Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2015 Neshagi

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík og samþykkja breytingar á innra fyrirkomulagi umrædds húss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra eigendur, Neshaga 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir kælibúnaði og varaaflstöð að Neshaga 16 og breyta innra fyrirkomulagi húss á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimilaðan kælibúnað og varaaflstöð á fyrrgreindri lóð. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. júlí 2015 og í desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. desember 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að koma fyrir rými fyrir kælibúnað og varaaflstöð á norðanverðri lóðinni Neshaga 16 og breyta innra skipulagi húss á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað þar sem gera þyrfti betri grein fyrir erindinu. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði því áfram til verkefnisstjóra. Skipulagsfulltrúi tók málið fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi sínum 16. janúar 2015. Lét hann í ljós jákvæða afstöðu til umsóknarinnar með þeim skilyrðum og leiðbeiningum sem fram kæmu í umsögn embættisins, dags. sama dag.

Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum 20. janúar 2015 og vísaði málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi 23. s.m. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Neshaga 14 og Hofsvallagötu 53 og komu kærendur að athugasemdum á kynningartíma. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf umsögn sína um fyrirhugaðar framkvæmdir við kæliver og vararafstöð með bréfi, dags. 24. mars 2015. Haldinn var fundur á vegum Reykjavíkurborgar vegna málsins 30. s.m. með nokkrum íbúum og eigendum Neshaga 14. Erindið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. apríl s.á. Var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. mars s.á., og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2015 var umsóknin samþykkt og m.a. áskilið samþykki heilbrigðiseftirlitsins.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, en samkvæmt því sé miðað að því að styrkja umrædd svæði sem miðstöð þjónustu og mannlífs í Vesturbænum. Stafi bæði hljóð- og umhverfismengun af nefndum mannvirkjum, sem ekki eigi heima í íbúðarbyggð. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé óheimilt að gefa út byggingarleyfi sem ekki samrýmist stefnu aðalskipulags um landnotkun. Við meðferð málsins hafi ekki verið gætt ákvæða 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveði á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Enn sé ákveðnum spurningum ósvarað varðandi framkvæmdina, svo sem hvernig tryggt verði að eftirlit verði haft með mannvirkjunum og hvernig því verði háttað. Jafnframt sé óskað upplýsinga um hvort geislun frá mannvirkjunum geti snert heilsufar íbúa á svæðinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld taka fram að hið umdeilda byggingarleyfi sé í fullu samræmi við skipulagsáætlun og tekið hafi verið tillit til athugasemda sem kærendur hafi komið á framfæri við grenndarkynningu. Haldinn hafi verið fundur með íbúum og eigendum Neshaga 14 vegna málsins og á þann fund hafi m.a. mætt fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins. Á fundinum hafi verið kynntar breyttar teikningar sem sýnt hafi færslu varaaflstöðvar og kælis til vesturs á lóð Neshaga 16. Eftir að fundað hafi verið hafi umrædd mannvirki verið færð vestar og skermuð af. Umhverfis búnaðinn verði reist gerði og opið hálfþak sé yfir varaaflstöðinni. Komi í ljós að búnaður valdi ónæði þrátt fyrir ráðstafanir verði gerðar kröfur um frekari skermun. Hljóðvist muni uppfylla kröfur sem gerðar séu í reglugerð til atvinnurekstrar í íbúðabyggð. Gert verði skilyrði um að lekavörn rúmi allt innihald eldneytistanks ef óhapp verði. Lekavarnarbúnaður og ísogsefni þurfi að vera til taks við áfyllingar eldneytistanks og allt viðhald á varaaflstöðinni. Komið verði fyrir rafrænum viðvörunarbúnaði á tankinum sem gefi merki komi leki að honum, líkt og heilbrigðiseftirlitið hafi gert kröfu um. Útbúinn verði þjónustusamningur við umboðsaðila varaaflstöðvarinnar sem sjái um alla þjónustu og eftirlit með búnaðinum. Vökvi sem sé á kælibúnaði sé umhverfisvænn, lyktarlaus og í lokuðu kerfi. 

——-

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Á árinu 1955 var gerður uppdráttur af umræddu svæði en ekki liggur fyrir að honum hafi fylgt skilmálar um landnotkun. Var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. heimild í þágildandi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Hinar kærðu breytingar eru tilkomnar vegna flutnings Reiknistofnunar Háskóla Íslands í húsakynni á lóðinni Neshaga 16. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er lóðin á miðsvæði M13 í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri verslun, þjónustu og félagsstarfsemi fyrir íbúa hverfisins auk íbúða. Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, er landnotkun miðsvæðis lýst svo að um sé að ræða „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“. Starfsemi á vegum Háskóla Íslands samræmist samkvæmt framangreindu gildandi landnotkun svæðisins.

Breytingarnar fela í sér að kælibúnaði fyrir tölvuherbergi er komið fyrir norðan við húsið ásamt varaaflstöð. Fram kemur í texta á samþykktum teikningum að kælibúnaðurinn samanstandi af kælipressu, dælu og tveimur kæliviftum. Kælibúnaðurinn sé í lokuðum hljóðeinangruðum kassa úr stáli sem gerður sé til að standa utandyra. Taki kælikerfið um 250 lítra af kælimiðli og sé hann lyktarlaus og umhverfisvænn. Stærð búnaðarins sé 4.612×1.151×2.215 mm, eða 5,3 m² að grunnflatarmáli. Þá er tekið fram að verði leki á kerfinu stöðvist hringrásardæling og einungis lítið magn geti lekið áður en dælan stoppi. Jafnframt er tilgreint að varaaflstöðin sé í hljóðeinangraðri skel úr stáli sem gerð sé til að standa utandyra. Botn hennar sé þannig útbúinn að hann geti tekið við því magni sem gæti smitað eða lekið út af olíu eða kælivökva. Öryggispanna verði undir varaaflsstöðinni sem taki við öllum vökva sem gæti lekið ef óhapp yrði. Lítill möguleiki sé á olíuleka við eldsneytisskipti þar sem takmarkað magn af olíu sé í síum. Prófun á stöðinni fari fram einu sinni í mánuði og standi í um 15 mínútur. Varaaflstöðin sé 4.300×1.400×2.156 mm að stærð, eða um 6,0 m² að flatarmáli. Þá er tekið fram að útbúið verði gerði utan um varaaflstöð og kælibúnað.

Verður að telja að hin umdeildu mannvirki séu eðlilegur og nauðsynlegur búnaður fyrir þá starfsemi sem fram fer á lóðinni og fari því ekki í bága við gildandi landnotkun. Staðsetning mannvirkjanna og umfang er ekki til þess fallin að valda merkjanlegum grenndaráhrifum gagnvart nágrönnum. Að lokinni grenndarkynningu var haldinn fundur með nokkrum eigendum og íbúum Neshaga 14 og voru umrædd mannvirki færð til vesturs í tilefni af athugasemdum sem fram komu.

Jafnframt bendir ekkert til þess að frá umræddum búnaði muni stafa óæskileg geislun. Þannig hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki talið efni til að víkja að því atriði í umsögn sinni, en þar kemur þó fram að farið hafi verið yfir erindið og meðfylgjandi gögn og nánar tilgreindar athugasemdir verið gerðar af því tilefni. Þá verður ekki annað af greinargerð sveitarfélagsins ráðið en að tekið hafi verið tillit til þeirra skilyrða og ábendinga sem þar komu fram.

Aðilum sem komið höfðu á framfæri athugasemdum á kynningartíma mun ekki hafa verið send umsögn um málið, svo sem áskilið er skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að þeir ágallar hafi áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði  við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Geir Oddsson

128/2014 Svifflugfélagið

Með
Árið 2016, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að synja erindi um akstur jeppabifreiða á Sandskeiði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Svifflugfélag Íslands, Sandskeiði, Suðurlandsvegi, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. nóvember 2014 að synja erindi kæranda um akstur bifreiða á grasbraut félagsins á Sandskeiði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 4. febrúar 2015.

Málavextir: Með tölvupósti, dags. 18. nóvember 2014, kynnti forsvarsmaður kæranda þau áform félagsins að leigja út grasbraut á félagssvæði sínu á Sandskeiði fyrir reynsluakstur nýrra jeppabifreiða, sem ætti að fara fram á Íslandi frá 3. til 16. desember s.á. annars vegar og frá 11. til 27. janúar 2015 hins vegar. Hluti reynsluakstursleiðarinnar ætti að vera akstur á valtaðri snjóbraut, sem lögð yrði á grasbrautinni, og væru forsendur þess að farið yrði inn á grasbrautirnar að frost yrði í jörðu og snjór yfir svæðinu. Kemur fram í tölvupóstinum að kærandi geri sér fulla grein fyrir því að Sandskeið sé á vatnsverndarsvæði og muni hann því tryggja sem minnsta hættu á óhappi er leitt gæti til mögulegrar mengunar. Í þessum tilgangi áætli kærandi m.a. að vera með gröfu og dráttarvagn til taks.

Á fundi heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 24. nóvember 2014 var framangreindur tölvupóstur lagður fram sem erindi til nefndarinnar. Ákvað nefndin, með vísan til 30. gr. samþykktar nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar að synja erindinu þar sem starfsemin samrýmdist ekki landnotkun og þróun starfsemi á verndarsvæðum vatnsbóla. Með bréfi, dags. 27. s.m., var kæranda tilkynnt um ákvörðunina sem nú er kærð, eins og áður kom fram.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður synjun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á erindi hans vera byggða á röngum forsendum þar sem engin umsókn hafi legið fyrir. Tæplega sé hægt að líta á tilkynningu kæranda til nefndarinnar sem umsókn. Hún hafi fyrst og fremst verið send til að upplýsa um ákveðið samstarfsverkefni kæranda. Enga heimild sé að finna í lögum eða reglugerðum fyrir heilbrigðisnefnd til þess að synja um akstur bifreiða á landi kæranda á Sandskeiði. Kærandi fallist ekki á að tímabundið verkefni falli undir sérstaka leyfisbundna starfsemi og hvergi sé að finna ákvæði í lögum sem heimili yfirvöldum að krefjast tímabundins starfsleyfis eða annarra leyfa til að heimila að nokkrum bifreiðum verði ekið um uppræktað, snævi þakið og frosið landsvæði. Engin áform hafi verið um losun efna sem gætu mögulega mengað jarðveg eða grunnvatn.

Sandskeið virðist falla undir svokallað fjarsvæði vatnsverndar, en við yfirferð á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, reglugerð nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns, reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn og reglugerð nr. 935/2011 um stjórn vatnamála finnist engar heimildir fyrir stjórnvöld til að synja eða leggja bann við akstri á fjarsvæðum vatnsverndar.

Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segi að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó sé heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi að jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst sé að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Grasvöllurinn á Sandskeiði sé land sem ræktað hafi verið af kæranda og nýtt sé undir alla starfsemi hans. Svæðið sé afgirt og að öllu leyti í umsjá félagsins. Ljóst sé að náttúruverndarlög standi ekki vegi fyrir því að kærandi heimili akstur á grasvellinum.

Með engu móti sé hægt að sjá að umrætt verkefni yrði á nokkurn hátt mengandi umfram þann útblástur sem bifreiðar gefi frá sér. Vissulega geti orðið mengunarslys hvar sem vélknúin samgöngutæki finnist, en líkur á því þar sem unnið sé eftir ákveðnu skipulagi séu þó hverfandi og megi minnka niður í áhættulaust verkefni með framsettum kröfum og fyrirfram skipulögðum viðbrögðum ef mögulegt óhapp verði. Fullyrðingar heilbrigðisnefndarinnar um mengunarhættu séu því út í hött og rangar. Kærandi sé afar meðvitaður um stöðu svæðisins sem vatnsverndarsvæðis og hafi virt fullkomlega sanngjarnar kröfur vegna þess. Þótt ýmsar vísbendingar og rannsóknir sýni að hugsanleg vatnsmengun á Sandskeiði ógni tæpast vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins telji kærandi sjálfsagt að tryggja eins og kostur sé að engin mengunarslys verði á svæðinu.

Um 8.000 bifreiðar aki í gegnum Sandskeið á degi hverjum, þ. á m. olíuflutningabifreiðar með þúsundir lítra af eldsneyti, flutningabifreiðar með ýmis ótilgreind eiturefni og svo megi lengi telja. Þá fljúgi yfir vatnsverndarsvæðið stórar flugvélar með tugþúsundir lítra af eldsneyti, en Sandskeið og Bláfjöll séu undir einum fjölförnustu aðflugsleiðum bæði til Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar.

Á Bláfjallasvæðinu sé fjölbreytt starfsemi. Við Þríhnjúka sé að finna einn merkilegasta og dýpsta helli á jörðinni og þar hafi nýlega verið byggður upp ferðamannaiðnaður. Ýmis slys, þ.á m. mengunarslys, hafi orðið í tengslum við uppbygginguna. Þá sé í Bláfjöllum skíðasvæði og aðstaða fjölmargra íþróttafélaga sem nýti aðstöðuna bæði vetur og sumar, m.a. til fjáröflunar. Tugþúsundir bifreiða og gesta heimsæki svæðið ár hvert. Þá sé rétt að vekja athygli á því að rétt austan við Sandskeið, á svonefndri Bolaöldu, sé aðalæfingasvæði mótorhjólamanna og noti þeir m.a. brautir umhverfis Sandskeið til æfinga án nokkurra athugasemda heilbrigðisyfirvalda. Á sömu slóðum sé einnig mikil námuvinnsla og aki daglega hundruðir vörubifreiða um svæðið auk annarra vinnuvéla. Ekki langt frá sé aðal „tippur“ höfuðborgarsvæðisins þar sem ekið sé eftirlitslaust með þúsundir rúmmetra af ýmsu úrgangsefni án athugasemda heilbrigðisyfirvalda.

Með vísan til alls þessa virðist sem yfirvöld brjóti jafnræðisreglu íslenskrar stjórnskipunar gagnvart kæranda með því að synja um leyfi til aksturs nokkurra bifreiða á Sandskeiði. Þá sé rétt að vekja athygli á meðalhófsreglunni sem yfirvöld virðist einnig hafa brotið með umræddri synjun, þar sem ekki hafi verið skoðað hvort hægt væri að tryggja hámarksöryggi með öðrum hætti.

Heilbrigðisnefndin vísi í ákvörðun sinni til ákvæðis í 30. gr. samþykktar um verndarsvæði vatnsbóla nr. 636/1997. Umrædd samþykkt sé ekki formleg reglugerð og hafi því litla sem enga merkingu gagnvart hinni kærðu ákvörðun. Yfirvöld geti ekki tekið íþyngjandi ákvarðanir gagnvart borgurunum á grundvelli umræddrar samþykktar nema ákvörðunin eigi sér stoð í gildandi lögum. Ekki verði séð að svo sé þar sem í samþykktinni sé vísað til laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem séu úr gildi fallin.

Kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna álíka atburða í framtíðinni og mögulegra annarra nota hans á Sandskeiði.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu heilbrigðisnefndarinnar er bent á að ákvörðun nefndarinnar hafi verið tekin 24. nóvember 2014 eftir að lagður hafi verið fram tölvupóstur kæranda frá 18. s.m. Þar hafi verið kynnt áform um akstur á grasbraut félagsins á Sandskeiði í tengslum við bifreiðasýningu í desember 2014 og janúar 2015. Erindinu hafi verið synjað þar sem starfsemin hafi ekki samrýmst landnotkun og þróun starfsemi á verndarsvæðum vatnsbóla.

Nefndin sé lögbært stjórnvald sem beri að taka faglega afstöðu til verndar hámarkshollustu neysluvatns til framtíðar í umdæmi sínu og koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á verndarsvæðum vatnsbóla. Við hina kærðu ákvörðun hafi verið gætt faglegra sjónarmiða og réttarreglna. Til hafi staðið að hefja starfsemi sem engin heimild hafi verið fyrir á svæði þar sem öll landnot verði að falla að forsendum vatnsverndar og verndun vatnsgæða almennt.

Með samþykkt nr. 636/1997, um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar, hafi sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu komið á samræmdum reglum um vatnsvernd. Með samþykktinni hafi verið ákveðið að stuðla að hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæðinu, eins og fram komi í 2. gr. samþykktarinnar. Í 3. gr. samþykktarinnar sé sérstaklega tekið fram að hún taki til umferðar vélknúinna farartækja og atvinnurekstrar.

Áformuðum reynsluakstri hafi að hluta verið ætlað að vera á fjarsvæði A samkvæmt staðfestu skipulagi vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið. Fjarsvæði A sé aðal ákomu- eða vatnssöfnunarsvæðið fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggi að núverandi og framtíðar vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins. Á fjarsvæðum sé óheimilt að staðsetja mengandi starfsemi án samþykktar heilbrigðisnefndar, sbr. 1. mgr. 30. gr. tilvitnaðar samþykktar. Á fjarsvæði A sé atvinnurekstur og starfsemi háð starfsleyfi og skuli leyfi fyrir slíkri starfsemi því aðeins veita að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki, sbr. 2. mgr. 30. gr. Akstursæfingum og akstursíþróttum fylgi ávallt ákveðin mengunarhætta og eigi það ekki síður við um tilraunaakstur. Ætlun kærenda hefði verið að gefa boðsgestum tækifæri til að reyna hæfni nýrrar tegundar ökutækis við akstur í snjó. Slíkri starfsemi verði eðli máls samkvæmt að finna stað utan söfnunarsvæða vatnsbóla og því hafi erindinu verið synjað.

Um verndun neysluvatns sé jafnframt vísað til ákvæða reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Með breytingu á þeirri reglugerð nr. 533/2001 hafi verið áréttað að sveitarstjórnir og heilbrigðisnefndir skuli grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir að gæðum vatns sem tekið sé til neyslu og vatns sem kunni að verða tekið síðar sem neysluvatn geti hrakað eða þau spillst. Þessar ráðstafanir, sbr. 12. gr., felist m.a. í ákvörðun um verndarsvæði og setningu heilbrigðissamþykkta, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem gerðar séu takmarkanir viðvíkjandi umferð, landnýtingu og meðferð og geymslu hættulegra efna innan verndarsvæðanna.

Sandskeið sé á fjarsvæði A vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið, vatnsöflunarsvæði, skammt frá mörkum við grannsvæði vatnsbólanna. Svæðið sé á áhrifasvæði vatnsbólanna í Vatnsendakrika, sem séu vatnsból Kópavogs og Garðabæjar og hluta Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið sé einnig á áhrifasvæði Gvendarbrunna, Jaðarsvæðis og Myllulækjar, sem þjóni öðrum hlutum Reykjavíkur og Seltjarnarnesi. Mikilvægi svæðisins verði ekki dregið í efa. Heilbrigðisnefnd beri því samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 796/1999 að sjá til þess að mengunarvarnir á verndarsvæðum til verndar vatnsgæðum skuli ávallt miðast við ströngustu skilyrði sem gildi til viðhalds náttúrulegu ástandi vatns.

Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar sé heilbrigðisnefnd enn fremur heimilt að banna notkun tækja innan verndarsvæða vatnsbóla, þar sem hætta sé á að slíkt geti spillt vatni. Vegna athugasemda kæranda um að Suðurlandsvegur liggi í næsta nágrenni við umrætt svæði bendi nefndin á að þjóðvegurinn hafi verið endurbyggður með miklum tilkostnaði, m.a. vegna vatnsverndar.

Sú starfsemi sem fyrirhuguð hafi verið á Sandskeiði hafi átt að standa yfir í desember 2014 og janúar 2015. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 hafi heilbrigðisnefnd það hlutverk að gefa út starfsleyfi til þeirra aðila sem stundi starfsleyfisskylda starfsemi í skilningi laganna. Við töku ákvarðana um það hvort starfsleyfi skuli veitt beri heilbrigðisnefndinni að hlíta ákvæðum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Samkvæmt 30. gr. samþykktar nr. 636/1997 sé skýrt kveðið á um að atvinnurekstur og starfsemi á fjarsvæði A sé háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda og skuli því aðeins veita slíkt leyfi að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að synja kæranda um leyfi fyrir reynsluakstri bifreiða á grasbraut er staðsett er á starfssvæði hans á Sandskeiði. Ljóst er að það tímabil sem umræddur reynsluakstur skyldi fara fram er liðið. Eins og atvikum er hér háttað telur úrskurðarnefndin engu að síður, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar, enda liggur fyrir að hann hyggst standa fyrir sambærilegum viðburðum síðar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar gilti samþykkt nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar og var hún sett með heimild í 18. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. 33. gr. samþykktarinnar. Þau lög féllu úr gildi með setningu laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og er efni 25. gr. laganna sambærilegt nefndri 18. gr. fyrri laga. Í gr. II ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 7/1998 kemur fram að þær reglugerðir sem í gildi séu samkvæmt lögum nr. 81/1988 skuli halda gildi sínu þar til þeim hafi verið breytt, að svo miklu leyti sem þær fari ekki í bága við ákvæði hinna yngri laga. Er það og í samræmi við þau sjónarmið íslensks réttar að stjórnvaldsfyrirmæli geti haldið gildi sínu við lagaskil ef ekki hefur orðið efnisleg breyting á því lagaákvæði sem er grundvöllur þeirra, en svo háttar einmitt til í máli þessu. Hafði samþykktin því fullnægjandi lagastoð og hélt gildi sínu í samræmi við framangreint. Var heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis því heimilt að styðjast við hana við ákvörðun sína.

Samkvæmt 2. gr. samþykktar nr. 636/1997 er markmið hennar að stuðla að hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæðinu. Tekur samþykktin samkvæmt 3. gr. hennar m.a. til umferðar vélknúinna farartækja, meðferðar efna sem valdið geta mengun og útivistar. Samkvæmt II. kafla samþykktarinnar skiptast vatnsverndarsvæði í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Samkvæmt 25. gr. eru fjarsvæði aðgreind í fjarsvæði A og B og þarfnast fjarsvæði A verndar umfram fjarsvæði B þar sem á fjarsvæði A er aðalákoman fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggja að núverandi vatnsbólum og framtíðar vatnsbólum. Samkvæmt uppdrætti af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Sandskeið á fjarsvæði A.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. samþykktarinnar er óheimilt að staðsetja mengandi starfsemi á fjarsvæðum án samþykktar heilbrigðisnefndar og í 2. mgr. segir að á fjarsvæði A sé atvinnurekstur og starfsemi háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda og skuli leyfi fyrir slíkri starfsemi því aðeins veita að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki. Kærandi hefur starfsleyfi, gefið út af heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, til að starfrækja svifflugvöll á Sandskeiði í Kópavogi, sbr. ákvæði í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. og lið 7.3, um flugvelli án eldsneytisaðstöðu, í fylgiskjali 2 við reglugerðina. Má af nefndri 30. gr. samþykktarinnar ráða að starfsemi er falli utan við ákvæði nefnds starfsleyfis sé háð sérstöku leyfi heilbrigðisnefndar. Var heilbrigðisnefnd því rétt að líta á tilkynningu kæranda frá 18. nóvember 2014 til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, um væntanlega útleigu starfssvæðis síns til reynsluaksturs jeppabifreiða, sem umsókn um slíkt leyfi.

Heilbrigðisnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 24. nóvember 2014 og var ákveðið að gefa ekki leyfi fyrir akstrinum með vísan til áðurnefndrar 30. gr. samþykktarinnar, þar sem starfsemin samrýmdist ekki landsnotkun og þróun starfsemi á verndarsvæðum vatnsbóla, en sú niðurstaða samræmist ákvæðum 2. og 3. gr. samþykktarinnar um markmið og gildissvið, sem áður voru rakin. Í bréfi heilbrigðisnefndarinnar til kæranda, dags. 27. s.m., er ákvörðunin rökstudd nánar, m.a. með vísan til þess að akstursæfingum og akstursíþróttum fylgi alltaf ákveðin slysa- og mengunarhætta, sem ekki eigi heima innan söfnunarsvæða eða grannsvæða vatnsbóla. Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að niðurstaða heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum og að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til framangreinds verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að synja erindi um akstur jeppabifreiða á Sandskeiði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Ásgeir Magnússon

26/2015 Ferjuvað

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S Ferjuvaði 3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að ganga frá sérmerktu bílastæði fyrir fatlaða í bílageymslu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá 21. febrúar 2012. Þá er gerð krafa um að lokaúttekt byggingarfulltrúa verði felld úr gildi. Að auki var farið fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 22. júní 2015 og verður kærumál þetta nú tekið til efnislegrar úrlausnar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. maí 2015 og 22. desember 2016.

Málsatvik: Hinn 21. febrúar 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt umsókn um leyfi til að reisa fjögurra hæða steinsteypt fjölbýlishús með 34 íbúðum á lóð Ferjuvaðs 1-3 í Reykjavík. Samkvæmt byggingarlýsingu á samþykktri afstöðumynd voru 42 bílastæði á lóð og 26 stæði í bílageymslu, alls 68 bílastæði. Gert var ráð fyrir tveimur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð og einu í bílageymslu. Í júlí 2013 festi kærandi kaup á íbúð 01-06, ásamt stæði í bílageymslu, merktu B-17, og var eignin afhent á árinu 2014. Er íbúð kæranda ætluð fyrir fatlaða samkvæmt samþykktum teikningum. Á tímabilinu janúar til apríl 2014 mun kærandi ítrekað hafa vakið athygli byggingarleyfishafa á því að dyr við bílastæði í bílageymslu væri ranglega staðsett og gert þá kröfu að hún yrði færð til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti hússins. Mun það ekki hafa verið gert og 2. maí 2014 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt hússins. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa haft samband við Reykjavíkurborg vegna málsins.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í húsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað en afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa 13. ágúst s.á. var tilkynnt að hafnað væri ósk um tilfærslu á dyrum á milli brunastúku og bílastæðis merktu B-17, en umrætt stæði væri ætlað fyrir hreyfihamlaða og yrði að uppfylla ákveðin skilyrði. Munu byggingarfulltrúi og leyfishafi hafa fundað um málið 22. september 2014. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 30 október s.á., var honum veittur þrjátíu daga frestur til gera lagfæringar í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eða uppfæra þá til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og fá samþykkt byggingarleyfi fyrir þeim breytingum. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að endurtaka yrði lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Hinn 17. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á byggingartíma á innra skipulagi hússins á fyrrgreindri lóð. Fólust breytingarnar m.a. í því að eldvarnarhurð var hliðrað til í eldvarnarvegg fyrir brunastúku á milli stigahúss og bílgeymslu og stæði kæranda í bílageymslu breytt.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt samþykktri afstöðumynd fyrir Ferjuvað 1-3 sé íbúð 01-06 sérstaklega hönnuð fyrir þarfir fatlaðra. Fylgi henni bílastæði merkt B-17 í bílageymslu samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Með samþykktri breytingu sé því bílastæði breytt í venjulegt bílastæði án aðgengis fyrir fatlaða. Sé um meiri háttar og grófa aðför að lögvörðum réttindum fatlaðra að ræða. Íbúðum fyrir fatlaða skuli fylgja sérmerkt bílastæði. Stæði fyrir fatlaða á sameiginlegri lóð hússins séu sameign allra og óheimilt að sérmerkja þau einstökum íbúðum löngu eftir að búið sé að selja allar íbúðir í húsinu. Gangi hin kærða ákvörðun gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Eigi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 við í máli þessu en þegar byggingarleyfishafi hafi sótt um byggingarleyfi fyrir fasteigninni hafi ekki legið fyrir ósk hans um að ákvæði eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998 myndu gilda um viðkomandi mannvirkjagerð. Engu máli skipti hvenær umsókn um byggingarleyfi sé lögð inn til samþykktar. Það sem ráði því hvort ákvæði eldri byggingarreglugerðar eða núgildandi reglugerðar gildi sé hvenær byggingaráform séu samþykkt og hvort útgáfa byggingarleyfis sé fyrir eða eftir gildisdag reglugerðarinnar. Fram hafi komið við samþykkt byggingaráforma hússins að umsóknin samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga. Þá séu gerðar athugasemdir við að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvarðanatöku sína á áliti lögmanns sem vart geti talist hlutlaust og líti eingöngu til þeirra atriða sem réttlæti og verji framgöngu byggingarleyfishafa.

Við lokaúttekt hafi verið stuðst við samþykkta aðaluppdrætti en ekki hafi verið byggt í samræmi við þá. Hafi byggingaraðili ekki upplýst byggingarfulltrúa um breytingar í bílakjallara. Ekki hafi verið gerð úttekt á aðgengi fyrir fatlaða við lokaúttekt eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Hafi enginn rökstuðningur verið lagður fram af hálfu byggingarfulltrúa um nauðsyn þess að samþykkja umræddar breytingar. Sé samþykkt teikning frá 21. febrúar 2012 í samræmi við lög og reglugerðir og hafi bæði byggingarfulltrúi og Eldvarnareftirlit staðfest að svo sé. Þá sé vakin sérstök athygli á ákvæðum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um aðgengi fyrir alla.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Fram komi í áliti sem sveitarfélagið hafi aflað sér að ljúka hafi átt meðferð umsóknar frá 31. janúar 2012 um byggingarleyfi fyrir Ferjuvað 1-3 á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998, eins og í raun virðist hafa vera gert. Því sé eðlilegt að breytingar á byggingartíma, sem áttu sér stað við byggingu bílageymslu, séu metnar með tilliti til sömu reglugerðar. Þá sé tekið fram í fyrrgreindu áliti að samkvæmt gr. 30.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli þess gætt að „allar samþykktar breytingar séu skráðar“ og „reyndarteikningar skuli afhentar byggjanda áður en lokaúttekt fer fram“. Hvorutveggja hafi verið gert af hálfu framkvæmdaaðila og aðalhönnuðar hússins og óskað eftir samþykki fyrir breytingunum með umsókn þann 20. maí 2014, en afgreiðslu hennar hafi síðan verið frestað af byggingarfulltrúa. Að mati álitsgjafa hafi umræddar breytingar verið samkvæmt því óverulegar og réttmætar á byggingartíma og ekki hafi þurft samþykki meðeigenda fyrir þeim, enda hafi þeir ekki verið til staðar á framkvæmdatíma. Hliðrun á eldvarnarhurð hafi verið gerð til að skapa aukna fjarlægð á milli eldvarnarhurða í brunastúkunni. Að auki hafi bílastæði merkt B-17, fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu, verið breytt í venjulegt bílastæði vegna fyrrgreindrar hliðrunar.

Samkvæmt gr. 64.4 reglugerðarinnar þurfi að gera ráð fyrir einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir Ferjuvað 1-3, að lágmarki. Enginn sérstök skylda hvíli á húsbyggjendum að hafa bílastæði fatlaðra í bílageymslum sé kröfum um fjölda bílastæða fullnægt á annað borð. Í þessu tilviki hafi það verið gert með gerð tveggja bílastæða fyrir fatlaða á lóð. Sérstaklega sé bent á að um minniháttar nauðsynlegar breytingar hafi verið að ræða, sem gerðar hafi verið á byggingartíma, en ekki verði annað séð en að breidd stæðisins sé sú sama og áður. Þá séu engar forsendur til að fella úr gildi lokaúttektina og þess megi og geta að engar sérúttektir séu gerðar á aðgengi fatlaðra enda engin skylda til slíks.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru, en hann hefur ekki látið málið til sín taka. Í fyrirliggjandi gögnum hjá úrskurðarnefndinni kemur fram að verktaki hússins og aðalhönnuður þess hafi á fundi með byggingarfulltrúa bent á að byggingin hafi verið samþykkt í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Því hafi ekki verið talið að gera þyrfti grein fyrir breytingum á byggingartíma fyrr en að framkvæmdum loknum. Jafnframt væri fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða í samræmi við þá reglugerð.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. desember 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishússins við Ferjuvað 1-3. Voru breytingarnar gerðar á byggingartíma þess og fólust m.a. í að dyraopi fyrir eldvarnarhurð í vegg brunastúku milli stigahúss og bílageymslu var hliðrað til og bílastæði, sem merkt er B-17 í bílageymslu og ætlað er fyrir fatlaða, breytt af því tilefni. Álitaefni varðandi upphaflegt byggingarleyfi, svo sem um tilhögun bílastæða í bílageymslu og á lóð, sæta ekki endurskoðun í máli þessu umfram þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Kærandi festi kaup á íbúð sinni með kaupsamningi, þinglýstum 19. júlí 2013, og lágu þá fyrir samþykktar teikningar að húsinu, dags. 21. febrúar 2012. Samkvæmt þeim teikningum er íbúð kæranda hönnuð fyrir fatlaða og fylgir henni áðurgreint bílastæði B-17 ásamt hlutfallslegri eign í sameign bílageymslunnar, heildarhúsi og lóð. Er umrætt bílastæði séreign kæranda en í því felst einkaréttur hans til umráða og hagnýtingar þess með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, reglum nábýlisréttar og eðli máls, skv. 2. tl. 12. gr. fjöleignarhúsalaga. Fyrir liggur að kærandi var ekki samþykkur umræddum breytingum og hafði hann haft samband við embætti byggingarfulltrúa af því tilefni.
Með hinni kærðu breytingu var m.a. samþykkt að fyrrgreindar dyr væru innan fyrri markalínu bílastæðis kæranda og þar með þrengdist stæði hans vegna gönguleiðar frá dyrunum sem nemur um einum metra frá markalínunni að steinsteyptri stoð. Því hefur verið haldið fram að hin umdeilda breyting hafi verið nauðsynleg til að skapa aukna fjarlægð milli eldvarnardyra í brunastúku og um minniháttar breytingar hafi verið að ræða. Ekki liggur þó fyrir í málinu að upphafleg hönnun umræddrar bílageymslu hafi verið ábótavant m.t.t. brunavarna en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykkti eldvarnareftirlit Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins aðaluppdrætti upphafslegs byggingarleyfis. Hins vegar er ljóst að þessi breyting hefur í för með sér töluverð áhrif á notagildi bílastæðis kæranda frá því sem áður var og óhagræði vegna lengri leiðar frá bílastæði að lyftu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir á skorta að fullnægjandi rök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda. Ekki var haft samráð við eða aflað samþykkis hans við málsmeðferð og töku umræddrar ákvörðunar sem hafði bein áhrif á séreign kæranda. Verður hin kærða ákvörðun af þessum sökum felld úr gildi að því er varðar fyrrgreinda hliðrun dyra fyrir eldvarnarhurð og breytingu á bílastæði B-17 í bílageymslu umrædds húss. Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ákvörðunin standi óhögguð að öðru leyti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað að því er varðar hliðrun á eldvarnardyrum í eldvarnarvegg á milli stigahúss og bílgeymslu og breytingar á bílastæði merktu B-17 í bílageymslu.

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

143/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 143/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóð nr. 59 við Borgarbraut með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 9. nóvember og 5. og 6. desember 2016.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti hinn 14. apríl 2016 breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 55-59 við Borgarbraut. Hinn 16. september s.á. veitti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóð nr. 57-59 við Borgarbraut, á grundvelli nefndrar deiliskipulagsbreytingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 23. september 2016, var fyrrgreind skipulagsákvörðun felld úr gildi þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi aðalskipulag Borgarbyggðar. Í kjölfar ógildingar skipulagsbreytingarinnar samþykkti byggingarfulltrúi á fundi sínum 3. október 2016 að veita byggingarleyfi fyrir 59 herbergja hótelbyggingu, á lóðinni Borgarbraut 59 með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2016, var hið fyrra byggingarleyfi, sem tók til sameinaðrar lóðar Borgarbrautar 57-59, afturkallað.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eiga fasteign í næsta nágrenni við fyrirhugaða hótelbyggingu, skírskota til þess að í hinu kærða byggingarleyfi sé byggt á röngum  stærðartölum lóðar við útreikning nýtingarhlutfalls. Lóðin sé sögð vera 3.050 m2 en í fasteignaskrá sé hún talin vera 2.640 m2. Í deiliskipulagi umrædds svæðis frá 2007 sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu á neðri hæðum og íbúðum á efri, en ekki hóteli. Þá sé byggingarreitur í deiliskipulagi annar en nú sé. Með byggingu hótels á lóðinni muni umferð aukast verulega með tilheyrandi óþægindum og hávaða. Loks muni staðsetning og stærð byggingarinnar skyggja verulega á útsýni og geti hún valdið sterkum vindsveipum í nágrenninu. Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kærendur eigi hvorki verulega né einstaklega hagsmuni tengda úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulagsáætlun svæðisins sem hafi tekið gildi árið 2007 og aðalskipulag Borgarbyggðar, sem hafi verið staðfest af sveitarstjórn Borgarbyggðar árið 2010. Fyrirhuguð bygging á lóðinni Borgarbraut 59 sé innan þeirra viðmiða sem sett hafi verið í gildandi deiliskipulagi um hæð, stærð og nýtingarhlutfall lóðarinnar. Þá sé umrædd bygging öll innan byggingarreits og nýting hennar sé í samræmi við landnotkun svæðisins í gildandi aðalskipulagi. Útgáfa byggingarleyfisins hafi því engin áhrif gagnvart fasteign kærenda umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt skipulagsáætlunum svæðisins. Þar að auki sé kærufrestur vegna þeirra löngu liðinn. Stærð fyrirhugaðrar byggingar, mögulegir vindsveipir, áhrif á útsýni frá fasteign kærenda, stærð byggingarreits og bygging hótels hafi verið samþykkt í umræddum skipulagsáætlunum og kærendur hefðu því átt að kæra gildistöku þeirra á sínum tíma. Þá liggi fasteign kærenda ekki á aðliggjandi lóð við Borgarbraut 59 heldur sé hún hinum megin við Kveldúlfsgötu og standi auk þess norðar en Borgarbraut 59. Auk þess sé fasteign kærenda á mörkum þess sem sé skilgreint miðsvæði og íbúðarsvæði í aðalskipulagi.

Þótt gert sé ráð fyrir byggingu verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis á lóðinni hafi sveitarfélagið svigrúm til að heimila þar byggingu hótels. Lóðin Borgarbraut 59 sé á svæði sem í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sé skilgreint sem miðsvæði og sé gert ráð fyrir að á svæðinu verði blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu, sem sé í samræmi við skilgreiningu landnotkunar í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur og samgöngu- og þjónustukerfi. Er þar lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Deiliskipulag tekur til afmarkaðs svæðis eða reits innan marka sveitarfélags þar sem teknar eru ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Þá þurfa skipulagsáætlanir að vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna.

Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55-59 sem tók gildi árið 2007. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði 12. gr. skipulagslaga verður að gera þá kröfu að skilmálar gildandi deiliskipulags séu í samræmi við aðalskipulag. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar er umrædd lóð nr. 59 við Borgarbraut á skilgreindu miðsvæði (M). Á því svæði er heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu. Í almennum hluta greinargerðar gildandi deiliskipulags kemur fram að á skipulagssvæðinu sé gert ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúða, verslunar og þjónustu ásamt stofnunum. Er framangreind skilgreining landnotkunar í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.  Í deiliskipulaginu eru einnig sérskilmálar fyrir umrædda lóð og samkvæmt þeim er hámark nýtingarhlutfalls 1,15. Lóðin er 3.050 m2 að stærð samkvæmt skipulagsuppdrætti. Þá er tekið fram að á lóðinni Borgarbraut 59 sé heimiluð landnotkun í samræmi við gildandi aðalskipulag. Gert sé ráð fyrir íbúðum í væntanlegu húsi á lóðinni, en atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarhúsnæði sé heimil á fyrstu hæð (jarðhæð).

Hin kærða ákvörðun veitir leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóðinni Borgarbraut 59 og er fyrirhuguð bygging í samræmi við framangreinda landnotkun aðalskipulags og er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við nefnda sérskilmála um stærð og nýtingarhlutfall í deiliskipulagi. Hins vegar hefur sveitarfélagið með greindum sérskilmálum um landnotkun umræddar lóðar sett takmarkanir á notkun hennar og verður ekki fallist á að hótelbygging á lóðinni rúmist innan skilmála deiliskipulagsins um landnotkun lóðarinnar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og er það m.a. eitt af þeim skilyrðum sem þarf að vera uppfyllt við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Hið kærða byggingarleyfi er samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við landnotkun gildandi deiliskipulags og verður því ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

125/2016 Lónabraut

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2016, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur, Hafnarbyggð 23, og 25 og eigandi, Lónabraut 7, Vopnafirði, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli á lóðinni Lónabraut 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með ódagsettu bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, er barst 22. september 2016, er þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Vopnafjarðarhreppi 26. september og 16. október 2016.

Málavextir: Á fundi hreppsnefndar Vopnafjarðar 20. ágúst 2015 var kynnt hugmynd að strandblakvelli við Lónabraut 4. Á fundinum samþykkti sveitarstjórn gerð strandblakvallar fyrir sitt leyti og vísaði málinu til meðferðar skipulags- og umhverfisnefndar. Á fundi sínum 26. ágúst s.á. samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd umsókn Vopnafjarðarhrepps um heimild til að staðsetja strandblakvöll á lóð Lónabrautar 4. Meðfylgjandi voru afgreiðsla hreppsnefndar, samþykkt meðlóðarhafa Lónabrautar 4 um staðsetningu vallarins, afstöðumynd og loftmynd ásamt tölvuteikningu. Málið var tekið fyrir að nýju 12. október s.á. á fundi skipulags- og umhverfisnefndar og kom þar fram að athugasemdir hefðu borist varðandi framkvæmdina. Málið hefði því verið nánar kynnt fyrir íbúum með bréfi starfsmanns byggingarfulltrúa, dags. 6. október s.á. Nefndin vísaði málinu til sveitarstjórnar til umfjöllunar vegna innkominna athugasemda. Á fundi hreppsnefndar 5. nóvember 2015 samþykkti sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.

Hinn 1. júní 2016 var framkvæmdin grenndarkynnt íbúum í næsta nágrenni við völlinn og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Hinn 17. ágúst s.á. var málinu vísað að nýju til skipulags- og umhverfisnefndar sem samþykkti á fundi sínum 26. s.m. að lokið yrði við framkvæmdir á núverandi stað. Á fundi hreppsnefndar 1. september s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og var sveitarstjóra falið að ljúka málinu. Með bréfi, dags. 6. s.m., fengu aðilar senda tilkynningu frá sveitarstjóra um að sveitarstjórn hefði samþykkt uppbyggingu strandblakvallar við Lónabraut og var athugasemdum sem fram komu við grenndarkynningu jafnframt svarað.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að þeir kæri umþrætta framkvæmd m.a. vegna sandfoks, sem aldrei verði hægt að koma í veg fyrir, ónæðis vegna hávaða, sem þau þegar hafi reynslu af vegna nærliggjandi sparkvallar, og þess að sækja þurfi bolta í garða fólks lendi hann út af við annan enda vallarins. Útsýni muni skerðast mjög, en það sé einn helsti kosturinn við að búa ofan við þetta svæði. Ef byggður yrði skjólveggur eða girðing tæki það í burtu kvöldsólina sem íbúar neðan við njóti núna. Þar sem verið sé að byggja upp íþróttaaðstöðu með væntanlegu vallarhúsi annars staðar í bænum skilji kærendur ekki staðsetningu blakvallarins.

Annað atriði sem sé ekki síður alvarlegt sé hvernig staðið hafi verið að þessum framkvæmdum og samskiptum við íbúa nálægt vellinum. Framkvæmdin hafi verið samþykkt af sveitarstjóra og samhljóða af sveitarstjórn og ákveðið að hefja þessar framkvæmdir án nokkurrar grenndarkynningar eða annars samráðs við íbúa nærliggjandi húsa.

Eftir margar kvartanir og yfirlýst mótmæli bæði fyrir og á öllum stigum framkvæmdarinnar við bæði sveitarstjóra og oddvita sveitarstjórnar hafi loksins verið farið í grenndarkynningu sem kærendum hafi verið neitað um áður. Þá hafi framkvæmdir verið komnar vel á veg. Send hafi verið bréf til fimmtán aðila vegna kynningarinnar og níu þeirra sem hafi fengið bréf hafi mótmælt staðsetningunni harkalega.

Bréfið, sem innihaldi útlistun á ástæðum þess að ákveðið hefði verið að halda áfram með framkvæmdina, hafi kærendur fengið 6. september 2016. Þar hafi ekki verið tekið fram að kærendur hefðu mánaðar kærufrest og hvert þeir ættu að snúa sér. Þá sé ámælisvert að aðilar í sveitarstjórn sem eigi beinna hagsmuna að gæta í málinu hafi ekki vikið þegar mál þetta hafi verið tekið fyrir.

Málsrök Vopnafjarðarhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að sandurinn sem verði í vellinum verði sambærilegur sandi sem notaður sé í slíka velli um allt land. Hafi hann lítið fokgildi. Reynist þörf á að breiða yfir völlinn við ákveðnar aðstæður verði það gert til að hindra enn frekar að sandur berist frá vellinum. Hvað varði ónæði vegna hávaða bendi sveitarfélagið á 6. gr. lögreglusamþykktar nr. 674/2015 fyrir Vopnafjarðarhrepp, þar sem segi að lögregla geti vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri sem með háttsemi sinni valdi vegfarendum eða íbúum í nágrenni ónæði. Ekkert við framkvæmd vallarins muni hafa áhrif á útsýni frá húsum á svæðinu og verði girðing sem sé við skólalóðina framlengd til móts við Austurborg. Muni það koma í veg fyrir að bolti geti farið niður í garða eða valdið tjónum á húsum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi sem samþykkt var af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 1. september 2016 fyrir strandblakvelli á Lónabraut 4.

Í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er m.a. kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Í samræmi við þá heimild var umþrætt framkvæmd grenndarkynnt og gerðu m.a. kærendur athugasemdir. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og framkvæmdin samþykkt.

Í nefndri 13. gr. er nánar kveðið á um gerð og undirbúning framkvæmdaleyfa og kemur fram í 3. mgr. að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Segir um þetta atriði í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi að sá sem óski eftir framkvæmdaleyfi skuli senda skriflega umsókn til hlutaðeigandi leyfisveitanda ásamt nauðsynlegum gögnum um fyrirhugaða framkvæmd. Eru þau gögn tíunduð í 7. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur m.a fram að umsókninni skuli fylgja afstöðumynd, sbr. 1. tl. 2. mgr. Þá þarf að fylgja lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tl. 2. mgr., og skal að auki tilgreina framkvæmdatíma í framkvæmdalýsingu, hvernig fyrirhugað sé að standa að framkvæmdinni og fleira sem skipti máli. Loks segir í 3. mgr. nefndrar 7. gr. að þegar fyrirhugað er að framkvæma á svæði þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag þurfi einnig að fylgja með yfirlitsmynd í mælikvarða 1:10.000 – 1:2.000, sem sýni staðsetningu og afmörkun framkvæmdasvæðis eða útdráttur úr aðalskipulagi sem sýni afmörkun framkvæmdasvæðis.

Vegna fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um umsókn vegna hinnar kærðu leyfisveitingar tiltók sveitarfélagið að ekki hefði komið formleg beiðni um að gera strandblakvöll heldur hefði áhugafólk komið að máli við sveitarstjóra. Í framhaldi af því hafi tillaga verið lögð fyrir sveitarstjórn hinn 20. ágúst 2015. Samkvæmt framangreindu var ekki til að dreifa skriflegri umsókn sveitarfélagsins um framkvæmdaleyfi skv. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Í gögnum málsins má hinsvegar finna tölvupóst iðnfræðings til sveitarstjóra 14. ágúst 2015. Þar var tekið fram að iðnfræðingurinn hefði aðeins skoðað svæðið og að það væri álit hans að það ætti að vera hægt að koma velli fyrir við enda félagsmiðstöðvar, en hæðarmunur væri á landinu sem þyrfti að bæta úr sennilega með þökum. Tekið var fram að gróf mynd fylgdi með helstu málum. Loks sagði að það mætti reikna með að það tæki um það bil einn dag að grafa upp 60 cm og setja möl í botninn, 20 cm. Svo þyrfti að setja sand í og ganga frá köntum. Verður ekki annað ráðið en að framkvæmdaleyfið hafi verið samþykkt á grundvelli þessarar lýsingar, auk afstöðu- og loftmyndar ásamt tölvuteikningu. Nefnd afstöðumynd er í mælikvarðanum 1:1.000 en meðal gagna málsins er ekki að finna yfirlitsmynd í samræmi við 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Þá er hvergi vikið að því hvernig framkvæmd falli að gildandi skipulagsáætlunum. Var hvorki fullnægt kröfum 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, né kröfum 3. tl. 2. mgr. og 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar. Verður og ekki séð af nefndum ákvæðum að þær kröfur séu aðrar og minni þegar sveitarfélag stendur sjálft að framkvæmdum.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið var undirbúningi hins kærða framkvæmdaleyfis verulega áfátt og voru skilyrði ekki til staðar fyrir veitingu þess. Verður það því fellt úr gildi.

Það athugist að í svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar var tekið fram að ekki hefði verið gefið út framkvæmdaleyfi og tíðkaðist það ekki þegar sveitarfélagið ætti í hlut líkt og í máli þessu þar sem sveitarfélagið eigi lóðina, sé framkvæmdaraðili og eigi mannvirkið. Gengur þetta í berhögg við fyrirmæli 11. og 12. gr. áðurnefndrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi, þar sem fram kemur að framkvæmdaleyfi skuli gefa út skriflega og hvers efnis það skuli vera að lágmarki.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps frá 1. september 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð strandblakvallar á lóðinni Lónabraut 4.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

114/2016 Miðbraut

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melabraut 31, Melabraut 33, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks á Miðbraut 34. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Seltjarnarness frá 19. júlí 2016 varðandi Miðbraut 34 verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 2. september 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin að Miðbraut 34 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Vesturhverfis, sem markast af Lindarbraut, Melabraut, Valhúsabraut og Hæðarbraut. Tilgreind lóð er staðsett innan svæðis sem merkt er A á deiliskipulagsuppdrætti. Á svæðinu er að finna einbýlishús og er hvorki heimilt að fjölga þar íbúðum né bæta við viðbótarhæð. Heimilað nýtingarhlutfall á svæðinu er 0,3. Nefnt deiliskipulag tók gildi 7. ágúst 2007, en var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, m.a. af eiganda Miðbrautar 34. Kvað nefndin upp úrskurð 28. apríl 2008 í því kærumáli, sem er nr. 94/2007, og hafnaði kröfu um ógildingu samþykktar deiliskipulagsins.

Árið 2012 spurðist eigandi Miðbrautar 34 fyrir um breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér hækkun á þaki um 2,7 m. Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti að auglýsa tillöguna sem var og gert. Að athugasemdum fengnum synjaði nefndin um umbeðna deiliskipulagsbreytingu. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem kvað upp úrskurð 17. nóvember 2015 í því máli sem er nr. 66/2013. Var ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar staðfest af úrskurðarnefndinni með þeim rökstuðningi að þó svo að fallast mætti á að grenndaráhrif breytingarinnar yrðu ekki mikil hefði hin kærða ákvörðun verið studd efnisrökum og yrði því ekki talið að réttur kæranda í því máli hefði verið fyrir borð borinn í skilningi 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Eigandi Miðbrautar 34 sótti um byggingarleyfi 3. febrúar 2016 fyrir breytingu á þaki hússins og stækkun anddyris þess. Í þakbreytingunni fólst m.a. hækkun á þaki. Meðfylgjandi umsókninni var greinargerð lögmanns, þar sem fram kom að núverandi þak væri lekt og þarfnaðist endurnýjunar og var bent á að umsótt hækkun væri umfangsminni og hefði minni grenndaráhrif en þær tillögur sem áður hefði verið hafnað.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 9. febrúar 2016 var nefnd umsókn tekin fyrir. Bókað var að nefndin samþykkti deiliskipulagsbreytingu og vísaði málinu til bæjarstjórnar til ákvörðunar um auglýsingu. Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. febrúar s.á. Á fundi nefndarinnar 19. apríl s.á. var farið yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust á auglýsingatíma og ákvað hún að senda gögn til deiliskipulagsráðgjafa og óska umsagnar hans. Nefndin tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 16. maí s.á. Samþykkti hún breytta tillögu og fól skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum, sbr. greinargerð tilgreindrar lögmannsstofu. Að því loknu sendi nefndin málið til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Skipulags- og umferðarnefnd tók málið enn á ný fyrir á fundi 24. s.m. og var bókað að málið væri tekið upp og óskaði nefndin eftir frekari gögnum vegna ónákvæmni í bókunum og fylgiskjölum. Á fundi nefndarinnar 19. júlí s.á. var málið enn og aftur tekið fyrir og með vísan til umsagnar deiliskipulagshöfundar var því vísað til byggingarfulltrúa. Í kjölfarið, eða 5. ágúst s.á., samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34 og stækkun á anddyri um 3,7 m2 og var leyfið gefið út samdægurs.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í gildi sé nýlegt deiliskipulag Vesturhverfis. Óumdeilt sé að fasteignin Miðbraut 34 standi á deiliskipulagsreit A innan Vesturhverfis. Miðbraut 34 teljist því til norðurhluta þess og sé þar nokkuð jöfn byggð einbýlishúsa á einni hæð. Grundvallarstefna þessa skipulags sé sú að hækkun húsa sé óheimil innan skipulagssvæðis A. Í greinargerð með deiliskipulaginu segi meðal annars að markmið með endurskoðun þess hafi verið að samræma stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða og gefa lóðarhöfum, sérstaklega á syðri hluta svæðisins þar sem nýtingarhlutfall hafi verið undir meðalnýtingu, möguleika á auknu byggingarmagni til samræmis við aðliggjandi byggð fyrir sunnan hverfið og í samræmi við stefnumörkun í aðalskipulagi um þéttingu byggðar.

Af þessu og greinargerðinni að öðru leyti megi glögglega ráða að áhersla skipulagsins sé að auka heimildir á syðsta hluta svæðisins með það að markmiði að auka samræmi byggðar, en að sama skapi feli skipulagið í sér afar þröngar heimildir til breytinga á nyrsta hlutanum, þ.e. á A hluta. Þá segi um A hluta í skipulagsskilmálum að ekki sé heimiluð fjölgun íbúða og ekki heimilaður aukinn hæðafjöldi. Einnig komi fram að á nyrðri hluta séu afmarkaðir byggingarreitir fyrir minni háttar stækkanir húsa þar sem byggingarheimild hafi ekki verið fullnýtt.

Þegar skilmálar fyrir A hluta séu lesnir megi ljóst vera að deiliskipulagið banni aukinn hæðafjölda og fjölgun íbúða í A hluta. Skýr afmörkun í skilmálum kveði á um það að hinar þröngu heimildir til breytinga í A hluta verði að fela í sér aukið byggingarmagn innan byggingarreits sem ekki brjóti ofangreindar tvær bannreglur. Með því að heimila hækkun á húsi Miðbrautar 34 um 2,5 m frá loftplötu neðri hæðar sé farið gegn gildandi deiliskipulagi og þessir skilmálar brotnir.

Jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin með útgáfu byggingarleyfis fyrir umræddri hækkun. Innihald leyfisins fari á svig við það yfirbragð og ásýnd sem deiliskipulag Vesturhverfis verndi og skilmála þess. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að í samskiptum við Seltjarnarnesbæ vegna máls þessa hafi því sérstaklega verið teflt fram af sveitarfélaginu að samþykktin vegna Miðbrautar 34 sé ekki fordæmisgefandi. Slíkt standist enga skoðun enda ljóst að ef slíkt reynist rétt sé sveitarfélagið klárlega að brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélaginu beri einfaldlega lagaskylda til að meðhöndla allar sambærilegar beiðnir með sama hætti.

Kærendur hafni alfarið þeim skilningi Seltjarnarnesbæjar og sérfræðingum sveitarfélagsins að svo framarlega sem hækkun húsa sé innan 2,7 m sé slíkt ekki breyting á deiliskipulaginu og því innan heimilda þess þar sem þá geti hækkun ekki talist hæð í skilningi skipulagsins. Í skilmálum deiliskipulagsins segi mjög skýrt að á A hluta sé óheimilt að auka hæðafjölda. Orðnotkunin „aukinn hæðafjöldi“ takmarkist ekki við 2,7 m enda hefði þá átt að tilgreina það sérstaklega í skilmálunum. Í umsögn skipulagshöfundar, dags. 14. júlí 2016, segi að þakform og hámarkshæð sé ekki bundin en leitast skuli við að samræma þakform og hæð aðliggjandi húsum. Af umsögninni verði lesið að skipulagshöfundur horfi fyrst og fremst til þakforms B hluta en ekki A hluta við rökstuðning sinn. Þetta telji kærendur vera ranga nálgun.

Einnig bendi kærendur á að umrædd deiliskipulagsbreyting feli í sér brot á hagsmunum annarra íbúa innan deiliskipulagssvæðisins og búsetugæðum þeirra. Breytingin hafi afar neikvæð grenndaráhrif í formi aukinnar skuggamyndunar á nærliggjandi hús og útsýnisskerðingar. Þá hafi breytingin í för með sér aukna innsýn frá Miðbraut 34 inn á nærliggjandi lóðir. Engin aðkallandi nauðsyn til að skerða íbúðargæði fjölda annarra innan deiliskipulagsins og það í grónu hverfi. Breytingin sé gerð einungis til þess að fullnægja óskum eins fasteignareiganda. Engin samfélagsleg, almenn nauðsyn eða önnur skipulagsleg nauðsyn sé fyrir því að heimila umrædda hækkun.

Sambærilegu erindi eiganda Miðbrautar 34 frá lokum árs 2012 hafi verið hafnað af Seltjarnarnesbæ. Við meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar vegna þess erindis hafi komið fram hörð mótmæli íbúa í næsta nágrenni við Miðbraut 34 og í kjölfar þeirra hafi sveitarfélagið tekið þá ákvörðun að hafna erindinu. Sú synjun hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og staðfest með úrskurði nr. 66/2013. Ekkert hafi breyst í málinu síðan þá.

Krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis byggist einnig á því að lögbundnar málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið brotnar við meðferð málsins. Skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarness hafi tekið ákvörðun á fundi sínum 9. febrúar 2016 um að auglýsa umbeðna hækkun á þaki sem deiliskipulagsbreytingu. Samkvæmt þeirri ákvörðun grundvallist deiliskipulagsbreytingin á því að um verulega breytingu sé að ræða. Í þessu máli bregði hins vegar svo við að deiliskipulagsferlinu er hætt af hálfu sveitarfélagsins í miðri meðferð. Slíkt sé brot á 41. gr., sbr. 43. gr., skipulagslaga en jafnframt brot á 1. mgr. 1. gr. laganna, einkum c., d. og e. lið. Sveitarfélagið geti ekki tekið einhliða ákvörðun í miðju deiliskipulagsferli um að kippa því úr sambandi vegna þess að menn séu allt í einu búnir að sannfæra sjálfa sig með þeim furðurökum að erindið rúmist innan skipulagsheimilda. Það sé engin heimild til slíks samkvæmt skipulagslögum. Byggingarleyfið byggi því á ólögmætum grundvelli og beri því að ógilda það.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að þau telji byggingarleyfið vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins, en um það sé vísað til umsagnar tilgreindrar lögmannsstofu frá 6. júní 2016 og umsagnar skipulagshöfundar frá 14. júlí s.á. sem lagðar hafi verið fram í málinu, ásamt umsögn arkitekts og skipulagsfræðings frá 22. ágúst s.á.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34 ásamt stækkun anddyris. Hámarksmænishæð hússins eftir breytingu verður 5,2 m þ.e. 2,7 m + 2,5 m mælt frá botnplötu. Vegghæð hússins helst óbreytt 3,1 m. Auk áðurgreinds kæruefnis gera kærendur þá kröfu að samþykkt skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness frá 19. júlí 2016 verði felld úr gildi, en sú samþykkt fól eingöngu í sér að umsókn um hina kærðu breytingu var vísað til byggingarfulltrúa sem afgreiddi málið.

Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa til að breyta mannvirki og tilkynnir hann umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. sömu laga, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef vafi leikur á að fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa samkvæmt 10. gr. laganna. Ljóst er af framangreindum lagaákvæðum að ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa, en leiki vafi á hvort umsótt framkvæmd samræmist gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir aðkomu skipulagsfulltrúa, sem er starfsmaður skipulagsnefndar. Meðferð máls þessa er ítarlega rakin í málavaxtalýsingu og liggur fyrir að umsókn leyfishafa um byggingarleyfi var í upphafi beint í þann farveg að breyta ætti deiliskipulagi. Að lokinni rannsókn og meðferð málsins ákvað skipulags- og umferðarnefnd hins vegar að vísa málinu til byggingarfulltrúa, sem tók um það ákvörðun. Að framangreindu virtu er ljóst að ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar var liður í meðferð byggingarleyfisumsóknar samkvæmt mannvirkjalögum og til þess fallin að upplýsa um afstöðu skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins skv. 10. gr. laganna. Var ekki um lokaákvörðun að ræða og hún því ekki kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fjallað um hana frekar nema að því marki sem hún kemur til álita við heildarskoðun úrskurðarnefndarinnar á lögmæti hinnar kærðu byggingarleyfisveitingar.

Í Vesturhverfi Seltjarnarness, þar sem hús leyfishafa og kærenda standa, er í gildi deiliskipulag frá árinu 2007. Með því deiliskipulagi var hverfinu skipt í þrjú svæði, þar sem hvert þeirra hefur mismunandi skilmála hvað varðar fjölda hæða, íbúða og hámark nýtingarhlutfalls, en framkvæmdir þær sem um er deilt í þessu máli eru á A svæði deiliskipulagsins. Í skipulagsskilmálum fyrir það svæði deiliskipulagsins kemur fram að þar sé nokkuð jöfn byggð einnar hæðar einbýlishúsa. Lagt var til að því yrði ekki breytt og er ekki heimilt samkvæmt skipulagsskilmálum að fjölga íbúðum eða að auka hæðafjölda. Nýtingarhlutfall þessa svæðis yrði áfram 0,3. Í deiliskipulaginu er hæð að jafnaði miðuð við 2,7 m plötu á plötu.

Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að æskilegt sé að leggja fram fyrirspurn um breytingu húss áður en sótt er um byggingarleyfi. Í fyrirspurn skuli koma fram upplýsingar um helstu breytingar, svo sem hæð og form húss, aðlögun að aðliggjandi húsum, fjöldi íbúða og bílastæða svo og heildarstærð. Sýna skuli götumynd með húsum sitt hvoru megin við það hús sem sótt er um breytingu á. Þakform og hámarkshæð sé ekki bundin en leitast skuli við að samræma þakform og hæð að aðlægum húsum. Með vísan til framangreinds verður að telja að samkvæmt deiliskipulaginu séu breytingar á hæð húsa og þakformi heimilar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og meti þar til bær stjórnvöld hverju sinni hvort svo sé.

Miðbraut 34 er við mörk svæða A og B í deiliskipulagsins. Húsið var með flötu þaki, en eftir heimilaðar breytingar verður það með valmaþaki með mænishæð 5,2 m. Nemur hækkunin 2,5 m frá plötu í mæni. Birt flatarmál geymslulofts undir þakinu verður 32,6 m2 eða um 16% af grunnflatarmáli hússins. Húsin sitt hvoru megin Miðbrautar 34 eru með mismunandi þakform og er mesta þakhæð 6,66 m á Miðbraut 32 en 3,65 m á Miðbraut 36. Nýtingarhlutfall Miðbrautar 34 verður eftir breytinguna 0,28.

Byggingarfulltrúi samþykkti hið kærða byggingarleyfi að fenginni þeirri ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar að vísa málinu til hans. Vísaði nefndin um ákvörðun sína til umsagnar höfundar deiliskipulags Vesturhverfis, dags. 14. júlí 2016. Þar kemur fram að skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi hafi beðið skipulagshöfund að meta hvort byggingarleyfisumsókn sú sem hér um ræðir samræmdist deiliskipulaginu. Í umsögninni kemur fram að ekki verði annað séð en að umsókn um breytt þakform og hækkun þaks sé í samræmi við núgildandi skilmálum deiliskipulags þar sem hámarksþakhæð sé ekki bundin, hún sé undir einni hæð og þakformið aðlagað nálægum húsum. Segir nánar að ekki verði annað séð en að breytt þak Miðbrautar 34 brúi ágætlega breytileika húsa sitt hvoru megin við sem séu með mjög mismunandi þakform og mismunandi að hæð. Þar segir og að ekki sé um breytingu á neinum af þeim megin skilyrðum deiliskipulagsins sem ekki séu sambærileg milli reita A, B og C, þ.e. hvorki breyttu nýtingarhlutfalli, hækkun um hæð, sem sé skilgreind 2,7 m, né portbyggt þak sem hefði þýtt hækkun hússins um hálfa til eina hæð, né fjölgun íbúða. Þetta séu meginskilyrði sem ekki séu heimiluð á svæði A og ekki væri verið að sækja um breytingu fyrir.

Af öllu því sem að framan er rakið verður að telja að það mat skipulagsyfirvalda Seltjarnarnesbæjar, að umsótt byggingarleyfi væri í samræmi við gildandi deiliskipulag, hafi verið forsvaranlegt og stutt nægjanlegum rökum. Var með því skorið úr vafa um samræmi við skipulagsáætlanir og var byggingarfulltrúa að þeirri niðurstöðu fenginni heimilt, samkvæmt þeim ákvæðum mannvirkjalaga sem áður greinir, að samþykkja hið kærða byggingarleyfi. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun á þaki Miðbrautar 34.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

 

34/2015 Austurkór

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. mars 2015 um breytingu á deiliskipulagi vegna Austurkórs 89.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir lóðarhafi Austurkórs 87, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. mars 2015 að breyta deiliskipulagi fyrir Austurkór 89, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl s.á. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að Kópavogsbæ verði gert að endurgreiða honum 50% af lóðargjöldum, eða 6.000.000 króna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 11. júní 2015.

Málavextir: Skipulagsnefnd Kópavogs samþykkti á fundi sínum 15. desember 2014, með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Austurkórs 89, en lóðin er hluti af deiliskipulagssvæðinu Rjúpnahæð – vesturhluti. Fól tillagan í sér að í stað einbýlishúss á nefndri lóð yrði heimilað að reisa parhús. Var tillagan grenndarkynnt frá 12. janúar til og með 16. febrúar s.á og bárust athugasemdir frá kæranda.

Á fundi skipulagsnefndar 16. mars 2015 var tillagan lögð fram að nýju og samþykkt ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogs, dags. sama dag. Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs. Á fundi bæjarráðs 19. s.m. var erindinu vísað til bæjarstjórnar, sem samþykkti tillöguna, ásamt áðurnefndri umsögn, á fundi sínum 24. s.m. Auglýsing þar um var birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl 2015.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að gildandi deiliskipulag sé sú forsenda sem lóðarkaupendur styðjist við þegar þeir fjárfesti í byggingarlóðum og því eigi ekki að vera hægt að breyta því nema með samþykki þeirra sem séu í næsta nágrenni. Að öðrum kosti hljóti verulegar skaðabætur að koma til.

Kærandi hafi gert alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar og krafist að þær yrðu  dregnar til baka. Meðal annars hefði hann bent á hversu verulega breytingarnar skertu lífsgæði og friðhelgi íbúa húss kæranda að Austurkór 87. Skipulagsnefnd Kópavogsbæjar hefði tekið undir þau sjónarmið og viðurkennt að þarna væri um að ræða varanlega skerðingu á þeim forsendum sem fjárfesting kæranda hefði byggst á. Fram komi í niðurstöðu skipulagsnefndar að innra skipulag parhúss að Austurkór 81-83 sé svipað og væntanlegs húss við Austurkór 89, en ekki sé um sambærileg tilvik að ræða. Fyrrnefnda húsið standi á hornlóð og sé málinu óviðkomandi.

Það sé mjög mikilvægt að hið lýðræðislega eftirlit, sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi, komi í veg fyrir að komið sé aftan að einstaklingum með álíka ákvörðunum og þeirri sem kærð sé.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að meginreglan sé sú að skipulag sé bindandi, bæði fyrir stjórnvöld og almenning, um framtíðarnot tiltekins svæðis og sé því almennt ætlaður langur gildistími. Hönnun og bygging mannvirkja sé m.a. gerð á forsendum sem fram komi í skipulagi og almenningur verði að geta treyst því að festa sé í framkvæmd þess. Á hinn bóginn sé skipulag stjórntæki stjórnvalda um þróun byggðar og landnotkun. Þannig sé mælt fyrir um það í skipulagslögum nr. 123/2010 að sveitarfélög, landeigendur og framkvæmdaaðilar geti lagt fram tillögu eða beiðni um breytingar á deiliskipulagi. Þar af leiðandi standi vilji löggjafans ekki til þess að deiliskipulag skuli standa óhaggað um aldur og ævi, enda sé það eðli borga og bæja að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun. Því verði eigendur fasteigna að gera ráð fyrir því að skipulag í hverfum geti tekið óverulegum breytingum að því er varði einstakar fasteignir, uppbyggingu hverfa og þéttingu byggðar.

Hlutverk skipulagsyfirvalda sé að tryggja hagsmuni heildarinnar og að ekki sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um skerðingu eða rýrnun á þeim verði að ræða vegna framkvæmda á annarri fasteign. Kópavogsbær fallist ekki á að samþykki næstu nágranna þurfi svo heimilt sé að gera breytingar á deiliskipulagi, enda sé ekki gert ráð fyrir slíku samþykki í skipulagslögum. Áður en ákvörðun sé tekin um breytingar sé hinsvegar gefinn kostur á að koma að athugasemdum við grenndarkynningu. Skipulagsyfirvöld séu þó ekki bundin af athugasemdum hagsmunaaðila heldur þurfi að meta þær út frá atvikum máls hverju sinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Austurkórs 89, að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en lóðin er hluti af deiliskipulagssvæðinu Rjúpnahæð – vesturhluti.

Stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga samkvæmt skipulagslögum og reglugerðum settum með stoð í þeim sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. laganna, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um varakröfu kæranda.

Hin kærða breyting á deiliskipulaginu fólst í því að á nefndri lóð yrði heimilt að reisa 290 m² parhús á einni hæð í stað 290 m² einbýlishúss á einni hæð. Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni segir: „Byggingarreitur breytist og stækkar til suðurs um 1,2 metra og til norðurs um 0,8 metra. Hámarksmænishæð er óbreytt en þak fer út úr byggingarreit, hæst um 0,5 metra á hluta þaks […] Gólfkóti aðalhæðar er óbreyttur. Aðkoma og bílastæði breytast og er gert ráð fyrir tveimur stæðum fyrir hvora íbúð. Grunnflötur og heildarflatarmál húsanna er óbreyttur. Að öðru leyti haldast skilmálar óbreyttir.“

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 segir um Rjúpnahæð – vestur að svæðið, sem afmarkað sé af Arnarnesvegi til norðurs og sveitarfélagsmörkum Garðabæjar, sé að mestu byggt en gert sé ráð fyrir því að byggðin aukist frá núverandi stöðu, að mestu í sérbýlis- og fjölbýlishúsabyggð við Austurkór. Fer hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við greinda stefnu og markmið aðalskipulagsins, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Upphaflegt deiliskipulag fyrir svæðið Rjúpnahæð – vestur er frá árinu 2007. Samkvæmt greinargerð þess var gert ráð fyrir að stærstur hluti fyrirhugaðrar byggðar yrði einnar til tveggja hæða sérbýli. Meðal annars var gert ráð fyrir því að fasteignir með húsnúmer 81 til 133 við Austurkór stæðu við þrjár botngötur með tveimur parhúsum og sex einbýlishúsum í hverri þeirra. Árið 2010 var hins vegar gerð breyting á deiliskipulaginu og var íbúðum fjölgað þannig að gert var ráð fyrir 161 íbúð innan svæðisins í stað 121 íbúðar áður. Var ein meginforsenda breytinganna sú að meirihluta lóða hafði verið skilað inn og var markmið endurskoðunar skipulagsins að taka mið af þeim félags- og fjárhagslegu aðstæðum sem einkenndu byggingarmarkaðinn eftir „hrunið“ árið 2008. Í áðurnefndum þremur botngötum voru miklar breytingar gerðar. Var skipulagi í götu kæranda breytt þannig að í stað þriggja einbýlishúsa kom raðhús með fimm íbúðum en tvö parhús voru fyrir í þeirri götu.

Með vísan til þessa verður því ekki lengur talið að byggðarmynstur svæðisins einkennist fyrst og fremst af einbýlishúsum. Miðað við samsetningu þessa hluta byggðarinnar telst breyting á einu einbýlishúsi í parhús sömu stærðar óveruleg breyting í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, sem heimilar að grenndarkynna óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi. Samkvæmt því var heimilt að breyta deiliskipulaginu með grenndarkynningu í stað auglýsingar. Átti kærandi þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna breytingarinnar og að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda hans og þeim svarað í umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 16. mars 2015. Skipulagsnefnd fjallaði um tillöguna á fundi sínum s.d., samþykkti hana með vísan til greindrar umsagnar og vísaði henni til bæjarstjórnar, sem samþykkti hana á fundi 24. s.m. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl s.á. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við skipulagslög.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald í sínu umdæmi og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að taka mið af því markmiði c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi. Þótt einbýlishúsi sé breytt í parhús sömu stærðar með umræddri deiliskipulagsbreytingu verður ekki talið að sú breyting geti, svo nokkru nemi, raskað grenndarhagsmunum kæranda, svo sem vegna aukinnar umferðar eða annars ónæðis, þegar litið er til þess að grunnflötur og heildarflatarmál hússins er óbreytt frá eldra skipulagi.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. mars 2015 um breytingu á deiliskipulagi vegna Austurkórs 89, Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson
 

130/2016 Vatnsstígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kæra VHV lögmannsþjónusta slf., S2 fjárfesting ehf., Vatnsstíg 3, og Hildur Björnsdóttir, Vatnsstíg 3b, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. október 2016.

Málavextir: Hinn 6. september 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík samþykkt byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda fjöleignarhússins að Vatnsstíg 3. Með erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, umsögn Minjastofnunar Íslands og hljóðvistarskýrsla verkfræðistofu.

Málsrök kærenda: Kærandi bendir á að fasteignin að Vatnsstíg 3 sé fjöleignarhús sem háð sé  ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Lögin séu ófrávíkjanleg og eigendum því almennt óheimilt að skipa málum sínum, réttindum og skyldum á annan veg en mælt sé fyrir um í lögunum.

Ólíkt mörgum öðrum húsum í miðbæ Reykjavíkur séu flestir eignarhlutar í því, eða um 70%, íbúðir. Rekstur veitingastaðar í húsinu sem hafi sameiginlegan inngang muni hafa í för með sér verulega röskun á hagsmunum íbúðareigenda, enda feli hin breytta hagnýting í sér eðlisbreytingu á notkun húss og lóðar. Í stað kyrrlátrar verslunarstarfsemi komi veitingastaður án takmarkana með tilheyrandi gestakomum, umgangi, hávaða og sóðaskap. Um sé að ræða breytta hagnýtingu á séreign, sem falli undir 27. gr. fjöleignarhúsalaga, og sé um verulega breytingu að ræða. Hin kærða ákvörðun sé því háð samþykki allra eigenda hússins, eða a.m.k einfalds meirihluta þeirra, á húsfundi.

Hin kærða ákvörðun snerti sameign hússins og sameiginlega lóð. Sameiginlegur inngangur verði notaður af starfsmönnum veitingastaðarins og aðföng komi þar inn. Eigendur fasteigna á lóðinni eigi óskoraðan rétt til að taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, en augljóst megi vera að einn eigandi geti ekki ákveðið slíkt í eigin þágu gegn hagsmunum annarra eigenda. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga eigi ákvörðunarréttur skv. 1. mgr. sama ákvæðis einnig við um m.a. fyrirkomulag, skipulag, hvers kyns framkvæmdir, rekstur og hagnýtingu sameignar og séreignar.

Ákvörðunin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Á umræddu svæði sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð á efri hæðum húsa en skrifstofum og verslunum á jarðhæðum. Í ákvæðum aðalskipulagsins séu sett skilyrði um að breytt notkun húss hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum, auk þess sem hún megi ekki leiða af sér óæskilega aukningu umferðar og aðgengi verði að vera tryggt. Við mat á því hvort þessum skilyrðum sé fullnægt verði að taka tillit til þess að ráðgert sé í þróunaráætlun miðborgar að á svæðinu sé m.a. íbúðarhúsnæði. Starfsemi veitingastaðar, sem sé opinn næturlangt um helgar, fylgi aukin umferð bifreiða og umgangur fólks, sem skapa muni verulegan hávaða og óþrifnað. Leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að fyrirhugaður rekstur uppfylli skilyrði þróunaráætlunar miðborgarinnar. Deiliskipulag reits 1.172.0 taki til lóðarinnar Vatnsstígs 3, en þar sé svæðinu lýst sem blandaðri byggð íbúðar-, verslunar og þjónustuhúsnæðis. Rekstur veitingastaða samræmist ekki þeirri landnotkun. Borgaryfirvöldum hafi því borið að grenndarkynna áformin, sbr. 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Loks hafi annar umsækjandi byggingarleyfisins verið úrskurðaður gjaldþrota 8. júní 2016 og hafi af þeim sökum verið óheimilt að taka fyrir umsókn þess umsækjanda til afgreiðslu án aðkomu þrotabús hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að á uppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 sé umræddur skipulagsreitur í miðborgarkjarna M1a. Þar séu heimilaðar allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, sem megi lengst vera opnir til kl. 03 eftir miðnætti um helgar. Engin sérstök notkun sé bundin við húsið að Vatnsstíg 3 í gildandi deiliskipulagi. Húsið sé byggt árið 1919 og því séu breytingar á því háðar umsögn Minjastofnunar, sem hafi ekki gert athugasemdir við breytinguna. Gluggasetning á jarðhæð hússins geri ráð fyrir verslun og/eða þjónustu sem sé opin almenningi og sé hið kærða byggingarleyfi í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Í skipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir fjölbreyttri notkun húsnæðis. Eina starfsemin sem sæti takmörkunum á svæðinu sé óþrifalegur iðnaður. Telja verði að rekstur veitingastaðar í húsnæðinu í stað verslunar samrýmist því landnotkun aðalskipulags svæðisins og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna umrædda breytingu.

Inngangur að veitingastaðnum verði á gafli suðurenda hússins og muni gestir því ekki ganga inn um sameiginlegan gang með öðrum eigendum hússins. Þá standi húsið á lóð sem sé skilgreind sem íbúðar- og atvinnulóð og heimiluð breyting úr verslun í veitingastað verði gerð án samþykkis annarra eigenda í húsinu, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé eignarhluti hans ætlaður undir atvinnustarfsemi og rúmist þar undir veitingarekstur í flokki III.

Niðurstaða: Með hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð breytt notkun séreignarhluta á 1. hæð og í kjallara fjöleignarhússins að Vatnsstíg 3. Kærendur telja að umrædd breyting eigi ekki stoð í skipulagi svæðisins og sé hún háð samþykki allra sameigenda hússins eða eftir atvikum meirihluta þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í 27. gr. nefndra laga er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna M1a. Er því lýst sem svæði þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Jafnframt er tekið fram að á umræddu svæði gildi almennar veitingaheimildir, þar sem lengst megi vera opið til kl. 01 á virkum dögum og 03 um helgar. Gert er ráð fyrir að á jarðhæðum húsa sé verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en efri hæðir séu skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Þá tekur deiliskipulag reits 1.172.0, Brynjureits, til svæðisins þar sem skilgreining landnotkunar aðalskipulags er áréttuð. Samkvæmt framangreindu er heimilaður veitingarekstur í húsnæði leyfishafa í samræmi við landnotkun gildandi skipulags á svæðinu.

Ganga verður út frá þeirri forsendu að eigendur fasteigna geti notað fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags viðkomandi svæðis að uppfylltum skilyrðum laga og reglna sem við eiga um notkunina, s.s. um hljóðvist. Eins og að framan er rakið er umrædd fasteign í miðborgarkjarna þar sem veitingastarfsemi er ótvírætt heimiluð. Verður því ekki talið að þörf hafi verið á samþykki kærenda, sem sameigenda að umræddu fjölbýlishúsi, fyrir hinni breyttu notkun á séreign leyfishafa skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Með hinni kærðu ákvörðun er ekki verið að breyta notkun sameignar fjöleignarhússins við Vatnsstíg 3 og var ákvörðunin því ekki háð samþykki sameigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum. Uppdrættir sem fylgdu hinni umdeildu byggingarleyfisumsókn bera með sér að útgangur úr séreign leyfishafa inn á sameiginlegan gang sé ætlaður sem flóttaleið og aðgengi starfsmanna að geymslurými í kjallara, sem tilheyrir séreignarhluta leyfishafa. Inngangur að veitingastaðnum er hins vegar frá götu inn í séreignarhluta leyfishafa í suðurenda hússins. Verður ekki séð að notkun leyfishafa á sameign verði önnur eða meiri en annarra sameigenda við breytta notkun séreignarhlutans frá því sem áður var.

Leyfishafi er skráður eigandi þess eignarhluta sem hér um ræðir og var hann annar umsækjenda um hið kærða byggingarleyfi. Hefur gjaldþrot hins umsækjandans ekki áhrif á gildi byggingarleyfisins í ljósi greindrar réttarstöðu leyfishafa.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti  á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

120/2014 Þrymsalir

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. október 2014 um að hafna beiðni um breytingu á deiliskipulaginu Hnoðraholt – Smalaholt er varðar Þrymsali 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2014, er barst nefndinni 27. s.m., kæra A, Þrymsölum 1, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. október 2014 að hafna beiðni um breytingu á deiliskipulagi er varðar Þrymsali 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. apríl 2015 og 6. september 2016.

Málavextir: Með erindi, dags. 30. janúar 2014, óskuðu kærendur eftir breytingu á skráningu húss nr. 1 við Þrymsali í Kópavogi úr einbýlishúsi í tvíbýlishús. Því var hafnað af hálfu skipulagsnefndar bæjarins 18. febrúar s.á., þar sem breytingin væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Bæjarstjórn Kópavogs hafnaði erindinu 25. s.m. Kærendur óskuðu eftir því að erindi þeirra yrði tekið fyrir á ný og staðfesti skipulagsnefnd bókun sína frá því í febrúar á fundi sínum 20. maí s.á. Bæjarráð samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 22. s.m. og 27. s.m. hafnaði bæjarstjórn erindi kærenda.

Sumarið 2014 sóttu kærendur á ný um að erindi þeirra yrði tekið fyrir. Á fundi skipulagsnefndar 28. júlí s.á. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi og var það gert með bréfi, dags. 28. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og voru þær allar neikvæðar. Meðal annars kom fram að svæðið hefði verið skipulagt fyrir einbýli, úthlutun lóða hefði byggst á þeim forsendum og að samþykki á erindi kærenda myndi fela í sér óæskilegt fordæmi. Breytingin hefði í för með sér aukna umferð og ekki væru næg bílastæði fyrir hendi. Enn fremur hefði breytingin í för með sér verðfellingu fasteigna á svæðinu.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 20. október s.á. var beiðni um breytingu á deiliskipulagi synjað á grundvelli innsendra athugasemda og bæjarstjórn hafnaði erindinu á fundi sínum 28. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að húsið að Þrymsölum 1 hafi verið teiknað og hannað með tveimur íbúðum og notkun hafi verið samkvæmt því. Teikningar og úttektir hafi verið samþykktar athugasemdalaust. Breyting á notkun hússins yrði því engin. Einnig telji kærendur að umferð um götuna muni ekki aukast, enda verði engin breyting á notkun hússins frá því sem verið hafi frá upphafi. Í mesta lagi gæti umferð aukist meðfram húsum nr. 2 og 3, en athugasemdir hafi borist frá nágrönnum sem séu á öðrum stað í götunni. Kærendur fallist ekki á röksemdir um að breyting á skipulagi Þrymsala 1 sé til þess fallin að verðfella hús við götuna, enda séu þær órökstuddar. Að lokum bendi kærendur á að á árinu 2013 hafi verið samþykkt að skipta húsinu við Þorrasali 27 í tvö fastanúmer og því sé komið fordæmi fyrir breytingunni.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að samkvæmt deiliskipulagi fyrir Hnoðraholt-Smalaholt skuli í húsi á lóðinni Þrymsölum 1 vera ein íbúð. Svo heimilt sé að breyta húsinu í tvær íbúðir þurfi að koma til breyting á deiliskipulagi og um málsmeðferð breytinganna fari samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Það sé í höndum skipulagsyfirvalda að taka ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi. Slík ákvörðun verði einungis tekin á fundi að undangenginni málsmeðferð skv. 43., sbr. 44. gr., skipulagslaga. Deiliskipulagi verði hvorki breytt með samþykki byggingarfulltrúa á teikningum og úttektum né með því að lóðarhafi byggi húsið með ákveðnum hætti, þ.e. sem tvær íbúðir.

Við meðferð málsins hjá Kópavogsbæ hafi verið farið með erindi kærenda sem beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beiðninni hafi verið hafnað á grundvelli neikvæðra athugasemda nágranna sem hafi borist við grenndarkynningu.

Varðandi þá athugasemd kærenda að heimilað hefði verið að breyta einbýlishúsi við Þorrasali 27 í tvær íbúðir þá hafi sú breyting verið grenndarkynnt í samræmi við ákvörðun skipulagsnefndar frá 18. desember 2012. Kynningu hafi lokið 1. febrúar 2013 og hefðu engar athugasemdir borist. Breytingin hefði því verið heimiluð. Málin séu ólík varðandi þann fjölda athugasemda sem borist hefði við grenndarkynningu vegna Þrymsala 1.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn kærenda um að breyta einbýlishúsinu að Þrymsölum 1, sem er á tveimur hæðum, í tvíbýlishús, þannig að hvor hæð teljist sérstök fasteign. Var ákvörðunin tekin að undangenginni grenndarkynningu á tillögu að nefndri skipulagsbreytingu.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald í sínu umdæmi og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að taka mið af því markmiði c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi.

Eins og uppdráttur umrædds deiliskipulags fyrir Hnoðraholt – Smalaholt ber með sér hefur byggðin fastmótað yfirbragð, með tveimur afmörkuðum einbýlishúsahverfum og fimm litlum fjölbýlishúsum á milli þeirra. Fasteign kærenda er í botni Þrymsala. Eingöngu eru einbýlishús við götuna og bárust mótmæli nágranna við umbeðinni breytingu þegar hún var grenndarkynnt. Með tilliti til þessa, og þar sem byggðarmynstur hverfisins er svo einsleitt og fastmótað sem raun ber vitni, verða málefnaleg rök talin búa að baki þeirri ákvörðun skipulagsyfirvalda að hafna því að breyta húsi kærenda úr einbýli í tvíbýli. Það haggar ekki þeirri niðurstöðu þótt áður hafi verið fallist á breytingu úr einbýli í tvíbýli fyrir eitt hús í annarri götu á skipulagssvæðinu, en engin andmæli bárust við kynningu tillögu að þeirri breytingu. Verður yfirvöldum ekki talið skylt að fylgja því fordæmi.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er þeirri kröfu kærenda að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. október 2014 um að hafna beiðni um breytingu á deiliskipulaginu Hnoðraholt – Smalaholt er varðar Þrymsali 1.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

3/2015 Vatnsendakriki

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnsvinnsla Orkuveitu Reykjavíkur í Vatnsendakrikum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hafnarfjarðarbær þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnsvinnsla Orkuveitu Reykjavíkur í Vatnsendakrikum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þess er krafist að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að ákveða að aukin vatnsvinnsla í Vatnsendakrikum verði háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 20. febrúar 2015.

Málavextir: Í júní 2014 sendi Orkuveita Reykjavíkur fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar vegna fyrirhugaðrar aukinnar vinnslugetu og vatnsvinnslu úr 190 lítrum á sekúndu (l/s) í 300 l/s, á vatnstökusvæði Orkuveitunnar í Vatnsendakrikum. Þar var tekið fram að framkvæmdaraðili hygðist virkja þrjár borholur af fimm í Vatnsendakrikum, sem boraðar hefðu verið á árunum 1989 til 1993, en einungis tvær þeirra hefðu verið í vinnslu. Vatnsvinnsla framkvæmdaraðila á svæðinu hefði verið um 190 l/s árið 2013 og hygðist hann auka vatnstöku sína í skrefum í allt að 300 l/s að meðaltali fram til ársins 2030. Líkanreikningar hefðu verið framkvæmdir og við aukna vatnstöku úr 400 l/s í 700 l/s yrðu áhrif á grunnvatnshæð greinileg á stórum hluta Heiðmerkur mikinn hluta keyrslutíma líkansins. Utan Vatnsendakrika yrðu áhrifin mest á vatnstökusvæði Vatnsveitu Hafnarfjarðar við Kaldárbotna. Ytri mörk 1 m niðurdráttaráhrifa teygi sig til Kaldárbotna en vinnsluaukningin valdi 0,5 m niðurdrætti í Kaldárbotnum um 40% keyrslutíma líkansins.

Með bréfum, dags. 30. júní 2014, leitaði Skipulagsstofnun umsagna Hafnarfjarðarbæjar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Kópavogsbæjar, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Reykjavíkurborgar. Einnig barst athugasemd frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Í svörum Kópavogsbæjar, dags. 8. júlí 2014, og Veðurstofu Íslands, dags. 7. s.m., kemur fram að þeir aðilar telji framkvæmdina ekki matsskylda. Aðrir umsagnaraðilar töldu framkvæmdina vera háða mati á umhverfisáhrifum. Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 30. október 2014, bárust svör Orkuveitu Reykjavíkur við athugasemdum umsagnaraðila.

Samhliða umsókn Orkuveitunnar um aukna vinnslu í Vatnsendakrikum var umsókn Vatnsveitu Kópavogs til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Sú umsókn fól í sér að auka vatnstöku í Vatnsendakrikum úr 210 l/s í 350 l/s.

Í ákvörðunum Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 kom fram að samanlögð vatnsvinnsla framkvæmdaraðilanna tveggja í Vatnsendakrikum færi úr 400 l/s í 650 l/s. Varð niðurstaða stofnunarinnar sú að hvorki aukin vatnsvinnsla Orkuveitu Reykjavíkur né Vatnsveitu Kópavogs í Vatnsendakrikum væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hvorug framkvæmdanna væri því háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar er lýtur að Orkuveitu Reykjavíkur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Orkustofnun og Umhverfisstofnun hafi í umsögnum sínum talið að viðkomandi framkvæmdir skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Hið sama komi fram í athugasemd Skógræktarfélags Reykjavíkur. Færi umsagnaraðilar rök fyrir þeirri niðurstöðu eins og fram komi a.m.k. að hluta í ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar komi fram að stofnunin telji að tilkynntar framkvæmdir Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur eigi að skoðast sitt í hvoru lagi og að hvort málið um sig falli undir 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þó fallist stofnunin á að við ákvarðanatöku sína í málinu beri henni að byggja m.a. á þeim forsendum að fyrirhuguð framkvæmd geti haft sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum. Því sé tiltekið að ákvörðunin byggi á þeim sammögnunaráhrifum sem áformuð heildarvatnsupptaka Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur hafi í för með sér.

Í töflu á áttundu blaðsíðu í hinni kærðu ákvörðun sé sýnd núverandi vinnsla, sem sé 12,61 milljón m3 á ári, en eftir stækkun verði hún 20,5 milljón m3 á ári. Í 13. tl. 1. viðauka laga nr. 106/2000 komi hins vegar fram að ef sett sé upp kerfi til að vinna grunnvatn og árlegt magn vatns sem unnið verði eða veitt á sé 10 milljón m3 eða meira, skuli framkvæmdir vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Ef þessar framkvæmdir þurfi ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum þá þyrfti ekki heldur að fara með síðari sambærilega vinnsluaukningu samkvæmt 1. viðauka laganna í mat ef hún næði ekki 10 milljón m3 á ári. Meginatriði og tilgangur nefnds 13. tl. sé  að vernda þann grundvöll lífs sem vatnið sé og þessa auðlind sem Ísland eigi. Hljóti allur vafi um það hvort framkvæmd falli undir 1. viðauka laga nr. 106/2000 að vera metinn til hagsbóta fyrir auðlindina sjálfa.

Skipti hér ekki máli hvort verið sé að vinna þetta í tveimur eða fleiri þáttum eða af fleiri en einum aðila. Annars væri mjög auðvelt að komast undan nefndu ákvæði. Ekki geti skipt öllu máli í þessu samhengi að áður hafi verið mikil vinnsla án þess að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og hér sé aðeins um litla viðbót að ræða. Lög um mat á umhverfisáhrifum séu frá árinu 2000. Hafi þau verið sett með vísan til tilskipunar 85/337/EBE. Eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpinu hafi þau komið í stað laga nr. 63/1993 sem hefðu ekki reynst gallalaus. Þar komi einnig fram að tilskipunin byggi á þeim meginreglum sem mótast hafi á síðustu áratugum, þ.e. varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, reglunni um verndarsjónarmið og reglunni um að mengun sé upprætt við upptök. Niðurstaðan hafi verið sú að leggja til að meginreglur þessar yrðu ekki settar í frumvarpið sjálft þar sem efni og orðalag þeirra væri um margt óljóst og enn í mótun. Hins vegar sé fjallað um meginreglur þessar í 73. gr. EES-samningsins og beri því að hafa þær í huga við framkvæmd laganna.

Ekki verði séð að Skipulagsstofnun hafi haft þetta í huga þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Sé eðlilegt, þegar vatnstaka sé orðin tvöföld á við það sem 13. tl. 1. viðauka laganna noti sem viðmið, að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Þó ekki væri nema til að gæta varúðarsjónarmiða.

Rétt sé einnig að vísa til texta í sjálfri ákvörðuninni á áttundu blaðsíðu hennar. Þar segi skýrt að Skipulagsstofnun telji augljóst að aukin vatnstaka í Vatnsendakrikum muni hafa í för með sér neikvæð áhrif á vatnsból Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum. Afleiðingarnar séu m.a. þær að Hafnarfjarðarbær, sem lengi hafi búið við sjálfrennandi vatn, þurfi að dæla oftar en hafi verið þar sem gert sé ráð fyrir 0,5 m lækkun grunnvatnsborðs um 50% tímans eftir að fullri stækkun hafi verið náð, en niðurdrátturinn gæti orðið allt að 1 m.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að umsagnaraðilum beri ekki saman um hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eða ekki. Stofnunin leggi áherslu á að álits umsagnaraðila sé almennt aflað sem hluta af rannsókn máls með það að markmiði að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunarvaldið um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum hvíli hins vegar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þá sé brýnt að átta sig á því að þegar Skipulagsstofnun leiti umsagna leyfisveitenda og fagstofnana, sé ekki farið með efni umsagnanna líkt og um atkvæðagreiðslu sé að ræða. Skipulagsstofnun rýni þau efnisatriði sem umsagnaraðilar reifi og gefi framkvæmdaraðila kost á að bregðast við þeim og leiði málið svo til lykta með hliðsjón af upphaflegum gögnum þess sem og umsögnum og viðbrögðum við þeim.

Í umsögnunum hafi það verið einkum þrjú atriði sem umsagnaraðilar hafi talið mestu ráða um að framkvæmdirnar skyldu háðar mati. Fyrst beri að telja að samanlögð fyrirhuguð vatnstaka Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur yrði það mikil að þar með væri mörkum 1. viðauka laga nr. 106/2000 náð og bæri því að meta áhrifin. Annað atriðið hafi verið að báðar vatnsvinnslurnar ætti að meta sameiginlega eins og heimilt sé skv. 5. gr. laganna. Þriðja atriðið hafi verið að aukin vatnstaka myndi gera það að verkum að oftar þyrfti að dæla upp vatni hjá Vatnsveitu Hafnarfjarðar.

Eins og fram komi í ákvörðunum Skipulagsstofnunar vegna málanna beggja hafi stofnunin farið fram á við framkvæmdaraðila að í greinargerðum þeirra yrði fjallað um samlegð framkvæmdanna og málsmeðferð færi fram á sama tíma þannig að umsagnaraðilar gætu m.a. fjallað um þær út frá samlegðaráhrifum. Þá skýri Skipulagsstofnun í ákvörðunum sínum ástæðu þess að stofnunin hafi litið svo að um væri að ræða tvær aðskildar framkvæmdir sem hvor um sig félli undir a. lið 13. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þar komi einnig fram að taka beri mið af sammögnunaráhrifum framkvæmdanna, sbr. ii. 2. tl. 3. viðauka laganna.

Fyrirhuguð framkvæmd Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt fyrirhugaðri framkvæmd Vatnsveitu Kópavogs, hafi verið tilkynnt til stofnunarinnar á grundvelli a. liðar 13. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Töluliðurinn taki til framkvæmda sem feli í sér breytingar eða viðbætur við framkvæmdir samkvæmt 1. eða 2. viðauka laganna sem hafi þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Með lögum nr. 138/2014 hafi orðið breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem falli undir lögin séu nú tilgreindar í viðauka eitt og flokkaðar í A, B eða C flokk. Flokkur A taki til framkvæmda sem áður hafi verið í viðauka 1 og flokkur B til framkvæmda sem áður hafi verið í viðauka 2. Það sé nýmæli í breyttum lögum, er varði fyrrnefndan a. lið 13. tl. 2. viðauka, að nú séu fyrirhugaðar breytingar eða viðbætur fyrri framkvæmda tengdar við viðmið sem framkvæmdum séu settar í A flokki, sbr. tl. 13.01. Þar segi að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fari yfir þau viðmið sem flokkur A setur. Það feli í sér að ef fyrirhugað væri að auka vatnsvinnslu um 10 milljón m3 á ári eða meira sé slík breyting matsskyld.

Aukning á vinnslu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sé 3,47 milljón m3 á ári, eða 110 l/s, og Vatnsveitu Kópavogs um 4,4 milljón m3 á ári, eða 140 l/s. Samtals séu þetta 7,87 milljón m3 á ári, eða 250 l/s. Því sé ljóst að hvort sem litið sé á vinnsluaukningu hvors fyrirtækis fyrir sig eða heildarvinnsluaukningu sé hún innan viðmiða vegna matsskyldra framkvæmda af þessu tagi.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er tekið undir sjónarmið og rök Skipulagsstofnunar sem komi fram í umsögn hennar. Telji hann ekkert það koma fram í kæru sem breyta ætti hinni kærðu niðurstöðu. Sameiginlegt nýtingarleyfi vegna vatnstöku í Vatnsendakrikum hafi verið gefið út til handa framkvæmdaraðila og Kópavogsbæ. Leyfið sé skilyrt vegna hagsmuna Hafnfirðinga og þess sérstaklega gætt að ekki verði gengið á réttindi og hagsmuni þeirra. Athygli sé vakin á því að í samræmi við skilyrði nýtingarleyfis hafi verið unnin sameiginleg vöktunaráætlun Kópavogsbæjar og framkvæmdaraðila sem Orkustofnun telji fullnægjandi og samræmist skilyrðum nýtingarleyfis. Í ljósi framangreinds eigi ekki að fallast á kröfu kæranda um að fram fari mat á umhverfisáhrifum á vatnsvinnslu úr Vatnsendakrikum.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnstaka Orkuveitu Reykjavíkur í Vatnsendakrikum um 110 l/s, úr 190 l/s í 300 l/s, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að ákvörðunin verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Af gögnum málsins er ljóst að aukin vinnsla vatns í Vatnsendakrikum getur haft áhrif á vatnsvinnslu bæjarins í Kaldárbotnum sem er í landi í hans eigu.

Um mat á umhverfisáhrifum gilda lög nr. 106/2000. Samkvæmt 14. gr. þeirra, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta m.a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum voru fyrstu lög sinnar tegundar á Íslandi og var tekið fram í ákvæði II til bráðabirgða að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Tóku lögin ekki til vinnslu eða áveitu vatns. Lög nr. 106/2000 tóku gildi 6. júní 2000 og í 1. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða er kveðið á um að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum væru þær hafnar fyrir árslok 2002. Við gildistöku laganna urðu kerfi til að vinna grunnvatn ávallt háð mati á umhverfisáhrifum, ef árlegt magn vatns sem unnið væri eða veitt á væri 10 milljón m3 eða meira, sbr. 13. tl. í 1. viðauka laganna. Í 2. viðauka laganna kom fram að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka, sem þegar hefðu verið leyfðar, framkvæmdar eða væru í framkvæmd og kynnu að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, skyldi meta í hverju tilviki fyrir sig hvort þæt væru háðar mati á umhverfisáhrifum með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar. Voru þessi lagaákvæði óbreytt við töku hinnar kærðu ákvörðunar 10. desember 2014 og fram að gildistöku breytingalaga nr. 138/2014 hinn 31. s.m.

Fyrir liggur í gögnum málsins að Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið vatn í Vatnsendakrikum frá árinu 1996 og mun sú vinnsla hafa numið um 90 l/s fram til ársins 1998 og hafði Orkuveitan ígildi nýtingarleyfis fyrir henni. Frá gildistöku laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu 18. júní 1998 hafa þau lög gilt um leyfisveitingar vegna vatnsvinnslu. Áður voru nýtingarleyfi gefin út af ráðherra en nú af Orkustofnun, sbr. breytingalög nr. 10/2012. Vinnslugeta Orkuveitunnar mun hafa verið aukin á svæðinu á árinu 2000 með virkjun nýrrar holu og vatnstaka þá verið aukin í um það bil 150 l/s, en árið 2013 var vatnstakan um 190 l/s. Hefur nefnd vatnstaka Orkuveitunnar ekki sætt meðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Frá árinu 2006 hefur Vatnsveita Kópavogs einnig unnið vatn í Vatnsendakrikum, en með ákvörðun sinni frá 25. júní 2003 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að gerð vatnsveitu þar og dæling á um 6,6 milljónum m3 af vatni á ári skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar var tekið fram að framkvæmd Orkuveitunnar væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. og a. lið 13. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000 svo sem áður hefur verið rakið. Skipulagsstofnun vakti athygli á því að samhliða tilkynningu Orkuveitunnar um aukna vinnslu í Vatnsendakrikum hefði verið til meðferðar samskonar tilkynning frá Vatnsveitu Kópavogs, en samanlagt myndi vatnsvinnsla beggja aðila í Vatnsendakrikum aukast úr 400 l/s í 650 l/s. Tiltók stofnunin að við veitingu umsagna og ákvörðunartöku yrði að taka mið af sammögnunaráhrifum framkvæmdanna beggja, sbr. tl. 1. ii. í 3. viðauka nefndra laga. Hins vegar tók Skipulagsstofnun ekki undir sjónarmið tilgreindra umsagnaraðila þess efnis að vinnslugeta framkvæmdaraðilanna yrði samanlagt það mikil að strax í upphafi ætti að líta á svo á að um væri að ræða framkvæmdir sem hvor um sig félli undir 1. viðauka laganna. Taldi stofnunin ótvírætt að málin féllu hvort um sig undir 2. viðauka laganna og væru þau því tilkynningaskyld á grundvelli 6. gr. þeirra.

Þær forsendur sem Skipulagsstofnun lagði til grundvallar um fyrri og fyrirhugaða vinnslu vatns í Vatnsendakrikum komu fram í niðurstöðukafla hennar í eftirfarandi töflu:

 

Núverandi

vinnsla

Heildarvinnsla

eftir stækkun

Vinnslu­aukning

 

 

l/s

millj.

m³/ári

 

l/s

millj.

m³/ári

 

l/s

millj. m³/ári

Vatnsveita Kópavogs

210

6,62

350

11,04

140

4,40

Orkuveita Reykjavíkur

190

5,99

300

9,46

110

3,47

Samtals

400

12,61

650

20,50

250

7,87

 
Tók stofnunin fram að samanburðurinn væri byggður á greinargerðum framkvæmdaraðilanna.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar áréttar Skipulagsstofnun að hvort sem litið sé á vinnsluaukningu hvors framkvæmdaraðila fyrir sig eða heildarvinnsluaukningu sé hún innan viðmiða vegna matsskyldra framkvæmda af þessu tagi. Aukning á vinnslu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sé 3,47 milljón m3 á ári og Vatnsveitu Kópavogs um 4,4 milljón m3 á ári og samtals sé þetta aukning um 7,87 milljón m3 á ári.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Eins og áður segir hefur löggjafinn í 13. tl. 1. viðauka laganna sett tölulegt viðmið vegna vatnsvinnslu og er kerfi til að vinna grunnvatn fortakslaust matsskylt ef árlegt magn vatns sem unnið er nemur 10 milljón m3 eða meira. Samkvæmt þeim forsendum sem áður hafa verið raktar og Skipulagsstofnun lagði til grundvallar við töku hinnar kærðu ákvörðunar var ljóst að jafnvel þótt vinnsla Orkuveitu Reykjavíkur yrði undanskilin, vegna lagaskilaákvæða þeirra sem að framan greinir, myndi aukin vatnsvinnsla hvors framkvæmdaraðila um sig gera það að verkum að með þeirri vinnslu Vatnsveitu Kópavogs á um 6,6 milljónum m3 af vatni á ári, sem áður hafði verið undanskilin mati á umhverfisáhrifum, yrði farið yfir nefnt viðmið þess magns vatnsvinnslu sem matsskyld er. Að hafinni vinnslu beggja framkvæmdaraðila yrði samanlegt magn vatnstöku tæplega helmingi meira en matsskylt er. Að teknu tilliti til fyrri vinnslu Orkuveitu Reykjavíkur að auki er um ríflega tvöfalt magn vatnsvinnslu að ræða miðað við þau tölulegu viðmið sem lögð eru til grundvallar matsskyldu.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekki beri einungis að líta til stakra framkvæmda að þessu leyti, heldur verði jafnframt að huga að samhengi þeirra við framkvæmdir sem þegar hafa átt sér stað og fyrirhugaðar eru á sama svæði, óháð því hvort um einn eða fleiri framkvæmdaraðila er að ræða. Sú aðferð að hluta niður framkvæmdir er til þess fallinn að fara á svig við þau markmið laga nr. 106/2000 sem áður eru rakin. Var því ekki tækt að fara með málið sem tilkynningarskylda framkvæmd skv. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. desember 2014 um að aukin vatnsvinnsla í Vatnsendakrikum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Geir Oddsson                                                          Þorsteinn Þorsteinsson