Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

155/2016 Skútahraun 6

Með
Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 155/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2016, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Húsfélagið Skútahrauni 4, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. október 2016 að veita leyfi fyrir geymsluhúsi úr einangruðum samlokueiningum á lóð nr. 6 við Skútahraun, Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 2. desember 2016 og 12. janúar 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 2. desember 2015 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar tekin fyrir fyrirspurn, dags. 27.11.2015, um byggingu geymsluhúss að stærð 670 m2. Nýbyggingin yrði staðsett á suðaustur hluta lóðarinnar nr. 6 við Skútahraun. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem tók erindið fyrir á fundi sínum 26. janúar 2016. Samþykkt var að unnið yrði að tillögu um uppbyggingu lóðar í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem yrði kynnt í skipulags- og byggingarráði áður en formleg grenndarkynning færi fram. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. mars 2016 var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert með bréfi, dags. 17. maí 2016, með athugasemdafresti til 18. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda.

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 13. júlí 2016 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi, dags. 11. s.m., um að byggja geymsluhús úr einangruðum samlokueiningum á lóð nr. 6 við Skútahraun. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem samþykkti það á fundi 9. ágúst s.á. Sú afgreiðsla skipulags- og byggingrráðs var staðfest á fundi bæjarráðs 11. ágúst 2016. Hinn 26. október s.á. var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi á grundvelli nýrra teikninga sem borist hefðu í september 2016 og var athugasemdum kæranda svarað með bréfi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 26. september s.á. Hinn 11. janúar 2017 var erindi leyfishafa tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa. Var bókað að leyfishafi óskaði eftir því að draga til baka umsókn sína um byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið 26. október 2016. Jafnframt var bókað um afgreiðslu beiðnarinnar að fundurinn staðfesti erindið.

Kærendur skírskota til þess að hin kærða ákvörðun eigi hvorki stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins né viðhlítandi lögum auk þess sem öll meðferð málsins hafi brotið gróflega gegn efnis- og málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma að mannvirki sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Hin kærða ákvörðun sé á engan hátt í samræmi við skipulagsáætlanir og málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar hafi verið byggð á röngum grundvelli. Hafi verið byggt á að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið. Hafi því verið farið með málið í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem eingöngu sé heimilt þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um óverulega breytingu á því sé að ræða. Fyrir liggi að deiliskipulagið Drangahraun-Skútahraun gildi fyrir svæðið. Sé enginn byggingarreitur markaður þar sem hin umdeilda bygging eigi að rísa og hafi heldur ekki verið að hægt að byggja á að um óverulega breytingu hefði verið að ræða enda geti 700 m2 bygging vart talist óveruleg breyting. Hin umrædda bygging geti jafnframt haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika lóða kærenda.

Af hálfu sveitarfélagins er ekki tekið undir athugasemdir kæranda. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Þá sé á það bent að leyfishafar hafi óskað eftir að byggingarleyfisumsóknin yrðu afturkölluð og hafi það verið staðfest af skipulags- og byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun hafi því verið afturkölluð og felld úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Líkt og að framan er rakið óskaði byggingarleyfishafi eftir því að afturkalla umsókn sína um byggingarleyfi, en hún var tilefni hinnar kærðu ákvörðunar. Hefur því og verið lýst yfir af hálfu Hafnafjarðarbæjar að ákvörðunin hafi verið afturkölluð og undir það rennir stoðum sú afgreiðsla skipulags- og byggingarfulltrúi 11. janúar 2017, sem nánar hefur verið lýst. Er því ljóst að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hafa kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir 

56/2015 Gamla bíó

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 19. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2015, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. júní 2015 um að hafna beiðni um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk við tónleikahald í Gamla bíói.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir P. Petersen ehf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. júní 2015 að hafna beiðni um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk við tónleikahald í Gamla bíói. Um leið er kærð sú ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að skerða gildandi starfsleyfi kæranda.

Er þess krafist að ákvörðunin frá 23. júní 2015 verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir heilbrigðiseftirlitið að taka nýja ákvörðun á lögmætum grundvelli. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði að starfsleyfi  kæranda frá 25. júní 2013 taki til tónleikahalds og veitingareksturs.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 23. september 2015 og 11. janúar 2017.

Málavextir: Kærandi stendur fyrir rekstri að Ingólfsstræti 2a, Gamla bíói. Hefur hann leyfi sem útgefið var 25. júní 2013 til að starfrækja þar leikhús og samkomusali. Gildir starfsleyfið til 25. júní 2025 með fyrirvara um endurskoðun á fjögurra ára fresti.

Hinn 4. febrúar 2015 fór fram reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á starfsstöð kæranda. Sagði í bréfi eftirlitsins til kæranda, dags. 18. s.m., að komið hefði fram við eftirlitið að gerðar hefðu verið viðamiklar breytingar á starfsemi og húsnæði Gamla bíós frá því að gildandi starfsleyfi hefði verið gefið út. Komið hefði verið upp móttökueldhúsi, sett upp lyfta og salernum hefði verið fjölgað. Samkvæmt upplýsingum starfsleyfishafa verði starfsemi eftir breytingarnar veitingarekstur, leikhús, tónleikahald, ráðstefnuhald, fundir, veislur og útleiga á samkomusölum. Jafnframt kom fram í bréfinu að mat heilbrigðiseftirlitsins væri að breytingar á húsnæðinu og starfsemi hússins væru það veigamiklar að nauðsynlegt væri að gefa út nýtt starfsleyfi, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.

Kærandi svaraði með bréfi, dags. 3. mars s.á., þar sem hann mótmælti túlkun heilbrigðiseftirlitins á starfsleyfi hans. Ekki hefði verið gætt andmælaréttar við gerð eftirlitsskýrslu, sem þó væri skylt. Kærandi mótmælti jafnframt þeim skilningi að starfsemi í húsnæðinu væri umtalsvert breytt frá því sem verið hefði. Þvert á móti rúmuðust breytingarnar fullkomlega innan gildandi starfsleyfis. Ekki væri ljóst hvaða málefnalegu forsendur lægju að baki þeirri niðurstöðu heilbrigðiseftirlitsins að kæranda bæri að sækja um nýtt starfsleyfi. Samkvæmt 12. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 bæri leyfishafa að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi en ekki á húsnæði eða aðstöðu þar sem hin leyfisskylda starfsemi færi fram. Mótmælti kærandi því að honum væri gert að sækja á ný um starfsleyfi fyrir starfsemi sína.

Með bréfi, dags. 25. mars 2015, ítrekaði heilbrigðiseftirlitið þá afstöðu sína að þær breytingar hefðu verið gerðar á húsnæði Gamla bíós að starfsemin rúmaðist ekki innan gildandi starfsleyfis. Hins vegar var tekið fram að kærandi hefði sótt um breytingu á starfsleyfi með umsókn, dags. 15. október 2014, sem væri óafgreidd og því væri krafa heilbrigðiseftirlitsins um nýja umsókn á misskilningi byggð. Umsóknin hefði tekið til starfsemi sem rúmaði m.a. veitingasölu og tónleikahald. Í viðbótarupplýsingum hefði komið fram að sótt væri um leyfi fyrir auknum hávaða dagana 5.-9. nóvember s.á. Ekki hefði verið unnt að afgreiða umsókn kæranda um breytingu á starfsleyfi, þar sem jákvæð lokaúttekt embættis byggingarfulltrúa lægi ekki fyrir, en umsóknin yrði tekin til vinnslu og myndi kærandi verða upplýstur um afgreiðslu hennar.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2015, fór kærandi fram á að honum yrðu veittar upplýsingar um hvaða stjórnsýslumál er vörðuðu hann væru til meðferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þar sem afar óljóst væri hvaða mál væri um að ræða. Í svari heilbrigðiseftirlitsins frá 6. maí s.á. var ítrekað að af hálfu eftirlitsins væri litið svo á að umsókn um breytingu á starfsleyfi, dags. 15. október 2014, hafi borist heilbrigðiseftirlitinu frá kæranda. Samkvæmt 4. gr. a., sbr. fylgiskjal III með lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, væri óheimilt að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi leyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Væri heilbrigðisnefnd heimilt að beita þvingunarúrræðum 26. gr. sömu laga væri ekki látið af þessháttar starfsemi.

Í bréfi kæranda til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 13. maí s.á., var skilningi eftirlitsins á réttarstöðu kæranda mótmælt. Umsókn frá 15. október 2014 hafi aðeins verið vegna tímabundins viðburðar en ekki umsókn um breytingu á starfsleyfi. Skilningur kæranda væri sá að starfsemi hans rúmaðist innan gildandi starfsleyfis og ekki væri þörf á að breyta því. Starfsemi hans í húsnæði Gamla bíós væri rekin á grundvelli fullgilds leyfis frá 25. júní 2013 og fullyrðingar um annað væru rangar.

Með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 11. júní 2015, sótti kærandi um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk á tilteknum viðburði í Gamla bíói 8. ágúst s.á. Var sótt um leyfi til að færa hljóðstyrk í 102 dB á atburðinum. Erindi þessu var svarað með bréfi eftirlitsins, dags. 23. s.m., þar sem umsókn kæranda um aukinn hljóðstyrk var hafnað. Var vísað til töflu V í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða þar sem mörk um jafngildishljóðstig fyrir samkomustaði, útiskemmtanir og aðra staði þar sem fólk dvelji í skamman tíma væru ákveðin 95 dB. Í 9. gr. reglugerðarinnar væri heimildarákvæði og samkvæmt því væri mögulegt í starfsleyfi að heimila hærra hljóðstig á einstaka viðburðum, væri um að ræða staði sem væru sérstaklega ætlaðir til tónleikahalds. Um það væri ekki að ræða í tilfelli kæranda og því væri umsókn hans hafnað.

Kærandi mótmælti enn fyrrgreindri túlkun heilbrigðiseftirlitsins á starfsleyfi hans með bréfi, dags. 7. júlí s.á. Kvaðst kærandi, í ljósi fyrri samskipta, einkum athugasemda sinna í bréfi, dags. 13. maí s.á., á engan hátt sætta sig við framsetningu eftirlitsins á málinu og málsmeðferð. Var þess krafist að synjunin yrði afturkölluð. Með bréfi, dags. 9. s.m., var ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um synjun á auknum hljóðstyrk í Gamla bíói ítrekuð með vísan til fyrri forsendna.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að hann hafi leyfi frá 25. júní 2013 til að starfrækja leikhús og samkomusali í Gamla bíói. Sé leyfið veitt til 25. júní 2025 og gefið út með samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomuhús. Kærandi hafi alla tíð verið skýr um áform sín um rekstur sinn á staðnum, þ.m.t. um veitingarekstur og tónleikahald. Í rekstrarleyfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. júlí 2013, sé áréttað að þar sem kærandi uppfylli skilyrði laga nr. 85/2007 og reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé honum veitt leyfi til reksturs „veitingastaðar í flokki III/samkomusalir“. Rekstrarleyfi hafi verið endurnýjað 14. maí 2014, þar sem veitingatími hafi verið heimilaður til kl. 3 um helgar. Í tengslum við breytinguna hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitt jákvæða umsögn um rekstrarleyfið, dags. 8. apríl 2014. Af umsögninni sé augljóst að hún miðist við starfrækslu veitinga- og samkomustaðar. Tekið sé fram að með tilliti til fjölda salerna sé heimild veitt að hámarki fyrir 450 gesti á staðnum. Í rekstrarleyfinu sé jafnframt tekið fram að leyfishafa beri að framfylgja reglum um búnað veitingastaða skv. III. kafla reglugerðar nr. 585/2007.

Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 585/2007 séu veitingastaðir í flokki III umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þeir þar sem leikin sé hávær tónlist og/eða afgreiðslutími sé lengri en til kl. 23 og kalli á meira eftirlit og/eða löggæslu. Gamla bíó eigi sér langa sögu sem samkomuhús, þ. á m. sé tónleikahald og veitingarekstur.

Tilkynning Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 18. febrúar 2015, þess efnis að ljóst væri að verulegar breytingar hefðu verið gerðar á starfsemi og húsnæði Gamla bíós frá því að gildandi starfsleyfi hefði verið gefið út, hefði komið kæranda mjög á óvart. Kærandi hefði mótmælt afstöðu og málsmeðferð heilbrigðiseftirlitsins. Breytingarnar sem gerðar hefðu verið hefðu ekki falið í sér breytingar á forsendum starfsleyfisins eða þeirri starfsemi sem þar færi fram, heldur eingöngu á húsnæði. Fullyrðing heilbrigðiseftirlitsins í bréfi, dags. 25. mars s.á., um að fyrir lægi umsókn um breytingu á starfsleyfi kæranda frá því í október 2014, hefði ekki verið til þess fallin að skýra málið. Hafi þessari afstöðu eftirlitsins verið mótmælt frá upphafi.

Mál það sem lagt sé fyrir úrskurðarnefndina snúist um gildi starfsleyfis kæranda frá 25. júní 2013. Ljóst sé af hans hálfu að starfsleyfi hans til að reka samkomusali taki einnig til tónleikahalds og veitingastarfsemi, eins og rakið sé í samskiptum kæranda við heilbrigðiseftirlitið. Vakin sé athygli á því að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi áður fallist á beiðni um aukinn hljóðstyrk í Gamla bíói, með ákvörðun, dags. 4. nóvember 2014. Á þeim tíma hafi enginn vafi virst leika á því að tónleikahald rúmaðist innan starfsleyfis kæranda. Það sé áréttað að starfsleyfið sé gefið út með vísan til samræmdra starfsleyfisskilyrða fyrir samkomuhús en samkvæmt þeim séu samkomustaðir staðir þar sem fram fari skemmtana- og samkomuhald, þ.m.t. hljómleikasalir og veitingastaðir, sbr. verklagsreglur Umhverfisstofnunar. Ekkert hafi komið fram af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem bendi til þess að starfsleyfi kæranda hafi á einhvern hátt verið takmarkað þannig að það tæki ekki til veitingareksturs og tónleikahalds. Hefði slíkt átt að koma fram í starfsleyfinu og þá á hvaða lagagrundvelli það væri gert.

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sé falið opinbert vald við útgáfu starfsleyfa til samkomuhúsa, til að hafa eftirlit með útgáfu slíkra leyfa og þeirri starfsemi sem fram fari á grundvelli þeirra. Með því að líta eingöngu til þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á húsnæði Gamla bíós hafi heilbrigðiseftirlitið komið sér hjá því að leggja sjálfstætt mat á það hvort að breytingar hafi orðið á þeirri starfsemi sem starfsleyfið taki til, en því sé skylt að láta fara fram slíkt mat á grundvelli 4. gr. a. laga nr. 7/1998 og 12. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Í svörum sínum hafi eftirlitið komið sér hjá því að skýra nánar hvaða þættir það séu í starfsemi Gamla bíós sem falli ekki undir gildandi starfsleyfi eða hvað felist nánar í leyfi til að reka samkomusali.

Með málsmeðferð sinni hafi heilbrigðiseftirlitið valið málinu farveg sem ekki samrýmist lögum. Í stað þess að taka sjálfstæða og formlega afstöðu til málsins, að undangenginni lögbundinni málsmeðferð skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993, hafi eftirlitið valið að leggja málið þannig upp að kærandi hafi sjálfur óskað eftir breytingu á gildandi starfsleyfi og þar sem ekki lægi fyrir úttekt byggingarfulltrúa væri ekki hægt að afgreiða umsókn hans. Þessi framsetning sé gjörsamlega röng og ómálefnaleg.

Kærandi hafi leitast við að útskýra fyrir Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að alltaf hafi legið fyrir að breytingar yrðu gerðar á húsnæði Gamla bíós og að þær hefðu verið unnar í samráði við starfsmenn Reykjavíkurborgar. Hafi engin leynd hvílt yfir þeim. Þær breytingar sem um ræði hafi verið gerðar til þess að mæta auknum kröfum, m.a. um aðbúnað og öryggi, og séu að öllu leyti í samræmi við þá starfsemi sem fram fari í húsnæðinu samkvæmt gildandi starfsleyfi.

Óhjákvæmilegt sé að krefjast þess að synjun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á leyfi fyrir auknum hljóðstyrk, á grundvelli þess að starfsleyfi kæranda taki ekki til tónleikahalds, verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Reykjavíkurborg að taka málið umsvifalaust til umfjöllunar á ný á lögmætum grundvelli. Jafnframt sé óhjákvæmilegt að gera þá kröfu að sú ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að kærandi hafi ekki starfsleyfi þegar komi að tónleikahaldi og veitingasölu verði felld úr gildi.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlitið kveðst hafa farið í reglubundið eftirlit í Gamla bíó, en slíkt eftirlit sé framkvæmt á grundvelli 63. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í kjölfar eftirlitsferðarinnar hafi verið útbúin eftirlitsskýrsla, þar sem teknar hafi verið saman niðurstöður eftirlitsins. Umfangsmiklar breytingar hefðu verið gerðar á fasteigninni. Framkvæmdir hefðu átt sér stað á öllum hæðum hússins, lyfta hefði verið sett upp, ný salerni, móttökueldhús sett upp, ný gólfefni og fyrirkomulagi á sal hefði verið breytt. Af hálfu kæranda hefði komið fram að eldhúsið hefði verið sett upp til að hægt yrði að bjóða upp á veitingar í húsinu. Að mati heilbrigðiseftirlitsins hafi framangreindar breytingar falið í sér að starfseminni hefði verið breytt verulega frá því að gildandi starfsleyfi hafi verið gefið út 25. júní 2013. Samkvæmt starfsleyfinu nái það til að starfrækja leikhús og samkomusali og gildi um reksturinn samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir samkomuhús.

Hafi kæranda verið ritað bréf, dags. 18. febrúar 2015, þar sem sú afstaða heilbrigðiseftirlitsins að starfsemin í húsinu væri ekki í samræmi við starfsleyfisskilyrði hafi verið tilkynnt. Komist hefði verið að nefndri niðurstöðu vegna þeirra miklu breytinga sem gerðar hefðu verið á rekstrinum. Samkvæmt upplýsingum kæranda ætti að breytingunum loknum að fara fram í húsinu veitingarekstur, leikhúsrekstur, tónleikahald, ráðstefnur, fundir, veislur og útleiga á sal. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins hafi komið fram að það mæti það svo að breytingarnar kölluðu á nýtt starfsleyfi, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Jafnframt hafi komið fram að eftirlitið gerði leyfishafa að sækja um nýtt starfsleyfi, sem rúmaði þá starfsemi sem áformuð væri í húsinu, innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins.

Í kjölfar framangreinds bréfs hafi embættinu borist bréf frá kæranda, dags. 3. mars 2015, þar sem ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um að sækja þyrfti um nýtt starfsleyfi hafi verið mótmælt. Svarbréf eftirlitsins, þar sem fyrri afstaða sé ítrekuð, sé dags. 25. mars s.á. Jafnframt hafi sagt í bréfinu að við skoðun málsins hjá heilbrigðiseftirlitinu hafi komið í ljós að 15. október 2014 hafi verið sótt um breytingu á gildandi starfsleyfi kæranda. Hafi verið vísað til þess að í umsókn um starfsleyfi, þar sem einnig hafi verið sótt um undanþágu til þess að hafa hærra hljóðstig en leyfilegt sé, segði að sótt væri um breytingu á starfsleyfi sem tæki til veitingasölu og tónleikahalds.

Heilbrigðiseftirlitið meti það svo að með framangreindri umsókn hafi verið sótt um breytingar og að hún fullnægi þeim kröfum sem fram hafi komið í bréfi eftirlitsins, dags. 18. febrúar 2015. Afstaða eftirlitsins sé enn sú að í fyrrgreindri umsókn hafi falist umsókn um breytingu á starfsleyfi, sem og að sótt hafi verið um tímabundið leyfi fyrir aukið hljóðstig.

Heilbrigðiseftirlitið mótmæli því að hafa á nokkurn hátt skert gildandi starfsleyfi kæranda, eins og haldið sé fram í kæru. Hins vegar hafi kærandi breytt rekstrarformi frá því starfsleyfi sem gefið hafi verið út 25. júní 2013 og hafi auk þess gert breytingar á aðstöðu í húsinu, sem kalli á nýtt leyfi. Meginstarfsemi í húsinu sé ekki lengur leikhússtarfsemi og samkomusalir, eins og gildandi leyfi taki til, heldur veitingastaðarekstur og tónleikahald. Í starfsleyfinu sé tekið fram að fyrirhugaðar breytingar á húsnæði, framleiðslu eða rekstri skuli gerðar í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Vissulega hafi flutningur tónlistar átt sér stað í húsinu fyrir breytingarnar og hafi rúmast innan starfsleyfisins. Þær breytingar sem nú hafi verið gerðar á rekstrinum felist m.a. í að eðli tónleikahalds og tónleikatími hafi breyst ogumtalsverð fjölgun gesta orðið.

Varðandi heimildir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til ákvarðanatöku í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur þá byggi þær á umboði því sem felist í 15. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar sé um að ræða lögákveðið umboð til handa heilbrigðisfulltrúum, sem sé gagnstætt umboðum sem grundvallist á almennum meginreglum umboðsreglna. Sé 15. gr. skoðuð í heild megi vera ljóst að ekki sé gert ráð fyrir að heilbrigðisnefnd sinni sjálf daglegum störfum og þeim viðfangsefnum sem henni séu falin samkvæmt einstökum ákvæðum laganna. Það sé í höndum heilbrigðisfulltrúa og af því leiði að umboð þeim til handa sé bundið við viðfangsefni heilbrigðisnefndar samkvæmt lögum og afleiddum réttarheimildum. Af 15. gr. verði jafnframt dregin sú ályktun að umboðið sé bundið við að annast eftirlit, sem og að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir svo að tryggja megi framkvæmd laganna. Í þessu samhengi sé mikilvægt að líta til annarra ákvæða laganna, svo sem 26. gr., sem veiti heilbrigðisfulltrúum víðtækt vald til töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana. Jafnframt verði að líta svo á að það sé í höndum heilbrigðisfulltrúa að túlka lög og reglur, sem og að svara erindum þar sem reyni á túlkun þeirra, t.d. á ákvæðum starfsleyfis.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skulu fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd og fellur starfsemi kæranda undir þá skyldu. Kærandi hefur leyfi til að starfrækja leikhús og samkomusali, Gamla bíó/Óperan, að Ingólfsstræti 2a, sem gildir til 23. júní 2025, með fyrirvara um endurskoðun á fjögurra ára fresti. Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. júní 2015 að synja kæranda um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk við tónleikahald 8. ágúst s.á., á þeim grundvelli að nefnt starfsleyfi hans heimilaði ekki aukinn hljóðstyrk. Þrátt fyrir að framangreindur dagur fyrirhugaðs tónleikahalds sé nú liðinn telur úrskurðarnefndin engu að síður að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar, enda liggur fyrir að hann hyggst standa fyrir sambærilegum viðburðum í framtíðinni. Úrskurðarnefndin tekur hins vegar aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu nefndrar ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinnar að fjalla um varakröfu kæranda þess efnis að staðfest verði að starfsleyfi hans taki til tónleikahalds og veitingareksturs. Einskorðast enda valdheimildir nefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar.

Í hinni kærðu ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins var vísað til marka á jafngildishljóðstigi fyrir samkomustaði í töflu V í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og tekið fram að í 9. gr. reglugerðarinnar segi að ef um sé að ræða staði sem séu sérstaklega ætlaðir til tónleikahalds sé leyfilegt að heimila í starfsleyfi hærra hljóðstig á einstökum viðburðum en taflan greini. Kærandi væri ekki með starfsleyfi sem heimilaði aukinn hljóðstyrk. Var umsókn hans um leyfi fyrir auknum hljóðstyrk á viðburði 8. ágúst 2015 því hafnað.

Nefnd reglugerð er sett með stoð í lögum nr. 7/1998, en í 13. gr. þeirra segir að heilbrigðisnefndum beri að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Kemur og fram í 11. gr. reglugerðarinnar að heilbrigðisnefndir hafi eftirlit með framkvæmd hennar undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Er því ljóst að heilbrigðisnefndir eru það stjórnvald sem almennt er ætlast til að taki ákvarðanir samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þær undantekningar eru þó sérstaklega tilgreindar í 26. gr. laganna að heilbrigðisfulltrúum auk heilbrigðisnefndar er veitt heimild til að beita tilteknum þvingunarúrræðum og í 5. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar að heilbrigðisfulltrúum er heimilað að leggja fyrir rekstraraðila að draga úr hávaða tafarlaust ef í ljós kemur að hljóðstig fer yfir mörk skv. töflu V í viðauka reglugerðarinnar. Beiting annarra þvingunarúrræða skv. 27. gr. laganna er hins vegar bundin við heilbrigðisnefnd.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hefur mál þetta ekki komið fyrir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur þar sem um hefðbundið afgreiðslumál hafi verið að ræða hjá heilbrigðiseftirlitinu. Kemur þá til skoðunar hvort heilbrigðiseftirlitið hafi verið bært til að taka hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998 ráða heilbrigðisnefndir á hverju eftirlitssvæði heilbrigðisfulltrúa, sem starfa í umboði nefndarinnar, til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Í 4. mgr. 3. gr. laganna er skilgreint að heilbrigðiseftirlit taki til hollustuhátta og mengunarvarna, sem er skilgreint svo í 1. mgr. að taki til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál. Eru þau viðfangsefni heilbrigðiseftirlits annars eðlis en ákvörðunarvald heilbrigðisnefnda sem áður er rakið. Að framangreindu virtu er ekki hægt að líta svo á að umboð heilbrigðiseftirlits samkvæmt nefndri 15. gr. laganna, til að annast lögbundið eftirlit með framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerða settra samkvæmt þeim, veiti eftirlitinu heimild til töku stjórnvaldsákvarðana án nokkurrar aðkomu heilbrigðisnefndar, í andstöðu við skýr ákvæði laga og reglugerða, án þess að valdframsal komi til.

Samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll úr gildi eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 1. mgr. 58. gr. hennar segir að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett fyrir því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Jafnframt segir í 2. mgr. nefndrar 58. gr. að á sama hátt og með sömu skilyrðum sé borgarstjórn heimilt að fela öðrum aðilum innan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála. Slíkir viðaukar við samþykktina voru samþykktir á fundi borgarráðs 3. júlí 2014, m.a. viðauki 2.2. um embættisafgreiðslur framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. Viðaukarnir voru staðfestir fyrir hönd ráðherra 10. nóvember 2015 og birtir í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. og höfðu því ekki hlotið lögmælta meðferð er hin umþrætta ákvörðun var tekin 23. júní s.á. Gilt valdframsal var því ekki til staðar en að auki skal á það bent að viðauki 2.2. gerir ráð fyrir því að til kasta heilbrigðisnefndar komi rísi ágreiningur um afgreiðslur framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins.

Samkvæmt öllu framansögðu fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út fyrir umboð sitt við töku hinnar kærðu ákvörðunar og verður að líta svo á að í afgreiðslu þess hafi falist tillaga til heilbrigðisnefndar um afgreiðslu erindis kæranda. Þar sem heilbrigðisnefnd hefur ekki komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

122/2016 Unnarstígur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 19. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu Unnarstíg 2 á sameiginlegri lóð nefnds húss og Unnarstígs 2a og á ákvörðun hans frá 29. s.m. um að aflétta stöðvun framkvæmda við húsið Unnarstíg 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Unnarstígur ehf., eigandi Unnarstígs 2a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. ágúst 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum að Unnarstíg 2 og þá ákvörðun hans frá 29. s.m. að aflétta verkbanni á framkvæmdum á sameiginlegri lóð kæranda og leyfishafa. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. september 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 29. janúar 2015, var sótt um leyfi til að dýpka kjallara og setja nýtt dren kringum hús nr. 2 við Unnarstíg. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 10. mars 2015 og lá þá fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 23. febrúar s.á. Var bókað að samþykki meðlóðarhafa á teikningu fylgdi og að skilyrt væri að ný eignaskiptayfirlýsing væri samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis. Byggingarleyfi var svo gefið út 12. ágúst s.á., án þess að fyrir lægi ný eignaskiptayfirlýsing.

Með bréfi, dags. 30. október 2015, beindi eigandi Unnarstígs 2a kvörtun að byggingarleyfishafa vegna framkvæmda hans og benti á að lóð Unnarstígs 2 og 2a væri í sameign þeirra. Benti eigandi Unnarstígs 2a á slíkt hið sama í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. nóvember s.á. Þar mótmælti eigandi Unnarstígs 2a framkvæmdunum, benti á að samþykki hans hefði ekki legið fyrir og gerði athugasemdir við leyfisveitingu byggingarfulltrúa. Svar umhverfis- og skipulagssviðs frá 1. desember s.á. var á þá leið að ekki væri fallist á að framkvæmdirnar sem leyfðar hefðu verið 10. mars s.á. kölluðu á samþykki meðeiganda lóðar. Um væri að ræða innanhúsbreytingu á séreign og flokkaðist drenlögn undir eðlilegt og eftir atvikum nauðsynlegt viðhald.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins Unnarstígs 2, síkka glugga í hjónaherbergi í kjallara, gera dyr út í garð og grafa frá kjallara hússins. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.

Í kjölfar vettvangsskoðunar stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir á lóðinni með bréfi, dags. 20. maí 2016. Var tiltekið að breytingar hefðu átt sér stað á ytra byrði hússins sem ekki væri byggingarleyfi fyrir. Gluggar hefðu verið síkkaðir á austurhlið og gerðar nýjar dyr, auk þess sem glugga á vesturhlið hefði verið lokað. Var stöðvuninni mótmælt samdægurs af leyfishafa sem tók fram að gluggar hefðu ekki verið síkkaðir á austurhlið hússins og að einum glugga á þeirri hlið hefði verið breytt tímabundið til að auðvelda flutning á jarðvegsefni út úr fasteigninni vegna framkvæmda við dýpkun á kjallara samkvæmt byggingarleyfi. Glugganum verði komið í samt horf að loknum framkvæmdum enda hafi aldrei staðið til að breyta honum í dyr. Hvað varði lokun glugga á vesturhlið hafi verið um mistök verktaka að ræða sem verði leiðrétt. Frekari samskipti áttu sér stað milli aðila og með bréfi byggingarfulltrúa 23. júní s.á. var leyfishafa tilkynnt að við vettvangsrannsókn degi fyrr hefðu komið í ljós frekari óleyfisframkvæmdir og að framkvæmdir í húsinu væru stöðvaðar.

Með umsókn, dags. 1. júní 2016, var enn sótt um breytingar á Unnarstíg 2. Á umsóknarblaði var tekið fram að lóð yrði endurnýjuð í sama formi og verið hefði fyrir framkvæmdir við drenlagnir og að engin breyting yrði á lóð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. ágúst s.á. var umsóknin samþykkt og tekið fram að fyrri umsókn frá 26. apríl s.á. væri dregin til baka. Í samþykktu byggingarleyfi fólst að innra skipulagi hússins yrði breytt, gluggar á austurhlið hússins síkkaðir og færðir í upprunalegt horf, dyr vestanmegin í kjallara yrðu fjarlægðar og steypt upp í gat og kæmi þar nýr gluggi að hluta, timburstigi við inngang á austurhlið yrði fjarlægður og steyptur stigi á suðurhlið yrði rifinn og nýr steyptur í hans stað. Að auki yrði geymsla í risi yfir salerni og fjarlægður yrði timburstigi úr borðstofu og nýr timburstigi settur í staðinn. Við samþykkt byggingarfulltrúa var bókað að umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 17. s.m., fylgdi. Var umsögnin þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að afla samþykkis annarra lóðarhafa fyrir umsóttum breytingum. Yrði ekki séð að þær hefðu nein þau áhrif á hagsmuni meðlóðarhafa að samþykki þeirra yrði krafist. Hefur þessi síðastgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með tölvupósti byggingarfulltrúa 29. s.m. var leyfishafa tilkynnt að stöðvun framkvæmda væri aflétt þar sem áform um breytingar á húsinu hefðu verið samþykkt. Var jafnframt farið fram á að lóðin yrði færð í upprunalegt horf, eins og kostur væri, án þess að afstaða væri tekin til endanlegs frágangs lóðarinnar. Hefur þessi ákvörðun einnig verið kærð, eins og áður segir.

Í málinu liggur fyrir álit kærunefndar húsamála frá 8. júní 2016 þess efnis að framkvæmdir við Unnarstíg 2 samkvæmt byggingarleyfinu frá 10. mars 2015 séu heimilar án samþykkis meðlóðarhafa, en leyfishafa beri að koma lóðinni í fyrra horf að loknum framkvæmdum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt skiptasamningi, dags. 20. ágúst 1976 og þinglýstum 23. s.m., sé umþrætt lóð sameiginleg eignarlóð hans og leyfishafa og sé hún í óskiptri sameign. Lóðinni hafi ekki verið skipt og af þeim sökum séu eigendur beggja húseigna á lóðinni jafn réttháir að öllu leyti.

Óumdeilt sé að hin kærða ákvörðun um samþykkt á umsókn kærða um útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 9. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að auki gildi almennar meginreglur stjórnsýsluréttar um stjórnsýslu sveitarfélaga. Þar sem hin nýja umsókn hafi lotið að framkvæmdum á sameiginlegri lóð, og beinlínis sé tilgreint í umsókninni að ætlunin sé að endurnýja lóð í sama formi og hún hafi verið í áður en leyfishafi hafi byrjað á því sem hann nefni drenlagnavinnu á lóðinni, hafi aðild kæranda að málinu verið óhjákvæmileg. Hafi byggingarfulltrúa því borið að tilkynna kæranda með formlegum hætti að umsóknin, sem lyti m.a. að hinni sameiginlegu lóð hans og leyfishafa, væri til meðferðar hjá embættinu.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga skuli upplýsa aðila máls um gögn þau sem komið hafi fram í málinu og samkvæmt 13. gr. sömu laga skuli aðili máls eiga kost á því að tjá sig um þau gögn og koma að athugasemdum sínum áður en ákvörðun í málinu sé tekin, sbr. 10. gr. sömu laga. Fyrir liggi að ákvörðun byggingarfulltrúa 23. ágúst 2016 hafi verið send kæranda með tölvupósti 2. september s.á. Kæranda hafi hins vegar í engu verið veittar leiðbeiningar um réttarstöðu sína í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, hann hafi með engum hætti verið upplýstur um gögn málsins í samræmi við 15. gr. laganna og þannig hafi aldrei verið veittur andmælaréttur eins og skýrt sé kveðið á um í 13. gr. sömu laga.

Kærandi bendi á að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi einnig farið í bága við réttmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar, sem kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati kæranda geti það aldrei talist málefnalegt að veita tilteknum aðila leyfi til framkvæmda á sameiginlegri lóð án þess að aflað sé samþykkis meðlóðarhafa. Þá bendi kærandi á að jafnvel þótt byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að taka hina kærðu ákvörðun þá hafi honum í öllu falli borið að gæta meðalhófs og ganga úr skugga um að réttindi kæranda yrðu tryggð. Hefði byggingarfulltrúa þannig verið í lófa lagið að binda byggingarleyfi því skilyrði að samþykki kæranda þyrfti til framkvæmdanna eða að fyrir lægi með hvaða hætti kæranda yrði bætt það tjón sem hann verði fyrir vegna þeirra.

Grundvöllur allra framkvæmda leyfishafa á hinni sameiginlegu lóð hafi verið umsókn hans um byggingarleyfi, sem samþykkt hafi verið 10. mars 2015. Fyrir liggi að mistök hafi verið gerð við þá afgreiðslu af hálfu byggingarfulltrúa. Áskilið sé í 10. gr. laga um mannvirki að hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn fylgi með umsókn um byggingarleyfi, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt gögnum málsins hafi slíkt samþykki ekki legið fyrir við ákvarðanatöku byggingarfulltrúa. Þá hafi skilyrði byggingarfulltrúa um að ný eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu leyfisins ekki verið uppfyllt.

Eins og fyrr greini hafi byggingarleyfið frá árinu 2015 einungis náð til þess að leggja drenlögn umhverfis húsið að Unnarstíg 2. Framkvæmdir leyfishafa hafi hins vegar tekið til nánast allrar hinnar sameiginlegu lóðar. Þá liggi fyrir að framkvæmdirnar hafi farið gegn ákvæðum laga um fjöleignarhús.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg fellst ekki á að samþykki meðlóðarhafa hafi verið áskilið fyrir hinum samþykktu áformum er varði útlitsbreytingar eða breytingar innanhúss. Verði ekki séð að kærandi hafi neina þá hagsmuni að slíkar framkvæmdir kalli á samþykki hans, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Hafi því ekki komið til þess að kæranda væri tilkynnt sérstaklega um fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn eða honum veittur sérstakur andmælaréttur.

Hvað varði þá málsástæðu að óheimilt hafi verið að gefa út byggingarleyfi þar sem þinglýstur eignaskiptasamningur hafi ekki legið fyrir skuli á það bent að byggingaryfirvöldum sé heimilt að falla frá þessu ólögbundna skilyrði um þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingar fyrir útgáfu byggingarleyfa. Um þetta vísi sveitarfélagið til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 98/2008, en í niðurstöðu hans komi fram að ekki sé fyrir hendi lagaskylda til að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu fyrir fjöleignarhús áður en heimilaðar breytingar eða viðbyggingar hefjist. Hafi byggingaryfirvöldum því verið heimilt í því máli að falla frá þessu ólögbundna skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins sem sett hafi verið við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Hvað varði þá málsástæðu kæranda að um lækkun á jarðvegi/lóð sé að ræða skuli á það bent að ekki liggi fyrir samþykki byggingaryfirvalda fyrir slíkum breytingum. Þvert á móti sé tekið fram í hinum samþykktu áformum að engar breytingar verði á lóð. Það sé því á hendi lóðarhafa að ganga þannig frá lóðinni að hún verði án breytinga. Ekki sé fallist á að leggja hafi þurft fram uppdrætti af frágangi lóðar, enda standi til að koma henni í upprunalegt horf. Hvað varði þá málsástæðu að með samþykkt byggingaráforma 10. mars 2015 hafi rúmmál hússins verið aukið um 41 m3 og byggingarréttur meðeigenda þannig skertur skuli á það bent að ekkert deiliskipulag sé í gildi og enginn byggingarréttur sé fyrir hendi á lóðinni. Sé því ekki verið að skerða nein slík réttindi. Til upplýsinga skuli þó nefna að það sé rétt sem fram komi í kæru að í samþykktinni vegna þessa máls hafi verið tekið fram að samþykki meðlóðarhafa hafi fylgt erindinu. Þar hafi verið um misritun að ræða, en um hafi verið að ræða samþykki meðeiganda hússins nr. 2 við Unnarstíg.

Ekki sé heldur fallist á að sú ákvörðun byggingarfulltrúa að aflétta stöðvun framkvæmda sé haldin þeim ágöllum að varði ógildingu hennar. Um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa, sem hafi metið stöðu máls svo að ekki væri tilefni til að halda verkinu áfram í stöðvun. Fram hafi verið komin áform um að koma lóðinni í samt lag og búið væri að samþykkja áform um breytingar innanhúss og utan. Sæti reyndar nokkurri undrun að kærandi skuli kvarta yfir því að búið sé að grafa út lóðina og hindra aðgengi hans að henni, ef svo sé, en leggist svo gegn áformum um að lóðinni verði komið í samt lag. Á það skuli bent að í heimild til áframhaldandi framkvæmda felist einungis lækkun gólfs og drenlagnavinna, en eins og fram hafi komið sé ekki búið að gefa út byggingarleyfi vegna samþykktar byggingarfulltrúa frá 23. ágúst 2016.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir með öllu að samþykki kæranda hafi þurft fyrir því jarðraski sem óhjákvæmilega fylgi endurnýjun á drenlögnum. Um hafi verið að ræða nauðsynlegar aðgerðir til að leyfishafi gæti nýtt fasteign sína. Af réttarreglum um óskipta sameign leiði í fyrsta lagi að sameigandi þurfi ekki samþykki sameigenda sinna ef um sé að ræða framkvæmdir sem séu öðrum sameigendum að bagalausu. Ljóst sé að framkvæmdir leyfishafa feli það í sér að lóðin og lagnir verði á allan máta betri en þær hafi verið fyrir framkvæmdir. Í þeim skilningi séu framkvæmdir leyfishafa kæranda að bagalausu. Vissulega hafi framkvæmdir tekið langan tíma og lóðin verið opin nokkuð lengi. Sá langi tími skrifist hins vegar fyrst og fremst á kæranda, en fulltrúar félagsins hafi á öllum vígstöðvum barist fyrir því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Í öðru lagi leiði af réttarreglum um óskipta sameign að ráðstafanir sem gengið hafi verið út frá við stofnun sameignar séu hverjum sameigenda heimilar án samþykkis annarra sameigenda. Sameign um lóðina að Unnarstíg 2 hafi orðið til með þeim hætti að eignarhald mannvirkja á lóðinni hafi komist á tvær eða fleiri hendur. Um sé að ræða íbúðarhúsalóð með tveimur húsum. Eðli málsins samkvæmt hafi legið fyrir frá upphafi að eigendur mannvirkjanna á lóðinni þyrftu í tímans rás að sinna eðlilegu viðhaldi eignanna, sem eftir atvikum gæti þýtt jarðrask á hinni sameiginlegu lóð. Þetta séu því tvímælalaust ráðstafanir sem gengið hafi verið út frá við stofnun sameignar. Engin rök mæli með því að kærandi geti komið í veg fyrir eðlilegt og nauðsynlegt viðhald fasteignarinnar að Unnarstíg 2.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu Unnarstíg 2 og ákvörðun hans frá 29. s.m. um að aflétta stöðvun framkvæmda við húsið, sem stendur á sameiginlegri lóð leyfishafa og kæranda sem eiganda hússins að Unnarstíg 2a. Fyrir liggur að leyfishafi hefur staðið fyrir framkvæmdum á húsi sínu frá því að eldra leyfi var veitt 2015 til að dýpka kjallara þess og gera nýtt dren kringum húsið. Hafa framkvæmdirnar falið í sér rask á lóðinni og byggingarfulltrúi talið þær fara umfram það leyfi sem veitt var.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Byggingarfulltrúi samþykkti nýtt byggingarleyfi 23. ágúst 2016 og sætir það kæru í máli þessu. Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur í sér leyfi til breytinga innanhúss og til útlitsbreytinga á austur- og vesturhlið, auk endurnýjunar á steyptum stiga á suðurhlið hússins að Unnarstíg 2. Hús kæranda, Unnarstígur 2a, stendur á sömu lóð, sunnan hússins nr. 2. Verður, miðað við staðhætti, ekki séð að hinar leyfðu breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda eða öðrum þeim einstaklingsbundnu lögvörðu hagsmunum hans á þann hátt að veitt geti honum kæruaðild í máli þessu. Verður og ekki talið að kæruaðild skapist vegna þess að hús það sem hið kærða leyfi tekur til standi á sameiginlegri lóð leyfishafa og kæranda, enda er það hús í séreign leyfishafa auk þess sem nefnt leyfi tekur ekki til lóðarinnar. Af þeim sökum verður þessum hluta málsins vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfum, dags. 20. maí og 23. júní 2016, stöðvaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík allar framkvæmdir á lóðinni Unnarstíg 2, með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem framkvæmdir hefðu farið út fyrir heimildir byggingarleyfis þess sem samþykkt var 10. mars 2015. Í kjölfar stöðvunarinnar var sótt um byggingarleyfi fyrir frekari framkvæmdum og var það samþykkt 23. ágúst 2016. Voru umsóttar framkvæmdir þar með samþykktar og þær heimilaðar frá útgáfu byggingarleyfis, sem hefur þó enn ekki verið gefið út.

Með tölvupósti 29. ágúst s.á. tilkynnti byggingarfulltrúinn leyfishafa að stöðvun framkvæmda á lóðinni væri aflétt. Sú ákvörðun fól hins vegar einungis í sér að heimilt væri að hefja að nýju dýpkun kjallara og drenlagnavinnu samkvæmt upprunalegu byggingarleyfi frá 10. mars 2015, en það leyfi hefur ekki verið kært. Kemur það því ekki til skoðunar í þessu máli, en kærufrestur vegna þess er nú löngu liðinn. Byggingarfulltrúi beitti umræddri stöðvun tafarlaust með heimild í lögum og án undanfarandi málsmeðferðar gegn framkvæmdum leyfishafa, sem hófust með byggingarleyfi sem samþykkt var rúmu ári áður. Það byggingarleyfi er stjórnvaldsákvörðun sem skapar leyfishafa ákveðin réttindi, en ákvörðun um að stöðva framkvæmdir sem farið hafa út fyrir leyfið og síðar aflétta stöðvun framkvæmda er meðferð bráðabirgðaúrræðis til að knýja á um rétta framkvæmd samkvæmt leyfinu. Þær ákvarðanir skapa hins vegar hvorki rétt manna né skyldur í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 59. gr. mannvirkjalaga er tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi vegna þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að aflétta stöðvun framkvæmda og verður þeim hluta kærunnar af þeirri ástæðu einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.


Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

20/2016 Skálabrekka Bláskógabyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2016, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 7. janúar 2016 á erindi varðandi endurnýjun byggingarleyfis fyrir byggingu sumarhúss og bátaskýlis á lóð nr. 196048 í landi Skálabrekku, Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar í landi Skálabrekku, landnúmer 196048, afgreiðslu skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 7. janúar 2016 á erindi kæranda varðandi endurnýjun byggingarleyfis fyrir byggingu sumarhúss og bátaskýlis á lóð hans í landi Skálabrekku í Bláskógabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 14. mars og 20. desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2015 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis frá 5. apríl 2011 fyrir byggingu sumarhúss og bátaskýlis á lóð nr. 196048 í landi Skálabrekku, Bláskógabyggð. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir og var það tekið fyrir á fundi nefndarinnar 13. maí s.á. Á þeim fundi var eftirfarandi fært til bókar: „Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. apríl 2015 í máli nr. 71/2011 varðandi byggingarleyfi viðbyggingar á lóðinni Hvannalundur 8 að þá telur skipulagsnefnd að ekki sé hægt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags um að deiliskipulag þurfi að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga verði fellt út. Afgreiðslu málsins er því frestað.“

Með tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins 6. nóvember 2015 var þess óskað að umsókn hans um byggingarleyfi yrði tekin til afgreiðslu. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsnefndar 7. janúar 2016 og var þar m.a. bókað: „Lögð fram beiðni […] um endurupptöku á afgreiðslu skipulagsnefndar frá 13. maí 2015 á máli er varðar byggingarleyfi á lóðinni. Í tölvupóstinum er farið yfir feril málsins hvað varðar uppbyggingu á lóðinni allt frá árinu 2000. Kemur m.a. fram að 26. júní 2007 hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss á lóðinni og að nú sé verið að óska eftir endurnýjun á þeirri samþykkt.“ Var niðurstaða skipulagsnefndar sú að ekki væru forsendur fyrir því að breyta afgreiðslu nefndarinnar frá 13. maí 2015. Jafnframt var tekið fram að byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið árið 2007 væri fallið úr gildi og hefði því ekki áhrif á málið. Loks var tilgreint að sá fyrirvari væri á samþykkt skipulagsnefndar að sveitarstjórn staðfesti hana á næsta fundi sínum.   
Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda var boðaður rökstuðningur að baki kæru hans en sá rökstuðningur hefur ekki borist úrskurðarnefndinni þrátt fyrir tilmæli nefndarinnar þar um. Gögn málsins bera með sér að kærandi byggi á því að hann hafi ekki getað nýtt sér fyrri byggingarleyfi sem veitt hafi verið fyrir mannvirkjum á umræddri lóð. Hann hafi staðið í þeirri trú að byggingar- og skipulagsyfirvöld gætu ekki dregið fyrri samþykktir sínar um leyfin til baka. Samþykkt hafi verið leyfi til byggingar nýs húss á lóðinni árið 2007 án þess að fyrir lægi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Þá kemur fram í kæru að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda í pósti 17. janúar 2016.

Málsrök Bláskógabyggðar: Í ljósi þess að boðaður rökstuðningur kæranda hafði ekki borist kaus sveitarfélagið að tjá sig ekki um efni málsins að svo stöddu, en samkvæmt bókunum við meðferð þess er hin umdeilda ákvörðun á því reist að ekki sé unnt að gefa út umbeðið byggingarleyfi að óbreyttu skipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu skipulagsnefndar Uppsveita bs. að fresta því að afgreiða umsókn kæranda um byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi tók nefnda umsókn fyrir á afgreiðslufundi 16. apríl 2015 og vísaði erindinu til skipulagsnefndar, en ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði, svo sem hér háttar, skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Málið var síðan lagt fram á fundi skipulagsnefndar 13. maí s.á. og afgreiðslu þess frestað. Var sú afstaða nefndarinnar á því reist að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá með því að fella út ákvæði í aðalskipulagi um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókn kæranda var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 7. janúar 2016, í framhaldi af ósk kæranda þar um í tölvupósti 6. nóvember 2015, og tekið fram að ekki væru forsendur til að breyta fyrri afgreiðslu nefndarinnar.

Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa, sbr. m.a. 9. og 11. gr. mannvirkjalaga. Skýrt er kveðið á um það í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu er ljóst að svo er ekki. Ber því að vísa kærunni að því leyti frá úrskurðarnefndinni.

Að þeirri niðurstöðu fenginni telur úrskurðarnefndin hins vegar rétt að fjalla um kæruna á þeim grundvelli að hún snúi að óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, enda lýtur hin kærða ákvörðun að frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016 tók gildi árið 2006 og var þar kveðið á um ekki yrðu gefin út byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að liðnum fjórum árum frá gildistöku þess. Er sú afstaða sveitarfélagsins í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Með greindu ákvæði tók sveitarfélagið þá ákvörðun að nýta sér ekki undanþáguákvæði 44. gr. skipulagslaga um að skipulagsnefnd geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ákveðið að unnt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Er sveitarstjórn bundin af nefndu ákvæði meðan aðalskipulaginu hefur ekki verið breytt að þessu leyti. Verður að líta svo á að rök sveitarfélagsins fyrir því að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda um byggingaleyfi hafi þar með verið málefnaleg.

Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga og gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 mun almenn endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar hafa hafist árið 2014. Hinn 15. desember 2016 var auglýst til kynningar lýsing á skipulagsverkefninu, sbr. 30. skipulagslaga,  er gerir m.a. ráð fyrir að fyrrgreint ákvæði aðalskipulags um að skilyrða útgáfu byggingarleyfa við deiliskipulag verði fellt út. Mun gert ráð fyrir að auglýst verði tillaga að greindri breytingu í byrjun árs 2017 og að því stefnt að hún taki gildi á vormánuðum það ár.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi dregist verulega úr hófi fram og samkvæmt því sem áður er rakið er fyrirsjáanlegt að hún muni tefjast enn frekar. Hins vegar er til þess að líta, svo sem að framan greinir, að til meðferðar er tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem ætlað er að breyta því ákvæði aðalskipulags Bláskógabyggðar sem skipulagsnefnd teflir fram sem forsendu þess að frestað sé afgreiðslu á umsókn kæranda. Gefur það tilefni til að ætla að málinu verði lokið án tafa að þeim tíma liðnum sem ákveðinn er í skipulagslögum til meðferðar slíkra skipulagsbreytinga. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að ekki séu efni til þess fyrir nefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi.

Dragist hins vegar meðferð nefndrar aðalskipulagsbreytingartillögu, og þar með afgreiðsla erindis kæranda, úr hófi miðað við það sem skipulagslög kveða á um er unnt að kæra þann drátt til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________                             
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

38/2015 Laugavegur 12b og 16

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 19. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 fyrir lóðir nr. 12B og 16 við Laugaveg, Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2015, er barst nefndinni 26. s.m., kæra Kaffibarinn ehf., Bergstaðastræti 1, og Laugaberg hf., eigandi Laugavegs 12 og Bergstaðastrætis 1, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 fyrir lóðirnar nr. 12B og nr. 16 við Laugaveg. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. júlí 2015.

Málavextir: Á deiliskipulagsreitnum 1.171.4 standa hús sem flest eru byggð fyrir eða um aldamótin 1900. Vegna aldurs nýtur húsið á lóð nr. 16 við Laugaveg verndar, en á lóð nr. 12B eru tvö hús. Þar er gert ráð fyrir að eystra húsið víki og að í stað þess verði byggt þriggja hæða hús með kjallara og risi, en vestara húsið á lóðinni nýtur jafnframt verndar vegna aldurs.

Hinn 29. október 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 vegna lóðanna nr. 12B og nr. 16 við Laugaveg. Í breytingunni fólst aukning á nýtingarhlutfalli beggja lóða ásamt hækkun vestara hússins á lóðinni nr. 12B um eina hæð og heimild til að byggja kjallara. Loks var gert ráð fyrir endurbyggingu bakhúss á lóðinni. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 14. nóvember 2014 með athugasemdafresti til 29. desember s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Hinn 5. febrúar 2015 héldu skipulagsfulltrúi Reykjavíkur og lögfræðingur umhverfis- og skipulagssviðs fund með kærendum þar sem farið var yfir skiptingu lóða nr. 12 og 12B við Laugaveg, undanþágu frá brunareglugerð og umferðarkvöð á lóðinni nr. 12. Sama dag óskaði skipulagsfulltrúi eftir umsögn Minjastofnunar Íslands. Umsögnin barst með bréfi, dags. 4. mars s.á., þar sem ekki var lagst gegn hækkun vestara hússins á lóðinni nr. 12B, en athugasemd var gerð við byggingu kjallara undir húsinu. Einnig var bent á að sérstakar ráðstafanir þyrfti um brunavarnir á milli Laugavegs 12 og 12B, kæmi til hækkunar á síðarnefnda húsinu. Var erindið tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 11. s.m. þar sem fyrir lágu umsögn Minjastofnunar og umsögn skipulagsfulltrúa. Var tillagan samþykkt með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa þar sem tillit var tekið til umsagnar Minjastofnunar. Sú afgreiðsla var staðfest af borgarráði 19. s.m. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. apríl 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 hafi ekki verið gætt við meðferð málsins. Ekkert samráð hafi verið haft við kærendur í skipulagsferlinu líkt og kveðið sé á um í gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Hafi kærendur fengið vitneskju um meðferð skipulagsbreytingarinnar hjá borgaryfirvöldum fyrir tilviljun, eftir að tillagan hafi verið auglýst og skammt hafi verið eftir af fresti til að koma á framfæri mótmælum. Grenndarkynning hafi heldur ekki farið fram. Hafi verið óhjákvæmilegt að hleypa kærendum að skipulagsvinnunni eins og mælt sé fyrir um í reglugerðarákvæðum, enda kynni að vera að kærendur hefðu viljað ná fram breytingum á skipulagi sinna eigin lóða til samræmis. Um viðkvæman skipulagsreit sé að ræða í hjarta miðborgarinnar þar sem mörg friðlýst og friðuð hús standi. Hafi því verið brýn ástæða til vandaðrar málsmeðferðar með þátttöku hlutaðeigandi aðila. Skriflegum athugasemdum hafi ekki verið ætlað að koma í stað þess samráðs sem sé mælt fyrir um í skipulagsreglugerð. Þá sé því mótmælt að umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 4. mars 2015 hafi einhverja þýðingu í málinu. Umrædd umsögn hafi ekki verið kynnt kærendum og þeir hafi því ekki haft tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum vegna hennar. Sé það skýrt brot gegn andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi fulltrúar stjórnvaldsins ekki kynnt sér aðstæður á skipulagsreitnum með skoðun á vettvangi, sbr. rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Gert sé ráð fyrir margfaldri aukningu á byggingarmagni ofan jarðar frá því sem nú sé. Einnig sé ekki að sjá að farið hafi fram athugun á stærð lóða. Samkvæmt fylgigögnum kæru sé lóðin Laugavegur 12 alls 248,2 m2, en nýtt deiliskipulag miðist við að lóðin sé 243-244 m2 og jafnframt virðist vera gert ráð fyrir samsvarandi stækkun lóðar nr. 12B við Laugaveg. Líti út fyrir að uppgefnar stærðir lóðanna séu rangar, en svæðið á milli umræddra húsa sé í eigu kærenda. Þá sé þinglýst kvöð á Laugavegi 12 um frjálsan aðgang að austari hluta hússins nr. 12B. Forsenda kvaðarinnar sé gjörbreytt með hinu nýja skipulagi enda hafi hún miðast við húsbyggingar eins og þær hafi verið á þeim tíma, en ekki hótel eins og fyrirhugað sé að reisa. Ef aðgangsrétturinn eigi eftirleiðis að þjóna hótelbyggingu eða aðgengi við byggingarframkvæmdir íþyngi það báðum kærendum verulega. Forsendur kvaðarinnar séu með öllu brostnar ef reist yrði hótelbygging á Laugavegi 12B. Þá séu húsin að Laugavegi 12, 12B og 16 sambyggð. Húsgafl Laugavegs 12 standi hærra en Laugavegs 12B. Hin umdeilda skipulagsbreyting feli í sér verulega útlitsbreytingu þar sem gert sé ráð fyrir að húsin nr. 12B og 16 verði hækkuð. Jafnframt verði breyting á götumynd og húsaþyrpingu, sem teljist til byggingararfs, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna nr. 80/2012. Sé um einsdæmi í skipulagssögu Reykjavíkurborgar að ræða ef leyfa eigi einum aðila að breyta með þessum hætti útliti friðlýsts húss gegn mótmælum eigenda sambyggðra húsa. Með þessu sé gengið á eignarréttarlega hagsmuni kærenda.

Loks sé með hinni umdeildu skipulagsbreytingu gert ráð fyrir háum viðbyggingum sem muni verða á lóðamörkum kærenda. Á milli Bergstaðarstrætis 1, Laugavegs 12 og 12B sé útisvæði sem tilheyri Kaffibarnum og gegni veigamiklu hlutverki í rekstri hans. Annars vegar sé um að ræða útireykingarsvæði í portinu, sem sé einkar verðmætt í ljósi hertra reglna um bann við reykingum inni á skemmtistöðum. Á svæðinu sé gert ráð fyrir hávaða og því séu fyrirsjáanlegir árekstrar milli rekstraraðila hótelsins og rekstraraðila Kaffibarsins. Þá verði framkvæmdir á grundvelli breytts deiliskipulags umfangsmiklar og muni valda raski fyrir næstu nágranna. Verði ekki séð hvernig byggingarframkvæmdir geti farið fram öðruvísi en að freklega verði gengið á hagsmuni kærenda. Einnig hafi ekki verið hugað að brunahættu og brunavörnum. Hefði átt að gera kröfu um eldvarnarvegg á milli hinna fyrirhuguðu bakbygginga og Kaffibarsins. Þá eigi alveg eftir að huga að aðgengi fyrir lögreglu og slökkvilið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Allir þeir sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta hafi sent inn athugasemdir við auglýsta tillögu og hafi borist athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Þegar unnið hafi verið úr athugasemdum hafi nokkrir hagsmunaaðilar, m.a. kærendur, verið kallaðir á fund með umhverfis- og skipulagssviði. Megi helst lesa það úr málsrökum kærenda að þeir hefðu viljað koma fyrr að skipulagsvinnunni til að koma að sínum hugmyndum um stækkun á húsum þeirra. Á það sé bent að kærendur geti alltaf sent inn fyrirspurn eða umsókn til skipulagsfulltrúa með ósk um breytingu á deiliskipulagi, sem fengi lögbundna málsmeðferð. Mikið samráð hafi verið haft við kærendur og flestar athugasemdir teknar til greina við vinnslu deiliskipulagsins. Ekki hafi þurft að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, enda hafi hún verið auglýst samkvæmt 41. gr. laganna. 

Byggingarmagn muni aukast samkvæmt tillögunni um 173 m2 á lóðinni nr. 12B við Laugaveg og um allt að 50 m2 á lóðinni Laugavegi 16. Það sé mat skipulagsyfirvalda að tillagan muni bæta götumynd Laugavegs og að hún breyti ekki skuggavarpi í götunni til hins verra. Fyrir liggi umsögn Minjastofnunar Íslands og sé það mat hennar að tillagan sé skref í rétta átt frá gildandi deiliskipulagi hvað varði aðlögun að mælikvarða í samhengi við friðlýst hús á aðliggjandi lóð. Sé í umsögninni lögð áhersla á að tvílyfta húsinu á vesturhelmingi lóðarinnar verði gert hátt undir höfði og að það verði gert á vandaðan hátt. Þegar komi að útgáfu byggingarleyfis sé hugað að atriðum líkt og brunaöryggi, aðgengi og atriðum er varði hávaða og ónæði og afstaða jafnframt tekin til þeirra atriða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem felur í sér aukningu nýtingarhlutfalls lóða nr. 12B og 16 við Laugaveg og hækkun hluta húss á lóðinni nr. 12B um eina hæð. Gera kærendur m.a. athugasemdir við að ekki hafi verið haft samráð við þá við meðferð málsins, ekki sé getið um atriði eins og brunaöryggi og að fyrirhuguð notkun falli ekki að starfsemi kærenda. Þá telja þeir að lóðarstærð sé ekki rétt tilgreind.

Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðarmynstur, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi skal fara um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Þó er heimilt að grenndarkynna óverulegar breytingar á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Mátu skipulagsyfirvöld hina kærðu deiliskipulagsbreytingu sem verulega og fór málsmeðferð hennar því eftir ákvæði nefndrar 1. mgr. 43. gr. laganna. Var hún auglýst í fjölmiðlum til kynningar, en ekki er kveðið á um í lögunum að einnig þurfi að grenndarkynna í slíkum tilvikum. Þá var málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar að öðru leyti í samræmi við nefnda lagagrein. Að kynningartíma liðnum var athugasemdum svarað, leitað var eftir umsögn Minjastofnunar Íslands, tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Fundur var haldinn með hagsmunaaðilum, þ. á m. kærendum, eftir auglýsingu deiliskipulagstillögunnar, en áður en hún var samþykkt. Má fallast á að það samráð hefði átt að fara fram áður en samþykkt var að auglýsa nefnda tillögu, sbr. 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. En þegar litið er til þess að kærendur komu að athugasemdum við auglýsta tillögu og að frekara samráð var haft við þá verður sá ágalli ekki talinn þess eðlis að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Loks er hvorki að finna í lögum né reglugerðum ákvæði sem kveður á um að atriði líkt og brunaöryggi og aðgengi þurfi að liggja fyrir við deiliskipulagsgerð. Hins vegar er gert ráð fyrir að slík atriði liggi fyrir á aðaluppdrætti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en það er jafnframt eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að slíkir uppdrættir hafi verið samþykktir af byggingarfulltrúa, sbr. 2. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.
 
Þá er hvorki að sjá að með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið gerðar breytingar á kvöð um aðgengi né á stærð umræddra lóða. Eru uppgefnar lóðarstærðir þær sömu og í gildandi deiliskipulagi og eru þær jafnframt í samræmi við upplýsingar frá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Skal og á það bent að deiliskipulag getur ekki að lögum falið í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Enn fremur er í gildandi deiliskipulagi fyrir reitinn, sem tók gildi árið 2002, þegar gert ráð fyrir því að hús það á lóðinni nr. 12B sem stendur við hlið húss annars kærenda að Laugavegi 12 víki fyrir þriggja hæða nýbyggingu. Því er ekki að sjá að einnar hæðar hækkun þess húss á lóðinni nr. 12B sem stendur fjær húsi kæranda muni hafa í för með sér aukin grenndaráhrif gagnvart honum.

Loks telja kærendur að gert sé ráð fyrir hótelrekstri í húsunum sem hin kærða skipulagsbreyting tekur til. Í hinni kærðu ákvörðun er hins vegar hvergi um það getið hvers konar notkun sé fyrirhuguð í húsunum og koma þau rök kærendanna því ekki til frekari umfjöllunar í máli þessu. Þó skal á það bent að fasteignareigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir í gildandi skipulagi og þurfa þeir að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, en samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna M1a, þar sem m.a. er gert ráð fyrir gistiþjónustu.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greinir verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að leiða skuli  til ógildingar hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.4 fyrir lóðir nr. 12B og 16 við Laugaveg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

133/2016 Þórsgata 1 og Lokastígur 2

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 29. desember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr.133/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir RA 5 ehf., eigandi Þórsgötu 1 og Lokastígs 2, ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 14. september 2016 um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um stækkun á tengibyggingu milli fasteigna á lóðunum Þórsgötu 1 og Lokastígs 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 9. nóvember 2016.

Málavextir: Með fyrirspurn dags. 10. maí 2016, var óskað eftir áliti byggingarfulltrúa á því að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir stækkun á tengibyggingu á milli húsanna Þórsgötu 1 og Lokastígs 2, en þar væri sund sem lægi að Lokastíg. Ætlunin væri að koma fyrir tveimur hótelherbergjum á efri hæðum og móttöku aðfanga fyrir hótel og veitingahús á jarðhæð. Fyrirspurninni fylgdu teikningar ásamt byggingarlýsingu. Með bréfi, dags. 27. júní s.á., var fyrirspyrjanda tilkynnt um að á fundi skipulagsfulltrúa 24. s.m. hefði hann tekið neikvætt í fyrirspurnina með vísan til umsagnar sinnar sama dag. Í umsögninni sem fylgdi nefndu bréfi kom fram að fyrirspurnin samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið. Einnig að ekki væri mælt með því að koma til móts við fyrirspyrjanda með deiliskipulagsbreytingu í samræmi við þá uppdrætti er fylgdu fyrirspurninni.

Með bréfi, dags. 8. ágúst s.á., fór fyrirspyrjandi fram á að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur myndi endurskoða ákvörðun skipulagsfulltrúa og að veitt yrði jákvætt svar við fyrirspurn hans. Á fundi sínum 14. september s.á. staðfesti umhverfis- og skipulagsráð afgreiðslu skipulagsfulltrúa, með vísan til umsagnar hans frá 2. s.m. þar sem svarað var athugasemdum fyrirspyrjanda.

Málsrök kæranda: Um aðild sína vísar kærandi til þess að einkahlutafélagið sem hafi verið aðili stjórnsýslumálsins hafi nú verið sameinað öðrum félögum undir merkjum kæranda, sbr. XIV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hvað varði kæruheimild til úrskurðarnefndar telji kærandi ljóst að hin kærða ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs feli í sér lokaákvörðun málsins. Eins og áður greini hafi hin kærða ákvörðun falið í sér að „verið [var] að taka neikvætt í að breyta deiliskipulagi til samræmis við tillögu [forvera kæranda]“ Með öðrum orðum hafi umhverfis- og skipulagsráð tekið erindi forvera kæranda til meðferðar sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi, og hafnað því sem slíku. Umhverfis- og skipulagsráð hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu á slíkum ákvörðun án sérstakrar staðfestingar borgarráðs, sbr. 1. gr. viðauka 1.1. við samþykkt Reykjavíkurborgar nr. 1052/2015, um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013, sbr. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt framansögðu telji kærandi ljóst að hin kærða ákvörðun, sem hafi falið í sér að beiðni um deiliskipulagsbreytingu var synjað, marki endanlegar lyktir málsins á lægra stjórnsýslustigi og sæti því kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að auki, sem og fyrr segi, hafi kærandi fengið leiðbeiningar um það frá Reykjavíkurborg að samkvæmt venjuhelgaðri framkvæmd mætti hann skjóta upphaflegri afgreiðslu skipulagsfulltrúa til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tæki lokaákvörðun í málinu, á þeim grunni að þeirri ákvörðun mætti síðan skjóta til æðra stjórnvalds.

Í þessu samhengi skuli þó tekið fram að upprunalegu erindi forvera kæranda til Reykjavíkurborgar 1. júní 2016, varðandi stækkun tengibyggingar, hafi ekki verið ætlað að fela í sér beiðni um breytingu á deiliskipulagi, heldur hafi það einungis falið í sér fyrirspurn til borgarinnar og raunar ósk um leiðbeiningar um framhaldið. Allt að einu, sem og fyrr segi, hafi umhverfis- og skipulagsráðs ákveðið að afgreiða erindið sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi og synja erindinu á þeim grunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki falið í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls. Sé hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 14. september 2016 að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á fyrirspurn um stækkun á tengibyggingu milli fasteigna á lóðunum Þórsgötu 1 og Lokastíg 2. Ákvörðunin var tekin vegna erindis sem beint var til byggingarfulltrúa á eyðublaði með árituninni „fyrirspurn“ og var sama áritun á þeim teikningum er erindinu fylgdu. Bókun skipulagsfulltrúa og umsagnir hans bera að sama skapi þess merki að um afgreiðslu fyrirspurnar er að ræða og bókun umhverfis- og skipulagsráðs að sú afgreiðsla sé staðfest. Þrátt fyrir að skipulagsfulltrúi láti í umsögn sinni í ljós afstöðu sína til mögulegrar deiliskipulagsbreytingar á grundvelli þeirra teikninga sem fyrirspurninni fylgdu er ekki með neinu móti hægt að telja að umhverfis- og skipulagsráð hafi tekið hana fyrir og afgreitt sem umsókn um breytingu á deiliskipulagi.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir. Er því ljóst að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um að staðfesta neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar kæranda felur ekki í sér lokaákvörðun. Þar sem hin kærða ákvörðun um neikvæða afstöðu til fyrirspurnar er ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli, verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

35/2015 Neshagi

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík og samþykkja breytingar á innra fyrirkomulagi umrædds húss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra eigendur, Neshaga 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir kælibúnaði og varaaflstöð að Neshaga 16 og breyta innra fyrirkomulagi húss á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimilaðan kælibúnað og varaaflstöð á fyrrgreindri lóð. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. júlí 2015 og í desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. desember 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að koma fyrir rými fyrir kælibúnað og varaaflstöð á norðanverðri lóðinni Neshaga 16 og breyta innra skipulagi húss á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað þar sem gera þyrfti betri grein fyrir erindinu. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði því áfram til verkefnisstjóra. Skipulagsfulltrúi tók málið fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi sínum 16. janúar 2015. Lét hann í ljós jákvæða afstöðu til umsóknarinnar með þeim skilyrðum og leiðbeiningum sem fram kæmu í umsögn embættisins, dags. sama dag.

Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum 20. janúar 2015 og vísaði málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi 23. s.m. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Neshaga 14 og Hofsvallagötu 53 og komu kærendur að athugasemdum á kynningartíma. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf umsögn sína um fyrirhugaðar framkvæmdir við kæliver og vararafstöð með bréfi, dags. 24. mars 2015. Haldinn var fundur á vegum Reykjavíkurborgar vegna málsins 30. s.m. með nokkrum íbúum og eigendum Neshaga 14. Erindið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. apríl s.á. Var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. mars s.á., og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2015 var umsóknin samþykkt og m.a. áskilið samþykki heilbrigðiseftirlitsins.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, en samkvæmt því sé miðað að því að styrkja umrædd svæði sem miðstöð þjónustu og mannlífs í Vesturbænum. Stafi bæði hljóð- og umhverfismengun af nefndum mannvirkjum, sem ekki eigi heima í íbúðarbyggð. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé óheimilt að gefa út byggingarleyfi sem ekki samrýmist stefnu aðalskipulags um landnotkun. Við meðferð málsins hafi ekki verið gætt ákvæða 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveði á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Enn sé ákveðnum spurningum ósvarað varðandi framkvæmdina, svo sem hvernig tryggt verði að eftirlit verði haft með mannvirkjunum og hvernig því verði háttað. Jafnframt sé óskað upplýsinga um hvort geislun frá mannvirkjunum geti snert heilsufar íbúa á svæðinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld taka fram að hið umdeilda byggingarleyfi sé í fullu samræmi við skipulagsáætlun og tekið hafi verið tillit til athugasemda sem kærendur hafi komið á framfæri við grenndarkynningu. Haldinn hafi verið fundur með íbúum og eigendum Neshaga 14 vegna málsins og á þann fund hafi m.a. mætt fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins. Á fundinum hafi verið kynntar breyttar teikningar sem sýnt hafi færslu varaaflstöðvar og kælis til vesturs á lóð Neshaga 16. Eftir að fundað hafi verið hafi umrædd mannvirki verið færð vestar og skermuð af. Umhverfis búnaðinn verði reist gerði og opið hálfþak sé yfir varaaflstöðinni. Komi í ljós að búnaður valdi ónæði þrátt fyrir ráðstafanir verði gerðar kröfur um frekari skermun. Hljóðvist muni uppfylla kröfur sem gerðar séu í reglugerð til atvinnurekstrar í íbúðabyggð. Gert verði skilyrði um að lekavörn rúmi allt innihald eldneytistanks ef óhapp verði. Lekavarnarbúnaður og ísogsefni þurfi að vera til taks við áfyllingar eldneytistanks og allt viðhald á varaaflstöðinni. Komið verði fyrir rafrænum viðvörunarbúnaði á tankinum sem gefi merki komi leki að honum, líkt og heilbrigðiseftirlitið hafi gert kröfu um. Útbúinn verði þjónustusamningur við umboðsaðila varaaflstöðvarinnar sem sjái um alla þjónustu og eftirlit með búnaðinum. Vökvi sem sé á kælibúnaði sé umhverfisvænn, lyktarlaus og í lokuðu kerfi. 

——-

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Á árinu 1955 var gerður uppdráttur af umræddu svæði en ekki liggur fyrir að honum hafi fylgt skilmálar um landnotkun. Var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. heimild í þágildandi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Hinar kærðu breytingar eru tilkomnar vegna flutnings Reiknistofnunar Háskóla Íslands í húsakynni á lóðinni Neshaga 16. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er lóðin á miðsvæði M13 í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri verslun, þjónustu og félagsstarfsemi fyrir íbúa hverfisins auk íbúða. Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, er landnotkun miðsvæðis lýst svo að um sé að ræða „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“. Starfsemi á vegum Háskóla Íslands samræmist samkvæmt framangreindu gildandi landnotkun svæðisins.

Breytingarnar fela í sér að kælibúnaði fyrir tölvuherbergi er komið fyrir norðan við húsið ásamt varaaflstöð. Fram kemur í texta á samþykktum teikningum að kælibúnaðurinn samanstandi af kælipressu, dælu og tveimur kæliviftum. Kælibúnaðurinn sé í lokuðum hljóðeinangruðum kassa úr stáli sem gerður sé til að standa utandyra. Taki kælikerfið um 250 lítra af kælimiðli og sé hann lyktarlaus og umhverfisvænn. Stærð búnaðarins sé 4.612×1.151×2.215 mm, eða 5,3 m² að grunnflatarmáli. Þá er tekið fram að verði leki á kerfinu stöðvist hringrásardæling og einungis lítið magn geti lekið áður en dælan stoppi. Jafnframt er tilgreint að varaaflstöðin sé í hljóðeinangraðri skel úr stáli sem gerð sé til að standa utandyra. Botn hennar sé þannig útbúinn að hann geti tekið við því magni sem gæti smitað eða lekið út af olíu eða kælivökva. Öryggispanna verði undir varaaflsstöðinni sem taki við öllum vökva sem gæti lekið ef óhapp yrði. Lítill möguleiki sé á olíuleka við eldsneytisskipti þar sem takmarkað magn af olíu sé í síum. Prófun á stöðinni fari fram einu sinni í mánuði og standi í um 15 mínútur. Varaaflstöðin sé 4.300×1.400×2.156 mm að stærð, eða um 6,0 m² að flatarmáli. Þá er tekið fram að útbúið verði gerði utan um varaaflstöð og kælibúnað.

Verður að telja að hin umdeildu mannvirki séu eðlilegur og nauðsynlegur búnaður fyrir þá starfsemi sem fram fer á lóðinni og fari því ekki í bága við gildandi landnotkun. Staðsetning mannvirkjanna og umfang er ekki til þess fallin að valda merkjanlegum grenndaráhrifum gagnvart nágrönnum. Að lokinni grenndarkynningu var haldinn fundur með nokkrum eigendum og íbúum Neshaga 14 og voru umrædd mannvirki færð til vesturs í tilefni af athugasemdum sem fram komu.

Jafnframt bendir ekkert til þess að frá umræddum búnaði muni stafa óæskileg geislun. Þannig hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki talið efni til að víkja að því atriði í umsögn sinni, en þar kemur þó fram að farið hafi verið yfir erindið og meðfylgjandi gögn og nánar tilgreindar athugasemdir verið gerðar af því tilefni. Þá verður ekki annað af greinargerð sveitarfélagsins ráðið en að tekið hafi verið tillit til þeirra skilyrða og ábendinga sem þar komu fram.

Aðilum sem komið höfðu á framfæri athugasemdum á kynningartíma mun ekki hafa verið send umsögn um málið, svo sem áskilið er skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að þeir ágallar hafi áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði  við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Geir Oddsson

128/2014 Svifflugfélagið

Með
Árið 2016, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að synja erindi um akstur jeppabifreiða á Sandskeiði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Svifflugfélag Íslands, Sandskeiði, Suðurlandsvegi, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. nóvember 2014 að synja erindi kæranda um akstur bifreiða á grasbraut félagsins á Sandskeiði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 4. febrúar 2015.

Málavextir: Með tölvupósti, dags. 18. nóvember 2014, kynnti forsvarsmaður kæranda þau áform félagsins að leigja út grasbraut á félagssvæði sínu á Sandskeiði fyrir reynsluakstur nýrra jeppabifreiða, sem ætti að fara fram á Íslandi frá 3. til 16. desember s.á. annars vegar og frá 11. til 27. janúar 2015 hins vegar. Hluti reynsluakstursleiðarinnar ætti að vera akstur á valtaðri snjóbraut, sem lögð yrði á grasbrautinni, og væru forsendur þess að farið yrði inn á grasbrautirnar að frost yrði í jörðu og snjór yfir svæðinu. Kemur fram í tölvupóstinum að kærandi geri sér fulla grein fyrir því að Sandskeið sé á vatnsverndarsvæði og muni hann því tryggja sem minnsta hættu á óhappi er leitt gæti til mögulegrar mengunar. Í þessum tilgangi áætli kærandi m.a. að vera með gröfu og dráttarvagn til taks.

Á fundi heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 24. nóvember 2014 var framangreindur tölvupóstur lagður fram sem erindi til nefndarinnar. Ákvað nefndin, með vísan til 30. gr. samþykktar nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar að synja erindinu þar sem starfsemin samrýmdist ekki landnotkun og þróun starfsemi á verndarsvæðum vatnsbóla. Með bréfi, dags. 27. s.m., var kæranda tilkynnt um ákvörðunina sem nú er kærð, eins og áður kom fram.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður synjun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á erindi hans vera byggða á röngum forsendum þar sem engin umsókn hafi legið fyrir. Tæplega sé hægt að líta á tilkynningu kæranda til nefndarinnar sem umsókn. Hún hafi fyrst og fremst verið send til að upplýsa um ákveðið samstarfsverkefni kæranda. Enga heimild sé að finna í lögum eða reglugerðum fyrir heilbrigðisnefnd til þess að synja um akstur bifreiða á landi kæranda á Sandskeiði. Kærandi fallist ekki á að tímabundið verkefni falli undir sérstaka leyfisbundna starfsemi og hvergi sé að finna ákvæði í lögum sem heimili yfirvöldum að krefjast tímabundins starfsleyfis eða annarra leyfa til að heimila að nokkrum bifreiðum verði ekið um uppræktað, snævi þakið og frosið landsvæði. Engin áform hafi verið um losun efna sem gætu mögulega mengað jarðveg eða grunnvatn.

Sandskeið virðist falla undir svokallað fjarsvæði vatnsverndar, en við yfirferð á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, reglugerð nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns, reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn og reglugerð nr. 935/2011 um stjórn vatnamála finnist engar heimildir fyrir stjórnvöld til að synja eða leggja bann við akstri á fjarsvæðum vatnsverndar.

Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segi að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó sé heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi að jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst sé að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Grasvöllurinn á Sandskeiði sé land sem ræktað hafi verið af kæranda og nýtt sé undir alla starfsemi hans. Svæðið sé afgirt og að öllu leyti í umsjá félagsins. Ljóst sé að náttúruverndarlög standi ekki vegi fyrir því að kærandi heimili akstur á grasvellinum.

Með engu móti sé hægt að sjá að umrætt verkefni yrði á nokkurn hátt mengandi umfram þann útblástur sem bifreiðar gefi frá sér. Vissulega geti orðið mengunarslys hvar sem vélknúin samgöngutæki finnist, en líkur á því þar sem unnið sé eftir ákveðnu skipulagi séu þó hverfandi og megi minnka niður í áhættulaust verkefni með framsettum kröfum og fyrirfram skipulögðum viðbrögðum ef mögulegt óhapp verði. Fullyrðingar heilbrigðisnefndarinnar um mengunarhættu séu því út í hött og rangar. Kærandi sé afar meðvitaður um stöðu svæðisins sem vatnsverndarsvæðis og hafi virt fullkomlega sanngjarnar kröfur vegna þess. Þótt ýmsar vísbendingar og rannsóknir sýni að hugsanleg vatnsmengun á Sandskeiði ógni tæpast vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins telji kærandi sjálfsagt að tryggja eins og kostur sé að engin mengunarslys verði á svæðinu.

Um 8.000 bifreiðar aki í gegnum Sandskeið á degi hverjum, þ. á m. olíuflutningabifreiðar með þúsundir lítra af eldsneyti, flutningabifreiðar með ýmis ótilgreind eiturefni og svo megi lengi telja. Þá fljúgi yfir vatnsverndarsvæðið stórar flugvélar með tugþúsundir lítra af eldsneyti, en Sandskeið og Bláfjöll séu undir einum fjölförnustu aðflugsleiðum bæði til Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar.

Á Bláfjallasvæðinu sé fjölbreytt starfsemi. Við Þríhnjúka sé að finna einn merkilegasta og dýpsta helli á jörðinni og þar hafi nýlega verið byggður upp ferðamannaiðnaður. Ýmis slys, þ.á m. mengunarslys, hafi orðið í tengslum við uppbygginguna. Þá sé í Bláfjöllum skíðasvæði og aðstaða fjölmargra íþróttafélaga sem nýti aðstöðuna bæði vetur og sumar, m.a. til fjáröflunar. Tugþúsundir bifreiða og gesta heimsæki svæðið ár hvert. Þá sé rétt að vekja athygli á því að rétt austan við Sandskeið, á svonefndri Bolaöldu, sé aðalæfingasvæði mótorhjólamanna og noti þeir m.a. brautir umhverfis Sandskeið til æfinga án nokkurra athugasemda heilbrigðisyfirvalda. Á sömu slóðum sé einnig mikil námuvinnsla og aki daglega hundruðir vörubifreiða um svæðið auk annarra vinnuvéla. Ekki langt frá sé aðal „tippur“ höfuðborgarsvæðisins þar sem ekið sé eftirlitslaust með þúsundir rúmmetra af ýmsu úrgangsefni án athugasemda heilbrigðisyfirvalda.

Með vísan til alls þessa virðist sem yfirvöld brjóti jafnræðisreglu íslenskrar stjórnskipunar gagnvart kæranda með því að synja um leyfi til aksturs nokkurra bifreiða á Sandskeiði. Þá sé rétt að vekja athygli á meðalhófsreglunni sem yfirvöld virðist einnig hafa brotið með umræddri synjun, þar sem ekki hafi verið skoðað hvort hægt væri að tryggja hámarksöryggi með öðrum hætti.

Heilbrigðisnefndin vísi í ákvörðun sinni til ákvæðis í 30. gr. samþykktar um verndarsvæði vatnsbóla nr. 636/1997. Umrædd samþykkt sé ekki formleg reglugerð og hafi því litla sem enga merkingu gagnvart hinni kærðu ákvörðun. Yfirvöld geti ekki tekið íþyngjandi ákvarðanir gagnvart borgurunum á grundvelli umræddrar samþykktar nema ákvörðunin eigi sér stoð í gildandi lögum. Ekki verði séð að svo sé þar sem í samþykktinni sé vísað til laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem séu úr gildi fallin.

Kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna álíka atburða í framtíðinni og mögulegra annarra nota hans á Sandskeiði.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu heilbrigðisnefndarinnar er bent á að ákvörðun nefndarinnar hafi verið tekin 24. nóvember 2014 eftir að lagður hafi verið fram tölvupóstur kæranda frá 18. s.m. Þar hafi verið kynnt áform um akstur á grasbraut félagsins á Sandskeiði í tengslum við bifreiðasýningu í desember 2014 og janúar 2015. Erindinu hafi verið synjað þar sem starfsemin hafi ekki samrýmst landnotkun og þróun starfsemi á verndarsvæðum vatnsbóla.

Nefndin sé lögbært stjórnvald sem beri að taka faglega afstöðu til verndar hámarkshollustu neysluvatns til framtíðar í umdæmi sínu og koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á verndarsvæðum vatnsbóla. Við hina kærðu ákvörðun hafi verið gætt faglegra sjónarmiða og réttarreglna. Til hafi staðið að hefja starfsemi sem engin heimild hafi verið fyrir á svæði þar sem öll landnot verði að falla að forsendum vatnsverndar og verndun vatnsgæða almennt.

Með samþykkt nr. 636/1997, um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar, hafi sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu komið á samræmdum reglum um vatnsvernd. Með samþykktinni hafi verið ákveðið að stuðla að hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæðinu, eins og fram komi í 2. gr. samþykktarinnar. Í 3. gr. samþykktarinnar sé sérstaklega tekið fram að hún taki til umferðar vélknúinna farartækja og atvinnurekstrar.

Áformuðum reynsluakstri hafi að hluta verið ætlað að vera á fjarsvæði A samkvæmt staðfestu skipulagi vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið. Fjarsvæði A sé aðal ákomu- eða vatnssöfnunarsvæðið fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggi að núverandi og framtíðar vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins. Á fjarsvæðum sé óheimilt að staðsetja mengandi starfsemi án samþykktar heilbrigðisnefndar, sbr. 1. mgr. 30. gr. tilvitnaðar samþykktar. Á fjarsvæði A sé atvinnurekstur og starfsemi háð starfsleyfi og skuli leyfi fyrir slíkri starfsemi því aðeins veita að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki, sbr. 2. mgr. 30. gr. Akstursæfingum og akstursíþróttum fylgi ávallt ákveðin mengunarhætta og eigi það ekki síður við um tilraunaakstur. Ætlun kærenda hefði verið að gefa boðsgestum tækifæri til að reyna hæfni nýrrar tegundar ökutækis við akstur í snjó. Slíkri starfsemi verði eðli máls samkvæmt að finna stað utan söfnunarsvæða vatnsbóla og því hafi erindinu verið synjað.

Um verndun neysluvatns sé jafnframt vísað til ákvæða reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Með breytingu á þeirri reglugerð nr. 533/2001 hafi verið áréttað að sveitarstjórnir og heilbrigðisnefndir skuli grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir að gæðum vatns sem tekið sé til neyslu og vatns sem kunni að verða tekið síðar sem neysluvatn geti hrakað eða þau spillst. Þessar ráðstafanir, sbr. 12. gr., felist m.a. í ákvörðun um verndarsvæði og setningu heilbrigðissamþykkta, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem gerðar séu takmarkanir viðvíkjandi umferð, landnýtingu og meðferð og geymslu hættulegra efna innan verndarsvæðanna.

Sandskeið sé á fjarsvæði A vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið, vatnsöflunarsvæði, skammt frá mörkum við grannsvæði vatnsbólanna. Svæðið sé á áhrifasvæði vatnsbólanna í Vatnsendakrika, sem séu vatnsból Kópavogs og Garðabæjar og hluta Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið sé einnig á áhrifasvæði Gvendarbrunna, Jaðarsvæðis og Myllulækjar, sem þjóni öðrum hlutum Reykjavíkur og Seltjarnarnesi. Mikilvægi svæðisins verði ekki dregið í efa. Heilbrigðisnefnd beri því samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 796/1999 að sjá til þess að mengunarvarnir á verndarsvæðum til verndar vatnsgæðum skuli ávallt miðast við ströngustu skilyrði sem gildi til viðhalds náttúrulegu ástandi vatns.

Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar sé heilbrigðisnefnd enn fremur heimilt að banna notkun tækja innan verndarsvæða vatnsbóla, þar sem hætta sé á að slíkt geti spillt vatni. Vegna athugasemda kæranda um að Suðurlandsvegur liggi í næsta nágrenni við umrætt svæði bendi nefndin á að þjóðvegurinn hafi verið endurbyggður með miklum tilkostnaði, m.a. vegna vatnsverndar.

Sú starfsemi sem fyrirhuguð hafi verið á Sandskeiði hafi átt að standa yfir í desember 2014 og janúar 2015. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 hafi heilbrigðisnefnd það hlutverk að gefa út starfsleyfi til þeirra aðila sem stundi starfsleyfisskylda starfsemi í skilningi laganna. Við töku ákvarðana um það hvort starfsleyfi skuli veitt beri heilbrigðisnefndinni að hlíta ákvæðum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Samkvæmt 30. gr. samþykktar nr. 636/1997 sé skýrt kveðið á um að atvinnurekstur og starfsemi á fjarsvæði A sé háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda og skuli því aðeins veita slíkt leyfi að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að synja kæranda um leyfi fyrir reynsluakstri bifreiða á grasbraut er staðsett er á starfssvæði hans á Sandskeiði. Ljóst er að það tímabil sem umræddur reynsluakstur skyldi fara fram er liðið. Eins og atvikum er hér háttað telur úrskurðarnefndin engu að síður, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar, enda liggur fyrir að hann hyggst standa fyrir sambærilegum viðburðum síðar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar gilti samþykkt nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar og var hún sett með heimild í 18. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. 33. gr. samþykktarinnar. Þau lög féllu úr gildi með setningu laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og er efni 25. gr. laganna sambærilegt nefndri 18. gr. fyrri laga. Í gr. II ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 7/1998 kemur fram að þær reglugerðir sem í gildi séu samkvæmt lögum nr. 81/1988 skuli halda gildi sínu þar til þeim hafi verið breytt, að svo miklu leyti sem þær fari ekki í bága við ákvæði hinna yngri laga. Er það og í samræmi við þau sjónarmið íslensks réttar að stjórnvaldsfyrirmæli geti haldið gildi sínu við lagaskil ef ekki hefur orðið efnisleg breyting á því lagaákvæði sem er grundvöllur þeirra, en svo háttar einmitt til í máli þessu. Hafði samþykktin því fullnægjandi lagastoð og hélt gildi sínu í samræmi við framangreint. Var heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis því heimilt að styðjast við hana við ákvörðun sína.

Samkvæmt 2. gr. samþykktar nr. 636/1997 er markmið hennar að stuðla að hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæðinu. Tekur samþykktin samkvæmt 3. gr. hennar m.a. til umferðar vélknúinna farartækja, meðferðar efna sem valdið geta mengun og útivistar. Samkvæmt II. kafla samþykktarinnar skiptast vatnsverndarsvæði í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Samkvæmt 25. gr. eru fjarsvæði aðgreind í fjarsvæði A og B og þarfnast fjarsvæði A verndar umfram fjarsvæði B þar sem á fjarsvæði A er aðalákoman fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggja að núverandi vatnsbólum og framtíðar vatnsbólum. Samkvæmt uppdrætti af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Sandskeið á fjarsvæði A.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. samþykktarinnar er óheimilt að staðsetja mengandi starfsemi á fjarsvæðum án samþykktar heilbrigðisnefndar og í 2. mgr. segir að á fjarsvæði A sé atvinnurekstur og starfsemi háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda og skuli leyfi fyrir slíkri starfsemi því aðeins veita að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki. Kærandi hefur starfsleyfi, gefið út af heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, til að starfrækja svifflugvöll á Sandskeiði í Kópavogi, sbr. ákvæði í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. og lið 7.3, um flugvelli án eldsneytisaðstöðu, í fylgiskjali 2 við reglugerðina. Má af nefndri 30. gr. samþykktarinnar ráða að starfsemi er falli utan við ákvæði nefnds starfsleyfis sé háð sérstöku leyfi heilbrigðisnefndar. Var heilbrigðisnefnd því rétt að líta á tilkynningu kæranda frá 18. nóvember 2014 til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, um væntanlega útleigu starfssvæðis síns til reynsluaksturs jeppabifreiða, sem umsókn um slíkt leyfi.

Heilbrigðisnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 24. nóvember 2014 og var ákveðið að gefa ekki leyfi fyrir akstrinum með vísan til áðurnefndrar 30. gr. samþykktarinnar, þar sem starfsemin samrýmdist ekki landsnotkun og þróun starfsemi á verndarsvæðum vatnsbóla, en sú niðurstaða samræmist ákvæðum 2. og 3. gr. samþykktarinnar um markmið og gildissvið, sem áður voru rakin. Í bréfi heilbrigðisnefndarinnar til kæranda, dags. 27. s.m., er ákvörðunin rökstudd nánar, m.a. með vísan til þess að akstursæfingum og akstursíþróttum fylgi alltaf ákveðin slysa- og mengunarhætta, sem ekki eigi heima innan söfnunarsvæða eða grannsvæða vatnsbóla. Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að niðurstaða heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum og að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til framangreinds verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að synja erindi um akstur jeppabifreiða á Sandskeiði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Ásgeir Magnússon

26/2015 Ferjuvað

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S Ferjuvaði 3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að ganga frá sérmerktu bílastæði fyrir fatlaða í bílageymslu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá 21. febrúar 2012. Þá er gerð krafa um að lokaúttekt byggingarfulltrúa verði felld úr gildi. Að auki var farið fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 22. júní 2015 og verður kærumál þetta nú tekið til efnislegrar úrlausnar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. maí 2015 og 22. desember 2016.

Málsatvik: Hinn 21. febrúar 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt umsókn um leyfi til að reisa fjögurra hæða steinsteypt fjölbýlishús með 34 íbúðum á lóð Ferjuvaðs 1-3 í Reykjavík. Samkvæmt byggingarlýsingu á samþykktri afstöðumynd voru 42 bílastæði á lóð og 26 stæði í bílageymslu, alls 68 bílastæði. Gert var ráð fyrir tveimur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð og einu í bílageymslu. Í júlí 2013 festi kærandi kaup á íbúð 01-06, ásamt stæði í bílageymslu, merktu B-17, og var eignin afhent á árinu 2014. Er íbúð kæranda ætluð fyrir fatlaða samkvæmt samþykktum teikningum. Á tímabilinu janúar til apríl 2014 mun kærandi ítrekað hafa vakið athygli byggingarleyfishafa á því að dyr við bílastæði í bílageymslu væri ranglega staðsett og gert þá kröfu að hún yrði færð til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti hússins. Mun það ekki hafa verið gert og 2. maí 2014 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt hússins. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa haft samband við Reykjavíkurborg vegna málsins.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í húsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað en afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa 13. ágúst s.á. var tilkynnt að hafnað væri ósk um tilfærslu á dyrum á milli brunastúku og bílastæðis merktu B-17, en umrætt stæði væri ætlað fyrir hreyfihamlaða og yrði að uppfylla ákveðin skilyrði. Munu byggingarfulltrúi og leyfishafi hafa fundað um málið 22. september 2014. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 30 október s.á., var honum veittur þrjátíu daga frestur til gera lagfæringar í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eða uppfæra þá til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og fá samþykkt byggingarleyfi fyrir þeim breytingum. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að endurtaka yrði lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Hinn 17. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á byggingartíma á innra skipulagi hússins á fyrrgreindri lóð. Fólust breytingarnar m.a. í því að eldvarnarhurð var hliðrað til í eldvarnarvegg fyrir brunastúku á milli stigahúss og bílgeymslu og stæði kæranda í bílageymslu breytt.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt samþykktri afstöðumynd fyrir Ferjuvað 1-3 sé íbúð 01-06 sérstaklega hönnuð fyrir þarfir fatlaðra. Fylgi henni bílastæði merkt B-17 í bílageymslu samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Með samþykktri breytingu sé því bílastæði breytt í venjulegt bílastæði án aðgengis fyrir fatlaða. Sé um meiri háttar og grófa aðför að lögvörðum réttindum fatlaðra að ræða. Íbúðum fyrir fatlaða skuli fylgja sérmerkt bílastæði. Stæði fyrir fatlaða á sameiginlegri lóð hússins séu sameign allra og óheimilt að sérmerkja þau einstökum íbúðum löngu eftir að búið sé að selja allar íbúðir í húsinu. Gangi hin kærða ákvörðun gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Eigi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 við í máli þessu en þegar byggingarleyfishafi hafi sótt um byggingarleyfi fyrir fasteigninni hafi ekki legið fyrir ósk hans um að ákvæði eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998 myndu gilda um viðkomandi mannvirkjagerð. Engu máli skipti hvenær umsókn um byggingarleyfi sé lögð inn til samþykktar. Það sem ráði því hvort ákvæði eldri byggingarreglugerðar eða núgildandi reglugerðar gildi sé hvenær byggingaráform séu samþykkt og hvort útgáfa byggingarleyfis sé fyrir eða eftir gildisdag reglugerðarinnar. Fram hafi komið við samþykkt byggingaráforma hússins að umsóknin samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga. Þá séu gerðar athugasemdir við að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvarðanatöku sína á áliti lögmanns sem vart geti talist hlutlaust og líti eingöngu til þeirra atriða sem réttlæti og verji framgöngu byggingarleyfishafa.

Við lokaúttekt hafi verið stuðst við samþykkta aðaluppdrætti en ekki hafi verið byggt í samræmi við þá. Hafi byggingaraðili ekki upplýst byggingarfulltrúa um breytingar í bílakjallara. Ekki hafi verið gerð úttekt á aðgengi fyrir fatlaða við lokaúttekt eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Hafi enginn rökstuðningur verið lagður fram af hálfu byggingarfulltrúa um nauðsyn þess að samþykkja umræddar breytingar. Sé samþykkt teikning frá 21. febrúar 2012 í samræmi við lög og reglugerðir og hafi bæði byggingarfulltrúi og Eldvarnareftirlit staðfest að svo sé. Þá sé vakin sérstök athygli á ákvæðum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um aðgengi fyrir alla.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Fram komi í áliti sem sveitarfélagið hafi aflað sér að ljúka hafi átt meðferð umsóknar frá 31. janúar 2012 um byggingarleyfi fyrir Ferjuvað 1-3 á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998, eins og í raun virðist hafa vera gert. Því sé eðlilegt að breytingar á byggingartíma, sem áttu sér stað við byggingu bílageymslu, séu metnar með tilliti til sömu reglugerðar. Þá sé tekið fram í fyrrgreindu áliti að samkvæmt gr. 30.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli þess gætt að „allar samþykktar breytingar séu skráðar“ og „reyndarteikningar skuli afhentar byggjanda áður en lokaúttekt fer fram“. Hvorutveggja hafi verið gert af hálfu framkvæmdaaðila og aðalhönnuðar hússins og óskað eftir samþykki fyrir breytingunum með umsókn þann 20. maí 2014, en afgreiðslu hennar hafi síðan verið frestað af byggingarfulltrúa. Að mati álitsgjafa hafi umræddar breytingar verið samkvæmt því óverulegar og réttmætar á byggingartíma og ekki hafi þurft samþykki meðeigenda fyrir þeim, enda hafi þeir ekki verið til staðar á framkvæmdatíma. Hliðrun á eldvarnarhurð hafi verið gerð til að skapa aukna fjarlægð á milli eldvarnarhurða í brunastúkunni. Að auki hafi bílastæði merkt B-17, fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu, verið breytt í venjulegt bílastæði vegna fyrrgreindrar hliðrunar.

Samkvæmt gr. 64.4 reglugerðarinnar þurfi að gera ráð fyrir einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir Ferjuvað 1-3, að lágmarki. Enginn sérstök skylda hvíli á húsbyggjendum að hafa bílastæði fatlaðra í bílageymslum sé kröfum um fjölda bílastæða fullnægt á annað borð. Í þessu tilviki hafi það verið gert með gerð tveggja bílastæða fyrir fatlaða á lóð. Sérstaklega sé bent á að um minniháttar nauðsynlegar breytingar hafi verið að ræða, sem gerðar hafi verið á byggingartíma, en ekki verði annað séð en að breidd stæðisins sé sú sama og áður. Þá séu engar forsendur til að fella úr gildi lokaúttektina og þess megi og geta að engar sérúttektir séu gerðar á aðgengi fatlaðra enda engin skylda til slíks.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru, en hann hefur ekki látið málið til sín taka. Í fyrirliggjandi gögnum hjá úrskurðarnefndinni kemur fram að verktaki hússins og aðalhönnuður þess hafi á fundi með byggingarfulltrúa bent á að byggingin hafi verið samþykkt í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Því hafi ekki verið talið að gera þyrfti grein fyrir breytingum á byggingartíma fyrr en að framkvæmdum loknum. Jafnframt væri fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða í samræmi við þá reglugerð.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. desember 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishússins við Ferjuvað 1-3. Voru breytingarnar gerðar á byggingartíma þess og fólust m.a. í að dyraopi fyrir eldvarnarhurð í vegg brunastúku milli stigahúss og bílageymslu var hliðrað til og bílastæði, sem merkt er B-17 í bílageymslu og ætlað er fyrir fatlaða, breytt af því tilefni. Álitaefni varðandi upphaflegt byggingarleyfi, svo sem um tilhögun bílastæða í bílageymslu og á lóð, sæta ekki endurskoðun í máli þessu umfram þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Kærandi festi kaup á íbúð sinni með kaupsamningi, þinglýstum 19. júlí 2013, og lágu þá fyrir samþykktar teikningar að húsinu, dags. 21. febrúar 2012. Samkvæmt þeim teikningum er íbúð kæranda hönnuð fyrir fatlaða og fylgir henni áðurgreint bílastæði B-17 ásamt hlutfallslegri eign í sameign bílageymslunnar, heildarhúsi og lóð. Er umrætt bílastæði séreign kæranda en í því felst einkaréttur hans til umráða og hagnýtingar þess með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, reglum nábýlisréttar og eðli máls, skv. 2. tl. 12. gr. fjöleignarhúsalaga. Fyrir liggur að kærandi var ekki samþykkur umræddum breytingum og hafði hann haft samband við embætti byggingarfulltrúa af því tilefni.
Með hinni kærðu breytingu var m.a. samþykkt að fyrrgreindar dyr væru innan fyrri markalínu bílastæðis kæranda og þar með þrengdist stæði hans vegna gönguleiðar frá dyrunum sem nemur um einum metra frá markalínunni að steinsteyptri stoð. Því hefur verið haldið fram að hin umdeilda breyting hafi verið nauðsynleg til að skapa aukna fjarlægð milli eldvarnardyra í brunastúku og um minniháttar breytingar hafi verið að ræða. Ekki liggur þó fyrir í málinu að upphafleg hönnun umræddrar bílageymslu hafi verið ábótavant m.t.t. brunavarna en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykkti eldvarnareftirlit Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins aðaluppdrætti upphafslegs byggingarleyfis. Hins vegar er ljóst að þessi breyting hefur í för með sér töluverð áhrif á notagildi bílastæðis kæranda frá því sem áður var og óhagræði vegna lengri leiðar frá bílastæði að lyftu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir á skorta að fullnægjandi rök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda. Ekki var haft samráð við eða aflað samþykkis hans við málsmeðferð og töku umræddrar ákvörðunar sem hafði bein áhrif á séreign kæranda. Verður hin kærða ákvörðun af þessum sökum felld úr gildi að því er varðar fyrrgreinda hliðrun dyra fyrir eldvarnarhurð og breytingu á bílastæði B-17 í bílageymslu umrædds húss. Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ákvörðunin standi óhögguð að öðru leyti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað að því er varðar hliðrun á eldvarnardyrum í eldvarnarvegg á milli stigahúss og bílgeymslu og breytingar á bílastæði merktu B-17 í bílageymslu.

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

143/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 143/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóð nr. 59 við Borgarbraut með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 9. nóvember og 5. og 6. desember 2016.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti hinn 14. apríl 2016 breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 55-59 við Borgarbraut. Hinn 16. september s.á. veitti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóð nr. 57-59 við Borgarbraut, á grundvelli nefndrar deiliskipulagsbreytingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 23. september 2016, var fyrrgreind skipulagsákvörðun felld úr gildi þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi aðalskipulag Borgarbyggðar. Í kjölfar ógildingar skipulagsbreytingarinnar samþykkti byggingarfulltrúi á fundi sínum 3. október 2016 að veita byggingarleyfi fyrir 59 herbergja hótelbyggingu, á lóðinni Borgarbraut 59 með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2016, var hið fyrra byggingarleyfi, sem tók til sameinaðrar lóðar Borgarbrautar 57-59, afturkallað.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eiga fasteign í næsta nágrenni við fyrirhugaða hótelbyggingu, skírskota til þess að í hinu kærða byggingarleyfi sé byggt á röngum  stærðartölum lóðar við útreikning nýtingarhlutfalls. Lóðin sé sögð vera 3.050 m2 en í fasteignaskrá sé hún talin vera 2.640 m2. Í deiliskipulagi umrædds svæðis frá 2007 sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu á neðri hæðum og íbúðum á efri, en ekki hóteli. Þá sé byggingarreitur í deiliskipulagi annar en nú sé. Með byggingu hótels á lóðinni muni umferð aukast verulega með tilheyrandi óþægindum og hávaða. Loks muni staðsetning og stærð byggingarinnar skyggja verulega á útsýni og geti hún valdið sterkum vindsveipum í nágrenninu. Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kærendur eigi hvorki verulega né einstaklega hagsmuni tengda úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulagsáætlun svæðisins sem hafi tekið gildi árið 2007 og aðalskipulag Borgarbyggðar, sem hafi verið staðfest af sveitarstjórn Borgarbyggðar árið 2010. Fyrirhuguð bygging á lóðinni Borgarbraut 59 sé innan þeirra viðmiða sem sett hafi verið í gildandi deiliskipulagi um hæð, stærð og nýtingarhlutfall lóðarinnar. Þá sé umrædd bygging öll innan byggingarreits og nýting hennar sé í samræmi við landnotkun svæðisins í gildandi aðalskipulagi. Útgáfa byggingarleyfisins hafi því engin áhrif gagnvart fasteign kærenda umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt skipulagsáætlunum svæðisins. Þar að auki sé kærufrestur vegna þeirra löngu liðinn. Stærð fyrirhugaðrar byggingar, mögulegir vindsveipir, áhrif á útsýni frá fasteign kærenda, stærð byggingarreits og bygging hótels hafi verið samþykkt í umræddum skipulagsáætlunum og kærendur hefðu því átt að kæra gildistöku þeirra á sínum tíma. Þá liggi fasteign kærenda ekki á aðliggjandi lóð við Borgarbraut 59 heldur sé hún hinum megin við Kveldúlfsgötu og standi auk þess norðar en Borgarbraut 59. Auk þess sé fasteign kærenda á mörkum þess sem sé skilgreint miðsvæði og íbúðarsvæði í aðalskipulagi.

Þótt gert sé ráð fyrir byggingu verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis á lóðinni hafi sveitarfélagið svigrúm til að heimila þar byggingu hótels. Lóðin Borgarbraut 59 sé á svæði sem í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sé skilgreint sem miðsvæði og sé gert ráð fyrir að á svæðinu verði blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu, sem sé í samræmi við skilgreiningu landnotkunar í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur og samgöngu- og þjónustukerfi. Er þar lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Deiliskipulag tekur til afmarkaðs svæðis eða reits innan marka sveitarfélags þar sem teknar eru ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Þá þurfa skipulagsáætlanir að vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna.

Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55-59 sem tók gildi árið 2007. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði 12. gr. skipulagslaga verður að gera þá kröfu að skilmálar gildandi deiliskipulags séu í samræmi við aðalskipulag. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar er umrædd lóð nr. 59 við Borgarbraut á skilgreindu miðsvæði (M). Á því svæði er heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu. Í almennum hluta greinargerðar gildandi deiliskipulags kemur fram að á skipulagssvæðinu sé gert ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúða, verslunar og þjónustu ásamt stofnunum. Er framangreind skilgreining landnotkunar í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.  Í deiliskipulaginu eru einnig sérskilmálar fyrir umrædda lóð og samkvæmt þeim er hámark nýtingarhlutfalls 1,15. Lóðin er 3.050 m2 að stærð samkvæmt skipulagsuppdrætti. Þá er tekið fram að á lóðinni Borgarbraut 59 sé heimiluð landnotkun í samræmi við gildandi aðalskipulag. Gert sé ráð fyrir íbúðum í væntanlegu húsi á lóðinni, en atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarhúsnæði sé heimil á fyrstu hæð (jarðhæð).

Hin kærða ákvörðun veitir leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóðinni Borgarbraut 59 og er fyrirhuguð bygging í samræmi við framangreinda landnotkun aðalskipulags og er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við nefnda sérskilmála um stærð og nýtingarhlutfall í deiliskipulagi. Hins vegar hefur sveitarfélagið með greindum sérskilmálum um landnotkun umræddar lóðar sett takmarkanir á notkun hennar og verður ekki fallist á að hótelbygging á lóðinni rúmist innan skilmála deiliskipulagsins um landnotkun lóðarinnar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og er það m.a. eitt af þeim skilyrðum sem þarf að vera uppfyllt við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Hið kærða byggingarleyfi er samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við landnotkun gildandi deiliskipulags og verður því ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson