Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2016 Legsteinasafn í landi Húsafells

Árið 2016, föstudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan, og ákvörðun byggingar¬fulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni 3. s.m., kærir landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitar¬stjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells í Borgarbyggð. Verður að skilja málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 24. og 26. ágúst og 6. og 12. september 2016.

Málavextir: Lóð kæranda og hin deiliskipulagða lóð liggja í landi jarðarinnar Húsafells í Borgarbyggð og munu vera um 40 m á milli húss kæranda, þar sem rekin er gististarfsemi, og húss þess sem hýsa á legsteinasafn.

Í byrjun árs 2014 hófst vinna við nýtt deiliskipulag fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Tók deiliskipulagið til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss, sem voru m.a. ætlað að hýsa steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli ásamt því að gert var ráð fyrir uppbyggingu á legsteinasafni fyrir Húsafellslegsteina frá 19. öld. Að lokinni málsmeðferð skipulagstillögunnar var hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 12. janúar 2016 var samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir áður¬greint legsteinasafn í landi Húsafells.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að margir gallar séu á hinu kærða deiliskipulagi, sem m.a. felist í að rangt landnúmer sé á tillögunni, ósamræmi sé á milli hnita og uppdráttar, ekki hafi verið leitað álits umsagnaraðila auk þess sem ekkert samráð hafi verið haft við eigendur aðliggjandi lóða. Jafnframt nái bílastæðabókhald til nágrannalóðar og ekki sé gert ráð fyrir stærri fólksflutningabílum.

Kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um gerð deiliskipulagsins og hafi því ekki haft ástæðu til að fylgjast með auglýsingum um deiliskipulag í nágrannalandi þar sem skipulagsfulltrúi hafi borið að leita eftir áliti hans sem eiganda aðliggjandi jarðar áður en skipulagið hafi verið auglýst. Sé þess krafist að kærufrestur miðist við þá dagsetningu sem starfsmaður Borgarbyggðar hafi afhent kæranda deiliskipulagsuppdráttinn, þ.e. 27. júlí 2016. Vegna rangs landnúmers í auglýsingu skipulagsins, hafi verið útilokað að átta sig á til hvaða svæðis deiliskipulagið tæki til.

Það safnhús sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé staðstett langt utan byggingarreits. Samkvæmt mælipunktum á deiliskipulagi sé fjarlægð frá lóðarmörkum 11,3 m en á samþykktum aðalteikningum sé sú fjarlægð 5,5 m. Fyrirhuguð staðsetning safnsins muni valda miklum erfiðleikum við rekstur gistiheimilis kæranda. Aðkoma að því og bílastæðum sé tekin í burtu samkvæmt deiliskipulaginu þannig að stæðin verði augljóslega notuð af gestum safnsins. Fyrirhugað sé að stækka gistiheimili kæranda en það verði ómögulegt ef af fyrirhugaðri uppbyggingu verði. Muni kærandi af þessum sökum verða af miklum tekjum. Jafnframt verði erfitt að reka gistiheimili í nálægð við mikinn átroðning safngesta á hlaði gistiheimilisins. Megi gera ráð fyrir miklum fjölda gesta þegar nýtt safn hafi verið byggt en ekki hafi verið gerðar áætlanir af því tilefni. Augljóst sé að fyrirhuguð bílastæði beri ekki þann mikla fjölda gesta sem megi gera ráð fyrir.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið andmælir því að hin umdeilda bygging sé langt utan byggingarreits. Augljóst sé að mistök hafi orðið við gerð hnitaskrár deiliskipulagsins þar sem fjöldi hnita samkvæmt skránni séu 17 talsins en að punktar á uppdrættinum sjálfum séu 21. Hafi hnitaskráin ekki uppfærst líkt og hún eigi að gera við gerð deiliskipulagsins. Skýrist ósamræmi milli skipulagsuppdráttar og hnitaskrár af framangreindu. Skipulagsuppdrátturinn komi á undan hnitaskráningu í ferlinu og ráði staðsetningu hnitanna og eigi því að líta til uppdráttarins fremur en hnitaskrárinnar. Skipulags¬uppdrátturinn sé í samræmi við aðal¬uppdrátt fyrirhugaðra mannvirkja sem samþykktur hafi verið á afgreiðslufundi byggingar¬fulltrúa 12. janúar 2016.

Hið kærða skipulag hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 og verði því að líta svo á að kærufrestur sé löngu liðinn, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hafi kæranda verið kunnugt um hið kærða deiliskipulag í rúmt ár áður en hann lagði fram kæru í málinu. Jafnframt sé bent á að ekki sé verið að fækka bílastæðum á lóð Húsafells 1. Umrædd bílastæði falli ekki undir deiliskipulagið og ekki felist afsal á bílastæðum í deiliskipulaginu þar sem afsal eigna verði ekki ákveðið í skipulagsáætlunum.

Þrátt fyrir að rangt landnúmer hafi verið gefið upp í kynntum uppdrætti, hafi engu að síður verið gerð grein fyrir heiti jarðanna á svæðinu, lóðamörkum og heiti þeirra húsa sem á lóðunum standi í samræmi við d-lið 4. mgr. gr. 5.3.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá sé þar að finna heiti skipulagsins, þ.e. Steinharpa, og heiti sveitarfélagsins í samræmi við gr. 7.1. í reglugerðinni en á það sé bent að ekki sé gerð krafa um að landnúmer sé tilgreint í deiliskipulagi.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi það fengið lögboðna málsmeðferð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þar sé einnig kveðið á um að ef um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur vera frá birtingu. Hið kærða deili¬skipulag hafi öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 og byggingar¬leyfið verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2016. Kæra sé sett fram tæplega 13 mánuðum eftir að hið kærða deiliskipulag tók gildi og sjö mánuðum eftir að byggingarfulltrúi samþykkti kært byggingarleyfi. Hafi byggingarframkvæmdir staðið yfir á umræddum deiliskipulagsreit frá haustinu 2015 án afláts eftir að byggingaráform fyrir húsi A, sem sýnt sé á deiliskipulagi, hafi verið samþykkt.

Fullyrðingu kæranda um að fyrirhugað mannvirki sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé staðsett langt utan við byggingarreit sé mótmælt sem rangri. Mælingamaður hafi verið fenginn til þess að setja út lóðarmörk og byggingarreit í samræmi við gildandi uppdrátt deiliskipulagsins og komi fram í minnisblaði hans að staðsetning hússins sé í samræmi við deiliskipulags¬uppdráttinn. Í ljós hafi komið sú hnitaskrá sem sé tilgreind í deilskipulaginu sé röng og hafi hönnuðir deiliskipulagsins viðurkennt það en engu að síður sé skipulagsuppdrátturinn réttur. Bent sé á að öll mannvirki sem hafi verið reist séu í samræmi við umræddan skipulagsuppdrátt og hafi það verið staðfest með reyndarmælingum á svæðinu. Þá sé á það bent að gert sé ráð fyrir tveimur stæðum fyrir fatlaða auk þess sem hvergi sé þess getið að leyfishafi hyggist fá afnot af stæðum kæranda.

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015. Kæra í málinu barst 3. ágúst 2016 eða um 13 mánuðum eftir lok kærufrests. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema talið sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. sömu greinar er hins vegar kveðið á um að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Verður þeim hluta máls þessa er lýtur að hinu kærða deiliskipulagi af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hvað varðar hið kærða byggingarleyfi miðast kærufrestur við það tímamark hvenær kærandi hafi mátt vita um samþykki leyfisins. Byggingaráformin voru samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2016. Leyfishafi hefur upplýst að byrjað hafi verið að vinna við grunn hússins í ágúst 2016 og liggja ekki fyrir úttektir byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna. Þá kemur fram í fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og embættis byggingarfulltrúa frá 26. júlí s.á. að kærandi hafi þá þegar haft byggingarnefndarteikningar undir höndum. Af máls¬atvikum verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um byggingarleyfið fyrr en á þeim tíma sem nefnd tölvupóstsamskipti áttu sér stað. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 3. ágúst 2016 og því innan lögmælts eins mánaðar kærufrests.

Samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og þarf vitneskja þar um að liggja fyrir við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Í málinu liggur fyrir að hnitaskrá gildandi deiliskipulags og skipulagsuppdráttur fara ekki saman. Í gr. 5.5.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um framsetningu deiliskipulagsuppdráttar. Er þess þar hvergi getið að hnitaskrá skuli fylgja slíkum uppdrætti. Gildandi deiliskipulagsuppdráttur sýnir hins vegar afmörkun lóða, bygginga og byggingarreita á skipulagssvæðinu. Mælingar á samþykktum aðaluppdráttum byggingar¬leyfis annars vegar og gildandi skipulagsuppdrætti hins vegar gefa til kynna að umrætt mann¬virki sé í samræmi við deiliskipulag svæðisins og sé staðsett innan uppgefins byggingarreits.

Í gildandi lögum og reglugerðarákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála eru ekki gerðar kröfur um lágmarksfjölda almennra bílastæða en fjöldi þeirra skal ákveðinn í deiliskipulagi, sbr. b lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt töflu 6.01 í gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er hins vegar kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Hið kærða byggingarleyfi gerir ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða og er það í samræmi við greint ákvæði byggingarreglugerðar. Deiliskipulagið gerir ennfremur ráð fyrir 12 almennum bílastæðum á umræddri lóð. Lóð kæranda liggur utan skipulagssvæðisins og ekki verður ráðið að hin kærða ákvörðun breyti aðkomu eða hlutverki bílastæða á lóð hans.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis sé haldin annmörkum sem raskað geta gildi þess, verður ekki fallist á kröfu um ógildingu leyfisins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson