sé að viðhaldi á ytra byrði þess, s.s. endurnýjun á þéttingum við samskeyti. Byggingarfulltrúa sé ekki kunnugt um hvers vegna múr hafi losnað af sökkli. Geti það gerst vegna höggálags og eigi því ekki við sem athugasemdir í lokaúttekt.

Tilgangur lokaúttektar sé að vera liður í eftirliti byggingarfulltrúa. Kaupendur eigna í byggingu geti ekki gert þær kröfur að skilaástand eignanna sé staðreynt af byggingarfulltrúa og að hann knýi á um úrbætur, sbr. t.d. forsendur í fyrrgreindum úrskurði.

Álit Mannvirkjastofnunar: Úrskurðarnefndin óskaði þess með bréfi, dags. 14. maí 2014, að Mannvirkjastofnun, sem sérfróður aðili, léti í ljós álit sitt á því hvort nefnd ákvörðun um útgáfu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7 og 9 í Stykkishólmi væri í samræmi við lög og reglur. Barst álit Mannvirkjastofnunar hinn 23. febrúar 2015.

Í áliti Mannvirkjastofnunar kemur m.a. fram að það samræmist ákvæðum 36. gr. laga um mannvirki að gefa út lokaúttektarvottorð fyrir hluta mannvirkis. Eigi sú túlkun stoð í ákvæðum gr. 3.9.3. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fram komi að í vottorði um lokaúttekt eigi m.a. að tiltaka til hvaða hluta mannvirkis úttekt hafi náð. Jafnframt sé bent á að lokaúttekt sé framkvæmd af byggingarfulltrúa og á hans ábyrgð, en slökkviliðsstjóri gegni einungis umsagnarhlutverki. Byggingarstjóri verks sé faglegur fulltrúi eiganda og gegni því mikilvægu hlutverki við byggingarframkvæmdir. Eðlilegt sé því að slökkviliðsstjóri víki sæti við framkvæmd lokaúttektar, sé hann jafnframt byggingarstjóri mannvirkis.

Það er jafnframt álit Mannvirkjastofnunar að komi fram athugasemdir við lokaúttekt, um að ákvæði byggingarreglugerðar séu ekki uppfyllt, sé eðlilegt að byggingarfulltrúi taki afstöðu til réttmætis þeirra áður en lokaúttektarvottorð sé gefið út. Lágmarksþakhalli fyrir bárujárn á pappaklætt undirlag eigi að vera 14°, sbr. gr. 136.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Taki stofnunin undir að vandaður undirlagspappi geti uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar um aðalregnvörn og geti talist þar til gert efni miðað við minni þakhalla en 14°. Stofnunin hafi ekki gögn til að vefengja að efnisval sem tilgreint sé á uppdráttum uppfylli skilyrði reglugerðarinnar.

——-

Aðilar hafa fært fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar í máli þessu.

Niðurstaða: Hinn 16. mars 2010 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 79/2009, þar sem kæru vegna lokaúttektar var vísað frá úrskurðarnefndinni. Í kjölfar úrskurðarins tók umboðsmaður Alþingis málið til skoðunar og með áliti sínu hinn 13. september 2011 var þeim tilmælum beint til úrskurðarnefndarinnar að taka málið til nýrrar meðferðar, bærist beiðni þar um, meðal annars á þeirri forsendu að hann féllist ekki á þá niðurstöðu nefndarinnar að útgáfa lokaúttektarvottorðs væri ekki stjórnvaldsákvörðun. Verður með vísan til framangreinds ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Í máli þessu er gerð krafa um að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 10. febrúar 2012, um útgáfu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7 og 9 í Stykkishólmi, verði felld úr gildi. Um er að ræða raðhús með fimm eignarhlutum og er kærandi þinglýstur eigandi Borgarhlíðar 1.

Um ábyrgð eiganda mannvirkis og tilhögun byggingareftirlits er fjallað í IV. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 15. gr. laganna ber eigandi m.a. ábyrgð á því að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið að kröfum laganna, og reglugerða settra á grundvelli þeirra, en byggingarstjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Kemur og fram í 2. mgr. 27. gr. sömu laga að byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans og skal hann gæta réttmætra hagsmuna eiganda, m.a. gagnvart byggingaryfirvöldum. Skal hann gera eftirlitsaðila viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta og vera viðstaddur úttektir, sbr. 6. mgr. 29. gr. laganna.

Útgáfa úttektarvottorða er liður í því eftirliti byggingarfulltrúa með byggingarframkvæmdum sem honum er falið að lögum, sbr. 2. mgr. 16. gr. mannvirkjalaga, og er þar m.a. um að ræða vottorð um öryggisúttekt og lokaúttekt, sbr. 3. mgr. nefnds lagaákvæðis. Um öryggisúttekt er nánar fjallað í 35. gr. laganna og um lokaúttekt í 36. gr. þeirra. Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum og er óheimilt að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur mannvirkjalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim og útgefandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt, sbr. 1. mgr. 35. gr. Við lokaúttekt skal svo gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði mannvirkjalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim og hvort byggt hefur verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, sbr. 3. mgr. 36. gr. Segir jafnframt í 5. mgr. þeirrar lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur, lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Samkvæmt fyrirmælum í 2. mgr. 35. gr. og 2. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga skulu, auk eftirlitsaðila, bæði byggingarstjóri og fulltrúi slökkviliðs vera viðstaddir hvort sem er öryggis- eða lokaúttekt, en jafnframt er gert ráð fyrir að iðnmeistarar og hönnuðir mannvirkisins geti verið viðstaddir. Geta nefndar úttektir eftir atvikum farið fram samtímis, sbr. 1. mgr. nefndrar 36. gr., og verður að telja að sú hafi verið raunin í því tilviki sem hér um ræðir samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað við meðferð málsins. Í athugasemdum við nefndar lagagreinar, í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum, kemur fram að ákvæði byggingarreglugerðar um stöðuúttekt og lokaúttekt hefðu ekki virkað sem skyldi. Stöðuúttekt ætti að gera áður en mannvirki væri tekið í notkun en hún væri afar sjaldan framkvæmd í raun. Þá væri misbrestur á að lokaúttektir færu fram. Kemur fram að lagt sé til að styrkja stöðu þeirrar úttektar sem kölluð hefði verið stöðuúttekt og yrði hún eftirleiðis kölluð öryggisúttekt. Segir jafnframt svo í athugasemdunum: „Mjög varasamt og jafnvel hættulegt getur verið að taka í notkun ófullgerð mannvirki ef ekki er hugað að öryggi þeirra og hollustuháttum. Eldvarnir, burðarþol og fallvarnir geta verið ófullgerðar og slysagildrur leynst víða.“

Fram hefur komið að byggingarstjóri umræddra húsa kom jafnframt fram sem fulltrúi slökkviliðsins við lokaúttektina. Starfsmaður er vanhæfur til meðferðar máls skv. 5. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Ljóst er af því sem áður hefur verið rakið að samkvæmt mannvirkjalögum er byggingarstjóri í lykilhlutverki við mannvirkjagerð og ber hann ábyrgð samkvæmt því. Þannig kemur m.a. fram í 5. mgr. 29. gr. nefndra laga að komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja megi til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, beri byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda svo fremi sem ágallarnir hefðu ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit skv. 1. málsl. ákvæðisins. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að athugasemdir um brunavarnir hafi komið fram við nefnda lokaúttekt. Þá verður ekki fullyrt að niðurstaða um lokaúttekt hefði orðið önnur ef byggingarstjóri og fulltrúi slökkviliðs hefði ekki verið einn og sami maður. Framhjá því verður þó ekki litið að byggingarstjóri hafði hagsmuna að gæta í skilningi áðurnefnds 5. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga og með hliðsjón af því öryggishlutverki sem viðvera fulltrúa slökkviliðs hlýtur að þjóna, eins og að framan hefur verið rakið, var þáttur hans í meðferð málsins svo veigamikill að um verulegan málsmeðferðarannmarka var að ræða sem leiða ber til ógildingar.

Eins og áður er rakið gerir kærandi ekki einungis kröfu um að vottorð vegna lokaúttektar eignarhluta hans verði fellt úr gildi heldur einnig vottorð vegna lokaúttektar á öðrum eignarhlutum raðhússins. Hvorki í ákvæðum mannvirkjalaga né þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 er kveðið sérstaklega á um hvort heimilt sé að gefa út vottorð fyrir hvern eignarhluta fyrir sig í þeim tilvikum þegar um fjöleignarhús er að ræða, eins og hér háttar. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem tekið hafði gildi þegar hin umdeildu vottorð um lokaúttekt voru gefin út, kemur hins vegar fram í gr. 3.9.3. að koma skuli fram í nefndu vottorði til hvaða mannvirkis, eða eftir atvikum hluta þess, lokaúttekt hafi náð. Að teknu tilliti til framangreinds tekur úrskurðarnefndin undir það álit Mannvirkjastofnunar, sem er sérfróður aðili á þessu sviði, að heimilt hafi verið að gefa út lokaúttektarvottorð fyrir hvern eignarhluta fyrir sig. Ekki er hægt að útiloka að ákvörðun byggingarfulltrúa um að gefa út lokaúttektarvottorð fyrir eignarhluta, sem ekki eru í eigu kæranda, snerti hans hagsmuni, enda um fjöleignarhús að ræða. Það verður þó ekki framhjá því litið að heimild stóð til þess að svo yrði gert og að sama skapi liggur fyrir að aðrir eigendur hússins hafa ekki kært þá ákvörðun. Ógilding á ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu lokaúttektarvottorðs verður því einskorðuð við eignarhluta kæranda.

Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu kæranda með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við álitsumleitan.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Stykkishólmi frá 10. febrúar 2012 um útgáfu vottorðs um lokaúttekt Borgarhlíðar 1 í Stykkishólmi.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 3, 5, 7 og 9.

______________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________    ______________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

46/2013 Krossholt Langholt í Vesturbyggð

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2013, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Ó, fyrir hönd eigenda jarðarinnar Kross í Vesturbyggð, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð, að því er varðar spildu úr landi Haga á Barðaströnd, á landamerkjum Haga og jarðarinnar Kross. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt fer kærandi fram á „… að úrskurðarnefndin ítreki fyrri úrskurð þess efnis að ekki verði veitt byggingarleyfi vegna“ byggingar á spildu Vesturbyggðar úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal, ásamt því að framkvæmdir verði ekki heimilaðar á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Vesturbyggð 5. júlí 2013.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011, í málinu 43/2011, var felld úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggðist á því að fyrrgreind bygging hefði ekki fallið að skilgreindri landnotkun Aðalskipulags Vesturbyggðar 2006-2018, en svæðið sem leyfið tók til var þar skilgreint sem iðnaðarsvæði.

Í kjölfar úrskurðarins var ráðist í breytingu á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Um var að ræða breytingu á landnotkun á þeim hluta skipulagssvæðisins sem ágreiningur í fyrrnefndum úrskurði snerist um. Breytingin fólst í því að það sem áður var skilgreint sem iðnaðarsvæði I2, varð að athafnasvæði A1 og verslunar- og þjónustusvæði V9. Auglýsing um þessa breytingu á aðalskipulaginu birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. nóvember 2011. Enn var gerð breyting á aðalskipulaginu á árinu 2013, m.a. að því er varðar sama svæði. Breytingin fólst í því að verslunar- og þjónustusvæði V9 varð tvískipt, annars vegar fyrir saumastofu og hins vegar fyrir ferðaþjónustu. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. apríl 2013.

Samhliða breytingu á aðalskipulagi var ákveðið að láta vinna deiliskipulag fyrir sama svæði. Skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar vann að gerð tillagna frá nóvember 2011 til ágúst 2012. Fundur með íbúum og hagsmunaaðilum var haldinn 12. september 2012 og á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. s.m. var samþykkt tillaga að deiliskipulagi, með fyrirvara um breytingar í samræmi við athugasemdir og ábendingar. Á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. var tillagan samþykkt með sömu fyrirvörum og ákveðið að auglýsa hana skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún auglýst til kynningar frá 21. nóvember 2012 til 9. janúar 2013.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. febrúar 2013 kom fram að athugasemdir í 10 töluliðum hefðu borist frá kæranda á auglýsingartíma. Lögmanni sveitarfélagsins hafði verið falið að veita umsögn um athugasemdir kæranda og á fundi nefndarinnar var farið yfir nefnd atriði og þau rædd. Lagt var til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt, með vísan til umsagnar lögmannsins, og var hún samþykkt á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 25. s.m. Voru færðar til bókar athugasemdir bæjarstjórnar við hvert atriði í athugasemdum kæranda og einnig vísað til umsagnar lögmannsins. Með bréfi, dags. 26. s.m., kynnti byggingarfulltrúi kæranda ákvörðun bæjarstjórnar og umsögn um athugasemdir hans við deiliskipulagstillöguna.

Eftir athugun Skipulagsstofnunar birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí 2013, um nýtt deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð og skaut kærandi samþykkt deiliskipulagsins til úrskurðarnefndarinar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi segir upphaf málsins vera það að hann hafi á árinu 2011 kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal. Úrskurðarnefndin hafi fallist á sjónarmið hans og fellt ákvörðunina úr gildi. Þrátt fyrir orð Vesturbyggðar um að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar við húsið hefðu þær haldið áfram á árinu 2011. Skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar hefði síðan verið sent erindi í upphafi árs 2012, sem tekið hefði verið fyrir á fundi og byggingarfulltrúa þá falið að taka saman greinargerð um stöðu mála. Byggingarfulltrúi hefði farið í vettvangsskoðun 1. febrúar 2012 og hafi það verið fyrstu viðbrögð af hálfu Vesturbyggðar frá því að úrskurðarnefndin hefði fengið málið inn á sitt borð. Af þessu megi vera ljóst að Vesturbyggð hafi virt að vettugi ákvörðun úrskurðarnefndarinnar. Einn stjórnarmanna byggingaraðilans sé jafnframt bæjarfulltrúi í Vesturbyggð og honum hafi því verið vel kunnugt um það allan tímann að framkvæmdir væru í gangi. Á annað hundrað fjár hafi verið sett inn í bygginguna í nóvember og desember 2012 en féð hefði verið hýst í húsum nefnds bæjarfulltrúa fram að þeim tíma.

Til að réttlæta þessa ólöglegu byggingu hafi Vesturbyggð eytt fjármunum sveitarfélagsins í það að breyta aðalskipulagi og deiliskipulagi þannig að byggingin gæti rúmast innan skipulags. Þetta sé framkvæmt á þann hátt að fá viðkomandi svæði samþykkt undir landbúnaðartengda ferðaþjónustu og samþykkja síðan í kjölfarið að áður samþykktar byggingarnefndarteikningar muni gilda sem skipulagsskilmálar fyrir viðkomandi lóð. Hins vegar sé alveg ljóst að um fjárhús sé að ræða. Kærandi kveðst hafa sent athugasemdir vegna þessa við kynningu á þessum skipulagsbreytingum.

Samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 séu skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis þau m.a. að „… mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu“. Þar sem notkun umdeildrar byggingar sé fjárhús samræmist það ekki núverandi skipulagsáætlunum né heldur áformum um landbúnaðartengda ferðaþjónustu og beri því að stöðva starfsemi í húsinu. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 11.1, sé óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þetta ákvæði sé einnig skýrt í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en grunnur byggingarinnar hafi verið reistur á gildistíma þeirra laga.

Í fyrrgreindri skipulagsreglugerð, gr. 4.14, komi fram að landbúnaðarsvæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar. Þetta ákvæði megi einnig sjá í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018, bls. 47 í greinargerð. Af þeim sökum geti umdeilt svæði ekki verið skilgreint sem landbúnaðartengt svæði, enda sé umrædd landspilda í eigu Vesturbyggðar en þar sé hvorki lögbýlisréttur né tilheyri spildan bújörð eða lögbýli.

Málsrök Vesturbyggðar: Því er mótmælt að Vesturbyggð hafi á einhvern hátt virt að vettugi fyrrnefndan úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011. Þvert á móti hafi verið farið í að breyta aðalskipulagi til að leiðrétta villur sem þar hefðu verið varðandi stærð iðnaðarlóða. Í framhaldi af því hefði síðan verið ákveðið að láta vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og hafi við þá vinnu m.a. verið kallað eftir afstöðu og sjónarmiðum íbúa þar. Þar sem að stórum hluta hefði verið um að ræða deiliskipulagningu á núverandi byggð hefði þótt nærtækast að samþykktar byggingarnefndarteikningar yrðu látnar gilda um núverandi byggingar á svæðinu, þ.m.t. þá byggingu sem framangreindur úrskurður hefði tekið til. Hefði verið veitt leyfi fyrir þeirri byggingu undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði.

Í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, nánar tiltekið í 53. gr., sé kveðið á um heimild til handa skipulagsfulltrúa að krefjast þess að ólögleg framkvæmd verði fjarlægð. Byggingarfulltrúi Vesturbyggðar hafi metið það svo að ekki væri ástæða til að nýta nefnda heimild til að láta fjarlægja umrædda byggingu áður en skipulagi væri breytt. Ákvæði gr. 1.11 í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998, um skyldu til að fjarlægja mannvirki í tilteknum tilvikum áður en ráðist sé í skipulagsbreytingar, eigi ekki við í málinu vegna ósamræmis við áðurnefnda 53. gr., enda hafi eldri skipulagsreglugerð eingöngu gilt eftir því sem hún samræmdist lögum nr. 123/2010 eftir gildistöku þeirra.

Auk framangreinds virðist ákveðins misskilnings gæta af hálfu kæranda þegar hann haldi því fram að það svæði sem hin umdeilda bygging standi á geti ekki verið skilgreint sem landbúnaðartengt svæði þar sem það sé ekki landbúnaðarsvæði í skilningi laga. Breyting hafi verið gerð á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 í október 2011. Í þeirri breytingu hafi m.a. falist að iðnaðarsvæði I2 hafi orðið að athafnasvæði A1 og verslunar- og þjónustusvæði V9. Einnig hafi verið gerðar leiðréttingar vegna stærðar tveggja lóða á iðnaðarsvæði I2. Í nýju deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að svæðið vestan Móru verði skilgreint sem íbúðarsvæði og svæði fyrir frístundabyggð, auk þess sem verslunar- og þjónustusvæði V9 verði tvískipt, annars vegar fyrir saumastofu og hins vegar fyrir ferðaþjónustu. Samkvæmt þessu verði svæðið ekki skilgreint sem landbúnaðarsvæði.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýr að gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð. Stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og reglugerðum settum með stoð í þeim sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. laganna, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011 felld úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011, um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal. Kærandi byggir kæru sína nú einkum á því að ólögmætt hefði verið að breyta skipulagi svæðis þess sem hin umdeilda bygging stendur á fyrr en byggingin hefði verið fjarlægð. Það hafi ekki verið gert og því skuli ógilda hið kærða deiliskipulag.

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var kveðið á um það í 4. mgr. 56. gr. að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Nefnt ákvæði féll brott með nýjum skipulagslögum nr. 123/2010, sem höfðu tekið gildi þegar vinna hófst við hið kærða deiliskipulag. Ákvæði í 2. mgr. gr. 11.1 í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem var í aðalatriðum samhljóða áðurnefndri 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, hafði því ekki lengur lagastoð og verður ekki á því byggt í málinu. Samkvæmt því er ljóst að Vesturbyggð var heimilt að breyta skipulagi hins umdeilda svæðis þrátt fyrir að framangreind bygging hefði ekki verið fjarlægð.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Verður við endurskoðun lögmætis ákvarðana er þau mál varða því fyrst og fremst gætt að því hvort rétt hafi verið staðið að töku ákvarðana í samræmi við VIII. kafla laganna og hvort málefnaleg rök hafi búið að baki ákvörðun.

Breytingar á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 fóru fram jafnhliða gerð hins umdeilda deiliskipulags. Með fyrri breytingu frá 4. nóvember 2011 var svæði sem áður var skilgreint sem iðnaðarsvæði I2, og fjallað var um í áðurnefndum úrskurði frá 2. september 2011, nú skilgreint sem A1 athafnasvæði og V9 svæði fyrir verslun og þjónustu. Samkvæmt breytingunni sem tók gildi 15. apríl 2013 er svæði V9 nú tvískipt, annars vegar fyrir saumastofu og hins vegar fyrir ferðaþjónustu. Á deiliskipulagsuppdrætti hinnar kærðu ákvörðunar er spilda sú sem fjallað er um í kæru nú skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði og í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að í byggingu á spildunni verði rekin landbúnaðartengd ferðaþjónusta. Þar koma enn fremur fram nánari skilmálar um útlit  byggingarinnar, frágang á lóð og búfjárhald. Hvað þennan hluta deiliskipulagssvæðisins varðar, og einnig að öðru leyti, verður ekki annað séð en að deiliskipulagið sé í samræmi við hið breytta aðalskipulag og uppfylli þar með ákvæði 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Jafnframt er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt.

Deiliskipulagstillagan var kynnt íbúum á viðkomandi svæði áður en hún var tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Vesturbyggðar. Tillagan var auglýst og fram komnum athugasemdum vegna hennar svarað. Þá var hún rædd og samþykkt í bæjarstjórn að undangenginni umfjöllun í skipulags- og byggingarnefnd. Gildistaka deiliskipulagsins var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögmæltri athugun Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin form- eða efnisannmörkum sem áhrif geta haft á gildi hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

54/2015 Sorpgjöld á Akranesi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2015, kæra á álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda hjá Akraneskaupstað fyrir árin 2014 og 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Jaðarsbraut 25, Akranesi, ákvörðun Akraneskaupstaðar frá 25. júní 2015 um endurálagningu sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalda fyrir árið 2014 og álagningu sömu gjalda fyrir árið 2015. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin ákvarði lækkun áðurnefndra gjalda fyrir árin 2014 og 2015.

Gögn málsins bárust frá Akraneskaupstað 2. september 2015.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en með úrskurði í máli nr. 30/2014, uppkveðnum 27. mars 2015, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvörðun Akraneskaupstaðar um að leggja á fasteign kæranda að Furugrund 16, Akranesi, sorphreinsunar- og eyðingargjald fyrir árið 2014. Var það gert á þeim forsendum að gjaldskrá nr. 1285/2013 fyrir hirðingu og eyðingu sorps í Akraneskaupstað hefði ekki verið sett í samræmi við ákvæði 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærandi í því máli er sá sami og kærandi í máli því sem hér er til úrlausnar.

Á fundi bæjarstjórnar Akraness 9. júní 2015 var ákveðið að endurákvarða sorpgjöld vegna ársins 2014 þannig að allur tekjuafgangur vegna sorphirðu fyrir árið 2014, 6.178.371 kr., var notaður til lækkunar álagningar sorphreinsunar- og eyðingargjalda ársins 2014. Þannig var sorphreinsunargjald á hverja fasteign fyrir árið endurákveðið 14.799 kr. í stað 16.095 kr. og sorpeyðingargjald var ákveðið 12.620 kr. í stað 13.725 kr., alls lækkun um 2.401 kr. fyrir hverja fasteign. Jafnframt var ákveðið að sú fjárhæð sem gjöldin voru lækkuð um skyldi dregin frá áður álögðum sorp- og eyðingargjöldum fyrir árið 2015. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun bæjarstjórnar með bréfi bæjarstjóra, dags. 10. s.m., þar sem tilgreindar voru þær fjárhæðir sem endurgreiddar yrðu. Í bréfinu var jafnframt vakin athygli á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Gjaldskrá nr. 556/2015, fyrir hirðingu og eyðingu sorps í Akraneskaupstað, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní 2015. Þar segir í 2. mgr. 3. gr.: „Í samræmi við ákvæði laga nr. 29 frá 1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta, skal endurálagning 2014, ásamt vöxtum í samræmi við ákvæði laganna, dregin frá eftirstöðvum álagningar vegna ársins 2015 eða endurgreidd við gildistöku gjaldskrár þessarar hafi gjöldin vegna 2015 verið greidd í heild.“

Tilkynning um breytingu á fasteignagjöldum 2014 var send út í lok júní 2015 og greiðsluseðill er dags. 15. júlí s.á. Hefur kærandi kært þá álagningu, eins og áður sagði, sem og álagningu fyrir árið 2015.

Málsrök kæranda:
Kærandi kveðst vera ósammála forsendum endurálagningar sorpgjalda á Akranesi fyrir árið 2014 og að lækka hefði átt þau enn frekar. Þá beri að ógilda álagningu fyrir árið 2015 þar sem sú álagning byggist á gjaldskránni fyrir árið 2014, sem úrskurðuð hafi verið ógild. Við álagningu sorpgjalda hafi stjórnvöld á Akranesi ekki tekið mark á ábendingum kæranda varðandi of háan stjórnunarkostnað af sorpmálum, kostnað sem ranglega hafi verið færður á málaflokkinn en ekki eigi að tilheyra honum og loks sé ekki tekið tillit til hagnaðar Akraneskaupstaðar af Sorpurðun Vesturlands í Fíflholtum.

Við endurákvörðunina hafi gjöldin fyrir árið 2014 verið lækkuð um 6,1 milljón kr. en kærandi telji að taka hefði átt frekara tillit til hagnaðar við málaflokkinn nokkur ár á undan, nánar tiltekið frá árinu 2010, en það ár hafi verið hætt að innheimta gjöld af fyrirtækjum vegna sorpmála og rekstur sorphirðu boðinn út. Afkoma þessara ára, að áætlun fyrir árið 2015 meðtalinni, sé samkvæmt bókhaldi bæjarins 24.064.401 kr. og ef millifærður stjórnunarkostnaður sé tekinn út nemi hagnaður 41.816.974 kr. Inni í þessari tölu sé arður vegna eignarhluta Akraneskaupstaðar í sorpurðunarstöðinni í Fíflholtum, sem kærandi telji eðlilegt að sé talinn með þegar lagt sé mat á afkomu málaflokksins. Arðgreiðslur vegna sorpurðunar í Fíflholtum hafi verið 6.409.290 kr. á árunum 2010-2015.

Óeðlilegar millifærslur séu í rekstri bæði Gámu og málaflokks 08-21 vegna stjórnunarkostnaðar. Þær fjárhæðir séu algerlega óskilgreindar og notaðar til að færa niður hagnað af málaflokknum. Bærinn þurfi lítið að hafa fyrir þessum málaflokki. Bæði umsýsla vegna Gámu og innheimta sé í öðrum höndum en bæjarstarfsmanna og umfang því hverfandi.

Á árinu 2010 hafi töluvert átak verið gert í hreinsun lóða hjá fyrirtækjum í bænum og hafi þeim verið heimilað að losa sig við sorp án endurgjalds. Að öllum líkindum megi skýra tap á Gámu á því ári með þessu.

Í rekstri Gámu sé kostnaðarfærður svokallaður grófurðunarstaður og annar staður fyrir losun á garðaúrgangi, sem bæði íbúar og fyrirtæki geti komið á og losað. Kostnaður bæjarins felist í því að flytja jarðvegsúrganginn úr móttökugryfju yfir á grófurðunarstaðinn. Þessi kostnaður mælist örugglega í nokkrum milljónum á tímabilinu 2010-2014 og sé líklega færður sem kostnaður í Gámu.

Fjárhagsáætlun ársins 2015 hafi ekki verið breytt í samræmi við afkomu ársins 2014, þrátt fyrir að fyrir liggi að afkoma þess árs hafi verið mjög góð og samið hafi verið við núverandi verktaka út árið 2015. Eðlilegt sé að horfa til þess þáttar þegar komi að gjaldtöku fyrir árið 2015. Bæjarstjórn hafi hins vegar ekki séð ástæðu til að taka upp gjaldskrá ársins 2015 og breyta þrátt fyrir að gjaldskrá ársins 2014 hafi verið úrskurðuð ólögleg. Geri kærandi því kröfu um að gjaldskráin 2015 verði úrskurðuð ólögmæt.

Málsrök Akraneskaupstaðar: Af hálfu Akraneskaupstaðar er bent á að vísa beri frá kröfum kæranda um lækkun gjalda vegna endurálagningar 2014 og kröfu um ómerkingu álagningar gjalda vegna ársins 2015, ellegar að þeim beri að hafna. Þá beri að hafna kröfu kæranda um ómerkingu endurálagningar gjalda vegna ársins 2014.

Varðandi sorpgjöld vegna ársins 2015 taki sveitarfélagið fram að ákvörðun um fjárhæð gjaldanna hafi verið tekin við fjárhagsáætlunargerð í desember 2014. Álagning hafi farið fram og verið kynnt greiðendum í janúar 2015 og sé kærufrestur vegna álagningar ársins 2015 því liðinn. Kærandi hafi ekki gert fyrirvara við greiðslu sorpgjalda fyrir árið 2015 eða gert nokkrar aðrar athugasemdir við álagningu þeirra fyrr en nú. Setning og birting nýrrar gjaldskrár vegna endurálagningar gjalda fyrir árið 2014 breyti engu um álagningu fyrir árið 2015.

Varðandi endurákvörðun gjalda fyrir árið 2014 hafi ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir það ár legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um lækkun gjaldanna. Ákveðið hefði verið að allur tekjuafgangur málaflokka sorpgjalda, að fjárhæð 6.178.371 kr., yrði nýttur til lækkunar gjaldanna og að auki hefði verið greiddur vaxtakostnaður í samræmi við ákvæði laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta. Lækkun gjaldanna hefði því byggst á rauntölum ársins 2014. Leiðréttingin hefði verið framkvæmd með útsendingu greiðsluseðla 15. júlí 2015.

Rekstur sorphirðu og sorphreinsunar vegna heimilissorps sé færður undir tvo málaflokka hjá Akraneskaupstað. Annars vegar málaflokk 08-hreinlætismál og hins vegar málaflokk 53-Gámu. Vegna reglna um virðisaukaskatt sé nauðsynlegt að hafa rekstur móttökustöðvar í sérstöku fyrirtæki, Gámu, sem sé alfarið í eigu Akraneskaupstaðar. Gáma „selji“ þjónustu sína yfir á málaflokk 08-hreinlætismál og saman myndi þessir tveir málaflokkar heildarniðurstöðu rekstrar sorpmála kaupstaðarins.

Eftirtaldir liðir hafi verið lagðir til grundvallar við endurákvörðun sorpgjalda fyrir árið 2014 samkvæmt bókhaldi:

1.    Tekjur samkvæmt ársreikningi: 76.733.156 kr.
2.    Gjöld samkvæmt ársreikningi: 70.554.785 kr.
a)    Sameiginlegur kostnaður, aðkeypt þjónusta ofl.: 61.874.149 kr.
b)    Annar kostnaður v/stjórnunarkostnaðar og umsýslu bæjarskrifstofu: 5.597.569 kr.
c)    Millifærð gjöld v/starfsmanna áhaldahúss: 335.175 kr.
d)    Kostnaður v/reksturs húsnæðis Gámu: 1.360.745 kr.
e)    Afskriftir v/fastafjármuna í Gámu: 1.108.272 kr.
f)    Fjármagnsliðir Gámu: 278.875 kr.

Skýringar við einstaka gjaldaliði:
a) Stærsti gjaldaliðurinn sem falli undir þennan lið sé vegna kaupa á þjónustu Íslenska gámafélagsins ehf. vegna sorphirðu á Akranesi, rúm 51 milljón kr. Næst komi gjaldaliður vegna þjónustu Sorpurðunar Vesturlands hf., rúmar 9 milljónir, vegna sorpurðunar heimilissorps á Akranesi og byggi gjaldtakan á opinberri gjaldskrá fyrirtækisins. Aflað hafi verið staðfestingar hjá fyrirtækinu um að reikningar sem sendir séu á Akraneskaupstað séu einungis vegna blandaðs heimilisúrgangs íbúa á Akranesi. Aðrir og minni gjaldaliðir séu lífeyrissjóðsskuldbindingar, kostnaður við endurskoðun, rafþjónusta, önnur aðkeypt vinna og þjónustu- og leyfisgjöld.

b) Um sé að ræða samtölu reiknaðs kostnaðar vegna umsýslu/vinnu nánar tilgreinds starfsfólks stjórnsýslu- og fjármálasviðs og skipulags- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar og vegna hlutdeildar í beinum útgjaldaliðum. Einnig sé um að ræða hlutdeild í kostnaði vegna póstburðargjalda vegna innheimtunnar, innheimtukostnað vegna fasteignagjaldanna og vegna reksturs tölvukerfis.

c) Um sé að ræða nánar tilgreinda vinnu/umsýslu starfsmanna í áhaldahúsi Akraneskaupstaðar en þeir tilheyri skipulags- og umhverfissviði.

d) Fjárhæðin sé samtala rekstrarkostnaðar að fjárhæð 734.302 kr. vegna sorpvinnsluhúss og 626.443 kr. vegna sorpgæsluhúss.

e) Fjárhæðin sé samtala afskrifta af fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum, sem sé reiknuð í samræmi við ákvæði í reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga nr. 944/2000 og auglýsingu um reikningsskil sveitarfélaga nr. 790/2001. Þar sé um að ræða afskriftir fasteigna og annarra mannvirkja, sem og vegna véla og áhalda.

f) Fjárhæðin sé samtala vaxtagjalda og vaxtatekna af skuld/inneign við aðalsjóð, sem reiknuð sé í samræmi við ákvæði í reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga og auglýsingu um reikningsskil sveitarfélaga.

Kostnaður vegna svokallaðs „moldartipps“, sem sé móttaka á garðúrgangi, sem að stærstum hluta komi frá heimilum, sé færður undir málaflokk 11-umhverfismál en ætti samkvæmt reikningsskilareglum að vera færður undir málaflokk 08-hreinlætismál, a.m.k. að hluta. Kostnaður vegna vinnu verktaka við þennan lið yfir sumarmánuðina sé 1.820.650 kr. og sé varlega áætlað að a.m.k. helmingur kostnaðarins sé vegna heimila, eða um 900.000 kr.

Sorphirða hjá lögaðilum falli utan verksviðs Akraneskaupstaðar. Fyrirtækin velji sér þjónustuaðila og greiði fyrir þá þjónustu. Sérstakt sorphreinsunarátak hafi farið fram árið 2011 og kostnaðurinn hafi verið færður á málaflokk 11-umhverfismál. Hafi hann því enga þýðingu haft fyrir ákvörðun sorpgjalda.

Sorpurðun Vesturlands hf. hafi verið stofnuð árið 1998 og sé í eigu tíu sveitarfélaga á Vesturlandi. Kostnaður vegna þjónustu fyrirtækisins byggist á gjaldskrá en tekjum sé ætlað að standa undir fjárfestingum og rekstri félagsins. Starfsemin sé leyfisskyld og lúti eftirliti Umhverfisstofnunar. Enginn eðlismunur sé á þessu fyrirtæki og öðrum sem Akraneskaupstaður sé eignaraðili að og samkvæmt sveitarstjórnalögum nr. 138/2011 og reglum settum samkvæmt þeim beri að færa tekjur (arð) af eignarhlutum undir málaflokk 28-fjármunatekjur og fjármagnsgjöld, sbr. auglýsingu nr. 414/2001 um flokkun og greiningu í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Því sé hafnað að taka beri mið af afkomu Sorpurðunar Vesturlands hf. við ákvörðun um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á Akranesi, enda um að ræða arð af fjármagni sem lagt hafi verið í fyrirtækið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda í Akraneskaupstað fyrir árin 2014 og 2015.

Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar fer samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda kæranda fyrir árið 2015 er dagsettur 16. janúar 2015 og verður við það að miða að kæranda hafi þá verið kunnugt um álagninguna. Rann kærufrestur vegna hennar því út 17. febrúar s.á., eða tæpum fimm mánuðum áður en kærandi bar fram kæru sína. Ber af þeim sökum að vísa frá þeim hluta kærumálsins er varðar álagningu fyrir árið 2015. Þykir ekki koma til álita að beita undanþáguákvæði 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar litið er til þess að kærandi hefur áður kært mál til úrskurðarnefndarinnar og er því kunnugur kæruferlinu persónulega. Auk þess hefur hann í fyrri trúnaðarstörfum sínum fyrir Akraneskaupstað komið að málum er tengdust kærum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en sú nefnd er forveri úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem um giltu sambærilegar reglur um kærufresti. Þá þykir ákvæði 2. tl. 1. mgr. 28. gr. ekki eiga við.

Kærandi krefst þess að ákvörðun bæjarstjórnar um endurálagningu fyrir árið 2014 verði felld úr gildi og jafnframt að álagningin verði lækkuð. Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, ásamt reglugerðum settum með stoð í þeim, sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun. Því verður ekki fjallað frekar um þá kröfu kæranda að nefndin ákvarði um lækkun álagningar fyrir árið 2014.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málsl. 2. mgr. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr., sbr. einnig 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998.

Þegar um þjónustugjöld ræðir, s.s. fyrir sorphirðu og -eyðingu, þurfa yfirlitstölur um kostnað og tekjur af tilgreindum málaflokki að sýna að skilyrðum laga sé framfylgt, þ.e. að álögð gjöld séu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu, sbr. þau lagaákvæði sem rakin hafa verið. Þurfa þeir kostnaðarliðir sem lagðir eru til grundvallar að standa í nánum og efnislegum tengslum við þjónustuna sem tilgreind er í gjaldtökuheimildinni. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja m.a. sundurliðaðar rekstrartölur vegna sorpmála fyrir árið 2014 og útskýringar Akraneskaupstaðar á því hvernig þær eru færðar í bókhaldi sveitarfélagsins. Ræður úrskurðarnefndin af þeim gögnum að þeir kostnaðarliðir standi í nægilegum tengslum við þá þjónustu sem veitt er. Verður lögmæti nefndra bókhaldsupplýsinga ekki dregið í efa, enda hefur ársreikningur sveitarfélagsins verið endurskoðaður og samþykktur í samræmi við lög og reglur þar um.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu voru gjöld fyrir hirðingu og eyðingu sorps í Akraneskaupstað fyrir árið 2014 endurákvörðuð með setningu gjaldskrár nr. 556/2015, sem sett var í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní 2015. Við álagningu gjalda vegna sorphirðu er jafnan gengið út frá rekstraráætlun komandi árs en við endurákvörðun gjaldanna fyrir árið 2014 lágu rauntölur ársins fyrir og var sú leið farin að endurgreiða gjaldendum upphæð sem samsvaraði hagnaði ársins vegna þessa málaflokks, 6.178.371 kr. Er því ljóst að álagning fyrir árið 2014 uppfyllti lögmætisskilyrði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, enda var gjaldið ekki hærra en sem nam kostnaði sveitarfélagsins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda vegna sorphirðu- og eyðingargjalda hjá Akraneskaupstað fyrir árið 2015 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu álagningar sorphirðu- og eyðingargjalda hjá Akraneskaupstað fyrir árið 2014.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

100/2015 Hringrás

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar, frá 3. nóvember 2015, um álagningu dagsekta á Hringrás hf. frá og með 11. sama mánaðar vegna vanskila á magntölum úrgangs.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að leggja dagsektir á fyrirtækið vegna vanskila á magntölum úrgangs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Athugasemdir Umhverfisstofnunar vegna kröfu kæranda bárust nefndinni 13. og 18. nóvember 2015.

Málavextir: Kærandi rekur endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna hérlendis og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Skv. 1. mgr. 19. gr. laganna skulu rekstraraðilar fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegund og magn úrgangs, og um uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Skýrslan skal vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Skýrslurnar skulu gerðar aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi afhenti ekki umrædda skýrslu á tilsettum tíma og með bréfi, dags. 12. júní 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun honum um áform um áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Var honum veittur frestur til 26. s.m. til að bæta úr, með afhendingu upplýsinganna, eða til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi tjáði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 25. júní 2015, að hann teldi að birting umræddrar skýrslu myndi raska viðskiptahagsmunum sínum og valda sér tjóni. Var kæranda veitt áminning vegna vanskila á magntölum úrgangs með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Frestur var veittur til úrbóta til og með 4. september s.á.

Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 2. september 2015, að fá að skila inn tveimur skýrslum til Umhverfisstofnunar. Önnur skýrslan átti að vera á því formi sem stofnunin hafði þegar lagt til en hin átti að geyma samandregnar upplýsingar um magntölur úrgangs og vera til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. s.m., var beiðni kæranda hafnað. Kærandi kærði framangreindar ákvarðanir með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. s.m. Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa þeirra ákvarðana var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 29. október 2015.

Með bréfi, dags. 11. september 2015, barst kæranda tilkynning frá Umhverfisstofnun þar sem boðuð voru áform stofnunarinnar um að leggja dagsektir á kæranda, sbr. heimild í 3. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003, vegna vanskila á magntölum úrgangs sem honum bæri að skila skv. 19. gr. sömu laga. Með tölvupósti 3. nóvember s.á. ítrekaði kærandi þá afstöðu sína að hann væri fús til að skila nefndum magntölum til Umhverfisstofnunar, svo framarlega sem ekki yrðu birt persónugreinanleg gögn á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. sama dag, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að gera honum dagsektir vegna vanskila á magntölum úrgangs að fjárhæð 10.000 krónur á dag. Dagsektirnar voru lagðar á „frá og með 11. nóvember 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist stofnuninni“. Hefur þessi ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur mikla hagsmuni í húfi fyrir sig verði þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun óski eftir gerðar opinberar á því formi sem stofnunin leggi til. Í umræddum skýrslum sé að finna viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sér í lagi hjá kæranda vegna rekstrarforms hans, sem geti skaðað samkeppnisstöðu hans. Kærandi hafi nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera ákvarðanir Umhverfisstofnunar undir úrskurðarnefndina og sú ákvörðun stofnunarinnar að leggja á kæranda dagsektir áður en niðurstaða sé fengin í málinu dragi úr lögbundnum og stjórnarskrárvörðum rétti hans til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana er hann varði. Kæruheimild 67. gr. laga nr. 55/2003 væri þýðingarlaus fyrir kæranda ef ákvörðun Umhverfisstofnunar um að leggja á hann dagsektir stæði óhögguð meðan á meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni stæði, sérstaklega með tilliti til langs málsmeðferðartíma nefndarinnar.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun fer fram á að kröfum kæranda verði hafnað. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/2003 hvíli sú skylda á rekstraraðilum að skila viðkomandi skýrslum fyrir 1. maí ár hvert. Jafnframt hvíli skylda á Umhverfisstofnun að taka við þeim og gera þær aðgengilegar á heimasíðu sinni. Loks fari fram mikil úrvinnsla upplýsinga úr skýrslunum og Umhverfisstofnun hafi þá skyldu að safna viðkomandi tölfræðiupplýsingum og senda áfram samkvæmt skyldum Íslands gagnvart samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði (EES) og loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, þ.e. til Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og skrifstofu loftslagssamningsins. Um sé að ræða u.þ.b. 10 skýrslur árlega með þremur skiladögum. Mikilvægt sé að Umhverfisstofnun standi skil á skýrslunum á réttum tíma og því áríðandi að rekstraraðilar standi skil á sínum upplýsingum samkvæmt framangreindu. Frekari töf á því en þegar sé orðin myndi leiða til þess að forsendur upplýsingagjafar stofnunarinnar yrðu ófullnægjandi og því sé nauðsynlegt að stofnunin fái nefndar upplýsingar hið fyrsta. Skili Umhverfisstofnun ekki tölfræðiupplýsingunum til framangreindra aðila gildi almennar reglur um brot á skyldum Íslands skv. EES-samningnum og þjóðréttarlegum skyldum.

Umhverfisstofnun hafi gætt meðalhófs í málinu og færð hafi verið fram skýr rök fyrir kröfum stofnunarinnar. Kærandi hafi fengið eðlilega fresti og hafi fundað með stofnuninni um málið. Kærandi hafi verið áminntur og stofnunin geti ekki látið hjá líða að framfylgja lagaskyldu í nafni meðalhófs. Dagsektir séu þvingunarúrræði og geti ákvörðun um dagsektir eðli málsins samkvæmt verið íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Það sé einmitt tilgangur dagsekta að vera þvingandi til aðgerða en þó ekki sem refsing eða refsikennd viðurlög, þar sem lagðar séu á sektir vegna tiltekins háttalags sem átt hafi sér stað. Dagsektir séu úrræði stjórnvalda til að breyta háttsemi rekstraraðila til framtíðar, þannig að stjórnvaldið geti gert skyldu sína samkvæmt lögum og reglugerðum og gagnvart öðrum stjórnvöldum, öðrum rekstraraðilum og almenningi til að tryggja það að rekstraraðilar starfi í samræmi við þær réttarheimildir sem um starfsemi þeirra gildi.

Umhverfisstofnun telji ekki rétt að fresta réttaráhrifum þvingunarúrræða á þeim forsendum að þau geti verið íþyngjandi. Í því liggi rökin fyrir þvingunarúrræðum, að þau knýi á um að aðili fari að leikreglum og lögmætum tilmælum stjórnvalda. Ef stjórnvöld ættu einungis að nota áhrifaminni tæki til að hafa áhrif á hagsmuni aðila svo að þeir breyttu rétt, svo sem veitingu áminningar, þá gæti það leitt til þess að stjórnvöld yrðu vanmáttug til að taka á brotlegum aðilum með markvissum hætti, sem sé í andstöðu við það hlutverk og þá ábyrgð sem stjórnvöldum sé falið. Ákvarðanir stjórnvalda séu kæranlegar til æðra stjórnvalds og fái aðilar sem kæri efnisúrskurð í málum sínum, en meginreglan sé sú að kæra skuli ekki fresta réttaráhrifum nema að veigamikil rök knýi á um slíkt.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda¬mála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Ágreiningur í máli þessu snýst að grunni til um skyldu kæranda skv. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs til að láta Umhverfisstofnun í té upplýsingar um magntölur úrgangs er kærandi hefur meðhöndlað á undangengnu ári. Snýst ágreiningurinn aðallega um það hversu miklar upplýsingar Umhverfisstofnun skuli birta á heimasíðu sinni, en kærandi telur að með birtingu persónugreinanlegra upplýsinga geti viðskiptahagsmunir hans beðið skaða. Hefur Umhverfisstofnun nú þegar veitt kæranda áminningu og frest til úrbóta skv. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003. Kærumál vegna þeirrar ákvörðunar bíður afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun felur í sér að lagðar eru á kæranda 10.000 króna dagsektir fyrir hvern dag er líður án þess að kærandi skili Umhverfisstofnun hinum umdeildu magntölum. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera undir úrskurðarnefndina réttarágreining um lögmæti kröfu þeirrar um afhendingu magntalna sem dagsektarákvarðanir Umhverfisstofnunar lúta að. Stofnunin hefur lýst því að úrvinnsla slíkra talna fari fram hjá stofnuninni áður en þeim sé skilað til alþjóðastofnana í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Verði endanleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á þann veg að kæranda beri að skila nefndum tölum til Umhverfisstofnunar á því formi sem hún krefst gefst stofnuninni færi á að vinna úr þeim tölum og uppfæra upplýsingar sínar til alþjóðastofnana í samræmi við það. Að sama skapi er ljóst að verði endanleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar kæranda í hag verður hann ekki þvingaður til þeirra aðgerða sem stofnunin stefnir að með álagningu dagsekta. Að öllu virtu þykja þeir hagsmunir sem Umhverfisstofnun vísar til ekki vera svo brýnir að þeir vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að þurfa ekki að sæta þvingunarúrræðum, svo sem dagsektum, vegna athafna sem ágreiningur er uppi um hvort séu lögmætar á meðan sá ágreiningur hefur ekki verið til lykta leiddur hjá úrskurðarnefndinni, sem hefur ágreiningsmálið til meðferðar. Í því sambandi verður ekki litið fram hjá því að ákveðinn vafi er uppi um lagaskyldu þá sem hér er um deilt og verður að svo stöddu að skýra þann vafa kæranda í hag.

Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinna kærðu ákvörðunar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 3. nóvember 2015 um álagningu dagsekta á Hringrás hf. frá 11. sama mánaðar vegna vanskila á magntölum úrgangs.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                              Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon