Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2017 Vegamótastígur

Árið 2017, þriðjudaginn 31. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 99/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli við Vegamótastíg 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Laugaverk ehf., eigandi Laugavegs 18b, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu á lóðinni Vegamótastíg 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn vegna málsins lágu fyrir í kærumáli nr. 70/2017 er varðaði sömu stjórnvaldsákvörðun.

Málsatvik og rök: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 6. september 2017 í kærumáli nr. 70/2017, var framangreint byggingarleyfi fellt úr gildi.

Kærandi bendir á að á lóðinni Vegamótastíg 7 hvíli þinglýst kvöð þar sem gert sé ráð fyrir að byggingarreitur lóðarinnar sé takmarkaður um reit að stærð 3 m x 6,41 m frá 1. hæð upp að 5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b í norðaustur horni lóðarinnar. Kvöðin hafi átt að tryggja að hægt væri að koma fyrir brunastiga upp á 5. hæð á bakhlið Laugavegs 18b með óhefta flóttaleið út á Vegamótastíg. Samkvæmt samþykktum teikningum hafi kvöðin verið virt að vettugi.

Í ljósi afdrifa kærumáls nr. 70/2017, sem varðaði sömu stjórnvaldsákvörðun, var Reykjavíkurborg ekki gefinn kostur á að tjá sig um kæruna.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi með úrskurði í kærumáli nr. 70/2017 og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir