Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2014 Álver Norðuráls á Grundartanga

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dags. 27. júlí 2014, er barst ráðuneytinu 28. s.m. og framsent var til úrskurðarnefndarinnar 5. ágúst s.á., kærir Umhverfisvaktin við Hvalfjörð, Kúludalsá, Akranesi, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nefndin úrskurði um að framleiðsluaukningin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 17. september 2014.

Málavextir: Í mars 2014 sendi framkvæmdaraðili, Norðurál á Grundartanga, fyrirspurn um matsskyldu til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar álvers framkvæmdaraðila úr 300.000 tonnum á ári í allt að 350.000 tonn á ári, skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 13. a. í 2. viðauka laganna.

Með bréfum, dags. 21. mars 2014, leitaði Skipulagsstofnun umsagna Hvalfjarðarsveitar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Veðurstofu Íslands, Vinnueftirlitsins og Umhverfisstofnunar. Svar Vinnueftirlitsins er dags. 1. apríl s.á. og er þar ekki tekin afstaða til matsskyldu. Í svörum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 8. s.m., Veðurstofu Íslands, dags. 12. s.m., og Hvalfjarðarsveitar, dags. 14. s.m. og 2. júní s.á., kemur fram að þeir aðilar telji framkvæmdina ekki matsskylda.

Í umsögnum Umhverfisstofnunar, dags. 11. apríl og 2. júní s.á., var niðurstaðan sú að framkvæmdin væri matsskyld. Stofnunin teldi umfjöllun skorta um ýmsa þætti varðandi fyrirhugaða stækkun álversins. Til dæmis vanti ítarlega umfjöllun um mengunarvarnir og valkosti varðandi mögulegar mótvægisaðgerðir til að mæta hættu á aukinni loftmengun vegna framleiðsluaukningarinnar. Stofnunin teldi jafnframt að eðlilegt væri að gera grein fyrir hlutfalli brennisteins í súráli í heildarlosun brennisteinstvíoxíðs frá álverinu. Mikilvægt væri að horfa til sammögnunaráhrifa þess iðnaðar sem væri á svæðinu, enda losi þessi fyrirtæki í sama viðtaka.

Framkvæmdaraðili svaraði umsögnum Umhverfisstofnunar, Hvalfjarðarsveitar og Veðurstofu Íslands með bréfum til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí, 4. og 5. júní 2014.

Skipulagsstofnun sendi framkvæmdaraðila fyrirspurn, dags. 19. júní s.á., um losunarheimildir á brennisteinstvíoxíði, ástæðu fyrir aukinni raunlosun brennisteinstvíoxíðs og hvort þess væri að vænta að losunin gæti orðið meiri en hún væri í dag. Í svarbréfi framkvæmdaraðila, dags. 24. s.m., kemur fram að líklegt sé að hámarkslosun á brennisteinstvíoxíði lækki úr 21 kg/t Al niður í 18 kg/t Al til samræmis við önnur starfsleyfi álvera á Íslandi. Losun eftir 2005 hafi yfirleitt verið á milli 11 og 12 kg/t Al og reiknað væri með því að losun yrði svipuð áfram.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 26. júní 2014, var komist að þeirri niðurstöðu að framleiðsluaukning framkvæmdaraðila um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonnum í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi segir nokkra veigamikla þætti liggja til grundvallar kærunni sem nauðsynlegt sé að taka mið af til að skipulagsyfirvöld séu fær um að taka afstöðu til þess hvort auka megi við mengun frá Grundartanga með því að leyfa framleiðsluaukningu framkvæmdaraðila.

Í fyrsta lagi þurfi að rannsaka samlegðaráhrif mengunar af völdum stóriðju á Grundartanga á lífríki og náttúru. Áhrif mengunar vegna iðjuveranna á svæðinu séu mun meiri en mælingar bendi til. Mengunarálag birtist m.a. í flúori í beinasýnum úr sauðfé og hrossum og heilsubresti búfjár. Mikilvægt sé að sérfræðingar sem sinni mengunarmælingum og úrvinnslu þeirra vinni saman til að fá sem gleggsta heildarmynd af stöðunni. Enn sé stuðst við rannsóknir á áhrifum flúors á dádýr í Noregi til að ákvarða þol íslensks búfjár. Dádýr sé erlend dýrategund sem búi við önnur lífsskilyrði en íslensk húsdýr. Alvarlegar vísbendingar séu um að flúormengun hafi valdið tjóni utan þynningarsvæða iðjuveranna. Stöðugar rannsóknir þurfi að eiga sér stað á búfjárafurðum til að tryggja fæðuöryggi vegna mengunar frá Grundartanga.

Ekki eigi að gefa afslátt af kröfum um mat á umhverfisáhrifum þó að annar mengandi iðnaður sé til staðar á svæðinu. Miklu fremur beri að gæta sérstakrar varúðar þegar teknar séu ákvarðanir um að auka mengun í umhverfi þar sem hættumerkin blasi við vegna mikillar mengunar. Mæla þurfi styrk flúors í andrúmslofti allan ársins hring, en ekki einungis yfir gróðrartímabilið, apríl til október. Koma þurfi á fót upplýsingamiðlun um loftgæði á rauntíma allt árið. Samkvæmt starfsleyfi framkvæmdaraðila sé heimilt að auka útsleppi flúors yfir vetrarmánuðina, þegar flúor í andrúmslofti sé ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar- og beitartíma. Þetta standist ekki því hefð sé fyrir útigangi og vetrarbeit hrossa og sauðfjár og það sé skýlaus krafa að gætt sé að hreinleika haganna allan ársins hring með öflugri vöktun. Sé enda í starfsleyfi framkvæmdaraðila gert ráð fyrir því að unnt sé að stunda hefðbundinn búskap utan skilgreindra þynningarsvæða fyrir flúor og brennistein. Þynningarsvæði fyrir nefnd efni hafi verið þau sömu síðan framkvæmdaraðili hafi hafið starfsemi sína með fimm sinnum minni framleiðslu en nú sé. Miðað við núverandi flúorálag sé ekki unnt að halda því fram að landbúnaður í grennd við Grundartanga geti gengið eðlilega fyrir sig.

Mikilvægt sé að skipulagsyfirvöld leiti umsagna hagsmunaaðila þegar stefnt sé að því að auka mengandi iðnaðarframleiðslu í landbúnaðarhéraði. Ekki verði séð að Skipulagsstofnun hafi leitað slíkra umsagna þrátt fyrir að iðnaðarsvæði Grundartanga sé í landbúnaðarhéraði þar sem hagsmunasamtök bænda séu starfandi og þrátt fyrir að til séu íbúasamtök sem vinni að náttúruvernd og auknum náttúrugæðum.

Flestir viti nú um hið alvarlega mengunarslys sem orðið hafi í verksmiðju framkvæmdaraðila í ágúst 2006. Íbúar í grennd hafi enga hugmynd haft um slysið fyrr en mörgum mánuðum síðar og skort hafi verulega á rannsóknir í kjölfar þess. Skipulagsyfirvöldum beri nú þegar að láta þar til bæra aðila hanna viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á Grundartanga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þeirra röksemda og lagasjónarmiða sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun. Mikilvægt sé að hafa í huga að ákvörðun um að framkvæmd skuli háð umhverfismati sé íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5081/2007. Af því leiði að stofnunin geti ekki tekið slíka ákvörðun nema fyrir liggi traustar og áreiðanlegar upplýsingar sem renni stoðum undir þann möguleika að hin fyrirhugaða framleiðsluaukning Norðuráls á Grundartanga hafi í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Að mati stofnunarinnar liggi ekki fyrir slíkar upplýsingar í málinu.

Kærandi færi ekki rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að áhrif mengunar vegna iðjuveranna á Grundartanga séu mun meiri en mælingar bendi til, t.d. með vísan til gagna sem leiði í ljós réttmæti fullyrðingarinnar. Skipulagsstofnun bendi á að umhverfi verksmiðjanna á Grundartanga sé vaktað í samræmi við ákvæði í starfsleyfum þeirra. Bæði sé um að ræða beinar mælingar á styrk efna í lofti og vatni, sem og afleiddum áhrifum, s.s. styrk flúors í gróðri og beinum grasbíta. Jafnframt séu í gildi mörk fyrir styrk efna í andrúmslofti samkvæmt reglugerðum. Tryggja þurfi að mengun fari ekki yfir þau mörk utan þynningarsvæða.

Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila hafi dreifing mengunarefna verið reiknuð út og sýnt fram á að mengun yrði ekki ofan marka utan þynningarsvæða að því undanskyldu að sólarhringsstyrkur brennisteinstvíoxíðs á Kríuvörðu myndi mælast ámóta oft ofan viðmiðunarmarka og verið hafi. Í þeim útreikningum hafi verið reiknuð dreifing miðað við losun mengunarefna frá báðum stóru verksmiðjunum á Grundartanga.

Ekki finnist ákvæði um leyfilegan styrk flúors í reglugerðum um styrk mengunarefna í andrúmslofti. Þau mörk sem stuðst sé við í starfsleyfum álvera á Íslandi séu komin úr norskum viðmiðunarmörkum. Eðlilegt væri að viðmiðunarmörk væru í reglugerðum eða starfsleyfum fyrirtækja en vafasamt sé að einstök fyrirtæki standi fyrir rannsóknum til að ákvarða slík mörk. Rannsókn á afleiðingum langtíma álags vegna flúors á íslenskt búfé þurfi að fara fram, enda sé það gert með því að vakta umhverfið í Hvalfirði, m.a. með því að mæla styrk flúors í beinum sauðfjár.

Kærandi haldi því fram að sá galli sé á núverandi umhverfisvöktun að styrkur flúors í andrúmslofti sé einungis mældur yfir vaxtartíma gróðurs frá apríl til október, en ekki allan ársins hring. Sú ábending kæranda eigi að vera til umfjöllunar við endurnýjun starfsleyfis hjá Umhverfisstofnun, en ekki þegar könnun á matsskyldu fari fram, þar sem ákvæði séu í núgildandi starfsleyfi framkvæmdaraðila um að rekstraraðili skuli standa fyrir „samfelldum mælingum“ á styrk flúors í andrúmslofti (gr. 5.1).

Þó að mælingar allan ársins hring gæfu aðra mynd en mælingar á sex mánuðum fái stofnunin ekki séð að það atriði eitt og sér leiði til þess að möguleiki væri á því að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri því matsskyld, enda ekki unnt að líta svo á að um verulega óafturkræf áhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu gæti verið að ræða sem ekki væri hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi m.a. fram að við ákvörðun um matsskyldu skuli Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin. Áður skuli stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Hið tilvitnaða orðalag sé matskennt og áskilji ekki að stofnuninni beri strax að leita álits annarra en leyfisveitenda heldur þurfi að meta aðstæður og atvik í hverju máli. Að loknu því mati þurfi að taka afstöðu til þess hvort leita eigi álits annarra. Frá upphafi hafi stofnunin nær eingöngu leitað umsagna um tilkynningaskyldar framkvæmdir hjá leyfisveitendum og opinberum sérfræðistofnunum. Eins og það mál sem nú sé til umfjöllunar hafi legið fyrir stofnuninni og út frá þeim gögnum sem hún hafi haft undir höndum hafi ekki verið talið tilefni til að leita umsagna hagsmunaaðila. Niðurstöður umsagnaraðila hafi ekki verið á sama veg, en í því sambandi bendi stofnunin á að álits sé almennt aflað sem hluta af rannsókn máls með það að markmiði að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Ákvörðunarvaldið um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum hvíli hins vegar hjá Skipulagsstofnun skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000. Stofnunin hafi haft nægar upplýsingar til að taka ákvörðun í málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili vísar kröfum kæranda á bug og bendir jafnframt á að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að úrskurðarnefndin taki kæruna til efnismeðferðar. Kæran sé of seint fram komin þar sem kærufrestur hafi verið til 28. júlí 2014 en fram komi í bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis að kæran hafi borist ráðuneytinu með tölvupósti þann dag. Kæran sé stimpluð um móttöku 29. s.m. en hafi verið móttekin hjá úrskurðarnefndinni 5. ágúst s.á. Því skuli vísa kærunni frá þar sem hún hafi borist eftir að kærufresti lauk, enda geti kæra með tölvupósti varla rofið kærufrest þar sem lögákveðið sé að hún skuli vera skrifleg og undirrituð. Þá hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af ákvörðun Skipulagsstofnunar. Eigi hann hvorki beinna né verulegra hagsmuna að gæta og skorti á þau gögn sem sýna eigi fram á að lögákveðin skilyrði um aðild umhverfisverndarsamtaka séu uppfyllt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hvað efni málsins varði sé um að ræða aukningu á framleiðslu áls í álveri framkvæmdaraðila á Grundartanga. Aukningin sé einungis framkvæmd með tæknilegri þróunarvinnu þar sem gert sé mögulegt að leiða meiri rafstraum í gegnum núverandi kerlínur framkvæmdaraðila. Ekki sé þörf á neinum nýjum byggingum, ekki sé þörf á breytingu á stærð þynningarsvæðis og sé ekki reiknað með aukinni losun flúors. Engin breyting verði í raun á daglegri starfsemi álversins. Einungis sé verið að uppfæra og þróa búnað.

Árið 1995 hafi verið unnið mat á umhverfisáhrifum á allt að 180.000 tonna ársframleiðslu áls hjá framkvæmdaraðila á Grundartanga. Árið 2002 hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framleiðsluaukningar álversins í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu. Nú liggi fyrir áform um að auka framleiðslu í álverinu um allt að 50.000 tonn á ári. Framleiðsluaukningin, sem byggi á straumhækkun, felist fyrst og fremst í tæknibreytingum og aukinni orku- og hráefnisnotkun, en ekki sé um að ræða fjölgun kera eða stækkun kerskála.

Skipulagsstofnun hafi sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Leitað hafi verið álits lögboðinna aðila skv. 2. mgr. 6. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, auk Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vinnueftirlitsins. Ekki hafi borið að leita álits annarra en gert hafi verið. Þá hafi Skipulagsstofnun farið eftir lögbundnum viðmiðum í 3. viðauka laga nr. 106/2000 við töku ákvörðunarinnar.

Ekki sé ljóst hvað kærandi eigi við með því að samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga hafi ekki verið rannsökuð. Samkvæmt starfsleyfum iðnfyrirtækja þar séu umhverfisáhrif af starfseminni sérstaklega vöktuð og hafi verið það um áraraðir í samráði við Umhverfisstofnun. Staðreyndin sé sú að samlegðaráhrif vegna stóriðju á Grundartanga séu vel þekkt og megi sjá skýrslur um umhverfisvöktun á vef framkvæmdaraðila og Umhverfisstofnunar.

Áhrif flúors á búfénað hafi verið rannsökuð í tugi ára og séu vel þekkt. Á grundvelli þeirra rannsókna hafi viðmið um magn flúors í fóðri verið sett og á Íslandi sé alla jafna miðað við evrópsk viðmið sem séu 30 µg F/g. Viðmið í Bandaríkjunum séu 30-35 µg F/g. Í vöktunarskýrslum framkvæmdaraðila sjáist að styrkur flúors í grasi utan þynningarsvæðis á Grundartanga hafi aldrei mælst yfir 30 µg F/g, allt frá upphafi mælinga árið 1997. Hæsta gildi í grasi á síðasta ári hafi verið 7,9 µg F/g í Fannahlíð, sem sé við mörk þynningarsvæðis.

Bein og tennur á annað þúsund fjár á svæðinu hafi verið rannsökuð og dýralæknar hafi skoðað mun fleiri ær með reglubundnu eftirliti. Í þeim rannsóknum hafi aldrei fundist dæmi um neikvæð áhrif flúors á fé eða aðrar skepnur.

Flúor sé í dag mældur á vaxtartíma gróðurs, þar sem gróður taki ekki upp flúor á öðrum tíma. Það sé ekki rétt að framkvæmdaraðili hafi leyfi til að losa meiri flúor yfir vetrartímann. Slík heimild hafi verið til staðar einungis við ræsingu nýrra kera. Engin ný ker hafi verið tekin í gagnið síðustu árin og engin áform séu um það. Flúor í andrúmslofti sé afar erfitt að mæla í rauntíma. Notast sé við svokallaða síutækni þar sem sérstakar síur safni flúor úr andrúmsloftinu. Tilraunir með annan búnað sem mæli í rauntíma hafi ekki gefist vel og séu ónákvæmar. Innri mælitæki framkvæmdaraðila geti hinsvegar mælt flúor í útblæstri úr reykhreinsivirkjum og um rjáfur og því sé vel fylgst með losun flúors frá degi til dags.

Viðbragðsáætlun sé til staðar vegna frávika í starfsemi, þ. á m. mögulegra mengunarslysa. Að auki sé tilgreint í starfsleyfi félagsins að tilkynna þurfi Umhverfisstofnun um frávik.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar var kærufrestur í máli þessu tilgreindur til 28. júlí 2014. Kærandi sendi kæruna þann dag sem viðhengi í tölvupósti til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og framsendi ráðuneytið kæruna 5. ágúst s.á. til úrskurðarnefndarinnar í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. þeirra laga telst kæra nógu snemma fram komin, ef bréf sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Tölvupóstur með kærunni ber með sér að hafa verið kominn til ráðuneytisins þann dag sem tilgreindur var í hinni kærðu ákvörðun sem lokadagur kærufrests. Þá verður talið afsakanlegt að kæru hafi verið beint að umhverfis- og auðlindaráðuneyti í stað úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, enda var kæruleið áður til ráðuneytisins. Verður að öllu framansögðu við það að miða að kæra hafi borist innan kærufrests óháð formi hennar, enda hvílir á úrskurðarnefndinni leiðbeiningarskylda skv. 1. mgr. áðurnefndrar 7. gr. stjórnsýslulaga um hvernig bæta skuli úr formgöllum ef ástæða er til.

Í máli þessu er deilt um gildi þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er því haldið fram af hálfu kæranda að ekki megi láta hjá líða að gera slíkt mat. Byggist það einkum á því að aukin framleiðsla muni valda aukinni mengun sem nú þegar sé of mikil í nágrenni iðjuversins. Er þess krafist að nefndin úrskurði um að framleiðsluaukningin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu, enda fellur það utan valdheimilda hennar að ákveða að umrædd fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í nefndri 14. gr. laga nr. 106/2000 segir að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þau eru nr. 130/2011. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. þeirra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Eitt þeirra tilvika er að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært nánar tilgreindar ákvarðanir, s.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur svo fram að umhverfisverndarsamtök teljist samtök sem hafi umhverfisvernd að meginmarkmiði. Samtökin skuli vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

Kærandi er félag og hlutverk þess skv. 3. gr. laga félagsins er að: a) stuðla að verndun lífríkisins við Hvalfjörð, jafnt í sjó, lofti og á landi, b) að vinna að faglegri upplýsingaöflun með aðstoð sérfræðinga, c) að efla fræðslu um umhverfismál almennt og leiðir til úrbóta, d) að fylgjast með mengunarvörnum á svæðinu og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þurfa þykir og e) að vera góð fyrirmynd í orði og verki. Samkvæmt 2. gr. geta þeir orðið félagar sem hafa áhuga á náttúru- og dýravernd, vilja stuðla að góðri umgengni um Hvalfjörð og í nágrenni hans og rækta virðingu fyrir lífríkinu meðal íbúanna. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað munu félagar vera um 90 talsins og á meðal gagna málsins er áritaður ársreikningur kæranda og skýrsla stjórnar hans fyrir starfsárið 2014. Uppfyllir kærandi því skilyrði 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir kæruaðild umhverfisverndarsamtaka.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 1. viðauka við lögin, eins og þau voru á þeim tíma, eru taldar framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum en í 2. viðauka eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Er þá metið í hverju tilviki, með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Eru þar á meðal taldar breytingar og viðbætur við framkvæmdir skv. 1. og 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13. a. Með vísan til framangreinds töluliðar tilkynnti framkvæmdaraðili áform sín til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laganna, en í ákvæðinu, eins og lögin voru á þeim tíma, er mælt fyrir um málsmeðferð framkvæmda sem kunni að vera háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt nefndri 2. mgr. 6. mgr. laganna, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005, sem þá var í gildi, skyldu ákveðin gögn fylgja tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Í samræmi við framangreint hafði tilkynningin um áform um framleiðsluaukningu í álveri framkvæmdaraðila m.a. að geyma framkvæmdalýsingu, umfjöllun um skipulag á svæðinu og lýsingu á staðháttum. Greint er frá umhverfisvöktun á Grundartanga og niðurstöðum hennar, en vöktuninni er ætlað að meta álag á umhverfið sem starfsemi iðjuvera þar veldur. Kemur fram að vöktunin fari fram samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun og þar sé kveðið á um vöktun andrúmslofts, árvatns, gróðurs, grasbíta, lífríkis sjávar og umhverfis flæðigryfja í sjó. Loks er í tilkynningunni fjallað um möguleg umhverfisáhrif vegna framkvæmdarinnar. Í kjölfarið leitaði Skipulagsstofnun umsagna, eins og fram kemur í málavaxtalýsingu, en leita skal álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. Framkvæmdaraðili svaraði öllum álitsgerðum og í kjölfarið leitaði Skipulagsstofnun eftir nánari upplýsingum frá honum um losun brennisteinstvíoxíðs. Frekari álitsumleitan var á forræði Skipulagsstofnunar í samræmi við nefnt lagaákvæði, en ekki verður séð að til þess hafi verið sérstakt tilefni. Var framangreind málsmeðferð í samræmi við fyrirmæli laganna þar um.

Rekstur álvers er mengandi starfsemi og hefur 50.000 tonna framleiðsluaukning á ári óhjákvæmilega í för með sér aukin áhrif á umhverfið. Snýst ágreiningur máls þessa um það mat Skipulagsstofnunar að þau áhrif yrðu ekki umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000 og að þar með væri ekki þörf á mati á þeim.

Samkvæmt o. lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Í títtnefndri 2. mgr. 6. gr. sömu laga segir að fara skuli eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin þegar komist sé að niðurstöðu um hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli þar með sæta mati á þeim áhrifum. Í nefndum 3. viðauka eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum og fjölda stafliða þar undir. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu, sbr. 1. tl. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og þar skal athuga hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til landnotkunar sem fyrir er eða fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda, verndarsvæða og álagsþols náttúrunnar, sbr. 2. tl. undir liðum i., ii., iii og iv. Vegna verndarsvæða er meðal annars vísað til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, svæða, sbr. gr. 4.21 í skipulagsreglugerð, sem njóta verndar í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um neysluvatn vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum, sem og svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, og falli válistar hér undir. Um álagsþol náttúrunnar er tekið fram að viðkvæmni svæðis skuli athuga með tilliti til m.a. votlendissvæða, strandsvæða, náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá, upprunalegs gróðurlendis, svo sem skóglendis, og síðast en ekki síst svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum. Loks ber að líta til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar í ljósi áðurnefndra viðmiðana, sbr. 3. tl., einkum með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum, tímalengdar, tíðni og óafturkræfi og sammögnunar umhverfisáhrifa sem og hverjar líkur séu á þeim o.fl.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir áðurgreindra þátta vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en úrskurðarnefndin er þeirrar skoðunar að með hliðsjón af eðli og stærðargráðu þeirrar starfsemi sem hér er um deilt hefðu vel flest þeirra atriða sem talin eru í 3. viðauka átt að koma til skoðunar við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ákvörðun sinni gerir Skipulagsstofnun fyrst grein fyrir máli því sem fyrir liggi og meðferð þess. Reifuð eru framlögð gögn framkvæmdaraðila um fyrirhugaða framkvæmd, orku- og hráefnisnotkun, vöktun umhverfis, áhrif framleiðsluaukningar á umhverfið, losun gróðurhúsalofttegunda, áhrif á loftgæði og um samræmi við skipulagsáætlanir. Þá eru reifuð álit umsagnaraðila og viðbrögð framkvæmdaraðila við þeim. Loks kemst Skipulagsstofnun að
þeirri niðurstöðu að hin tilkynnta framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif „sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum“. Frekari tilvísanir til 3. viðauka eða heimfærslur til nánar tilgreindra tölu- og stafliða hans er hins vegar ekki að finna í niðurstöðunni, en eins og atvikum máls þessa er háttað hefði það aukið til muna á gagnsæi og skýrleika hennar.

Árið 1995 var unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 180.000 tonna ársframleiðslu áls hjá framkvæmdaraðila og árið 2002 fór fram mat á umhverfisáhrifum framleiðsluaukningar álversins í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu. Í niðurstöðu sinni tekur Skipulagsstofnun fram að þegar horft sé til beinna áhrifa fyrirhugaðrar aukningar telji stofnunin að taka beri mið af þeirri starfsemi sem lagt hafi verið mat á árið 2002 og niðurstöðum vöktunar á iðnaðarsvæði Grundartanga, en allítarleg gögn liggi fyrir um samlegðaráhrif álvers framkvæmdaraðila og járnblendiverksmiðju Elkem, sem byggja megi á. Frekari grein er ekki gerð fyrir efni þess mats sem fram fór árið 2002. Stofnunin leit á nefnt mat sem grunnlínu sem umfjöllun um áhrif framleiðsluaukningar skyldi miðast við. Þegar að hinni kærðu ákvörðun kom voru hinsvegar liðin 12 ár frá því að mat á umhverfisáhrifum var unnið og þá var í gildi eldra lagaumhverfi. Var því tilefni til að gera grein fyrir því í umfjöllun Skipulagsstofnunar hvort, og þá að hvaða leyti, forsendur væru aðrar en þá hvað varðar atvik sem og gildandi lög og reglugerðir.

Ákvarðanir stjórnvalda verða að vera ákveðnar og skýrar að efni til, að öðrum kosti geta málsaðilar og aðrir þeir sem telja til réttar vegna ákvörðunar vart gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni. Eins og áður hefur komið fram er úrskurðarnefndin þeirrar skoðunar að framsetningu hinnar kærðu ákvörðunar hafi um margt verið ábótavant og að tilefni hafi verið til nánari umfjöllunar um ákveðin atriði. Þrátt fyrir þá annmarka er það álit nefndarinnar að af heildarsamhengi hinnar kærðu ákvörðunar, þ.m.t. tilvísun til þess mats á umhverfisáhrifum sem fór fram árið 2002 og gagna, s.s. ítarlegra vöktunarskýrslna og úttektar á umhverfisáhrifum, sé hún nægilega skýr og leiði framangreindir annmarkar því ekki til ógildingar.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að fyrirhuguð framleiðsluaukning, sem byggi á straumhækkun, feli fyrst og fremst í sér tæknibreytingar og aukna orku- og hráefnisnotkun, en ekki sé um að ræða fjölgun kera eða stækkun kerskála. Er það og forsenda Skipulagsstofnunar að helstu beinu umhverfisáhrif felist í auknum útblæstri flúors og brennisteinstvíoxíðs og þá muni framleiðsluaukningin leiða til aukinnar losunar koltvíoxíðs. Er þessi forsenda í samræmi við gögn málsins sem áður hafa verið tilgreind. Í samræmi við framangreint er í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar fjallað frekar um brennisteinstvíoxíð og flúor og fallist á að bregðast þurfi við fyrirsjáanlegum auknum útblæstri á þeim efnum. Jafnframt er fallist á að mikilvægt sé að endurskoða loftdreifingarspár reglulega með tilliti til vöktunar og betri mælinga. Sýni vöktunarmælingar að ekki sé hægt að standa við ákvæði í starfsleyfum um að halda losun mengunarefna innan viðmiðunarmarka með tilliti til þynningarsvæðis, eigi fyrstu viðbrögð framkvæmdaraðila skilyrðislaust að felast í því að finna leiðir til að draga úr menguninni. Það megi meðal annars gera með bættum mengunarvarnarbúnaði eða kaupum á sem bestu hráefni. Einnig er tekið fram í inngangi niðurstöðukafla að Skipulagsstofnun telji að hafa beri í huga fyrirséðar breytingar sem gerðar verði á starfsleyfi framkvæmdaraðila með tilliti til hámarkslosunar á brennisteinstvíoxíði og áforma um bætt afsog frá kerum. Taldi Skipulagsstofnun að framleiðsluaukning framkvæmdaraðila væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Fyrir liggur að til grundvallar niðurstöðu Skipulagsstofnunar lágu upplýsingar úr mati á umhverfisáhrifum sem gert var 2002 og ítarlegar vöktunarskýrslur allt frá þeim tíma, auk annarra gagna. Í niðurstöðu er fjallað um tiltekin viðmið í 3. viðauka laga nr. 106/2000, án heimfærslu þó. Þannig er að finna umfjöllun um eðli framkvæmdar, sbr. tl. 1, einkum um sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum á svæðinu, sbr. ii., og um mengun, sbr. iii. Um staðsetningu er einnig fjallað, einkum um álagsþol náttúrunnar með tilliti til svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum, sbr. tl. 2.iv.(i), og er sú umfjöllun nokkuð ítarleg. Upplýsingar frá framkvæmdaraðila um ferskvatnssýni úr ám í Hvalfirði og sjósýni og upplýsingar um styrk efna í samanburði við mörk sem skilgreind eru í neysluvatnsreglugerð gáfu hins vegar tilefni fyrir stofnunina til að fjalla um aðrar reglugerðir á þessu lagasviði. Sama gildir um þær upplýsingar framkvæmdaraðila að marktækar breytingar væru til hækkunar á meðalstyrk flúors í kjálkabeinum lamba og fullorðins fjár milli áranna 1997-2012 en þó væri um að ræða marktæka breytingu til lækkunar á meðalstyrk flúors í lömbum milli áranna 2007-2012. Var ástæða til að Skipulagsstofnun fjallaði frekar um ástæður þessara breytinga. Loks er rétt að benda á að umfjöllun um umhverfisáhrif miðar að mestu leyti við þynningarsvæði en ekki er vikið að t.a.m. landnotkun þar fyrir utan eða mögulegum áhrifum á votlendissvæði. Þegar tekið er tillit til alls framangreinds þykir stofnunin þó hafa farið eftir þeim viðmiðum í 3. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem mestu máli skiptu við töku ákvörðunarinnar. Sérstaklega var litið til álagsþols náttúrunnar að teknu tilliti til þess að mengun hefði mælst yfir viðmiðunargildum reglugerða, en hvað það varðar lá einnig fyrir umsögn Veðurstofu Íslands þess efnis að miðað við fyrirhugaða framleiðsluaukningu myndi sá tími þar sem brennisteinstvíoxíð myndi mælast yfir gróðurverndarmörkum aukast um 0,1 prósentustig miðað við óbreyttan útblástur frá járnblendiverksmiðju Elkem. Þá lá fyrir í gögnum málsins að aukin losun myndi að öðru leyti rúmast innan heimilda starfsleyfis framkvæmdaraðila, eins og það var á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin, en þær heimildir byggðu á mati á umhverfisáhrifum sem fram fór árið 2002. Loks var það forsenda fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar að áform væru um ákveðnar mótvægisaðgerðir, t.d. bætt afsog frá kerum, en möguleiki á að vega upp á móti umhverfisáhrifum með mótvægisaðgerðum er eitt skilgreiningaratriða þess hvort þau áhrif teljist veruleg, sbr. o. lið 3. gr. laga nr. 106/2000, sem áður hefur verið rakinn. Að öllu framansögðu verður ekki hnekkt því mati Skipulagsstofnunar að framleiðsluaukning muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður annað séð en að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína gætt lögmætrar málsmeðferðar, aflað umsagna og tekið sjálfstæða afstöðu til ítarlegra gagna sem fyrir liggja í málinu, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, verður ekki talið um neina þá annmarka að ræða er raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Er kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

______________________________              _____________________________
Nanna Magnadóttir                                                 Geir Oddsson

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta úrskurðarnefndarinnar þess efnis að mál þetta skuli tekið til efnismeðferðar. Ég tel hins vegar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi með eftirfarandi rökum: Í gögnum framkvæmdaraðila, sem lögð hafa verið fyrir nefndina, kemur fram ráðagerð um frekari stækkun Norðuráls á Grundartanga, þ.e. til viðbótar við þá ríflega 15% framleiðsluaukningu sem áætluð er samkvæmt framangreindri tilkynningu hans. Framleiðsluaukningunni fylgir aukin hráefnisnotkun, orkunotkun, aukin losun gróðurhúsalofttegunda og ýmissa mengandi efna út í umhverfið, þ.m.t. flúors, að mestu leyti í línulegu hlutfalli við aukninguna. Með vísan til framangreinds og þess að nokkuð skortir á að Skipulagsstofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að teknu tilliti til þess hvernig tilskipanir þær sem innleiddar eru með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafa verið túlkaðar af dómstól Evrópusambandsins (sjá einkum mál nr. C-431/92, C-72/95 og C-227/01), en þeir dómar hafa þýðingu við túlkun löggjafar Evrópska efnahagssvæðisins, og með vísan til þeirrar staðreyndar að engar tölulegar viðmiðanir er að finna í 5. tölul. 1. viðauka laga nr. 106/2000, tel ég að fella beri úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir

39/2014 Fálkaklettur

Með
Árið 2016, mánudaginn 30. maí 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 39/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. apríl 2014, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. s.m., kærir Þ, Fálkakletti 5, Borgarnesi, ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. apríl 2014, um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna byggingar sem standi við lóðamörk Fálkakletts 5 og 7. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með bréfi til byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, dags. 11. desember 2013, sendi kærandi kvörtun í tilefni af byggingu sem staðsett var á lóðinni Fálkakletti 7 við lóðarmörk fasteignar kæranda að Fálkakletti 5. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2014 og bókað: „Þórdís Arnardóttir er með fyrirspurn er varðar byggingu á Fálkakletti 7 fyrir fiðurfénað. Málið var lagt fram og byggingarfulltrúa falið að svara erindinu.“ Við könnun á vettvangi kom í ljós að umræddur hænsnakofi stóð nær lóðamörkum Fálkakletts 5 og 7 en sem nam 3 metrum. Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 2. apríl 2014, var sú niðurstaða tilkynnt að það væri mat byggingarfulltrúa að ekki væri ástæða til að fara í þvingunaraðgerðir vegna málsins þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir við staðsetningu kofans fyrr en löngu eftir að honum hafi verið komið fyrir.

Kærandi vísar til þess að umdeild bygging standi innan við 3 metra frá mörkum lóðar hans og hefði því þurft að koma til samþykki kæranda skv. 6. tl. g liðar gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Staðsetning byggingarinnar og notkun hafi truflandi áhrif gagnvart kæranda enda standi hún alveg á mörkum nefndra lóða.

Niðurstaða: Í umsögn byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. maí 2016, kemur fram að eigandi umdeilds hænsnakofa, sem staðsettur var á lóðinni Fálkakletti 7, sé fluttur og hafi tekið hænsnakofann með sér, en kærumálið snýst um lögmæti staðsetningar nefnds kofa nærri mörkum lóðar kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem tekið hefur við þeim málum sem áður áttu undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, er sett það skilyrði fyrir aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni að viðkomandi eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra skal nema að lög kveði sérstaklega á annan veg. Þar sem umdeildur kofi hefur verið fjarlægður af lóðinni Fálkakletti 7 á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

43/2016 Golfvöllur Blikastaðanesi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 24. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 43/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Þrastarhöfða 53 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 27. apríl 2016 að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæða við golfvöllinn á Blikastaðanesi og aðkomuvegar að þeim. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar séu í hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndinni barst greinargerð frá Mosfellsbæ 11. maí 2016 í tilefni af framkominni stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulagi Blikastaðanes frá árinu 2004 vegna golfvallar öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2016. Í deiliskipulagsbreytingunni felst í meginatriðum að afmörkuð lóð stækkar og færist ásamt byggingarreit fyrir golfskála frá íbúðarbyggð. Þá er fyrirkomulag bílastæða sýnt og skipulagssvæðið stækkað svo stæðin ásamt vegtengingu verði innan þess. Hefur kærandi skotið þeirri deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 19. apríl 2016 var samþykkt umsókn bæjarins og Golfklúbbs Mosfellsbæjar um leyfi fyrir áður greindum framkvæmdum og skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfi. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 27. s.m. og framkvæmdaleyfið gefið út 28. s.m. Hið kærða leyfi tekur til nauðsynlegra jarðvegsskipta, fyllinga og yfirborðsfrágangs 130 bílastæða og vegar með malarlagi auk annars lokafrágangs s.s. grjóthleðslna og þökulagningar. Umrædd bílastæði eru staðsett vestan við íbúðarhúsalóð kæranda.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að um gríðarlega hagsmuni sé að ræða fyrir hann þar sem staðsetning bílastæða sé samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti rétt um 4,7 m frá lóðarmörkum fasteignar hans. Bílastæði svo þétt upp við nefnd lóðarmörk hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif sem muni valda skerðingu á lífsgæðum. Þá hafi framkvæmdir verið hafnar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins, eða 24. apríl. Samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé m.a. skýrlega tekið fram, að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni, skuli skipulagsfulltrúi stöðva slíka framkvæmd tafarlaust og leita staðfestingar sveitastjórnar.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé fjarlægð bílastæða frá lóðarmörkum kæranda 12,5 m. Felld hafi verið niður níu stæði miðað við upphaflega tillögu deiliskipulagsbreytingar frá árinu 2016 til að koma til móts við kæranda og gæta meðalhófs. Hafi framkvæmdir hafist áður en framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út, hafi það ekki verið með vitund eða samþykki sveitarfélagsins. Fyrir liggi að núverandi framkvæmdir séu hins vegar í samræmi við útgefið leyfi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna bílastæða og vegar með malarlagi. Vinna við umdeilda framkvæmd er þegar hafin og líta verður til þess að ætla má að stöðvun verksins nú muni hafa í för með sér umtalsverða röskun og fjártjón með hliðsjón af þegar gerðum samningum við verktaka. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturtæka framkvæmd, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu hans um stöðvun framkvæmda enda ber framkvæmdaaðili af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

105/2014 Hverfisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. október 2014, er barst nefndinni 3. s.m., kærir félagið Vesturgarðar ehf., eigandi Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2014.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en 18. október 2006 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur að breyta deiliskipulagi reits 1.173.0, vegna lóðarinnar að Hverfisgötu 78 í Reykjavík, þannig að heimiluð yrði bygging fimmtu hæðar ofan á framhús lóðarinnar og tveggja hæða ofan á einnar hæðar bakhús. Gert var ráð fyrir því að í viðbyggingunum yrðu átta íbúðir og að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 2,5 í 3,5. Þessi ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi ákvörðun skipulagsráðs úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 10. nóvember 2009, í máli nr. 12/2007. Var vísað til þess að ekki væri um að ræða óverulega skipulagsbreytingu í skilningi 2. mgr. 26. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en á því hafði verið byggt við meðferð málsins.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur 6. desember 2013 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna umræddrar lóðar. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að rífa bakhús og var í stað þess gert ráð fyrir fjögurra hæða húsi á baklóð til þess að hafa hótel eða gistiheimili á lóðinni. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti 18. desember 2013 að auglýsa deiliskipulagstillöguna, og var það samþykkt af borgarráði 9. janúar 2014. Tillagan var auglýst frá 17. s.m. til 28. febrúar s.á. Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2014, var athugasemdum svarað og lagt til að umsótt deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Nánar sagði um athugasemd kæranda um skuggavarp: „Skuggavarp sýnir að áhrif byggingar á baklóð Hverfisgötu 78 á skuggavarp á lóð Hverfisgötu 80 eru engin fyrir kl. 16. Eftir það hefði byggingin áhrif á skuggavarpið á lóð Hverfisgötu 80. Um jafndægur fellur skuggi nýbyggingar innan skugga af Kjörgarði.“ Jafnframt kom fram í umfjöllun um skuggavarp að skoða yrði tillöguna í ljósi þess að árið 2006 hefði verið samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar Hverfisgötu 78, í hverju sú breyting hefði falist, sem og að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefði fellt þá breytingu úr gildi og á hvaða forsendum sú niðurstaða hefði byggst. Einnig að sú tillaga sem nú væri auglýst gerði ráð fyrir fjögurra hæða nýbyggingu á baklóð og að sjá mætti af gögnum að hún yrði ekki hærri og jafnvel ívið lægri en sú bygging sem samþykkt hefði verið 2006. Hefði tillagan sem nú lægi fyrir minni áhrif en sú sem samþykkt hefði verið 2006 og felld úr gildi vegna formgalla. Breyting á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. apríl 2014, með vísan til fyrrnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa, og var deiliskipulagsbreytingin svo samþykkt á fundi borgarráðs 10. s.m.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar, sem tók fram í bréfi sínu til Reykjavíkurborgar, dags. 14. maí 2014, að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til tillögunnar „… fyrr en athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu nr. 80 hafa verið teknar til umfjöllunar að nýju og þeim svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar sem felld hefur verið úr gildi. Aðeins á við að bera saman skuggavarp og áhrif að þessari breytingu og gildandi deiliskipulagi“. Stofnunin taldi jafnframt að nauðsynlegt væri að leita eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál fyrirhugað hótels „… vegna þrengsla og upplýsinga um að kvöð um aðkomu frá Hverfisgötu 80 að baklóðinni virðist ekki hafa gildi“.

Umsögn skipulagsfulltrúa frá 13. mars 2014 var breytt 8. ágúst s.á. og var hún send Skipulagsstofnun sama dag með bréfi. Í bréfinu kom fram að leitað hafi verið umsagnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og að umsögn þess efnis hefði borist, þar sem fram hafi komið að tryggja þyrfti aðkomu að bakhúsinu til að sinna slökkvistörfum. Reykjavíkurborg hefði síðar borist tölvupóstur frá slökkviliðinu þar sem fram kæmi að gerlegt væri að leysa málin innan lóðar og myndi slökkviliðið ekki leggjast gegn því, kysi lóðarhafi að fara þá leið, svo framarlega sem það yrði gert almennilega og í samræmi við reglur. Í breyttri umsögn skipulagsfulltrúa sagði um skuggavarp: „Skuggavarp sýnir að bygging á baklóð Hverfisgötu 78 hefur ekki áhrif á hugsanlega byggingu innan byggingarreits á lóð Hverfisgötu 80 fyrir kl. 16. Eftir kl. 16 mun byggingin varpa skugga á lóð og byggingarreit Hverfisgötu 80.“ Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst 2014 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m., væri samþykkt.

Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. ágúst 2014, var tekið fram að stofnunin gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Tók síðan breytingin gildi með auglýsingu þar að lútandi, birtri 4. september 2014.
   
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fari um breytingu á deiliskipulagi líkt og um sé að ræða nýtt deiliskipulag, en þó sé ekki skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. Hafi umrædd breyting því átt að fara eftir ákvæðum 41. og 42. gr. skipulagaslaga. Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. laganna skuli sveitarstjórn taka skipulagstillögu til umfjöllunar og taka afstöðu til þeirra athugasemda sem borist hafi. Þá skuli senda samþykkt deiliskipulag Skipulagsstofnun til meðferðar skv. 1. mgr. 42. gr. nefndra laga. Telji stofnunin form- eða efnisgalla á skipulagi skuli hún tilkynna sveitarstjórn þar um. Sveitarstjórn skuli taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varði athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir um efni deiliskipulags skuli hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess.

Skipulagsfulltrúi hafi unnið umsögn um fram komnar athugasemdir. Skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagstillöguna á fundi 2. apríl 2014 með vísan til hennar og vísað málinu til borgarráðs, sem samþykkt hafi tillöguna á fundi sínum 10. s.m. Skipulagsstofnun hafi tilkynnt með bréfi, dags. 14. maí 2014, að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar fyrr en athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu 80 hlytu umfjöllun að nýju og þeim væri svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar sem felld hefði verið úr gildi. Stofnunin hafi jafnframt talið nauðsynlegt að leita eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Þessar athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi átt að koma til umræðu í sveitarstjórn, skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, en það hafi ekki verið gert. Þess í stað hafi skipulagsfulltrúi breytt fyrri umsögn sinni og sé sú breyting frá 8. ágúst 2014. Hafi Skipulagsráð samþykkt hina breyttu umsögn 13. s.m. Jafnframt hafi verið leitað afstöðu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál. Málsmeðferðin hafi því ekki verið í samræmi við lög.

Þá liggi fyrir að skipulagsfulltrúi hafi breytt fyrri umsögn um fram komnar athugasemdir, sem áður hafði hlotið lögboðna afgreiðslu sveitarstjórnar með samþykkt borgarráðs 10. apríl 2014. Það sé borgarráð sem hafi vald til fullnaðarafgreiðslu slíkrar tillögu sem hér um ræði, sbr. 48. gr. samþykktar nr. 715/2013 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Þá sé það aðeins á færi borgarráðs að breyta fyrri umsögn og svörum við athugasemdum þótt umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt breytinguna, enda fari það ráð ekki með vald til að afgreiða skipulagstillögur sem sæti auglýsingu, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur frá 18. desember 2012. Þá verði heldur ekki ráðið af málsgögnum að breytt umsögn og svör við athugasemdum hafi verið send þeim sem athugasemdir hafi gert. Hafi málinu verið vísað til Skipulagsstofnunar og gildistaka hinnar kærðu ákvörðunar síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda án frekari umfjöllunar eða atbeina borgarráðs. Hafi þessi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið ólögmæt.

Í umsögn og svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum vegna tillögunar sé látið í veðri vaka að ekki muni þurfa að nota meinta kvöð um umferð um lóð kæranda til aðkomu að baklóð Hverfisgötu 78 og megi að öllum líkindum taka kvöðina af deiliskipulaginu. Breytingin taki hins vegar aðeins til lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu. Enda þótt ekki hafi verið skilyrði til að taka ákvörðun um að afmá kvöðina, sem hluta af hinni umdeildu skipulagstillögu vegna þess að kvöðin væri utan þess svæðis sem breytingin tæki til, hafi skipulagsyfirvöldum verið í lófa lagið að setja í skilmála um hina umdeildu skipulagsbreytingu ákvæði um að aðkoma að baklóð og ráðstafanir vegna eldvarna að Hverfisgötu 78 skyldu vera innan lóðar og taka þannig af öll tvímæli um að meintrar kvaðar væri ekki lengur þörf. Skipulagsyfirvöld hafi ekki sinnt þessu heldur kosið að láta það ráðast af skilningi manna á tölvupóstum slökkviliðs og vangaveltum skipulagsfulltrúa í svörum við athugasemdum hvaða skilmálar væru taldir gilda á umræddu svæði. Sé það augljóslega andstætt þeirri kröfu sem gera verði til skýrleika skipulagsákvarðana að taka ekki upp í skipulagsskilmála ákvæði um jafn þýðingarmikið efni og hér um ræði.

Kærandi, sem eigi byggingarrétt á lóðinni Hverfisgötu 80, telji að aukið byggingarmagn að Hverfisgötu 78 og skuggvarp af hugsanlegum nýbyggingum gangi gegn lögvörðum hagsmunum hans og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað.

Umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkt í borgarráði 10. apríl 2014. Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa um fram komnar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 2. apríl 2014. Sú málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð.

Skipulagsstofnun hafi farið yfir gögn málsins en ekki getað tekið afstöðu til þess fyrr en athugasemdir lóðarhafa að Hverfisgötu 80 hefðu verið teknar til umfjöllunar að nýju og þeim svarað efnislega án þess að vísa til deiliskipulagsbreytingar frá 2006 sem felld hafi verið úr gildi. Einnig hafi Skipulagsstofnun talið rétt að leitað yrði eftir umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um öryggismál fyrirhugaðs hótels. Í kjölfar ábendinga Skipulagsstofnunar hafi umsögn um athugasemdir og svörum við þeim verið breytt og hún svo send stofnuninni.

Skipulagsráð hafi fjallað um og samþykkt breytta umsögn á fundi sínum 13. ágúst 2014, án þess að það hefði nokkur áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs frá 10. apríl 2014. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. ágúst 2014, hafi ekki verið gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þar sem breytt umsögn hefði ekki áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs.

Ekki sé hægt að fallast á þau málsrök kæranda að annmarki hafi verið á málsmeðferð hins umþrætta deiliskipulags, þar sem athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi átt að koma til umræðu í sveitarstjórn. Í 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð sé heimild fyrir ráðið til fullnaðarafgreiðslu mála skv. skipulagslögum nr. 123/2012, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, svo sem afgreiðslu skipulagslýsinga, deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa. Ekki sé um tæmandi talningu að ræða og sé litið svo á að umhverfis- og skipulagsráð geti afgreitt athugasemdir Skipulagsstofunnar, enda séu þær ekki þess eðlis að þær kalli á breytingar sem þurfi að auglýsa að nýju. Þá sé sérstaklega bent á að uppfærð umsögn skipulagsfulltrúa og beiðni um umsögn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi ekki nein áhrif á fyrri afgreiðslu borgarráðs. Ætlaður annmarki, telji úrskurðarnefndin hann fyrir hendi, sé svo óverulegur að hann geti ekki með neinu móti leitt til ógildingar hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar. Hann hafi hvorki valdið kæranda réttarspjöllum né breytt niðurstöðu málsins að öðru leyti. Þá hafi fundargerð umhverfis- og skipulagsráð, þar sem afgreiðsla málsins hafi farið fram, verið lögð fram í borgarráð án athugasemda borgarráðs.

Fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2014, að bygging á baklóð Hverfisgötu 78 hafi ekki áhrif á hugsanlega byggingu innan byggingareits á lóð Hverfisgötu 80 og varpi ekki skugga á byggingarreit og lóðina fyrr en eftir kl. 16. Eftir þann tíma varpi byggingin skugga á lóð Hverfisgötu 80 jafnt á sumri sem og á jafndægrum. Það sé því ljóst að breyting á hæð bakbyggingar að Hverfisgötu 78 hafi áhrif á skuggavarp á lóðinni, en ekki meiri en búast megi við á þéttu svæði líkt og í miðbænum.

Samkvæmt deiliskipulagi fyrir reit 1.173.0, birtu í B-deild Stjórnartíðinda 16. nóvember 1999, sé kvöð á lóð Hverfisgötu 80. Ekki sé ljóst af hverju kvöðin hafi verið sett inn á sínum tíma, en líklegast sé það vegna aðgengis að bakhúsi að Laugavegi 59. Deiliskipulagsbreytingin nú nái eingöngu til lóðarinnar Hverfisgötu 78. Allar ráðstafanir vegna eldvarna fyrir hótelið á þeirri lóð verði leystar innan hennar. Loks sé á það bent að kvöðin sé ekki til umfjöllunar í þessari deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir lóðarhafa Hverfisgötu 78:
Lóðarhafi krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi beri fyrir sig að skipulagsyfirvöld hafi ekki sett í skilmála um skipulagsbreytinguna ákvæði um niðurfellingu umferðarkvaðar um lóðina Hverfisgötu 80 til aðkomu að baklóð Hverfisgötu 78 og þá að þessari athugasemd hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt í upphafi. Í endurskoðaðri umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sé þessari athugasemd svarað. Deiliskipulagstillagan hafi ekki tekið til fyrrgreindrar lóðar kæranda og því þýðingarlaust að ræða skipulagsmál hennar. Athugasemdir kæranda séu byggðar á misskilningi hvað þetta varði.

Fullnægjandi upplýsingum slökkviliðsins hafi verið komið á framfæri við Skipulagsstofnun. Það að samskipti Skipulagsstofnunar, skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi ekki verið borin undir borgarráð geti ekki valdið ógildingu deiliskipulagsins. Það sé síðan hlutverk fulltrúa slökkviliðsins að yfirfara brunahönnun væntanlegrar byggingar og sjá til þess að hún uppfylli öll laga- og reglugerðarákvæði varðandi eldvarnir.

Hafna beri málatilbúnaði kæranda um að aukið byggingarmagn að Hverfisgötu 78 og skuggavarp af nýbyggingum þar gangi gegn lögvörðum hagsmunum kæranda og að ekki hafi verið gætt jafnræðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þessi efnisatriði kærunnar séu með öllu órökstudd. Auk þess hafi verið gerð ítarleg grein fyrir skuggavarpi á 18 uppdráttum sem hönnuður hússins hafi unnið við meðferð málsins að beiðni skipulagsyfirvalda borgarinnar.

Ekki hafi verið sýnt fram á að gengið hafi verið á réttindi kæranda eða brotið gegn honum á annan hátt. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri og þeim athugasemdum hafi verið svarað á málefnalegan hátt í samræmi við skipulagslög og önnur lagaákvæði sem stjórnvöld séu bundin af.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar Hverfisgötu 78. Við afgreiðslu málsins var skírskotað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. mars s.á. þar sem athugasemdum kæranda var svarað. Skipulagsstofnun gerði þá athugasemd í bréfi sínu 14. maí s.á. að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu í málinu fyrr en athugasemdum kæranda hefði verið svarað efnislega, án tilvísunar til fyrri deiliskipulagsbreytingar, sem felld hefði verið úr gildi. Svo sem nánar er rakið í málavaxtalýsingu var fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa breytt í kjölfarið og hún svo samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst s.á.

Um afgreiðslu deiliskipulags er fjallað í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar kemur fram í 1. mgr. að telji Skipulagsstofnun að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi sem henni sé sent skuli hún koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarstjórn, sem skuli taka þær til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum er tekið fram um nefnt ákvæði að það sé nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Í dæmaskyni er nefnt að slíkar athugasemdir geti lotið að því að athugasemdum á auglýsingartíma hafi ekki verið svarað. Þá er í athugasemdum með VIII. kafla laganna nánar skýrt að með þessari skyldu sveitarstjórnar til viðbragða og nauðsynlegra formbreytinga verði eftirlitshlutverk Skipulagsstofnunar skýrara.

Ljóst er af framangreindu að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir um form deiliskipulags í skilningi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og taldi hún að kæranda hefði ekki verið svarað efnislega með fullnægjandi hætti. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins bar sveitarstjórn að taka þær athugasemdir stofnunarinnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að það hafi komið aftur til kasta sveitarstjórnar eftir samþykkt hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Þess í stað voru gerðar breytingar á umsögn skipulagsfulltrúa, m.a. hvað varðaði svör við athugasemdum kæranda, og hún samþykkt að nýju af umhverfis- og skipulagsráði.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þegar ákvörðun hefur verið tekin í skjóli þessa valds verður það stjórnvald sem tók þá ákvörðun eðli máls samkvæmt að standa að breytingum á henni. Í þessu tilviki borgarráð. Breytingar þær, sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn skipulagsfulltrúa sem svo var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði, lutu að svörum við framkomnum athugasemdum kæranda, en Skipulagsstofnun hafði m.a. farið fram á að þeim væri svarað efnislega á sjálfstæðan máta. Í því sambandi er rétt að árétta að skv. 3. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga, skal sveitarstjórn taka tillögu að deiliskipulagsbreytingu til umræðu, taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki í samræmi við skipulagslög. Þykja greindir annmarkar þess eðlis að ekki verði hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0 vegna lóðarinnar nr. 78 við Hverfisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

42/2016 Hafraþing

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. apríl 2016 um að synja kröfu kærenda um að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmda að Hafraþingi 4, 6 og 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. apríl 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hálsaþingi 5, og eigendur, Hálsaþingi 9, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. apríl 2016 að stöðva ekki framkvæmdir að Hafraþingi 4, 6 og 8.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefjast kærendur þess að framkvæmdir að Hafraþingi 4, 6 og 8 verði stöðvaðar, eða byggingarfulltrúa gert að stöðva þær, þar til framkvæmdaraðili hafi komið þeim í það horf sem samrýmist byggingarleyfum og gildandi deiliskipulagi, þ. á m. með því að fjarlægja grjóthleðslu á lóðamörkum umræddra lóða og lóða kærenda. Loks er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða og verður að skilja það svo að sú krafa taki til þess tíma sem málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar samþykkti byggingaráform vegna parhúsa að Hafraþingi 2-4 og 6-8 á fundi sínum 27. nóvember 2014. Byggingarleyfi vegna nefndra parhúsa voru gefin út 29. maí 2015 og hófust framkvæmdir í kjölfarið. Um haustið s.á. höfðu kærendur að Hálsaþingi 5 samband við Kópavogsbæ vegna grjóthleðslu sem búið væri að reisa á mörkum lóðar þeirra. Í bréfi þeirra, dags. 6. október 2015, drógu þeir í efa að frágangur á lóð Hafraþings 4 væri í samræmi við skipulagsskilmála um fláa við lóðamörk. Auk þess væri um að ræða sjónmengun og hættu þar sem hæð vegghleðslunar væri um 4 m. Töldu þeir að framkvæmdir þyrfti að stöðva. Í framhaldinu fóru fram viðræður milli aðila og 20. s.m. fór byggingarfulltrúi á vettvang þar sem hann átti viðræður við lóðahafa og gerði í kjölfarið ákveðnar kröfur til frágangs lóðanna.

Kærendur að Hálsaþingi 5 höfðu samband við bæjaryfirvöld að nýju í febrúar 2016 og kváðust hafa orðið varir við að framkvæmdir væru að fara af stað aftur, en veggurinn stæði enn óhreyfður. Erindið var ítrekað í mars s.á og var fundað með aðilum á vormánuðum. Með bréfi, dags. 18. apríl s.á., fóru kærendur máls þessa fram á það að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir að Hafraþingi 4, 6 og 8 og hlutaðist til um að framkvæmdir yrðu í samræmi við fyrirliggjandi byggingarleyfi. Var vísað í þessu samhengi til 1. og 2. mgr. 55. gr., sem og 56. gr., laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. s.m., var kröfum kærenda hafnað og tekið fram að framkvæmdaraðili hefði fallist á að gera lagfæringar á umræddum lóðum. Fælust þær í því að grjóthleðsla á lóðamörkum yrði lækkuð og teldi byggingarfulltrúi ekki vera forsendur fyrir því að stöðva framkvæmdir þar sem fallist hefði verið á framangreindar úrbætur. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að ljóst hafi verið þegar framkvæmdir hófust að framkvæmdaraðili hefði ekki hug á að byggja í samræmi við samþykkta uppdrætti. Við lóðamörk Hafraþings 4, 6 og 8 skuli taka niður hæðarmun, líkt og teikningar sýni og skipulagsskilmálar kveði á um. Í stað þess að taka niður hæðarmun hafi framkvæmdaraðilar reist um 380 cm háa grjóthleðslu á lóðamörkum. Ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar á lóðamörkum án samþykkis leyfisveitenda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða, sbr. e-lið 1. mgr. í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Þá sé ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni þeirra. Jafnframt sé vísað til f-liðar sömu greinar um hámark hæðar skjólveggja og girðinga á lóð sem og til gr. 7.2.3. í reglugerðinni um girðingar á lóðum.

Í kjölfar samskipta aðila hafi byggingarfulltrúi tekið hina kærðu ákvörðun, en hún sé afar óskýr um hvaða lagfæringar framkvæmdaraðila beri að gera og um eftirfylgni með því að staðið verði við þær. Það sé hlutverk útgefanda byggingarleyfis að hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir. Jafnframt beri þeim skylda til að bregðast við brotum á útgefnum byggingarleyfum, sbr. m.a. 55. og 56. gr. laganna. Umþrættar framkvæmdir séu ljóslega í andstöðu við útgefin byggingarleyfi og gildandi reglur. Því verði ekki borið við að „lækka eigi“ grjóthleðslurnar. Upplýsingar um þá lækkun hafi ekki fengist frá sveitarfélaginu og sé engin heimild fyrir grjóthleðslum á mörkum lóðanna, sama hversu háar þær séu. Undantekningarregla reglugerðar nr. 112/2012 er varði skjólveggi og girðingar nái eðli máls samkvæmt ekki til grjóthleðslna, sem hvorki geti talist girðingar né skjólveggur, auk þess sem þær reglur nái eingöngu til girðinga og skjólveggja sem séu mun lægri en hleðslur þær sem hér um ræði. Hleðslurnar skerði útsýni og hafi valdið tjóni á grasi á lóðum kærenda þar sem aur hafi lekið úr þeim inn í garða þeirra.

Krafist sé stöðvunar framkvæmda þar sem hætta sé á að grjóthleðslurnar „lokist inni“ milli húsa þannig að ekki verði hægt að komast að grjótinu með vinnuvélum til að fjarlægja það. Verði því að leggja bann við framkvæmdum þar til hleðslurnar hafi verið fjarlægðar. Þá sé þess krafist að í samræmi við 1. og 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga verði framkvæmdirnar stöðvaðar til bráðabirgða og síðan í endanlegum úrskurði, eftir atvikum með fulltingi byggingarfulltrúa, og að framkvæmdirnar verði í samræmi við fyrirliggjandi byggingarleyfi áður en frekari framkvæmdir verði heimilaðar. Telji kærendur eftir atvikum rétt að framkvæmdaraðila verði gert að hlutast til um breytingar á framkvæmdunum að viðlögðum dagsektum sem úrskurðarnefndin ákveði.

Loks sé málsmeðferð og ákvörðun byggingarfulltrúa í andstöðu við mannvirkjalög, sem og lögfestar og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. 10., 13. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggingarfulltrúi hafi án sýnilegrar rannsóknar tekið ákvörðun um að heimila áframhaldandi framkvæmdir án þess að rökstyðja hvort þær samrýmist gildandi byggingarleyfum og skipulagi og án þess að útskýra hvað í ákvörðun hans fólst, þrátt fyrir áskoranir kærenda um skýringar þar um.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lóðir kærenda og framkvæmdaraðila séu staðsettar við húsagötur sem liggi samsíða í halla, sem geri það að verkum að hæðarmunur sé á lóðunum. Á svæðinu gildi deiliskipulagið Vatnsendi – Þing og sé í því að finna skilmála um frágang lóða. Stuttu eftir að framkvæmdir hófust hafi kærendur gert athugasemdir við útfærslu lóðarfrágangs, en lóðarhafi Hafraþings 4, 6 og 8 hafi valið að setja upp grjóthleðslu við lóðarmörk. Í kjölfar athugasemda kærenda í október 2015 hafi byggingarfulltrúi farið á vettvang til að leggja mat á grjóthleðsluna. Hann hafi fallist á með kærendum að hleðslan væri í hærra lagi og gert þá kröfu að hún yrði lækkuð.

Fundur hafi verið haldinn með kærendum á vormánuðum 2016 og þeim verið greint frá því að kappkostað yrði að leysa málið með farsælum hætti og byggingarfulltrúi myndi ekki gefa út úttektir á meðan málið væri óleyst. Í framhaldinu hafi byggingarfulltrúi og sviðsstjóri umhverfissviðs farið á vettvang að nýju og hafi þeir metið það svo að ef grjóthleðslan yrði lækkuð myndi hún samræmast útgefnum leyfum og skipulagi svæðisins. Lóðarhafi hafi fallist á þetta og því hafi kröfu kærenda verið hafnað.
   
Umrædd grjóthleðsla standi öll innan lóða Hafraþings 4, 6 og 8 og með því að lækka hana muni hún samrýmast skilyrðum deiliskipulags. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að hleðslan væri ekki hættuleg. Hvað varði val á jarðvegi við lóðafrágang þá hafi Kópavogsbær ekki sett skilyrði þar um. Algengt sé að grjót sé notað þegar gengið sé frá lóðum við svipaðar aðstæður og hér um ræði og sé að finna mörg slík fordæmi í sveitarfélaginu. Ekki hafi verið þörf á að ræða við aðliggjandi lóðarhafa, enda muni grjóthleðslan samræmast skipulagi svæðisins þegar kröfum byggingarfulltrúa um úrbætur hafi verið fullnægt. Reglur byggingarreglugerðar hvað varði hæð á skjólveggjum og girðingum eigi ekki við, enda um lóðarfrágang að ræða. Þá sé ekki verið að breyta hæð lóðarinnar, en vakin sé athygli á því að hæð lóðar kærenda sé lægri en gert sé ráð fyrir á hæðarblaði og hafi það óhjákvæmilega áhrif á hæð grjóthleðslunnar séð frá lóðum kærenda.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki beri byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð og sé að finna nánari útlistun á eftirlitshlutverki hans í gr. 2.8.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Felist það m.a. í því að annast úttektir og beita þvingunarúrræðum ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt. Byggingarfulltrúi hafi heimild í 55. gr. mannvirkjalaga til að stöðva framkvæmdir ef byggingarleyfisskyld framkvæmd brjóti t.d. í bága við skipulag. Um sé að ræða þvingunarúrræði og beri að gæta meðalhófs við beitingu þeirra. Á þessu stigi máls séu ekki forsendur fyrir því að stöðva framkvæmdir en öllum aðilum hafi verið tilkynnt að frekari úttektir verði ekki gefnar út fyrr en búið sé að lækka grjóthleðsluna. Byggingarfulltrúi hafi sinnt eftirlitsskyldu sinni með fullnægjandi hætti og sé það utan hans verkahrings að segja til um hvernig lóðarhafi skuli verða við kröfum hans. Byggingarfulltrúi muni svo hafa reglulegt eftirlit með gangi mála. Loks hafi verið brugðist skjótt við athugasemdum kærenda, byggingarfulltrúi farið tvívegis á vettvang og ákvörðun verið tekin á þeim grundvelli. Hin kærða ákvörðun sé því í fullu samræmi við mannvirkjalög, sem og lögfestar og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttar.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur fram vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felist að framkvæmdir þurfi að vera hafnar eða yfirvofandi til þess að úrskurðað verði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Ákvæðinu verði eðli málsins samkvæmt ekki beitt vegna framkvæmda sem lokið sé. Langt sé síðan þeirri grjóthleðslu, sem kærendur geri athugasemdir við, hafi verið komið fyrir. Hleðslunni hafi verið breytt samkvæmt samkomulagi og hún nýlega lækkuð um 60 cm. Bresti því skilyrði til að stöðva framkvæmdir, sbr. einnig fyrri fordæmi úrskurðarnefndarinnar. Þá gæti misskilnings hjá kærendum varðandi það að hætta sé á að grjóthleðslurnar „lokist inni“ þegar hús hafi risið á lóðum framkvæmdaraðila. Til að fjarlægja grjót af þessu tagi þurfi alltaf einhverjar ráðstafanir en ekki megi skilja það svo að um ómöguleika sé að ræða eða að það verði torveldara ef framkvæmdum vindi fram. Loks sé grjóthleðslan nauðsynleg vegna aðstæðna á framkvæmdasvæðinu og með lækkun og breytingu á henni hafi verið gengið nærri því sem nauðsynlegt verði talið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdir að Hafraþingi 4, 6 og 8, einkum grjóthleðslu á lóðamörkum þeirra lóða og lóða kærenda. Byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafa verið útgefin og hafa þau ekki verið kærð, en ágreiningur er um hvort framkvæmt sé í samræmi við nefnd leyfi. Snýst mál þetta um þá ákvörðun byggingarfulltrúa frá 25. apríl 2016 að synja beiðni kærenda um stöðvun framkvæmda og beita þar með ekki þvingunarúrræðum þeim sem honum standa til boða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Sú ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. þeirra laga, þar sem tekið er fram að um kæru fari eftir lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur hafa uppi frekari kröfur í kæru en í því sambandi skal á það bent að úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. nefndra laga nr. 130/2011. Samkvæmt því tekur úrskurðarnefndin til úrlausnar lögmæti ákvarðana stjórnvalda, sem kæranlegar eru til nefndarinnar, en það er utan valdsviðs hennar að taka stjórnvaldsákvarðanir, s.s. um að beita skuli dagsektum. Sætir því einungis sú ákvörðun er lýtur að áðurnefndri synjun um beitingu þvingunarúrræða lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og verður ekki fjallað frekar um aðrar kröfur kærenda.

Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulagið Vatnsendi – Þing, með síðari breytingum, sem tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí 2005. Þar kemur fram að landi á skipulagssvæðinu halli til norðurs og norðausturs að meðaltali um 6% og að landhallinn hafi áhrif á staðsetningu húsa og legu gatna. Í skipulagsskilmálum er að finna almenn ákvæði um frágang lóða á svæðinu. Kemur þar m.a. fram að frágangi lóðar skuli að jafnaði lokið innan eins árs frá því að flutt sé í meirihluta íbúða og áskilji Kópavogsbær sér rétt til að ganga frá lóð að þeim tíma liðnum á kostnað lóðarhafa. Öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við aðliggjandi lóðarhafa. Komi upp ágreiningur um frágang á sameiginlegum lóðamörkum skuli hlíta úrskurði byggingarnefndar um lausn málsins. Flái við lóðamörk skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:2.

Lóðir kærenda liggja lægra í landi en þær lóðir þar sem framkvæmdir fara nú fram. Telja kærendur að grjóthleðslur á lóðamörkum séu ekki í samræmi við skipulagsskilmála, af þeim stafi hætta auk þess sem þær séu til lýta. Sé framkvæmdin til þess fallin að rýra verðmæti og gæði eigna kærenda.

Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi t.a.m. stöðvað framkvæmdir ef byggt er á annan hátt en leyfi stendur til og í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Er ákvörðun um beitingu þessarar þvingunarúrræða háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er og fram í athugasemdum með frumvarp því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þessa úrræðis sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Einstaklingum er hins vegar ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar á þvingunarúrræðum, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína.

Svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu hafa samskipti um nokkurra mánaða skeið átt sér stað milli byggingaryfirvalda, kærenda og framkvæmdaraðila. Þá liggur ljóst fyrir að byggingarfulltrúi hefur farið á vettvang og kannað aðstæður. Var ákvörðun hans um að beita ekki þvingunarúrræðum tekin að lokinni rannsókn hans á vettvangi og var hún studd þeim rökum að framkvæmdaraðili hefði fallist á úrbætur sem fælust í því að grjóthleðsla á lóðamörkum yrði lækkuð. Verður ekki annað séð en að það mat byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum hafi verið málefnalegt, að teknu tilliti til atvika málsins, sem og þess að beiting nefndra úrræða væri mjög íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila. Telur úrskurðarnefndin engin rök standa til þess að hnekkja því mati. Er rétt í þessu sambandi að benda á að framkvæmdir að Hafraþingi 4, 6 og 8 standa enn yfir og að byggingarfulltrúi hefur eftir sem áður eftirlitsskyldu með þeim úrbótum sem framkvæmdaraðili hefur fallist á, og að byggt sé í samræmi við gildandi skipulag og útgefin leyfi, sbr. þau ákvæði mannvirkjalaga sem áður hafa verið rakin.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. apríl 2016 um að synja kröfu kærenda um að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmda að Hafraþingi 4, 6 og 8.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

99/2014 Háteigsvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 8. apríl 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi risíbúðar að Háteigsveg 14 í Reykjavík.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Háteigsvegi 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi risíbúðar að Háteigsvegi 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að leyfishafa verði gert að færa til fyrra horfs þær breytingar sem gerðar hafi verið á nefndri íbúð í skjóli hins kærða byggingarleyfis og farið fram á málskostnað vegna reksturs kærumálsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 17. febrúar 2014 sótti leyfishafi, sem er eigandi íbúðar í rishæð að Háteigsvegi 14, um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum innanhússbreytingum á nefndri risíbúð. Fólu þær í sér tilfærslu eldhúss úr norðurenda íbúðarinnar í suðurenda hennar, endurbætur á baðherbergi, ásamt því að útbúið yrði þvottahús. Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. mars 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, þar sem samþykki meðeigenda vantaði. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 8. apríl s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgaráði 10. s.m. Var byggingarleyfi gefið út 17. júlí 2014. Hinn 23. maí s.á. leituðu kærendur til byggingarfulltrúa með skriflega beiðni um upplýsingar og öll gögn varðandi framkvæmdir í risíbúð hússins. Sú beiðni var undirrituð af lögmanni kærenda og ítrekuð 15. júlí 2014. Byggingarfulltrúi svaraði erindi kærenda með bréfi til lögmanns þeirra, dags. 22. s.m.

Af hálfu kærenda er tekið fram að vegna sumarleyfa hafi lögmanni þeirra ekki orðið kunnugt um svarbréf byggingarfulltrúans, dags. 22. júlí 2014, fyrr en 5. ágúst s.á. Sama dag hafi bréfið ásamt fylgigögnum verið sent með tölupósti til kærenda. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun 5. ágúst 2014. Það sé sú vitneskja sem marki upphaf kærufrestsins. Kæran hafi verið send innan mánaðarfrestsins, eða 4. september s.á. Sú staðreynd að lokað umslag hafi borist lögmannsstofu lögmanns kærenda breyti þar engu. Þá hafi þurft að ítreka bréf, dags. 23. maí 2014, til þess að fá upplýsingar frá byggingarfulltrúa sem borist hafi 15. júlí 2014, en ekkert umboð til handa lögmanni hafi fylgt því bréfi. Kærendur hafi fyrst veitt slíkt umboð 3. september s.á. Möguleg vitneskja lögmannsins eða hvað honum hafi mátt vera kunnugt um breyti engu um kærufrest kærenda, þar sem þeirra vitneskja sé skilyrði þess að kærufrestur byrji að líða. Samkvæmt byggingarleyfi og samþykktum teikningum hafi stigapallur fyrir framan risíbúðina, sem sé hluti af sameign 2. hæðar og risíbúðarinnar, verið skeytt við risíbúðina. Þetta sé hvorki í samræmi við upprunalegar teikningar né gildan eignaskiptasamning frá 11. ágúst 1970. Hefði því þurft að leita samþykkis sameigenda áður en byggingarleyfið hafi verið gefið út. Með byggingarleyfinu hafi votrýmum risíbúðarinnar verið fjölgað í því skyni að koma fyrir stúdíóíbúð. Til að rýma fyrir stúdíóíbúðinni hafi megineldhús íbúðarinnar verið flutt úr norðurenda í suðurenda hennar og skilið eftir pláss sem kallað hafi verið geymsla á samþykktum teikningum, en sé í raun íverurými umræddrar stúdíóíbúðar. Framkvæmdin sé slík meiriháttar breyting að krefjast hefði átt samþykkis kærenda. Að útbúa aukaíbúð í risi til útleigu, með sérinngangi innan úr sameiginlegu stigahúsi, auki mjög umferð fólks um sameign með tilheyrandi óhagræði fyrir kærendur. Með fjölgun votrýma í risi og annarra framkvæmda aukist sömuleiðis skarkali sem berist að ofan niður á milli hæða og valdi kærendum ónæði. Hefði átt að leita eftir samþykki kærenda, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Kærendur hafi beðið um öll gögn málsins hinn 23. maí 2014, en bréfið verið ítrekað 15. júlí s.á. Byggingarfulltrúi hafi svarað bréfinu 22. s.m. Kærendum hafi frá þeim tíma átt að vera fullljóst um efni byggingarleyfisins, en kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 4. september 2014, eða um tveimur vikum eftir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ekki verði séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu. Jafnframt skorti lagaheimild til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin séu fyrir úrskurðarnefndinni og komi krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita hjá nefndinni.   

Byggingarleyfishafi krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni 4. september 2014, en hann hafi runnið út í síðasta lagi 23. ágúst s.á. Því beri að vísa málinu frá, sbr.  2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meint sumarfrí lögmanns kæranda geti engu breytt í þeim efnum og verði kærendur að bera hallann af því. Ekki sé unnt að fallast á að meint sumarfrí hafi einhverja þýðingu í þessum efnum, enda væri þá ákvæði laga nr. 130/2011 um kærufrest markleysa því afar auðvelt væri að komast fram hjá því annars skýra ákvæði ef tekið væri tillit til meintra sumarfría eða annarra leyfa kærenda og umboðsmanna þeirra. Fjölmargar athugasemdir í kæru snúi ekki að efni umdeilds byggingarleyfis og séu í öllum meginatriðum rangar. Byggingarleyfið snúi einvörðungu að tilfærslum innan íbúðar leyfishafa og hafi engin áhrif á aðra íbúa í húsinu. Hagnýtingu íbúðarinnar hafi í engu verið breytt heldur sé hún áfram nýtt til íbúðar. Vísun kærenda til 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eigi því ekki rétt á sér. Ekki geti skipt máli í þessu sambandi hvort leyfishafi leigi íbúð sína út eða ekki. Kærendur leigi sjálfir út sína íbúð í töluverðum mæli til erlendra ferðamanna sem dvelji þar til skamms tíma í senn og valdi töluverðu ónæði. Sé það með nokkrum ólíkindum að kærendur sjái sér fært að bera slíka málsástæðu á borð í ljósi þess að þeir sinni slíkri starfsemi sjálfir.

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. þeirra laga að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Er þar tekið fram að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki.
   
Byggingarleyfisumsókn leyfishafa var samþykkt 8. apríl 2014 og munu framkvæmdir hafa byrjað í kjölfar þess. Af því tilefni sendi lögmaður kærenda bréf, dags. 23. maí s.á., fyrir þeirra hönd, þar sem farið var fram á upplýsingar um leyfi vegna framkvæmdanna og óskað eftir gögnum málsins. Erindið var ítrekað með bréfi lögmannsins, dags. 15. júlí 2014, og svaraði byggingarfulltrúi því erindi með bréfi, dags. 22. s.m, þar sem fram kom að byggingarleyfi hefði verið veitt og hvert innihald þess væri. Bréfinu fylgdi byggingarleyfisumsókn leyfishafa og samþykktur aðaluppdráttur. Ekki verður annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að lögmaður kærenda hafi komið fram í umboði kærenda í samskiptum sínum við byggingaryfirvöld í umboði kærenda og verður því upphaf kærufrests miðað við það tímamark er bréf byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2014, barst lögmanninum og hann átti þess kost að kynna sér efni þess og fylgigögn. Samkvæmt tölvupósti lögmannsins til kærenda var þeim kynnt svarbréf byggingarfulltrúa og fylgigögn hinn 5. ágúst 2014, eða innan kærufrests. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 4. september 2014, eða um hálfum mánuði eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum við 1. tl. nefndrar 28. gr. er tekið fram í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Þó þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Ótvírætt er að leyfishafi í máli þessu á verulegra hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykja ekki forsendur til að taka kærumálið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon

117/2015 Brynjureitur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. október 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Klapparstíg 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. október 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. febrúar 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 22. apríl 2015 var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að kynna fyrir hagsmunaaðilum tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.0, svonefnds Brynjureits, og kom kærandi á framfæri athugasemdum við þá kynningu. Með breytingartillögunni var stefnt að samræmingu þess hluta skipulagsreitsins sem skipulagður hafði verið á árinu 2003 og 2006 við breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulagi reitsins á árinu 2013. Voru skipulagsskilmálar alls reitsins m.a. endurskoðaðir og samræmdir. Málið var á dagskrá ráðsins hinn 10. júní og 8. júlí s.á. og lá þá fyrir umsögn skipulagsstjóra um framkomnar athugasemdir, sem og lagfærðir uppdrættir. Var ákveðið að auglýsa tillöguna til kynningar. Málinu var í kjölfarið vísað til borgarráðs sem staðfesti þá afgreiðslu hinn 16. júlí 2015. Að lokinni kynningu samþykkti umhverfis- og skipulagsráð hina kynntu tillögu 14. október s.á., með þeim breytingum sem lagðar voru til í fyrirliggjandi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m. Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 22. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2015, að undangenginni umfjöllun Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt.

Kærandi vísar til þess að lóðin Klapparstígur 29 sé 705 m² en ekki 330 m² líkt og hið samþykkta deiliskipulag byggi á. Eignaskiptayfirlýsing sem gerð hafi verið fyrir Klapparstíg 29 á árinu 1991, þar sem lóðinni hafi verið skipt upp í þrjár lóðir, hafi aldrei verið samþykkt lögum samkvæmt af byggingarnefnd en sú nefnd hafi hafnað þeirri skiptingu lóðarinnar 11. júní 1991. Yfirlýsingin geti því ekki verið gild eignarheimild þeirra sem telji sig núverandi eigendur Klapparstígs 29a. Jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi keypt lóðina Klapparstíg 29a árið 1998, sem skilin hafi verið frá lóðinni Klapparstíg 29 með ólögmætum hætti, verði það vart talið jafngilda samþykki borgaryfirvalda fyrir skiptingu lóðarinnar í verki eins og borgaryfirvöld hafi haldið fram. Telji kærendur að lóðaskiptingin á þeim tíma hafi farið í bága við reglur fjöleignarhúsalaga um ráðstöfun sameignar. Umhverfis- og skipulagssvið hafi viðurkennt í bréfi, dags. 7. nóvember 2013, að óvissa ríkti um stærð lóðar og umferð að bakgarði Klapparstígs 29 og veki það furðu að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2015, komi fram að ekki leiki nokkur vafi á að lóðin Klapparstígur 29 sé 330 m². Af þessu verði ekki annað ráðið en að þetta atriði hafi ekki verið kannað með viðeigandi hætti í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns frá 27. september 2013 hafi lóðin Klapparstígur 29 þá verið skráð í bókum embættisins 705 m², en þeirri skráningu hafi hins vegar verið breytt fyrirvaralaust og án tilkynningar til kæranda. Stærð lóðarinnar hafi verið skráð á sama veg í Þjóðskrá hinn 10. júlí 2014.
   
Borgaryfirvöld vísa til þess að lóðin Klapparstígur 29 hafi upphaflega verið 750 m² en eftir sölu 45 m² af lóðinni til lóðarhafa Laugavegar 25 á árinu 1985 hafi lóðin verið skráð 705 m². Í nóvember 2011 hafi lóðinni Klapparstíg 29 verið skipt upp í þrjá hluta. Klapparstígur 29 hafi þá orðið 330 m², baklóðin 308 m² og 67 m² umferðarsvæði. Sé sú skipting í samræmi við þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1991 í kjölfar þessa að allir eignarhlutar aðalhúss að Klapparstíg 29 hafi verið seldir. Í þeim kaupsamningum hafi komið fram að lóðin Klapparstígur 29 væri 330 m². Með kaupum borgarinnar á baklóðinni og umferðarsvæðinu á árinu 1998 hafi borgaryfirvöld viðurkennt í verki lóðarskiptinguna sem byggt hafi verið á í greindri eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1991. Hvað sem öðru líði geti kærendur ekki gert tilkall til frekari lóðarréttinda en leiði af heimildarskjölum þeirra. Bent sé á að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2013, uppkveðnum 25. nóvember 2015, hafi því verið slegið föstu að skoðun á þinglýstum gögnum, svo sem afsölum og kaupsamningum um Kapparstíg 29, hefði leitt í ljós að sú lóð væri 330 m² og hafi hin kærða deiliskipulagsbreyting í því máli verið talin í samræmi við þinglýst gögn hvað það varðaði.

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þann rökstuðning til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu eru uppi deildar meiningar um stærð lóðarinnar Klapparstígs 29 og byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé stærð lóðarinnar ranglega tilgreind 330 m².

Hinn 30. maí 2013 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi Brynjureits en lóðin Klapparstígur 29 er innan þess skipulagsreits. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní s.á. Í þeirri deiliskipulagsbreytingu fólst m.a. að lóð, sem nefnd var Klapparstígur 29a og var áður hluti baklóðar Klapparstígs 29, var sameinuð lóðunum Hverfisgötu 40-42 og Laugavegi 27a. Kærandi í máli þessu skaut ákvörðun um nefnda deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar, sem kvað upp úrskurð í því máli 25. nóvember 2015. Í forsendum þess úrskurðar kemur m.a. fram að athugun á þinglýstum skjölum, svo sem afsölum og kaupsamningum um Klapparstíg 29, leiði í ljós að lóðin sem fylgi húsinu að Klapparstíg 29 sé 330 m² og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting að því leyti í samræmi við þinglýst gögn. Var kröfu um ógildingu greindrar deiliskipulagsbreytingar hafnað. Liggur því fyrir að úrskurðarnefndin hefur í fyrrgreindu máli tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu kæranda sem teflt er fram í máli þessu og lýtur að stærð lóðarinnar Klappastígs 29. Með deiliskipulagsbreytingu þeirri sem um er deilt í máli þessu er stærð og lóðarmörk nefndrar lóðar óbreytt frá fyrri skipulagsbreytingu árið 2013 og hefur þinglýstum skjölum varðandi fasteignina Klapparstíg 29, sem vitnað var til í fyrri úrskurði, ekki verið hnekkt.

Hin kærða skipulagsákvörðun breytir ekki umdeildum lóðarréttindum kæranda frá gildistöku deiliskipulagsbreytingar fyrir umræddan skipulagsreit hinn 18. júní 2013, en í þeirri breytingu var við það miðað að lóðin Klapparstígur 29 væri 330 m². Þá verður og að líta til þess að deiliskipulag getur ekki að lögum falið í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Skortir af þessum sökum á að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem það er utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að leiða til lykta ágreining um eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon

38/2016 Markavegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 38/2016, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóðinni nr. 1 við Markaveg í Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. apríl 2016, er barst nefndinni 14. s.m., kæra lóðarhafar Markavegar 1, Kópavogi, drátt á afgreiðslu erindis kærenda frá 1. ágúst 2014 um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóðinni nr. 1 við Markaveg í Kópavogi. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka fyrrgreint erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 4. maí 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2008 fengu kærendur úthlutað hesthúsalóð að Markavegi 1, á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir Kjóavelli, hesthúsahverfi. Með bréfi kærenda til bæjarstjóra Kópavogs, dags. 1. ágúst 2014, var farið fram á að Kópavogsbær fjarlægði rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóð kærenda. Gerð var krafa um að sveitarfélagið yrði við nefndum kröfum eigi síðar en 19. september s.á., ella yrði litið svo á að það hefði synjað erindinu. Sveitarfélagið varð ekki við nefndum kröfum og skutu kærendur þá málinu til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð 30. mars 2016 í máli nr. 112/2014. Vísaði úrskurðarnefndin málinu frá þar sem ekki lægi fyrir í því lokaákvörðun sem kæranleg væri til nefndarinnar. Nefndin tók hins vegar fram að erindi kærenda væri enn óafgreitt.

Kærendur taka fram að enn hafi ekki verið tekin nein ákvörðun vegna erindis kærenda frá 1. ágúst 2014 og sé því enn ósvarað um 20 mánuðum síðar. Ekki verði séð að í erindi kærenda felist neitt sem réttlæti þann langa tíma sem tekið hafi Kópavogsbæ að bregðast við. Sé ekki að sjá að upplýsingaöflun í málinu hafi verið tímafrek eða erfið viðureignar, enda ekki um umfangsmikið mál að ræða. Auk þess ættu gögn málsins að vera Kópavogsbæ aðgengileg. Aftur á móti sé um mikla hagsmuni að ræða fyrir kærendur sem geti ekki hagnýtt lóð sína til fulls. Hafi Kópavogsbær brotið gegn 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk hinnar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða. Þá hafi Kópavogsbær aldrei tilkynnt kærendum um tafir á afgreiðslu málsins, en slíkt hefði bænum borið að gera að eigin frumkvæði. Hafi þannig einnig verið brotið gegn 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé umræddur rafmagnskassi staðsettur á lóð kærenda. Hjá sveitarfélaginu sé nú til meðferðar deiliskipulagsbreyting fyrir lóðir nr. 1-9 við Markaveg. Frestur til að skila inn athugasemdum sé til og með 20. maí 2016. Með umræddri breytingu muni rafmagnskassinn, lagnir og háspennustrengir standa utan lóðarmarka Markavegar 1. Sé því að vænta ákvörðunar sem muni hafa áhrif á erindi kærenda og líti sveitarfélagið því svo á að erindið sé í vinnslu.

Niðurstaða: Með bréfi, dags. 1. ágúst 2014, beindu kærendur þeim kröfum til Kópavogsbæjar að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóð þeirra að Markavegi 1. Ekki hefur verið tekin ákvörðun þar um af hálfu Kópavogsbæjar, en samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins er nú til meðferðar tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir lóðir nr. 1-9 við Markaveg. Mun breytingin fela í sér að hlutir þeir sem kærendur hafa krafist að verði fjarlægðir muni standa utan lóðar kærenda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist verulega úr hófi fram, enda langt liðið á annað ár frá því að kærendur settu fram kröfur sínar gagnvart sveitarfélaginu. Hins vegar er til þess að líta að til meðferðar er tillaga að deiliskipulagsbreytingu sem m.a. lýtur að lóð kærenda. Gefur það tilefni til að ætla að málinu verði lokið án tafa að þeim tíma liðnum sem ákveðinn er í skipulagslögum nr. 123/2010 til meðferðar slíkra skipulagsbreytinga. Með hliðsjón af því að málið er nú í vinnslu og að niðurstöðu er að vænta í því er ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um það á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Dragist hins vegar meðferð nefndrar deiliskipulagsbreytingartillögu, og þar með afgreiðsla erindis kærenda, úr hófi miðað við það sem skipulagslög kveða á um er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

60/2012 Langholtsvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. mars 2012 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi að Langholtsvegi 87 í Reykjavík og vegna framkvæmda á þeirri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Langholtsvegi 89, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsi að Langholtsvegi 87 o.fl.

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og framkvæmdir á grundvelli þess stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að skiptasamningur um þrjár íbúðir fyrir nefnda fasteign verði felldur úr gildi, að húskofi og trjágróður á lóðamörkum við fasteign kæranda verði fjarlægður og að girðing og lóð við lóðamörk verði löguð. Er kæra barst í máli þessu mun framkvæmdum við heimilaðar breytingar samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi að mestu hafa verið lokið og var því ekki tilefni til að taka afstöðu til fram kominnar kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júlí 2008 var  samþykkt umsókn um leyfi til að endurbyggja og stækka þakhæð og byggja nýja kvisti á húsið að Langholtsvegi 87, sem stækkaði við það um 5,8 m². Leyfið féll úr gildi þar sem framkvæmdir hófust ekki innan lögboðins frests og var endurnýjun byggingarleyfisins samþykkt hinn 13. mars 2012. Var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 15. s.m. Munu framkvæmdir hafa byrjað í kjölfarið og hafði kærandi sambandi við borgaryfirvöld og gerði athugasemdir við þær.

Í tölvupóstum kæranda í aprílmánuði s.á. kom m.a. fram að hann teldi að um væri að ræða óleyfilega hækkun á húsi, sem valda myndi skugga austan megin á fasteign hans. Kom jafnframt fram að kæranda hefði skilist að byggingarleyfi fyrir hækkun á þaki og kvistum hefði verið gefið út 2008 og endurnýjað 2012. Byggingaryfirvöld könnuðu málið og var kæranda tilkynnt með tölvupósti 4. maí 2012 að um tvö byggingarleyfi væri að ræða, það fyrra frá árinu 2008, en hið síðara, frá 13. mars 2012, væri endurnýjun á því fyrra. Í leyfinu fælist heimild til að endurbyggja þak hússins með meiri styrk og hærra einangrunargildi. Við það hækkaði mænir hússins um 15 cm frá því sem hann væri fyrir og kvistar hækkuðu einnig vegna þessa um 20 cm. Loks sagði að athugun á staðnum hefði sýnt að framkvæmdin væri í samræmi við greind gögn. Kærandi svaraði því til í tölvupósti sama dag að hann gerði ekki frekari athugasemdir vegna hækkunar þaksins og að hann væri sáttur við vinnu embættis byggingarfulltrúa vegna þeirra framkvæmda. Í sama tölvupósti gerði kærandi hins vegar athugasemdir við trjágróður og tréhýsi á lóð framkvæmdaraðila, sem væri á mörkum lóðar kæranda. Með tölvupósti 8. maí 2012 var kæranda svarað á ný og tiltekið að samræmi væri á milli deiliskipulags og byggingarleyfis. Auk þess hefði framkvæmd á byggingarstað sætt athugun að nýju og væri hún í samræmi við nefnt leyfi. Þá hefði fulltrúi embættis byggingarfulltrúa ekki orðið var við neina hluti á eða við lóðamörk, svo sem kærandi hefði nefnt.

Með tölvupósti 8. júní 2012 sendi kærandi athugasemdir að nýju til embættis byggingarfulltrúa. Kom þar m.a. fram að kærandi teldi stækkun kvista brot á skipulagi og að það myndi svipta íbúð sína sól, vestan megin. Þá væri verið að byggja þrjár íbúðir í stað tveggja áður. Jafnframt kom fram að kærandi hefði vegna flutninga ekki komist í að svara fyrr eða kæra. Óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið fyrir formlega á fundi borgarinnar og minntist auk þess á mögulega kæruleið. Kæranda var svarað með tölvupósti 11. s.m. Var þar vísað til fyrri svara embættis byggingarfulltrúa en jafnframt bent á að ákvarðanir í skipulags- og byggingarmálum væru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. lögum nr. 130/2011.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umdeilt byggingarleyfi heimili stóra viðbyggingu í formi tveggja kvista á húsið að Langholtsvegi 87. Þá sé hækkun á þaki og tveimur kvistum, sem snúi í suður, ólögmæt og með framkvæmdunum sé hagsmunum kæranda verulega raskað með skerðingu sólarljóss og útsýnis. Hið kærða byggingarleyfi eigi hvorki stoð í lögum né deiliskipulagi og hafi  fengist útgefið undir því yfirskini að um væri að ræða lagfæringu á þaki, þótt ljóst sé að um umfangsmikla viðbyggingu sé að ræða. Byggingarfulltrúi hafi vanrækt upplýsinga- og eftirlitsskyldu með því að aðhafast ekkert þrátt fyrir að kærandi hafi leitað aðstoðar embættisins. Kærandi geti ekki sætt sig við fjölgun íbúða úr tveimur í þrjár að Langholtsvegi 87 með skiptasamningi sem sé ólögmætur að hans mati. Veruleg umferð og ólögleg lagning ökutækja við og á lóð kæranda á vegum eigenda Langholtsvegar 87 sé daglegt brauð og muni ágangur aukast með fjölgun íbúða. Á lóðamörkum Langholtsvegar 87 og 89 sé óleyfisbygging sem beri að fjarlægja ásamt trjám og trjárótum, sem skemmi lóð kæranda og skerði útsýni og sólarljós. Þá sé girðing á lóðamörkum að svigna undan trjágróðri og rótum. Kærandi hafi skotið máli þessu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að ljóst hafi orðið að umdeilt byggingarleyfi og skiptasamningur stæðust ekki lög.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en að öðrum kosti hafnað. Kæra í máli þessu hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og byggingaryfirvalda að kæranda hafi í síðasta lagi  23. apríl 2012 verið kunnugt um  umdeildar framkvæmdir. Þá hafi kæranda verið tilkynnt í tölvubréfi 8. maí s.á. að athugun byggingaryfirvalda hefði leitt í ljós að fullt samræmi væri milli framkvæmda, uppdrátta og skipulags. Tölvupóstur kæranda til byggingarfulltrúa 8. júní 2012 breyti engu um útreikning kærufrests. Geti kærandi, sem sé löglærður, ekki borið fyrir sig vanþekkingu um kæruleiðir eða kærufresti. Það að byggingarfulltrúi veki athygli á kæruleið hinn 11. s.m. feli ekki í sér afstöðu til kæruheimildar í máli þessu. Í öllu falli hafi kærufrestur í síðasta lagi byrjað að líða 4. maí 2012, þegar umkvörtunum kæranda hafi verið svarað með viðhlítandi hætti. Þeim hluta kæru sem snúi að skiptasamningi, húskofa á lóðamörkum og trjágróðri beri að vísa frá úrskurðarnefndinni enda liggi ekki fyrir kæranlegar ákvarðanir af hálfu borgaryfirvalda er snerti þau atriði.

Um efni máls sé á það bent að samþykkt byggingarfulltrúa í málinu sé í samræmi við mannvirkjalög  nr. 160/2010 og deiliskipulag fyrir Sundin, reit 1.3-1.4, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 10. nóvember 2005. Samkvæmt skipulagsskilmálum sé heimilað 354,7 m² hús með þremur íbúðum á lóðinni nr. 87 við Langholtsveg, með nýtingarhlutfall 0,60. Á samþykktum reyndarteikningum frá árinu 2005 sé tilgreint að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,61 en á uppdráttum frá 2008 sé það talið 0,611. Þetta skýrist af því að húsið sé í raun aðeins stærra en deiliskipulagsuppdrátturinn segi til um, en stundum gæti einhverrar ónákvæmni við útreikninga á nýtingarhlutfalli í deiliskipulagi. Hönnuðir hafi notast við upplýsingar úr fasteignamatsskrá sem oft séu ekki hárnákvæmar. Hafi þetta ósamræmi enga þýðingu í máli þessu enda heimili deiliskipulag að helmingur flatarmáls kjallara sé undanskilinn við útreikning nýtingarhlutfalls, sé hann niðurgrafinn um 80 cm, eins og hér eigi við. Við hina heimiluðu breytingu stækki umrætt hús um 6 m², mænishæð aukist um 15 cm og kvistir á vesturhlið hækki um 20 cm. Af þessu verði ekki séð að heimilaðar framkvæmdir raski með nokkrum hætti hagsmunum kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis vegna endurbyggingar þaks og kvista á húsi að Langholtsvegi 87. Auk þess hefur kærandi gert kröfu um að skiptasamningur fyrir nefnda fasteign verði felldur úr gildi, að húskofi og trjágróður á lóðamörkum við fasteign kæranda verði fjarlægður og að girðing og lóð við lóðamörkin verði löguð. Ágreiningur um efni skiptasamninga heyrir ekki undir úrskurðarnefndina og verður því ekki fjallað frekar um þá kröfu kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála efir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga er kærufrestur tiltekinn einn mánuður frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun sem kæra á.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu gerði kærandi athugasemdir í apríl 2012 við þá framkvæmd sem hið kærða leyfi heimilar og var af þeim ljóst að hann var ósáttur við framkvæmdina. Kærandi var upplýstur um efni byggingarleyfisins 4. maí s.á. og byrjaði þá kærufrestur að líða. Kæra í málinu barst með símbréfi 8. júní s.á. og var þá kærufrestur liðinn, sbr. nefnda 2. mgr. 4. gr. Kemur þá til skoðunar hvort að afsakanlegt verður talið að kæra hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um þann tölulið segir í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Enn fremur segir að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Í tölvupósti þar sem kærandi var upplýstur um áðurnefnt byggingarleyfi var ekki leiðbeint um kæruleið eða kærufresti. Kærandi svaraði hins vegar sama dag og tók þar fram að hann gerði ekki athugasemdir við þær framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða leyfi. Þrátt fyrir að kærandi hefði á fyrri stigum lýst óánægju sinni með framkvæmdina verður að líta svo á að ekki hafi verið tilefni fyrir sveitarfélagið að svo stöddu til að veita leiðbeiningar um kæruheimild eða fresti vegna þeirrar ákvörðunar. Benti enda ekkert til annars en að um hana ríkti sátt. Þá skal á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki. Byggingarleyfishafi hefur eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður sá þáttur málsins er lýtur að fyrrgreindu byggingarleyfi ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eins og greinir í málavaxtalýsingu gerði kærandi með tölvupósti sínum 4. maí 2012 athugasemdir við trjágróður og tréhýsi á lóð framkvæmdaraðila og fór m.a. fram á „að byggingafulltrúi hlutist til um að skora á eiganda Langholtsvegar 87, vegna ólögmætrar byggingu á lóðarmörkum 87 89“. Hann fékk þau svör með tölvupósti 8. s.m. að fulltrúi embættis byggingarfulltrúa hefði ekki orðið var við neina þá hluti á eða við lóðamörk sem kærandi hefði nefnt og hugsanlega væru án byggingarleyfis. Jafnvel þótt að litið verði svo á að kærandi hafi með framangreindum tölvupósti sett fram þá kröfu að byggingarfulltrúi beitti þvingunarúrræðum þeim sem honum eru tiltæk samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki verður ekki séð að hann hafi tekið lokaákvörðun þess efnis að þeim yrði ekki beitt, enda báru  framangreind samskipti þess merki að um upplýsingagjöf væri að ræða um þá vettvangskönnun sem fram hefði farið á vegum embættis byggingarfulltrúans. Þar sem ekki var um að ræða neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, verður einnig að vísa kæru málsins frá hvað þetta varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon                                    

17/2014 Langholt Flóahreppi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 8. janúar 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Langholts 2 og 3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. mars 2014, er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 8. janúar 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Langholts 2 og 3.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júní 2014, er barst nefndinni 20. s.m., kærir H, Langholti 1, Flóahreppi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Flóahrepps frá 21. maí 2014 að veita ábúanda Langholts 3 leyfi til jarðvegsframkvæmda við grunn gistihúss og íbúðarhúss sem gert er ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 52/2014, sameinað máli þessu.

Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Flóahreppi 11. apríl 2014 og 19. apríl 2016.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 1. ágúst 2012 lögðu ábúendur og eigendur lögbýlisins Langholts 3 fram lýsingu á deiliskipulagi fyrir jörðina, sem er 1,3 ha að stærð, og tvær spildur úr Langholti 2 í eigu ábúanda Langholts 3, sem eru samtals 21,3 ha að stærð samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár. Á jörðinni Langholti 3 er íbúðarhús og bílskúr en engar byggingar eru á fyrrgreindum spildum úr Langholti 2. Aðkoma að nefndum húsum er sameiginleg með jörðinni Krosshóli, um aðkomuveg úr norðri frá Langholtsvegi. Samkvæmt lýsingunni var fyrirhugað að byggja hótel, allt að 500 m² að grunnfleti á 1-2 hæðum með 24 herbergjum, skemmu allt að 600 m², reiðhöll um 600 m², hesthús um 400 m², frístundahús allt að 120 m² og tvö gestahús, annað allt að 100 m² og hitt um 50 m². Samþykkt var að kynna lýsinguna skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagnar Skipulagsstofnunar.

Lýsingin var auglýst og send eigendum aðliggjandi landareigna til kynningar. Athugasemdir bárust frá nokkrum landeigendum, sem töldu að hótel og gestahús yrðu staðsett of nálægt landamörkum og byggingum þeirra. Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 5. september 2012, kemur fram að í lýsingunni sé tekinn upp texti úr Aðalskipulagi Hraungerðishrepps 2003-2015, sem hafi fallið úr gildi með breytingu, staðfestri 8. júlí 2009. Sú breyting feli í sér að heimild til að byggja þrjú íbúðar- og sumarhús sé nú bundin skilyrðum um stærð lögbýla. Þá þurfi að rökstyðja að fyrirhuguð hótelstarfsemi falli undir heimild aðalskipulagsins um takmarkaða veitinga- og gistiþjónustu sem aukabúgrein. Jafnframt sé þörf á að skýra hvort gestahúsin tvö falli undir fjöldatakmörk aðalskipulagsins á sumarhúsum eða hvort þau teljist hluti af hótelrekstrinum. Loks minni stofnunin á gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjarlægð bygginga frá stofn- og tengivegum.

Sveitarstjórn ákvað á fundi 3. október 2012 að kynna breytta skipulagstillögu skv. þágildandi 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga fyrir íbúum sveitarfélagsins og hagsmunaaðilum. Auglýsing þess efnis var birt með opinberum hætti og bárust athugasemdir frá eigendum aðliggjandi jarða. Málið var til meðferðar á fundum skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps og sveitarstjórnar Flóahrepps á tímabilinu 22. nóvember 2012 til 28. febrúar 2013, en þann dag var lögð fram breytt tillaga á fundi nefndarinnar. Skipulagssvæðið hafði þá verið minnkað vegna óvissu um landamerki Langholts 3 og hætt við byggingarreit fyrir reiðhöll og hesthús. Svæðið sem tillagan tók til var nú um 1,6 ha af annarri fyrrgreindra spildna úr landi Langholts 2 og 0,7 ha af Langholti 3, eða samtals 2,3 ha í stað ríflega þriggja ha. Gert var ráð fyrir að heimilt yrði að byggja 150 m² starfsmannahús, 50 m² íbúðarhús, 300 m² gistihús með ellefu herbergi og allt að 200 m² kjallara, auk 350 m² skemmu. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti að tillagan yrði auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 6. mars 2013. Tillagan var auglýst til kynningar 21. mars 2013, með athugasemdafresti til 3. maí s.á. Athugasemdir bárust frá níu íbúum í nágrenni skipulagssvæðisins, en eigendur Langholts 3 andmæltu þeim athugasemdum með tölvupósti 19. maí 2013.

Að kynningu lokinni tók skipulags- og byggingarnefnd málið fyrir á fundi 27. maí 2013 og fól skipulagsfulltrúa að leita eftir undanþágu umhverfis- og auðlindaráðherra frá ákvæði gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um fjarlægð mannvirkja frá vegum og leita umsagnar Veðurstofu Ísland varðandi flóðahættu. Á fundi nefndarinnar 31. október 2013 var tillagan lögð fram með þeirri breytingu að bætt var við ákvæði í skipulagsskilmála, í ljósi umsagnar Veðurstofu Íslands um að á byggingarreit fyrir skemmu skyldi gert ráð fyrir að lágmarksgólfkóti hennar yrði 28 m.y.s. Jafnframt var lögð fram umbeðin undanþága umhverfis- og auðlindaráðherra, dags. 19. september 2013. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagið með greindum breytingum. Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti afgreiðsluna á fundi 6. nóvember 2013. Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar með bréfi, dags. 10. desember s.á. Þá var fram komnum athugasemdum svarað og tekið fram að öll íbúðarhúsin tengdust búrekstri jarðarinnar.

Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við deiliskipulagið með bréfi, dags. 19. desember 2013, þar sem ekki væri ljóst hvernig fyrirhuguð uppbygging tengdist búrekstri og hvort ferðaþjónustan væri aukabúgrein í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags. Þá kom jafnframt fram í bréfi stofnunarinnar að aðkomuvegurinn að Krosshóli og Langholti 2 lægi um Langholt 3 og því þyrfti að setja í skilmála kvöð um umferðarrétt. Á fundi skipulagsnefndar 3. janúar 2014 var framangreint bréf Skipulagsstofnunar tekið fyrir og mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti að gera lítilsháttar breytingar á greinargerð skipulagsins. Afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af meirihluta sveitarstjórnar á fundi 8. janúar 2014. Breyting var gerð á skilmálum deiliskipulagsins 10. janúar 2014 með því að bætt var þar við eftirfarandi texta: „Sett kvöð um aðkomu að Krosshól. Sú starfsemi sem deiliskipulagið gerir ráð fyrir tengist lögbýlinu Langholti 3.“ Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun að nýju, sem gerði ekki athugsemd við birtingu þess, með skírskotun til upplýsinga frá skipulagsfulltrúa um að á lögbýlinu Langholti 3 væri stunduð hrossarækt ásamt því að þar væri fyrirhuguð  ferðaþjónustu. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. febrúar 2014.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að árið 2012 hafi verið endurnýjað byggingarleyfi fyrir hesthúsi, með haughúskjallara „undir vatni“, á Langholti 3, sem nái inn á land Krosshóls. Meirihluti sveitarstjórnar hafi sýnt kærendum fullkomið virðingarleysi og aðkoma skipulagsfulltrúa virst einkennast af hlutdrægni. Það hafi verið rétt af eiganda Krosshóls að krefjast þess að lóðamörkum yrðu þinglýst áður en deiliskipulag yrði samþykkt. Að gefa út byggingarleyfi fyrir reiðskemmu yfir lóðamörk og vegrein standist ekki. Þá sé ekki hægt að breyta fjarlægð frá vegi með því að miða mælingu við miðlínu vegar, en svæðið sé of þröngt fyrir heimilaðar framkvæmdir. Beiðni nágranna um vinnslu lóðablaða hafi verið hunsuð og sönnunarbyrði snúið við varðandi umferðarrétt. Hótelrekstur samræmist ekki skilmálum aðalskipulags. „Að nota hesthús sem strikað hefur verið út með vámerki sem skíringu á stórbúskap á einum hektara sem kallar á aukabúgrein gengur ekki.“ Þá sé það trúnaðarbrot að kalla eftir umsögn eigenda Langholts 3 um athugasemdir nágrannanna.

Málsrök Flóahrepps: Sveitarfélagið vísar til þess að fyrirhuguð uppbygging samkvæmt deiliskipulagi sé í samræmi við aðalskipulag en þar sé umrætt svæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Í greinargerð aðalskipulagsins komi fram að takmörkuð veitinga- og gistiþjónusta og minjagripaverslun sé leyfileg á landbúnaðarsvæðum ef um aukabúgrein sé að ræða. Ef uppbygging ferðaþjónustu sé umfangsmikil verði að skilgreina svæðið sem verslunar- og þjónustusvæði. Þá sé þess getið að tilgreina þurfi í deiliskipulagi umfang fyrirhugaðrar ferðaþjónustu og eðli starfseminnar. Einnig sé tekið fram í greinargerð aðalskipulags að þó að á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á viðkomandi jörð skuli vera leyfilegt að byggja allt að þrjú íbúðarhús á jörðinni, sem ekki séu tengd búrekstri, án þess að skilgreina þurfi svæðið sem íbúðarsvæði. Afgreiðsla byggingarleyfa vegna slíkra íbúðarhúsa skuli vera samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, m.a. um gerð deiliskipulags.

Frá upphafi hafi verið reynt að vinna málið á eins opinn hátt og hægt sé með því að kynna hagsmunaaðilum gögn málsins á öllum stigum þess. Þá hafi verið leitað til allra nauðsynlegra umsagnaraðila og fyrir liggi að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugsemd við málsmeðferð hins kærða skipulags. Það sé almennt verklag skipulagsnefndar að leita eftir áliti umsækjenda deiliskipulags á efni athugasemda sem berist, enda samræmist það 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Andmæli ábúenda Langholts 3: Bent er á að búið sé að margbreyta upphaflegri deiliskipulagstillögu fyrir umrætt svæði til að koma til móts við andmæli ábúenda grannjarða. Árið 2008 hafi landamerki Langholts 3 verið hnitasett en í þeim fermetrafjölda sem þannig hafi fengist sé öll heimreiðin, en helmingur hennar tilheyri Krosshóli. Mælt hafi verið út í miðjan Langholtsveg, þar sem það hafi átt við, og svo sé sameiginlegt svæði við húsið á Krosshóli. Þegar búið sé að draga frá veghlutann og sameiginlega svæðið sé landstærð býlisins Langholts 3 1,32 ha. Árið 2004 hafi lóðin Langholt 1 verið stofnuð af einum kærenda og í stofnskjali sé þess getið að aðliggjandi jörð sé Langholt 3. Að Hallanda hafi verið rekið veiðihús og gistihús í mörg ár. Aldrei hafi nokkur maður í hverfinu mótmælt því þótt gistihúsið sé ekki nema í um 40 m fjarlægð frá íbúðarhúsi að Langholti 1. Þá séu seld veiðileyfi og gisting á vegum eins kærenda að Langholti 1. Sveitarstjórnarmaður sem alltaf hafi verið á móti byggingu gistihúss að Langholti 3 reki sjálfur gistihús og umsókn vegna þess hafi fengið flýtimeðferð árið 2012. Ætla megi að andstaða við fyrirhugaðan rekstur að Langholti 3 helgist fyrst og fremst af samkeppnissjónarmiðum. Þá sé annar sveitarstjórnarmaður tengdur fólkinu að Langholti 1 fjölskyldu- og vinaböndum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um deiliskipulag fyrir hluta lögbýlisins Langholts 3, sem gerir ráð fyrir uppbyggingu húsakosts, m.a. fyrir ferðaþjónustu, og um leyfi byggingarfulltrúa fyrir jarðvegsframkvæmdum þar sem íbúðarhúsi og gistiheimili er ætlað að rísa.

Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð. Hið kærða leyfi byggingarfulltrúa felur í sér jarðvegsskipti vegna fyrirhugaðra bygginga en felur ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir við byggingu nefndra húsa. Slíkar jarðvegsframkvæmdir eru almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Verður ekki séð að umrætt leyfi snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild vegna þeirrar ákvörðunar, svo sem kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í tilefni af upprunalegri skipulagstillögu var gerð lýsing á deiliskipulagi, sem kynnt var fyrir eigendum nálægra jarða með bréfi, og tillagan síðan auglýst til kynningar. Tekin var afstaða til fram kominna athugasemda ásamt því að eigendum Langholts 3, sem óskað höfðu eftir skipulagsgerðinni, var gefinn kostur á að tjá sig um þær athugasemdir. Leituðu skipulagsyfirvöld m.a. umsagnar hjá Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Minjastofnun Íslands við vinnslu deiliskipulagstillögunnar. Var málsmeðferð deiliskipulagsins að þessu leyti í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Hins vegar var þess ekki gætt að senda skipulagstillöguna til umsagnar Skipulagsstofnunar innan átta vikna frá því að fresti til athugasemda lauk, í samræmi við þágildandi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Frestur til að koma að athugasemdum vegna umræddrar skipulagstillögu rann út 3. maí 2013 en hún var send Skipulagsstofnun 10. desember s.á. Mun sá dráttur m.a. hafa stafað af því að leitað var undanþágu ráðherra fyrir fjarlægð mannvirkja frá vegum. Verður nefndur annmarki ekki talinn þess eðlis að hann raski gildi hins kærða deiliskipulags.

Hið deiliskipulagða svæði er á skilgreindu landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Hraungerðishrepps 2003-2015. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að takmörkuð veitinga- og gistiþjónusta og minjagripaverslun sé leyfileg á landbúnaðarsvæðum, ef um aukabúgrein sé að ræða. Ef uppbygging ferðaþjónustu sé umfangsmikil verði að skilgreina svæðið sem verslunar- og þjónustusvæði. Þá er þess getið að tilgreina þurfi í deiliskipulagi umfang fyrirhugaðrar ferðaþjónustu og eðli starfseminnar. Hinn 22. júlí 2009 tók gildi breyting á aðalskipulaginu varðandi skilmála fyrir íbúðarbyggð, landbúnaðarsvæði og frístundabyggð. Ákvæði um íbúðarhús á bújörðum varð eftir breytinguna á þann veg að heimilt er að byggja þrjú íbúðarhús, sem ekki tengjast búrekstri, á landbúnaðarsvæðum lögbýla sem séu 70 ha eða stærri og tvö íbúðarhús á lögbýlum, sem séu 50-70 ha, án þess að breyta aðalskipulagi. Leitast skuli við að staðsetja ný hús í nálægð við bæjarhlöð jarðanna og nýta sömu afleggjara frá þjóðvegi.

Í tölvupósti ábúenda Langholts 3 til yfirvalda sveitarfélagsins hinn 18. febrúar 2013 er tekið fram að aðalbúgrein þeirra sé hrossarækt, sem þau hafi stundað í 15 ár. Þau hafi ræktað keppnishross og séu einnig með 70 merar í blóðsöfnun, svokallað merarblóð, og séu víðar með beitilönd. Með hliðsjón af þessu verður að leggja til grundvallar að á fyrrgreindu lögbýli sé stundaður búrekstur í formi hrossaræktar.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 32. gr. þeirra laga. Heimild deiliskipulagsins fyrir 11 herbergja gistiheimili verður að telja í samræmi við fyrrgreinda skilmála aðalskipulags um gistiþjónustu á landbúnaðarsvæðum sem aukabúgrein, og heimilað starfsmannahús hlýtur eðli málsins samkvæmt að tengjast rekstri lögbýlisins. Hins vegar er fjöldi íbúðarhúsa á lögbýlum sem ekki tengjast búrekstri takmarkaður í aðalskipulaginu, eins og áður greinir, en þar er ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsum ótengdum búrekstri á lögbýlum undir 50 ha að stærð. Á lögbýlinu Langholti 3, sem er undir nefndum stærðarmörkum, er fyrir íbúðarhús þar sem ábúendur eru til heimilis en í hinu kærða deiliskipulagi er heimiluð bygging 50 m² íbúðarhúss til viðbótar því sem fyrir er. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti sú bygging tengist búrekstri býlisins og fer deiliskipulagið í bága við skilmála aðalskipulags að þessu leyti.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða deiliskipulag fellt úr gildi að því er varðar heimild þess fyrir byggingu 50 m² íbúðarhúss að Langholti 3.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa Flóahrepps frá 21. maí 2014, um að veita ábúanda Langholts 3 í Flóahreppi leyfi til jarðvegsframkvæmda við grunn gistihúss og íbúðarhúss í landi lögbýlisins, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 8. janúar 2014, um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Langholts 2 og 3, er felld úr gildi að því er varðar heimild fyrir byggingu 50 m² íbúðarhúss í landi Langholts 3.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson