Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2017 Hótel í landi Grímsstaða

Árið 2017, mánudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 18. júlí 2017 um að veita tímabundið starfsleyfi fyrir hóteli og veitingasölu, Fosshóteli Mývatni, í landi Grímsstaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júlí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 18. júlí 2017 að veita Íslandshótelum tímabundið starfsleyfi fyrir hóteli og veitingasölu, Fosshóteli Mývatni, í landi Grímsstaða.

Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann þess að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni stendur. Verður málið nú tekið til efnislegrar meðferðar og verður því ekki tekin sérstök afstaða til seinni kröfunnar.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra 1. ágúst 2017.

Málsatvik og rök: Á árinu 2016 var byggt hótel á lóðinni Flatskalla í landi Grímsstaða. Með umsókn, dags. 9. maí 2017, var sótt um starfsleyfi fyrir hótelinu, veitingasal og bar og tiltekið að starfsemi myndi hefjast 1. júní s.á.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 6. júlí 2017, í kærumáli nr. 161/2016, var felld úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. nóvember 2016 að bygging hótels í landi Grímsstaða skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin tilkynnti framkvæmdaraðila með bréfi, dags. 7. júlí 2017, að hún hefði ákveðið að hefja undirbúning að töku nýrrar matsskylduákvörðunar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar sama efnis.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, í umboði heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra, veitti tímabundið starfsleyfi fyrir umsóttu hóteli og veitingasölu 18. júlí 2017 með gildistíma til 15. september s.á. Er það sú ákvörðun sem mál þetta snýst um.
   
Kærandi heldur því fram að hin kærða ákvörðun varði framkvæmdir er falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Óheimilt hafi verið að gefa út hið kærða starfsleyfi, en hvorki hafi legið fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin sé ekki matsskyld né álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum. Skilyrði 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi því ekki verið uppfyllt er hið kærða leyfi hafi verið veitt. Skýrt sé að tilvitnuð ákvæði gildi fullum fetum um hið kærða starfsleyfi. Þá hafi ekki verið gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga auk þess sem ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd með viðhlítandi hætti. Skilyrði séu til að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, enda séu framkvæmdirnar ekki aðeins yfirvofandi heldur séu þær hafnar með starfrækslu hótelsins.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tekur fram að frestun réttaráhrifa sé afar íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Það hafi verið mat eftirlitsins að rétt væri að gefa Skipulagsstofnun ráðrúm til að undirbúa töku nýrrar matsskylduákvörðunar að loknu lögboðnu umsagnarferli.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomna kæru, en athugasemdir hans hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, að kæra t.d. ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. Kærandi er umhverfisverndarsamtök og byggir kæruaðild sína á undantekningunni frá þeirri meginreglu að lögvarða hagsmuni þurfi til kæruaðildar.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Starfsleyfi teljast leyfi til framkvæmda, sbr. f-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og gilda lögin um framkvæmdir sem falla undir ákvæði laganna, sbr. 2. gr. þeirra. Svo sem fram hefur komið var matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar vegna hótels þess sem hér um ræðir felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 161/2016 og mun Skipulagsstofnun taka nýja ákvörðun um hvort að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem sú ákvörðun liggur ekki enn fyrir og kærandi á ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu leyfisveitingu telst hann ekki eiga aðild að kærumáli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (Sign.)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (Sign.)                               Ásgeir Magnússon (Sign.)