Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2016 Leirdalur

Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar um að samþykkja að breyta einbýlishúsum á lóðum nr. 29-37 við Leirdal í tvíbýlishús. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2016, er barst nefndinni 21. s.m, kæra 40 íbúar við Leirdal, Hamradal og Hraundal, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 8. mars 2016, sem staðfest var í bæjarstjórn 16. s.m., að heimila lóðarhafa Leirdals 29-37 að hafa á lóðunum tvíbýlishús í stað einbýlishúsa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. júní 2016, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir á nefndum lóðum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. júlí og 5. ágúst 2016.

Málsatvik og rök:
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti 8. mars 2016, með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, umsókn lóðarhafa Leirdals 29-37 um heimild til þess að breyta fokheldum einbýlishúsum lóðanna í tvíbýli og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 16. s.m. Hinn 7. apríl s.á. ritaði hópur íbúa í nágrenni Leirdals bréf til bæjaryfirvalda þar sem þeir lýstu andstöðu við breytingar á lóðunum að Leirdal 7-37 og kröfðust þess að ákvörðunin yrði afturkölluð. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa þess efnis að skipulagi lóðanna Leirdalur 7-27 yrði breytt og þar gert ráð fyrir tvíbýlishúsum í stað einbýlishúsa. Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði umsókninni, m.a. með hliðsjón af undirskriftalistum íbúa Leirdals og Hamradals, þar sem lagst var alfarið gegn umræddum breytingum. Ráðið tók þó fram að endurskoðun deiliskipulagsins væri í undirbúningi.
 
Hinn 20. júní 2016 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að úthluta lóðunum Leirdal 7-27 til lóðarhafa lóða nr. 29-37 með þeim fyrirvörum að fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Tillaga að þeirri deiliskipulagsbreytingu hefur ekki verið lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Kærendur telja að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs eigi ekki að fá að standa þar sem ein forsenda þess að fasteignareigendur á svæðinu hafi keypt eða byggt þar hús hafi verið sú að hverfið væri skipulagt sem einbýlishúsahverfi. Þá sé um fordæmisgefandi ákvörðun að ræða og ekki sé hægt að samþykkja svo stórtækar breytingar án grenndarkynningar. Bílastæðafjöldi við lóðirnar dugi ekki til þegar fjöldi íbúða sé tvöfaldaður og umferð muni koma til með að aukast um helming, sem auki slysahættu.

Sveitarfélagið telur að umþrættar breytingar komi öllum til góða, þar sem umrædd hús hafi staðið fokheld í átta ár, öllum til ama, og engar horfur á að þau seldust sem svo stór einbýli á næstu árum. Tekið hafi verið tillit til þess að engar breytingar yrðu á útliti og stærð húsa eða nýtingarhlutfalli lóða. Þá hafi ekki enn verið sótt um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum.

Lóðarhafi gerir kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá þeim tíma er kæranda mátti vera kunnugt um viðeigandi ákvörðun. Hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2016 og hafi kærufrestur því runnið út mánuði síðar, eða 9. apríl s.á. Í öllu falli sé ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs í síðasta lagi 7. apríl 2016 þegar þau hafi undirritað mótmælabréf í kjölfar ákvörðunar ráðsins, sem leiði til þess að kærufrestur hafi runnið út í síðasta lagi 7. maí 2016. 

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að veita lóðarhafa Leirdals 29-37 heimild til að breyta fokheldum einbýlishúsum á þeim lóðum í tvíbýli, en samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins frá september 2005 er gert ráð fyrir einbýlishúsum á umræddum lóðum. Hin kærða ákvörðun var tekin með stoð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er skipulagsnefnd veitt heimild til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins eða umsækjanda.

Í málinu liggur fyrir að tillaga að breyttu deiliskipulagi Leirdals 29-37 hefur hvorki verið samþykkt af sveitarstjórn né birt í B-deild Stjórnartíðinda og ekki hefur verið samþykkt byggingarleyfi fyrir umdeildum breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki telst lokaákvörðun í skilningi ákvæðisins, ekki borin undir kærustjórnvald. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson