Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2016 Laxeldi í Arnarfirði

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 15. febrúar 2016 um að gefa út starfsleyfi til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra Geiteyri ehf., Síðumúla 34, Reykjavík og Akurholt ehf., Aratúni 9, Garðabæ, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 15. febrúar 2016 að gefa út starfsleyfi til handa Arnarlaxi hf. til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum starfsleyfisins verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 15. júlí 2016.

Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun auglýsti 11. nóvember 2015 tillögu að starfsleyfi til handa Arnarlaxi hf. Var frestur veittur til athugasemda til 4. janúar 2016. Fyrirtækið hafði þegar leyfi til framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði. Frestur til að koma að athugasemdum var framlengdur til 18. janúar 2016 í kjölfar beiðna þess efnis. Bárust athugasemdir á auglýsingatíma, m.a. frá kærendum. Stofnunin gaf út starfsleyfi 15. febrúar 2016 til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars s.á.

Kærendur taka fram að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal og eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki sé stefnt í hættu lífríki árinnar og villtum lax- og silungsstofnum hennar, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Þeir hafi fyrst fengið vitneskju um útgáfu starfsleyfisins þegar þeir af tilviljun hafi hinn 9. júní 2016 fengið í hendur afrit af bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 7. s.m. Kærufrest beri að telja frá þeirri dagsetningu, en ekki birtingu starfsleyfis í B-deild Stjórnartíðinda. Umhverfisstofnun hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti áður en hún hafi gefið út starfsleyfið í kyrrþey. Ekki dugi að fullyrða um málsatriði í greinargerð vegna athugasemda á auglýsingatíma. Rannsaka verði málið og greinargerð verði að bera það með sér að svo hafi verið gert. 

Umhverfisstofnun vísar til þess að útgáfa starfsleyfisins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars 2016 í samræmi við 5. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Auk þess hafi það verið auglýst á heimasíðu stofnunarinnar ásamt greinargerð 11. mars 2016. Hafi kærufrestur því verið liðinn þegar kæra hafi borist frá kærendum. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti verða kunnugt um ákvörðun. Þá segi einnig að sé um að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Leyfishafi vísar til þess að kæran hafi ekki borist innan lögmælts kærufrests og því beri að vísa henni frá, skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 8. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Lögum samkvæmt sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að gefa út starfsleyfi til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í Arnarfirði.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar- útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, en kærendur eru ekki slík samtök.

Í kæru vísa kærendur til þess að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi. Um er að ræða laxveiðiá sem rennur til sjávar á sunnanverðu nesinu. Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Arnarfirði á Vestfjörðum, fjarri nefndri á. Verður ekki séð með vísan til þessa að kærendur hafi hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna má telja. Slíkir hagsmunir nægja ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni, svo sem áður hefur komið fram. Þá leiðir það ekki til kæruaðildar að komið hafi verið á framfæri athugasemdum við lögbundna meðferð málsins fyrir Umhverfisstofnun.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

62/2016 Glammastaðir

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. júní 2015 um að ógilda ekki deiliskipulag fyrir Glammastaði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júní 2016, kærir V, eigandi jarðarinnar Glammastaða í Hvalfjarðarsveit, þá ákvörðun Hvalfjarðarsveitar frá 23. júní 2015 að ógilda ekki deiliskipulag fyrir frístundabyggðina Kjarrás í landi Glammastaða sem tók gildi 31. ágúst 2011. Er þess krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 6. júlí 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 31. ágúst 2011 tók gildi breytt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Glammastaði í Hvalfjarðasveit. Kærandi eignaðist umrætt land með kaupsamningi, dags. 9. janúar 2013. Á árinu 2015 gerði hann þá kröfu að sveitarfélagið felldi deiliskipulagið úr gildi. Með bréfi, dags. 25. júní 2015, var lögmanni kæranda tilkynnt um að þeirri kröfu hefði verið hafnað.

Kærandi vísar til þess að deiliskipulag umrædds svæðis frá árinu 2001 hafi aldrei öðlast gildi og að eftir að það hafi verið lagt fram hafi orðið verulegar breytingar á eignarhaldi lands og skiptingu þess innan deiliskipulagssvæðisins. Fráleitt hafi verið að samþykkja nær óbreytt deiliskipulag árið 2011 án þess að allir aðilar hafi komi að þeirri vinnu og að slíkur annmarki við gerð skipulags leiði til ógildingar þess. Sumarhúsaeigendur á deiliskipulagssvæðinu hafi gert kröfur á hendur kæranda um að leggja vatn og veg um svæðið og hafi hann því ríka hagsmuni af því að deiliskipulagið verði ógilt. Hvorki starfsmenn embættis sýslumanns né Hvalfjarðarsveitar kannist við framangreindar kvaðir, en eigi landeigandi að bera slíka skyldu verði kvöð þess efnis að hvíla á landinu. Þá hafi þáverandi landeigandi ekki samþykkt umþrætta kvöð þegar deiliskipulagsbreytingin hafi verið unnin.

Af hálfu sveitarstjórnar er á það bent að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi verið ólögmæt eða að það sé ógildanlegt af öðrum ástæðum. Þá hafi liðið of langur tími frá gildistöku deiliskipulagsins þar til krafa kæranda hafi verið sett fram en kærufrestur vegna skipulagsákvarðana sé 30 dagar frá opinberri birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags. Heimild til endurupptöku samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé eitt ár nema veigamiklar ástæður mæli með að mál sé tekið upp að liðnum lengri tíma. Þá verði í máli þessu að líta til almennra reglna um tómlæti og fyrningu, enda geti á mjög skömmum tíma margir aðilar byggt ríkan rétt á gildi skipulags svo sem með byggingu húsa í samræmi við skipulag, sölu eigna eða á annan hátt.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um að hafna kröfu kæranda um að fella úr gildi samþykkt deiliskipulag sem tók gildi 31. ágúst 2011.  Tilkynning um hina kærðu ákvörðun var send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 25. júní 2015, en þar var hvorki getið um hvert kæra mætti ákvörðunina né um kærufrest. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. júní 2016, eða tæpu ári síðar.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Fyrrgreindar heimildir til að taka kæru til efnismeðferðar að liðnum kærufresti fela í sér undantekningu frá meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar ber því að skýra þröngt. Við beitingu þeirra undantekningaákvæða verður að líta til þess hvort fleiri aðilar eigi hagsmuni tengda ákvörðun en svo er um hina kærðu ákvörðun. Umþrætt deiliskipulag nær til 36 frístundalóða og má ætla að hagsmunir aðila fari ekki saman.

Kæranda var ekki leiðbeint um kæruleið eða kærufrest í tilkynningu um hina kærðu ákvörðun svo sem bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Sá dráttur sem varð á að kæra umdeilda ákvörðun verður þó ekki talinn afsakanlegur en kærandi, sem naut aðstoðar lögmanns, átti þess kost að afla upplýsinga um kæranleika ákvörðunarinnar hygðist hann láta reyna á gildi hennar. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykja undantekningaákvæði 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í máli þessu og verður kærumálinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 28. gr. nefndra laga þar sem kæra barst að liðnum kærufresti.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

79/2016 Reykjavíkurflugvöllur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2016, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 3. maí 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur skýlis 21 í Fluggörðum, Reykjavík, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, sem samþykkt var í borgarstjórn 3. maí 2016 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní s.á. Gera kærendur þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi en ella að gildistöku þess verði frestað þar til komið verði upp nýrri aðstöðu fyrir einka- og kennsluflug og bótaréttur eigenda bygginga á Fluggarðasvæðinu verði til lykta leiddur.

Með 11 bréfum, dags. 20. júní, 5., 6., 7., 8., 11. og 14. júlí 2016, er bárust nefndinni 6., 7., 8. 13. og 14. s.m., kæra 13 eigendur skýla 35F, 27E, 35B, 31B, 31D, 29A, 29D, 33C, 37E, 34C, 28E og 22, Fluggörðum, Reykjavík, sömu ákvörðun borgarstjórnar. Gera kærendur sömu kröfur um ógildingu deiliskipulagsins eða frestun réttaráhrifa þess nema, eigendur skýla 22, 31B og 31D, sem einungis hafa uppi ógildingarkröfu, og eigendur skýla 35F og 29D, sem krefjast aðeins frestunar réttaráhrifa skipulagsins. Í ljósi þess að kærumálin snúast um sömu ákvörðun, kröfur kærenda eru að öllu leyti eða að hluta sama eðlis og studdar sömu rökum, verða nefnd kærumál, sem eru nr. 80, 81, 82, 83, 84, 87, 88, 90, 91, 98 og 100/2016, sameinuð kærumáli þessu, enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. júlí 2016.

Málavextir: Hinn 6. júní 2014 tók gildi nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem borgarstjórn hafði samþykkt 1. apríl s.á. Um var að ræða endurskoðun á eldra deiliskipulagi, sem upphaflega var samþykkt á árinu 1986 og sætt hafði heildarendurskoðun á árinu 1999. Með hinu nýja deiliskipulagi var m.a. skipulagssvæðið minnkað og mörkum þess breytt. Þá var gert ráð fyrir lokun NA/SV flugbrautar og að starfsemi á svæði því er kallast Fluggarðar væri víkjandi. Deiliskipulagið var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi það úr gildi með úrskurði uppkveðnum 17. desember 2015 með þeim rökum að breytingar hefðu verið gerðar á texta greinargerðar skipulagsins og umsögn skipulagssviðs, sem skírskotað var til við afgreiðslu málsins, án þess að þær breytingar hefðu verið lagðar fyrir borgarráð eða borgarstjórn sem handhafa skipulagsvalds.

Á fundi hinn 23. desember 2015 tók umhverfis- og skipulagsráð fyrir tillögu umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar samkvæmt uppdrætti, dags. 18. desember 2015, sem fól í sér þær breytingar sem borgarstjórn hafði samþykkt 1. apríl 2014. Var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu 5. janúar 2016. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar og barst fjöldi athugasemda á kynningartíma. Málið var á dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs 20. apríl 2016 og lágu þá fyrir fram komnar athugasemdir, bréf Isavia, dags. 12. febrúar 2016, og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. apríl s.á., með tillögu að svörum við fram komnum athugasemdum. Var deiliskipulagstillagan samþykkt af meirihluta ráðsins, með þeim breytingum sem lagðar voru til í greindri umsögn skipulagsfulltrúa, og málinu vísað til borgarráðs. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs 28. apríl 2016 og samþykkti borgarstjórn þá afgreiðslu borgarráðs hinn 3. maí s.á. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. júní 2016, að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar, sem gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingarinnar.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að kærendur hafi á sínum tíma reist flugskýli sín í samræmi við leyfi byggingaryfirvalda og hafi þá umætt svæði verið athafnasvæði almanna- og einkaflugs samkvæmt gildandi skipulagi. Engar kvaðir hafi fylgt byggingarleyfum skýlanna og séu þau háð lögvörðum eignarrétti kærenda. Samráð hafi skort við eigendur skýlanna við breytingar á skipulagi svæðisins og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda þeirra við þær skipulagsbreytingar. Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að flugskýlin á Fluggarðasvæðinu víki fyrir annarri notkun en engin önnur aðstaða sé fyrir þá starfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir liggi samningur milli ríkis og borgar frá 25. október 2013 um að innanríkisráðuneytið og Isavia skuli hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar, en ekkert liggi fyrir um efndir þess samnings. Því ríki alger óvissa um hvert kærendur geti farið með flugvélar sínar, flugvélaverkstæði, flugskóla, flugrekstur og aðra tengda starfsemi. Reykjavíkurflugvöllur hafi verið afhentur íslenska ríkinu í lok seinni heimstyrjaldar og verði að gera þá kröfu að Reykjavíkurborg sanni eignarrétt sinn að umræddu svæði áður en að farið sé að breyta landnotkun þess, en svæðið hafi verið nýtt til almanna- og einkaflugs í um 40 ár.

Með hið kærða skipulag að vopni haldi Reykjavíkurborg eigendum fasteigna á Fluggarðasvæðinu í gíslingu, en til að fá eignabreytingum þinglýst vegna þeirra þurfi viðkomandi að leggja fram bréf frá borginni þar sem ekki liggi fyrir lóðarleigusamningar. Í bréfi lögfræðings borgarinnar frá fyrri hluta árs 2013 hafi falist hótun um að eigendur fasteigna á svæðinu yrðu sviptir lögmætum eignarétti sínum með stoð í því að starfsemi í Fluggörðum sé víkjandi samkvæmt skipulagi. Bent sé á að eignir á svæðinu hafi staðið þar í fullan hefðartíma sem ekki hafi verið rofinn. Þá hafi Skipulagsstofnun við afgreiðslu hins kærða deiliskipulags vísað til fyrirvara við staðfesta landnotkun samkvæmt aðal- og svæðisskipulagi, um að innanríkisráðuneyti og Isavia muni hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda í máli þessu verði hafnað, enda hafi málsmeðferð hins kærða deiliskipulags verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um sé að ræða endurauglýsingu deiliskipulags fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi 17. desember 2015 vegna formgalla á málsmeðferð. Efni skipulagsins sé í meginatriðum það sama og hins fyrra en smávægilegar breytingar hafi verið gerðar eftir kynningu skipulagstillögunnar. Hafi þær falist í að vísað sé til flugbrauta 19-01 og 31-13 í stað 20-02 og 32-14 og í gr. 1.3.1.1. í greinargerð deiliskipulagsins sé nú vísað til flugvallarstjóra Reykjavíkurflugvallar eða Samgöngustofu samkvæmt lögum nr. 119/2012 í stað flugvallarstjóra Reykjavíkurflugvallar eða flugmálastjóra. Þá hafi verið breytt texta á uppdrætti þar sem vísað sé í tímasett markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um breytta landnotkun á Fluggarðasvæðinu til samræmis við kort á bls. 217 í greinargerð aðalskipulagsins. Einnig hafi texta verið breytt í skýringu á uppdrætti um eignarmörk lands milli ríkis og borgar á flugvallarsvæðinu til skýrleiksauka skv. samkomulagi um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð, dags. 1. mars 2013. Loks hafi verið færður inn byggingarreitur fyrir hjólaskýli við flugstjórnarmiðstöðina í samræmi við breytingu sem samþykkt hafi verið á deiliskipulagi svæðisins hinn 9. júlí 2014.

Í aðdraganda hins kærða deiliskipulags hafi verið samstarf milli ríkis og borgar, sem endurspeglist í samkomulagi þeirra aðila frá 19. apríl og 25. október 2013. Í fyrrnefnda samkomulaginu komi fram að NA/SV flugbrautin verði lögð af og það land sem við það losni sunnan vallarins verði skipulagt undir blandaða byggð og að innanríkisráðuneytið auglýsi lokun brautarinnar samhliða auglýsingu skipulags nýrrar flugstöðvar. Gildi þess samkomulags hafi verið borið undir dómstóla.  Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli, nr. E-299/2016, hafi verið talið að fyrirliggjandi skýrslur Isavia og verkfræðistofunnar Eflu sýndu fram á að öryggis- og þjónustustig Reykjavíkurflugvallar yrði viðunandi og með dómi Hæstaréttar nr. 268/2016 hafi verið staðfest að íslenska ríkinu væri skylt að loka NA/SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Að öðru leyti sé um efnisatriði vísað til greinargerðar borgarinnar í fyrra kærumáli vegna nýs deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar frá árinu 2014.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er m.a. gerð sú krafa að úrskurðarnefndin fresti gildistöku eða réttaráhrifum hins kærða deiliskipulags þar til flugstarfsemi sem fyrir sé á Fluggarðasvæðinu verði fundin nýr staður og réttarstaða eigenda mannvirkja á svæðinu verði til lykta leidd.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem m.a. taka til ákvarðana sveitarstjórna um deiliskipulag, er kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun um tímasetningu áforma og framkvæmda deiliskipulags er í eðli sínu skipulagsákvörðun, sem einungis verður tekin af þeim stjórnvöldum sem fara með skipulagsvald hverju sinni samkvæmt skipulagslögum.  Það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar samkvæmt greindum lagaákvæðum að taka slíka ákvörðun sem hér um ræðir en heimild nefndarinnar til að fresta framkvæmdum eða réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 einskorðast við þann tíma sem kærumál er þar til meðferðar. Verður kröfu um frestun gildistöku eða réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Krafa um ógildingu hins kærða deiliskipulags er einkum byggð á því að sú ákvörðun um víkjandi landnotkun Fluggarðasvæðisins við Reykjavíkurflugvöll sem í deiliskipulaginu felist brjóti gegn lögvörðum eignarréttindum kærenda, sem eigi mannvirki á svæðinu og stundi þar flugtengda starfsemi.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur liggja fyrir allar meginforsendur hins kærða deiliskipulags, svo sem að einkaflugsstarfsemi á svæðinu skuli víkja. Var borgaryfirvöldum því heimilt að falla frá gerð lýsingar á skipulagsverkefninu skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga og kynningu tillögunnar fyrir íbúum sveitarfélagsins og hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 40. gr. laganna. Er hið kærða deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag, svo sem kveðið er á um í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 41. gr. sömu laga og fram komnum athugasemdum svarað. Borgarráð og borgarstjórn staðfestu ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs, um að samþykkja deiliskipulagstillöguna með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, sem hafði að geyma tillögu að svörum við fram komnum athugasemdum og tilteknum breytingum á fyrirliggjandi tillögu.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og á það við án tillits til eignarhalds á löndum eða lóðum innan skipulagssvæðis, enda felur ákvörðun um deiliskipulag ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum. Sé slíkum réttindum hins vegar raskað með bótaskyldum hætti við gildistöku eða framkvæmd skipulags getur það staðið í vegi fyrir áformuðum framkvæmdum samkvæmt skipulagi nema að samkomulag um greiðslu bóta náist samkvæmt 51. gr. skipulagslaga eða til eignarnáms komi skv. 50. gr. sömu laga. Slík álitaefni heyra ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt gætu til ógildingar hennar og verður kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 3. maí 2016, um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll, er hafnað.

Kröfu um frestun gildistöku eða réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er vísað frá úrskurðarnefndinni.    

___________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              __________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson
 

40/2016 Auðbrekka

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 40/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra 45 íbúar við Löngubrekku í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 26. apríl 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Auðbrekku – þróunarsvæði, svæði 1,2 og 3. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2016 samþykkti skipulagsnefnd tillögu að deiliskipulagi fyrir hluta þróunarsvæðis Auðbrekku, svæði 1,2 og 3. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarráði 14. s.m. og af bæjarstjórn 26. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi 23. maí 2016 með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærendur gera þá kröfu um að engin byggingarleyfi verði gefin út og að engar framkvæmdir fari af stað á reitum 1-3 og 4-6 fyrr en þeir hafi fengið skrifalega staðfestingu á því að efnislegum kröfum þeirra hafi verið mætt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar á tilteknu skipulagssvæði. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis í með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

104/2016 Flugvellir

Með
Árið 2016, mánudaginn 8. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 104/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2016, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Bílrúðuþjónustan ehf., Iðavöllum 5b, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 23. júní 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli, Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 28. júlí 2016.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. desember 2015 var ákveðið að ljúka vinnu við deiliskipulagstillögu frá árinu 2008 fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Á fundi ráðsins 12. apríl 2016 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi og samþykkt að hún skyldi auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. júní s.á. var samþykkt að senda „deiliskipulagið til endanlegrar afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun“ og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 23. s.m.

Kærandi krefst þess að samþykkt deiliskipulag verði ógilt, lóðamörk Iðavalla 5b og Flugvalla 6 verði færð til baka og óheimilar framkvæmdir á lóðamörkum afturkallaðar. Einnig að sveitarfélaginu verði gert að hefja vinnu við deiliskipulagið að nýju þar sem tekið verði tillit til athugasemda eigenda. Með umræddri deiliskipulagstillögu sé lóðin Flugvellir 6 stækkuð á kostnað Iðavalla 5b án þess að lóðarhafar hafi haft nokkuð um það að segja. Að auki sé tekin sneið af lóð Iðavalla 5b undir tengiveg. Sé hann mun breiðari en sú kvöð sem hvíli á lóðinni um gangandi og akandi umferð samkvæmt samkomulagi þáverandi eigenda Iðavalla 5b og Flugvalla 6 frá árinu 2008. Hafi sveitarfélagið með framgöngu sinni í málinu brotið málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af hálfu Reykjanesbæjar er krafist frávísunar. Umrætt deiliskipulag sé ennþá í vinnslu og hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Síðasta bókun í málinu hafi verið gerð á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 23. júní 206 þar sem bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. s.m., um að senda drögin að deiliskipulaginu til Skipulagsstofnunar, hafi verið samþykkt. Enn eigi eftir að taka afstöðu til athugasemda stofnunarinnar og samþykkja skipulagið endanlega. Af þessum sökum sé ekki um neina kæranlega lokaákvörðun að ræða í málinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Auglýsing hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulags fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ í kjölfar þeirrar málsmeðferðar sem kærandi vísar til í kæru sinni. Slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Jafnframt liggur ekki fyrir að deiliskipulagstillagan hafi hlotið lokaafgreiðslu hjá sveitarstjórn Reykjanesbæjar eftir að tillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar um. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 
 

58/2016 Gerplustræti

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Helgafellshverfis vegna lóðar nr. 1-5 við Gerplustræti og á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar að samþykkja leyfi til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Ástu-Sólliljugötu nr. 1 og 5, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Helgafellshverfis vegna lóðar nr. 1-5 við Gerplustræti. Þá er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar um að samþykkja leyfi til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á lóðinni. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi fyrir fyrrgreindu húsi frá 6. nóvember 2015 og 13. apríl 2016 verði felld úr gildi sem og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 8. júní 2016.

Málavextir: Hinn 23. júní 2015 var á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar tekin fyrir tillaga um breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Helgafellshverfis vegna lóðar nr. 1-5 við Gerplustræti. Í breytingunni fólst að íbúðum í fyrirhuguðu fjöleignarhúsi var fjölgað úr 26 í 31, skilmálum bílastæða breytt, stigahúsum fækkað úr þremur í eitt og gólfkótar hækkaðir um 1,4 m. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst 6. júlí 2015 með athugasemdafresti til 17. ágúst s.á., en engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsnefndar 18. ágúst 2015 var deiliskipulagsbreytingin samþykkt og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 26. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2016.

Hinn 18. janúar 2016 var haldinn fundur með eigendum Ástu-Sólliljugötu 1-7, þ. á m. kærendum, ásamt hluta bæjarstjórnar, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar þar sem farið var yfir stöðu mála. Í kjölfarið sendu greindir eigendur bréf til bæjarstjóra, dags. 25. s.m., þar sem gerðar voru athugasemdir við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar og uppdrætti fyrirhugaðrar byggingar er varðaði fjölda hæða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 6. nóvember 2015 voru samþykkt byggingaráform og var leyfi gefið út til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á lóð nr. 1-5 við Gerplustræti. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. apríl 2016 var samþykkt að heimilað hús yrði lækkað um 50 cm og það staðsett um 3 m fjær vestur lóðarmörkum en áður var gert ráð fyrir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að samþykktir aðaluppdrættir sýni fjögurra hæða fjöleignarhús á meðan samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina heimili aðeins byggingu þriggja hæða húss. Vísað sé í gr. 6.4.12 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem segi m.a. í 7. mgr. að kjallari íbúðarhúss undir aðalinngangshæð, þar sem einungis sé bílgeymsla, geymslur eða þess háttar rými, teljist ekki til hæðar í skilningi 5. mgr. sömu greinar. Þar sem kjallari umrædds fjöleignarhúss hýsi ekki aðeins bílgeymslu, geymslur og þess háttar, heldur jafnframt fjórar íbúðir, teljist það til hæðar og því sé um að ræða fjögurra hæða hús en ekki þriggja. Kærendur telji sig hafa fengið vitneskju um byggingaráform, þ.e. byggingu fjögurra hæða húss, sama dag og kæran hafi borist úrskurðarnefndinni og beri því að líta svo á að kærufrestur sé einn mánuður frá þeim tíma.  

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að kærufrestur sé liðinn. Um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu og teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða skipulagsbreyting hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2016 og því sé kærufrestur liðinn. Þá verði að hafa það í huga að kærendur hafi gert athugasemdir um fjölda hæða fjöleignarhússins í bréfi sínu, dags. 25. janúar 2016, og skömmu áður hafi byggingarfulltrúi sent kærendum gögn og myndir vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem vel hafi sýnt fjölda hæða og fyrirkomulag húsa við Gerplustræti.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að verið sé að vinna að framkvæmdunum í sátt við nágranna og hafi ýmislegt verið gert til að fólk yrði sátt við framkvæmdina. Byggingin sé í samræmi við skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar 2016. Kæra í málinu barst 31. maí s.á eða rúmum þremur mánuðum eftir lok kærufrests.

Hvað varðar upphaflegt byggingarleyfi fyrir húsinu að Gerplustræti 1-5 miðast kærufrestur við það tímamark hvenær kærandi hafi mátt vita um samþykki hinnar kærðu ákvörðunar. Samþykkt var að veita byggingarleyfi fyrir húsinu í nóvember 2015 og það gefið út. Hinn 4. janúar 2016 gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu og á undirstöðum hússins 10. mars s.á. Þá liggur fyrir í málinu að kærendur, ásamt öðrum íbúum Ástu-Sólliljugötu, og sveitarfélagið voru í samskiptum vegna byggingarframkvæmdanna og var haldinn fundur með nefndum aðilum af því tilefni í janúar 2016. Vísa kærendur til þessa fundar í bréfi sínu til sveitarfélagsins, dags. 25. janúar s.á., þar sem m.a. voru gerðar athugasemdir við fjölda hæða byggingarinnar. Að framangreindu virtu þykir ljóst að kærendum hafi mátt vera kunnugt um efni upphaflegs byggingarleyfis þegar í byrjun árs 2016 eða tæpum fimm mánuðum áður en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kærenda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Að öllu framangreindu virtu eiga fyrrgreindar undantekningar frá meginreglunni um frávísun máls sem berst að liðnum kærufresti ekki við hvað varðar hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi það sem samþykkt var hinn 6. nóvember 2015. Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hinn 13. apríl 2016 var samþykkt breytt byggingarleyfi fyrir umrætt hús í kjölfar athugasemda nágranna. Var húsið lækkað um 50 cm og það staðsett um 3 m fjær fasteignum kærenda en áður var gert ráð fyrir. Af fyrirliggjandi gögnum og málsatvikum verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera kunnugt um samþykkt þess meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 31. maí s.á. Verður því álitaefni um lögmæti hins breytta byggingarleyfis tekið til efnismeðferðar. Hins vegar er umrætt byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag það sem tók gildi 11. febrúar 2016 og liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð þess hafi verið lögum samkvæmt. Verður því ekki fallist á kröfu um ógildingu þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 13. apríl 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 31 íbúða fjöleignarhús með bílakjallara á lóðinni Gerplustræti 1-5. Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

60/2016 Lágholt 15 og 16 Stykkishólmi

Með
Árið 2016, föstudaginn 15. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 60/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárst  nefndinni 2. júní 2016, kæra E og S, Lágholti 21, Stykkishólmi, ákvörðun Stykkishólmsbæjar og sýslumanns Vesturlands frá 28. apríl 2016 um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II að Lágholti 15 og mótmæla fyrirhugaðri ákvörðun um útgáfu sams konar leyfis að Lágholti 19. Stykkishólmi.

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndarinnar sem barst nefndinni 2. júní 2016 kæra H og E, Lágholti 17, Stykkishólmi jafnframt ákvörðun um veitingu fyrrgreinds rekstrarleyfis með sömu andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um sams konar rekstrarleyfi að Lágholti 19, Stykkishólmi. Þar sem um er að ræða sama ágreiningsefni í báðum kærumálunum og málatilbúnaður kærenda er á sömu lund, verður greint kærumál, sem er nr. 61/2016, sameinað kærumáli þessu. 

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hins kærða rekstrarleyfis og að fyrirhugað rekstrarleyfi vegna Lágholts 19 verði ekki veitt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 10. júní 2016.

Málsatvik og rök: Húsið að Lágholti 15 er einbýlishús og stendur á ódeiliskipulögðu svæði sem ætlað er undir íbúðarbyggð samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Í apríl 2015 sóttu eigendur þess húss um að fá að breyta bílgeymslu í íbúðarherbergi og svo í framhaldi af því að breyta húsinu í gistiheimili/gistiskála. Erindið var grenndarkynnt í nokkur skipti og á sama tíma var sótt um rekstrarleyfi fyrir 14 gesti í nefndu húsi hjá Sýslumanninum á Vesturlandi. Afgreiðsla umsóknar um breytingu hússins dróst á langinn og ekki liggur fyrir að byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir umsóttum breytingum af hálfu byggingaryfirvalda bæjarins.

Hinn 15. apríl 2016 sendi Sýslumaðurinn á Vesturlandi sveitarfélaginu til umsagnar umsókn um rekstrarleyfi fyrir gististað að Lágholti 15 í flokki II fyrir allt að 6 gesti. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins svaraði því erindi með jákvæðri umsögn 19. s.m. Gaf sýslumaður út umbeðið rekstrarleyfi hinn 28. apríl 2016. Þá barst skipulags- og byggingarfulltrúa bréf sýslumanns, dags. 20. apríl 2016 þar sem leitað var umsagnar embættisins vegna umsóknar um rekstrarleyfi til að reka gististað í flokki II að Lágholti 19. Með bréfi, dags. 6. maí 2016 tilkynnti byggingarfulltrúi að ekki væri gerð athugasemd við að umrætt rekstrarleyfi yrði veitt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu rekstrarleyfis fyrir gististað í flokki II að Lágholti 15 og fyrirhugaða leyfisveitingu fyrir slíkan rekstur að Lágholti 19. Samkvæmt upplýsingum úr skrá sýslumanns yfir útgefin rekstrarleyfi hefur ekki verið gefið út leyfi fyrir rekstur gististaðar í flokki II að Lágholti 19.

Í 1.gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir gististarfsemi þá sem um er deilt í máli þessu er tekin af sýslumanni með heimild í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og er ákvörðun hans þar að lútandi kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sbr. 26. gr. þeirra laga. Við málsmeðferð umsókna um slík rekstrarleyfi skal sýslumaður m.a. leita umsagna sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Þær umsagnir verða ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ber af þeim sökum að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni.


Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

93/2014 Lindarbraut Seltjarnarnesi

Með

Árið 2016, föstudaginn 22. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 93/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2014, sem barst nefndinni 21. s.m., kærir H, Lindarbraut 11, Seltjarnarnesi, „stjórnvaldsákvörðun Seltjarnarnesbæjar sem dagsett er 16. júlí 2014 vegna lóðarmarka, niðurrifs mannvirkja og brunavarna að Lindarbraut 11 Seltjarnarnesi“. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að nefnd afgreiðsla verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2016.

Málsatvik og rök:
Mál þetta á sér nokkra forsögu en um árabil hefur verið ágreiningur milli lóðarhafa Lindarbrautar 11 og lóðarhafa Lindarbrautar 9 um lóðamörk. Árið 2012 synjaði Seltjarnarnesbær kröfu lóðarhafa Lindarbrautar 9 um að sveitarfélagið beitti þeim úrræðum sem það hefði yfir að ráða til að fjarlægja eða minnka mannvirki er stæði á lóð Lindarbrautar 11, en væri að hluta inn á lóð nr. 9 við Lindarbraut. Í erindi sínu vísaði lóðarhafi Lindarbrautar 9 m.a. til þess að fyrir lægi álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um að sambrunahætta væri á milli bílskúrs á lóð hans og nefnds mannvirkis. Var ákvörðun sveitarfélagsins skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er felldi hana úr gildi. 

Með bréfi Seltjarnarnesbæjar til kæranda, dags. 2. september 2013, var tilkynnt að eigandi lóðarinnar að Lindarbraut 9 hefði óskað eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Var kæranda veitt færi á að koma að sjónarmiðum sínum en jafnframt var óskað upplýsinga um hvort  brunavarnir í húsnæði því að Lindarbraut 11, sem lægi að og yfir lóðamörk aðila, hefðu verið lagfærð. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október s.á., var tekið fram að lóðarmörk Lindarbrautar 11 væru þau sömu og verið hefði í marga áratugi. Hefði skipulags- og byggingarnefnd ekki stjórnsýsluvald í málinu. Væri sú krafa gerð að málinu yrði vísað frá, að öðru leyti en því er lyti að brunavörnum. Þá yrðu nánari skýringar á úrbótum vegna brunamála sendar þegar nefndin hefði afgreitt málið. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness, dags. 16. júlí 2014, var skorað á kæranda að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum sem að hluta lægju yfir lóðarmörk Lindarbrautar 11 yfir á lóðina nr. 9. Var sá áskilnaður m.a. gerður að í umsókn væri gert ráð fyrir því að sá hluti mannvirkja sem væri inn á lóð Lindarbrautar 9 yrði fjarlægður og að gengið yrði frá mannvirkjunum með fullnægjandi hætti við núverandi lóðamörk samkvæmt þinglýstum heimildum. Þá var tekið fram að yrði ekki orðið við nefndum tilmælum innan tilgreindra tímamarka yrði málið tekið upp að nýju. Kæmi þá til greina að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 en samkvæmt þeim væri byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað eiganda. Loks var vakin athygli á því að yrði ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum mannvirkjum í samræmi við framangreint kynni það að leiða til þess að Seltjarnarnesbær yrði að krefjast fjarlægingar mannvirkjanna í heild.

Í kæru var boðaður frekari rökstuðningur af hálfu kæranda en hann hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Seltjarnarnesbær gerir kröfu um frávísun málsins þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða, en ekki hafi verið tekin ákvörðun um dagsektir á hendur kæranda. 

Niðurstaða: Eins og fyrr er rakið er tilefni kærumáls þessa bréf skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 16. júlí 2014 til kæranda þar sem skorað var á hann að sækja um byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum og sá hluti þeirra sem lægi á lóð Lindarbrautar 9, samkvæmt þinglýstum heimildum, yrði fjarlægður. Að öðrum kosti kæmi til greina að beita dagsektum eða verkið yrði unnið á kostnað kæranda skv. 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 en samkvæmt þeim væri byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað eiganda.

Orðalag fyrrgreinds bréfs felur í sér áskoranir á hendur kæranda um framkvæmd tiltekinna athafna og um mögulega framvindu mála ef ekki yrði farið að þeim tilmælum. Í bréfinu er ekki að finna lokaákvörðun máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um að slík ákvörðun verði að liggja fyrir svo mál verði borið undir kærustjórnvald. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

39/2016 Hvanneyrardalsvirkjun

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2016, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 15. mars 2016 um að veita rannsóknarleyfi á vatnasviði Hvanneyrardalsár í Ísafirði vegna áætlana um Hvanneyrardalsvirkjun við Ísafjörð í Súðavíkurhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. apríl 2016, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Orkubú Vestfjarða ohf. þá ákvörðun Orkustofnunar frá 15. mars 2016 að veita Vesturverki ehf. rannsóknarleyfi á vatnasviði Hvanneyrardalsár í Ísafirði vegna áætlana um Hvanneyrardalsvirkjun við Ísafjörð í Súðavíkurhreppi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun Orkustofnunar frá 5. apríl 2016 um að veita Vesturverki ehf. rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjun á vatnasviði Hundsár í Skötufirði og Hestár í Hestfirði við Ísafjarðardjúp.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi rannsókna. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru sama eðlis, sömu aðilar tengjast báðum kærumálunum og málsatvik og rök þeirra eru á sömu lund, verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 44/2016, sameinað máli þessu. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun yfirvofandi rannsókna.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 11. maí 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfum, dags. 18. janúar og 4. febrúar 2016, er bárust Orkustofnun 26. janúar og 9. febrúar s.á., sótti Vesturverk ehf. um leyfi til rannsókna á hagkvæmni þess að nýta rennsli, annars vegar Hvanneyrardalsár í Ísafirði við Ísafjarðardjúp, vegna áætlana um Hvanneyrardalsvirkjun í Súðavíkurhreppi, og hins vegar rannsóknarleyfis vegna möguleika á virkjun Hundsár í Skötufirði og Hestár í Hestfirði við Ísafjarðardjúp. Að fengnum umsögnum Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Súðavíkurhrepps, sem landeiganda, veitti stofnunin leyfishafa rannsóknarleyfi vegna virkjunar Hvanneyrardalsár, dags. 15. mars 2016, til þriggja ára og vegna virkjunar Hundsár og Hestár, dags. 5. apríl s.á., til fjögurra ára.   Fólu leyfin í sér heimild til að framkvæma mælingar og rannsóknir á viðkomandi svæði á leyfistímanum í samræmi við 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sbr. 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Kærandi vísar til þess að hann hafi hinn 5. febrúar 2016 sótt um rannsóknarleyfi á vatnasviði í Kjálkafirði, Vattarfirði og Ísafirði á grundvelli innsendra gagna til Orkustofnunar frá 28. nóvember 2013 vegna Glámuvirkjunar. Hin kærðu leyfi og umsókn kæranda taki að hluta til sama vatnasviðs. Hefði borið að meta fyrirliggjandi umsóknir með tilliti til þjóðfélagslegrar hagkvæmni áður en hin kærðu leyfi hafi verið veitt en ekki sé unnt að veita tveimur aðilum rannsóknarleyfi á sama svæði. Hefði átt að auglýsa eftir umsóknum um rannsóknir á svæðinu með hliðsjón af atvikum máls. Veita hefði átt kæranda rannsóknarleyfi á svæðinu vegna þeirra miklu rannsókna og vinnu sem hann hafi þegar stundað á svæðinu og kostað miklu til. Hafi leyfishafi nýtt sér niðurstöður rannsókna kæranda án leyfis í eigin þágu. Við málsmeðferð hinna kærðu leyfa hafi ekki verið gætt rannsóknarreglu 10. gr. og andmælaréttar kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem ekki hafi verið leitað umsagnar Veiðimálastofnunar í samræmi við 4. og 5. gr. laga nr. 78/1998.

Orkustofnun bendir á að þegar umsóknir um hin kærðu leyfi hafi borist hafi hvorki legið fyrir aðrar  umsóknir um leyfi til rannsókna né hafi stofnuninni verið kunnugt um gilt eða áður útgefið rannsóknarleyfi á umræddu svæði. Undirbúningur og málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana hafi verið lögum samkvæmt og í samræmi við markmið laga um vernd og orkunýtingu landsvæða nr. 48/2011. Rannsóknir þær sem unnar hafi verið á Vestfjarðahálendinu hafi verið unnar fyrir opinbert fé og séu aðgengilegar öllum. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi haft einkarétt á þeim gögnum sem leyfishafi vísi til í umsóknum sínum. Þá hafi kærandi ekki haft stöðu aðila við meðferð umsóknanna og hafi því ekki verið brotinn á honum andmælaréttur. Rannsóknarleyfi feli í sér heimild til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu auðlindar. Það veitir leyfishafa hins vegar hvorki heimild til framkvæmda né forgang að virkjanaleyfi. Kærandi sé samkeppnisaðili leyfishafa á raforkumarkaði, en hinar kærðu ákvarðanir séu til þess fallnar að skapa forsendur fyrir samkeppni á þeim markaði í samræmi við 1. gr. raforkulaga. Af atvikum máls verði ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum og beri því að vísa máli þessu frá skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi vísar til þess að hvorki standi lög til þess né efnisrök að Orkustofnun hafi átt að meta umsóknir bæði kæranda og leyfishafa áður en hin kærðu leyfi hafi verið veitt. Þvert á móti hafi stofnuninni borið samkvæmt málshraða- og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að afgreiða umsóknir leyfishafa án tillitis til annarra umsókna sem síðar hafi borist. Þá sé því andmælt að borið hefði að auglýsa eftir umsóknum til rannsókna á svæðinu skv. 15. gr. laga nr. 78/1998, enda um heimildarákvæði að ræða. Sú túlkun kæranda að leyfi til rannsókna á svæði útiloki rannsóknir á öðrum virkjanakostum, sem að hluta nái til sama svæðis, eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi hafi engan forgangsrétt til rannsókna á umræddu svæði, enda færi það í bága við markmið um samkeppni og afnám einkaréttar á orkumarkaði. Málsmeðferð hina kærðu leyfa hafi verið í samræmi við lög, ekki hafi verið þörf á umsögn Veiðimálastofnunar og kærandi hafi ekki átt andmælarétt við meðferð umsókna leyfishafa.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu leyfisveitingum í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærandi telur hins vegar að hann eigi hagsmuna að gæta í málinu, m.a. sökum þeirra kostnaðarsömu rannsókna sem hann hafi stundað á umræddu svæði og leyfishafi hafi nýtt sér án heimildar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er úrskurðarnefndinni ætlað það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum. Þá er og tekið fram í 3. mgr. 4. gr. laganna að þeir einir geti borið stjórnvaldsákvarðanir undir nefndina sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á eða að fyrir hendi sé bein kæruheimild í lögum. 

Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til réttarágreinings um hvort réttindum kæranda hafi verið raskað vegna notkunar rannsóknargagna er stöfuðu frá honum í umsóknum leyfishafa. Ágreiningur um slíka notkun snertir eftir atvikum svið eigna- eða höfundaréttar og á undir dómstóla að leysa úr honum. Getur ágreiningur þessi af framangreindum ástæðum ekki veitt kæranda aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni. Þá liggur ekki fyrir að kærandi eigi einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni með stoð í lögum, samningum eða veittum leyfum, sem væri raskað með veitingu hinna kærðu leyfa.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið og að kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum, aðra en þá er varða kunni fyrrgreind eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

51/2016 Klapparstígur 33

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2016 um að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III á 1. hæð og kjallara hússins við Klapparstíg 33.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsþing ehf., eigandi eignarhluta 201, 301 og 401 í fjöleignarhúsinu að Klapparstíg 33, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2016 að veita Basalti ehf. byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III fyrir 100 gesti á 1. hæð og  í kjallara  hússins að Klapparstíg 33. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. júní 2016.

Málavextir: Hinn 17. maí 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III fyrir 100 gesti á 1. hæð og í kjallara í fjöleignarhúsinu við Klapparstíg 33. Með erindinu fylgdi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa, minnisblað um brunavarnir og hljóðvistarskýrsla. Var leyfið samþykkt með þeim áskilnaði að þinglýst yrði yfirlýsing um opnunartíma til kl. 01 á virkum dögum og til kl. 03 um helgar og að opið yrði frá hádegi.

Málsrök kærenda: Kærandi bendir á að hann reki hótel og íbúðaleigu í húsum nr. 22a við Laugaveg og nr. 33 við Klapparstíg. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa að leyfa veitingarekstur á fyrstu hæð og í kjallara hússins að Klapparstíg 33 raski hagsmunum hans verulega. Í stað kyrrlátrar starfsemi í greindu húsnæði, með lokunartíma  kl. 18 virka daga og kl. 16 um helgar, sé nú veitt leyfi fyrir starfsemi sem hefjist á hádegi og ljúki kl. 01 á virkum dögum og til kl. 03 um helgar. Muni sú starfsemi trufla gesti kæranda og raska næturró þeirra. Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að rýra eignarréttindi kæranda.

Byggingarleyfisumsóknin hafi hvorki verið kynnt kæranda né hafi verið leitað eftir sjónarmiðum hans áður en hún hafi verið samþykkt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi kærandi ekki heldur verið upplýstur um að málið væri til meðferðar hjá sveitarfélaginu, sbr. 14. gr. sömu laga. Sem meirihlutaeigandi Klapparstígs 33 eigi kærandi tvímælalaust aðild að öllum byggingarleyfisumsóknum sem varði húsnæðið og sé ljóst að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Umrætt hús sé fjöleignarhús og um það gildi lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Um verulega breytingu á hagnýtingu séreignar sé að ræða og hafi því þurft samþykki allra eigenda, sbr. 5. tl. 41. gr. fjöleignarhúsalaga.

Nálægð veitingastaða sé nú þegar til vandræða og hafi haft það í för með sér að viðskiptavinir kæranda hafa fallið frá pöntunum. Það byggingarleyfi sem hér um ræði veiti leyfi fyrir bar á tveimur hæðum fyrir 100 gesti. Alþekkt sé að gestafjöldi fari oft yfir leyfilegt hámark og fylgi börum mikill hávaði. Hávær tónlist muni berast um allar hæðir og valda íbúum og gestum sem dvelji þar miklu ónæði. Einnig sé á það bent að afgreiðsla byggingarfulltrúa sé haldin slíkum annmörkum að fella beri umdeilt leyfi úr gildi. Meðal annars sé á uppdrætti sýnt rými í kjallara fyrir uppvask, en það sé í eigu kæranda og því óheimilt að leggja það undir starfsemi veitingastaðarins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.172.2, ásamt síðari breytingum, sem afmarkist af Laugavegi, Frakkastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, og samþykkt hafi verið í borgarráði 25. mars 2003. Sú breyting á hagnýtingu sem hið kærða byggingarleyfi heimili sé ekki þess háttar breyting sem ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994 fjalli um. Ljóst sé að samkvæmt gildandi skipulagi fyrir umrætt svæði sé heimilt að reka þar veitingahús og sé slíkur rekstur náskyldur rekstri verslana. Þegar hagnýting séreignar sé hliðrað með þessum hætti, þ.e. úr verslunarrekstri í veitingarekstur, reyni á það hvort aðili sem um slíkt sæki uppfylli fagleg skilyrði laga til að mega reka veitingahús á viðkomandi stað og hvort slíkt sé heimilt í gildandi skipulagi. Öll slík skilyrði hafi verið uppfyllt.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að ekki sé verið að breyta hagnýtingu séreignar hans verulega og hafi því ekki þurft samþykki allra eigenda hússins, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Því sé mótmælt að umrædd breyting muni raska hagsmunum kæranda verulega. Í miðborg Reykjavíkur sé leyfð mjög rúm landnotkun og meðal annars sé þar gert ráð fyrir rekstri veitinga- og skemmtistaða. Megi ávallt búast við ýmsum breytingum, s.s. á atvinnurekstri, innan heimilda þess sem skipulag svæðisins leyfi. Engin rök séu fyrir því að hefta umrædda starfsemi. Breyti engu að undanfarin ár hafi listagallerí verið starfrækt í umræddum eignarhluta og takmarki það ekki rétt eiganda til að nýta húsnæðið til annarrar starfsemi síðar, að uppfylltum skilyrðum. Ekki sé hægt að fallast á þá fullyrðingu að ónæði og hávaði af rekstrinum verði meiri en talist geti eðlilegt í miðborg, þar sem blönduð starfsemi sé eðlilegur hluti af daglegu lífi og þróun miðborgar og samkvæmt skipulagi.

Þá sé því mótmælt að afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi ekki verið í samræmi við áskilnað laga og reglugerða. Engar lagareglur mæli fyrir um kynningu byggingaráforma, sem séu í samræmi við skipulag og reglur laga um mannvirki. Fullyrðing kæranda um að verið sé að nota rými í hans eigu sé mótmælt og sé þar um misskilning að ræða. 

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í 27. gr. nefndra laga er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi, frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna (M1a), en því er þar lýst sem svæði þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Jafnframt segir að á svæðinu gildi almennar veitingaheimildir þar sem lengst megi vera opið til kl. 01 á virkum dögum og kl. 03 um helgar. Í kafla aðalskipulagsins „Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna)“ er að finna nánari skilgreiningar á svæðinu og er umrætt fjöleignarhús staðsett á hliðarverslunarsvæði nr. 12 sem afmarkast af Klapparstíg, austur- og vesturhlið, frá Laugavegi að Skólavörðustíg. Jafnframt er þar að finna sérstök ákvæði um götuhliðar í miðborginni þar sem settir eru á kvótar fyrir tilteknar tegundir starfsemi. Annars vegar kvótar með það að markmiði að vernda og efla smásöluverslun með því að kveða á um lágmarkshlutfall smásöluverslunar við ákveðin götusvæði og hins vegar kvótar til að tryggja fjölbreytilega starfsemi með því að kveða á um hámarkshlutfall sömu starfsemi við ákveðin götusvæði og torg. Það svæði sem hér um ræðir fellur undir fyrri flokkinn og er forsenda samþykkis fyrir breyttri notkun húsnæðis við jarðhæðir háð því að hlutfall smásöluverslunar fari ekki undir 50% við skilgreinda götuhlið. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að farið hafi verið gegn fyrrnefndu skilyrði með hinni kærðu ákvörðun. Þar að auki er gildandi deiliskipulag í samræmi við skilgreiningar aðalskipulags er varðar landnotkun.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna, s.s.um hljóðvist. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign sinni skv. 27. gr. laga um fjöleignarhús. Var því ekki þörf á að láta samþykki meðeigenda fylgja með umræddri byggingarleyfisumsókn, auk þess sem ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt og tilkynningarskyldu stjórnvalda áttu ekki við um réttarstöðu kæranda við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærandi telur jafnframt að með hinu umdeilda byggingarleyfi sé verið að heimila breytingar á séreign hans í kjallara hússins. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir Klapparstíg 33 tilheyrir eignarhluta 201, sem er í eigu kæranda, geymsla í kjallara og er birt stærð hennar 8,4 m2. Samkvæmt skráningartöflu þeirri sem fylgdi með eignaskiptayfirlýsingunni er umrædd geymsla merkt 0002 og er nettóflötur hennar skráður 6,7 m2, sem er sá fermetrafjöldi sem sýndur er á teikningu. Samkvæmt uppdrætti þeim sem fylgdi hinu umrædda byggingarleyfi er ekki að sjá að verið sé að breyta greindri geymslu heldur er hún skilmerkilega merkt sem geymsla 0002 á byggingarleyfisteikningum.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið annmörkum sem raskað geta gildi þess og verður kröfu um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III á 1. hæð og í kjallara hússins við Klapparstíg 33.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson