Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110/2015 Drekahlíð

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skagafjarðar um synjun á umsókn kæranda um leyfi til að breikka innkeyrslu Drekahlíðar 4 á Sauðárkróki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Drekahlíð 4, Sauðárkróki, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 að hafna umsókn hennar um leyfi fyrir breikkun á innkeyrslu Drekahlíðar 4. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að bæði sé kærð ákvörðun sveitarstjórnar um synjun á umsókn kæranda og ákvörðun um að synja beiðni hans um endurupptöku málsins.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Skagafirði 11. janúar 2016 og 27. janúar 2017.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar hinn 22. ágúst 2014 var hafnað umsókn eigenda Drekahlíðar 4 um framkvæmdaleyfi fyrir breikkun innkeyrslu að nefndu húsi. Á fundinum var bókað að ekki væri hægt að fallast á breikkun innkeyrslu þar sem það myndi hafa í för með sér fækkun almennra bílastæða í götunni. Á fundi sínum 3. september s.á. samþykkti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar og var sú niðurstaða tilkynnt með bréfi, dags. 5. s.m. Með bréfi, dags. 2. október s.á., óskuðu umsækjendur eftir endurupptöku á synjun sveitarstjórnar. Á fundi sínum 15. s.m. hafnaði skipulags- og byggingarnefnd þeirri beiðni og á fundi sínum 29. s.m. staðfesti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar. Var tilkynning þess efnis send 3. nóvember 2014.

Í kjölfar þess að umsækjendur létu í ljós þá ætlun sína að kæra niðurstöðu sveitarstjórnar taldi sveitarfélagið rétt að fá lögfræðilegt álit á því hvort ástæða gæti verið til þess að taka málið upp að nýju. Með bréfi, dags. 26. maí 2015, var umsækjendum tilkynnt sú niðurstaða að ekki væri tilefni til endurupptöku málsins. Hins vegar var tekið fram að þar sem í fyrri tilkynningu hefði láðst að geta um kæruleiðir og kærufrest liti sveitarfélagið svo á að kærufrestur væri ekki liðinn heldur myndi hann hefjast við móttöku nefnds bréfs. Var jafnframt leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Bréfinu fylgdi rökstuðningur fyrir ákvörðunum sveitarstjórnar um synjun um leyfi frá 3. september 2014 og um synjun á endurupptöku frá 29. október s.á., en einnig var vísað til þess að í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu umsækjendur óskað eftir frekari rökstuðningi.

Hinn 3. júní 2015 óskaði lögmaður umsækjenda eftir frekari rökstuðningi fyrir höfnun á beiðni þeirra. Með bréfi, dags. 5. nóvember s.á., barst umbeðinn rökstuðningur og kom fram að vegna dráttar á því að svara beiðninni samþykkti sveitarfélagið að veita mánaðar kærufrest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Barst kæra síðan í máli þessu hinn 4. desember 2015, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að ekki hafi borist sannfærandi rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur gæti ósamræmis í afgreiðslu sambærilegra mála hjá sveitarfélaginu þar sem víða hafi verið samþykktar breikkanir á innkeyrslum í hverfi kæranda.

Það varði kæranda miklu að fá samþykkta umsótta breikkun á innkeyrslu þar sem lagning bifreiða í götunni þrengi mjög að aðkomu inn á lóð kæranda, sem geri það að verkum að ómögulegt sé að nýta hana sem geymslustað fyrir hjólhýsi eða kerru, svo dæmi sé tekið. Kærandi viti ekki til þess að umsókn aðila í sambærilegri stöðu hafi verið hafnað. Engin skrifleg stefna sé til um þessi mál hjá sveitarfélaginu og þau rök sem borin hafi verið á borð fái ekki staðist, enda engin gögn eða rannsóknir sem fylgi þeim. Þannig virðist að um geðþóttaákvörðun sé að ræða.

Málsrök Skagafjarðar:
Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við afgreiðslu umræddrar umsóknar hafi verið viðhöfð sömu vinnubrögð og við afgreiðslu sambærilegra mála í tíð núverandi skipulags- og byggingarnefndar og þeirrar sem starfað hafi sl. kjörtímabil. Skriflegar umsóknir séu teknar fyrir og þær metnar með tilliti til umferðaröryggis, skipulags, fagurfræði og heildarhagsmuna íbúa sveitarfélagsins. Í þessu tiltekna máli hafi það ekki verið talið þjóna heildarhagsmunum íbúanna að leggja eitt almenningsbílastæði í götunni undir aðkomu að lóð kæranda. Um sé að ræða litla botnlangagötu þar sem bestu möguleikar á að leggja bílum utan lóða muni vera fyrir framan þrjú hús, þ. á m. hús kæranda. Sú skoðun muni hafa verið ríkjandi í skipulags- og byggingarnefnd þegar umrætt mál hafi verið afgreitt að aðkoma að lóðinni ætti að vera/væri mjög rúm og góð. Breidd heimkeyrslu sé 6 m og fjarlægð hússins frá lóðarmörkum 6 m.

Benda megi á að íbúðarhúsalóðir séu ekki ætlaðar sem geymslustaðir fyrir hjólhýsi, sbr. m.a. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en í kæru sé ein röksemdin sú að erfitt sé að koma hjólhýsi til geymslu inni á lóðinni. Vitni kærandi til afgreiðslu annarra mála sem hann telji sambærileg. Ljóst sé að mörg þeirra séu það ekki, sé litið til þeirra atriða sem ráði mati og áður séu nefnd. Sérstaklega hafi verið talið mikilvægt að gæta að umferðaröryggi við afgreiðslu mála, þótt að slíkt kunni að leiða til fækkunar almenningsbílastæða, enda hafi markmiðið verið að fækka þeim tilvikum að bílum sé lagt á akbraut í götustæðinu.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar um að hafna umsókn kæranda og eiginmanns hennar um breikkun á innkeyrslu að húsi þeirra að Drekahlíð 4 og lögmæti synjunar sveitarstjórnar á beiðni þeirra um endurupptöku þeirrar ákvörðunar.

Hin kærða ákvörðun um synjun um breikkun aðkomu inn á lóð Drekahlíðar 4 var tekin 3. september 2014 og tilkynning þess efnis var send á annað heimilisfang en lögheimili kæranda með bréfi, dags. 5. s.m. Umsækjendur fóru fram á endurupptöku málsins 2. október s.á. og verður því við það að miða að þeim hafi þá verið kunnugt um fyrrgreinda ákvörðun sveitarstjórnar. Endurupptökubeiðninni var synjað af hálfu sveitarstjórnar og var sú niðurstaða tilkynnt með bréfi, dags. 3. nóvember 2014, sem ekki var sent á lögheimilisfang kæranda og einungis stílað á meðumsækjanda hans. Verður ekki fullyrt að tilkynning sveitarstjórnar um synjun á beiðni kæranda um endurupptöku hafi borist honum fyrr en með bréfi, dags. 26. maí 2015. Í því bréfi var tilkynnt að afstaða sveitarstjórnar, að fengnu áliti lögmanns sveitarfélagsins, til beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar frá 5. september 2014 væri óbreytt og fylgdi rökstuðningur lögmannsins bréfinu. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að fara fram á frekari rökstuðning fyrir synjun endurupptöku málsins, sem hann gerði með bréfi, dags. 3. júní 2015. Jafnframt var þar farið fram á afhendingu málsgagna og upplýsingar um afgreiðslu sambærilegra mála. Því bréfi var svarað fyrir hönd sveitarfélagsins með bréfi lögmanns þess, dags. 5. nóvember s.á.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Í 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um að sé beðist endurupptöku máls rofni kærufrestur. Hafni stjórnvaldið hins vegar að taka málið til meðferðar á ný haldi kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæra verður þó ekki tekin til efnismeðferðar ef meira en ár er liðið síðan ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr.

Eins og að framan greinir barst kæranda tilkynning um synjun á endurupptöku ákvörðunar um höfnun á umsókn kæranda hinn 26. maí 2015 og fylgdi þeirri tilkynningu rökstuðningur fyrir þeirri synjun. Rann frestur til að kæra upphaflega ákvörðun frá 3. september 2014 því út í síðasta lagi í lok júní 2015, eða rúmum fimm mánuðum áður en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og rúmum 14 mánuðum eftir að kæranda hlaut að vera kunnugt um synjun umsóknar sinnar og beðið var um endurupptöku ákvörðunarinnar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í tilkynningu um höfnun á beiðni um endurupptöku málsins frá 26. maí 2015 var kæranda gefinn kostur á að óska frekari rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun, sem og hann nýtti sér hinn 3. júní s.á. Sá rökstuðningur barst ekki fyrr en með bréfi sveitarfélagsins, dags. 5. nóvember 2015, og telst því kæra þeirrar ákvörðunar hafa borist innan kærufrests, eða hinn 4. desember s.á.

Í rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir synjun á beiðni um endurupptöku kemur m.a. fram að aðkoma að lóð kæranda sé þegar rúm. Tvö bílastæði séu fyrir framan húsið og hafi verið frá upphafi samkvæmt uppdráttum og ekki hafi komið fram haldbær rök fyrir þeirri kröfu að nauðsynlegt sé að hafa þrjú bílastæði á lóðinni. Þá komi einnig fram að þau hús sem kærandi vísi til í endurupptökubeiðni sinni séu töluvert stærri en hús kæranda, sem réttlæti þá stærri innkeyrslu. Með fjölgun bílastæða við Raftahlíð 71, 73 og 77 hafi bílar, sem lagt hafi verið við akbraut, flust á viðkomandi lóðir, en það eigi ekki við í tilfelli kæranda. Kærandi telur hins vegar að ekki búi fullnægjandi rök að baki ákvörðuninni um synjun á endurupptöku máls og honum sé mikilvægt að fá aðkomu inn á lóð sína breikkaða.

Heimild fyrir endurupptöku ákvörðunar stjórnvalds er í 24. gr. stjórnsýslulaga og eru þar skilyrði endurupptöku þau að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ekki verður séð af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í máli þessu að umrædd ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi gögnum, en málsaðila greinir á hinn bóginn á um réttmæti ákvörðunarinnar og um mat sveitarstjórnar á þeim sjónarmiðum sem búa henni að baki. Að þessu virtu verður ekki talið að skilyrði endurupptöku skv. nefndri 24. gr. stjórnsýslulaga hafi verið fyrir hendi og verður kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 3. september 2014 um að hafna umsókn um leyfi fyrir breikkun á innkeyrslu Drekahlíðar 4 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 29. október 2014 um að synja um endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

2/2014 Suðurnesjalína 2

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2014, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 um að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2014, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Orkustofnun verði gert að meta flutningsþörf fyrir raforku á línuleiðinni. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdaraðili líti til fleiri valkosta við kerfisútfærslu línunnar, þ.m.t. til jarðstrengja.

Gögn málsins bárust frá Orkustofnun 5. febrúar 2014.

Málsatvik og rök: Mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, lauk með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 17. september 2009. Hinn 21. desember 2012 sótti Landsnet um leyfi til Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 og 1. febrúar 2013 birti Orkustofnun auglýsingu í Lögbirtingablaði þar sem þeim aðilum er málið varðaði var gefið færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum sínum til 1. mars s.á., sbr. 3. mgr. 34. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Bárust athugasemdir, m.a. frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, sem eru annar kærenda málsins. Orkustofnun veitti Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Hinn 24. febrúar 2014 tók ráðherra ákvörðun um að heimila Landsneti að framkvæma eignarnám á hluta af jörðum nánar tiltekinna landeigenda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Sú ákvörðun var felld úr gildi með dómum Hæstaréttar uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 796/2015, uppkveðnum 13. október 2016, var hin kærða ákvörðun Orkustofnunar felld úr gildi.

Kærendur vísa m.a. til þess að við umrædda leyfisveitingu hafi Orkustofnun brotið gegn rétti Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands til að andmæla athugasemdum Landsnets vegna athugasemda samtakanna. Sé vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar um. Með broti á andmælarétti hafi einnig verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. þeirra. Þá hafi rannsóknarregla 10. gr. laganna verið brotin, en ekki verði annað séð en að leyfisveitingin byggi eingöngu á framlögum gögnum Landsnets og athugasemdum fyrirtækisins við innsendar athugasemdir. Ekki hafi verið tekið tillit til nýrra upplýsinga eða gagna frá öðrum aðilum, sem þó hafi borist stofnuninni. Sé bent sérstaklega á gögn varðandi lagningu jarðstrengja og tilheyrandi kostnað. Þá hafi rökstuðningur Orkustofnunar ekki fullnægt 22. gr. stjórnsýslulaga. Loks hafi stofnunin, með því að samþykkja rekstur 220 kV loftlínu, ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu og hafi rök stofnunarinnar fyrir svo mikilli flutningsgetu ekki verið nægileg. Hafi hún ekki lagt sjálfstætt mat á raunverulega þörf á raforkuflutningi á línuleiðinni eða skoðað aðra valkosti, s.s. jarðstrengi.

Af hálfu Orkustofnunar er bent á að með auglýsingu í Lögbirtingablaði hafi öllum þeim aðilum er málið varðaði verið gefinn kostur á að kynna sér umsókn Landsnets um flutningsvirki. Hafi annar kærenda og tilgreindir landeigendur komið að athugasemdum vegna hennar, og hafi þeim fylgt gögn sem Landsnet hafi átt rétt á að tjá sig um samkvæmt andmælareglu stjórnsýslulaga. Andmæli Landsnets hafi hvorki leitt í ljós nýjar upplýsingar né gögn sem kallað hafi á að réttur yrði veittur til að andmæla þeim. Afstaða og rök aðila hafi legið fyrir í málinu og hafi því ekki þurft að veita þeim frekar færi á að tjá sig, enda augljóslega óþarft, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga. Einnig hafi fulls jafnræðis verið gætt og öllum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Sé því þess vegna vísað á bug að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Þá sé og ljóst að Orkustofnun hafi ekki brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga heldur farið vandlega yfir og metið sjónarmið aðila, eins og stjórnvöldum beri skylda til að gera svo tryggt sé að mál sé nægilega vel upplýst áður en stjórnvaldsákvörðun er tekin. Tilvísun kærenda til greinaskrifa og skýrslna vegna jarðstrengja hafi ekkert nýtt fram að færa og rök Landsnets fyrir uppbyggingu 220 kV háspennulínu séu málefnaleg og taki bæði tillit til núverandi þarfa og aðstæðna í kerfinu, sem og framtíðarþarfar. Á grundvelli rannsóknar stofnunarinnar á gögnum málsins hafi verið tekin rökstudd ákvörðun með vísan til 9. gr. raforkulega nr. 65/2003, en skv. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi vísa til þeirrar réttarreglna er ákvörðun stjórnvalds byggi á. Stofnunin hafi greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat hennar, m.a. með vísan í þróun og stefnumörkun atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum, virkjunarkosti í nýtingarflokki rammaáætlunar á Reykjanesi og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Loks verði ekki séð af kæru á hvern hátt Orkustofnun eigi að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína.

Leyfishafi bendir á að í kæru komi fram að kærendum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, en kæra hafi verið móttekin 7. janúar 2014, þ.e. að liðnum kærufresti. Þá sé  því mótmælt að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og séu fullyrðingar þess efnis ekki studdar neinum gögnum. Bent sé á að það falli ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að fjalla um eftirlitshlutverk Orkustofnunar á grundvelli laga nr. 65/2003 og sama eigi við um ýmis önnur atriði í kæru. Brýn þörf og almannahagsmunir kalli á byggingu Suðurnesjalínu 2 þar sem allur raforkuflutningur fari um aðeins eina línu sem þegar sé fulllestuð. Sú meginregla gildi í stjórnsýslurétti að ekki sé réttmætt að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema unnt sé að sýna fram á verulega annmarka á málsmeðferð hennar, sem telja verði að hafi haft áhrif á niðurstöðu stjórnvaldsins. Enga slíka annmarka sé að finna á málsmeðferð Orkustofnunar.
——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem ekki þykir ástæða til að rekja hér nánar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, en Orkustofnun tók ákvörðun um útgáfu þess 5. desember 2013. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. janúar 2014, en dómsmál til ógildingar nefndrar ákvörðunar var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 21. mars s.á. Meðferð kærumálsins var frestað á meðan á rekstri dómsmálsins stóð og svo sem greinir í málavaxtalýsingu lauk því á þann hátt að hin kærða ákvörðun var felld úr gildi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 796/2015 frá 13. október 2016.

Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum hefur það enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna hagsmuna né almannahagsmuna, að fá frekar skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu þegar af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna framangreindra ástæðna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

74/2016 Suður-Reykir

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 18. maí 2016 um að fjarlægja beri tvo hana af lóðinni Reykjahvoli 5, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2016, er barst nefndinni 21. s.m., kærir A, Suður-Reykjum 3, Mosfellsbæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 18. maí 2016 að gera kæranda að fjarlægja hana af lóð sinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis 29. júlí 2016.

Málavextir: Kærandi hefur um nokkurt skeið haldið hænsni á fasteign sinni í Mosfellsbæ, hænur og tvo hana.

Með bréfi, dags. 17. mars 2016, skoraði Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis á kæranda að sækja um leyfi fyrir hænum sínum og fjarlægja hanana þegar í stað í samræmi við ákvæði samþykktar nr. 971/2015 um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Með bréfi, dags. 14. apríl s.á., var áskorun þessi ítrekuð og kom fram að frestur væri gefinn til 28. s.m. til að verða við henni. Ella yrðu fuglarnir fjarlægðir á kostnað kæranda, með aðstoð lögreglu ef með þyrfti.

Á fundi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis 18. maí 2016 var bókað að samkvæmt minnisblaði lögfræðings sveitarfélagsins væri fasteign kæranda, Reykjahvoll 5, ekki skráð í lögbýlaskrá og því bæri honum að fara að fyrirmælum samþykktar nr. 971/2015. Ítrekaði nefndin að kæranda bæri að sækja um leyfi fyrir hænum sínum og væri jafnframt skylt að fjarlægja nefnda hana af fasteigninni fyrir 1. júní s.á. Var kæranda kynnt ákvörðunin með bréfi, dags. 19. maí 2016.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður það ósannað að lóð sín að Suður-Reykjum 3, sem hýsi hænsnarækt hans, hafi verið skilin frá lögbýlinu Suður-Reykjum 2 og þannig misst lögbýlisrétt sinn. Ef gögn málsins séu skoðuð sé ekki hægt að sjá að gætt hafi verið 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 við skiptingu jarðarinnar eða töku lands úr landbúnaðarnotum, hafi það einhvern tíma gerst. Af þessu leiði að upplýst ákvörðun hafi ekki verið tekin og hefði Mosfellsbær þurft að rannsaka þennan þátt málsins betur.

Málsrök heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis:
Heilbrigðisnefndin tekur fram að ítrekaðar kvartanir hafi borist vegna ónæðis af völdum tveggja hana sem haldnir séu á lóðinni Reykjahvoli 5. Samkvæmt samþykkt nr. 971/2015 um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða, sé með öllu óheimilt að halda hana utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisnefndarinnar sé lóðin Reykjahvoll 5 ekki á landbúnaðarsvæði og ekki lögbýli. Hafi því verið tekin ákvörðun, að veittri viðvörun og andmælarétti, um að hanarnir yrðu að fara. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið óskað eftir sjónarmiðum kæranda, sem hafi lagt fram ýmis gögn er hann hafi talið sýna að umræddir hanar væru haldnir á lögbýli. Gögnin hafi hins vegar ekki sýnt það, heldur þvert á móti. Hafi verið tekið tillit til þessara gagna og opinberrar skráningar Reykjahvols 5.

Álíti heilbrigðisnefndin að hún hafi fylgt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við málsmeðferð sína. Kærandi hafi haft tækifæri til að tjá sig um málið, sbr. 13. gr. laganna, og málið hafi verið nægilega rannsakað, sbr. 10. gr. Ekki sé hægt að ætlast til þess að heilbrigðisnefnd vefengi og rannsaki málsmeðferð annarra stjórnvalda heldur hljóti hún að geta treyst upplýsingum sem henni séu gefnar, t.d. varðandi stöðu skipulags og bygginga sem og upplýsinga um lögbýli. Ef vafi leiki á því hvort farið hafi verið eftir ákvæðum 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 við skiptingu jarðarinnar ætti það fyrst og fremst að vera á ábyrgð málsaðila að færa sönnur á það, með leit í skjölum á Þjóðskjalasafni ef með þurfi.

Niðurstaða: Kærandi heldur því fram að fasteign sín, þar sem hann sé búsettur og haldi hanana, sé hluti af lögbýlinu Suður-Reykjum 2, þar sem lóðinni hafi ekki verið skipt út úr lögbýlinu í samræmi við reglu 12. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976. Kærandi er skráður til lögheimilis að Suður-Reykjum 3, sem í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er tilgreind sem jörð að stærð 0 m² og eru þar ekki tilgreindir neinir matshlutar. Hús kæranda er parhús, sem í deiliskipulagi er auðkennt sem Suður-Reykir 3 og stendur það við götuna Reykjahvol skv. deiliskipulagsuppdrætti, en húsið er tilgreint í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem Reykjahvoll 5. Er því um eina og sömu eignina að ræða. Í lögbýlaskrá 2015 voru tilgreindar þær eignir sem voru skráð lögbýli 31. desember 2015 og var Suður-Reyki 2 og Suður-Reyki 3 að finna á skránni, en ekki Reykjahvol 5.

Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis vísaði til minnisblaðs lögmanns Mosfellsbæjar við ákvörðunartöku sína, en þar kemur fram að eftir því sem næst verði komist hafi lóðin Reykjahvoll 5 áður tilheyrt Suður-Reykjum 2, sem sé lögbýli. Samkomulag hafi verið gert um skipti Suður-Reykja 2, dags. 29. desember 1991, og eigendur samið um skiptingu landsins og stofnun fasteigna um þær lóðir sem þar hafi verið skipt. Það virðist hins vegar hafa dregist og fyrst verið lokið á árinu 2016. Í kjölfar þessa hafi lóðin, þar sem hanarnir séu haldnir, fengið nýtt landnúmer og heiti, þ.e. Reykjahvoll 5, landnr. 224041. Kemur og fram í minnisblaðinu að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti landbúnaðarmála, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, færist lögbýlisréttur ekki yfir á hinar nýju lóðir sjálfkrafa heldur verði að sækja um lögbýlisrétt vilji aðilar sem eigi lóðir sem slitnar hafi verið frá lögbýli halda þeim rétti. Reykjahvoll 5 sé ekki skráð á lögbýlaskrá.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Þjóðskrá Íslands mun í byrjun marsmánuðar 2016 hafa farið fram vinna hjá stofnuninni vegna misræmis í skráningu Suður-Reykja 2. Þinglýsingabækur og fasteignaskrá hafi ekki verið samhljóða, en samkvæmt skiptayfirlýsingu frá 9. nóvember 1989 hafi verið búið að skipta Suður-Reykjum 2 upp í margar smærri lóðir, sem í dag séu númeraðar frá 1 til 41 við Reykjahvol. Nefndin hefur einnig undir höndum bréf stofnunarinnar, dags. 18. janúar 2017, þar sem fram kemur að stofnunin hafi lokið samræmingu á skráningu þegar þinglýstra skjala við upplýsingar í fasteignaskrá vegna jarðarinnar Suður-Reykja 2 og lóða sem stofnaðar hafi verið úr þeirri jörð. Á meðal fasteigna sem taldar eru upp í bréfinu er Reykjahvoll 5 með fastanúmerið 208-2401 og landnúmer 224041 og lögbýlið Suður-Reykir 2 með landnúmer 123793.

Að öllu framangreindu virtu þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi fasteign kæranda ekki verið skráð sem lögbýli og því réttmætt af heilbrigðisnefnd að byggja á því að ákvæði samþykktar nr. 971/2015 um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða, ættu við um hænsnahald hans. Verður ekki séð að tilefni hafi verið til ítarlegri rannsóknar hvað þetta varðaði, en rétt er að benda á að kærandi hafði og hefur möguleika á, samkvæmt 3. mgr. 26. gr. jarðalaga nr. 81/2004, að fara fram á að ráðherra skeri úr ágreiningi um skráningu jarðar á lögbýlaskrá.

Nefnd samþykkt nr. 971/2015 er sett með stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. gr. hennar kemur fram að hún gildi um hænsnahald í Mosfellsbæ á svæðum öðrum en skipulögðum landbúnaðarsvæðum og skráðum lögbýlum. Sé samþykktin sett til að tryggja öryggi, hollustuhætti, góða umgengni og fullnægjandi mengunarvarnir vegna hænsnahalds í þéttbýli Mosfellsbæjar. Í 2. gr. kemur fram að sækja skuli um leyfi fyrir hænur á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar á þar til gerðum eyðublöðum áður en hænsnahald hefjist. Telji bæjarstjórn að skilyrði til hænsnahalds séu fyrir hendi þá geti hún veitt lögráða einstaklingi eða lögaðila leyfi til tiltekins tíma, að jafnaði til 5 ára. Í lokamálsgrein 2. gr. segir að leyfilegt sé að halda allt að sex hænsni á hverri lóð, en að óheimilt sé með öllu að halda hana.

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis um að gera kæranda að sækja um leyfi fyrir hænum sínum og fjarlægja tvo hana af fasteign sinni er í samræmi við áður tilvitnuð ákvæði samþykktarinnar um hænsnahald í Mosfellsbæ. Andmælaréttar kæranda var gætt og honum gefinn rúmur frestur til að framfylgja ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum og að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 18. maí 2016 um að fjarlægja beri tvo hana af lóð kæranda að Reykjahvoli 5, Mosfellsbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

72/2015 Flókagata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 á umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. september 2015, kærir A, Flókagötu 67, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að veita umsótt leyfi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. október 2015.

Málavextir: Á árinu 2005 fékk kærandi samþykkta umsókn um byggingarleyfi, m.a. fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni Flókagötu 67 um 20,3 m2 og breytingu þaks skúrsins úr flötu í valmaþak. Við breytinguna yrði hámarkshæð þaks 1,4 m meiri en áður. Var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. þágildandi heimild í 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki varð af framkvæmdum.

Ný byggingarleyfisumsókn var lögð fram árið 2013, sem laut að stækkun bílskúrsins um 18,3 m2 og sömu breytingu á þaki og áður hafði verið samþykkt. Þeirri umsókn var synjað af hálfu byggingarfulltrúa með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember 2013. Í þeirri umsögn kom fram að hækkun á efsta punkti þaks um 1,4 m myndi skerða útsýni frá Flókagötu 65 til austurs og að hærra þak myndi auka skuggavarp á lóðir sunnanmegin við hús. Þá væru ekki til nýleg fordæmi í hverfinu fyrir stækkun bílskúrs. Kærandi lagði inn nýja umsókn um byggingarleyfi í maí 2014 og mun ætlun hans hafa verið að lækka þak skúrsins frá fyrri umsókn. Sú lækkun kom hins vegar ekki fram á innsendum teikningum og var umsókninni hafnað. Í júní 2015 var aftur sótt um byggingarleyfi fyrir 18,3 m2 stækkun bílskúrs og gerð valmaþaks á skúrinn, þar sem hámarkshæð var lækkuð um 0,4 m frá fyrri umsóknum. Umsókninni fylgdi greinargerð þar sem vísað var til fordæma fyrir stækkun bílskúra og hækkun á þökum í hverfinu. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. ágúst 2015, var kæranda tilkynnt um synjun umsóknarinnar, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 22. júlí 2015, þar sem lagst var gegn erindinu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að við afgreiðslu á umsókn hans, dags. 14. júní 2005, hafi komið fram að fallist væri á umbeðið byggingarleyfi að teknu tilliti til sjónarmiða nágranna um að takmarka hækkun bílskúrsþaks. Með framlögðum arkitektateikningum með umsókn þeirri er synjað var hinn 11. ágúst 2015 hafi verið komið til móts við ýtrustu kröfur nágranna. Jafnframt hafi verið sýnt fram á að hækkun þaksins hefði óveruleg áhrif á skuggavarp og útsýni.

Þau sjónarmið, sem skipulagsfulltrúi færi fram sem rök fyrir neikvæðri afstöðu sinni til umsóknar kæranda, séu síðar til komin og brjóti gegn skýrum fordæmum, bæði hvað varði stækkun bílskúra og hækkun á þökum á svæðinu. Sama gildi um afstöðu skipulagsfulltrúa til jafnræðisreglna stjórnsýsluréttar. Ekki sé gætt jafnræðis þegar lögð séu til grundvallar sjónarmið um „nýleg fordæmi“ þegar afstaða sé tekin til stækkunar bílskúrs. Þá sé ekki fjallað um fjölda fordæma um hækkun á þökum bílskúra. Túlkun skipulagsfulltrúa sé handahófskennd og brjóti gegn jafnræðisreglu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að afgreiðsla erindis kæranda frá 2005 sé úr gildi fallin og veiti kæranda ekki sjálfkrafa réttindi. Það sé mat skipulagsyfirvalda nú að þak bílskúrsins muni virka framandi í umhverfinu. Bílskúrar á svæðinu séu með flötum þökum og einhalla og ekki sé þörf á að lyfta þakinu til að laga leka. Flókagata 67 sé virðulegt hús í grónu hverfi, byggt árið 1952. Bílskúrinn á lóðinni sé tvöfaldur og 56 m2  að stærð. Hann sé einn sá stærsti í götunni, en bílskúrar séu þar almennt frá 20 til 40 m2. Ef fallist yrði á stækkun bílskúrs kæranda um 18 m2 yrði hann alls 74 m2, sem sé langt umfram það sem gangi og gerist í götunni og á næstu lóðum.

Hvorki þyki nauðsyn á stækkun skúrsins né vilji skipulagsyfirvöld gefa þau skilaboð eða það fordæmi að almennt megi stækka bílskúra í götunni, en ekki hafi nýlega verið heimilaðar stækkanir af þeirri stærðargráðu sem kærandi hafi óskað eftir. Bílskúrinn á lóðinni nr. 35 við Flókagötu, sem kærandi vísi til máli sínu til stuðnings, sé 67 m2, en heimiluð hafi verið stækkun á honum árið 1994. Byggingar sem leyfðar hafi verið fyrir rúmum 20 árum skapi þó engin réttindi til handa öðrum lóðarhöfum. Bílskúrinn á lóðinni nr. 59 við Flókagötu, sem kærandi vitni til, sé 55 m2, eða 1 m2 minni en bílskúr kæranda. Tilvísanir kæranda til breytinga í öðrum götum, s.s. Sigtúni og Hamrahlíð, hafi enga þýðingu í málinu og skapi heldur ekki fordæmi fyrir uppbyggingu á lóð kæranda. Synjun skipulagsyfirvalda hafi því verið málefnaleg og ekki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Það sé mat Reykjavíkurborgar að hin umþrætta byggingarleyfisumsókn hafi falið sér breytingu sem hvorki væri í samræmi við byggðamynstur hverfisins né þéttleika byggðarinnar. Því hafi ekki verið skilyrði til að grenndarkynna umsóttar breytingar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Kærandi hafi tvívegis áður fengið synjun á stækkun bílskúrsins, þ.e. árið 2013 og 2014. Þær afgreiðslur hafi ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki annað séð en að kærandi hafi fyrirgert kærurétti vegna stækkunar skúrsins nú. Beri af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að leggja fyrir byggingarfulltrúa að veita hið umsótta byggingarleyfi, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, bls. 252-254, kemur fram að svæðið sem hér um ræðir sé fullbyggt og fastmótað. Þar er og tekið fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Umrætt svæði hefur hvorki verið deiliskipulagt né er þar í gildi hverfisskipulag.

Þegar sótt er um byggingarleyfi á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Byggingarleyfisumsókn kæranda, sem hafnað var með hinni kærðu ákvörðun, fól í sér stækkun á bílskúr um 18,3 m2 og hækkun þaks skúrsins um 1 m við að breyta því úr flötu þaki í valmaþak. Við þá stækkun yrði bílskúr kæranda 74 m2 að flatarmáli. Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem lá til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, voru þau efnisrök færð fram fyrir synjuninni að bæði þakgerð og stærð bílskúrsins eftir breytingu yrði úr takti við það sem gangi og gerist í næsta umhverfi við hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að efnisrök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun.  Var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn kæranda. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

52/2015 Bjarg Mosfellsbær

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 19. júní 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi með Varmá frá Reykjalundarvegi að Húsadal vegna lóðarinnar Bjargs í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðar nr. 125407 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 9. júní 2015, sem staðfest var í bæjarstjórn 19. s.m., að samþykkja breytingu á deiliskipulagi með Varmá frá Reykjalundarvegi að Húsadal vegna lóðarinnar Bjargs í Mosfellsbæ. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. september 2015. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 20. júlí 2015.

Málavextir: Lóðin Bjarg er 2.509 m² að stærð og á henni stendur 131,3 m² einbýlishús, sem reist var árið 1958 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Lóðin er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag með Varmá frá Reykjalundarvegi að Húsadal frá árinu 2004. Samkvæmt skilmálum þess er gert ráð fyrir húsi á einni hæð með risi á lóðinni. Heimilt er að reisa 80 m² viðbyggingu eða byggja allt að 220 m² nýbyggingu á lóðinni, verði núverandi hús rifið.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 4. febrúar 2015 var lögð fram beiðni lóðarhafa um að leyfilegt byggingarmagn á lóðinni yrði aukið frá gildandi skipulagi, á þann veg að byggja mætti þar 400 m² einbýlishús á tveimur hæðum, samtengt núverandi húsi. Var afgreiðslu málsins frestað og farið fram á að nefndinni yrðu afhent nánar útfærð gögn. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir að nýju á fundi 5. mars s.á. og samþykkti að grenndarkynna umbeðna breytingu. Á fundi nefndarinnar 9. júní 2015 var fyrirliggjandi tillaga samþykkt, sem og svör við athugasemdum er borist höfðu á kynningartíma hennar, þar á meðal frá kærendum. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 19. s.m. Með hinni kærðu breytingu er gert ráð fyrir tveggja hæða húsi á umræddri lóð. Stærð viðbyggingar verði að hámarki 400 m² og hámarks byggingarmagn nýbyggingar 525 m². Byggingarreitur breytist ekki.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir séu eigendur lóðar nr. 125407, sem liggi nærri lóðinni Bjargi. Feli hin umdeilda deiliskipulagsbreyting í sér rúmlega 230% aukningu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar Bjargs. Um verulega stækkun hússins á lóðinni sé að ræða, sem muni í kjölfarið stinga að því leytinu til í stúf við aðrar byggingar á svæðinu.

Breyting sem kveði á um meira en tvöföldun á heimiluðu byggingarmagni, auk breytingar á húsagerð, geti aldrei talist óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, hvað þá þegar slík breyting nái aðeins til eins húss og einnar lóðar innan deiliskipulagssvæðisins. Óhjákvæmilegt sé að fara með slíka breytingu eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Ekki sé hægt að líta til þess hvert endanlegt nýtingarhlutfall lóðarinnar verði eftir breytingu heldur hversu mikið það aukist. Um sé að ræða fordæmisgefandi breytingu fyrir nærliggjandi lóðir. Breyti þá engu þótt skipulagsyfirvöld kunni áður að hafa farið með sambærilegar breytingar sem óverulegar. Samkvæmt framansögðu hafi ekki verið heimilt að grenndarkynna breytinguna og sé í þessu sambandi vísað til fyrrgreinds ákvæðis skipulagslaga og gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Kærendur hafi ítrekað reynt að fá heimild til að skipta lóð sinni í tvær einbýlishúsalóðir og reisa þar tvö hús, en lóð kærenda standi á ódeiliskipulögðu svæði. Feli meðferð skipulagsyfirvalda á annars sambærilegum erindum í sér augljóst brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sé þar með ólögmæt.

Málsrök Mosfellsbæjar: Sveitarfélagið bendir á að ljóst sé af gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að ekki skuli horft til þess hversu mikið nýtingarhlutfall breytist innan lóðar heldur hversu mikið það breytist innan viðkomandi svæðis við mat á því hvort deiliskipulagsbreyting teljist óveruleg. Eftir umdeilda breytingu sé nýtingarhlutfall lóðarinnar Bjargs um 0,2, sem sé í samræmi við það sem tíðkist á viðkomandi svæði. Nýtingarhlutfall lóða í næsta nágrenni við Bjarg sé frá 0,15 og upp í 0,25. Nýtingarhlutfall annarra lóða í nágrenninu sé mismunandi en ekki sé óalgengt að það sé á bilinu frá 0,2 til 0,35, þótt dæmi séu um lægra nýtingarhlutfall. Víki hin kærða breyting ekki í slíkum mæli frá nýtingarhlutfalli viðkomandi svæðis að óheimilt hafi verið að grenndarkynna tillöguna.

Fullyrðing kærenda um að húsagerð sé breytt frá því sem áður hafi verið sé ekki rökstudd. Í gr. 2.5. í fyrirliggjandi deiliskipulagi komi fram að yfirbragð byggðarinnar einkennist af byggingum af mismundandi gerð og formi og að gert sé ráð fyrir því að nýbyggingar verði einbýlishús eða parhús á einni til tveimur hæðum. Verði ekki séð að tillagan feli í sér svo breytta húsagerð að um verulega breytingu sé að tefla eða að hún teljist fordæmisgefandi samkvæmt áðurgreindu ákvæði skipulagsreglugerðar.

Því sé mótmælt að jafnræðis hafi ekki verið gætt þótt ekki hafi verið fallist á erindi kærenda um skiptingu lóðar enda um eðlisólík tilvik að ræða. Séu aðilar því ekki í sambærilegri aðstöðu og jafnræði þeirra hafi því ekki verið raskað.

Andmæli lóðarhafa:
Af hálfu lóðarhafa lóðarinnar Bjargs er farið fram á að kröfu kærenda verið hafnað. Núverandi hús að Bjargi sé aðeins 131 m² og komin sé tími á viðhald þess. Verði það hugsanlega rifið þegar nýtt hús verði risið, en heildarstærð þess húss verði aðeins 2×200 m². Miðað sé við að á neðri hæð hússins verði bílageymsla. Telji leyfishafi að allir nágrannar hans hafi verið verulega sáttir við nýja húsið.

Mikið sé af stórum húsum á þessu svæði og séu hús af ýmsum stærðum og gerðum í nágrenni við lóð leyfishafa. Stærri hús séu í næsta nágrenni og við Varmána. Væri því um brot á jafnræði að ræða ef lóðarhafa yrði synjað um leyfi fyrir byggingu hins umdeilda húss.

Kærendur eigi engra hagsmuna að gæta í máli þessu. Virðist sem þeir séu að reyna að þrýsta á skipulagsyfirvöld um að deiliskipuleggja lóð kærenda þannig að henni verði skipt í tvær einbýlishúsalóðir. Engin tengsl séu á milli þess að kærendur vilji reisa tvö stór einbýlishús á einni óskipulagðri lóð og þess að leyfishafi vilji byggja á lóð þar sem allri skipulagsvinnu sé lokið. Þá sé bent á að lóðarhafi hafi lagt mikla vinnu í undirbúning byggingar hússins og verulegan kostnað.

Niðurstaða: Kærendur eiga lóð er liggur að hluta gegnt lóðinni Bjargi. Getur hin kærða ákvörðun því snert grenndarhagsmuni kærenda og eiga þeir því kæruaðild í máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis er gert ráð fyrir því að nýbyggingar á öllu skipulagssvæðinu verði einbýlishús eða parhús á einni til tveimur hæðum. Í sérskilmálum skipulagsins kemur m.a. fram að heimilt sé að byggja íbúðarhúsnæði og bílageymslur á núverandi lóðum eftir því sem aðstæður og nýting leyfi. Skulu byggingar vera einnar hæðar, nema annað sé tekið fram í skýringartöflu. Annars taki hámarkshæð viðbygginga mið af núverandi hæð byggingar.

Lóðin Bjarg stendur við B-húsagötu nr. 9 samkvæmt töflu í greinargerð deiliskipulagsins um stærðir nýbygginga og viðbygginga, en greind tafla sýnir heimilað hámark byggingarmagn á lóðum. Þar er tilgreint að gerð húsa við götuna sé ein hæð með risi. Heimild er fyrir viðbyggingu á nokkrum lóðum. Verði núverandi hús á lóðum við götuna rifin má reisa í þeirra  stað nýbyggingar, að hámarki 220 m² að flatarmáli. Gerð var breyting á greindum skilmálum árið 2005 er fól m.a. í sér að lóðir nr. 6, 8 og 10 við B-húsagötu voru sameinaðar í tvær lóðir og heimiluð bygging íbúðarhúss á hvorri lóð, allt að 300 m² að stærð. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er nýtingarhlutfall lóða við nefnda götu mismunandi, allt frá 0,12 til 0,25.

Eins og fram er komið ákvað sveitarstjórn að nýta sér heimild sem er að finna í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að viðhafa grenndarkynningu á umræddri skipulagstillögu í stað þeirrar almennu málsmeðferðar við breytingu á deiliskipulagi sem áskilin er í 1. mgr. ákvæðisins. Í fyrrgreindu undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Með hinni kærðu breytingu skipulagsins er heimilað að reisa 400 m² viðbyggingu á lóðinni Bjargi í stað 80 m² viðbyggingar. Verði hús á lóðinni rifið er gert ráð fyrir allt að 525 m² nýbyggingu í stað 220 m2 nýbyggingar samkvæmt óbreyttu skipulagi. Jafnframt er nú gert ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni í stað einnar hæðar húss með risi. Við breytinguna fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr u.þ.b. 0,08 í 0,20, sem er um 150% aukning. Þótt nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir breytingu skeri sig ekki að marki frá nýtingarhlutfalli annarra lóða á svæðinu eykst heimilað byggingarmagn verulega frá því sem áður gilti um nefnda lóð og formi húss er breytt. Verður að telja að þessi breyting á stærð og húsagerð geti ekki talist óveruleg breyting á deiliskipulagi í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skorti því lagaskilyrði til að viðhafa þá málsmeðferð, sbr. fyrrgreint lagaákvæði, að grenndarkynna umrædda skipulagstillögu. Ber af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 19. júní 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi með Varmá frá Reykjalundarvegi að Húsadal, vegna lóðarinnar Bjargs í Mosfellsbæ.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

65/2015 Guðrúnartún

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2015, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16. febrúar 2016 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Húsfélagið Sætún 1, Reykjavík, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16. febrúar 2016, að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. apríl 2016.

Málavextir: Lóðin Guðrúnartún 1 er á svæði sem deiliskipulag Borgartúnsreits vestur, frá árinu 2011, tekur til. Árið 2012 var gerð breyting á deiliskipulaginu þar sem heimiluð var aukning byggingarmagns á lóðinni um 1.500 m2. Jafnframt var samþykkt stækkun á bílakjallara þannig að bílastæðum fjölgaði þar um 27 en að bílastæðum á þaki bílakjallarans fækkaði að sama skapi. Þá tók gildi breyting á deiliskipulaginu hinn 29. apríl 2013, með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem heimiluð var stækkun hússins að Guðrúnartúni 1 um 250 m2 en bílastæðafjöldi yrði áfram óbreyttur, eða 140 stæði. Með umsókn, dags. 16. september 2014, óskaði kærandi eftir því að bílastæðum á umræddri lóð yrði fjölgað um 27 og að þau yrðu staðsett á þaki bílageymslunnar. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. september s.á., kom fram að við deiliskipulagsbreytingu árið 2013 hefði verið lögð áhersla á að fjölgun bílastæða ætti sér aðeins stað neðanjarðar. Meginmarkmið umferðarstefnu aðalskipulags Reykjavíkur væri að bæta borgarumhverfi, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænni samgöngum. Í stað fjölgunar bílastæða var lagt til að athuguð yrði stýring bílastæða á lóðinni með lokun og/eða gjaldtöku. Var umsókninni hafnað 8. október 2014.

Með umsókn, dags. 12. maí 2015, fór kærandi enn fram á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1 og var hún efnislega samhljóða fyrri umsókn frá árinu 2014. Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem lögð var fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. júní s.á., kom fram að þar sem ekkert nýtt hefði komið fram í málinu væri vísað til fyrri umsagnar frá 29. september 2014. Með bréfi, dags. 14. júlí 2015, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. júní s.á. og að sú afgreiðsla hefði verið staðfest af borgarráði. Það var hins vegar ekki fyrr en 11. febrúar 2016 að borgarráð staðfesti afgreiðslu ráðsins og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarstjórnar 16. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að að ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 mæli fyrir um að deiliskipulag skuli innihalda skipulagsskilmála þar sem nánar sé fjallað um útfærslu skipulags, m.a. um fjölda bílastæða. Af ákvæðum skipulagslaga verði ráðið að rík áhersla sé lögð á að lóðarhafar tryggi að til staðar sé nægilegur fjöldi bílastæða til þess að mæta þeim kröfum sem gerðar séu til viðkomandi svæðis með hliðsjón af þeirri starfsemi sem borgaryfirvöld hafi skipulagt á svæðinu. Á þessum áður svokölluðu Borgartúnsreitum, sem nú tilheyri Miðsvæði aðalskipulags (M1b), þ.m.t. lóð kærenda, sé gert ráð fyrir atvinnustarfsemi, s.s. skrifstofu-, verslunar- og þjónustustarfsemi, sem krefjist tiltekins fjölda bílastæða. Skipulagsyfirvöldum sé fullkunnugt um að ófremdarástand ríki á umræddu svæði að þessu leyti og sé þeim bæði rétt og skylt að tryggja viðunandi lausn vandans með fjölgun bílastæða, eftir því sem aðstæður leyfi, og jafnframt að gæta jafnræðis og meðalhófs gagnvart lóðarhöfum við afgreiðslu mála. Umsókn kæranda hafi verið í samræmi við áherslur umhverfis- og skipulagsráðs um að fjölgun bílastæða eigi sér einungis stað neðanjarðar.

Hús á Borgartúnsreitum/Miðsvæði hafi verið byggt á ólíkum tímaskeiðum og þá að gættum gildandi reglum á hverjum tíma. Þegar litið sé til þess hvernig afgreiðslu deiliskipulags hafi verið háttað á undanförnum árum til dagsins í dag komi í ljós að borgaryfirvöld hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu á umsókn kæranda. Í henni hafi verið farið fram á að stæðafjöldi á lóð hans færi úr einu stæði á hverja 48,0 m2 í eitt stæði á hverja 40,3 m2. Á svokölluðum Höfðatorgsreit, sem einnig tilheyri svæði Borgartúnsreita/Miðsvæði, hafi verið samþykkt hinn 13. febrúar 2014 breyting á deiliskipulagi þar sem staðfestir hafi verið sömu skilmálar og voru í áðurgildandi deiliskipulagi frá árinu 2007. Hafi þar verið miðað við að lágmarki eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 flatarmáls bygginga en að hámarki eitt stæði á hverja 30 m2. Engin rök séu færð fram fyrir því í deiliskipulagi hvers vegna lóðarhöfum á þessu svæði sé veitt slík ívilnun á sama tíma og kæranda sé neitað um hófstilltari fjölgun stæða.

Framkvæmdum við stækkun húsnæðis um ríflega þriðjung að Guðrúnartúni 1 sé að mestu lokið. Sú stækkun, sem sé tilkomin vegna brýnna þarfa eigenda, hefði með réttu átt að leiða til þess að eigendum yrði heimilað, eða í raun gert skylt, í samræmi við skipulagslög að fjölga bílastæðum á lóðinni því til samræmis. Borgaryfirvöld hafi lýst því yfir að fjölgun bílastæða skuli einungis eiga sér stað neðanjarðar og þá röksemd geti kærandi fallist á. Hann standi hins vegar frammi fyrir þeirri sérkennilegu kröfu borgaryfirvalda að hann láti fjarlægja 27 stæði af yfirborði jarðar og byggja yfir stæðin neðanjarðar. Ekki þurfi að fjölyrða um að slíkt hefði í för með sér mikil fjárútlát fyrir eigendur húsnæðisins, án nokkurs ávinnings. Með mótsagnakenndri afstöðu sinni og rökstuðningi hafi borgaryfirvöld þannig lagt íþyngjandi kvöð á kæranda og þverbrotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að með breytingu á deiliskipulagi fyrir reit 1.216.1, vegna lóðarinnar nr. 1 við Guðrúnartún á árinu 2014, hafi verið heimilað að stækka núverandi fjögurra hæða tengibyggingu, milli norður- og suðurhúss, um allt að 250 m2. Bílastæðafjöldi á lóð hafi ekki breyst. Hann hafi verið eitt stæði á 35,6 m2 húsnæðis, en verði eftir stækkunina eitt stæði á hverja 48,0 m2. Gert hafi verið ráð fyrir að 27 bílastæðum sem séu á lóðinni yrði komið fyrir í stækkuðum bílakjallara undir tengibyggingunni.

Kærandi hafi áður freistað þess að sækja um hina umþrættu breytingu, en á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. október 2014 hafi verið samþykkt neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. september s.á., vegna óska um breytingu á deiliskipulagi reitsins, sem fæli í sér fjölgun bílastæða. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi komið fram að við meðferð málsins hafi umhverfis- og skipulagsráð lagt áherslu á að fjölgun bílastæða ætti sér aðeins stað neðanjarðar. Einnig hafi verið tiltekið að fjölgun bílastæðanna samræmdist ekki markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur, en meginmarkmið umferðarstefnu aðalskipulagsins væri að bæta borgarumhverfi, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænni samgöngum. Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé Guðrúnartún á svæði 1 og þar sé viðmiðið að hámarki eitt bílastæði á hverja 50 m2 atvinnuhúsnæðis. Umsókn kæranda sem hafnað hafi verið feli í sér að fjöldi bílastæða færi úr einu stæði fyrir hverja 48,0 m2 húsnæðis í eitt stæði fyrir hverja 40,3 m2 og hafi hún því ekki samræmst ákvæðum aðalskipulagsins um fjölda bílastæða.

Samkvæmt skipulagslögum skuli fjöldi bílastæða ákveðinn í deiliskipulagi og geti ólíkar aðstæður á lóðum leitt til mismunandi krafna um fjölda bílastæða á hverjum tíma. Slíkt feli ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og sé á það bent að bílastæði á Höfðatorgsreitnum sé að stærstum hluta neðanjarðar. Því sé ekki til að dreifa á lóð kæranda, en hann  fari nú fram á að fá að halda í stæði sem þegar séu ofanjarðar, en eigi samkvæmt gildandi deiliskipulagi að færast niður í stækkaðan bílakjallara.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér heimild fyrir 27 bílastæðum ofanjarðar á lóðinni Guðrúnartúni 1, sem í gildandi deiliskipulagi skulu víkja þaðan.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsáætlunum er sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengjast. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt bíla- og hjólastæðisstefnu í gildandi aðalskipulagi, bls. 154-155, er Guðrúnartún 1 á svæði 1 þar sem miðað er við eitt bílastæði að hámarki á hverja 50 m2  atvinnuhúsnæðis. Hins vegar má víkja  frá því til hækkunar eða lækkunar í hverfis- eða deiliskipulagi en rökstyðja þarf slíkt frávik sérstaklega. Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 140 bílastæðum á lóðinni Guðrúnartúni 1, eða einu bílastæði á hverja 48 m2,  að teknu tilliti til heimilaðra bygginga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna umsóknar kæranda, sem hin kærða ákvörðun studdist við, kemur fram að við breytingu deiliskipulags umrædds svæðis árið 2013 hafi verið lögð áhersla á að fjölgun bílastæða ætti sér aðeins stað neðanjarðar. Þá komi fram í aðalskipulagi að lagt sé til að settar verði reglur um hámarksfjölda bílastæða á völdum svæðum og að fjölgun bílastæða hafi í för með sér aukna umferð. Í umsögninni var og vísað til þess meginmarkmiðs umferðarstefnu aðalskipulags Reykjavíkur að bæta borgarumhverfi, stýra umferðarflæði og stuðla að breyttum ferðavenjum og vistvænni samgöngum. Studdist ákvörðun Reykjavíkurborgar því við efnisrök og stefnu gildandi aðalskipulags.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgstjórnar Reykjavíkur frá 16. febrúar 2016 um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar Guðrúnartúns 1.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

73/2015 Gagnheiði

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. júlí 2015 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda í atvinnuhúsnæði að Gagnheiði 19, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2015, er barst nefndinni 7. s.m., kærir ÞGÁ trésmíði slf., Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 1. júlí 2015 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda í atvinnuhúsnæði að Gagnheiði 19 á Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 30. október 2015.

Málsatvik og rök: Árið 2009 fékk einn eigenda í fjöleignarhúsinu Gagnheiði 19 byggingarleyfi fyrir gerð innkeyrsludyra í séreign sína. Ekki var ráðist í framkvæmdir og féll byggingarleyfið því úr gildi ári eftir útgáfu þess skv. þágildandi 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd á árinu 2013 en hún fékkst ekki samþykkt þar sem samþykki meðeigenda skorti. Þrátt fyrir það munu framkvæmdir hafa byrjað og eru nú fyrrgreindar innkeyrsludyr í séreign umsækjanda. Einn sameigenda fjöleignarhússins gerði í kjölfar þess þá kröfu á hendur sveitarfélaginu að innkeyrsludyrnar yrðu fjarlægðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins aflaði álits tveggja byggingatæknifræðinga af því tilefni og var niðurstaða þeirra sú að framkvæmdirnar hafi ekki teljandi áhrif á burðarvirki hússins. Einnig var öllum eigendum hússins að Gagnheiði 19 tilkynnt um málið og þeim veittur andmælaréttur. Athugasemdir bárust og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 1. júlí 2015 var tekin sú ákvörðun að ekki væri tilefni til þess að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. ágúst 2015, og fór hann fram á rökstuðning fyrir henni með bréfi, dags. 20. s.m. Umbeðinn rökstuðningur barst honum með bréfi, dags. 21. september s.á. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar í kjölfarið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Kærandi tekur fram að á árinu 2009 hafi eigandi rýmis 103 í húsinu að Gagnheiði 19 fengið útgefið byggingarleyfi, að því er virðist m.a. á grundvelli fundarboðs húsfundar en ekki með samþykki sameigenda. Fram komi í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að ytra byrði húss sé sameign allra eigenda þess. Engu að síður hafi verið ráðist í framkvæmdir og umþrættar innkeyrsludyr settar á húsið án þess að lögboðið samþykki sameigenda lægi fyrir.

Sveitarfélagið tekur fram að þegar til álita komi að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki sé hvert tilvik metið sjálfstætt, m.a. með tilliti til meðalhófs, enda sé um íþyngjandi heimildarákvæði að ræða. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi skoðað umdeilda framkvæmd ásamt sérfræðingum og hafi það verið niðurstaða þeirra að breytingarnar hefðu ekki haft umtalsverð áhrif á burðarvirki hússins og að ekki stafaði hætta af þeim. Ekki verði séð að umræddar breytingar á húsnæðinu valdi kæranda óþægindum, ónæði eða skaða. Um sé að ræða iðnaðarhúsnæði þar sem nágrannar verði almennt að þola umferð vinnuvéla, bifreiða o.fl. Á umræddu húsnæði hafi þegar verið innkeyrsludyr, þannig að gera megi ráð fyrir að notkun þess hafi ekki tekið breytingum frá því sem áður hafi verið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar að hafna kröfu kæranda um beitingu þvingunarrúrræða til að knýja fram að innkeyrsludyr á ytra byrði hússins að Gagnheiði 19 yrðu fjarlægðar.

Í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 kemur fram að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti hún í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem leyfisveitanda eru veittar sömu heimildir. Í nefndri reglugerð er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í nefndri reglugerð.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, falið það vald að taka ákvörðun um hvort umræddum þvingunarúrræðum verði beitt í hverju tilviki eða ekki. Til þess ber og að líta að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum kemur fram að lögð sé til sú grundvallarbreyting frá fyrri lögum að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa og að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Ekki liggur fyrir í málinu að slík samþykkt hafi verið gerð af hálfu Árborgar eftir gildistöku laga um mannvirki og er slík samþykkt ekki á skrá hjá Mannvirkjastofnun í samræmi við fyrirmæli 6. mgr. 7. gr. nefndra laga.

Svo sem áður er lýst tók skipulags- og byggingarnefnd þá ákvörðun að beita ekki þvingunarúrræðum vegna hinna umþrættu framkvæmda, en ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi samkvæmt áðurgreindum ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

112/2016 Grettisgata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta nýjar íbúðir í húsinu nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. ágúst 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir A, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum að Grettisgötu 62. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda þar sem framkvæmdum mun að mestu hafa verið lokið þegar kæra barst nefndinni. Verður málið nú tekið til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. ágúst 2016.

Málavextir: Hinn 28. janúar 2016 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki hefði verið aflað lögbundins álits Minjastofnunar Íslands við meðferð málsins. Einnig var tilgreint að ekki yrði af framlögðum byggingarnefndarteikningum annað ráðið en að dýpt svala í kverk hússins væri meiri en áskilið væri í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.

Kærandi, sem skotið hafði nefndri ákvörðun til nefndarinnar, hafði í kjölfar þessa samband við Reykjavíkurborg og óskaði þess að vera upplýstur um framhald málsins hjá sveitarfélaginu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. mars 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir breytingum sem orðið hefðu á fyrrgreindu húsi á byggingartíma þess. Fylgdi erindinu umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 15. s.m. Þar kemur fram að óskað sé umsagnar stofnunarinnar vegna hækkunar hússins að Grettisgötu 62, sem þegar hafi verið framkvæmd. Fyrir breytingu hafi Grettisgata 62 verið tvílyft steinhús með lágreistu mænisþaki. Veitt hafi verið heimild í deiliskipulagi frá 2002 til að byggja við húsið að lóðamörkum Grettisgötu 60 innan byggingarreits og reisa eina hæð ofan á húsið. Gerð hafi verið breyting á nefndu deiliskipulagi árið 2014. Taldi Minjastofnun það óheppilegt að heimiluð hefði verið hækkun þakhæðar umfram það sem sýnt væri í deiliskipulaginu frá 2002. Reynt hefði verið að aðlaga útlit hins endurbyggða húss að ásýnd steinsteyptra borgarhúsa í Reykjavík frá fyrri hluta 20. aldar. Fylgdi stærð og skipan gluggaopa hefðinni en gluggagerðin væri framandi og ekki í samræmi við upphaflegan stíl hússins. Bæri húsið eftir stækkun svip hreinnar nýbyggingar og fátt í útliti þess benti til þess að um væri að ræða endurbyggt gamalt hús. Var afgreiðslu málsins frestað á fyrrgreindum fundi byggingarfulltrúa. Umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi hans 3. maí 2016.

Með tölvubréfi kæranda til umhverfis- og skipulagssviðs 13. júní 2016 var óskað upplýsinga um stöðu málsins. Í öðru tölvubréfi kæranda 16. s.m. var bent á að starfrækt væri gistiheimili í umræddu húsi og að starfseminni fylgdi verulegt ónæði. Í kjölfar þessa urðu nokkur bréfaskipti milli kæranda og sveitarfélagsins um málið allt fram til ágústmánaðar s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að byggingarfulltrúi hafi á ný samþykkt öll leyfi þrátt fyrir að honum hafi borist nýjar upplýsingar um að í húsinu væri starfrækt gistiheimili án tilskilinna leyfa. Veruleg grenndaráhrif séu vegna starfseminnar, svo sem ónæði, aukin umferð og mengun. Meiri umgangur sé um undirgang, sem sé eina aðkoman að inngangi Grettisgötu 62. Hafi samþykktar breytingar á húsnæðinu og á þeirri starfsemi sem starfrækt sé þar ekki verið grenndarkynntar fyrir nágrönnum. Sé inngangur í húsið tilgreindur frá rangri götu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda í máli þessu. Áður samþykktar svalir séu innan uppgefins byggingareits fyrir svalir. Lengd þeirra sé reiknuð út frá húsdýpt beggja megin við kverkina, en um sé að ræða hornhús. Á grundvelli alls þessa hafi verið fallist á að fyrirliggjandi teikningar af Grettisgötu 62 væru í samræmi við gildandi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireit 1.190.1., með síðari breytingum. Hafi byggingarleyfi því verið samþykkt að nýju, enda hafi nú legið fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru. Hefur hann ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en því að hann bendir á að vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út 20. september 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 3. maí 2016 að samþykkja að nýju byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Grettisgötu 62. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um leyfið með tölvupósti byggingarfulltrúa 23. júní s.á. og var honum leiðbeint um kæruleið með tölvupósti fulltrúans 15. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. ágúst s.á. og var þá kærufrestur liðinn. Með hliðsjón af því skilyrði fyrir gildistöku fyrrnefndar samþykktar byggingarfulltrúa að eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið yrði þinglýst, og að svo var ekki gert fyrr en með áritun sýslumanns þar um 20. september 2016, verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hún því tekin til efnisúrlausnar, en rétt er að taka fram að hið kærða leyfi heimilar hvorki rekstur gistiheimilis né breytta notkun húsnæðisins að öðru leyti og koma sjónarmið í kæru vegna þessa því ekki til frekari skoðunar.

Lóðin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur, sem er 1.190.1. Umrætt skipulag öðlaðist gildi árið 2002 og gerði m.a. ráð fyrir auknu byggingarmagni á fyrrgreindri lóð. Hinn 12. nóvember 2014 tók gildi breyting á skilmálum nefnds skipulags, er fól í sér að lóðirnar Grettisgata 62 og Barónsstígur 20 yrðu sameinaðar og að á þeirri lóð yrði þriggja hæða hús ásamt þakhæð með kvistum. Að auki var heimilað að svalir á 2. og 3. hæð yrðu utan byggingarreits. Að öðru leyti skyldu ákvæði eldri skilmála gilda, en þar var kveðið á um að við Grettisgötu og Barónsstíg skyldu svalir snúa inn að reit. Skyldi dýpt svalanna leggjast við húsdýpt og mesta dýpt þeirra frá bakhlið húss vera 1,6 m. Líkt og fyrr greinir benti úrskurðarnefndin á í úrskurði sínum 28. janúar 2016 að svo virtist sem byggingarnefndarteikningar fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 væru ekki í samræmi við skilmála deiliskipulagsins að því er lyti að dýpt svala í kverk hússins. Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að nú liggi fyrir skýringarteikning hönnuðar hússins og sé lengd svalanna reiknuð út frá húsdýpt beggja vegna kverkarinnar, en um sé að ræða hornhús. Um er að ræða L-laga hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs. Bakhliðar hússins, miðað við áðurnefndar götur, mynda kverk þar sem gert er ráð fyrir svölum. Vísa þær svalir inn að reit, svo sem áskilið er í skipulagsskilmálum. Verður með hliðsjón af aðstæðum og nefndum skipulagsskilmálum að fallast á að dýpt svalanna megi reikna frá bakhliðum hússins miðað við bæði Grettisgötu og Barónsstíg og að byggingarleyfið fyrir þeim sé þar með í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Þá liggur fyrir að áður en hið umdeilda byggingarleyfi var samþykkt var leitað lögbundins álits Minjastofnunar Íslands skv. 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar, sbr. og 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Gerði stofnunin athugasemd við samþykktar breytingar vegna hæðar hússins og gluggagerðar. Með hliðsjón af því að hún lagði ekki til skilyrði um nefnda framkvæmd, sem tillit hefði þurft að taka til skv. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 80/2012, verður þó ekki annað séð en að skilyrði framangreindra laga hafi verið uppfyllt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að um neina þá form- eða efnisannmarka sé að ræða á hinni kærðu ákvörðun að valdið geti ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta nýjar íbúðir í húsinu nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

107/2014 Sorpa bs. Álfsnesi

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2014, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. ágúst 2014 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Kvíslartungu 26, Mosfellsbæ, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. ágúst 2014 að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi ella verði gerðar nánar tilgreindar breytingar á skilyrðum starfsleyfisins.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 18. maí og 18. nóvember 2015.

Málavextir:
Á árinu 2013 útbjó Umhverfisstofnun tillögu að starfsleyfi fyrir urðunarstað og aðra starfsemi í Álfsnesi að fenginni umsókn Sorpu bs. um nýtt starfsleyfi. Kom fram í umsókninni að urðunarstaðurinn hefði verið rekinn síðan 1991 og að starfsleyfi hefði fyrst verið gefið út 26. apríl það ár.

Með bréfum, dags. 10. apríl 2013, leitaði stofnunin umsagna um starfsleyfistillöguna hjá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, Skipulagsstofnun, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og íbúasamtökum Leirvogstungu, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umsagnir bárust frá öllum nefndum aðilum.

Tillagan var auglýst á tímabilinu 8. apríl til 5. ágúst 2014 og bárust Umhverfisstofnun athugasemdir við hana frá bæjarráði Mosfellsbæjar, dags. 22. maí s.á., heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dags. 27. s.m., og íbúasamtökum Leirvogstungu, dags. 29. júlí 2014. Framangreindir aðilar gerðu allir athugasemdir við fyrirhugaðan gildistíma starfsleyfisins og lögðu til að leyfi yrði veitt til fimm ára í samræmi við samkomulag eigenda Sorpu bs., dags. 25. október 2013. Auk þessa gerðu íbúasamtök Leirvogstungu frekari athugasemdir, einkum hvað varðaði lyktarmengun.

Með bréfi, dags. 16. júní 2014, óskaði Sorpa bs. eftir því að starfsleyfi yrði gefið út í samræmi við framangreinda tillögu Umhverfisstofnunar og að það gilti til 31. desember 2020, að því er varðaði urðun í Álfsnesi.

Starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi var gefið út til Sorpu bs. 21. ágúst 2014. Samkvæmt gr. 1.2 í leyfinu veitir það heimild til urðunar allt að 120.000 tonna af úrgangi á ári, heimilt er að starfrækja hreinsistöð fyrir hauggas, heimilt er að gera tilraunir með endurnýtingu flokkaðs úrgangs og heimilt er að geyma úrgang sem nýttur er við rekstur urðunarstaðarins eða bíður endurnýtingar. Í 1. mgr. 7. kafla segir að starfsleyfið gildi til 21. ágúst 2030, en samkvæmt 2. mgr. falla ákvæði starfsleyfisins er varða urðun úrgangs úr gildi 31. desember 2020. Auglýsing um starfsleyfið var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. september 2014.

Umhverfisstofnun ritaði íbúasamtökum Leirvogstungu bréf, dags. 11. september s.á., þar sem samtökunum var tjáð að vegna mistaka í skjalavörslu hjá stofnuninni hefði athugasemdum þeirra við auglýst starfsleyfi ekki verið svarað sérstaklega áður en starfsleyfið hefði verið gefið út og auglýst. Taldi stofnunin að athugasemdum hefði þó öllum verið svarað efnislega við málsmeðferðina, bæði í greinargerð með athugasemdum og svörum stofnunarinnar, dags. 8. apríl 2014, í tengslum við opinn kynningarfund á auglýsingartíma, sem og við umfjöllun um aðrar athugasemdir er borist hefðu á auglýsingartímanum. Því væri ekki ástæða til að ætla að nefndar athugasemdir hefðu breytt nokkru um niðurstöðu ákvörðunar stofnunarinnar og væru ekki efni til að afturkalla starfsleyfið af þeim sökum. Stofnunin kvaðst áforma að fella svör sín inn í greinargerð með athugasemdum og svörum sem birt hefði verið við útgáfu starfsleyfisins og er uppfærð greinargerð dagsett 1. október 2014. Var íbúasamtökunum gefinn frestur til 22. september s.á. til að gera athugasemdir við málsmeðferð Umhverfisstofnunar.

Með bréfi, dags. 22. september 2014, mótmæltu íbúasamtök Leirvogstungu þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar að veita Sorpu bs. heimild til starfrækslu urðunarstaðar í Álfsnesi. Ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til réttmætra athugasemda íbúa í nágrenninu og jafnframt væri harmað að athugasemdir samtakanna hefðu ekki verið teknar fyrir við umfjöllun um leyfisveitinguna.

Í bréfi Umhverfisstofnunar til íbúasamtakanna, dags. 1. október 2014, kom fram að stofnunin túlkaði ákvæði laga og reglugerða þannig að eingöngu alvarleg hætta fyrir umhverfið eða neikvætt umhverfismat gæti valdið því að stofnunin gæti synjað um starfsleyfi. Ítrekað var að mistök hefðu orðið til þess að athugasemdum íbúasamtakanna hefði ekki verið svarað áður en starfsleyfið hefði verið gefið út og auglýst. Varðandi efnislegar athugasemdir íbúasamtakanna kvað Umhverfisstofnun koma til greina að skoða eitt af þeim atriðum nánar, þ.e. ákvæði um geymslu úrgangs. Það gæti stofnunin gert að fenginni beiðni um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var samtökunum leiðbeint um þriggja mánaða frest til að setja fram beiðni um endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr., en slík beiðni kom ekki fram.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir séu meðlimir íbúasamtaka Leirvogstungu og að þeir geri að sínum málatilbúnað samtakanna í samskiptum þeirra við Umhverfisstofnun. Hefði m.a. ekki átt að gefa út hið umdeilda starfsleyfi vegna lyktarmengunar sem starfsemin muni hafa í för með sér. Einnig hefði mat á umhverfisáhrifum átt að fara fram vegna starfseminnar í Álfsnesi.

Starfsleyfið opni fyrir tilraunir með endurnýtingu á lyktarsterkum úrgangi, m.a. undir beru lofti, og geri ráð fyrir geymslu á lyktarmengandi úrgangi, sem einnig skapi hættu á foki og uppgangi vargs á svæðinu. Lyktarmengunin rýri notkunarmöguleika kærenda á fasteign sinni og brjóti því gegn rétti kærenda samkvæmt nábýlisrétti, sem og þeirri meginreglu íslenskrar stjórnskipunar að eignarrétturinn sé friðhelgur.

Ákvæði í starfsleyfinu heimili geymslu úrgangs á urðunarstað, sem aftur auki hættu á lyktarmengun. Þyki kærendum rétt að skilgreina magn úrgangs sem geyma megi á urðunarstað hverju sinni fremur en að hafa opið ákvæði um það.

Umhverfisstofnun hefði átt að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlits faggiltum skoðunaraðila til að tryggja að farið yrði að ýtrustu kröfum um lyktar-, fok- og mengunarvarnir. Jafnframt hefði þurft að skilgreina í starfsleyfi hvernig bregðast skyldi við lyktarmengun og tilkynningum þar um. Jafnframt mótmæli kærendur því, að fenginni reynslu, að leyfishafi hafi heimild til að birgja úrgang sjaldnar en daglega, þar sem slíkt auki m.a. hættu á lyktarmengun.

Í október 2013 hafi eigendur Sorpu bs. undirritað samkomulag sem hafi tekið á þeim vandamálum sem fylgi starfsemi urðunarstaðar svo nærri byggð. Í því hafi m.a. verið tiltekið að urðun skyldi hætt í Álfsnesi innan fjögurra til fimm ára, að Gými yrði lokað og að þar skyldi rísa gas- og jarðgerðarstöð sem uppfyllti ströngustu skilyrði um mengunarvarnir. Þetta samkomulag hafi gefið ákveðin fyrirheit um úrlausn þeirra vandamála sem starfseminni hafi fylgt. Því hljóti að vera eðlilegt að starfsleyfið taki mið af því samkomulagi og sé einungis veitt til þess tíma sem þar sé tiltekið að nauðsynlegur sé til að vinna að ákveðnum breytingum, eða fjögurra til fimm ára.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 31. ágúst 2005, um að urðunarstaðurinn í Álfsnesi skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Í umsögn stofnunarinnar um starfsleyfistillöguna komi ekki fram að sú ákvörðun þurfi endurskoðunar við, enda sé ekki um að ræða stækkun á umfangi urðunar.

Heimildir til tilrauna með endurnýtingu úrgangs, til geymslu úrgangs og til að birgja baggaðan úrgang sjaldnar en daglega hafi verið settar í hið umdeilda starfsleyfi á grundvelli starfsleyfisumsóknar leyfishafa, Sorpu bs. Um heimildir sé að ræða sem Sorpa bs. hafi talið nauðsynlegar fyrir starfsemi urðunarstaðarins. Þar sem nágrannar á svæðinu hafi á síðustu árum orðið fyrir ónæði vegna lyktarmengunar, sem rekja hafi mátt til urðunarsvæðisins, hafi Umhverfisstofnun ákveðið að taka sérstaklega á þeim þætti málsins við vinnslu starfsleyfisins. Til að draga eins og mögulegt sé úr lyktarmengun frá starfseminni og lágmarka ónæði vegna hennar hafi stofnunin bundið í leyfið margvísleg ákvæði um mótvægisaðgerðir, með áherslu á varnir gegn lyktarmengun við urðun úrgangs og meðhöndlun lyktarsterks úrgangs. Framangreind ákvæði séu fullnægjandi ráðstafanir til að takmarka ónæði vegna lyktarmengunar eins og mögulegt sé. Komi hið gagnstæða í ljós á gildistíma starfsleyfisins hafi útgefandi starfsleyfis úrræði til að taka leyfið og ákvæði þess til endurskoðunar, sbr. gr. 1.8 í starfsleyfinu. Gildistími starfsleyfisins hvað varði urðun úrgangs sé mun skemmri en verið hafi samkvæmt auglýstri tillögu, eða til 31. desember 2020.

Tilraunir með endurnýtingu á lyktarsterkum úrgangi og öðrum úrgangi, sem valdið geti umtalsverðum óþrifnaði, ónæði eða mengun, séu háðar skilyrðum um samþykki útgefanda starfsleyfis og eftirlitsaðila, sbr. III. lið 1. mgr. gr. 1.2 í starfsleyfinu, að fengnum umsögnum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Mögulegt sé að binda slíkt samþykki skilyrðum um tilteknar mengunarvarnir eða tiltekið verklag við meðhöndlun þess úrgangs sem tilraunir séu gerðar með. Þessar ráðstafanir séu viðhafðar til að koma í veg fyrir að þær tilraunir sem leyfishafi muni mögulega ráðast í geti haft umtalsverða mengun í för með sér, þ.m.t. lyktarmengun. Eins og orðalagið kveði á um skuli slíkar tilraunir almennt ekki fara fram nema í lokuðu rými. Umhverfisstofnun geri því ráð fyrir að það verði hið almenna verklag. Stofnuninni hafi þó ekki þótt rétt að binda tilraunirnar því skilyrði án mögulegra undantekninga, heldur veita leyfishafa svigrúm til að framkvæma slíkar tilraunir utandyra ef í staðinn kæmu aðrar og sértækar ráðstafanir til mengunarvarna.

Leyfishafi hafi til þessa ekki geymt lyktarsterkan úrgang á athafnasvæði sínu, enda hafi til þessa eingöngu verið tekið við slíkum úrgangi til urðunar og ekki hafi komið fram neitt um fyrirætlun leyfishafa um að hefja geymslu á lyktarsterkum úrgangi. Niðurstaðan hafi orðið sú að ef til þess kæmi þá giltu um geymsluna ákvæði 2. mgr. gr. 2.1, sem kveði m.a. á um að farið skuli þannig með allan úrgang við meðhöndlun að tryggt sé að hann valdi sem minnstum óþægindum, m.a. vegna ólyktar. Dugi þessi ákvæði ekki til og vart verði lyktarmengunar frá geymslusvæði geti útgefandi starfsleyfis hafið endurskoðun starfsleyfisins, sbr. gr. 1.8. Umhverfisstofnun telji nefnd úrræði fullnægjandi og áformi að leggja áherslu á að fylgjast með þessu atriði við lögbundið eftirlit stofnunarinnar. Varðandi mögulegt fok úrgangs frá starfseminni, þ.m.t. frá geymslusvæði, gildi ákvæði 2. mgr. gr. 2.1. og gr. 3.1 í starfsleyfinu og varðandi vargfugl gildi ákvæði 6. mgr. gr. 2.1.

Umhverfisstofnun bendi á að hið almenna grunnviðmið við daglegan frágang urðunarreina á urðunarstöðum sé að birgja úrgang daglega, m.a. til að lágmarka lyktarmengun. Þetta gildi einnig um urðunarstaðinn í Álfsnesi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. gr. 4.3 í hinu kærða starfsleyfi. Hins vegar sé verklagi þannig háttað við urðun baggaðs úrgangs í Álfsnesi að Umhverfisstofnun telji mögulegt að veita heimild til að víkja frá þessu grunnviðmiði, enda komi aðrar og sértækar mótvægisaðgerðir í staðinn, sbr. 2. mgr. gr. 3.2. Það sé enn fremur skilyrði fyrir nýtingu þeirrar heimildar að verklagið skapi ekki lyktarmengun frá urðunarstaðnum. Umhverfisstofnun muni framfylgja því skilyrði við lögbundið eftirlit.

Athugasemdir leyfishafa: Í athugasemdum leyfishafa kemur fram að vinna Umhverfisstofnunar við gerð nýs starfsleyfis hafi hafist um mitt ár 2012 og staðið þar til auglýsing um nýtt starfsleyfi hafi verið birt í Stjórnartíðindum 5. september 2014. Ekki verði séð að nýjar upplýsingar komi fram í kæru og fylgiskjölum hennar sem ónýta ættu þá umfangsmiklu vinnu og samráð sem Umhverfisstofnun hafi viðhaft við undirbúning og gerð starfsleyfisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð veiting starfsleyfis fyrir meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi, Reykjavík. Kærendur, sem eru búsettir í Leirvogstunguhverfi þar sem lyktarmengunar hefur orðið vart, gera ýmsar athugasemdir varðandi ákvæði leyfisins um meðferð úrgangs sem skapi hættu á slíkri mengun, einkum urðun hans. Einnig telja kærendur að leyfið hefði átt að veita til skemmri tíma, eða fjögurra til fimm ára, og jafnframt að fara hefði átt fram mat á umhverfisáhrifum starfseminnar.

Samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og 1. mgr. 49. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt lögunum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að mæla fyrir um efnislegar breytingar á ákvörðuninni.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir slíkum rekstri sé hann talinn upp í fylgiskjali með lögunum, sbr. 1. mgr. 6. gr., en svo er í þessu tilviki, sbr. 12. tl. í fylgiskjali I. Reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hefur verið sett á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998 og er markmið hennar m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Umhverfisstofnun er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem snúa að mengunarvörnum. Ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Auk framangreinds eru sérákvæði um starfsleyfi móttökustöðva fyrir úrgang í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra m.a. að tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að: a. ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða, b. ekki skapist óþægindi vegna hávaða eða ólyktar, c. ekki komi fram skaðleg áhrif á landslag eða staði sem hafa sérstakt gildi og d. úrgangsstjórnun sé markviss og hagkvæm og úrgangur sem til falli fái viðeigandi meðhöndlun. Í 14.-17. gr. er að finna ákvæði um starfsleyfi móttökustöðva fyrir úrgang. Þá eru reglur um starfsleyfi fyrir móttökustöðvar úrgangs nánar útfærðar í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs, sem sett hefur verið með stoð í nefndum lögum nr. 55/2003.

Mat á umhverfisáhrifum sorpurðunar í Álfsnesi hefur ekki farið fram, en í málinu liggur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2005 þess efnis að breyting á urðunarsvæðinu sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 738/2003 segir að starfsleyfi skuli ekki gefa út fyrr en farið hefur fram mat á umhverfisáhrifum eftir því sem lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, kveði á um. Samkvæmt þeim lögum eru förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Í ákvæði I. til bráðabirgða er þó tekið fram að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum séu þær hafnar fyrir árslok 2002. Á það við um mál þetta, enda hófst urðun í Álfsnesi á árinu 1991 samkvæmt leyfi útgefnu það ár.  

Kærendur byggja aðallega á því að í skilyrðum hins veitta starfsleyfis hafi ekki verið tekið nægilegt tillit til athugasemda um lyktarmengun frá Álfsnesi. Samkvæmt gögnum málsins vann Umhverfisstofnun tillögu að starfsleyfi fyrir urðunarstað í Álfsnesi eftir að umsókn um nýtt starfsleyfi hafði borist frá Sorpu bs. Í kafla 10.2 í umsókninni er fjallað um lykt og aðgerðir til að eyða henni. Kemur þar fram að með tilkomu nýrrar byggðar í Leirvogstungu hafi þeim fjölgað sem hafi orðið varir við lykt frá urðunarstaðnum og að frá árinu 2009 hafi verið lagt í umfangsmiklar aðgerðir og breytingar á ferlum til að bregðast við kvörtunum vegna lyktar, sem ætla megi að í flestum tilfellum eigi upptök sín á urðunarstaðnum. Er og rakið í umsókninni að skipulega hafi verið unnið að eyðingu lyktar í Álfsnesi, viðhorfskannanir bendi til að þær ráðstafanir hafi gert gagn þótt lyktarmengun sé ekki úr sögunni, lyktarvarnir muni verða bættar frekar og að vandamálið eigi að geta verið úr sögunni þegar hætt verði að urða lífrænan gasmyndandi úrgang. Í samræmi við gr. 8.2. í reglugerð nr. 785/1999 leitaði Umhverfisstofnun umsagna ýmissa aðila við gerð starfsleyfistillögu og breytingar voru gerðar á starfsleyfisdrögunum í samræmi við ábendingar sem bárust. Í greinargerð um umsagnirnar eru rakin svör stofnunarinnar við þeim og kemur þar m.a. fram að tillagan sé í samræmi við reglugerð nr. 738/2003 og að samkvæmt henni sé urðunarstaðurinn í fullnægjandi fjarlægð frá dvalarstöðum fólks, auk þess sem stofnunin hafi gengið lengra en mælt sé fyrir um í reglugerðinni og sett sértæk ákvæði um varnir gegn lyktarmengun, sbr. gr. 3.2. í tillögunni, en það sé almennt ekki gert í starfsleyfum urðunarstaða á Íslandi. Umrædd grein hefur að geyma greinargóð ákvæði um mótvægisaðgerðir vegna lyktarmengunar, auk þess sem sú skylda er lögð á rekstraraðila að útbúa tímasetta áætlun um frekari ráðstafanir til að draga úr lyktarmengun. Verður því ekki annað séð en að með skilyrðum í starfsleyfinu hafi fullnægjandi tillit verið tekið til athugasemda varðandi lyktarmengun.

Svo sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 auglýsti Umhverfisstofnun tillögu sína að starfsleyfi og gaf lögboðinn frest til að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir íbúasamtaka Leirvogstungu, sem kærendur hafa gert að sínum, bárust innan frestsins, en Umhverfisstofnun svaraði þeim ekki sérstaklega fyrr en eftir útgáfu leyfisins. Lög áskilja hins vegar ekki að afstaða sé tekin til athugasemda öðru vísi en með útgáfu starfsleyfis. Með hliðsjón af því að um lyktarmengun var fjallað í leyfinu, auk þess sem Umhverfisstofnun hafði þegar svarað athugasemdum íbúasamtakanna svipaðs efnis fyrr í málsmeðferðinni við undirbúning ákvörðunartöku sinnar, verður ekki talið að skortur á svörum við athugasemdum íbúasamtakanna hafi valdið þeim réttarspjöllum þannig að leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999, sbr. breytingareglugerð nr. 177/2014, kemur fram að starfsemi leyfishafa skuli samrýmast aðalskipulagi varðandi landnotkun og byggðaþróun og vera í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Skal útgefandi starfsleyfis leita umsagnar skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti. Á meðal gagna málsins eru bréfleg samskipti Umhverfisstofnunar við Reykjavíkurborg vegna ákvæða í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 þar sem vísað er til eigendasamkomulags, dags. 25. október 2013, á milli sveitarfélaga þeirra er eiga Sorpu bs. Í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs vegna fyrirspurnar Umhverfisstofnunar, sem samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. mars 2014, kemur fram það álit að viðkomandi ákvæði eigi ekki að stangast á við útgáfu starfleyfis fyrir urðunarsvæðið í Álfsnesi. Var það og niðurstaða Umhverfisstofnunar. Í uppfærðri greinargerð hennar um athugasemdir er bárust stofnuninni við auglýsta starfsleyfistillögu, dags. 1. október 2014, kemur og fram vegna athugasemda um tímalengd starfsleyfis að stofnuninni hafi verið kunnugt um framangreint eigendasamkomulag og efni þess. Eftir ítarlega umfjöllun um málið hafi niðurstaðan orðið sú að samkomulag, eins og hér um ræði, heyrði ekki til þeirra málsgagna sem stofnuninni bæri að taka tillit til við ákvörðun á gildistíma starfsleyfis, samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem um útgáfu starfsleyfis giltu. Stofnuninni bæri hinsvegar að taka tillit til þeirra landnotkunarheimilda sem skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis kvæðu á um og samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri starfsemi Sorpu bs. á svæði sem skilgreint væri sem iðnaðarsvæði (I5) til ársins 2030. Í umfjöllun um svæðið í greinargerð aðalskipulagsins væri vísað til eigendasamkomulags Sorpu bs., en ekki sett skýr tímamörk fyrir urðun á svæðinu.

Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010-2030 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2014. Í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) er Álfsnes skilgreint sem iðnaðarsvæði (I), nánar tiltekið I5 Álfsnes – Sorpa. Þar segir: „Núverandi sorpförgunarsvæði er á Álfsnesi. Tímamörk urðunar á svæðinu miðast við eigendasamkomulag sveitarfélaganna og viðauka þess, dagsett 25. október 2013 (sjá fylgiskjal C8). Unnið verði í samræmi við markmið laga um meðhöndlun úrgangs og markvisst dregið úr urðun úrgangs. Til að ná þeim markmiðum er gert ráð fyrir byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í grennd við núverandi urðunarstað, sbr. ofangreint samkomulag og viðauka þess.“ Í kaflanum Kjalarnes – borgarhluti 10 er samhljóða málsgrein um Sorpu, Álfsnesi og jafnframt segir um gas- og jarðgerðarstöð: „Starfsemi hennar í Álfsnesi getur haldið áfram þó hætt verði frekari urðun í Álfsnesi.“ Í nefndu eigendasamkomulagi sem vísað er til og fylgdi aðalskipulaginu kemur fram að „hætt verði að urða í Álfsnesi innan 4-5 ára frá undirritun samkomulags þessa“ og er samkomulagið undirritað 25. október 2013. Verður að telja að með þessu hafi í skipulagi verið tekin ákvörðun um að byggðaþróun eftir 24. október 2018 verði með þeim hætti að ekki verði urðað á svæðinu, enda er byggðarþróun m.a. skilgreind sem framvinda atvinnulífs skv. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Var Umhverfisstofnun bundin af þessari stefnu við útgáfu hins kærða starfsleyfis, sbr. tilvitnað ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 785/1999, og verður því ekki hjá því komist að fella það úr gildi. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða starfsleyfi þó eingöngu fellt úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar urðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. ágúst 2014 um að veita starfsleyfi fyrir starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi, að því er varðar urðun.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

88/2015 Fjarðargata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 12. ágúst 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 á fyrstu hæð hússins að Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2015, er barst nefndinni 12. s.m., kærir húsfélagið Fjarðargötu 19 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. ágúst 2015 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 18. nóvember 2015.

Málavextir: Í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19 eru 26 eignarhlutar. Á jarðhæð eru verslunar- og þjónusturými en á efri hæðum íbúðir. Sá eignarhluti sem hér um ræðir er merktur 0102 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en honum hefur verið skipt upp í þrjú rými, þ.e. 0104, 0106 og 0107.

Hinn 12. ágúst 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107. Í breytingunni fólst að skrifstofurými yrði breytt í veitingastað. Við afgreiðslu málsins hjá byggingarfulltrúa lá fyrir jákvæð umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 4. september s.á. Mótmælti kærandi ákvörðuninni með bréfi, dags. 28. s.m., og krafðist þess að byggingaryfirvöld stöðvuðu framkvæmdir þar sem meðferð málsins hefði verið ólögmæt, enda hefði samþykki kæranda ekki legið fyrir. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 30. s.m. og bókað að það væri lagt fram. Var kæranda tilkynnt um bókun byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 2. október s.á.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. október 2015 var erindi kæranda lagt fram og bókað að skipulags- og byggingarráð vísaði til samþykktar afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa 12. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á sínum tíma hafi hann veitt samþykki fyrir uppskiptingu eignarhluta 0102 í þrjú rými gegn ákveðnum skilyrðum er vörðuðu rekstraraðila, affall og sorpmál. Jafnframt hafi kærandi samþykkt að heimilað yrði að innrétta einn hluta fyrir sölustað veitingakeðjunnar Subway en enga aðra starfsemi. Við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar hjá byggingarfulltrúa hafi ekki legið fyrir samþykki kæranda til að breyta hagnýtingu eignarhlutans úr skrifstofurými í veitingastað. Hafi verið gerðar athugasemdir við hina umdeildu breytingu en byggingaryfirvöld hafi ekki tekið tillit til þeirra.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í húsinu við Fjarðargötu 19 hafi alla tíð verið gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi á götuhæð hússins. Húsið sé jafnframt staðsett á skilgreindu miðsvæði í aðalskipulagi, þar sem fyrst og fremst sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæranda hafi borist tilkynning um samþykki hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi frá byggingarfulltrúa, dags. 4. september 2015. Hafi kæran borist úrskurðarnefndinni 12. október s.á. og sé hún því of seint fram komin.

Þá hafi kærandi ekki tilgreint með hvaða hætti sé verið að raska hagsmunum hans með hinni kærðu ákvörðun. Heimilt sé að breyta hagnýtingu séreignar án samþykkis annarra eigenda hafi hún ekki í för með sér verulega meiri röskun en fyrir var, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Loks sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónusturými á fyrstu hæð hússins, auk þess sem svæðið sé skilgreint í aðalskipulagi sem miðsvæði. Sú starfsemi sem gert sé ráð fyrir með hinni kærðu ákvörðun sé í samræmi við skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar breytta hagnýtingu rýmis í eignarhluta á jarðhæð í fjöleignarhúsinu við Fjarðargötu 19.

Líkt og rakið er í málavöxtum var kæranda tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa og honum leiðbeint um kæruleiðir. Kærandi mótmælti í kjölfarið umræddri afgreiðslu og komu mótmælin fram innan kærufrests. Taldi hann um ólögmæta ákvörðun að ræða þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki húsfundar. Á þeim forsendum krafðist kærandi þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Að teknu tilliti til þess að kærandi er húsfélag húss þess sem byggingarleyfið lýtur að, sem og til efnis athugasemda hans, verður að líta svo á að í greindum mótmælum hafi falist beiðni um að málið yrði tekið til meðferðar á ný, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar fyrir liggur beiðni um endurupptöku máls skal það stjórnvald sem tekið hefur hina upprunalegu ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns taka afstöðu til þess hvort efni séu til endurupptöku hennar. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til endurupptökubeiðni kæranda heldur gefur bókun á afgreiðslufundi hans þvert á móti til kynna að erindið hafi verið lagt fram án þess að það hafi hlotið þar afgreiðslu í kjölfarið. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar verður mál ekki endurskoðað samtímis af kærustjórnvaldi og því stjórnvaldi sem ákvörðunina tók. Með hliðsjón af því að fyrir byggingarfulltrúa liggur óafgreidd beiðni um endurupptöku verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests og byrjar hann ekki að líða að nýju nema endurupptöku verði synjað. Verði mál hins vegar tekið upp að nýju byrjar kærufrestur að líða frá töku nýrrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson