Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2016 Þórsgata 1 og Lokastígur 2

Árið 2016, fimmtudaginn 29. desember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr.133/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir RA 5 ehf., eigandi Þórsgötu 1 og Lokastígs 2, ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 14. september 2016 um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um stækkun á tengibyggingu milli fasteigna á lóðunum Þórsgötu 1 og Lokastígs 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 9. nóvember 2016.

Málavextir: Með fyrirspurn dags. 10. maí 2016, var óskað eftir áliti byggingarfulltrúa á því að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir stækkun á tengibyggingu á milli húsanna Þórsgötu 1 og Lokastígs 2, en þar væri sund sem lægi að Lokastíg. Ætlunin væri að koma fyrir tveimur hótelherbergjum á efri hæðum og móttöku aðfanga fyrir hótel og veitingahús á jarðhæð. Fyrirspurninni fylgdu teikningar ásamt byggingarlýsingu. Með bréfi, dags. 27. júní s.á., var fyrirspyrjanda tilkynnt um að á fundi skipulagsfulltrúa 24. s.m. hefði hann tekið neikvætt í fyrirspurnina með vísan til umsagnar sinnar sama dag. Í umsögninni sem fylgdi nefndu bréfi kom fram að fyrirspurnin samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið. Einnig að ekki væri mælt með því að koma til móts við fyrirspyrjanda með deiliskipulagsbreytingu í samræmi við þá uppdrætti er fylgdu fyrirspurninni.

Með bréfi, dags. 8. ágúst s.á., fór fyrirspyrjandi fram á að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur myndi endurskoða ákvörðun skipulagsfulltrúa og að veitt yrði jákvætt svar við fyrirspurn hans. Á fundi sínum 14. september s.á. staðfesti umhverfis- og skipulagsráð afgreiðslu skipulagsfulltrúa, með vísan til umsagnar hans frá 2. s.m. þar sem svarað var athugasemdum fyrirspyrjanda.

Málsrök kæranda: Um aðild sína vísar kærandi til þess að einkahlutafélagið sem hafi verið aðili stjórnsýslumálsins hafi nú verið sameinað öðrum félögum undir merkjum kæranda, sbr. XIV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hvað varði kæruheimild til úrskurðarnefndar telji kærandi ljóst að hin kærða ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs feli í sér lokaákvörðun málsins. Eins og áður greini hafi hin kærða ákvörðun falið í sér að „verið [var] að taka neikvætt í að breyta deiliskipulagi til samræmis við tillögu [forvera kæranda]“ Með öðrum orðum hafi umhverfis- og skipulagsráð tekið erindi forvera kæranda til meðferðar sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi, og hafnað því sem slíku. Umhverfis- og skipulagsráð hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu á slíkum ákvörðun án sérstakrar staðfestingar borgarráðs, sbr. 1. gr. viðauka 1.1. við samþykkt Reykjavíkurborgar nr. 1052/2015, um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013, sbr. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt framansögðu telji kærandi ljóst að hin kærða ákvörðun, sem hafi falið í sér að beiðni um deiliskipulagsbreytingu var synjað, marki endanlegar lyktir málsins á lægra stjórnsýslustigi og sæti því kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að auki, sem og fyrr segi, hafi kærandi fengið leiðbeiningar um það frá Reykjavíkurborg að samkvæmt venjuhelgaðri framkvæmd mætti hann skjóta upphaflegri afgreiðslu skipulagsfulltrúa til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tæki lokaákvörðun í málinu, á þeim grunni að þeirri ákvörðun mætti síðan skjóta til æðra stjórnvalds.

Í þessu samhengi skuli þó tekið fram að upprunalegu erindi forvera kæranda til Reykjavíkurborgar 1. júní 2016, varðandi stækkun tengibyggingar, hafi ekki verið ætlað að fela í sér beiðni um breytingu á deiliskipulagi, heldur hafi það einungis falið í sér fyrirspurn til borgarinnar og raunar ósk um leiðbeiningar um framhaldið. Allt að einu, sem og fyrr segi, hafi umhverfis- og skipulagsráðs ákveðið að afgreiða erindið sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi og synja erindinu á þeim grunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki falið í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls. Sé hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 14. september 2016 að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um stækkun á tengibyggingu milli fasteigna á lóðunum Þórsgötu 1 og Lokastíg 2. Ákvörðunin var tekin vegna erindis sem beint var til byggingarfulltrúa á eyðublaði með árituninni „fyrirspurn“ og var sama áritun á þeim teikningum er erindinu fylgdu. Bókun skipulagsfulltrúa og umsagnir hans bera að sama skapi þess merki að um afgreiðslu fyrirspurnar er að ræða og bókun umhverfis- og skipulagsráðs að sú afgreiðsla sé staðfest. Þrátt fyrir að skipulagsfulltrúi láti í umsögn sinni í ljós afstöðu sína til mögulegrar deiliskipulagsbreytingar á grundvelli þeirra teikninga sem fyrirspurninni fylgdu er ekki með neinu móti hægt að telja að umhverfis- og skipulagsráð hafi tekið hana fyrir og afgreitt sem umsókn um breytingu á deiliskipulagi.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir. Er því ljóst að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar kæranda felur ekki í sér lokaákvörðun. Þar sem hin kærða ákvörðun um neikvæða afstöðu til fyrirspurnar er ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli, verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir