Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

127/2017 Sindragata Ísafjörður

Árið 2017, mánudaginn 6. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 127/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 21. september 2017 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Sindragötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2017, er barst nefndinni 26 s.m., kæra eigendur Aðalstrætis 8, Ísafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Sindragötu 4, Ísafirði. Verður að skilja kröfu kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Ísafirði 31. október 2017.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 9. nóvember 2016 var tekin fyrir ósk um breytingar á deiliskipulagi vegna Sindragötu 4, Ísafirði. Bókað var að tillaga um að breyta deiliskipulagi fyrir lóðina hefði verið samþykkt 23. nóvember 2006, en deiliskipulagið hefði reynst ógilt vegna formgalla. Í breytingunni hefði falist að lóðinni yrði skipt í tvær lóðir, Sindragötu 4 og 4a. Væri óskað eftir því við nefndina að hún tæki málið upp að nýju og tæki afstöðu til slíkra deiliskipulagsbreytinga. Væntanlegar breytingar snéru að aukalóð sem bætt yrði við og yrði Sindragata 4a, hæð húsa yrði fjórar í stað þriggja og hálfra og yrði nýtingarstuðull lóða mögulega hækkaður væri þess þörf, m.t.t. 2000 fermetra byggingarmagns. Afgreiðslu málsins var frestað og skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 23. nóvember 2016 var lagt til að bæjarstjórn myndi heimila meðferð málsins skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var það og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 1. desember s.á. Drög að deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 voru lögð fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd 24. febrúar 2017 og var lagt til á fundi nefndarinnar 7. júní s.á. að bæjarstjórn myndi heimila auglýsingu deiliskipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var það samþykkt á fundi bæjarstjórnar 15. s.m. og tillagan auglýst með fresti til athugasemda frá 29. s.m. til 10. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var þeim svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 6. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar 21. september 2017 var tillaga að deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 samþykkt.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi gert athugasemdir við tillögu að hinu kærða deiliskipulagi. Um sé að ræða þegar byggt hverfi og gefi nýtt aðalskipulag ástæðu til vandaðra vinnubragða og nýrra sjónarmiða. Vísað sé til aðalskipulagsins m.a. um það að mikilvægt sé að breytingar á eldri byggð falli vel að umhverfi sínu og heildarmynd byggðarinnar. Erfitt hafi verið að nálgast upplýsingar um tillöguna og framsetningu gagna hafi verið áfátt. Þá hafi rökstuðning fyrir bílastæðafjölda verið áfátt og geri kærendur þá kröfu að áfram verði tryggð aðkoma að bílskúr þeirra.
 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið birt, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við að svo verði gert. Sveitarstjórn eigi eftir að taka athugasemdir stofnunarinnar til umræðu og afgreiðslu. Sé kæra í máli þessu því ekki tímabær.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti samþykkis bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 21. september 2017 á deiliskipulagstillögu vegna Sindragötu 4, Ísafirði. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru skilyrði fyrir því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar ekki uppfyllt. Verður af þeim sökum að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir