Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2016 Skálabrekka Bláskógabyggð

Árið 2016, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2016, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 7. janúar 2016 á erindi varðandi endurnýjun byggingarleyfis fyrir byggingu sumarhúss og bátaskýlis á lóð nr. 196048 í landi Skálabrekku, Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar í landi Skálabrekku, landnúmer 196048, afgreiðslu skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 7. janúar 2016 á erindi kæranda varðandi endurnýjun byggingarleyfis fyrir byggingu sumarhúss og bátaskýlis á lóð hans í landi Skálabrekku í Bláskógabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 14. mars og 20. desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2015 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis frá 5. apríl 2011 fyrir byggingu sumarhúss og bátaskýlis á lóð nr. 196048 í landi Skálabrekku, Bláskógabyggð. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir og var það tekið fyrir á fundi nefndarinnar 13. maí s.á. Á þeim fundi var eftirfarandi fært til bókar: „Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. apríl 2015 í máli nr. 71/2011 varðandi byggingarleyfi viðbyggingar á lóðinni Hvannalundur 8 að þá telur skipulagsnefnd að ekki sé hægt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags um að deiliskipulag þurfi að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga verði fellt út. Afgreiðslu málsins er því frestað.“

Með tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins 6. nóvember 2015 var þess óskað að umsókn hans um byggingarleyfi yrði tekin til afgreiðslu. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsnefndar 7. janúar 2016 og var þar m.a. bókað: „Lögð fram beiðni […] um endurupptöku á afgreiðslu skipulagsnefndar frá 13. maí 2015 á máli er varðar byggingarleyfi á lóðinni. Í tölvupóstinum er farið yfir feril málsins hvað varðar uppbyggingu á lóðinni allt frá árinu 2000. Kemur m.a. fram að 26. júní 2007 hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss á lóðinni og að nú sé verið að óska eftir endurnýjun á þeirri samþykkt.“ Var niðurstaða skipulagsnefndar sú að ekki væru forsendur fyrir því að breyta afgreiðslu nefndarinnar frá 13. maí 2015. Jafnframt var tekið fram að byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið árið 2007 væri fallið úr gildi og hefði því ekki áhrif á málið. Loks var tilgreint að sá fyrirvari væri á samþykkt skipulagsnefndar að sveitarstjórn staðfesti hana á næsta fundi sínum.   
Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda var boðaður rökstuðningur að baki kæru hans en sá rökstuðningur hefur ekki borist úrskurðarnefndinni þrátt fyrir tilmæli nefndarinnar þar um. Gögn málsins bera með sér að kærandi byggi á því að hann hafi ekki getað nýtt sér fyrri byggingarleyfi sem veitt hafi verið fyrir mannvirkjum á umræddri lóð. Hann hafi staðið í þeirri trú að byggingar- og skipulagsyfirvöld gætu ekki dregið fyrri samþykktir sínar um leyfin til baka. Samþykkt hafi verið leyfi til byggingar nýs húss á lóðinni árið 2007 án þess að fyrir lægi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Þá kemur fram í kæru að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda í pósti 17. janúar 2016.

Málsrök Bláskógabyggðar: Í ljósi þess að boðaður rökstuðningur kæranda hafði ekki borist kaus sveitarfélagið að tjá sig ekki um efni málsins að svo stöddu, en samkvæmt bókunum við meðferð þess er hin umdeilda ákvörðun á því reist að ekki sé unnt að gefa út umbeðið byggingarleyfi að óbreyttu skipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu skipulagsnefndar Uppsveita bs. að fresta því að afgreiða umsókn kæranda um byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi tók nefnda umsókn fyrir á afgreiðslufundi 16. apríl 2015 og vísaði erindinu til skipulagsnefndar, en ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði, svo sem hér háttar, skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Málið var síðan lagt fram á fundi skipulagsnefndar 13. maí s.á. og afgreiðslu þess frestað. Var sú afstaða nefndarinnar á því reist að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá með því að fella út ákvæði í aðalskipulagi um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókn kæranda var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 7. janúar 2016, í framhaldi af ósk kæranda þar um í tölvupósti 6. nóvember 2015, og tekið fram að ekki væru forsendur til að breyta fyrri afgreiðslu nefndarinnar.

Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa, sbr. m.a. 9. og 11. gr. mannvirkjalaga. Skýrt er kveðið á um það í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu er ljóst að svo er ekki. Ber því að vísa kærunni að því leyti frá úrskurðarnefndinni.

Að þeirri niðurstöðu fenginni telur úrskurðarnefndin hins vegar rétt að fjalla um kæruna á þeim grundvelli að hún snúi að óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, enda lýtur hin kærða ákvörðun að frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016 tók gildi árið 2006 og var þar kveðið á um ekki yrðu gefin út byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að liðnum fjórum árum frá gildistöku þess. Er sú afstaða sveitarfélagsins í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Með greindu ákvæði tók sveitarfélagið þá ákvörðun að nýta sér ekki undanþáguákvæði 44. gr. skipulagslaga um að skipulagsnefnd geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ákveðið að unnt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Er sveitarstjórn bundin af nefndu ákvæði meðan aðalskipulaginu hefur ekki verið breytt að þessu leyti. Verður að líta svo á að rök sveitarfélagsins fyrir því að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda um byggingaleyfi hafi þar með verið málefnaleg.

Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga og gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 mun almenn endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar hafa hafist árið 2014. Hinn 15. desember 2016 var auglýst til kynningar lýsing á skipulagsverkefninu, sbr. 30. skipulagslaga,  er gerir m.a. ráð fyrir að fyrrgreint ákvæði aðalskipulags um að skilyrða útgáfu byggingarleyfa við deiliskipulag verði fellt út. Mun gert ráð fyrir að auglýst verði tillaga að greindri breytingu í byrjun árs 2017 og að því stefnt að hún taki gildi á vormánuðum það ár.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi dregist verulega úr hófi fram og samkvæmt því sem áður er rakið er fyrirsjáanlegt að hún muni tefjast enn frekar. Hins vegar er til þess að líta, svo sem að framan greinir, að til meðferðar er tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem ætlað er að breyta því ákvæði aðalskipulags Bláskógabyggðar sem skipulagsnefnd teflir fram sem forsendu þess að frestað sé afgreiðslu á umsókn kæranda. Gefur það tilefni til að ætla að málinu verði lokið án tafa að þeim tíma liðnum sem ákveðinn er í skipulagslögum til meðferðar slíkra skipulagsbreytinga. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að ekki séu efni til þess fyrir nefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi.

Dragist hins vegar meðferð nefndrar aðalskipulagsbreytingartillögu, og þar með afgreiðsla erindis kæranda, úr hófi miðað við það sem skipulagslög kveða á um er unnt að kæra þann drátt til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________                             
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon