Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2017 Bæjargarður Gervigrasvöllur Garðabær

Árið 2017, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson  varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir voru tekin mál nr. 58 og 59/2017, kærur á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 9. maí 2017, sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. s.m., um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð gervigrasvallar á svæði vestan Hraunholtslækjar í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí, 1., 2., og 21. júní 2017, sem bárust nefndinni samdægurs, kæra eigendur, Túnfit 1, ásamt sex íbúum við Túnfit, Lækjarfit og Hraunhóla, og eigendur, Túnfit 2, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 9. maí 2017, sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. s.m., að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð gervigrasvallar á svæði vestan Hraunholtslækjar í Garðabæ. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 3. mars 2017 tóku gildi breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis við Ásgarð og deiliskipulagi Bæjargarðs í Garðabæ vegna tiltekinna íþróttamannvirkja. Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn hinn 18. maí 2017 umsókn bæjarverkfræðings um leyfi til framkvæmda við gerð tveggja nýrra æfingavalla og til breytinga á núverandi æfingavelli á Ásgarðssvæði og í Bæjargarði. Var framkvæmdaleyfi gefið út 19. s.m. Eru þar heimilaðar framkvæmdir við jarðvinnu, yfirborðsfrágang og gerð lagna. Í leyfinu er tekið fram að það nái ekki til breikkunar núverandi æfingavallar og tilfærslu ljósamastra sem deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir. Hefur fyrrgreind samþykkt bæjarstjórnar fyrir framkvæmdum á svæðinu verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Kærendur vísa til þess að heimilaðar framkvæmdir í Bæjargarði fari í bága við gildandi aðal- og deiliskipulag og kynningu framkvæmdaáforma fyrir íbúum hafi verið ábótavant. Breytingarnar muni hafa aukna umferð í för með sér, sem sé ærin fyrir, er skapi hættuástand. Framkvæmdir séu nú þegar í fullum gangi og séu miklir hagsmunir af því að þær verði stöðvaðar á meðan gengið sé úr skugga um lögmæti kærðrar ákvörðunar.

Af hálfu Garðabæjar er á því byggt að hið kærða framkvæmdaleyfi eigi stoð í gildandi skipulagsáætlunum og hafi þær verið verið kynntar lögum samkvæmt við breytingar þær sem gerðar hafi verið á skipulagi svæðisins. Ekkert tilefni sé því til að stöðva framkvæmdirnar sem einungis lúti að jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdum.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta þeim til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Fyrir liggur að framkvæmdir þær sem hafnar eru og útgefið framkvæmdaleyfi tekur til fela einungis í sér jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdir, sem einar og sér hafa óveruleg grenndaráhrif, en stöðvun þeirra á þessu stigi er til þess fallin að valda framkvæmaleyfishafa fjártjóni. Eru nefndar framkvæmdir þess eðlis að unnt er að koma umræddu svæði í fyrra horf án mikillar fyrirhafnar. 

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða auk eðlis, umfangs og áhrifa umdeildra framkvæmda, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra. Verður kröfu þar að lútandi hafnað en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, sem heimilaðar voru með hinni kærðu ákvörðun er hafnað.
 

Ómar Stefánsson

Aðalheiður Jóhannsdóttir                                   Ásgeir Magnússon