Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2015 Gunnarsbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu úr steinsteypu, gera tvennar svalir, breyta innra skipulagi og breyta húsinu á lóð nr. 30 við Gunnarsbraut í Reykjavík í tvíbýlishús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2015, er barst nefndinni 19. s.m., kæra eigendur, Gunnarsbraut 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Gunnarsbraut 30, Reykjavík og breyta húsinu í tvíbýlishús, reisa steypta viðbyggingu og gera á það tvennar svalir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 2. mars 2015 og í september og október 2016.

Málavextir: Húsið að Gunnarbraut 30 er steinsteypt tvílyft hús með kjallara. Það var reist árið 1939 og samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist húsið í þrjá eignarhluta. Mun það vera nýtt sem einbýlishús með aukaíbúð í kjallara. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. apríl 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að stækka umrætt hús og byggja bílskúr á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og skrifstofu sviðsstjóra, sem í umsögnum sínum lögðust gegn því að grenndarkynna stækkun á húsinu þar eð umsótt breyting viki frá samþykktum rammaskilmálum fyrir Norðurmýri. Unnt væri hins vegar að grenndarkynna bílskúr þar sem stækkun hans væri í samræmi við fyrrgreinda skilmála. Frestaði byggingarfulltrúi í framhaldinu afgreiðslu málsins.

Umsókn um byggingarleyfi var á ný lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. september 2014 og lágu þá fyrir nýir uppdrættir. Samkvæmt þeim var sótt um leyfi til að stækka kjallara hússins, jafnframt því að stækka 1. og 2. hæð til vesturs og setja tvennar svalir á suðvesturhlið þess. Því til viðbótar var sótt um að fækka íbúðum í húsinu um eina og breyta innra fyrirkomulagi þess. Við breytinguna yrði húsið 372,2 m² í stað 259,6 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,46 í 0,66. Frestaði byggingarfulltrúi afgreiðslu málsins og vísaði því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi á embættisafgreiðslufundi sínum 3. október s.á. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Auðarstræti 3, 5, 7, 9 og 11 og Gunnarsbraut 26, 28, 32 og 34. Var það og gert og aðilum bent á að skila bæri athugsemdum eigi síðar en 20. nóvember
s.á. Þann sama dag var erindið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Var tekið fram í fundargerð þess fundar að fyrir lægju tölvupóstar frá fjórum aðilum sem ekki gerðu athugasemd við erindið og einnig skriflegt erindi frá einum aðila um framlengdan frest til athugasemda. Var samþykkt að framlengja athugasemdafrest til og með 4. desember 2014.

Málið var tekið fyrir á tveimur embættisafgreiðslufundum skipulagsfulltrúa í desember 2014 og annars vegar samþykkt að vísa því til umsagnar verkefnisstjóra og hins vegar að kynna það formanni umhverfis- og skipulagsráðs. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. janúar 2015 var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 14. s.m., og var það fært til bókar undir 10. lið í B-hluta fundargerðarinnar. Á fundinum lágu m.a. fyrir fyrrgreindir tölvupóstar, sem og aðrar athugasemdir sem borist höfðu síðar. Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m., en hann tók neikvætt í umsóknina í ljósi áhrifa umbeðinnar stækkunar á nærliggjandi lóðir. Afgreiddi umhverfis- og skipulagsráð erindið með svohljóðandi hætti: „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 12. janúar 2015. Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.“ Á fundi borgarráðs 15. janúar 2015 var ofangreind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs lögð fyrir og B-hluti hennar samþykktur. Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir á afgreiðslufundi 20. janúar 2015 og synjaði henni, með vísan til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs 14. s.m. og umsagnar skipulagsfulltrúa 12. s.m. Var fundargerð byggingarfulltrúa lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. janúar s.á. í B-hluta þeirrar fundargerðar og á fundi borgarráðs 22. s.m. var sá hluti fundargerðar ráðsins samþykktur.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um grenndarkynningu. Þá hafi ekki verið gætt viðeigandi ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010.

Skipulagsnefnd beri að ákveða frest til að koma að athugasemdum fyrirfram og óheimilt sé að framlengja hann. Þurft hefði að færa fram haldbærar ástæður fyrir frestbeiðninni og veita kærendum andmælarétt áður en ákveðið hafi verið að grípa inn í meðferð málsins með svo afdrifaríkum hætti. Leiði ágalli þessi a.m.k. til þess að ekki hafi átt að koma til álita við afgreiðslu málsins neinar þær athugasemdir sem fram hafi komið eftir að upphaflegur kynningarfrestur hafi runnið út. Einnig virðist sem öðrum hafi ekki verið kynntur framlengdur frestur og hafi málsmeðferðin að því leyti einnig verið bæði ólögmæt og ómálefnaleg.

Hvorki afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs, sem hafi stöðu skipulagsnefndar að lögum, né afgreiðsla borgarráðs sem fari með skipulagsvald sveitarstjórnar, feli í sér ákvörðun í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Skort hafi því á að fyrir lægi lögmæt niðurstaða grenndarkynningar í málinu og þar með skilyrði til þess að byggingarfulltrúi gæti tekið ákvörðun um afgreiðslu á umsókn kæranda. Hafi byggingarfulltrúi ekki verið bær til að afgreiða grenndarkynningarþátt málsins og beri að þeim sökum að ógilda ákvörðun hans.

Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár, en í umsókn felist ekki annað en það að kærendum verði heimilað að nýta lóð sína til jafns við það sem algengt sé í hverfinu. Þannig verði nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir umsótta breytingu nokkuð lægra en á lóð Gunnarsbrautar 28, en eigendur þeirrar lóðar standi helst gegn áformum kærenda. Þá hafi ekki verið gætt ákvæða 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Virðist niðurstaða málsins alfarið byggjast á meintum grenndaráhrifum fyrirhugaðrar viðbyggingar, en ekkert liggi fyrir um það að þau hafi verið rannsökuð eða mat lagt á áhrifin með fullnægjandi hætti. Komi ekki fram í hverju þau birtist og hvernig þau horfi við með tilliti til jafnræðis- eða grenndarsjónarmiða. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 48/2011. Þá hafi borgaryfirvöld átt að gefa kærendum kost á að draga úr grenndaráhrifum byggingarinnar í stað þess að synja umsókninni.

Kærendur hafi ítrekað leitað leyfis til að byggja við hús sitt en fyrirspurnum þeirra verið synjað með vísan til svokallaðrar rammaskilmála fyrir Norðurmýri frá 1987. Með þeirri ákvörðun að fallist yrði á grenndarkynningu umsóknar þeirra hafi falist viðurkenning á því að umsótt viðbygging væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, enda eigi skipulagsnefnd að leggja mat á hvort framkvæmdin falli að þeim skilyrðum áður en umsókn um byggingarleyfi sé grenndarkynnt, sbr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð.

Haldlaust sé að byggja á því að umsóttar breytingar muni skapa fordæmi, en möguleg uppbygging muni ráðast af því deiliskipulagi sem gera eigi. Geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér grenndaráhrif. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Hafi borgaryfirvöld margoft teflt þessum rökum fram í kærumálum til nefndarinnar til að réttlæta samþykktir sínar. Verði ekki annað séð en að þessi sömu rök hafi átt að leiða til þess að umsókn kærenda yrði samþykkt, þrátt fyrir óverulega og afmarkaða aukningu skuggavarps. Jafnframt sé bent á að fyrir liggi jákvæð umsögn Minjastofnunar í málinu. Þá telji kærendur að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið meðferð málsins og að nánar tilgreindur starfsmaður hafi unnið gegn málinu með ýmsum hætti.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að samkvæmt a-lið 2. gr. í viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hafi skipulagsfulltrúi heimild til að framlengja frest til athugasemda í grenndarkynningu. Hafi sveitarfélagið ávallt túlkað 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 svo að heimilt væri að framlengja nefndan frest kæmi fram um það beiðni áður en hann væri liðinn. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála aldrei gert athugasemd við þá framkvæmd.

Ekki sé fallist á að meðferð málsins hafi verið andstæð lögum eða ómálefnaleg. Ákvörðun um að fallast ekki á byggingarleyfisumsóknina hafi verið tekin af umhverfis- og skipulagsráði samkvæmt heimild í 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, sem samþykkt hafi verið í borgarstjórn 18. desember 2012. Borgarráð hafi samþykkt afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs sem og afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Því sé mótmælt að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar. Afgreiðsla borgarinnar hafi verið lögmæt og málefnaleg með tilliti til þeirra raka sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2015. Engin sambærileg tilvik hafi heldur verið samþykkt í Norðurmýrinni sem kærendur hafi getað bent á, en ekki hafi verið heimilaðar neinar stækkanir á húsum á umræddu svæði frá árinu 1987 umfram það sem rammaskilmálar hafi leyft. Eigi borgarbúar ekki stjórnarskrárvarinn rétt til að byggja hvar sem þeim henti. Beri borgaryfirvöldum í hverju tilviki að meta sjálfstætt umsóknir sem berist með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi og með tilliti til almennra grenndarreglna.

Ekki sé heldur fallist á að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Verði ekki séð að borginni hafi borið skylda til að leggja til breytt fyrirkomulag eða staðsetningu viðbyggingarinnar, m.a. í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem komið hafi frá hagsmunaðilum. Þá verði ekki fallist á að málið hafi ekki verið nægilega upplýst, en mat á áhrifum breytinganna hafi farið fram, m.a. með skuggavarpsuppdráttum, sem sýnt hafi aukinn skugga á suður- og vesturgarð Gunnarsbrautar 28, auk aukningar skugga á svalir miðhæðar nefnds húss og útsýnisskerðingar.

Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögum og ákvörðun um grenndarkynningu sé tekin af skipulagsyfirvöldum lögum samkvæmt í því skyni að afla gagna sem veita megi leiðbeiningu um afstöðu annarra íbúa og nágranna til fyrirliggjandi umsókna. Þótt grenndarkynnt sé hafi borginni ekki borið að samþykkja umsóknina umyrðalaust. Verði ekki séð að kærendur hafi átt lögvarinn rétt til þess að fá umsókn sína samþykkta og hafi synjun verið byggð á málefnalegum grunni.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærendur árétta áður fram komin sjónarmið sín. Jafnframt sé bent á að viðauki 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar hafi ekki verið í gildi þegar ákvörðun um framlengingu frestsins hafi verið tekin. Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 hafi hvorki verið staðfest af ráðherra né birt í B-deild Stjórnartíðinda og uppfylli því ekki skilyrði 6. gr. skipulagslaga. Viðauki um samþykkt um stjórn Reykjavíkur um vald umhverfis- og skipulagsráðs til fullnaðarafgreiðslu mála muni ekki hafa tekið gildi fyrr en í nóvember 2015. Þá verði ekki séð að tilvitnuð samþykkt hafi haft að geyma heimild fyrir ráðið til að ganga inn í það hlutverk sem sveitarstjórn sé falið í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Loks hafi þess ekki verið gætt við meðferð málsins að tilkynna niðurstöðu sveitarstjórnar eða svara framkomnum athugasemdum, svo sem skylt sé lögum samkvæmt.

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Gunnarsbraut 30 að undangenginni grenndarkynningu.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur skipulagsnefnd heimilað að veitt verði byggingarleyfi fyrir umsóttum framkvæmdum án þess að deiliskipulag liggi fyrir. Skilyrði þess er að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og að grenndarkynning hafi farið fram. Er og kveðið á um í gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að ef ekki liggi fyrir deiliskipulag, líkt og hér háttar, skuli byggingarfulltrúi vísa leyfisumsókn til skipulagsnefndar í samræmi við ákvæði skipulagslaga og skuli grenndarkynning hafa farið fram og hlotið afgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna áður en byggingaráform eru samþykkt.

Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Er nánar kveðið á um grenndarkynningu í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar er m.a. tekið fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins. Í 2. mgr. ákvæðisins er svo gerð sú krafa að hafi athugasemdir borist frá hagsmunaðilum skuli sveitarstjórn senda þeim er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu vísaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og var samþykkt að grenndarkynna erindið og hagsmunaaðilum gefið færi á því að skila inn athugasemdum innan nánar tilgreinds frests. Sá frestur var síðan framlengdur á fundi skipulagsfulltrúa í kjölfar erindis eins hagsmunaaðila þar um. Að lokinni kynningu var málið á dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs og lá þá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2015, þar sem m.a. var tekin afstaða til framkominna athugasemda. Var málið afgreitt „neikvætt“ með vísan til nefndrar umsagnar. Sú niðurstaða var færð til bókar í B-hluta fundargerðarinnar og á fundi borgarráðs næsta dag var sú fundargerð lögð fram og B-hluti hennar samþykktur. Verður því að telja að með þeirri afgreiðslu borgarráðs hafi legið fyrir viljaafstaða ráðsins til erindisins. Hvorki liggur hins vegar fyrir að aðilum sem athugasemdir gerðu hafi verið send umrædd umsögn né að þeim hafi verið tilkynnt niðurstaða málsins og ekki liggur fyrir að ákvörðun skipulagsfulltrúa um að framlengja athugasemdafrest við grenndarkynninguna hafi verið kynnt kærendum eða öðrum aðilum sem grenndarkynningin náði til.

Frestur hagsmunaaðila til að koma að athugasemdum skal vera a.m.k. fjórar vikur skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og er ekki girt fyrir að unnt sé að hafa þann frest lengri. Framlenging frestsins við umrædda grenndarkynningu verður því ekki talin hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Ber í þessu sambandi einnig að líta til 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem heimilar aðila á hvaða stigi málsmeðferðar sem er að krefjast þess að afgreiðslu máls sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skal þó ekki frestað ef það hefur í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins, en það á ekki við í máli þessu. Grenndarkynning er þáttur í skoðun máls og lýtur bæði að rannsókn þess og samráði við hagsmunaaðila áður en ákvörðun er tekin. Ákvörðun um að grenndarkynna umsóttar breytingar getur þar af leiðandi ekki falið í sér samþykki kynntrar umsóknar, enda geta athugasemdir er fram koma við grenndarkynningu eftir atvikum haft áhrif á niðurstöðu máls.

Í umræddri ákvörðun fólst synjun á umsóttum breytingum á fasteign kærenda og því um að ræða óbreytt ástand. Sú staðreynd að þeim hagsmunaaðilum sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynningu voru hvorki send svör sveitarfélagsins við andmælum né þeim kynnt niðurstaða málsins getur ekki, eins og atvikum er háttað, ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar. Tilgangur slíkrar tilkynningar til þeirra er gert hafa athugasemdir við grenndarkynningu er fyrst og fremst sá að gefa þeim kost á því að kynna sér forsendur ákvörðunarinnar og taka afstöðu til málskots, ef breytingar yrðu heimilaðar gegn andmælum þeirra.

Í umsókn kærenda fólst m.a. að hús þeirra yrði stækkað og hefði nýtingarhlutfall lóðarinnar við það hækkað úr 0,44 í 0,66. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Gunnarsbraut 26-38, sem standa við sömu götuhlið, er frá 0,48 til 0,71, ef miðað er við upplýsingar úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í ljósi þessa nýtingarhlutfalls götusvæðisins verður hin kærða ákvörðun ekki talin fela í sér að kærendum sé mismunað umfram aðra fasteignaeigendur á svæðinu hvað nýtingarheimildar varðar.

Hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa og afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs, þar sem skírskotað var til áhrifa umbeðinnar stækkunar á nærliggjandi lóðir. Jafnframt var að því vikið að fyrirhugað væri að hefja vinnu við gerð hverfisskipulags fyrir Hlíðar, Holt og Norðurmýri á árinu, þar sem yrðu til umfjöllunar almennar og samræmdar stækkunarheimildir fyrir fasteignir og mannvirki. Bjuggu því efnisrök að baki niðurstöðu byggingarfulltrúa.
Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kærenda af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu úr steinsteypu, gera tvennar svalir, breyta innra skipulagi og breyta húsinu á lóð nr. 30 við Gunnarsbraut í Reykjavík í tvíbýlishús.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

49/2015 Lindarbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 á umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2015, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Lindarbraut 11, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2016.

Málavextir: Árið 1976 var samþykkt á fundi byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar svonefnt bráðabirgðabyggingarleyfi til fimm ára fyrir viðbyggingu verkstæðis er tilheyra myndi Lindarbraut 11. Var sett það skilyrði fyrir útgáfu leyfisins að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi fyrir. Síðar kom upp ágreiningur milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um lóðamörk. Taldi lóðarhafi Lindarbrautar 9 að þau væri í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971, en lóðarhafi Lindarbrautar 11 að þau væri í samræmi við lóðablað frá árinu 1990. Óskaði Seltjarnarnesbær eftir áliti lögmanns um réttarstöðu lóðarhafa. Niðurstaða álitsgerðarinnar, dags. 2. nóvember 2005, var sú að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi ekki fyrir vegna áðurnefndrar viðbyggingar. Væri stærð lóðanna í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971 og lægi enginn samningur fyrir milli eigenda lóðanna um breytt lóðamörk. Stæði því umrædd viðbygging að Lindarbraut 11 að hluta til innan lóðar nr. 9.

Í maí 2008 fór þáverandi eigandi lóðarinnar að Lindarbraut 9 fram á það við byggingarfulltrúa að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð af lóð hans. Synjaði sveitarfélagið þeirri beiðni og taldi að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða milli eigenda lóðanna nr. 9 og 11. Árið 2011 fór núverandi lóðarhafi Lindarbrautar 9 fram á það við Seltjarnarnesbæ að sveitarfélagið beitti þeim úrræðum sem það hefði yfir að ráða til að verkstæðisskúr við lóðamörk nefndra lóða yrði fjarlægður eða minnkaður þannig að hann stæði aðeins innan lóðar Lindarbrautar 11. Vísaði lóðarhafinn m.a. til álits frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um að nokkur sambrunahætta væri á milli bílskúrs á lóð hans og nefndrar byggingar. Synjaði Seltjarnarnesbær umræddri kröfu og var ákvörðun þeirri skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er felldi þá ákvörðun úr gildi. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki yrði fallist á að bæjaryfirvöld hefðu getað synjað erindi kæranda um afskipti af málinu með þeim rökum að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða þegar litið væri til þess að erindið væri stutt haldbærum rökum um gæslu öryggishagsmuna.

Lóðarhafi Lindarbrautar 9 óskaði í kjölfar þessa eftir því við Seltjarnarnesbæ að málið yrði tekið upp að nýju. Var kæranda með bréfi Seltjarnarnesbæjar, dags. 2. september 2013, gefið færi á því að koma að sjónarmiðum sínum. Einnig var óskað upplýsinga um hvort lagfærðar hefðu verið eldvarnir í umræddu húsi. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október s.á., var tekið fram að lóðarmörk Lindarbrautar 11 hefðu verið óbreytt í marga áratugi. Hefði skipulags- og byggingarnefnd ekki stjórnsýsluvald í málinu og væri sú krafa gerð að málinu yrði vísað frá, að öðru leyti en því er lyti að brunavörnum. Þá yrðu nánari skýringar á úrbótum varðandi eldvarnir gefnar þegar skipulagsnefnd hefði afgreitt málið.

Með bréfi Seltjarnarnesbæjar til lóðarhafa Lindarbrautar 11, dags. 16. júlí 2014, var veittur frestur til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum sem að hluta lægju yfir lóðamörk Lindarbrautar 11 á lóðina nr. 9. Skyldi gert ráð fyrir því í umsókn að sá hluti mannvirkjanna sem nú stæði inni á lóð nr. 9 yrði fjarlægður og að gengið yrði frá mannvirkjunum með fullnægjandi hætti við núverandi lóðamörk í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá var tekið fram að ef ekki yrði farið að framangreindum tilmælum innan greindra tímamarka kæmi til greina að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Loks var vakin athygli á því að yrði ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum í samræmi við framangreint kynni það að leiða til þess að Seltjarnarnesbær yrði að krefjast þess að mannvirkin í heild yrðu fjarlægð. Með bréfinu fylgdi umsögn lögmannsstofu um málið, dags. sama dag.

Hinn 2. október 2014 móttók Seltjarnarnesbær umsókn kæranda um leyfi til að „eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu“ á lóðamörkum umræddra lóða. Kom fram á afstöðumynd með umsókn að eystri hluti verkstæðisbyggingar hefði verið reistur á árunum 1950-1960 en viðbygging hennar, vestari hluti, síðar. Bílskúr hefði verið byggður árið 1950. Þá var tilgreint að mannvirkin væru notuð undir starfsemi húsasmíðameistara og væri öllu rafmagni slegið út þegar þau væru ekki í notkun.

Með tveimur bréfum byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 18. maí 2015, kom fram að umsókn kæranda hefði verið synjað þann sama dag. Var í öðru bréfinu jafnframt tekið fram að téð umsókn væri ekki í samræmi við tilmæli í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 16. júlí 2014 og væri henni því synjað með vísan til þess og fyrirliggjandi umsagnar lögmannsstofu um málið. Einnig kom fram að bærist ekki ný umsókn í samræmi við tilmæli byggingarfulltrúa innan nánar tilgreindra tímamarka myndi byggingarfulltrúi leggja fram þá tillögu fyrir skipulags- og umferðarnefnd að lagðar yrðu dagsektir á eiganda eignanna. Þá skyldu andmæli vegna nefndrar tillögu hafa borist byggingarfulltrúa innan 30 daga frá móttöku bréfsins.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að dráttur hafi orðið á að senda út tilkynningu um afgreiðslu málsins. Teljist kæra of seint fram komin sé þess vænst að slíkt verði talið afsakanlegt. Kærufrestur sé stuttur. Óverulegur dráttur hafi orðið á að senda inn kæru og synjun umsóknar snerti ekki hagsmuni annarra en kæranda og bæjaryfirvalda.

Í umfjöllun um málið sé gengið út frá því að aðeins sé um eina byggingu að ræða, þ.e. viðbyggingu sem veitt hafi verið tímabundið byggingarleyfi fyrir árið 1976 og nái inn á lóð Lindarbrautar 9, eins og hún hafi upphaflega verið afmörkuð. Rétt sé að fyrir hafi verið eldri verkstæðisbygging sem nái jafnt langt inn á lóðina og nefnd viðbygging. Ekki sé annað vitað en að hún hafi verið byggð með leyfi byggingaryfirvalda. Þegar hún hafi verið reist hafi umræddar lóðir verið í eigu sama aðila og því hafi ekki verið þörf á að leita samþykkis. Mátti þeim sem síðar hafi eignast lóðina Lindarbraut 9 vera kunnugt um tilvist og legu umræddrar byggingar. Fáist það því ekki staðist að byggingarleyfi fyrir umræddri byggingu hafi verið tímabundið og sé ekki lengur í gildi, en það eigi aðeins við um lítinn hluta hennar, þ.e.a.s. fyrrgreinda viðbyggingu.

Ekki sé á færi stjórnvalda að skera úr ágreiningi um mörk lóðanna. Sennilegt sé að eigendur Lindarbrautar 11 hafi unnið rétt fyrir hefð á umræddri lóðarspildu, hvað sem líði þinglesnum mæliblöðum. Séu því engar forsendur fyrir þeirri niðurstöðu að fjarlægja beri umrætt mannvirki, en slíkt væri í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og að auki verulega kostnaðarsamt.

Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 32/2001, 73/2002 og 19/2003 er varði Spítalastíg 4. Af þeim verði ráðið að ágreiningur um eignarmörk eigi undir dómstóla og að ekki sé réttlætanlegt að krefjast niðurrifs til að fullnægja kröfum um eldvarnir séu vægari úrræði tiltæk. Hafi því jafnframt verið hafnað í úrskurðum nefndarinnar að réttlætanlegt væri að fallast á kröfu um niðurrif eigna hefðu þær staðið óátalið um langan tíma, þótt ekki lægi fyrir byggingarleyfi. Megi í því sambandi t.d. nefna úrskurð í máli nr. 5/2005, en kvartað hafi verið til umboðsmanns Alþings vegna niðurstöðu þess máls og hann ekki talið ástæðu til athugasemda. Einnig sé skírskotað til úrskurðar í máli nr. 22/2000. Hafi bæjaryfirvöld getað gert reka að því að láta fjarlægja viðbygginguna eftir að tímabundna leyfið rann út í samræmi við úrræði þágildandi byggingarlaga. Verði að telja að sveitarfélagið hafi fallið frá því að beita úrræðum þeirra laga með aðgerðaleysi sínu. Þá sé vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 20/407 og 26/67 til stuðnings málsrökum kæranda. 

Virðist sem ætlunin hafi verið sú að leyfa byggingunni að standa áfram. Til þess bendi m.a. lóðablað með breyttum lóðamörkum, áritað af byggingarfulltrúa í júlí 1990, en með því hafi verið staðfest það fyrirkomulag sem þá hafi í raun verið lengi við lýði, þ.e. að mörk umræddra lóða væru um gafl nefndrar verkstæðisbyggingar. Hins vegar hafi farist fyrir að þinglýsa umræddu lóðablaði.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Sveitarfélagið gerir kröfu um frávísun málsins sökum þess að kæra hafi borist of seint. Kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn um byggingarleyfi með bréfi, dags. 18. maí 2015. Í öðru bréfi, sem dagsett sé og sent þann sama dag, hafi jafnframt verið tilkynnt um synjunina og fyrirhugaða álagningu dagsekta.

Til vara er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Það sé niðurstaða Seltjarnarnesbæjar, sbr. niðurstöðu í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 22. mars 2013, að líta svo á að mörk lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut séu í samræmi við þinglýst lóðablað frá ágúst 1971 og því sé hluti mannvirkja lóðarinnar Lindarbrautar 11 á lóð Lindarbrautar 9. Sé sveitarfélagið að bregðast við ábendingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og leitast við að sjá til þess að ekki stafi hætta af húsum í sveitarfélaginu, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem bærinn hafi sett fyrir byggingarleyfi og því hafi byggingarfulltrúa ekki verið annað fært en að synja umsókninni.

Vísun kæranda í úrskurði um Spítalastíg sé almenn og fremur óskýr. Úrskurðarnefndin hafi áður úrskurðað að bæjaryfirvöldum beri að bregðast við í máli þessu og geti Seltjarnarnesbær ekki komið sér hjá því að taka ákvörðun. Þá eigi ekki við að stjórnvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Álitaefni um hvort rétturinn kunni að hafa unnist fyrir hefð eigi undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Það að byggingin hafi staðið óátalið um árabil hafi ekki þau áhrif að ekki verði krafist niðurrifs, sbr. Hrd. 1959:818. Úrskurður í máli nr. 5/2005, sem kærandi vísi til, fjalli ekki um sambærilegt mál. Þar hafi t.d. ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að garðhýsi yrði fjarlægt, en í máli þessu hafi svo verið, sbr. áðurnefnt álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ekki sé um ákveðinn tímaramma að ræða í 2. mgr. 31. gr. eldri byggingarlaga nr. 54/1978 og því ekki hægt að segja að bæjaryfirvöld hafi fallið frá því að beita úrræðum laganna. Þá verði að telja að atvik í tilvitnuðum hæstaréttardómum séu ekki sambærileg atvikum í máli þessu. Vísun kæranda í dómana sé almenn og í engu sé rökstutt hvernig þeir eigi við í málinu. Virðist í máli þessu sem aldrei hafi verið ætlunin að breyta mörkum lóðanna. Jafnframt sé bent á að fram hafi komið í söluyfirliti með Lindarbraut 11, þegar núverandi eigandi hafi keypt eignina, að fjarlægja þyrfti byggingu sem nái inn á lóðina að Lindarbraut 9.

Bæjaryfirvöld hafi reynt að nálgast málið með hliðsjón af reglu um meðalhóf. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin tæpum tíu mánuðum eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um að sækja þyrfti um byggingarleyfi og hafi því meðalhófs verið gætt að þessu leyti. Það sé álit Seltjarnarnesbæjar að vægari úrræði standi ekki til boða. Ekki hafi verið krafist niðurrifs alls hússins heldur eingöngu þess hluta sem standi innan lóðarinnar Lindarbrautar 9. Fyrst eigendur lóðanna nái ekki saman eigi sveitarfélagið ekki annan kost en að krefjast þessa. Forðast hafi verið að taka meira íþyngjandi ákvörðun en nauðsynlegt væri til að tryggja að mannvirkin stæðu ekki inni á lóð nágranna. Þá hafi ekki verið lögð fram nein gögn er styðji þá staðhæfingu að um misskilning sé að ræða varðandi þá byggingu er fari inn á lóð nr. 9.

——

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Seltjarnarnesbær gerir kröfu um frávísun máls þessa þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögbundnum kærufresti.

Kærandi heldur því fram að dregist hafi að tilkynna honum hina kærðu ákvörðun og í gögnum liggur fyrir að 1. júní 2015 hafi kæranda verið birt bréf frá Seltjarnarnesbæ. Kæra var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. júní 2015 og verður því með vísan til framangreinds og þar sem greindri fullyrðingu kæranda hefur ekki verið hnekkt, við það miðað að hún hafi borist innan eins mánaðar kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa fól í sér synjun umsóknar kæranda um leyfi til að eldverja suðurgafl byggingar á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Var sú synjun m.a. á því reist að umsókn kæranda færi í bága við tilmæli byggingarfulltrúa í bréfi, dags. 16. júlí 2014, þar sem gerð var krafa um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir allri byggingunni og að sá hluti hennar sem færi yfir lóðarmörk Lindarbrautar 9 yrði fjarlægður.

Fyrir liggur að ágreiningur er á milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um mörk lóðanna. Á það ekki undir úrskurðarnefndina að skera úr um ágreining um eignarréttindi eða hvort slík réttindi hafi stofnast fyrir hefð. Það álitaefni á undir lögsögu dómstóla. Samkvæmt hnitsettu mæliblaði, dags. í ágúst 1971, stendur hin umdeilda bygging út fyrir mörk lóðar Lindarbrautar 11 og inn á lóð Lindarbrautar 9, sem þar er talin vera 822 m² að flatarmáli. Er það í samræmi við skráningu fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands, sem ætla verður að byggi á gögnum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, en úrskurðarnefndin hefur ekki undir höndum þinglýst lóðablað fyrir umræddar lóðir þrátt fyrir fyrirspurnir þar um. Hefur gildi umrædds mæliblaðs frá árinu 1971 ekki verið hnekkt. Þá liggur fyrir að byggingarleyfi vegna viðbyggingar, er reist var árið 1976 við mörk umræddra lóða, er ekki lengur í gildi og hvorki munu vera til samþykktir uppdrættir hjá sveitarfélaginu af þeim hluta byggingarinnar sem áður hafði verið reistur né hafa þeir verið lagðir fram af hálfu kæranda.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið studd efnislegum rökum með hliðsjón af opinberri skráningu þjóðskrár og þeim gögnum sem fyrir lágu þegar ákvörðunin var tekin og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

89/2016 Egilsgata Borgarbyggð

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, „stjórnsýsluframkvæmd, leyfisveitingar og ákvarðanir sveitarstjórnar í Borgarbyggð“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. s.m. um að „fram verði látin fara grenndarkynning á rekstri gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu 6, Borgarnesi“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðilinn stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 102/2016, sameinað máli þessu.

Jafnframt er í báðum kærum gerð krafa flýtimeðferð og krafa um stöðvun rekstrar að Egilsgötu 6, Borgarnesi, þar sem heimildir fyrir rekstrarleyfi séu ekki til staðar.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 18. og 24. júlí, 30. ágúst og 2. september 2016.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013, sem kveðinn var upp 24. september 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar um að veita leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna leyfisins hefði verið háð verulegum annmörkum.

Hinn 21. janúar 2016 var endurnýjuð byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum með fresti til athugasemda til 26. febrúar s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að grenndarkynningu lokinni var erindið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júní 2016 og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júlí 2016 var lagt til að grenndarkynna breytta notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Jafnframt var tekið fram að búið væri að grenndarkynna umsókn vegna byggingarleyfis. Var nefnd afgreiðsla samþykkt á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 7. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að hann kannist ekki við að hafa tekið þátt í grenndarkynningu byggingarleyfis vegna Egilsgötu 6, líkt og komi fram í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. júní 2016. Hafi aðeins verið grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar á húsnæði að Egilsgötu og nýtingu þess. Jafnframt hafi formleg afstaða til þeirra athugasemda sem bárust á kynningartíma ekki verið tekin þar sem ekkert í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá umræddum fundi gefi slíkt til kynna. Að auki sé ekkert að finna í gildandi skipulagslögum um að grenndarkynning geti farið fram á byggingarleyfum. Fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt grenndarkynningunni og hafi málsmeðferð ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til meðferðar og hafi hún samþykkt að fela byggingarfulltrúa að annast grenndarkynningu umsóknarinnar í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið samþykkt á lögmætum fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 9. júní 2016 og einnig verið samþykkt að fela byggingarfulltrúa útgáfu byggingarleyfis. Hafi slíkt leyfi þó ekki enn verið gefið út. Málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög á sviði mannvirkja- og skipulagsmála. Hvað varði kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að grenndarkynna rekstrarleyfi gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu sé bent á að útgáfa eða meðferð rekstareyfis sé ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sé forræði slíkra mála alfarið á hendi sýslumannsembætta.

Leyfishafi bendir á að allar heimildir fyrir starfseminni á Egilsgötu 6 liggi fyrir. Aðalskipulag Borgarbyggðar geri ráð fyrir að á svæðinu sé blönduð byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Fyrir liggi samþykkt sveitarstjórnar frá 9. júní um útgáfu byggingarleyfis til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6. Þá sé einnig vísað til svars sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 16. september 2015, þar sem embættið hafi hafnað kröfu kæranda um að rekstrarleyfi Egils Guesthouse yrði afturkallað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingar hússins að Egilsgötu 6. Annars vegar er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi hússins. Hins vegar er kærð sú ákvörðun byggðarráðs að grenndarkynna breytta notkun nefnds húss úr íbúðarhúsi í gistiheimili. Að auki tiltekur kærandi að kærð sé stjórnsýsla skipulags- og byggingarfulltrúans í Borgarbyggð í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013. Þá séu kærð svör lögmanns Borgarbyggðar við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu vegna Egilsgötu 6. Loks krefst kærandi stöðvunar rekstrar í húsinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta notkun þess, útliti eða formi nema með fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Jafnframt skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þegar sótt er um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði og hin leyfisskylda framkvæmd er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu lokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, og byggingarfulltrúa veitt heimild til samþykkis eða synjunar í samræmi við niðurstöðu sveitarstjórnar.

Í málinu liggur fyrir að grenndarkynning fór fram í byrjun árs 2016, að henni lokinni var á fundi  umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar, 6. júní s.á., samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Í málinu liggur hins vegar ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en samkvæmt mannvirkjalögum er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður þeim hluta kærumálsins er lýtur að ákvörðun sveitastjórnar frá 9. júní 2016 um að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vísað frá úrskurðarnefndinni.

Jafnframt gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta afgreiðslu umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar frá 6. s.m. þess efnis að láta fara fram grenndarkynningu á breyttri notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili í húsi á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Líkt og að framan greinir er kveðið á um í mannvirkjalögum að skylt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis. Af umræddri bókun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar verður ekki annað séð en að umrædd grenndarkynning um breytta notkun sé hluti af slíkri málsmeðferð, og eftir atvikum tengd fyrri ákvörðun nefndarinnar frá 6. júní s.á., sem staðfest var af sveitarstjórn 9. s.m. Svo sem áður greinir liggur frekari afgreiðsla byggingarfulltrúa hins vegar ekki fyrir og verður þessum hluta málsins því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni, enda ekki um lokaákvörðun að ræða, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður ekki fjallað frekar um þær kröfur kæranda er lúta að svörum vegna grenndarkynningar enda er þar um að ræða hluta af málsmeðferð sem sætir ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en meðferð málsins er lokið. Aðrar kröfur kæranda lúta að stöðvun á rekstri gistiheimilis að Egilsgötu 6 og forsendum leyfis til þess rekstrar, m.a. afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa til fyrri umsagnar til sýslumannsins á Vesturlandi í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 57/2013. Rekstrarleyfi vegna nefndrar starfsemi eru gefin út af sýslumanninum á Vesturlandi og eru þau ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, heldur eftir atvikum til viðeigandi ráðuneytis. Sama á við um málsmeðferð varðandi kröfur um endurupptöku eða afturköllun slíkra leyfa. Hefur enda kærandi leitað til viðkomandi sýslumanns sem hafnaði því að afturkalla leyfið, m.a. byggt á upplýsingum sem veittar voru af skipulags- og byggingarfulltrúa. Þær upplýsingar um stöðu mála og afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa fela ekki í sér neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. enn á ný 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulega, heldur voru þær liður í nefndri málsmeðferð sýslumanns sem leiðbeindi um kæruheimild til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður öllum kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

136/2016 Brautarholt Kjalarnes

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 1. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 136/2016, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 við Brautarholt.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Fylkir ehf., Dugguvogi 4, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 við Brautarholt. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er gerð sú krafa að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar og réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir B, Brautarholti 1, Reykjavík, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Að auki er gerð sú krafa að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en til vara að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Þar sem kærurnar lúta að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreint kærumál, sem er nr. 138/2016, sameinað kærumáli þessu.

Verður nú tekin afstaða til fram kominna krafna kærenda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Hinn 1. september 2016 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 5 við Brautarholt. Tók deiliskipulagið gildi 19. september 2016 með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Líkt og áður greinir fara kærendur fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, eða réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað. Skírskotar annar kærenda til þess að nýlega hafi verið auglýst tillaga að starfsleyfi fyrir rekstur alifuglabús að Brautarholti 5, en athugasemdarfrestur vegna starfsleyfistillögunnar sé til 22. október 2016. Hafi samþykkt deiliskipulagstillögunnar, staðfesting hennar í borgarráði og auglýsing í Stjórnartíðindum verið forsenda fyrir því að starfsleyfistillagan yrði auglýst að nýju. Megi líta á málsmeðferð starfsleyfistillögunnar og hugsanlega útgáfu starfsleyfis sem framkvæmd í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.
 

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til breyttrar nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa á byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eftir atvikum þarf einnig að koma til útgáfu starfsleyfis í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, eða frestunar réttaráhrifa hennar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa til bráðabirgða.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

118/2016 Linnetsstígur

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 24. ágúst 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir aðkomustíg að Linnetsstíg 9b.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Linnetsstíg 9a, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 24. ágúst 2016 að samþykkja umsókn Hafnarfjarðarbæjar framkvæmdaleyfi fyrir aðkomustíg að Linnetsstíg 9b. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um stöðvun réttaráhrifa ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 15. september 2016.

Málavextir: Kærendur festu kaup á fasteigninni Linnetsstíg 9a með kaupsamningi, dags. 20. apríl 2015. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi frá árinu 1916 er lóðin sem húsið stendur á erfðafestulóð og er stærð hennar 156 m2. Er lóðin 13 m löng til norðausturs meðfram Linnetsstíg og að norðaustan er lóðin 12 m til norðvesturs. Myndar lóðin því ferhyrning sem er 12×13 m. Hið kærða framkvæmdaleyfi er vegna fyrirhugaðs aðkomustígs frá Linnetsstíg að lóðinni Linnetsstíg 9b, meðfram lóð kærenda.

Í september 2015 hófu starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar að mæla lóð kærenda og var þeim þá tjáð að fyrirhugað væri að leggja aðkomustíg meðfram lóðinni. Kærendur mótmæltu þessum áformum sveitarfélagsins. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 11. nóvember s.á. var lagt fram bréf kærenda og bókað að umræddur aðkomustígur væri á bæjarlandi og að samkvæmt staðfestu deiliskipulagi væri gert ráð fyrir nýju húsi sem hindraði aðkomuleið að Linnetsstíg 9b sem kærendur hafi gert tillögu um. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. desember s.á. var erindi kærenda tekið fyrir og tók ráðið þar undir svör skipulagsfulltrúa, auk þess að árétta að aðkoma að Linnetsstíg 9b væri samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Hinn 24. ágúst 2016 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi framkvæmdaleyfi fyrir aðkomustíg að Linnetsstíg 9b, meðfram lóð kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hins kærða leyfis á því að málsmeðferð þess hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þrátt fyrir áður gefin svör um að framkvæmdin ætti stoð í deiliskipulagi hafi svo ekki reynst vera og hafi bæjaryfirvöld áttað sig á því við útgáfu leyfisins. Hafi sveitarfélaginu því borið að láta fara fram grenndarkynningu áður en framkvæmdaleyfið hafi verið samþykkt, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Fyrir liggi að grenndarkynning hafi ekki farið fram og hafi kærendur því ekki átt kost á að gæta hagsmuna sinna áður en leyfið væri veitt. Samkvæmt umsókn um hið kærða framkvæmdaleyfi virðist lóð kærenda samkvæmt þinglýstum erfðafestusamningi vera afmörkuð með rauðum línum. Af því sé ljóst að umræddur aðkomustígur, sem sé 1,5 m á breidd, sé að hluta innan lóðarmarka kærenda samkvæmt fyrrgreindum samningi.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. desember 2015 hafi verið tekið fyrir erindi kærenda, þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum á aðkomustíg við lóðarmörk þeirra hafi verið mótmælt. Niðurstaða fundarins hafi verið sú að aðkoma að Linnetsstíg 9b væri samkvæmt gildandi deiliskipulagi og tekið hafi verið undir svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum kærenda.

Við gerð gildandi deiliskipulags hafi verið kynnt aðkomuræma samkvæmt mæliblaði, merkt „mæliblað í vinnslu“, og hafi engar athugasemdir borist frá þáverandi eigendum Linnetsstígs 9a. Með vísan til þeirra gagna sem send hafi verið til úrskurðarnefndarinnar, og þess sem að framan sé getið, sé það skýrt að framkvæmdaleyfi til endurbóta og lagfæringa á aðkomustíg frá Linnetsstíg að Linnetsstíg 9b taki mið af því að umrædd lóðarspilda, sem sé í eigu Hafnarfjarðarbæjar, sé 0,98 m breið við bílastæði að Linnetsstíg, en 1,42 m breið þegar komi að lóðarmörkum Linnetsstígs 9b. Á þessum forsendum hafi stígurinn verið afmarkaður og framkvæmdaleyfið veitt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 24. ágúst 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir aðkomustíg að Linnetsstíg 9b, meðfram lóð kærenda, Linnetsstíg 9a.

Hinn 22. ágúst 2016 sótti framkvæmda- og rekstrardeild Hafnarfjarðar um framkvæmdaleyfi til að gera aðkomustíg að Linnetsstíg 9b. Meðfylgjandi umsókninni var hluti mæliblaðs sem sýndi 0,98-1,42 m breiða ræmu af bæjarlandi þar sem fyrirhugaður aðkomustígur á að vera. Umsóknin var samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 24. s.m. Í gögnum sveitarfélagsins er vísað til nýs deiliskipulags fyrir svæði sem heitir Miðbær, hraun vestur, sem samþykkt var í bæjarstjórn 2. september 2015, og að í samræmi við það deiliskipulag liggi fyrir mæliblöð, m.a. af umræddu svæði. Samkvæmt því mæliblaði er landræma í eigu sveitarfélagsins meðfram norðaustur mörkum lóðar kærenda að lóð nr. 9b. Hins vegar verður hvorki séð í gögnum málsins né í vefútgáfu Stjórnartíðinda að deiliskipulagið hafi verið birt með formlegum hætti eftir samþykkt bæjarstjórnar. Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að sé auglýsing um samþykkt deiliskipulags ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti tillögu til deiliskipulagsins lauk teljist það ógilt. Athugasemdafresti umræddrar deiliskipulagstillögu lauk 17. ágúst 2015. Verður því að telja umrætt deiliskipulag ógilt og þar af leiðandi hafi ekki verið hægt að byggja útgáfu framkvæmdaleyfis á því.

Það deiliskipulag sem í gildi er fyrir umrætt svæði er deiliskipulagið Hafnarfjörður Miðbær, frá árinu 1983. Í því deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir aðkomu meðfram lóðinni Linnetsstígs 9a. Hefði því þurft að láta fara fram grenndarkynningu á framkvæmdaleyfinu fyrir útgáfu þess, í samræmi við 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Það var þó ekki gert.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir aðkomustíg að lóðinni Linnetsstíg 9b, meðfram lóðarmörkum kærenda.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

21/2015 Lækjartún Hólmavík

Með
Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 21/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hólmavík að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir Lækjartún 23 og ákvörðun sveitarstjórnar sveitarfélagsins að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Á, Lækjartúni 23, Hólmavík, skiptingu lóðarinnar Lækjartúns 23 með eignaskiptayfirlýsingu og að fjarlægð milli tveggja húsa á lóðinni sé ófullnægjandi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykki byggingarleyfis frá 11. mars 2008, sem staðfest var af sveitarstjórn 18. s.m. fyrir vinnustofu á nefndri lóð sem síðar var breytt í íbúðarhús með leyfi byggingarfulltrúa, dags. 20. október 2009, staðfest af sveitarstjórn 3. nóvember s.á. og ákvörðun byggingarfulltrúa að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem þinglýst var 23. nóvember 2009.

Gögn málsins bárust frá Strandabyggð 13. maí 2015.

Málsatvik og rök: Með kaupsamningi dagsettum 23. júlí 2014 keypti eiginmaður kæranda einbýlishús á lóðinni Lækjartúni 23, Hólmavík, en á lóðinni standa tvö einbýlishús. Kærandi situr nú í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Hinn 27. nóvember 2014 sendi kærandi tölvupóst til sveitarstjóra Strandabyggðar og sýslumannsins á Hólmavík með fyrirspurn um hvort fyrrnefnd kaup á einbýlishúsinu hafi mögulega verið ólögleg. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað og sendi þá lögfræðingur kæranda, hinn 16. janúar 2015, fyrirspurn um eignaskiptayfirlýsingu lóðarinnar og hvort staðsetning húsanna á lóðinni hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum. Þeirri fyrirspurn var svarað af byggingarfulltrúa með bréfi dagsettu 6. febrúar s.á. Þar kom fram að 19. september 2007 hafi byggingar-, umhverfis- og skipulagsnefnd tekið umsókn um byggingarleyfi fyrir vinnustofu við Lækjartún 23 og umsóknin samþykkt á fundi sömu nefndar 11. mars 2008. Á fundi sömu nefndar 20. október 2009 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um að breyta vinnustofunni í íbúð, nefndin samþykkti umsóknina og staðfesti  sveitarstjórn þá afgreiðslu 3. nóvember 2009.

Kærandi telur það ekki geta staðist að lóð, sem á standi tvö einbýlishús, sé skipt með eignaskiptayfirlýsingu samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 3. gr. laganna eigi þau fyrst og fremst við um sambyggð og/eða samtengd hús. Það gangi þvert á aðalmarkmið lagagreinarinnar að telja að tengd hús geti talist eitt hús í skilningi laganna. Það hljóti því að teljast afar langt gengið að lögum um fjöleignarhús sé beitt um einbýlishús.

Þá sé bil milli húsanna á umræddri lóð einungis 3,5 m. og leiki vafi á því hvort bilið sé nægjanlegt með tilliti til brunavarna. Byggingarfulltrúi hafi upplýst að veggur nýrra hússins, sem snúi að því eldra, sé ekki merktur sem eldvarnarveggur á teikningu.

Sveitarfélagið gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn og kröfugerð kæranda sé svo óljós að ekki sé hægt að taka afstöðu til krafna hennar. Þá beinist kröfur kæranda að ákvörðunum sem falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Af hálfu sameiganda lóðarinnar Lækjartún 23 kemur fram  að fasteignasala hafi alfarið séð um söluna á húsi kæranda og hún hafi farið fram á löglegan og eðlilegan hátt. Farið hafi verið eftir öllum samþykktum sveitarfélagsins og kaupandi hafi kynnt sér lóðarskiptingu m.a. hjá byggingarfulltrúa Strandabyggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Strandabyggðar að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu vegna lóðarinnar Lækjartúns 23 á Hólmavík og ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús.
 
Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Byggingarleyfi yngra hússins undir vinnustofu á umræddri lóð var samþykkt 11. mars 2008, og 20. október 2009 var veitt leyfi til þess að breyta því húsi í íbúð. Í kjölfar þess staðfesti byggingarfulltrúi eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem var undirrituð af sameigendum lóðarinnar 5. nóvember 2009 og er staðfesting byggingarfulltrúa skráð á eignaskiptayfirlýsinguna. Hún var síðan móttekin til þinglýsingar 8. nóvember 2009 og þinglýst 23. s.m.. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. apríl 2015 eða sex til sjö árum eftir að umdeildar ákvarðanir voru teknar. Var kærufrestur vegna þeirra ákvarðana löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson
 

96/2016 Kröflulína 4 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 til handa Landsneti hf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 19. ágúst 2016, voru stöðvaðar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar að kröfu kæranda, að því er tók til framkvæmda innan skipulagssvæðis deiliskipulags Þeistareykjavirkjunar, Þingeyjarsveit, á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 14. júlí og 16. ágúst 2016 og frekari gögn síðar.

Málavextir: Landsnet fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Skútustaðahreppur, Norðurþing og Þingeyjarsveit hafa veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nefndra lína sem öll hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Svo sem fram hefur komið kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða í máli þessu 19. ágúst 2016 og stöðvaði framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 innan Þingeyjarsveitar. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum sama dag í máli nr. 96/2016 voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 stöðvaðar að hluta innan sama sveitarfélags. Áður hafði úrskurðarnefndin kveðið upp bráðabirgðaúrskurði í málum nr. 46/2016 og nr. 54/2016 og er meðferð þeirra mála lokið. Með úrskurði í máli nr. 46/2016, uppkveðnum 10. október 2016, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, en með úrskurði í máli nr. 54/2016, uppkveðnum 17. s.m., var hafnað kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Norðurþings um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1. Vegna eðlis og umfangs nefndra mála hefur úrskurðarnefndin ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til sameiningar þeirra.

Hinar kærðu leyfisveitingar eiga sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitarstjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á. Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 var samþykkt í sveitarstjórn 16. nóvember 2010 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2011. Breyting á því tók gildi 21. febrúar 2014, einnig með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda, og deiliskipulag fyrir 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Þá var Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 samþykkt í sveitarstjórn 24. febrúar 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí s.á. Loks var deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 8. mars 2012 og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína, 220 kV, frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrirhugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats framangreindra framkvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig, sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdanna „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ á umhverfið er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum álitsins og eru þær dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á Náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðir um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Þá telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Skipulagsstofnun telur ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggja m.a. á því að landið er lítt snortið og fólk upplifir fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur verða samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og telur Skipulagsstofnun að koma línanna muni breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefur. Því telur Skipulags-stofnun að ferðamenn sem vilja m.a. njóta víðernisins þar verði fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Skipulagsstofnun telur ljóst að á tveimur línuleiðum sem hvor um sig eru um 60 km langar þarf að leggja 95 km langt slóðakerfi og leggja plön og háspennumöstur sem verða að miklu leyti á grónu landi. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar verði umfangsmiklar og muni hafa talsvert neikvæð áhrif á gróður. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra háspennulína á fuglalíf verði helst vegna áflugs rjúpna á línur á þeim svæðum sem rjúpan er þéttust. Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: 1. Landsnet þarf að tryggja að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæði sem nú er eitt virkasta rofsvæði landsins. 2. Ef votlendi verður raskað þarf Landsnet að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast. 3. Landsnet þarf að tryggja að sjaldgæfum plöntum við Þeistareyki verði hlíft eins og kostur er og að staðsetning háspennumastra og lega slóða taki mið af staðsetningu þeirra og einnig umferð meðan á framkvæmdum stendur. Þá þarf Landsnet að tryggja að framkvæmdir trufli ekki varp fálka á svæðinu með því að halda framkvæmdum utan varptíma. 4. Landsnet þarf í samráði við Fornleifavernd ríkisins að tryggja að ekki verði raskað fimm fornleifum í landi Þeistareykja og átta fornleifum nálægt Bakka, sem lýst er í matsskýrslu. 5. Landsnet þarf að leggja fram áætlun um rannsóknir á umfangi áflugs fugla á raflínur og að niðurstöður rannsóknanna verði bornar undir Umhverfisstofnun.“

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 28. apríl 2016 var samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins var jafnframt falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sem hann og gerði 1. júní s.á. Á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. var framangreind ákvörðun frá 28. apríl afturkölluð. Var bókað að fyrir lægi álit lögmanns um að ákvörðunin gæti verið ógildanleg vegna þess galla á málsmeðferð að ekki hefði verið gerð sérstök bókun um umsóknina um framkvæmdaleyfið í skipulags- og umhverfisnefnd. Var jafnframt lagt fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu.

Fundur var haldinn í skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar 9. júní 2016 og var m.a. bókað að sótt væri um framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni Kröflulínu 4 á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin væri matsskyld skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Gert væri ráð fyrir framkvæmdinni í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmda-leyfis væri tekin saman f.h. Landsnets og væri vísað til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni, þ.m.t. 6. kafla, þar sem fjallað væri um mótvægisaðgerðir og skilyrði sem Skipulagsstofnun teldi að setja þyrfti fyrir leyfisveitingunni, sbr. mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Lýsingin, þ.m.t. hvernig mæta skyldi skilyrðum Skipulagsstofnunar, væri þannig hluti umsóknarinnar.

Loks var eftirfarandi bókað: „Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Einnig hefur komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats, álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum, en framkvæmd samkvæmt fyrirliggjandi umsókn er ekki gerð í tengslum við álver á Bakka. Nefndin tekur undir álit Skipulagsstofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og vísar sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi, sbr. t.d. kafla 4.1 um framtíðarsýn og meginmarkmið, sem rökstuðnings fyrir þeirri afstöðu. Við samanburð á framkvæmd sem fyrirliggjandi umsókn lýsir og matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi, er sýnt að framkvæmdin varðar einungis hluta þeirrar framkvæmdar, þ.e. Kröflulínu 4 sem liggur frá Kröflu að Þeistareykjum. Framkvæmdin er hluti umhverfismetinnar framkvæmdar, ekki eðlislega frábrugðinn heildarframkvæmdinni (matið varðar Kröflulínu 4 og 5) og ekki önnur framkvæmd en umhverfismat varðar. Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sérstaks mats á framkvæmdinni;  Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi og sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka (þó ekki sé fyrirhugað að reisa álver á Bakka), Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Nefndin áréttar að ákvæði 13. gr. skipulagslaga, eins og greinin á við um framkvæmdaleyfisumsóknir vegna framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og 14. gr. á einnig við um, séu uppfyllt, m.a. varðandi náttúruverndarlög nr. 60/2013 og þar sem við fyrri málsmeðferð hefur verið aflað umsagna sem 2. mgr. 68. gr. laganna vísar til, þ.e. við mat á umhverfisáhrifum og samþykkt deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar, skipulagsnr. 11077, staðfest 8.3.2012. Fyrri afgreiðsla Þingeyjarsveitar á deiliskipulaginu, sem tekur til Þeistareykja sem eru á náttúruminjaskrá, og afstaða skipulags og umhverfisnefndar til álits Skipulagsstofnunar, felur í sér að sérstök afstaða hefur verið tekin við leyfisveitinguna í skilningi 5. mgr. 61. gr. náttúrverndarlaga.  Þá eru ekki forsendur til grenndarkynningar framkvæmdarinnar, sbr. 44. gr. skipulagslaga. Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022, sbr. einnig svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Kröflulínu 4 verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.“

Á fundi sínum 13. júní 2016 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Tekið var fram að skipulags- og umhverfisnefnd hefði fjallað um fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsókn og að í bókun nefndarinnar kæmi fram rökstudd afstaða til umsóknarinnar. Þá staðfesti sveitarstjórn bókun skipulags- og umhverfis-nefndar um málið í heild og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi, sem hann og gerði 14. júní 2016. Auglýsing þess efnis var birt í Morgunblaðinu 15. s.m., en hún mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu. Framkvæmdaleyfið var kært til úrskurðar-nefndarinnar 12. júlí 2016, svo sem að framan greinir.

Í framkvæmdaleyfinu eru tiltekin gögn vegna leyfisumsóknar og skipulagslegar forsendur leyfisveitingar. Þar á meðal er vísað til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum vegna fram-kvæmdanna sem og mats á umhverfisáhrifum háspennulína. Tiltekið er að útgáfa leyfisins sé háð því að skilyrði Skipulagsstofnunar, sem fram komi í áliti hennar frá 24. nóvember 2010, séu uppfyllt. Auk eftirlits skipulags- og byggingarfulltrúa muni Umhverfisstofnun hafa sérstakt eftirlit með framkvæmdum.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Stjórnsýslulög hafi verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdin sé á svæði á náttúruminjaskrá, en jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé á þeirri skrá vegna fjölbreyttra jarðhitamyndana, gufu- og leirhvera, útfellinga í norðurhlíðum Bæjarfjalls og við Bóndhól. Á hverasvæðinu sé jafnframt að finna sérstæðar jarðhitaplöntur. Aðeins á einum stað á landinu séu fleiri brennisteinshverir en þar. Fyrirhuguð línuleið liggi um vesturjaðar þess svæðis sem sé á náttúruminjaskrá og hluti áhrifasvæðis línunnar vestan Þeistareykja fari inn á suðvesturhorn svæðis sem sé á náttúruminjaskrá. Að auki muni hluti línanna liggja yfir hverfisverndað svæði á Þeistareykjum og í Þeistareykjahrauni, sem njóti einnig sérstakrar verndar sem eldhraun skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðin séu lítt röskuð og hafi mjög hátt verndargildi samkvæmt mati á umhverfis-áhrifum frá 2010.

Áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum á svæði á náttúruminjaskrá skuli, skv. 37. gr. náttúruverndarlaga, leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1. Hafi því sveitarstjórn borið að leita umsagna framangreindra aðila.

Í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga komi fram að ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega, fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2010 hafi Umhverfisstofnun veitt afar neikvæða umsögn, en umsagna hafi ekki verið leitað áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið veitt. Sé um verulegan annmarka á málsmeðferð sveitarstjórnar að ræða þar sem hún hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Sveitarstjórn hafi einnig borið að gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um svæði er njóti sérstakrar verndar með því að líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. náttúruverndarlaga og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Ljóst virðist af öllum gögnum máls að framkvæmdin muni hafa mikil og varanleg umhverfisáhrif, ekki síst við Þeistareyki og í Þeistareykjahrauni, og hafi sveitarstjórninni borið, með vísan til varúðarreglu umhverfisréttarins, að láta náttúruna njóta vafans.

Fram komi í leyfisbeiðni að undirstöður undir hvert mastur verði 100-200 m². Sé því um töluvert svæði að ræða, auk þess svæðis sem fari undir línuvegi. Allt þetta rask sé svo mikið í tilfelli Þeistareykjahrauns og Þeistareykja að sveitarstjórninni hefði borið að rannsaka málið ítarlega og sjálfstætt áður en hún tók ákvörðun, m.a. með könnun á því hvort ekki væri hægt að flytja þá orku sem um ræði með öðrum og betri aðferðum með tilliti til umhverfis, þar með talið að skoða til hlítar þann kost að leggja jarðstreng í stað loftlína, bæði með tilliti til áhrifa á umhverfi og kostnaðar. Þá komi fram í leyfisumsókn að fyrirhugað sé að leggja línuvegi en engar upplýsingar sé að finna þar um heildarvegalengd þeirra. Einnig komi fram að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum.

Í 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé áskilið að við umfjöllun umsóknar um framkvæmda-leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynni sveitarstjórn sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanni hvort hún sé sú sem lýst sé. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skuli sveitarstjórn, þegar hún hafi gengið úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu, taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Við töku ákvörðunarinnar hafi hins vegar ekki farið fram nein raunveruleg athugun á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og farið hefði í gegnum mat á umhverfisáhrifum, hvað þá að rökstudd afstaða hafi verið tekin til þessa álitaefnis.

Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands um það að ekki skipti máli þótt framkvæmd sú sem sótt sé um sé minni að umfangi en sú sem metin hafi verið, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2005, mál nr. 20/2005. Túlka megi niðurstöðu dómsins þannig að sé búið að meta áhrif framkvæmdar á umhverfið sem síðan breytist áður en nokkurt leyfi hafi verið gefið út beri að framkvæma nýtt mat þótt margt megi nota úr eldra mati. Það mat sem fylgt hafi leyfisumsókn, sem og álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember s.á., varði sameiginlegt mat á framkvæmdum fleiri aðila, Alcoa og Landsvirkjunar. Hætt hafi verið við álver á Bakka árið 2012 en ekki verði á neinn hátt séð að sveitarstjórnin hafi litið til þessa við þá könnun er henni hafi borið að gera í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Hljóti framangreindar breytingar á fyrirætluðum framkvæmdum þó að hafa gefið sérstakt tilefni til sjálfstæðrar og vandaðrar könnunar á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og mat á umhverfisáhrifum frá 2010 hafi lotið að. Af umræddri matsskýrslu, er sveitarstjórn hafi vísað til í ákvörðun sinni, megi glöggt ráða að um aðra framkvæmd sé að ræða en þá sem Landsnet hafi sótt um til sveitarstjórnar Norðurþings. Nægi í raun að lesa samantekt á fyrstu fimm síðum matsskýrslunnar til að sjá að svo sé. Þannig bendi ýmislegt til þess að þeim mannvirkjum sem framkvæmdaraðili hafi óskað leyfis fyrir sé ætlað annað hlutverk og séu annars eðlis en þær framkvæmdir er lagðar hafi verið til grundvallar við gerð áðurnefnds mats á umhverfisáhrifum frá 2010. Minni framkvæmd geti nú, sex árum eftir mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrri, haft allt önnur umhverfisáhrif vegna þess að önnur tækni sé nú möguleg við þá raforkuflutninga sem um ræði. Þannig séu jarðstrengir nú mögulegur og raunhæfur valkostur fyrir þann raforkuflutning sem ráðgerður sé frá Kröflu og Þeistareykjum til Bakka. Séu þeir því valkostur í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Kærandi bendi á að ekki sé hægt að líta svo á að hin kærða leyfisveiting sé framhald og lokaáfangi málsmeðferðarinnar sem fram hafi farið á árunum 2008 til og með 2010, í skilningi laga nr. 106/2000. Vísa megi til dóms Evrópudómstólsins í máli C-50/09 í samningsbrotamáli gegn Írlandi um þá túlkun tilskipunar 85/337/EBE, nú 2011/92/ESB, sem íslensku lögin séu innleiðing á, að málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um leyfi. Þannig sé um málsmeðferð að ræða sem hefjist með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ljúki þegar leyfisveitandi taki ákvörðun um að veita eða hafna leyfi. Ef þetta sé borið saman við málsmeðferð þessa máls ætti sú framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um árið 2008 að hafa lokið með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem kært hafi verið.

Af framangreindu að dæma hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar haft ærna ástæðu til að kanna það alveg sérstaklega hvort hér væri í raun um sömu framkvæmdina að ræða. Auk þess hefði sveitarstjórn mátt vera kunnugt um að kærandi hafi lagt fram kröfu til Skipulagsstofnunar um að ákvörðun yrði tekin um nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur frá Kröflu að Bakka, með vísan til þess að um nýja framkvæmd væri að ræða. Kröfunni hefði hinsvegar verið vísað frá þar sem stofnunin hefði ekki talið kæranda eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í leyfisumsókn sé sagt að heildarefnisþörf vegna framkvæmdarinnar Þeistareykjalínu 1 sé 75.000 m³. Sé það til viðbótar 60.000 m³ fyrir Kröflulínu 4, eftir því sem næst verði komist. Segi í umsókn að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum og sé vísað til korts í viðauka, sem ekki sé sérstaklega vísað til í hinni kærðu ákvörðun. Ekkert mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram vegna þeirrar efnistöku sem fyrirhuguð sé vegna framkvæmdarinnar. Þó sé um að ræða nýjar námur og afar viðkvæmt svæði með hátt verndargildi. Verði því að ætla að umrætt magn efnistöku á þeim stað sem hér um ræði hefði þurft að tilkynna til Skipulagsstofnunar og óska ákvörðunar hennar um matsskyldu. Það hafi ekki verið gert.

Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra. Eitt elsta fordæmi um þetta hafi Evrópudómstólinn sett með dómi sínum 24. október 1996 í máli C-72/95. Síðari dóma-framkvæmd Evrópudómstólsins á sviðinu sé einnig afdráttarlaus um að hafna beri öllum tilraunum til að þrengja gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn Norðurþings borið við undirbúning ákvörðunar sinnar að taka mið af því markmiði umhverfislöggjafar og skýringarkostum hennar.

Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til samþykkts aðalskipulags Þingeyjarsveitar. Hinsvegar hafi ekki, áður en ákvörðunin hafi verið tekin, verið kannað hvort framkvæmdin sem sótt hafi verið um væri í samræmi við lögmæta og umhverfismetna framkvæmdaáætlun leyfishafa, þá einkum áætlun sem metin hefði verið 2014 eða 2015, kerfisáætlun 2014-2025 eða 2015-2026, en engar áætlanir fyrir þann tíma hefðu verið umhverfismetnar í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006. Þessi málsmeðferð stangist á við tilgang og meginmarkmið þeirra laga og laga nr. 106/2000 um að mat fari fram sem fyrst í ferlinu. Þá stangist þetta á við dómafordæmi Evrópudómstólsins, m.a. dóm í máli nr. C-295/10, um að mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdar geti ekki komið í stað umhverfismats áætlana og að síðargreinda matið skuli hafa farið fram í síðasta lagi samhliða mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sjálfrar.

Umhverfismat áætlunar um raflínur, þ.e. kerfisáætlunar, hafi ekki í neinum skilningi farið fram áður en meint mat á umhverfisáhrifum vegna þeirrar framkvæmdar er hin kærða ákvörðun hafi heimilað hafi farið fram. Sömu sjónarmið komi fram í áfrýjuðum dómi héraðsdóms Reykjaness frá 22. júlí 2016 í máli landeigenda í Vogum gegn leyfishafa í máli nr. E-1121/2015. Þá sé bent á að íslenska ríkið hafi ekki innleitt ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB um heimild til samþættingar umhverfismats áætlana og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmdar og geti því ekki borið fyrir sig slíka heimild gagnvart borgurunum.

Leyfishafi telji að máli skipti að stjórnvöld hafi gert samning um ívilnanir til fyrirtækisins PCC vegna skatta og gjalda. Kærandi komi ekki auga á hvernig slík samningagerð eða önnur stefnumörkun hafi áhrif á skyldur sveitarfélagsins til þess að fara að lögum. Fyrir liggi opinberlega að rafmagn til PCC megi flytja með ýmsum hætti og hafi Alþingi m.a. samþykkt með þingsályktun stefnu um lagningu raflína sem styðjast beri við í því efni. Þar sé einmitt talað um að meta skuli jarðstrengjakost. Þá liggi fyrir að áætlanir 2010 hafi verið um tífalda raforkuflutninga miðað við það sem nú þurfi fyrirsjáanlega, svo vissulega séu önnur sjónarmið, m.a. lagaleg, sem taka þurfi til skoðunar en hafi verið fyrir sex árum.

Þingeyjarsveit sé eigandi jarðarinnar Þeistareykja. Á jörðinni vinni Landsvirkjun nú að smíði svokallaðrar Þeistareykjavirkjunar, jarðvarmavirkjunar, sem samkvæmt leyfi Orkustofnunar megi vera allt að 100 MW. Hin kærða leyfisveiting sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sé vegna framkvæmda innan jarðarinnar Þeistareykja. Vegna þessa leiki verulegur vafi á um hæfi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. m.a. tilskipun 2014/52/ESB, sem sé bindandi fyrir íslenska ríkið, og reglur stjórnsýslulaga. Þannig hafi sveitarfélagið beina fjárhagslega hagsmuni annars vegar vegna þess að ætla megi að það hafi tekjur af nýtingu Landsvirkjunar á jarðhita í landi sem sé þinglýst eign sveitarfélagsins en ekki síður vegna þess að leyfishafi í máli þessu hafi, samkvæmt því sem fram hafi komið undir rekstri kærumálsins, þegar greitt landeigendum fyrir afnot lands vegna loftlínanna. Hljóti þessir fjárhagslegu og verulegu hagsmunir sveitarfélagsins sem landeiganda að varpa talsverðum vafa á hlutleysi þess við ákvarðanir er tengist þeim framkvæmdum sem um ræði.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Þingeyjarsveit krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins verði hafnað. Á vegum sveitarfélagsins og stjórnvalda á sviði umhverfis- og skipulagsmála hafi verið fjallað um forsendur og skilyrði að baki fram-kvæmdinni Þeistareykjalínu 1 með ýmsum hætti á undanförnum 20 árum. Við þá umfjöllun hafi verndargildi einstakra svæða innan sveitarfélagsins verið til umfjöllunar og gætt að öðrum heimildum eins og við hafi átt.

Útgáfa framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda hvíli á 13. og 14. gr. skipulagsslaga nr. 123/2010 og skoðist ákvæðin sem sérákvæði. Þingeyjarsveit vísi til 13. gr. sem fjalli um framkvæmdaleyfi almennt. Hluti 13. gr., eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 109/2015, skoðist sem yngri lög gagnvart náttúruverndarlögum nr. 60/2013.

Kærandi vísi til þess að ákvæði náttúruverndarlaga hafi verið brotin. Óljóst sé að lögin hafi þá þýðingu í málinu vegna framkvæmdaleyfis sem kærandi byggi á. Í 91. gr. laganna sé fjallað um ágreining um framkvæmd þeirra. Þar sé gert ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir Umhverfisstofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að aðrar ákvarðanir skuli kærðar til ráðherra, sem fari með yfirstjórn náttúruverndarmála skv. 13. gr. laganna. Í máli því sem nú sé til meðferðar falli það utan heimilda úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fjalla um málsástæður kæranda sem varði framkvæmd náttúruverndarlaga.

Kærandi vísi einnig til 13. gr. skipulagslaga, sbr. lög nr. 109/2015. Breytingarnar séu hluti af lagabreytingum sem gerðar hafi verið samhliða breytingum á náttúruverndarlögum. Þar segi að ef óvissa sé um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar, sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar séu á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga, skuli umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn sé heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þyki nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljist alvarleg eða óafturkræf áhrif skuli taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. laga um náttúruvernd.

Ákvæði 13. gr. skipulagslaga sé sérregla um framkvæmdaleyfi sem gangi framar eldri lagaákvæðum náttúruverndarlaga, sem feli í sér óljósar kröfur um frekara umsagnarferli. Við umfjöllun Þingeyjarsveitar um umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki verið til staðar óvissa um framkvæmdina. Áhrif framkvæmdarinnar hafi verið vel þekkt eftir mat á umhverfisáhrifum. Þess skuli einnig getið að umsagnir fagstofnana um mögulega lagnaleið hafi farið fram a.m.k. fjórum sinnum. Fyrst hafi verið framkvæmt mat við gerð svæðisskipulags fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum á árinu 2007, í annað sinn við gerð Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, síðan við málsmeðferð deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar og loks við mat á umhverfisáhrifum. Þá sé framkvæmdin hluti af öðrum áætlunum sem viðkomandi stofnanir hafi veitt umsagnir um, t.d. kerfisáætlun Landsnets. Það sé mistúlkun á lögum að telja að sömu aðilarnir ættu að veita umsagnir í fimmta eða sjötta skiptið.

Málsástæður kæranda um að ekki hafi verið fylgt ákvæðum náttúruverndarlaga standist ekki. Þeistareykir séu á náttúruminjaskrá og um svæði á C-hluta náttúruminjaskrár gildi 37. gr. náttúruverndarlaga, sbr. m.a. síðari hluti 3. mgr. þar sem fram komi að áður en leyfi sé veitt skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skuli gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr.

Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 hafi verið staðfest 20. júní 2011. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar skilgreind. Í aðal-skipulaginu sé vísað sérstaklega til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Þá hafi verið samþykkt deiliskipulag vegna Þeistareykjavirkjunar, er birt hafi verið í B-deild Stjórnar-tíðinda 27. apríl 2012. Deiliskipulagið taki til skipulagssvæðis umhverfis Þeistareykjavirkjun og sé þar gerð grein fyrir Þeistareykjalínu 1 og legu hennar, að því marki sem hún liggi innan deiliskipulagssvæðisins, sem sé 76,5 km² að stærð. Að því marki sem Þeistareykjalína 1 liggi innan Þingeyjarsveitar á hverfisverndarsvæði sé sá hluti innan nefnds deiliskipulagssvæðis.

Athugasemdir kæranda feli að verulegu leyti í sér upptalningu á upplýsingum um stöðu Þeistareykja, og annarra svæða sem kærandi vísi til, gagnvart náttúruverndarlögum og verndargildi þeirra. Að verulegu leyti hafi þær upplýsingar og greining á þeim einmitt orðið til í undanfarandi málsmeðferð vegna svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, við gerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, deiliskipulags fyrir Þeistareykjasvæði og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmda á svæðinu, auk rannsókna tengdum nýtingu og mannvirkjagerð.

Ekki hafi verið óskað eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við meðferð sveitarfélagsins á umsókn um hið kærða leyfi. Þá hafi ekki heldur verið óskað eftir slíkum umsögnum við gerð aðalskipulags eða deiliskipulags. Á það sé bent að svæði við Þeistareyki nr. 533 á náttúruminjaskrá sjáist m.a. á skipulagsuppdrætti deiliskipulags við Þeistareyki, en umsótt framkvæmd feli ekki í sér framkvæmdir innan þess svæðis. Sé einnig vísað til myndar 3.4. í greinargerð skipulagsins og umsagnar Umhverfisstofnunar sem fylgi greinargerð skipulagsins, en þar komi fram að borsvæði sé á náttúruminjasvæðinu. Borsvæðið tengist hins vegar ekki framkvæmd Landsnets. Þá sé bent á umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

Kærandi byggi á því að 14. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við ákvörðun Þingeyjar-sveitar en einkum hafi þar vantað upp á rannsókn sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með umsókn Landsnets hafi fylgt ítarleg lýsing framkvæmdar en þar komi m.a. fram að um sé að ræða eina háspennulínu í stað tveggja, sbr. mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2010. Ekki sé með nokkrum hætti um að ræða eðlismun á framkvæmdum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, þar sem meginrök fyrir niðurstöðu hafi hvílt á því að nýr framkvæmdaraðili hafi að einhverju leyti ætlað að nota aðra tækni við framleiðslu en sá er áður hafði unnið að mati á umhverfisáhrifum vegna umfangsmeiri framleiðslu.

Með því að staðfesta tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 9. júní 2016 á fundi sínum 13. s.m. hafi sveitarstjórn tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Það hafi hún gert m.a. með bókun sinni um að framkvæmd félli að áliti stofnunarinnar og að fyrir lægi að ekki væri fyrirhugað að reisa álver á Bakka. Bókunin hafi vísað til þess að framkvæmdin, eins og henni hafi verið lýst í fyrirliggjandi umsókn leyfishafa, teldist falla undir þá framkvæmd sem mat á umhverfisáhrifum hafi varðað og lagt hafi verið til að framkvæmdaleyfi yrði veitt. Sveitarfélagið geti ekki fallist á þau rök kæranda að það hafi kallað á frekari umfjöllun, hvað þá að ástæða hafi verið til að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi, að leyfisumsóknin lýsi umfangsminni framkvæmd en matið hafi tekið til. Slík niðurstaða væri í hæsta máta órökrétt.

Það sé Skipulagsstofnunar að endurskoða matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000, en ekki sveitarfélags sem veiti framkvæmdaleyfi. Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi veitt álit vegna mats á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Þá hafi kærandi krafist endurskoðunar matsins, sbr. ákvarðanir um endurskoðun umhverfismats dags. 31. ágúst 2015 og 8. september s.á. Skipulagsstofnun hafi ekki séð ástæðu til að endurskoða matsskýrslu.

Vísað sé til þess í kæru að deiliskipulag fyrir framkvæmdinni hafi ekki legið fyrir, andstætt ákvæðum skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Þingeyjarsveit árétti að náttúruverndarlög fjalli ekki um kröfur til gerðar deiliskipulags. Um helmingur framkvæmdarinnar sé þó innan deiliskipulagðs svæðis. Í samræmi við 5. mgr. 13. skipulagslaga sé ekki fortakslaus skylda um að deiliskipulag liggi fyrir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá sé ekki fortakslaus skylda til þess að grenndarkynning fari fram, enda sé gerð grein fyrir framkvæmd í aðalskipulagi og ítarlega fjallað um hana þar.

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt kröfur rannsóknarreglu við útgáfu framkvæmdaleyfis. Umfjöllun um framkvæmdina hafi verið inni á borði skipulagsnefndar með ýmsum hætti á undanförnum árum, m.a. við samþykkt aðalskipulags Þingeyjarsveitar á árinu 2011 og á kynningarfundum áður en framkvæmdaleyfisumsókn hafi komið til með-ferðar. Með umsókn leyfishafa fylgi lýsing framkvæmdarinnar. Þingeyjarsveit hafi tekið rökstudda afstöðu til málsins með þeim hætti sem nægjanlegt hafi verið, enda bersýnilegt að framkvæmdin væri nánast helmingun á þeirri framkvæmd sem hefði verið metin. Þetta hefði ekki kallað á ítarlegri rökstudda afstöðu en hreppurinn hefði bókað um. Það sé í grundvallar-atriðum jákvætt ef framkvæmdaraðili geti minnkað umfang framkvæmdar sem mat á  umhverfisáhrifum hafi verið gert fyrir, sérstaklega ef álit Skipulagsstofnunar feli í sér að framkvæmd hafi í för með sér mikil umhverfisáhrif og þar lagðar til mótvægisaðgerðir. Ekki verði séð að lagarök standi til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram við slíkar aðstæður, enda sé eðli framkvæmdarinnar hið sama. Ekki sé þáttur í rannsóknarskyldu sveitarfélags að endurskoða framkvæmd mats á umhverfisáhrifum en málsástæður kæranda lúti í raun að því.

Loks sé sveitarfélögum falið vald að íslenskum lögum til að fjalla um framkvæmdaleyfis-umsóknir og sæti það ekki takmörkunum vegna hagsmuna sveitarfélagsins, beinna eða óbeinna. Ábyrgð sveitarfélags og fjárhagslegir hagsmunir séu verulegir við framkvæmd skipulagsvalds, enda felist í því ákvarðanir um þróun byggðar og landnotkunar innan alls sveitarfélagsins. Við skipulagningu atvinnulóða á landi sveitarfélags, lóðaúthlutun og afgreiðslu byggingarleyfa síðar geti sveitarfélag átt rétt til tug- eða hundruð milljóna lóðagreiðslna og lóðarleigu í kjölfarið. Kærandi vísi til tilskipunar 2014/52/ESB sem vísi til þeirrar stöðu þegar lögbært stjórnvald sé jafnframt framkvæmdaraðili, en um það sé ekki að ræða í þessu tilviki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þær athugasemdir við framkomna kæru að dregin sé upp röng mynd af málinu. Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem staðið hafi í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Auk þessa sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og sé þessa vandlega getið í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálf-stæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, auk sameiginlegs mats með öðrum tengdum framkvæmdum, sbr. tvö álit Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010. Loks hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets þar sem m.a. sé fjallað um áformaðar framkvæmdir leyfishafa. Þessir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Kærandi hafi ekki nýtt sér þennan lögbundna rétt sinn heldur komið með athugasemdir sínar eftir að samráðs-ferlum hafi verið lokið. Með þessu hafi þeir sýnt af sér tómlæti sem ekki verði litið framhjá í málinu.

Framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um upp-byggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Með hliðsjón af lagaskyldum sínum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, til að tengja alla þá sem eftir því leita, hafi leyfishafi m.a. gengið frá samningum við annars vegar Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdunum. Þjónusta við starf-semi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega. Ekki verði séð að þeim hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða gæta hagsmuna sinna.

Í lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets sé kveðið á um að hlutverk félagsins sé að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Í raforkulögum sé m.a. kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki en því beri að tengja alla þá sem eftir því sækist við flutningskerfið enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því.

Í ársbyrjun 2007 hafi samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hafið störf og hafi fulltrúar frá orkufyrirtækjum verið henni til ráðgjafar. Hafi svæðisskipulagið verið unnið með hliðsjón af þá nýjum lögum nr. 105/2006. Eftir að skipulagskostir hafi verið skilgreindir hafi verið lagt mat á umhverfisáhrif þeirra. Samvinnunefndin hafi síðan mótað skipulagsdrög á grundvelli þess mats. Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 hafi verið staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008 en í skipulaginu séu afmörkuð landsvæði fyrir flutningslínur. Hafi verið unnið samkvæmt nefndu svæðisskipulagi síðan.

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi hlotið umfjöllun í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Sameiginlegt mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Skipulagsstofnun hafi birt álit sitt á matsskýrslum í nóvember 2010, annars vegar á mati á umhverfisáhrifum álsvers á Bakka, háspennulína og virkjana við Kröflu og á Þeistareykjum og hins vegar mati á 220 kV háspennulínum frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Þannig hafi framkvæmdir leyfishafa sætt bæði sameiginlegu mati með öðrum framkvæmdum og sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda leyfishafa einna og sér. Framkvæmdaáform leyfishafa hafi ekki breyst að neinu ráði frá mati á umhverfisáhrifum. Þær óverulegu breytingar sem fyrirhugaðar séu hafi verið tilkynntar Skipulagsstofnun sem hafi fjallað um þær í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Því hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, sem kærandi vísi til, ekkert fordæmisgildi varðandi framkvæmdir leyfishafa sem hér séu til umfjöllunar.

Um áfangaskipta framkvæmd sé að ræða, eins og fram komi í áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Þær framkvæmdir sem komi til framkvæmda í þessum áfanga séu háspennu-línur sem í mati á umhverfisáhrifum hafi verið tilgreindar sem Hólasandslína 2, Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1. Þar til tengivirki verði reist á Hólasandi teljist Hólasandslína 2 hluti af Kröflulínu 4 og því ekki tilgreind sérstaklega. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í fullu samræmi við þá áfangaskiptingu sem gerð hafi verið grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hvað varði efnistöku og slóðagerð hafi verið fjallað um þau atriði í mati á umhverfisáhrifum.

Í apríl 2016 hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 í samræmi við ákvæði raforkulaga. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar uppfylli skilyrði 9. gr. a og b laganna. Nánar tiltekið komi fram í ákvörðuninni að stofnunin hafi metið allar framkvæmdir framkvæmdaáætlunarinnar með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku og sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdir áætlunarinnar uppfylli nefnd markmið raforkulaga. Í köflum 5.2.2 og 5.2.3 í framkvæmdaáætluninni sé fjallað um línur vegna afhendingastaðar á Bakka og tengingar Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfi. Kerfisáætlun Landsnets hafi hlotið umfjöllun í samræmi við lög nr. 105/2006.

Kærandi haldi því fram að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi borið, áður en leyfið yrði veitt, að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1.

Þessum skilningi sé alfarið mótmælt. Náttúruverndarlög hafi tekið gildi 15. nóvember 2015 en matsferli lögboðins mats á umhverfisáhrifum hafi lokið fyrir gildistöku laganna. Skipulags-breytingum hafi einnig verið lokið í gildistíð eldri laga. Umsagnarferli hafi því verið lokið áður en nýju lögin hafi tekið gildi. Með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á verndar-ákvæði eldri náttúruverndarlaga, með 61. gr. laga nr. 60/2013, sbr. lög nr. 109/2015, hafi tilgangurinn verið að kveða á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Lögskýringargögn séu þó ekki skýr en ljóst sé af 3. mgr. 61. gr. laganna að öðru fremur sé átt við framkvæmdir sem ekki séu háðar mati á umhverfisáhrifum, enda hafi framkvæmdir sem háðar séu mati farið í gegnum hið sérstaka matsferli þar sem umsagna sé aflað. Þá sé ljóst að löggjafinn hafi ekki ætlast til þess að um tvíverknað yrði að ræða, enda beri ekki að afla umsagna ef þær hafi legið fyrir við skipulagsákvarðanir.

Framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Þingeyjarsveitar og hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn við þá skipulagstillögu 22. október 2010. Tekin hafi verið afstaða til umsagnanna við afgreiðslu aðalskipulagsins. Þá hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn um helstu forsendur og verkefnislýsingu í deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar 6. september 2011 og um deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar 31. janúar 2012. Þannig liggi fyrir skipulags-ákvarðanir og umsagnir. Þess megi og geta að í umsögn Umhverfisstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar háspennulína frá virkjunum í Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík frá 29. júní 2010 hafi verið talið að lagning háspennulína frá virkjununum myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þótt neikvæð áhrif væru á Leirhnjúkshraun og sjónræn áhrif á Þeistareyki og Hlíðarfjall. Stofnunin hafi lagt áherslu á að hverasvæðinu Hitur yrði ekki raskað. Eftir þessu fari leyfishafi.

Ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga lýsi nokkurskonar umhverfismatsferli ef framkvæmd varði svæði sem njóti sérstakrar verndar. Á skorti að lögin taki af tvímæli um hvernig fara skuli með framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og framkvæmdaleyfi skv. skipulagslögum en telja verði rétt að túlka 14. gr. þeirra laga sem sérlög gagnvart náttúruverndarlögum um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda, ella yrði um tvíverknað að ræða. Landsnet telji að túlka verði lögin sem svo að útgáfa framkvæmdaleyfis fari að ákvæðum skipulagslaga, sbr. lög nr. 106/2000, en ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga áskilji ekki enn einn umsagnarferilinn. Sú túlkun sem kærandi haldi fram fái ekki staðist.

Áform PCC samkvæmt mati á umhverfisáhrifum séu að reisa verksmiðju sem síðar verði tvöfölduð í afkastagetu. Þegar af þeim sökum sé ekki unnt við uppbyggingu flutningskerfisins að miða þörfina eingöngu við raforkuþörf verksmiðjunnar í fyrsta áfanga. Það sé ekki sveitar-stjórnar að meta hvort þörf sé á þeim framkvæmdum sem framkvæmdaleyfi snúi að. Þá sé það ekki hlutverk sveitarstjórnar að skoða aðra leiðarvalskosti og bera saman við þá framkvæmd sem sótt sé um leyfi fyrir, enda hafi sveitarstjórn átt að koma að leiðarvali við gerð svæðis-skipulagsins. Fyrir liggi stefna stjórnvalda um frekari iðnaðaruppbyggingu að Bakka. Iðnaðarsvæðið sé rúmir 200 ha en lóð undir verksmiðju PCC sé eingöngu 20 ha. Leyfishafa beri að taka tillit til þessa við uppbyggingu flutningskerfisins, bæði vegna umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarstjórn hafi borið að kanna sjálfstætt skilmála útboðsgagna í tengslum við gerð slóða og plana. Þá sé því haldið fram að eins og málið hafi legið við sveitarstjórn hafi hún ekki haft neinar upplýsingar um útboðsskilmála. Engin skylda hvíli á sveitarstjórn til þess að kanna og/eða meta einstaka útboð leyfishafa, enda sé þess hvergi getið í lögum.

Með vísan til þeirra skipulagsáætlana sem liggi fyrir og þeirrar vinnu sem unnin hafi verið í aðdraganda leyfisveitingarinnar, og áður hefur verið rakin, ríki engin óvissa um verndargildi einstakra hluta framkvæmdasvæðisins. Málsmeðferðin öll einmitt snúist um greiningu á verndargildi og aðlögun fyrirkomulags mannvirkjagerðar með tilliti til þess. Vísað sé til matsskýrslu um háspennulínur en þar komi m.a. fram hvernig tekið hafi verið tillit til landslagsheilda við staursetningu. Staðsetning Þeistareykjavirkjunar sé takmarkandi þáttur í vali á línuleið, eins og gefi að skilja. Umhverfisáhrif hafi verið metin og eftir því sé unnið. Framkvæmdaleyfisumsóknin sé í samræmi við heimildir sem ákvörðun sveitarfélagsins byggist á.

Leyfishafi telji ljóst að málsmeðferð sveitarstjórnar og rökstudd afstaða hennar hafi verið til samræmis við þær kröfur sem gerðar séu í 2. mgr. 14. gr. Auk þess hafi verið gætt ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferðina. Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar í fundargerð, dags. 9. júní 2016, komi fram að nefndin hafi kynnt sér matsskýrslu framkvæmdarinnar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis-áhrifum vegna framkvæmdarinnar. Þá komi fram að einnig hafi komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum. Segi í bókun að nefndin taki undir álit Skipulagsstofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og vísi sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi. Með vísan til framangreindrar bókunar sé ljóst að nefndin hafi kynnt sér hlutaðeigandi gögn og hafi komist að rökstuddri niðurstöðu í framhaldi þess, líkt og áskilið sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Einnig hafi komið fram í bókun að nefndin hafi fjallað um skilyrði 13. gr. skipulagslaga og hafi hún komist að rökstuddri niðurstöðu þess efnis að þau skilyrði væru uppfyllt.

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 13. júní s.á. hafi verið fjallað um framangreinda fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar. Í fundargerð sveitarstjórnar komi fram að nefndin hafi fjallað um fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsókn og að í bókun hennar komi fram rökstudd afstaða um umsókn leyfishafa vegna framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4 og tillaga um afgreiðslu málsins. Hafi það verið niðurstaða sveitarstjórnar að samþykkja umsókn leyfishafa og staðfesta bókun skipulags- og umhverfisnefndar.

Sé ljóst að framangreind málsmeðferð sé til samræmis við þær lögbundnu kröfur sem gerðar séu til málsmeðferðar sveitarstjórna við veitingu framkvæmdaleyfa, sem mælt sé fyrir um í 13. og 14 gr. skipulagslaga og þær kröfur sem gerðar séu um vandaða málsmeðferð, sbr. stjórnsýslulög, einkum 10. gr. laganna.

Þá sé rétt að taka fram að ekki verði gerð sú krafa að skipulags- og umhverfisnefnd reifi í fundargerð sinni niðurstöðu Skipulagsstofnunar og/eða endursegi það sem fram komi í áliti stofnunarinnar, heldur verði að teljast fullnægjandi að nefndin bóki um að tekið sé undir álit stofnunarinnar. Sé því ljóst að fyrirliggjandi sé rökstudd afstaða sveitarstjórnar til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Leyfishafi mótmæli því að dómar Evrópudómstólsins, sem kærandi vísi til, eigi við í málinu. Einnig bendi hann á að tilskipanir Evrópusambandsins hafi ekki bein réttaráhrif að íslenskum rétti, eins og megi ráða af kæru. Úrskurðarnefndinni beri fyrst og fremst að beita íslenskum lögum, skýrðum eftir viðurkenndum lögskýringaraðferðum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af því að fyrir úrskurðarnefndinni liggja mjög ítarleg gögn, m.a. uppdrættir og myndir, tölvugerðar sem og ljósmyndir, var ekki talið tilefni til að nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa.

Niðurstaða: Kröflulína 4 mun liggja í tveimur sveitarfélögum, Þingeyjarsveit og Skútustaða-hreppi. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þess hluta Kröflulínu 4 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun lá fyrir 13. júní 2016, en undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflegan áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1 sem og Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2 sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum vegna uppbyggingar á Bakka. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða hennar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, en svo háttar hér. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitinga framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að því gefnu að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað og að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í þeim lögum sem í gildi eru við ákvörðunartöku. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa að þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir á leyfis-veitanda ávallt sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Birting auglýsingar um framkvæmdaleyfi.

Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu, sbr. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Auglýsing um hið kærða framkvæmdaleyfi var birt í Morgunblaðinu 15. júní 2016 en hún mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu þrátt fyrir framangreind lagafyrirmæli. Tilgangur auglýsingar með lögákveðnum hætti er einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið og gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki. Jafnframt skal auglýsing veita upplýsingar um kæruheimild og kærufresti. Ekki verður þó fjallað um greindan annmarka frekar hér þar sem vangá sveitarfélagins hafði ekki í för með sér réttarspjöll gagnvart kæranda, enda kom hann að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilinna fresta.

Umhverfismat áætlana.

Með úrskurðum, uppkveðnum 10. október 2016 í máli nr. 46/2016 og 17. október 2016  í máli nr. 54/2016, tiltók úrskurðarnefndin í niðurstöðum sínum að umhverfismat áætlana hefði farið fram á kerfisáætlunum Landsnets 2014-2023 og 2015-2024. Greindar áætlanir hafa að geyma framkvæmdaáætlun til þriggja ára þar sem m.a. er greint frá því að til standi að reisa 220 kV línu milli Þeistareykja og Bakka og frá Þeistareykjum að Kröflu. Eins og á stóð hafnaði nefndin því að líta á það sem annmarka að umhverfismat kerfisáætlunar hefði farið fram eftir að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar lá fyrir. Verða þær niðurstöður lagðar til grundvallar í þessu máli, enda eru málsatvik hvað þetta varðar þau sömu og í nefndum málum.

Hæfi til töku ákvörðunar.

Í máli þessu háttar svo til að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tók hina kærðu ákvörðun, en sveitarfélagið er jafnframt eigandi jarðarinnar Þeistareykja sem Þeistareykjalína 1 mun liggja um að hluta. Fyrir liggur að samningur um uppgjör fébóta vegna kvaðar sem hlýst af lagningu háspennulína hefur verið gerður milli Landsnets sem framkvæmdaraðila og Þingeyjarsveitar sem landeiganda og munu greiðslur hafa farið fram. Í samningnum kemur fram að Landsnet ákveði hvenær framkvæmdir muni hefjast.

Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um almennar skyldur sveitarfélaga. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Svo hefur t.d. verið gert í skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 13. og 14. gr. þeirra um veitingu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórnarlög gera jafnframt ráð fyrir því að sveitarfélög eigi eignir og hefur sveitarstjórn ákvörðunarvald um ráðstöfun þeirra, sbr. t.a.m. 2. mgr. 8. gr. og 6. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna. Löggjafinn hefur þannig falið sveitarstjórn ákveðið vald að lögum sem getur falið í sér töku ákvarðana með ýmsum hætti og að teknu tilliti til ólíkra sjónarmiða, en ávallt samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrir liggur að sveitarstjórn bar að taka umsókn um framkvæmdaleyfi til meðferðar á grundvelli skipulagslaga og að hún var til þess bær að ráðstafa landréttindum sínum. Er og ljóst að líta verður á ákvæði nefnds samnings þess efnis að framkvæmdaraðili ákvæði hvenær framkvæmdir myndu hefjast í samhengi við þau fyrirmæli skipulagslaga að framkvæmdir megi ekki hefjast fyrr en að útgefnu framkvæmdaleyfi. Þá mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð slíkrar leyfisveitingar sem ekki verður vikið frá með samningi og verður að skilja nefnt samningsákvæði í því samhengi.

Þá hefur það ekki þýðingu í máli þessu hvaða sveitarstjórnarmenn tóku þátt í töku ákvörðunar um hina kærðu leyfisveitingu annars vegar eða stóðu að gerð nefnds samnings hins vegar, enda er það hlutverk sveitarstjórnar sem fjölskipaðs stjórnvalds að taka þessar ákvarðanir fyrir hönd sveitarfélagsins. Bendir og ekkert til þess að vanhæfisástæður 20. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og stjórnsýslulög, hafi átt við um þá sveitarstjórnarmenn sem hlut áttu að afgreiðslu málanna.  

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð. Sú reglugerð er nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í 7. gr. hennar er mælt fyrir um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt framangreindum ákvæðum.

Þá skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Bókað var við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á framkvæmdaleyfisumsókninni, sem staðfest var af sveitarstjórn, að nefndin teldi fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022, sbr. einnig svæðisskipulag fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslu. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé, enda er þar m.a. fjallað um virkjun háhitasvæðisins á Þeistareykjum sem og háspennulínu frá Hólasandi að Kvíhólafjöllum og þaðan norður að Þeistareykjum, þ.e. Kröflulínu 4. Er og tekið fram að skilgreind svæði fyrir nýjar háspennulínur séu þau sömu og í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Þá er fyrirhuguð lega umræddrar línu sýnd á skýringaruppdrætti og sveitarfélags-uppdrætti aðalskipulagsins. Við gerð aðalskipulagsins fór fram umhverfismat áætlana. Loks var unnið deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar og í greinargerð þess var greint frá mannvirkja-belti fyrir flutningslínur raforku sem einnig var sýnt á skipulagsuppdrætti. Að teknu tilliti til alls framangreinds verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga um samræmi framkvæmdar við skipulagsáætlanir hafi verið fullnægt.

Umsótt framkvæmd.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að við umfjöllun umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort hún sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Mat fór fram á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Kröflulínu 4, og voru áhrif þeirra einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum tengdum uppbyggingu á Bakka. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010. Í umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi er vísað til þessa og fylgdi matsskýrsla og álit umsókninni. Við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sem staðfest var af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar, var bókað að nefndin hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna háspennulína. Einnig að álit vegna sameiginlega matsins hafi komið til skoðunar, en jafnframt var tekið fram að framkvæmd samkvæmt fyrirliggjandi umsókn væri ekki gerð í tengslum við álver á Bakka. Uppfyllti afgreiðsla málsins þar með skilyrði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Þá telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver sé engum vafa undirorpið að mat það sem fram fór á háspennulínunum sérstaklega greini frá áhrifum þeirra framkvæmda sem metnar voru, m.a. þeirri sem hér um ræðir. Skiptir ekki máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem matið tekur til. Liggur þannig ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd hafi verið metin í því mati á umhverfisáhrifum háspennulína sem farið hefur fram. Rétt er þó að geta þess að mat það sem fram fór á áhrifum háspennulína á umhverfið er ítarlegra þar en í hinu sameiginlega mati.

Náttúruverndarlög.

Vísað er til þess í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Náttúruverndarlög nr. 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015, nokkrum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er augljóst að þau áttu því við þegar samþykkt var að veita hið kærða framkvæmdaleyfi, þrátt fyrir að matsferli það sem var undanfari ákvörðunarinnar hafi átt sér stað í tíð eldri náttúruverndarlaga.

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. gildandi náttúruverndarlaga, en skv. 3. mgr. 37. gr. laganna ber að forðast að raska slíkum svæðum nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla leyfis vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun og skal við leyfisveitinguna eftir atvikum leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar. Af deiliskipulagsuppdrætti Þeistareykjavirkjunar verður ráðið að mannvirkjabelti vegna loftlínunnar Kröflulínu 4 sneiði útjaðar náttúruminjasvæðisins, en að möstur línunnar muni þó vera utan þess. Þá er tiltekið í framkvæmdaleyfisumsókn að við uppsetningu mastra, vinnu við fyrirhugaðar línur og slóðagerð verði þess gætt að raska ekki þeim hluta Þeistareykja sem eru á náttúruminjaskrá. Telja verður að þótt Þeistareykir verði fyrir áhrifum vegna línulagnarinnar, s.s. sjónrænum, sé ekki um að ræða röskun í skilningi nefndrar 3. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga, enda verður eiginleg mannvirkjagerð ekki innan svæðis á C-hluta náttúruminjaskrár. Var því ekki tilefni fyrir sveitarstjórn að viðhafa þá málsmeðferð sem þar er mælt fyrir um. Þá er ekkert annað í gögnum málsins sem bendir til þess að á framkvæmdasvæði Kröflulínu 4 innan Þingeyjarsveitar séu þær aðstæður að öðru leyti sem kröfðust sérstakrar málsmeðferðar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur og rökstuðningur.

Sveitarstjórn skal, auk þess að kynna sér matsskýrslu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, einnig taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar eru lögbundin en ekki bindandi fyrir sveitarstjórn. Þau þurfa skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 14. gr. skipulagslaga að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Verður úrskurðar-nefndin þannig að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Nánar tiltekið skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að hún tekur á móti matsskýrslu gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þá skal í álitinu gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að framkvæmdaraðili skuli vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu og skuli þar gera grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Í frummatsskýrslu skal svo ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 9. gr. laganna. Sama orðalag var áður viðhaft um efni matsskýrslu og í frumvarpi til laga nr. 106/2000 segir um þetta atriði að lagt sé til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Einnig að þetta hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Af framangreindu verður að telja að álit Skipulagsstofnunar þurfi að taka til þessara atriða en jafnframt að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á því hvaða kosti, sem nái markmiðum framkvæmdar, hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð.

Í matsskýrslu er ítarlega fjallað um aðalvalkost framkvæmdaraðila, þ.e. þá línuleið og tilhögun sem hin kærðu leyfi öll taka til. Auk þess er fjallað um aðra þá kosti sem til greina komu samkvæmt endanlegri matsáætlun, þ.e. þá tilhögun að nota trémöstur vestan Lambafjalla, þá tilhögun að nota jarðstrengi sem og að tvöfalda línuleið um Hólasand. Þá var fjallað um núllkost. Mál þetta tekur ekki til línuleiðar vestan Lambafjalla og verður því ekki fjallað um þann kost að nota trémöstur á þeirri leið. Þá er ítarleg umfjöllun í matsskýrslu um tvöfalda línuleið um Hólasand. Er þar gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar og þau borin saman við aðalvalkost í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 6. mgr. 10. gr., og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað þennan valkost varðar ekki tilefni til athugasemda. Hins vegar er álitið að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum að öðru leyti hvað varðar umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, eins og nú verður nánar gerð grein fyrir.

Einn af þeim kostum sem Landsnet lagði fram til mats var að leggja fyrirhugaðar línur sem jarðstrengi. Um jarðstrengi er fjallað með almennum hætti í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun og þar tekið fram að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir jarðstrengjalögnum, kostnaði, rekstri og umhverfisáhrifum í samanburði við loftlínur. Í endanlegri matsskýrslu fyrirtækisins er enn fjallað um jarðstrengi almennt en sú umfjöllun bætir litlu við það sem fram kemur í matsáætlun. Þannig er það eitt tiltekið um umhverfisáhrif jarðstrengja að sýnileiki loftlína sé augljóslega mun meiri en jarðstrengja, hins vegar sé umhverfisrask við lagningu þeirra mun meira en við lagningu loftlína og því sé lagning loftlínu afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengja. Ljóst má vera að umfjöllun þessi fullnægir ekki þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að gerð sér grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Fór enda enginn frekari samanburður fram. Þrátt fyrir þetta er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um aðra kosti til framkvæmdar í kafla 2.2 án þess að vikið sé í neinu að þessum framlagða kosti framkvæmdaraðila. Úrskurðarnefndin bendir jafnframt á að ekki verður séð að sérstakar rannsóknir hafi farið fram í tilefni matsins og er hvorki í tillögu að matsáætlun né matsskýrslu vitnað til heimilda þar um eða þeirra getið í heimildaskrá. Telja verður að sú aðferð að leggja fram jarðstrengi sem valkost án rannsókna eða tilvísan til heimilda um það hvernig þeir kæmu til greina við þá framkvæmd sem lögð var fram til mats, og án marktæks samanburðar við aðra valkosti, sé ekki viðunandi. Er ekki hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hafi verið að ræða, enda fór ekki fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost. Verður að telja að skort hafi á að Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu gert viðhlítandi grein fyrir framangreindu og þar með forsendum mats á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar að gera skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000.

Einnig er það að athuga við álit Skipulagsstofnunar að stofnunin lætur í ljós það álit sitt að framkvæmdaraðili eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu á legu Þeistareykjalínu 1 sem geri ráð fyrir að línan fari fyrir Höfuðreiðarmúla í stað þess að fara um Jónsnípuskarð, en báðir kostirnir voru lagðir fram af Landsneti við gerð svæðisskipulags háhitasvæða. Ekki er hægt að líta svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir framkvæmdinni eða frekari mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, og er ljóst að ábending sem þessi hefði átt að koma fram fyrr í matsferlinu svo að framkvæmdaraðili ætti þess kost að bregðast við henni. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að af umhverfisskýrslu svæðisskipulags háhitasvæða verði ráðið að svo sem Skipulagsstofnun bendir á hafi báðir kostirnir neikvæð umhverfisáhrif. Telur úrskurðarnefndin að sú aðferð að leggja ekki valkost um leiðir fram til mats þar sem annað leiðarval sé bundið í skipulagsáætlunum sé ekki tæk þegar ljóst er af umhverfismati áætlana að báðar leiðirnar valdi neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að frekari röksemdir eða rannsóknir búi þar að baki. Tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda er einmitt að leiða í ljós umhverfisáhrif mismunandi kosta og gera á þeim samanburð svo hægt sé að taka endanlega ákvörðun um leiðarval á traustum grunni. Er enda mikill munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hvað varðar nákvæmni mats, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Um þetta segir nánar í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana að annars vegar sé um að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður eins og atvikum háttar í þessu tiltekna máli ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt. Hefur þá verið höfð hliðsjón af  því að mat það sem hér um ræðir var um margt ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðarval voru metnir með fullnægjandi hætti. Verður því að telja að skilyrði hafi verið til meðferðar fyrirliggjandi umsóknar um framkvæmdaleyfi. Áður en til afgreiðslu hennar kom bar sveitarstjórn hins vegar eftir atvikum að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að nefndir annmarkar hefðu þýðingu við leyfisveitingu í þeirra sveitarfélagi. Ef svo væri, þá að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lá umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, en eins og áður hefur komið fram var það álit Skipulagsstofnunar að kanna bæri aðra útfærslu á Þeistareykjalínu 1 en um Jónsnípuskarð í sama sveitarfélagi. Gaf álitið sveitarstjórn fyrst og fremst tilefni til að taka afstöðu til þessa atriðis í ákvörðun sinni um framkvæmdaleyfi vegna Þeistareykjalínu 1 og verður ekki gerð sú krafa til sveitarstjórnar að á því sé tekið við veitingu framkvæmdaleyfis vegna Kröflulínu 4. Liggur enda sú lína í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Jónsnípuskarði.

Ekki verður séð að athugasemdir þess efnis að kanna bæri möguleika á lagningu Kröflulínu 4 sem jarðstrengs í stað loftlínu hafi komið fram við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, aðalskipulagsgerð eða deiliskipulagsgerð. Þá kemur fram í umsókn um framkvæmdaleyfi og fylgigögnum að samningar hafi náðst við landeigendur. Loks myndi jarðstrengur sem lagður yrði um fyrirhugaða línuleið samkvæmt skipulagsáætlunum raska náttúruminjasvæðinu á Þeistareykjum, sbr. það sem áður hefur verið rakið um skilgreint mannvirkjabelti Kröflulínu 4 í deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar. Verður að teknu tilliti til framangreinds því ekki talið að sérstakt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn að kanna áðurnefndan möguleika.

Líta verður svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar framkvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar var þess efnis að af framkvæmdinni í heild sinni yrðu neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið. Ein helstu áhrif yrðu m.a. á kafla þar sem háspennulínur muni liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og áfram. Að Þeistareykjum er um Kröflulínu 4 að ræða og er sá hluti línunnar sem liggur í Þingeyjarsveit 11,8 km að lengd. Stofnunin taldi jafnframt ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggðu m.a. á því að landið sé lítt snortið og fólk upplifði fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur yrðu samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og teldi stofnunin að koma línanna myndi breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefði. Því teldi hún að ferðamenn sem vildu m.a. njóta víðernisins þar yrðu fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Önnur umhverfisáhrif innan sveitarfélagsins voru tiltekin, s.s. vegna áflugs rjúpna á línur, t.a.m. við Þeistareyki, sem og áhrif á gróður. Var um þessi áhrif lögð áhersla á tilhögun framkvæmdar, rannsóknir og mótvægisaðgerðir, en Skipulagsstofnun dró ekki þá ályktun að um verulega neikvæð og óafturkræf áhrif yrði að ræða.

Í málavaxtalýsingu er greint frá þeim bókunum og fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni. Af þeim er ljóst að sveitarstjórn hefur kynnt sér fyrirhugaða framkvæmd og umhverfisáhrif hennar og þau gögn sem þar búa að baki. Skipulags- og umhverfisnefnd vísar um rökstuðning sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi, sbr. t.d. kafla 4.1 um framtíðarsýn og meginmarkmið. Sá kafli sem vísað er til er á fjórðu blaðsíðu og tíundar ýmis atriði vegna skipulagsgerðarinnar. Þar er hvatt til eflingar byggðar og nýtingu náttúruauðlinda í sátt við náttúru og umhverfi auk þess sem lögð er áhersla á að efla hefðbundna ferðaþjónustu sem og nýsköpun í þeim geira, s.s. jarðferðaþjónstu eða „geo-túrisma“. Þá er tekið fram að framtíðarstefna sveitarfélagsins sé að vernda ásýnd lands eins og frekast sé unnt með því að leggja lagnir í jörð og vanda vel til staðarvals háspennulína sem liggi um sveitarfélagið þannig að sjónræn áhrif verði sem minnst. Enn fremur að sérstaða Þingeyjarsveitar felist ekki síst í fjölbreytilegri og mikilfenglegri náttúru en í henni séu fólgin fjölmörg tækifæri.

Þegar horft er til tilvitnaðs texta er ljóst að við ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis þar sem á vegast sjónarmið tengd umhverfi, samfélagi og efnahag fer betur á því að taka til þess beina afstöðu en afleidda, svo sem hér var gert. Það verður þó ekki litið fram hjá því að í þeim kafla aðalskipulagsins sem vitnað er til er tekið fram oftar en einu sinni að það sé stefna sveitarfélagsins að nýta/virkja háhitasvæðin á Þeistareykjum o.fl. í samræmi við stefnu Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Er jafnframt ítrekað að við mannvirkjagerð verði í öllu farið eftir meginmarkmiðum svæðisskipulagsins. Er og til þess að líta að við samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis var jafnframt vísað til þess að fyrri afgreiðsla Þingeyjarsveitar á deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar fæli í sér að sérstök afstaða hefði verið tekin við leyfisveitinguna, en við málsmeðferð nefnds deiliskipulags var fram komnum athugasemdum m.a. svarað með þeim hætti að orkuöflun á svæðinu gæfi kost á atvinnuskapandi uppbyggingu í héraði og hefði þannig jákvæð áhrif á samfélag og efnahag. Loks kemur fram í fundargerð að umhverfis- og skipulagsnefnd taki undir álit Skipulags-stofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af sveitarstjórn. Koma nefnd skilyrði að auki fram í hinu útgefna framkvæmdaleyfi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið tók sveitarstjórn rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ásættanlegum hætti, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Af öllu því sem að framan er rakið eru ekki þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar er leitt geta til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 til handa Landsneti hf.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                    Þorsteinn Þorsteinsson

8/2015 Tryggvagata Selfossi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2015, kæra vegna ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar 12. janúar 2015 um að gefa út stöðuleyfi vegna tveggja gáma við Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. janúar 2015, kærir J, Tryggvagötu 4a, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. janúar 2015 um að gefa út stöðuleyfi vegna tveggja gáma á lóðinni Tryggvagötu 6. Skilja verður málskot kæranda svo að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umræddir gámar verði fjarlægðir.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Árborg 17. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Snemma árs 2014 keypti kærandi fasteign við Tryggvagötu á Selfossi. Síðar sama ár hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar og óskaði eftir upplýsingum um stöðuleyfi vegna tveggja gáma á næstu lóð, Tryggvagötu 6, sem er íbúðarlóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í janúar 2015 fékk kærandi þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að stöðuleyfi hefði verið gefið út fyrir staðsetningu gámanna í janúar s.á. og að sú ákvörðun væri kæranlega til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Kærandi telur að ekki hafi verið veitt tímabundið leyfi fyrir gámunum þar sem þeir hafi verið staðsettir á lóðinni í mörg ár og ekki sé minnst á stöðuleyfi fyrir gámunum í eldri fundargerðum skipulags- og byggingarnefndar Árborgar. Gámarnir séu staðsettir á lóðinni Tryggvagötu 6, þremur metrum frá lóðarmörkum kæranda og í beinni sjónlínu frá gluggum fasteignar hans. Staðsetning þeirra sé óviðunandi og hafi mikla sjónmengun í för með sér.

Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að leyfishafi hafi sótt um stöðuleyfi 9. október 2014. Hinn 7. janúar 2015 hafi umsóknin verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar og tilkynning um afgreiðslu fundarins, undirrituð af skipulags- og byggingarfulltrúa, send leyfishafa hinn 12. s.m. Leyfið hafi verið veitt til tólf mánaða, sbr. ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Niðurstaða:
Hið kærða stöðuleyfi var tímabundið og rann út hinn 12. janúar 2016. Hefur leyfið því ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur þá lögvörðu hagsmuni af því að fá skorið úr um hvort fella eigi leyfið úr gildi sem kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því fyrst og fremst afstöðu til lögmætis ákvarðana sem þegar hafa verið teknar af stjórnvöldum innan stjórnsýslunnar. Það er ekki á valdsviði nefndarinnar að taka ákvörðun um að umræddir gámar verði fjarlægðir, en kærandi getur eftir atvikum gert þá kröfu til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að gámar án stöðuleyfis verði fjarlægðir, sbr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

95/2015 Kísilverksmiðja í Helguvík

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Austurgötu 29b, Hafnarfirði, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða leyfis eða frestun réttaráhrifa þess. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 30. desember 2015 var hafnað kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 3. nóvember og 4. desember 2015 og í október 2016.

Málsatvik: Hinn 11. september 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Thorsil ehf. fyrir rekstri kísilverksmiðju á lóð við Berghólabraut 8 á iðnaðarsvæði í Helguvík. Með leyfinu er rekstraraðila gefin heimild til að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 110.000 tonn á ári af hrákísli (>98% Si), allt að 55.000 tonn af kísildufti og 9.000 tonn af kísilgjalli, auk þess að starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyri beint undir starfsemina.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum er frá febrúar 2015 og álit Skipulagsstofnunar um matið er dagsett 1. apríl s.á. Við undirbúning starfsleyfistillögu leitaði Umhverfisstofnun umsagnar heilbrigðisnefndar Suðurnesja í samræmi við fyrirmæli gr. 8.2 í reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999. Jafnframt var umsagnar leitað hjá Síldarvinnslunni hf., Norðuráli ehf., United Silicon hf., Skipulagsstofnun, Brunavörnum Suðurnesja, Reykjanesbæ og Thorsil ehf. Tillaga að starfsleyfinu var auglýst á tímabilinu 28. maí til 23. júlí 2015 og bárust athugasemdir frá kærendum, Reykjanesbæ, Thorsil ehf., Skipulagsstofnun og United Silicon hf. Jafnframt var haldinn kynningarfundur í Reykjanesbæ 24. júní s.á.

Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi 11. september 2015, eins og áður sagði, og birtist auglýsing um starfsleyfið í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Vöktunaráætlun leyfishafa var lögð fram til samþykktar hjá stofnuninni 2. desember s.á. í samræmi við ákvæði í starfsleyfinu.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að meðferð umsóknar um hið kærða starfsleyfi skuli fara fram samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af bæði tilskipun 2011/92/ESB, sem sé hluti af EES-samningnum, og Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, en þann samning hafi íslenska ríkið fullgilt.

Það megi ráða af auglýsingu Umhverfisstofnunar og kynningarfundi um starfsleyfistillöguna, sem haldinn hafi verið 24. júní 2015, að stofnunin hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð hennar á umræddri umsókn sé hluti af umhverfismatsferli framkvæmdarinnar. Í auglýsingunni sé t.d. tekið svo til orða að framkvæmdin hafi farið í mat á umhverfisáhrifum og álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir 1. apríl 2015. Þessi ummæli verði ekki skilin öðru vísi en svo að Umhverfisstofnun telji mati á umhverfisáhrifum fyrir framkvæmdina lokið. Á framangreindum kynningarfundi hafi komið fram að stofnunin hafi fyrst og fremst metið umsóknina á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar samkvæmt þeim lögum. Hvergi hafi komið fram að stofnunin hafi farið með starfsleyfisumsóknina á grundvelli laga nr. 106/2000.

Sami misskilningur Umhverfisstofnunar, varðandi nauðsyn þess að hún gæti að ákvæðum laga nr. 106/2000 við meðferð umsóknar um starfsleyfi fyrir matsskyldar framkvæmdir, komi fram í svörum stofnunarinnar við athugasemdum er henni hafi borist við drög að starfsleyfinu. Þar sé m.a. gengið út frá því að ákvörðun hafi þegar verið tekin í málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum, sem ekki verði endurskoðuð nema með endurupptöku málsins skv. 12. gr. laga nr. 106/2000. Staðreyndin sé hins vegar sú að slík ákvörðun liggi ekki fyrir. Skipulagsstofnun láti, eftir breytinguna sem gerð hafi verið á lögum nr. 106/2000 með lögum nr. 74/2005, aðeins í ljós álit á matsskýrslu framkvæmdaraðila en taki ekki ákvörðun á grundvelli skýrslunnar. Í athugasemdum við frumvarpið að lögum nr. 74/2005, en með þeim hafi verið gerðar breytingar á málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum, sé helstu breytingum á lögunum m.a. lýst þannig að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á, með eða án skilyrða, eða leggjast gegn framkvæmd, sem lýst hafi verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Enginn vafi leiki á því að leyfisveitandi taki, í samræmi við viðeigandi lög, ákvörðun um hvort leyfa skuli viðkomandi framkvæmd, þegar fyrir liggi matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, og að leyfisveitanda beri að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Það sé leyfisveitandinn en ekki Skipulagsstofnun sem taki ákvörðunina og það sé hann sem meti umhverfisáhrifin og segi til um það hvort framkvæmdin sé réttlætanleg, m.a. út frá umhverfisverndarsjónarmiðum. Leyfisveitandinn geti ekki skotið sér á bakvið álit Skipulagsstofnunar, sem sé eingöngu umfjöllun. Að þeirri umfjöllun lokinni taki leyfisveitandinn ákvörðun, sem eigi að styðjast við rannsókn leyfisveitandans. Ekki þurfi að rannsaka allt er viðkomi matsskýrslunni að nýju en þyki leyfisveitanda eitthvað vanta í rannsókn geti hann krafist þess að úr sé bætt og það beri honum að gera. Ábyrgðin liggi hjá leyfisveitanda, í þessu tilviki hjá Umhverfisstofnun, og honum beri að rökstyðja ákvörðun sína, sbr. einnig b) lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Umhverfisstofnun hafi hvorki rannsakað málið sjálfstætt áður en hún hafi tekið ákvörðun sína né hafi hún rökstutt ákvörðunina með fullnægjandi hætti.

Meðferð mála varðandi umhverfismat framkvæmda fari fram í mismunandi stigum eða áföngum (e. phases), sbr. nánar 6. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB og 3. mgr. 6. gr. Árósasamningsins. Meðferð leyfisumsókna sé einn áfangi mats á umhverfisáhrifum, sbr. a) lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB og a) lið 1. mgr. 6. gr. Árósasamningsins. Það séu því málsmeðferðarreglur um mat á umhverfisáhrifum sem gildi um starfsleyfisumsóknir þegar starfsleyfið varði matsskylda framkvæmd.

Í auglýsingu Umhverfisstofnunar um starfsleyfistillögur hafi ekki komið fram að verkefni hennar félli undir málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum, sbr. b) lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB, og sé það annmarki á málsmeðferðinni. Ekki hafi heldur verið tekið fram hvert yfirvaldið sé sem veiti upplýsingar sem máli skipti og ekki tekið fram berum orðum hvert senda ætti athugasemdir og spurningar, sbr. c) lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Loks sé ekki í auglýsingunni vísað á allar fáanlegar upplýsingar varðandi málið, sbr. e) og f) liði 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Ekki sé vitað hversu vel starfsleyfistillagan hafi verið auglýst og hvort þær auglýsingar teljist fullnægja ákvæði 5. mgr. 6. gr. títtnefndrar tilskipunar.

Loks verði ekki hjá því komist að draga í efa að starfsleyfisumsóknin hafi verið kynnt almenningi nægilega snemma, þar sem hún hafi verið kynnt þegar nær fullbúið starfsleyfi hafi legið fyrir, eins og skýrt hafi komið fram á kynningarfundi 24. júní 2015. Umsókn leyfishafa sé sögð gerð í október 2014 en Umhverfisstofnun auglýsi hana ekki fyrr en í lok maí 2015, þ.e. fimm mánuðum síðar, og þá sem nánast frágengið mál með einum fyrirvara, þ.e. að Reykjanesbær samþykki deiliskipulag fyrir lóð leyfishafa, sem sveitarfélagið sjálft hafi gert og þegar auglýst. Þessi málsmeðferð verði að teljast vera í ósamræmi við fyrirmæli 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sem kveði á um að almenningur, sem mál varði, skuli snemma fá tækifæri til skilvirkrar þátttöku í ferlinu er varði töku þeirra ákvarðana í umhverfismálum sem um geti í 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu hafi Umhverfisstofnun borið að leita álits almennings á málinu miklu fyrr en gert hefði verið, áður en stofnunin hafi í reynd verið búin að taka ákvörðun í málinu.

Tilvitnanir til 2.-6. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB beri einnig að líta svo á að vísað sé til ákvæða 6. gr. Árósasamningsins.

Í matsskýrslu leyfishafa og áliti Skipulagsstofnunar sé einungis fjallað um samlegðaráhrif kísilverksmiðju leyfishafa á loftgæði með álveri Norðuráls og kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Á kynningarfundi Umhverfisstofnunar 24. júní 2015 hafi komið fram að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kanni nú m.a. loftmengun frá starfsemi Keflavíkurflugvallar, sem vitað sé að sé veruleg og mjög vaxandi. Til þessa hafi hvergi verið tekið tillit við mat á samlegðaráhrifum og sé það óforsvaranlegt, þar sem það séu heildarloftgæði sem máli skipti fyrir íbúa Reykjanesbæjar og aðra sem fyrir áhrifum kunni að verða. Sé það í samræmi við skyldur Umhverfisstofnunar samkvæmt rannsóknarreglunni og varúðarreglu umhverfisréttar að stofnunin hlutist til um að nefnd samlegðaráhrif verði metin. Einnig hvíli á stofnuninni skylda til rannsóknar með tilliti til skyldu stjórnvalda til að tryggja íbúum heilsusamleg loftgæði og í stjórnarskrárvörðum rétti borgaranna til heilsusamlegs umhverfis, þ. á m. andrúmslofts. Í svörum Umhverfisstofnunar við athugasemdum komi fram að stofnunin sé, í samráði við fleiri aðila, að beita sér fyrir mælingum á loftgæðum. Í því felist viðurkenning á því að við útgáfu starfsleyfisins hafi loftgæði ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti og því með öllu ótímabært að gefa út starfsleyfið. Vansræksla Umhverfisstofnunar á rannsóknarskyldu sinni sé annmarki sem leiða beri til ógildingar starfsleyfisins.

Mál fyrir úrskurðarnefndinni vegna kæru þessarar muni að öllum líkindum snúast að verulegu leyti um túlkun laga sem byggð séu á samingnum um Evrópska efnahagssvæðið. Megi telja líklegt að þörf verði fyrir álit EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins, sérstaklega er varði skyldur Umhverfisstofnunar sem leyfisveitanda. Úrskurðarnefndin uppfylli öll þau skilyrði sem EFTA-dómstóllinn hafi talið úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi þurfa að fullnægja til þess að vera til þess bærar að leita álits dómstólsins um skýringu á EES-rétti.

Málsrök Umhverfisstofnunar:
Umhverfisstofnun kveður tilskipun 2011/92/ESB hafa verið innleidda í íslenskan rétt með lögum nr. 138/2014. Meðal annars hafi lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 verið breytt í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 hafi Umhverfisstofnun áfram umsagnarhlutverk við mat á umhverfisáhrifum. Við útgáfu starfsleyfis leyfishafa, líkt og annarra starfsleyfa, starfi stofnunin eftir lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, ásamt reglugerðum settum með heimild í þeim. Á þeim grunni meti Umhverfisstofnun starfsleyfisumsóknir og leggi sjálfstætt og ítarlegt mat á starfsemina, m.a. á grundvelli mats á umhverfisáhrifum. Það sé Skipulagsstofnun sem stýri málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og hafi Umhverfisstofnun umsagnarhlutverk við vinnslu Skipulagsstofnunar. Þannig geti Umhverfisstofnun komið athugasemdum sínum á framfæri við mat á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun hafi veitt umsögn við tillögu að matsáætlun vegna kísilverksmiðju leyfishafa í Helguvík 18. júní 2014. Jafnframt hafi stofnunin veitt umsögn sína vegna frummatsskýrslu 21. nóvember s.á. og frekari umsögn 3. desember s.á. Í umsögnum sínum hafi Umhverfisstofnun bent á atriði sem stofnunin hafi talið að fjalla þyrfti um, m.a. hvað varði áhrif verksmiðjunnar á rekstrartíma, sér í lagi hvað varði losun loftmengunarefna, umhverfisvöktun og samlegðaráhrif með öðrum iðnaði á svæðinu.

Umhverfisstofnun hafni því að hafa ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við útgáfu hins kærða starfsleyfis og bendi stofnunin því til stuðnings á að hún hafi þrengt mörk fyrir brennisteinsdíoxíð (SO2) í starfsleyfi leyfishafa frá því sem fram hafi komið í matsskýrslu vegna hinnar fyrirhuguðu starfsemi. Við starfsleyfisgerðina hafi Umhverfisstofnun óskað eftir frekari gögnum frá leyfishafa vegna ætlaðrar loftmengunar í Helguvík og 6. maí 2015 hafi stofnuninni borist gögn sem sýni niðurstöðumyndir loftdreifingarreikninga við Helguvík vegna losunar leyfishafa, Norðuráls og Stakksbrautar 9 ehf. Óskað hafi verið eftir því að metinn yrði styrkur efna á svæðinu og að sýndar yrðu myndir af loftdreifingu sem sýndu eingöngu losun leyfishafa og Stakksbrautar 9 ehf., kæmi til þess að eingöngu verksmiðjur þessara tveggja aðila myndu hefja rekstur. Þau gögn sem hér um ræði hafi verið kynnt með drögum að starfsleyfi leyfishafa á opinberum auglýsingatíma.

Í kæru sé dregið í efa að starfsleyfisumsóknin hafi verið kynnt almenningi nógu snemma. Samkvæmt 3. tölul. 6. gr. laga nr. 7/1998 skuli Umhverfisstofnun vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær séu og hvar megi nálgast þær. Heimilt sé að gera skriflegar athugasemdir við tillögur stofnunarinnar innan átta vikna frá auglýsingu, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999. Starfsleyfistillaga leyfishafa hafi verið auglýst á tímabilinu 28. maí til 23. júlí 2015. Haldinn hafi verið kynningarfundur 24. júní s.á. í Duushúsi, Reykjanesbæ, þar sem tillagan hafi verið kynnt og fundargestum gefinn kostur á fyrirspurnum og umræðum. Fundurinn hafi verið auglýstur á vef Umhverfisstofnunar, í Ríkisútvarpinu og í vefútgáfu Víkurfrétta, sem sé staðarblað í Reykjanesbæ.

Á auglýsingartíma hafi borist fimm umsagnir. Þær hafi fjallað um efnisleg atriði tillögunnar, t.d. einstök losunarmörk og stjórnsýslu Umhverfisstofnunar. Tekin hafi verið afstaða til allra athugasemda í greinargerð sem birt hafi verið á vef Umhverfisstofnunar í kjölfar leyfisveitingarinnar. Tilteknar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni, flestar í beinu framhaldi af athugasemdunum.

Umhverfisstofnun bendi á að ákvörðun hafi ekki verið tekin í máli með því að auglýst sé tillaga að starfsleyfi. Tillaga að starfsleyfi sé aðeins ein varðan á þeirri leið. Mörg dæmi séu um það að stofnunin hafi gert breytingar á afstöðu sinni að fengnum athugasemdum við tillögu, enda sé það tilgangurinn með þessu verklagi. Með auglýsingu á starfsleyfistillögu sé einmitt verið að vinna í þeim anda að óskað sé eftir sjónarmiðum sem nýtist við endanlega ákvörðun. Tilhögun þessarar vinnu sé lýst í reglugerð nr. 785/1999 og hún sé því ekki háð sérstakri ákvörðun Umhverfisstofnunar. Rétt sé að geta þess að almenningur geti komið að athugasemdum á öðrum stigum málsins, svo sem vegna skipulagsmála og mats á umhverfisáhrifum. Stofnunin telji að hún hafi fylgt lögmætri málsmeðferð eins og henni sé lýst í reglugerð nr. 785/1999.

Kærendur haldi því fram að ógilda eigi útgáfu starfsleyfis leyfishafa þar sem að við vinnslu leyfisins hafi skort rannsókn á samlegðaráhrifum mengunar verksmiðju leyfishafa og annarra verksmiðja á Helguvíkursvæðinu með Keflavíkurflugvelli. Við vinnslu hins kærða starfsleyfis hafi Umhverfisstofnun talið að Keflavíkurflugvöllur væri ekki í það nánum tengslum við starfsemi leyfishafa að það hefði áhrif á útgáfu starfsleyfisins með tilliti til mengunar og annarra áhrifa sem taka þyrfti tillit til. Ekki hafi heldur komið fram athugasemdir um áhrif flugvallarins í mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin hafi beitt sér fyrir og muni áfram beita sér fyrir frekari mælingum á loftgæðum í Reykjanesbæ. Þannig komi til með að vera gefin út sameiginleg vöktunaráætlun á Helguvíkursvæðinu sem fyrirtæki á iðnaðarsvæðinu komi til með að vinna eftir, líkt og gert hafi verið á Grundartangasvæðinu. Drög að vöktunaráætlun leyfishafa hafi verið auglýst með drögum að starfsleyfi fyrirtækisins á opinberum auglýsingartíma.

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi gefið út starfsleyfi fyrir starfsemi Isavia á Keflavíkurflugvelli 21. ágúst 2015. Í kafla 8 í leyfinu sé fjallað um varnir gegn loftmengun og vöktun loftgæða frá flugvellinum. Þar komi m.a. fram að Isavia skuli með mælingum ganga úr skugga um að styrkur efna fari ekki yfir umhverfismörk utan athafnasvæðis flugvallarins, sbr. 21. gr. reglugerðar um loftgæði nr. 787/1999. Þá skuli Isavia fyrir 15. desember 2015 hafa samráð við heilbrigðisnefnd og gera tillögu um staðsetningu, gerð og fjölda mælitækja á svæðinu. Því sé ljóst að náið verði fylgst með loftgæðum.

Starfsleyfi leyfishafa hafi verið gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999. Í 20. gr. reglugerðarinnar komi fram að starfsleyfi skuli endurskoða á fjögurra ára fresti. Í grein 1.6 í starfsleyfi leyfishafa komi fram að skylt sé að endurskoða starfsleyfið ef forsendur rekstrarins breytist, t.d. ef mengun af hans völdum sé meiri en búast hafi mátt við þegar starfsleyfið hafi verið gefið út eða ef vart verði mengunar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir við útgáfu leyfisins. Jafnframt komi fram að leyfishafi skuli ætíð fara að gildandi lögum og reglugerðum, jafnvel þó svo að starfsleyfi hafi ekki verið endurskoðað. Ef í ljós komi að mengun frá verksmiðju leyfishafa komi til með að fara fram úr mörkum starfsleyfisins eða þeim mörkum sem mælt sé fyrir um í lögum og reglugerðum skuli endurskoða leyfið. Þá megi einnig benda á að nálægð verksmiðju leyfishafa við byggð hafi gefið tilefni til fremur strangra skilyrða í starfsleyfi, t.d. hvað varði losun þungmálma og annarra loftmengunarefna.

Í samræmi við framangreint hafni Umhverfisstofnun því að skortur á rannsókn á samlegðaráhrifum með Keflavíkurflugvelli skuli leiða til ógildingar ákvörðunar stofnunarinnar um útgáfu starfsleyfis til leyfishafa.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þeir hafi ekki sýnt fram á að skilyrði séu fyrir hendi til að ógilda hina kærðu ákvörðun. Leyfishafi hafi í hvívetna farið að settum reglum á öllum stigum undirbúnings verkefnisins og hafi starfsleyfið verið gefið út að lokinni athugun Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar á því að leyfishafi fullnægði öllum opinberum kröfum til starfsemi sinnar. Við gerð starfsleyfisins hafi verið tekið tillit til þó nokkurra athugasemda, m.a. frá kærendum, um þau sömu atriði og kæran sé reist á.

Að mati varnaraðila sé engin þörf á ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sbr. lög um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið nr. 21/1994. Verði orðið við slíkri kröfu sé fyrirsjáanlegt að verulegar tafir yrðu á málsmeðferðinni til tjóns fyrir leyfishafa. Stórar framkvæmdir kalli á mikinn undirbúning og mikil fjárútlát og við þær sé ávallt höfuðatriði að tímamörk standist. Leyfishafi hafi nú þegar varið vel á annað milljarð króna í verkefnið og væri sú fjárfesting að öllum líkindum glötuð yrði fallist á að leita álits EFTA-dómstólsins. Ætla verði íslenskum stjórnvöldum að vera nægilega vel að sér um reglur sem leiddar séu af Evrópureglum til að geta afgreitt kærumál án álitsumleitunar.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um gildi starfsleyfis sem gefið hefur verið út af Umhverfisstofnun vegna reksturs kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 1. apríl 2015.

Hefur kærandi meðal annars bent á að þörf sé á áliti EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins. Í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um heimildir dómara til að afla ráðgefandi álits EFTA- dómstólsins vegna mála sem rekin eru fyrir héraðsdómstólum, Félagsdómi og Hæstarétti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum kemur fram að í 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Segir svo að EFTA-ríkjunum sé veitt heimild í ákvæðinu til að takmarka rétt dómstóla sinna til að leita álits sem þessa við þá dómstóla sem kveði upp úrlausnir sem sæti ekki málskoti samkvæmt lögum. Þá er tekið fram að sú leið sé valin að leggja til að héraðsdómstólum verði veitt þessi heimild til jafns við Hæstarétt. Loks að taka verði tillit til þess að Félagsdómur kveði upp endanlega dóma á sínu sviði en á vettvangi hans geti reynt á atriði sem lúti að skýringu EES-reglna.

Hvorki er í nefndum lögum né frumvarpi vikið að úrskurðarnefndum, þó allnokkrar væru starfandi á þeim tíma, eða heimildum þeirra. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á fót með lögum nr. 130/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012. Á sama tíma fóru fram viðamiklar lagabreytingar, sbr. einkum lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Löggjafinn breytti hins vegar ekki lögum nr. 21/1994 af því tilefni. Verður ekki séð af framangreindu að úrskurðarnefndin geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og þykir rétt að árétta í því sambandi að úrskurðum nefndarinnar verður skotið til dómstóla, sem eftir atvikum geta leitað slíks álits.

Með lögum nr. 106/2000, með síðari breytingum, hafa viðeigandi gerðir Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum verið innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Er vísað til þessa í athugasemdum með frumvörpum þeim sem urðu að lögum nr. 106/2000 og breytingalögum, s.s. lögum nr. 138/2014. Hið kærða starfsleyfi telst leyfi til framkvæmda, sbr. f-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Við leyfisveitinguna bar Umhverfisstofnun því að gæta að skilyrðum 2. mgr. 13. gr. laganna þess efnis að leyfisveitandi skuli kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Að öðru leyti gilda þær málsmeðferðarreglur um veitingu starfsleyfis sem finna má í lögum og reglugerðum þar um.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. og 6. gr. sömu laga. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir slíkum rekstri sé hann talinn upp í fylgiskjali með lögunum, sbr. 1. mgr. 6. gr., en svo er í þessu tilviki, sbr. tölul. 6 í fylgiskjali I. Reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hefur verið sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Umhverfisstofnun er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem snúa að mengunarvörnum. Ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um hvernig staðið skuli að undirbúningi og  auglýsingu útgáfu starfsleyfis skv. 1. mgr. Vinna skuli tillögur, auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Einnig að heimilt sé að gera skriflegar athugasemdir við tillögur stofnunarinnar innan átta vikna frá auglýsingu. Nánar er fjallað um þessi atriði í 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 þar sem tiltekið er að auglýsa skuli á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði ef við eigi, að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Í 1. mgr. greinarinnar er jafnframt tekið fram að tryggja skuli að almenningur eigi greiðan aðgang að starfsleyfisumsóknum og skal umsókn liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar ásamt starfsleyfistillögu. Greind ákvæði gera beinlínis ráð fyrir því að tillaga að starfsleyfi liggi fyrir áður en veitt er tækifæri til athugasemda við þau drög. Hefur löggjafinn tekið til þessa atriðis skýra afstöðu hvort sem hin leyfisskylda starfsemi er háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Verður enda að gera ráð fyrir því að haldlítið sé að veita tækifæri til athugasemda nema fyrir liggi svo vel unnin tillaga að raunhæft sé fyrir almenning að kynna sér hana og gera eftir atvikum athugasemdir. Þá er ljóst að athugasemdir geta leitt til breytinga á starfsleyfi, enda felst það í orðanna hljóðan að tillaga er ekki endanleg.

Fyrir liggur að Umhverfisstofnun birti tillögu að hinu kærða starfsleyfi á heimasíðu sinni 28. maí 2015 og var þar tiltekið að frestur til athugasemda væri til 23. júlí s.á, eða átta vikur. Stofnunin birti jafnframt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 1. júní 2015 og var hún svohljóðandi: „Í samræmi við 6. gr. í I. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999, liggur nú frammi til kynningar tillaga að starfsleyfi fyrir Thorsil ehf., kt. 500210-1250, vegna kísilmálmverksmiðju við Berghólabraut 8 í Reykjanesbæ. Tillagan, ásamt fylgigögnum mun liggja frammi til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins Reykjanesbæ, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, á tímabilinu 1. júní 2015-23. júlí 2015. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 23. júlí 2015. Einnig má nálgast tillöguna og umsóknargögn á heimasíðu Umhverfisstofnunar, http://www.umhverfisstofnun.is.“ Auk starfsleyfistillögunnar voru tillaga að vöktunaráætlun, umsókn, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum og gögn vegna þess mats, niðurstöður loftdreifiútreikninga, matsskýrsla, sem og sérfræðiálit vegna loftgæða, gerð aðgengileg á vef Umhverfisstofnunar og á skrifstofu Reykjanesbæjar, eins og til var vísað í nefndri auglýsingu.

Auglýsing í Lögbirtingablaði verður að teljast opinber og uppfyllir auglýsing sú sem hér um ræðir þau skilyrði skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 að upplýsa um hvar nálgast megi tillöguna. Þá verður að telja að nægilega hafi verið greint frá efni tillögunnar í auglýsingunni með hliðsjón af því að tiltekið var um hvers konar verksmiðju væri að ræða og vísað var til heimasíðu Umhverfisstofnunar, en þar kom nánar fram hvers efnis tillagan væri, t.a.m. varðandi framleiðslumagn, auk þess sem upplýst var að mat á umhverfisáhrifum hefði farið fram og álit Skipulagsstofnunar þar um lægi fyrir. Þá mátti augljóst vera að Umhverfisstofnun væri útgefandi leyfisins og veitti þar með um það upplýsingar og tæki við athugasemdum.

Sá ágalli var hins vegar á málsmeðferðinni að frá birtingu auglýsingarinnar í Lögbirtingablaði 1. júní 2015 var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 23. júlí s.á. en ekki til átta vikna. Kemur þá til skoðunar hvort að birting Umhverfisstofnunar á tillögu að starfsleyfi ásamt fylgigögnum á heimasíðu stofnunarinnar uppfyllir áskilnað 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um að auglýsa skuli tillögu að starfsleyfi opinberlega, sbr. einnig fyrirmæli 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um að starfsleyfistillögu skuli auglýsa á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði. Eins og áður kom fram hefur auglýsing starfsleyfistillögu samkvæmt nefndum lögum það markmið að tryggja aðgang almennings að henni og gefa hinum almenna borgara tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir er varða umhverfi hans. Verður að telja að í opinberri auglýsingu felist að viðkomandi upplýsingar skuli koma fyrir augu almennings eftir leiðum sem líklegt sé að nái til sem flestra er gætu talið sig málið varða, án þess að upplýsinganna þurfi að leita sérstaklega. Birting á heimasíðu stofnunar getur varla talist falla undir þessa skilgreiningu, enda þótt heimasíðan sé öllum opin og þorri almennings hafi aðgang að veraldarvefnum. Frestur til athugasemda við starfsleyfistillögu var því ekki veittur í fullar áttar vikur frá auglýsingu um efni tillögunnar opinberlega, svo sem lögmælt er. Réttur almennings til athugasemda áður en ákvörðun er tekin er nátengdur rétti til andmæla, sem og skyldu stjórnvalda til að tryggja að mál hafi verið nægilega rannsakað áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Er þannig ekki hægt að útiloka að einhverjar þær athugasemdir hefðu getað komið fram innan átta vikna er hefðu getað breytt að einhverju leyti hinu kærða starfsleyfi. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að fella það úr gildi og verður því ekki frekar fjallað um efnislegar málsástæður kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

95/2016 Þeistareykjalína 1 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 til handa Landsneti hf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 19. ágúst 2016, voru stöðvaðar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 14. júlí og 16. ágúst 2016 og frekari gögn síðar.

Málavextir: Landsnet fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Skútustaðahreppur, Norðurþing og Þingeyjarsveit hafa veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nefndra lína sem öll hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Svo sem fram hefur komið kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða í máli þessu 19. ágúst 2016 og stöðvaði framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 innan Þingeyjarsveitar. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum sama dag í máli nr. 96/2016 voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 stöðvaðar að hluta innan sama sveitarfélags. Áður hafði úrskurðarnefndin kveðið upp bráðabirgðaúrskurði í málum nr. 46/2016 og nr. 54/2016 og er meðferð þeirra mála lokið. Með úrskurði í máli nr. 46/2016, uppkveðnum 10. október 2016, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, en með úrskurði í máli nr. 54/2016, uppkveðnum 17. s.m., var hafnað kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Norðurþings um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1. Vegna eðlis og umfangs nefndra mála hefur úrskurðarnefndin ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til sameiningar þeirra.

Hinar kærðu leyfisveitingar eiga sér nokkurn aðdraganda. Í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem staðfest var af umhverfisráðherra 16. janúar 2008, er tekið fram að vegna áforma um orkufrekan iðnað við Húsavík sé unnið að undirbúningi virkjunar háhitasvæðanna á Þeistareykjum og í Gjástykki ásamt frekari virkjunum við Kröflu og í Bjarnarflagi. Í svæðisskipulaginu voru m.a. kynntar mögulegar leiðir háspennulína á svæðinu. Vegna nefndra áforma fór fram frekari gerð skipulagsáætlana sem og mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar voru.

Gerð var breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1995-2015 og auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2011, en nýtt Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 var svo samþykkt í sveitarstjórn 21. febrúar 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí s.á. Deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar í Skútustaðahreppi var samþykkt af sveitar-stjórn 14. nóvember 2013 og á fundi hennar 8. maí 2014 voru staðfest svör skipulagsnefndar við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní s.á. Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 var samþykkt í sveitarstjórn 16. nóvember 2010 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2011. Breyting á því tók gildi 21. febrúar 2014, einnig með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, og deiliskipulag fyrir 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Þá var Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 samþykkt í sveitarstjórn 24. febrúar 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí s.á. Loks var deili-skipulag Þeistareykjavirkjunar samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar 8. mars 2012 og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl s.á.

Í mars 2008 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna háspennulína, 220 kV, frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Samþykkti stofnunin áætlunina með athugasemdum 29. maí s.á. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Matsáætlun framkvæmdaraðila vegna þess mats var samþykkt af Skipulagsstofnun með athugasemdum 6. nóvember 2009. Frummatsskýrslur vegna fyrir-hugaðra framkvæmda, þ.e. nefndra háspennulína, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og álvers við Bakka, sem og frummatsskýrsla vegna sameiginlegs mats framangreindra fram-kvæmda, voru allar auglýstar samhliða með athugasemdafresti til 14. júní 2010. Í kjölfarið voru matsskýrslur sendar Skipulagsstofnun og 24. nóvember s.á. lágu fyrir lögbundin álit hennar á mati á umhverfisáhrifum hverrar framkvæmdar fyrir sig sem og á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þeirra. Er í álitunum gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem metnar eru, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur einnig farið fram.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum framkvæmdanna „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ á umhverfið er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum álitsins og eru þær dregnar saman svo: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á Náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðar um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Þá telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa talsvert neikvæð og varanleg áhrif á Leirhnjúkshraun. Skipulagsstofnun telur ljóst að skipulagðar ferðir fólks um láglendið milli Lambafjalla í vestri og Gæsafjalla til Bæjarfjalls í austri byggja m.a. á því að landið er lítt snortið og fólk upplifir fjallasalinn sem víðerni. Háspennulínur verða samsíða göngu- og reiðleiðum um Hólasand að Þeistareykjum og telur Skipulagsstofnun að koma línanna muni breyta verulega upplifun fólks frá því sem verið hefur. Því telur Skipulags-stofnun að ferðamenn sem vilja m.a. njóta víðernisins þar verði fyrir verulega neikvæðum áhrifum af fyrirhuguðum háspennulínum. Skipulagsstofnun telur ljóst að á tveimur línuleiðum sem hvor um sig eru um 60 km langar þarf að leggja 95 km langt slóðakerfi og leggja plön og háspennumöstur sem verða að miklu leyti á grónu landi. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar verði umfangsmiklar og muni hafa talsvert neikvæð áhrif á gróður. Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra háspennulína á fuglalíf verði helst vegna áflugs rjúpna á línur á þeim svæðum sem rjúpan er þéttust. Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði: 1. Landsnet þarf að tryggja að framkvæmdir auki ekki eyðingu gróðurs á svæði sem nú er eitt virkasta rofsvæði landsins. 2. Ef votlendi verður raskað þarf Landsnet að endurheimta a.m.k. jafnstórt votlendissvæði og það sem raskast. 3. Landsnet þarf að tryggja að sjaldgæfum plöntum við Þeistareyki verði hlíft eins og kostur er og að staðsetning háspennumastra og lega slóða taki mið af staðsetningu þeirra og einnig umferð meðan á framkvæmdum stendur. Þá þarf Landsnet að tryggja að framkvæmdir trufli ekki varp fálka á svæðinu með því að halda framkvæmdum utan varptíma. 4. Landsnet þarf í samráði við Fornleifavernd ríkisins að tryggja að ekki verði raskað fimm fornleifum í landi Þeistareykja og átta fornleifum nálægt Bakka, sem lýst er í matsskýrslu. 5. Landsnet þarf að leggja fram áætlun um rannsóknir á umfangi áflugs fugla á raflínur og að niðurstöður rannsóknanna verði bornar undir Umhverfisstofnun.“ 

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 7. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, 220 kV háspennulínu. Bókað var að sótt væri um leyfið á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Einnig að framkvæmdin væri matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Sótt sé um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, þar sem gert sé ráð fyrir háspennulínum, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélagsins Norðurþings sé einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni. Meðfylgjandi séu gögn vegna umsóknarinnar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. í mars 2016, sem sé aðalþáttur gagnanna, sé tekin saman f.h. Landsnets. Vísað sé til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni. Lýsingin sé þannig hluti umsóknarinnar. Þá var eftirfarandi bókað: „Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka (þó ekki sé fyrirhugað að reisa álver á Bakka), Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Þeistareykjalínu 1 verði samþykkt og jafnframt verði skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.“ Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 13. apríl 2016 var fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar staðfest og að auki bókað að sveitarstjórn samþykkti umsókn Landsnets vegna Þeistareykja-línu 1 og fæli skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við áðurnefnda reglugerð.

Skipulags- og byggingarfulltrúi gaf umrætt framkvæmdaleyfi út 28. apríl 2016, en það var afturkallað 25. maí s.á. Leyfið var svo gefið út að nýju 14. júní 2016 og var auglýsing þess efnis birt í Morgunblaðinu 15. s.m., en auglýsing mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu. Ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt framkvæmdaleyfis var kærð til úrskurðarnefndarinnar 12. júlí 2016 svo sem áður hefur komið fram.

Í framkvæmdaleyfinu eru tiltekin gögn vegna leyfisumsóknar og skipulagslegar forsendur leyfisveitingar. Þar á meðal er vísað til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum vegna fram-kvæmdanna sem og mats á umhverfisáhrifum háspennulína. Tiltekið er að útgáfa leyfisins sé háð því að skilyrði Skipulagsstofnunar, sem fram komi í áliti hennar frá 24. nóvember 2010, séu uppfyllt. Auk eftirlits skipulags- og byggingarfulltrúa þá muni Umhverfisstofnun hafa sérstakt eftirlit með framkvæmdunum.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Stjórnsýslulög hafi verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdin sé á svæði á náttúruminjaskrá, en jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé á þeirri skrá vegna fjölbreyttra jarðhitamyndana, gufu- og leirhvera, útfellinga í norðurhlíðum Bæjarfjalls og við Bóndhól. Á hverasvæðinu sé jafnframt að finna sérstæðar jarðhitaplöntur. Aðeins á einum stað á landinu séu fleiri brennisteinshverir en þar. Fyrirhuguð línuleið liggi um vesturjaðar þess svæðis sem sé á náttúruminjaskrá og hluti áhrifasvæðis línunnar vestan Þeistareykja fari inn á suðvesturhorn svæðis sem sé á náttúruminjaskrá. Að auki muni hluti línanna liggja yfir hverfisverndað svæði á Þeistareykjum og í Þeistareykjahrauni, sem njóti einnig sérstakrar verndar sem eldhraun skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðin séu lítt röskuð og hafi mjög hátt verndargildi samkvæmt mati á umhverfis-áhrifum frá 2010.

Áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum á svæði á náttúruminjaskrá skuli, skv. 37. gr. náttúruverndarlaga, leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1. Hafi því sveitarstjórn borið að leita umsagna framangreindra aðila.

Í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga komi fram að ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega, fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2010 hafi Umhverfisstofnun veitt afar neikvæða umsögn, en umsagna hafi ekki verið leitað áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið veitt. Sé um verulegan annmarka á málsmeðferð sveitarstjórnar að ræða þar sem hún hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Sveitarstjórn hafi einnig borið að gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga um svæði er njóti sérstakrar verndar, með því að líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Ljóst virðist af öllum gögnum máls að framkvæmdin muni hafa mikil og varanleg umhverfisáhrif, ekki síst við Þeistareyki og í Þeistareykjahrauni. Hafi sveitarstjórninni borið, með vísan til varúðarreglu umhverfisréttarins, að láta náttúruna njóta vafans.

Fram komi í leyfisbeiðni að undirstöður undir hvert mastur verði 100-200 m². Sé því um töluvert svæði að ræða, auk þess svæðis sem fari undir línuvegi. Allt þetta rask sé svo mikið í tilfelli Þeistareykjahrauns og Þeistareykja að sveitarstjórninni hefði borið að rannsaka málið ítarlega og sjálfstætt áður en hún tók ákvörðun, m.a. með könnun á því hvort ekki væri hægt að flytja þá orku sem um ræði með öðrum og betri aðferðum með tilliti til umhverfis, þar með talið að skoða til hlítar þann kost að leggja jarðstreng í stað loftlína bæði með tilliti til áhrifa á umhverfi og kostnaðar. Þá komi fram í leyfisumsókn að fyrirhugað sé að leggja línuvegi en engar upplýsingar sé að finna þar um heildarvegalengd þeirra. Einnig komi fram að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum.

Í 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé áskilið að við umfjöllun umsóknar um framkvæmda-leyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynni sveitarstjórn sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanni hvort hún sé sú sem lýst sé. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skuli sveitarstjórn, þegar hún hafi gengið úr skugga um að framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu, taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Við töku ákvörðunarinnar hafi hins vegar ekki farið fram nein raunveruleg athugun á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og farið hefði í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Hvað þá að rökstudd afstaða hafi verið tekin til þessa álitaefnis.

Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands um það að ekki skipti máli þótt framkvæmd sú sem sótt sé um sé minni að umfangi en sú sem metin hafi verið, sbr. dóm réttarins frá 9. júní 2005, mál nr. 20/2005. Túlka megi niðurstöðu dómsins þannig að sé búið að meta áhrif framkvæmdar, sem síðan breytist áður en nokkurt leyfi hafi verið gefið út, beri að framkvæma nýtt mat á umhverfisáhrifum þótt margt megi nota úr eldra mati. Það mat sem fylgt hafi leyfisumsókn, sem og álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember s.á., varði sameiginlegt mat á framkvæmdum fleiri aðila, Alcoa og Landsvirkjunar. Hætt hafi verið við álver á Bakka árið 2012 en ekki verði á neinn hátt séð að sveitarstjórnin hafi litið til þessa við þá könnun er henni hafi borið að gera í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Hljóti framangreindar breytingar á fyrirætluðum framkvæmdum þó að hafa gefið sérstakt tilefni til sjálfstæðrar og vandaðrar könnunar á því hvort um sömu framkvæmd væri að ræða og mat á umhverfisáhrifum frá 2010 hafi lotið að. Af umræddri matsskýrslu, er sveitarstjórn hafi vísað til í ákvörðun sinni, megi glöggt ráða að um aðra framkvæmd sé að ræða en þá sem Landsnet hafi sótt um til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar. Nægi í raun að lesa samantekt á fyrstu fimm síðum matsskýrslunnar til að sjá að svo sé. Þannig bendi ýmislegt til þess að þeim mannvirkjum sem framkvæmdaraðili hafi óskað leyfis fyrir sé ætlað annað hlutverk og séu annars eðlis en þær framkvæmdir er lagðar hafi verið til grundvallar við gerð áðurnefnds mats á umhverfisáhrifum frá 2010. Minni framkvæmd geti nú, sex árum eftir mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrri, haft allt önnur umhverfisáhrif vegna þess að önnur tækni sé nú möguleg við þá raforkuflutninga sem um ræði. Þannig séu jarðstrengir nú mögulegur og raunhæfur valkostur fyrir þann raforkuflutning sem ráðgerður sé frá Kröflu og Þeistareykjum til Bakka. Séu þeir því valkostur í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Ekki sé hægt að líta svo á að hin kærða leyfisveiting sé framhald og lokaáfangi málsmeðferðarinnar, sem fram hafi farið á árunum 2008 til og með 2010, í skilningi laga nr. 106/2000. Vísa megi til dóms Evrópudómstólsins í máli C-50/09 í samningsbrotamáli gegn Írlandi um þá túlkun tilskipunar 85/337/EBE, nú 2011/92/ESB, sem íslensku lögin séu innleiðing á, að málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum ljúki með ákvörðun um leyfi. Þannig sé um málsmeðferð að ræða sem hefjist með tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ljúki þegar leyfisveitandi taki ákvörðun um að veita eða hafna leyfi. Ef þetta sé borið saman við málsmeðferð þessa máls ætti sú framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um árið 2008 að hafa lokið með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem kært hafi verið.

Af framangreindu að dæma hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar haft ærna ástæðu til að kanna það alveg sérstaklega hvort hér væri í raun um sömu framkvæmdina að ræða. Auk þess hefði sveitarstjórn mátt vera kunnugt um að kærandi hafi lagt fram kröfu til Skipulagsstofnunar um að ákvörðun yrði tekin um nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir háspennulínur frá Kröflu að Bakka með vísan til þess að um nýja framkvæmd væri að ræða. Kröfunni hefði hinsvegar verið vísað frá þar sem stofnunin hefði ekki talið kærendur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í leyfisumsókn sé sagt að heildarefnisþörf vegna framkvæmdarinnar Þeistareykjalínu 1 sé 75.000 m³. Sé það til viðbótar 60.000 m³ fyrir Kröflulínu 4 eftir því sem næst verði komist. Segi í umsókn að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum og sé vísað til korts í viðauka, sem ekki sé sérstaklega vísað til í hinni kærðu ákvörðun. Ekkert mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram vegna þeirrar efnistöku sem fyrirhuguð sé vegna framkvæmdarinnar. Þó sé um að ræða nýjar námur og afar viðkvæmt svæði með hátt verndargildi. Verði því að ætla að umrætt magn efnistöku á þeim stað sem hér um ræði hefði þurft að tilkynna til Skipulagsstofnunar og óska ákvörðunar hennar um matsskyldu. Það hafi ekki verið gert.

Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum þeirra. Eitt elsta fordæmi um þetta hafi Evrópudómstólinn sett með dómi sínum 24. október 1996 í máli C-72/95. Síðari dóma-framkvæmd Evrópudómstólsins á sviðinu sé einnig afdráttarlaus um að hafna beri öllum tilraunum til að þrengja gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar borið við undirbúning ákvörðunar sinnar að taka mið af því markmiði umhverfislöggjafar og skýringarkostum hennar.

Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til samþykkts aðalskipulags Þingeyjarsveitar. Hinsvegar hafi ekki, áður en ákvörðunin hafi verið tekin, verið kannað hvort framkvæmdin sem sótt hafi verið um væri í samræmi við lögmæta og umhverfismetna framkvæmdaáætlun leyfishafa, þá einkum áætlun sem metin hefði verið 2014 eða 2015, kerfisáætlun 2014-2025 eða 2015-2026, en engar áætlanir fyrir þann tíma hefðu verið umhverfismetnar í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006. Þessi málsmeðferð stangist á við tilgang og meginmarkmið þeirra laga og laga nr. 106/2000 um að mat fari fram sem fyrst í ferlinu. Þá stangist þetta á við dómafordæmi Evrópudómstólsins, m.a. dóm í máli nr. C-295/10, um að mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdar geti ekki komið í stað umhverfismats áætlana og að síðargreinda matið skuli hafa farið fram í síðasta lagi samhliða mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sjálfrar.

Umhverfismat áætlunar um raflínur, þ.e. kerfisáætlunar, hafi ekki í neinum skilningi farið fram áður en meint mat á umhverfisáhrifum vegna þeirrar framkvæmdar er hin kærða ákvörðun hafi heimilað hafi farið fram. Sömu sjónarmið komi fram í áfrýjuðum dómi héraðsdóms Reykjaness frá 22. júlí 2016 í máli landeigenda í Vogum gegn leyfishafa í máli nr. E-1121/2015. Þá sé bent á að íslenska ríkið hafi ekki innleitt ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB um heimild til samþættingar umhverfismats áætlana og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmdar og geti því ekki borið fyrir sig slíka heimild gagnvart borgurunum.

Leyfishafi telji að máli skipti að stjórnvöld hafi gert samning um ívilnanir til fyrirtækisins PCC vegna skatta og gjalda. Kærandi komi ekki auga á hvernig slík samningagerð eða önnur stefnumörkun hafi áhrif á skyldur sveitarfélagsins til þess að fara að lögum. Fyrir liggi opinberlega að rafmagn til PCC megi flytja með ýmsum hætti og hafi Alþingi m.a. samþykkt með þingsályktun stefnu um lagningu raflína sem styðjast beri við í því efni. Þar sé einmitt talað um að meta skuli jarðstrengjakost. Þá liggi fyrir að áætlanir 2010 hafi verið um tífalda raforkuflutninga miðað við það sem nú sé fyrirsjáanlega þörf á, svo vissulega séu önnur sjónarmið, m.a. lagaleg, sem taka þurfi til skoðunar en hafi verið fyrir sex árum.

Þingeyjarsveit sé eigandi jarðarinnar Þeistareykja. Á jörðinni vinni Landsvirkjun nú að smíði svokallaðrar Þeistareykjavirkjunar, jarðvarmavirkjunar, sem samkvæmt leyfi Orkustofnunar megi vera allt að 100 MW. Hin kærða leyfisveiting sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sé vegna framkvæmda innan jarðarinnar Þeistareykja. Vegna þessa leiki verulegur vafi á um hæfi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. m.a. tilskipun 2014/52/ESB, sem sé bindandi fyrir íslenska ríkið, og reglur stjórnsýslulaga. Þannig hafi sveitarfélagið beina fjárhagslega hagsmuni. Annars vegar vegna þess að ætla megi að það hafi tekjur af nýtingu Landsvirkjunar á jarðhita í landi sem sé þinglýst eign sveitarfélagsins, en ekki síður vegna þess að leyfishafi í máli þessu hafi, samkvæmt því sem fram hafi komið undir rekstri kærumálsins, þegar greitt landeigendum fyrir afnot lands vegna loftlínanna. Hljóti þessir fjárhagslegu og verulegu hagsmunir sveitarfélagsins sem landeiganda að varpa talsverðum vafa á hlutleysi þess við ákvarðanir er tengist þeim framkvæmdum sem um ræði.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Þingeyjarsveit krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins verði hafnað. Á vegum sveitarfélagsins og stjórnvalda á sviði umhverfis- og skipulagsmála hafi verið fjallað um forsendur og skilyrði að baki fram-kvæmdinni Þeistareykjalínu 1 með ýmsum hætti á undanförnum 20 árum. Við þá umfjöllun hafi verndargildi einstakra svæða innan sveitarfélagsins verið til umfjöllunar og verið gætt að öðrum heimildum eins og við hafi átt.

Útgáfa framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda hvíli á 13. og 14. gr. skipulags-laga nr. 123/2010 og skoðist ákvæðin sem sérákvæði. Þingeyjarsveit vísi til 13. gr. sem fjalli um framkvæmdaleyfi almennt. Hluti 13. gr., eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 109/2015, skoðist sem yngri lög gagnvart náttúruverndarlögum nr. 60/2013.

Kærandi vísi til þess að ákvæði náttúruverndarlaga hafi verið brotin. Óljóst sé að lögin hafi þá þýðingu í máli vegna framkvæmdaleyfis sem kærandi byggi á. Í 91. gr. laganna sé fjallað um ágreining um framkvæmd þeirra. Þar sé gert ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir Umhverfisstofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að aðrar ákvarðanir skuli kærðar til ráðherra, sem fari með yfirstjórn náttúruverndarmála skv. 13. gr. laganna. Í máli því sem nú sé til meðferðar falli það utan heimilda úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fjalla um málsástæður kæranda sem varði framkvæmd náttúruverndarlaga.

Kærandi vísi einnig til 13. gr. skipulagslaga, sbr. breytingarlög nr. 109/2015. Breytingarnar séu hluti af lagabreytingum sem gerðar hafi verið samhliða breytingum á náttúruverndarlögum. Þar segi að ef óvissa sé um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á tiltekin vistkerfi og jarðminjar, sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd eða minjar sem skráðar séu á C-hluta náttúruminjaskrár skv. 37. gr. sömu laga, skuli umsækjandi um framkvæmdaleyfi afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar. Sveitarstjórn sé heimilt að binda framkvæmdaleyfi skilyrðum sem þyki nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljist alvarleg eða óafturkræf áhrif skuli taka mið af verndarmarkmiðum 2. og 3. gr., sbr. 9. gr. náttúruverndarlaga.

Ákvæði 13. gr. skipulagslaga sé sérregla um framkvæmdaleyfi sem gangi framar eldri lagaákvæðum náttúruverndarlaga sem feli í sér óljósar kröfur um frekara umsagnarferli. Við umfjöllun Þingeyjarsveitar um umsókn um framkvæmdaleyfi hafi ekki verið til staðar óvissa um framkvæmdina. Áhrif hennar hafi verið vel þekkt eftir mat á umhverfis-áhrifum. Þess skuli einnig getið að umsagnir fagstofnana um mögulega lagnaleið hafi farið fram a.m.k. fjórum sinnum. Fyrst hafi verið framkvæmt mat við gerð svæðisskipulags fyrir háhitasvæði í Þingeyjarsýslum á árinu 2007, í annað sinn við gerð Aðalskipulags Þingeyjar-sveitar 2010-2022, síðan við málsmeðferð deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar og loks við mat á umhverfisáhrifum. Þá sé framkvæmdin hluti af öðrum áætlunum sem viðkomandi stofnanir hafi veitt umsagnir um, t.d. kerfisáætlun Landsnets. Það sé mistúlkun á lögum að telja að sömu aðilarnir ættu að veita umsagnir í fimmta eða sjötta skiptið.

Málsástæður kæranda um að ekki hafi verið fylgt ákvæðum náttúruverndarlaga standist ekki. Þeistareykir séu á náttúruminjaskrá og um svæði á C-hluta náttúruminjaskrár gildi 37. gr. náttúruverndarlaga, sbr. m.a. síðari hluti 3. mgr. þar sem fram komi að áður en leyfi sé veitt skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skuli gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr.

Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 hafi verið staðfest 20. júní 2011. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar skilgreind. Í aðal-skipulaginu sé vísað sérstaklega til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Þá hafi verið samþykkt deiliskipulag vegna Þeistareykjavirkjunar er birt hafi verið í B-deild Stjórnar-tíðinda 27. apríl 2012. Deiliskipulagið taki til skipulagssvæðis umhverfis Þeistareykjavirkjun og sé þar gerð grein fyrir Þeistareykjalínu 1 og legu hennar að því marki sem hún liggi innan deiliskipulagssvæðisins, sem sé 76,5 km² að stærð. Að því marki sem Þeistareykjalína 1 liggi innan Þingeyjarsveitar á hverfisverndarsvæði sé sá hluti innan nefnds deiliskipulagssvæðis.

Athugasemdir kæranda feli að verulegu leyti í sér upptalningu á upplýsingum um stöðu Þeistareykja, og annarra svæða sem kærandi vísi til, gagnvart náttúruverndarlögum og verndargildi þeirra. Að verulegu leyti hafi þær upplýsingar og greining á þeim einmitt orðið til í undanfarandi málsmeðferð vegna svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, við gerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, deiliskipulags fyrir Þeistareykjasvæði og mats á umhverfis-áhrifum framkvæmda á svæðinu, auk rannsókna tengdum nýtingu og mannvirkjagerð.

Ekki hafi verið óskað eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við meðferð sveitarfélagsins á umsókn um hið kærða leyfi. Þá hafi ekki heldur verið óskað eftir slíkum umsögnum við gerð aðalskipulags eða deiliskipulags. Á það sé bent að svæði við Þeistareyki nr. 533 á náttúruminjaskrá sjáist m.a. á skipulagsuppdrætti deiliskipulags við Þeistareyki en umsótt framkvæmd feli ekki í sér framkvæmdir innan þess svæðis. Sé einnig vísað til myndar 3.4. í greinargerð skipulagsins og umsagnar Umhverfisstofnunar sem fylgi greinargerð þess, en þar komi fram að borsvæði sé á náttúruminjasvæðinu. Borsvæðið tengist hins vegar ekki framkvæmd Landsnets. Þá sé bent á umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga.

Kærandi byggi á því að 14. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við ákvörðun Þingeyjar-sveitar en einkum hafi þar vantað upp á rannsókn sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með umsókn Landsnets hafi fylgt ítarleg lýsing framkvæmdar en þar komi m.a. fram að um sé að ræða eina háspennulínu í stað tveggja, sbr. mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2010. Ekki sé með nokkrum hætti um að ræða eðlismun á framkvæmdum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, þar sem meginrök fyrir niðurstöðu hafi hvílt á því að nýr framkvæmdaraðili hafi að einhverju leyti ætlað að nota aðra tækni við framleiðslu en sá er áður hafði unnið að mati á umhverfisáhrifum vegna umfangsmeiri framleiðslu.

Með því að staðfesta tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 7. apríl 2016 á fundi sínum 13. s.m. hafi sveitarstjórn tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Það hafi hún gert m.a. með bókun sinni um að framkvæmd félli að áliti stofnunarinnar og að fyrir lægi að ekki væri fyrirhugað að reisa álver á Bakka. Bókunin hafi vísað til þess að framkvæmdin, eins og henni hafi verið lýst í fyrirliggjandi umsókn leyfishafa, teldist falla undir þá framkvæmd sem mat á umhverfisáhrifum hafi varðað og hafi verið lagt til að framkvæmdaleyfi yrði veitt. Sveitarfélagið geti ekki fallist á þau rök kæranda að það hafi kallað á frekari umfjöllun, hvað þá að ástæða hafi verið til að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi á þeirri forsendu að leyfisumsóknin lýsi umfangsminni framkvæmd en matið hafi tekið til. Slík niðurstaða væri í hæsta máta órökrétt.

Það sé Skipulagsstofnunar að endurskoða matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000, en ekki sveitarfélags sem veiti framkvæmdaleyfi. Skipulagsstofnun hafi einnig veitt álit vegna mats á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Þá hafi kærandi krafist endur-skoðunar matsins, sbr. ákvarðanir um endurskoðun umhverfismats dags. 31. ágúst 2015 og 8. september s.á. Skipulagsstofnun hafi ekki séð ástæðu til að endurskoða matsskýrsluna.

Vísað sé til þess í kæru að deiliskipulag fyrir framkvæmdinni hafi ekki legið fyrir, andstætt ákvæðum skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Þingeyjarsveit árétti að náttúruverndarlög fjalli ekki um kröfur til gerðar deiliskipulags. Um helmingur framkvæmdarinnar sé þó innan deiliskipulagðs svæðis. Í samræmi við 5. mgr. 13. skipulagslaga sé ekki fortakslaus skylda til að deiliskipulag liggi fyrir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá sé ekki fortakslaus skylda til þess að grenndarkynning fari fram, enda sé gerð grein fyrir framkvæmd í aðalskipulagi og ítarlega fjallað um hana þar.

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt kröfur rannsóknarreglu við útgáfu framkvæmdaleyfis. Umfjöllun um framkvæmdina hafi verið á borði skipulagsnefndar með ýmsum hætti á undanförnum árum, m.a. við samþykkt aðalskipulags Þingeyjarsveitar á árinu 2011 og á kynningarfundum áður en framkvæmdaleyfisumsókn hafi komið til meðferðar. Með umsókn leyfishafa fylgi lýsing framkvæmdarinnar. Þingeyjarsveit hafi tekið rökstudda afstöðu til málsins með þeim hætti sem nægjanlegt hafi verið, enda bersýnilegt að framkvæmdin væri nánast helmingun á þeirri framkvæmd sem hefði verið metin. Þetta hefði ekki kallað á ítarlegri rökstudda afstöðu en hreppurinn hefði bókað um. Það sé í grundvallar-atriðum jákvætt ef framkvæmdaraðili geti minnkað umfang framkvæmdar sem mat á  umhverfisáhrifum hafi verið gert fyrir, sérstaklega ef álit Skipulagsstofnunar feli í sér að framkvæmd hafi í för með sér mikil umhverfisáhrif og þar lagðar til mótvægisaðgerðir. Ekki verði séð að lagarök standi til þess að nýtt mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram við slíkar aðstæður, enda sé eðli framkvæmdarinnar hið sama. Ekki sé þáttur í rannsóknarskyldu sveitarfélags að endurskoða framkvæmd mats á umhverfisáhrifum, en málsástæður kæranda lúti í raun að því.

Loks sé sveitarfélögum falið vald að íslenskum lögum til að fjalla um framkvæmdaleyfis-umsóknir og sæti það ekki takmörkunum vegna hagsmuna sveitarfélagsins, beinna eða óbeinna. Ábyrgð sveitarfélags og fjárhagslegir hagsmunir séu verulegir við framkvæmd skipulagsvalds, enda felist í því ákvarðanir um þróun byggðar og landnotkunar innan alls sveitarfélagsins. Við skipulagningu atvinnulóða á landi sveitarfélags, lóðaúthlutun og afgreiðslu byggingarleyfa síðar geti sveitarfélag átt rétt til tug- eða hundruð milljóna lóðagreiðslna og lóðarleigu í kjölfarið. Kærandi vísi til tilskipunar 2014/52/ESB sem vísi til þeirrar stöðu þegar lögbært stjórnvald sé jafnframt framkvæmdaraðili, en um það sé ekki að ræða í þessu tilviki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir þær athugasemdir við framkomna kæru að dregin sé upp röng mynd af málinu. Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem staðið hafi í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025, sem unnið hafi verið í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Auk þessa sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og sé þessa vandlega getið í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálf-stæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 auk sameiginlegs mats með öðrum tengdum framkvæmdum, sbr. tvö álit Skipulagsstofnunar, dags. 24. nóvember 2010. Loks hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets þar sem m.a. sé fjallað um áformaðar framkvæmdir leyfishafa. Þessir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Kærandi hafi ekki nýtt sér þennan lögbundna rétt sinn heldur komið með athugasemdir sínar eftir að samráðs-ferlum hafi verið lokið. Með þessu hafi hann sýnt af sér tómlæti sem ekki verði litið framhjá í málinu.

Framkvæmdin sé m.a. tilkomin vegna opinberrar stefnumörkunar stjórnvalda um upp-byggingu iðnaðar með nýtingu virkjunarkosta á svæðinu, en fyrir liggi m.a. viljayfirlýsingar stjórnvalda og opinberar áætlanir um aðkomu að framkvæmdum tengdum iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þannig sé í stefnumótandi byggðaáætlun og lögum nr. 41/2013 um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, kveðið á um stuðning og heimildir til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á svæðinu. Með hliðsjón af lagaskyldum sínum samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 til að tengja alla þá sem eftir því leita hafi leyfishafi m.a. gengið frá samningum við annars vegar Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar og hins vegar PCC vegna flutnings raforku til verksmiðju félagsins að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Þessir aðilar eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af framkvæmdunum. Þjónusta við starf-semi þessara aðila sé einnig grundvöllur að uppbyggingu innviða á svæðinu og því gildi það sama um stjórnvöld sem tengist innviðauppbyggingunni fjárhagslega. Ekki verði séð að þeim hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða gæta hagsmuna sinna.

Í lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets sé kveðið á um að hlutverk félagsins sé að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Í raforkulögum sé m.a. kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki en því beri að tengja alla þá sem eftir því sækist við flutningskerfið enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því.

Í ársbyrjun 2007 hafi samvinnunefnd um svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum hafið störf og hafi fulltrúar frá orkufyrirtækjum verið henni til ráðgjafar. Hafi svæðisskipulagið verið unnið með hliðsjón af þá nýjum lögum nr. 105/2006. Eftir að skipulagskostir hafi verið skilgreindir hafi verið lagt mat á umhverfisáhrif þeirra. Samvinnunefndin hafi síðan mótað skipulagsdrög á grundvelli þess mats. Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 hafi verið staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008 en í skipulaginu séu afmörkuð landsvæði fyrir flutningslínur. Hafi verið unnið samkvæmt nefndu svæðisskipulagi síðan.

Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi hlotið umfjöllun í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Sameiginlegt mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Skipulagsstofnun hafi birt álit sitt á matsskýrslum í nóvember 2010, annars vegar á mati á umhverfisáhrifum álsvers á Bakka, háspennulína og virkjana við Kröflu og á Þeistareykjum og hins vegar mati á 220 kV háspennulínum frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Þannig hafi framkvæmdir leyfishafa sætt bæði sameiginlegu mati með öðrum framkvæmdum og sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda leyfis-hafa einna og sér. Framkvæmdaáform leyfishafa hafi ekki breyst að neinu ráði frá mati á umhverfisáhrifum. Þær óverulegu breytingar sem fyrirhugaðar séu hafi verið tilkynntar Skipulagsstofnun sem hafi fjallað um þær í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Því hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 20/2005, sem kærandi vísi til, ekkert fordæmisgildi varðandi framkvæmdir leyfishafa sem hér séu til umfjöllunar.

Um áfangaskipta framkvæmd sé að ræða eins og fram komi í áliti Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Þær framkvæmdir sem komi til framkvæmda í þessum áfanga séu háspennu-línur sem í mati á umhverfisáhrifum hafi verið tilgreindar sem Hólasandslína 2, Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1. Þar til tengivirki verði reist á Hólasandi teljist Hólasandslína 2 hluti af Kröflulínu 4 og sé því ekki tilgreind sérstaklega. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í fullu samræmi við þá áfangaskiptingu sem gerð hafi verið grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hvað varði efnistöku og slóðagerð hafi verið fjallað um þau atriði í mati á umhverfisáhrifum.

Í apríl 2016 hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 í samræmi við ákvæði raforkulaga. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar uppfylli skilyrði 9. gr. a og b laganna. Nánar tiltekið komi fram í ákvörðuninni að stofnunin hafi metið allar framkvæmdir framkvæmdaáætlunarinnar með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku og sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdir áætlunarinnar uppfylli nefnd markmið raforkulaga. Í köflum 5.2.2 og 5.2.3 í framkvæmdaáætluninni sé fjallað um línur vegna afhendingastaðar á Bakka og tengingar Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfi. Kerfisáætlun Landsnets hafi hlotið umfjöllun í samræmi við lög nr. 105/2006.

Kærandi haldi því fram að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi borið, áður en leyfið yrði veitt, að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag um Þeistareykjalínu 1.

Þessum skilningi sé alfarið mótmælt. Náttúruverndarlög hafi tekið gildi 15. nóvember 2015 en matsferli lögboðins mats á umhverfisáhrifum hafi lokið fyrir gildistöku laganna. Skipulags-breytingum hafi einnig verið lokið í gildistíð eldri laga. Umsagnarferli hafi því verið lokið áður en nýju lögin hafi tekið gildi. Með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á verndar-ákvæðum eldri náttúruverndarlaga með 61. gr. laga nr. 60/2013, sbr. lög nr. 109/2015, hafi tilgangurinn verið að kveða á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Lögskýringargögn séu þó ekki skýr en ljóst sé af 3. mgr. 61. gr. laganna að öðru fremur sé átt við framkvæmdir sem ekki séu háðar mati á umhverfisáhrifum, enda hafi framkvæmdir sem háðar séu mati farið í gegnum hið sérstaka matsferli þar sem umsagna sé aflað. Þá sé ljóst að löggjafinn hafi ekki ætlast til þess að um tvíverknað yrði að ræða enda beri ekki að afla umsagna ef þær hafi legið fyrir við skipulagsákvarðanir.

Framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Þingeyjarsveitar og hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn við þá skipulagstillögu 22. október 2010. Tekin hafi verið afstaða til umsagnanna við afgreiðslu aðalskipulagsins. Þá hafi Umhverfisstofnun skilað umsögn um helstu forsendur og verkefnislýsingu í deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar 6. september 2011 og um deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar 31. janúar 2012. Þannig liggi fyrir skipulags-ákvarðanir og umsagnir. Þess megi og geta að í umsögn Umhverfisstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar háspennulína frá virkjunum í Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík frá 29. júní 2010 hafi verið talið að lagning háspennulína frá virkjununum myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þótt neikvæð áhrif væru á Leirhnjúkshraun og sjónræn áhrif á Þeistareyki og Hlíðarfjall. Stofnunin hafi lagt áherslu á að hverasvæðinu Hitur yrði ekki raskað. Eftir þessu fari leyfishafi.

Ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga lýsi nokkurskonar umhverfismatsferli ef framkvæmd varði svæði sem njóti sérstakrar verndar. Á skorti að lögin taki af tvímæli um hvernig fara skuli með framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og framkvæmdaleyfi skv. skipulagslögum, en telja verði rétt að túlka 14. gr. þeirra laga sem sérlög gagnvart náttúruverndarlögum um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda, ella yrði um tvíverknað að ræða. Landsnet telji að túlka verði lögin sem svo að útgáfa framkvæmdaleyfis fari að ákvæðum skipulagslaga, sbr. lög nr. 106/2000, en ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga áskilji ekki enn einn umsagnarferilinn. Sú túlkun sem kærandi haldi fram fái ekki staðist.

Áform PCC samkvæmt mati á umhverfisáhrifum séu að reisa verksmiðju sem síðar verði tvöfölduð í afkastagetu. Þegar af þeim sökum sé ekki unnt við uppbyggingu flutningskerfisins að miða þörfina eingöngu við raforkuþörf verksmiðjunnar í fyrsta áfanga. Það sé ekki sveitar-stjórnar að meta hvort þörf sé á þeim framkvæmdum sem framkvæmdaleyfi snúi að. Þá sé það ekki hlutverk sveitarstjórnar að skoða aðra leiðarvalskosti og bera saman við þá framkvæmd sem sótt sé um leyfi fyrir, enda hafi sveitarstjórn átt að koma að leiðarvali við gerð svæðis-skipulagsins. Fyrir liggi stefna stjórnvalda um frekari iðnaðaruppbyggingu að Bakka. Iðnaðarsvæðið sé rúmir 200 hektarar en lóð undir verksmiðju PCC sé eingöngu 20 hektarar. Leyfishafa beri að taka tillit til þessa við uppbyggingu flutningskerfisins, bæði vegna umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða.

Í kæru sé því haldið fram að sveitarstjórn hafi borið að kanna sjálfstætt skilmála útboðsgagna í tengslum við gerð slóða og plana. Þá sé því haldið fram að eins og málið hafi legið við sveitarstjórn hafi hún ekki haft neinar upplýsingar um útboðsskilmála. Engin skylda hvíli á sveitarstjórn til þess að kanna og/eða meta einstaka útboð leyfishafa, enda sé þess hvergi getið í lögum.

Með vísan til þeirra skipulagsáætlana sem liggi fyrir og þeirrar vinnu sem unnin hafi verið í aðdraganda leyfisveitingarinnar, og áður hefur verið rakin, ríki engin óvissa um verndargildi einstakra hluta framkvæmdasvæðisins. Málsmeðferðin öll snúist einmitt um greiningu á verndargildi og aðlögun fyrirkomulags mannvirkjagerðar með tilliti til þess. Vísað sé til matsskýrslu um háspennulínur en þar komi m.a. fram hvernig tekið hafi verið tillit til landslagsheilda við staursetningu. Staðsetning Þeistareykjavirkjunar sé takmarkandi þáttur í vali á línuleið, eins og gefi að skilja. Umhverfisáhrif hafi verið metin og eftir því sé unnið. Framkvæmdaleyfisumsóknin sé í samræmi við heimildir sem ákvörðun sveitarfélagsins byggist á.

Leyfishafi telji ljóst að málsmeðferð sveitarstjórnar og rökstudd afstaða hennar hafi verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Auk þess hafi verið gætt ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferðina. Þá sé því mótmælt að fyrirliggjandi rökstuðningur skipulags- og umhverfisnefndar teljist ekki nægilegur. Líta verði til efnis bókunar nefndarinnar í heild og þess rökstuðnings og umfjöllunar sem þar sé að finna. Sveitarstjórn hafi fallist á rökstuðning nefndarinnar og staðfest bókun hennar í heild. Þá sé rétt að taka fram að ekki verði gerð sú krafa að skipulags- og umhverfisnefnd reifi í fundargerð sinni niðurstöðu Skipulagsstofnunar og/eða endursegi það sem fram komi í áliti stofnunarinnar, heldur verði að teljast fullnægjandi að nefndin bóki um að tekið sé undir álit stofnunarinnar. Sé því ljóst að fyrirliggjandi sé rökstudd afstaða sveitarstjórnar til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Leyfishafi mótmæli því að dómar Evrópudómstólsins, sem kærandi vísi til, eigi við í málinu. Einnig bendi hann á að tilskipanir Evrópusambandsins hafi ekki bein réttaráhrif að íslenskum rétti, eins og megi ráða af kæru. Úrskurðarnefndinni beri fyrst og fremst að beita íslenskum lögum, skýrðum eftir viðurkenndum lögskýringaraðferðum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Með hliðsjón af því að fyrir úrskurðarnefndinni liggja mjög ítarleg gögn, m.a. uppdrættir og myndir, tölvugerðar sem og ljósmyndir, var ekki talið tilefni til að nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi við úrlausn máls þessa.

Niðurstaða: Þeistareykjalína 1 mun liggja í tveimur sveitarfélögum, Þingeyjarsveit og Norðurþingi. Kærð er ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þess hluta Þeistareykjalínu 1 sem fyrirhugað er að leggja innan sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun lá fyrir 13. apríl 2016, en undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar iðnaðar á Bakka hefur staðið yfir í ríflega áratug. Sem hluti af þeim undirbúningi fór fram mat á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1 sem og Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2, sem nú ganga undir samheitinu Kröflulína 4. Þá voru áhrif háspennulínanna einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010 og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var niðurstaða hennar að framkvæmdunum fylgdu um margt verulega neikvæð óafturkræf áhrif á umhverfið.

Um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þannig gildir 13. gr. almennt um framkvæmdaleyfi en að auki kemur til kasta 14. gr. þegar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda er að ræða, en svo háttar hér. Er ljóst af ákvæðum laganna að vald til veitingar framkvæmdaleyfa liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn að því gefnu að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað og að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í þeim lögum sem í gildi eru við ákvörðunartöku. Miðar framangreint að því að sveitarstjórn taki ákvörðun um veitingu leyfis á traustum grunni og líkt og endranær verða að búa þar að baki lögmæt og málefnaleg sjónarmið. Þau lög sem líta verður til auk skipulagslaga eru einkum lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, lög  nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og náttúruverndarlög nr. 60/2013. Þá hvílir ávallt á leyfisveitanda sú skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar.

Birting auglýsingar um framkvæmdaleyfi.

Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu, sbr. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Auglýsing um hið kærða framkvæmdaleyfi var birt í Morgunblaðinu 15. júní 2016 en hún mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu þrátt fyrir framangreind lagafyrirmæli. Tilgangur auglýsingar með lögákveðnum hætti er einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið og gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki. Jafnframt skal auglýsing veita upplýsingar um kæruheimild og kærufresti. Ekki verður þó fjallað um greindan annmarka frekar hér þar sem vangá sveitarfélagins hafði ekki í för með sér réttarspjöll gagnvart kæranda, enda kom hann að kæru í málinu með réttum hætti og innan tilskilinna fresta.

Umhverfismat áætlana.

Með úrskurðum, uppkveðnum 10. október 2016 í máli nr. 46/2016 og 17. október 2016  í máli nr. 54/2016, tiltók úrskurðarnefndin í niðurstöðum sínum að umhverfismat áætlana hefði farið fram á kerfisáætlunum Landsnets 2014-2023 og 2015-2024. Greindar áætlanir hafa að geyma framkvæmdaáætlun til þriggja ára þar sem m.a. er greint frá því að til standi að reisa 220 kV línu milli Þeistareykja og Bakka og frá Þeistareykjum að Kröflu. Eins og á stóð hafnaði nefndin því að líta á það sem annmarka að umhverfismat kerfisáætlunar hefði farið fram eftir að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar lá fyrir. Verða þær niðurstöður lagðar til grundvallar í þessu máli, enda eru málsatvik hvað þetta varðar þau sömu og í nefndum málum.

Hæfi til töku ákvörðunar.

Í máli þessu háttar svo til að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tók hina kærðu ákvörðun, en sveitarfélagið er jafnframt eigandi jarðarinnar Þeistareykja sem Þeistareykjalína 1 mun liggja um að hluta. Fyrir liggur að samningur um uppgjör fébóta vegna kvaðar sem hlýst af lagningu háspennulína hefur verið gerður milli Landsnets sem framkvæmdaraðila og Þingeyjarsveitar sem landeiganda og munu greiðslur hafa farið fram. Í samningnum kemur fram að Landsnet ákveði hvenær framkvæmdir muni hefjast.

Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um almennar skyldur sveitarfélaga. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Svo hefur t.d. verið gert í skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 13. og 14. gr. þeirra um veitingu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórnarlög gera jafnframt ráð fyrir því að sveitarfélög eigi eignir og hefur sveitarstjórn ákvörðunarvald um ráðstöfun þeirra, sbr. t.a.m. 2. mgr. 8. gr. og 6. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna. Löggjafinn hefur þannig falið sveitarstjórn ákveðið vald að lögum sem getur falið í sér töku ákvarðana með ýmsum hætti og að teknu tilliti til ólíkra sjónarmiða, en ávallt samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrir liggur að sveitarstjórn bar að taka umsókn um framkvæmdaleyfi til meðferðar á grundvelli skipulagslaga og að hún var til þess bær að ráðstafa landréttindum sínum. Er og ljóst að líta verður á ákvæði nefnds samnings þess efnis að framkvæmdaraðili ákvæði hvenær framkvæmdir myndu hefjast í samhengi við þau fyrirmæli skipulagslaga að framkvæmdir megi ekki hefjast fyrr en að útgefnu framkvæmdaleyfi. Þá mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð slíkrar leyfisveitingar sem ekki verður vikið frá með samningi og verður að skilja nefnt samningsákvæði í því samhengi.

Þá hefur það ekki þýðingu í máli þessu hvaða sveitarstjórnarmenn tóku þátt í töku ákvörðunar um hina kærðu leyfisveitingu annars vegar eða stóðu að gerð nefnds samnings hins vegar, enda er það hlutverk sveitarstjórnar sem fjölskipaðs stjórnvalds að taka þessar ákvarðanir fyrir hönd sveitarfélagsins. Bendir og ekkert til þess að vanhæfisástæður 20. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og stjórnsýslulög, hafi átt við um þá sveitarstjórnarmenn sem hlut áttu að afgreiðslu málanna. 

Framkvæmdaleyfisumsókn og samræmi við skipulagsáætlanir.

Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar séu tiltekin í reglugerð. Sú reglugerð er nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í 7. gr. hennar er mælt fyrir um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hennar hafi fullnægt framangreindum ákvæðum.

Þá skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Bókað var við afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á framkvæmdaleyfisumsókninni, sem staðfest var af sveitarstjórn, að nefndin legðist ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún væri í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að svo sé, enda er þar m.a. fjallað um virkjun háhitasvæðisins á Þeistareykjum sem og háspennulínu frá Þeistareykjum til Húsavíkur, þ.e. Þeistareykjalínu 1. Er og tekið fram að skilgreind svæði fyrir nýjar háspennulínur séu þau sömu og í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Þá er fyrirhuguð lega umræddrar línu sýnd á skýringaruppdrætti og sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulagsins. Við gerð aðalskipulagsins fór fram umhverfismat áætlana. Loks var unnið deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar og í greinargerð þess var greint frá mannvirkjabelti fyrir flutningslínur raforku sem einnig var sýnt á skipulagsuppdrætti. Að teknu tilliti til alls framangreinds verður að telja að áskilnaði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga um samræmi framkvæmdar við skipulagsáætlanir hafi verið fullnægt.

Umsótt framkvæmd.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að við umfjöllun umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort hún sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Mat fór fram á umhverfisáhrifum háspennulína, þ. á m. Þeistareykjalínu 1, og voru áhrif þeirra einnig metin sameiginlega með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum tengdum uppbyggingu á Bakka. Álit Skipulagsstofnunar vegna þessa lágu fyrir 24. nóvember 2010. Í umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi er vísað til þessa og fylgdi matsskýrsla og álit umsókninni. Við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sem staðfest var af sveitarstjórn, er fyrst almennt vísað til álits Skipulagsstofnunar án nánari tilgreiningar en síðar vísað til þess sameiginlega mats sem fór fram og álits stofnunarinnar vegna þess. Af hinu síðargreinda áliti ásamt þeim gögnum sem lágu því til grundvallar er ljóst að hver framkvæmd um sig sætti mati í samræmi við lög nr. 106/2000 auk þess sem fyrir lá heildarmat framkvæmdanna. Er ekki ástæða til að ætla annað en að sveitarstjórn hafi kynnt sér bæði álitin og matsskýrslur sem þeim lágu að baki í samræmi við nefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, en einnig er vísað til mats á umhverfisáhrifum háspennulínanna í hinu útgefna framkvæmdaleyfi. Þá verður að telja þau álit sem fyrir liggja í málinu jafngild, enda gera lög nr. 106/2000 ekki ráð fyrir því að sameiginlegt mat skuli fara fram með ákveðnum hætti og þá einvörðungu, eða að það hafi aðra réttarstöðu en mat á einstökum framkvæmdum hverjum fyrir sig. Loks telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að fallið hafi verið frá áformum um álver sé engum vafa undirorpið að mat það sem fram fór á háspennulínum sérstaklega greini frá áhrifum þeirra framkvæmda sem metnar voru, m.a. þeirri sem hér um ræðir. Skiptir ekki máli í því sambandi að ekki standi til nú að leggja allar þær línur sem matið tekur til. Liggur þannig ekkert annað fyrir en að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við það mat á háspennulínum sem farið hefur fram. Rétt er þó að geta þess að mat það sem fram fór á áhrifum háspennulína á umhverfið er ítarlegra þar en í hinu sameiginlega mati.

Náttúruverndarlög.

Vísað er til þess í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Náttúruverndarlög nr. 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015, nokkrum mánuðum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er augljóst að þau áttu því við þegar samþykkt var að veita hið kærða framkvæmdaleyfi, þrátt fyrir að matsferli það sem var undanfari ákvörðunarinnar hafi átt sér stað í tíð eldri náttúruverndarlaga.

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. gildandi náttúruverndarlaga, en skv. 3. mgr. 37. gr. laganna ber að forðast að raska slíkum svæðum nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla leyfis vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun og skal við slíka leyfisveitingu gæta ákveðinnar málsmeðferðar. Hins vegar liggur ekkert fyrir um að Þeistareykjalína 1 muni raska því svæði og er raunar tiltekið í framkvæmdaleyfisumsókn að við uppsetningu háspennu-mastra, vinnu við fyrirhugaðar línur og slóðagerð verði þess gætt að raska ekki svæðum á Þeistareykjum sem eru á náttúruminjaskrá. Liggur línan enda frá tengivirki nokkru norðar en svæði það sem er á náttúruminjaskrá og ekki um það svæði heldur frá því. Var því ekki tilefni fyrir sveitarstjórn að viðhafa þá málsmeðferð sem áður er nefnd.

Í 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Falla þar undir m.a. hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, sbr. b-lið 2. mgr. 61. gr. Vernd skv. 61. gr. nær einnig til eldhrauna sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. a-lið 2. mgr. lagaákvæðisins, og í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla t.d. framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun og beri leyfisveitanda að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að jarðminjum sem taldar eru upp í b-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga verði raskað og er raunar tiltekið í framkvæmdaleyfisumsókn að þar sem línan fari yfir leirhverasvæði við og á Þeistareykjum verði þess vandlega gætt að raska þeim ekki. Hvað Þeistareykjahraun varðar hins vegar þá kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að háspennulínur og slóðar muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þeistareykjahraun nýtur verndar samkvæmt greindum a-lið 2. mgr. 61. gr. og bar sveitarstjórn því að viðhafa þá málsmeðferð sem áður er lýst við töku ákvörðunar um hið kærða framkvæmdaleyfi.

Í þeim fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni um afgreiðslu málsins er hvorki vikið að náttúruverndarlögum né Þeistareykjahrauni. Umsagna mun ekki hafa verið aflað sérstaklega vegna leyfisveitingarinnar en í útgefnu framkvæmdaleyfi er vísað til 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Þar kemur m.a. fram, eins og áður segir, að umsagna Umhverfis-stofnunar og náttúruverndarnefndar skuli leita nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Samkvæmt nefndum ákvæðum skal m.a. leita umsagnar þessara aðila við gerð aðalskipulagsáætlana, við gerð deiliskipulags undir nánar tilgreindum aðstæðum og frummatsskýrslu framkvæmdaraðila vegna mats á umhverfisáhrifum. Við afgreiðslu málsins lágu fyrir umsagnir Umhverfis-stofnunar sem unnar voru í tilefni af mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við gerð deiliskipulags Þeistareykjavirkjunar. Þá kemur fram í staðfestu Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 að aðalskipulagstillaga til auglýsingar hafi verið send Umhverfisstofnun til umsagnar en hún hafi ekki borist. Í aðalskipulaginu sé því farið yfir athugasemdir stofnunarinnar við eldri útgáfu tillögunnar eins og um væri að ræða formlegar athugasemdir umsagnaraðila við auglýsta skipulagstillögu. Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að sveitarstjórn hafi ekki borið nauðsyn til að afla umsagnar Umhverfisstofnunar að nýju við veitingu framkvæmdaleyfis. Einnig lá fyrir umsögn náttúruverndarnefndar Þingeyinga sem veitt var við gerð áðurnefnds deiliskipulags. Verður ekki séð að efni greindra umsagna hafi gefið sveitarstjórn tilefni til að færa fram sérstakan rökstuðning um framkvæmdina skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, umfram þá skyldu sveitarstjórnar að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar skv. skipulagslögum eins og fjallað verður um hér á eftir. Þá verður, eins og atvikum er hér háttað, það ekki talið leiða til ógildingar að ekki hafi verið leitað sérstaklega eftir umsögn náttúruverndarnefndar í málinu, þrátt fyrir að umsagnir hennar vegna gerðar aðalskipulags eða frummatsskýrslu hafi ekki legið fyrir. Lá enda fyrir umsögn hennar vegna deiliskipulagsgerðar, eins og áður hefur komið fram.  

Hins vegar bera fundargerðir skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar ekki með sér að litið hafi verið til náttúruverndarlaga við mat á leyfisumsókn svo sem skylt var skv. 4. mgr. 61. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Til þess var þó tilefni í ljósi þess að Skipulagsstofnun hafði í áliti sínu gert grein fyrir því að háspennulínur og slóðar myndu liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í Þeistareykjahrauni. Mannvirkin myndu skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það myndi heildarsýn hraunsins breytast varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því taldi stofnunin að framkvæmdirnar myndu hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Byggði það álit m.a. á þeirri umsögn Umhverfisstofnunar að lagning háspennulína yfir hraunið og vegslóða meðfram þeim og gerð virkjanavegar þvert yfir það myndi skipta hrauninu í einingar. Einnig að jarðfræðileg fyrirbæri, s.s. gígaraðir, hraun, hrauntraðir, misgengi og gjár, geti myndað eina heild og rask sem sé ekki hlutfallslega mikið að umfangi geti skert verulega verndargildi slíkra jarð-myndana. Benti Skipulagsstofnun nánar á að þótt lítill hluti af flatarmáli hraunsins raskist myndu háspennulínur liggja um sérstæðar jarðmyndanir í Þeistareykjahrauni, þ.e. Bungur. Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að ekki hafi verið gætt að því að mat færi fram á leyfisumsókn í samræmi við ákvæði 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, enda sér þess ekki stað í afgreiðslu málsins hjá Þingeyjarsveit.

Ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur og rökstuðningur.

Sveitarstjórn skal, auk þess að kynna sér matsskýrslu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, einnig taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Álit Skipulagsstofnunar eru lögbundin en ekki bindandi fyrir sveitarstjórn. Þau þurfa skv. lögum nr. 106/2000 að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 14. gr. skipulagslaga að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Verður úrskurðar-nefndin þannig að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar sé fullnægjandi að þessu leyti, enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Nánar tiltekið skal Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að hún tekur á móti matsskýrslu gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þá skal í álitinu gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að framkvæmdaraðili skuli vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu og skuli þar gera grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra. Í frummatsskýrslu skal svo ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 9. gr. laganna. Sama orðalag var áður viðhaft um efni matsskýrslu og í frumvarpi til laga nr. 106/2000 segir um þetta atriði að lagt sé til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Einnig að þetta hafi mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum sé ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfis-áhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Af framangreindu verður að telja að álit Skipulagsstofnunar þurfi að taka til þessara atriða en jafnframt að framkvæmdaraðili hafi ákveðið forræði á því hvaða kosti, sem nái markmiðum framkvæmdar, hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð.

Í matsskýrslu er ítarlega fjallað um aðalvalkost framkvæmdaraðila, þ.e. þá línuleið og tilhögun sem hin kærðu leyfi öll taka til. Auk þess er fjallað um aðra þá kosti sem til greina komu samkvæmt endanlegri matsáætlun, þ.e. þá tilhögun að nota trémöstur vestan Lamba-fjalla, þá tilhögun að nota jarðstrengi sem og að tvöfalda línuleið um Hólasand. Þá var fjallað um núllkost. Mál þetta tekur ekki til línuleiðar vestan Lambafjalla og verður því ekki fjallað um þann kost að nota trémöstur á þeirri leið. Þá er ítarleg umfjöllun í matsskýrslu um tvöfalda línuleið um Hólasand. Er þar gerð grein fyrir umhverfisáhrifum hennar og þau borin saman við aðalvalkost í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 6. mgr. 10. gr., og gefur álit Skipulagsstofnunar hvað þennan valkost varðar ekki tilefni til athugasemda. Hins vegar er álitið að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum að öðru leyti hvað varðar umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, eins og nú verður nánar gerð grein fyrir.

Einn af þeim kostum sem Landsnet lagði fram til mats var að leggja fyrirhugaðar línur sem jarðstrengi. Um jarðstrengi er fjallað með almennum hætti í tillögu fyrirtækisins að matsáætlun og þar tekið fram að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir jarðstrengjalögnum, kostnaði, rekstri og umhverfisáhrifum í samanburði við loftlínur. Í endanlegri matsskýrslu fyrirtækisins er enn fjallað um jarðstrengi almennt en sú umfjöllun bætir litlu við það sem fram kemur í matsáætlun. Þannig er það eitt tiltekið um umhverfisáhrif jarðstrengja að sýnileiki loftlína sé augljóslega mun meiri en jarðstrengja, hins vegar sé umhverfisrask við lagningu þeirra mun meira en við lagningu loftlína og því sé lagning loftlínu afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengja. Ljóst má vera að umfjöllun þessi fullnægir ekki þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að gerð sér grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Fór enda enginn frekari samanburður fram. Þrátt fyrir þetta er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um aðra kosti til framkvæmdar í kafla 2.2 án þess að vikið sé í neinu að þessum framlagða kosti framkvæmdaraðila. Úrskurðarnefndin bendir jafnframt á að ekki verði séð að sérstakar rannsóknir hafi farið fram í tilefni matsins og er hvorki í tillögu að matsáætlun né matsskýrslu vitnað til heimilda þar um eða þeirra getið í heimildaskrá. Telja verður að sú aðferð að leggja fram jarðstrengi sem valkost án rannsókna eða tilvísan til heimilda um það hvernig þeir kæmu til greina við þá framkvæmd sem lögð var fram til mats, og án marktæks samanburðar við aðra valkosti, sé ekki viðunandi. Er ekki hægt að líta svo á að um raunverulegan valkost hafi verið að ræða, enda fór ekki fram sérstakt mat á áhrifum jarðstrengja sem valkost. Verður að telja að skort hafi á að Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu gert viðhlítandi grein fyrir framan-greindu og þar með forsendum mats á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar að gera skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000.

Einnig er það að athuga við álit Skipulagsstofnunar að stofnunin lætur í ljós það álit sitt að framkvæmdaraðili eigi að kanna möguleika á annarri útfærslu á legu Þeistareykjalínu 1 sem geri ráð fyrir að línan fari fyrir Höfuðreiðarmúla í stað þess að fara um Jónsnípuskarð, en báðir kostirnir voru lagðir fram af Landsneti við gerð svæðisskipulags háhitasvæða. Ekki er hægt að líta svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir framkvæmdinni eða frekari mótvægis-aðgerðir, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, og er ljóst að ábending sem þessi hefði átt að koma fram fyrr í matsferlinu svo að framkvæmdaraðili ætti þess kost að bregðast við henni. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að af umhverfisskýrslu svæðisskipulags háhita-svæða verði ráðið, svo sem Skipulagsstofnun bendir á, þá hafi báðir kostirnir neikvæð umhverfisáhrif. Telur úrskurðarnefndin að sú aðferð að leggja ekki valkost um leiðir fram til mats þar sem annað leiðarval sé bundið í skipulagsáætlunum sé ekki tæk þegar ljóst er af umhverfismati áætlana að báðar leiðirnar valdi neikvæðum umhverfisáhrifum án þess að frekari röksemdir eða rannsóknir búi þar að baki. Tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum framkvæmda er einmitt að leiða í ljós umhverfisáhrif mismunandi kosta og gera á þeim samanburð svo hægt sé að taka endanlega ákvörðun um leiðarval á traustum grunni. Er enda mikill munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hvað varðar nákvæmni mats, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Um þetta segir nánar í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um umhverfismat áætlana að annars vegar sé um að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi sé að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar og að framan er lýst, verður eins og atvikum háttar í þessu tiltekna máli ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu verði ekki byggt. Hefur þá verið höfð hliðsjón af því að mat það sem hér um ræðir var um margt ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðarval voru metnir með fullnægjandi hætti. Verður því að telja að skilyrði hafi verið til meðferðar fyrirliggjandi umsóknar um framkvæmdaleyfi. Áður en til afgreiðslu hennar kom bar sveitarstjórn hins vegar eftir atvikum að taka rökstudda afstöðu til þess hvort að nefndir annmarkar hefðu þýðingu við leyfisveitingu í þeirra sveitarfélagi. Ef svo væri, þá að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim svo að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggði á fullnægjandi grundvelli í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að sérstakt tilefni hafi verið fyrir sveitarstjórn að kanna þann möguleika að leggja Þeistareykjalínu 1 sem jarðstreng innan sveitarfélagsins í stað loftlínu. Til að mynda kemur fram í umsókn um framkvæmdaleyfi og fylgigögnum að samningar hafi náðst við landeigendur. Þá kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar að þrátt fyrir að loftlínur hafi meiri sjónræn áhrif en jarðstrengir telji stofnunin að undir vissum kringumstæðum geti lagning jarðstrengja haft meiri neikvæð áhrif á landslag en loftlínur. Einnig að umfang óafturkræfs rasks vegna þeirra geti orðið meira en í tilfelli loftlína. Sem dæmi er nefnt að háspennulína sé lögð í jörð um nútímahraun, en Þeistareykjalína 1 mun einmitt liggja um Þeistareykjahraun, sem er slíkt hraun.

Hins vegar lá fyrir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, en það var álit Skipulagsstofnunar að kanna bæri aðra útfærslu á línunni sem færi fyrir Höfuðreiðarmúla en ekki yfir Jónsnípuskarð. Höfuðreiðarmúli er í Norðurþingi en Jónsnípuskarð er í Þingeyjarsveit, og er ljóst af lestri nefnds álits að Skipulagsstofnun telur fyrst og fremst ástæðu til að kanna möguleika á lagningu fyrir Höfuðreiðarmúla vegna neikvæðra umhverfisáhrifa sem kæmu fram í Þingeyjarsveit. Í álitinu kemur fram að framkvæmdaraðili telji báðar leiðirnar ásættanlegar að teknu tilliti til afhendingaröryggis, en hann bendi á að leiðin um Jónsnípuskarð sé í samræmi við svæðisskipulag. Sú leið sé 1,3 km styttri, liggi að hluta samsíða fyrirhuguðum vegi frá Húsavík til Þeistareykja og fari um hraun á minna svæði en samkvæmt leið fyrir Höfuðreiðarmúla. Auk þess samræmist leiðin betur stefnumörkun Norðurþings um að háspennulínur liggi vestan Höskuldsvatns.

Ljóst hefur verið frá upphafi að framkvæmdir þær sem um ræðir myndu sæta mati á umhverfisáhrifum og að þar yrði tækifæri til að bera nánar saman áhrif framkvæmda á umhverfið en á skipulagsstigi. Samkvæmt svæðisskipulagi voru tvær útfærslur lagðar fram um leið fyrir Höfuðreiðarmúla og lá önnur þeirra vestan Höskuldsvatns. Liggur því fyrir að sú leið getur samræmst stefnumörkun Norðurþings þar um. Þá liggur fyrir að þær framkvæmdir sem framkvæmdaraðili hyggst ráðast í, Þeistareykjalína 1 og Kröflulína 4, eru samtals ríflega 60 km. Skiptir þá harla litlu máli að 1,3 km muni í lengd þeirra línukosta sem um ræðir. Þá munu báðar leiðirnar liggja að hluta samsíða vegi milli Húsavíkur og Þeistareykja. Loks kemur fram í álitinu að Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi ítrekað gert athugasemdir við þá nálgun að meta umhverfisáhrif út frá hlutfallslegri skerðingu hrauns. Verður því ekki séð að rök hafi staðið til þess að leggja einungis fram einn kost á legu línunnar á þessum kafla til mats á umhverfisáhrifum.

Í álitinu er hins vegar einnig gerð grein fyrir því að Landsnet bendi á að ef farið yrði með línuna um þröngt landrými fyrir Höfuðreiðarmúla yrði að grípa til ráðstafana með sérstökum háspennumöstrum. Þar myndi línan frá Þeistareykjum þvera Kópaskerslínu og beygja til vesturs í kröppu horni og liggja samsíða Kópaskerslínu á kafla og línurnar vera í mismunandi hæð. Þannig yrði til kraðak ósamstæðra mastra og mætti gera ráð fyrir verulegum sjónrænum áhrifum á þeim kafla. Loks kemur fram í álitinu að Skipulagsstofnun telji að báðir kostirnir muni hafa sambærileg áhrif á hraunið og jafnframt að ekki séu þekktar ákjósanlegar mótvægisaðgerðir til að draga úr þeim áhrifum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að teknu tilliti til framangreinds að telja að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi a.m.k. borið að færa fram sérstakan rökstuðning um val línu um Jónsnípuskarð að teknu tilliti til þeirra umhverfisáhrifa sem þar kæmu fram. Einnig að bera þau saman við þau umhverfisáhrif sem Landsnet hafði bent á varðandi leiðarval fyrir Höfuðreiðarmúla og taka afstöðu til þess álits Skipulagsstofnunar að báðir kostirnir myndu hafa sambærileg áhrif á hraunið. Teldi sveitarstjórn enn á skorta upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á þessum mismunandi leiðum bar henni að hlutast til um, með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að framkvæmdaraðili gerði frekari könnun á þeim kosti að leggja línuna fyrir Höfuðreiðarmúla og bera hann saman við lagningu línunnar um Jónsnípuskarð. Sveitarstjórn gerði hvorugt og verður að telja það annmarka á hinni kærðu ákvörðun.

Líta verður svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulags-laga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfyllir áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við það, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Það liggur í hlutarins eðli að því neikvæðari sem afstaða Skipulagsstofnunar er til fyrirhugaðrar fram-kvæmdar sem sveitarstjórn hyggst leyfa, þeim mun strangari kröfur verður að gera til þess að hún taki með vönduðum hætti rökstudda afstöðu til álits stofnunarinnar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tekið fram í helstu niðurstöðum álits Skipulags-stofnunar að þótt Landsnet myndi stýra framkvæmdum þannig að þær myndu draga úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki myndu framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á það svæði. Í því sambandi var bent á sérstætt náttúrufar, skráningu á Náttúruminjaskrá og hverfisvernd, sem og að þar yxu jurtir sem væru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá taldi stofnunin ljóst að háspennulínur og slóðar um Þeistareykjahraun myndu liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu og myndu mannvirki skipta því í tvo nokkuð jafna hluta og breyta heildarsýn þess. Framkvæmdirnar myndu því hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns. Af þeim bókunum og fundargerðum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni, og nánar er greint frá í málavaxtalýsingu, er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis sé verulega áfátt miðað við þá neikvæðu afstöðu sem kom fram í nefndu áliti. Verður í slíku tilfelli að gera strangari kröfur um rökstudda afstöðu en að framkvæmdaleyfi sé veitt athugasemdalaust með vísan til þess að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Afgreiðsla sveitarstjórnar fullnægði því ekki skilyrði 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga hvað þetta áhrærir.

Af öllu því sem að framan er rakið er ljóst að við undirbúning og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var ekki í öllu gætt ákvæða skipulagslaga og náttúruverndarlaga, og eftir atvikum 10. gr. stjórnsýslulaga. Þykja þessir ágallar óhjákvæmilega leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 til handa Landsneti hf.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                          Þorsteinn Þorsteinsson