Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2017 Háafell – sjókvíaeldi

Árið 2017, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2017, kæra Veiðifélags Langadalsár á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. desember 2016, er barst nefndinni 3. janúar 2017, kærir Veiðifélag Langadalsár, Ísafjarðardjúpi, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Háafells ehf. vegna eldis á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í sjókvíum í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar 2017.

Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.

Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. ásamt ódagsettri greinargerð. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.

Málsrök kæranda: Kæru sinni til stuðnings vísar kærandi til kæru Landssambands veiðifélaga, í máli nr. 165/2016, vegna sama starfsleyfis. Athugasemdir kæranda lúta m.a. að því að fyrirhuguð eldissvæði séu í innan við 15 km fjarlægð frá ósum Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár, sem eigi sameiginlegan ós að sjó og séu með yfir 500 laxa meðalveiði sl. 10 ár. Það sama gildi og um Laugardalsá. Óheimilt sé því að veita starfsleyfi á svæðinu af þeim sökum, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin vísar í greinargerð sína í máli nr. 165/2016 fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna sama starfsleyfis.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærandi hefur  ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon