Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2017 og 89/2017 Efri-Vík Skaftárhreppur

Árið 2017, fimmtudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí s.á., sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst s.á., um að samþykkja deiliskipulag fyrir Efri-Vík í Landbroti vegna íbúðar- og frístundabyggðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu starfsmannahúsa á lóðinni Selhólavegi 1, nú Sólvöllum 1, úr landi Efri-Víkur. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir á grundvelli byggingarleyfisins verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Verður seinna kærumálið, sem er nr. 89/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 23. ágúst, 7. september, 23. október og 9. nóvember 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð sem var skipulögð með deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að gerð nýs deiliskipulags og að samhliða breytingu á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022.

Lýsing á aðalskipulagsbreytingunni var samþykkt til auglýsingar í júnímánuði 2016 og var aðalskipulagstillaga síðar auglýst með athugasemdafresti frá 16. febrúar til 3. apríl 2017.  Samkvæmt tillögunni skyldi landnotkun í landi Efri-Víkur breytt til að heimila nýtt íbúðarsvæði, opið svæði til sérstakra nota var fellt út og afmörkun frístundasvæðis breytt. Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti aðalskipulagsbreytinguna 5. apríl 2017. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 15. júní s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 30. s.m.

Á fundi skipulagsnefndar 18. október 2016 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu vegna Efri-Víkur samhliða greindri aðalskipulagsbreytingu. Staðfesting sveitarstjórnar lá fyrir 10. nóvember s.á. og var deiliskipulagstillagan auglýst samhliða framangreindri tillögu að breyttu aðalskipulagi, þ.e. með athugasemdafresti frá 16. febrúar 2017 til 3. apríl s.á. Voru báðar tillögurnar kynntar á opnum fundi 2. mars s.á.

Gert var ráð fyrir því í deiliskipulagstillögunni að hluta skipulagðrar frístundabyggðar í landi Efri-Víkur yrði breytt í íbúðarsvæði. Að auki myndi deiliskipulagssvæðið stækka nokkuð frá eldra deiliskipulagi og bætast við íbúðarsvæði á nokkrum lóðum, m.a. þar sem áður hefði verið skilgreint opið svæði til sérstakra nota. Eftir sem áður tæki deiliskipulagssvæðið til svæðis vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204 eða svonefnds Meðallandsvegar, en einnig bættist við svæðið íbúðarlóð suðaustan vegarins þar sem ráðgert væri að reisa þrjú raðhús, samtals 600 m2, með allt að 4 m mænishæð.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017 var deiliskipulag fyrir Efri-Vík lagt fram til samþykktar. Var bókað að engar athugasemdir hefðu borist vegna þess á auglýsingatíma en gerð hefði verið ein breyting eftir auglýsingu. Var bókað að mælst væri til þess að skipulagið tæki gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Á sama fundi voru lagðar fram til afgreiðslu tvær umsóknir um byggingarleyfi á deiliskipulagssvæðinu, annars vegar vegna íbúðarhúss og hins vegar vegna starfsmannaíbúða. Hinn 5. sama mánaðar fundaði sveitarstjórn Skaftárhrepps og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar. Afgreiðslur byggingarleyfisumsóknanna voru báðar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæra á afgreiðslu vegna starfsmannaíbúða var síðar dregin til baka í kjölfar afturköllunar sveitarfélagsins og með úrskurði kveðnum upp 7. nóvember 2017 vísaði úrskurðarnefndin hinu kærumálinu frá, en það var nr. 73/2017.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 20. júní 2017, en þá hafði borist umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem gerðar voru athugasemdir við fráveitu. Auk þess höfðu athugasemdir borist að liðnum fresti frá landeigendum Syðri-Víkur með bréfi, dags. 2. júní 2017. Bókað var um helstu athugasemdir landeigenda og þeim svarað af skipulagsnefnd. Einnig var bókað að nefndin hafnaði því að hætt yrði við deiliskipulag svæðisins, enda væri það í samræmi við aðalskipulagsbreytingu sem hefði fengið staðfestingu Skipulagsstofnunar. Mælst væri til þess að deiliskipulagstillagan tæki gildi með auglýsingu þar um í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Á fundi sínum 21. júní s.á. tók sveitarstjórn fyrir og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar.

Skipulagið var enn tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 11. júlí s.á., en þá hafði Skipulagsstofnun sent umsögn sína og gert athugasemdir í allnokkrum liðum. Bókað var að brugðist hefði verið við athugasemdunum og að nefndin teldi viðkomandi breytingar ekki verulegar. Væri því mælst til þess að skipulagið tæki gildi í samræmi við 42. gr. skipulagslaga eftir aðra yfirferð Skipulagstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 13. s.m. Skipulagsstofnun kunngerði með bréfi, dags. 28. júlí s.á., að ekki væru gerðir fyrirvarar við skipulagið eftir þær lagfæringar sem hefðu verið gerðar. Samþykkt deiliskipulagsins var loks auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með vísan til nýsamþykkts deiliskipulags samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skaftárhrepps byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða á lóðinni Sólvöllum 1 í landi Efri-Víkur og var umsækjendum tilkynnt um það með bréfi, dags. 14. ágúst 2017. Var sú samþykkt einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að vinnubrögð skipulagsyfirvalda í tengslum við uppbyggingaráform í landi Efri-Víkur hafi verið óvönduð og einkennst af fljótfærni.

Lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sé að auki vísað til þeirra markmiða nefndra laga að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda þar um, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Eign kærenda liggi að mörkum hins kærða deiliskipulagssvæðis, en sérstaklega sé mælt fyrir um það í 3. mgr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hafa skuli samráð við eiganda lands sem liggi að svæði sem deilisskipulagstillaga tekur til. Þótt kærendum hafi síðar verið gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum þá komi það ekki í stað samráðs, sem skuli eiga sér stað þegar skipulagsferlið sé enn opið og raunhæf tækifæri enn til staðar til að hafa áhrif á framvindu skipulagsgerðar. Þá hafi athugasemdum kærenda ekki verið svarað á fullnægjandi hátt og þær að mestu verið virtar að vettugi.

Uppbygging samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi muni hafa umtalsverð grenndaráhrif í för með sér fyrir kærendur, sem fari út fyrir það sem þeir þurfi að sæta samkvæmt nábýlisrétti. Sjón- og hljóðmengun sé fyrirsjáanleg sem muni hafa neikvæð áhrif á not kærenda af jörð sinni. Jörð kærenda sé landbúnaðarjörð sem sé m.a. nýtt til beitar. Aukin umferð sé óæskileg þar sem búfé sé á beit. Fyrirhuguð uppbygging að Sólvöllum 1 muni skerða verulega útsýni kærenda til fjalla af heimili sínu. Uppbygging þar sé fyrirhuguð nálægt íbúðarhúsi kærenda og muni sveitafriðsæld sem þeim sé ómetanleg hverfa. Loks hafi ranglega verið staðið að breytingu á skipulagstillögunni í skipulagsferlinu.

Hvað hið kærða byggingarleyfi frá 14. ágúst 2017 varði sé á því byggt að það grundvallist á ólögmætu deiliskipulagi þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2.-6. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þannig verði ekki séð að fyrir hafi legið aðal- og séruppdrættir sem áritaðir hafi verið af leyfisveitanda, að tilskilin gjöld hafi verið greidd, að yfirlýsingar byggingarstjóra og iðnmeistara hafi verið afhentar leyfisveitanda eða að skráð hafi verið í gagnakerfi Mannvirkjastofnunar að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga. Þá liggi ekki fyrir neitt yfirlit um innra eftirlit vegna hönnunarinnar og um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða. Feli framangreint í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og ólögfesta rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Loks hafi hið kærða byggingarleyfi ekki verið tekið fyrir af skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps, líkt og áskilið sé í erindisbréfi nefndarinnar. Samþykkt þess og útgáfa sé af þessum sökum ólögmæt.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að ákvarðanataka vegna deiliskipulags íbúðar- og frístundabyggðar í landi Efri-Víkur hafi í hvívetna farið að reglum stjórnsýsluréttarins og skipulagslögum. Skipulagstillögurnar hafi verið kynntar og auglýstar, umfram það sem lögbundið sé, og hafi athugasemdum kærenda verið svarað efnislega þótt þær hafi borist utan athugasemdafrests. Aukning umferðar um svæðið verði hverfandi og muni undir engum kringumstæðum skerða not kærenda af jörð sinni til landbúnaðar.

Umhverfisáhrif verði lítil umfram þau áhrif sem þegar séu af frístundabyggð á svæðinu. Nýjar lóðir séu á gömlum aflögðum túnum og á fyrrum golfvelli. Engar líkur séu á mengun neysluvatns og eftir vettvangsskoðun hafi þótt sýnt að útsýni kærenda skerðist óverulega vegna þeirra bygginga sem heimilaðar séu í skipulaginu. Umferð og grenndaráhrif verði óveruleg umfram það sem fylgi núverandi hótelrekstri og frístundabyggð að Efri-Vík. Telja verði málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar lögmæta, bæði hvað varði efni og form.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins, eins og því hafi þá verið breytt. Byggingarleyfið hafi ekki verið tekið sérstaklega til afgreiðslu af skipulagsnefnd og sveitarstjórn þar sem það hafi byggst á skipulagi sem þegar hefði verið afgreitt af sömu stjórnsýslueiningum. Leyfið hafi verið samþykkt með afgreiðslubréfi og hafi fullnægjandi gögn borist til samræmis við kröfur sem gerðar hafi verið í nefndu bréfi. Engin óvissa ríki um lögmæti skipulagsferlisins sem réttlætt geti stöðvun framkvæmda. Óvissa ríki hins vegar um það hvaða hagsmuni kærendur telji sig vera að vernda. Sé rökstuðningi áfátt um það atriði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að starfsmannaíbúðir séu í þágu reksturs hans. Fyrirtækið hafi 45 manns í vinnu og sé með þeim stærri í Skaftárhreppi. Mikil nauðsyn væri á að koma upp íbúðum fyrir starfsmenn. Erfitt hafi reynst að fá úthlutað lóðum á Kirkjubæjarklaustri og hafi orðið úr að skipuleggja nokkrar lóðir í landi Efri-Víkur til slíkrar uppbyggingar. Allir hefðu haft tækifæri til að gera athugasemdir við skipulagið innan auglýsts frests. Þá hafi leyfishafi gert sér ferð til kærenda í tvígang vegna þessa, fyrst sumarið 2016 og síðan í mars 2017. Hann hefði lítil viðbrögð fengið. Því sé hafnað að starfsmannahúsin valdi sjónmengun eða hávaða, enda um að ræða lágreist hús fyrir starfsmenn, sem ferðist til vinnustaðar fótgangandi eða á örfáum smábílum. Þá sé íbúðarhús kærenda í um 400 m fjarlægð frá starfsmannaíbúðunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur í Skaftárhreppi, sem og um lögmæti byggingarleyfis vegna starfsmannaíbúða, samþykktu með stoð í því skipulagi.

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis þar sem áður var deiliskipulögð frístundabyggð, Álfabyggð, og opið svæði til sérstakra nota, hvort tveggja vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204. Þá tekur deiliskipulagssvæðið til einnar íbúðarlóðar suðaustan vegarins, þar sem áður var skilgreint landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022, en eldra deiliskipulag Álfabyggðar tók ekki til þeirrar lóðar.

Í auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að eldra deiliskipulag innan svæðisins falli úr gildi með gildistöku hins nýja deiliskipulags. Í gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að við heildarendurskoðun deiliskipulags, sem fellir eldri áætlanir úr gildi, skuli framsetning og málsmeðferð vera sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Hið kærða deiliskipulag tók til stærra svæðis en eldra skipulag og fól í sér töluverðar efnislegar breytingar. Bar því að fara að fyrirmælum 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um gerð deiliskipulagsins, kynningu og samráð, 41. gr. um auglýsingu og samþykkt þess, og 42. gr. um afgreiðslu þess.

Sveitarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga til að víkja frá þeirri skyldu að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð er tekið fram að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslu og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Jafnframt nýtti sveitarstjórn sér heimild 2. mgr. 41. gr. laganna til að auglýsa og samþykkja breytingar á aðalskipulagi samhliða deiliskipulaginu. Í aðalskipulagsbreytingu þeirri sem gildi tók 30. júní 2017 fólust breytingar á greinargerð og sveitarfélagsuppdrætti gildandi aðalskipulags Skaftárhrepps. Eftir breytingarnar sýnir sveitarfélagsuppdráttur breytta landnotkun á skipulagssvæðinu, þannig að í stað tilgreiningarinnar Ú1, opið svæði til sérstakra nota, og F5, frístundabyggð, er nú að finna á uppdrætti tilgreininguna F5 með annarri afmörkun og ÍB1, íbúðarbyggð. Sést af uppdrættinum að íbúðarbyggðin er beggja vegna frístundabyggðarinnar og teygir hún sig yfir Landbrotsveg í átt að eign kærenda. Hluti íbúðarbyggðarinnar verður á svæði sem auðkennt var sem landbúnaðarsvæði á eldri aðalskipulagsuppdrætti. Þá var greinargerð aðalskipulagsins breytt þannig að við bættust skilmálar í kafla 2.1., Landbúnaðarsvæði neðan 200 m y.s., sem lutu að heimildum til að byggja frístundahús og íbúðarhús sem ekki tengjast búrekstri á landbúnaðarsvæðum bújarða. Einnig var breytt kafla 2.4., svæði fyrir frístundabyggð, og felldur út kafli 2.3., opin svæði til sérstakra nota. Loks var bætt við nýjum kafla 2.18,  íbúðarsvæði, þar sem gert var ráð fyrir nýju íbúðarsvæði í Efri-Vík, ÍB1, og breytt kafla 2.12, skilgreining vatnsgæða og flokkun vatns. Verður af framangreindu ráðið að meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi, svo sem því var breytt, og þar með að heimilt hafi verið að víkja frá þeirri lagaskyldu að gera deiliskipulagslýsingu.

Svo sem áður er vikið að var ekki gerð lýsing vegna hins kærða deiliskipulags. Var deiliskipulagstillagan auglýst og kostur gefinn á að koma á framfæri athugasemdum. Af auglýsingu verður ekki ráðið að sumar þeirra íbúðarlóða sem þar var ráðgert að skipuleggja yrðu staðsettar á áður ódeiliskipulögðu svæði, sem hafði verið til landbúnaðarnota, líkt og sú lóð sem skipulögð er handan Landbrotsvegar, næst bæjarstæði kærenda. Verður þetta ekki heldur ráðið með neinni nákvæmni af auglýsingu um tillögu að aðalskipulagsbreytingu, sem birt var á sama tíma, þótt þar kæmi fram að hluti landbúnaðarsvæðis færi undir íbúðarbyggð. Lýsingu vegna aðalskipulagsbreytingarinnar fylgdi ekki uppdráttur sem sýndi nýja íbúðarbyggð handan Landbrotsvegar, næst landamerkjunum við jörð kærenda, og mátti ekki ráða sérstaklega af lýsingunni að slík byggð væri fyrirhuguð.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sem og að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c- og d-lið 1. gr. laganna. Sér þess stað í lögunum að á öllum skipulagsstigum er lögð áhersla á samráð við almenning og hagsmunaaðila. Í gr. 5.2. í skipulagsreglugerð er nánar fjallað um kynningu og samráð við gerð deiliskipulags og um samráð og samráðsaðila er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og í 3. mgr. er m.a. tekið sérstaklega fram að ef tillaga að deiliskipulagi eða tillaga að breytingu á því tekur til svæðis sem liggur að landamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Fyrir liggur að umrætt deiliskipulagssvæði liggur að landi kærenda og því hefði borið að kynna þeim fyrirhugaða deiliskipulagbreytingu áður en endanleg tillaga var samþykkt af sveitarstjórn til auglýsingar. Það var ekki gert og er þar um annmarka á málsmeðferðinni að ræða.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem urðu í nærumhverfi kærenda, við landamörk þeirra, má fallast á með kærendum að slíkt samráð hefði best þjónað markmiðum ákvæða skipulagslaga. Það verður þó ekki fram hjá því litið að allt að einu komu kærendur að athugasemdum sínum í málinu, þótt utan auglýsts athugasemdafrests væri. Skipulagið var tekið upp að nýju eftir samþykkt þess og athugasemdirnar teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar og fundi sveitarstjórnar. Athugasemdunum var þá svarað efnislega og tekið tillit til þeirra, að því marki að vegtenging var felld út innan lands þeirra. Auk þess var tekið til sérstakrar athugunar hvort sjónræn áhrif af byggingum næst bæjarstæði kæranda yrðu ótilhlýðileg. Að því búnu var hið kærða deiliskipulag samþykkt að nýju. Verður að öllu því virtu ekki talið að nefndur annmarki hafi verið svo verulegur að varði ógildingu deiliskipulagsákvörðunarinnar. Í þessu samhengi skal á það bent að það felst ekki í skyldu sveitarfélags til samráðs að fallist verði á allar þær athugasemdir sem í því samráðsferli kunni að koma fram, en sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag, sem eftir atvikum geta haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum að viðlagðri bótaskyldu.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var að öðru leyti í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags og teljast þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu, að teknu tilliti til athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Skipulagsstofnunar, ekki hafa breytt áður auglýstri tillögu í grundvallaratriðum, í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar. Rétt er þó að benda á að telji kærendur sig verða fyrir grenndaráhrifum af skipulagsákvörðuninni sem verði þeim til tjóns geta þeir leitað til sveitarfélagsins eftir bótum með vísan til 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi tekur til byggingar starfsmannahúsa á lóð þeirri er liggur að jörð kærenda. Felur það í sér leyfi til að reisa þrjú raðhús með fimm smáíbúðum hvert og er það í samræmi við skilmála deiliskipulags þess efnis að á lóðinni megi byggja að hámarki þrjú raðhús með mænisþaki, samanlagt að hámarki 600 m², eða hvert um sig ekki stærra en 200 m², og hámarkshæð í mæni 4 m. Hefur úrskurðarnefndin og gengið úr skugga um að þau gögn sem nauðsynleg voru fyrir útgáfu byggingarleyfis skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi legið fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga veitir byggingarfulltrúi sveitarfélags byggingarleyfi, eftir atvikum að undangenginni umfjöllun byggingarnefndar sveitarfélags, samkvæmt sérstakri samþykkt. Sé slík samþykkt til staðar í samræmi við 7. gr. mannvirkjalaga er heimilt að gera að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga. Skaftárhreppur hefur ekki sett sér slíka samþykkt en í erindisbréfi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps kemur fram að innan verksviðs nefndarinnar sé „að fjalla um umsóknir um leyfi til bygginga og annara verklegra framkvæmda.“ Skipulagsnefnd Skaftárhrepps hafði fjallað um umsókn um byggingarleyfi á umræddri lóð hinn 4. apríl 2017. Afgreiðsla á þeirri umsókn var síðar afturkölluð. Við samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa á hinu kærða byggingarleyfi vegna lóðarinnar var vísað sérstaklega til þess að fyrri afgreiðsla hefði verið felld úr gildi. Má af því ráða að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingarleyfi er varðaði sömu byggingar á sömu lóð er áður hafði verið fjallað um í skipulagsnefnd. Var hann og til þess bær, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga.

Að þessu virtu eru ekki heldur efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um samþykkt deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. ágúst 2017 um samþykkt byggingarleyfis fyrir starfsmannahúsum á lóðinni Sólvöllum 1 úr landi Efri-Víkur.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson