Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2016 Kólumbusarbryggja

Árið 2022, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Tekin er fyrir endurupptaka máls nr. 59/2016, kæra á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusar­bryggju 1, Snæfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 4. nóvember 2016, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála óskaði þáverandi lögmaður Móabyggðar ehf. eftir endurupptöku á máli nr. 59/2016. Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 19. ágúst 2016 var hafnað kröfu kæranda um ógildingu  ákvörðunar Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. október 2021, var fallist á beiðni kæranda um endur­upptöku málsins á þeim grundvelli að skilyrði endurupptöku skv. 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru uppfyllt. Byggði ákvörðunin á niðurstöðu úrskurðar yfir­fasteigna­matsnefndar þess efnis að hin umrædda fasteign skyldi aðeins bera lóðarmat frá árinu 2015 til 5. desember 2016 og að fráveitugjöld fyrir árin 2015 og 2016 hefðu í kjölfarið verið endurútreiknuð. Jafnframt var vísað til dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-63/2019 frá 14. apríl 2021 sem fjallaði meðal annars um fasteignagjöld vegna Kólumbusarbryggju 1, en þau samanstanda m.a. af fráveitugjöldum þeim sem til umfjöllunar eru í kærumáli nr. 59/2016.

Þegar niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um endurupptöku málsins lá fyrir hafði fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 14. apríl 2021 verið áfrýjað til Landsréttar og var frekari meðferð málsins því frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í dómsmálinu. Með dómi Landsréttar í máli nr. 301/2021 frá 14. október 2022 var Snæfellsbær sýknaður af kröfum kæranda. Í niðurstöðu dómsins segir m.a.: „Í fjórða lagi krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi endurgreiði sér fasteignagjöld vegna tímabilsins 1. júlí 2015 til 15. maí 2018, samtals að fjárhæð 14.041.684 krónur auk dráttarvaxta. Líkt og áður greinir bar gagnáfrýjanda engin skylda til að samþykkja niðurrif húsnæðis aðaláfrýjanda og bar honum lögum samkvæmt að greiða fasteignagjöld þar til það samkomulag sem náðist milli aðila kom til framkvæmda. Standa því engin rök til endurgreiðslukröfunnar.“

Kærendur óskuðu eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar og var beiðni þeirra hafnað með bréfi, dags. 21. desember 2022. Er dómur Landsréttar frá 14. október s.á. því endanlegur dómur í málinu.

 Niðurstaða: Með vísan til þess sem að framan er rakið þá liggur fyrir dómur Landsréttar í máli nr. 301/2021 frá 14. október 2022 þar sem sveitarfélagið var sýknað af kröfum kæranda um endurgreiðslu fasteignagjalda vegna tímabilsins 1. júlí 2015 til 15. maí 2018. Fasteignagjöld samanstanda meðal annars af fráveitugjöldum og varða því þann ágreining sem kærumál þetta snýst um. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættis­mörk yfirvalda og hafa þeir því lokaorð um þann ágreining sem undir þá er borinn.

Með greindum dómi verður ekki annað ráðið en að ágreiningsefni er varðar greiðslu fráveitu­gjalda hafi endanlega verið leidd til lykta. Þar með verður ekki talið að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu fráveitugjalda og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.