Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2014 Suðurnesjalína 2

Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2014, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 um að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2014, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Orkustofnun verði gert að meta flutningsþörf fyrir raforku á línuleiðinni. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdaraðili líti til fleiri valkosta við kerfisútfærslu línunnar, þ.m.t. til jarðstrengja.

Gögn málsins bárust frá Orkustofnun 5. febrúar 2014.

Málsatvik og rök: Mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, lauk með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 17. september 2009. Hinn 21. desember 2012 sótti Landsnet um leyfi til Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 og 1. febrúar 2013 birti Orkustofnun auglýsingu í Lögbirtingablaði þar sem þeim aðilum er málið varðaði var gefið færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum sínum til 1. mars s.á., sbr. 3. mgr. 34. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Bárust athugasemdir, m.a. frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, sem eru annar kærenda málsins. Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Hinn 24. febrúar 2014 tók ráðherra ákvörðun um að heimila Landsneti að framkvæma eignarnám á hluta af jörðum nánar tiltekinna landeigenda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Sú ákvörðun var felld úr gildi með dómum Hæstaréttar uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 796/2015, uppkveðnum 13. október 2016, var hin kærða ákvörðun Orkustofnunar felld úr gildi.

Kærendur vísa m.a. til þess að við umrædda leyfisveitingu hafi Orkustofnun brotið gegn rétti Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands til að andmæla athugasemdum Landsnets vegna athugasemda samtakanna. Sé vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar um. Með broti á andmælarétti hafi einnig verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. þeirra. Þá hafi rannsóknarregla 10. gr. laganna verið brotin, en ekki verði annað séð en að leyfisveitingin byggi eingöngu á framlögum gögnum Landsnets og athugasemdum fyrirtækisins við innsendar athugasemdir. Ekki hafi verið tekið tillit til nýrra upplýsinga eða gagna frá öðrum aðilum, sem þó hafi borist stofnuninni. Sé bent sérstaklega á gögn varðandi lagningu jarðstrengja og tilheyrandi kostnað. Þá hafi rökstuðningur Orkustofnunar ekki fullnægt 22. gr. stjórnsýslulaga. Loks hafi stofnunin, með því að samþykkja rekstur 220 kV loftlínu, ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu og hafi rök stofnunarinnar fyrir svo mikilli flutningsgetu ekki verið nægileg. Hafi hún ekki lagt sjálfstætt mat á raunverulega þörf á raforkuflutningi á línuleiðinni eða skoðað aðra valkosti, s.s. jarðstrengi.

Af hálfu Orkustofnunar er bent á að með auglýsingu í Lögbirtingablaði hafi öllum þeim aðilum er málið varðaði verið gefinn kostur á að kynna sér umsókn Landsnets um flutningsvirki. Hafi annar kærenda og tilgreindir landeigendur komið að athugasemdum vegna hennar, og hafi þeim fylgt gögn sem Landsnet hafi átt rétt á að tjá sig um samkvæmt andmælareglu stjórnsýslulaga. Andmæli Landsnets hafi hvorki leitt í ljós nýjar upplýsingar né gögn sem kallað hafi á að réttur yrði veittur til að andmæla þeim. Afstaða og rök aðila hafi legið fyrir í málinu og hafi því ekki þurft að veita þeim frekar færi á að tjá sig, enda augljóslega óþarft, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga. Einnig hafi fulls jafnræðis verið gætt og öllum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Sé því þess vegna vísað á bug að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Þá sé og ljóst að Orkustofnun hafi ekki brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga heldur farið vandlega yfir og metið sjónarmið aðila, eins og stjórnvöldum beri skylda til að gera svo tryggt sé að mál sé nægilega vel upplýst áður en stjórnvaldsákvörðun er tekin. Tilvísun kærenda til greinaskrifa og skýrslna vegna jarðstrengja hafi ekkert nýtt fram að færa og rök Landsnets fyrir uppbyggingu 220 kV háspennulínu séu málefnaleg og taki bæði tillit til núverandi þarfa og aðstæðna í kerfinu, sem og framtíðarþarfar. Á grundvelli rannsóknar stofnunarinnar á gögnum málsins hafi verið tekin rökstudd ákvörðun með vísan til 9. gr. raforkulega nr. 65/2003, en skv. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi vísa til þeirrar réttarreglna er ákvörðun stjórnvalds byggi á. Stofnunin hafi greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat hennar, m.a. með vísan í þróun og stefnumörkun atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum, virkjunarkosti í nýtingarflokki rammaáætlunar á Reykjanesi og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Loks verði ekki séð af kæru á hvern hátt Orkustofnun eigi að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína.

Leyfishafi bendir á að í kæru komi fram að kærendum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, en kæra hafi verið móttekin 7. janúar 2014, þ.e. að liðnum kærufresti. Þá sé  því mótmælt að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og séu fullyrðingar þess efnis ekki studdar neinum gögnum. Bent sé á að það falli ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að fjalla um eftirlitshlutverk Orkustofnunar á grundvelli laga nr. 65/2003 og sama eigi við um ýmis önnur atriði í kæru. Brýn þörf og almannahagsmunir kalli á byggingu Suðurnesjalínu 2 þar sem allur raforkuflutningur fari um aðeins eina línu sem þegar sé fulllestuð. Sú meginregla gildi í stjórnsýslurétti að ekki sé réttmætt að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema unnt sé að sýna fram á verulega annmarka á málsmeðferð hennar, sem telja verði að hafi haft áhrif á niðurstöðu stjórnvaldsins. Enga slíka annmarka sé að finna á málsmeðferð Orkustofnunar.
——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem ekki þykir ástæða til að rekja hér nánar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, en Orkustofnun tók ákvörðun um útgáfu þess 5. desember 2013. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. janúar 2014, en dómsmál til ógildingar nefndrar ákvörðunar var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 21. mars s.á. Meðferð kærumálsins var frestað á meðan á rekstri dómsmálsins stóð og svo sem greinir í málavaxtalýsingu lauk því á þann hátt að hin kærða ákvörðun var felld úr gildi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 796/2015 frá 13. október 2016.

Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum hefur það enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna hagsmuna né almannahagsmuna, að fá frekar skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu þegar af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna framangreindra ástæðna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon