Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2014 Suðurnesjalína 2 Reykjanesbæ

Árið 2017, þriðjudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Landakots, Stóru Vatnsleysu, Minni Vatnsleysu, hluti af eigendum Heiðarlands Vogajarða og hluti af eigendum Stóra Knarrarness, Sveitarfélaginu Vogum, þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 20. maí 2014 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 5. september 2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags 26. nóvember 2013, óskuðu eigendur jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Stóru og Minni Vatnsleysu, nokkrir eigenda Heiðarlands Vogajarða og tveir eigenda Stóra Knarrarness eftir endurskoðun fyrrnefndrar matsskýrslu Landsnets að því er varðaði Suðurnesjalínu 2. Með ákvörðun sinni 23. júní 2014 hafnaði Skipulagsstofnun þessari beiðni landeigendanna, sem og ósk þeirra til vara um endurskoðun á áliti stofnunarinnar á matsskýrslunni. Nefnd ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kæran var síðar afturkölluð.

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði, um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ, að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kærumálinu var vísað frá nefndinni í kjölfar dóms Hæstaréttar 13. október 2016, í máli nr. 796/2015, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á jörðum kærenda í febrúar 2014, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. 

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 15. maí 2014 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Var umhverfis- og skipulagssviði falið að ganga frá framkvæmdaleyfi. Á fundi bæjarstjórnar 20. s.m. var afgreiðsla bæjarráðs samþykkt og er sú ákvörðun kærð í máli þessu. Framkvæmdaleyfi var gefið út 16. júní s.á. og auglýst sama dag. Auk Reykjanesbæjar veittu sveitarfélögin Grindavík, Hafnarfjörður og Vogar Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem öll voru kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærumáli þessu var frestað á meðan á rekstri dómsmáls stóð vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum, en leyfið var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar leyfisveitingar hafa verið afturkallaðar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hin kærða leyfisveiting varði með beinum hætti stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Í 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu settar fram kröfur sem fylgja þurfi við yfirferð og útgáfu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórn skuli fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, auk þess að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem þar sé lýst. Beri síðan að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Sé markmiðið að sveitarstjórn taki upplýsta ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem liggi fyrir um umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar, eins og segi í athugasemdum við ákvæði 2. mgr. 14. gr. frumvarps þess er orðið hafi að skipulagslögum. Séu gerðar ríkar kröfur til rannsóknarskyldu sveitarfélaga áður en ákvörðun sé tekin um útgáfu framkvæmdaleyfis. Viðamikil gögn hefði þurft að skoða að teknu tilliti til nefndra skyldna og sé því sem næst óhugsandi að sveitarfélagið hafi getað sinnt þeim skyldum á þeim stutta tíma sem liðið hafi frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi barst 8. maí 2014 þar til hún var samþykkt á fundi bæjarráðs 15. s.m. Þessi málsmeðferð sé jafnframt í grófri andstöðu við þá rannsóknarskyldu sem hvíli á sveitarfélaginu við afgreiðslu beiðna af þessu tagi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að landeigendur í Sveitarfélaginu Vogum hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um lögmæti ákvörðunar Reykjanesbæjar um veitingu framkvæmdaleyfis, eins og krafa sé gerð um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Breyti engu þótt framkvæmdin nái til fleiri en eins sveitarfélags og framkvæmdaleyfi hvers sveitarfélags um sig sé skilyrði fyrir heildarframkvæmdinni. Því skuli vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Ekkert hafi staðið því í vegi að gefið yrði út framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Niðurstaða sveitarfélagsins hafi verið í samræmi við gildandi svæðisskipulag, aðalskipulag og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Sveitarfélagið hafi tekið mið af heildarniðurstöðu álitsins við mat á því hvort veita skyldi framkvæmdaleyfi og ekki hafi verið þörf á sérstakri greinargerð um atriði í álitinu sem sveitarfélagið hafi ekki fallist á því þau hafi ekki verið til staðar. Telji sveitarfélagið að framkvæmdin sé brýn, aðkallandi og í þágu almannahagsmuna jafnt og íbúa sveitarfélagsins. Veiting framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við álit Skipulagsstofnunar og tekið hafi verið tillit til þeirra skilyrða er þar hafi verið bent á.

Lagning Suðurnesjalínu 2 í lofti sé að miklu leyti afturkræf framkvæmd og raski jarðvegi ekki mikið, m.a. í ljósi þess að hægt sé að nýta núverandi slóðir að miklu leyti. Sérstaklega mikilvægt sé að taka mið af þessari staðreynd þar sem hraunið sem línan komi til með að liggja í gegnum sé nútímahraun, sem njóti sérstakrar verndar, og yfir vatnsverndarsvæði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að veiting framkvæmdaleyfis sé í fullu samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Óumdeilt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir, sem leyfi hafi verið veitt fyrir, byggi á gildandi Svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 og Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024, sem og niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Ríkir almannahagsmunir krefjist þess að raforkuflutningskerfið verði styrkt á umræddu svæði. Um sé að ræða veikan hluta flutningskerfisins, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis. Suðurnesjalína 1, sem nú þjóni svæðinu og rekin sé á 132 kV spennu, sé fulllestuð í dag. Framkvæmdin sé því brýn, aðkallandi og í þágu almannahagsmuna. Þá komi aðrar leiðir, sem miði að því að styrkja flutningskerfið, ekki til greina, en 220 kV jarðstrengslausn sé ekki tæknilega eða kostnaðarlega fýsileg á þessu spennustigi. Hún komi eingöngu til athugunar á styttri vegalengdum og við sérstakar aðstæður, t.d. ef um sé að ræða einstæðar umhverfisaðstæður eða þétta íbúðabyggð. Auk þess myndi slík framkvæmd skilja eftir sig breiða raskaða rás í hrauni, en eldhraun njóti sérstakrar verndar náttúruverndarlaga. Rask vegna loftlínu yrði umtalsvert minna og óafturkræft rask yrði minna en af lagningu jarðstrengja. Línan muni fylgja mannvirkjabelti Reykjaness.

——-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, sem ekki verða rakin nánar hér með hliðsjón af síðar til komnum atvikum málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, sem samþykkt var af sveitarstjórn Reykjanesbæjar 20. maí 2014. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 75/2014, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna atvika sem nánar eru rakin í málavaxtalýsingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon