Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2017 Rauðagerði – Miklubraut

Árið 2017, föstudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2017, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, ásamt gerð göngu- og hjólastígs o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Andrés Fr. Andrésson, Rauðagerði 45, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 8. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, ásamt gerð göngu- og hjólastígs o.fl.

Með bréfi, dags. 22. maí 2017, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Rauðagerði 53, og Rauðagerði 51, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík. Verður kærumál það, sem er nr. 50/2017, sameinað máli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gild og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2017.

Málsatvik og rök: Með ódagsettu bréfi, sem móttekið var 14. mars 2016, sótti skrifstofa framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu akreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut, gerð göngu- og hjólastígs, hljóðmanar o.fl. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl s.á. var umsóknin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. Hinn 10. maí 2016 var framkvæmdaleyfið gefið út með tveggja ára gildistíma.

Kærendur benda á að kærur í máli þessu hafi borist innan kærufrests þar sem ekki sé liðinn mánuður frá því að framkvæmdir hafi hafist um miðjan maí 2017. Reykjavíkurborg hafi við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar gerst brotleg við reglur með margvíslegum hætti. Jafnframt sé hið kærða framkvæmdaleyfi útrunnið. Kærandi að Rauðagerði 45 telji að nýtt skjal sem leyfisveitandi hafi afhent honum, sem heiti framkvæmdaleyfi, sé í ósamræmi við eldra skjal sem honum hafi verið kynnt. Þá hafi gildistími framkvæmdaleyfisins einnig verið framlengdur um eitt ár, eða til ársins 2018, þó framkvæmdum hafi átt að ljúka á haustmánuðum ársins 2016 og gildistími framkvæmdaleyfisins að vera til 8. apríl 2017. Unnt sé að sýna fram á að allt ferlið við útgáfu leyfisins sé ólögmætt. Hvorki hafi farið verið farið eftir ákvæðum reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi né ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010.

Borgaryfirvöld benda á að af gögnum málsins megi vera ljóst að málsmeðferð við útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við kröfur 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Leyfið hafi verið gefið út svo fljótt sem unnt hafi verið og innan fjórtán daga frá greiðslu leyfisgjalda í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um afgreiðslu erinda. Samþykkt fyrir útgáfu þess hafi því verið lögum samkvæmt og leyfið sé í gildi.

Í 1. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar segi að framkvæmdaleyfi falli úr gildi hafi framkvæmd ekki verið hafin innan tólf mánaða frá útgáfu þess. Framkvæmd teljist hafin þegar hreyft hafi verið við yfirborði jarðvegs á framkvæmdastað. Framkvæmdir hafi hafist hinn 5. maí 2017 þegar grafið hafi verið fyrir fráveitu og vatnstengingum vegna vinnuskúrs. Hafi þá ekki verið liðið ár frá útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 59/2014, fellur framkvæmdaleyfi úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tólf mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fyrir veitingu leyfisins. Fyrir þá lagabreytingu hafði nefndur frestur miðast við útgáfu framkvæmdaleyfis. Í samþykkt nr. 1052/2015 um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013 er skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar framselt það vald að samþykkja og gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við skipulag. Er því samþykki umsóknar um framkvæmdaleyfi og útgáfa þess á hendi sama stjórnvalds í þessu tilviki.

Umsókn um hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl 2016 og leyfið sjálft gefið út hinn 10. maí s.á. Fyrir liggur að framkvæmdir á grundvelli leyfisins hófust ekki innan tólf mánaða frá samþykki leyfisumsóknarinnar. Verður því að telja að framkvæmdaleyfið sé fallið úr gildi skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hins kærða framkvæmdaleyfis. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson