Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2017 Efri Vík – Skaftárhreppur

Árið 2017, þriðjudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2017, kæra á afgreiðslu byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Selhólavegi 2, landnúmer 224927.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2017, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 5. apríl 2017 að staðfesta afgreiðslu skipulagsnefndar frá 4. s.m. um að gera ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Selhólavegi 2, landnúmer 224927.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar verði stöðvaðar á meðan málin eru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 11. júlí 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur, sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð samkvæmt deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að endurskoðun þess deiliskipulags og að samhliða breytingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps. Nýtt deiliskipulag tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017. Hafa kærendur kært þá deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er það kærumál nr. 86/2017. Á meðan á greindum skipulagsbreytingum stóð var sótt um byggingarleyfi vegna byggingaráforma á skipulagssvæðinu.

Byggingarleyfisumsóknir voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017. Þar var annars vegar afgreidd umsókn um byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða. Sú afgreiðsla var kærð af öðrum kæranda þess máls sem hér er til úrlausnar og hlaut það kærumál númerið 57/2017. Í kjölfar afturköllunar á þeirri afgreiðslu var sú kæra dregin til baka. Hins vegar var afgreidd umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð að Selhólavegi 2, landnúmer 224927, sem stofnuð hafði verið úr landi Efri-Víkur. Tekið var fram að um væri að ræða 148 m² einbýlishús, fjögurra herbergja með einhalla þaki. Var bókað að deiliskipulag hefði ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, en að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis á grundvelli deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 5. apríl 2017 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var umsækjanda sent bréf verkefnastjóra skipulags- og byggingarmála þar um, dags. 18. s.m. Í bréfinu var tekið fram að byggingaráform teldust samþykkt, að tiltekin gögn þyrfti að afhenda byggingarfulltrúa fyrir útgáfu byggingarleyfis og að það teldist veitt þegar þau hefðu borist og tilgreind gjöld verið greidd. Hefur framangreind afgreiðsla verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að jörð þeirra Syðri-Vík sé aðliggjandi jörð Efri-Víkur þar sem í mörg ár hafi verið rekin ferðaþjónusta. Byggi þeir kröfu sína fyrst og fremst á því að hið kærða byggingarleyfi eigi sér ekki stoð í gildandi skipulagsáætlunum. Nýtt deiliskipulag íbúða- og frístundabyggðar í Efri-Vík hafi ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. áskilnað þar um í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leyfið samræmist ekki gildandi deiliskipulagi en það sé skilyrði fyrir samþykkt og útgáfu byggingarleyfis, sbr. fyrirmæli 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að byggingarleyfið sé í samræmi við breytt aðalskipulag svæðisins þar sem gert sé ráð fyrir íbúðasvæði á viðkomandi lóð. Lóðin standi utan gildandi deiliskipulags svæðisins er taki til frístundabyggðar. Sé vísað til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki talin ástæða til að fella úr gildi samþykkt byggingarleyfis sem sé í samræmi við aðalskipulag.

Kærendur hafi lítilla eða engra hagsmuna að gæta þegar komi að viðkomandi lóð. Hún liggi ekki að landamerkjum Syðri-Víkur og húsbygging þar geti hvorki haft áhrif á útsýni né skuggavarp, enda sé lóðin í tæplega kílómeters fjarlægð frá bæjarstæði Syðri-Víkur.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við nýlega samþykkt aðal- og deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir sjónarmiðum kærenda hvað varðaði lögvarða hagsmuni þeirra og barst bréf þeirra nefndinni 24. ágúst 2017. Taka kærendur þar fram að ekki hafi verið rétt staðið að deiliskipulagsgerð þeirri sem hið kærða byggingarleyfi grundvallist á. Ekki sé eðlilegt að hægt sé að byggja hús án þess að þau séu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Kærendur séu mótfallnir þéttbýliskjarna sem gert sé ráð fyrir samkvæmt nýju deiliskipulagi. Ómetanleg sveitafriðsældin muni hverfa og þar með ánægja kærenda af því að vera í sveitinni. Íbúðarbyggðinni muni fylgja hljóðmengun og sjónmengun auk þess sem útsýni til fjalla muni hverfa. Hafi kærendur verulegra hagsmuni að gæta af því að ekki verið byggt áður en niðurstaða fáist í öðrum kærumálum er þeir reki fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur byggja þannig fyrst og fremst á því að rangt hafi verið staðið að gerð deiliskipulags, sem heimili uppbyggingu sem þeim hugnist ekki. Hafa kærendur lagt fram kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna þessa og koma nefnd atriði eftir atvikum til skoðunar í því kærumáli, sem er nr. 86/2017. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki til þess að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í kærumáli því sem hér er til umfjöllunar, eða um öll þau leyfi sem kunna að vera gefin út á grundvelli nefnds deiliskipulags.

Lóðin Selhólavegur 2 liggur ekki að landi kærenda, auk þess sem þjóðvegur liggur á milli hennar og bæjarstæðis þeirra, sem er í um 700 m fjarlægð frá lóðarmörkunum. Eiga kærendur því ekki verulegra grenndarhagsmuna að gæta, s.s. vegna skuggavarps eða útsýnisskerðingar. Fyrirhugað er að reisa á nefndri lóð eitt íbúðarhús en á svæðinu er fyrir skipulögð frístundabyggð og aðstaða hestamanna. Að teknu tilliti til greindra atvika og staðhátta verður ekki séð að um nein þau áhrif verði að ræða á umhverfi kærenda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar, að það skapi þeim einstaklega, lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kæru þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson