Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

155/2016 Skútahraun 6

Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 155/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2016, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Húsfélagið Skútahrauni 4, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. október 2016 að veita leyfi fyrir geymsluhúsi úr einangruðum samlokueiningum á lóð nr. 6 við Skútahraun, Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 2. desember 2016 og 12. janúar 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 2. desember 2015 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar tekin fyrir fyrirspurn, dags. 27.11.2015, um byggingu geymsluhúss að stærð 670 m2. Nýbyggingin yrði staðsett á suðaustur hluta lóðarinnar nr. 6 við Skútahraun. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem tók erindið fyrir á fundi sínum 26. janúar 2016. Samþykkt var að unnið yrði að tillögu um uppbyggingu lóðar í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem yrði kynnt í skipulags- og byggingarráði áður en formleg grenndarkynning færi fram. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. mars 2016 var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert með bréfi, dags. 17. maí 2016, með athugasemdafresti til 18. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda.

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 13. júlí 2016 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi, dags. 11. s.m., um að byggja geymsluhús úr einangruðum samlokueiningum á lóð nr. 6 við Skútahraun. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem samþykkti það á fundi 9. ágúst s.á. Sú afgreiðsla skipulags- og byggingrráðs var staðfest á fundi bæjarráðs 11. ágúst 2016. Hinn 26. október s.á. var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi á grundvelli nýrra teikninga sem borist hefðu í september 2016 og var athugasemdum kæranda svarað með bréfi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 26. september s.á. Hinn 11. janúar 2017 var erindi leyfishafa tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa. Var bókað að leyfishafi óskaði eftir því að draga til baka umsókn sína um byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið 26. október 2016. Jafnframt var bókað um afgreiðslu beiðnarinnar að fundurinn staðfesti erindið.

Kærendur skírskota til þess að hin kærða ákvörðun eigi hvorki stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins né viðhlítandi lögum auk þess sem öll meðferð málsins hafi brotið gróflega gegn efnis- og málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma að mannvirki sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Hin kærða ákvörðun sé á engan hátt í samræmi við skipulagsáætlanir og málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar hafi verið byggð á röngum grundvelli. Hafi verið byggt á að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið. Hafi því verið farið með málið í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem eingöngu sé heimilt þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um óverulega breytingu á því sé að ræða. Fyrir liggi að deiliskipulagið Drangahraun-Skútahraun gildi fyrir svæðið. Sé enginn byggingarreitur markaður þar sem hin umdeilda bygging eigi að rísa og hafi heldur ekki verið að hægt að byggja á að um óverulega breytingu hefði verið að ræða enda geti 700 m2 bygging vart talist óveruleg breyting. Hin umrædda bygging geti jafnframt haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika lóða kærenda.

Af hálfu sveitarfélagins er ekki tekið undir athugasemdir kæranda. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Þá sé á það bent að leyfishafar hafi óskað eftir að byggingarleyfisumsóknin yrðu afturkölluð og hafi það verið staðfest af skipulags- og byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun hafi því verið afturkölluð og felld úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Líkt og að framan er rakið óskaði byggingarleyfishafi eftir því að afturkalla umsókn sína um byggingarleyfi, en hún var tilefni hinnar kærðu ákvörðunar. Hefur því og verið lýst yfir af hálfu Hafnafjarðarbæjar að ákvörðunin hafi verið afturkölluð og undir það rennir stoðum sú afgreiðsla skipulags- og byggingarfulltrúi 11. janúar 2017, sem nánar hefur verið lýst. Er því ljóst að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hafa kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir