Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2015 Rauðarárstígur

Árið 2017, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2015, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 13. nóvember 2015 á erindi kæranda vegna hávaða á vinnustað hans við Rauðarárstíg 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Hjallabraut 6, Hafnarfirði, þá afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 13. s.m. að aðhafast ekki vegna erindis hans frá 11. s.m. þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda vegna hávaða í nágrenni vinnustaðar hans að Rauðarárstíg 10. Er þess krafist að heilbrigðiseftirlitinu verði gert að afgreiða umrætt mál efnislega og taka afstöðu til kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 15. desember 2015.

Málsatvik og rök: Kærandi kvartaði til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur með tölvubréfi, dags. 11. nóvember 2015, vegna hávaða frá höggbor og sprengingum sem bærist inn á vinnustað hans að Rauðarárstíg 10, en framkvæmdirnar voru á lóð við Laugaveg 120. Krafðist kærandi þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar tafarlaust, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða, sbr. 4. gr. og 15. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærandi kveður framkvæmdir þær sem hann hafi kvartað yfir hafa staðið vikum saman. Nánast á hverjum degi hafi verið unnið með höggbor frá morgni til kvölds og þá hafi á reitnum verið öflugar og ærandi sprengingar. Hann hafi krafist þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar þegar í stað, en kvörtun hans hafi verið svarað á þann veg að heilbrigðiseftirlitið myndi ekkert aðhafast í málinu. Þegar stjórnvöldum berist erindi sem heyri undir starfssvið þeirra beri þeim að bregðast við með því að rannsaka málið og taka í kjölfarið ákvörðun í því í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kveður ekki hafa verið tilefni til að aðhafast frekar í málinu en gert hafi verið, þar sem það hafi þegar verið framsent því stjórnvaldi, þ.e. byggingarfulltrúa, sem gripið hefði getað til aðgerða ef skilyrði byggingarleyfis og aðrar kröfur hefðu ekki verið virtar og þá mögulega stöðvað framkvæmdir. Um hafi verið að ræða tímabundnar framkvæmdir sem tækju enda. Framkvæmdin væri unnin á grundvelli takmarkaðs byggingarleyfis, útgefnu af byggingarfulltrúanum í Reykjavík, sem sjái jafnframt um eftirlit með byggingarleyfisskyldum framkvæmdum. Vegna þessa hafi það verið afstaða heilbrigðiseftirlitsins að það skorti heimildir til þess að beita þeim þvingunarúrræðum sem því væru veitt með lögum, en í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða sem heilbrigðisnefnd framfylgi sé ekki að finna viðmiðunarmörk varðandi hávaða frá tímabundnum framkvæmdum.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í málinu kemur fram að framkvæmdir þær með höggbor og sprengingum, er kærandi kvartaði yfir og krafðist stöðvunar á, hafi verið tímabundnar. Mun þeim hafa lokið fljótlega eftir að greinargerðin barst úrskurðarnefndinni, eða um áramót 2015/2016. Staðfesting þessa hefur borist frá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík. Með lokum hins hávaðasama hluta framkvæmdanna var tilefni erindis kæranda, og þar með kæruefni, ekki lengur til staðar.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá kæranda um það hvort og þá hvaða lögvarða hagsmuni hann teldi sig hafa af úrlausn kærumálsins í ljósi þess að þeim tímabundnu hávaðasömu framkvæmdum sem kvörtun hans hefði lotið að væri lokið. Var kæranda veittur frestur til 24. s.m., en engar athugasemdir hafa borist frá honum.

Að teknu tilliti til alls framangreinds verður ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu sína og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon